Allt í fjarska (sæmilega öruggri fjarlægð)

Nú ryðst gríðarkalt loft frá Labrador út yfir Atlantshaf í fáeinum gusum. Séu spár réttar munu þar myndast nokkrar mjög djúpar og krappar lægðir næstu vikuna. Sú fyrsta í syrpunni á að ná hámarksstyrk á laugardagskvöld (19. janúar). Lítum á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir seint um kvöldið.

w-blogg190113a

Jafnþrýstilínur eru svartar, strikalínur sýna hita í 850 hPa og litafletir úrkomu. Þetta kort skýrist mjög við stækkun. Gríðarkröpp 941 hPa lægð er rétt neðan við miðju kortsins. Hún er í hámarksafli. Yfir Labradorströnd má sjá -35 stiga jafnhitalínuna í 850 hPa og -5 stiga línan nær hálfa leið yfir Atlantshaf. Henni er spáð allt til Írlandsstranda um hádegi á mánudag og keppir þar við kulda úr hinni áttinni. Það er ábyggilega ekki mjög algengt að svona kalt sé í hreinni vestanátt á Írlandi - nærri því að maður trúi þessu varlega.

Einnig má sjá illviðri yfir Miðjarðarhafi. En Ísland er undir mildri suðaustanátt í jaðri fyrirstöðuhæðar - gæðajaðri (fyrir okkur).

Lægðarmiðjan á í þessu tilviki að berast rólega til norðurs og síðan norðvesturs - langt frá okkur en býr samt til eins konar undiröldu í lofthjúpnum sem berst til allra átta - aðallega til austurs en líka norður til Íslands. Þá herðir og dofnar á suðaustan- eða austanáttinni á víxl. Fleiri ámóta eða litlu minni lægðir munu síðan fara svipaða leið næstu viku til tíu daga - en engin þó nákvæmlega þá sömu. Ráðlegt er að trúa spám varlega marga daga fram í tímann.

Nú tekur nördasvæðið við.

Við lítum á fáein kort til viðbótar. Þau sýna öll ákveðna þætti lægðarinnar og eru klippt úr stærri kortum - batna því ekki mjög við stækkun.

 w-blogg190113b

Hér fer mynd af lægðarmiðjunni, eins og hún er í 850 hPa fletinum. Við getum sagt að gulu fletirnir sýni skil lægðarinnar. Jafnhæðarlínur eru svartar, sú innsta um 840 metrar. Vindörvarnar sýna gríðarmikinn vind. Hann er 100 hnútar (50 m/s) eða meira á svæði suðvestan við lægðarmiðjuna og er svipaður í 925 hPa-fletinum líka en sá flötur er í aðeins 130 m hæð í miðju lægðarinnar. Eins gott að þetta er allt yfir reginhafi.

Næsta kort sýnir aðstæður í 700 hPa.

w-blogg190113c

Jafnhæðarlínur eru svartar. Vindörvar sýna vindinn. Hann er ekki eins mikill þarna uppi í um 2500 metra hæð og hann er neðar. Litafletirnir sýna rakastig, á gráu svæðunum er það yfir 70%, en á þeim brúngulu er það minna en 15% og minna en 5% á þeim dekkstu þeirra. Svo þurrt verður loft ekki nema að það komi að ofan, hátt úr lofti, jafnvel nærri veðrahvörfum. Rauðu og bláu tölurnar sýna upp- og niðurstreymi - við sleppum þeim núna og eins rauðu strikalínunum. Þessi þurri niðurdráttur er oft kallaður þurra rifan í huglíkani sem kennt er við færibönd og hungurdiskar hafa fjallað um fyrir alllöngu. Hann er nærri því fastur liður í ört dýpkandi förulægðum og er tengdur (jæja - látum þær málalengingar bíða).

Svo eru það veðrahvörfin. Hin einu og sönnu eru mjög sjaldan sýnd á kortum en í staðinn er notast við fulltrúa þeirra - nærri því eins. Hann köllum við aflveðrahvörf(e. dynamic tropopause) í subbulegri hagkvæmni. Munur á þessum tveim bragðtegundum veðrahvarfa er yfirleitt ekki teljandi og hungurdiskar greina langoftast ekki á milli - en þar sem mikill niðurdráttur er á veðrahvörfunum greinast tegundirnar tvær að - en allt þetta er aukaatriði.

Við lítum á (afl-)veðrahvörf á tveimur kortum. Það fyrra sýnir þrýstihæð þeirra - og gildir kl. 18 á laugardagskvöldi 19. janúar.

w-blogg190113e

Á bláu svæðunum eru þau í yfir 250 hPa hæð, meir en 10 kílómetrum, á þeim grænu er hæð veðrahvarfanna um 8 kílómetrar, innan við 5 á dökkbrúnu svæðunum, síðan springur kvarði kortsins (viljandi) og talan 954 er sú lægsta sem líkanið sér. En - þetta er við sjávarmál, þrýstingur það er að sögn líkansins innan við 950 hPa. Ritstjórinn hættir sér ekki út í frekari vangaveltur - en skemmtilegt er dæmið.

Hitt veðrahvarfakortið sýnir mættishitann í þeim - þann hita sem loft fengi væri það dregið er niður að sjávarmáli.

w-blogg190113d

Tölurnar eru Kelvinstig (K = C° + 273), þær sýna að mættishiti í kalda loftinu (blátt) er innan við 290 K (17°C), neðri talan sýnir aðeins 6°C. Já, þetta er mjög kalt og kalda loftið er um það bil að hringa lægðarmiðjuna. Gulu fletirnir sýna mun hærri hita og þar með hærri veðrahvörf, 329 K = 56°C - alvanalegt á svæðinu. Inni í lægðarmiðjunni sést hins vegar talan 400 K = 127°C. Ástæða merkingarinnar er sú að líkanið finnur veðrahvörfin ekki (enda neðan sjávarmáls? samkvæmt því sjálfu). Þá er gripið til örþrifaráða og stokkið upp í 96 hPa og leitað þaðan niður á við - þá finnast stundum efri veðrahvörfin. Þetta virðist hafa verið gert hér - (skrýtið, en örþrifaráð er örþrifaráð).

Annars sjást þetta háar tölur alloft á korti þessarar gerðar - í bylgjubroti yfir fjöllum eða í námunda við háloftavindrastir í skrensi (þær skransa líka í kröppum beygjum - rétt eins og bílar). En þetta dæmi er sérlega stílhreint.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5
  • Slide4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 19
  • Sl. sólarhring: 205
  • Sl. viku: 1643
  • Frá upphafi: 2349603

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 1489
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband