Veðurkortin í Morgunblaðinu - persónuleg minningarorð

Þann 1. desember 1959 fór Morgunblaðið að birta veðurkort sem sýndu loftþrýsting, þrýstikerfi, skilakerfi og veður í táknum. Þetta var mikill fengur fyrir veðuráhugamenn á sínum tíma og jók mjög áhuga og þekkingu almennings á samhengi veðurs og þrýstikerfa. Þessu var fram haldið þar til í nóvember 1967 að síðasta kortið birtist. Sagt var að veðurfregnir í sjónvarpi hafi drepið kortin en þar birtust svipuð kort daglega (nema á fimmtudögum og í júlí).

Þetta með sjónvarpið er sjálfsagt rétt, þar voru kortin líka nýrri og fengu allgóða kynningu í orðum veðurspámanns dagsins. Aftur á móti sáust sjónvarpskortin aðeins örstutta stund en kortin í Morgunblaðinu sjást enn. Þrátt fyrir þjónustuna í sjónvarpinu grétu nördin prentuðu kortin - og gráta víst sumir enn.

mbl301159

Þetta er fyrsta kortið (fengið af Morgunblaðinu á timarit.is). Því miður hefur sá sem teiknaði ekki kvittað fyrir það. Ýmsir veðurfræðingar teiknuðu kortin. Það er sem mig minni að blaðið hafi greitt eitthvað lítilræði fyrir, en gjaldið hafi runnið til tímaritsútgáfu veðurfræðinga, en þeir gáfu um þetta leyti út hálfs-árs ritið Veðrið. Það er einnig grátið sárlega.

mbl161167 

Ég held að þetta kort hafi verið það síðasta. Það birtist 17. nóvember 1967 og er merkt Páli Bergþórssyni. Kort hans þóttu sérlega skýr.

mbl160262

Ég fór að gefa þessum kortum gaum fyrir alvöru haustið 1961 en þá var margt um að vera í veðrinu. Í febrúar 1962 hófst síðan seta mín yfir kortunum og missti ég ekki af einu einasta þeirra allt til loka. Kortið hér að ofan, frá 16. febrúar 1962 var það fyrsta sem ég klippti út samdægurs með eigin hendi, en nokkrum eldri kortum tókst mér að nurla saman úr eldri blöðum.

Fullyrða má að kortin hafi mjög undirbúið jarðveginn fyrir sjónvarpsspárnar og menn sáu í fyrsta sinn hvernig þrýstikerfin hegðuðu sér frá degi til dags og einnig varð hugtakið veðraskil mun meira lifandi heldur en ella hefði orðið. Þegar ég fór að fylgjast reglulega með tók ég eftir því að háttur fræðinganna í greiningu kortsins var á ýmsa lund. Þeir litu veðrakerfin greinilega ekki sömu augum.

Margir sakna nú skilakerfa á sjónvarpskortum. Ég geri það að sumu leyti líka, en hef hins vegar gengið til alvarlegrar villutrúar varðandi slík fyrirbrigði. Gömlu Bergenskólakennarar mínir vildu nú sjálfsagt brenna mig á báli fyrir villuna. En það er önnur saga.

Veðrið 16. febrúar 1962 var reyndar mjög merkilegt. Sé kortið skoðað má sjá óvenju djúpa lægð yfir Svíþjóð. Hún beinir norðvestan ofsaveðri inn Norðursjóinn og að ströndum Austur-Englands, Niðurlanda, Þýskalands og Danmerkur. Í fyrirsögn í Morgunblaðinu nokkrum dögum síðar var þetta sagt versta veður á öldinni. Á fjórða hundrað manns drukknuðu í Hamborg og nágrenni og 100 þúsund mistu heimili sín tímabundið við Norðursjávarstrendur. Íslensk skip í Norðursjó löskuðust. Á Hjaltlandseyjum mældist vindhviða 154 hnútar. Menn hafa seinna dregið þá tölu eitthvað í efa en fárviðri var á stóru svæði í Norðursjó og nágrenni.

Daginn áður var óhuggulegt veður um sunnan- og austanvert Ísland. Mikið snjóaði í miklum bakka sem lá nærri suðvesturströndinni jafnframt því sem loftvog hríðféll. Það er oftast mjög ills viti ef loftvog hríðfellur í kalda loftinu bakvið lægðir. Ísland slapp þó að mestu í þetta sinn, útihús fuku í Neskaupstað og brakið skaddaði íbúðarhús. Aðrir fengu að kenna á illskunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

En hvað felst í villutrúnni? Hef grun um að það sé áhugavert eins og flest villutrú. Og held að mörgu fólki þyki einkennilegt að heyra um hana frá veðurfræðingi. Ég man líka þessi kort en fór þó ekki  að  gefa þeim  gætur fyrr en löngu á eftir þér enda fékk ég veðuráhugannn undarleg seint miðað við hann hann er frekur núna.

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.10.2010 kl. 05:34

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það var ekki ónýtt að hafa fengið gott "veðuruppeldi" þegar ég kornungur þurfti að fara að ferðast um allt land í misjöfnum veðrum og síðan að læra flug tll þess arna.

Ómar Ragnarsson, 21.10.2010 kl. 10:12

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta voru samt ekki síðustu veðurkortin í Mogganum því þar til fyrir nokkrum árum mátti finna þar tölvuteiknuð veðurkort með skilum en þó engum þrýstilínum. En nú er öldin önnur, fólk fer frekar á netið heldur en í blöðin til að fá veðurspá og fæstir vita hvað skil þýða, hvað þá mismunandi gerðir af skilum.

Emil Hannes Valgeirsson, 21.10.2010 kl. 10:38

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Ég tel þessi seinni tíma veðurkort Morgunblaðsins ekki með. Ég leit helst aldrei á þau nema í viðbragðsstöðu, búinn undir það versta. Skilateikningar á gömlu kortunum voru þó birtingarmynd ákveðins framsetningarkerfis sem fylgt var í stórum dráttum á rökréttan hátt. Varlegt er að alhæfa um skilamerkingar nútímans, stundum má sjá vitræna merkingu í þeim en oftar eru þær ótrúlegt bull. Vond endursögn á rismiklum skáldskap Björgvinjarskólans.

Trausti Jónsson, 21.10.2010 kl. 11:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 45
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 1794
  • Frá upphafi: 2348672

Annað

  • Innlit í dag: 42
  • Innlit sl. viku: 1572
  • Gestir í dag: 42
  • IP-tölur í dag: 42

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband