Mikill hitamunur á milli stöðva

Stundum gerist það að mikill munur er á hita á nálægum veðurstöðvum. Þannig var það í morgun (mánudaginn 15. nóvember) að kl.9 var 13,0 stiga frost á Hvanneyri en frostið var aðeins 0,2 stig á Hafnarmelum (við Hafnará) á sama tíma. Þá var 3,3 stiga frost á stöð Landsnets við byggðalínuna á Skarðsheiði (Skarðsheiði-Miðfitjahóll) en hún er í um 480 m hæð yfir sjó.

Kl. 6 um morguninn var frostið á Hafnarmelum 8,2 stig, en 12,3 á Hvanneyri og 4,0 við Miðfitjahól. Í hægum vindi og björtu veðri er alloft kaldara á Hvanneyri heldur en í Skarðsheiðinni, þótt 8-10 stig séu með mesta móti.

horn_t

Kortið sýnir svæðið frá Hvalfirði og Akrafjalli í suðri og norður fyrir Borgarnes og Hvanneyri. (Kortagrunnur af vef Landmælinga). Hvanneyri (efsta stjarnan) er neðarlega í breiðum dal þar sem loft leitar í hægðum sínum til sjávar og kólnar á meðan. Þetta loft leitar út með Hafnarfjallinu og þaðan út á sjó. Þar blandast það upp og hlýnar.

Miðfitjahóllinn (stjarna hægra megin við miðja mynd) var í morgun kominn áhrifasvæði hlýrra lofts sem sótti að landinu, Skarðsheiðin hefur e.t.v aðstoðað við blöndun að ofan. Vindur var ekki nægilega mikill til að raska við kalda loftinu neðan mikilla hitahvarfa milli stöðvanna. Kl. 6 var eins og að ofan sagði enn 8 stiga frost á Hafnarmelum og sú stöð (stjarnan til vinstri á myndinni) því enn neðan hitahvarfanna rétt fyrir ofan. Það kalda loft sem þar ríkti hefur annað hvort verið komið ofan úr Borgarfirði eða úr öðru köldu framrásarsvæði sem oft liggur til sjávar um Leirársveit.

Milli kl. 8 og 9 hlýnaði snögglega á Hafnarmelum. Lágmarkshiti þeirrar klukkustundar var -6,9 stig, en hámarkið +0,1 stig. Þetta gerðist reyndar á 10-mínútum (8:40 til 8:50), ótrúlegt, 7 stig á 10-mínútum. Á Hvanneyri dreifðist hlýnunin á nokkrar klukkustundir enda hafði sá staður í þessari vindátt ekki aðgengi að hlýju lofti beint ofan af Hafnarfjalli eins og Hafnarmelastöðin. Kl. 9 var hitamunur á Hafnarmelum og Miðfitjahól 3 stig. Hæðarmunurinn er um 460 metrar. Hefði loft á báðum stöðum verið fullblandað hefði hitamunurinn átt að vera 4,6 stig. Það þýðir sennilega að að niðurstreymið hefur komið ofar að á Hafnarmelum heldur en við Miðfitjahól.

Hitasveiflur sem þessar sjást vel á bílahitamælum og oft mjög fróðlegt að fylgjast með hegðan þeirra svo lengi sem það ekki truflar aksturslagið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 256
  • Sl. sólarhring: 410
  • Sl. viku: 1572
  • Frá upphafi: 2350041

Annað

  • Innlit í dag: 228
  • Innlit sl. viku: 1431
  • Gestir í dag: 225
  • IP-tölur í dag: 218

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband