Heiðhvolf og veðrahvolf í takti

Hungurdiskar hafa nú að undanförnu beint sjónum að heiðhvolfinu og atburðum þar. Aðrar fréttastofur tregðuðust við um hríð en tóku loks vel við sér og hafa atburðir heiðhvolfsins nú verið tengdir kuldum í Evrópu og „afbrigðilegu“ veðri vestra í hverjum veðurfréttatímanum á eftir öðrum.

En hér lítum við á tvö norðurhvelskort sem eiga að sýna að heiðhvolf og veðrahvolf eru komin í dágóðan takt.

Fyrst heiðhvolfskortið. Það er úr gfs-spá bandarísku veðurstofunnar og gildir á fimmtudaginn 17. janúar kl. 12.

w-blogg160113a

Ísland er að venju rétt neðan við miðja mynd en greina má útlínur meginlanda í bakgrunni kortsins. Jafnhæðarlínur 30 hPa-flatarins eru svartar en hiti er gefinn til kynna með litum. Kvarðinn sést mun betur sé kortið stækkað á skjánum. Við sjáum tvær risastórar lægðir og eina hæð. Sú yfir Ameríku er ivið dýpri, innsta línan þar sýnir 2240 dam (eða 22,4 kílómetra) en innsta línan í Síberíulægðinni er 22,6 km. Innsti hringur um hæðina austur af Íslandi sýnir 23,7 km.

Hitafar í kringum lægðirnar er nokkuð ólíkt. Ameríkulægðin er áberandi kaldari, þar sýna fjólubláu fletirnir meir en -82 stiga frost en frostið er um -35 stig þar sem það er minnst í austurenda Síberíulægðarinnar. Lítið samræmi er á milli hita- og hæðarsviðanna og bendir það til þess að óróleikanum sé ekki lokið. Þar sem er kalt á myndinni er væntanlega talsvert uppstreymi, en loft er á niðurleið á hlýrri svæðunum.

Á þessum tíma árs er langalgengast í 30 hPa og þar fyrir ofan að ein risastór lægð nái yfir mestallt kortið og hún er þá köldust nokkurn veginn í miðjunni. Oftast hallast hringrásin þó til annarrar hliðarinnar og jafnvel má greina 2 til 3 lægðardrög út úr lægðinni með krappari beygjum í hringrásinni.

Það gerist síðan endrum og sinnum að lægðin leggst öll á annað borð og miðjan fer jafnvel suður fyrir 60. breiddarstig eða þá að hún skiptist alveg í tvo misstóra hluta rétt eins og nú. Fyrir utan óregluna sem skapast í hæðarsviðinu hlýnar heiðhvolfið stórkostlega við bylgjubrot og tilheyrandi niðurstreymi. Loftið hlýnar þá mun meira ofar og getur hiti farið í +30 stig í 40 til 50 km hæð. Á erlendum málum er þetta nú orðið kallaðStratospheric Sudden Warming(SSW). Upphaflega gekk það undir nafninu Berliner Phenomenon en þar í bæ varð þess fyrst vart í háloftaathugunum seint í janúar 1952. Ekki á fyrirbrigðið fast nafn á íslensku, við gætum e.t.v. notað leppinn skyndileg heiðhvolfshlýnunþar til annað betra finnst (shh).

Menn tóku fljótt eftir því að oft urðu breytingar á hringrás veðrahvolfsins í kjölfar skyndilegrar heiðhvolfshlýnunar. Heimskautaröstin hafði þá tilhneigingu til að hlaupa í mjög háreistan bylgjugang með tilheyrandi fyrirstöðum á norðurslóðum en útrás á heimskautalofti langt suður eftir meginlöndunum. Hlýnunin og tilheyrandi röskun á hringrásinni - ef hún á sér stað er hins vegar svo fjölbreytt í staðarvali og styrk að erfitt er að negla niður einhver staðbundin áhrif.

En lítum á veðrahvolfskort á sama tíma. Þetta er hið nú alkunna 500 hPa hæðar- og þykktarkort sem hungurdiskar eru sífellt að kjamsa á. Kortið er einnig úr gfs-líkaninu.

w-blogg160113b

Við höfum nú þegar fyrir nokkrum dögum fjallað nokkuð ítarlega um þessa stöðu og ástæðulítið að gera það í dag - skýringar á táknmálinu má rifja upp með því að endurlesa þá pistla.

Hér er aðeins ætlunin að benda á að kuldapollarnir Stóri-Boli og Síberíu-Blesi eru á kortinu furðu nálægt miðjum 30 hPa-lægðanna á kortinu að ofan. Til hægðarauka hefur staða þeirra verið merkt á þetta kort með tveimur stórum hvítum X-um.  Þótt hringrás veðrahvolfs og heiðhvolfs sé ekki sú sama eru meginöxlarnir nú þeir sömu. Hvolfin eru í takti. Þótt ekkert negli hringrásina í hvolfunum tveimur beinlínis saman er samt léttara að dansa í takt heldur en á misvíxl.

Við ættum nú að sjá að sé lægðarmiðjan í heiðhvolfinu aðeins ein geta bylgjur veðrahvolfsins og kuldapollar gengið nokkurn veginn eins og þeim sýnist í kringum risastóra miðjuna. Skiptist heiðhvolfslægðin í tvennt eins og nú hefur gerst hafa bylgjurnar tilhneigingu til að dansa í kringum hvora miðju fyrir sig og taka þá heldur stærri sveigjur til norðurs og suðurs heldur en ella - bylgjur hvorrar hringrásar um sig rekast þá á á norðurslóðum.

Hæðarinnar sem á efra kortinu er fyrir austan Ísland gætir einnig niðri (dökkt x). Þar hrúgast upp loft að sunnan í mjóum strengjum sem sumir mynda fyrirstöður eða sullast einhvern veginn um heimskautasvæðið hver um annan í öruggri fjarlægð frá kuldapollunum.

Köld bylgja yfir Evrópu er að hrökklast til suðurs á Miðjarðarhaf og veldur þar illviðri. Þótt frekar kalt sé í Evrópu má samt sjá að alvöru heimskautakuldi er nokkuð langt undan á þessu korti. Málið er m.a. það að heiðhvolfslægðirnar gætu verið öðru vísi, það er t.d. ekki óalgengt eftir heiðhvolfshlýnun séu lægðirnar mjög misdjúpar og misumfangsmiklar - þá hlykkjast veðrahvolfsbylgjurnar öðru vísi en nú, e.t.v. með Síberíukulda vestur um Evrópu.

Framhaldið er óráðið og ómögulegt að segja til um það hversu lengi lægðirnar tvær endast eða hvernig þær hreyfast. Við ættum að fylgjast með því - en við verðum líka að hafa í huga að veðrahvolfinu er ekki beinlínis stjórnað að ofan - það gæti því hugsanlega rifið sig út úr dansinum með látum og hrakið heiðhvolfslægðirnar á vergang.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 198
  • Sl. sólarhring: 198
  • Sl. viku: 1822
  • Frá upphafi: 2349782

Annað

  • Innlit í dag: 179
  • Innlit sl. viku: 1650
  • Gestir í dag: 172
  • IP-tölur í dag: 169

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband