Aftur hlýnar

Þegar þetta er skrifað (seint sunnudagskvöldið 13. janúar) er komið talsvert frost víða um land, snertir á tveggja stafa tölu. En það virðist ekki eiga að standa lengi. Mikill gangur er í veðrakerfinu og við skulum rétt sem snöggvast líta á norðurhvelsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á þriðjudaginn, 15. janúar.

w-blogg140113

Fastir lesendur vita að hægt er að gera kortið mun skýrara með stækkun. Jafnhæðarlínur 500 hPa flatarins eru svartar - því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Liturinn sýnir þykktina, því minni sem hún er því kaldari er neðri hluti veðrahvolfs. Í pistlinum í gær var langt mál um kuldapolla og sérstaklega um þann sem er mest áberandi á kortinu og við höfum valið að kalla Stóra-Bola.

Hann er á sínum heimaslóðum við norðurströnd Kanada. Þykktin í miðju hans er undir 4740 metrum (dekksti fjólublái liturinn). Í gær sáum við að flatarhæðin í miðju lægðarinnar var um 4900 metrar en hefur hér fallið niður fyrir 4800 metra. Það er töluverð dýpkun. Eins og bent var á í gær er hreyfingin nokkurn veginn samsíða vindstrengnum vestan við Bola - eða eins og litla hvíta örin sýnir.

Annar gríðarmikill strengur nær frá Kaliforníu til Nýfundnalands. Sem stendur sjást ekki neinar teljandi bylgjur á honum fyrr en í lægðinni fyrir suðvestan Grænland og kemur við sögu fljótlega hér á landi. Óvenjukalt hefur verið í suðvestanverðum Bandaríkjunum síðustu daga enda ná mörk grænu og gulu flatanna nærri því að Kaliforníuströnd. Svona veður veldur áhyggjum þar í gróðursælum dölum þar sem vaxa appelsínur og vínber. Starfsbræður ritstjórans vestra hafa hins vegar áhyggjur af kalda loftinu norðurundan og mega það svo sannarlega. En alls ekki er útséð um hversu langt kalda loftið berst suður um Bandaríkin - enn er von að þau sleppi að mestu.

Lítill kuldapollur er líka yfir Vestur-Evrópu. Þótt ekki sé hann öflugur veldur hann samt vandræðum því þykktin í miðju hans er niðri í frosti. Við sjáum að hann hreyfist til suðurs og stefnir á Miðjarðarhaf. Einhver leiðindi verða því þar um slóðir síðar í vikunni.

Fyrirstaðan mikla sem beindi til hlýindum til okkar í fyrri viku hefur hér gefið eftir, en ný myndast yfir Skandinavíu sunnanverðri síðar í vikunni. Á kortinu er Ísland komið í hlýja loftið sem verður notað sem byggingarefni í fyrirstöðunnar. Miðgræni liturinn sýnir þykkt á bilinu 5340 til 5400 metra - það er góð hláka - nema þar sem er bjart og lygnt. Engin þykkt ræður við útgeislun í björtu hægviðri þegar sólar nýtur ekki.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (24.5.): 27
 • Sl. sólarhring: 82
 • Sl. viku: 1495
 • Frá upphafi: 2356100

Annað

 • Innlit í dag: 27
 • Innlit sl. viku: 1400
 • Gestir í dag: 27
 • IP-tölur í dag: 27

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband