Vitameinlaust smáatriði

Hér að neðan er fjallað um mjög algengt veðurfyrirbrigði sem stöku sinnum rífur sig upp í skaðræðisveður. Að þessu sinni er það svo ómerkilegt að það tekur varla nokkur maður eftir því. Eitthvað hefur verið minnst á þetta á hungurdiskum áður - en ástæða er til að hamra á því meðan beðið er eftir stóra dæminu.

w-blogg110113a

Fyrsta kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa-fletinum föstudaginn 11. janúar kl. 18. Jafnþrýstilínur eru heildregnar, jafnhitalínur eru strikaðar og má m.a. sjá -10°C línuna sveigjast langt til austurs fyrir sunnan Grænland. Úrkoma síðustu 6 klukkustundir er sýnd með grænum og bláum litum. Dökkblái bletturinn sem rauða örin bendir á táknar 15 til 20 mm á 6 klukkustundum.

Úrkomusvæðið yfir vestanverðu Íslandi sýnir að skilin sem hafa verið að fara fram og til baka yfir landið í dag (fimmtudag) og í gær verða enn viðloðandi á föstudagskvöld.

En úrkomuhnúturinn sem örin bendir á er umfjöllunarefni dagsins. Þar er mjög hvöss norðnorðaustanátt næst jörð - en snýst fyrst í norðvestur og síðan suðvestur eftir því sem ofar dregur yfir norðurhluta hnútsins. Sunnar er háloftaáttin af austsuðaustri. Hverjar eru nú reglur um hlýtt og kalt aðstreymi?

Í hlýju aðstreymi snýst vindur sólarsinnis með vaxandi hæð. Snúningurinn norðnorðaustur (20°) til austsuðausturs (110°) er þannig sunnan til í úrkomuhnútnum og þar er því hlýtt aðstreymi. Í köldu aðstreymi snýst vindur andsólarsinnis með vaxandi hæð. Í hnútnum er snúningurinn norðantil úr norðnorðaustri (20°) til norðvesturs (320°) og yfir í suðvestur (230°) - þar er því kalt aðstreymi. Þar sem hlýtt og kalt aðstreymi kallast á skerpir á hitabratta (jafnþykktarlínur þéttast).

Af þessu má sjá að einmitt við þessar aðstæður geta hlutir gerst. En við fylgjum nú hnútnum í 12 klukkustundir, næsta kort gildir kl. 06 að morgni laugardags.

w-blogg110113b

Þarna sést að hnúturinn (rauða örin bendir enn á hann) hefur hreyfst nokkurn spöl til norðausturs. Með góðum vilja má fylgja honum allt til Færeyja en spáin segir hann verða þar á sunnudag (14. janúar) - það sýnir blá strikaör í grófum dráttum. Lægðin við Írland fer suður á Miðjarðarhaf og litla lægðin á Grænlandshafi fer til austsuðausturs á sama tíma.

Hvað með þetta? Jú, fáeinar af verstu illviðralægðum hér við land eru einmitt orðnar til á þennan hátt. Lítum á 500 hPa-kort sem gildir á sama tíma.

w-blogg110113c

Hér eru jafnhæðarlínur svartar, vindörvar sýna vindhraða og stefnu og litafletir hita í 500 hPa. Gulu litirnir tákna hlýtt loft en bláir kaldara. Rauða örin bendir á þann stað sem úrkomuhnúturinn okkar er staddur. Stórt S er sett í söðul á kortinu. Söðlar eru eins konar fjallaskörð í þrýstisviðinu. Þar mætast allar vindáttir. Brúna strikalínan er sett við dálítið lægðardrag sem er á austurleið.

Við endurtökum að fáeinar af verstu illviðralægðum hér við land eru einmitt orðnar til við söðulaðstæður suður eða suðvestur í hafi. Skammtur af hlýju lofti á norðurleið austan söðuls hittir fyrir kalt sem gengur til austurs eða austsuðausturs fyrir norðan hann. Sé tímasetningin rétt (hittir í hann) geta afdrifaríkir hlutir gerst.

En nú gerist ekkert. Tímasetningin er ekki rétt og loftið að vestan og norðvestan ekki alveg nógu kalt og auk þess á hlýja loftið lítið bakland - stutt er í aðra háloftalægð rétt austan við.

Á þessu korti sér einnig í fyrirstöðuna fyrir austan land sem hefur tekið þátt í að móta veðrið hér síðustu daga. Hún hörfar heldur - sjá má hvernig kalt loft frá meginlandinu (bláa örin) er að hringa hana og þar með verður hún úr sögunni fyrir okkur. Auk þess sækir brúnstrikamerkta lægðardragið á úr vestri.

Næstu fyrirstöðumyndun er spáð hér við land á þriðjudaginn. Er sú miklu veigaminni heldur en fyrri spár gáfu sumar til kynna. Samt hefur hún veruleg áhrif á veður hér á landi (og miklu víðar) fram eftir næstu viku. En líta má á það mál síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Þetta er eitthvað sem vert er að fylgjast með. Ég nota flókin reiknilíkön í huganum (aðalega til prufunar) á veðurfar. Þessi reiknilíkön mín hafa ýtrekað verið að spá myndun illvirðislægðar á þessu svæði einhverntíman á næstu dögum. Hvort að þetta rætist veit ég ekkert um. Enda er hérna eingöngu um að ræða prufur hjá mér til þess að kanna alls óskylda hluti sem ég er að hugsa um.

Samkvæmt þessu líkani eru um 40% líkur á því að lægðin fari vestur fyrir land, en í kringum 60% að lægðin fari austur fyrir land. Þessi líkön mín geta auðvitað brugðist og ekkert komið útúr þeim. Eins og vill stundum verða með svona hluti.

Jón Frímann Jónsson, 12.1.2013 kl. 01:55

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Gaman að því Jón - birtir þú þessar spár?

Trausti Jónsson, 13.1.2013 kl. 02:02

3 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Trausti, nei. Ég hef ekki gert það hingað til. Enda álít ég sem svo að ég viti ekki nærri því nógu mikið um veður til þess að gera slíkt. Þetta verður þannig í dágóðan tíma í viðbót hjá mér. Væntanlega einhver ár mun ég halda.

Jón Frímann Jónsson, 13.1.2013 kl. 02:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 266
  • Sl. sólarhring: 311
  • Sl. viku: 1840
  • Frá upphafi: 2350467

Annað

  • Innlit í dag: 192
  • Innlit sl. viku: 1641
  • Gestir í dag: 182
  • IP-tölur í dag: 181

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband