Skammvinn fyrirstaða

Nú eru fimm til tíu daga spár farnar að sjá fyrirstöðumyndanir - en enn er aðeins samkomulag um þá fyrstu. Hún er nú um það bil að myndast, verður í hámarksstyrk frá fimmtudegi fram á sunnudag - en samkomulag reiknilíkana nær ekki lengra. En í kvöld (þriðjudag 8. janúar) búa nýjustu spár  evrópureiknimiðstöðvarinnar og bandaríska veðurstofulíkanið til risafyrirstöðu eftir um það bil viku. En við megum ekki trúa þeim ennþá.

En lítum á spá reiknimiðstöðvarinnar um fyrirstöðuna í 500 hPa næstu daga, kortið að neðan gildir um hádegi á fimmtudag (10. janúar).

w-blogg090113

Skýringatextinn er eins og venjulega: Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar og merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því hvassari er vindurinn sem hér blæs nokkurn veginn samsíða jafnhæðarlínunum með hærri flöt til hægri við vindstefnuna.

Litafletirnir marka ákveðin jafnþykktarbil, skipt er um lit á 6 dam bili. Mörkin á milli grænna og blárra lita er sett við 5280 metra, en mörk á milli grænna og gulra er við 5460 metra. Þar er algeng sumarþykkt á Íslandi. Þykktin mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Ísland er ekki fjarri miðri mynd.

Við sjáum að gríðarlega mikil hlý tunga (grænir litir) teygir sig langt til norðurs fyrir austan land. Sunnanátt beinir hlýja loftinu sunnan frá Biskæjaflóa og langleiðina til norðurskautsins og myndar gríðarstórt hæðarsvæði. Kalt loft (blátt) er til beggja handa. Kalda tungan fyrir austan hæðina leggst til vesturs um sunnanverð Norðurlönd og mun ná allt til Bretlandseyja. Önnur köld tunga er á austurleið yfir Tyrklandi eftir að hafa valdið snjókomu og usla á Grikklandi síðustu daga.

Hæðin þokast nú austur og fer minnkandi næstu daga. Þetta er mikil hlýindastaða fyrir okkur. Að vísu er stutt í kalt loft vestan við land og kuldaskilin sem fjallað var um í pistlinum í gær eru á kortinu yfir landinu. Þau eiga smám saman að leysast upp og þá tekur við óráðið veður í tvo til þrjá daga.

Lægðin við Suður-Grænland, sú sem veldur sunnanhvassviðri á morgun miðvikudag (þegar flestir lesa þennan pistil) grynnist og gerir lítið meir.

Síðan er spurning hvað gerist. Langt suðvestur undan eru tvö býsna snörp lægðardrög sem hreyfast eins og örvarnar sýna. Líkönin segja þau verða svo þung á sér að þau fari ekki norðar og lokist um síðir inni sunnan við meginvindröstina, að austara skýst til austurs yfir Frakkland, en það vestara breytist í afskorna lægð. Þetta er ekki alveg víst.

Kuldapollurinn mikli, sem við köllum enn Stóra-Bola situr í réttu sæti sem stendur en á reyndar að fara í langa hringferð í kringum sjálfan sig - svipað og hvíta, sveigða örin sýnir. Framtíðin ræðst af því sem gerist þegar hann er aftur kominn í syðstu stöðu í hringnum. Síðasta spá reiknimiðstöðvarinnar sýnir hann verpa eggi sem þá myndi valda gríðarlegu kuldakasti í austanverðu Kanada eftir rúma viku og ryðji upp gríðarstórri fyrirstöðu við Ísland - sem þá aftur beindi lofti frá norður Rússlandi eða Síberíu vestur um Evrópu. Við vonum að sú spá gangi ekki eftir.

Um síðastliðna helgi skiptist Stóri-Boli heiðhvolfsins (ofan við 18 til 20 km hæð) snögglega í tvennt. Gamlar þumalfingursreglur segja að við slíka atburði bæti í lengdarbundna hringrás veðrahvolfsins. Orðið lengdarbundinn er framandi - en þýðir einfaldlega það sem orðhlutarnir segja. Venjulega blása flestir vindar samsíða breiddarbaugum (oftast úr vestri til austurs) - breiddarbundið. Norðan- og sunnanáttir eru hins vegar lengdarbundnar - blása samsíða lengdarbaugum. Í veðrahvolfinu er lengdarbundið flæði að jafnaði aðeins um 10% af því breiddarbundna (vegna áhrifa snúnings jarðar).

Aukist lengdarbundið flæði lítillega táknar það að kalt loft á greiðari aðgang til suðurs - og hlýtt til norðurs heldur en að jafnaði. Eins og gefur að skilja verður hitafar margra svæða á norðurhveli mjög afbrigðilegt við þessi skilyrði. Hversu afbrigðilegt fer að vísu mjög eftir því hvar norðan- og sunnanáttirnar koma sér fyrir á hverjum tíma í landaskipan úthafa og meginlanda. Ástand þetta er líka mjög misþrásetið - það ræðst af tilviljunum hverju sinni - stundum stendur það aðeins í tvo til þrjá daga - en stundum miklu lengur.

Við fáum alla vega þessa fyrirstöðu næstu daga. Hvað svo gerist kemur í ljós. En við reynum að fylgjast með ef atburðir verða merkilegir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Væri ekki gott bara að fá gríðarstóru fyrirstöðuna ef hún væri á hagstæðum stað fyrir okkur. Skítt með aðra!

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.1.2013 kl. 16:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 87
  • Sl. viku: 1381
  • Frá upphafi: 2350965

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 1197
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband