Fram og til baka

Nú (seint á miðvikudagskvöldi 9. janúar) hafa kuldaskil gengið inn á landið. Þar sem þau hafa farið yfir hefur hiti fallið mjög snögglega - víða um 2 til 4 stig. Við förum ekki nánar út í það - minnum samt á hálkumöguleika og jafnvel einhverja snjókomu.

Skilin eru að slappast og jafnframt hægja þau á framrás sinni til austurs. Svo virðist helst að þau snúi nú við og mjakist til vesturs. Varla telst þetta afgerandi atburður fyrir einn eða neinn (ef menn varast hálkuna) en það má samt rýna í smáatriði kortanna. Við skulum gera það.

Tvö fyrstu kortin ættu að vera kunnugleg föstum lesendum, en eftir að hafa litið á þau sjást líka þrjú „furðukort“ sem hafa lítið eða ekki sést áður hér á diskunum. Þessi kort segja almennum lesendum lítið sem ekkert og hér verður alls ekki farið í að skýra þau í smáatriðum. Vonandi skaddast menn ekki við að sjá þau. Það er líka frjálst að líta undan.

w-blogg100113a

Öll kortin gilda kl. 18 síðdegis fimmtudaginn 10. janúar. Fyrst er fjölþáttakort sem við köllum svo því lesa má fjölmörg atriði á kortinu. Jafnþrýstilínur eru gráar og heildregnar. Vindstyrkur og stefna eru sýnd á hefðbundinn hátt með vindörvum. Jafnhitalínur í 850 hPa-fletinum eru strikaðar, -5°C jafnhitalínan er fjólublá. Litafletir sýna úrkomu næstliðnar þrjár klukkustundir, á skærbláu svæðunum er hún 5 til 10 mm á 3 tímum. krossar (x) sýna snjókomu og þríhyrningar klakkaúrkomu - en það merkir e.t.v. að ákefðin gæti staðbundið verið meiri en litirnir sýna. Kortið batnar umtalsvert við stækkun.

Fjólubláa strikalínan (-5°C í 850 hPa) er gjarnan notuð til þess að giska á mörk á milli rigningar og snjókomu á láglendi. Henni og krossamerkingunni ber ekki alltaf saman með snjókomuna.

Dálítil lægð er syðst á kortinu, hreyfist hún til norðnorðvesturs og á að vera úti af Vestfjörðum rúmum sólarhring síðar án þess að dýpka að marki. Úrkomusvæðið sem liggur norður úr lægðinni markar uppstreymi sem sennilega er tengt skilunum. Hér virðast skilin vera á leið til vesturs og hljóta þar með að vera orðin að hitaskilum, hlýrra loft að austan hreyfist vestur.

Stækki menn kortið má sjá allmarga krossa yfir Vesturlandi, þar vill líkanið láta snjóa - en ekki er gott að segja hvort sú snjókoma nær niður að ströndinni. Þríhyrningarnir fyrir Suðausturlandi tákna að úrkoman sé að einhverju leyti dembukennd þar.

Hæðin lengst til hægri er fyrirstaðan sem fjallað var um í pistlinum í gær. Hún sést auðvitað betur á 500 hPa-kortinu hér að neðan, en það gildir á sama tíma.

w-blogg100113b

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og svartar, jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar. Iðan er bleikgrá (við sleppum henni hér). Sjá má að þykktin yfir landinu miðju er um 5340 metrar - þykktin mælir hitann í neðri hluta veðrahvolfs. Þessi þykkt nægir í góða hláku og skilin eru greinilega fyrir vestan land í 500 hPa - þar sem jafnþykktarlínur eru þéttastar. Við tökum eftir því að vindurinn (sem blæs samsíða jafnhæðarlínum) er að ýta hærri þykkt til vesturs yfir landið. Það einkennir hitaskil.

Hér skilur leiðir - þeir sem lesa áfram halda á foraðið en þurfa samt ekki að hafa áhyggjur af skilningsleysi eða áttunarvanda - þetta er til gamans gert.

Við skoðun á næsta korti má sjá að almennt er loft að kólna á svæðinu þannig að hlýja aðstreymið hefur vart undan.

w-blogg100113c

Svartar heildregnar línur sýna hér sjávarmálsþrýstinginn (eins og á fyrsta kortinu). Við sjáum lægðina suður af landinu vel og einnig hæðina í austri. Vindörvarnar sýna hins vegar brattann á þykktarsviðinu - svonefndan þykktarvind. Þar sem hann er mikill er þykktarsviðið mjög bratt - eins konar meðallega skilanna í neðri hluta veðrahvolfs.

Litasvæðin eru aðeins snúnari - gulir litir sýna hvar þykktin hefur aukist síðustu 3 klukkustundir en bláir hvar hún hefur minnkað. Styrkur litanna er aðeins misvísandi í þessu sambandi vegna þess að hann fer eftir þykktarvindhraðanum. Bláir litir eru yfirgnæfandi við Ísland og þar hefur sum sé kólnað síðustu 3 klukkustundir. Smásvæði er þó suður undan þar sem framsókn hitaskilanna heldur í við almenna kólnun, eins er lítið gult svæði nokkuð fyrir vestan land. Gulu svæðin við strönd Grænlands eru hins vegar til komin af einhverri fjallabylgjuvirkni þar um slóðir.

Þrátt fyrir allt má sjá að talsverður kraftur er í sviðinu rétt suður af lægðarmiðjunni, þykktarvindurinn er um 75 hnútar (um 35 m/s). Vindur niður undir sjávarmáli er af stormstyrk (yfir 20 m/s).

Á næsta korti staðsetjum við skilin betur. Það sýnir svokallaða mættisiðu milli 925 og 850 hPa-flatanna. Höfum ekki áhyggjur af merkingu hugtaksins - nema hvað mættisiðan er hér mælikvarði á lóðréttan styrk hitahvarfa í 600 til 1400 metra hæð. Svartar línur sýna sjávarmálsþrýsting og vindörvar miðast við 850 hPa.

w-blogg100113d

Lituðu svæðin sýna hvar hitahvörf eru öflugust í kílómeters hæð eða svo. Á myndinni eru nokkrar gerðir hitahvarfa - yfir Grænlandi liggur hlýtt loft ofan á jöklinum - mikill hitamunur þar, sömuleiðis eru miklar þar miklar lóðréttar hreyfingar tengdar landslagi. Í kringum hæðina eru gulir flekkir - væntanlega tengdir niðurstreymi í hæðinni (niðurstreymi býr til hitahvörf nái það ekki til jarðar). Við lægðarmiðjurnar eru hins vegar mjóir gulir taumar - það eru skil tengd lægðinni. Við sjáum stöðu þeirra yfir landinu vel (yfir Austurlandi eru landslagstruflanir).

Síðasta kortið sýnir mun stærra svæði. Þrýstilínur við sjávarmál eru sýndar, en litirnir sýna stöðugleika í veðrahvolfinu, frá 850 hPa og upp úr. Kvarðinn er þannig að háar tölur sýna mikinn stöðugleika (oftast vegna niðurstreymis) en lágar hvar loft er óstöðugt.

w-blogg100113e

Landaskipan ætti að sjást betur sé kortið stækkað. Við sjáum sömu lægðina fyrir sunnan Ísland og hæðina fyrir austan. Dýpri lægðir eru sunnar og vestar á kortinu. Grænu svæðin tákna mikinn stöðugleika (hlýtt uppi / kaldara niðri). Mörkin milli grænna og rauðbrúnna svæða eru einskonar skilasvæði - sem greina milli lofts af mismunandi uppruna. Brúnustu svæðin sýna hvar raki er mikill í neðri hluta veðrahvolfs - þar er fóður í óstöðugleika, við sjáum smásvæði með fjólubláum lit við lægðarmiðjuna (dýpri) langt sunnan við land. Þar veltur loftið trúlega.

Nóg að sinni - þakka þolinmóðum lesendum. Það má geta þess að veðurfregnir BBC hafa nú loks séð ástæðu til að benda á heiðhvolfsatburðinn stóra og lofuðu í dag einhverri umfjöllun - hún verður þó varla jafngóð og umfjöllun hungurdiska (?). Tengillinn sem þeir gefa er þessi:

http://metofficenews.wordpress.com/2013/01/08/what-is-a-sudden-stratospheric-warming-ssw/

Þarna er ágætur texti á ensku sem veðurnörd ættu að lesa. Auk þess skýrir sérfræðingur munnlega á sjónvarpsræmu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 52
  • Sl. sólarhring: 66
  • Sl. viku: 1650
  • Frá upphafi: 2350927

Annað

  • Innlit í dag: 50
  • Innlit sl. viku: 1447
  • Gestir í dag: 47
  • IP-tölur í dag: 47

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband