Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Enn um snjó í Reykjavík, nú á 19. öld

Snjóhuluathuganir Veðurstofunnar byrjuðu í Reykjavík í janúar 1921. Danska veðurstofan athugaði snjóhulu ekki sérstaklega - aðeins snjókomudagafjölda. Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur athugaði snjóhulu í Reykjavík um nokkurra ára skeið. Ekki gerir hann grein fyrir athugunarháttum sínum - nefnir aðeins tölu um fjölda alhvítra daga í mánuði. En við skulum trúa honum þar til annað kemur í ljós. Tölurnar birti hann í því mikla riti Lýsing Íslands (2. bindi bls. 359, í útgáfu frá 1932).

árjanfebmaraprmaíjúnjúlágúsepoktnóvdes    árvetur
1889        02923  
1890311516000000410128896
1891131330200000110269584
189225292460000     121
1893        22527  
189414281400000012238292
189518385         60

m7100151312400000171364,765

Ég hef sett meðalfjölda alhvítra daga 1971 til 2000 neðan við töfluna til samanburðar. Dálkurinn sem merktur er ár sýnir fjölda alhvítra daga það árið, en dálkurinn sem merktur er vetur sýnir fjölda alhvítra daga í snjóárinu, frá september að hausti, til og með apríl árið sem talan er sett við. Ekki eru nema þrjú heil ár í yfirlitinu, þar sýnist að snjór hafi legið á jörðu 20 til 30 dögum lengur en að meðaltali 1971 til 2000. Síðasti veturinn er nærri meðallagi, en snjór lá á jörðu í 121 dag mesta snjóaveturinn í töflu Þorvaldar. Þetta er meira en varð nokkurn tíma á tímabilinu 1922 til 2010, hæsta gildi síðari tíma er 105 dagar, veturinn 1983 til 1984. Nú verður enn að taka fram að ekki er víst að allir snjódagar Þorvaldar hefðu  komist í röð þeirra alhvítu að mati Veðurstofunnar.  

Í neðanmálsgrein kynnir Þorvaldur töfluna með þessum orðum:

Sem lítið dæmi þess, hve óstöðugur snjórinn er á Suðurlandi, set eg hér nokkrar athuganir mínar í Reykjavík á árunum 1889-92 og 1893-95, tölu þeirra daga, sem snjór lá í hverjum mánuði á láglendi þar í kring: (síðan kemur taflan)

Orðalagið bendir til þess að ekki hafi verið um einn ákveðinn blett að ræða þar sem athuganir voru gerðar. Á þessum 5 vetrum snjóaði fyrst 19. september 1893. Lengst lá hann samfleytt veturinn 1891 til 1892, 63 daga samfleytt, 19. janúar til 21. mars.

Ég mæli eindregið með veðurkaflanum í Lýsingu Íslands.


Loftmassi eða hvað í ósköpunum?

Eitt leiðinlegasta orð sem ég þekki í veðurfræði er orðið loftmassi og reyni ég eftir fremsta megni að forðast notkun þess. En það er stundum erfitt. 

Auðvelt er að tala um heimskautaloft, svaltemprað loft, hitabeltisloft, sjávarloft o.s.frv. Mér finnst eðlilegra að segja: „Kalt loft nálgast“ fremur en „kaldur loftmassi nálgast“. Málið vandast aðeins þegar fjalla á öll þessi hugtök saman því óþjált er að þurfa ætíð að binda sig við „tvenns konar loft“ og allsendis fráleitt að nefna „tvö loft“.

Þörfin er þó fyrir hendi því við greiningu veðurkorta kemur í ljós að loft á stórum svæðum getur haft svipaða eiginleika, t.d. hita, raka eða stöðugleika. Þetta táknar yfirleitt að loftið er upprunnið á svipuðum slóðum og/eða hafi ferðast sameiginlega um langan veg. Loft kemur til Íslands úr ýmsum áttum og oftast ber það merki „uppruna“ síns sem gjarnan er langt undan. Þá er talað um mismunandi loftmassa. Þetta er hrá þýðing á alþjóðaheitum, á ensku air mass. Sum orð venjast vel í munni og verða manni eðlileg en loftmassi stendur alltaf í mér.

Þrátt fyrir áralanga leit mína að betra orði hef ég ekki fundið það. Um tíma birtist mér orðið lofthlot samanber vatnshlot sem er þýðing á body of water (sjá skilgreiningu í Wikipediu). En lofthlotið er betra að eiga sem þýðingu á öðru hugtaki (air shed) sem bregður fyrir í mengunarveðurfræði. Gæti t.d. átt við mengað borgarloftið, en mörkin milli þess og hreina loftsins utan við eru oft furðuskýr. Í fyrndinni var stungið upp á orðinu loftfúlga - en ..., jæja.

Skipta má loftmössum í nokkra upprunaflokka. Þetta er fyrst og fremst gert til þæginda en oft er ekki hægt að tala um skýr flokkunarmörk. Ekki er til neinn ákveðinn flokkunarstaðall en mótast af aðstæðum á hverjum stað. Einsleitustu massarnir myndast þar sem undirlag er svipað á stórum svæðum og ráðast nöfn af uppruna.

loftmassar

Myndin sýnir helstu upprunasvæði og leiðir lofts sem kemur til Íslands. Kortagrunnur er eftir Þórð Arason.

Meginloftmassaflokkarnir eru sex: Meginlandsloft (kalt og hlýtt), sjávarloft (svalt og hlýtt), heimskautaloft og hitabeltisloft. Eiginlegt hitabeltisloft sem gjarnan er talið hafa það einkenni að hiti í 5 km hæð sé hærri en mínus 10 stig kemur sárasjaldan við sögu hérlendis. Við getum kallað það loft sem er lítið kaldara en þetta hlýtemprað að uppruna. Meginlandsloftið er hlýtt á sumrum en kalt á vetrum, stundum svo kalt að eðlilegra er að tala um meginlandsheimskautaloft.

Ísland er að mestu undir áhrifum sjávarlofts og heimskautalofts. Hlýtemprað loft á norðurleið kólnar að neðan og verður þá stöðugt. Á sama hátt verður heimskautaloft sem berst suður á bóginn óstöðugt við það að koma yfir hlýrra yfirborð en það sem ríkir á fósturslóðum þess. Meginlandsloft sem berst út yfir hlýjan sjó á vetrum verður líka óstöðugt, en hlýja vetrarsjávarloftið stöðugt þegar það berst inn yfir land. Að sumarlagi horfir þetta öfugt við, meginlandsloftið er þá hlýtt og verður stöðugt yfir sjónum, en sjávarloft sem kemur inn yfir land verður óstöðugt.

Heimskautaloft sem kemur inn á Ísland á sumrin verður oftast óstöðugt.

Myndin að ofan ætti að skýra sig að mestu sjálf. Þó má benda á að meginlandsloftið sem kemur frá Kanada að vetrum er þegar hingað er komið orðið að mjög óstöðugu sjávarlofti. Loft sem kemur yfir Grænland er oftast mjög þurrt. Hlýtemprað loft berst stundum norður um Bretlandseyjar og þaðan út yfir Noregshaf en kemur til Íslands úr norðaustri, þá eru miklar úrkomur, regn á sumrin en snjór eða slydda á vetrum á Norður- og Austurlandi.

Takið eftir því að neðan við myndina og fram að þessari línu kemur orðið loftmassi aðeins einu sinni fyrir í textanum - e.t.v. má alveg forðast að nota það.

 

Riðabylgja - förulægð (úr veðurfræðinni)

Hér kemur nokkuð langur pistill, eiginlega meira en moli, vonandi stendur hann ekki í lesendum. Þeir geta þá bara hætt í tíma eða hóstað bitanum upp.

Varla þarf að segja nokkrum manni sem fylgist reglulega með veðurfréttum að Ísland er í braut lægða. Þær koma reyndar úr ýmsum áttum ef vel er að gáð en langalgengast er að þær beri að landinu úr suðvestri. Oft er þá erfitt að meta hvoru megin lands þær muni fara eða hvort þær fari jafnvel beint yfir landið.

Ég kýs að kalla algengustu tegund lægða ýmist riðabylgjur eða förulægðir. Þetta eru þær lægðir sem algengast er að vitna til í veðurfræðitextum fyrir byrjendur og er einnig sú tegund sem lýst var sem best af Björgvinjarmönnum um og upp úr 1920. Lítum fyrst á mynd sem er e.t.v. í flóknara lagi. Best er að lesa textann hér á eftir með því að gjóa augum á myndina öðru hverju.

riðalægð

Á myndinni eru jafnþýstilínur svartar og heildregnar. Jafnhæðarlínur sem sýna þrýstifar í háloftum eru bláar, strikaðar. Einnig má sjá hitaskil (rauð, heildregin lína) og kuldaskil, ljósblá, heildregin lina.

Þegar lægð nálgast Ísland úr suðvestri er alvanalegt að vindur snúist til hvassrar suðaustanáttar með rigningu eða slyddu. Úrkomukerfið berst hins vegar áfram með suðvestanvindum í háloftum. Séu vindörvar við jörð teiknaðar á sama kort og vindörvar háloftanna liggja þær ekki samsíða heldur mynda kross eða X eftir því hversu miklu munar á áttunum. Þetta er sýnt á myndinni inni í litlum gulleitum kassa til hægri á myndinni sem er dreginn lítillega stækkaður út úr aðalmyndinni. Þar má sjá svarta þrýstilínu sem sýnir í stórum dráttum vind nærri yfirborði og blástrikaða jafnhæðarlínu úr háloftunum. Línurnar liggja um það bil þvert á hvor aðra og mynda X. Annan kassa með X-i má sjá dreginn út úr kortinu á eftir kuldaskilunum.  

Séu þrýsti- og hæðarlínur af þessu tagi teiknaðar þétt sýnist verða til net með möskvum. Vindurinn við jörð myndar aðra þráðarstefnuna, en vindurinn í efri lögum hina. Þá er sagt að loft sé riðið (eins og net). Nái suðaustanáttin að rífa af sér ský við fjöll má oft sjá stefnubreytingu vindsins mjög greinilega með því að bera saman far lægri skýja og þeirra hærri.

Þegar kuldaskilin eru komin yfir verður oft ámóta misgengi í vindstefnu en þá þannig að þegar norðvestanátt er komin við jörð er áfram suðvestan- eða vestanátt í háloftum. Riðinn er þar með einnig til staðar í kalda loftinu. Það má heita regla að því riðnara sem loft er (því þéttari og smærri sem möskvarnir eru) því meiri möguleikar eru á þeirri lægðamyndun sem Björgvinjarsagan lýsir.

Sjáist til háskýja úr hlýja geiranum milli hita- og kuldaskilanna kemur í ljós að far þeirra er í stórum dráttum það sama og skýja sem neðar eru. Vindstefna í hlýjum geira riðabylgju er nærri því að vera hreyfistefna hennar og hraðinn er oftast ekki fjarri þeim vindhraða sem ríkir ofan við þá hæð sem núnings við jörð gætir.

Út frá vindáttarbreytingum með hæð má ráða í hvort á þeirri stundu sé aðstreymi af hlýju eða köldu lofti að eiga sér stað. Á undan skilum lægðarinnar er suðaustanátt við jörð - en hún snýst um suður til suðvesturs með hæð. Hitaskilin nálgast og aðstreymið er hlýtt. Það er regla að snúist vindur með hæð til hækkandi tölu á áttavita er aðstreymið hlýtt. Sé veður gott þegar svona hagar til má reikna með að það fari versnandi.

Á eftir kuldaskilunum snýst vindur úr vestri til suðvesturs með hæð, til lækkandi tölu á áttavita og þá er aðstreymið kalt. Sé veður vont þegar svona hagar til má reikna með að það fari batnandi. Vindáttarbreytingar með hæð sjást sérlega vel á háloftaritum og geta menn æft sig með því að fylgjast með þeim á vef Veðurstofunnar.

Það kemur þráfaldlega fram í gömlum veðurlýsingum að menn hafa mjög vel tekið eftir því að þegar misjafn gangur er á hærri skýjum og vindátt við jörð er einhverra tíðinda að vænta í veðri. Vísast er þá að fara varlega í ferðalög og hraða vinnu utan dyra sé veður enn gott. Riðalægðum fylgir ætíð mikið misgengi vindátta, það er megineinkenni þeirra.

Erfiðast er að ráða í loftið sem er nyrst og austast í hlýja aðstreyminu og ekki gott að segja hvort lægðin kemur til með að enda sunnan eða norðan við okkur. Þá sést oft mikill uppgangur úr suðvestri meðan vindur við jörð blæs úr andstæðri átt. Þetta þótti sérlega varasamt veðurlag um sunnan- og vestanvert landið og var kallað því einkennilega nafni hornriði. Sveinn Pálson læknir og náttúrufræðingur skilgreindi hornriða svo: Það er, að skýin dregur upp frá vestri, og þó blæs á austan eða norðaustan.

Næsta riðalægð sem fer hjá á að fara sunnan við land, e.t.v. sjáum við háloftavestanáttina í norðausturjaðri hennar áður en hún étur upp allan riðann?


Á míósenskeiðinu

Mér hefur aldrei liðið sérstaklega vel þegar ég hugsa til míósenskeiðsins. Ég ætti sennilega að láta það vera að skrifa um það en hér er alla vega stutt yfirlit um veðurfar tímabilsins. Míósen er heiti á því bili jarðsögunnar sem nær yfir tímann frá því um 23 milljón árum síðan fram til 5,3 milljón ára síðan. Ólígósenskeiðið var næst á undan, en plíósen kemur næst á eftir.

miosen

Ágætt er til liðsjónar að horfa á mynd af súrefnissamsætuvikum á tímabilinu, en það er talið gefa til kynna magn ferskvatns sem bundið var í jökulís á hverjum tíma. Ekki er þó alveg beint samband þar á milli. Lóðrétti kvarðinn á myndinni sýnir vikið, takið eftir því að kvarðinn er öfugur, því hærra sem samsætuhlutfallið er því meiri ís er bundinn og því kaldara hefur líklega verið. Rauða línan er sett  nærri núverandi jökulmagni - mest af því er á Suðurskautslandinu.

Við sjáum að sveiflur í samsætuvikinu eru býsna stórar. Þess vegna má telja líklegt að ísmagn hafi verið mjög breytilegt. Talið er að fyrir rúmum 20 milljón árum hafi fyrst orðið vart íss við Norður-Atlantshaf en lengst af var þó mjög hlýtt á þeim slóðum sem og víðast hvar í heiminum. Eyðimerkurmyndun tók verulega við sér í Asíu. Hið gamla Miðjarðarhaf - Tethys - lokaðist að austanverðu. Það sem eftir varð er kallað Paratethys og náði um allt svæðið þar sem nú er Svartahaf, Kaspíahaf, Aralvatn og enn austar. Þetta haf minnkaði mjög á míósen.

Árekstur Indlands við Asíu var fullum gangi og bæði Himalajafjöll og Tíbethásléttan uxu mjög. Þá jókst mjög veðrun á því svæði og batt hún mikið magn koltvísýrings úr lofthjúpnum. Hásléttan fór einnig að hafa áhrif á bæði meginhringrásina og monsúnhringinn. Hlýindi á míósen náðu hámarki fyrir 14 til 17 milljónum ára. Elstu jarðlög á Íslandi ná e.t.v. í enda þessa tímaskeiðs. Um tíma varð yfirborðssjór hlýrri en verið hafði frá lokum eósen, nærri 20 milljón árum áður. Umtalsverð saltsjávarmyndun átti sér þá stað í norðanverðu Indlandshafi.

Á miðmíósen fyrir um 13 til 14 milljónum ára náðist loks varanleg tenging Atlantshafs og Norðuríshafs og um svipað leyti byrjaði kólnun að ná sér á strik. Norðurdjúpvatn barst þá til suðurhafa. Núverandi djúpsjávarhringrás fór af stað í aðalatriðum og jókst binding koltvísýrings einnig af hennar völdum. Þó var enn mun hlýrra í djúphöfum en nú á tímum og kuldahvelið ekki eins öflugt og nú er.

Þegar kólnunin komst í gang mynduðust loks varanlegir jökulskildir á Suðurskautslandinu austanverðu. Hlýtt var á Íslandi og uxu hér suðrænar trjátegundir svipaðar þeim sem nú vaxta við austurströnd Bandaríkjanna.

Fyrir um 11 milljón árum hafði kólnað nokkuð (sjá myndina) og frá þeim tíma eru elstu menjar um að jöklar hafi náð allt til sjávar við norðanvert Atlantshaf. Upp frá því hefur ísborinn sandur, möl og grjót (ísamöl) fundist langt frá landi - þó í mun minna mæli en áður var. Meginjökull Grænlands hafði þó ekki myndast, en fyrsti stórjökull á Grænlandi virðist hafa orðið til á köldum skeiðum síðmíósentímans fyrir um 7 til 10 milljónum ára. Sennilega var Grænland þó lengst af án stórjökuls, þótt jöklar hafi verið á háfjöllum.

Fleiri jöklar fóru að taka við sér. Til dæmis eru fyrstu merki um stóran jökul í Patagóníu syðst í Suður-Ameríku frá því um 7 milljónum ára. Stórir jöklar mynduðust einnig í Alaska á þessum tíma og suðurskautsjökulhvelin stækkuðu.

Súrefnissamsætumælingar benda til þess að jöklar hafi á köldum skeiðum þessa tíma náð meiri útbreiðslu en nú er. Þar sem ljóst er að stórhvel mynduðust ekki á norðurhveli utan Grænlands á þessum tíma hljóta Suðurskautsjöklar að hafa verið stærri. Djúpsjór sem myndaðist í suðurhöfum var um 5°C um þetta leyti. Á tímabilinu fyrir 5 til 6 milljónum ára var hafís farinn að láta á sér kræla í Norður-Íshafi, óvíst er hvort aðeins var um vetrarís að ræða og þá aðeins á köldum skeiðum. Líklega var jökull á hæstu fjöllum á Íslandi, það fer þó eftir því hversu há þau voru - veit það einhver?

Þá kemur að mjög einkennilegum atburði - Miðjarðarhafið þornaði upp.

Í viðhengi eldri bloggfærslu er fjallað um samsætumælingar, þar er einnig vitnun í greinina sem myndin hér að ofan byggir á.

 


Nóvemberúrkoma í Stykkishólmi frá 1856

Nóvember getur stundum orðið hálfgerður október. Úrkoma hér á landi er að meðaltali mest í október og á sumum tímabilum er ámóta hámark í febrúar. En nóvember leynir á sér. Mesta mánaðarúrkoma sem vitað er um hér á landi mældist í nóvember 2002. 971,5 mm. Það var á Kollaleiru í Reyðarfirði. Vel yfir ársúrkomumeðaltali í Reykjavík. Ársmeðaltalið á Kollaleiru er 1330 mm og meðalúrkoma í nóvember 1971 til 2000 er þar 156 mm. Mest sólarhringsúrkoma sem mælst hefur á landinu var í Neskaupstað 29. dag nóvember þetta sama ár, 2002, 196,9 mm.

Ársmeðaltalið í Neskaupstað er talsvert hærra en á Kollaleiru, 1842 mm. Úrkomusamasta veðurstöð landsins er á Kvískerjum í Öræfum (eða segir maður í Kvískerjum?), þar er meðalársúrkoman 3457 mm 1971 til 2000. Þrátt fyrir þennan mikla ársúrkomumun tókst Kollaleiru að ná heildarmeti fyrir einn mánuð. Þetta þýðir að veðurlag í nóvember 2002 hafi verið mjög óvenjulegt. Enda var það svo.

Tölfræðilega er úrkoman mun erfiðari viðfangs heldur en hitinn þegar meðaltöl eru reiknuð. Einn mjög kaldur dagur í lok hlýs mánaðar hnikar ekki meðalhita hans umtalsvert, getur e.t.v. tekið frá honum met ef svo vill verkast, en enginn vafi er þó á því að mánuðurinn hafi verið hlýr. Ef við hugsum okkur þurran mánuð, svo þurran að engin úrkoma mælist fyrr en við síðustu mælingu mánaðarins. En - þá falli 80 % meðalúrkomu mánaðarins fyrir eina mælingu. Mánuðurinn var þurr á mælikvarða úrkomutíðni, en ekkert sérstaklega þurr ef litið er á heildarúrkomu hans.

Þetta þýðir að úrkomumeðaltöl eru erfið. Besta dæmið sem ég man eftir í fljótu bragði um þetta er að vísu erlent og ég man tölurnar ekki nákvæmlega, en samt nokkurn veginn þetta: Í ritinu World Weather Records má finna töflur um mánaðarúrkomu víða um heim i 10 ára skömmtum ásamt meðaltölum þeirra.

Í Ryhad í Sádí-Arabíu má þar sjá að meðalúrkoma í nóvember 1971 til 1980 er um 25 mm. Svo lítur maður á sjálf mánaðagildin og þar kemur fram að yfirleitt er nærri engin úrkoma í nóvember, en í einum ákveðnum mánuði var hún yfir 200 mm. Einnig er tafla um úrkomudagafjölda, þeir eru sömuleiðis örfáir, líka í úrkomunóvembernum mikla. Í ljós kemur að nær öll úrkoma í nóvember á 10 ára tímabili féll á á örfáum dögum. Er eitthvað vit í meðaltalinu?

sth-r-nov

En komum nú að fyrirsögn þessa pistils, úrkomunni í Stykkishólmi 1856 (ekki 1857 eins og glaptist í titil myndarinnar). Við sjáum talsverðar sveiflur í úrkomu nóvembermánaðar, tvö myndarleg úrkomuskeið, annað í kringum aldamótin 1900 og síðan í kringum 1930. Við sjáum ofboðslega mikla úrkomu í tveimur mánuðum, 1958 og 1993. Já, báðir þessir mánuðir hafa mikil áhrif á meðaltalsreikninga. Mjög mikil á 10 ára meðaltöl - eins og í Sádí-Arabíu, en líka á 30 ára meðaltöl. Höfum þetta í huga þegar við sjáum úrkomumeðaltöl.


Alhvítir dagar á Akureyri

Fyrir nokkrum dögum fjallaði ég um snjóleysi í Reykjavík, brá þá svo við að tveir hvítir dagar hafa þegar bæst við þá 9 sem fyrir voru og minnka möguleikar á meti sem því nemur. Ég vann lengi við veðurspár og fékk þá ýmist á tilfinninguna að veðrið væri beinlínis að ofsækja mig með hegðan sinni, snerist öfugt við öllum spám. Á sama hátt fékk ég einnig á tilfinninguna að ég væri bara fjári klár þegar nokkrar spár í röð heppnuðust óvenju vel.

En með pistlinum um snjóleysið birtist mynd sem sýndi fjölda alhvítra daga í Reykjavík allt frá 1921 og sömuleiðis fylgdi með skrá um fjölda alhvítra daga mánuð fyrir mánuð. Hér er nú það sama fyrir Akureyri. Þar var farið að athuga snjóhulu 1924, því miður voru snjóhuluathuganir í klessu á árunum 1949 og 1950, en vel má vera að með því að stara nógu lengi á færslurnar birtist eitthvað heillegt.

alhvitt-a-akureyri

Hér má sjá að snjólétt hefur verið á Akureyri frá og með árinu 2000. Heldur meiri snjór var þó síðastliðna tvo vetur heldur en mörg ár áður. Það var líka snjólétt á Akureyri um 1960 eins og annars staðar á landinu. Býsna mörg ár á tímabilinu 1927 til 1945 voru einnig mjög snjólétt.

Áberandi snjóþungt varð á Akureyri með hafísárunum sem hófust 1965 og hélst þannig fram yfir 1980. Engin sérstök leitni sést á þessu línuriti frekar en því frá Reykjavík.

Skráin í viðhenginu er tafla sem sýnir fjölda alhvítra daga á Akureyri mánuð fyrir mánuð. Hjá flestum opnast hún í notepad eða wordpad og þaðan má líma hana inn í töflureikna svosem excel.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skaðar á Reyðarfirði

Í síðustu viku lofaði ég því að fljótlega skyldi litið á skaða sem ég hef fréttir af að hafi orðið á Reyðarfirði síðustu 140 árin eða svo. Ekki get ég með góðu móti greint að tjón sem varð í þéttbýli og dreifbýli á þessum slóðum, leita aðeins að Reyðarfirði í skránum. Þéttbýlið hét lengi Búðareyri en við athugun kemur í ljós að þegar minnst er á það nafn í fornum fréttum af illviðrum og sköðum er í mínum skrám eingöngu átt við Búðareyri á Seyðisfirði. Á Seyðisfirði komu eins og kunnugt er út fréttablöð, fleiri en eitt. Oft minntust þau á Búðareyri, Ölduna og Vestdalseyri sem þrjú aðskilin byggðarlög, Fjarðarströnd jafnvel líka. En yfir til Reyðarfjarðar:

7. janúar 1886: Ofsaveður sem nefnt var Knútsbylur, miklir skaðar víða um Austurland. Norskur síldveiðibátur með 5 fórst á Reyðarfirði. Bræður frá Borgum Reyðarfirði urðu úti og fé fórst.

9. október 1888: Tvö hús og 16 bátar fuku á Seyðisfirði og rauf víða hús eystra. Miklir skaðar urðu á Reyðarfirði og hús fuku í Hellisfirði og allir bátar.

23. október 1893: Á Reyðarfirði fuku 8 bátar og brotnuðu í spón, þak tók af tveimur hlöðum á Sómastöðum.

28. desember 1894: Ofsaveður af vestri og síðar norðri með allmiklum sköðum. Kirkjan á Vestdalseyri við Seyðisfjörð fauk og laskaðist mjög, fleiri skaðar urðu á Seyðisfirði. Kaupskip sleit upp á Eskifirði og Reyðarfirði, en björguðust. 

15. nóvember 1902: Suðaustanofsaveður um nær allt land með miklu tjóni, m.a. á Austfjörðum. Íbúðarhús og hlaða fuku þá í Reyðarfirði.

14. janúar 1903: Ofsaveður á Austfjörðum. Í Reyðarfirði urðu skaðar á bátum og heyjum. 

23. febrúar 1904: Þak braut á útihúsi á Hólmum í Reyðarfirði, geymsluhús ónýttist og kirkjugarður fauk og vatnsmylla. Snjóflóð braut hlöðu og fjárhús og drap kindur á Helgustöðum í Reyðarfirði. Önnur flóð brutu báta við Reyðarfjörð.

22. mars 1906: Maður beið bana á Svínaskálastekk í Reyðarfirði er bátur slóst í hann í illviðri.

7. febrúar 1908: Fokskemmdir urðu á íbúðarhúsi í Mjóafirði og þak tók af hlöðu á Hólmum í Reyðarfirði.

Nú er bloggfærslan orðin fulllöng og ekki komið nema árið 1908. Afgangur listans er í viðhenginu og má þar finna 15 tilvik til viðbótar þeim níu hér að ofan. Tjón hefur örugglega orðið talsvert oftar en hér er nefnt.

Tjón er algengast á Reyðarfirði í illviðrum af vindáttum milli vesturs og norðurs. Svo er víða á Austfjörðum en ekki alls staðar. Greinargóð er lýsing Magnúsar Bergssonar prests á Stöð í Stöðvarfirði 31. desember 1839. Lýsingin birtist í Sýslu- og sóknalýsingum Hins íslenska bókmenntafélags um Múlasýslur (bls. 447 til 448). Þar lýsir hann sunnan- og suðaustanveðrum þar um slóðir:

---en af suðri, eður öllu fremur landsuðri, koma þar veður hin ógurlegustu, þau standa stundum af miðjum fjöllunum sunnan megin fjarðarins og eru þá hörðust út í sveitinni en stundum standa þau fyrir utan andnes sömu fjalla; standa þau þá inn fjörð og eru hörðust á innsveitinni. Harka og afl þessara veðra er framúrskarandi og ógurlegt, þau taka fjörðinn frá ysta til innst í einlægt rok upp á móts við tinda, flytja stundum steina úr stað, sem eru meðalmanns tak, rykkja jafnvel hálffreðnum þökum af húsum, kippa króm og hjöllum frá veggjum og endog rífa naglföst borð af húsaræfrum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vitlausar langtímavæntingar haustið 1981

Nóvember er sá síðari af tveimur mánuðum haustsins hjá Veðurstofunni. Talsverður vetrarbragur kemst þá á veðurlag. Lægsti hiti sem mælst hefur í mánuðinum er -30,4 stig. Sú afskaplega lága tala birtist á sjálfvirku stöðinni á Neslandatanga við Mývatn þann 24. árið 1996. Að meðaltali er mesta frost á landinu í nóvember um 20 stig. Kuldamet Reykjavíkur í nóvember er orðið gamalt, frá því síðasta dag mánaðarins árið 1893. Það er litlu minna en lægsta lágmark Akureyrar, en það er -18,5 stig, frá 19. nóvember 1981.

Ég man vel eftir haustinu 1981, meðalhitinn í Reykjavík í október og nóvember samanlagt var 0,0 stig og hafði ekki farið ámóta neðarlega síðan 1917 - þá var meðalhiti þessara mánaða 0,1 stig. Þar á undan var sami hiti haustið 1880. Á þessum árum hneigðist ég til þess sem á útlensku nefnist analógíuspár - við getum kallað það samsvörunarspár upp á íslensku. Þá er gert ráð fyrir því að sé veður ámóta í einhvern tíma og verið hefur áður, haldist það líka áfram svipað og það gerði áður.

Samkvæmt samsvörun hefði veturinn 1982 átt að verða óvenjulegur frostavetur, fádæma frostavetur, fyrst kunnustu frostavetur rúmra hundrað ára komu beint ofan í köldustu haustin. Og þessu bjóst ég reyndar við verð ég að játa, það ýtti meira að segja undir bábiljuna að í desember fór að mælast meir en 25 stiga frost á Bretlandseyjum og skömmu eftir áramót (10. janúar) var sett nýtt 20. aldar kuldamet í Skotlandi, -27,2 stig. En - svo varð ekki neitt úr neinu. Veturinn 1982 var bara frekar venjulegur.

Rannsóknir höfðu reyndar þá þegar sýnt að samsvörunarspár væru gagnslitlar, bábilja er ef til vill fullsterkt orð. Af þessu má læra að veðrið man bara sumt - það man greinilega eitthvað, en oftast er það misminni. Reynslan hefur alla vega kennt mér að veðrið virðist endalaust eiga ný spil uppi í erminni, jafnvel þau sem maður hélt að væru ekki til.


Snjóleysismet í Reykjavík?

Ekki hefur enn orðið alhvítt í haust í Reykjavík. Það er ekki óvenjulegt. Snjóhula hefur verið athuguð í Reykjavík frá því seint í janúar 1921. Fáeina daga vantar - en það kemur ekki að sök að því er ég tel. Sé miðað við tímabilið allt er að meðaltali aðeins einn alhvítur dagur í október, 6 í nóvember og 12 í desember. Meðaltalið frá upphafi ársins til októberloka er hins vegar 40 dagar. Nú bregður svo við að aðeins 9 sinnum hefur orðið alhvítt í Reykjavík það sem af er árinu, 31 degi færri en í meðalári.

Því má spyrja hvort eitthvað ámóta hafi gerst áður. Svarið er já. Árið 1977 var fádæma snjólétt, þá höfðu eins og nú aðeins 9 dagar verið alhvítir á árinu þegar komið var í upphaf nóvember. Í nóvember og desember bættust við 15 dagar. Alhvítir dagar 1977 voru því 24.

Árið 1965 voru dagarnir líka 9 til byrjunar nóvember, en ekki nema 8 árið áður, 1964. Árið 1965 endaði í 20 dögum, en 1964 í 30. Alhvítir dagar voru 18 í desember einum 1964. Metið, miðað við upphaf nóvember, er frá árinu 1929, þá höfðu einungis fimm dagar verið alhvítir á árinu. En - í nóvember og desember urðu alhvítu dagarnir 30 samtals, hvítt var annan hvern dag. Metárið í snjóleysi - eftir þessum ákveðna mælikvarða er 1965 með sína 20 daga. Og þangað til alhvítt hefur orðið 10 daga í nóvember og desember nú, á árið 2010 möguleika í metið.

alhvitt-i-rvk

Myndin sýnir fjölda alhvítra daga í Reykjavík á hverju ári frá 1921 til 2009. Við sjáum að mjög miklar áratugasveiflur eru í fjöldanum. Lágmarkið milli 1960 og 1970 sker sig úr en allan tímann frá og með 2001 hefur verið mjög snjólétt í Reykjavík. Mikið hámark var frá því um 1980 og fram til 2000. Talvert hámark var einnig á síðari hluta sjötta áratugarins, rétt fyrir 1960.

Flestir urðu alhvítir dagar á ári 1990, 110. Ekki eigum við möguleika í það met. En allir möguleikar eru enn opnir fyrir veturinn 2010 til 2011. Veturinn er auk þess eðlilegra viðmið um snjóþunga - frekar en árið. Tölur fyrir einstaka mánuði má sjá í viðhengi bloggsins.

Fyrir norðan - á Akureyri eru alhvítu dagarnir nú orðnir 55 það sem af er ári. Það er 17 dögum færra en í meðalári. Þetta er svipað og undanfarin ár, árið 2010 sker sig ekki sérstaklega úr þeim. Árið á ekki lengur möguleika á meti á Akureyri, aðeins var alhvítt i 54 daga, kraftaverkaár norðlensks veðurfars, 1933. Alhvítu dagarnir á Akureyri urðu flestir 1999, 161.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ytri mótunarþættir veðurfars (eða þannig) - slefað úr veðurfarssögunni (7)

Í veðurfarsfræðum er greint á milli ytri og innri mótunarþátta veðurfars á jörðinni (ekki hljómar það vel). Greinarmunurinn fellst fyrst og fremst í því að innri þættir eru ekki taldir hafa áhrif á þá ytri. Breytingar í ytri þáttum geta hins vegar valdið breytingum á þeim innri (ekki hljómaði þetta betur - og enn versnar í því). Innri þættirnir hafa flestir gagnverkandi áhrif hver á annan, mjög mismikil að vísu. Í sumum tilvikum eru gagnverkunarferlin ekki vel þekkt og jafnvel ágiskunarkennd (ja, hérna - náði einhver þessu? - en það versta er nú búið).

Ytri þættirnir eru í grófum dráttum af eftirtöldu tagi: (i) Útgeislun sólar, (ii) breytingar á afstöðu jarðar og sólar (svokallaðir jarðbrautarþættir), (iii) geimryk og (iv) loftsteina- og halastjörnuárekstrar. Ég ætla ekki að ræða áhrif sólar á veðurfar í þetta sinn og alla vega ekki fyrr en ég er búinn að lesa splúnkunýja yfirlitsgrein sem  nú um helgina birtist í því ágæta tímariti: Reviews of Geophysics - en ég tek (yfirleitt) mark á því riti (alla vega þegar mér hentar). En þó má segja þetta um sólina:

Eins og eðlilegt er hefur hún legið undir grun um að vera meginorsakavaldur veðurfarsbreytinga bæði til langs og skamms tíma. Við sjáum afl hennar í allt að margra tuga gráða hitamunar dags og nætur og veturs og sumars. Hún þarf varla að blikka auga til að allt á jörðu frjósi og bæti hún aðeins í ofninn væri lyktin af soðnu kjöti varla langt undan. Hún gæti því skýrt hvaða veðurfarsbreytingar sem er, en marktækar tilgátur verða þó annað hvort að tengja einhverjar þekktar sólarbreytingar veðurfari eða þá byggja á einhverjum stjarneðlisfræðilegum grunni. Nóg um það að sinni.

Breytingar á afstöðu jarðar og sólar skýra ýmsar breytingar í veðurfari, þar á meðal skipti á milli hlý- og jökulskeiða. Þetta er líka allt of langt til að fjallað verði um í einum bloggpistli og séu þeir fleiri hættir sá sem þetta skrifar að muna hvað komið er og hvað ekki. Þess í stað legg ég nokkurra blaðsíðna pistil um málið í viðhengi við þessa bloggfærslu. Geri menn sér það að góðu en afsaki jafnframt glöp mín telji þeir rangt með farið.

Ég fjalla vonandi um geimryk og halastjörnuárekstra fljótlega - en þessi pistill hefur þegar farið fram úr sér.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 78
  • Sl. sólarhring: 227
  • Sl. viku: 1043
  • Frá upphafi: 2420927

Annað

  • Innlit í dag: 71
  • Innlit sl. viku: 920
  • Gestir í dag: 71
  • IP-tölur í dag: 70

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband