Gamalt lágþrýstimet í nóvember

Lágþrýstimet nóvember er orðið ansi gamalt, elst mánaðalágþrýstimetanna, frá 18. nóvember 1883. Það er aðeins hærra en þrýstimet október, 940,7 hPa en sett á sama stað, í Vestmannaeyjum. Ég er að vísu ekki alveg rólegur yfir tölunni. Hugsanlegt er að ofan á hana vanti svokallaða þyngdarleiðréttingu en hún er um 1,4 hPa. Vonandi upplýsist um það síðar.

met-pn-1883-11

Kortið er úr tölvuiðrum í Ameríku (20thC Reanalysis v2/NOAA/ESRL). Það gengur kraftaverki næst að tekist hefur að endurskapa loftþrýsting yfir Norður-Atlantshafi þennan dag, kortið gildir kl.18. Línurnar sýna hæð 1000 hPa flatarins í stað þrýstingsins sjálfs, á 40 metra bili, en 40 metrar eru jafngildir 5 hPa. Hæð 1000 hPa flatarins í lægðarmiðju er -480 metrar og jafngildir það 940 hPa sjávarmálsþrýstingi.

Ekki er ótrúlegt að lægðin hafi í raun og veru verið dýpri. Endurgreiningin er ekki gerð nema með 2x2 gráða upplausn og smáatriði eins og krappar miðjur lægða týnast oftast. Lægðin grynntist ört og fór til norðausturs fyrir suðaustan land. Líklegt er að úrkoma hafi þá verið mikil norðaustan- og austanlands. Nokkrir tugir mm mældust á Teigarhorni og þar gerði norðan storm þann 19. Á undan skilum lægðarinnar var stormur eða rok af austri og norðaustri víða um land.  

Oft er hætta á tjóni þegar lægðir eins og þessi fara hjá. Tjón samfara þessari lægð er þó ekki alveg á hreinu. Í Suðurnesjaannál segir:

Brim gerði mikið á útsunnan 17. nóv. með fjarska miklu flóði í hálfsmækkuðum straumi, sem svo mikið kvað að, að allan túngarðinn braut fyrir Útskálatúni, Lónshúsa og Lambastað og hefur ekki í annan tíma meri að orðið. Mikið braut og upp á tún suður á nesi.

Mánuði síðar, 18. desember gerði mikið sjávarflóð víða um vestanvert landið, frá Suðurnesjum og vestur á firði. Trúlega er hér um einhvern dagarugling að ræða. Einkennilegt er að í Vestfirskum slysadögum er getið um mikið flóð á Flateyri 20. og 23. nóvember. Svo vill til að veðurathuganir voru á Flateyri á þessum tíma, þar fréttist ekki af neinu flóði - fyrr en 18. desember að gerði eitthvert versta sjávarflóð sem vitað er um á Flateyri. Veðurathugunarmaður lýsir því. 

Mjög líklegt er að sjávarflóð hafi orðið við suðurströndina samfara lægðinni djúpu og því einhvern veginn slegið saman við flóðið mánuði síðar. Veðrið þann 18. nóvember var hins vegar ekki af útsuðri eins og lýst Suðurnesjaannáll greinir. Hér er einhver maðkur í mysu og vel má vera að með ítarlegri rannsókn megi greina flóðaatburði nóvember og desember betur að.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Og nú er hægt að skoða kortin alveg til 1871, kalda veturinn 1881 og allt!

Sigurður Þór Guðjónsson, 15.11.2010 kl. 18:09

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Já, já, en sum kortin eru býsna vitlaus. Fyrir 1874 eru t.d. engar upplýsingar frá Íslandi notaðar við gerð kortanna og villur eru því mjög stórar. Sömuleiðis er tímabilið 1874 til 1880 áberandi verra heldur en árin milli 1881 og 1890. Þannig komast t.d. sum illviðri frostavetursins mikla 1880-1881 illa til skila og sömuleiðis vantar nokkuð upp á afl frostavetursins 1918. En kortin eru samt mikið kraftaverk. Nú er verið að setja ný gögn inn í líkanið, en mest í öðrum heimshlutum. Ef þau verða keyrð inn strax er óvíst hversu mikið ástandið batnar hjá okkur þótt það batni annars staðar.

Trausti Jónsson, 15.11.2010 kl. 18:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (24.5.): 34
 • Sl. sólarhring: 83
 • Sl. viku: 1502
 • Frá upphafi: 2356107

Annað

 • Innlit í dag: 34
 • Innlit sl. viku: 1407
 • Gestir í dag: 34
 • IP-tölur í dag: 34

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband