Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Fram og til baka

Nú (seint á miðvikudagskvöldi 9. janúar) hafa kuldaskil gengið inn á landið. Þar sem þau hafa farið yfir hefur hiti fallið mjög snögglega - víða um 2 til 4 stig. Við förum ekki nánar út í það - minnum samt á hálkumöguleika og jafnvel einhverja snjókomu.

Skilin eru að slappast og jafnframt hægja þau á framrás sinni til austurs. Svo virðist helst að þau snúi nú við og mjakist til vesturs. Varla telst þetta afgerandi atburður fyrir einn eða neinn (ef menn varast hálkuna) en það má samt rýna í smáatriði kortanna. Við skulum gera það.

Tvö fyrstu kortin ættu að vera kunnugleg föstum lesendum, en eftir að hafa litið á þau sjást líka þrjú „furðukort“ sem hafa lítið eða ekki sést áður hér á diskunum. Þessi kort segja almennum lesendum lítið sem ekkert og hér verður alls ekki farið í að skýra þau í smáatriðum. Vonandi skaddast menn ekki við að sjá þau. Það er líka frjálst að líta undan.

w-blogg100113a

Öll kortin gilda kl. 18 síðdegis fimmtudaginn 10. janúar. Fyrst er fjölþáttakort sem við köllum svo því lesa má fjölmörg atriði á kortinu. Jafnþrýstilínur eru gráar og heildregnar. Vindstyrkur og stefna eru sýnd á hefðbundinn hátt með vindörvum. Jafnhitalínur í 850 hPa-fletinum eru strikaðar, -5°C jafnhitalínan er fjólublá. Litafletir sýna úrkomu næstliðnar þrjár klukkustundir, á skærbláu svæðunum er hún 5 til 10 mm á 3 tímum. krossar (x) sýna snjókomu og þríhyrningar klakkaúrkomu - en það merkir e.t.v. að ákefðin gæti staðbundið verið meiri en litirnir sýna. Kortið batnar umtalsvert við stækkun.

Fjólubláa strikalínan (-5°C í 850 hPa) er gjarnan notuð til þess að giska á mörk á milli rigningar og snjókomu á láglendi. Henni og krossamerkingunni ber ekki alltaf saman með snjókomuna.

Dálítil lægð er syðst á kortinu, hreyfist hún til norðnorðvesturs og á að vera úti af Vestfjörðum rúmum sólarhring síðar án þess að dýpka að marki. Úrkomusvæðið sem liggur norður úr lægðinni markar uppstreymi sem sennilega er tengt skilunum. Hér virðast skilin vera á leið til vesturs og hljóta þar með að vera orðin að hitaskilum, hlýrra loft að austan hreyfist vestur.

Stækki menn kortið má sjá allmarga krossa yfir Vesturlandi, þar vill líkanið láta snjóa - en ekki er gott að segja hvort sú snjókoma nær niður að ströndinni. Þríhyrningarnir fyrir Suðausturlandi tákna að úrkoman sé að einhverju leyti dembukennd þar.

Hæðin lengst til hægri er fyrirstaðan sem fjallað var um í pistlinum í gær. Hún sést auðvitað betur á 500 hPa-kortinu hér að neðan, en það gildir á sama tíma.

w-blogg100113b

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og svartar, jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar. Iðan er bleikgrá (við sleppum henni hér). Sjá má að þykktin yfir landinu miðju er um 5340 metrar - þykktin mælir hitann í neðri hluta veðrahvolfs. Þessi þykkt nægir í góða hláku og skilin eru greinilega fyrir vestan land í 500 hPa - þar sem jafnþykktarlínur eru þéttastar. Við tökum eftir því að vindurinn (sem blæs samsíða jafnhæðarlínum) er að ýta hærri þykkt til vesturs yfir landið. Það einkennir hitaskil.

Hér skilur leiðir - þeir sem lesa áfram halda á foraðið en þurfa samt ekki að hafa áhyggjur af skilningsleysi eða áttunarvanda - þetta er til gamans gert.

Við skoðun á næsta korti má sjá að almennt er loft að kólna á svæðinu þannig að hlýja aðstreymið hefur vart undan.

w-blogg100113c

Svartar heildregnar línur sýna hér sjávarmálsþrýstinginn (eins og á fyrsta kortinu). Við sjáum lægðina suður af landinu vel og einnig hæðina í austri. Vindörvarnar sýna hins vegar brattann á þykktarsviðinu - svonefndan þykktarvind. Þar sem hann er mikill er þykktarsviðið mjög bratt - eins konar meðallega skilanna í neðri hluta veðrahvolfs.

Litasvæðin eru aðeins snúnari - gulir litir sýna hvar þykktin hefur aukist síðustu 3 klukkustundir en bláir hvar hún hefur minnkað. Styrkur litanna er aðeins misvísandi í þessu sambandi vegna þess að hann fer eftir þykktarvindhraðanum. Bláir litir eru yfirgnæfandi við Ísland og þar hefur sum sé kólnað síðustu 3 klukkustundir. Smásvæði er þó suður undan þar sem framsókn hitaskilanna heldur í við almenna kólnun, eins er lítið gult svæði nokkuð fyrir vestan land. Gulu svæðin við strönd Grænlands eru hins vegar til komin af einhverri fjallabylgjuvirkni þar um slóðir.

Þrátt fyrir allt má sjá að talsverður kraftur er í sviðinu rétt suður af lægðarmiðjunni, þykktarvindurinn er um 75 hnútar (um 35 m/s). Vindur niður undir sjávarmáli er af stormstyrk (yfir 20 m/s).

Á næsta korti staðsetjum við skilin betur. Það sýnir svokallaða mættisiðu milli 925 og 850 hPa-flatanna. Höfum ekki áhyggjur af merkingu hugtaksins - nema hvað mættisiðan er hér mælikvarði á lóðréttan styrk hitahvarfa í 600 til 1400 metra hæð. Svartar línur sýna sjávarmálsþrýsting og vindörvar miðast við 850 hPa.

w-blogg100113d

Lituðu svæðin sýna hvar hitahvörf eru öflugust í kílómeters hæð eða svo. Á myndinni eru nokkrar gerðir hitahvarfa - yfir Grænlandi liggur hlýtt loft ofan á jöklinum - mikill hitamunur þar, sömuleiðis eru miklar þar miklar lóðréttar hreyfingar tengdar landslagi. Í kringum hæðina eru gulir flekkir - væntanlega tengdir niðurstreymi í hæðinni (niðurstreymi býr til hitahvörf nái það ekki til jarðar). Við lægðarmiðjurnar eru hins vegar mjóir gulir taumar - það eru skil tengd lægðinni. Við sjáum stöðu þeirra yfir landinu vel (yfir Austurlandi eru landslagstruflanir).

Síðasta kortið sýnir mun stærra svæði. Þrýstilínur við sjávarmál eru sýndar, en litirnir sýna stöðugleika í veðrahvolfinu, frá 850 hPa og upp úr. Kvarðinn er þannig að háar tölur sýna mikinn stöðugleika (oftast vegna niðurstreymis) en lágar hvar loft er óstöðugt.

w-blogg100113e

Landaskipan ætti að sjást betur sé kortið stækkað. Við sjáum sömu lægðina fyrir sunnan Ísland og hæðina fyrir austan. Dýpri lægðir eru sunnar og vestar á kortinu. Grænu svæðin tákna mikinn stöðugleika (hlýtt uppi / kaldara niðri). Mörkin milli grænna og rauðbrúnna svæða eru einskonar skilasvæði - sem greina milli lofts af mismunandi uppruna. Brúnustu svæðin sýna hvar raki er mikill í neðri hluta veðrahvolfs - þar er fóður í óstöðugleika, við sjáum smásvæði með fjólubláum lit við lægðarmiðjuna (dýpri) langt sunnan við land. Þar veltur loftið trúlega.

Nóg að sinni - þakka þolinmóðum lesendum. Það má geta þess að veðurfregnir BBC hafa nú loks séð ástæðu til að benda á heiðhvolfsatburðinn stóra og lofuðu í dag einhverri umfjöllun - hún verður þó varla jafngóð og umfjöllun hungurdiska (?). Tengillinn sem þeir gefa er þessi:

http://metofficenews.wordpress.com/2013/01/08/what-is-a-sudden-stratospheric-warming-ssw/

Þarna er ágætur texti á ensku sem veðurnörd ættu að lesa. Auk þess skýrir sérfræðingur munnlega á sjónvarpsræmu.


Skammvinn fyrirstaða

Nú eru fimm til tíu daga spár farnar að sjá fyrirstöðumyndanir - en enn er aðeins samkomulag um þá fyrstu. Hún er nú um það bil að myndast, verður í hámarksstyrk frá fimmtudegi fram á sunnudag - en samkomulag reiknilíkana nær ekki lengra. En í kvöld (þriðjudag 8. janúar) búa nýjustu spár  evrópureiknimiðstöðvarinnar og bandaríska veðurstofulíkanið til risafyrirstöðu eftir um það bil viku. En við megum ekki trúa þeim ennþá.

En lítum á spá reiknimiðstöðvarinnar um fyrirstöðuna í 500 hPa næstu daga, kortið að neðan gildir um hádegi á fimmtudag (10. janúar).

w-blogg090113

Skýringatextinn er eins og venjulega: Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar og merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því hvassari er vindurinn sem hér blæs nokkurn veginn samsíða jafnhæðarlínunum með hærri flöt til hægri við vindstefnuna.

Litafletirnir marka ákveðin jafnþykktarbil, skipt er um lit á 6 dam bili. Mörkin á milli grænna og blárra lita er sett við 5280 metra, en mörk á milli grænna og gulra er við 5460 metra. Þar er algeng sumarþykkt á Íslandi. Þykktin mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Ísland er ekki fjarri miðri mynd.

Við sjáum að gríðarlega mikil hlý tunga (grænir litir) teygir sig langt til norðurs fyrir austan land. Sunnanátt beinir hlýja loftinu sunnan frá Biskæjaflóa og langleiðina til norðurskautsins og myndar gríðarstórt hæðarsvæði. Kalt loft (blátt) er til beggja handa. Kalda tungan fyrir austan hæðina leggst til vesturs um sunnanverð Norðurlönd og mun ná allt til Bretlandseyja. Önnur köld tunga er á austurleið yfir Tyrklandi eftir að hafa valdið snjókomu og usla á Grikklandi síðustu daga.

Hæðin þokast nú austur og fer minnkandi næstu daga. Þetta er mikil hlýindastaða fyrir okkur. Að vísu er stutt í kalt loft vestan við land og kuldaskilin sem fjallað var um í pistlinum í gær eru á kortinu yfir landinu. Þau eiga smám saman að leysast upp og þá tekur við óráðið veður í tvo til þrjá daga.

Lægðin við Suður-Grænland, sú sem veldur sunnanhvassviðri á morgun miðvikudag (þegar flestir lesa þennan pistil) grynnist og gerir lítið meir.

Síðan er spurning hvað gerist. Langt suðvestur undan eru tvö býsna snörp lægðardrög sem hreyfast eins og örvarnar sýna. Líkönin segja þau verða svo þung á sér að þau fari ekki norðar og lokist um síðir inni sunnan við meginvindröstina, að austara skýst til austurs yfir Frakkland, en það vestara breytist í afskorna lægð. Þetta er ekki alveg víst.

Kuldapollurinn mikli, sem við köllum enn Stóra-Bola situr í réttu sæti sem stendur en á reyndar að fara í langa hringferð í kringum sjálfan sig - svipað og hvíta, sveigða örin sýnir. Framtíðin ræðst af því sem gerist þegar hann er aftur kominn í syðstu stöðu í hringnum. Síðasta spá reiknimiðstöðvarinnar sýnir hann verpa eggi sem þá myndi valda gríðarlegu kuldakasti í austanverðu Kanada eftir rúma viku og ryðji upp gríðarstórri fyrirstöðu við Ísland - sem þá aftur beindi lofti frá norður Rússlandi eða Síberíu vestur um Evrópu. Við vonum að sú spá gangi ekki eftir.

Um síðastliðna helgi skiptist Stóri-Boli heiðhvolfsins (ofan við 18 til 20 km hæð) snögglega í tvennt. Gamlar þumalfingursreglur segja að við slíka atburði bæti í lengdarbundna hringrás veðrahvolfsins. Orðið lengdarbundinn er framandi - en þýðir einfaldlega það sem orðhlutarnir segja. Venjulega blása flestir vindar samsíða breiddarbaugum (oftast úr vestri til austurs) - breiddarbundið. Norðan- og sunnanáttir eru hins vegar lengdarbundnar - blása samsíða lengdarbaugum. Í veðrahvolfinu er lengdarbundið flæði að jafnaði aðeins um 10% af því breiddarbundna (vegna áhrifa snúnings jarðar).

Aukist lengdarbundið flæði lítillega táknar það að kalt loft á greiðari aðgang til suðurs - og hlýtt til norðurs heldur en að jafnaði. Eins og gefur að skilja verður hitafar margra svæða á norðurhveli mjög afbrigðilegt við þessi skilyrði. Hversu afbrigðilegt fer að vísu mjög eftir því hvar norðan- og sunnanáttirnar koma sér fyrir á hverjum tíma í landaskipan úthafa og meginlanda. Ástand þetta er líka mjög misþrásetið - það ræðst af tilviljunum hverju sinni - stundum stendur það aðeins í tvo til þrjá daga - en stundum miklu lengur.

Við fáum alla vega þessa fyrirstöðu næstu daga. Hvað svo gerist kemur í ljós. En við reynum að fylgjast með ef atburðir verða merkilegir.


Hvað er bakvið kuldaskilin?

Í dag (mánudag 7. janúar) voru enn mikil hlýindi hér á landi í suðaustlægri vindátt. Enn eitt lægðakerfið nálgaðist úr suðvestri. Þessi lægð náði reyndar mestum og bestum þroska við suðurodda Grænlands en kalda loftið á bakvið hana heldur áfram til austurs og síðar norðausturs þótt úr því sem mesti krafturinn. Það kemur hingað á bakvið kuldaskil sem fara yfir landið seint aðfaranótt þriðjudagsins 8. janúar. Þau verða væntanlega komin yfir allt landið vestanvert þegar flestir lesendur fletta þessum pistli. Ekki er efnið þó alveg úrelt því hér er líka fjallað um næsta kerfi sem á að fara svipaða leið aðfaranótt fimmtudags.

En lítum á kort sem sýnir fyrra kerfið. Það gildir kl. 6 að morgni þriðjudags. Alltaf er gott að æfa sig í túlkun spákorta. Kortið er í boði evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg080113a

Við köllum þetta fjölþáttaspá því lesa má fjölmörg atriði á kortinu. Jafnþrýstilínur eru gráar og heildregnar. Vindstyrkur og stefna eru sýnd á hefðbundinn hátt með vindörvum. Jafnhitalínur í 850 hPa-fletinum eru strikaðar, -5°C jafnhitalínan er fjólublá. Litafletir sýna úrkomu næstliðnar þrjár klukkustundir, á skærbláu svæðunum er hún 5 til 10 mm á 3 tímum. krossar (x) sýna snjókomu og þríhyrningar klakkaúrkomu - en það merkir e.t.v. að ákefðin gæti staðbundið verið meiri en litirnir sýna. Kortið batnar umtalsvert við stækkun.

Allt kerfið hreyfist til norðausturs og minnkar að afli. Fjólubláa strikalínan (-5°C í 850 hPa) er gjarnan notuð til þess að giska á mörk á milli rigningar og snjókomu á láglendi. Ef farið er í saumana á kortinu má sjá að engir krossar eru suðvestanmegin í kerfinu þar sem það er að fara yfir Reykjanes. En nú vitum við það að sé úrkomuákefðin nægileg og vindur hægur nær snjókoman alveg til jarðar. Í textaspá Veðurstofunnar fyrr í kvöld (mánudag) er slyddu eða snjókomu ekki getið. Lega fjólubláu strikalínunnar styrkir það viðhorf - en einhverjar líkur eru samt á slyddu eða snjókomu - ef ekki við sjávarmál þá heldur ofar.

Síðan birtir upp og við bíðum næsta kerfis. Það er alveg eins og það fyrra að því leyti að fyrst er allhvöss eða hvöss suðaustanátt sem gengur niður í hægan vind eftir að kuldaskilin fara yfir. Ef marka má spár eru þessi síðari skil hægari á yfirferð sinni heldur en þau fyrri og eykur það líkur á að snjókoma verði á bakhlið þeirra. Úrkoma fellur lengur niður í „sama“ loftið og fær meiri tíma til að kæla það.

Hér er samsvarandi kort sem gildir á miðnætti á miðvikudagskvöld.

w-blogg080113b

Hér sjáum við að skilin eru rétt yfir höfuðborginni. Hér gæti auðvitað skeikað nokkru - þrátt fyrir allt eru tveir dagar í þessa stöðu. Býsna mikil úrkoma fylgir skilunum, en -5°C línan er alllangt suðvestur undan og utan við úrkomukerfið. Handan hennar eru örugglega él - en hvað með bakhlið skilanna? Ekki gott að segja - en við lítum á eitt kort til viðbótar.

w-blogg080113c

Þetta kort sýnir hæð 925 hPa-flatarins á sama tíma og næsta kort fyrir ofan. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, vindur sýndur með vindörvum og hiti með litatónum. Mörkin milli grænu og gulbrúnu litanna eru við frostmark. Það er 640 metra jafnhæðarlínan sem er ið Reykjanes. Þarna er grænn (kaldari) fleygur á milli gulra flata. Ekki getum við verið alveg viss um hvað veldur - líklegast þó annað hvort staðbundið uppstreymi (sem kælir) eða þá afleiðing af kælingu af völdum bráðnandi snævar.

Já, hvað er bakvið kuldaskilin fyrri og síðari? Ekki veit ritstjórinn svarið við því frekar en venjulega.


Hiti og þykkt árið 2012

Þótt heldur fáir almennir lesendur hafi áhuga á efni dagsins er samt rétt að fréttist af því. Við áramót eru meðaltöl reiknuð og litið yfir nýliðið ár fyrir fjölmarga veðurþætti. Meðalhiti á veðurstöðvum er oftast fréttnæmastur, en hvað með meðalhitann í neðri hluta veðrahvolfs. Hann er mældur með fjarlægðinni milli 1000 og 500 hPa-þrýstiflatanna sem síðan er nefnd þykkt.

Mjög gott samband er á milli ársmeðalþykktar og ársmeðalhita og hollt að líta á hvernig síðastliðið ár hefur komið út miðað við önnur. Við höfum áreiðanlegar mælingar á þykktinni aftur til 1949 og berum saman meðalhita í Stykkishólmi og meðalhita yfir landinu síðan þá á mynd.

w-blogg070113

Lárétti ásinn sýnir þykktina í dekametrum (eftir að talan 500 hefur verið dregin frá), en sá lóðrétti sýnir meðalhita í Stykkishólmi. Köldustu árin eru neðst á myndinni en þau hlýjustu efst. Myndin ætti að verða skýrari við stækkun og þá sjást ártölin betur. Ár minnstu þykktar eru lengst til vinstri og mestu lengst til hægri.

Árin 1979 og 1981 voru þau köldustu á tímabilinu og eru líka með minnsta þykkt. Árið 2010 er með mesta þykkt, en árið 2003 er hlýjast. Rauða línan sýnir línulegt aðfall - einskonar meðaltal sambands þykktar og hita. Hallinn segir að hiti í Stykkishólmi hækki um 0,44 stig við hvern dekametra í þykktaraukningu. Fylgnin á milli þáttanna er mjög há, 0,82.

Þau ár sem eru neðan aðfallslínunnar eru kaldari en þau „ættu að vera“ miðað við þykktina. Skýringar á því geta verið margs konar - en við sjáum alla vega að hafísárin 1965 til 1971 eru neðan línunnar - sum mikið. Þau eru kaldari en þau hefðu átt að vera. Sérstaklega sker árið 1968 sig illa úr - meðalhiti var þá 3,2 stig í Stykkishólmi, en hefði átt að vera heilu stigi hlýrra - ef loftið efra hefði fengið að njóta sín. Eru ár þar sem pólsjór (eða kaldur sjór annar) er ríkjandi við Ísland almennt kaldari heldur en þykktin segir til um? (Svarið er aðeins flóknara en beint já).

En hvað með síðastliðið ár, 2012? Við sjáum af myndinni að það er langt fyrir ofan aðfallslínuna - sýnist vera svo sem eins og 0,8 stigum hlýrra en það „hefði átt að vera“. Hvernig stendur á þessu? Allmargar skýringar koma til álita - en hver þeirra er rétt er ekki gott að segja. Hér koma nokkrar af fleirum.

Árið 2012 var eitt hið sólríkasta sem vitað er um um allt vestan- og norðanvert landið og sumarið þurrt í Stykkishólmi. Kannski munar um það? Ekki veit ritstjórinn um sjávarhitann í kringum landið, sé hann hærri heldur en þykktin gefur til kynna gæti hann skýrt mismuninn einn og sér (?). Gæti meðalhitinn í Stykkishólmi verið of hár? Lítið á töflu í yfirliti Veðurstofunnar  um tíðarfar ársins 2012. Hvað má sjá þar? Sé farið í smáatriðin á myndinni hér að ofan má sjá að mörg ár liggja mjög þétt ofarlega í sveimnum og að halli þessa þétta svæðis er ívið meiri heldur en hallinn á meginaðfallslínunni. Þetta gæti bent til þess að „réttur“ halli línunnar sé meiri en reiknað er - eða hvað?

Áreiðanlegt og rétt svar liggur ekki fyrir.


Norðurhvel á þrettándanum

Smábylgjur með lægðum eða skilasvæðum ryðjast nú hver af annarri yfir landið eða fara hjá skammt undan. Sagt er að vikan öll sé frátekin fyrir þetta veðurlag. Þar með er ekki sagt að bylgjurnar séu allar eins - hver þeirra er með sínu sniði. Hlýtt loft fylgir þeim öllum - engin þeirra væntanlegu er þó jafnhlý og sú sem fór hjá í gær með metaföllum. Þótt hlýtt sé í veðri er ekki þar með sagt að hálka og snjór haldi sig alveg fjarri. Í heiðu veðri milli lægða myndast fljótt hálka, jafnvel þó það sé í skamman tíma hverju sinni. Svo stingur kaldara loft sér líka inn og endrum og sinnum og getur valdið skammvinnri en ákafri snjókomu. Vörumst því hálkuna að vanda.

En lítum á norðurhvelskort sem sýnir 500 hPa-hæðar og þykktarspá sunnudaginn 6. janúar kl. 18. Gögnin eru frá evrópureiknimiðstöðinni en teikningin fór að vanda fram í smiðju Bolla Pálmasonar teiknimeistara Veðurstofunnar.

w-blogg060113

Gráa örin bendir á lægðarbylgju rétt sunnan við Ísland. Norðurskaut er um það bil á miðri mynd og neðri endi örvarinnar er við strönd Marokkó. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar og sýna hæð hans í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Merkingar og litakvarði sjást mun betur sé kortið stækkað með (2x) smellistækkun. Þykktin er sýnd í litum, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið - og hún er líka mæld í dekametrum. Mörkin á milli grænna og blárra litatóna er sett við 5280 metra. Það er rétt ofan meðallags á Íslandi á þessum tíma árs.

Dökkfjólubláir litir byrja við 4920 metra - svo lág þykkt nær aðeins örsjaldan til Íslands - hafið umhverfis landið verndar okkur að mestu frá slíku. Mestu kuldapollar norðurhvels mynda stórar fjólubláar breiður á kortum á vetrum og eru miklir illviðravaldar hnikist þeir úr sínum hefðbundnu sætum. Stöku sinnum skjótast fyrirferðaminni háloftalægðir út úr meginpollunum, þá er eins og þeir verpi eggjum - en oftast ganga smærri bylgjur linnulítið í kringum þá.

Þannig er ástandið núna. Fyrir nokkrum dögum gátum við talið einar sex smábylgjur í kringum Stóra-bola sem hér er notað sem eins konar gælunafn á Kanadakuldapollinum mikla en hann situr þessa dagana í réttu sæti - og er reyndar ekkert óskaplega öflugur.

Á kortinu að ofan hefur hann þó skotið dragi til suðurs yfir Labrador. Þetta drag nær á miðvikudaginn eða svo sambandi við smábylgju sem nú er á austurleið yfir vötnunum miklu í Ameríku. Saman eiga þessi tvö drög að mynda mjög djúpa lægð sem reyndar kemst ekki alveg til Íslands ef trúa má spám - en þó er spáð suðaustanhvassviðri og rigningu samfara henni.

En það eru tvö eða þrjú lægðardrög sem þurfa að fara hér hjá áður. Annað þeirra er það sem er á myndinni rétt sunnan við Ísland og myndar litla, lokaða háloftalægð. Hún er að fara hjá þegar kortið gildir síðdegis á sunnudag. Í dag (laugardag) hefur verið talsverður kraftur í henni - með ofsaveðri sunnan lægðarmiðjunnar. Allar spár eru hins vegar sammála um að hún missi andann ótrúlega fljótt og valdi því ekki neinu teljandi illviðri hér á landi - nema úrkomu, rigningu eða snjó. En við látum Veðurstofuna fylgjast með því og eru allir sem eitthvað eiga undir veðri hvattir til þess að fylgjast með spám hennar um þessa lægð og aðrar - en taka ekki mark á tuði hungurdiska.

Ástæða uppgjafar lægðarinnar mun vera sú að ný smábylgja sem ekki sést á þessu korti á að troða sér á milli hennar og þeirrar næstu sem merkt er á kortið (L) - þar með nær sú fyrri ekki að ná í kalt loft (eða niðurdrátt veðrahvarfanna) sem nauðsynlegt er henni til viðgangs.

Fyrir nokkrum dögum fjölluðu hungurdiskar um merkilega stöðubreytingu uppi í heiðhvolfinu.  Sú snögga breyting á sér einmitt stað í dag (laugardag). Að sögn fróðustu manna eykur atburður sem þessi líkur á háreistum bylgjum og jafnvel fyrirstöðum í vestanvindabelti veðrahvolfsins. Langtímaspár (tveggja til fjögurra vikna) hafa gefið fyrirstöðumyndanir til kynna og þar með má segja að þær liggi í loftinu (bókstaflega) - en viku- til tíudagaspár hafa hins vegar fæstar viljað viðurkenna þennan möguleika.

Ritstjórinn verður bara að segja pass og bíða næsta sagnhrings.


Slatti af mánaðarhitametum fallin

Jú, hluti af hlýja loftinu sem farið hefur yfir landið í dag (föstudaginn 4. janúar) hefur blandast niður í kaldara loft nær jörðu þannig að hitamet hafa fallið. Nimbus hefur þegar gert grein fyrir  þeim safaríkustu á bloggsíðu sinni og er ekki ástæða til að endurtaka það hér. Merkilegast er auðvitað nýtt hitamet janúarmánaðar í Reykjavík - ef það stenst skoðun (vonandi gerir það það). [Í algjöru framhjáhlaupi skal þess getið að nýtt úrkomumet í Reykjavík frá því í síðustu viku stendur nú í sikti aftökusveitar - sem hefur þó enn ekki hleypt af].

Það sem hér fer á eftir hljómar nokkuð framandlega fyrir flesta lesendur en ætti að skiljast við rólegan lestur - nördin drekka aftur á móti nánast hvað sem er. Við lítum stuttlega á hvernig dægurhitamet Reykjavíkur og landsins alls fyrstu hundrað daga almanaksársins dreifast í tíma. Áreiðanleg hámarkshitaröð Reykjavíkur nær ekki lengra aftur en til 1920 (og smásuð í dagsetningum auk tvöfaldra hámarka truflar aðeins). En farið hefur verið yfir eldri mælingar og þar eru hámörk sem ekki er hægt að víkja sér undan.

Fyrir landið allt verður að hafa í huga að stöðvum sem mæla hámarkshita hefur fjölgað gríðarlega á síðari árum og líkur á því að skammvinn, staðbundin hitaskot af fjöllum hitti veðurstöð fyrir eru nú mun meiri en áður. Nú koma myndirnar.

w-blogg050113a

Lárétti ársins sýnir fyrstu 100 daga ársins (hlaupársdagur talinn með), en sá lóðrétti sýnir ártöl. Af súlunum má lesa hversu gamalt met viðkomandi dags er. Það skiptir engu að erfitt er að lesa smáatriði myndarinnar. Aðalatriðið er hins vegar sú staðreynd að metin koma í nokkrum hrinum (séð frá lóðrétta ásnum). Til hægðarauka hafa tvær grænar strikalínur verið settar inn á myndina. Sú efri markar nokkurn veginn upphaf núverandi hlýindaskeiðs sem búið er að hreinsa upp 35 daga - rúmlega þriðjung þeirra. Tímabilið 1926 til 1950 á enn 39 dægurmet, tvö eru enn eldri - frá 1913 e.t.v. þarf að athuga þau nánar. Tímabilið 1951 til 1965 á 17, þar af á 1964 eitt átta daga. Veturinn sá ómar enn í endurminningu eldri veðurnörda. Árið 2004 gerir jafnvel og 2006 einum betur. Kalda tímabilið 1966 til 1996 á aðeins 7 daga á lífi í Reykjavík.

En síðan eru það landsmetin á sama veg.

w-blogg050113b

Hér má sjá að aðeins örfáir dagar lifa frá því fyrir 1950 - aðeins tólf. Þar af eru fjórir frá því fyrir 1920. Hugsanlegt er að fleiri dagar rísi upp frá dauðum við nánari lestur veðurskýrslna tímabilsins. Núverandi hlýindaskeið hefur hirt rétt rúman helming daganna (52). Kuldaskeiðið stendur sig allvel - þá gerði nokkrar góðar en skammvinnar vetrarhitabylgjur um landið norðaustan- og austanvert, t.d. á janúar 1992 átta metdaga á landsvísu.

Hitabylgjan í dag (föstudaginn 4. janúar 2012) hefur þegar stolið degi á Reykjavíkurlistanum og breytt myndinni lítillega. Ritstjóranum sýnist að eldra met þessa dags hafi verið sett 1941. Landsmet 4. janúar er hins vegar frá 2006 þegar hitinn fór í 15,4 stig á Seyðisfirði. Dalatangi á dægurmet 5. janúar 15,7 stig. Það er fjörutíu ára gamalt, frá 1973 (ósköp er tíminn fljótur að líða).


Enn eitt árið bætist við mæliraðir

Að venju bætist nú enn eitt árið við allar veðurraðir - mældar eða metnar, stuttar eða langar. Hungurdiskar munu af því tilefni birta á stangli eitthvað úr raðagarðinum. Hversu margt eða mikið það verður er óráðið.

Sú veðurröð sem oftast er sýnd er ársmeðalhitinn - ýmist fyrir einstakar stöðvar eða landsvæði. Við lítum á langa röð sem miðast við Reykjavík. Auk þess að nýnæmi er að nýliðnu ári, 2012 hefur einnig verið bætt við röðina í fortíðarendann - svona eins og samviska ritstjórans leyfir. Sjá má að nokkuð hefur fallið á hana því fyrsta árið sem minnst er á er 1780. Síðan gengur á með eyðum og skáldskap fram á þriðja áratug 19. aldar en raunverulegar athuganir eru til frá Reykjavík á árunum 1820 til 1854. Þá kemur aftur til kasta skáldskapargáfu ritstjórans - fram til 1866.

En lítum á myndina.

w-blogg040113

Tíminn er á lárétta ásnum, merktur á tuttugu ára bili. Lóðrétti ásinn sýnir ársmeðalhitann. Hann leikur á rétt rúmlega fjögurra stiga bili, milli tveggja og sex stiga. Rauða línan er reiknuð línuleg leitni, það er eins og aldrei fáist neitt út úr þeim reikningum nema hlýnun upp á 0,7° á öld. Hefji menn þá reikninga fyrir hundrað árum fæst að vísu út nokkru hærri tala og sú langhæsta sé aðeins miðað við síðustu 40 ár. Sýnist í fljótu bragði að slíkir reikningar gæfu um 4°C hlýnun á öld fram haldi sem verið hefur.

Menn geta valið sér viðmiðunartímabil eftir smekk eða sleppt því alveg - sem sennilega er hyggilegast. Ætti að sjást að „venjuleg náttúruleg“ hitasveifla er ríflega 1,5 stig hvort sem miðað er við ár eða áratugi eða tvöfalt það sem menn telja almennt viðurkennda hnattræna hlýnun á síðustu 100 árum. Erfitt er að meta hið hnattræna út frá Reykjavík einni saman.

Blái ferillinn á myndinni er settur inn til að draga fram aðalatriði í áratugasveiflunum en segir ekkert um framtíðina frekar en línulega leitnin.

Meðalhitinn á nýliðnu ári var 5,54°C í Reykjavík (tveir aukastafir eru fóður í metinginn en ekki til marks um nákvæmnina). Frá því að samfelldar mælingar hófust 1870 hafa aðeins 11 ár verið hlýrri. Þeirra hlýjast var 2003 en síðan 1941, 2010 og 1939. Sé tekið mark á tímanum á undan bætist aðeins eitt ár við, 1847 (ómarktækt hlýrra).

Eins og fjallað var um í pistli í gær fer mjög hlýtt loft yfir landið á morgun föstudag. Því miður mun varla fréttast af mesta hitanum niður á vorar jarðlægu slóðir - og komi eitthvað niður fari það í snjóbræðslu frekar en í að ýta hitamælum upp kvarðann. En - von er enn og rétt að muna að sjaldgæft er að hiti nái 10 stigum á Suður- og Vesturlandi í janúar.


Jú, hlý sunnanátt

Næstu daga rennur sunnanátt ættuð langt suður í höfum yfir landið og ber með sér hverja lægðina á fætur annarri, svo margar að helst minnir á febrúar 2012 en þá fóru átján lægðir yfir landið eða rétt hjá því á 29 dögum. Ekki er nokkur leið að fylgja þeim öllum eftir nema með nánast samfelldri gjörgæslu - en það gera hungurdiskar ekki - en Veðurstofan aftur á móti.

Lægðakerfið sem fer hjá á föstudaginn kemur (4. janúar) er það hlýjasta, en síðan koma heldur kaldari kerfi í kjölfarið - en ekki köld samt. Við lítum á stöðuna eins og evrópureiknimiðstöðin vill hafa hana kl. 18 á föstudagskvöld.

w-blogg030113

Ísland er rétt til hægri við miðja mynd, Spánn sést neðarlega til hægri en austurströnd Bandaríkjanna lengst til vinstri. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar og merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því hvassari er vindurinn sem hér blæs nokkurn veginn samsíða jafnhæðarlínunum með hærri flöt til hægri við vindstefnuna.

Litafletirnir marka ákveðin jafnþykktarbil, skipt er um lit á 6 dam bili. Mörkin á milli grænna og blárra lita er sett við 5280 metra, en mörk á milli grænna og gulra er við 5460 metra. Þar er algeng sumarþykkt á Íslandi. Þykktin mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið.

Þegar málin eru skoðuð nánar kemur í ljós að þykktinni yfir Austurlandi er spáð upp fyrir 5520 metra á föstudaginn, en það er einmitt nokkurn veginn metþykkt í janúar. Eins og oft hefur verið fjallað um áður á hungurdiskum eru þá meiri líkur á methita heldur en annars, en há þykkt nægir ekki ein og sér til að met falli. Það sem dregur úr líkum að þau falli í þetta sinn er einkum snjórinn - segja má að bráðnun hans hafi forgang fram yfir hita á hitamælum.

En mættishita í 850 hPa er líka spáð upp í hæstu janúarhæðir, yfir 21 stig. Auk þess er mikilli úrkomu er spáð sunnan heiða samfara þessum hlýindum.

En lítum aftur á kortið. Það er óvenjuhreinlegt - ein risastór bylgja nær vestan frá Klettafjöllum austur undir Noreg. Í miðjunni situr kuldapollurinn Stóri-Boli sem ekki hefur sést oft á þessum slóðum það sem af er vetri. Þótt hann sé illilegur er hann samt nokkuð langt frá sínum mesta vetrarstyrk. Dekkri fjólublái liturinn byrjar við 4860 metra en það er 100 til 200 metrum meiri þykkt heldur en yfirleitt verður minnst á vetrum - en kaldasti tími norðurhvels er enn framundan.

Inni í risabylgjunni má sjá margar smærri - hér merktar með tölustöfunum 1 til 6. Allar þessar smábylgjur hreyfast hratt til austurs og síðar norðausturs í stefnu vindrastarinnar. Þótt þessi ákveðna reikniruna líkansins (sem byrjar kl. 12 í dag - miðvikudag) sé með tillögu um hvenær allar þessar bylgjur fari hér yfir er gagnslítið að reyna telja það upp hér - vegna þess að reikningarnir raskast marktækt í hvert einasta sinn sem reiknað er. Samanburður frá einni runu til annarrar sýnir að allt umfram þrjá til fjóra daga er óljóst varðandi styrk og stefnu lægðanna - og líka hvort þær verða fleiri eða færri en hér er stungið upp á.


Hlýjar sunnanáttir?

Að sögn reiknimiðstöðva verður sunnanátt ríkjandi á næstunni með hlýviðri miðað við árstíma og mikilli úrkomu um landið sunnanvert. Fjölmörg lægðakerfi eiga að fara yfir landið eða vestan við það og erfitt að fylgja þeim öllum eftir í spám. Við lítum vonandi á þau mál ef einhver sérstök tíðindi verða uppi - en lítum í dag til heiðhvolfsins  - en þar virðist merkileg breyting vera í uppsiglingu.

Lítum á spá bandarísku veðurstofunnar (gfs-líkanið) um hæð 30 hPa-flatarins og hita í honum um hádegi á morgun (miðvikudaginn 2. janúar).

w-blogg020113a

Kortið sýnir meginhluta norðurhvels jarðar norðan við 25. breiddarstig, Ísland er rétt neðan við miðja mynd. Kort -, tölur og kvarðar sjást mun betur sé kortið stækkað. Jafnhæðarlínur eru svartar og merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar), en litafletir sýna hita. Fjólublái liturinn byrjar við -82°C frost. Brúna svæðið er hlýjast, þar er frostið ekki nema -30°C. Ef vel er að gáð má sjá örsmáa dökkbrúna bletti þar sem talan -28 sést.

Innsta jafnhæðarlínan, alveg inni undir L-inu sýnir 22100 metra (22,1 km), en sú hæsta 23800 metra (23,8 km). Aðeins ein lægð er á öllu hvelinu. Það er venjulegt ástand. Mikill vindur blæs umhverfis lægðina í vindröst sem á erlendum málum er kennd við heimskautanóttina (polar night jet) - við gætum kallað hana skammdegisröstina. Hámarksvindur hennar er venjulega heldur ofar en þetta kort sýnir, í 25 til 30 km hæð frá jörð.

Ef trúa má reikningum bæði gfs-líkansins og evrópureiknimiðstöðvarinnar verður gríðarleg breyting í heiðhvolfinu næstu daga og sýnir síðara kortið stöðuna eins og reikningar sýna hana verða á sunnudaginn kemur, 7. janúar.

w-blogg020113b

Við sjáum hér að lægðin hefur skipst alveg í tvennt og austanátt er ríkjandi norðan við lægðarmiðjurnar. Skammdegisröstin hefur slitnað í sundur. Þegar þetta gerist getur ástandið í bylgjumynstri veðrahvolfsins orðið mjög óstöðugt í nokkra daga á eftir með tilheyrandi hitabylgjum og kuldaköstum víða um norðurhvel. Áður en vit fór að verða í veðurspám meira en 1 til 3 daga fram í tímann þóttu snöggar breytingar í heiðhvolfinu hafa forspárgildi því tölvuspárnar náðu illa til heiðhvolfsins. En nú talast hvolfin tvö náið hvort við annað í líkönum.

En það er gaman að geta fylgst með svona risastórum breytingum í beinni útsendingu.


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 19
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 417
  • Frá upphafi: 2343330

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 375
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband