Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Breytingar á breytileika

Meðan við bíðum eftir næstu tíðindum af ólgunni í vestanvindabeltinu, heiðhvolfinu og við heimskautin skal litið á nördaefni - og það eru ekki einu sinni öll veðurnörd sem hafa áhuga. Eftir hver áramót er sest niður og reiknað út hvernig síðastliðið ár hefur staðið sig. Sumar tölurnar sem koma út úr því segja nákvæmlega ekki neitt einar og sér - en alltaf er gaman að sjá þær í lengra samhengi. Við lítum á þrjár slíkar mælitölur - allar reiknaðar út frá hitamælingum í Stykkishólmi.

w-blogg150113

Fyrsta myndin sýnir hvernig ársmeðalhiti hefur hnikast til frá einu ári til annars. Síðasta talan sem við höfum er munurinn á hitanum árið 2012 og hitanum 2011. Ekki er tekið tillit til þess hvort árið er kaldara en hitt, útkoman er alltaf jákvæð. Ein og sér segir er þessi tala algjörlega marklaus í öllu samhengi en ef sams konar munur er reiknaður út fyrir allt mælitímabilið (sem við ímyndum okkur að nái aftur til 1798) kemur skemmtilegur breytileiki í ljós.

Lárétti ásinn sýnir árin (merkt á tuttugu ára fresti) en sá lóðrétti hitamuninn. Við sjáum að á 19. öld er eitthvað allt annað í gangi heldur en síðar. Þá skjóta gríðarlega köld ár sér inn öðru hvoru. Árið 1892 er það síðasta á tímabilinu. En um miðja tuttugustu öld var á það minnst að eftir það hafi veðurfar bara verið nokkuð skaplegt (þótt við myndum kveina - svo góðu vön).

Tímabilið 1860 til 1870 var sérlega breytilegt - en munum að ef alltaf er jafnkalt (eða jafnhlýtt) verður munurinn frá ári til árs enginn. Tímabilið frá því um eða rétt fyrir 1970 og fram yfir 1980 virðist hafa verið nokkuð órólegt - enda var það þannig í meir en áratug að sléttatöluárin voru sæmilega hlý en oddatöluárin aftur á móti sérlega köld.

Nýja öldin byrjar með fremur litlum breytileika - e.t.v. þeim minnsta á öllu mælitímabilinu. Tuttugustualdarhlýskeiðið mikla virðist taka ámóta dýfu - en þegar betur er að gáð er það ekki síst á árabilinu 1920 til 1930 að breytileikinn er lítill - en vex síðan. Ekki er vert að draga leitnilínu í gegnum safnið (blái ferillinn er aðeins til augnhægðar) frekar að um þrep sé að ræða milli 19. og 20. aldar. Hvað gerist síðan afgang 21. aldarinnar veit enginn.

w-blogg150113a

Þá er það breytileikinn innan ársins, holdgerist hér í mismuni kaldasta og hlýjasta mánaðar. Frostaveturnir 1881 og 1918 skera sig úr með sína ofurköldu mánuði, mars 1881 og janúar 1918. Reyndar voru janúar og febrúar 1881 einnig kaldir. Hér virðist sem spönnin minnki hægt og bítandi mestallt tímabilið. Lágmark er þó árið 1922 en það var sérlega eftirtektarvert - veturinn frekar hlýr og sumarið sérlega kalt. Á árabilinu 1930 til 1940 var frekar hlýtt á sumrum en þá komu líka nokkrir allkaldir vetrarmánuðir.

w-blogg150113b

Og að lokum sjáum við breytileikann frá degi til dags. Þegar kalt er í veðri er hann meiri en annars. Þarna sker kalda tímabilið 1965 til 1985 sig vel úr og virðist svo sem nálægð hafíss norður undan skipti máli. Hæsta gildi 21. aldarinnar á 2005 - en svo skemmtilega vill til að það er einmitt mesta ísár aldarinnar - fram að þessu. [Allt má nú nöfnum nefna]. Einnig sést að „litlu hafísárin“ upp úr 1940 eru ívið hærri heldur en t.d. sá tími sem fylgdi í kjölfarið. Fyrstu 20 ár 20. aldar fylgja hér fast á eftir 19. öldinni í breytileika.

Lítill hafís mun hafa verið hér við land á árunum 1841 til 1852 og er mesta lágmark 19. aldarinnar (það við sjáum af henni) einmitt 1851 og 1852. Sagt er að árin 1844 til 1847 hafi verið alveg íslaus. Ekki er rétt að trúa því alveg því samkvæmt sama mælikvarða (Koch-mælitalan) átti líka að vera alveg íslaust 1933 til 1937 - en smámunasemi veldur því að það getur ekki talist alveg rétt. Borgarís er ekki talinn með.

Mælitölur greinir á um hvert sé íslausasta árið við Austur-Grænland - við látum þann meting eiga sig í bili. Snemma á ævi hungurdiska birtust nokkrar ritgerðir um hafís við Ísland, sem dæmi má nefna umfjöllun um vesturís í nóvember 2010.


Aftur hlýnar

Þegar þetta er skrifað (seint sunnudagskvöldið 13. janúar) er komið talsvert frost víða um land, snertir á tveggja stafa tölu. En það virðist ekki eiga að standa lengi. Mikill gangur er í veðrakerfinu og við skulum rétt sem snöggvast líta á norðurhvelsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á þriðjudaginn, 15. janúar.

w-blogg140113

Fastir lesendur vita að hægt er að gera kortið mun skýrara með stækkun. Jafnhæðarlínur 500 hPa flatarins eru svartar - því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Liturinn sýnir þykktina, því minni sem hún er því kaldari er neðri hluti veðrahvolfs. Í pistlinum í gær var langt mál um kuldapolla og sérstaklega um þann sem er mest áberandi á kortinu og við höfum valið að kalla Stóra-Bola.

Hann er á sínum heimaslóðum við norðurströnd Kanada. Þykktin í miðju hans er undir 4740 metrum (dekksti fjólublái liturinn). Í gær sáum við að flatarhæðin í miðju lægðarinnar var um 4900 metrar en hefur hér fallið niður fyrir 4800 metra. Það er töluverð dýpkun. Eins og bent var á í gær er hreyfingin nokkurn veginn samsíða vindstrengnum vestan við Bola - eða eins og litla hvíta örin sýnir.

Annar gríðarmikill strengur nær frá Kaliforníu til Nýfundnalands. Sem stendur sjást ekki neinar teljandi bylgjur á honum fyrr en í lægðinni fyrir suðvestan Grænland og kemur við sögu fljótlega hér á landi. Óvenjukalt hefur verið í suðvestanverðum Bandaríkjunum síðustu daga enda ná mörk grænu og gulu flatanna nærri því að Kaliforníuströnd. Svona veður veldur áhyggjum þar í gróðursælum dölum þar sem vaxa appelsínur og vínber. Starfsbræður ritstjórans vestra hafa hins vegar áhyggjur af kalda loftinu norðurundan og mega það svo sannarlega. En alls ekki er útséð um hversu langt kalda loftið berst suður um Bandaríkin - enn er von að þau sleppi að mestu.

Lítill kuldapollur er líka yfir Vestur-Evrópu. Þótt ekki sé hann öflugur veldur hann samt vandræðum því þykktin í miðju hans er niðri í frosti. Við sjáum að hann hreyfist til suðurs og stefnir á Miðjarðarhaf. Einhver leiðindi verða því þar um slóðir síðar í vikunni.

Fyrirstaðan mikla sem beindi til hlýindum til okkar í fyrri viku hefur hér gefið eftir, en ný myndast yfir Skandinavíu sunnanverðri síðar í vikunni. Á kortinu er Ísland komið í hlýja loftið sem verður notað sem byggingarefni í fyrirstöðunnar. Miðgræni liturinn sýnir þykkt á bilinu 5340 til 5400 metra - það er góð hláka - nema þar sem er bjart og lygnt. Engin þykkt ræður við útgeislun í björtu hægviðri þegar sólar nýtur ekki.   


Enn af kuldapollum

Það má upplýsa að fyrsta uppkast að fyrirsögn pistils þessa var svona: Stóri-Boli setur upp ísaldarhattinn. En það er æsifregnahljómur af slíku orðalagi - lesendur hefja þá lesturinn með þær væntingar að eitthvað mikið sé að gerast en verða síðan fyrir vonbrigðum þegar við tekur eitthvað illskiljanlegt mal um þrýstifleti, hita og þykkt.

En það er samt þannig - kuldapollurinn mikli sem hungurdiskar hafa kallað Stóra-Bola eða Vetur konung setur nú í raun og veru upp sín kuldadjásn.

Auk þess að mæla hita með venjulegum hitamælum og þá í stigum á kvarða er hiti mældur með því að reikna fjarlægð á milli jafnþrýstiflata, svokallaðri þykkt. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið, því meiri er fyrirferð þess, því kaldara því minna fer fyrir því. Hefð er fyrir því að mæla þykktina í dekametrum en rétt eins má nota aðrar lengdareiningar svo sem metra. Ef ekki er annað tekið fram er oftast verið að fjalla um fjarlægðina á milli 1000 hPa og 500 hPa flatanna þegar rætt er um þykktina.

Þrýstingur við sjávarmál er gjarnan ekki fjarri 1000 hPa, fer í aftökum niður í 920 (enn neðar í öflugum fellibyljum) og upp í um 1080 hPa. Þúsundhektópaskalaflöturinn er ofan við athugunarstað sé þrýstingur þar meiri en 1000 hPa, en ekki er hikað við að reikna hann niður í jörðina sé þrýstingur á athugunarstað lægri en 1000. Þykktin sveiflast á milli 4500 og 6000 metra og 500 hPa hæðin sömuleiðis.

En lítum á spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem sýnir 500 hPa hæð og þykkt um hádegi á sunnudag (13. janúar). Að þessu sinni batnar kortið lítið við stækkun.

w-blogg130113a

Kortið sýnir óvenjulegt svæði. Hér er Ísland neðarlega til hægri á myndinni. Útlínur Grænlands ættu að sjást og sömuleiðis kanadísku heimskautaeyjarnar og Hudsonflói.

Á fjólubláa svæðinu öllu er þykktin minni en 4920 metrar og dekksti liturinn þekur svæði þar sem þykktin er minni en 4740 metrar. Það hafa hungurdiskar oft kallað ísaldarþykktina. Við núverandi veðurlag fer þykktin yfir Íslandi sárasjaldan niður í fjólublátt - á ísöld er hins vegar líklegt að ísaldarþykktin hafi heimsótt landið að minnsta kosti endrum og sinnum. Þá hefur 4740 jafnþykktarlínan farið í þau föt sem 4920 metra línan klæðist í dag. Það er út af fyrir sig merkilegt að ísöldin heimsæki enn norðurhvel á hverjum einasta vetri.

Endrum og sinnum sjást enn lægri þykktartölur, allt niður fyrir 4600 metra en slíkt er sjaldgæft. Erfiðlega gengur að fá á hreint hversu lágt þykktin hefur mögulega farið lægst á ísöld - en ekki er víst að það hafi verið öllu neðar.

Á kortinu sjáum við lítinn dökkan blett með "ísaldarþykkt". - En lítum líka á jafnhæðarlínurnar. Sú næstinnsta er merkt með tölunni 498, það eru dekametrar eða 4980 metrar. Línurnar eru dregnar á 60 metra bili þannig að sú innsta sýnir hæðina 4920 metra. Þar sem sú lína sker 4740 metra jafnþykktarlínuna er munur á hæð og þykkt 180 metrar. Þúsundhektópasköl er því að finna í um 180 metra hæð yfir sjávarmáli. Þrýstingur fellur um 1 hPa á hverjum átta metrum. Við deilum 8 upp í 180 og fáum út 22,5 hPa, bætum 1000 við og sjávarmálsþrýstingurinn er 1022,5 hPa - (sem er óþarfanákvæmni).

Hvorki jafnhæðar- né jafnþykktarlínur eru mjög þéttar utanum miðju kuldapollsins og við tökum eftir því að bil á milli línugerðanna beggja er svipað. Þetta segir okkur að þrýstisviðið sé til þess að gera flatt í 1000 hPa og vindur líklega hægur.

Lítum nú á aðra mynd af sama svæði. Jafnþrýstilínur (við sjávarmál) eru heildregnar. Lituðu svæðin sýna nú hitann í 850 hPa á fjólubláu svæðunum er frostið meira en -20 stig og meiri en -30 stig á dekksta svæðinu.

w-blogg130113b

Landaskipun er sú sama og á efra kortinu, Ísland neðarlega til hægri. Við sjáum kuldapollinn vel á hitakortinu (litirnir) en hann sést varla eða ekki í þrýstisviðinu. Það hringar þó litla lægð með 1020 hPa línunni. Við höfðum reiknað þetta út - og sömuleiðis vissum við fyrirfram að þrýstilínurnar væru ekki þéttar.

Nú um helgins liggur kuldapollurinn hreyfingarlítill. Meðan svo er stendur engin sérstök ógn af honum. En - spár gera ráð fyrir því að hryggur sem nú er yfir Alaska fari að stugga við honum. Það er reyndar farið að sjást á kortinu því ef vel er að gáð er kuldapollurinn ekki alveg samhverfur - miðjan liggur frekar á annað borð heldur en hitt - hún hallar sér á móti hryggnum aðsteðjandi, því meir sem ásóknin er meiri. Þá gerist það að miðja kuldapollsins fer að hreyfast samsíða vindstrengnum þar sem hann er mestur. Kuldapollurinn hefur hefur hreyfst úr stað.

Engin aðsókn sést enn á sjávarmálskortinu. Kalda loftið sem neðst liggur hreyfist lítið sem ekkert þótt kjarni háloftakuldans sé að færa sig. Þetta lága loft liggur því eftir í fyrstu og togar í loftið ofan við - rétt eins og strekkist á bandi sem bundið er í stein - steinninn fer af stað um síðir en strekkir á. En 500 hPa-flöturinn togast niður og reyndar allt fyrir ofan líka. togið merkist alveg upp í veðrahvörf.

Þegar háloftafletirnir síga eflist háloftalægðin að mun og þá myndast misgengi á milli þykktar- og hæðarflata sem býr til þrýstibratta og vind í lægri flötum allt niður að sjávarmáli.

Snúningur jarðar sér reyndar til þess að hreyfibrautir stórra kuldapolla eru gjarnan hringlaga þeir sækja til suðurs en sveigja fljótt aftur til austurs og norðurs. En þeir geta verpt litlum eggjum sem komast mun sunnar.

Spár gera ráð fyrir því að Stóri-Boli fari nú að hreyfast í hringi yfir Kanada norðanverðu og styrkist í leiðinni - vegna veðrahvarfaniðurtogs þegar kalda loftið neðar sullast um meginlandið. Svo virðist sem reikningar eigi erfitt með smáatriðin í þróuninni og sýna mjög misjafnar niðurstöður frá einu spárennsli til annars. Við fáum því fjölmargar útgáfur af framhaldinu á hverjum degi og lítið á þær að treysta nema rétt næstu 2 til 4 daga.


Skilin leysast upp

Úrkomubakkinn sem hefur færst fram og til baka yfir landinu undanfarna daga er nú loksins að trosna upp. Hann sást þó enn vel á Miðnesheiðarratsjá Veðurstofunnar nú skömmu eftir miðnætti (aðfaranótt laugardags 12. janúar)

w-blogg120113

Litakvarðinn sýnir áætlað úrkomumagn - reiknað upp í klukkustundarákefð. Lestur af honum sýnir að úrkoma er varla nokkurs staðar meiri en 0,8 mm/klst.

Smáatriðaspár sýna leifar skilanna fram eftir laugardeginum og þá yfir Suðurlandi. Á laugardagskvöld ryður öllu kaldara loft sér braut inn á landið úr vestri. Lægðin sem stýrir því er þó hálfgerður vesalingur - en greining á þeim vesaldóm verður að liggja á milli hluta - klukkan á ritstjórnarskrifstofunni er orðin enn meira en venjulega.


Vitameinlaust smáatriði

Hér að neðan er fjallað um mjög algengt veðurfyrirbrigði sem stöku sinnum rífur sig upp í skaðræðisveður. Að þessu sinni er það svo ómerkilegt að það tekur varla nokkur maður eftir því. Eitthvað hefur verið minnst á þetta á hungurdiskum áður - en ástæða er til að hamra á því meðan beðið er eftir stóra dæminu.

w-blogg110113a

Fyrsta kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa-fletinum föstudaginn 11. janúar kl. 18. Jafnþrýstilínur eru heildregnar, jafnhitalínur eru strikaðar og má m.a. sjá -10°C línuna sveigjast langt til austurs fyrir sunnan Grænland. Úrkoma síðustu 6 klukkustundir er sýnd með grænum og bláum litum. Dökkblái bletturinn sem rauða örin bendir á táknar 15 til 20 mm á 6 klukkustundum.

Úrkomusvæðið yfir vestanverðu Íslandi sýnir að skilin sem hafa verið að fara fram og til baka yfir landið í dag (fimmtudag) og í gær verða enn viðloðandi á föstudagskvöld.

En úrkomuhnúturinn sem örin bendir á er umfjöllunarefni dagsins. Þar er mjög hvöss norðnorðaustanátt næst jörð - en snýst fyrst í norðvestur og síðan suðvestur eftir því sem ofar dregur yfir norðurhluta hnútsins. Sunnar er háloftaáttin af austsuðaustri. Hverjar eru nú reglur um hlýtt og kalt aðstreymi?

Í hlýju aðstreymi snýst vindur sólarsinnis með vaxandi hæð. Snúningurinn norðnorðaustur (20°) til austsuðausturs (110°) er þannig sunnan til í úrkomuhnútnum og þar er því hlýtt aðstreymi. Í köldu aðstreymi snýst vindur andsólarsinnis með vaxandi hæð. Í hnútnum er snúningurinn norðantil úr norðnorðaustri (20°) til norðvesturs (320°) og yfir í suðvestur (230°) - þar er því kalt aðstreymi. Þar sem hlýtt og kalt aðstreymi kallast á skerpir á hitabratta (jafnþykktarlínur þéttast).

Af þessu má sjá að einmitt við þessar aðstæður geta hlutir gerst. En við fylgjum nú hnútnum í 12 klukkustundir, næsta kort gildir kl. 06 að morgni laugardags.

w-blogg110113b

Þarna sést að hnúturinn (rauða örin bendir enn á hann) hefur hreyfst nokkurn spöl til norðausturs. Með góðum vilja má fylgja honum allt til Færeyja en spáin segir hann verða þar á sunnudag (14. janúar) - það sýnir blá strikaör í grófum dráttum. Lægðin við Írland fer suður á Miðjarðarhaf og litla lægðin á Grænlandshafi fer til austsuðausturs á sama tíma.

Hvað með þetta? Jú, fáeinar af verstu illviðralægðum hér við land eru einmitt orðnar til á þennan hátt. Lítum á 500 hPa-kort sem gildir á sama tíma.

w-blogg110113c

Hér eru jafnhæðarlínur svartar, vindörvar sýna vindhraða og stefnu og litafletir hita í 500 hPa. Gulu litirnir tákna hlýtt loft en bláir kaldara. Rauða örin bendir á þann stað sem úrkomuhnúturinn okkar er staddur. Stórt S er sett í söðul á kortinu. Söðlar eru eins konar fjallaskörð í þrýstisviðinu. Þar mætast allar vindáttir. Brúna strikalínan er sett við dálítið lægðardrag sem er á austurleið.

Við endurtökum að fáeinar af verstu illviðralægðum hér við land eru einmitt orðnar til við söðulaðstæður suður eða suðvestur í hafi. Skammtur af hlýju lofti á norðurleið austan söðuls hittir fyrir kalt sem gengur til austurs eða austsuðausturs fyrir norðan hann. Sé tímasetningin rétt (hittir í hann) geta afdrifaríkir hlutir gerst.

En nú gerist ekkert. Tímasetningin er ekki rétt og loftið að vestan og norðvestan ekki alveg nógu kalt og auk þess á hlýja loftið lítið bakland - stutt er í aðra háloftalægð rétt austan við.

Á þessu korti sér einnig í fyrirstöðuna fyrir austan land sem hefur tekið þátt í að móta veðrið hér síðustu daga. Hún hörfar heldur - sjá má hvernig kalt loft frá meginlandinu (bláa örin) er að hringa hana og þar með verður hún úr sögunni fyrir okkur. Auk þess sækir brúnstrikamerkta lægðardragið á úr vestri.

Næstu fyrirstöðumyndun er spáð hér við land á þriðjudaginn. Er sú miklu veigaminni heldur en fyrri spár gáfu sumar til kynna. Samt hefur hún veruleg áhrif á veður hér á landi (og miklu víðar) fram eftir næstu viku. En líta má á það mál síðar.


Fram og til baka

Nú (seint á miðvikudagskvöldi 9. janúar) hafa kuldaskil gengið inn á landið. Þar sem þau hafa farið yfir hefur hiti fallið mjög snögglega - víða um 2 til 4 stig. Við förum ekki nánar út í það - minnum samt á hálkumöguleika og jafnvel einhverja snjókomu.

Skilin eru að slappast og jafnframt hægja þau á framrás sinni til austurs. Svo virðist helst að þau snúi nú við og mjakist til vesturs. Varla telst þetta afgerandi atburður fyrir einn eða neinn (ef menn varast hálkuna) en það má samt rýna í smáatriði kortanna. Við skulum gera það.

Tvö fyrstu kortin ættu að vera kunnugleg föstum lesendum, en eftir að hafa litið á þau sjást líka þrjú „furðukort“ sem hafa lítið eða ekki sést áður hér á diskunum. Þessi kort segja almennum lesendum lítið sem ekkert og hér verður alls ekki farið í að skýra þau í smáatriðum. Vonandi skaddast menn ekki við að sjá þau. Það er líka frjálst að líta undan.

w-blogg100113a

Öll kortin gilda kl. 18 síðdegis fimmtudaginn 10. janúar. Fyrst er fjölþáttakort sem við köllum svo því lesa má fjölmörg atriði á kortinu. Jafnþrýstilínur eru gráar og heildregnar. Vindstyrkur og stefna eru sýnd á hefðbundinn hátt með vindörvum. Jafnhitalínur í 850 hPa-fletinum eru strikaðar, -5°C jafnhitalínan er fjólublá. Litafletir sýna úrkomu næstliðnar þrjár klukkustundir, á skærbláu svæðunum er hún 5 til 10 mm á 3 tímum. krossar (x) sýna snjókomu og þríhyrningar klakkaúrkomu - en það merkir e.t.v. að ákefðin gæti staðbundið verið meiri en litirnir sýna. Kortið batnar umtalsvert við stækkun.

Fjólubláa strikalínan (-5°C í 850 hPa) er gjarnan notuð til þess að giska á mörk á milli rigningar og snjókomu á láglendi. Henni og krossamerkingunni ber ekki alltaf saman með snjókomuna.

Dálítil lægð er syðst á kortinu, hreyfist hún til norðnorðvesturs og á að vera úti af Vestfjörðum rúmum sólarhring síðar án þess að dýpka að marki. Úrkomusvæðið sem liggur norður úr lægðinni markar uppstreymi sem sennilega er tengt skilunum. Hér virðast skilin vera á leið til vesturs og hljóta þar með að vera orðin að hitaskilum, hlýrra loft að austan hreyfist vestur.

Stækki menn kortið má sjá allmarga krossa yfir Vesturlandi, þar vill líkanið láta snjóa - en ekki er gott að segja hvort sú snjókoma nær niður að ströndinni. Þríhyrningarnir fyrir Suðausturlandi tákna að úrkoman sé að einhverju leyti dembukennd þar.

Hæðin lengst til hægri er fyrirstaðan sem fjallað var um í pistlinum í gær. Hún sést auðvitað betur á 500 hPa-kortinu hér að neðan, en það gildir á sama tíma.

w-blogg100113b

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og svartar, jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar. Iðan er bleikgrá (við sleppum henni hér). Sjá má að þykktin yfir landinu miðju er um 5340 metrar - þykktin mælir hitann í neðri hluta veðrahvolfs. Þessi þykkt nægir í góða hláku og skilin eru greinilega fyrir vestan land í 500 hPa - þar sem jafnþykktarlínur eru þéttastar. Við tökum eftir því að vindurinn (sem blæs samsíða jafnhæðarlínum) er að ýta hærri þykkt til vesturs yfir landið. Það einkennir hitaskil.

Hér skilur leiðir - þeir sem lesa áfram halda á foraðið en þurfa samt ekki að hafa áhyggjur af skilningsleysi eða áttunarvanda - þetta er til gamans gert.

Við skoðun á næsta korti má sjá að almennt er loft að kólna á svæðinu þannig að hlýja aðstreymið hefur vart undan.

w-blogg100113c

Svartar heildregnar línur sýna hér sjávarmálsþrýstinginn (eins og á fyrsta kortinu). Við sjáum lægðina suður af landinu vel og einnig hæðina í austri. Vindörvarnar sýna hins vegar brattann á þykktarsviðinu - svonefndan þykktarvind. Þar sem hann er mikill er þykktarsviðið mjög bratt - eins konar meðallega skilanna í neðri hluta veðrahvolfs.

Litasvæðin eru aðeins snúnari - gulir litir sýna hvar þykktin hefur aukist síðustu 3 klukkustundir en bláir hvar hún hefur minnkað. Styrkur litanna er aðeins misvísandi í þessu sambandi vegna þess að hann fer eftir þykktarvindhraðanum. Bláir litir eru yfirgnæfandi við Ísland og þar hefur sum sé kólnað síðustu 3 klukkustundir. Smásvæði er þó suður undan þar sem framsókn hitaskilanna heldur í við almenna kólnun, eins er lítið gult svæði nokkuð fyrir vestan land. Gulu svæðin við strönd Grænlands eru hins vegar til komin af einhverri fjallabylgjuvirkni þar um slóðir.

Þrátt fyrir allt má sjá að talsverður kraftur er í sviðinu rétt suður af lægðarmiðjunni, þykktarvindurinn er um 75 hnútar (um 35 m/s). Vindur niður undir sjávarmáli er af stormstyrk (yfir 20 m/s).

Á næsta korti staðsetjum við skilin betur. Það sýnir svokallaða mættisiðu milli 925 og 850 hPa-flatanna. Höfum ekki áhyggjur af merkingu hugtaksins - nema hvað mættisiðan er hér mælikvarði á lóðréttan styrk hitahvarfa í 600 til 1400 metra hæð. Svartar línur sýna sjávarmálsþrýsting og vindörvar miðast við 850 hPa.

w-blogg100113d

Lituðu svæðin sýna hvar hitahvörf eru öflugust í kílómeters hæð eða svo. Á myndinni eru nokkrar gerðir hitahvarfa - yfir Grænlandi liggur hlýtt loft ofan á jöklinum - mikill hitamunur þar, sömuleiðis eru miklar þar miklar lóðréttar hreyfingar tengdar landslagi. Í kringum hæðina eru gulir flekkir - væntanlega tengdir niðurstreymi í hæðinni (niðurstreymi býr til hitahvörf nái það ekki til jarðar). Við lægðarmiðjurnar eru hins vegar mjóir gulir taumar - það eru skil tengd lægðinni. Við sjáum stöðu þeirra yfir landinu vel (yfir Austurlandi eru landslagstruflanir).

Síðasta kortið sýnir mun stærra svæði. Þrýstilínur við sjávarmál eru sýndar, en litirnir sýna stöðugleika í veðrahvolfinu, frá 850 hPa og upp úr. Kvarðinn er þannig að háar tölur sýna mikinn stöðugleika (oftast vegna niðurstreymis) en lágar hvar loft er óstöðugt.

w-blogg100113e

Landaskipan ætti að sjást betur sé kortið stækkað. Við sjáum sömu lægðina fyrir sunnan Ísland og hæðina fyrir austan. Dýpri lægðir eru sunnar og vestar á kortinu. Grænu svæðin tákna mikinn stöðugleika (hlýtt uppi / kaldara niðri). Mörkin milli grænna og rauðbrúnna svæða eru einskonar skilasvæði - sem greina milli lofts af mismunandi uppruna. Brúnustu svæðin sýna hvar raki er mikill í neðri hluta veðrahvolfs - þar er fóður í óstöðugleika, við sjáum smásvæði með fjólubláum lit við lægðarmiðjuna (dýpri) langt sunnan við land. Þar veltur loftið trúlega.

Nóg að sinni - þakka þolinmóðum lesendum. Það má geta þess að veðurfregnir BBC hafa nú loks séð ástæðu til að benda á heiðhvolfsatburðinn stóra og lofuðu í dag einhverri umfjöllun - hún verður þó varla jafngóð og umfjöllun hungurdiska (?). Tengillinn sem þeir gefa er þessi:

http://metofficenews.wordpress.com/2013/01/08/what-is-a-sudden-stratospheric-warming-ssw/

Þarna er ágætur texti á ensku sem veðurnörd ættu að lesa. Auk þess skýrir sérfræðingur munnlega á sjónvarpsræmu.


Skammvinn fyrirstaða

Nú eru fimm til tíu daga spár farnar að sjá fyrirstöðumyndanir - en enn er aðeins samkomulag um þá fyrstu. Hún er nú um það bil að myndast, verður í hámarksstyrk frá fimmtudegi fram á sunnudag - en samkomulag reiknilíkana nær ekki lengra. En í kvöld (þriðjudag 8. janúar) búa nýjustu spár  evrópureiknimiðstöðvarinnar og bandaríska veðurstofulíkanið til risafyrirstöðu eftir um það bil viku. En við megum ekki trúa þeim ennþá.

En lítum á spá reiknimiðstöðvarinnar um fyrirstöðuna í 500 hPa næstu daga, kortið að neðan gildir um hádegi á fimmtudag (10. janúar).

w-blogg090113

Skýringatextinn er eins og venjulega: Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar og merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því hvassari er vindurinn sem hér blæs nokkurn veginn samsíða jafnhæðarlínunum með hærri flöt til hægri við vindstefnuna.

Litafletirnir marka ákveðin jafnþykktarbil, skipt er um lit á 6 dam bili. Mörkin á milli grænna og blárra lita er sett við 5280 metra, en mörk á milli grænna og gulra er við 5460 metra. Þar er algeng sumarþykkt á Íslandi. Þykktin mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Ísland er ekki fjarri miðri mynd.

Við sjáum að gríðarlega mikil hlý tunga (grænir litir) teygir sig langt til norðurs fyrir austan land. Sunnanátt beinir hlýja loftinu sunnan frá Biskæjaflóa og langleiðina til norðurskautsins og myndar gríðarstórt hæðarsvæði. Kalt loft (blátt) er til beggja handa. Kalda tungan fyrir austan hæðina leggst til vesturs um sunnanverð Norðurlönd og mun ná allt til Bretlandseyja. Önnur köld tunga er á austurleið yfir Tyrklandi eftir að hafa valdið snjókomu og usla á Grikklandi síðustu daga.

Hæðin þokast nú austur og fer minnkandi næstu daga. Þetta er mikil hlýindastaða fyrir okkur. Að vísu er stutt í kalt loft vestan við land og kuldaskilin sem fjallað var um í pistlinum í gær eru á kortinu yfir landinu. Þau eiga smám saman að leysast upp og þá tekur við óráðið veður í tvo til þrjá daga.

Lægðin við Suður-Grænland, sú sem veldur sunnanhvassviðri á morgun miðvikudag (þegar flestir lesa þennan pistil) grynnist og gerir lítið meir.

Síðan er spurning hvað gerist. Langt suðvestur undan eru tvö býsna snörp lægðardrög sem hreyfast eins og örvarnar sýna. Líkönin segja þau verða svo þung á sér að þau fari ekki norðar og lokist um síðir inni sunnan við meginvindröstina, að austara skýst til austurs yfir Frakkland, en það vestara breytist í afskorna lægð. Þetta er ekki alveg víst.

Kuldapollurinn mikli, sem við köllum enn Stóra-Bola situr í réttu sæti sem stendur en á reyndar að fara í langa hringferð í kringum sjálfan sig - svipað og hvíta, sveigða örin sýnir. Framtíðin ræðst af því sem gerist þegar hann er aftur kominn í syðstu stöðu í hringnum. Síðasta spá reiknimiðstöðvarinnar sýnir hann verpa eggi sem þá myndi valda gríðarlegu kuldakasti í austanverðu Kanada eftir rúma viku og ryðji upp gríðarstórri fyrirstöðu við Ísland - sem þá aftur beindi lofti frá norður Rússlandi eða Síberíu vestur um Evrópu. Við vonum að sú spá gangi ekki eftir.

Um síðastliðna helgi skiptist Stóri-Boli heiðhvolfsins (ofan við 18 til 20 km hæð) snögglega í tvennt. Gamlar þumalfingursreglur segja að við slíka atburði bæti í lengdarbundna hringrás veðrahvolfsins. Orðið lengdarbundinn er framandi - en þýðir einfaldlega það sem orðhlutarnir segja. Venjulega blása flestir vindar samsíða breiddarbaugum (oftast úr vestri til austurs) - breiddarbundið. Norðan- og sunnanáttir eru hins vegar lengdarbundnar - blása samsíða lengdarbaugum. Í veðrahvolfinu er lengdarbundið flæði að jafnaði aðeins um 10% af því breiddarbundna (vegna áhrifa snúnings jarðar).

Aukist lengdarbundið flæði lítillega táknar það að kalt loft á greiðari aðgang til suðurs - og hlýtt til norðurs heldur en að jafnaði. Eins og gefur að skilja verður hitafar margra svæða á norðurhveli mjög afbrigðilegt við þessi skilyrði. Hversu afbrigðilegt fer að vísu mjög eftir því hvar norðan- og sunnanáttirnar koma sér fyrir á hverjum tíma í landaskipan úthafa og meginlanda. Ástand þetta er líka mjög misþrásetið - það ræðst af tilviljunum hverju sinni - stundum stendur það aðeins í tvo til þrjá daga - en stundum miklu lengur.

Við fáum alla vega þessa fyrirstöðu næstu daga. Hvað svo gerist kemur í ljós. En við reynum að fylgjast með ef atburðir verða merkilegir.


Hvað er bakvið kuldaskilin?

Í dag (mánudag 7. janúar) voru enn mikil hlýindi hér á landi í suðaustlægri vindátt. Enn eitt lægðakerfið nálgaðist úr suðvestri. Þessi lægð náði reyndar mestum og bestum þroska við suðurodda Grænlands en kalda loftið á bakvið hana heldur áfram til austurs og síðar norðausturs þótt úr því sem mesti krafturinn. Það kemur hingað á bakvið kuldaskil sem fara yfir landið seint aðfaranótt þriðjudagsins 8. janúar. Þau verða væntanlega komin yfir allt landið vestanvert þegar flestir lesendur fletta þessum pistli. Ekki er efnið þó alveg úrelt því hér er líka fjallað um næsta kerfi sem á að fara svipaða leið aðfaranótt fimmtudags.

En lítum á kort sem sýnir fyrra kerfið. Það gildir kl. 6 að morgni þriðjudags. Alltaf er gott að æfa sig í túlkun spákorta. Kortið er í boði evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg080113a

Við köllum þetta fjölþáttaspá því lesa má fjölmörg atriði á kortinu. Jafnþrýstilínur eru gráar og heildregnar. Vindstyrkur og stefna eru sýnd á hefðbundinn hátt með vindörvum. Jafnhitalínur í 850 hPa-fletinum eru strikaðar, -5°C jafnhitalínan er fjólublá. Litafletir sýna úrkomu næstliðnar þrjár klukkustundir, á skærbláu svæðunum er hún 5 til 10 mm á 3 tímum. krossar (x) sýna snjókomu og þríhyrningar klakkaúrkomu - en það merkir e.t.v. að ákefðin gæti staðbundið verið meiri en litirnir sýna. Kortið batnar umtalsvert við stækkun.

Allt kerfið hreyfist til norðausturs og minnkar að afli. Fjólubláa strikalínan (-5°C í 850 hPa) er gjarnan notuð til þess að giska á mörk á milli rigningar og snjókomu á láglendi. Ef farið er í saumana á kortinu má sjá að engir krossar eru suðvestanmegin í kerfinu þar sem það er að fara yfir Reykjanes. En nú vitum við það að sé úrkomuákefðin nægileg og vindur hægur nær snjókoman alveg til jarðar. Í textaspá Veðurstofunnar fyrr í kvöld (mánudag) er slyddu eða snjókomu ekki getið. Lega fjólubláu strikalínunnar styrkir það viðhorf - en einhverjar líkur eru samt á slyddu eða snjókomu - ef ekki við sjávarmál þá heldur ofar.

Síðan birtir upp og við bíðum næsta kerfis. Það er alveg eins og það fyrra að því leyti að fyrst er allhvöss eða hvöss suðaustanátt sem gengur niður í hægan vind eftir að kuldaskilin fara yfir. Ef marka má spár eru þessi síðari skil hægari á yfirferð sinni heldur en þau fyrri og eykur það líkur á að snjókoma verði á bakhlið þeirra. Úrkoma fellur lengur niður í „sama“ loftið og fær meiri tíma til að kæla það.

Hér er samsvarandi kort sem gildir á miðnætti á miðvikudagskvöld.

w-blogg080113b

Hér sjáum við að skilin eru rétt yfir höfuðborginni. Hér gæti auðvitað skeikað nokkru - þrátt fyrir allt eru tveir dagar í þessa stöðu. Býsna mikil úrkoma fylgir skilunum, en -5°C línan er alllangt suðvestur undan og utan við úrkomukerfið. Handan hennar eru örugglega él - en hvað með bakhlið skilanna? Ekki gott að segja - en við lítum á eitt kort til viðbótar.

w-blogg080113c

Þetta kort sýnir hæð 925 hPa-flatarins á sama tíma og næsta kort fyrir ofan. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, vindur sýndur með vindörvum og hiti með litatónum. Mörkin milli grænu og gulbrúnu litanna eru við frostmark. Það er 640 metra jafnhæðarlínan sem er ið Reykjanes. Þarna er grænn (kaldari) fleygur á milli gulra flata. Ekki getum við verið alveg viss um hvað veldur - líklegast þó annað hvort staðbundið uppstreymi (sem kælir) eða þá afleiðing af kælingu af völdum bráðnandi snævar.

Já, hvað er bakvið kuldaskilin fyrri og síðari? Ekki veit ritstjórinn svarið við því frekar en venjulega.


Hiti og þykkt árið 2012

Þótt heldur fáir almennir lesendur hafi áhuga á efni dagsins er samt rétt að fréttist af því. Við áramót eru meðaltöl reiknuð og litið yfir nýliðið ár fyrir fjölmarga veðurþætti. Meðalhiti á veðurstöðvum er oftast fréttnæmastur, en hvað með meðalhitann í neðri hluta veðrahvolfs. Hann er mældur með fjarlægðinni milli 1000 og 500 hPa-þrýstiflatanna sem síðan er nefnd þykkt.

Mjög gott samband er á milli ársmeðalþykktar og ársmeðalhita og hollt að líta á hvernig síðastliðið ár hefur komið út miðað við önnur. Við höfum áreiðanlegar mælingar á þykktinni aftur til 1949 og berum saman meðalhita í Stykkishólmi og meðalhita yfir landinu síðan þá á mynd.

w-blogg070113

Lárétti ásinn sýnir þykktina í dekametrum (eftir að talan 500 hefur verið dregin frá), en sá lóðrétti sýnir meðalhita í Stykkishólmi. Köldustu árin eru neðst á myndinni en þau hlýjustu efst. Myndin ætti að verða skýrari við stækkun og þá sjást ártölin betur. Ár minnstu þykktar eru lengst til vinstri og mestu lengst til hægri.

Árin 1979 og 1981 voru þau köldustu á tímabilinu og eru líka með minnsta þykkt. Árið 2010 er með mesta þykkt, en árið 2003 er hlýjast. Rauða línan sýnir línulegt aðfall - einskonar meðaltal sambands þykktar og hita. Hallinn segir að hiti í Stykkishólmi hækki um 0,44 stig við hvern dekametra í þykktaraukningu. Fylgnin á milli þáttanna er mjög há, 0,82.

Þau ár sem eru neðan aðfallslínunnar eru kaldari en þau „ættu að vera“ miðað við þykktina. Skýringar á því geta verið margs konar - en við sjáum alla vega að hafísárin 1965 til 1971 eru neðan línunnar - sum mikið. Þau eru kaldari en þau hefðu átt að vera. Sérstaklega sker árið 1968 sig illa úr - meðalhiti var þá 3,2 stig í Stykkishólmi, en hefði átt að vera heilu stigi hlýrra - ef loftið efra hefði fengið að njóta sín. Eru ár þar sem pólsjór (eða kaldur sjór annar) er ríkjandi við Ísland almennt kaldari heldur en þykktin segir til um? (Svarið er aðeins flóknara en beint já).

En hvað með síðastliðið ár, 2012? Við sjáum af myndinni að það er langt fyrir ofan aðfallslínuna - sýnist vera svo sem eins og 0,8 stigum hlýrra en það „hefði átt að vera“. Hvernig stendur á þessu? Allmargar skýringar koma til álita - en hver þeirra er rétt er ekki gott að segja. Hér koma nokkrar af fleirum.

Árið 2012 var eitt hið sólríkasta sem vitað er um um allt vestan- og norðanvert landið og sumarið þurrt í Stykkishólmi. Kannski munar um það? Ekki veit ritstjórinn um sjávarhitann í kringum landið, sé hann hærri heldur en þykktin gefur til kynna gæti hann skýrt mismuninn einn og sér (?). Gæti meðalhitinn í Stykkishólmi verið of hár? Lítið á töflu í yfirliti Veðurstofunnar  um tíðarfar ársins 2012. Hvað má sjá þar? Sé farið í smáatriðin á myndinni hér að ofan má sjá að mörg ár liggja mjög þétt ofarlega í sveimnum og að halli þessa þétta svæðis er ívið meiri heldur en hallinn á meginaðfallslínunni. Þetta gæti bent til þess að „réttur“ halli línunnar sé meiri en reiknað er - eða hvað?

Áreiðanlegt og rétt svar liggur ekki fyrir.


Norðurhvel á þrettándanum

Smábylgjur með lægðum eða skilasvæðum ryðjast nú hver af annarri yfir landið eða fara hjá skammt undan. Sagt er að vikan öll sé frátekin fyrir þetta veðurlag. Þar með er ekki sagt að bylgjurnar séu allar eins - hver þeirra er með sínu sniði. Hlýtt loft fylgir þeim öllum - engin þeirra væntanlegu er þó jafnhlý og sú sem fór hjá í gær með metaföllum. Þótt hlýtt sé í veðri er ekki þar með sagt að hálka og snjór haldi sig alveg fjarri. Í heiðu veðri milli lægða myndast fljótt hálka, jafnvel þó það sé í skamman tíma hverju sinni. Svo stingur kaldara loft sér líka inn og endrum og sinnum og getur valdið skammvinnri en ákafri snjókomu. Vörumst því hálkuna að vanda.

En lítum á norðurhvelskort sem sýnir 500 hPa-hæðar og þykktarspá sunnudaginn 6. janúar kl. 18. Gögnin eru frá evrópureiknimiðstöðinni en teikningin fór að vanda fram í smiðju Bolla Pálmasonar teiknimeistara Veðurstofunnar.

w-blogg060113

Gráa örin bendir á lægðarbylgju rétt sunnan við Ísland. Norðurskaut er um það bil á miðri mynd og neðri endi örvarinnar er við strönd Marokkó. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar og sýna hæð hans í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Merkingar og litakvarði sjást mun betur sé kortið stækkað með (2x) smellistækkun. Þykktin er sýnd í litum, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið - og hún er líka mæld í dekametrum. Mörkin á milli grænna og blárra litatóna er sett við 5280 metra. Það er rétt ofan meðallags á Íslandi á þessum tíma árs.

Dökkfjólubláir litir byrja við 4920 metra - svo lág þykkt nær aðeins örsjaldan til Íslands - hafið umhverfis landið verndar okkur að mestu frá slíku. Mestu kuldapollar norðurhvels mynda stórar fjólubláar breiður á kortum á vetrum og eru miklir illviðravaldar hnikist þeir úr sínum hefðbundnu sætum. Stöku sinnum skjótast fyrirferðaminni háloftalægðir út úr meginpollunum, þá er eins og þeir verpi eggjum - en oftast ganga smærri bylgjur linnulítið í kringum þá.

Þannig er ástandið núna. Fyrir nokkrum dögum gátum við talið einar sex smábylgjur í kringum Stóra-bola sem hér er notað sem eins konar gælunafn á Kanadakuldapollinum mikla en hann situr þessa dagana í réttu sæti - og er reyndar ekkert óskaplega öflugur.

Á kortinu að ofan hefur hann þó skotið dragi til suðurs yfir Labrador. Þetta drag nær á miðvikudaginn eða svo sambandi við smábylgju sem nú er á austurleið yfir vötnunum miklu í Ameríku. Saman eiga þessi tvö drög að mynda mjög djúpa lægð sem reyndar kemst ekki alveg til Íslands ef trúa má spám - en þó er spáð suðaustanhvassviðri og rigningu samfara henni.

En það eru tvö eða þrjú lægðardrög sem þurfa að fara hér hjá áður. Annað þeirra er það sem er á myndinni rétt sunnan við Ísland og myndar litla, lokaða háloftalægð. Hún er að fara hjá þegar kortið gildir síðdegis á sunnudag. Í dag (laugardag) hefur verið talsverður kraftur í henni - með ofsaveðri sunnan lægðarmiðjunnar. Allar spár eru hins vegar sammála um að hún missi andann ótrúlega fljótt og valdi því ekki neinu teljandi illviðri hér á landi - nema úrkomu, rigningu eða snjó. En við látum Veðurstofuna fylgjast með því og eru allir sem eitthvað eiga undir veðri hvattir til þess að fylgjast með spám hennar um þessa lægð og aðrar - en taka ekki mark á tuði hungurdiska.

Ástæða uppgjafar lægðarinnar mun vera sú að ný smábylgja sem ekki sést á þessu korti á að troða sér á milli hennar og þeirrar næstu sem merkt er á kortið (L) - þar með nær sú fyrri ekki að ná í kalt loft (eða niðurdrátt veðrahvarfanna) sem nauðsynlegt er henni til viðgangs.

Fyrir nokkrum dögum fjölluðu hungurdiskar um merkilega stöðubreytingu uppi í heiðhvolfinu.  Sú snögga breyting á sér einmitt stað í dag (laugardag). Að sögn fróðustu manna eykur atburður sem þessi líkur á háreistum bylgjum og jafnvel fyrirstöðum í vestanvindabelti veðrahvolfsins. Langtímaspár (tveggja til fjögurra vikna) hafa gefið fyrirstöðumyndanir til kynna og þar með má segja að þær liggi í loftinu (bókstaflega) - en viku- til tíudagaspár hafa hins vegar fæstar viljað viðurkenna þennan möguleika.

Ritstjórinn verður bara að segja pass og bíða næsta sagnhrings.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 17
  • Sl. sólarhring: 416
  • Sl. viku: 1943
  • Frá upphafi: 2484482

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 1750
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband