Hiti og þykkt árið 2012

Þótt heldur fáir almennir lesendur hafi áhuga á efni dagsins er samt rétt að fréttist af því. Við áramót eru meðaltöl reiknuð og litið yfir nýliðið ár fyrir fjölmarga veðurþætti. Meðalhiti á veðurstöðvum er oftast fréttnæmastur, en hvað með meðalhitann í neðri hluta veðrahvolfs. Hann er mældur með fjarlægðinni milli 1000 og 500 hPa-þrýstiflatanna sem síðan er nefnd þykkt.

Mjög gott samband er á milli ársmeðalþykktar og ársmeðalhita og hollt að líta á hvernig síðastliðið ár hefur komið út miðað við önnur. Við höfum áreiðanlegar mælingar á þykktinni aftur til 1949 og berum saman meðalhita í Stykkishólmi og meðalhita yfir landinu síðan þá á mynd.

w-blogg070113

Lárétti ásinn sýnir þykktina í dekametrum (eftir að talan 500 hefur verið dregin frá), en sá lóðrétti sýnir meðalhita í Stykkishólmi. Köldustu árin eru neðst á myndinni en þau hlýjustu efst. Myndin ætti að verða skýrari við stækkun og þá sjást ártölin betur. Ár minnstu þykktar eru lengst til vinstri og mestu lengst til hægri.

Árin 1979 og 1981 voru þau köldustu á tímabilinu og eru líka með minnsta þykkt. Árið 2010 er með mesta þykkt, en árið 2003 er hlýjast. Rauða línan sýnir línulegt aðfall - einskonar meðaltal sambands þykktar og hita. Hallinn segir að hiti í Stykkishólmi hækki um 0,44 stig við hvern dekametra í þykktaraukningu. Fylgnin á milli þáttanna er mjög há, 0,82.

Þau ár sem eru neðan aðfallslínunnar eru kaldari en þau „ættu að vera“ miðað við þykktina. Skýringar á því geta verið margs konar - en við sjáum alla vega að hafísárin 1965 til 1971 eru neðan línunnar - sum mikið. Þau eru kaldari en þau hefðu átt að vera. Sérstaklega sker árið 1968 sig illa úr - meðalhiti var þá 3,2 stig í Stykkishólmi, en hefði átt að vera heilu stigi hlýrra - ef loftið efra hefði fengið að njóta sín. Eru ár þar sem pólsjór (eða kaldur sjór annar) er ríkjandi við Ísland almennt kaldari heldur en þykktin segir til um? (Svarið er aðeins flóknara en beint já).

En hvað með síðastliðið ár, 2012? Við sjáum af myndinni að það er langt fyrir ofan aðfallslínuna - sýnist vera svo sem eins og 0,8 stigum hlýrra en það „hefði átt að vera“. Hvernig stendur á þessu? Allmargar skýringar koma til álita - en hver þeirra er rétt er ekki gott að segja. Hér koma nokkrar af fleirum.

Árið 2012 var eitt hið sólríkasta sem vitað er um um allt vestan- og norðanvert landið og sumarið þurrt í Stykkishólmi. Kannski munar um það? Ekki veit ritstjórinn um sjávarhitann í kringum landið, sé hann hærri heldur en þykktin gefur til kynna gæti hann skýrt mismuninn einn og sér (?). Gæti meðalhitinn í Stykkishólmi verið of hár? Lítið á töflu í yfirliti Veðurstofunnar  um tíðarfar ársins 2012. Hvað má sjá þar? Sé farið í smáatriðin á myndinni hér að ofan má sjá að mörg ár liggja mjög þétt ofarlega í sveimnum og að halli þessa þétta svæðis er ívið meiri heldur en hallinn á meginaðfallslínunni. Þetta gæti bent til þess að „réttur“ halli línunnar sé meiri en reiknað er - eða hvað?

Áreiðanlegt og rétt svar liggur ekki fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 71
  • Sl. sólarhring: 75
  • Sl. viku: 1669
  • Frá upphafi: 2350946

Annað

  • Innlit í dag: 64
  • Innlit sl. viku: 1461
  • Gestir í dag: 56
  • IP-tölur í dag: 56

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband