Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Meiri landafræði - árstíðasveifla hita á norður- og suðurhveli

Í pistlinum á undan þessum fjallaði ég um það hvernig ársmeðalhiti á norðurhveli er háður breiddarstigi. Lítum nú á meðalárstíðasveiflu hitans á hvoru hveli jarðar fyrir sig sem og jarðarinnar í heild.

arstidasveifla-hvela

 Hér má sjá að mikill munur er á stærð sveiflunnar á hvelunum tveimur. Á norðurhveli (blár ferill) er hún 13,1°C (ekki ósvipuð þvi sem gerist hér á landi) en á suðurhveli aðeins 5,7°C (rauður ferill). Þetta stafar af því að haf þekur mun stærri hluta suðurhvels og þar er því meira úthafsloftslag. Norðurhvelið er líka að meðaltali lítið eitt hlýrra en suðurhvelið, 14,6°C á móti 13,4°C. Heildarmeðaltalið er um 14,0. Þessi tala er lítilsháttar breytileg eftir heimildum, hér er miðað við grein Hulme og Jones (1999).

Vegna þess að sól er á lofti allan sólarhringinn á heimskautasvæðunum á sumrin er inngeislun þar meiri en á sama tíma við miðbaug. Í desember, þegar sumar er á suðurpólnum, er meðalinngeislun þar 9,4 kWst á fermetra á dag, meðalgildi við miðbaug er 7,9 kWst á fermetra á dag, en 8,9 í júní á norðurpólnum. Mismunurinn á hásumargildum á pólunum (0,5) stafar af því að sól er fjær jörðu á norðurhvelssumrum en á vetrum.  

Möndulhalli jarðar er aðalástæða árstíðaskiptanna, en ef hann væri enginn væri samt lítilsháttar árstíðasveifla til staðar á Íslandi og þá líklega hlýjast í janúar eða snemma í febrúar, en kaldast í júlí. Þetta getum við kallað litlu árstíðasveifluna. Fyrir um 9 þúsund árum féllu hámörk litlu- og stóru sveiflunnar saman hér á norðurslóðum enda voru sumur þá nokkru hlýrri en nú er um meginhluta norðurhvels.

Nú er sólnánd í byrjun janúar, næst þ. 3. en hnikast aðeins til frá ári til árs vegna hlaupárakerfisins. Í færslu sinni fyrir 31. desember 1791 setur Magnús Ketilsson sýslumaður og veðuráhugamaður í Búðardal á Skarðsströnd orðið perihelíum, sólnánd, í athugasemd með veðurfærslu. Sólnándin hefur færst um 3 daga í átt til vors á þessum 200 árum sem liðin eru síðan. Þetta heldur síðan áfram hægt og bítandi veturinn á enda og fram á sumar.

Við vetrarsólhvörf er meðalinngeislun mest nærri syðri hvarfbaug, en lágmarkið er í heimskautamyrkri norðurslóða, stuttbylgjuinngeislun er þar þá engin. Í júní og júlí bregður svo við að mjög lítill munur er á inngeislun allt frá nyrðri hvarfbaug til norðurskauts, svipað á við á sumrin (des. til feb.) á suðurhveli.

Mjög hlýtt er langt norður eftir meginlöndunum á sumrin eins og geislunin bendir til en endurskin veldur þó því að hún nýtist ekki sem skyldi, sérstaklega fyrir sólhvörf þegar enn liggur mikill snjór á láglendi.

Á vetrum norðurhvels þekur snjór stór svæði á meginlöndunum, en hafís breiðir úr sér á vetrum suðurhvels. Suðurskautslandið er jökli hulið og endurskin þar því mjög mikið og inngeislunarhámarkið nýtist mjög illa. Hafís helst í kringum norðurskautið á sumrin og eykur hann og ekki síður skýjahulan (þokan) yfir honum mjög endurskin norðurslóða á sumrin.

Ef þurrt og snjólaust láglendi (eyðimörk) væri við norðurskautið væri sumarhiti þar 20 til 35 stig. Slíkt ástand næði að breyta hringrás mun meira en núverandi árstíðasveifla hita í íshafinu gerir. Inngeislun getur haldið uppi hita að allmiklu leyti stuttan tíma á sumrin, enda hlýnar á norðurslóðum þrátt fyrir að afköst varmaflutnings að sunnan minnki. Á vetrum norðurhvels er geislunarjöfnuður hins vegar neikvæður allt suður á 10°N. Í janúar getur snjóað á meginlöndunum suður undir hitabelti.

Afkastaþörf veðurkerfanna er minni á sumrin en á vetrum. En tökum eftir því að þótt afköst kerfisins aukist á vetrum, veður séu harðari og breytingar frá degi til dags meiri vantar samt upp á að þau aukist nóg. Það kólnar því svo um munar á haustin og veðrakerfin hafa ekki undan við að halda uppi hita á norðurslóðum þrátt fyrir aukna virkni.

Heimild (opin í landsaðgangi):

Representing twentieth-century space-time climate variability. Part I: Development of a 1961-90 mean monthly terrestrial climatology.  Hulme M, Jones P  JOURNAL OF CLIMATE   12 s 829-856


Hlýtt er á Íslandi - miðað við landfræðilega breidd

Ég held mikið upp á það sem kalla má „landafræði lofthjúpsins“. Ekki er þetta formleg fræðigrein en spannar hins vegar vítt svið, allt frá barnaskólalærdómi um árstíðaskiptin yfir í svæsnustu fræðigreinar um hringrás lofts og sjávar.

Flestir vita að hér á landi er mjög hlýtt miðað við það að landið er á 65° norðlægrar breiddar, rétt við heimskautsbauginn nyrðri. Ein ástæðan er sú að landið er umkringt sjó sem geymir í sér varma sumarsins og mildar veturinn. Þegar kemur að því að fara nánar út í þá sálma dýpkar á skýringum og verður loks að flækju sem fræðingar deila um á síðum vísindarita. Látum það gott heita - í bili alla vega. En við getum alla vega litið á punktarit sem sýnir eina staðreynd málsins.

Hiti eftir breiddarstigi

Á láréttum ás myndarinnar má sjá breiddarstig, 20 gráður norður eru lengst til vinstri, en norðurpóllinn lengst til hægri. Lóðrétti ásinn sýnir ársmeðalhita. Svörtu punktarnir sýna ársmeðalhita á 87 veðurstöðvum víða um norðurhvel jarðar. Gögnin eru úr meðaltalssafni Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) fyrir tímabilið 1961-1990. Við tökum strax eftir því að mjög gott samband er á milli breiddarstigs stöðvanna og ársmeðalhitans. Ef við reiknum bestu línu gegnum punktasafnið kemur í ljós að hiti fellur um 0,7 stig á hvert breiddarstig norður á bóginn.

Það má taka eftir því að á köldustu stöðinni er ársmeðalhitinn nærri mínus 20 stigum, ívið kaldara en hér er talið hafa verið á ísöld. Á þeirri hlýjustu er meðalhitinn um 27°C. Spönnin er um 47 stig. Hver skyldi hafa verið halli línunnar á ísöld?

Punktarnir ofan línunnar eru staðir þar sem hlýrra er en breiddarstigið eitt segir til um. Reykjavík er meðal þeirra. Sjá má að ársmeðalhitinn er um 6°C hærri en vænta má og svipaður og er að jafnaði á 55°N. Hafið (eða hvað sem það nú er) flytur Reykjavík 9° til suðurs í ársmeðalhita.  

Í viðhenginu (textaskrá) er taflan frá Alþjóðaveðurfræðistofnuninni. Þar má finna nöfn stöðva - sum kunna að vera ókunnugleg - en einnig er þarna staðsetning, breidd, lengd og hæð yfir sjó. Síðan eru bæði janúar- og júlíhitameðaltöl fyrir þá sem vilja meiri upplýsingar. Þeir geta þá leikið sér að því að búa til myndir fyrir mánuðina tvo.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þoka í Reykjavík

Þoka er ekki algeng í Reykjavík eða við Faxaflóa yfirleitt. Hún var varla til í mínum veðurheimi þegar ég var krakki. Þoku verður að meðaltali vart í Reykjavík í fimm nóvembermánuðum af hverjum sex og stendur yfirleitt mjög stutt hverju sinni. Ég var spurður að því á förnum vegi nú síðdegis hvernig á þessari þoku stæði og mér varð orðavant - en stundi þó upp einhverri líklegri skýringu. Þannig er - að til að geta svarað spurningunni heiðarlega hefði ég þurft að fylgjast með því hvernig hana bar að. Flestar þokur líta svipað út að innan - þó ekki alveg. Ég var hins vegar svo niðursokkinn í villur í gömlum veðurathugunum að athygli mín var ekki á myndun þokunnar.

Stutta skýringin er sú að þokan hafi myndast vegna kælingar á mjög röku lofti. Það gera reyndar flestar þokur. Hver er þá kælingarvaldurinn? Hvaðan kom raka loftið? Útgeislun er grunnástæða kuldans, yfirborð jarðar kólnar mjög hratt í björtu veðri. Var þetta þá útgeislunarþoka? Já, það er hugsanlegt, hún hefur þá myndast við þéttingu raka sem fyrir var yfir bænum.

Önnur tillaga er að rakt loft utan frá sjó hafi í mjög hægum vindi borist inn yfir land, en þar sem landið var mjög kalt (vegna útgeislunar) kólnaði loftið og rakinn í því þéttist. Hafi þokan myndast á þennan veg verður hún að kallast aðstreymis- frekar en útgeislunarþoka.  

thokugerd

Myndin sýnir tvær gerðir þoku, þá sem er þykkust neðst (oftast útgeislunarþoka) og þá sem er þykkust efst (aðstreymisþoka). Upp á myndunum er upp en af rauðu línunni má lesa hita og hvernig hann breytist með hæð. Þegar hann er á leið til hægri hlýnar upp á við, en annars kólnar. Hitaferillinn í a) á þó aðeins við í stutta stund eftir að þokan myndast. Eftir að hún er orðin til fer loft að kólna mest á efra borði þokunnar og hiti verður þá sá sami uppúr og niður úr. Hitaferillinn í b) sýnir dæmigerð hitahvörf*. Hiti fellur votinnrænt (0,6°C/100 m) upp að hitahvörfunum, hlýrra er þar fyrir ofan.

Sé þokan eins og á mynd a) sést mjög oft upp úr henni og sé hún nógu þunn nefnist hún dalalæða. Þar sem landslag er hæðótt eins og hér í Reykjavík er hún þykkust í kvosunum. Sé þokan eins og gerð b) er hún hins vegar oftast meiri á holtunum heldur en í kvosunum. Ég er ekki alveg viss um hvort var í dag. Kannski eins konar blanda. Svo er til þokutegund sem kallast blöndunarþoka. Hún er líklegust í rigningu, kannski verður þannig þoka í nótt?

En þokan í dag var hættuleg vegna ísingar sem myndaðist þegar dropar hennar lentu í árekstri við frostkalda hluti, enda var lúmsk hálka og ísing myndaðist fljótt á bílrúðum.

* : Ég hef alltaf vanist því að hitahvörf séu fleirtöluorð og nota því eintölumyndina hitahvarf ekki. Það gera hins vegar margir og ekkert við því að segja.


Þegar Miðjarðarhafið þornaði upp (veðursöguslef 9)

Fjallað var um míósenskeiðið í síðasta slefi. Þar kom fram að það endaði fyrir um 5,3 milljónum ára. Þeir nákvæmari segja 5 milljónir þrjúhundruð þrjátíu og þrjú þúsund ár plús eða mínus 5 þúsund ár. Míósen er skipt í sex undirskeið. Það síðasta er kennt við borgina Messíníu á Sikiley og finna menn það með því að gúgla messinian stageeða kíkja á Wikipediu. Messíníutímabilið hófst fyrir um 7,2 milljónum ára. Við borgina má finna mikil saltlög frá þessum tíma. Nafnið á tímabilinu er frá 19. öld.

Fyrir 40 til 50 árum kom í ljós, fyrst við endurkastsmælingar en síðan borkjarnatöku, að mikil saltlög liggja undir botni Miðjarðarhafs. Nánari rannsóknir hafa sýnt að þau eru aðallega frá síðari hluta Messíníutímabilsins, byrjuðu að myndast fyrir rétt tæpum 6 milljónum ára. Mörkin milli míósen og plíósen eru sett ofan við yngstu saltmyndunina.

Vegna landreks hafði mjög þrengt að Miðjarðarhafi og þegar lækka fór í heimshöfunum vegna íssöfnunar við suðurskautið lokaðist það af og gufaði smám saman upp. Þetta gerðist hvað eftir annað, sumir segja 10 sinnum aðrir allt að 40 sinnum, svo þykk eru saltlögin. Á hlýskeiðum, þegar mikið af is bráðnaði á Suðurheimskautslandinu rann inn í hafið aftur framhjá Gíbraltar. Alls settust um milljón rúmkílómetrar af salti til en það er miklu meira en leggst til við eina þornun.

Rétt er að benda á að úrkomu/uppgufunarjafnvægi er einnig með þeim hætti nú á dögum við Miðjarðarhaf að væri Gíbraltarsundi lokað myndir það einnig gufa upp við núverandi veðurlag. Sagt er að það tæki aðeins 1000 ár. Fáeinir lesendur, einkum þeir eldri kannast e.t.v. við Herman Sorgel og hugmyndir hans frá árinu 1929 um að stífla Gíbraltarsundið, láta uppgufun síðan sjá um að lækka Miðjarðarhafið um nokkur hundruð metra þannig að innstreymið yrði virkjanlegt. Auk þess sköpuðust miklir möguleikar á uppbyggingu þeirra svæða sem kæmu undan sjó. Sorgel hafði einnig uppi áætlanir um að búa til vötn í Sahara og fleira. Er hér efni til margra stunda af gúgli fyrir áhugasama. En mjög langt var í að hann vildi tæma Miðjarðarhafið eins og náttúran gerði sjálf.

Allt þetta salt hvarf heimshöfunum og talið er að selta hafi við það lækkað um tvö hagkvæmnisseltustig (psu). Nú, vatnið sem hvarf úr Miðjarðarhafi féll síðan sem regn sem barst heimshöfunum og nægir það til um 15 metra hækkunar á sjávarborði. Á undanförnum árum hafa menn verið með vangaveltur um þessa seltulækkun og áhrif hennar á djúpsjávarhringrásina. Mjög skiptar skoðanir eru um hvort þetta hafi skipt máli eða ekki. Í augnablikinu eru þeir í meirihluta sem telja að þetta hafi engu skipt í meginatriðum, en ég er sjálfur veikur fyrir hinu gagnstæða af ástæðum sem ekki verða raktar hér.

Eftir því sem Miðjarðarhafið gufaði upp varð það saltara og saltara, svo salt að nánast allt líf hefur drepist. Líklegt er talið að saltvötn hafi verið til staðar þar sem dýpið er allra mest. Þarna hefur verið mjög athyglisvert veðurlag svo ekki sé meira sagt. Tvö þúsund metrar undir sjávarmáli gefa tilefni til mikils hita við réttar aðstæður. Kannski hefur hitinn komist í 75 stig þegar mest varð?

midjardarhafsstrokur

Nú er yfirborð Miðjarðarhafsins í jafnvægi og Gíbraltarsund það djúpt að strókur af söltum sjó gengur út úr því og berst langt út á Atlantshaf. Hér er í gangi tilraun til að rjúfa kuldahvelið með þungum hlýsjó og hægt að ímynda sér hvað getur gerst þegar lítil myndun af mjög köldum djúpsjó á sér stað á norður- og suðurslóðum. Rétt er að taka það fram að slíkt stendur ekki til.

Þótt ítrekuð uppgufun Miðjarðarhafsins sé stórviðburður í jarðsögunni er þó ennþá meira rúmmál af vatni á ferðinni í stórjökulhvelum ísaldar. Miðjarðarhafið er um 15 m af sjó, en stórjökulskeiðin yfir 120 m og enn eru tugir metra á lager í jökulís nútímans.


Mikill hitamunur á milli stöðva

Stundum gerist það að mikill munur er á hita á nálægum veðurstöðvum. Þannig var það í morgun (mánudaginn 15. nóvember) að kl.9 var 13,0 stiga frost á Hvanneyri en frostið var aðeins 0,2 stig á Hafnarmelum (við Hafnará) á sama tíma. Þá var 3,3 stiga frost á stöð Landsnets við byggðalínuna á Skarðsheiði (Skarðsheiði-Miðfitjahóll) en hún er í um 480 m hæð yfir sjó.

Kl. 6 um morguninn var frostið á Hafnarmelum 8,2 stig, en 12,3 á Hvanneyri og 4,0 við Miðfitjahól. Í hægum vindi og björtu veðri er alloft kaldara á Hvanneyri heldur en í Skarðsheiðinni, þótt 8-10 stig séu með mesta móti.

horn_t

Kortið sýnir svæðið frá Hvalfirði og Akrafjalli í suðri og norður fyrir Borgarnes og Hvanneyri. (Kortagrunnur af vef Landmælinga). Hvanneyri (efsta stjarnan) er neðarlega í breiðum dal þar sem loft leitar í hægðum sínum til sjávar og kólnar á meðan. Þetta loft leitar út með Hafnarfjallinu og þaðan út á sjó. Þar blandast það upp og hlýnar.

Miðfitjahóllinn (stjarna hægra megin við miðja mynd) var í morgun kominn áhrifasvæði hlýrra lofts sem sótti að landinu, Skarðsheiðin hefur e.t.v aðstoðað við blöndun að ofan. Vindur var ekki nægilega mikill til að raska við kalda loftinu neðan mikilla hitahvarfa milli stöðvanna. Kl. 6 var eins og að ofan sagði enn 8 stiga frost á Hafnarmelum og sú stöð (stjarnan til vinstri á myndinni) því enn neðan hitahvarfanna rétt fyrir ofan. Það kalda loft sem þar ríkti hefur annað hvort verið komið ofan úr Borgarfirði eða úr öðru köldu framrásarsvæði sem oft liggur til sjávar um Leirársveit.

Milli kl. 8 og 9 hlýnaði snögglega á Hafnarmelum. Lágmarkshiti þeirrar klukkustundar var -6,9 stig, en hámarkið +0,1 stig. Þetta gerðist reyndar á 10-mínútum (8:40 til 8:50), ótrúlegt, 7 stig á 10-mínútum. Á Hvanneyri dreifðist hlýnunin á nokkrar klukkustundir enda hafði sá staður í þessari vindátt ekki aðgengi að hlýju lofti beint ofan af Hafnarfjalli eins og Hafnarmelastöðin. Kl. 9 var hitamunur á Hafnarmelum og Miðfitjahól 3 stig. Hæðarmunurinn er um 460 metrar. Hefði loft á báðum stöðum verið fullblandað hefði hitamunurinn átt að vera 4,6 stig. Það þýðir sennilega að að niðurstreymið hefur komið ofar að á Hafnarmelum heldur en við Miðfitjahól.

Hitasveiflur sem þessar sjást vel á bílahitamælum og oft mjög fróðlegt að fylgjast með hegðan þeirra svo lengi sem það ekki truflar aksturslagið.


Gamalt lágþrýstimet í nóvember

Lágþrýstimet nóvember er orðið ansi gamalt, elst mánaðalágþrýstimetanna, frá 18. nóvember 1883. Það er aðeins hærra en þrýstimet október, 940,7 hPa en sett á sama stað, í Vestmannaeyjum. Ég er að vísu ekki alveg rólegur yfir tölunni. Hugsanlegt er að ofan á hana vanti svokallaða þyngdarleiðréttingu en hún er um 1,4 hPa. Vonandi upplýsist um það síðar.

met-pn-1883-11

Kortið er úr tölvuiðrum í Ameríku (20thC Reanalysis v2/NOAA/ESRL). Það gengur kraftaverki næst að tekist hefur að endurskapa loftþrýsting yfir Norður-Atlantshafi þennan dag, kortið gildir kl.18. Línurnar sýna hæð 1000 hPa flatarins í stað þrýstingsins sjálfs, á 40 metra bili, en 40 metrar eru jafngildir 5 hPa. Hæð 1000 hPa flatarins í lægðarmiðju er -480 metrar og jafngildir það 940 hPa sjávarmálsþrýstingi.

Ekki er ótrúlegt að lægðin hafi í raun og veru verið dýpri. Endurgreiningin er ekki gerð nema með 2x2 gráða upplausn og smáatriði eins og krappar miðjur lægða týnast oftast. Lægðin grynntist ört og fór til norðausturs fyrir suðaustan land. Líklegt er að úrkoma hafi þá verið mikil norðaustan- og austanlands. Nokkrir tugir mm mældust á Teigarhorni og þar gerði norðan storm þann 19. Á undan skilum lægðarinnar var stormur eða rok af austri og norðaustri víða um land.  

Oft er hætta á tjóni þegar lægðir eins og þessi fara hjá. Tjón samfara þessari lægð er þó ekki alveg á hreinu. Í Suðurnesjaannál segir:

Brim gerði mikið á útsunnan 17. nóv. með fjarska miklu flóði í hálfsmækkuðum straumi, sem svo mikið kvað að, að allan túngarðinn braut fyrir Útskálatúni, Lónshúsa og Lambastað og hefur ekki í annan tíma meri að orðið. Mikið braut og upp á tún suður á nesi.

Mánuði síðar, 18. desember gerði mikið sjávarflóð víða um vestanvert landið, frá Suðurnesjum og vestur á firði. Trúlega er hér um einhvern dagarugling að ræða. Einkennilegt er að í Vestfirskum slysadögum er getið um mikið flóð á Flateyri 20. og 23. nóvember. Svo vill til að veðurathuganir voru á Flateyri á þessum tíma, þar fréttist ekki af neinu flóði - fyrr en 18. desember að gerði eitthvert versta sjávarflóð sem vitað er um á Flateyri. Veðurathugunarmaður lýsir því. 

Mjög líklegt er að sjávarflóð hafi orðið við suðurströndina samfara lægðinni djúpu og því einhvern veginn slegið saman við flóðið mánuði síðar. Veðrið þann 18. nóvember var hins vegar ekki af útsuðri eins og lýst Suðurnesjaannáll greinir. Hér er einhver maðkur í mysu og vel má vera að með ítarlegri rannsókn megi greina flóðaatburði nóvember og desember betur að.  

 


Snjóamet í nóvember

Nú hefur snjóað mikið sums staðar austan Tröllaskaga og talsverður snjór er norðantil á Vestfjörðum. Snjódýptin var talin 60 cm á Akureyri á laugardagsmorgni og vísast að hún verði orðin meiri á sunnudag. Snjódýpt er mæld einu sinni á dag, kl.9 að morgni. Snjódýptarmet Akureyrar í nóvember er 70 cm, frá 22. degi mánaðarins 1972. Íslandsmetið, 155 cm var sett sama dag á Sandhaugum í Bárðardal. Langt er í það met, en stutt í Akureyrarmetið.

Snjódýptarmælingar eru erfiðar víða á landinu, sérstaklega þar sem mikil hreyfing er á snjó. Snjódýpt hefur verið mæld á fáeinum stöðvum frá því um miðjan þriðja áratuginn, en voru heldur slitróttar fram undir 1964. Fyrir 1965 vantar auk þess nokkuð af mælingum í tölvugagnagrunn Veðurstofunnar en vonandi verður það sem út af stendur sett þar inn um síðir.

Skráin sem hér fylgir sýnir mestu snjódýpt í nóvember á öllum veðurstöðvum landsins. Fyrst er tafla sem nær aftur til 1961 en neðar í skjalinu er tafla með hæstu tölur fram til þess tíma. Líklegt er að villur leynist í skránni og væri gott að frétta af því frá eftirtektarsömum lesendum.

Mesta snjódýpt í Reykjavík í nóvember mældist 24. dag mánaðarins 1978. Snjókoman þá og dagana á undan er mjög minnisstæð enda féll snjórinn í nokkrum óvenjulegum og kröppum smálægðum sem gengu yfir landið hver á fætur annarri. Á erlendum málum kallast smálægðir af þessu tagi pólarlægðir og það nafn gengur svosem á íslensku þar til betra finnst. Myndir af nóvemberlægðunum 1978 rötuðu meira að segja í erlend veðurfræðitímarit.

Afrit af þessum myndum eru einhvers staðar í hrúgunni hjá mér. Ég hafði ekki miklar áhyggjur af velferð þeirra þar sem þær voru síaðgengilegar á vef Dundee-gervihnattamóttökunnar, en nú eru þær ekki þar lengur enda er engu að treysta í varðveislumálum eins og flestir vonandi vita. En vonandi að Dundee hressist. Vel má einnig vera að ég finni myndirnar hjá sjálfum mér og gæti þá sýnt þær hér á blogginu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bækur sem minnst var á í halstjörnupistli

Þessi pistill er viðbót við þann næsta á undan. 

Fyrst er að minnast á yfirlitsgrein um umhverfisáhrif loftsteina og halastjörnuáhrifa sem birtist í Review of Geophysics 1997. Þar er fjallað á ítarlegan hátt um stærðarróf atburða, allt frá þeim smáu upp í stærstu.

Toon, Turco og Covey (1997). Environmental Perturbations Caused by the Impacts of Asteroids and Comets. Review of Geophysics 35, 1. s 41-78

Gardner (1957, 2.útgáfa) Fads and Fallacies in the Name of Science.

Þessi útgáfa bókarinnar er enn fáanleg og er skyldulesning fyrir flesta - verst að hún skuli aldrei hafa verið þýdd á íslensku.  Sérstök umfjöllun er um bókina á Wikipediu og þar má einnig finna ISBN-númerið. Gardner skrifaði tvær aðrar bækur um sama efni á níunda áratugnum. Báðar eru þær góðar en komast samt ekki með tærnar þar sem fyrsta bókin hefur hælana. Þar eru þó margar góðar greinar, t.d. um bókasafnsátökin um Galdrakarlinn í Oz sem vekja furðu.

Velikovski (1950, nýjasta útgáfa 2009). Worlds in Collision.

Nýjasta útgáfan er fáanleg og fær 5 stjörnur í einkunna á Amazon. Það er ekki ástæðulaust. Víða er fjallað um hann, verk hans og gagnrýni á þau á netinu. Hann skrifaði síðar fleiri bækur um hugmyndir sýnar, þær eru síðri en þær fyrsta eiga þó marga spretti. Við liggur að honum takist að sannfæra menn um að tímatal fornaldarmannkynssögu sé vitlaust, tengjast þá Ödípus hinn gríski og Aknaton faraó saman á óvæntan hátt.

Velikovski (1982) Mankind in Amnesia

Þessi bók virðist ekki fáanleg nema á fornsölum en fjallar um það atburðir þeir sem hann lýsir hafi haft djúpstæð áhrif á mannkynið og það hafi skipulega bælt allar minningar um það á svipaðan hátt og getur gerst hjá einstaklingum. Þessi bók má alveg missa sig.

Clube og Napier (1990) Cosmic Winter

Bókin virðist ekki fáanleg nema á fornsölum, Amazon auglýsir hana á 100 pund. Bókin var skrifuð sem áhersluauki við eldri bók þeirra félaga, The Cosmic Serpent (1982) og ég hef ekki lesið. Hér róa þeir félagar á mið Velikovskis nema hvað þeirra saga er mun líklegri út frá vísindalegu sjónarhorni. Á árinu 2003 skrifaði Clube stutta grein um grunn hugmynda sinna í fræðitímaritið Astrophysics and Space Science (285, s.521-532): An excetptional cosmic influence and ifs bearing on the evolution of human culture in the apparent early development of mathematics and astronomy. Mér sýnist á Web of Science að menn hafi forðast að vitna í hana. Sjálfum finnst mér þessar hugmyndir ansi langsóttar, en ég er hvorki stjörnu- né vísindasagnfræðingur. Menn geta lesið greinina um landsaðgang fræðirita en hér nægir að segja að halastjarnan Encke leikur aðalhlutverk.

Baillie (1999) Exodus to Arthur.

Þessi bók er uppseld en fæst notuð í gegnum Amazon á nokkur pund. Hún gengur út frá svipuðu og Cosmic Winter, nema hvað lengra er gengið. Halastjarna féll í írska hafið um árið 540. Höfundurinn er vel þekktur trjáhringjafræðingur og er sjálfsagt að skemmta sér. Bókin er óþarflega löng og verður þreytandi. Hugmyndin er með miklum ólíkindum.

Frank (1994) The Big Splash 

Fáanleg á fornsölum. Bráðskemmtileg hugmynd meðan hún var á síðum jarðeðlisfræðirita en hér er höfundurinn farinn að verða örvæntingarfullur. Ekki vilja menn þó neita að kjarni geti falist í hugmyndum hans um endurnýjun vatns á jörðinni.


Loftsteina- og halastjörnuárekstrar

Það sem gerist á jörðinni hefur ekki áhrif á sólina, þess vegna er hún að sjálfsögðu talin í hópi ytri mótunarþátta veðurfars. Plánetur sólkerfisins hafa áhrif á braut jarðarinnar og breytingar á henni eru því einnig taldar til ytri mótunarþátta. Fjallað var um brautarþættina í fyrra bloggi. Hér var ætlunin að fjalla um á þriðja utanaðkomandi mótunarþáttinn, loftsteina- og halastjörnuárekstra, en pistillinn endar á öðrum nótum.

Þegar gripið var til loftsteins sem skýringar á skyndidauða risaeðlustofna og margra fleiri dýrategunda á mótum Miðlífs- og Nýlífsaldar greip um sig rótgróin varnarstaða þeirra sem vilja helst ekki heyra loftsteina nefnda. Þegar ég var í háskóla voru þessi miklu jarðsöguskeið yfirleitt tengd veðurfarsbreytingum og jafnframt að þau hefðu tekið milljónir ára. En á síðari árum hefur sú skoðun  ofan á að árekstur jarðar við loftstein hafi valdið gríðarlegum hamförum um alla jörð. Þykkur mökkur hafi byrgt fyrir sólarljósið um nokkurra mánaða skeið og dregið svo mjög úr ljóstillífun að plötur hafi sölnað og dýr því næst orðið hungurmorða.

Fjölmargar rannsóknir styðja hugmyndina en hún hefur þó ekki náð núverandi fylgi nema vegna þess að sífellt er verið að reyna að skjóta hana niður. Nú hefur álitið breyst í þá veru að sífellt er gripið til loftsteina- og halastjörnuárekstra þegar á að skýra einhverjar óræðar og fornar náttúrufarsbreytingar. Ljóst þykir að minni árekstar hafi orðið öðru hverju síðan. Sveiflumenn hafa jafnvel blómstrað með köflum, en satt best að segja eru rök þeirra oftast rýr í roðinu þótt skýringarnar séu skemmtilegar. Menn geta t.d. flett upp dauðastjörnunni svonefndu, Nemesis, á netinu, stjörnuaumingja á útheiðum sólkerfisins sem á að senda okkur halastjörnudrífur með reglulegu millibili. Ég held að hugmyndin sé dauð, en hún gengur sjálfsagt aftur í öðru gervi síðarmeir. Nemesis er þó alvöru hugmynd sem hægt er að ræða.

Þótt atburðir sem þessir hafi gríðarleg áhrif á lífríkið og þróun tegundanna er vafasamt að þeir hafi haft bein áhrif á veðurlag til lengri tíma. Loftsteinar (fullhógvært nafn fyrir þá stærri) geta hvað veðurlag varðar aðeins haft áhrif á þann hátt að þeyta upp ryki sem getur haldist í háloftum í nokkur ár. Ekkert sérstakt ósamkomulag er um að veðurlag einstakra ára eða áratuga gæti af þessum sökum farið illa úr skorðum sé loftsteinninn (eða halastjörnukjarninn) nógu stór.

Halastjörnur, ryk og vatn þeim samfara hafa gefið svigrúm til vangaveltna sem hafa verið þrálátar sem skýring á veðurfarssveiflum allt frá árum upp í milljarða ár. Hér er ekki vettvangur til að rekja þau mál en rétt er að benda lesendum á að langmest sem skrifað hefur verið um halastjörnur og veðurlag telst fremur til afþreyingarbókmennta en veðurfræði.

Ég gæti hér rakið langan hala þeirra bókmennta en hef vart þrek til að gera það. Vegna þess að svo margt af þessu hefur skemmt mér svo vel í gegnum tíðina verð ég eiginlega að nefna nokkur dæmi án þess að fara út í nánari sálma. Netið er óskaplega góður akur vísinda (sjáið t.d. hvar.is) en jaðarvísindi og óvísindi spretta jafnvel enn betur.

Skemmtilegustu bækurnar eru reyndar gamlar. Fyrsta yfirlitsrit Martin Gardners um bullvísindi: Fads and Fallacies in the name of Sciencevar síðast þegar ég vissi enn fáanleg þótt hún sé yfir 50 ára gömul. Þar koma eldri veðurfars- og halastjörnuhugmyndir nokkuð við sögu - m.a. kenningar Hörbingers hins þýska um ísaldir - ótrúlegt að nasistar skyldu taka þær alvarlega - en þeir tóku reyndar ýmislegt mun verra alvarlega. Gardner fjallar einnig um sígildar kenningar Immanuel Velikovski um áhrif ja - þið verðið bara að lesa þetta.

Fyrsta bók Velikovski, Worlds in Collisionkom út um 1950 og við lá að útgáfufyrirtækið Doubleday væri sett út af vísindasakramentinu og þegar ég var í háskóla þurftu vísindamenn enn að berjast við Velikovski, trúaðir voru svo sannfærðir um réttmæti þess sem hann skrifaði. Velikovski var sálfræðingur að mennt (þeir voru margir góðir, m.a. lofttegundarfræðingurinn Reich) og hélt því fram í alvöru að vísindaheimurinn og vísindamenn hefðu ekki sálarstyrk til að ræða um kenningar hans, hvort síðasta bók hans hét Mankind in Amnesia (Minnislaust mannkyn) eða eitthvað þannig. En endilega lesið bækur hans, sérstaklega þá fyrstu, hún er alltaf fáanleg. En varist að trúa einu orði, þetta eru vísindavillubókmenntir af slægustu gerð.

Síðan Velikovski leið hefur verið erfitt fyrir vísindamenn að nefna árekstra í sólkerfinu án þess að án þess að þeir verði samstundis verið úthrópaðir villutrúarmenn. Ég held að andstaðan við risaeðlusteininn hafi á sínum tíma að hluta til verið andstaða gegn Velikovsky.

Síðari spámenn sem hafa dottið út af sakramentinu vegna þess sem talin er væg Velikovskivilla eru írskir. Bækurnar Exodus to Arthur og Cosmic Wintereru þar framarlega í flokki villubókmennta. Sannfærandi? Já, að vissu marki. Cosmic Winter er þó nærri því í lagi, aðalhöfundur (Clube) er halastjörnufræðingur og höfundur fræðibókar um þær. Höfundur hinnar bókarinnar var virtur trjáhringjafræðingur - ég veit ekki hversu alvarleg bannfæring hans er - en bókin er ótrúleg aflestrar.

Nær raunverulegri vísindadeilu er bók sem ber nafnið The Big Splashog segir frá kenningu um að allt vatn á jörðu sé upprunnið í halastjörnum, hvernig þá? Jú, 42 þúsund dverghalastjörnur kvu rekast á jörðina á hverjum degi, ein fannst. Deilan um þetta var í alvöru og átti sér stað árum saman á síðum virðulegra tímarita Bandaríska jarðeðlisfræðifélagsins. Ég hef lítið af þessu frétt í 15 ár eða svo, en ég held að hugmyndin sé enn ekki alveg dauð. Biblíulegar tilvitnanir komu ekkivið sögu eins og í bókunum sem minnst var á að ofan. Slíkar tilvitnanir eru yfirleitt illa séðar í vísindaritum - nema sem spakmæli.

Nú verð ég að fara að sofa. Ég kem á morgun eða næstu daga með almennilegan lista yfir bækurnar sem ég hef minnst á hér að ofan - og ef til vill fleiri.


Köld nóvemberbyrjun

Ég hef verið langorður upp á síðkastið enda er mér það lagið ef ég á annað borð kemst af stað. En nú skal halda textanum í skefjum.

Nóvember byrjar kuldalega, meðalhiti fyrstu 11 dagana í Reykjavík er 0.0 stig. Ég hef reiknað út „samband“ milli hita fyrstu 11 dagana og mánaðarmeðalhitans frá 1949. Hrátt aðfallsmat segir að mánaðarmeðalhitinn nú verði 0,6 stig. Hæsti meðalhiti í nóvember í Reykjavík var 1945, 6,1 stig. Metjöfnunarhiti á hverjum einasta degi afgang mánaðarins myndi ekki duga til að ná nema um 5,7 stigum. Ekki er beinlínis útlit fyrir það. Ef metjöfnunarkuldi yrði á hverjum einasta degi afgang mánaðarins yrði meðalhiti hans -4,9 stig, það væri met, nema ef við teljum nóvember 1824 með, þá var meðalhitinn -5,6 stig í Reykjavík. Næstlægsta talan -2,9 stig er frá 1865 og ekki mjög örugg heldur.  

Þessar staðreyndir og fleira má sjá á línuriti sem ég hef útbúið og fylgir með í viðhengi. Myndin þolir stækkun (fyrir klaufaskap minn þó ekki mikla) þannig að ártöl eiga að vera lesanleg sé stækkað. Að öðru leyti telst myndin vera krossgáta dagsins fyrir veðurnördin.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband