Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2023
27.2.2023 | 20:55
Alþjóðaveturinn
Alþjóðaveðurfræðistofnunin telur vetur á norðurhveli ná til mánaðanna desember, janúar og febrúar. Alþjóðaveturinn er því styttri en vetur á Íslandi, við teljum mars með - enda oft kaldasti mánuður ársins hér á landi. Ritstjóri hungurdiska hefur undanfarin ár reiknað meðalhita alþjóðavetrarins hér á landi og fjallað um niðurstöður þeirra reikninga.
Þegar þetta er skrifað er reyndar rúmur dagur eftir af þessum alþjóðavetri, en óhætt er að alá á meðalhita hans í byggðum landsins. Útkoman er -1,5 stig, -1,3 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -1,6 eða -1,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu vetra. Þetta reiknast kaldasti alþjóðaveturinn á öldinni, og sá kaldasti síðan 1994 til 1995. Þá var nokkru kaldara en nú. Á líftíma ritstjóra hungurdiska hefur alþjóðaveturinn 17 sinnum verið kaldari en nú - af því má sjá hve mikið hefur hlýnað.
Mjög hlýtt hefur verið á landinu undanfarna daga og svo er að sjá að hlýindi haldi áfram linnulítið út vikuna - þó kannski fari mesti broddurinn að verða úr þeim. Hvað svo gerist er harla óvíst. Langtímaspár hallast þó fremur að því að hann gangi í norðanátt og kólni um eða upp úr næstu helgi. Kannski verður atburðarás svipuð og var í desember. Þá höfðu mikil hlýindi gengið um skeið (reyndar mun lengur en nú). Um viku af desember kólnaði verulega, en veður hélst þokkalegt í rúma viku til viðbótar áður en illviðri og snjókoma skall á.
Það er ekki óalgengt að hlýjar fyrirstöðuhæðir austan eða suðaustan við land þoki sér vestur til Grænlands og langvinnar norðanáttir komi í kjölfarið - ritstjórinn gæti jafnvel talið sér trú um að þetta væri regla - en svo er þó alls ekki. Það er allt til í dæminu - engin festa í leiksýningu náttúrunnar hvað þetta varðar. En ætli væri samt ekki hægt að telja það til kraftaverka ef ekki kæmu einhverjir (einn eða fleiri) harðir frostakaflar til vors. Mars er alloft kaldasti mánuður vetrarins. Keppni við sérlega kaldan desember gerir slíkt vinningssæti ólíklegt að þessu sinni - mars sem var kaldari heldur en nýliðinn desember hefur ekki sést á landinu í heild síðan 1979.
21.2.2023 | 16:31
Hugsað til ársins 1950
Tíð var lengst af talin góð árið 1950. Sumarið var þó mjög óhagstætt á landinu austanverðu. Þetta er úrkomumesta ár sem vitað er um á Dalatanga. Janúar var hlýr, storma- og votviðrasamur, tíð hagstæð landbúnaði en gæftir stopular. Í febrúar var kaldara, umhleypingasamt var en snjólétt í byrjun, en síðan snjóaði talsvert austanlands. Mars var yfirleitt hagstæður til lands og sjávar. Í apríl var fremur óhagstæð tíð, einkum síðari hlutann. Kalt var norðaustanlands. Gróður tók vel við sér í hagstæðri tíð í maí. Júní var einnig hagstæður framan af, en síðan fór gróðri lítið fram sökum kulda og þurrka. Í júlí var tíð mjög votviðrasöm og óhagstæð austanlands, en hagstæð á Vesturlandi. Sama staða hélst í ágúst og einnig í september. Október var hagstæður á Suður- og Vesturlandi, en á Norður- og Norðausturlandi var hún óhagstæð fram til 20., en mun betri úr því. Nóvember var hagstæður nema allra austast á landinu. Tíð var óhagstæð framan af desember, en síðan mun betri, gæftir þó tregar.
Sjóslys voru tíð á árinu og urðu tvö þeirra sérlega minnisstæð. Hið fyrra var þegar vélskipið Helgi fórst við Vestmannaeyjar í janúar. Ritsjórinn heyrir að enn er minnst á það í orði og riti. Hitt slysið varð er olíuflutningaskipið Clam fórst nærri Reykjanestá um mánaðamótin febrúar/mars. Varð það uppistaðan í magnaðri skáldsögu Hannesar Sigfússonar, Strandið. Flutningaflugvélin Geysir fórst síðan á Vatnajökli í september, mannbjörg varð. Þann 19. ágúst varð mannskaðaskriðufall á Seyðisfirði.
Við rifjum nú upp fréttir ársins tengdar veðri. Ekki er sá listi tæmandi. Blaðatextar eru langflestir fengnir af vefnum timarit.is, oft styttir hér (vonandi sætta höfundar sig við þá meðferð). Textar úr dagblaðinu Tímanum verða mjög fyrir valinu þetta ár. Heimildir eru að auki úr Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands, og töluleg gögn úr gagnagrunni Veðurstofunnar. Talnasúpu má finna í viðhenginu.
Austlægar áttir voru ríkjandi framan af janúar. Sérlega hvasst varð dagana 5. til 9. og allrahvassast þann 8. Þá fór vindhraði á Stórhöfða í Vestmannaeyjum í 49 m/s á athugunartíma (gæti hafa orðið enn meiri á milli athugana). Þetta er mesti 10-mínútna vindhraði sem þar hefur mælst í janúar (einu sinni jafnmikill þó, 8. janúar 1990).
Tíminn segir frá 6. janúar - einnig er sagt frá áhlaupi snemma í desember - við leyfum þeirri frásögn að fljóta með:
Frá fréttaritara Tímans Vík í Mýrdal. Undanfarna daga hefir verið hið versta veður með slyddu og nokkurri snjókomu i Vestur-Skaftafellssýslu, einkum í Mýrdal. Er nú orðið ófært bílum aftur í Mýrdalnum til Víkur.
Í desember fennti fé í Mýrdal og urðu ýmsir bændur fyrir nokkru tjóni af þeim sökum. Hinn 3. eða 4. des. gerði mikla snjókomu í Mýrdal og kom meiri snjór en lengi hefur átt sér stað í fyrstu snjóum. Varð þá alófært bifreiðum í Mýrdalnum og þar með milli Reykjavíkur og Víkur og stóð svo í viku. Leiðin var síðar opnuð með ýtum og var fær þar til nú, enda gerði hláku fyrir hátíðarnar og var veður sæmilegt fram að áramótunum. Í áhlaupinu fyrstu dagana desember fennti fé nokkuð Mýrdalnum, enda var það illt úti áður. Urðu bændur fyrir allmiklu tjóni af þeim völdum. Fennti nokkrar kindur af sumum bæjum en af öðrum minna eða ekkert, en til samans er þetta töluvert margar kindur. Má segja að um verulegt tjón hafi verið að ræða, og ekki líkur til að féð komi lifandi fram.
Kortið sýnir veðurlag kl.6 að morgni sunnudagsins 8. janúar. Þá var austanstórviðri um sunnan- og vestanvert landið. Lægðarkerfi nálgaðist, en háþrýstisvæði norðurundan gaf lítt eftir. Athugið að hér eru jafnhæðarlínur 1000 hPa-flatarins sýndar. Þær eru jafngildar sjávarmálsþrýstingi og hér dregnar með 40 m millibili (5 hPa). Lægðin suðaustur af Grænlandi er um 957 hPa í miðju.
Nú bárust fréttir af slysinu við Vestmannaeyjar. Tíminn segir fyrst frá 8. janúar:
Þau hörmulegu tíðindi gerðust í gær (laugardaginn 7.), að vélbáturinn Helgi, VE-333, fórst á Faxaskeri við Vestmannaeyjar í aftaka hvassviðri. Fórust allir, sem með skipinu voru, nema tveir menn, sem komust upp á skerið, og óvíst um björgun þeirra. Vélbáturinn Helgi var með traustustu skipum íslenska bátaflotans og orðlagt sjóskip, enda hafði það farið meira en sextíu ferðir milli Vestmannaeyja og Englands og oft fengið vond veður. Skipstjórinn, Hallgrímur Júlíusson, var orðlagður sjómaður og þekkti skip sitt eins vel og nokkur sjómaður getur gert, því hann hafði verið með Helga ýmist sem stýrimaður eða skipstjóri í flestum ferðum þess milli landa og hér við land. Orsök slyssins talin bilun í skipinu. Talið er líklegt, að einhver snögg bilun hafi orðið, er skipið var statt á hættulegum slóðum ,austan við klettana, þar sem það hefir rekið umsvifalaust á sker með hinum hörmulegu afleiðingum. Um afdrif þeirra tveggja manna, sem á Faxaskeri voru, var ekki vitað í gærkveldi. Var unnið að björgun þeirra í nótt, en aðstæður allar hinar erfiðustu sökum veðurofsans, en hins vegar einskis látið ófreistað til að veita hjálp, og höfðu Vestmanneyingar allan þann viðbúnað til bjargar, sem tiltækur er.
Taflan sýnir veður á Stórhöfða 6. til 8. janúar. Þótt vindur hafi verið minni við Faxasker en hér er sýnt má þó glögglega af þessu sjá hversu aðstæður til björgunar hafa verið erfiðar.
Íslandskortið sýnir veður á sama tíma og Atlantshafskortið hér að ofan. Sæmilegt veður er um landið norðanvert og úrkomulítið, en versta veður syðra. Við leyfum okkur að smjatta aðeins á athuguninni frá Stórhöfða - (stækkuð) - austan 95 hnútar, snjókoma og skyggni ekkert, hiti 0,8 stig.
Tíminn heldur áfram 9.janúar:
Hið hörmulega sjóslys við Vestmannaeyjar á laugardaginn er eitthvert sárasta sjóslys, sem orðið hefir hér við land síðari ár. Fórust þar tíu manns, og í hópi þeirra sjósóknarforingjar, sem einstakir voru að mannkostum, karlmennsku og dugnaði. Er sár harmur kveðinn að öllum aðstandendum, Vestmanneyingum og þjóðinni í heild, vegna hins sviplega fráfalls glæsilegs hóps úrvalsmanna, sem hurfu í hafið með einu traustasta og besta skipi, sem íslendingar hafa átt.
Tíminn hefir leitað til Þorsteins Víglundssonar skólastjóra í Vestmannaeyjum. Vélskipið Helgi var á leiðinni til Vestmannaeyja frá Reykjavík ásamt tveimur öðrum skipum aðfaranótt laugardagsins [7.janúar]. Lagði hann fyrstur þeirra af stað fyrir Heimaklett inn á höfnina og fór hina venjulegu skipaleið, enda skipstjóri og skipshöfn öll þaulkunnug sjóferðum á þessum slóðum og skipshöfnin öll þar að auki valinn maður í hverju rúmi, sem jafnan hefir verið á þessu skipi. Þegar skipið var komið rétt austur úr Faxasundi, tók það að reka undan veðri og rakst á Faxasker með þeim afleiðingum, sem alþjóð er kunnugt. Mennirnir tveir, sem komust upp í skerið, sáust þar, en ógerningur reyndist að bjarga þeim vegna veðurofsans, sem jókst eftir því sem á leið daginn. Var farið á tveimur bátum til bjargar og reynt að skjóta líftaug. En allar slíkar tilraunir urðu til einskis gagns í ofvirðinu vegna ofsans. Allan laugardaginn, frá því að slysið varð, næstu nótt og sunnudaginn eftir biðu menn milli vonar og ótta í Vestmannaeyjum, en þegar loks í gærmorgun, að hægt var að brjótast út í skerið og komast þar á land af fjórum vöskum mönnum, fundust lík mannanna tveggja í skerinu, þeirra Gísla Jónassonar stýrimanns og Óskars Magnússonar háseta.
Krappar lægðir gengu yfir landið. Tíminn segir frá 24. janúar:
Í fyrrinótt (líklega vísað til aðfaranætur þ. 22.) var mikið hvassviðri sunnanlands og vestan og olli það sums staðar miklu tjóni. Mest varð tjónið við Breiðafjörð, en þar skemmdust margir bátar smáir og stórir enda var, stórstraumsflóð samfara mesta hvassviðrinu. Stærsti báturinn i Flatey mun hafa rekið á land í Svefneyjum og er það mikið tjón fyrir atvinnulíf í Flatey, þar sem báturinn ætlaði að fara að fiska í hraðfrystihúsið þar. Miklar skemmdir urðu á símalínum, einkum í Barðastrandarsýslu.
Tíminn nánar frá 25. janúar:
Á sunnudagsnóttina (aðfaranótt 22.) slitnaði vélbáturinn Sigurfari upp af legu í Flatey á Breiðafirði og rak yfir í Svefneyjar yfir mörg sker og grynningar og þar upp í grýtta fjöru. Mun báturinn vera allmikið skemmdur og erfitt að ná honum út. Sigurfari var eini þilbáturinn, sem gerður var út í Flatey.
Veðráttan segir frá miklum skriðuföllum nærri Skriðuklaustri í Fljótsdal og spillti túnum. Dagsetning óviss, líklega 26. eða 28.til 29. Úrkoma þessa daga mældist samtals 185 mm á Hallormsstað. Eins segir Veðráttan af því að þann 26. hafi þak fokið af húsi í Njarðvík og það hafi valdið sköðum á fleiri húsum. Þann 28. fórst togari frá Patreksfirði fyrir sunnan land og með honum fimm sjómenn, aðrir áhafnarmeðlimir björguðust.
Þann 3. febrúar urðu skaðar vegna sjávarflóðs á Eskifirði. Tíminn segir af þessu 5.febrúar
Í fyrradag [3. febrúar] skall á sunnanrok á Eskifirði, gekk sjórinn hátt á land um flóðið, og hlutust miklar skemmdir af sjávarganginum, bæði á bryggjum og vegum og fleiri mannvirkjum. Síðastliðinn hálfan mánuð hefir verið samfelld rigningartíð víðsvegar á Austfjörðum. Í fyrradag gerði ofsarok af suðri með miklum sjávargangi, og hlutust af því miklar skemmdir á Eskifirði. Gekk sjórinn hátt á land um flóðið, og urðu skemmdir á strandvegum, og tók með öllu eina af bryggjum bæjarins, svonefnda Svansbryggju, en skemmdi aðrar.
Allmikið og nokkuð langvinnt norðankast gerði viku af febrúar. Tjón varð þó ekki verulegt. Tíminn segir frá þann 12.:
Rafmagnslítið og mjólkurlítið var á Siglufirði í gær, og olli því stórviðri af norðvestri, sem þar hefir verið síðustu dægur, samfara hríð. Í þessu veðri brotnuðu í Fljótum þrjár staurasamstæður á línunni frá Skeiðfossvirkjuninni, og fékk Siglufjarðarbær því ekkert rafmagn þaðan. Varð bærinn að láta sér nægja rafmagn það, sem fékkst frá vélum síldarverksmiðjanna. Tíu símastaurar brotnuðu einnig í Fljótum af völdum veðursins. Mjólkurbátar komust ekki heldur til Siglufjarðar.
Mikill snjór var um landið austanvert þegar kom fram í febrúar og bárust þá fréttir af hreindýrahjörðum. Tíminn segir frá 16. og 17. febrúar:
[16.] Í fyrradag og gær flykktust hreindýrin ofan af öræfum niður á Fljótsdalshérað og voru komin þangað hundruðum saman í gær. Er talið, að mestallur hreindýrastofninn sé nú kominn ofan í byggð vegna hagleysis á fjöllum. Að undanförnu hafa bleytuhríðar gengið þar eystra og síðan fryst svo að hlaupið hefir í gadd. Mun því jarðlaust á venjulegum hreindýraslóðum vegna frera.
[17.] Hreindýrin streyma nú í stórum hjörðum frá Fljótsdalsöræfum niður til byggða á Fljótsdalshéraði. Fréttir þaðan að austan herma að stórar hjarðir, allt uppí 200 dýr sjást skammt frá bæjum og krafsa til beitar gegnum djúpan snjó sem lagt hefir yfir allt héraðið. Halda hreindýrin sig aðallega í Múlanum í Skriðdal og Hallormsstaðarhálsi, einnig hafa þau sést víðar um héraðið t.d. út í Tungu sem er allutarlega í héraðinu. Eru þau svo spök að þó að hundar hlaupi að hjörðinni hlaupa þau lítið eitt undan líkt og fé sem vant er hundum, þótt venjulega séu þau svo stygg að erfitt er að nálgast þau. Ekki ber á því að dýrin hafi liðið skort til þessa þar sem þau eru sjáanlega i góðum holdum og engin hafa fundist dauð. Finnst bændum lítið til um heimsókn þessara öræfabúa þar sem þau gerast allfrek í beitinni og skafa það sem fé myndi ella fá. Geta hreindýrin gengið til beitar í meiri snjó en fé. Eftirlitsmaður hreindýranna álítur að hjörðin sem gengur á Fljótsdalsöræfum muni vera 1000 til 1500 dýr. Hefir þeim fjölgað mjög undanfarin ár vegna góðra skilyrða. Það hefir komið fyrir á einstakra vetri að hreindýrin hafi leitað til byggða í harðindum en ekki lengi eins mörg og nú. Mikinn snjó hefir lagt yfir sveitir á Austurlandi og hafa samgöngur til fjarða og innanhéraðs stöðvast með öllu. Við bæi á Jökuldal fyrir ofan Skjöldólfsstaði hefir ekkert samband verið haft þar sem símalínan nær ekki lengra en til Skjöldólfsstaða. Fólkið á þessum bæjum er því einangrað frá umheiminum af snjóbreiðu vetrarins og bíður þess að snjóa leysi til að geta haft samband við aðrar byggðir.
Þann 21. gerði nokkuð snarpa vestan- og síðan norðvestanátt þegar lægð fór til austurs fyrir norðan land. Þá hófst keðja óhappa og rangra ákvarðana sem ollu harmleik við Reykjanes viku síðar. Tíminn segir frá 22. febrúar:
Breska olíuflutningaskipið Clam sem kom hingað í fyrrakvöld með 9300 lestir af brennsluolíu til Olíuverzlunar Íslands og hlutafélagsins Shell, rak upp í fjöru innan við Laugarnes í gærmorgun [21.febrúar] og stendur þar botnfast.
Í gær [21.] og fyrrinótt var hríðarveður um mestan hluta landsins og olli það miklum umferðartruflunum og erfiðleikum. Voru leiðir til Reykjavíkur að teppast vegna snjóa síðdegis í gær og þegar í gærmorgun var orðið með öllu ófært að austan nema um Krísuvíkurleið, en mjólkurbílar og fólksflutningabílar komust hindrunarlítið þá leið, nema hvað ferð þeirra tafðist vegna hríðarveðursins.
Og af einhverjum (illskiljanlegum) ástæðum var drifið í því að draga Clam til Englands. Það fór mjög illa. Veður virðist ekki hafa verið mjög vont þegar strandið átti sér stað. Tíminn segir lauslega frá 1.mars:
Breska olíuskipið Clam, er rak upp við Laugarnes á dögunum [21.febrúar], fórst við Reykjanes snemma í gærmorgun [28.febrúar], og drukknuðu tuttugu og sjö skipverjar af fimmtíu, sem á skipinu var. Fóru allir þeir sem drukknuðu, í björgunarbáta í sjálfum brimgarðinum í trássi við yfirvöld skipsins, en bátunum hvolfdi, og skolaði aðeins fjórum mannanna lifandi í land. Hinum, sem kyrru héldu fyrir í skipinu, björguðu menn úr björgunarsveit Þorbjarnar í Grindavík.
Eins og áður er nefnt skrifaði Hannes Sigfússon skáldsögu byggða á þessum atburðum.
Þann 3. til 4. gerði allmikið af veður af suðvestri og vestri. Það varð talvert verra en ráð hafði verið fyrir gert. og lentu margir bátar í áföllum á Faxaflóa, einn fórst með 6 manna áhöfn.
Kortið sýnir stöðuna um hádegi þann 4.mars. Ört dýpkandi lægð kom hratt suðvestan úr hafi og fór yfir landið vestanvert - og hvarf fljótt úr sögunni aftur. Skiljanlegt er að erfitt hafi verið að spá þessu veðri.
Veðurfari brá til betri vegar eftir fyrstu viku marsmánaðar. Var það stóráfallalítið næstu mánuði, ekki þó alveg hretalaust.
Við veljum (nánast af handahófi úr lýsingum veðurathugunarmanna á tíðarfari í mars og apríl - ekki er það eins eða jafnhagstætt í öllum landshlutum):
Mars:
Stykkishólmur (Magnús Jónsson): Tíðarfarið í mánuðinum hefur verið mikið fremur gott. Frostlítið og lítill snjór og nú alveg snjólaust. Aðfaranótt 4. Vestanrok síminn slitnar, ógurleg þruma kl.4 og fleiri þrumur minni og ljósagangur.
Reykjahlíð (Pétur Jónsson): Meðalveðurátta á alla grein þennan mánuð.
Gunnhildargerði (Anna Ólafsdóttir): Tíðarfarið var heldur óhagstætt og mjög mikill snjór og að mestu leyti innistaða á öllum búpening allan mánuðinn. Þann 30.: Hreindýr eru í stórum hópum alveg út að sjó. Komu fyrst í janúar.
Apríl:
Suðureyri (Þórður Þórðarson): Frekar smágert tíðarfar, en mjög kalt yfirleitt síðari partinn. Mikill snjór aðeins bráð af við sjó, helst á annesjum. Oft snjóslitringur [25 cm snjódýpt talin í mánaðarlok].
Sandur (Friðjón Guðmundsson): Tíðarfarið frekar kalt og stirt. Talsverður snjór á jörð og víða haglítið og sumstaðar haglaust meiri hluta mánaðarins. [35 cm snjódýpt talin í lok mánaðar].
Gunnhildargerði: Veðrátta mánaðarins hefur verið mjög stirð og óhagstæð og í lok mánaðarins mjög mikill snjór og sést vart á dökkan díl og eru margir bændur fremur illa staddir með fóður handa búpening.
Teigarhorn (Jón Kr. Lúðvíksson): Tíðin í apríl hagstæð til lands og sjávar.
Tíminn segir frá 13.apríl:
Góðviðrið hefir verið svo mikið víðast um land síðari hluta vetrar, að menn voru farnir að halda, að vorið væri komið, en ýmsir óttuðust þó páskahret enda varð sú raunin. Á páskadag [9. apríl] hófst allhart hríðarveður um norðanvert landið og snjóaði allmikið í tvo daga, en í gær var aftur víðast orðið bjart veður, og virtist páskahretið gengið um garð. Vaðlaheiði tepptist alveg og þung færð var á vegum í Eyjafirði. Í Skagafirði kom nokkur snjór í byggðum og Öxnadalsheiði var ófær með öllu í gær. Vatnsskarð var hins vegar fært, og áætlunarbifreið kom í fyrradag yfir Holtavörðuheiði, þótt færð væri mjög ill. Á Siglufirði var kominn mikill snjór í gær.
Nokkuð misjafnlega viðraði einnig í maí - að mati veðurathugunarmanna:
Suðureyri: Tíðarfar óvenju hagstætt og óveðralaust. Sólfar mikið. Snjóa leysti mjög fljótt og jafnt, sérstaklega af láglendi. Úrkomulítið og háði það gróðri töluvert.
Sandur: Tíðarfarið var milt og mjög þurrviðrasamt. Gróðri fer hægt fram vegna þurrka og næturfrosta.
Reykjahlíð: Fyrstu dagar mánaðarins vondir. En vorleysingarnar frá 4. til 14. með því allra mesta sem komið getur. Víða skemmdir af rennsli leysingavatns á vegum og öðrum mannvirkjum. Seinni hluti mánaðarins fremur kaldur.
Gunnhildargerði: Veðrátta mánaðarins var að mestu hagstæð og gekk búpeningur vel fram og sauðburður var með besta móti.
Seyðisfjörður: 19. maí: Snjólag á jörðu. 24. maí: Regn fyrst í gær, slydda síðdegis. Gránaði niður í fjallarætur. 29. maí. Rigndi mikið í gær og nótt (62,5 mm). Fjöll hvít til róta að morgni.
Tíminn segir frá tíð á Suðurlandi í pistli þann 24.maí:
Tíðindamaður frá Tímanum hitti Matthías Jónsson, bónda á Fossi í Hrunamannahreppi. að máli í gær, og spurði hann tíðinda úr uppsveitum eystra. Matthías lét meðal annars svo ummælt: Hjá okkur, uppi i Tungufellssókn, er enn varla kominn sauðgróður. Ég býst við, að fé kroppi að vísu ekki annað en grængresi, en það fær ekki fylli sína af því. Síðastliðna viku fór gróðri ekkert fram, enda frost á hverri nóttu svo mikið, að grunnstingull var í smáám og lækjum á morgnana. Síðastliðna föstudagsnótt var frostið meira að segja átta stig. Enn er ekki skóflustunga niður á klaka.
Tíminn segir 27.maí frá lítilsháttar hafís undan Vestfjörðum og úti af Húnaflóa. Ekki var þetta þó mikið:
Skip sem stödd voru á Húnaflóa og fyrir Vesturlandi hafa orðið vör við mikinn ís á reki þar um slóðir. Frétt frá togaranum Jóni Þorlákssyni segir að mikill ís sé um öll Halamið. Einnig hefir frést af hafís nokkrar sjómílur norðaustur af Horni í Húnaflóanum. Ísinn er þó ekki landfastur neinsstaðar svo vitað sé.
Tíð var hagstæð framan af júní, en kólnaði til baga í kringum sólstöðurnar. Tíminn segir þann 22. júní af grasmaðki:
Mjög mikil brögð eru að grasmaðki á Síðu og í Landbroti og Fljótshverfi. Eru stór svæði gróðurlendis milli Skaftáreldahrauns og Skeiðarársands hvít og skinin yfir að lita eins og á vetrardegi, en iðandi hrönn maðka, þar sem þessi ófögnuður dreifir sér út yfir land, er hann hefir áður lagt undir sig. Þessi plága hófst í júníbyrjun, og er nú svo komið, þar sem mest brögð eru að maðkinum, að hagalítið er orðið handa kúm. Maðkurinn þrífst best í vallendi, ef mosi er í rót, en fer einnig yfir mýrlendi, ef þurrviðri eru. Þar sem mosalaust er, gætir hans ekki, hvorki í vel ræktuðum túnum né vallendi. Þar sem sandur eða mold fýkur á, svo að hart er undir rót. Nú undir Jónsmessuna er sá tími, er grasmaðkurinn skiptir um ham, en eftir nokkurn tíma fljúga svo fiðrildin úr púpunni ef tíð er hagstæð og búa fyrir sig í haginn fyrir næsta ár. Fylgjast stundum að nokkur áköf maðkaár. Vænta má þess, að jörð nái sér nokkuð síðari hluta sumars, en jafnan er gróður gisinn og rýr, þar sem maðkurinn hefir sviðið jörðina. Það er alls ekki fágætt, að grasmaðkur valdi tjóni í Skaftafellssýslu, og hefir hans talsvert gætt um sumur undanfarið. En jafn skæður og útbreiddur mun hann ekki hafa verið á þessum slóðum síðan fyrir Kötlugos, en eftir Kötlugosið varð hans ekki vart í nokkur ár.
Eftir nokkuð hagstæða byrjun júlímánaðar lagðist hann í óvenjulega ótíð um allt austanvert landið. Úrkoma var mjög mikil með köflum og skriðuföll oftar en einu sinni.
Tíminn segir frá þann 11. júlí:
Í fyrrinótt [aðfaranótt 10.] urðu nokkur skriðuföll í Neskaupstað í Norðfirði og ollu skemmdum á girðingum, túnum og kjöllurum nokkurra húsa. Skemmdir þessar eru þó ekki nærri eins víðtækar og þær, sem áttu sér stað á s.l. hausti af sömu orsökum. Geysilegar rigningar hafa verið á Austurlandi undanfarna þrjá daga, en áður hafði gengið langur þurrviðrakafli. Vöxtur hljóp í margar ár, svo að þær urðu ófærar bifreiðum, og fjallvegir skemmdust, svo sem vegurinn yfir Fagradal. Samkoma var haldin í Hallormsstaðaskógi á laugardaginn og sunnudaginn, og lenti fólk, er hana sótti í nokkrum hrakningum á heimleiðinni. Norðfjarðará varð ófær og festust bílar í henni, svo að ýta varð að draga þá upp.
Enn segir Tíminn af skriðuföllum 12. júlí:
Skemmdir hafa ekki orðið eins stórvægilegar af vatnsflóðunum í Norðfirði eins og búist hafði verið við í fyrstu. Um skemmdir á húsum er varla að ræða. Hins vegar hafa lækir runnið yfir götur og tafið fyrir umferð. Er nú verið að byrja að lagfæra þessar skemmdir. Skemmdir urðu hins vegar nokkrar á vatnsveitukerfi bæjarins við það að vatnsæðar rifnuðu upp og rofnuðu en hverfi í bænum var vatnslaust vegna þessa.
Og enn og aftur eru fréttir af skriðum í Tímanum, nú 18.júlí - en meiri en fyrr:
Á laugardaginn var [15.júlí] urðu miklar skemmdir af völdum skriðuhlaupa og vatnavaxta við Reyðarfjörð. Eyðilagðist meiri hluti gamla túnsins að Hólmum í Reyðarfirði og hús sópuðust út á sjó, miklar vegaskemmdir urðu og brýr löskuðust. Í vor hefir verið þurrt og kalt austan lands og var mikill snjór i fjöllum. Nú nýlega brá til hlýinda, og á föstudagskvöldið byrjaði að rigna. Urðu skjótt miklir vatnavextir, og var leysingin svo ör, að snjórinn bókstaflega sópaðist úr háfjöllunum. Olli því miklu fremur, hve hlýtt var, heldur en sjálf rigningin. því að hún var ekki meiri en oft er. Á laugardagsnótt og laugardag rigndi enn, en dró þó mjög úr rigningunni, er leið á daginn. Á laugardag tóku skriðurnar að falla og koma í ljós skemmdir af vatnavöxtum. Gróf undan brúnni á Njörvadalsá. sem er skammt innan við fjarðarbotninn, og seig hún um einn metra öðru megin. Brúin á Búðará, er rennur gegnum sjálft Reyðarfjarðarkauptún, var og hætt komin. Hangir hún þó uppi, enda var borið grjót að stöplunum. En mjög-er sorfið úr öðrum stöplinum. Miklar skriður féllu á veginn milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar, flestar úr Hólmatindi. Er vegurinn gereyðilagður á löngum köflum. Munu alls hafa fallið á hana um 30 skriður, sumar breiðar, en auk þess er hann allur sundurgrafinn af lækjum og vatni, sem runnið hefir á hann. Stærsta skriðan, sem hljóp úr Hólmatindi, lenti á túninu á Hólmum. Var sýnt þegar fyrir hádegi á laugardag, að bænum að Hólmum myndi hætt, og forðaði Jón Guðjónsson, bóndi þar, og fólk hans sér burt úr húsinu og þangað, er minni hætta stafaði af skriðuhlaupum. Horfði fólkið á, er fram brast á að giska eitt hundrað og fimmtíu metra breið skriða, er svipti öllu með sér og æddi niður í hlíðina. Tók hún af meginhluta gamla staðartúnsins á Hólmum, svo að nú er aðeins eftir fimmti hluti af túni, er áður gaf af sér fimm kúa fóður. Nýrækt út frá gamla túninu, eign Eskfirðinga, slapp hins vegar að miklu leyti óskemmd. Íbúðarhúsið að Hólmum varð ekki fyrir skriðunni, en hlaða og geymsluhús sópuðust á sjó fram. Voru í hlöðunni þrjátíu hestburðir af nýhirtri töðu, en í geymsluhúsinu allar heyvinnuvélar og vinnuverkfæri bóndans, kaupstaðarvara og eldsneyti. Var þar á meðal sláttuvél og kerra. Fór þetta allt í sjóinn, en sagt er, að sjáist á sum tækin um fjöru. En engar líkur eru til annars en þau séu gerónýt. Einnig tók af fjárrétt úr timbri, og var við hana öll vorull bóndans ,er týndist í hlaupinu eins og annað er fyrir því varð. Hefir Jón Guðjónsson orðið hér fyrir miklu og óvæntu tjóni, og Hólmar í Reyðarfirði, er jafnan hafa þótt úrvalsjörð, hlotið áfall, er seint mun bætast.
Suðvestan lands var í gær besti þurrkadagurinn, sem komi§ hefur síðan sláttur hófst og um leið heitasti dagurinn á sumrinu á þessum slóðum. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar var hitinn 23 stig í Reykjavík, Þingvöllum og Hæli í Hreppum.
Svo hefjast fréttir af óþurrkum og vandræðum í heyskap. Tíminn segir frá 27.júlí:
Sífelldir óþurrkar hafa verið á Fljótsdalshéraði í þrjár vikur, og hafa sumir bændur ekki enn getað hirt eina einustu tuggu af heyi. Þeir, sem fyrst byrjuðu slátt, hafa aðeins náð inn litlu einu, er búið var að losa, áður en rigningarnar hófust.
Óþurrkar hafa verið í meginhluta Rangárvallasýslu í nær tvær vikur, og eiga menn orðið mikið af heyi úti. Eru sumir bændur hættir að slá um sinn. Vestast í sýslunni mun minna hafa vætt.
Tíminn 29.júlí:
Versti júlímánuður í mannaminnum á gervöllu Norðausturlandi. Á Norður- og Norðausturlandi var vorið mjög kalt og þurrt og spretta þar sein. Sums staðar norðanlands var kal í túnum, voru lengst af sífelldir kuldanæðingar. Í júlímánuði brá til rigninga norðan lands og austan, og náði grasvöxtur sér þá fljótt á strik, svo að spretta er nú víðast hvar orðin sæmileg. Sunnan lands voraði aftur á móti vel, og var spretta þar fljótt góð. Margir bændur hafa engu náð þurru. Vegna tregrar sprettu gat sláttur ekki hafist snemma norðan lands og norðaustan, nema þá helst sums staðar í Eyjafirði, og hefir fjöldi bænda ekki enn náð inn neinni tuggu þurri, og sums staðar hefir allt, sem búið var að losa, legið flatt fram að þessu. Er heyið orðið stórskemmt, þótt, oftast hafi verið kalt i veðri, og há ekki náð að spretta.
Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í ágústmánuði og vik frá meðallagi (litir). Eindregin austanátt er ríkjandi, sú eindregnasta sem við vitum um hér við land í ágúst. Meðalkort júlímánaðar var svipað. Austanátt var ámóta stríð í júlí 2015 og í júlí 1950, en þá var austanátt ágústmánaðar heldur vægari en 1950.
Nærri hálfum mánuði síðar er ástandið svipað eystra, en þurrka gætir vestanlands. Tíminn segir frá 10. ágúst:
Heyskaparhorfur eru enn mjög bágar um gervallt Hérað. Í síðastliðinni viku gerði þó víðast góðan þurrk í hálfan annan dag á fimmtudag og föstudag. Náðu menn þá víða nokkuð af heyi, einkum því elsta, og sums staðar allmiklu, í utanverðri Hjaltastaðarþinghá er ástand þó mjög slæmt, í Jökulsárhlíð hafa sumir bændur ekki náð inn tuggu af heyi í allt sumar. Þar létti þokunni aldrei um daginn. Horfir til stórkostlegra vandræða. Skást mun ástandið vera um miðbik Fljótsdalshéraðs. Í Borgarfirði mun einnig mjög illa ástatt.
Mikill vatnsskortur er í Stykkishólmi um þessar mundir, og hafa ýmsir erfiðleikar hlotist af því, meðal annars í frystihúsunum, þótt ekki hafi það orðið að beinu tjóni. Einnig hefir það orðið heimilum í kauptúninu til mikils baga. Fram að þessu hefir hér um slóðir verið eitt hið blíðasta og ljúfasta sumar um mjög langt skeið, þurrviðrasamt og sólríkt. Bændur hafa heyjað vel og nýting heyja verið með ágætum, en spretta í úthaga er víða fremur rýr, og veldur því sjálfsagt of mikið og langvinnt þurrviðri.
Tíminn segir 12. ágúst frá góðri tíð á Vestfjörðum (þó rignt hafi þar síðustu daga):
Á Vestfjörðum hefir verið góð heyskapartíð í sumar. Bændur þar munu nú flestir vera búnir að alhirða af túnum og sums staðar byrjað á seinni slætti. Nú er brugðið til rigninga þar og hefir rignt mikið tvo síðustu daga.
Víða í Austur-Skaftafellssýslu eru bændur, sem enn hafa engu heyi náð inn. Er mikið af heyi að verða gerónýtt, en annað liggur undir skemmdum. Hefir ekki gert flæsu, sem nefnandi sé, síðan snemma i júlímánuði. Svo bág hefir heyskapartíðin verið, að mönnum hefir ekki notast að súgþurrkun með köldum blæstri.
Rigningarnar náðu allt vestur í Mýrdal og Tíminn segir 18.ágúst frá miklum vexti í Markarfljóti. Einnig er sagt frá óþurrkum í Hrútafirði, en eitthvað misjafnt var hversu óþurrkanna gætti á vestanverðu Norðurlandi:
Markarfljót hefir síðustu vikur brotið mjög land Hólmabæja í Rangárvallasýslu. Hefir kvísl mikil úr fljótinu fallið í gamlan farveg, sem Fauski nefnist, og tekið af mikið gróðurlendi tveggja jarða, Dalsels og Borgareyra. Sérstaklega hefir landbrotið verið stórfellt á Borgareyrum, þar sem sópast hefir 3040 metra breið spilda á margra kílómetra svæði, og nemur nú kvíslin við túnjaðar, svo að túngirðing er nú sums staðar fallin. Í Dalsseli hefir 46 metra breið spilda brotnað á rösklega eins kílómetra löngu svæði. Tveir af Hólmabæjum, Brúnir og Tjarnir, hafa farið í auðn á síðustu árum, mest fyrir ágang vatnanna, en ánauð af völdum Markafljóts jókst mjög á Hólmabæjum og svo og á nokkrum jörðum í Vestur-Eyjafjallasveit, er Þverá, Affalli og Álum var veitt í fljótið. Þessar tvær jarðir keypti ríkissjóður á sínum tíma, þar sem sýnt þótti að þeim var stofnað í hættu. Tíðindamaður frá Tímanum átti í gær til við Geir Zoega vegamálastjóra, og sagði hann, að vegamálaskrifstofan fylgdist með þessum landspjöllum, er þarna væru að verða. Hefði verkstjórinn við fyrirhleðslu Markarfljóts, Eysteinn Einarsson, sem á heima við Markarfljótsbrú kynnt sér landspjöllin. En mjög væri hér erfitt viðfangs, sagði vegamálastjóri. Hér þyrfti mikinn og dýran garð, ef verja ætti þetta land, og væri kostnaðarsamt að bjarga öllu. en Markarfljót hleypur mjög sitt á hvað. Framlag ríkisins til þessara hluta væri ekki meira en svo, að vegamálaskrifstofan ætti fullt í fangi með að láta það nægja til viðhalds á eldri görðum, sem væru orðnir mjög langir.
Frá fréttaritara Tímans í Borgarnesi. Margir bændur í héraði hafa lítið sem ekkert hirt af heyi síðastliðinn hálfan mánuð, og er því allmikið úti sums staðar.
Í sumar hafa verið með einsdæmum litlir þurrkar í Hrútafirði, svo að elstu menn muna varla annað eins. Hafa bændur lítið sem ekkert geta hirt af túnum og það litla sem náðist er illa farið vegna langvarandi hrakninga. Í gær var vonskuveður nyrðra, stormur samfara stórfelldri rigningu.
Frá fréttaritara Tímans á Suðureyri. Heyskapartíð hefir verið með afbrigðum góð hér um slóðir í allt sumar, og spretta í góðu meðallagi. Hefir hey verið hirt eftir hendinni, iðgrænt. Nú er hér norðangarður.
Tíminn birtir enn fréttir að austan 19. ágúst. Eins er fjallað um norðanillviðri undir Eyjafjöllum:
Frá fréttaritara Tímans á Egilsstöðum. Einstaka bændur á Fljótsdalshéraði hafa nú náð inn töðu að mestu eða öllu leyti, en mjög hrakinni. En annars staðar er enn báglegar á vegi statt. Á Jökuldal mun vart nokkur baggi hafa náðst í sumar, og í Hróarstungu og Jökulsárhlíð hefir víða lítið sem ekkert náðst. Ekki bætir það úr skák, að sums staðar eru allar engjar undir vatni og- verða ekki nýtandi, þótt af þeim fjari úr þessu. Svo er einkum í Hjaltastaðarþinghá, þar sem engjarnar liggja mjög lágt, sums staðar í Hróarstungu og yst í Jökulsárhlíð. Er á mörgum bæjum að engum slægjulöndum er að hverfa utan túns, þótt skaplegri tíð geri undir haustið.
Miklir heyskaðar urðu undir Austur-Eyjafjöllum af völdum stórviðris af norðri á fimmtudag [17. ágúst] og aðfaranótt fimmtudags. Munu á annað þúsund hestburðir hafa fokið út í veður og vind, bæði af túnum og engjum. Fréttamaður Tímans hafði tal af Sveini Jónssyni í Skarðshlíð í Austur-Eyjafjallasveit, og sagði hann, að allt hey, sem úti hefði verið á bæjum undir Steinafjalli, hefði sópast burt, svo að aðeins dreif væri eftir, og víðar hefði hey fokið til skaða. Í Núpakoti er álitið, að eitt hundrað hestburðir af töðu hafi fokið, og í Drangshlíð, austar í sveitinni, skammt vestan við Skógá, fuku um eitt hundrað hestburðir af útheyi. Á flestum bæjum fauk eitthvað. Óþurrkar hafa verið nær heilan mánuð á þessum slóðum, og höfðu bændur að miklu leyti hætt slætti, nema til votheysgerðar, svo af þeim sökum var minna úti en ella hefði verið. Í gær var hins vegar þurrkur. og mun sennilega fljótlega náðst það af heyinu, sem ekki tætist burt.
Síðan urðu mikil skriðuföll á Seyðisfirði. Tíminn segir frá 20. ágúst:
Í fyrrinótt gerði á Austfjörðum fjórðu stórrigninguna á þessu sumri með þeim afleiðingum, að skriður hlupu víða úr fjöllum og ollu gífurlegum skemmdum á mannvirkjum og verðmætum, og á Seyðisfirði biðu fimm manns bana, kona og fjögur börn hennar, en margir sluppu nauðlega úr hálfköfðum húsum.
Úr Bjólfinum urðu einnig hlaup, og urðu af þeim skemmdir á túnum og einnig varð Bræðraborg, við norðanverðan fjörðinn fyrir miklum skemmdum í hlaupi er þar kom. Margar aðrar skemmdir smærri urðu í Seyðisfirði á húsum, fiskreitum, götum, girðingum, görðum og öðrum mannvirkjum, en rigning fór rénandi er kom fram á daginn svo að hætta á nýjum skriðuhlaupum ætti vonandi að hafa rénað. Kjallarar margra húsa eru fullir af aur, og innanstokksmunir og annað stórskemmt eða ónýtt. Brú tók af Vestdalsá.
Á Selsstöðum, bóndabæ út með Seyðisfirði að norðan, urðu miklar skemmdir. Þar flæddi Selsstaðaá heim undir bæjarvegg með miklum aurburði. Eyðilagðist mikið af túninu. Fjárhús brotnaði, og súrheysgryfja og hálf hey-hlaða fylltust af aur. Ónýttist þar hinn litli heyfengur, er bóndinn hafði náð í sumar. Í Eskifirði urðu gífurlegir vatnavextir, og brutust ár þar úr farvegum sínum, og urðu verulegar skemmdir á götum í bænum. Bleiksá, sem rennur rétt innan við bæinn, flæddi upp úr farvegi sínum, og rann hún gærmorgun yfir veginn á eitt hundrað metra löngum kafla. Grjótá braust einnig úr farvegi sínum og flæddi hún inn í hús Bjarna Kristjánssonar sjómanns, en það hús stendur skammt innan við ána. Tókst þó að veita vatninu frá húsinu, en fólk flúði hús i grennd við Grjótá. Hún rann í gær yfir veginn á tuttugu og fimm til þrjátíu metra kafla. Lambeyrará tókst að halda í skefjum með mannafla, en allar hleðslur meðfram ánni eru fallnar. Í ytri hluta bæjarins urðu engar skemmdir. Úr Grænafelli í Reyðarfirði urðu ógurleg skriðuföll, og er þjóðvegurinn, þar sem hann liggur upp úr Reyðarfirði á Fagradal, ein stórgrýtisurð á löngum kafla. Er talið, að um tuttugu skriður hafi fallið úr Grænafelli. Hins vegar er bílfært milli Reyðarfjarðarkauptúns og Eskifjarðar, en ekki verður komist á bílum inn i bæinn. Í Neskaupstað munu engar skemmdir hafa orðið.
Morgunblaðið segir nánar af mannskaðanum í frétt 20.ágúst:
Fimm manns ferst í skriðufalli á Seyðisfirði. Fréttaritari Morgunblaðsins á Seyðisfirði, Benedikt Jónasson, símaði í gær um þennan hörmulega atburð, sem komið hefur eins og reiðarslag yfir kaupstaðinn. Benedikt sagði svo frá: Íbúðarhúsið, sem stórskriðan féll á, var tvílyft steinhús, milli 15 og 20 ára. Það var eign hlutafélagsins Ströndin á Seyðisfirði. Á efri hæð hússins bjó Gunnar Sigurðsson sjómaður og Kristlaug Þorvaldsdóttir, ásamt uppkomnum syni Sigurði og tveggja ára dreng. Á neðri hæðinni bjó Aðalbjörn Jónsson og Ingibjörg Magnúsdóttir og fimm börn þeirra hjóna. Hér byrjaði að rigna laust eftir miðnætti í nótt sem leið og gerði þá stórrigningu og hélst hún í alla nótt fram yfir hádegi. Var úrfellir eins og hann verður mestur hér um slóðir. Vegnía vatnavaxtanna urðu hér mjög víða skriðuföll og mun skriðan á húsið hafa fallið nokkru fyrir klukkan átta í morgun. Fólkið var þá að yfirgefa húsið þar eð það óttaðist að skriða myndi falla á það. Kristlaug Þorvaldsdóttir, kona Gunnars, var farin úr húsinu, út í stórrigninguna með hinn tveggja ára gamla son þeirra hjóna, er skriðan féll. Aðalbjörn Jónsson hafði farið gangandi inn í bæ til að ná í bíl, til að flytja konu sína og börnin burtu. Var hún því ein heima með fimm börn sín, og feðgarnir á neðri hæðinni, er stórskriðan féll úr Strandartindi og skall á húsið, með þeim afleiðingum, að það molaðist niður og grófst undir skriðunni, sem gekk í sjó fram. Fólk kom á slysstaðinn skömmu síðar. Þeim feðgum Gunnari og Sigurði hafði tekist að brjótast út úr húsrústunum og upp úr skriðunni. Var Gunnar talsvert meiddur. Dóttir Aðalbjarnar, Guðrún, 15 ára, var grafin upp úr húsrústunum. Hún var eitthvað meidd, en líður nú sæmilega eftir atvikum. Móðir hennar og fjögur systkini fórust í skriðufallinu. Var búið að grafa fjögur lík upp í gær um nónbil.
Tíminn segir 22. ágúst frá flóðum á Úthéraði:
Gífurleg flóð urðu í Hjaltastaðarþinghá síðastliðinn laugardag [19. ágúst]. Flæddu Selfljót og Bjarglandsá og fleiri þverár þess yfir geysimikið landflæmi, og er þar með algerlega loku fyrir það skotið, að nokkurn engjablett verði unnt að slá á mörgum bæjum í Hjaltastaðarþinghá á þessu sumri. Tíðindamaður frá Tímanum átti í gær símtal við Sigþór Pálsson, bónda á Hjaltastað og Þorstein Sigfússon, bónda á Sandbrekku. Sögðu þeir að slík flóð hefðu ekki komið í Hjaltastaðaþinghá í tuttugu ár, en sumir teldu þetta flóð stórfenglegra en flóðið sumarið 1930. Í stórrigningunni aðfararnótt laugardagsins hljóp gífurlegur vöxtur i allar ár, sem eiga upptök sin í fjallgarðinum milli Úthéraðsins og fjarðanna, og er Selfljót eitt þeirra. Er ein meginupptakakvísl þess Gilsá, er kemur úr Vestdalsvatni á Vestdalsheiði, um tveim kílómetrum vestan við botn Vestdals í Seyðisfirði. Bjarglandsá kemur úr fjöllunum skammt norðvestan við Loðmundarfjörð.
Í Loðmundarfirði urðu miklir vatnavextir á laugardaginn, sem víðar á Austfjörðum. Tvær ár, Norðdalsá og Kirkjuá. renna niður við túnið á Klyppsstað, sín hvoru megin. Hlupu þær á túnið, önnur hvor eða báðar, en að því er Tíminn veit best, hafa þó ekki orðið miklar skemmdir af völdum þeirra. Kirkjuáin hefur oft áður valdið spjöllum á engjum og túni á Klyppstað.
Seyðisfjörður flakir í sárum eftir áfallið. Það er þungt yfir öllu á Seyðisfirði eftir hið ógurlega slys, er varð á laugardagsmorguninn, og uggur í fólki, sem býr á Fjarðarströndinni. þar sem skriðuföllin urðu mest. Talið er að fjártjónið, sem varð á Seyðisfirði, nemi hundruðum þúsunda í krónutali. Tjónið á síldarbræðslunni er álitið nema að minnsta kosti 150 þúsundum króna. Enn er þó ekki vitað, hvort þrærnar hafa skemmst, en í þeim voru 800 hundruð mál af síld. Malardyngjan ofan á síldinni er tveggja metra þykkt. Auk þeirra, sem bjuggu í húsi því, þar sem slysið mikla varð, hafa fjölskyldur Sveinbjarnar Hjálmarssonar, Þóris Daníelssonar og Magnúsar Halldórssonar orðið fyrir miklu tjóni. Talið er þó, að hús Sveinbjarnar hefði orðið miklu verr úti, ef staurar háspennulínu, sem er í hlíðinni ofan við það, hefðu ekki hlíft því, því að um þá klofnaði skriðan nokkuð. Skemmdir á túnum og vegum: Á Selsstöðum eyðilögðust fjörtíu hestburðir af heyi, og allt að þriðjungur túnsins mun hafa ónýst. Verulegar skemmdir urðu einnig á túnum, sem íbúar Seyðisfjarðarbæjar eiga, og miklar skemmdir hafa orðið á vegum, meðal annars veginum út með Seyðisfirði að sunnan og Fjarðarheiðarvegi, sem þó er bílfær. Aðeins brúin á Vestdalsá mun kosta tugi þúsunda. Skemmdir á fiski, sem var í verkun, hafa ekki enn verið rannsakaðar til hlítar, en hafa vafalaust orðið verulegar. Sérkennilegt þykir það, að fiskstakkur, sem færðist til um þrjátíu metra með skriðunni, sem á hann féll, losnaði ekki úr ábreiðslunni, er bundin var á hann, og mun fiskurinn í honum lítið skemmdur.
Tíminn 26. ágúst:
Um allt Norðurland og Austfirði eru enn látlausir óþurrkar, og getur varla heitið, að nokkurn tíma sjái til sólar. Menn eru víðast fyrir löngu hættir að slá eða hugsa yfirleitt til heyskapar, enda er þess enginn kostur að afla heyja, fyrr en breyting verður á veðráttunni.
Tíminn segir 1. september af sumri í Suðursveit:
Úr fréttabréfi úr Suðursveit [23.ágúst]: Vorið 1950 mátti teljast hér sæmilega gott. Menn munu hafa sleppt hér í sveit ám og hrossum af heyjum um 10. maí. Var þá byrjað að gróa og hélt áfram að gróa út maímánuð. Fénaðarhöld urðu hér góð. Í júnímánuði var hér mjög þurrkasamt, sólskin og hitar miklir, svo að sprettan stöðvaðist sem mest á útjörð og túnum, sem lítið voru sprottin fyrir. Er rigningartíðin byrjaði snemma í júlí, spruttu túnin fljótt og spruttu fljótt úr sér, svo að nauðsynlegt var að sleginn væru fyrir júlílok, því að spurningin er alltaf, hvort er betra að láta töðuna fúna óslegna eða slegna. Útjörð hefir náð hér lítilli sprettu. Nú, 23. ágúst hinn síðasta hundadag, er búin að vera hér óslitin fyllsta ótíð frá því með júlíbyrjun. Það má telja að varla hafi komið hér þurr dagur til enda á þessu tímabili og oft óhemju rigningar og hvassviðri á austan, svo að óvanalegt er hér í byggð. Tvo daga hefir hann komið hér á norðan, sem er okkar besta þurrkátt. Þessir tveir dagar komu með nokkru millibili þó, og í bæði skiptin var svo hvasst hér, að mikið fauk af heyi. Þessa daga þornaði hey nokkuð það, sem ekki fauk, en í bæði skiptin, var komin rigning áður en lygndi svo, að hægt væri að eiga nokkuð við hey. Þessir tveir þurrkdagar urðu því bara til eyðileggingar, ef hægt var á eyðilegginguna að bæta.
Mikið hvassviðri gerði á Siglufirði 4. september. Tíminn segir frá þann 6. Einnig eru almennar heyskaparfréttir:
Í fyrradag [4. september] geisaði hvassviðri mikið á Siglufirði og í nærsveitum. Veðrið stóð þó aðeins nokkrar klukkustundir. Allmikið tjón varð af völdum veðursins, þak fauk af húsi og skemmdi önnur hús. Einnig fauk töluvert af áhöldum við söltunarstöðvar og tómar síldartunnur fuku. Vélskipið Sjöfn var statt út af Siglunesi og missti nót og nótabát.
Það svæði á landinu, sem verst hefir orðið úti i sumar, er að heita má allt Austurland að nokkrum hluta Fljótsdalshéraðs undanskildum. Allt norðan frá Axarfjarðarheiði, suður að Mýrdalssandi hafa verið stöðugir óþurrkar í allt sumar, svo að sumir bændur voru nú fyrir fáum dögum, eða nú fyrir helgina að ná inn því fyrsta, sem hægt hefir verið að þurrka af töðufengnum. Horfir til stórkostlegra vandræða viða á þessu svæði vegna óþurrkanna, þar sem búast má við því, að víða verði heyfengur bænda á þessu svæði ekki nema um helmingur þess, sem hann er undir venjulegum kringumstæðum. Í sumar hefir heyskapur gengið ágætlega á Vesturlandi. Í Borgarfirði, Snæfellsnesi, Dalasýslu, Barðastrandarsýslu, V-Ísafjarðarsýslu og Norður-Ísafjarðarsýslu að Jökulfjörðum hefir verið góður heyskapur í sumar. Sums staðar á þessu svæði hefir þó verið heldur snöggt, einkum á áveituengjum. Há á harðvelli hefir líka sprottið illa vegna mikilla þurrka. Á öllu þessu svæði eru í fyrsta lagi góð og óhrakin hey og í með allagi að vöxtum. Á norðanverðum Vestfjörðum, í Grunnavík, Sléttu- og Árneshreppum hafa aftur á móti verið miklir óþurrkar í sumar. Heyskapur þar hefir þó ekki orðið mjög afleitur. Hefir það einkum bjargað, að bændur á þessum slóðum eru vanir súrheysgerð og hafa notað þá heyverkunaraðferð mikið í sumar. Um miðbik Strandasýslu hefir heyskapur einnig verið tafsamur vegna óþurrka. Hey hefir þó náðst þar nokkurn veginn, enda gert vothey jöfnum höndum. Í Hrútafirði hefir hins vegar verið miklu óhagstæðara tíðarfar.
Tíminn segir 14. september frá góðum dögum á Síðu:
Blaðið átti í gær til við Kirkjubæjarklaustur. Á Síðu hafa verið afbragðsgóð veður undanfarna daga og var enn í gær. Hafa bændur hirt mikið af heyjum og eru nú flestir að ljúka heyskap sem hvað líður. Hafa þessir góðu þurrkdagar mjög bætt um óþurrkana fyrr í sumar. Verður heyfengur nokkur, þótt hann sé ekki að sama skapi að gæðum.
Þann 14. september týndist flugvélin Geysir á leið til Íslands með sex manna áhöfn. Vélin villtist af leið og lenti á Bárðarbungu. Vél og áhöfn fundust fáeinum dögum síðar. Um þetta var mikið ritað og skrafað. Hungurdiskar fjölluðu nokkuð um veðurskilyrði á leið vélarinnar í sérstökum pistli. Þar er vísað í ítarlega grein um slysið sem birtist í Morgunblaðinu 17. september árið 2000 (timarit.is).
Tíminn segir 24. september frá versta sumri í manna minnum í Norður-Þingeyjarsýslu en góðum heyskap suður í Ölfusi:
Versta sumar sem elstu menn muna í Norður-Þingeyjarsýslu. Í júlí komu aðeins þrír þurrkdagar, einn í ágúst og flæsa einn eða í tvo daga í september. Segja má, að aðeins hafi komið fjórir eða fimm þurrkdagar á öllu sumrinu. Í júlí voru þrír þurrkdagar, og tókst mönnum þá að hirða lítið eitt af töðu. Í ágúst var aðeins einn þurrkdagur, 14. ágúst og síðan ekki söguna meir, nema ef telja skal flæsu 3. september sem þó kom varla að notum vegna þess að stórrigndi dagana fyrir og eftir. Enn eru því mikil hey úti og mikið ónýtt eins og gengur og á sumum bæjum var mjög lítið hirt. Á einhverju besta engi á landinu, Skóga- og Ærlækjarselsengjum flaut allt heyið upp og varð ónýtt og engið er allt undir vatni og kemur að engum notum í sumar.
Við höfum haft ágætt sumar og aldrei verið heyjað eins mikið í minni sveit, sagði gamall bóndi úr Ölfusi, sem leit inn í skrifstofu Tímans í gær. Annars er ég Hornfirðingur að ætt og uppruna og hefir því tekið sárt að heyra um óþurrkana og vandræðin af völdum þeirra austan lands í sumar. Það er aumt til þess að vita, að til skuli vera býli, og kannski svo tugum skiptir, þar sem engin tugga hefir náðst í hlöðu, og líklega er slíkt óþurrkasumar dæmalaust. En auðvitað hafa komið óþurrkar fyrr. Árið 1845 sumarið sem Heklugosið varð, herma sagnir, að fyrstu töðubaggarnir í Ölfusi hafi náðst inn á höfuðdag. Þegar menn fóru í verið um haustið, var gefið á garðann handa fénu, en það hey var aldrei étið að sögn, því að veturinn var svo góður, að nær aldrei festi snjó.
Tíminn segir 26. september frá góðri tíð í Borgarfirði:
Daníel Kristjánsson, bóndi á Hreðavatni leit inn í skrifstofu Tímans í gær, og skýrði svo frá, að þetta sumar hefði verið eitt hið fegursta þar upp frá. Mun varla nokkur heytugga hafa hrakist. Þá hefði haustið ekki verið lakara, og myndu menn í Mýrasýslu varla fegurri septembermánuð. Skógurinn er enn nær algrænn, sagði Daníel, aðeins byrjaður að blikna á stöku stað. Hlíðarnar eru algrænar, og fólk á berjamó upp um öll fjöll, þótt lítið eitt hafi fryst fáeinar nætur.
Tíminn segir 5. október frá umskiptum í Mýrdal:
Magnús Finnbogason bóndi í Reynisdal í Mýrdal leit inn i skrifstofu Tímans í gær og spurði tíðindamaður blaðsins hann frétta að austan. Júlí og ágúst voru einhverjir þeir verstu mánuðir, sem ég hefi lifað, en september hins vegar einn sá allra besti, sagði Magnús. Þeir sem hófu heyskapinn fyrir eða um 20. júní sluppu best, því að góðir þurrkar voru síðustu dagana í júní. Náðu þeir bændur góðri töðu í hlöðu og fengu auk þess afburða góða háarsprettu. Hinir, sem byrjuðu ekki fyrr en um mánaðamótin urðu verr úti, því þá var hinn langi óþurrkakafli að hefjast. Sést á þessu, að það er hollráð hið mesta að byrja sláttinn snemma, þótt ekki sé mikið sprottið. Það bætist upp í háarsprettunni, og tíðarfarið á Íslandi ætti að vera búið að kenna bændum, að það er mikil áhætta að sleppa nokkrum þurrkdegi, sem gefst eftir miðjan júní. Einhvern veginn er það líka svo, að þurrviðri ganga oft um og eftir Jónsmessuna.
Tíminn segir 6. október frá heysköðum á Húsavík.
Frá fréttaritara Tímans í Húsavík í gær. Í gærkvöld [4. október] gerði hér aftakaveður með slyddu og síðan rigningu mikilli. Í morgun lygndi þó og stytti upp aftur og var sæmilegt veður í gær. Nokkrir heyskaðar urðu hér á Húsavík, feykti uppbornum heyjum og skemmdi. Skaðar þessir munu þó ekki hafa orðið stórfelldir. Snjólaust er á þessum slóðum í byggð, en nokkur snjór á heiðum. Reykjaheiði er orðinn illfær af bleytu og snjó. Þó fóru bílar yfir hana í gær. Í fyrradag og i fyrrinótt snjóaði í byggð i Borgarfirði. Er það fyrsti snjórinn, sem þar fellur á þessu hausti.
En vatnsskortur var í vestanverðri Rangárvallasýslu. Tíminn 7. október:
Talsverður vatnsskortur er á ýmsum bæjum í sumum sveitum Rangárvallasýslu, þar sem þurrlent er og erfitt um örugg vatnsból. Hefir jörðin þornað mjög síðari hluta sumars og lindir, sem vatn er tekið úr til neyslu, þrotið gersamlega. Á bæjum í Holtum hafa sums staðar orðið veruleg óþægindi af vatnsskortinum. Menn hafa orðið að sækja vatn á dráttarvélum og öðrum farartækjum um alllangan veg, en fáliðað víðast hvar um þetta leyti og haustönnum ekki lokið.
Siglufjarðarskarð lokaðist nokkuð snögglega í kasti snemma í október (ekki óvenjulegt). Tíminn segir frá 11. október:
Í gær munaði minnstu á að mikið slys yrði á fólki og fénaði er var á leið yfir Siglufjarðarskarð úr Siglufirði ofan í Fljót. Tók snjóskriða fimm manns og 20 kindur, og bar allt saman með sér um 103 metra veg. Fólkinu tókst að bjarga sér lítt meiddu úr snjóflóðinu og einnig tókst að bjarga öllum kindunum lifandi.
Vatnsskortur er orðinn á ýmsum bæjum í Garðahreppi og hafa nú þrotið vatnsból, sem ekki hafa orðið vatnslaus fjölmörg ár. Í mörgum fjósum er nú ekkert vatn. Víðar suðvestan lands er nú orðinn vatnsskortur eða tekið að brydda á honum.
Tíminn segir enn af sumarveðri nyrðra þann 25.október:
Jón á Laxamýri segir fréttir af sumarveðráttunni í Þingeyjarsýslu. Ég hef farið yfir dagbækurnar mínar segir Jón, og leitað í yfirliti Thoroddsens um árferði á Íslandi og komist að raun um það, að þess munu engin dæmi, svo vitað sé að það hafi nokkurn tíma komið fyrir á Íslandi áður, að til væru væru bæir sem ekki væri fatið að hirða eina einustu tuggu af heyi fyrsta vetrardag. En þess munu nú manna aðeins dæmi á norðausturhorni landsins. Vorið var líka með eindæmum kalt svo að vala hefir annað eins þekkst í vorharðindum þegar ísar hafa legið fyrir landi fram á sumar. Í maímánuði öllum voru ekki nema þrjár frostlausar nætur á Laxamýri og má því vel búast við að engin frostlaus nótt hafi verið í þeim mánuði í byggðum fjær sjónum. Og frostið hélt áfram í júní. Frostnótt var síðast 20. júní. Sex dögum seinna var ekki sumarlegra en svo að norðanhríð gerði á Axarfjarðarheiði. Úr því að júnímánuður var svo kaldur, var ekki furða þótt grasið sprytti seint. Ekkert gras í júlíbyrjun. Í júlíbyrjun var hvergi hægt að byrja að slá fyrir grasleysi, þó að góður þurrkur héldist fyrstu daga mánaðarins. En 9. júlí fór að rigna og kom síðan enginn heill sólskinsdagur til veturnátta. Heyskapurinn varð því allur ömurlega barátta, sem oft virtist tilgangslítil vegna erfiðleikanna. Þeir, sem súgþurrkun höfðu stóðu sig mun betur er þeir bændur, sem ekki höfðu komið sér upp slíkum tækjum. Þar sem þau voru, var hægt að hirða illa þurrt. Víða er mikill engjaheyskapur og heyfengur af engjunum verulegur hluti af heyöfluninni. Nú brugðust engjarnar víðast hvar. Á Laxamýri er mikill hluti heyskaparins á engjum við Laxá. Að þessu sinni urðu engjarnar að engu liði. Þær voru allar undir vatni. Fyrsta vetrardag birti aftur upp eftir rigningar sumarsins. Veturinn heilsaði með sumarveðráttunni, sunnanátt og hlýindum. Margir hafa unnið að heyþurrkun þessa síðustu daga nyrðra, en þó er það svo, að ekki hefir verið nógu góður þurrkur, svo hægt hafi verið enn að þurrka heyin til hirðingar enda er dagur stuttur og sólin orði lág á lofti. Mikil hey eru úti og meginhluti þeirra ónýtur til annars en áburðar. Þó er sumt af seinni slætti og útengjaslætti, sem nota má handa skepnum, náist það þurrt. Má því gera ráð fyrir, ef þurrkur helst næstu daga, að þúsundir hestburða af langhröktu heyi náist loksins í hlöður á norðausturhorni landsins.
Tíminn segir af hvassviðri á Akureyri og nágrenni í pistli 31. október:
Í fyrrinótt [aðfaranótt 30. október] var aftaka hvassviðri á Akureyri af suðaustri. Urðu talsverðar skemmdir af veðrinu á Akureyri og skekktist olíugeymir, sem þar er í smíðum, en bátar slógust saman. Olíufélagið hefir að undanförnu átt stóran olíugeymi í smíðum á Gleráreyrum. Geymir þessi var kominn upp og byggingu hans langt komið, þannig að búist var við, að hægt yrði að taka hann í notkun innan skamms. Í ofviðrinu stórskemmdist þetta mikla mannvirki, skekktist á undirstöðunum, svo að mikið verk mun vera að lagfæra hann að nýju, svo hægt verði að ljúka við byggingu hans. Aðrar tilfinnanlegar skemmdir voru þær, að nokkrir smábátar, er lágu í höfninni, skemmdust mikið og minniháttar spjöll urðu á öðrum bátum. Margt lauslegt fauk og skemmdist í ofviðrinu, en stórfellt tjón varð ekki á öðrum mannvirkjum. Í Eyjafirði innanverðum var ofviðri líka þessa sömu nótt. Lítilsháttar skemmdir urðu þar. Járnplötur fuku og sitt hvað lauslegt heim við bæi. Stórfellt tjón mun þó hvergi hafa orðið af veðrinu inni í Eyjafirði.
Leitir gengu illa í Hornafirði. Tíminn segir frá 7.nóvember:
Tíð hefir verið með eindæmum stirð í Hornafirði undanfarnar tvær vikur, sífelldar þokur og rigningar, svo að varla hefir komið björt stund úr degi hvað þá heilir dagar síðasta hálfan mánuðinn. Af þessum sökum hafa seinni leitir í sveitunum í grennd við Hornafjörð dregist úr hömlu og eru nú orðnar hálfum mánuði seinni en venjulegt er. Bíða bændur nú uppbirtu, svo að síðari réttir geti farið fram.
Undir mánaðamót nóvember/desember versnaði veður og þann 30. gerði sérlega slæmt norðaustanveður, og svo annað ámóta þann 10. desember. Þessi veður eru í flokki mestu norðanveðra þessara ára.
Línuritið sýnir lægsta þrýsting á landinu á 3 klst fresti frá 26. nóvember til 16. desember (rauður ferill). Þrjár lægðir eru áberandi. Bláu súlurnar sýna hins vegar landsþrýstispönn, mun á hæsta og lægsta þrýstingi hvers athugunartíma. Almennt má segja að illviðri sé um stóran hluta landsins nái þrýstispönnin 20 hPa. Í þessum veðrum báðum gerði hún öllu betur, fór í 31 hPa í fyrra veðrinu, en í 36 hPa í því síðara - og tjón varð mikið.
Tíminn segir af bátsstrandi og samgönguerfiðleikum í pistli þann 28. nóvember:
Skipverjar á vélbátnum Þormóði ramma frá Siglufirði urðu að hleypa í strand í fyrrakvöld [26. nóvember] skammt vestan við Sauðanes í foraðsveðri og brimi. Kom björgunarsveit frá Siglufirði á vettvang, og varð mönnum öllum bjargað um miðnæturskeiðið í fyrrinótt. Séra Pétur T. Oddsson í Hvammi í Dölum lenti í hrakningum í Svínadal í fyrrinótt og lá þar úti við annan mann. Var leit hafin í gær bæði úr Saurbæ og Hvammssveit og fundu leitarmenn prestinn og förunaut hans á Leysingjastaðaleiti.
Undanfarna tvo sólarhringa hefir gengið á með snjókomu viðast norðan lands svo að heiðavegir eru nú að teppast og illfært orðið víða í byggðum. Í gær var þó heldur léttara og snjókoman minni.
Tíminn segir af illviðri þann 1.desember og næstu daga:
Í gær [30. nóvember] var norðan og norðaustan hvassviðri um allt land og herti veðrið fremur eftir því sem á daginn leið og búist var við aftakaveðri í nótt. Veðurhæðin var víðast hvar 1014 vindstig i gærkvöldi og einna hvassast á Vestfjörðum og úti fyrir þeim. Þar var einnig mest snjókoma, en þegar austar dró varð hlýrra og slydda eða rigning um norðausturhluta landsins. Sunnan lands var úrkoma lítil en nokkurt frost, mest fimm stig. Mjög erfitt var að fá greinilegar fréttir um veðurlag í fjarlægum héruðum landsins, því að miklar símabilanir höfðu orðið og var símasambandslaust við flesta staði norðan lands og vestan, svo sem Ísafjörð, Akureyri, Siglufjörð o.fl. Er búist við, að miklar skemmdir hafi orðið á símalínum, þar sem snjór hafi hlaðist á þær og slitið þær.
Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa daginn áður en veðrið skall á. Mikil og kröpp háloftalægð kom yfir Grænland úr vestri. Þá dýpkaði lægð á Grænlandshafi, losnaði frá Grænlandi og fór austsuðaustur rétt undan Suðvesturlandi. Í kjölfarið kom mikill norðanstrengur suður um landið.
Veðrið var í hámarki undir kvöld þann 30. og síðan þann 1. desember. Þá var lægðin komin austur fyrir land.
Tíminn 2.desember:
Óveðrið, sem skall yfir landið í fyrradag er eitt það mesta sem sögur fara af. Er því helst líkt við hið svokallaða Halaveður 1925. Bar það að með nokkuð svipuðum hætti. Nú, eins og þá, voru það togararnir, sem voru að veiðum úti fyrir Vesturlandinu. sem fyrst urðu fyrir barðinu á ofviðrinu, þótt, sem betur fór, hafi ekki frést um slys á þeim. Í fyrramorgun [30.nóvember] bárust fregnir frá togurunum, sem voru á veiðum vestur af Bjargi og opnum Breiðafirði, alllangt frá landi, um það að ofviðri mikið hefði skyndilega skollið yfir þá, og varð vindhraðinn á svipstundu um 11 vindstig. Það eru aðallega togarar á karfaveiðum á þessum slóðum, en hinir, sem eru á þorskveiðum, halda sig flestir á Halanum. Nokkru síðar var sama veður komið hjá þeim. Nokkrum klukkustundum síðar, eða rétt upp úr hádeginu, skall ofviðrið yfir Vesturlandið, fyrst Vestfirði, síðan kom það yfir allt Norðurland og svo Suðurland og austur um allt land. Um sexleytið í fyrrakvöld var komið fárviðri um allt land, eitt hið versta og illúðlegasta veður sem komið hefir lengi. Var afspyrnurok með úrkomu, stórhríð á öllu Norður- og Vesturlandi, einni þeirri verstu, sem þar hefir komið í mörg ár.
Sunnanlands var víðast krapahríð, og einnig á Austurlandi. Þar skall veðrið síðast yfir, síðla kvölds. Um miðnætti í fyrrinótt fór veðrið heldur að lægja á Suður- og Vesturlandi, en hélst þó æðihvasst alla nóttina, og mestan hluta dags í gær. Símalínur slitnuðu unnvörpum þegar í stað, bæði af rokinu, og eins af því að ísing og krap hlóðst á línurnar. Sambandslaust varð við mestan hluta landsins. Rofnaði þannig samband við allan vesturkjálka landsins og einnig rofnaði- allt símasamband við Norður- og Austurland. Í gær var ekki hægt að tala frá Reykjavík, annað en vestur í Mýrasýslu og norður á Borðeyri, en þangað er jarðsími, og austur á Hvolsvöll. Ekki er vitað, hversu víðtækar skemmdir urðu á símalínum, en áreiðanlega eru þær mjög miklar. Þegar ofviðrið skall yfir voru fáir vélbátar á sjó. Ógæftir hafa verið undanfarna daga, þó enginn byggist við slíkum hamförum sem þessum. Þeir bátar, sem voru á sjó, voru aðallega við flutninga með ströndum landsins, eða á leið frá útlöndum eða heim. Togararnir voru hins vegar yfirleitt á veiðum og fengu að kenna á veðurofsanum. Ekki hefir frést að neitt alvarlegt hafi þó orðið að hjá þeim enda stór og sterk skip.
Frá fréttaritara Tímans í Keflavik. Það munaði minnstu, að togarann Keflvíking ræki upp í fjöru í Keflavík í fyrrakvöld. Lá skipið þar við bryggju, og var verið að losa það. En um tíuleytið slitnaði skipið frá bryggju og mátti ekki tæpara standa, að því yrði bjargað.
Frá fréttaritara Tímans á Hvolsvelli. Undir Eyjafjöllum var aftakaveður í fyrrinótt, enda er þar mjög veðrasamt. Þar fauk þak af bílageymslu og vörubifreið fauk út af veginum og stórskemmdist. Í Hvolstungu undir Eyjafjöllum fauk þak af nýrri bílageymslu. Á þessum sama bæ fauk bifreið fyrir nokkrum árum og eyðilagðist. Vegna þess atviks og hins, að auðséð var, að ekki var öruggt að eiga bíl á bænum vegna veðrahamsins, fékk bóndinn að byggja bílageymslu, en nú hefur þakið fokið af henni. Vörubifreið, sem var á ferð undir Eyjafjöllum, fauk út af veginum og á hvolf. Skemmdist hún mikið, en bifreiðastjórinn, Einar Auðunsson frá Hóli, slapp ómeiddur að kalla. Bar þetta að höndum rétt hjá Þorvaldseyri. Veðrið var geysimikið á þessum slóðum og viðbúið að þar hafi orðið ýmsar meiri skemmdir, þótt fregnir af því séu ekki enn fyrir hendi.
Tíminn segir enn af tjóni í pistli þann 3.desember:
Frá fréttaritara Tímans á Hvolsvelli. Nánari fregnir hafa nú borist um skemmdir af völdum fárviðrisins undir Austur-Eyjafjöllum. en á því svæði virðast skemmdir hafa verið einna mestar, enda var veðrið afskaplegt þar. Símasambandslaust var við flesta bæi þar og bárust fregnir því seint. Hvassviðrið skall á um kl.11 á fimmtudagskvöldið [30.] á þessum slóðum og varð þegar fárviðri, sem stóð fram undir morgun. Á sjávarbæjunum undir austurfjöllunum var veðrið mest og þar urðu skemmdir mestar. Þak fauk þar af tveimur íbúðarhúsum með öllu, Berjaneskoti og Leirum. Þetta voru hvort tveggja timburhús. Í Berjaneskoti fauk einnig þak af hlöðu og súrheysgryfjum. Á Berjanesbæjunum og fleiri sjávarbæjum urðu ýmsar meiri skemmdir. Þök fuku af mörgum hlöðum og útihúsum. Í Skarðshlið fauk þak af bílskúr. Þak fauk einnig af stórri bílageymslu í einu lagi í Hvoltungu svo og af haughúsi og súrheysgryfju. Á símalínum urðu geysimiklar skemmdir. Á bilinu frá Holti austur að Skarðshlíð brotnuðu 20 staurar. Er ekki búist við að símasamband fáist austur til Víkur í Mýrdal fyrr en eftir einn eða tvo daga.
Hálft þakið af skólahúsinu við Deildará í Mýrdal, milli Skammadals og Gilja, tók af í veðrinu á dögunum. Í Vík í Mýrdal fuku gamlir braggar, en ekki urðu neinar teljandi skemmdir í þorpinu. Líklegt er, að meiri skemmdir hafi orðið af veðrinu í Skaftafellssýslu, en símasambandslaust er þangað austur og sömuleiðis á milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs.
Frá fréttaritara Tímans á Blönduósi. Í gærkvöldi komst aftur á símasamband við Blönduós og bárust fréttir af skemmdum þeim, sem þar urðu í ofsaveðrinu. Veðrið skall á þeim slóðum um kl.4 á fimmtudag og varð mjög hvasst. Hélst hvassviðrið alla nóttina og fram eftir föstudegi. Slitnuðu raflínur mjög víða bæði á kauptúninu og þeirri sex km. leið, sem er frá virkjuninni. Staurar brotnuðu þó ekki nema einn eða tveir við rafstöðina. Er nú unnið að því að setja línurnar upp á ný en hætt við að því verði ekki lokið fyrr en á mánudag, og verða Blönduósbúar því rafmagnslausir þangað til. Slit á símalínum urðu mjög mikil bæði vestan Blönduóss og austan í Langadal. Í Víðidal, skammt frá Lækjamóti, brotnuðu 12 staurar og línur slitnuðu víða. Yst í Langadal brotnuðu allmargir staurar. Unnið var að viðgerðum á símanum í fyrradag og gær en veður tafði þær nokkuð. Snjókoma var nokkur í áhlaupinu og dálítill snjór er nú á jörðu.
Að Brimnesi við Seyðisfjörð urðu miklar skemmdir í ofviðrinu. Fauk þar þak af fjárhúsi og sjóhúsi og hluti af þaki íbúðarhúss. Einnig týndust þar tveir bátar.
Frá fréttaritara Tímans í Grundarfirði. Að Bár í Eyrarsveit varð lítilsháttar tjón af völdum veðursins á dögunum. Fauk þar heystakkur, og munu hafa tapast 2030 hestburðir af heyi.
Símaskemmdir á landinu hafa orðið mjög víðtækar en hvergi er þó um mjög stórfelldar skemmdir að ræða, að því er Gunnlaugur Briem símaverkfræðingur tjáði blaðinu í gær. Auk þeirra, sem getið er annars staðar í blaðinu eftir sögn fréttaritara munu þær hafa orðið einna stórfelldastar í Fljótum. Skammt frá Hraunum fauk linan blátt áfram um koll á 2300 metra kafla. Féllu þar tíu staurar í röð.
Frá fréttaritara Tímans á Selfossi. Á ellefta tímanum í fyrramorgun [1. desember] hvolfdi áætlunarbíl frá Vik í Mýrdal, Z-3, á þjóðveginum undir Ingólfsfjalli í Ölfusi, skammt austan við brautina niður að Þórustöðum. Voru ellefu menn í bílnum, en allir sluppu ómeiddir að kalla, nema ein kona. Bíllinn var á leið austur í Vík, og var bílstjóri Árni Sigurjónsson, traustur maður og vanur langferðum. Hálka var sums staðar á veginum undir Ingólfsfjalli og mjög svipvindasamt, enda háarok. Skall mjög harður sviptivindur á bifreiðina, svo að hjólin skrikuðu á hálkunni, og kastaðist hún við það á hvolf út í skurðinn við veginn. Bifreiðin skemmdist mjög mikið. Einkum laskaðist yfirbyggingin mikið öðru megin. En allir, sem í bílnum voru sluppu ómeiddir að kalla, nema ein kona, Sigurlaug Sigurðardóttir frá Hörglandskoti á Síðu. Skarst hún allmikið á læri á bilrúðu, sem brotnaði.
Frá fréttaritara Tímans á Ísafirði. Aftakaveður var hér vestra í norðanáhlaupinu, og urðu ýmsar skemmdir af völdum þess. Þök tók af húsum, hey fauk og rúður brotnuðu á ýmsum stöðum. Fréttir eru komnar af þessum skemmdum helstum: Vigur Bolungarvík. Í Vigur tók þak af íbúðarhúsinu, hjá Bjarna Sigurðssyni, bónda þar. Í Bolungarvík fuku þök af fjósi og hlöðu hjá Ólafi Hálfdánarsyni Meiri-Hlíð og mikið af heyi, um 150 hestburðir fauk hjá honum. Fyrir tveimur árum brann íbúðarhús Ólafs, svo að skammt er áfalla á milli hjá honum. Í Meiri-Hlíð var byggt fimmtán kúa fjós og stór hlaða í sumar. Skíðaskálinn í Seljalandsdal varð fyrir miklum skemmdum. Fauk mikið af járni af húsinu, tuttugu rúður brotnuðu og skemmdir urðu innan húss.
Frá fréttaritara Tímans á Vopnafirði. Hér á Vopnafirði var hið mesta hamfaraveður, og varð bátaflotinn mjög hart úti. Tveir vélbátar urðu veðrinu að bráð, og fleiri bátar voru í hinni mestu hættu um skeið. Um klukkan fimm á fimmtudaginn skall á aftakaveður af norðaustri með hinum mesta sjógangi. Sextán smálesta bát, Bolla, eign Sigurbergs Höjgaards, sleit fyrst upp. Rak hann upp innan við kauptúnið i fyrradag, og gereyðilagðist hann. Tvo opna vélbáta tók einnig að reka og stefndu þeir á bryggjuna í kauptúninu. Annar þeirra stöðvaðist þó á síðustu stundu, en hinum tókst með harðfylgi að bjarga í var. Fjórða bátnum, Víking, átta smálestir rak inn á höfnina, og stöðvaðist hann hjá Hlassinu, skeri hér úti fyrir, og þar sökk hann i fyrrinótt. Er sennilegt, að hann sé mjög mikið skemmdur.
Og enn eru pistlar í Tímanum þann 4. desember:
Nokkurt yfirlit hefur nú fengist um hinar víðtæku símaskemmdir, sem urðu í ofviðrinu á dögunum, þótt öll kurl séu að líkindum ekki komin til grafar og viðgerðum sé ekki lokið. Í veðrinu munu hafa brotnað um 300 símastaurar, auk mikilla slita á línum. Flestir staurar munu hafa brotnað í Langadal eða um 80. Símasambandslaust var enn í gærkveldi til Akureyrar og Sauðárkróks en komið samband milli Siglufjarðar og Sauðárkróks. Verulegt tjón varð af veldum stórviðrisins á Ströndum, einkum að Veiðileysu í Veiðileysufirði, þar sem tveir bændur urðu fyrir miklum sköðum. Í Veiðileysu er þríbýli, en einn bændanna varð ekki fyrir neinu tjóni. Hjá hinum Hallbert Guðbrandssyni og Magnúsi Elíassyni, urðu miklir skaðar. Þak fauk af hlöðu og talsvert af heyi sópaðist út í buskann. Þak fauk af fjósi, sem byggt var í sumar Tveir bátar, trillubátur og árabátur fuku og brotnuðu í spón. Það er til marks um hina afskaplegu veðurhæð í þessu veðri, að trillubátinn tók á loft í einni hviðunni, og fór hann í loftköstum langan veg fram i fjörð þar sem brotin úr honum tvístruðust víðs vegar. Munaðarnes Melar. Að Munaðarnesi við Ingólfsfjörð fauk þak af hlöðu, og að Melum í Trékyllisvík fauk hluti af þaki á íbúðarhúsi. Allvíða fuku fáeinar plötur af húsum, en ekki er kunnugt um teljandi tjón annars staðar í Árneshreppi á þeim bæjum, sem hér hafa verið nefndir. Kálfanes Kollafjarðarnes. Sunnar á Ströndum urðu einnig nokkrir skaðar, en ekki stórvægilegir, svo að kunnugt sé. Að Kálfanesi við Hólmavík fauk þá hluti af hlöðuþaki og sömuleiðis í Kollafjarðarnesi.
Frá fréttaritara Tímans í Trékyllisvík. Ofviðrið skall hér á um hádegi. Var vindur af norðaustri eða austri og veðurhæð gífurleg. Tveir menn, Gunnar Guðjónsson á Eyri i Ingólfsfirði og Kristinn Jónsson á Seljanesi í Ingólfsfirði, voru á leið frá Melum í Trékyllisvík vestur í Ingólfsfjörð. Áttu þeir undan veðrinu að fara, en veðurofsinn var svo geysilegur, að i rauninni var alls ekki stætt á bersvæði. Á Eyrarhálsi reið yfir þá félaga mjög harður sviptivindur, og hreif hann Gunnar á loft og kastaði honum drjúgan spöl. Meiddist hann nokkuð á fæti við fallið, en heim að Eyri komust þeir félagar þó við illan leik.
Vonum minni skemmdir í Vík í Mýrdal. Í ofviðrinu á dögunum fauk þak af hlöðu hjá Guðjóni Guðmundssyni í Presthúsum í Vík en aðrar skemmdir urðu ekki teljandi, nema tveir gamlir braggar fuku og allmikil rúðubrot urðu. Veðrið skall þar á um kl. 11 á fimmtudagskvöldið og varð afskaplegt, en veðurofsann tók aftur að lægja um kl. 4 um nóttina. Litlar símaskemmdir urðu austan Vikur og var símasamband í gær austur að Kirkjubæjarklaustri. Litlar skemmdir munu hafa orðið þar austurundan en þó var símasambandslaust til Hornafjarðar í gær.
Þann 6. desember eru óvæntar fregnir í Tímanum - og síðan enn fleiri fregnir af illviðrinu mikla:
Stór hluti Eldeyjar hruninn. Sæmundur Sigurðsson skipstjóri á Ársæli Sigurðssyni" skýrði svo frá, að þeir hefðu siglt aðeins hálfa mílu frá eynni. Var austurhluti eyjarinnar fallinn í sjóinn, og voru nú komnar urðir og skerjaklasar undir eyjarfætinum, þar sem áður var hreinn sjór. Virðist þeim félögum sem eyjan hefði minnkað um þriðjung.
Frá fréttaritara Tímans í Mývatnssveit. Þegar stórviðrið gekk yfir Mývatnssveit síðastliðinn fimmtudag, fór Þorgeir Jónsson á Helluvaði að heiman til þess að sækja kindur, sem voru vestur í heiðinni, stutt frá bænum. Húsmóðir hans, Guðrún Sigurgeirsdóttir, fyrrverandi ljósmóðir, fór á eftir honum til þess að hjálpa honum að koma kindunum heim, en í sama mund brast á stórhríð, og kom hvorugt þeirra heim aftur. Nokkurt tjón varð af veðri þessu í Mývatnssveit. Einkum fauk ofan af heyjum, og urðu þannig nokkrir heyskaðar sums staðar. Um fjárskaða er ekki enn vitað.
Tíminn 8.desember segir af manni sem varð úti í ofviðrinu - en einnig segir af illviðri á Akureyri daginn áður:
Í ofviðrinu í vikunni sem leið varð sjötugur maður úti í Höfðahverfi i Suður-Þingeyjarsýslu. Maðurinn var Sigurður Ringsted til heimils á Kljáströnd. Síðla á fimmtudaginn var hann á heimleið frá Grenivík, en kom ekki fram og var þá þegar um kvöldið hafin leit að honum. Fannst hann kl. 9 um kvöldið vestan í Höfðanum örendur.
Frá fréttaritara Tímans á Akureyri. Í gær [7. desember] um kl. 4 síðdegis hvessti mjög snögglega á Akureyri og gerði aftakaveður eins og hvassast verður þar, svo að varla var stætt á götunum. Fylgdi veðrinu allmikil snjókoma. En um kl.7 kyrrði jafnsnögglega og kom blæjalogn og uppbirta. Veðrið var af suðvestri en Akureyringar bjuggust við að það snerst í norðvestur og hvessti á ný. Rafmagnslaust hefir verið undanfarna daga á Akureyri vegna flóðsins við Laxárstöðina. Rafmagnið fór af um miðnætti á mánudagskvöld og var rafmagnslaust á þriðjudag og einnig tíma í fyrradag. Í gærkvöldi var fullt rafmagn aftur komið og krapamokstri við stöðina lokið.
Tíminn segir 10.desember af togarastrandi við Ísafjarðarkaupstað - gufum af Heklu - og enn frásögn af illviðrinu undir Eyjafjöllum:
Um þrjúleytið í gær [9.] rak enskan togara, Northern Spray frá Grimsby, upp á Norðurtangarif við Ísafjarðarkaupstað. Hafði togarinn legið við akkeri i Prestabugi, utan við kaupstaðinn, en slitnaði upp í norðaustanhríð, sem skall á upp úr hádeginu. Var á Básaveður, sem Ísfirðingar kalla.
Eitthvað virðist enn vera volgt í iðrum gömlu Heklu. Þótt hvítt sé orðið allt niður á láglendi festir ekki snjó á öxl Heklu þar sem aðalgosið var 1947, heldur er hún alauð. Teitur Eyjólfsson bóndi í Eyvindartungu skýrði Tímanum frá því í gær að öðru hverju mætti sjá reyk allmikinn leggja upp úr Heklu. Venjulega ryki úr öxlinni og stundum legði reykinn upp á fleiri en einum stað.
Frá fréttaritara Tímans undir Eyjafjöllum. Þeir, sem ekki hafa í komist, gera sér varla grein fyrir því, hve fárviðrið um mánaðamótin var óskaplegt hér undir Eyjafjöllum. Um veðurhæðina er erfitt að segja, en klukkan níu á föstudagsmorguninn ,er mönnum ber saman um, að vindhraðinn hafi ekki verið nema hálfur miðað við nóttina, var þó enn illstætt fullfrískum karlmanni. Tíminn hefir áður birt fréttir af helstu sköðum sem urðu hér um slóðir. En tvö dæmi skulu nefnd til dæmis um það, hve átök veðursins voru ferleg. Heima i Berjanesi stóð rakstrarvél úti. Hún hefir ekki sést síðan, nema annan kjálkann af henni hefir rekið á fjörunum. Hefir hún sýnilega fokið tveggja kílómetra veg til sjávar. Um leið og hún fauk af stað hafði hún skollið á sláttuvél og skemmt hana. Annað dæmi um veðurofsann eru skemmdirnar á bilskúrnum í Hvoltungu. Hann var steinsteyptur, reistur fyrir þremur árum. Veðrið þrýsti steinveggnum inn og sprengdi hann bókstaflega, og við það losnaði þakið og fauk í heilu lagi 3040 metra veg.
En svo gerði annað veður. Eins gott að reyna að halda þeim aðskildum. Þótt bæði hafi verið norðlægrar áttar varð tjónið af þeim samt nokkuð ólíkt. Í fyrra veðrinu var einkum talað um foktjón - ekki síst sunnanlands, en síðara veðrið olli einnig sjávarflóða- og brimtjóni á Norður- og Norðausturlandi. Áttin var norðaustlægari í fyrra veðrinu heldur en því síðara.
Þessa lægð bar að með nokkuð öðrum hætti en þá fyrri. Skarpt háloftalægðardrag fór til suðausturs við suðurodda Grænlands og greip dýpkandi lægð sem myndaðist alllangt suðvestur í hafi. Hún fór síðan í slaufu fyrir sunnan land þann 9. eftir að hafa valdið suðaustanátt. (Á línuritinu sem sýnir þrýstispönnina má sjá skammvinnt lágmark eftir að skil lægðarinnar fóru norður yfir mestallt landið þann 9.). Norðanveðrið skall síðan á í kjölfarið þegar lægðin fór aftur að hreyfast til norðausturs - í þetta sinn fyrir suðaustan og austan land.
Tíminn segir fyrst frá 11. desember:
Stórhríðin og hvassviðrið, sem gekk yfir allt landið um helgina, er eitthvert hið versta, sem hér hefir komið lengi. Að líkindum munu hafa orðið miklu meiri skaðar en í veðrinu 10 dögum áður, þótt þá væri öllu hvassara á nokkrum stöðum. Símasambandslaust var í gær við Vestfirði og meirihluta Norðurlands og Austurlands, en fregnir vantar nær alveg af Austfjörðum, en þar var veðrið mjög hart. Tíminn fékk í gær nokkrar fregnir af tjóni af völdum veðursins, frá fréttariturum sínum á Norðurlandi eftir því sem til náðist í símtölum og fréttaskeytum. Veðrið náði yfir stórt svæði. Á laugardagsmorgun [9.] tók að hvessa á Vestfjörðum og síðan gekk veðrið austur yfir landið og brast stórhríðin á síðdegis og á sunnudagsnóttina á austurhluta landsins. Þetta stormasvæði náði allt austur til Jan Mayen og langt norður í haf. Varð foráttubrim við Norður- og Norðausturland og sjógangur með því mesta, sem orðið hefir síðustu tvo áratugi. Snjókoma var mikil á norðurhluta landsins en sunnan lands var hún lítil. Vindur varð víða um 12 vindstig og frost töluvert og herti er á leið. Á mánudagsnóttina tók aftur að kyrra og í gær var víða komið sæmilegt veður en mikið frost. Á Austfjörðum var þó enn allhvasst eða um 8 vindstig. Í gær var frostið í Möðrudal á Efrafjalli 15 stig en minnst í Öræfum 6 stig. Lítið tjón mun hafa orðið sunnanlands í veðrinu að því er til hefir frést. Þó munu símalínur hafa slitnað og var símasamband lengst austur á Hvolsvöll í gær. Vestanlands varð einnig lítið tjón nema helst á Vestfjörðum, en þó mun það ekki hafa orðið mjög stórfellt þar á bátum eða hafnarmannvirkjum. Aðaltjónið mun hafa orðið á Norðurlandi og ef til vill á Austfjörðum en þaðan vantaði fregnir alveg í gærkvöldi. Víð Eyjafjörð og Skjálfanda varð margvíslegt og mikið tjón á hafnarmannvirkjum og bátum að því er segir í fréttaskeytum frá Akureyri og Húsavík.
Á Dalvík braut skarð í hafnargarðinn. Skolaði stórgrýti úr uppfyllingu hans en steyptur veggur stóð þó óhaggaður. Sjór braut þar einnig grunn undan geymsluskúr svo að hann hrundi. Skemmdirnar á hafnargarðinum eru á 1012 metra kafla og er hann illnothæfur. Munu bátar verða að flytja sig frá Dalvík um sinn. Vörum og olíu, sem var í skúrnum sem sjórinn tók, tókst að bjarga. Trillubátur týndist í Hrísey og Grenivík. Í Hrísey slitnaði vélbáturinn Kópur upp af bátalegunni og týndist hann með öllu. Á Grenivík slitnaði einnig trillubátur upp af legunni og týndist. Á Akureyri skall á norðanstórhríð á sunnudagsnóttina og varð veðrið eitthvert hið versta, sem komið hefir í mörg ár. Sjógangurinn braut frystihúsbryggju K.E.A. á Oddeyrartanga og svonefnda Wathne-bryggju. Sópaði palli af báðum þessum bryggjum. Sjór flæddi inn í skipasmíðastöð K.E.A. á Oddeyri og frystihús, sem þar er, en þar urðu þó ekki miklar skemmdir. Í fréttaskeyti frá Húsavík segir, að norðan fárviðri með snjókomu og foráttubrimi hafi ver ð þar á sunnudaginn svo að annar eins sjógangur muni ekki hafa komið þar síðan 1934. Þrír trillu bátar slitnuðu upp af legunni og sukku. Vélbáturinn Smári Th. 59, sem er 60 lestir að stærð, eign útgerðarfélagsins Vísir í Húsavík, slitnaði upp og rak á land. Er hann talinn talsvert brotinn og mjög örðugt um björgun hans. Vélskipið Smári var aðeins tveggja ára gamall og stærsti bátur Húsvíkinga. Brimið gekk yfir hafnarbryggjuna og hafnargarðinn nýja og yfir steyptar uppfyllingar. Varð þar nokkurt tjón á lauslegum munum, en hafnarmannvirkin munu óskemmd. Tjónið af völdum brimsins norðan lands mun hafa orðið meira vegna þess að stórstreymi var. Eins og fyrr segir var símasambandslaust við norðausturhluta landsins í gær og er blaðinu ekki kunnugt um tjón í höfnum austan Húsavíkur.
Á Siglufirði brast stórhríðin á seint á sunnudagskvöld og um nóttina gekk í foráttubrim eitt hið mesta, sem komið hefir þar lengi. Gekk sjórinn látlaust yfir brimvarnargarðinn og með háflæði á sunnudagsmorgun gekk mikil flóðalda yfir eyrina og flæddi yfir nokkrar götur, einkum Ránargötu og Þormóðsgötu. Svelgur sá, sem á að flytja brott vatn, þarna, stíflaðist og hækkaði flóðið svo ört, að það flæddi viðstöðulaust inn í mörg hús. Flæddi mikill sjór inn í 2530 íbúðarhús og gerði mikið tjón, en fólk varð að hafa sig brott í skyndi. Fjöldi manna reyndi að ryðja frá svelgnum og tókst það von bráðar og lækkaði flóðið þá fljótt, en tjón varð margvíslegt í húsunum. Sjórinn gekk yfir allar bryggjur og skemmdi sumar nokkuð . Einnig gekk hann inn í verksmiðjuhús og geymsluhús, m.a. inn í stærstu mjölskemmuna. Þar var allmikið geymt af karfa og ufsamjöli frá vinnslunni síðustu vikur og stórskemmdist mikið af því. Togarinn Elliði og spænskt fisktökuskip, sem lágu við bryggju, slitnuðu frá henni og urðu að leggjast við festar út á höfn en ekkert tjón varð á þeim. Tvö stór skörð brotnuðu í flóðgarðinn og er það mikið tjón. Á sunnudagsnóttina bilaði háspennulínan frá Skeiðfossvirkjuninni til Siglufjarðar og var rafmagnslaust um sinn, þangað til vélar síldarverksmiðjanna voru teknar í notkun og hefir bærinn enn rafmagn frá þeim, því að ekki var lokið viðgerð línunnar í gærkveldi.
Í gær var unnið að því að reyna að bjarga vélbátnum Trausta GK 9, sem rak upp í Sandgerði í norðanrokinu um helgina. Tilraunirnar báru ekki árangur á flóðinu í gærmorgun, en reynt verður aftur í dag að ná bátnum á flot.
Tíminn segir enn af skemmdum 13. og 14. desember:
[13.] Í fárviðrinu um helgina urðu töluverðar skemmdir á Kópaskeri og víðar í Norður-Þingeyjarsýslu aðallega af völdum brims og sjógangs. Á Kópaskeri slitnaði upp vélbátur, sem notaður er þar til að draga uppskipunarbáta á milli skipa og lands. Eyðilagðist hann með öllu. Tvo uppskipunarbáta rak einnig á land og brotnaði annar mjög. Þetta er mesta brim, sem komið hefir á þessum slóðum síðan 1934. Mikil snjókoma hefir verið í Norður-Þingeyjarsýslu og eru jarðbönnin komin og allur-fénaður á gjöf. Símabilanir urðu töluverðar.
[14.] Frá fréttaritara Tímans á Hofsósi. Í ofviðrinu um helgina urðu miklar skemmdir á Hofsósi. Stærsta tjónið var það, að heilt hús, steinhús, byggt í fyrra, fór í sjóinn með svo til öllu, sem í því var. Norðanveðrið skall á um fjögur-leytið á aðfaranótt sunnudagsins. Hélst afspyrnurok til klukkan 10 á sunnudagsmorguninn, en þá byrjaði heldur að lygna. Samfara rokinu var aftaka brim, svo að elstu menn muna ekki eftir öðru eins síðan 1933 [væntanlega er átt við 1934]. Á níunda tímanum á sunnudagsmorguninn, gerðust þau undur, að brimið sópaði í einu bárukastinu heilu steinhúsi í sjóinn. Var það byggt í fyrra, eign Sveins Jóhannssonar. Hafði hann þar veiðarfærageymslu fyrir útgerðina og lifrarbræðslu og auk þess var i húsinu verbúð, sem ekki var búið í um þessar mundir. Hús þetta stóð uppi á Nöf, rétt ofan við bryggjuna og var næsta hús við sjóinn. Svo til allt, sem í húsinu var fór með því í hafið, nema hvað lítils háttar af veiðarfærum varð bjargað af grunninum. Hafnarmannvirkin á Hofsósi urðu ekki fyrir verulegum skemmdum í veðurofsanum og brimrótinu. Grjót reif að vísu upp vestan við hafnargarðinn og þeyttist sumt af því með briminu upp á bryggjuna. Til marks um brimrótið má geta þess, að stærstu steinarnir, sem sjórinn fleygði upp á bryggjuna, voru 34 smálestir að þyngd. Nóttina, sem óveðrið skall á, var vel gengið frá öllum bátum á Hofsósi. Voru þeir allir settir upp á land og skorðaðir. Sakaði þá ekki í veðrinu.
Frá fréttaritara Tímans í Trékyllisvík. Í ofviðrinu um síðustu helgi tók sjórinn trillubát að Veiðileysu í Veiðileysufirði á Ströndum. Var það síðasti báturinn þar, því að i hinu veðrinu brotnuðu þar tveir bátar. Eigandi bátsins, sem nú fórst, Þorlákur Guðbrandsson, sextugur maður, fæddur og uppalinn í Veiðileysu, segist ekki muna annan eins sjógang. Bátleysið er þeim bændum í Veiðileysu mjög bagalegt, því að aðdrættir eru allir á sjó, en þeir hafa ekki enn getað fengið efni i þök á fénaðarhús, sem fuku í fyrra veðrinu, en hörkuvetur kominn. Á Djúpuvík urðu einnig skemmdir. Þar braut sjórinn uppfyllingu og skemmdi plan allmikið.
Á Þórshöfn gekk sjór á land í ofviðrinu um helgina, og flæddi þar inn í tvö hús. Einn trillubátur, eign Magnúsar Jónssonar, brotnaði í spón. Í Mjóafirði varð það tjón í ofviðrinu, að bátur sökk, og vörubifreið, sem stóð þar á bæjarhlaði, fauk um og stöðvaðist ekki fyrr en úti í sjó. Báturinn, sem sökk, var Marselía, 78 smálestir, eign Stefáns Einarssonar í Sandhúsi. Var bátur þessi notaður til flutninga milli Mjóafjarðar og Neskaupstaðar. Rak hann fyrst að landi, en bar síðan frá og sökk þar. Bíllinn, sem fauk, stóð á hlaðinu að Friðheimi, sem er samtýnis við Fjörð. Valt hann um í ofsahrinu og staðnæmdist ekki fyrr en úti í sjó. Þetta var hálfrar annarrar smálestar bíll, eign Ólafs Ólafssonar, bónda í Friðheimi.
Frá fréttaritara Tímans á Sauðárkróki. Hér á Sauðárkróki átti sér stað ískyggilegt landbrot í ofsaveðrinu, sem skall á síðastliðna sunnudagsnótt, og nokkrar skemmdir urðu á hafnarmannvirkjum og skúrum við sjóinn. Mun annað eins brim og í þessu norðanáhlaupi ekki hafa komið hér í tuttugu ár. Sauðárkróksbær stendur á malareyri undir brekkum frammi við sjóinn Er fremst allhár malarkambur, og af honum tók nú í hafrótinu 610 metra sneið á löngum kafla, þar sem sleppir steyptum garði, sem gerður hefir til varnar sjógangi. Þar sem malarkamburinn var hæstur fremst, veitir hann nú brimi miklu minni viðspyrnu en áður, og er hætt við, að landbrotið aukist næst þegar stórviðri gerir, þótt hafrót verði ekki eins mikið og nú. Sjórinn gróf einnig undan þremur beituskúrum. Í einum þeirra voru geymdir tuttugu pokar af tilbúnum áburði, sem ónýttist algerlega, og auk þess fór í sjóinn bæði timbur og veiðarfæri, sem geymt var í skúrunum. Þá gekk sjór á land í bænum og flæddi inn í kjallara gistihússins Villa Nova. Loks urðu hér skemmdir á hafnarmannvirkjum. Mikið af sandi og möl bar inn í höfnina, og skarð brotnaði í hafnargarðinn og dekkið seig niður á parti. Sömuleiðis tók dekkið af gömlu bryggjunni, þar sem trillubátarnir hafa verið afgreiddir.
Haglaust er nú á Fljótdalshéraði, nema á Jökuldal þar næst enn til jarðar og fénaður því kominn á gjöf. Er útlit hið harðindalegasta. Vegir allir eru tepptir sökum snjóa, en niðri á Reyðarfirði er enn mikið af fóðurbæti og jafnvel heyi, sem flytja átti upp á Hérað. Var reynt að brjótast yfir Fagradal í gær. Fóru þaðan tveir bílar og tvær ýtur, og voru farartækin komin þriðjung leiðarinnar eftir átta tíma útivist. Í Borgarfirði eystra er einnig haglaust, mikill snjór og snjólag vont.
Frá fréttaritara Tímans á Haganesvík. Um síðustu helgi var hér afspyrnuveður með svo miklu sjóróti, að annað eins hefir ekki komið hér síðan 1934. Bryggju tók með öllu hér í Haganesvík, bátar skemmdust og vegur er í hættu. Veðrið skall hér á um kl.þrjú um nóttina og um morguninn var afspyrnurok og sjávargangur svo mikill, að ekki hefir annað eins komið síðan 1934. Var brimið afskaplegt og um kl. 10 um morguninn tók brimið í einu vetfangi trébryggju allstóra, sem byggð var í Haganesvik fyrir 67 árum, þegar verið var að gera Skeiðfossvirkjunina. Er ekki urmull eftir af bryggjunni. Allir bátar, flest trillubátar, höfðu verið settir hátt upp, en brimið gekk svo langt á land, að það skemmdi þá flesta eða alla meira og minna. Þá gekk sjórinn einnig inn í sláturhús en skemmdir af því urðu vonum minni. Árabát tók brimið og eyðilagði alveg á bænum Reykhóli, skammt frá Haganesvík. Við Haganesvík liggur vegurinn við sjóinn á malarkömbum milli sjávar og lóna og vatna. Í haust var gerður þarna nýr vegur. Í sjávarganginum á sunnudaginn stíflaðist frárennslið úr Sandósi og bólgnaði lónið upp og braut sér síðan nýja leið til sjávar. Rennur ósinn nú með fram nýja veginum á 100 metra kafla og grefur undan honum, svo að vegurinn er í mikilli hættu. Einnig teygði brimið sig upp að veginum og gróf undan honum.
Frá fréttaritara Tímans í Borgarfirði eystra. Talsverðir skaðar urðu hér í þorpinu af völdum hafróts og veðurs síðastliðinn sunnudag og mánudag. Telja gamlir menn, að sjór hafi aldrei gengið hærra á land á þessari öld en í veðrinu nú um helgina. Veðurhæð var ofsaleg báða daga, norðanhríð með fádæma hafróti og brimi. Braut sjórinn stór skörð í varnarhleðslu við aðalgötu þorpsins, flæddi á land upp og inn í nokkur hús, þótt ekki yrði þar tjón að verulegu ráði. Hins vegar braut sjórinn fiskiskúra og skemmdi nokkuð af fiski. Einnig skolaði ýmsu burt, svo sem fiskilínum, tunnum með olíu og lýsi og fleira af varningi.
Frá fréttaritara Tímans á Raufarhöfn. Um helgina var hér aftakaveður og hefir ekki meiri sjávargangur komið um áratugi. Fjárborgirnar á Sigurðarstöðum, sem eru við sjó norðan á Sléttunni miðri, standa frammi við sjóinn og á aðra hönd er stórt lón, sem skilið er frá sjó með malarkambi. Í stórbrimum stíflast stundum ósinn eða frárennsli þess, og er líklegt að svo hafi verið í þetta sinn. Í fárviðrinu seint á sunnudagsnóttina hrakti um 70 fjár frá fjárborgunum í lónið eða týndist með öðrum hætti, og er þetta meiri hluti fjárstofns bóndans á Sigurðarstöðum, Sæmundar Kristjánssonar. en einnig átti lausamaður sem hjá honum er, eitthvað af fénu. Í gær höfðu fundizt 35 kindur dauðar í lóninu, en búist var við að mestur hluti hins týnda fjár hefði farist. Þó var ekki útilokað talið, að eitthvað af fénu hefði hrakið annað og þá lent i fönn eða eða út á heiðar og væri kannski lifandi enn. Mikill snjór er nú kominn á Sléttu og er jarðlaust með öllu þessa daga. Á Raufarhöfn var brimið afskaplegt og gekk langt á land, alveg upp að húsum og jafnvel inn í þau. Skemmdir urðu þó ekki teljandi þar. Vélbátar lágu á höfninni, en sjómenn voru í þeim mörgum og höfðu vélar í gangi til að vera viðbúnir, ef þeir slitnuðu upp. Tókst þannig að verja bátana að mestu.
Tíminn segir 15.desember af ófærð nyrðra og enn af tjóni í veðrinu þann 10.
Í allan gærdag var stórhríð á Akureyri, eins og víðast hvar annars staðar á Norðurlandi. Umferð bíla mátti heita stöðvuð um bæinn í gærkvöldi, og illt útlit um mjólkurflutninga með bílum úr héraðinu til Akureyrar.
Frá fréttaritara Tímans í Reykhólasveit. Hið mesta fárviðri var hér um slóðir aðfaranótt síðastliðins sunnudags [10.], og mun veðurhæðin hafa orðið þrettán vindstig á Reykhólum. Sprengdi veðrið járnklæddan timburgafl úr birgðaskemmu tilraunastöðvarinnar þar. Mun þó lélegum frágangi byggingameistarans hafa verið um að kenna, að gaflinn stóðst ekki veðrið. Skemman fylltist af fönn, en verulegar skemmdir munu ekki hafa orðið á því, sem þar var geymt.
Þann 16. og 17. gerði talsverða sunnanátt og hláku. Urðu þá vatnavextir sem ollu tjóni. Tíminn segir frá 20. desember:
Frá fréttaritara Tímans i Vík í Mýrdal. Síðastliðinn sunnudag gerði hér um slóðir mikla vatnavexti, og urðu lækir og ár að foraðsvötnum. Skemmdust vegir víða af völdum vatns, og brýr tók af lækjum. Víða er grafið undan vegum, svo að þeir verða viðsjálir, er frost fer úr. Brúna af Uxafótarlæk, milli Fagradals og Víkur, tók af. Smábrú tók af læk utan við Skeiðflöt í Mýrdal og aðra af Halalæk hjá Sólheimanesi. Eftir að annar brúarstöpullinn við Uxafótarlæk var hruninn, bar það að pilt á jeppa, Einar Klemensson frá Görðum í Mýrdal. Varð hann þess ekkí var, hvað gerst hafði og lenti hann í flaumnum með bíl sinn. Einari tókst að bjarga sér, en jeppinn stórskemmdist í læknum af jakaburði.
Þegar áætlunarbíll var á leið upp í Reykholt frá Reykjavík síðdegis á laugardag [16.], skall á hvassviðri, svo að aftaka rokur skullu ofan af Hafnarfjalli. En vegurinn liggur mjög nærri fjallinu á kafla, eins og kunnugt er þeim, er þarna hafa átt leið um, síðan veginum um Hafnarskóg var breytt. Á sjötta tímanum á laugardaginn, þegar bíllinn fór fyrir fjallsendann, skall roka á bílinn skyndilega, og skipti það engum togum, að vindurinn tók bílinn út af veginum og þeytti honum út í flóa i einum svip. Þó undarlegt megi virðast sakaði engan sem í bílnum var. Er það ekki hvað síst að þakka snarræði bifreiðarstjórans Guðmundar Guðjónssonar, sem sneri bílnum þannig, að komist varð hjá veltu. Er hann vanur og traustur bifreiðarstjóri og kunnugur á þessari leið. Djúp gil voru við veginn rétt framan við þar sem bíllinn fauk út af og einnig skammt fyrir aftan. Bíllinn skemmdist lítið og varð honum komið upp á veginn aftur, þar sem kanturinn var ekki hár og gat hann haldið ferð sinni áfram upp í Reykholt.
Tíminn segir enn af tjóni í veðrinu þann 10. í pistli þann 21. desember:
Í ofviðrinu, sem skall á 10. desember, urðu talsverðar skemmdir í Bakkafirði. En af þeim hafa ekki borist fregnir fyrr en nú, þar eð símasambandslaust hefir verið við Höfn í Bakkafirði eftir veðrið, þar til nú. Brimið var ægilegt hér hjá okkur, sagði Lúðvík Sigurjónsson útibússtjóri í viðtali við tíðindamann Tímans. Sjógangur var meiri en dæmi eru um, og mun sjór aldrei hafa gengið jafn hátt síðustu 3040 árin. Sex smálesta mótorbátur, eign færeyskra bræðra, Engilberts og Jógvans Hansen, stóð uppi á landi í kauptúninu Höfn í Bakkafirði og hafði staðið þar ónotaður síðustu 45 árin. Hann hreif brimið með sér í sjóinn. Dráttarbátur, eign Lúðvíks Sigurjónssonar, stóð langt uppi á braut. Brimið skolaði honum einnig brott, og er ekki vitað, að sjór hafi áður gengið svo hátt. Loks laskaðist bryggjan talsvert í sjóganginum. Á Bakka í Bakkafirði urðu einnig skemmdir. Þar brotnaði fiskiskúr, eign Marinós Sigurðssonar, eins af þremur bændum þar. Fleiri smærri skemmdir urðu af veðrinu og sjóganginum í Bakkafirði.
Árið 1950 smöluðu Mývetningar enn fé á aðventunni - rétt eins og í hinni frægu sögu Gunnars Gunnarssonar sem gerist um það bil 25 árum fyrr. Tíminn 29.desember:
Eins og frá var skýrt hér í blaðinu um daginn lentu Mývetningar í allmiklum þrekraunum við að koma fé sínu heim af Austurfjöllum fyrir hátíðarnar og vantaði þá um 90 fjár, sem flest hafði fennt á fjöllunum í stórhríðinni. Eftir áhlaupið var lagt af stað til leitar og aðallega notaðir til þess hundar, sem vanir eru að leita í fönn. Eiga Mývetningar nokkra hunda, sem þeir hafa vanið við slíkt, og auk þess var fenginn vanur leitarhundur neðan úr Bárðardal. Fannst rúmlega helmingur hins týnda fjár dagana fyrir jólin, en enn vantar 3040 fjár. Er það með því allra mesta, sem Mývetninga hefir nokkurn tíma vantað af Fjöllunum eftir haustgönguna.
Hér lýkur upprifjun hungurdiska á veðri og tíðarfari ársins 1950. Tölulegar upplýsingar ýmsar má finna í viðhenginu.
21.2.2023 | 11:42
Tuttugu febrúardagar
18.2.2023 | 21:37
Vonandi
Á morgun, sunnudag 19. febrúar, kemur enn ein lægðin að landinu og fer síðan austur um Skaftafellssýslur. Ritstjóranum leist mjög illa á hana í fyrradag, en reiknimiðstöðvum hefur tekist að róa hann nokkuð niður. Þær segja - jú, þetta er alvörulægð, en hún er samt ekki af þeim styrk sem þú óttaðist (gamli kall).
Hér er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl.6 að sunnudagsmorgni 19. febrúar. Lægðin er þá í svonefndum óðavexti (dýpkar um meir en 24 hPa á sólarhring) - en samt ekki mikið meira en það. Verði lægðin aðeins dýpri heldur en spár gera nú ráð fyrir fer hún farið sjónarmun vestar. Þar með skellur vestanstrengurinn sunnan við hana á landinu af hafi - með tilheyrandi sjávarflóðahættu. Rætist spár fer aðalstrengurinn sunnan við land (af heldur minna afli). Vindaspár fyrir Suðausturland annað kvöld eru þó býsna snarpar og rétt að huga að. Sömuleiðis kemur vindstrengur af vestri inn á Reykjanes og Faxaflóa síðdegis - kannski rétt að vara sig á honum, þó ekki sé af verstu gerð. Fjallvegir á mestöllu landinu verða líka varasamir viðfangs - allir ferðalangar eiga að gefa veðri og veðurspám gaum.
Góa byrjar sum sé nokkuð höstugt - og skemmtideildir reiknimiðstöðvanna halda áfram að keppa um athygli við aðrar efnisveitur netsins og dreifa sápunni. Veðurnördin eru ánægð með það - (eða þannig).
En vonandi hafa reiknimiðstöðvar rétt fyrir sér með þessa lægð.
16.2.2023 | 11:30
Fyrri hluti febrúar
Fyrri hluti febrúarmánaðar hefur verið fremur hlýr. Meðalhiti í Reykjavík er +1,3 stig, +0,9 stigum ofan meðallags sömu daga árin 1991 til 2020, og +0,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 8. hlýjasta sæti (af 23) á öldinni. Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2017, meðalhiti þá +4,1 stig, en kaldastir voru þeir 2002, meðalhiti -2,2 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 38. hlýjasta sæti (af 151). Hlýjastir voru sömu dagar 1932, meðalhiti þá +4,5 stig, en kaldastir 1881, meðalhiti -5,9 stig.
Á Akureyri er meðalhiti í febrúar hingað til +1,8 stig. Það er +2,7 stigum ofan meðallags 1990 til 2020 og +2,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Norðausturlandi og Austurlandi að Glettingi. Þar er þetta þriðjihlýjasti fyrri hluti febrúar á öldinni. Við Breiðafjörð er hann í 9. sæti. Jákvætt vik miðað við síðustu tíu ár er mest á Sauðárkróksflugvelli, +3,1 stig og nærri því það sama á Torfum í Eyjafirði. Kaldast að tiltölu hefur verið á Lambavatni. Þar er hiti +0,1 stigi ofan meðallags (lægri tala í Ólafsvík er trúlega röng).
Úrkoma hefur verið óvenjumikil um landið sunnan- og vestanvert, hefur hingað til mælst 107,8 mm í Reykjavík, sú mesta sömu daga á þessari öld og sú fimmta mesta sem vitað er um á mælitímanum, hún mældist síðast meiri 1991, en mest 1921. Þetta er meir en tvöföld meðalúrkoma. Á Akureyri hefur úrkoma mælst 32,7 mm og er það í ríflegu meðallagi. Óvenjuþurrt hefur hins vegar verið á Dalatanga þar sem úrkoman hefur aðeins mælst 15,9 mm, fjórðungur meðalúrkomu.
Sólskinsstundir hafa mælst 15,4 í Reykjavík, 13 færri en í meðalári, en 13,7 á Akureyri sem er í meðallagi.
Illviðrasamt hefur verið í mánuðinum.
15.2.2023 | 02:25
Riðalauf
Í dag, miðvikudaginn 15. febrúar 2023, fer smálægð hratt til norðausturs ekki langt undan Suðausturlandi. Ekki eru spár alveg sammála um hversu nærri landi lægðin fer. Satt best að segja eru gamlir ryðkláfar (eins og ritstjóri hungurdiska) hálfgapandi yfir því að tölvuspár skuli yfirleitt ná að fanga lægðir sem þessar - og það jafnvel með margra daga fyrirvara (öðruvísi mér áður brá). Lægðin varð eiginlega ekki til fyrr en síðdegis í gær - nánast út úr engu.
Hitamyndin hér að ofan er tekin kl.1 í nótt. Gul ör bendir á Ísland. Yfir landinu og fyrir vestan og suðvestan það eru allmiklir éljaklakkar. Rauð ör bendir á smálægðina. Í erlendum fræðaskrifum eru lægðir af þessu tagi kallaðar baroclinic leaf - upp á ritstjórnaríslensku riðalauf. Þau verða til í óstöðugu lofti (aðallega þó á jaðarsvæðum þess) þar sem lítilsháttar, en óstöðugt misgengi verður á milli hæðar- og þykktarflata - á sama hátt og myndar fjölmargar stórar (riða-)lægðir sem þá eru oftast tengdar heimskautaröstinni eða skylduliði hennar. Freistast má til að teikna bæði hita-, kulda- og/eða samskil í svona lægðir - og jafnvel finna afturbeygð skil, stingrastir eða hvað þetta heitir allt saman (og við hljótum að hafa á hreinu). Gangi svona kerfi inn í stærri - t.d. elti kuldaskil stórrar lægðar uppi verður það til sem á útlensku er nefnt instant occlusion - einhvers konar skyndilægðagrautur (þjált íslenskt heiti hefur ekki fundist - þrátt fyrir ákafa leit í frumskógi ónefna - en vonandi kemur að því).
En á hádegi (miðvikudag 15. febrúar) á lægðin að vera suður af Ingólfshöfða, ekki langt norður af þeim stað sem veðurskipið Indía var á æskuárum ritstjórans, og stefnir í norðaustur eða norðnorðaustur. Úrkomusvæðið (grænt og blátt) vestan við lægðina stefnir í átt að Suðausturlandi. Við athugum að kort sem þessi sýna uppsafnaða úrkomu - hún myndar því í þessu tilviki rönd í hreyfistefnu mestu úrkomuákefðar, úrkomunni er í raun lokið að mestu syðst í röndinni þegar kortið gildir. Gömul lægð er svo fyrir vestan land, full löngunnar til að taka þátt í leiknum, en er orðin of svifasein. Í henni er þó töluverður éljabakki sem ætti að falla inn á landið þegar litla lægðin er gengin hjá. Sem stendur gera spár ekki mjög mikið úr þessum bakka.
Kortið af ofan gildir líka á hádegi og sýnir um það bil sama svæði og hitt (örlítið minna). Litir sýna vindhraða, en örvar vindstefnu. Við sjáum hér vel vindstrenginn snarpa sunnan lægðarmiðjunnar litlu. Þar er mesti 10-mínútna vindur nærri 28 m/s og hviður upp í 35 m/s. Í bakkanum vestan við land er gert ráð fyrir 18 til 20 m/s þar sem mest er (alveg nóg til að mann þurfa að taka tillit til við sum verk).
Staða sem þessi var auðvitað afskaplega varasöm á árum áður. Freistandi var að fara á sjó á smábátum eða helda í ferðalög gangandi milli landshluta. Þótt eins konar blikubakki fylgi riðalaufum er hann miklu fyrirferðarminni heldur en þeir sem fylgja þeim stóru og tíminn frá því menn verða hans varir og illviðri skellur á er þess vegna miklu styttri. Sömuleiðis er éljabakki eins og sá sem hér má sjá fyrir vestan land mjög varasamur smábátum og vana menn eða heppna þarf til að sleppa hjá áföllum. Brot geta myndast á sjó - og brim ýfst upp við lendingar. En nú eru fáir smábátar á sjó - og veðurpár miklum mun öruggari en var - fyrir aðeins 20 til 25 árum.
11.2.2023 | 20:06
Fyrstu tíu dagar febrúarmánaðar
Hiti er ekki fjarri meðallagi fyrstu 10 daga febrúarmánaðar, +0,1 stig í Reykjavík. Það er +0,2 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020, en -0,5 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn í Reykjavík raðast í 11. hlýjasta sæti (af 23) á öldinni. Á langa listanum er hitinn í 60. sæti af 151.
Á Akureyri er meðalhiti 0,0 stig, +1,4 stigum ofan meðallags 1991-2020, en +0,9 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
Hiti á spásvæðunum raðast í 9. til 12. sæti á öldinni, einna kaldast að tiltölu við Breiðafjörð. Jákvætt hitavik (miðað við síðustu tíu ár) er mest á Sauðárkróksflugvelli, +1,6 stig, en neikvæðast í Ólafsvík, -1,8 stig (en það er trúlega rangt - athugum það nánar).
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 76 mm og er það meir en tvöföld meðalúrkoma sömu daga og sú mesta þessa daga á öldinni. Meiri úrkoma hefur þó þrisvar mælst meiri þessa daga, síðast 1991. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 32 mm og er það um 60 prósent umfram meðallag.
Sólskinsstundir hafa mælst 6 í Reykjavík - með minna móti, en 1965 og 1971 mældust sólskinsstundir færri en ein sömu almanaksdaga. Á Akureyri hafa til þessa mælst 7,2 sólskinsstundir í mánuðinum.
6.2.2023 | 22:33
Óþægileg lægð í vexti
Þegar þetta er skrifað (að kvöldi mánudagsins 6. febrúar 2023) virðist lægð vera að myndast suðvestur í hafi. Hún dýpkar og stefnir í átt til landsins á miklum hraða, meir en 100 km/klst. Talsverð óvissa er enn um braut hennar og dýpt þegar hún fer hjá. Áhrif, vindhraði og úrkomumagn eru því enn harla óviss. Lægðin þýtur síðan til Svalbarða og evrópureiknimiðstöðin gerir ráð fyrir því að hún verði komin þangað um miðjan miðvikudag, og þá verði hún orðin komin niður undir 940 hPa í miðju, en þegar hún fer hjá hér segir sama líkan miðjuþrýstinginn verða í kringum 980 hPa. Lægðin verður því í óðavexti.
Við látum að vanda Veðurstofuna (og til þess bæra aðila aðra) alveg um spárnar, en lítum á nokkur háloftakort okkur til hugarhægðar.
Kortið að ofan sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum kl.9 að morgni þriðjudags 7.febrúar. Ísland er við miðja mynd (örin liggur um það bil yfir mitt landið). Jafnhæðarlínur eru mjög þéttar og vindur mikill, yfir 50 m/s - vindörvar sýna vindhraða og stefnu, en litir sýna hita. Gríðarkalt loft er fyrir vestan land, en hlýrra austur undan. Þar sem misgengi verður á milli jafnhæðar og jafnhitalína (strangt tekið jafnþykktarlína) myndast hes í háloftaröstinni í átt til jarðar, örin sýnir miðjuás í hesinu (nokkurn veginn). Þar er hitabratti ekki eins mikill og til beggja hliða. Við sjáum að þetta svæði er ekki mikið um sig - í heild jafnvel mjórra en landið sjálft er (frá austri til vesturs). Skeiki spám aðeins lítillega í umfangi þessa svæðis - eða staðsetningu þess - verður veður með öðrum hætti - það hittir annars staðar í - eða verður meira eða minna en reikningar gera ráð fyrir.
Hér lítum við enn ofar, upp í 300 hPa-flötinn hér í rúmlega 8 km hæð yfir sjávarmáli. Vindur er svipaður og í 500 hPa - eða lítillega meiri, en dreifing hita allt önnur. Kaldast er yfir því svæði sem var tiltölulega hlýjast á hinu kortinu. Það stafar af því að framrás kalda loftsins að vestan er svo áköf í neðri lögum að hún lyftir loftinu í 300 hPa upp og það kólnar við það. Uppstreymið er langmest þar sem jaðar kalda loftsins er brattastur - lyfting yfir landinu auðveldar uppstreymið þar að auki eitthvað.
Á þessu korti erum við aftur komin niður í 500 hPa (tæplega 5 km hæð). Gildir það seint annað kvöld. Þá á kalda loftið að vera komið yfir Ísland og -46 stiga frosti er spáð í 500 hPa yfir Keflavíkurflugvelli, jafnt febrúarlágmarkshitameti flatarins yfir flugvellinum. Hér er sum sé óvenjukalt loft á ferð. Lítillega lægri hiti hefur mælst í fletinum í desember og janúar.
En þrátt fyrir þennan kulda í 500 hPa er hiti ekki nærri lágmarkshitametum í neðri flötum. Ástæðan er sú að loftið er betur blandað nú heldur en þegar met voru sett í neðri flötunum. En óvenjulegt er þetta engu að síður.
Algengast er að vel þroskaðar eða fullþroskaðar lægðir séu þær sem mestum illviðrum valda hér á landi. Hér er hins vegar um kerfi að ræða sem er rétt í þann mund að hrökkva í óðadýpkun. Sé að marka reikninga á það eftir að gera skurk við strendur Noregs og á Svalbarða - jafnvel í Færeyjum líka - en er fljótt að afgreiða okkur.
Viðbót (8.2):
Lægðin olli stormi á um 40 prósentum veðurstöðva í byggð - það er býsna mikið. Aftur á móti varð vindhraði hvergi í methæðum og stóð veðrið heldur ekki lengi. Það varð hins vegar mjög slæmt í Færeyjum, þar urðu fokskaðar og einnig varð mjög hvasst í Noregi. Hiti í háloftunum yfir Keflavík fór niður í -45,2 stig í 500 hPa og er það nærri febrúarmeti (-45,9 stig).
Vísindi og fræði | Breytt 8.2.2023 kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2023 | 21:28
Hugsað til ársins 1959
Tíðarfar á árinu 1959 var talið sæmilega hagstætt fyrir utan nokkrar erfiðar illviðrasyrpur. Sumarið var heldur óþurrkasamt. Janúar var kaldur. Þurrt og bjart veður og tíð hagstæð á Suður- og Vesturlandi, en var talin óhagstæð á Norður- og Austurlandi. Gæftir voru góðar. Febrúar var óhagstæður og sérlega illviðrasamur, mikil sjóslys urðu og víða skaðar til landsins. Hlýtt var í veðri. Talsverður snjór var fyrstu viku marsmánaðar en síðan var tíð mjög hagstæð, hlýtt var í veðri. Apríl var talinn fremur óhagstæður gróðri. Gæftir voru góðar og hiti nærri meðallagi. Góð tíð var í maí nema fyrstu vikuna, gróðri fór vel fram, gæftir voru góðar og hlýtt var í veðri. Mjög rysjótt og hretasamt var í júní fram undir þann 20., en þá batnaði tíð. Júlí var hæglátur, graspretta var góð, en þurrkar daufir. Í ágúst var tíð óhagstæð til heyskapar um mikinn hluta landsins. Hiti í meðallagi. Hlýtt var í september og tíð hagstæð norðaustanlands, en annars var óþurrkasamt. Október var óvenjuhlýr, Blóm sprungu út í görðum og ber voru víða óskemmd mestallan mánuðinn. Tíð talin mjög góð norðaustan- og austanlands, en úrkomusöm annars staðar. Gæftir voru stirðar. Tíð var óstöðug í nóvember, en fyrir utan illviðri i kringum þann 10. var hún samt talin hagstæð. Sama var með desember, þá var lengst af hagstæð tíð.
Hér að neðan er farið yfir helstu fregnir af veðri á árinu 1959. Aðalritheimildir er að finna timarit.is, en töluheimildir eru í gagnagrunni Veðurstofunnar. Þetta ár vísum við mest í Tímann, þar voru oftast greinargoðar fregnir af veðri og tjóni af þess völdum. Sömuleiðis er margt úr Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Ísland. Pistlar sem vitnað er í eru margir styttir, stafssetning oftast færð til nútímahorfa, en orðfæri nær ekkert breytt. Vonandi að höfundar texta láti sér þetta lynda - og er þeim þökkuð eljan.
Norðlæg átt var nær samfellt ríkjandi fyrstu þrjár vikur janúarmánaðar og rúmlega það. Mjög kalt var í veðri, samfelld bjartviðri sunnanlands, en éljagangur á Norður- og Austurlandi. Samfelld hríð var þar sum daga, sérstaklega undir þann 20. Gæftir voru taldar óvenjugóðar og róið var úr verstöðvum flesta daga. Þann 24. skipti snögglega um. Við tóku umhleypingar, þar sem skiptust á sunnanrigningar og útsynningshryðjur. Þann 2. janúar fauk lítið gróðurhús í norðanveðri í nágrenni Selfoss og þann 4. fórst lítil flugvél með fjórum ungum mönnum um borð í Grjótárdal við Vaðlaheiði. Truflanir voru tíðar á samgöngum nyrðra, en greiðfært syðra. Í Tímanum þann 9. janúar er frétt um ferð Öræfinga austur til Hafnar:
Öræfum í gær. Á morgun verður farið héðan á bifreiðum til fiskkaupa í Höfn í Hornafirði og er það fyrsta kaupstaðarferð Öræfinga þangað á þessum vetri. Farartækjum er nú fært þessa torsóttu leið, vegna þess að ísalög eru hér mikil, og svo það, að Jökulsá á Breiðamerkursandi er það vatnslítil orðin vegna frostanna undanfarið, að hún dregur ekki lengur til sjávar og má fara yfir hana frammi við sjó.
Ísalög voru á Hvammsfirði. Tíminn segir frá 22. janúar:
Hvammsfjörður er lagður út í Röst. Hægt er að klöngrast yfir Bröttubrekku með ýtrustu varúð, en vegagerðin hefir skafið upp svellalögin á henni með jarðýtu á þriðjudögum. Samgöngur innan héraðs eru ágætar. Snjóföl er á jörðu og 1415 stiga frost. Bændur gefa fulla gjöf.
Í sama blaði eru einnig fregnir af vatnsleysi vegna frosta í Borgarnesi. Hungurdiskar hafa áður fjallað um það mál í pistli og verður ekki endurtekið hér.
Þann 21. féll snjóflóð við Arnórsstaði á Jökuldal, 30 kindur drápust, en maður sem lenti í flóðinu bjargaðist. Tíminn segir af þessu atviki í frétt þann 25.janúar:
Gróf sig úr snjóflóði með fölskum tanngarði, sleit af sér stígvél og sokka. Bóndi á Jökuldal sýnir ótrúlegt þrek og karlmennsku. Á fimmtudaginn var Jón Þorkelsson, bóndi á Arnórsstöðum á Jökuldal staddur með fé sitt í svokallaðri Loðinshöfðagjótu undir samnefndum höfða. Steyptist þá snjóflóð úr höfðanum yfir bóndann og gróf hann og hund hans og 30 kindur í fönn. Þetta gerðist um klukkan þrjú og var Jón á leið með fjárhópinn að beitarhúsunum. Þegar Jón raknaði við gekk honum erfiðlega að losa sig. Snjórinn var fastur og erfitt um vik fyrir hann að grafa sig út. Tók hann þá út sér falskan tanngarð og gróf með honum uns hann var kominn uppúr snjólaginu sem var hálfur metri á þykkt. Jón kom heim klukkan langt gengin ellefu um kvöldið og reiknaðist honum svo til að hann hefði losnað úr fönninni klukkan tíu. Ekki vissi hann hvenær hann hafði raknað við og var því ekki fullljóst hvað hann var lengi að grafa sig út. Í fönninni hafði hann slitið af sér bæði stígvélin og tvenna sokka af öðrum fæti. Hann hafði fært bera fótinn i annan sokkanna, sem hann hafði á hinum fætinum og kom heim þannig til reika. Hann var þrekaður, ringlaður og með kuldabólgu, en hresstist brátt. Kindurnar fórust. Rakkinn sem var með Jóni, þegar hann lenti í snjóflóðinu, hafði grafið sig úr, en kindurnar 30 talsins. sem lentu i fönninni fórust allar. Þær voru eign Jóns.
Tíðarfar í janúar og febrúar var sérlega ólíkt. Kortin hér að neðan sýna hæð 500 hPa-flatarins og vik frá meðaltali.
Norðvestlæg átt var ríkjandi í veðrahvolfi í janúar (norðan- og norðaustan við jörð). Mikil hæð sat yfir Grænlandi. Veður var stillt lengst af, bjartviðri mikil sunnanlands.
Febrúar var hins vegar sérlega órólegur. Gríðarlegur vindstrengur bar hverja lægðina á fætur annarri yfir landið með tilheyrandi úrkomum og illviðrum. Sjór var mjög óstilltur. Eftir þetta varð talsverð breyting á veðurlagi, slæm útsynningsillviðri sem höfðu verið algeng næstu 10 árin á undan urðu nú sjaldséðari og hélst það ástand meira og minna allt til 1972.
Undir lok janúar fóru vatnavextir að valda vandræðum. Tíminn segir frá þann 28. Fjallar fyrst um ísalög við Bíldudal. Við styttum nokkuð:
Bíldudal í gær: Mikill ís var kominn á höfnina, en losnaði frá á laugardag og dró bátana með legufærum með sér. Engar skemmdir urðu á bátunum og voru þeir sóttir út sama kvöld.
Hvítá, sem verið hefir í klakaböndum undanfarnar vikur, hefir nú rutt sig og flætt yfir bakka sína og þekur nú á þriðja þúsund hektara lands. Var það í fyrrinótt sem flóðið hófst og jókst það er á daginn leið. og jókst það er á daginn leið. Rennur hún nú yfir veginn hjá Skeggjastöðum á löngum kafla. Við Brúnastaði hefir áin lyft af sér íshellunni og eru bæirnir í hverfinu þar neðan við einangraðir. ... Austar í Flóanum hefir áin einnig rutt sig og stíflast og flæðir hún þar yfir bakka sina. Munu lönd Hjálmholts, Ölvaðsholts, Skeggjastaða. Brúnastaða og Miklaholtshellis vera að mestu undir vatni. Þó munu skemmdir á mannvirkjum ekki hafa orðið svo teljandi sé, nema girðingar hafa eyðilagst. ... Í Biskupstungum hefur undanfarna daga verið indælis veður og snjór er varla sjáanlegur. Má sem dæmi nefna um snjóleysið, að Sandfell, sem er fyrir ofan Geysi og annars er mjög snjóþungt, er nú algjörlega snjólaust, enda mun vera autt inn í innstu afrétt og sennilega fært inn í Hvítárnes.
Kirkjubæjarklaustri í gær. Nokkur spjöll hafa orðið á vegum hér eystra í vatnavöxtum í hlákunni þessa daga. Geirlandsá flæddi mjög með jakaburði og gróf undan stöpli brúarinnar og er hún nú ófær nema gangandi fólki. Skaftá óx mjög, en gerði ekki skaða. Þá hljóp Skálm undan brúnni á veginum í Álftaveri og gróf sundur uppfyllingu við eystri brúarsporð, en bílar klöngrast þar yfir. Einnig hljóp Skógaá yfir veginn og skemmdi nokkuð.
Þann 28. ollu eldingar tjóni á símtækjum á Patreksfirði (Veðráttan).
Sjóslysin miklu sem urðu um þetta leyti lögðust þungt á þjóðina. Þessi frétt var í Tímanum 1. febrúar:
Í gærmorgun varð það ljóst, að Grænlandsfarið Hans Hedtoft, sem rakst á ísjaka suður af Hvarfi á Grænlandi í fyrrakvöld [30.janúar], hafði farist með allri áhöfn og farþegum, alls 95 manns. Menn lifðu þó í veikri von fram eftir degi um að eitthvað mund i finnast, en sú von brást. Viðtæk leit skipa og flugvéla bar alls engan árangur.
Hans Hedtoft var nýtt skip, í sinni fyrstu ferð, átti ekki að geta sokkið. Bjarghring skolaði síðla sumars eða um haustið á fjöru hér á landi - það var allt og sumt.
Linnulítil hvassviðri gengu yfir mestallan febrúarmánuð. Tjón varð oft töluvert og stundum mikið. Hungurdiskar fjölluðu um illviðrið 18. febrúar (Hermóðsveðrið) í sérstökum pistli. Þar var einnig í stuttu máli gerð grein fyrir lægðaganginum. Verður það ekki endurtekið hér. Með Hermóði fórust 12 menn. Miklar ógæftir voru og komust bátar illa á sjó, þegar það var, varð oft tjón á veiðarfærum. Frá 8. til 18. gengu 6 illviðri yfir landið (þann 8., af suðri, 10., af suðvestri, 12. af suðaustri, 14. af vestri, 15. af suðri og suðvestri og þ. 18., af suðri, suðvestri og vestri). Lægðirnar sem ollu veðrunum þ. 14. og 15. voru sérlega krappar.
Þann 4. febrúar brotnaði rúða í skólastofu á Akranesi í hvassviðri, þannig að lá við slysi.
Í blöðum eru nánast daglega smáfréttir af illviðrum, en tjón var oftast ekki mikið, en truflanir urðu á samgöngum, m.a. féll allt innanlandsflug niður í marga daga. Vísir segir frá þann 10.:
Í hvassviðrinu morgun í nótt og í morgun urðu einhverjar skemmdir á húsaþökum hér í bænum [Reykjavík] og bárust beiðnir til lögreglunnar um aðstoð. Meðal annars var lögreglunni skýrt frá því, að þak væri að fjúka af húsinu nr. 47 við Nesveg. Ennfremur að járnplötur væru að fjúka af húsi við Gnoðarvogsskóla. Ekki hafði frést af neinum óhöppum eða slysum í sambandi við þessi plötufok.
Veðráttan segir af frekara tjóni í þessu veðri:
Tjón varð á húsum í Reykjavík, Akranesi og víðar vegna hvassviðris. Hluti af þaki sjómannaheimilisins á Siglufirði fauk, fleiri skemmdir urðu í bænum. Bátur fauk í Litlanesi á Ströndum og þar varð minniháttar tjón víðar. Skip slitnuðu upp á Skerjafirði og í Vogum. Maður fauk ofan af þaki á Kambi í Deildardal og slasaðist mikið.
Þann 11. segir Tíminn af illviðri á Nýfundnalandsmiðum:
Yfir helgina var mikið illveður á miðunum við Nýfundnaland, norðvestan stormur. Veðurhæðin var lengst af 10 til 12 vindstig, en á sunnudaginn [8.] náði veðurhæðin hámarki sínu. Frost munu ekki hafa verið ýkja mikil, en þó hefir verið þarna allt upp undir tíu stiga frost, þar sem veðurathugunarstöðvar við ströndina gáfu upp 18 til 20 stiga frost á þessum tíma. Veðri þessu olli djúp lægð suður af Grænlandi. Loftþyngdin í miðju lægðarinnar 935 millíbör. Í gær var veðrið að ganga niður og frost var 1 til 3 stig nokkru austan við veiðisvæði íslensku togaranna. Talið er að tveir Kanadískir togarar hafi farist um seinustu helgi við Nýfundnaland.
Sem kunnugt er fórst togarinn Júlí frá Hafnarfirði í þessu veðri og með honum 30 manna áhöfn.
Vísir segir af hlákutíð norðaustanlands í pistli þann 12. (mikið stytt hér):
Hlýindi eru svo mikil í Bárðardal þessa daga að elstu menn muna naumast jafn hlýjan þorra. Allt til þessa hefur fé samt lítið verið beitt vegna þess hvað snjó hlóð niður í janúarmánuði. En nú er hann að mestu leystur.
Vísir birtir pistil 13. febrúar - og fjallar hann um veðurfarsbreytingar (við styttum hann mikið hér):
Veðurfarið víðsvegar um heim hefur farið hraðversnandi síðan stórveldin þrjú, Bandaríkin, Rússland og Bretland, hófu kjarnorkusprengjutilraunir sínar. Hvirfilbylir eru tíðari en fyrr. Einn gekk yfir Bretland nú nýlega. Skýföll, haglél og óhemju úrfellir eru tíðari, og sólar gætir minna en áður. Það verður ljóst af skýrslum um veðurfar, að veðurfar fer versnandi og er það andstætt því sem verið hefur siðast liðin 70 ár. Þetta er í stuttu máli álit hins kanadíska prófessors, Williams H. Parkers, sem er jarðfræðingur og sérfræðingur í veðurfarsrannsóknum. ... Parker prófessor telur að ástæðan fyrir því að kjarnorkusprengingarnar hafa áhrif á veðurfarið sé að þær hafi áhrif á jónosferuna, yfirlög gufuhvolfs, en þar eiga óveður upptök sín. Ein sönnunin, sem hann telur sig styðjast við er sú, að radíósendingar truflist ávallt þegar sprengjutilraunirnar fari fram og sérstaklega hafi þetta komið glöggt í ljós þegar tilraunirnar voru gerðar á Kyrrahafinu og í Ástralíu. Þetta er talið stafa af rykinu, sem berst upp í jónosferuna, en það sýnir hins vegar að hún verður fyrir áhrifum. Þá bendir hann á þessu til áréttingar, að þegar eyjan Krakatá sprakk í loft upp 1883 og gosmökkurinn dreifðist um háloftin, svo að þess gætti á sólfari um alla jörð næstu ár, varð mikilla breytinga á veðurfari. Um nokkur ár spilltist sumarveðrátta víða um lönd eftir gosið. Þetta sýnir að miklar sprengingar hafa áhrif á hin ytri loftlög og þá einnig á veðurfarið. Veðurfræðingar voru á einu máli um það, að sprengigosið í Krakatá hafi spillt veðurfari víða um lönd á sínum tíma og því er það furðulegt, að þeir skuli ekki einnig viðurkenna að aðrar sprengingar, svo sem hinar öflugu vetnisorkusprengingar, geti haft sömu afleiðingar, er þó hér ekki einungis um gosryk að ræða heldur geislavirkt ryk og það er engum blöðum um það að fletta, að það berst upp i jónosferuna. Parker prófessor vill ekkert um það fullyrða, að veður muni halda áfram að versna vegna sprengjutilraunanna, en hann dregur ekki í efa, að hin miklu óveður víða um lönd undanfarið eigi rót sina að rekja til sprenginganna.
Kvartað undan tíðinni í pistli frá Eyrarbakka í Tímanum 12. febrúar:
Hálf þriðja vika hefir nú liðið án þess að bátarnir hafi komist á sjó. Áður en frátökin urðu var afli rýr, svo að atvinna hér hefir lítil sem engin verið. ... Í þessum illveðrum undanfarið hefur brim verið geysimikið og í fyrradag má segja að hér hafi verið foráttubrim, svo mikið að við lá að sjórinn gengi yfir bakkann svokallaðan eða varnargarðinn, sem gerður var hér frá Ölfusárósum austur eftir ströndinni til varnar sjónum. Þó flæddi sjórinn eitthvað inn úr hliðunum sums staðar, en ekki urðu nein spjöll af völdum brimsins. Þessi suðvestanátt, sem hér hefur verið að undanförnu, er langversta áttin um þessar slóðir, og hefur það komið fyrir í slíkum veðrum sem þessu, að sjórinn hefur flætt yfir bakkann og valdið spjöllum.
Næstu daga birtir Tíminn áfram fréttir af illviðrum:
[13. febrúar] Um kl. hálfellefu í gærmorgun fauk kona á bifreið móts við húsgagnaverslun Guðmundar Guðmundssonar. Laust eftir klukkan þrjú varð sex ára drengur fyrir bifreið í Tjarnargötu, og var talið, að stormurinn hefði einnig átt sinn þátt í því. ... Lögreglunni bárust í gær kvartanir úi af járnplötufoki á fjórum til fimm stöðum. Ekki er kunnugt um að þessar fjúkandi járnplötur hafi valdið slysum.
Í gær [12.] var hávaðarok í Reykjavík, allt að 11 vindstig í verstu éljunum, og lá innanlandsflug allt niðri. Ekki mun þó Reykjavíkurflugvöllur hafa verið lokaður, því að þar lenti ein vél um sjöleytið í gærkveldi, en ekki var flogið á innanlandsflugleiðum vegna þess hve veður var yfirleitt vindasamt um allt land. Tveim Loftleiðavélum var beint frá Reykjavíkurflugvelli og lentu þær í Keflavík sökum þess hve lendingarskilyrði eru þar öruggari í roki og flugbrautir lengri.
[14. febrúar] Sjóskemmdir í Grindavík. Héðan hefir ekki verið :róið í þrjár vikur svo heitið geti. enda hefir rennan verið ófær vegna foráttubrims, sem hér hefir verið og er enn. Er það ætlun sjómanna, að svona veður haldist hér fram undir mánaðamót. Í gærmorgun gærmorgun reyndi vélbáturinn Arnfirðingur að fara út úr rennunni, en varð að snúa til baka, þar sem hann tók niðri í rennunni á þeim stað. sem ekkí hafa grynningar áður. Benda, allar líkur til þess, að grjót hafa borist í rennuna i óveðrinu. en ekki hefir verið hægt að kanna. hve mikið það er, þar sem brimið er það sama og áður. Skrúfa Arnfirðings mun hafa skemmst en að öðru leyti er báturinn ólaskaður. Í briminu í fyrradag var barði bryggjan og bólverk allt á svarta kafi. Horfði um tíma uggvænlega með bátana tuttugu. sem hér liggja bundnir við bryggjuna, en ef eitthvað hefði orðið að festingum. hefði ekki verið að sökum að spyrja. Í þessu foráttubrimi barst grjót úr malarkambinum við rennuna bæði upp á bryggju svo og veginn og varð hann alófær, en jarðýtu varð að fá til að ryðja bryggjuna Brimið tók einnig vegg úr sjóhúsi sem stendur ofan við kambinn. Þennan dag var sunnan hvassviðri og stóð hann beint upp á víkina og var því mjög illur sjór hér. Enn er veltubrim úti og þýðingarlaust að fara á sjó, enda er veðurspáin enn óhagstæð. G.E.
Reykjavík. Í gærkveldi voru götur bæjarins flughálar vegna snjókomunnar, og urðu margir bifreiðaárekstrar, en enginn stórvægilegur. Flestar bifreiðarnar voru keðjulausar og því hættara við árekstrum, sem allir stöfuðu af hálkunni. Var lögreglan kölluð mjög oft út af þessum sökum.
Maður hætt kominn, er báti hvolfir. Við Eyjafjörð utanverðan var í fyrradag aftakaveður af suðaustri. Hlekktist báti einum á, er hann var að taka land við Hjalteyri. Nánari tildrög voru þau, að eftir að vélbátnum, sem róið er á, hafði verið lagt við ból undan þorpinu. var róið í land á skektu, og er hún var að lenda, reið ólag á hana með þeim afleiðingum að henni hvolfdi.
[15. febrúar] Í óveðrinu í fyrrinótt skemmdist ein af Dakota-flugvélum F.Í. í Vestmannaeyjum. Vélin fór í áætlunarflug til Eyja í fyrradag og tafðist þar vegna veðurs. Um nóttina skemmdist svo hæðar- og jafnvægisstýri vélarinnar, þar sem hún var á vellinum. Nú um helgina verða svo sendir viðgerðarmenn til Vestmannaeyja til að gera við flugvélina, því hún er ekki í flughæfu ástandi.
Vísir segir frá þann 17.febrúar:
Á sunnudaginn 15. febrúar gekk fárviðri yfir Grímsey og komst veðurhæðin allt uppí 13 vindstig. Þetta var vestan veður og gekk særokið yfir alla eyna svo að dimmt varð sem í blindhríð. Ekki varð samt annað tjón á mannvirkjum á eynni af völdum veðursins en það, að þak fauk af votheysgryfju. Eyjarskeggjar óttuðust að bátar losnuðu upp af legunni í því líku ofsaveðri, en sem betur fór reyndist sá ótti ástæðulaus. Ofsarok hefir verið í Grímsey alla síðastliðna viku, en gæftaleysi um þriggja vikna skeið svo enginn bátur hefir komist til fiskjar.
Frá fréttaritara Vísis. Blönduósi í gær. Það sviplega slys gerðist í gær [sunnudag 15. febrúar], hér í sýslunni að erlendur vinnumaður á Þingeyrum varð undir hestvagni í ofsaroki og beið þegar bana.
Óvenjumikið þrumuveður gekk yfir allt landið suðvestanvert snemma að morgni sunnudagsins 15. febrúar. Frá tjóni í Borgarnesi og nágrenni er sagt í áðurnefndum vatnsveitupistli, en tjón varð víðar. Tíminn segir frá þann 17.febrúar:
Frá fréttaritara Tímans á Hvolsvelli í gær. Nú með stuttu millibili hafa geisað stórviðri en ekki kunnugt um að þau hafi valdið verulegu tjóni, en rafmagnstruflanir hafa verið tíðar svo sem jafnan vill verða um þetta leyti árs, þegar suðvestan átt ríkir. Í gærmorgun frá því laust fyrir kl. 8 fram um hádegi var rafmagnslaust hér og straumur óstöðugur allan daginn. Fljótshlíðarlínan var alveg rafmagnslaus, þrátt fyrir sleitulausa vinnu rafmagnsmanna að viðgerðum.
Á áttunda tímanum í gærmorgun [sunnudaginn 15.] skipti skyndilega um vindátt, hafði verið suðaustan með geysilegri úrkomu en snerist til suðvesturs með slydduéljum og miklu hvassviðri. Þessum veðrabrigðum fylgdu miklar eldingar og þrumur. Voru ljósin tíð með tilheyrandi skruggum. Um kl. 8 laust eldingu niður í reykháf íbúðarhússins í Vindási í Hvolhreppi. Sprengdi eldingin gat á reykháfínn niðri í kjallara rétt við reykrörið, sem í hann lá frá miðstöðvarkatli. Heimilismaður á Vindási var við útiverk skammt frá bænum er þetta bar við og sá hann, er eldingunni laust niður, og segir hann að reyksúla mikil hafi gosið upp úr reykháfnum ... Hlaust ekki af annað tjón en fyrr segir nema olíukynditæki færðust nokkuð úr lagi. Jeppi sem stóð norðan hússins varð svartur af reyk.
Á níunda tímanum í gærmorgun laust einnig eldingu niður í gripahús á Stórólfshvoli og kurlbrotnuðu átta tvöfaldar rúður í mjólkurhúsi og fóðurgeymslu, sem áfast er við fjós. Glermulningurinn þyrlaðist upp um loft og veggi og þverpóstur í glugga brotnaði. Hurðir fyrir hesthúsi, sem er undir fjósinu, þeyttust upp móti veðri og vindi og kubbuðust læsingar sundur. Hlerar fyrir hlöðuinntaki, sem snýr í norður og var í skjóli. hrukku upp, og annar hlerinn barst tvö hundruð metra frá baggagati. Hlerar þessir höfðu þó verið negldir aftur með sex þumlunga nöglum. Hurðir hænsnahúss nokkurn spöl austan útihúsasamstæðunnar hrukku einnig upp af loftþrýstingnum. Guðjón Jónsson bóndi á Stórólfshvoli og kona hans voru við mjaltir í fjósinu, þegar þetta skeði. Heyrðu þau allt í einu yfirþyrmandi skarkala, og segist Guðjón ekki geta líkt ósköpunum sem á gengu við annað en sprengingu. Hefði verið því líkast sem sprengju hefði verið varpað að húsinu. Nokkurt umrót sást á hlaði austan mjólkurhússins. Í haughúsi undir fjósinu sást töluvert löng, hvít rispa í steinvegginn og virðist eldingin hafa komið þar á bygginguna. Jeppabifreið austan undir vegg mjólkurhússins sakaði ekki. Rafmagnslaust var á þessum slóðum, er þetta bar við. Nokkurt tjón varð á símalínum hér og hvar um sveitina um helgina og er unnið að viðgerðum. Að Velli í Hvolhreppi sprungu öll öryggi og víðar og hella á rafmagnseldavél eyðilagðist. PE.
Í þessu veðri sló niður eldingu milli bæjanna Svanavatns og Miðeyjar með þeim afleiðingum, að símaleiðslan brann algerlega í sundur að símatækinu á Svanavatni og í Miðey var eins og skotið hefði verið út úr skiptiborðinu, en þar er símstöð fyrir Austur-Landeyjarnar. Á Svanavatni hrundu perur úr ljósástæðum og rafmagnsöryggi öll eyðilögðust. Í sambandi við símstöðina í Miðey eru eldingarvarar eða öryggi fyrir símann í sérstakri töflu úti við. Öryggi þessi urðu sótsvört eftir að þessari eldingu sló niður og sagði bóndinn í Miðey, Haraldur Jónsson, er blaðið átti tal við hann, að ef þessi öryggi hefðu ekki komið til, hefði að líkindum kviknað í á Miðey. Þrumuveður þetta hélst í um það bil hálfa klukkustund.
Frá fréttaritara Tímans á Dalvik í gær. Í gærmorgun [sunnudaginn 15.] gerði hér aftakaveður af vestri með hláku. í þessu veðri urðu nokkrar skemmdir á bænum Þorsteinsstöðum í Svarfaðardal. Heyvagn, sem stóð í túninu, tókst á loft og fauk um 200 metra án þess að koma nokkurs staðar við og lenti síðan niður á þaki fjárhússins á Þorsteinsstöðum. Gekk vagninn í gegnum þekjuna, en við það komst vindurinn undir rjáfrið og feykti öðrum hluta þaksins burtu. Fé sakaði ekki. Auk þessa svipti stormurinn nokkrum þakplötum af hlöðunni, sem áföst er fjárhúsinu. Í dag gekk hér í norðvestan stórhríð. Vegir eru víðast hvar færir og vegurinn inn til Akureyrar er fær öltum bílum, en búast má við því, að færð spillist, ef þessu heldur áfram. PJ
Á föstudag [13.] flaug ein af Douglasvélum Flugfélagsins til Vestmannaeyja með farþega, en auk þess flutti flugvélin tvær smálestir af áfengi. Var áætlað að flugvélin færi til Reykjavíkur samdægurs, en þar sem afgreiðslu seinkaði svo og vegna þess að veður var orðið óhagstætt var ákveðið að flugvélin yrði um kyrrt. Um nóttina gerði aftaka veður í Vestmannaeyjum. Varð hún þá fyrir áföllum, þannig að hæðarstýri hennar og jafnvægisstýri löskuðust. Aðfaranótt sunnudagsins gerði aftaka veður en meira en nóttina á undan og þar sem flugvélin var á bersvæði var reynt að búa um hana sem best, binda hana niður mjög rammlega og ganga þannig frá henni, að ekkert gæti nú komið fyrir. En í þessu ofsaroki tókst flugvélin á loft og kastaðist tvær lengdir sínar og kom niður á vænginn og laskaðist mjög mikið og mun vera vafamál, hvort hægt verði að gera við hana. Flugvél þessi er eins og sagt er hér að undan af gerðinni Douglas DC3 og ber hún einkennisstafina TF ISB og nefnist Gunnfaxi.
Tíminn segir þann 19.febrúar frá miklum skriðuföllum á Bíldudal:
Geysilegt aurhlaup steypist yfir Bíldudal og í sjó fram. Aurfyllan 80-100 metra breið, þar sem hún kom fram - Skemmdir á húsum og vegum. Bíldudal í gær: Hér hefir að undanförnu geisað látlaust vestan og suðvestan stórviðri með regni og hríð til skiptis tvisvar eða oftar á sólarhring. Í fyrradag snjóaði talsvert, en í gær [17.] brá til stórfelldrar rigningar og gerði asahláku. Skömmu eftir hádegi í gær féll vatns- og aurskriða úr svonefndu Búðagili, en meginhluti þorpsins stendur neðan við það gil. Skömmu síðar kom annað hlaup, en hvorugt þeirra var mjög stórt. Rétt fyrir klukkan fjögur síðdegis hljóp geysimikil aurskriða fram úr gilinu. Fylgdi henni gífurlegt vatnsflóð. Skriðan stefndi fyrst á spennistöð frá Mjólkárvirkjun fyrir Bíldudal, sem er staðsett á skriðu beint fyrir neðan gilkjaftinn og virtist mönnum sem skriðan mundi steypast yfir spennistöðina. Áður en til þess kæmi klofnaði skriðan á hryggnum framan við gilið og braust vatnselgurinn fram úr auröldunni svo að nokkuð af aurnum varð eftir uppi í gilinu. Mjög mikill kraftur var í flóðinu. Aur og vatn streymdi niður í þorpið og yfir margar húsalóðir, aðallega á svæðinu frá svonefndum Kurfubletti til Valhallar, sem er utarlega í þorpinu. Er sums staðar ökkladjúpur og sums staðar hnédjúpur aur á lóðunum. Þá flæddi inn í sum húsanna, þar á meðal læknisbústaðinn, kennarabústaðinn, íbúðarhúsið Þórshamar og fleiri. Aurstraumur rann gegnum dyr frystihússins og flæddi þar um öll gólf, og sú grein hlaupsins, sem kom á læknisbústaðinn, umkringdi hann og náði flóðið upp á miðja hurð á neðri hæð. Tókst að varna því, að hurðin brotnaði. Þá brunaði flóðið áfram niður sundið og allt í sjó fram. Vogurinn, sem þorpið stendur við varð allur kolmórauður af moldinni. Allan daginn voru menn önnum kafnir við að reyna. að bægja vatnsflaumum frá húsunum. Flestar lóðir eru stórskemmdar og hafa eigendurnir orðið fyrir miklum sköðum, þar sem lóðirnar voru mjög vel ræktaðar Annað hlaup kom í svonefnt Gilsbakkagil, sem braust út úr farvegi sínum og flæddi yfir nærliggjandi tún og inn í íbúðarhúsið Sælund. Tókst með jarðýtu að beina vatnsflóðinu aftur í sinn gamla farveg, en flóðið hafði runnið yfir veginn og stórskemmt hann. Vegir í þorpinu eru flestir. stórspilltir. Ekki hefir komið annað eins hlaup úr Búðagili síðan 1920, en þá varð sambandslaust milli bæjarhluta nema á sjó vegna vatnsflaums, sem streymdi gegnum mitt þorpið.
Tíminn segir frá þann 20.febrúar:
Súgandafirði í gær. Vélbáturinn Freyja slitnaði upp frá hafnargarðinum klukkan sjö síðastliðinn laugardag [14. febrúar]. Bátinn rak inn og yfir fjörðinn og bar upp á sker í norðanverðum firðinum. Óskaplegt vestan hvassviðri með snjókomu gekk yfir þann dag. Báturinn fannst klukkan ellefu um kvöldið, en þá var byrjað að falla út og varð ekkert að gert. Á morgunflæðinu var báturinn dreginn út, og var Sæbjörg fengin til að draga hann til Ísafjarðar en þar var hann rannsakaður. Bátar hafa farið í 10 róðra í þess um mánuði og tapað miklu af línu allt upp i 100 lóðum í róðri, einn og sami bátur.
Eins og áður sagði má á hungurdiskum finna sérstakan pistil um Hermóðsveðrið þ.18. og tjón af þess völdum. Eftir það róaðist tíð nokkuð, umhleypingarnir urðu mun vægari.
Tíminn segir 3. mars frá skyndilegu brimi í Þorlákshöfn þann 1. mars:
Þorlákshöfn í gær. Í gærkvöldi var verið að skipa salti upp úr Arnarfellinu, sem hér liggur. Fram eftir kvöldi var blæjalogn, en um klukkan ellefu gerði aflaka brim og gekk svo mikið yfir hafnargarðinn, að ekki var unnt að halda uppskipuninni áfram. Var þá gert nokkuð hlé á vinnunni. Þegar svo verkamennirnir gengu aftur niður hafnargarðinn, þegar slegið hafði nokkuð á brimið, reið brotsjór yfir garðinn og tók tvo menn út af garðinum. Gátu þeir bjargað sér upp í árabát, sem lá innan við garðinn. Varð þeim ekkert meint af.
Snemma í mars gerði talsvert hríðarveður um landið sunnan- og vestanvert. Djúp lægð var langt suður í hafi, en sendi rakt loft norður á bóginn til móts við suðvestanátt í háloftunum. Við slík skilyrði sér úrkoman ekki hálendið - þótt norðaustanátt sé, hún er mynduð uppi í suðvestanátt ofan við.
Tíminn segir af veðri í pistli þann 5.mars:
Borðeyri í gær [4. mars]. Glórulaust norðan hríðarveður hefir staðið hér yfir í dag. Veðurhæð hefir verið mikil og skafhríð. Búast má við, að snjóinn hafi dregið saman í stórar fannir, en það kemur í ljós, þegar eitthvað lægir. Áætlunarferð Norðurleiðar er teppt við símstöðina í Hrútafirði á suðurleið. Holtavörðuheiði er með öllu ófær, en sæmileg færð mun hafa verið frá Varmahlíð í dag. Áætlunarferðin til Hólmavíkur kom að sunnan í gær og komst að Guðlaugsvík í Bæjarhreppi og fór ekki lengra. Ófært er úr Guðlaugsvík norður á bóginn. Búist er við að bifreiðin snúi við í Guðlaugsvík og suður en bifreið frá Hólmavík lagði af stað í áttina til Guðlaugsvíkur í dag, og er búist við, að hún komist eitthvað áleiðis og sæki póstinn. Þetta er mesta hríðarveður, sem komið hefir á þessum vetri. J.E.
Ófært vestur. Ólafsvíkurrútan var teppt á Vegamótum sunnan til á Snæfellsnesi í gær. Hríðarveður var á og sjö stiga frost. Fróðárheiði mun hafa verið alófær. Í gærdag um hádegi gerði blindhríð í Arnessýslu, svo að naumast var hægt að aka um götur Selfoss og ekki sást milli húsa um tíma. Fannfergi var ekki ýkja mikið, en hvasst var og fjúk fram eftir degi.
Tíminn 6.mars:
Stykkishólmi í gær [5.mars]. Um hádegi í gær [4.mars] skall á norðan hvassviðri með afar mikilli snjókomu. Snjóaði látlaust þar til í morgun. Hafði þá sett niður óvenju mikinn snjó, eða meiri en hér hefir fallið í 10 ár a.m.k. Ekki var hægt að komast á bílum um götur í þorpinu í morgun. Vegurinn upp úr kauptúninu er algerlega lokaður og engin mjólk hefir borist hingað í dag. Slétt er út af lágum húsum og traðirnar á götunum eru jafnháar vörubílunum. Veður fór batnandi í dag, 6 stiga frost var hér í nótt og fram eftir degi.
Minniháttar fokskaðar urðu þann 10. (Reykjavík) og þann 19. fauk fiskhjallur í Grundarfirði og skemmdir urðu á fiski. (Veðráttan).
Tíminn segir af blíðutíð í pistli þann 25.mars:
Einmuna blíða er nú um allt land, sunnanátt dag eftir dag, hlýindi mikil og sólskin töluvert. Það er engu líkara en vorið sé komið, enda var fyrsti dagur einmánaðar í gær. Snjór er varla til í byggð á öllu landinu, og þegar farið að grænka sunnan undir vegg.
Tíð var meinlítil í apríl, en ekki sérlega hagstæð gróðri þó. Svipað var fyrstu viku maí, en síðan gerði bestu tíð um tíma. Þann 24. maí fórst sjúkraflugvél við fjallið Sátu á Snæfellsnesi í þoku, þrír menn fórust.
Ingibjörg Guðmundsdóttir veðurathugunarmaður í Síðumúla í Borgarfirði lýsir apríl og maí 1959:
[Apríl] Aprílmánuður heilsaði með snjókomu og alhvítri jörð, lá sá snjór nokkuð frameftir mánuðinum. Yfirleitt var tíðin köld, þó inn á milli hlýir dagar. Jörðin er gróðurlaus, en alauð í byggð. Fjöllin hvít. Sauðfé hýst sem um vetur og gefið hey og matur.
[Maí] Fyrstu dagar mánaðarins voru frekar kaldir. Næturfrost voru aðfaranætur þess 1., 2., 3.,5., 6. og 9. Eftir það var aldrei frost, en hlý og inndæl tíð með nægjanlegri úrkomu fyrir gróðurinn. Jörðin grænkaði og grasið spratt með óvenju miklum hraða, svo nú segja bændurnir að út líti fyrir að sláttur geti hafist það fyrsta sem gerst hafi, ef ekki kólnar aftur. Kýr voru látnar út fyrst í dag (1.6.), sumstaðar fyrir nokkrum dögum.
Eftirminnilegan illviðrakafla gerði í júní.
Þrjár lægðir komu að landinu og ollu norðaustan- og norðanáhlaupum með kulda og jafnvel hríðarveðri. Myndin sýnir lægsta þrýsting á landinu á þriggja klukkustunda fresti 5. til 20. júní (rauður ferill, hægri kvarði) og þrýstispönn (mun á hæsta og lægsta þrýstingi hvers athugunartíma á landinu sömu daga, bláar súlur). Það er ekki algengt að þrýstispönn nái 20 hPa í júní. Kuldinn hófst reyndar áður. Fyrsta og þriðja lægðin urðu hvað afdrifaríkastar. Á veggjum í kennslustofum Menntaskólans á Akureyri voru (og eru e.t.v. enn) myndir sem teknar voru af útskriftarstúdentum 17. júní ár hvert. Þegar ritstjóri hungurdiska var við nám í skólanum höfðu allar myndirnar verið teknar í Lystigarðinum, allar nema ein. Það var sú frá 1959, tekin inni í leikfimihúsinu. Skar þetta sig mjög úr. Ófært veður var þennan dag, snjór á jörðu um morguninn, en síðan slabb. Hvasst var á Akureyri, ýmist rigning, slydda eða snjókoma. Davíð Pétursson á Grund í Skorradal hefur upplýst ritstjóra hungurdiska um að alhvítt hafi verið á Grund að morgni 17. júní.
Þann 7. fauk lítil flugvél í Aðalvík og gereyðilagðist. Í fyrra hretinu fórust bæði kindur og hestar í Vindhælishreppi í Skagafirði. Í hretunum báðum drápust fuglar unnvörpum, víða varð alhvítt fyrir norðan og snjódýpt mældist mest 20 cm á Hólum í Hjaltadal þann 17.
Tíminn segir af illviðrum í pistli þann 11. júní:
Um síðastliðna helgi gerði vonskuveður með fannkomu um norðanvert og vestanvert landið. Vegir tepptust á heiðum og mikil ísing kom á rafmagnslínur. Varð Akureyri rafmagnslaus í einn sólarhring af þeim sökum. Þá urðu nokkur vanhöld á lömbum, en sauðburði er nú um það bil að ljúka. Blaðið hafði tal af nokkrum fréttariturum sínum í gær og viðhafði einn þeirra þau orð, að hér mundi vera um að ræða eitt hvert harðasta vorhret, sem hér hefði komið í langan tíma. Fréttaritari Tímans á Ísafirði símaði, að þar hefðu verið skaflar á götunum á sunnudag, en veðrið skall á aðfaranótt sunnudagsins [7.júní]. Vegurinn vestur yfir heiðar tepptist af snjó. Fréttaritari Tímans í Trékyllisvík símaði að 3. júní s.l. hefði kólnað og gengið í norðaustanátt með snjókomu og fennt niður að sjó. Á laugardag [6.] var svo komið blíðuveður og var lambfé þá sleppt, en á sunnudaginn [7.] var komin stórfelld slydduhríð. Á mánudag og mánudagsnótt [aðfaranótt 8.] var ofsaveður með mikilli fannkomu. Féð var komið víðsvegar enda sauðburðinum að ljúka. Var lambféð alls staðar í hættu og á mánudag Voru allir önnum kafnir við að koma því í hús og afdrep. Sums staðar fennti fé og lömb, en betur tókst um björgunarstarfið en búast hefði mátt við og hafa sumir bjargað öllu sínu en aðrir misst nokkur lömb. Snjókoman var það mikil þessi dægur að 1020 cm jafnfallinn snjór var niður að sjó. Nú hefur hlýnað og nokkuð tekið upp á láglendi í dag og gær, samt er töluverður snjór enn á jörð.
Fréttaritari Tímans á Sauðárkróki símar: Hér gekk yfir norðan hvassviðri með talsverðri fannkomu, einkum í útsveitum Skagafjarðar. Á mánudagskvöldið [8.] var hvítt yfir allan Skagafjörð. Einhver lambskaði mun hafa orðið í útsveitum, en sauðburði var því nær lokið og tjónið því minna en ella. Heldur hefur dregið úr sprettu við þetta hret og má búast við, að sláttur hefjist seinna fyrir bragðið.
Fréttaritari Tímans á Siglufirði símar: Hér kom óhemju snjór í hretinu og var hann í hné á götunum. Siglufjarðarskarð varð ófært um miðjan dag á sunnudag, en nú er unnið að því með tveimur jarðýtum að ryðja veginn og mun það taka tvo daga. Veginn þarf að moka alveg inn að Hraunum í Fljótum. Nú er komin hiti og sólskin og verið er að moka göturnar í dag. Um hundrað manns í fjórum bifreiðum komust ekki til Siglufjarðar um helgina og var einn Fossanna. sem lá hér, sendur eftir því til Akureyrar á sunnudag.
Fréttaritari Tímans á Akureyri símar: Hér gerði mikið; hret um s.l. helgi, snjóaði og rigndi um allt Norðurland á sunnudag, en mjög misjafnlega. Í Bárðardal fennti fé. Mikill snjór féll á Árskógsströnd og Vaðlaheiði varð ófær. Varð þá rafmagns- og útvarpslaust á Akureyri meir en sólarhring. Bilunin stafaði af ísingu sem mældist 30 cm á strengjunum.
Síðasta hretið olli einna mestu tjóni. Það var verst á þjóðhátíðardaginn, 17. júní, eitthvert versta veður sem vitað er um þann dag.
Kortið sýnir stöðuna í háloftunum þann 16. Dæmigert vorhret. Snarpt lægðardrag kemur úr norðvestri á leið til suðausturs. Lægð dýpkar fyrir norðan land og skellir síðan norðanstreng yfir landið. Þykktin fór niður í um 5200 metra en það er óvenjulágt á þessum tíma árs.
Tíminn segir frá 19. júní:
Dalvík í gær: Þrjú hret hafa komið hér á undanförnum hálfum mánuði með uppstyttu í einn til tvo daga á milli; í dag [18.] hætti að snjóa, en þá hafði hríðin staðið síðan á mánudag [15.]. Fram til dala er nú mikil fönn svo að jarðlaust er fyrir fé. Hafa menn staðið í ströngu við að bjarga í hús, en víða er fjár saknað og lítið vitað um afdrif þess. Í dag var mokað ofan af túnum Svarfdælinga til þess að kindurnar næðu í jörð.
Ólafsfirði, 18. júní. Hér gekk yfir norðaustan veður s.l. þriðjudag [16.] með snjókomu og varð hvítt niður í byggð. Á miðvikudaginn gerði enn aftakaveður af norðri og lá við stórskemmdum á skipum og bátum í höfninni. Á þriðjudag komu síldarbátar héðan, sem farnir voru út, aftur inn, Einar Þveræingur, Þorleifur Rögnvaldsson. Út af Siglufirði sökk annar [nóta-] bátur Einars, en hann náðist upp aftur við illan leik. Nótin fór til botns en náðist upp, gauðrifin og stórskemmd. Öll síldarskipin sex að tölu voru hér í höfn á miðvikudag og lágu við hafnargarðinn, en auk þess lágu í höfninni um 20 smærri bátar. Hér var statt 15002000 lesta fisktökuskip frá Bilbao á Spáni. Kom það á mánudagskvöld til að taka þurrkaðan saltfisk, en ekki var unnt að skipa út í það á þriðjudag. Þegar veður versnaði var athugað um að sigla skipinu út, en skipstjóri taldi það erfitt, einkum vegna þess, að skipið var alveg tómt og skrúfan hálf úr sjó. Var því beðið átekta en fáa óraði fyrir þeim hamagangi, sem á skall, og menn muna varla eftir öðru eins á þessum árstíma. Um kl. sex á miðvikudag [17.] slitnaði skipið frá hafnargarðinum og rak upp í sandinn. Stendur það þar á réttum kili að kalla og mun talið lítt.eða ekki skemmt. Munu skipverjar reyna að ná því út með hjálp dráttarbáts. Þrír síldarbátar slitnuðu einnig frá garðinum, en í þeim voru menn. Stígandi fór beint upp í sandinn sunnan bátabryggjunnar og fór vel um hann, uns hann náðist út með eigin afli. Einar Þveræingur þrengdi sér upp í krókinn norðan bátabryggjunnar og slapp vel. Gunnólfur tók þann kost að halda út, þótt óárennilegt væri, enda er hann stærstur. Braut þá yfir þveran fjörðinn. Komst hann inn undir Hrísey og lá þar af sér veðrið en kom heim í gær. Ein trilla sökk, en náðist upp lítt skemmd. Talið er að hefði lengingu bátabryggjunnar, sem nú stendur yfir, verið lokið, mundi þetta ekki hafa gerst. Mikill snjór kom í byggð, hvað þá á heiðum. Lágheiði er ófær. Fjáreigendur hafa verið að snúast við fé sitt og bjarga í hús eins og unnt var. Enn er mikill snjór frammi í sveitinni en götur hér í bænum orðnar auðar í dag.
Vísir segir frá 18.júní:
Í fyrradag [16. júní] gekk skyndilega til norðanáttar og gerði áhlaupsveður hið mesta um allt norðanvert landið með slydduhríð og síðar snjókomu. Sunnanlands varð líka bálviðri með 89 stiga vindhraða í gærmorgun, en úrkomulaust að mestu í byggð. Af þessum sökum var útihátíðahöldum víðsvegar um land aflýst í gær og í stað þess efnt til skemmtana innan húss. Samkvæmt upplýsingum frá fréttaritara Vísis á Siglufirði í morgun gerði ofsaveður með blindhríð þar í fyrrinótt, en þá var veður þar hægara, en éljadrög samt enn til fjalla og alhvít jörð hvert sem augum er litið. Siglufjarðarskarð lokaðist að nýju í fyrrakvöld. Var þá brostin á stórhríð í skarðinu og áætlunarbíll, sem var á leið frá Reykjavík sneri aftur á leið upp í skarðið og til Sauðárkróks. Þar bíða fjölmargir aðrir bílar byrjar áfram norður. Að því er fréttaritari Vísis á Siglufirði tjáði blaðinu í morgun er snjór kominn þar jafnmikill nú og hann var í fyrra hríðarveðrinu. Enn er hríð til fjalla og ekki viðlit að byrja mokstur að svo komnu máli. Við allar bryggjur á Siglufirði liggur fjöldi skipa, íslenskra og norskra, sem komin eru norður til síldveiða, en leituðu vars þegar veðrið brast á. Enn er haugasjór úti fyrir, nærri eins og í verstu vertíðarveðrum og ekki viðlit fyrir bátana að fara úr höfn. Sömu sögu er að segja frá Akureyri, þar bíður fjöldi báta, bæði heimabáta og aðkomuskipa í höfn eftir batnandi veðri. Í gær var þar hvítt milli fjalls og fjöru sem um hávetur. Hríðarslitringur hélt áfram í allan gærdag og í nótt, og í morgun er enn alhvít jörð um allan Eyjafjörð. Vitað er þegar um nokkurt tjón sem varð af völdum veðursins. Meðal annars safnaðist mikil ísing á símalínur, einkum í Hrútafirði. Síminn slitnaði og var símasamband rofið við Norðurland að meira eða minna leyti í gær. Samband var víðast hvar komið aftur á í morgun. Í Ólafsfirði var gífurlegt veður. Þar sleit upp erlent fiskitökuskip í höfninni og rak upp í fjöru hinumegin við bátalægið. Þar liggur það nú. Einnig mun trillubát hafa slitið þar upp og jafnvel fleiri báta.
Í sama blaði segir af atburðum við Sog, þar sem nú heitir Steingrímsstöð:
Veðurofsi í fyrrinótt [aðfaranótt 17.] braut varnargarð ofan jarðganganna og vatnið ruddist gegnum göngin. Það var í gærmorgun, að Þingvallavatn braut af sér allar hömlur, rauf varnargarðinn fyrir ofan jarðgöngin við Efra-Fall, ruddist gegnum þau og á stöðvarhús og önnur mannvirki fyrir neðan, og er ekki enn séð fyrir endann á því tjóni, sem þar verður. Í norðan-veðrinu í fyrrinótt og í gærmorgun ýfðist yfirborð Þingvallavatns ótrúlega mikið, og var öldugangur orðinn mikill snemma í gærmorgun. Vegna undanfarinna rigninga var orðið svo mikið í vatninu, að við lá að flæddi yfir stíflugarðinn, sem byggður hefur verið yfir ofan jarðgöngin. Þannig er um garðinn búið, að geysimikil hlíf úr þykku járni hefur verið rekin niður í hálfhring ofan við efri op jarðganganna. Innan við járnhlíf þessa var uppfylling 34 metra breið, úr möl og sandi, og var þar akfært bifreiðum og öðrum ökutækum. Til frekari hlífðar var settur ofan á járnhlífina um 2 metra hár veggur úr timbri, til að verjast öldugangi. Vegna hátíðahaldanna 17.júní voru flestir verkamenn og annað vinnufólk þegar farið frá vinnustað, og höfðu langflestir farið til Reykjavíkur til að taka þátt í hátíðahöldunum þar. Var því fátt manna þar eystra, þegar tekið var eftir því um sexleytið í gærmorgun, að öldugangurinn á vatninu var farinn að brjóta trégarðinn, sem var ofan á til varnar. Var fljótlega brugðið við, og allir menn, sem til náðist, settir í að lagfæra skemmdirnar, en svo mikill var ofsinn í veðrinu, að við ekkert varð ráðið. Skipti það engum togum, að öldurnar sópuðu timbrinu á brott og brutust yfir járngarðinn, sem nú náði rétt yfir yfirborð vatnsins. Þar fyrir innan var óvarinn malarvegur, svo sem áður segir, og skall vatnið á honum og smá-skolaði honum í burtu. Var nú auðséð hvert stefndi, en varð ekki að gert vegna mannfæðar. Innan lítillar stundar var uppfyllingin horfin veg allrar veraldar, og allur þungi vatnsins lá á járngarðinum. Þá skeði það skyndilega, að vatnið sópaði á brott járnveggnum á stóru svæði, og ruddist með geysilegum gný ofan í jarðgöngin. Beint fyrir neðan göngin er hið nýja stöðvarhús, og ýmsar aðrar nýbyggingar. Vatnsflaumurinn ruddist með gífurlegu afli út úr göngunum- og skall beint á stöðvarhúsinu.
Tíminn segir enn af illviðrinu í pistli þann 20.júní:
Illviðrið, sem gekk yfir Norðurland um þjóðhátíðina, hefir án efa orðið eitt hið versta snemmsumarhret, sem sögur fara af. Hvaðanæva af Norðurlandi berast fréttir um tjón á búsmala af völdum óveðursins, og á einum bæ, Vindhæli á Skaga, er fullvíst, að um 100 fjár hefir drepist.
Og enn voru vandræði við Sogið, Tíminn segir frá 26.júní:
Laust eftir kl. hálf sjö í gærmorgun rofnaði nýi varnargarðurinn, sem unnið var við að fullgera við Efra Sog. Rofnaði garðurinn því sem næst fyrirvaralaust og beljar nú vatnið niður göngin líkt og áður. Á fyrstu tveimur tímunum eftir að varnargarðurinn rofnaði, lækkaði Þingvallavatn. Unnið hefur verið við grjótgarðinn nýja dag og nótt síðan ofviðrið braut stífluna 17. júní s.l. Á þriðjudag [23.] hafði tekist að hefta vatnsrennslið að mestu og í fyrrinótt var skarðið orðið aðeins um 10 metrar á breidd. Inn um þetta 10 metra skarð flæddi enn talsvert vatnsmagn. Hagaði svo til, að straumurinn skall á stálþili upprunalegu stíflunnar fyrir neðan grjótgarðinn, dofnaði þar og fór mestur hluti hans niður göngin. Milli grjótgarðsins og leifanna af stálþilinu myndaðist hins vegar hringiða og mun hún hafa grafið undan garðinum uns hann brast að vestan verðu um hálfsjöleytið í gærmorgun, eins og áður segir. Þegar garðurinn rofnaði voru menn að vinna á honum. Jarðýtunni, sem notuð var til þess að ryðja úr bílhlössunum hafði einhverra hluta vegna verið ekið afturábak á garðinum, og um tveimur mínútum síðar rofnaði hann. Gerðist þetta allt með svo skjótum hætti, að hreina tilviljun verður að telja, að manntjón hlaust ekki af. Við enda garðsins lá loftbor, og slanga frá honum að loftpressu í landi. Straumurinn hreif borinn með sér niður göngin, en slangan slitnaði þó ekki. Til marks um straumþungann, má geta þess aö menn reyndu að draga borinn upp úr göngunum, en tókst ekki. Var það ráð að síðustu tekið að skera á loftslönguna.
Tíminn segir frá úrhelli á Akureyri í pistli þann 3.júlí. Lítið af regni skilaði sér þó í mæli Veðurstofunnar við Lögreglustöðina við Smáragötu. Af textanum er illt að ráða hvort þetta hefur gerst 1. eða 2. júlí:
Frá fréttaritara Tímans á Akureyri í gær. Klukkan hálffjögur í gær bar við mjög óvenjulegan atburð hér í bænum. Þá kom svo skyndilegt og ofboðslegt skýfall, að menn muna varla annað eins. Veður var milt, þokuloft framan af degi en birti svo að sólar naut af og til. Allt í einu þyrmdi yfir, og vatnið steyptist úr loftinu eins og hellt væri úr fötu. Skall vatnið svo þungt á göturnar, að af myndaðist þungur og hár dynur. Vatnið fossaði fram af húsþökum, og eftir örskamma stund runnu lækir eftir götunum, svo að út úr göturennum flóði. Fólk sem var á gangi bjargaði sér sem skjótast í afdrep og horfði á ósköpin, en fólk, sem inni hafði verið, kom út í dyr og glugga undrun slegið. Að skammri stundu liðinni endaði demban með þéttu og hörðu hagléli, sem buldi á húsum og strætum. Ekki fylgdu þó þrumur eða eldingar, eins og menn bjuggust við. Og svo stytti upp eins skyndilega og demban hafði kornið, loft greiddist og sól skein í heiði eftir litla stund. En það var engu líkar en þetta syndaflóð væri sent Akureyringum einum, og þó fyrst og fremst þeim sem í miðbænum búa, og vita þeir þó ekki til að þeir séu syndugri en aðrir. Úti í Glerárþorpi komu aðeins nokkrir dropar úr lofti og menn sem voru að vinna rétt innan við bæinn urðu varla regns varir.
Nú bárust fregnir af vatnavöxtum á Mýrdalssandi. Urðu þær viðvarandi næstu mánuði, illa gekk að ráða við vatnsflauminn. Reyndar var það svo um margra ára skeið að fréttir voru sífellt að berast af vandræðum á þessum slóðum. Nú hafa menn að mestu gleymt því hversu erfitt var að leggja veg um sandinn.
Tíminn segir frá 8.júlí:
Vatnavextir hafa verið miklir á Mýrdalssandi í vor og sumar. Síðastliðinn sunnudag braut vatnið allmikið skarð í varnargarð á sandinum, sem jafnframt er vegur um hann. Er nú öllum bifreiðum ófært um sandinn, og verður aðeins brotist á jarðýtu yfir tálmann. Er mikill vandi fyrir höndum, ef ekkert verður að gert, en allir flutningar stöðvast yfir sandinn. Hins vegar er erfitt viðfangs að bæta úr þessu, og var ekki ljóst í gær hversu mundi ganga að koma garðinum í samt lag. Blaðið hafði tal af vegamálastjóra í gærdag og spurði af atburðunum á Mýrdalssandi. Sagðist honum svo frá, að í allt fyrrasumar hefðu verið miklir vatnavextir á sandinum og hann ófær langtímum saman af þeim sökum. Féll þá vatnið fram undan miðjum jökli milli Hafurseyjar og Langaskers. Var þá hafist handa um að hlaða varnargarð þar á milli og unnið að því verki fram að jólum. Í apríl s.l. hófst svo aftur vinna við garðinn, og er hann nú orðinn um 5 km langur. Liggur þjóðvegurinn um sandinn á sjálfum garðinum. Í vor og sumar hefur enn verið mikill vatnagangur á sandinum, en nú hefur vatnið færst vestar. Fellur það undan jöklinum við svonefnda Moldheiði og kemur á garðinn austan við Hafursey, hjá Blautukvíslarbotnum, þar sem er forn farvegur í sandinn. Hefur hlaðið miklum sandi að garðinum undanfarið og á sunnudag braust vatnið yfir hann á 300 metra löngu svæði.
Fréttaritari Tímans í Vík í Mýrdal sagði svo frá að um helgina hefði rignt þar eystra nær linnulaust í tvo sólarhringa og hefði vatnagangur þá aukist mjög á Mýrdalssandi uns garðurinn brast eins þar sem allar samgöngur um sandinn stöðvast. Er voðinn sjálfur fyrir dyrum ef engin bót verður fljótlega á ráðin. Eins og stendur verður aðeins komist yfir skarðið á jarðýtu sem brýst yfir það með léttan flutning. Fréttaritarinn sagði að lokum að þessir atburðir væru ákaflega bagalegir eins og að líkum lætur, og fyrr segir. Á mánudag var jarðýta að verki við að draga nokkrar stórar bifreiðir yfir skarðið. Er verið var að draga 10 manna fólksbifreið, eign Brands Stefánssonar verkstjóra, brast dráttartaugin, og skipti það engum togum að bifreiðin grófst í sand, Og þar situr hún enn á kafi í sandinum og sér aðeins á þak henni. Er útilokað að ná bifreiðinni. upp fyrr en flóðinu lýkur.
Eitthvað virtist miða á sandinum undir miðjan mánuð, Tíminn 15.júlí:
Samgöngur eru nú aftur orðnar greiðar um Mýrdalssand eftir teppuna sem þar varð á dögunum, en hún stóð vikutíma. Búið er að fylla upp í skarðið í varnargarðinn og stöðugt unnið að því að styrkja hann. Mikið vatn liggur þó enn alls staðar á garðinum, en hann er rúmlega 5 kílómetra langur, og óttast menn að erfitt verði að halda aftur af því, ef vatnavextir aukast nokkuð. Garðurinn er allur gerður úr ægissandi, og vatnið ber stöðugt sand að honum og sígur svo í gegn smátt og smátt þegar yfirborð þess hækkar. Uggir menn að garðurinn geti brostið aftur þá og þegar og að erfitt verði að finna frambúðarlausn þessa máls. Ó.J.
Tíminn ræðir heyskaparhorfur 16.júlí:
Allt útlit er fyrir að í sumar ári vel til heyskapar víðast hvar á landinu. Undanfarið hafa fréttaritarar Tímans á Vesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi, látið mjög vel af tíðarfarinu. Snemmsprottið varð í vor, þrátt fyrir kuldaköstin. Sláttur hófst því snemma og þurrkar hafa verið sæmilegir, svo oftast hefur verið hægt að taka in hey eftir hendinni. Sums staðar á Suðurlandi hefur heyskapurinn gengið erfiðlegar, en þó hvergi svo að til vandræða horfi.
Fé sem fennti í júníhretunum var að finnast fram eftir sumri, Tíminn segir 17.júlí:
Fosshóli í gær. Enn eru að birtast verksummerki hretanna, sem komu hér í vor, þegar fé fennti. Seinast í fyrradag fannst tvílemba ær stutt frá Ingjaldsstöðum. Mun hún hafa lent í fönn í seinasta hretinu. Lömbin voru sitt við hvora hlið hennar, þar sem hún hafði lagst til hinstu hvíldar. Þá fundust sex ær, sem hafði fennt í einum hóp í Hvítafelli á heiðinni, milli Laxárdals og Reykjadals.
Sumarið 1959 er almennt ekki talið í hópi hinna verstu rigningasumra, en þurrkar voru víða daufir og þegar upp er staðið eru þeir fáir sem tala vel um heyskapartíðina eða hrósa sumrinu.
Tíminn segir frá 26.júlí:
Heyskapur hefur gengið allmisjafnlega á landinu í sumar. Sums staðar, einkum á Suðurlandi og Suðausturlandi. hefur verið svo óþurrkasamt, að nú horfir til vandræða, og taða er mjög farin að skemmast á túnum. Blaðið átti tal við nokkra fréttaritara sína í gær og fyrradag um heyskapinn og horfurnar víðs vegar um land. Fréttaritarinn í Gnúpverjahreppi sagði: Veður er ágætt flesta daga en mesta þurrkleysa. Síðan sláttur hófst má heita, að ekki hafi komið nema þrír þurrkdagar hér. Tún spretta úr sér og menn keppast við að fylla votheyshlöður sem jafnvel gengur erfiðlega vegna bleytunnar. Varla hefur tekið af steini langan tíma, oftast lognmolla, hiti og skúraleiðingar. Fréttaritarinn á Vatnleysu í Biskupstungum sagði: Óþurrkarnir eru orðnir býsna langvinnir. S.l. mánudag stytti upp og gerði þurrk, en aðeins einu sinni fyrr í þessum mánuði hefur gert þurrk, sem stóð tvo daga. Ekki rigndi mikið, en þokuloft og súld. Bændur deigir að slá meðan svona viðrar, vilja helst ekki verka vothey fyrr en í seinni slætti. Útjörð er ekki vel sprottin enn. Svipaða sögu og þetta mun að segja úr öðrum sveitum Árnessýslu og á öllu Suðurlandi, heyin liggja undir skemmdum og lítið búið að hirða af þurrheyi Fréttaritari blaðsins á Kirkjubæjarklaustri sagði, að þar hefðu óþurrkar gengið og væri útlitið heldur slæmt, þó hefði nokkuð náðst áður en versnaði. Sömu sögu er að segja úr Hornafirði og suðlægari fjörðum Austfjarða, t.d. hið versta ástand í Reyðarfirði.
Á Héraði er hins vegar aðra sögu að segja. Þar hafa verið góðir þurrkar síðustu viku og mikið verið hirt og þar fyrir norðan t.d. í Vopnafirði. Í Þingeyjarsýslum og Eyjafirði hafa þurrkar verið daprari, en þó náðst nokkuð af heyi.
Aðal óþurrkasvæðið er þó á Suðurlandi og austur á sunnanverða Austfirði, og stirða heyskapartíð má telja í Borgarfirði og vestur á Snæfellsnes. Annars staðar góða nema helst á Mið-Norðurlandi.
Mestu hitar ársins urðu í síðustu viku júlímánaðar. Hæst fór hiti á Hallormsstað þann 27., 25,9 stig, og víða um land fór hiti yfir 20 stigin. Tíminn segir 28. júlí af ferðafólki á Norðurlandi og síðan frekari vandræðum á Mýrdalssandi:
Undanfarið hefur verið einmuna veðurblíða á Norðurlandi, logn sterkjuhiti og sólskin dag hvern. Hefur veðrið verið þannig í næstum hálfan mánuð. Þennan tíma hefur verið óvenjumikill straumur ferðamanna norður og á Akureyri varð nú um helgina varla þverfótað fyrir straumum aðkominna bifreiða ferðamanna.
Sú hætta er nú yfirvofandi að vegurinn yfir Mýrdalssand teppist á nýjan leik. Í fyrrinótt munaði minnstu, að vatn flæddi yfir flóðgarðinn og ryfi hann, og getur slíkt gerst á hverri stundu. Mikið vatn er í ánni, sem ber með sér mikinn sand, sem hleðst upp við stíflugarðinn. Flóðið liggur á stíflugarðinum á 5 kílómetra kafla.
Og enn var rætt um stöðuna á Mýrdalssandi í Tímanum 5.ágúst:
Vegurinn austur yfir Mýrdalssand er nú rofinn á þremur stöðum milli Hafurseyjar og Langaskers og er alófær öllum bílum og grefur vatnsflaumurinn stöðugt undan garðinum og mun erfitt að gera við skemmdirnar, á meðan vatnsmagnið helst óbreytt.
Miklar rigningar gerði sunnan- og suðaustanlands í ágúst. Tíminn segir af vatnavöxtum í pistli 11.ágúst:
Á sunnudaginn [9. ágúst] kom yfir gífurlegt vatnsveður undir Eyjafjöllum. Stóð það í sólarhring, og kom mikill vöxtur í ár. Var vatnsflóð í gær að grafa sundur veginn skammt frá Moldnúpi, en síðdegis var flóðið í rénun. Holtsá braut skarð í varnargarð, svonefndan Holtsárgarð, sem er til hlífðar veginum skammt frá Moldnúpi. Ruddi flóðið um 80 metrum úr garðinum. Flæddi áin þar yfir veginn, og var á góðri leið að grafa hann í sundur. Nokkru austar braust Marbælisá út úr farvegi sínum og rann suður yfir Lambafellsengjar og austur með fram þjóðveginum. Olli flóðið í henni spjöllum á engjum og getur grafist í veginn og spillt honum. Kaldaklifsá hefur með framburði fyllt upp farveginn nokkru sunnan við brúna og rennur vestur yfir engjar, sem kallaðar eru Hörðuskáli og Bakkakot eftir býlum, sem þar voru einu sinni.
Fregnritari blaðsins í Austur-Eyjafjallasveit tjáði blaðinu síðdegis í gær, að flóðunum væri tekið að linna, enda fjaraði fljótt í ánum, er drægi úr rigningunni. Rigningin þennan sólarhring var var óhemjuleg, og taldi fregnritarinn, að ekki myndi viðlit að eiga við heyskap fyrr en vatn hefði fengið tíma til að síga úr jörðunni. Síðdegis í gær var komið skúraveður. Annars horfir mjög erfiðlega um heyskap þar eystra. Rosinn hefur staðið samfleytt í mánuð, aðeins tvisvar komið þurrkur í einn dag.
Þjóðhátíðinni í Vestmannaeyjum lauk kl. 4 aðfaranótt sunnudags og hafði farið hið prýðilegasta fram. Laust eftir miðnætti á laugardag [8.] tók að rigna og slagveðursrigning var í Eyjum allan sunnudaginn. Var flugveður ekkert á sunnudag og ekki heldur í gær og er talið að um 800 manns hafi verið veðurtepptir í Eyjum á sunnudag.
Tíminn segir 13.ágúst frá þurrkdegi á Suðurlandi:
Í gær var brakandi þurrkur á Suðurlandsundirlendinu, og má telja þetta nokkur tíðindi, því að heyþurrkur hefur ekki komið á þessu svæði um langan tíma. Líklega er þetta fyrsti þurrkdagurinn á þremur vikum, sem eitthvað kveður að. Norðaustan stormflæsa var á, og sólin skein glatt. Búalið gladdist af hjarta við þessi umskipti, enda horfði víða til stórvandræða vegna óþurrkanna. Í gær mátti hvarvetna sjá fólk hamast við heyskapinn.
En þurrkinum fylgdi mikið hvassviðri í Staðarsveit - Tíminn segir frá þann 17. ágúst:
Frá fréttaritara Tímans í Staðarsveit 15. ágúst. Í gærmorgun birti hér í lofti eftir langvarandi þurrkleysur. Var góður þurrkur fram eftir degi og breiddu bændur mikið hey, en fyrir var mikið magn af nýslegnum heyjum. Er leið að kvöldi tók að hvessa af norðaustri, og varð fljótlega við ekkert ráðið. Hélst í nótt norðaustan ofsaveður, með þeim meiri, sem hér koma. Urðu miklir skaðar í sveitinni, hey sópuðust í burtu með öllu, svo hundruðum og jafnvel þúsundum kapla, bæði flatt og uppsett. Þak fauk af íbúðarhúsinu á Lýsuhóli, og einnig þak af fjósi á þeim bæ. Þá fauk þak af fjárhúsum á bænum Barðastöðum og fauk í sjó fram. Heyskaðinn er enn ekki fullkannaður, því hér er enn stórviðri. ÞG
Enn eru úrkomufréttir í Tímanum 25.ágúst:
Lokið var brúarsmíði yfir Blautukvísl á Mýrdalssandi núna fyrir helgina. Einnig var lokið því verki að hlaða grjóti að brúarstöplum og leggja veg að brúnni báðum megin. Í fyrradag var unnið að því að veita vatninu i farveg undir brúna. Fyrsta tilraunin til þess mistókst. Tókst að vísu að koma nokkru vatnsmagni til að renna þessa tilætluðu leið, en ekki leið á löngu, þar til vatnið hafði hlaðið undir sig framburði sínum og hætti að renna undir brúnni. Ástæðan mun vera sú, að vatninu hefur ekki verið grafinn nógu djúpur farvegur. Talið er, að árangur muni ekki nást nema fyrst sé grafinn töluvert djúpur farvegur, og helst grafið verulega niður fyrir vatnsborðið eins og það er í sandinum. Vatnið rennur nú vítt og breitt um sandinn, en unnið er af kappi að því að veita því undir brúna. Ef vel tekst til, er líklegt, að því verki verði lokið fyrir eða um næstu helgi, en annars er örðugt að ákveða, hversu langan tíma það kann að taka.
Óhemju rok og rigning brast á aðfaranótt laugardagsins [22.] og stóð fram undir kvöld á sunnudag. Varð þá þegar mjög mikið í öllum vötnum, og var svo enn í gær. Voru allar ár ófærar öllum farartækjum, og engum fært austur yfir Mýrdalssand nema fuglinum fljúgandi.
Dalvík í gærkveldi. Sumarið hefur verið sérlega stirt og þó hefur tíðarfarið í ágúst tekið út yfir. Framan af í sumar voru alltaf heldur lélegir þurrkar, en síðasta hálfan mánuðinn hafa oft komið stórrigningar og síðustu nætur gránað í fjöll. Er nú víða þriggja vikna hey úti. Einstaka bóndi er ekki búinn að slá tún sín fyrra sinni alveg og þó nokkrir eiga töluvert úti a£ fyrri slætti. Menn hafa slegið seint svo að taðan er trénuð og úr sér sprottin. Grasið hefur verið geysimikið, svo að heyfengur er orðinn töluverður en ekki eins og skyldi.
Úrkomur héldu áfram, til skiptis í hinum ýmsu landshlutum. Norðurland slapp þó best. Eftir nokkuð kuldakast snemma í september hlýnaði og varð óvenjuhlýtt var um tíma og þó sérstaklega framan af október.
Tíminn segir frá 30.ágúst:
Nokkra síðustu daga hefur verið brakandi þerrir á Norðurlandi, en áður höfðu verið samfelldir óþurrkar á fjórðu viku. Vindátin var suðlæg og vestlæg, og mjög hlýtt í veðri. Í gærmorgun klukkan hálf sjö var 14 stiga hiti á Akureyri, og mun hitinn hafa verið kominn undir 20 stig fyrir hádegið. Bændur hafa náð mjög miklum heyjum þessa daga, þrátt fyrir skúraleiðingar sums staðar frammi til dala. Á Austurlandi var sömuleiðis mjög góður þurrkur í gær, suðvestanátt og sólskin og 1517 stiga hiti. Þá hafði ekki komið vorþurrkur í þrjár vikur, og eru mikil hey úti og víða farin að hrekjast. Þurfa menn tvo til þrjá þurrkdaga til að heyskapur komist í sæmilegt horf.
Tíminn segir 9.september frá skriðuföllum:
Ísafirði 5.september. Hér hefur rignt síðan um miðjan dag í gær. Af því hafa gerst mikil skriðuföll. t.d. er Óshlíðarvegur alveg tepptur, þar sem margar skriður hafa á hann fallið. Nú er hér norðanveður með slyddu niður í byggð.
Tíminn segir frá hlýindum í pistli 17.september:
Mjög óvanalegt veður hefur verið á Norðurlandi undanfarna daga og einkum í gær, hiti mikill, móða í lofti og dimmt yfir. Mikil kyrrviðri eru nú um land allt og von til að þau haldist enn um skeið. Á Akureyri komst hitinn upp í 18 stig í gærdag, en bað er mjög óvenjulegt um þetta leyti árs. Alls staðar á Norðurland. var mikið mistur í lofti. Fréttaritari Tímans á Fosshóli í Suður-Þingeyjarsýslu lýsti veðrinu svo, að í suðri væri að sjá sem biksvaran öskubakka, og legði síðan mistri yfir landið með hægri sunnan golu. Menn voru þar í göngum og var hitinn svo mikill, að erfitt var að fást við féð.
Mikla rigningu gerði um allt sunnan- og austanvert landið seint í september. Sólarhringsúrkoman í Reykjavík að morgni 26. mældist 49,2 mm, það mesta sem vitað er um í septembermánuði.
Tíminn segir af rigningum, flóðum og skriðuföllum í pistlum þann 27. og 29. september:
[27.] Mikil stórrigning gekk yfir Austurland í fyrradag og fyrri nótt og fylgdi allmikið hvassviðri sum staðar. Er þetta almesta vatnsveður sem komið hefur þar í sumar og haust. Nokkrar skemmdir urðu á vegum af völdum veðursins, stíflugarður skemmdist við Grímsárvirkjun og óttast er að eitthvað af kindum hafi flætt á Héraði. Rigningin stóð linnulaust allan föstudaginn og fram á laugardagsmorgun, en þá birti upp og gerði besta veður. Má telja að skemmdir af veðrinu hafi orðið furðu litlar, og er það eflaust því að þakka að ekki hafði rignt lengi og var jörð því þurr og drakk mikið í sig. Hins vegar getur kárnað gamanið ef stórrigningu gerir á nýjan leik ofan í þessa. Í veðrinu hlupu skríður á nokkrum stöðum og lokuðust vegir af þeim sökum. Í Oddskarði á Norðfjarðarvegi hlupu nokkrar smáskriður og sömuleiðis lokaðist vegurinn um Njarðvíkurskriður til Borgarfjarðar eystri. Strax í gærmorgun var hafist handa um að ryðja vegina, og munu þeir hafa opnast aftur í gærkvöldi. Þá lokaðist Fáskrúðsfjarðarvegur af skriðufalli og smáleg skriðuföll urðu á Fagradal. Báðir þessir vegir voru opnaðir aftur í gær. Í Eskifirði kom mikill vöxtur í Bleiksá og skemmdist brúin yfir ána. Verður hún því lokuð uns sinn þar til viðgerð hefur faríð fram.
Kirkjubæjarklaustri í gær. Stórrigning var hér í gær og nótt eins og annars staðar sunnanlands. Í Skaftártungu hljóp skriða á föstudag úr Hemruhömrum og lokaðist vegurinn milli Flögu og Hemru. Skriða þessi var mjög stórgrýtt og ill viðfangs, en þó opnaðist vegurinn aftur í dag. Ekki er vitað að annað tjón hafi orðið í Skaftafellssýslu af völdum veðursins. Á Mýrdalssandi er allt með kyrrum kjörum og unnið áfram að viðgerð vegarins. Í dag er verið að bera grjót á stíflugarðinn, en búið er að loka skörðunum í hann. Vöxtur er hér í öllum vötnum svo mikill sem mest má verða, en úrkoman náði 43 mm í gær. Í dag rignir hér ennþá, gengur á með krapaskúrum. Veður er kalsalegt og hefur gránað í fjöll fram á brúnir. Gangnamenn leggja á afrétt í dag í þessu ófýsilega veðri. V.V.
[29.] Vegasambönd rofnuðu víða, t.d. leiðin til Norðfjarðar, Borgarfjarðar eystra og Breiðdals. Þar ruddi áin Jóka sér leið fram hjá brúnni og tók með sér veginn á kafla. Er þetta i fyrsta sinn, sem hún heldur ekki kyrru fyrir undir brúnni, síðan hún var byggð. Allar þessar leiðir hafa nú verið opnaðar til bráðabirgða, og til gamans má geta þess, að í gær var farið undir brúna á Jóku til þess að komast á vaðið.
Enn dró til tíðinda á Mýrdalssandi. Tíminn 9. og 10. október:
[9.] Feiknalegir vatnavextir hafa verið á Mýrdalssandi að undanförnu og gífurlegt vatnsmagn flæðir yfir sandinn. Mæðir vatnið mjög á varnargarðinum meðfram veginum yfir sandinn og flæðir á stöku stað yfir garðinn, en unnið er sleitulaust að því að styrkja hann. Þrjár ýtur vinna að því að ryðja að garðinum og allfjölmennur vinnuflokkur stendur í ströngu við að styrkja hann með sandpokum.
Ofsaveður var í Reykjavík í gær, suðaustan stormur og rigning. Vatnið rann í lækjum eftir götunum, og menn voru ekki meira úti við en brýnasta nauðsyn krafði. Á sjötta tímanum stytti upp um hríð, en hvassviðri hélst. Veðurstofan gerði ráð fyrir framhaldi á svipuðu veðri næsta sólarhring. En ekki gengur eitt yfir alla, þótt skammt sé milli þeirra. Á Akranesi var að vísu rok, en engin rigning að ráði. Austanfjalls var slagveðurs rigning, á Hvolsvelli ekki meira en vant er, í Þykkvabænum skúraveður og sá til sólar á milli. Í Vík og á Mýrdalssandi var óhemju úrkoma, en engu meira en verið hefur í Kirkjubæjarklaustri. Á Eyrarbakka var svipuð úrkoma og verið hefur þar í haust, en ofsaveður í Vestmannaeyjum.
[10.] Eins og búist var blaðinu í gær brast varnargarðurinn á Mýrdalssandi snemma í fyrrinótt og vatnið vall fram sandinn. Er nú leiðin yfir Mýrdalssand ófær öllum bifreiðum í annað sinn á þessu ári. Vatnsflóð þetta er talið með eindæmum mikið, og varla slíks dæmi nema í Kötluhlaupum.
Sérlega hlýtt var snemma í október. Kortið sýnir veðrið kl.15 þann 6. dag mánaðarins. Hiti víða á bilinu 14 til 16 stig. Hámarkshiti var 18,5 stig á Galtarvita þennan dag, en fór hæst í 20,9 stig austur á Seyðisfirði.
Morgunblaðið segir 22.október frá úrhelli eystra:
Neskaupstað, 21. október. Úrhellisrigning olli talsverðu tjóni í dag. Vatnsból bæjarins skemmdust. Um klukkan 6 í morgun gerði mikla rigningu af suðaustri í Neskaupstað. Herti veðrið eftir því sem á morguninn leið og milli kl. 10-12 var eindæma úrhellisrigning. Eftir hádegið stytti upp og lægði. og síðdegis var komið besta veður. Vegna veðursins um morguninn var kennsla í barnaskólanum felld niður síðdegis. Í hlíðinni fyrir ofan bæinn eru margir lækir. Í rigningunni hlupu þeir allir, og friðsömustu smálækir veltust fram kolmórauðir. Fylltu þeir öll vatnsból vatnsveitu bæjarins af framburði, en vatnið í leiðslunum er kolmórautt í bili. Einkennilegt var að sjá, hvernig framburður lækjanna litaði fjörðinn. Um hádegi náði brúni liturinn út undir miðjan fjörð norðan megin. Einni til tveim stundum síðar var allur fjörðurinn brúnn að lit, en er líða tók á daginn var sjórinn orðinn tær norðan megin, en mórauður að sunnanverðu. En þá voru lækirnir fyrir ofan bæinn orðnir tærir að sjá. Nokkrir lækir hlupu yfir vegi og götur. Eitt ræsi fylltist og eyðilagðist, en með harðfylgi tókst að halda götunum færum fyrir bifreiðaumferð. En á tímabili var sums staðar ófært gangandi fólki vegna vatnsflaums. Má telja að við borð hafi legið að stórtjón yrði á húsum og mannvirkjum í bænum og hefði það vafalaust orðið, ef stórrigningin hefði staðið öllu lengur. Fréttaritari.
Reyðarfirði 21. október. Úrhellisrigning og hvassviðri var hér í fyrrinótt fram undir morgun, en upp úr hádeginu fór að stytta upp. Miklir vatnavextir urðu í ám og lækjum, og skriðuhlaup urðu í Fagradal á veginn milli Reyðarfjarðar og Héraðs. Urðu allmiklar skemmdir á veginum. Búið er nú að opna veginn til bráðabirgða, en eftir er að ryðja hann og hreinsa til fulls. ... Í veðurham þessum og skriðuhlaupum slitnaði jarðsíminn og símasambandslaust varð milli Reyðarfjarðar og Egilsstaða.
Tíminn 3.nóvember
Brúin yfir Blautukvísl hefur nú grafist að fullu í sand og sér hennar ekki stað lengur. Enda mun það síst að furða, þar sem talið er, að á 5 dögum hafi vatnselgurinn breikkað árfarveginn frá 4050 metrum upp í ca. 350 metra, og hafi á sama tíma flutt fram um hálfa aðra milljón teningsmetra af sandi, svo síst er að undra, að eitthvað hverfi. Lítið vatn er í ánni þessa daga og því sæmilega fært um sandinn jeppum og stærri bílum. Vegamálastjóri tjáði blaðinu í gær, að ekki yrði reynt.og bæta neitt úr á Sandinum í haust, en sennilega yrði reynt að grafa brúna upp þegar fram liðu stundir.
Brimasamt var um mánaðamótin október/nóvember. Þann 31. október varð minniháttar tjón vegna brims í Sandgerði (Veðráttan). Aðfaranótt mánudagsins 2. nóvember fórust 8 hross í brimi í skerjum í Hjörseyjarsundi á Mýrum og skemmdir urðu sömu helgi á fiskverkunarstöðvum á Akranesi (Veðráttan).
Tíð þótti lengst af nokkuð hagstæð í nóvember. Tvö slæm illviðri gerði þó í mánuðinum. Það fyrra náði til flestra hluta landsins dagana 8. til 10., en hið síðara, sem gerði í kringum þann 20. olli einkum vandræðum við norðurströndina sem og í Austur-Barðastrandarsýslu. Fyrra veðrið var af norðri. Um það fjallar Jón Eyþórsson nokkuð í grein í tímaritinu Veðrinu [Eftirmæli vetrar 1959/60 Veðrið 1., 1960, s.3-7]. Ljóst er að þetta kom veðurfræðingum nokkuð í opna skjöldu - ekki þó alveg. Jón segir frá skyndilegri dýpkun lægðarinnar og braut hennar. Að hans sögn féll miðjuþrýstingurinn örast um 18 hPa á 6 klukkustundum að kvöldi þess 7. Síðan segir hann m.a.:
Á laugardag 7. nóvember leit lengi vel út fyrir, að lægðin mundi fara norðaustur eftir Grænlandshafi og valda skammvinnu S- og SV-áhlaupi. Um kvöldið varð ljóst, að hún mundi fara yfir sunnanvert landið, og gerði veðurspáin þá ráð fyrir vaxandi N-átt og snjókomu um allt Norðurland. Á sunnudagsmorgun var enn hægviðri norðan lands, en lægðin, 950 millibar, skammt frá Vestmannaeyjum. Var þá gert ráð fyrir N-hvassviðri eða stormi norðan lands, en veðrið skall þar á um miðjan dag og hélst óslitið fram á þriðjudag, einkum á Norðausturlandi.
Línuritið sýnir lægsta loftþrýsting á 3 klukkustunda fresti dagana 5. til 23. nóvember 1959 (rauður ferill, hægri kvarði). Bláu súlurnar eru aftur á móti þrýstispönn yfir landið, mismunur hæsta og lægsta þrýstings á hverjum athugunartíma (vinstri kvarði). Veðrið 8. til 10. sker sig úr. Það skall mjög snögglega á. Lægðin dýpkaði afarhratt og var þar að auki á miklum hraða þegar hún kom upp undir suðurströndina aðfaranótt 8. Síðan var þrýstibratti mikill þann 21. og litlu minni dagana þar á eftir. Þrýstingur þá daga var ekki sérlega lágur, en lægð þrengdi sér til norðurs á móti öflugri hæð yfir Grænlandi.
Endurgreining japönsku veðurstofunnar sýnir stöðuna kl. 18 síðdegis þann 7. Lægðin er hér orðin dýpri heldur en veðurkort þess tíma sýndu, eða um 970 hPa. Morguninn eftir var þrýstingur í miðju hennar kominn í námunda við 950 hPa og var hún þá skammt suður af Vestmanneyjum. Hún hægði á sér og fór meðfram suðaustur- og austurströndinni.
Síðdegis daginn eftir (þann 8.) var lægðin skammt undan Norðausturlandi og gríðarlegt norðanveður á landinu, munur á lægsta og hæsta þrýstingi landsins meiri en 30 hPa.
Við rekjum nú nokkrar blaðafréttir af veðrinu og tjóni í því. Tíminn segir frá 10.nóvember:
Eindæma snjó hefur kyngt niður fyrir norðan síðastliðna tvo sólarhringa. Á Akureyri var fannkyngið slíkt, að stóra bíla fennti í kaf á einni nóttu. Erfitt er að bera sig yfir, þegar svona er ástatt, enda þýðir lítið að ryðja snjó af vegum meðan hríðinni linnir ekki.
Ísafirði í gær. Hér er grenjandi stórhríð og mikil ófærð í bænum og nágrenni hans. Fjöldi togara hefur leitað vars undir Grænuhlíð, aðallega íslenskir og þýskir. G.S.
Í gærmorgun varð það hörmulega slys á Hofsósi, að þrír sjómenn drukknuðu þar á legunni við að bjarga báti sínum undan sjóum. Blaðinu er ekki með öllu kunnugt um, hvernig slysið bar að höndum. Hvassviðri og stórhríð var á og töldu menn báta þá, sem lágu við festar á legunni, vera í hættu. Sjö menn brutust því fram í bátana, sem voru tveir. Skömmu síðar fórst annar þeirra með þremur mönnum, en fjórir menn eru enn í hinum bátnum og eru þar í lífshættu, þar sem mikil hætta er á, að báturinn slitni upp. Mennirnir fjórir hafa talsamband við land og eru sæmilega birgir af olíu, svo þeir geta keyrt vélina.
Aftakaveður gekk yfir landið í fyrrinótt og gær, og kvað mest að því á Norðurlandi. Rafmagnsleysi fylgdi víða með þessu, svo sem í Þingeyjarsýslum og Eyjafirði, og var það mjög til baga, þar sem upphitun húsa er víða bundin rafmagni. Á Akureyri var kolvitlaust veður, svo að varla sá milli húsa. Fannkyngi var þar afskaplegt, svo að bílar voru horfnir i fönn. Sem dæmi má nefna, að framan við Flugfélagsafgreiðsluna stóð bíll nokkur, en í gær sá hans ekki stað fyrir fönn. Var talið, að um meterslag af snjó myndi liggja yfir honum. Þar var alveg rafmagnslaust frá því á sunnudagskvöld. Kennsla féll niður í skólum og allflest hús voru bæði myrkvuð og köld. Mörg hús eru hituð þar upp með rafmagni eða olíuhitun, sem tengd er við rafmagn, og sátu íbúar þeirra í algerum kulda. Matseld fór fram á prímusum og olíuvélum. Tveir staðir í bænum selja steinolíu og í gær voru svo langar biðraðir við þær, að annað eins hefur ekki sést þar í bæ.
Í veðri þessu varð togarinn Harðbakur fyrir svo miklum sjó í mynni Eyjafjarðar, að hann lagðist alveg á hliðina. Slys eða skemmdir urðu þó ekki, og er hann nú kominn til Akureyrar, þar sem hann landar 150 tonnum af fiski. Mjólk barst að vonum seint til Akureyrar vegna ófærðarinnar og þar við bættist, að svo iðulaus var stórhríðin, að ganga varð fyrir bílunum. Á Dalvík var varla meira en 200 metra skyggni, og þar var sama sagan með ljós og hita sem á Akureyri nema hvað ekki eru eins mörg hús þar háð rafmagni með upphitun.
Sjá má af fregnum Tímans 11.nóvember að ekki var ánægja með spár Veðurstofunnar:
Mjög ber á því, þegar rætt er við Norðlendinga, að þeim er síður en svo hlýtt til Veðurstofunnar. Hafa þeir jafnvel farið þess á leit, að fengin yrði veðurlýsing hennar fyrir síðustu helgi, svo og veðurkortin fyrir sama tíma. Veðurspáin var síður en svo slæm, svo menn voru alveg rólegir um fé sitt. En svo brast skyndilega yfir þetta ofsaveður, sem stóð hátt á annan sólarhring, og kom það svo skyndilega, að mjög óvíða varð því viðkomið að bjarga fé. En helgina áður var spáin óhagstæð. og ruku menn þá til og smöluðu fé sínu. Þá kom að vísu ekkert óveður, en segja má, að betra sé að fá illar fréttir, sem ekki rætast en góðar fréttir, sem reynast rangar.
Víða norðanlands er útlit fyrir, að fé kunni að hafa fennt, en ekki var hægt að leita þar fyrr en í gær, og jafnvel þá gekk leitin ekki greitt fyrir sig, því á flestum stöðum gekk á með éljum, þótt upp birti á milli. Of snemmt er að segja nokkuð um, hve margt kaun að hafa fennt eða hvar. Fréttaritari Tímans á Fjöllum fjáði blaðinu í gær, að í nágrenni hans hefði lítið fundist fennt enn sem komið er, þó hefðu 10 kindur fundist í fönn fram á Víðidal.
Á Ólafsfirði urðu miklar skemmdir á hafnarmannvirkjum í ofsaveðrinu, sem gengið hefur yfir norðanlands að undanförnu. Þegar blaðið frétti til síðast í gær, var enn ekki vitað um þær skemmdir til fulls, þar sem veðurofsinn var svo mikill, að ekki var hægt að athafna sig við höfnina. Þegar stórviðrið hófst, lágu 3 slórir línubátar á legunni. Einn þeirra var keyrður upp í sand, til þess að bjarga honum frá broti, en hinir voru hafðir í gangi og tókst þannig að bjarga þeim. Þó mun einn þessara báta hafa brotnað nokkuð að aftan, var það báturinn Þorleifur Rögnvaldsson. Að sjálfsögðu var ekki vitað hve miklar þær skemmdir kunna að vera, en talið sennilegt, að setja verði hann í slipp til viðgerðar. Þá sást úr landi, að brotnað höfðu stór skörð í skjólgarðinn, sem er úr þekkri járnbentri steinsteypu. Annað bilið er a.m.k. 910 metra breitt. Þá er nokkurn veginn fullvíst, að önnur tveggja bryggja þar fyrir innan hafi laskast eitthvað, þar sem úr henni hefur rekið á land. BS
Veðrið skánaði mjög á Akureyri í gær, þótt enn gerði bylgusur við og við. Þar ríkir enn rafmagnsleysi, svo sem annars staðar á svæði Laxárvirkjunarinnar. Steinolía er eina varan sem selst á Akureyri um þessar mundir. Helstu lífsþægindi á Akureyri um þessar mundir eru kertaljós, prímusar og olíuvélar, enda er svo komið, að steinolía má heita eina varan, sem nokkur sala er í um þessar mundir. Þær eru helstu fréttir af Laxárvirkjuninni, að krapið, sem stíflaði vatnsveituna, tók með auknu frosti að frjósa í stífluhellur. Unnið var að því að sprengja þær í gær, og stóðu vonir til þess, að hægt yrði að hleypa einhverjum straumi á í nótt. Erfiðlega gengur að koma mjólk til Akureyrar, enda er fannfergi geysimikið. Þó var búist við, að mestur hluti venjulegs mjólkurmagns myndi komast til Akureyrar í gærkvöldi. Bílarnir tveir, sem lögðu af stað til Akureyrar frá Dalvík í fyrradag, komust ekki nema að Fagraskógi. Þaðan báðu þeir um hjálp, og fóru tveir trukkar frá Dalvík á eftir þeim. Þeir komust þó heldur ekki lengra þann daginn, en í gær var tekið að flytja mjólkurbrúsana af mjólkurbílunum yfir á trukkana, og átti að koma til móts við þá frá Akureyri.
Húsavík, 10. nóvember Veðrið hefur nú gengið mjög niður, þótt enn sé hríðarhreytingur. Samgöngur hafa engar verið við bæinn í dag, utan hvað einn snjóbíll fór á næstu bæi eftir mjólk, þannig að næg neyslumjólk hefur verið á Húsavík. Rafmagn er enn skammtað frá díselrafstöð fiskiðjuversins. Fé hefur fennt hér í sýslunni, en ekki er enn vitað hve mikið. Talið er fullvíst, að margt hafi fennt á Aðaldal, á einum bænum þar, Hraunsholti, vantar 48 kindur af 50. Mývetningar fóru i smalamennskur fram í Grafarlönd s.l. laugardag, og voru ekki komnir aftur í dag, en ekki er ástæða til að óttast um þá fyrir því.
Tíminn rekur frekari skemmdir í frétt 12. nóvember:
Miklar skemmdir. urðu á hafnarmannvirkjum á Siglufirði í veðrinu mikla, sem gekk yfir Norðurland á sunnudag og mánudag. Flóðvarnargarðurinn norðan Eyrarinnar gereyðilagðist, og nokkrar skemmdir urðu á öldubrjótnum. Fyrir nokkrum árum var gerð lagfæring á flóðvarnargarðinum við norðanverða Siglufjarðarhöfn þ.e.a.s. stórgrýti var rutt í sjóinn fjær höfninni á móts við beygju, sem á garðinum er. Hlutverk þessarar grjóturðar var að draga úr brimi við sjálfan garðinn. En í veðurofsanum nú um daginn var svo mikið brim, að sjórinn tók grjót þetta og slöngvaði því yfir garðinn, svo að hann mölbrotnaði undan því. Annars staðar á garðinum, þar sem grjót var ekki fyrir utan, braut sjórinn stór skörð í hann. Einnig urðu skemmdir á sjálfum öldubrjótnum, austanvert við höfnina. Sprakk þar gólfið, svo að ekki er eftir nema járnbindingin. Garðurinn er þannig byggður, að ofan á grjóthleðslu var steypt járnbent plata, en hinum megin var járnþil og sandur settur á milli. Hefur brimið síðan smá jagast inn í sandinn, þar til hann sprengdi af sér steinplötuna. Þetta er þó ekki á stóru svæði. BJ
Árneshreppi, Ströndum, 11. nóvember. Hér gerði aftaka veður á mánudag og sunnudag [8.]. Í gær fóru menn til þess að athuga um fé, en það hefur víða farist hér um slóðir. Á Felli fóru 9 kindur í sjóinn, tvær á Krossanesi, og á Gjögri vantar 7 kindur. Af þeim hafa tvær fundist reknar í Veiðileysu. Hinar eru taldar hafa farið í sjóinn líka eða að þær hafi fennt. Annars er ekki talið sennilegt, að margt fé hafi fennt hér í byggðum. Með veðurofsanum gerði úrhellisísingu, svo snjó festi svo að segja hvergi. Hins vegar er talið mjög sennilegt, a3 það fé sem vantar, hafi farið í sjóinn. Þessa daga var aftaka brim og hauga sjór, með því allra versta, sem getur komið hér. Þó bjargaði mikið, að smástreymt var meðan á veðrinu stóð. Nú er hér batnandi veður sem víðast annars staðar.
Og enn bárust fregnir. Tíminn 14.nóvember:
Frá fréttaritara Tímans á Haganesvík. Fárviðrið um helgina er eitt hið mesta sem sögur fara af hér um slóðir og má teljast vel sloppið að ekki urðu stórskaðar af völdum þessara náttúruhamfara. Á sunnudag og mánudag gekk hærra á land upp en orðið hefir um langt árabil. Skrifstofufólk hjá kaupfélaginu varð vitni að því á mánudaginn að hafaldan skall oft á húsinu sem stendur á sjávarkambi og voru það þung högg sem ægisdætur greiddu húsveggjunum í þetta sinn. Sandósbrú tók af og veginn alveg á 4050 metra kafla. Á þriðjudag braut áin sér nýjan farveg til sjávar yfir þjóðveginn og eru því engir vegir færir til annarra byggða og Fljótin alveg vegasambandslaus. Ennfremur eru horfur á því, að til nýrra spjalla dragi á vegum, ef ekki er undinn bráður bugur að viðgerðum. Raflínu, sem lá á kambinum tók af í veðrinu og liggja staurar úr henni eins og hráviði á víð og dreif. Einnig bátar, sem ráku á land og fuku í fárviðrinu. Bændur vantar talsvert af fé, en þó horfur á að fjárskaðar hafi orðið minni en ætla mátti.
Eins og áður hefur verið frá skýrt, urðu mikil spjöll á hafnarmannvirkjum á Ólafsfirði í norðanveðrinu um helgina. Nú hefur veðrið gengið svo mikið niður, að hægt hefur verið að átta sig á skemmdum, sem orðið hafa. Tvö stór skörð hafa brotnað í skjólgarðinn, og er lengd þeirra til samans um 40 metrar. 13 metrar af því hafa fallið inn í höfnina, en hitt liggur á varnargarðinum. Innan varnargarðsins er trébryggja, og er brotið úr henni á móti skörðunum í varnargarðinn. Annað hvort hafa stykki úr garðinum kastast á hana, eða sjórinn hefur verið svona þungur inn um skörðin. Olíuleiðsla lá innan á garðinum, varin með steypu, og hafði sjór komist undir hana og slitið eins og tvinnaspotta. Lágu endar hennar út í sjó. Þetta er eitt almesta brim, sem komið hefur á Ólafsfirði um langan tíma. Til þess að gefa mönnum gleggri hugmynd um hamfarirnar, má geta þess, að veggurinn. sem úr brotnaði, er ca 6070 cm þykkur neðst, og rækilega járnaður. Járnin hafa kubbast sundur, og stykkin eru mörg tonn á þyngd. 3 stórir línubátar lágu á legunni, þegar óveðrið hófst. Einum, þeirra, Stíganda, varð að hleypa upp í sand, og þar liggur hann enn, djúpt grafinn. Er óvíst, að hann komist á flot af eigin rammleik. Annar, Þorleifur Rögnvaldsson, varð fyrir skemmdum, svo búist var við, að hann myndi verða að fara í slipp. Hann er nú kominn til Akureyrar og skemmdirnar taldar minni en horfur voru á, svo að hægt verður að gera við hann án þess að taka hann í dráttarbraut.
Tíminn segir af síðara nóvemberillviðrinu í fréttum 24., 25. og 26. nóvember:
[24.] Tjaldanesi [Reykhólasveit], 23 nóvember. Síðastliðinn laugardag [21.nóvember] gerði ofsaveður hér í sveit og var stormur svo æðisgenginn að austan að elstu menn muna ekki annað eins. Allmikið tjón varð á húsum og mannvirkjum og einnig fauk hey svo að til skaða horfir. Á bænum Hvoli stendur nýbyggt hús. Þar fuku plötur af þaki og var ofsinn í veðrinu svo mikill að plöturnar slitnuðu upp úr nöglunum. Einnig urðu þar miklar skemmdir á fjárhúsum. Þá þak af húsi í Fremri-Brekku og í Furunesi fauk heygalti út í veður og vind og týndist þar 10 kinda fóður svo ekki sást tangur né tetur efir. Á bænum Máskeldu fauk og ónýtist svipað heymagn. Minniháttar skaðar urðu á allmörgum bæjum öðrum. Víða mölbrotnaði allt sem brotnað gat og svo var veðurhæðin mikil að varla var fært um bæjarsund. Fjárskaðar urðu einnig. Í Akureyjum átti bóndi geymt fé í eyju þar er Höfnin nefnist. Þar hefur sjaldan sem aldrei flætt fé. En nú brá svo við að fórust 14 kindur af 36 sem gengu þar í eynni. Hefur bóndinn orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni. MÁ
[25.] Versta veður hefur verið undanfarna daga á Siglufirði, norðaustan rok, og olli það talsverðum skemmdum á mannvirkjum í kaupstaðnum og í nágrenni hans. Mestar urðu þó skemmdir á Hólsbúinu, sem er eign kaupstaðarins. Þar fauk gafl og hluti af þaki íbúðarhúss og lenti brakið á ljósastaur og mölbraut hann, svo ljóslaust varð á búinu i tæpa tvo sólarhringa á eftir. Þá var símalína slitnuð fyrir nokkru. Hús þetta var timburviðbygging við aðalhúsið, og hafði vinnulið búsins aðsetur sitt í þeirri byggingu. Varð það að sjálfsögðu að flýja húsið og fara niður í kaupstaðinn, en karlmenn fóru á málum og sinntu skepnum, og mjólkuðu við skin gaslukta og kerta, meðan á rafmagnsleysinu stóð. Niðri í kaupstaðnum urðu einnig margvísleg spjöll, rúður brotnuðu af og járnplötur reif af húsum. Skúr nokkur, sem stóð skammt frá ljósastöðinni gömlu, fauk eins og hann lagði sig, en hey, sem í honum var mun standa til þess að gera lítið skemmt eftir. Nú er komið skaplegra veður. BJ.
Ólafsfirði, 24. nóvember. Síðan á fimmtudag í síðustu viku hefur verið sífellt gæftaleysi hér, og á laugardaginn [21.] gerði mikið rok af norðaustri. Kom það sér heldur illa, þar sem ekki hefur unnist tími til þess að lagfæra skemmdirnar, sem urðu á hafnarmannvirkjunum í óveðrinu um aðra helgi í nóvember, svo að sjórinn gekk óbrotinn inn i höfnina. Allir stærri bátar forðuðu sér til Akureyrar og skemmdir urðu hér engar í rokinu. BS
[26.] Frá fréttaritara Tímans á Haganesvík. Í óveðrinu á dögunum skemmdist bryggjan á Haganesvík verulega. Gróf undan henni og við það brotnaði niður hluti bryggjunnar. Bryggjan er þó nothæf, en þörf er aðgerða á skemmdunum, þar sem hætta er á frekari spjöllum, ef ekki fer fram viðgerð. Í sambandi við óveðursfréttir frá Haganesvík í blaðinu á dögunum skal tekið fram, til að fyrirbyggja misskilning, að Sandósbrú stendur, en hins vegar rofnaði vegurinn á kafla austan brúarinnar. Raflínustaurar sem fuku, voru ekki með línu, heldur var hér um að ræða stafla af lausum staurum, sem lágu ónotaðir á sjávarkambinum.
Um mánaðamótin kom sérlega djúp lægð að landinu úr suðri. Vindur var ekki sérlega mikill, en stórstreymt var og sjávarstaða óvenjulega há. Varð minniháttar tjón af.
Korið sýnir lægðina miklu þegar hún varð hvað dýpst. Endurgreiningin giskar á 933 hPa í miðju. Upp úr þessu fór hún að grynnast. Þrýstingur á Stórhöfða fór lægst niður í 941,1 hPa um kvöldið. Hvasst var við suðurströndina, 13 vindstig á Stórhöfða. Einnig varð hvasst á Austfjörðum, en minna varð úr annars staðar.
Tíminn 4.desember:
Reykjavík. Undanfarna daga hefur verið óvenjumikið flóð í höfninni og orsakað flóð í kjöllurum húsa í miðbænum svo til vandræða horfir víða. Stórstreymt hefur verið en þar að auk hefur verið mögnuð vestanátt og hefur það aukið flóðið. Sjórinn gutlar upp á bryggjur í höfninni, og standa bryggjugólfin ekki nema 1/2 fet upp úr sjó. Hefur það orðið til óhagræðis við verbúðabryggjurnar, svo erfitt hefur reynst að losa fisk úr bátum. Hins vegar hefur það ekki komið að sök við hafskipabryggjumar og samkvæmt flóðatöflu mun flóðið réna í dag. Sjór hefur gengið upp úr göturæsum í Austurstræti en á mótum Austurstrætis og Pósthússtrætis, liggur gatan nokkuð lægra en yfirborð sjávar í höfninni. Þegar flóðið var mest, gekk það upp yfir gagnstéttarbrún á þessu götuhorni. Í Landsímahúsinu hefur flætt geysimikið vatnsmagn inn í kjallarann svo til vandræða horfir. Gengur sjórinn þar upp um brunn, sem notaður er fyrir niðurfall. Rafmagnsdælur eru í gangi dag og nótt til að dæla upp úr kjallaranum og varna þess að sjórinn nái vélum í vélasal hússins. Vélarnar standa þó á pöllum, því áður hefur flætt inn í húsið, og er talið að þær séu ekki í hættu. Ekki hefur um árabil verið vart svo gífurlegs flóðs í því húsi eins og reyndar annars staðar í miðbænum. Verið er að grafa fyrir stórhýsi við Austurstræti þar sem áður var bókabúð Sigfúsar Eymundssonar. Þar hefur sjór fossað inn viðstöðulaust. Sjónum hefur verið dælt upp á götuna og ennfremur inn í portið hjá BSR. Það óhapp gerðist, að reim, sem tengdi saman dæluna og aflvélina, slitnaði, og var dælan óvirk um nokkurn tíma. Fylltist þá húsgrunnurinn af sjó. Í Landsbankanum og Ingólfshvoli mun ástandið vera skaplegt, enda eru þar dælur í gangi að jafnaði. Þó hefur gólfið í Landsbankahúsinu blotnað og enn meira vatn hefur komist inn í kjallarann á Ingólfshvoli, enda er þar allmiklu dýpra. Ýmsum mun umhugað að vita um ástandið í lögreglukjallaranum en þar hefur enginn sjór komist inn, enda eru þar engin niðurföll. Salerni eru næstu hæð fyrir ofan og liggja skolpleiðslur þaðan beint niður í götuna.
Ísafirði, 3. des. Þrjá undanfarna morgna hefur verið óvenju háflætt hér á Ísafirði, og hefur sjórinn gengið um það bil feti hærra en algengt er á stórstraumsflóði. Hefur flætt yfir vegi og bryggjur, en skaðar hafa ekki orðið vegna þess að veður hefur verið mjög gott, logn og blíða. Engin skýring er á þessum óvenju miklu flæðum, en þetta er algengt hér á þessum árstíma, þótt sjaldan eða aldrei hafi yfirborð sjávar gengið jafn hátt og nú. GS
Alþýðublaðið segir frá flóði eystra 5. desember:
Eskifirði, 4. des. Í fyrrinótt [aðfaranótt 3.desember] gerði hér almesta flóð, sem hér hefur gengið yfir um áratugi. Geisaði hér suðaustan stórviðri, stormur og rigning. Var þetta við stærsta strauminn og gekk sjórinn langt upp á land. Vegir og vegkantar eyðilögðust, aðallega á kafla fyrir botni fjarðarins. Ein bryggjan fór alveg í ofviðrinu. Sjór flæddi inn í kjallara húsa þeirra, sem liggja neðst í kauptúninu, og urðu talsverð spjöll af þeim sökum. Bátar lentu upp í fjöru, en ekki munu skemmdir hafa orðið á þeim, svo að neinu nemi.
Tíminn segir 15.desember frá sviptibyl á Norðurfirði þann 13. desember:
Bæ, Trékyllisvík 14. desember. Þrjá báta Kaupfélags Strandamanna rak upp í sviptibyl á Norðurfirði í gær. Var hér um að ræða tvo stóra uppskipunarbáta sem bundnir voru saman og vel gengið frá. Þá rak á sjó út en fundust aftur reknir í Norðurfirði, báðir illa brotnir. Þriðja bátinn, skektu, tók í loft upp og skall hann niður á húsþaki nokkurn spöl frá. Brotnaði báturinn í spón og einnig laskaðist þakið. Hvasst var af austnorðaustri þegar þetta gerðist rétt fyrir hádegi en þó voru engin aftök. Gerðist þetta svo skyndilega að menn fengu við ekkert ráðið, en í Norðurfirði er byljótt mjög. Er þessi bátamissir Norðurfirðingum mjög bagalegur þar sem hafskipabryggja er engin og skipa verður upp úr bátum. Hér vestra hefur verið einmuna tíð undanfarið, stillur miklar og auð jörð og hefur verið unnið að jarðabótum allt fram á síðustu helgi.
Þann 14. slitnuðu tvö síldartökuskip upp á Siglufirði - olli það nokkrum vandræðum.
Tíð var annars meinlítil í desember, en kvartað var um hálku á götum og vegum. Þann 1. desember 1959 byrjaði Morgunblaðið að birta veðurkort nær daglega - teiknuð af veðurfræðingum á Veðurstofu Íslands. Var það afgerandi viðburður í lífi ritstjóra hungurdiska.
Ingibjörg Guðmundsdóttir í Síðumúla í Borgarfirði lýsir desember:
Desembermánuður var yfirleitt mjög mildur og góður að veðurfari. Sauðfé var þá tekið inn rétt eftir mánaðamótin og hefir verið hýst síðan, en hagar hafa verið góðir og sparað mikið hey. Jólaveðrið var eftirminnilega gott og fagurt. Síðustu dagana snjóaði og er jörðin alhvít. Snjódýpt 15 sm á sléttri flöt. Mesta frost var í gær, á gamlársdag, 15,5 st. Um næturfrost er ekki vitað, því þó Veðurstofan hafi sent 3 lágm.mæla, eru þeir allir ónýtir. Hefir slíkt aldrei komið fyrir síðan ég byrjaði veðurathuganir.
Lýkur hér upprifjun hungurdiska á ýmsum veðuratburðum ársins 1959. Tölulegar upplýsingar margvíslegar má finna í viðhengi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2023 | 16:04
Smávegis af janúar 2023
Janúar verður að teljast kaldur, kaldasti janúarmánuður aldarinnar á landsvísu. Síðast var kaldara í janúar 1995 (þegar snjóflóðið varð á Súðavík). Kuldinn var nokkuð misjafn eftir landshlutum (eins og betur kemur fram í yfirliti Veðurstofunnar).
Taflan sýnir röðun meðalhita spásvæðanna meðal janúarmánaða á öldinni. Hann er sá kaldasti við Faxaflóa, Breiðafjörð, á Ströndum og Norðurlandi vestra og á Suðurlandi, en raðast næst meðalmánuði á Austurlandi að Glettingi þar sem hann er í 15. hlýjasta sæti. Þrátt fyrir þessar röðunartölur var kuldinn samt ekki nærri því eins afbrigðilegur og í desember. Janúarmánuðir 21. aldarinnar hafa hingað til flestir hverjir verið sérlega hlýir miðað við fyrri tíð. Vik landshitans frá meðallagi 80-ára tímabilsins 1931-2010 er þannig ekki nema -0,7 stig í janúar nú, en var -3,6 stig í desember - ólíku saman að jafna.
Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), meðalþykkt (daufar strikalinur) og þykktarvik (litafletir) í janúar 2023 - eins og evrópureiknimiðstöðin greinir. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Neikvæð vik (blátt) eru ríkjandi við Ísland, þó ekki mjög mikil, um -20 metrar yfir miðju landi, samsvarandi um -1°C (svipað og landshitavikið var í raun). Það hefur greinilega verið mjög kalt á Grænlandi, þar er hitavikið -3 til -4°C - svipað og hér var í desember. Nokkuð kalt virðist einnig hafa verið í Suður-Frakklandi og á austanverðum Pýreneaskaga. Annars eru hlýindi um mestallt svæðið, sérlega mikil á Svalbarða, en þar mun vera óvenjuleg hafísrýrð um þessar mundir.
Ritstjórinn hefur enn ekki fengið tölulegt háloftauppgjör, en honum sýnist samt að háloftavindar séu í aðalatriðum nærri meðallagi árstímans - og engin sérstök tíðindi þar á ferð. Við þökkum Bolla P. fyrir kortagerðina.
Við getum notað tækifærið og rifjað upp tveggja ára gamlan hungurdiskapistil. Janúar 2021 var fremur kaldur - á landsvísu aðeins lítillega hlýrri heldur en janúar nú. Í pistlinum birtist þessi mynd (og var útskýrð ítarlega þar).
Svarta lárétta línan sem liggur þvert yfir myndina sýnir hér meðalhita janúar 2023 (en sýndi á eldri mynd janúar 2021). Meðalhiti sem liggur lægra heldur en blái ferillinn telst á hverjum tíma kaldur (miðað við síðustu 50 ár) - liggi hann á milli bláa og rauða ferilsins telst hiti í meðallagi, en sé hann ofan rauða ferilsins telst janúarmánuður hafa verið hlýr. Fyrir aðeins 13 árum hefði nýliðinn janúar samkvæmt þessu talist í meðallagi hvað hita snertir - en er nú kaldur, fyrir 100 árum hefði hann líka verið í meðallagi, en ekki vantað mikið upp á að hann teldist hlýr. Og það er ekki fyrr en að hann lendir í samanburði við hlýindi þessarar aldar að hann fær að teljast kaldur. [En nýliðinn desember var aftur á móti neðan bláu desemberlínunnar á öllum tímum - enginn vafi þar].
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 9
- Sl. sólarhring: 271
- Sl. viku: 2388
- Frá upphafi: 2434830
Annað
- Innlit í dag: 7
- Innlit sl. viku: 2117
- Gestir í dag: 7
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010