Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2022
31.8.2022 | 20:29
Alþjóðasumarið 2022
Við lítum hér á meðalhita í byggðum landsins mánuðina júní til ágúst 2022, það er sumartímabil Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar. Veðurstofan telur september hins vegar með sumrinu. Meðalhiti þess er 9,5 stig. Það er 0,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára og 0,2 stigum neðan meðallags 1991 til 2020.
Á línuritinu má sjá meðalhita aftur til 1823, en við tökum lítið mark á fyrstu 50 árunum. Þó er ábyggilega rétt að heldur hlýrra var fyrir 1860 heldur en næstu áratugi þar á eftir. Súlurnar á myndinni sýna hita einstakra alþjóðasumra, en breiðari línur eru 10-ára keðjumeðaltöl. Eftir sumarkuldana á síðari hluta 19. aldar hlýnaði talsvert um 1890 og svo aftur og meira um og eftir 1925. Sumarhlýindi náðu hámarki á fjórða áratugnum en fór síðan kólnandi, sérstaklega kalt var fram yfir 1985, en þá fór að hlýna. Fyrst hægt en síðan meira. Hámarki náðu hlýindin nýju fyrir 10 til 15 árum.
Árið í ár sker sig ekki sérstaklega úr, það er hlýrra heldur en flest sumur áranna 1961 til 2002. Meðaltal síðustu 10 sumra er hærra heldur en öll tíu ára meðaltöl á fyrra hlýskeiði (hvað sem síðar verður). Sumarið í fyrra (2021) var sérlega hlýtt, +1,0 stigi hlýrra heldur en næstu tíu sumur á undan. Við sjáum í raun ekkert lát á sumarhlýindum - þó ekki hafi bætt í þau undanfarin 15 ár.
31.8.2022 | 01:54
Hugsað til ársins 1961
Það var haustið 1961 sem ritstjóri hungurdiska fór að fylgjast náið með veðri, varlega fyrst, en síðan með auknum þunga og má segja að samfellt sé frá því seint á árinu. Það eru nú rúm 60 ár. Þá voru 60 ár liðin frá aldamótunum 1900 - og ekki mörg tímabil af slíkri lengd aftur í móðuharðindi. Svona er sagan stutt.
Tíð þótti fremur óhagstæð á árinu 1961 nema fyrstu 2 mánuðina. En það var samt hlýtt lengst af og úrkoma nærri meðallagi. Í janúar var tíð hagstæð en nokkuð stormasöm um tíma. Lítill snjór. Hlýtt í veðri. Í febrúar var mjög hagstæð tíð og hiti var yfir meðallagi. Í mars var Óstöðug og óhagstæð tíð vestanlands, en góð eystra. Apríl var óhagstæður fram undir sumarmál, en síðan var góð tíð. Samgöngur tepptust vegna snjókomu um miðjan mánuð. Í maí var lengst af hagstæð tíð, en þó gerði slæmt hret seint í mánuðinum. Hlýtt. Júní var fremur hráslagalegur og sprettu miðaði hægt. Nokkrum sinnum snjóaði niður í byggð. Hiti var þó nærri meðallagi. Júlítíðin var fremur óhagstæð, einkum norðaustanlands. Ágúst var óhagstæður á Norður- og Austurlandi, en sæmilegur syðra. September var óhagstæður sökum hvassviðra og votviðra. Hlýtt var í veðri og uppskera úr görðum fremur góð. Október var hagstæður vestanlands en eystra var votviðrasamt. Hlýtt var í veðri. Mjög umhleypingasamt var í nóvember, milt var framan af en síðasta vikan var óhagstæð nyrðra. Desember var lengst af hægviðrasamur og þótti hagstæður, þrátt fyrir frosthörkur.
Hæsti hiti ársins var lágur, ekki nema 20,6 stig, mældist í júlí á Kirkjubæjarklaustri og Hæli í Hreppum 15. júlí, (og líka 4. júlí á Kirkjubæjarklaustri). Mest frost mældist -28,3 stig í Möðrudal. Það var 4. apríl, óvenjuharka á þeim tíma árs.
Við nýtum okkur - eins og venjulega - frásagnir dagblaða og rit Veðurstofunnar, Veðráttuna. Að þessu sinni eru flestar fréttir sem birtar eru nánast orðréttar úr dagblaðinu Tímanum.
Blaðamanni Tímans þótti mikill munur á hita við sjávarsíðuna og inn til landsins og í blaðinu þann 10. er rétt við Pál Bergþórsson veðurfræðing um þetta atriði.
Okkur þótti kynlega bregða við nú um helgina, þegar veðráttunni var svo háttað, að t.d. í Vestmannaeyjum var tveggja stiga hiti, en 27 stiga frost á Möðrudal. Við hringdum því í Pál Bergþórsson veðurfræðing, og fengum hjá honum eftirfarandi upplýsingar um veðrið:
Nú er hæð yfir Grænlandi, sem teygir sig suðaustur yfir Ísland, og önnur yfir landinu vegna kuldans. Þá er hlýrra yfir sjónum en landinu, t.d. var tveggja stiga hiti í Vestmannaeyjum. eins stigs frost á Dalatanga, og tveggja stiga hiti úti á Halamiðum. Sem sagt: Allt í kring um landið nálægt frostmarki eða heldur hlýrra. En svo inn til landsins er kalt, t.d. 27 stiga frost á Möðrudal í nótt. Mishiti þessi stafar af því, að landið tekur miklu betur við kuldanum en hafið, og hafið heldur miklu frekar sínu hitastigi en það. Þegar yfirborð sjávarins kólnar, sekkur kalda vatnið en hið hlýrra stígur upp. Þó er það ekki einhlítt, að hlýjast sé við ströndina, því að kaldur straumur getur komið ofan af fjöllunum og niður á láglendið. Þannig er það t.d. á Sauðárkróki og Blönduósi. Á báðum þeim stöð, um er 12 stiga frost.Það er heldur lygnt um allt land, hæg fjallagola af landi, norðanátt hér og sunnanátt fyrir norðan o.s.frv. Alls staðar er bjartviðri, í morgun kastaði úr éli á norðurmiðum og snjóaði í Grímsey. Og í Möðrudal er frostmóða og skyggni 10 km. Þar var frost 24 stig í morgun kl. 11, og á sama tíma var 4 stiga frost í Reykjavík og 11 stig á Akureyri. Ekki er nein veðurfarsbreyting sjáanleg á næstunni.
Viðtalið er tekið á mánudegi og taka má eftir því að þá er ekki gert ráð fyrir veðurfarsbreytingu á næstunni - en lægðin sem má sjá við Nýfundnaland á kortinu dýpkaði og stefndi óðfluga til landsins aðeins sólarhring síðar. Sýnir þetta dæmi vel hve veðurspár voru erfiðar á þessum tíma. Nú á dögum hefði illviðri þessu verið spáð með margra daga fyrirvara. Tjón varð nokkuð. Tíminn segir frá þann 12. janúar:
Í fyrrinótt gerði aftakaveður af suðaustri um Suðvesturland. Víða urðu nokkrir skaðar í óveðri þessu. en sviplegastur var sá þáttur, sem veðurhæðin mun hafa átt í því, að togarinn Marie Jose Rosette fórst við Vestmannaeyjar. Aftökin urðu mest í Vestmannaeyjum. Þar fór vindhraðinn upp í 13 vindstig. Varð þar hvassast um þrjúleytið í fyrrinótt. Voru komin 11 vindstig um miðnætti. Fauk þar þak af hlöðu í Þórlaugargerði, og varð bóndinn þar, Páll Árnason, fyrir allmiklu tjóni. Telur hann þetta hafa verið með verstu veðrum í Eyjum. Í Reykjavík varð hvassast á fimmta tímanum í gærmorgun, en veðurhæðin mun varla hafa farið yfir 10 vindstig. Ofviðrið geisaði um allt Suðvesturland, en var verst meðfram ströndinni. Víða varð nokkurt tjón af völdum veðursins. Í Reykjavík mun einna mest tjón hafa orðið á Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti. Þar fuku steypumót, sem búið var að slá upp, allmikið mannvirki, og fauk spýtnabrak og fjalir vítt um völl. Búið var að setja járnbinsli í nokkurn hluta af mótunum. Það verk er auðvitað einnig ónýtt, og er þetta tjón allt mjög tilfinnanlegt. Stór vinnuskúr tókst á loft í Álfheimum í Reykjavík. Kastaðist hann á raflínu og braut niður staur. Við það slógust leiðslurnar í tólf hæða íbúðarstórhýsi, en rafmagnið læstist í hráblauta veggi og hljóp eins og eldingar um allt húsið utanvert. Bátar slitnuðu upp í höfninni, og áttu lögregla og hafnsögumenn fullt í fangi við að festa þá og koma á reglu og láta eigendur vita, hvernig komið væri. Braggi við Skúlagötu fauk. og brak úr honum fór víða. Bæjarstarfsmenn voru vaktir upp til að tína saman hráviði og járnplötur, en af þessu gat stafað mannhætta. Ýmislegt fleira en hér var talið fór á hreyfingu í fyrrinótt. Rigning mikil fylgdi veðrinu. M.a. flæddi inn í kjallara Grensássbakarís, og hjálpaði lögreglan við að bera út úr geymslu þar. Allvíða urðu truflanir á síma og rafmagni í óveðri þessu.
Ekki er vitað um skemmdir á húsum eða öðrum mannvirkjum í Vestmannaeyjum, þar sem veðrið var þó verst. Í Keflavík sukku tveir trillubátar i höfninni. Í Sandgerði flæddi vatn inn í kjallara, enda var þar óvenjumikið vatnsveður. Í Grindavík var bálhvasst snemma dags í fyrradag, og töpuðu sumir bátanna, sem á sjó voru, nokkru af línum. Einn mun hafa misst 15 bjóð. Veðrið gekk skyndilega niður milli klukkan 7 og 8 í gærmorgun. Það komst norður yfir hálendið, og gerði 9 vindstiga rok í framhluta Skagafjarðar snemma um morguninn Einnig varð nokkuð hvasst á Austfjörðum.
Í veðrinu sökk einnig bátur í Grímsey. Þann 14. dró aftur til tíðinda. Tíminn segir frá þann 17.:
Frá fréttaritara Tímans í Staðarsveit 14. janúar. Laust fyrir klukkan 12 á hádegi í dag varð sá óvenjulegi atburður hér í sveit, að mikilli eldingu laust niður í íbúðarhús og kveikti í því, og brann það til grunna á skammri stundu. Fólk sakaði ekki, en fimm kýr drápust í fjósi skammt frá bænum. Þegar atburður þessi gerðist var allhvöss suðlæg átt og gekk á með hryðjum á frostmörkum. Á Neðri-Hól í Staðarsveit búa hjónin Jónas Þjóðbjörnsson og Elísabet Kristjánsdóttir, ásamt tveim sonum sínum uppkomnum, Jónasi og Sigurjóni. Þeir feðgar, Jónas bóndi og Jónas sonur hans, voru úti við gegningar. Elísabet húsfreyja var í eldhúsi, en Sigurjón niðri í kjallara að dæla vatni í vatnsgeymi heimilisins. Eldingunni laust niður í mitt þakið, að því er virtist, rauf það og þeyttust járnplötur úr því undan eldingunni. Samstundis kviknaði í húsinu, og varð það fljótlega alelda. Elísabet húsfreyja mun hafa staðið á miðju eldhúsgólfi og varð ekki meint af, en Sigurjón, sem stóð við dæluna niðri í kjallaranum, fékk mikið rafmagnshögg og fell við, en varð að öðru leyti ekki meint af. Er talið, að þykkir gúmmísólar undir skóm hans hafi bjargað honum. Mjög skammt er til næstu bæja, og sá fólk þaðan fljótlega eldinn og kom til. Ekki varð þó við eldinn ráðið, og brann húsið á hálfri klukkustund. Var nær engu bjargað.
Skammt frá íbúðarhúsinu var fjós, og vatnsleiðsla út í það úr vatnsgeymi í íbúðarhúsinu og brynningartæki við bása kúnna. Í fjósinu voru tíu nautgripir. þar af átta mjólkurkýr. Fjósið tókst að verja fyrir eldinum, en þegar að var gáð, lágu fimm mjólkurkýr dauðar á básunum. Kom í ljós, að eldingin hafði drepið þær. Höfðu þær legið og snert vatnsleiðslupípuna. Þeir gripir, sem staðið höfðu, sluppu ómeiddir. Heyhlöðu við fjósið tókst að verja. Þegar eldingunni laust niður, brotnuðu flestar rúður í gluggum og rigndi glerbrotum yfir húsfreyjuna. Veggir karsprungu og hrundu sumir eftir brunann. Húsið var steinsteypt, en innrétting að nokkru úr tré og tréloft yfir hæð. Miðstöðvarofnar í húsinu sprungu sumir eða þöndust út, svo að þeir líkjast belgjum á eftir. Húsið og innbú mun hafa verið vátryggt, en mjög lágt og er skaði hjónanna mikill. Eldingarinnar varð vart á næstu bæjum. T. d. eyðilögðust tvö útvarpstæki í Glaumbæ, sem er tvö hundruð metra frá Neðri-Hól.
Í veðri þessu sló eldingu einnig niður í háspennulínu til Akranes. Upp úr miðjum mánuði varð víða mikil úrkoma og leysing. Mesta flóðið varð í Ölfusá neðanverðri vegna klakastíflu - og e.t.v. hafáttar líka. Tíminn segir frá þann 18. og 19.:
[18.] Fólki í Ölfusi brá í brún, er það kom á fætur á mánudagsmorguninn. Þar var þá rafmagnslaust og símasambandslaust á allmörgum bæjum, og kom brátt í ljós, að Ölfusá hafði hlaupið úr farvegi sínum og um flætt yfir láglendið nóttina. Þegar birti af degi, sást, að allar Ölfusforir voru á kafi í vatni, og Arnarbælishverfið, sem er á bakka Ölfusár. var umflotið. Að vísu var þegar á sunnudagskvöldið sýnt, að hverju dró, því að þá snarhækkaði í Ölfusá. Árnar austan fjalls voru á þunnum ís, sem þær sprengdu af sér, og myndaðist þá jakahrönn mikil í Ölfusá skammt ofan við Arnarbælishverfið. Hafa og sennilega sjávarföll og rok af suðvestri átt þátt í því, að ísinn hrannaðist þar og stíflaði ána. Þegar framrás árinnar stíflaðist, tók hún brátt að flæða yfir bakka sína, einkum að vestan, hjá svonefndum Stapaklettum, sunnan við Auðsholt, og var vatnsmagnið svo mikið, að allar Forirnar voru orðnar einn hafsjór að morgni. Fylgdi þessu mikill jakaburður, og brutu jakarnir símastaura og tvo rafmagnsstaura og sópuðu burt girðingunni. Að austan flæddi áin einnig á land upp austan við Kaldaðarnes. Var þegar á sunnudagskvöldið komið þar svo mikið vatn, að maður, er þar var á ferð, varð að skilja bíl sinn eftir. Mjólkurbílar komust hins vegar leiðar sinnar þeim megin árinnar. Talið er, að rafstraumurinn hafi rofnað klukkan fjögur til fimm á mánudagsmorguninn, og á mánudaginn var rafmagnslaust á níu bæjum í Ölfusi fram á kvöld. Tveir voru enn rafmagnslausir í gær. Símasamband rofnaði einnig á mörgum bæjum.
Úr Arnarbælishverfi var engin mjólk flutt í fyrradag, en í gær var komið með hana á bátum að Auðsholti frá Ósgerði, Króki og Egilsstöðum. Flóðið var í rénum í gær, en þó var vatn heim undir bæ í Auðsholtshjáleigu, er blaðið átti tal við Bjarna Kristinsson, bónda þar. Sagði hann, að hvergi sæist á veginn út í Arnarbælishverfi og mætti búast við, að hann hefði skemmst víða. Brúin á Sandá stóð ein uppúr vatninu. Ég hef búið hér í níu ár, sagði Bjarni, og á þeim tíma hefur ekki komið nema eitt flóð, sem nefnandi er í samanburði við þetta og samt var það ekki eins stórkostlegt. Jakahrönnin í Ölfusá er enn eins og veggur, og má búast við, að hún sitji þar, ef ekki helst þíða nógu lengi til þess að vinna á
ísnum.
[19.] Jakastíflan er enn í Ölfusá, en allmikið vatn er nú tekið að renna undir hana, og er hinn mikli hafsjór beggja megin árinnar mjög tekinn að fjara. Þó voru gífurleg flæmi enn undir vatni í gærkvöldi. Tekur það áreiðanlega talsverðan tíma, að flóðið sjatni til fulls. Enn var vatn á vegum, bæði frá Kaldaðarnesi og Arnarbælishverfi, og er talið, að vatnið á Kaldaðarnesveginum hafi tekið í mitti, er það var mest. Það var mishermi, sem sagt var í gær, að mjólkurbílar hefðu komist ferða sinna þeim megin árinnar. Þeir komust ekki að Kaldaðarnesi fyrr en í dag.
Síðan tóku við margir góðir dagar. Tíminn segir þann 22.:
Nú er svo umhorfs um allt Suðurland, að því er líkast að vorið sé komið. Hitinn hefur oft verið ofar frostmarki síðustu dagana og stundum skafheiður himinn. Jörðin er alauð, og þarf að líta til fjalla til að sjá fannir, en það er vissulega ekki venjulegt í þorrabyrjun. Í gær var góða veðrið um allt land, fyrir norðan stilla og bjartviðri með ofurlitlu frosti. Austanlands hefur tíðin verið svo blíð, að menn hafa brugðið sér í steypuvinnu til að ljúka byggingum sínum um miðjan janúar.
Þann 24. var enn austanhvassviðri í Vestmannaeyjum og togaraflak (frá því í fyrra veðri) braut úr görðum. Þann 26. nálgaðist síðan dýpsta lægð vetrarins. Tíminn segir frá þann 27.:
Versta veður af suðaustri gekk yfir Reykjavík í gær, og komst veðurhæðin í 12 vindstig í hryðjum. Um fimmleytið í gærdag hafði veður heldur lægt, og hið versta var um garð gengið. 13 vindstig voru á Stórhöfða í Vestmannaeyjum klukkan tvö í gærdag, og 15 metra háar öldur við veðurskipið India,- um 500 km suður af Dyrhólaey. Þetta er eins og vetrarveður geta orðið", sagði Jónas Jakobsson, veðurfræðingur, er blaðið hafði tal af honum laust eftir kl. fimm í gær. Veðri þessu olli lægð, sem um hádegisbilið í fyrradag var suðaustur af Nýfundnalandi og þá ekki beysin. Síðari hluta dags í fyrradag fór lægð þessi að færast í norðaustur, dýpkaði hún þá og færðist öll í aukana. Um klukkan tvö í gærdag var hún 300 km. suður af Vestmannaeyjum, farin að hægja á sér og orðin mjög djúp, 935 millibarar, þar sem loftvogin stóð lægst. - Klukkan tvö í gær voru 13 vindstig í Vestmannaeyjum. Klukkan fimm var farið að hægja um lægðina og veðrið að mestu gengið yfir á Suðurlandi, en færðist norður. Hvasst var þá orðið víða norðan lands, 79 vindstig. Rigning var um mestallt landið. Í Reykjavík voru 8 vindstig klukkan fimm í gær. Við veðurskipið India, um 500 km. suður af Dyrhólaey, risu 15 metra háar öldur, og gerast úthafsöldur ekki öllu hærri.
[kort] Endurgreining japönsku veðurstofunnar nær þessari lægð allvel. Hún fór svo til norðvesturs skammt fyrir suðvestan lands og grynntist ört. Varð þrýstingur hér á landi lægstur í Vestmanneyjum, 942 hPa.
Tíminn hrósar tíðarfari í pistli þann 11.febrúar (stytt hér):
Á meðan þvílíkar hríðar og harðviðri geisa í hinum hlýrri" löndum að fjöldi manna bíður þar lífstjón og lima, minna þorradægrin á Íslandi meira á sæmilega milda aprílveðráttu en yfirstandandi árstíma. Samtímis því, að þykkt snjóskafla í góðlöndum" er mæld í metrum er hér snjólaust að kalla, utan lítilsháttar í fjöllum. Heiða- og fjallvegir, sem löngum liggja undir fönn mánuðum saman, eru nú færir venjulegum bílum.
En hlákan olli líka flóðum - eins og vill gerast á þessum tíma árs. Tíminn segir frá 24.febrúar:
Í gærmorgun dró til tíðinda austur í Rangárvallasýslu er flóðgarðar sprungu á fjórum stöðum. Mest skarð kom í svokallaðan Affallsgarð, þar sem hann liggur nokkurn veginn hvert á tungunni, sem aðskilur Markarfljót og Affall. Hljóp Markarfljót úr farvegi sínum og rauf garðinn á 300 metra kafla. Vatnselgurinn ruddist þar í gegn og kom niður á Suðurlandsveg rétt á móts við Leifsstaði og olli þar nokkrum skemmdum, sem þegar var gert við. Þá komu tvö skörð í svokallaðan Fauskagarð, sem er sunnan við Suðurlandsveg. Þar flæddi vatn úr Markarfljóti yfir varnargarðinn og braut hann á tveimur stöðum, en ekki urðu skemmdir á fleiri mannvirkjum. Einnig brast varnargarður á 3040 metra svæði milli Marðarár og Þórólfsár, rétt innan við Barkarstaði í Fljótshlíð. Vegurinn í Fljótshlíð er einnig mjög skemmdur og reyndar ófær vegna hafta. Leysingarvatn gróf hann sundur við Háamúla, og innan við Múlakot féll aurskriða á hann á 3040 metra svæði, og er aurlagið um 7080 sm. þykkt. Önnur skriða féll vestan við Bleiksárgljúfur, en þar fyrir ofan er landið skógi vaxið. Undir jarðveginum var klöpp, og stendur hún nú nánast ber eftir, en jarðvegurinn og skógargróðurinn liggur á veginum. Símastaur brotnaði við Háamúla, þar sem leysingin gróf veginn sundur, og er nú símasambandslaust við bæina þar fyrir austan. Þegar Affallsgarðurinn brast, hafði rignt samfleytt í 34 tíma í byggð, en þó mun úrkoman hafa verið meiri til fjalla, auk þess sem þar var mikil fönn. Ein heimild blaðsins austur þar lét svo um mælt, að hefði Affallsgarðurinn ekki látið undan, hefði Markarfljót líklega brotið sér leið austan við brúna og skemmt veginn þar stórkostlega og þar með kippt öllum byggðum þar fyrir austan úr vegasambandi. Nú er komin snjókoma fyrir austan og kul til fjalla, svo að vonandi minnkar í vötnunum. Ef vöxtur hlypi í Markarfljót á ný gæti vatnið flætt yfir Markarfljótsaura og lokað veginum austur. Svo mikið var í Þverá í gærkvöldi, að Fljótshlíðarbændur óttuðust, að Þverárgarðurinn (næsti garður ofan við Affallsgarð) hefði brostið. Sá ótti reyndist bó ekki á rökum reistur.
Kirkjubæjarklaustri 23.febrúar. Í morgun.urðu allverulegar skemmdir á veginum austan við Eldvatnsbrú hjá Stóra-Hvammi í Skaftártungu. Austan við aðalbrúna er Önnur minni brú og eru um 150 m milli brúnna. Þar liggur vegurinn á tveggja metra háum garði, og mun hann að mestu eða öllu leyti hafa sópast burt. Austan við minni brúna eru einnig tvö skörð í veginn. Til marks um það, hversu flóðið í ánni var stórfellt, er að venjulega stendur minni brúin á þurru. En þegar mest var í ánni i morgun, sá aðeins á handriðið. Hins vegar mun hafa skort um það bil metra upp á, að vatnsborðið næði gólfi stærri brúarinnar. Tíðindamaður blaðsins átti tal við Sæmund Björnsson í Svínadal, og sagðist hann ekki muna eftir jafnmiklum vexti í fljótinu sem nú. Hverfisfljót í Fljótshverfi óx einnig mjög og rann austan við brúna, en þó mun vegur þar slarkandi.
Stórrigning hefur gengið yfir mikinn hluta landsins að undanförnu, og hafa ýmis vatnsföll verið í foráttuvexti. Sums staðar hefur rigningin og flóðin, sem af henni hafa leitt, valdið tjóni, þótt yfirleitt sé það minna en vænta mátti. Blaðið hafði í gær tal af ýmsum fréttariturum sínum á flóðasvæðunum norðan lands og höfðu þeir m.a. þetta að segja: Blanda gerðist allófrýn í fyrrakvöld, svo að fáir eða engir muna hana slíka. Það var á 9. tímanum i fyrrakvöld, sem hún ruddist fram með þeim hamförum, að hún sprengdi af sér ís allan, sem sums staðar var orðinn álnar þykkur. Í árósnum hlóðst upp ferleg jakahrönn, sem stíflaði framrennsli árinnar, og snöggóx hún þá svo, að hún fyllti farveginn og flæddi inn í þorpið. Rann sums staðar inn í kjallara íbúðarhúsa og það svo mjög, að rúm og dívanar voru á floti. Fjárhús eitt fylltist af vatni, svo að fé var þar á sundi, og varð því bjargað út um glugga. Er hæpið, að sú björgun hefði tekist, ef flóðið hefði ekki sjatnað eins fljótt og raun varð á. Heyfúlga allmikil færðist úr stað, en fór þó ekki um koll. Miklar jakahrannir voru á götunum, en þeim hefur nú verið rutt burt með jarðýtu. Vegurinn norðan Blöndu varð ófær á kafla, en brúna sakaði ekki, þótt aldin sé. Hins vegar bilaði símastrengur, sem lá á milli þorpshlutanna, og var símasambandslaust þar á milli. Manntjón varð ekki, en munaði þó mjóu. Eins og fyrr segir var Blanda á hellugaddi. Tíðkaðist því mjög, að - þeir, sem fara þurftu milli þorpshlutanna, styttu sér leið með því að ganga ána, í stað þess að fara inn á brú. Kvöldið, sem áin ruddi sig, heyrði maður sem býr spölkorn upp með henni á nýbýlinu Kleifum, Magnús Kristinsson, skruðninginn, er hún sprengdi af sér ísinn. Var hann í fjósi við gegningar, þegar þetta gerðist. Þeysti hann þegar í jeppa sinum niður í þorpið til að vara fólk við. Einn maður, Friðrik Indriðason, var á leið yfir ána á ís. Bílstjórinn varaði hann við hættunni. Maðurinn sneri þegar við ,og hljóp til baka. Náði hann landi í tæka tíð, en svo mjóu munaði, að ef hann hefði verið kominn út á miðja á, er nokkurn veginn víst, að hann hefði ekki sloppið.
Í Héraðsvötnum hefur einnig verið hressilegt flóð. Stífla kom í þau undan Höskuldsstöðum í Blönduhlíð um hádegi í gær. Tóku þau brátt að flæða yfir alla bakka og allt upp á tún á bæjum í Akratorfu. Vallhólmurinn fór að verulegu leyti undir vatn. Farið var í jeppa yfir Hólminn upp úr hádegi í gær, og var vatn þá svo djúpt á veginum, að litlu munaði að flyti inn í farartækið. Ekki er vitað um tjón í Skagafirði af völdum vatnsagans.
Tíminn heldur áfram 25.febrúar:
Bergsstöðum í Svartárdal, A-Hún. 24. febrúar. Svartá gerðist allgustmikil núna um miðja vikuna. Fór hún í stólpaflóð, eins og stöllur hennar fleiri, og var jakaruðningurinn gífurlegur. Skemmdir af völdum árinnar urðu sums staðar nokkrar. Hún braut niður girðingar, þar sem hún náði til þeirra, og símastaura kvistaði hún á tveimur stöðum, hjá Skottastöðum og hér utan við Bergsstaði. Tilfinnanlegast var þó það, að hún tók af og eyðilagði göngubrú, sem yfir hana lá hjá Eiríksstöðum. Var brúin á járnstólpum og lagði jakaruðningurinn þá útaf. Mun brúin vera með öllu ónothæf. Er þetta mjög illt, þó að brúin væri aðeins fær gangandi mönnum, því að hún var til mikils hægðarauka .
Þann 26.febrúar féll allmikil skriða úr Fossnúp, skammt austan við Foss á Síðu. Rann hún á 2-400 m kafla yfir veginn og reif með sér símastaura (Tíminn, 28.febrúar).
Enn ollu eldingar tjóni. Tíminn segir þann 4.mars:
Frá fréttaritara Tímans Hvolsvelli. Um hádegisbilið í gær [þann 3.], eða nánar tiltekið klukkan hálfeitt, laust niður eldingu í íbúðarhúsið að Keldum á Rangárvöllum. Upp á lofti í húsinu er rafmagnstafla og splundruðust öll öryggi í henni er eldingin kom niður í þakið. Eldur komst í gluggatjöld, og rafmagns- og símalínur rofnuðu. Nokkrar skemmdir urðu einnig á málningu af völdum elds og reyks. Þá urðu dálitlar skemmdir á kirkjunni, sem stendur í hlaðinu á Keldum, en rafmagnslína liggur þangað frá bænum. Bóndinn á Keldum, Lýður Skúlason, var staddur í stofu sinni, þegar eldingunni laust niður, og vissi hann ekki fyrr til en blossinn stóð inn í stofuna. Auk bóndans voru heima við bróðir hans og sonur. Eldur læstist í gluggatjöldin í|stofunni, en fljótlega tókst að ráða niðurlögum hans, og munu ekki hafa orðið frekari skemmdir á íbúðarhúsinu, en þegar hefur verið frá sagt. Eins og áður segir laust eldingunni i niður í þakið, og komst í rafmagnstöflu, sem var uppi á loftinu. Þaðan hefur svo straumurinn hlaupið um allt húsið og út í kirkjuna, því að rafmagnslína liggur þangað frá bænum. Fuku trélistar af stafni kirkjunnar, en ekki var vitað um meiri skemmdir á henni. Hross voru í hlaðvarpanum og hafa þau fælst illilega, því að þau voru ófundin, er blaðið hafði tal af fréttaritara sínum um klukkan hálfþrjú í gærdag. Þar sem símasambandslaust var við bæinn á Keldum, tókst Tímanum ekki að ná tali af bóndanum sjálfum, en hringdi til Sigurðar Egilssonar, bónda í Stokkalæk, en um tuttugu mínútna gangur er milli bæjanna. Sagðist honum svo frá, að þar á bæ hefðu engar skemmdir orðið utan þess, að öryggi sprungu og pera sömuleiðis í lampa nokkrum. Taldi hann að eldingarinnar hefði ekki orðið vart á fleiri bæjum. Stórt haglél var á, er þessi atburður varð, en Sigurður taldi það mikla mildi, að bjart var af degi, er eldingunni laust niður, því að ómögulegt væri að segja, hverjar afleiðingarnar hefðu orðið, ef þetta hefði skeð um hánótt og fólk á Keldum verið í fastasvefni.
Talsverð ófærð var á vegum í mars og fram eftir apríl og kom leiðin norður í land oft við sögu hrakninga. Við látum vera (að mestu að rekja þetta). Þann 24. fórst bátur í illviðri á Húnaflóa.
Mjög kalt var um páskana (páskadagur 2. apríl). Tíminn segir frá þann 5. apríl:
Þessir páskar hafa verið með alkaldasta móti. Í gærmorgun var 17 stiga frost á Grímsstöðum á Fjöllum og 25 stiga frost í Möðrudal [fór þar reyndar í -28,3 stig aðfaranótt 4.]. Tíminn átti í gærdag tal við Jón Eyþórsson veðurfræðing um veðráttuna. Jón kvað þetta veðurfar vera alveg eðlilegt meðan jafn kyrrt er, snjór er á jörðu og Grænlandsloft streymir yfir landið, eins og undanfarið hefur verið. Heldur er nú farið að réna háþrýstisvæðið, sem verið hefur yfir Grænlandi og Íslandi. Má því búast við að heldur fari að draga úr frosthörkunni. Síðdegis í gær var hægt frost vestan lands og jafnvel frostleysa á annesjum. Norðanáttin hafði vikið fyrir hægri suðvestanátt. Við megum því búast við batnandi veðri næstu daga.
En aftur gerði mikið kast undir miðjan mánuð. Þá tepptust vegir aftur illa og við berum niður í fréttir Tímans 16.apríl (styttum þó verulega):
Í fyrrinótt [aðfaranótt 15.] voru 75 manns teppt við sæluhúsið á miðri Holtavörðuheiði í stórhríð og ófærð. Allt þetta fólk var á norðurleið á samtals 28 ökutækjum, sem lögðu á heiðina frá Fornahvammi um hádegið í fyrradag, og ætlaði flokkurinn að brjótast yfir með aðstoð tveggja ýtna frá vegagerðinni, sem fóru fyrir og ruddu af veginum. Óvenjumikill snjór er nú á heiðinni, og í fyrradag og gær, er þetta var ritað, var norðan- eða norðaustan hvassviðri með linnulausri fannkomu. Þegar bílalestin var komin upp að sæluhúsinu á heiðinni, bilaði önnur ýtan, og þótti þá ekki ráðlegt að halda lengra.
Norðangarður sá, sem gengið hefur yfir undanfarna daga og komið mönnum í opna skjöldu nú með vorinngöngunni, eftir alla veðurblíðuna í vetur, virðist heldur að ganga niður. Verulegri fönn hefur hlaðið niður á heiðum og í snjóasamari byggðarlögum og af hlotist samgöngutruflanir og ýmiss konar erfiðleikar.
Síðan hlýnaði aftur. Tíminn segir frá 27.apríl:
Í bráðaleysingu um daginn hljóp mikill vöxtur í Víðidalsá í Húnaþingi, og skaddaðist brúin, líklega af jakaruðningi, svo að nú er talin hætta á að hún brotni undir þungum farartækjum. Hefur vegamálastjórnin gefið út bann við, að farartæki, sem þyngri eru en 5 smálestir, fari yfir brúna. Eftir stórhríðarnar um daginn gerði bráðan þey, og ruddi þá áin sig, og hljóp í hana geysilegur vöxtur. Brotið er úr stöplinum undan öðrum bita brúarinnar, og er viðbúið, að hún brotni, ef mikill þungi fer yfir. Enn er mikill vöxtur í ánni, þótt nokkuð hafi sjatnað, og það er mikill snjór til fjalla, svo að líklega helst áin mikil fyrst um sinn.
Mjög slæmt hret gerði seint í maí. Tíminn segir frá 24. og 26. maí (verulega stytt hér):
[24.] Um Vestfirði, Norðurland og Austurland var í gær ofsarok og snjókoma. Frá Ísafirði bárust blaðinu þær fréttir, að þar hafi í allan gærdag geisað stórhríð, jörð sé orðin alhvít og heiðar ófærar. Á Akureyri var bálhvöss norðanátt og hiti kominn undir frostmark síðdegis í gær. Á Seyðisfirði var blindhríð seint í gær, en hafði verið gott veður í gærmorgun.
[26.] Nú er farið að lægja norðanofsann, sem gerði í fyrradag um land allt, en afarkalt er enn. Kuldakastið gerði mjög skyndilega, sérstaklega á Vestfjörðum, og urðu þar skaðar á bátum, en annars höfum við ekki fregnir af tjóni af völdum veðursins annars staðar.
Ísafirði, 24. maí. Í aftakaveðrinu hér á Vestfjörðum fuku tveir bátar í Bolungavík og skemmdust illa. Þar var veður byljótt og gekk á með hvirfilvindum, og rekur íbúa staðarins ekki minni til hliðstæðs veðurs þar. Annar þess-ara báta, Frímann, eign Gunnars Egilssonar, tæpar tvær smálestir að stærð, stóð uppi á malarkambi í fjörunni og var festur í gangspil, sem var tjóðrað niður rammlega með grjóti. Allt í einu kom hvirfilvindur og reif upp gangspilið, og kastaði því drjúgan spöl til. Báturinn dróst með því, og færðist um tvær bátslengdir. Í honum brotnuðu fjögur borð og 9 bönd. Hinn báturinn, 1,5 smálestir að stærð, eign Guðfinns Jakobssonar, stóð einnig uppi á malarkambinum. Hann tókst á loft og valt síðan langs eftir kambinum einar tvær veltur. Hann er allur brotinn og bramlaður. Nú er veður hér allt skaplegra, en stinningskalt ennþá.
Enn gerði slæm hret í júní. Þann 3. varð alhvítt á Hólum í Hjaltadal. Tíminn segir frá þann 20.:
Frá fréttariturum Tímans á Akureyri og víðar. Vonskuveður geisaði um norðanvert landið um síðustu helgi. Víða snjóaði í fjöll, og fjallvegir tepptust sums staðar. Fréttir berast og um nokkurn lambadauða, en teljandi skaðar munu þó ekki hafa orðið. Bændur á Hólsfjöllum segja, að þar hafi brostið á þreifandi norðanhríð í fyrrinótt, og stóð veðrahamurinn fram eftir degi i gær. Varð öll jörð þar fannhvít á skammri stundu og víða dró í skafla, sem náðu sums staðar tveggja metra þykkt. Lömb fundust á nokkrum stöðum i snjó, og einnig munu þau hafa farið í læki og ársprænur, sem fylltust krapi. Eindæma ótíð hefur verið þar eystra, það sem af er sumri, og er gróður því mjög seint á ferðinni af þeim sökum. Horfir uggvænlega fyrir bændum á Hólsfjöllum, ef ekki rætist úr með veðráttuna. Sem dæmi um veðurofsann má nefna það, að í gærmorgun tepptist Vaðlaheiði um tíma, og komust bílar, sem lagt höfðu á heiðina, ekki leiðar sinnar, nema með aðstoð ýtu. Langferðabíll á leið til Húsavíkur sat fastur, en á eftir honum biðu 14 smærri bílar eftir því að vera dregnir yfir verstu kaflana. Nú hefur hins vegar hlýnað aftur í veðri þar nyrðra, að sögn fréttaritara, og hverfur þá snjór fljótlega úr heiðinni. Ekki mun þó Siglufjarðarskarð hafa teppst, og | má þakka það því, hve átt var austlæg. Í Húnavatnssýslu var versta veður yfir helgina, rigning og kuldi, en snjókoma til fjalla. Vegna veðurhæðarinnar leituðu vel flest skip vars á 17. júní. Við Grímsey lágu um 30 norsk skip í vari, en á miðunum þar voru nærri tíu vindstig. Á Skagaströnd lágu 16 skip við festar yfir helgina, en flest þeirra eru nú farin út á veiðar. Mikill fjöldi skipa lá í höfn á Siglufirði, en flest þeirra héldu út á veiðar, snemma í gærmorgun, enda veður þá tekið að lægja.
Lægðin sem olli þessu veðri var sérlega djúp, þrýstingur fór niður í 967,9 hPa á Kirkjubæjarklaustri þann 16. Svo neðarlega hafði þrýstingur ekki komist í júní hér á landi síðan 1894 og hefur aðeins einu sinni síðan farið neðar (957,5 hPa á Stórhöfða þann 11. árið 1983). Ingibjörg í Síðumúla segir frá óvenjulegu veðri:
Í síðustu viku mánaðarins gerði aftakavont veður fremst í Hvítársíðunni með roki og krapahríð, skeði þá sá fágæti eða einstæði atburður að nokkrar ær úr Reykholtsdal króknuðu, var verið að reka á fjall nýrúið fé. Reksturinn var kominn fram í Hvítársíðukrók þegar ærnar króknuðu, en þá var komið fram á kvöld. Hér í Niðursíðunni var þetta kvöld meinlaus rigning, eins og oft áður.
Í júlí komu kaldir dagar - Tíminn segir frá þann 19.:
Frá fréttaritara Tímans í Þykkvabæ. Miklir kuldar hafa verið hér í sveit það sem af er vori og sumri, og er kartöfluspretta því óvenju hægfara þetta sumarið. Ekki munu þó kartöflurnar hafa orðið fyrir miklum skemmdum vegna kuldans, en hann hefur staðið fyrir vexti þeirra. Í júnímánuði var samt dálítið frost í görðum, en lítið var komið upp af kartöflum, svo að skemmdir urðu litlar. Sem dæmi um kuldana má nefna, að aðfaranótt síðastliðins miðvikudags [12.] voru gluggar hrímaðir.
Eftir erfiða heyskaparbyrjun fór að ganga sæmilega vestanlands, en nyrðra og eystra hélst erfitt tíðarfar og kuldar og rigningar voru viðloðandi. Einnig var talsvert kvartað undan tíð á Suðurlandi.
Tíminn segir 1. ágúst:
Í fyrradag og um nóttina var, víða geysileg rigning á Norður- og Norðausturlandi. Á Akureyri var rigningin sem skýfall og allt flóði í vatni. Miklar, skemmdir hafa viða orðið á heyjum.
September var í (stopulu) minni ritstjóra hungurdiska nokkuð góður, en fréttir segja þó af töluverðum illviðrum, aðallega af austri. Byrjaði slíkt strax í ágúst.
Tíminn segir 3.september frá illviðri 26.ágúst:
Skagaströnd 28 ágúst. Á föstudag síðastliðinn [25.] gerði hér mikið rok, er stóð allt til laugardags. Var veðurhæðin allt að tólf vindstig í snörpustu hryðjunum. Allmiklir
heyskaðar urðu af völdum stormsins. Hey, sem stóð úti, fauk, og einnig mun rokið hafa sópað nýslegnu heyi af túnum.
Ingibjörg Guðmundsdóttir athugunarmaður í Síðumúla lýsir septembermánuði:
September var úrkomusamur, en mjög mildur. Engin frostnótt, kartöflugras var ófallið þegar tekið var upp úr görðum rétt fyrir mánaðarlokin. Minnstur næturhiti var 0,8 stig þ. 24., en þá fraus á jörð til fjalla og niður undir láglendi. Heyskapartíð var erfið sakir votviðra, en endaði þó farsællega. Tún eru græn, en á úthaga slær gulum haustlit. Kýr ganga enn sjálfala.
Tíminn segir frá úrhelli og óveðri september í nokkrum pistlum (við styttum þá lítillega):
[19.] Ólafsfirði í gær. Hér rigndi þau ósköp frá því á föstudagskvöld [15.] til sunnudagsmorguns [17.], að helst leit út fyrir, að allar flóðgáttir himins væru opnaðar. Mikill vöxtur hljóp í ár og læki, svo að allt láglendi fór í kaf í flóði, og náði flóðið alla leið hér heim að bænum. Ár og lækir flóðu yfir tún og engjar og hafa valdið stórskemmdum á landi, aðallega á fjórum jörðum hér frammi í sveitinni. Svokallaður Merkislækur í Burstabrekku á Hlíðarlandi hljóp fram og bar með sér svo mikið grjót og leðju, að lækjargilið, sem er talsvert djúpt, fylltist gjörsamlega við þjóðveginn. Þar færðu skriðuföllin nokkurn hluta vegarins í kaf, en hann er nú ófær öllum bifreiðum. Enn fremur bar lækurinn aur og leðju á ræktað land, sem liggur þar að, og skemmdi það talsvert. Í Burstabrekkuána, sem er Þverá, hljóp mikill vöxtur. Hún braust út úr farvegi sínum á tveim stöðum niður á eyrum og eyðilagði nýrækt, bæði í Burstabrekku og Hlíðarlandi. Talið er að áin hafi eyðilagt tvo og hálfan til þrjá hektara af ágætu landi með framburði sínum. Smáskriður féllu víða úr Hólkotshyrnu og stórskemmdu engjar í Hólkotslandi, en ræktað land slapp við skemmdir. Þá féll mikil skriða í svokallaðan Gránulæk í Vatnsendalandi og olli miklum skemmdum, bæði á túni og mannvirkjum. Lækurinn fór í þann ógnarlega ham, að hann braut af sér tvær brýr, aðra steinsteypta, fimm metra breiða. Hana flutti lækurinn hátt á annað hundrað metra. Þá fyllti hann tveggja metra breiðan skurð neðan við túnið með grjóti og leir. Enn fremur flæddi hann yfir hluta af túninu og gjöreyðilagði á að giska einn hektara af ræktuðu landi. Vegurinn þarna er nú ófær öllum bifreiðum. Í Ósbrekkufjalli var óhemjuvöxtur í Öllum lækjum. Þar niður undan flæddi yfir nokkuð af sjúkraflugvellinum, en ekkí er sjáanlegt, að vatnið hafi fært ofaníburðinn til að nokkru ráði. Þá tepptist vegurinn yfir Lágheiði öllum smærri bílum, því að lækur hérna megin heiðar gróf veginn í sundur. [Þ]etta eru ein mestu flóð, sem hér hafa komið. Nú er hægviðri en gengur á með skúraleiðingum,
[20.] Blaðið hafði tal af Kristjáni Wíum, fréttaritara á Vopnafirði, í gær. Sagði hann, að veðrinu hefði slotað á sunnudagsmorguninn [17.]. Þverá hafði þá grafið undan öðrum brúarvængnum. Brúin er nú lögst ofan í farveginn með tveggja metra halla, brotin. Kindur fórust í Hofsá og Þverá, og Selá gerði spjöll á túnum í Engihlíð og Refsstað. Göngur hófust í gær, degi á eftir áætlun. Má búast við, að ekki verði komist um sum svæði á_ afréttinum sakir aurbleytu. Úrkoman hefur sennilega verið enn stórfelldari til heiða, en árnar eiga upptök langt inn á afrétti. Vöxturinn í þeim var með fádæmum mikill og skyndilegur.
[22.] Mýrdal 21. september. Fyrir rúmri viku gerði hér óvenjulegt veður. Þetta var dagana 13. og 14. sept. Stormur var með því versta, sem hér hefur komið, og sjógangur afskaplegur. Grandinn milli Dyrhólaeyjar og Reynisfjalls var allur einn iðandi sjór, og í Vík gekk sjór upp að fremstu húsum. Bárur frá sjó bárust upp eftir ánni alla leið að Víkurbrú. Var að vísu stórstreymt um þessar mundir, en samt er þetta óvenjulegt. Það merkilega var, að þetta gerðist ekki í opinni hafátt, heldur í austanveðri. S.E.
[23.] Í fyrrinótt (aðfaranótt 22.) var ofsaveður víða um sunnanvert landið, rok og rigning. Ekki hafa þó borist fréttir af stórfelldum sköðum af völdum veðursins. Í Reykjavík bar þó svo til, að ýmislegt lauslegt fauk af þaki 11 hæða háhýsis að Sólheimum 27, en hús þetta hefur félagið Framtak í byggingu. Er smíðinni ekki lokið og ógengið frá þaki hússins. Þetta lenti á allmörgum bifreiðum, sem stóðu við húsið, að því er lögreglan tjáði blaðinu í gær. Það, sem af þakinu fauk, var af ýmsu tæi, trjáviður, steinar og möl, naglar o.fl. Augljóst er, að ganga verður tryggilega frá öllu hreyfanlegu á húsaþökum í rysjóttu tíðarfari, þegar flestra veðra er von. Auk þess er fokhættan meiri, er byggingin teygir sig hátt í loft.
[24.] Alla síðastliðna viku mátti heita, að væri hið versta veður í Rangárvallasýslu, átta til tíu vindstig, og oft lamstursrigning. Þetta hefur ekki aðeins valdið því, að meginhluti hinna miklu kornakra þar eru enn óslegnir, heldur er sýnilegt, að stórtjón hefur þegar orðið. Sennilega hefur korn, sem að verðmæti nemur hundruðum þúsunda farið forgörðum í þessum veðrum.
Október var nokkuð umhleypingasamur og varð alloft staðbundið tjón vegna foks. Tíð var talin hagstæð vestanlands, en úrkomusamt var eystra, og norðan til á Vestfjörðum. Þann 16. urðu skemmdir urðu á hafnarmannvirkjum á Húsavík og bátur brotnaði í Grímsey. Bátar lentu í hrakningum við Norðurland. Þann 23. urðu ýmsar skemmdir á mannvirkjum á Siglufirði. Skip rak á land, girðingar fuku og gluggar brotnuðu. Einnig urðu skemmdir á Seyðisfirði. Skúr fauk og sjór flæddi í kjallara. Úrkomumælir Veðurstofunnar brotnaði. Þann 25. varð minniháttar foktjón í Reykjavík, plötur fuku af húsum og skemmdu raflínur, nokkrar trillur sukku í höfninni. Járn fauk einnig af húsum í Vestmannaeyjum. Þann 28. fuku þakplötur fuku undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og Álftaveri og kindur fórust í Öræfum. Lítil flugvél fauk og skemmdist í Vík í Mýrdal. Símaskemmdir urðu vegna ísingar.
Þann 26. hófst eldgos í Öskju, nokkur aðdragandi hafði verið að gosinu, stóraukin hveravirkni og sprungumyndun. Talsvert hraun rann og umræður spunnust um flúormengun. Það var einnig þetta haust sem rússar sprengdu sína stærstu vetnissprengju og kjarnorkuógnin var viðvarandi, m.a. í umræðum um stóraukna geislavirkni í andrúmslofti.
Tíminn segir af skemmdum undir Eyjafjöllum í veðrinu þann 28. október í pistli þann 31.:
Frétt undan Eyjafjöllum: Hér gekk ofsarok yfir í gær kvöldi, með því versta, sem hér verður. Símalínur slitnuðu víða, og á tveimur bæjum urðu veruleg spjöll af veðrinu. Á Steinum, hjá Bárði Magnússyni bónda, fuku 8 plötur af nýlegu fjósþaki. Undir þakinu voru bitar, að neðan fóðraðir með asbesti, og sogaðist sumt af asbestinu upp og brotnaði. Á sama bæ fuku fjórar plötur af íbúðarhúsi, en það er gamalt hús. Gömul hlaða var á bænum, nú notuð fyrir verkfærageymslu, af henni tókst þakið í heilu lagi. Einnig stóðu tveir gamlir kofar úti í túni á Steinum, með hellu og torfþökum, og fuku þau bæði með öllu, gamalgróin þök. Á næsta bæ, Hvoltungu, fuku 30 plötur af nýju íbúðarhúsi. Það þak var sett á í sumar. Þar brotnuðu einnig rúður, bæði í íbúðarhúsinu og fjósinu, vegna grjótfoks og annars lauslegs. Á þessum bæjum nær norðaustanáttin sér betur upp en nokkurs staðar annars staðar. Vindarnir dynja á neðan að, og brakið, sem þeir rífa með sér, fer alla leið upp í hamra. Hviðurnar eru líkari höggum en blæstri. Eitthvað af fokjárninu hefur fundist, en ekki allt, og allt ónýtt, sem fundist hefur. Fokstur þessi getur verið hættulegur fyrir skepnur, en ekki er vitað til, að slys hafi orðið á þeim.
Ingibjörg í Síðumúla telur tíð í nóvember hagstæða. Þá gerði þó eitt mjög eftirminnilegt illviðri. Mikla rigningu gerði sunnan- og vestanlands um miðjan mánuð. Óvenjumikið rigndi í lágsveitum Suðurlands, t.d. yfir 100 mm á Eyrarbakka og í Laugardælum. Sólarhringsúrkoma hefur aldrei mælst meiri á Lambavatni á Rauðasandi, 106,4 mm. Yfir 100 mm mældust einnig í Kvígindisdal við Patreksfjörð, en þar hefur nokkrum sinnum áður og síðar mælst ámóta úrkoma eða meiri.
Tíminn segir frá rigningum og skriðuföllum í pistlum 15.nóvember:
[15.] Selfossi 14. nóvember. Í fyrrinótt tók að rigna ákaflega hér um slóðir og rigndi ofsalega í gær og fram á nótt. Urðu spjöll af vatnavöxtum, bæði á vegum og húsum, hér og víðar í sýslunni. Á Selfossi flæddi inn í kjallara húsa, og a.m.k. á einum stað vakti maður í alla nótt við að ausa út úr íbúð sinni. Nokkur hús voru algerlega umflotin vatni, og sumar göturnar líkari lækjum en brautum. Í Grímsnesi fór Kiðjabergsvegur í sundur og er ófær, sama er að segja um Gaulverjabæjarveg og er ófært að og frá nokkrum bæjum þar. Þá rann úr Suðurlandsvegi skammt sunnan við Kögunarhól undir Ingólfsfjalli, en ýtur fóru á vettvang strax í nótt til þess að veita frá veginum, og varð hann ekki ófær.
Mikið tjón af skriðuföllum og vatnavöxtum kringum Patreksfjörð. Annan sólarhring þessarar viku hefur mikið vatnsveður gengið yfir vestanvert landið og valdið skriðuföllum og flóðum. Tún hafa skemmst af þessum sökum og vegasamband víða rofnað. Í gær barst svohljóðandi skeyti frá fregnritara blaðsins á Patreksfirði: Síðastliðinn sólarhring hefur verið hér hvöss sunnan átt með mjög mikilli rigningu. Mikill vöxtur hljóp í allar ár og læki, enda hafði undanfarið snjóað nokkuð á fjöll, og leysti nú allan þann snjó. Í Kvígindisdal mældist einhver mesta úrkoma, sem mælst hefur síðan veðurathuganir hófust þar fyrir um 30 árum, eða 101 mm yfir sólarhringinn. Á Lambavatni á Rauðasandi mældist úrkoman milli veðurathugana frá kl. 8 í gærmorgun til kl. 17 í gærdag 100 millimetrar. Miklar skemmdir hafa orðið af vatnavöxtum og skriðum. Vegurinn kringum Patreksfjörð að Örlygshöfn er ófær. Á hann hafa fallið skriður, aðallega á Skápadalshlíð og framan í Hafnarmúla. Vegurinn yfir Kleifaheiði á Barðaströnd er einnig ófær vegna skriðufalla í svokölluðum Kleifum, (skammt upp af Ósafirði, sem er innsti hluti Patreksfjarðar). Jeppabifreið, sem var á leið inn að Barðaströnd í gær tepptist er aurskriður runnu bæði fyrir framan og aftan bifreiðina. Á veginn niður Bjarnkötludal á Rauðasandi hafa fallið margar skriður og er hann algerlega ófær. Á Rauðasandi hafa skriður fallið á tún þriggja jarða og skemmdir orðið miklar. Í Kirkjuhvammi hefur eyðilagst um 30 hesta tún. Þykk aur og malarskriða hefur fallið kringum fjárhús á túninu og teppt aðgang að þeim. Margar skriður hafa fallið á beitiland jarðarinnar. Í Gröf féll skriða og fyllti gamla hlöðutóft og síðan fram á túnið. Tvær skriður féllu á túnið á Stökkum og urðu miklar skemmdir á túninu. Í Gröf og Stökkum hafa vatnsból fyllst af skriðuföllunum, og er vatnslaust á báðum bæjunum.
Versta veður ársins gerði 22. til 24. nóvember. Myndin sýnir forsíðu Tímans þann 25.:
Tíminn 25.nóvember
Á fimmtudaginn brast á norðan fárviðri með stórhríð um allt Norður- og Norðausturland. Um kvöldið og nóttina gekk sjór á landið upp í mörgum kaupstöðum, allt frá Þórshöfn til Sauðárkróks og olli miklum skemmdum á hafnarmannvirkjum, íbúðarhúsum, vörugeymslum og verksmiðjum. Um miðjan dag í gær dró niður ofsann, en undir kvöldið harðnaði veðrið aftur. Búist var við nýjum stórskemmdum á næturflóðinu.
Fréttaritari blaðsins á Þórshöfn símar: Á Þórshöfn var ofsaveður í fyrradag og fyrrinótt. Á næturflóðinu gekk brimið inn í þorpið og olli þar stórskemmdum. Í gærmorgun voru göturnar þaktar fjörugrjóti og braki, líkt og sprengjuregn hefði fallið á þorpið. Um nóttina hafði fólk flúið úr átta íbúðum, þar sem sjór gekk inn. Þar urðu miklar skemmdir á fatnaði, matvælum og annarri búslóð. Sumar þessara íbúða voru í kjöllurum, aðrar á götuhæð. Um nóttina braut upp á útidyrahurðina á annarri hæð í gamla læknisbústaðnum, sem stendur fremst á sjávarkambinum. Húsið er kjallari og tvær hæðir. Bílskúr þar sem tveir bílar voru geymdir, skolaðist burt, en bílarnir eru skemmdir. Sjórinn gekk inn í annan bílskúr, sem stendur nokkuð frá sjó, braut upp hurðina og ýtti bílnum út í gegnum skúrgaflinn, sem var klæddur með asbesti. Þá gekk sjórinn inn í vöruhús kaupfélagsins og eyðilagði mikið af vörum, sement, áburð, þakjárn og fleira. Í gærmorgun voru þar fimm pokar á kafi í stæðuröð. Vegurinn suður með firðinum til Þistilfjarðar er stórskemmdur og óakfær með öllu. Vegurinn út á Langanes, norðan Sauðaness, er stórskemmdur á löngum kafla. Sums staðar er hann rifinn burt, annars staðar á kafi í vatni eða hann liggur undir malarhrönnum. Þó var brotist með bíl eftir þessum vegi í gær. Sjórinn reif skörð í malarkambinn norðan við flugvöllinn og flæddi yfir hann. Svo mikið vatn er á flugvellinum, að ekki er hægt að giska á skemmdirnar. Um nóttina brotnaði kjölur undan fjögurra tonna bát, sem búið var að setja. Tveir aðrir bátar, sem búið var að setja, dingluðu í böndunum, en þeim varð bjargað. Bátana úti á legunni sakaði ekki. Hafnargarðurinn er skemmdur, en hve mikið veit enginn. Hausinn virðist siginn, en sést ógjörla fyrir brimróti. Í gær lægði um stund, en þegar á daginn leið, tók aftur að hvessa Búist var við enn meiri sköðum á næturflóðinu. Þrír beitingaskúrar sópuðust burt í fyrrinótt, en tveir eru stórskemmdir. Fullir og tómir línustampar skoppuðu í sjó inn. Á Langanesi var fé úti á flestum bæjum. Ekki er vitað, hvernig því hefur reitt af, því að aðeins var leitarfært í nánd við bæina í gær. Í austurhluta Þistilfjarðar var allt fé í húsum. Brimið sem gekk upp í Þórshöfn í fyrrinótt, er það mesta, sem þar hefur komið síðan 1934.
Símasambandið við Raufarhöfn slitnaði í fyrradag og sambandið við Kópasker rofnaði í gær. Af þessum sökum hefur ekki verið hægt að fá áreiðanlegar fréttir frá þessum stöðum, en fréttaritarar blaðsins annars staðar norðanlands telja, að verulegt tjón hafi orðið á báðum þessum stöðum. Truflanir hafa orðið á símasambandi við fleiri staði norðanlands í þessum veðraham. Blaðið hafði tal af Áskatli Einarssyni, bæjarstjóra á Húsavík. Hann sagði, að þar væri mikil veðurhæð og sjógangur. Í fyrrakvöld var þar foráttuveður. Ein trilla sökk í höfninni, og unnið var að því að bjarga bátnum þar í gær. Þá gekk sjórinn upp á hafnarfyllinguna.
Fréttaritari blaðsins á Akureyri sagði vegi orðna þungfæra í Eyjafirði. Þar var mikil veðurhæð í dag og snjógangur svo mikill, að tæplega sá milli húsa á Akureyri. Rafmagnsskömmtun var hafin á Akureyri í fyrrakvöld. Í gær mátti sjá fólk skjótast milli húsa með olíubrúsa og gaskúta, hlaupandi í hríðarkófinu, óþekkjanlegt í dúðum.
Fréttaritarinn í Hrísey sagði, að þar hefði staðið yfir linnulaus stórhríð á annan sólarhring. Sjórinn hefur tætt bárujárnið af gafli síldarbræðslunnar og eyðilagt vélar og raftæki þar inni. Þá hefur sjórinn rifið plötur af gafli lýsisbræðslunnar og í tveim öðrum húsum liggur undir sjógangi. Má gera ráð fyrir, að mjöl í 700800 sekkjum sé að mestu ónýtt. Skreið liggur undir sjó, meira en pakkaþykkt. Í gær var farið á bát fyrir ofan frystihúsið, þar sem er venjulegur stígur. Fram á hafnarfyllinguna er ekki fært nema í klofháum stígvélum. Sjórinn hefur gengið upp undir brunnana, en þeir eru á annað hundrað metra frá sjávarbakkanum. Neysluvatn var illdrekkandi vegna saltbragðs. Tíu bátar eru á legunni, en þeir verða ekki eygðir fyrir sjógangi. Árið 1936 gekk mikið brim á land í Hrísey og olli þar spjöllum. Þá var kallað Sjóskaðaveður. Þetta er mesta brim, sem komið hefur í Hrísey síðan þá, en mun meira.
Fréttirnar frá Dalvík bárust um Akureyri. Þar var ofsaveður í fyrrinótt og hríð í gær. Brimið hafði tekið ofan af nokkrum hluta nýja hafnargarðsins. Hafnaruppfyllingin hafði látið undan átökunum.
Ólafsfjörður: Fréttaritari blaðsins á Akureyri hafði fréttirnar frá Ólafsfirði. Þar gekk sjórinn hátt á land í fyrrinótt. Allir Ólafsfjarðarbátar komu úr róðri á miðvikudaginn og voru inni þegar veðrið skall á. Ólafur Bekkur varð að flýja til Hríseyjar. Um kl.7 í fyrrakvöld ætlaði Sæþór, 155 tonna bátur, að flýja úr höfninni, en sogið í hafnarmynninu, sneri honum við, þannig að stefnið vissi inn. Í næstu andrá kastaðist Sæþór á hafnargarðinn og dældaðist á honum. Bátnum var svo rennt upp í fjöruna og þar liggur hann. Erfitt var að verja bátana í höfninni í fyrrinótt. Þeir voru allir mannaðir og vélar keyrðar alla nóttina. Einn bátur, Guðbjörg, slitnaði upp. Henni var beitt upp í vindinn og haldið á móti allt til morguns. Í nágrenni Ólafsfjarðar er enginn vegur bílfær.
Fréttaritari blaðsins á Siglufirði sagði, að þar hefði verið hríðarveður í gær og fyrradag. Flóðvarnargarðurinn utan á eyrinni er brostinn á kafla. Í fyrrakvöld og fyrrinótt gekk mikill sjór inn á eyrina og flæddi í kjallara og íbúðir á götuhæð nokkurra húsa. Sums staðar varð fólk að flýja íbúðir. Búist var við miklu meira brimi á flóðinu í gærkvöldi. ... Í gær var talsverður snjór á götum í kaupstaðnum, en ekki mjög hvasst. Upp undir skarðinu er fannkyngi.
Á Sauðárkróki var iðulaus stórhríð í gær og fyrradag. Sjórinn gerði mikil landbrot. Til dæmis var undirstöðunni skolað frá beituskúr, sem stendur nálægt sjávarbakkanum. Skúrinn hékk uppi, en framhliðin var fallin. Þá gekk sjór yfir, veginn austan við flugvöllinn. Engir mjólkurbílar voru hreyfðir í Skagafirði í morgun.
Á Blönduósi var hávaðaveður. Mjólkurbílum þótti ekki fært á sumum leiðum í Húnavatnssýslum í gær. Hvorugur áætlunarbílanna að norðan eða sunnan komu til Blönduóss í gær. Áætlunarbíllinn að sunnan fór út af veginum í Miðfirði. Engan sakaði. Fólkið komst áfallalaust að Húsabakka.
Ekki er kunnugt um verulegt tjón af völdum ofviðris á Austfjörðum. Á Vopnafirði var illveður í fyrrinótt. Sjór sópaði nokkrum síldartunnum af bryggjunni og tvö steinker, sem búið var að hálfsökkva í höfninni, slógust saman, en brotnuðu ekki. Á Vopnafirði var hægur vindur og bjartviðri í gær. Á Seyðisfirði var fárviðri og snjókoma í fyrradag. Þar fauk bílskúr út á sjó, og sást ekki urmull eftir af honum. Fjarðarheiði var farin á bílum í fyrradag, en þeim gekk illa sökum dimmviðris. Heiðin var fær í gærdag og veður batnandi. Á Reyðarfirði var hvassviðri en lítil snjókoma i fyrradag. Engir skaðar urðu í rokinu. Í Neskaupstað gekk á með hvössum norðvestan rokum, en engin spjöll urðu. Þæfingur er á Oddsskarði, en talið fært bílum með tvöföldu drifi.
Ofsarok var á Vestfjörðum í gær og mikil fannkoma og var búist við, að það héldist áfram í nótt og dag. Norðanáttin byrjaði á miðvikudagsmorgun [22.] nokkuð snögglega, en jókst svo í fyrradag allan og um nóttina og náði hámarki undir gærmorgun. Þá dró lítils háttar úr veðrinu, en í gær hélst veðurofsinn áfram svipaður. Margir bátar voru að veiðum, þegar ofsinn skall á á miðvikudaginn, og urðu margir þeirra fyrir talsverðu línutjóni, og er sömu sögu að segja frá öllum Vestfjarðahöfnum. ... Tveir fengu brotsjói. Allir bátar komust heilu og höldnu í höfn, en ekki allir klakklaust. ... Allar heiðar og fjallvegir á Vestfjarðakjálkanum voru orðnar ófærar í gær og víða var einnig ófært innan héraðs. Ekki er vitað, að menn hafi lent í hrakningum neins staðar vegna þess.
Fleiri skaðafréttir bættust við. Tíminn segir þann 28.nóvember:
Það var helst frétta frá Raufarhöfn, að Reykjafoss lá þar við bryggju, þegar óveðrið brast á. Tókst ekki að koma honum út vegna dimmviðris og stórsjóa, og svo áheppilega vildi til, að framvírarnir á Reykjafossi slitnuðu og hann rak aftur á bak á löndunartæki hafnarinnar og rákust stautar úr þeim í gegnum skut skipsins. Löndunartækin skemmdust einnig talsvert. Sjór gekk hátt á land og flæddi í kjallara á tveimur húsum á Raufarhöfn, og sömuleiðis tók brimið 2030 síldartunnur af plani og hurfu þær á sjó út. Vegurinn fyrir Melrakkasléttu til Kópaskers er víða stórskemmdur af sjó, sem bæði bar á hann möl og sand og skolaði úr honum. Snjóinn hefur dregið í skafla en autt er á milli, og eru vegir auðir þar sem ekki eru snjódyngjur eða sjóskaðar á honum. Vont veður var í gær á Raufarhöfn, en skárra í gærkvöldi.
Mikið brim var á Bakkafirði og olli mjög miklum skemmdum. Þar var steypuker framan við hafnargarðinn, og færðist það úr stað og skemmdist. Þá var þar 15 metra steyptur varnargarður, og braut brimið hann allan. Þá var steypt plata milli kersins og gömlu bryggjunnar, þessi plata er mjög sigin og sprungin
Fréttaritari Tímans á Hofsósi símaði, að frá hafnargarðinum þar hafi losnað 20 metra framlenging, sem við hann var bætt fyrir tveimur árum, og er þar nú talsverð rifa í milli. Auk þess sprakk hafnargarðurinn í tveimur stöðum öðrum. Ekki er þó hægt að fullyrða, hve miklar skemmdir hafa af því orðið, því að kafari hefur ekki enn komist niður til þess að athuga það. Víða vantar fé, allt frá þremur upp í 12 kindur.
Fréttaritari Tímans í Trékyllisvík símaði eftirfarandi: Í veðurofsanum, sem var fyrir helgina, skemmdust tvær trillur í Gjögri. Þær höfðu verið dregnar upp eins og þurfa þótti, en það reyndist ekki nóg, sjórinn hrakti þær enn lengra á land og braut m.a. kjölinn undan annarri. Ölver Thorarensen í Gjögri átti hana. Sjógangurinn eyðilagði vegarspottann frá Árnesi til Norðurfjarðar, hann hefur rifið veginn alveg upp, þar sem hann liggur nálægt sjávarmáli.
Knútur Knudsen veðurfræðingur ritaði stutta grein um þetta veður í tímaritið Veðrið 1962. Nefnist hún Norðanveðrið í nóvember 1961. Þar eru ýmsar viðbótarupplýsingar, fáeinir heimamenn bera brimið saman við það sem gerðist 1934. Niðurstaða sú að 1934 veðrið hafi verið öllu meira, nema e.t.v. á svæðinu kringum Þistilfjörð. Knútur lýsir aðdraganda veðursins og birtir kort sem sýnir braut lægðarinnar og dýpkun hennar. Kortin hér að ofan sýna aðdraganda veðursins. Lægð er að grynnast á Grænlandshafi. Henni fylgir kalt háloftalægðardrag sem nær í hýrra loft langt suður í haf. Þessi staða reynist oft sérlega varasöm og fyrir tíma tölvureikninga var mjög erfitt að ráða við hana.
Við lítum líka á kort Knúts:
Samanburður sýnir að japanska endurgreiningin nær stöðunni furðuvel - öruggt merki um að tölvuspár nútímans hefðu líklega neglt þetta veður niður með nokkurra daga fyrirvara.
Tiltölulega meinlaust veður var í desember, fyrsti þriðjungur kaldur, síðan hálfur mánuður nokkuð hlýr, en aftur kuldi undir jól. Milli jóla og nýárs gerði óvenjuhart frost. Í Borgarnesi sá ritstjórinn hungurdiska í fyrsta sinn þann 28. desember - og þótti einkennilegt og eftirminnilegt. Einnig þokan sem fylgdi. Ekki vissi hann þá að slíkt héti frostreykur - og er ekki sérlega óalgengur á firðinum fari frost niður fyrir 15 til 17 stig. Næsta opinbera mælistöð var í Andakílsárvirkjun, þar fór frostið í -22,7 stig. Orðrómur nefndi -24 stig á Hvanneyri - en ekki var mælt þar. Í Reykjavík fór frostið í -16,8 stig, hefur sárasjaldan orðið jafnmikið, síðast 31.janúar 1979. Í Síðumúla fór frostið í -21,0 stig, einnig sárasjaldgæft.
Japanska endurgreiningin sýnir þennan helkulda vel. Það er ekki oft sem þykkti yfir landinu fer niður fyrir 4920 metra (dekkri fjólublái liturinn). Ekki er að sjá að þessi kuldi hafi valdið sérstökum vandræðum nema hvað mjög reyndi á hitaveitu Reykjavíkur. Til allrar hamingju var vindur mjög hægur og mesti kuldinn stóð ekki lengi. Það er ritstjóranum einnig minnisstætt að á gamlárskvöld sá hann í fyrsta sinn (með meðvitund) mikinn rosabaug um tunglið (sem þó var ekki nema hálft) og var sagt að hann boðaði hláku - sem síðan kom.
Morgunblaðið segir fréttir af Seljalandsfossi 31. desember:
Seljalandsfoss undir Eyjafjöllum er sem kunnugt er hár og heldur vatnslítill. Í frostunum undanfarið hefur vatnið frosið í fallinu niður og hlaðist upp í ísbungu niður með ánni og niður á veginn, en vatn beljar ofan á. Er vegurinn austur af þeim sökum að verða ófær, að því er vegamálastjóri tjáði blaðinu í gær. Sagði hann að ætlunin væri að lagfæra svo að litlir bílar gætu ekið niður af Katanesgarði, suður Markafljótsaura og suður fyrir Seljahlandsgarð og upp að Seljalandi, en það er töluverður krókur.
Hér lýkur yfirferð hungurdiska um veður ársins 1961. Margt hefur sjálfsagt gleymst. Margvíslegar tölur og upplýsingar má að vanda finna í viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.8.2022 | 13:41
Fyrstu 20 dagar ágústmánaðar
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.8.2022 | 00:39
Afmælishugleiðing
Um þessar mundir eru liðin 12 ár frá upphafi bloggs ritstjóra hungurdiska. Færslurnar orðnar 2987 - lengri og lengri tími líður þó á milli (að meðaltali) en áður var - en innihaldið rýrnar vonandi ekki svo mjög (að meðaltali). Ekki hefur verið mjög mikið um endurtekningar eða endurvinnslu - en slíks væri sannarlega þörf. Síðustu árin hefur mest rými farið í veðurannála - rifjað upp veður liðins tíma, bæði ára og farið í gegnum einstaka viðburði. Mikið er eftir óunnið - fórnar ritstjórinn oft höndum yfir því öllu saman.
En ritstjórinn þakkar enn og aftur jákvæðar undirtektir þessi 12 ár - sömuleiðis eru þakkir til Morgunblaðsins fyrir hýsingu og birtingu.
Fyrir 8 árum birti ritstjórinn 70 pistla með myndum á fjasbókarsíðu hungurdiska undir fyrirsögninni Skýið. Textarnir eru óformlegir - og myndirnar oftast ekki góðar. Í viðhenginu má finna samantekt þessara pistla - þeir eru ekki prófarkalesnir eða brotnir um - virðið það til betri vegar. Skjalið er á pdf-sniði og nokkuð stórt (13 Mb).
16.8.2022 | 14:13
Fyrri hluti ágústmánaðar - sérlega köld nótt.
13.8.2022 | 21:14
Hann hrekkur stundum við
Stöku sinnum tekst skemmtideild evrópureiknimiðstöðvarinnar að láta ritstjóra hungurdiska hrökkva dálítið við. Slíkt gerðist núna áðan (laugardagskvöld 13. ágúst) þegar rennt var yfir tíu daga hádegisspárunu reiknimiðstöðvarinnar. Í henni birtist þetta spákort:
Það gildir eftir viku, laugardagskvöldið 20. ágúst og sýnir 962 hPa djúpa lægð við Jan Mayen. Svona djúpar lægðir eru sárasjaldséðar í ágúst og ritstjórinn telur nær víst að engin dæmi séu um þær við Jan Mayen. Líkur eru heldur meiri við Ísland, ágústíslandsmetið er 960,7 hPa sett í Hólum í Hornafirði 27. ágúst 1927. Gamall fellibylur kom þar við sögu.
Auðvitað er líklegast að þessi spá rætist ekki, enda er uppruni lægðarinnar harla óvenjulegur. Þótt hún sér skilgetinn afkomandi djúprar lægðar sem á að koma að landinu á miðvikudaginn er kraftur hennar kominn úr bylgju sem kemur eiginlega sunnan frá gömlu Júgóslavíu. Nota orðið eiginlega vegna þess að erfitt er að fylgja kerfinu eftir eða greina uppruna þess á þessu stigi (það er ekki enn orðið til). Síðan á þessi bylgja að fara norður um Noreg vestanverðan og dýpka rækilega á leið sinni til norðvesturs, vestnorðvesturs og vesturs fyrir norðaustan land. Allt með talsverðum ólíkindum.
Bandaríska veðurstofan er með aðra útgáfu - líklegri fyrir okkur. Í þeirri útgáfu dýpkar lægðin ekki heldur strandar að mestu við Noreg og veldur þar miklu (og hættulegu) úrhelli austanfjalls og í Þrændalögum um og rétt fyrir næstu helgi. Heldur ótrúleg spá líka.
Eins og áður sagði er líklegast að lofthjúpurinn taki á þessu með einhverjum allt öðrum hætti heldur en reiknimiðstöðvar gera á þessari stundu - en það kemur þá fljótlega í ljós - og ekki síðar en í vikulok.
Viðbót rúmum sólarhring síðar:
Það fór sem líklegt var að næsta spáruna dró tennurnar úr spánni - en sú þarnæsta (og nýjasta nú - hádegisruna sunnudags) er enn með lægðina - frestað um 2 sólarhringa og 17 hPa grynnri:
Ætti að gefa þessu gaum áfram?
Vísindi og fræði | Breytt 15.8.2022 kl. 02:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.8.2022 | 21:54
Hugsað til ársins 1974
Árið 1974 fékk yfirleitt góða dóma, þrátt fyrir að margskonar skæð illviðri hafi gengið yfir. Tíð síðari hluta vetrar og um vorið var alveg einstaklega hagstæð. Sömuleiðis var heyskapartíð hagstæð um sumarið. Haldið var upp á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar í öllum héruðum landsins og megnið af þeim hátíðarhöldum fór fram í góðu veðri. Eftirbragð ársins þótti því býsna gott - en spilltist svo af snjóflóðasköðunum miklu í Neskaupstað rétt fyrir jólin.
Nóvember og desember 1973 höfðu vakið mikla athygli veðurnörda og þá fyrir kulda sakir. Fyrsti mánuður ársins 1974 varð hlýrri, en sömuleiðis undrunarefni. Meðalloftþrýstingur mánaðarins varð lægri heldur en vitað var um áður, 977,1 hPa í Reykjavík. Slegið var met frá því í desember 1924, en þá var meðalþrýstingur í Reykjavík 980,5 hPa. Þetta nýja met var síðan aftur slegið í febrúar 1991 þegar mánaðarmeðalþrýstingur í Reykjavík var 975,4 hPa. Þessir tveir mánuðir eru þeir einu með meðalþrýstingi neðan 980 hPa í Reykjavík. Nýtur febrúar 1991 þess að vera styttri en janúar, meðaltal 31 dags á þeim tíma er lítillega hærra en janúartalan 1974.
Kortið sýnir hin óvenjulegu þrýstivik í janúar (litir) og meðalsjávarmálsþrýsting (heildregnar línur).
Janúar var umhleypinga- og úrkomusamur. Gæftir voru slæmar til sjávarins. Snjóþungt var víða norðan- og austanlands, þann 20. mældist snjódýpt á Hornbjargsvita 218 cm, sú mesta sem vitað er um í janúar hér á landi. Febrúar var óhagstæður norðanlands og snjóþyngsli óvenju mikil, syðra var umhleypingasamt en snjólétt. Tíð var mjög hagstæð í mars, mjög úrkomusamt var á Suður- og Vesturlandi. Hlýtt. Apríl var sérlega hagstæður og fádæma hlýr. Tún yfirleitt algræn og úthagi að grænka í mánaðarlok.
Meðalhæð 500 hPa-flatarins í apríl 1974 (heildregnar línur), en hæðarvik eru sýnd í lit. Óvenjueindregin sunnanátt var ríkjandi - og mikil hlýindi. Þetta er hlýjasti apríl sem vitað er um á landsvísu, en sá næsthlýjasti í Reykjavík, Stykkishólmi og á Akureyri (á eftir 2019). Vorið (apríl og maí saman) hefur heldur aldrei verið hlýrri á landsvísu, á fáeinum stöðvum er þetta næsthlýjasta vorið (t.d. varð lítillega hlýrra á Stórhöfða í Vestmannaeyjum 1940). Þetta er líka hlýjasta þriggja mánaða tímabil, mars til maí, sem vitað er um á landinu og á þeim veðurstöðvum þar sem lengst hefur verið mælt.
Gæðatíðin hélt áfram í maí. Sömuleiðis var júní hagstæður, en þó var mjög úrkomusamt syðra, einkum framan af. Í júlí var áfram hagstæð tíð, en þó var nokkuð óþurrkasamt norðaustanlands. Ágúst var einnig hagstæður á um landið sunnan- og vestanvert, en austan- og norðaustanlands var heldur votviðrasamt. Kaldara var að tiltölu en áður um sumarið og vorið. September var talinn hagstæður á Suður- og Vesturlandi, en óhagstæður nyrðra og eystra. Uppskera úr görðum var óvenju mikil. Mjög kalt var í veðri. Október var umhleypingasamur, en tíð talin hagstæð engu að síður. Óvenjulegar stillur voru í nóvember og tíð hagstæð. Í desember skipti um. Þá varð tíð óhagstæð, stormasöm og köld.
Við flettum nú fréttablöðum og lítum á helstu tíðindi þeirra af veðri. Dagblaðið Tíminn verður hér oftast fyrir valinu. Fréttir af veðri og tíð skýrar þar (og auðfundnar). Við notumst við timarit.is og höfum eins og venjulega í huga að þar eru stundum ítarlegri upplýsingar um heimildamenn heldur en hér er vísað í - og að við styttum oft fréttatextana.
Þó veðurlag væri nokkuð stórgert í janúar var ekki mikið um stórtjón. Gríðarlega djúpar lægðir voru yfir Norður-Atlantshafi, en héldu síg oftast fyrir sunnan og suðvestan land. Tíminn segir frá 8. janúar:
Mikil ótíð hefur verið norðanlands og austan undanfarið og hefur það bitnað verulega á samgöngum bæði i lofti og á landi. Á Austfjörðum hafa snjóþyngsli verið slík, að elstu menn muna ekki annað eins um þetta leyti árs.
Þann 9. og 10. var óvenju mikið stórstreymi. Svo vildi til að vindátt var hagstæð. Morgunblaðið segir frá 11. janúar:
Óvenjumikið stórstreymi var í gærkvöldi [9.janúar] og aftur í morgun [10.]. ... Engar skemmdir urðu af flóðum þessum, nema hvað vatn kom í kjallara i miðbænum í Reykjavík og víða flæddi upp um niðurföll á götum, t.d. í Austurstræti. Við suðurströndina óttuðust menn, að sjór gæti gengið á land, þar sem spáð var austanroki, um 10 vindstigum og um klukkan 18 í gær voru 10 vindstig á Loftsölum og á Mýrum. Þó reyndist sjór kyrr við suðurströndina í gærkvöldi og urðu engir skaðar.
Þrumuveður voru óvenjutíð í þessum mánuði, og ollu eldingar tjóni. Í veðurskýrslum er getið um þrumur 19. daga mánaðarins. Tjón varð ekki mikið, en getið er um skemmdir af völdum eldinga á Hellu og undir Eyjafjöllum. Rafmagnsstaurar og spennistöð skemmdust.
Þann 26. fauk mikill hluti bogaskemmu á Sigmundarstöðum í Hálsasveit, símabilanir urðu í Borgarfirði. Þann 31. braut ísing braut rafmagnsstaura Snæfjallaströnd og á Langadalsströnd í Djúpi og línur slitnuðu. Talsvert tjón varð á húsum á Siglufirði þegar þakplötur fuku og rúður brotnuðu.
Versta veður vetrarins gerði dagana 10. til 14. febrúar. Byrjaði það með miklu fannfergi um landið norðanvert og síðan slydduhríð sem olli óvenjumiklum skemmdum á síma- og raflínum. Mikið var um snjóflóð. Blöðin greina allítarlega frá þessu veðri og má þar finna ítarlegri upplýsingar um tjón.
Mjög djúp lægð fyrir sunnan og suðaustan land bar hlýtt loft úr suðaustri, austri og síðar norðaustri inn yfir landið. Mikil úrkoma fylgdi ásamt hvassviðri. Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa-fletinum að kvöldi þess 11. febrúar.
Áttin varð fljótt austlæg og norðaustlæg í öllu veðrahvolfinu og var úrkoma því ekki teljandi á Suðurlandi.
Kortið (sem gildir á sama tíma og það fyrra) sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum, hlý austanátt er yfir landinu - kaldast þó á Vestfjörðum.
Tíminn segir frá þann 12.febrúar:
Aðfaranótt sunnudags [10. febrúar] gerði versta veður á öllu Norðurlandi með mikilli snjókomu og hvassviðri. Komst vindhraðinn upp i 8-9 vindstig fyrir norðan á sunnudag. Á aðfaranótt mánudags [11.] fór veðrið að ganga niður, og um hádegi í gær var orðið stillt allt vestur á Skaga. Á Vestfjörðum var enn iðulaus stórhríð síðdegis i gær og hafði verið síðan á föstudagskvöld. Þar voru 8-9 vindstig i gær. Veðrið skall yfir Vestfirðinga 8. febrúar, sama dag og Halaveðrið árið 1925, en versta tíðarfarið er jafnan á Vestfjörðum í febrúar, eins og raunar viðar á landinu, og þá hafa ýmis sjóslys orðið. Sem betur fer hafa engin slys orðið að þessu sinni, svo vitað sé. Mörg skip hafa leitað vars á Ísafirði, þ.á m. þrír breskir togarar. Mannhæðarháir skaflar eru á Ísafirði og Akureyri, og sjálfsagt viðar, á Sauðárkróki og Dalvik eru 4-5 m háir skaflar. Á Ísafirði fór fólk á skíðum til vinnu i morgun. Guðmundur Sveinsson, fréttaritari Tímans á Ísafirði sagði í gær, að ekki hefði stytt þar upp síðan á föstudag. Hús eru sum hálf á kafi i snjó. Fjölda bíla hefur fennt i kaf, en ófært er um nær allan bæinn og á flugvöllinn, en ekki hefur verið flogið síðan á miðvikudag. Í gærmorgun féll snjóflóð á Eyrarhlið milli Hnífsdals og Ísafjarðar, og fóru þrír staurar i háspennulinu. Viðgerð var hafin i gær. Rafmagnslaust er því í Hnífsdal og Bolungavik, en Reiðhjallavirkjun er einnig biluð. Allir sem þurftu að fara út fyrir bæ til vinnu i morgun fóru á skíðum, en einungis var unnt að aka bilum um miðbæinn.
Tíminn hélt áfram að greina frá næstu daga og þann 13.febrúar birtist þessi pistill (nokkuð styttur hér):
SJReykjavik. Miklar rafmagnsbilanir voru i gær og fyrradag um allt Norðurland. Þar sem ástæðurnar voru kunnar, var nær ekkert hægt að aðhafast til viðgerða vegna ofanhríðar og mikils veðurs. Annars staðar hafði ekki einu sinni tekist að kanna orsakir bilananna. Rafveitustjórarnir nyrðra, Ásgeir Jónsson á Blönduósi og Ingólfur Arnason á Akureyri, töldu ástandið mjög alvarlegt, þótt ekki hefði komið til stórvandræða enn. Telja þeir þetta eitt mesta ísingarveður, sem komið hefur um margra ára skeið. Þá var algerlega símasambandslaust við alla Vestfirði og mestan hluta Barðastrandarsýslna. ... Einnig var símasambandslaust við marga staði á Norður- og Norðausturlandi og allt suður í Dali. Mest af rafmagns- og símabilununum stafar af ísingu, sem slitið hefur linur. Einnig hafa staurar brotnað. Vatnsleysi háir mjög rafstöð Laxárvirkjunar. Þar fennti i aðalrennslisskurð á mánudag en svo mikið tókst að losa, að hægt var að keyra dísilrafstöðina i fyrrinótt, en i gær fennti svo mikið, að allt virtist vera að fara á sömu leið, að sögn Ásgeirs Jónssonar, ... Á Skagaströnd, Hvammstanga og Vatnsnesi sagði hann rafmagnslaust. Á Blönduósi var ástandið ekki svo slæmt, þó höfðu nokkrar heimtaugar slitnað þar. Ófært mátti heita um götur á Blönduósi vegna blindhríðar, og símabilanir há mönnum.
Hér var allt eins ófært og verið gat á mánudag, og er ennþá ófærara i dag, sagði Erlingur Davíðsson, fréttaritari Tímans á Akureyri, i gær. Vinna liggur að mestu niðri vegna rafmagnsleysisins og húsin kólna, því þótt flestir hafi olíukyndingu, gengur hún fyrir rafmagni. Unnið er dag og nótt að því að hreinsa götur. Í gær var bleytuhríð á Akureyri og fært orðið um aðalgöturnar.
Tíminn 14.febrúar:
SJReykjavik. Mikið rok var á Rauðasandi á Barðaströnd frá því aðfaranótt þriðjudags fram á aðfaranótt miðvikudags. Að Bæ á Rauðasandi fauk járnið af um helmingi þaks íbúðarhússins og álíka mikið af fjósþakinu. Þegar við töluðum við Ragnheiði Sigmundsdóttur húsfreyju á Bæ i gærdag, sagði hún að hefði lygnt. Hún og maður hennar, Árni Jóhannesson eru tvö i heimili og búa á neðri hæð hússins, svo þetta kom ekki svo mjög illa við þau. Gengið hefur verið svo um, að ekki fjúki meira, og þakjárn er væntanlegt með næstu ferð. Að Gröf á Rauðasandi varð einnig tjón i hvassviðrinu. Þar fuku nokkrar járnplötur af þaki hlöðu og annar gafl hennar, sem veðrið, stóð upp á brotnaði. Þá fauk fjárhúsið til á grunninum. Að Gröf búa hjónin Þorvaldur Bjarnason og Ólöf Dagbjartsdóttir.
Vallalina slitnaði á þriðjudag, en viðgerð lauk eftir 14 tíma. Fellalina slitnaði einnig, en viðgerð á henni er sömuleiðis lokið. Senda átti menn á snjóbíl norður á Jökuldal til þess að gera við Jökuldals- og Jökulsárhliðarlinu. Engar fréttin hafa borist úr Hróarstungu, því að símasambandslaust er þangað. Símabilanir hafa raunar orðið viðar. Linur til fjarðanna stóðust þó veðrið, enda mun bleytuhríðin ekki hafa verið jafnmikil á þeim slóðum. Heimtaug að sláturhúsinu á Fossvöllum fór alveg, bæði spennar og lina. Kjöt er þó ekkert i húsinu, sem betur fer. Tveir snjóbílar hafa verið sendir frá Egilsstöðum með mjólk til Seyðisfjarðar, en þangað hefur ekki verið farið síðan um síðustu helgi. Mjög mikill snjór er á Fjarðarheiði, Seyðisfjarðarmegin.
SJ-Reykjavík Nú hefur fengist gleggri mynd af bilunum þeim, sem orðið hafa á rafmagns- og símalinum vestanlands, norðan og austan i veðrinu undanfarið. Þær eru miklar, og er enn ógerlegt að meta tjónið, sem orðið hefur. Snjóflóð hafa fallið viða, m.a. i Fljótum, Laxárdal og Fnjóskadal, og á Seyðisfirði féll lítil snjóskriða. Viða hafa snjóflóðin skemmt síma- og rafmagnslinur, og i Fnjóskadal fór veiðihús. Á Norðurlandi eystra var i gær vitað um 100 brotna rafmagnsstaura. Í Fljótum voru a.m.k. 46 staurar brotnir, og á utanverðu Snæfeilsnesi var a.m.k. 31 staur brotinn, og sennilega fleiri. Í Frystihúsinu á Grenivik lágu í gær mikil verðmæti undir skemmdum, en þar var rafmagns- og símasambandslaust. Sömu sögu er að segja frá Ólafsfirði. Vonir stóðu til að vararafstöð kæmist þangað i gærkvöldi. Meiri snjór er viða norðanlands, t.d. á Akureyri, en komið hefur i a.m.k. 20 ár. Á Akureyri var enn snjókoma i gær.
Annars fengum við þær fregnir hjá Veðurstofunni síðdegis i gær, að allur ofsi væri nú úr veðrinu. Þó gekk á með éljum sums staðar. Norðaustanátt var um land allt. Viðgerðir voru hafnar á rafmagns- og símalinum, en ófærð og skortur á snjóbílum hamla framkvæmdum.Vitað var um talsvert miklar skemmdir á raflinum og staurum á Vestfjörðum, en símasambandslaust var við marga staði þar, m.a. við Ísafjörð. Óljósar fregnir voru af skemmdum á rafmagnslinum i Dölum, en þær munu einhverjar. Einhverjar bilanir voru á Króksfjarðarnesi og í Reykhólasveit. Á utanverðu Snæfellsnesi frá öxl að Lýsuhóli var vitað um 31 brotinn staur, og sögusagnir voru um að fleiri væru brotnir. Línumenn voru komnir á staðinn síðdegis í gær og viðgerð hafin. Nýir símastaurar voru á leiðinni, og reyna átti að koma rafmagninu i lag sem fyrst, en veðurskilyrði voru óhagstæð um miðjan dag i gær. Í Fljótum var vitað um að 46 staurar voru brotnir. Ólafsfjarðarlina var biluð líka. Þar fór snjóflóð á línuna. Í gær voru viðgerðarmenn komnir á staðinn og efni á leiðinni.
Ég er fæddur og uppalinn Akureyringur og búinn að vera hér í bráðum tuttugu ár rafveitustjóri, og þetta er það versta sem ég hef komist í, bæði hvað veður og bilanir snertir, sagði Ingólfur Árnason, rafveitustjóri á Norðurlandi eystra, í viðtali við Tímann í gær. Þær bilanir, sem við vissum af á þriðjudag, eru hreinustu smámunir hjá því, sem nú er orðið. Í gær voru um 60-70 staurar í Grenivíkurlinu farnir og spennar eyðilagðir. Sem sagt línan var öll niðri frá Fnjóská og út í Grenivik. Ísingin var þetta 20-25 cm i þvermál á vírunum úti í Höfðahverfi inn af Grenivik. Símasambandslaust var við Grenivík og snjóflóð á vegi. Búið var að fá rafmagnsvél að láni hjá Slippstöðinni á Akureyri, og átti að flytja hana með Drangi í gærkvöldi. Linan frá þeim stað, þar sem æskilegast er að tengja hana, og út í frystihús, var biluð líka. Þurfti því einnig að senda viðgerðarmenn til Grenivikur með Drangi. Í Dalsmynni i Fnjóskadal féll snjóflóð og tók rafmagnsstaur og veiðihús. Yfirleitt eru snjóflóð hér um allt, sagði Ingólfur Arnason rafmagnsstjóri. Við Dalvik voru 20 rafmagnsstaurar brotnir. Frammi Ií Eyjafirði voru einnig rafmagnsbilanir og talsverður hluti Saurbæjarhrepps var rafmagnslaus. Þar átti að gera við í gær. Snjóflóð féll hjá Steinsstöðum í Öxnadal og braut bæði sveitalínuna og nýju Skagafjarðarlínuna, sem átti að vera upphafið að samtengingu rafveitna á landinu. Í Suður-Þingeyjarsýslu voru ekki stórvægilegar bilanir. 1 Norður-Þingeyjarsýslu var verið að gera við Axarfjarðarlínuna, en i Axarfirði hafði verið rafmagnslaust i tvo sólarhringa.
Á Fljótsdalshéraði sligaði ísing niður sveitalinur á þriðjudag og nóttina áður, og vitað var um eina tíu brotna staura. Á þriðjudag var eiginlega allt Fljótsdalshérað rafmagnslaust, en rafmagn var á Egilsstöðum. Starfsmenn Rafmagnsveitna ríkisins á Egilsstöðum hafa verið önnum kafnir við viðgerðir. Mikill snjór er i héraðinu og erfitt að komast um. Símasambandslaust er við ýmsa bæi á Héraði, og því ekki vitað til fulls um bilanir. Einn snjóbíll er notaður í viðgerðarferðirnar. Næst er á dagskrá hjá viðgerðarmönnum að kanna línurnar i Jökulsárhlið og Jökuldal, þar sem sennilega er straumlaust. Fellalinan lagðist niður vegna ísingar á tveggja km svæði, en í gær var komið rafmagn annars staðar frá i Fellin nema að einum bæ. Á þriðjudag tvíhreinsuðu viðgerðarmenn frá Egilsstöðum ísingu af sömu línunni. Ásgeir Jónsson, rafveitustjóri á Blönduósi, sagði í viðtali við blaðið, að ástandið á Norðurlandi vestra væri eiginlega óbreytt frá því á þriðjudag. Þó var búið að gera við bilanir á Skagaströnd og Hvammstanga. Laxárvatnsvirkjun framleiðir ekkert rafmagn vegna krapastíflu, og þar var mjög vont veður í allan gærdag. Ekki þurfti að gripa til skömmtunar á svæðinu í gær. Hins vegar hafði Vatnsnesið ekki straum, og Skagalína frá Skagaströnd var slitin og sliguð af ísingu, en búist var jafnvel við, að hægt væri að ljúka viðgerð hennar í nótt. Fjórar díselvélar eru í gangi, og er orkuframleiðsla þeirra samanlagt 1600 kw. Þeim er haldið gangandi með því að dæla á þær vatni úr slökkviliðsbil. Veðrið var aðeins að skána á Blönduósi í gærkvöldi.
Tíminn 15.febrúar
SJReykjavfk. Heildarskemmdirnar á rafmagnslinum í óveðrinu nú í vikunni eru nálægt 300 stólpar, sem hafa brotnað, auk þess hefur vír eyðilagst, einangrarar, þverslár o.fl. sagði Valgarð Thoroddsen rafveitustjóri i gær.
SJ-Reykjavík.Snjóflóð hafa fallið víða i Önundarfirði. Eitt þeirra féll skammt frá barnaskólanum á Flateyri og yfir kirkjugarðinn. Rafmagnslaust var í gærkvöldi í innri hluta Önundarfjarðar af völdum snjóflóðanna.
Tíminn 16.febrúar
SJ-Reykjavik. Á fimmtudag [14.febrúar] féll mikið snjóflóð niður í lón Reiðhjallavirkjunar við Bolungarvík. Flóðið braut ísinn, sem var á lóninu, og olli svo mikilli flóðbylgju að lónið tæmdist yfir stífluna. Rafmagnslinan til Bolungavikur var biluð fyrir af völdum óveðursins fyrr i vikunni, og var Reiðhjallavirkjun notuð til vara. Undir venjulegum kringumstæðum getur virkjunin framleitt um 400 kv og var því sæmilegt ástand á Bolungavik hvað raforku snerti. Eftir snjóflóðið hefur virkjunin aðeins hálfa afkastagetu eða um 200 kv. Algert neyðarástand varð á Bolungavík, að því er Valgarð Thoroddsen rafveitustjóri sagði i gær. Árvakur fór i gær áleiðis vestur á Bolungarvík með 500 kv díselvél, sem átti að fara austur á Djúpavog. Verður díselvélin þar til bráðabirgða meðan þetta ástand stendur, en full þörf er raunar fyrir hana á Djúpavogi. Í gær var aðeins hægt að fá símasamband við Vestfirði norðan Tálknafjarðar um neyðarsíma.
TFFlateyri. Síðan 1. febrúar hefur verið hér hvöss norðaustanátt og snjókoma. Aðfaranótt laugardagsins 9. febrúar jókst snjókoma mikið, og kyngdi niður snjó í þrjá sólarhringa. Aðfaranótt þriðjudagsins 12. febrúar gerði hér aftakaveður af aust-norðaustri með snjókomunni, og féllu þá snjóflóð um allan Önundarfjörð og víða þar sem elstu menn muna ekki til, að snjóflóð hafi komið áður. Tvö snjóflóð féllu ofan að Flateyri, eins og venjulega úr Skollahvilft ofan við eyrina, og dreifðist það um svæðið frá Sólbakka og út að efstu húsum á Flateyri, og yfir kirkjugarðinn. Annað snjóflóð kom utan við eyrina og tók raflínustaur og fiskþurrkunarhjall, ásamt skreiðarhjöllum, sem stóðu á Eyrarbót, utan vert á Flateyri. Enginn núlifandi man eftir, að þarna hafi hlaupið áður. Snjóflóð varð innanvert við Flateyri á milli Sólbakka og Hvilftar og tók það 4 raflínustaura og sjónvarpshús áhugamanna, en í því var ein sendistöð í eign Landsímans eða sjónvarpsins en flytja átti hana á næstunni. Snjóflóð varð á milli Veðrarárbæjanna, og brotnuðu 13 raflínustaurar á aðallinu og sveitalínu. Símalinan slitnaði á öllu svæðinu og fór allt i sjó fram. Miklar skemmdir urðu á síma innar í firðinum, og tilfinnanlegt tjón varð i Bjarnardal, en þar brotnuðu 20 staurar. Allt rafmagn fór af Flateyrarhreppi, Mosvallahreppi og Ingjaldssandi í 10 tíma á mánudaginn var. Síminn fór líka allur úr skorðum, en eitthvað var búið að laga hann í gær.
Þann 19. febrúar birti Tíminn fréttir frá Patreksfirði - og síðan var rætt um vatnselg í Reykjavík.
GS-Ísafirði. Horfur i rafmagnsmálum eru afar ískyggilegar hér vestra, og er svo að okkur sorfið, að jafnvel hafa verið slökkt götuljósin á Ísafirði til þess að spara rafmagn. Ekkert rafmagn hefur borist vestan yfir frá Mjólkárvirkjun nú um hríð vegna bilunar á háspennulinunni, og vötnin, sem sjá Fossárstöðinni fyrir rafmagni, eru að ganga til þurrðar, svo að hér verður senn líkt á komið og á Hornafirði í vetur.
JH-Reykjavik. Í fjallinu ofan við Patreksfjörð hefur myndast geysimikil snjóhengja sem slútir ískyggilega mikið fram yfir sig. Þessi hengja er uppi á svonefndum Brellum. Í gær kom til orða að gera ráðstafanir til þess að snjórinn hlypi fram, en þegar til kom þótti það of áhættusamt, og var horfið frá því. Fólki stendur af vonum stuggur af þessari hengju, og hefur öll umferð um afmarkað svæði verið bönnuð síðan á laugardaginn. Þarna uppi í fjallinu myndast iðulega hengja, þegar skefur af því langan tíma, og hafa stundum orðið þar snjóflóð, siðast veturinn 1958. Í þessu síðasta snjóflóði eyðilögðust skúrar, sem þrjár bifreiðir voru geymdar í, en áður hafði flóð sópað burt hænsnabúi, er var á svipuðum stað. Vegna snjóflóðahættunnar hafa byggingar ekki verið leyfðar á sex til sjö hundruð metra breiðri spildu upp frá höfninni til fjalls, en nýtt hverfi hefur aftur á móti risið utan við þetta hættusvæði, og eru nú þar út frá miklar nýbyggingar. Að degi til fer fólk, sem erindi á inn i kaupstaðinn úr ytra hverfinu meðfram höfninni, en öll umferð er bönnuð, meðan skuggsýnt er. Grjóthryggur liggur þarna langt ofan úr fjalli niður undir sjó, og hafa snjóflóðin fylgt þessum hrygg. Sjálf hengjan er í fjögur til fjögur hundruð og fimmtíu metra hæð yfir sjó, og fjallið er þarna afar bratt.
Varnargarði hefur verið komið upp og grafinn ofan við hann mikill skurður, sem talsvert af snjó hefur að vísu safnast í, en varnargarðurinn sjálfur stendur uppúr. Hitt er aftur á móti vandséð, hversu mikið viðnám hann veitir eða hvort hann dregur úr afli snjóflóðs, ef á reynir. Snjóflóð, sem þarna hafa komið, hafa farið alla leið fram á sjó, en þótt svo yrði nú, eru bátar ekki i hættu, því að þeir eru ekki á því hafnarsvæði, er flóðið næði til. Hugsanlegt er talið, að fjögur hús, sem standa næst hinni óbyggðu skák, geti lent í jaðri snjóflóðs, sem þarna kæmi niður, tvö í ytri jaðrinum og tvö i hinum innri. Eru þar Mýrar 17, þar sem Hörður Jónsson skipstjóri býr, og Hólar 17, þar sem Kópur Sveinbjörnsson vélstjóri býr, og Hólar 15, þar sem Magnús Friðriksson húsasmiðameistari á heima, og Urðargata 23, þar sem Finnbogi Magnússon skipstjóri á heima. Ekki hefur fólkið þó flúið hús sin, jafnvel hafst við i þeim um nætur. Óneitanlega var þó beygur i sumum um helgina, þegar stórrigningu og hvassviðri gerði á Patreksfirði, því að viðbúið var, að hreyfing kæmi á snjóinn, er hann þyngdist. Svo er líka að sjá neðan úr bænum, að hann hafi sigið talsvert, en hengjan hljóp þó ekki. Það segir sig sjálft, að fólki á Patreksfirði er um og ó að hafa hengjuna uppi á Brellum vofandi yfir byggð sinni. Enginn hefur þó látið þetta nábýli raska ró sinni. Ætli maður reyni ekki að sofa eins og venjulega? sögðu þau Magnús Friðriksson og kona hans, Kristjana Ágústsdóttir, er Tíminn ræddi við um miðnætti á laugardagskvöldið. Það er ekki annað að gera en bíða og sjá, hverju fram vindur og vona það besta. Húsin hérna eru sérlega traustlega járnbent, og þó að jaðar snjóflóðs lenti á þeim og kæmust inn i gegnum glugga, þá er innréttingu þannig hagað, að þau fyllast ekki af snjó, nema allt brotni.
Í gærmorgun féllu snjóflóð á þrem stöðum í Patreksfirði innan við kaupstaðinn, og lokaðist vegurinn algerlega. Mesta flóðið kom hjá svonefndum Stöpum innan við Raknadal. Svo hittist á að fólk var að koma úr Örlygshöfn i bifreið, og komst ekki lengra en að Stöpunum. Lögreglumenn fóru inn eftir til þess að sækja fólkið og koma því yfir flóðasvæðið. Í gær voru ýtur að ryðja veginn, en það er allmikið verk, því að hjá Stöpunum fór snjóflóðið yfir breitt svæði.
SPReykjavik. Veruleg stöðuvötn mynduðust víða á götum borgarinnar og í Hafnarfirði og Kópavogi á sunnudaginn. Líklega mun mest tjón af völdum vatnselgsins hafa orðið hjá fyrirtækinu Rafha i Hafnarfirði, þar sem vatnið fossaði inn i verksmiðjuna. Er útlit fyrir, að tjón af völdum þessa nemi hundruðum þúsunda. Hafnarfjarðarlækurinn flæddi og yfir bakka sina og voru sum hús umflotin vatni. Féll maður í lækinn, er hann var að veita vatni frá húsi sinu, en hann gat bjargað sér á þurrt aftur. Í Reykjavik var vatnselgurinn mestur undir Elliðaárbrúnum, í Borgartúni (í grennd við Klúbbinn) og á mótum Sundlaugarvegar og Reykjavegar. Einnig var mikill vatnselgur við Unufell í Breiðholti, en þar safnaðist vatnið aðallega saman á bílastæðinu, þar sem niðurfallið var stíflað. Það var eins og Reykjavik væri ný komin úr sturtu i gær, vot, frísk og hress, en sólin skein. Að sögn Rúnars Bjarnasonar slökkviliðsstjóra var liðið kallað á alls 12 staði á sunnudaginn, yfirleitt vegna þess að vatn hafði komist i kjallara. Mest af þessum útköllum komu frá Breiðholti, en annars viða um bæinn. Ekki sagði Rúnar, að ástandið hefði verið verulega alvarlegt á þessum stöðum, en skemmdir þó vafalaust nokkrar. Einnig var lögreglan kvödd í allmörg hús, auk þess sem hún aðstoðaði fjölda bíla, sem höfðu blotnað og stöðvast.
Þann 21. varð mikið flóð við Þorlákshöfn - fjallað er um það í Tímanum þann 22. febrúar:
JH-Reykjavík. Í gær var heldur óvenjulegt um að litast í Þorlákshöfn. Leysingarvatn, sem streymdi fram sandinn ofan við kauptúnið, stíflaðist við þjóðveginn, og myndaðist gífurlega mikið stöðuvatn vestan hans. Það náði langt upp eftir og mun hafa verið á aðra mannhæð, þar sem það er dýpst. Mörg hús í Þorlakshöfn voru umflotin vatni, og í símstöðina varð að fara á bátum síðdegis í gær. Þetta byrjaði rétt fyrir hádegið, sagði Guðbjörg Magnúsdóttir, stöðvarstjóri i Þorlákshöfn, og þegar skipt var um vakt í stöðinni, urðu stúlkurnar að fara til vinnu sinnar á báti. Og ég kom á báti úr vinnunni í kvöld og réri meira að segja sjálf. Það var ekki viðlit að komast þetta öðru vísi. Dæla var notuð til þess að varna því, að kjallari símstöðvarinnar fylltist. Þó nokkur hús við C-götu er verst hefur orðið úti, eru umflotin vatni. Hefur runnið í kjallara þeirra og vatnið valdið þar verulegum skemmdum, til dæmis á frystikistum. Dælubili er kominn hingað frá Hveragerði, sagði Guðbjörg enn fremur, og þegar ákveðið var að rjúfa Þorlákshafnarveginn svo að vatnið fái framrás til sjávar, komu hingað menn bæði frá Selfossi og Reykjavík því að þarna eru bæði rafstrengir og símastrengir, svo að gæta verður allrar varúðar. Guðbjörg kvaðst vita til þess, að svona flóð hefði komið í Þorlákshöfn einu sinni, en þá var ekki risin þar byggð.
Þessa daga - dagsetning þó óviss - gerði vatnsflóð á Akureyri. Vatn rann víða í hús í asahláku á Akureyri og aur spillti lóðum við svonefnt Skammagil. Vatnavextir spilltu vegum víða. Þann 26. fauk þak af húsi á Fáskrúðsfirði og skemmdi þrjár bifreiðir.
Fyrstu dagana í mars gerði mikið sunnanveður með hlýindum og úrkomu. Vegarskemmdir urðu á Suður- og Vesturlandi. Foktjón varð í Árneshreppi á Ströndum. Tíminn greinir frá því í pistli þann 6. mars:
GVTrékyllisvik Mikið hvassviðri hefur geisað hér um slóðir undanfarna daga. Verst var veðrið á mánudaginn [4.mars] og þá varð talsvert tjón á nokkrum bæjum. Mest varð tjónið á Stóru-Ávik. Þar fauk sambygging, sem hafði að geyma fjós, inngang og ljósavél heimilisins. Í fjósinu var ein kýr, kvíga og nokkrar kindur. Í einni vindhviðunni um miðnætti á aðfaranótt þriðjudags sviptist húsið í burtu og er að var komið var kýrin ein eftir. Leit var gerð að skepnunum og fundust lömbin heil á húfi, en kvígan er ófundin og er helst haldið að hana hafi hrakið í sjóinn undan veðrinu. Auk þessa tók af aðra hlið þaksins á íbúðarhúsinu og dreifðist brakið um allan sjó. Tjón Guðmundar bónda Jónssonar er því tilfinnanlegt, ekki síst þegar þess er gætt að hann er frumbýlingur og hóf búskap að Stóru-Ávik s.l. vor. Þá fuku 5070 hestar af heyi á Finnbogastöðum og þak tók af votheysgeymslu. Að Munaðarnesi tættist niður grind að húsi, sem var i byggingu. Rúður brotnuðu og glugga tók úr i Árnesi. Upp úr hádeginu i gær tók að lygna og þá fóru þeir, sem heimangengt áttu, að Stóru-Ávik til þess að leggja Guðmundi bónda lið. Asaleysing hefur verið þessa daga og svellalög, sem voru mikil, hafa runnið verulega niður. Það kemur sér vel, því að menn voru farnir að óttast kal, ef ekki færi að hlána.
Vegna verkfalls prentara komu blöð ekki út í 7 vikur vorið 1974, frá 25. mars til og með 9.maí. Mikið var um að vera á stjórnmálasviðinu, reglubundnar sveitarstjórnarkosningar framundan í maílok og hálfgert upplausnarástand á Alþingi með stjórnarslitum, þingrofi og júníkosningum. Þegar blöð loks fóru að koma út voru þau full af stjórnmála- og stefnufréttum - lítið fór fyrir sparðatíningi um veður enda voru suðlægar áttir ríkjandi allan þennan tíma, lengst af með blíðuveðri og hlýindum um land allt. Tún voru víðast hvar talin algræn í apríllok. Þann 31. mars er getið um vegarskemmdir í vatnavöxtum í Öræfum og víðar á Suðausturlandi.
Í byrjum maí hófst mikil jarðskjálftahrina í uppsveitum Borgarfjarðar og stóð hún langt fram eftir júní. Hörðustu kippirnir urðu þann 12. Þetta voru fyrstu kippir sem ritstjóri hungurdiska hafði fundið á sinni tíð - var þó orðinn 23 ára gamall. Tíminn segir frá daginn eftir [13.]:
Jarðskjálftarnir í Borgarfirði voru með allra snarpasta móti í gær, sérstaklega voru tveir kippir tilfinnanlegir, sá fyrri um fjögurleytið og hinn síðari um sex-leytið. Fannst seinni kippurinn greinilega í Reykjavík og nötruðu stærri byggingar. Skriða féll á veginn í Bröttubrekku, skammt frá Miðdalsgili, en um sjöleytið var bíll lagður af stað með jarðýtu til að ryðja veginn. Kirkjan í Stafholti varð fyrir skemmdum og hlaðinn veggur hrundi á Hvassafelli í Norðurárdal. Fregnir víða af landi herma, að seinni kippurinn hafi fundist greinilega í mikilli fjarlægð. Mældist síðari kippurinn 6,3 stig á Richter-kvarða, en það mun vera svipaður styrkleiki og í jarðskjálftunum miklu, sem urðu á Dalvík árið 1934. [Eitthvað munu endurreikningar hafa dregið úr styrktölunni].
Og þann 14. júní segir Tíminn:
Magnús Kristjánsson i Norðtungu sagði, að þar hefði allt verið á tjá og tundri eftir jarðskjálftana i fyrradag leirtau, bækur og smámunir ýmiss konar út um allt. Konur og börn hefðu flúið af bæjum og leitað athvarfs í sumarbústöðum i Munaðarnesi og á Hreðavatni. þar á meðal tvær dætur Magnúsar með börn sin. Skemmdir urðu þó nokkrar hér í upphéraðinu, og hér hjá mér skemmdist til dæmis nýbyggt fjós það komu sprungur bæði í veggi og gólf. Á Hermundarstöðum hrundi íbúðarhús, að vísu gamalt og stóð autt. Sumargestunum hér þykir líklega bara tilbreyting að þessu, sagði Sigrún Bergþórsdóttir húsfreyja á Húsafelli. A.m.k. hefur enginn þeirra haft við orð að fara eða sýnt nein óttamerki. Veggir á gömlum húsum hér að Húsafelli hafa sprungið lítillega, sagði Sigrún, og mikið hefur glamrað í skápum og hrikt i húsinu, en við erum samt hin rólegustu.
Elís Jónsson, umdæmisstjóri vegagerðarinnar i Borgarnesi, sagði, að skriðan, sem fékk á veginn um Bröttubrekku, hefi verið sextíu metra beið, þar sem hún fór yfir veginn. Þarna var gróin hlið, sagði Elís, og skriðan hefur byrjað alveg upp við fjallsbrún, steypst niður í Miðdalsgil og kastast um tuttugu metra upp i hliðina hinum megin. Vafalaust hefur vatnsagi átt talsverðan þátt í þessu skriðufalli.
Um svipað leyti og jarðskjálftarnir var töluverð úrkoma á landinu. Ritstjóri hungurdiska man vel eð mörgum þótti rigningasumar vera yfirvofandi. Svo fór þó ekki. Sumarið fékk sérlega góð eftirmæli - þó endasleppt yrði. Leysing var ör norðanlands og þann 13. fórst fé og fjögur hross á Núpá í Sölvadal. Vatnavextir voru einnig á svipuðum slóðum þ.20.
Tíminn segir þann 20. af kuldakasti sem gerði þann 16. til 19:
BH-Reykjavik Það þarf engan að undra svalviðrið, sem verið hefur undanfarna daga, norðanáttin stendur beint af hafíssröndinni við Grænland, og það getur svo sem gerst á öllum árstímum, að það snjói niður undir sjó, eins og gerðist á Vestfjörðum i nótt, sagði Jónas Jakobsson veðurfræðingur, við okkur síðdegis í gær, er við hringdum í hann og leituðum frétta. Þetta hefur svo sem gerst áður í kringum 17. júní, að við höfum fengið kuldakast víða um land, og snjóað hefur í fjöll og niður undir byggð. Annars er breytileg átt um austanvert landið. Við spurðum Jónas að því hvort horfur væru á breytingum, og kvað hann erfitt að lofa nokkru í þeim efnum, en það væri svo sem lítandi á veðurkortið. Á hádegi í gær var svalt um vestanvert landið norðanvert, þar næddi kalda loftið frá hafísnum inn á flóa og firði. Hitinn var 2 stig á Þóroddsstöðum í Hrútafirði og 3 á Hjaltabakka, 8 stig á Akureyri og 7 í Reykjavík, en ekki nema 5 stig í Borgarfirðinum, svo að norðvestan svalinn hlýnar smám saman eftir því sem sunnar og austar dregur. Þá var 13 stiga hiti á Hæli í Hreppum, og 14 stig á Egilsstöðum í sunnan andvara. Ég er hræddur um það, sagði Jónas að lokum, að ef ekki bregður snarlega til hins betra, þá verði júní undir meðallagi, hvað hita snertir en það er auðvitað of snemmt að spá nokkru um þetta ennþá. [Tökum fram að enginn hafís var við strendur Íslands árið 1974].
En eftir 20. hlýnaði rækilega og gerði skammvinna hitabylgju með óvenjulegum hita víða norðanlands. Sunnudaginn 23. júní mældist hámarkshiti 29,4 stig á Akureyri, það næsthæsta sem nokkru sinni hefur mælst þar. Heyrst hefur að þetta sé óeðlilega hátt, umbúnaður mæliskýlis hafi ekki verið með fulllöglegum hætti við Lögreglustöðina á þessum árum. Mælingin hefur þó ekki verið afskrifuð, enda varð afskaplega hlýtt á fleiri stöðvum, fór í 25 stig eða meira á allmörgum stöðvum, m.a. 27,4 stig á Dratthalastöðum á Héraði og 27,2 á Hallormsstað. Á Suður- og Vesturlandi fór hiti yfir 20 stig á allmörgum stöðvum. Alvöru hitabylgja.
Blöðin birtu fréttir af hitanum. Tíminn segir frá þann 25. júní:
BHReykjavlk Það er alveg áreiðanlegt, að ónauðsynlegar flíkur háðu ekki mannfólkinu á þeim stöðum, þar sem heitast var um helgina. Hitinn var geysimikill um land allt og að því er Knútur Knudsen veðurfræðingur fræddi okkur um, var nánast engin úrkoma. Hins vegar læddist úrsvöl þoka inn yfir landið vestanvert á sunnudag. Það er engin vafi á því, að sunnudagurinn er heitasti dagur sumarsins og gerir talsvert strik í reikninginn, því að júnímánuður leit út fyrir að ætla að verða talsvert undir meðallagi. Hitinn sló öll met á Akureyri fyrr og siðar, reyndist vera 29,4 stig og er raunar með því allra heitasta, sem mælst hefur yfirleitt á landinu. Aðeins örfáum sinnum hefur hiti mælst yfir 30 stig. Ég fæ ekki betur séð en einu dæmin fyrir ofan þetta séu frá Teigarhorni 30 stig, sama dag 30.2 stig á Kirkjubæjarklaustri, og svo 30.0 stig á Hallormsstað 17. júlí 1946, en þetta eru nú kannski ekki alveg áreiðanlegar tölur.
Hverjar eru orsakirnar til þessa óskaplega hita? Orsakirnar eru hæð yfir landinu og hægviðrið, stillan og sólskinið. Það er nefnilega eðlishlýtt loft yfir landinu, sem nær allt inn á hálendið. Það er alveg jafn heitt inni á hálendi og úti við ströndina.
Hvaðan kemur þetta heita loft? Þetta heita loft kemur alla leið sunnan úr Evrópu, suðaustan að. Ég býst ekki við miklum breytingum, nema hvað það dregur auðvitað úr hitanum. Annars held ég veðrið verði heldur aðgerðalitið. Ég held þokunni vestanlands létti, en það er annars sólskin um allt landið, glaðasólskin strax austan við fjall.
Og Morgunblaðið sömuleiðis, 25. júní:
Gífurlegur hiti var á Austfjörðum á laugardag [22.júní] og sunnudag og reyndar þurftu Austfirðingar ekki að kvarta undan veðrinu í gær [mánudag], því þá var hitinn víðast 1618 gráður. Í Neskaupstað mældist hitinn á laugardaginn mest 24 gráður, en á sunnudaginn komst hann í 30 gráður um miðjan dag. Á meðan hitinn var mestur reyndist hitinn á móti sólu vera 50 gráður. Sögðu Norðfirðingar í gær, að þeir væru enn dasaðir eftir þennan mikla hita og nú fyndist flestum kalt, hitinn ekki nema 16 gráður.
Þó ekki næði hitinn neitt svipuðum hæðum það sem lifði sumars var veður áfram gott. Fréttir bárust af góðviðri. Tíminn greinir frá (óvæntum?) tíðarfarstengdum bilunum á hitaveitu í Reykjavík í pistli 10.júlí:
SJ-Reykjavik Óvenjumikið hefur verið um bilanir í heimæðum hitaveitu í Reykjavík að undanförnu. Orsök þessa er þótt einkennilegt kynni að virðast góða veðrið, og hitinn, sem verið hefur síðustu vikur. Bilanirnar eru tíðastar i elstu lögnunum i borginni og þar sem
bilað hefur áður. Fólk skrúfar lítið frá hitaveitu í húsum sinum núna, og margir hafa ekki hleypt á heitu vatni vikum saman. Við þetta kólnar vatnið í heimæðunum og þær dragast saman og hættir þá til að springa. Einnig eykur það á bilanahættu að þrýstingur er með meira móti í lögnunum þegar svo litið er skrúfað frá í húsunum. Jóhannes Zoega hitaveitustjóri, sagði okkur, að bilanir af þessu tagi væri sumarfyrirbrigði, en nú væru þær með meira móti, enda hefði verið hér óvenju langur góðviðriskafli. Lítið sagði hann um að vatn flyti um götur og lóðir af þessum völdum enda væri lokað fyrir vatnið þegar og uppvist væri um slíkt. Bilanirnar eru um alla borgina, en þó eru þær algengastar, þar sem lagnir eru elstar eins og áður sagði. Viðgerðamenn hitaveitunnar eru önnum kafnir við viðgerðir, en þessar bilanir koma á versta tíma nú, þar sem margir eru í sumarleyfi.
Í frétt í Tímanum þann 25. júlí kemur glögglega fram að hlýindakröfuharka borgarbúa var varla hin sama og nú á dögum:
HPReykjavik. Um kl. 15 í gær var mjög gott veður i borginni, vestan 2 vindstig, léttskýjað, skyggni ágætt og hiti var um 11 stig auk þess sem loftvog stóð í 1006 millibörum. Sprangaði fólk um fáklætt og naut blíðunnar og Jesúfólk boðaði vegfarendum
eilífa sælu á göngugötunni í Austurstræti, með gítarspili og söng.
Þjóðhátíð var haldin á Þingvöllum þann 27. og 28. júlí í einmunablíðu þar. Í Borgarfirði þótti ritstjóra heldur napurt í norðaustanbelgingi - en góðum þurrki.
Heyskapur gekk almennt vel, en talsvert bar á kali í túnum. Kom það nokkuð á óvart eftir sérlega mildan síðari hluta vetrar og methlýtt vor. En ekki má gleyma því að fádæma kuldar voru fyrir áramót.
Tíminn segir frá þann 30.júlí:
BH-Reykjavik. Kalskemmdir í túnum hér í Árnessýslu eru mun alvarlegri en búist hafði verið við, sagði Garðar Vigfússon i Húsatóftum, fréttaritari Tímans, er blaðið hafði samband við hann i gær. Það má heita, að kalið nái yfir allar sveitir sýslunnar, mismunandi mikið að vísu, sum tún hafa sloppið betur en önnur, en óviða hafa tún sloppið með öllu. Eftir að batinn kom í vor hefur hann verið samfelldur, og hefur það eflaust orðið til þess, að ástandið er ekki verra en það er. En það er viðast hvar, sem menn hafa beðið með að slá allt fram á þennan dag í voninni um meira gras. Þeir, sem slógu fyrst, hafa ekki fengið nema hálft magn á við það, sem þeir hafa fengið áður. Annars má segja, að heyskapurinn gangi vel, og heyin eru góð svona yfirleitt, og sprettutíð hefur verið það góð upp á siðkastið, að það má gera sér vonir um, að ýmsir þeir, sem slógu fyrstir, geti slegið aftur. En hitt er augljóst, að margir verða heylitlir, sem ekki áttu því meiri fyrningar.
Og enn segir Tíminn 1.ágúst:
OÓ-Reykjavik. Tíð hefur verið einmuna góð í vor og það sem af er sumars, og heyskapur víðast hvar gengið vel. Þó er það ekki einhlítt, því þurrkar hafa dregið úr sprettu og talsverðar skemmdir komið fram í túnum. Tíminn hafði I gær tal af Þorvarði Júlíussyni, bónda á Söndum í Miðfirði, og sagði hann, að þar um slóðir hefði sprettan verið heldur lítil, sérstaklega þar sem tún voru beitt í vor og seint var borið á. óvenjulega langvinnir þurrkar hafa verið og dregið mjög úr sprettu. Hefur lítil væta verið frá og með marsmánuði. Annars staðar er sprettan góð, eða þar sem túnin voru friðuð og snemma var borið á. Margir eru langt komnir með slátt, en yfir það heila hefur heyskapur verið með minna móti. Víða um land eru tún kalin, og er það óvenjulegt í slíku árferði sem nú, er snemma voraði og tíð var stöðug. En ástæðan er sú, að gífurlegar frosthörkur í nóvember og desember fóru illa með túnin. Þá má segja, að klakahella hafi legið yfir öllu, og nægir ekki þótt vorið sé gott, þegar jörð er ein glæra um miðjan vetur. Menn eru yfirleitt sammála um, að þeir muni ekki eftir öðru eins sumri síðan 1939, en þá fór saman mikil sól og hæfilegt regn, en nú er miklu þurrara. Á sunnanverðu Snæfellsnesi ber mikið á kali í túnum, og á sumum bæjum eru þau illa farin af þeim sökum. Í Kolbeinsstaðahreppi er mikil melarækt og brást hún í ár að miklu leyti. Þeir sem snemma báru á, ná sæmilegum heyjum, aðrir litlum sem engum. Á Norðausturlandi er sums staðar svipaða sögu að segja, þar hafa þurrkar tafið sprettu og kal í túnum, og heyfengur ekki eins góður og ætla mætti eftir veðurblíðu undangenginna vikna.
Enn eru blíðufréttir í Tímanum þann 8. ágúst:
HHJRvik Undanfarnar vikur hefur sólfar verið meira hérlendis en við eigum að venjast, þótt nú hafi orðið veðrabrigði sunnanlands og líklegt, að votviðri ríki næstu dægur hér syðra. Norðanlands er hins vegar sólskin og hlýviðri. Já, það hafa orðið nokkur umskipti hér sunnanlands, sagði Jónas Jakobsson, þegar Tíminn hafði tal af honum. Líklega verður suðaustanátt næstu daga, en norðanlands er sólskin og blíða. Hitinn á Grímsstöðum á Fjöllum er t.d. 17 stig, og á Akureyri er 16 stiga hiti. Orsök blíðunnar að undanförnu er sú, sagði Jónas, að vestanvindabeltið svonefnda, sem að jafnaði er á milli fertugustu og sextugustu breiddargráðu, hefur að undanförnu legið öllu sunnar en vant er. Hvað því veldur er hins vegar vandskýrðara. Rigningasumrum hér hjá okkur veldur Azoreyjahæðin svonefnda, sem tíðast liggur frá Azoreyjum norðaustur um Bretlandseyjar. Einstöku sinnum hafa komið sólríkari júlímánuðir hér en sá sem nú er nýliðinn, en þá hefur oftast verið svalara, sagði Jónas að lokum.
Jú, einhverjar áhyggjur höfðu menn af framtíðinni og árinu 2050 (sem nú er nærri 50 árum nær okkur en þá). Menn deila víst um það nú hvort rétt hafi verið spáð. Tíminn segir frá þann 8. ágúst:
Ef við eigum að forðast aumkunarverð endalok alls, sem okkur þykir nú hvað mest um vert, í kringum árið 2050, verður að stöðva blessaðan og marglofaðan hagvöxtinn nú þegar. Það er mikilvægasta ályktunin í einni af umdeildustu dómsdagsbókinni, Takmörk þenslunnar, sem hópur vísindamanna og iðnaðarforsprakka gaf út árið 1972. Með aðstoð tölvu hefur verið kannað, að hverju fer, ef núverandi þensla heldur áfram fram til ársins 2100. Niðurstaðan er þessi: Að liðnum fyrstu áratugum tuttugustu og fyrstu aldarinnar, mun framleiðsla á matvöru og iðnaðarvarningi á hvern mann dragast stórlega saman, því að þá verða hráefni og orka æ dýrari. Þetta veldur því, að dánartala eykst til mikilla muna, og fólksfjöldinn í heiminum fer minnkandi eftir miðja tuttugustu og fyrstu öldina. Það er þó ljós fjöður á þessum væng, að um árið 2040 fer sjálfkrafa að draga úr mengun. Það kemur þó ekki til af góðu: Orsökin er samdráttur framleiðslunnar. Til þess að spádómar af þessu tagi yrðu ekki of einhliða, var tölvan notuð til annarra útreikninga, þar sem meira var tekið með af því, sem gat gert niðurstöðurnar ofurlitið bjartari. Þar var meðal annars gert ráð fyrir ótakmarkaðri orku til dæmis kjarnorku og sólarorku, baráttu gegn mengun frá og með árinu 1975, þannig að mengunarvaldar drægjust saman um fjórðung, og takmörkun á mannfjölgun. En eigi að siður var dómur tölvunnar óglæsilegur. Ragnarökunum var aðeins talið skotið á frest fram undir 2100.
Seint í ágúst mátti heita að sumrinu væri lokið, að vísu voru fyrstu dagar september góðir og í stíl sumarsins. Kalt var um land allt. Þann 27. var hiti í Reykjavík var aðeins 4,6 stig kl.12 og er það lægsti ágústhiti í Reykjavík á þeim tíma sólarhrings frá að minnsta kosti 1949. Tíminn birti þann 27. ágúst fréttir af leiðinlegu hreti (við styttum pistilinn lítillega):
BH-Reykjavik. Veðurofsi af norðri gekk yfir landið um helgina [24. til 25. ágúst] með úrkomu og hvassviðri, og olli vatnsflaumurinn skriðuföllum og vegaskemmdum á landinu austanverðu. Á hálendi snjóaði, og tepptust vegir víða, og enda þótt viðast hvar hefði tekist að opna þá í gær, var því verki enn ekki lokið, er blaðið hafði samband við Vegagerð ríkisins í gærdag. Skriður féllu á Austfjörðum og ollu skemmdum á vegum. Það var síðari hluta laugardagsins og á sunnudag, sem vonskuveður af norðri geisaði um verulegan hluta landsins, sagði Páll Bergþórsson veðurfræðingur, þegar blaðið hafði samband við hann i gær. Þetta byrjaði með úrhellisrigningu, og hefur hún óviða mælst meiri, sérstaklega fyrir austan og norðaustan. ... Í kjölfar rigningarinnar tók að hvessa, fyrst af norðaustri en síðan af norðri, og mátti heita norðanhvassviðri um allt land, þetta 9-11 vindstig. Slydda á hálendi. og á Hólsfjöllum snjóaði, var komið 5-10 sm snjólag á sunnudagskvöld og hiti við frostmark. Hérna sunnanlands var úrkoman mikil, talsvert hvasst og komst upp í 9 vindstig hérna í Reykjavik. Á skipi hérna vestur af Reykjanesinu mældust 10 vindstig og á Stórhöfða reyndust þau 11, og það er mikið í norðanáttinni. Á sunnudagskvöldið fór veðrið að ganga niður. Þá voru 9 vindstig i Grímsey, en voru komin niður í 7 um hádegisbilið í gær. Þannig fórust Páli Bergþórssyni, veðurfræðingi, orð, um veðrið yfir helgina.
Starfsmenn Vegagerðarinnar hafa verið önnum kafnir eftir óveðrið austanlands og norðan um helgina, sagði Hjörleifur Ólafsson hjá Vegagerð ríkisins, er blaðið hafði samband við hann í gær. Vegaskemmdirnar af völdum veðurofsans urðu aðallega á Austurlandi, og skal nú getið þess helsta: Norðfjarðarvegur fór i sundur rétt við kaupstaðinn, en var orðinn fær á sunnudag. Vegurinn milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar lokaðist um tíma. Miklar skriður féllu á Hólmahálsi, á móti Eskifirði líklega á rúmlega hundrað metra kafla en sá vegur var orðinn fær í gær. Fáskrúðsfjarðarmegin gekk mikið á í Vattarnesskriðum, þar féllu miklar skriður og skörð komu i veginn, svo að hann lokaðist gjörsamlega, en búist var við því á sunnudagskvöldið, að hann yrði að minnsta kosti jeppafær á mánudag. Þá féllu skriður á veginn utan við Búðareyri. Einnig skemmdist vegurinn í Kambanesskriðum en þar tókst fljótlega að lagfæra hann. Á Berufjarðarströnd hjá Fossgerði hafði verið lagður nýr vegarspotti til bráðabirgða, en hann er ekki lengur til, og verður að notast við gamla veginn þar.
Um skemmdir sunnar á Austfjörðum er naumast að ræða. Á Héraði lokaðist vegurinn efst í Fagradal um tíma. Þetta er nú helst að segja um vegaskemmdir af völdum skriðufalla og úrkomu, en þess ber að geta, að um landið norðan- og norðaustanvert lokuðust fjallvegir um tíma vegna snjóa. Byrjað var að ryðja Vopnafjarðarveg á sunnudag, en þar skóf og var haldið áfram að ryðja hann i gær. Hálka er á Austurlandsveginum, en ekki um ófærð á honum að ræða. Axarfjarðarheiði er þungfær, og leiðin frá Grímsstöðum niður í Axarfjörðinn illfær. Námaskarðið var ófært í gærmorgun og var veghefill sendur í það I dag. Mývatnsvegurinn, sem venjulegast gengur undir nafninu Kísilvegur, lokaðist með öllu, og var verið að ryðja hann í gær. Fljótsheiði, Vaðlaheiði og Lágheiði eru ófærar, og ekki búist við því að þær verði ruddar fyrr en í dag þriðjudag, eða jafnvel næstu daga. A Öxnadalsheiði er hálka, sömuleiðis er mikil hálka á Breiðadalsheiði, en hún lokaðist ekki. Ekki hafa orðið tafir á Þorskafjarðarheiði. Þá er að geta þess, sagði Hjörleifur Ólafsson okkur að lokum, að Uxahryggjaleið varð ófær á sunnudaginn vegna sandfoks. Þetta gerist stundum í norðanáttinni, þótt ekki blási eins og nú um helgina.
Þá höfðum við samband við fréttaritara blaðsins á Seyðisfirði, Ingimund Hjálmarsson, og sagðist honum svo frá: Þetta var óskaplegt úrfelli hérna fyrir austan um helgina, og muna menn ekki annað eins. Snemma á sunnudagsmorgun féll skriða yfir Búðareyrina, eftir Búðará, þar sem hún rennur milli húsanna númer 8 og 10 við Hafnargötu. Bar skriðan mikinn aur og stórgrýti með sér og stíflaði lækinn, svo að vegurinn varð ófær. Myndaðist mikið vatn við þetta og flæddi upp að nýju símstöðinni, en þar var nýbúið að rækta allt upp, fluttar þökur ofan af Fljótsdalshéraði, það losnaði vist allt. Það var talsvert verk að ryðja til svo að Búðaráin félli aftur leið sína til sjávar. Þá féll stór skriða úti við svokallaða Strönd hjá söltunarstöðinni Þór. Lokaði hún veginum, og er það verulega bagalegt, því að nú kemst enginn út á nýja flugvöllinn, fyrr en vegurinn hefur verið ruddur.
Þann 28. ágúst birtist ágætt viðtal í Tímanum við Jónas Jakobsson veðurfræðing. Við styttum það nokkuð hér:
Nú er senn á enda eitt fegursta sumar, sem menn muna á Suðurlandi. Samt höfum við heyrt, að á mælikvarða Veðurstofunnar sé þetta ekki neitt sérstakt. Hvað veldur því? Koma slík sumur ekki fram á veðurskýrslum sem einstök afbrigði? Þetta er hlutur, sem þarf að athuga vel, þegar metið er hvað sé gott veður. Það er talið gott sumar fyrir atvinnuvegina og almenning, þegar lítil úrkoma er, en þó verður hún að vera nægjanleg til þess að gróðurinn dafni eðlilega, og það þarf að vera nokkurt sólskin. Yfirleitt teljum við, að þegar þessir tveir þættir eru komnir i meðallag, þá þurfi að vera kyrrt i lofti, en ekki vindasamt. Það er einmitt þetta, sem hefur verið i sumar, að litið hefur verið um hvassviðri, vindur hefur oftast verið hægur, og er það því að þakka, að lægðir hafa sneitt hjá landinu, hafa yfirleitt farið sunnar en venjulegt er, og þær hafa oftast verið grunnar. Það eru þessar stillur, sem hafa einkum gert sumarið gott í augum almennings. Veðurspárnar eru hugsaðar með þarfir atvinnuveganna fyrst og fremst fyrir augum, þótt auðvitað komi þær öllum að daginn gamlan mann, sem sagði mér, að sumrin 1929 og 1939 hefðu verið svona góð, svo það verður að leita langt aftur til þess að finna samjöfnuð. Hann var að vísu Akureyringur, svo hann hefur ef til vill ekki verið sunnanlands þessi ár, og hann sagði mér einnig, að sumarið 1914 hefði mælst 30 stiga hiti á Akureyri þrjá daga i röð og hefði hitinn þá jafnvel komist upp i 36 stig. Hvort þær mælingar hafa verið samkvæmt þeim reglum, sem veðurfræðin setur, skal ég ekki segja.
Nú hafa veðurfræðingar á Íslandi fengið afnot af gervihnöttum. Veðurskipum hefur fækkað á sama tíma, og meira verður að treysta á tilfallandi skipaumferð á N-Atlantshafi til að safna upplýsingum. Hvernig hefur þessi breyting komið fram i veðurspánum? Ég tel, að þegar umhleypingasamt er, þá hljóti það að hafa áhrif á veðurspárnar, að á stóru svæði á hafsvæðinu fyrir vestan okkur eru ekki lengur neinar fastar veðurathugunarstöðvar. Fyrir um það bil fimm árum voru þarna fjögur veðurskip. Á hafinu milli Íslands og Grænlands var veðurskipið Alfa, milli Suður-Grænlands og Labrador var veðurskipið Bravó, þriðja skipið var svo alllangt suður i Atlantshafi, og það fjórða var alllangt austur af Nýfundnalandi. Skipin á austanverðu Atlantshafi, Indía og Júlía, eru hins vegar ennþá á sínum stað. Þau gera að vísu mikið gagn, en koma hins vegar ekki i stað þeirra skipa, sem horfin eru. Myndirnar frá veðurhnöttunum fylla mikið inn i þær myndir, sem við gerum okkur um veðrið umhverfis landið. Ef við fáum myndir af hafsvæðunum fyrir vestan okkur á æskilegum tíma þá geta þær hjálpað okkur mikið við spárnar. Myndirnar eru teknar tvisvar á sólarhring. Við sjáum hins vegar ekki á myndunum, hve hvasst er, né heldur hve djúpar lægðirnar eru. Aðstaða veðurstofunnar og veðurfræðinga er því verri nú en hún var, meðan veðurskipunum var haldið úti. Þó verður að geta þess, að skipaumferð kemur oft til mikillar hjálpar við veðurathuganir á þessum slóðum. Það eru einkum íslensku millilandaskipin, sem þarna eru á ferð, en auðvitað líða oft dagar, þegar engin skip eru á þessum slóðum. Ennfremur fáum við skeyti frá dönskum Grænlandsförum og togurum, en hinir síðasttöldu eru þó oftast of nærri landi.
Nú tóku menn eftir því, vegna þjóðhátíðarinnar, að það tókst að spá mjög nákvæmlega um veðrið á þjóðhátíðardaginn, og það nokkrum dögum áður. Hvað olli því? Voru gerðar einhverjar sérstakar ráðstafanir? Það má segja, að þetta hafi verið sérstök heppni. Það var staðviðrakafli um þetta leyti. Það sem gert var, og reyndist líka rétt, var að spá svipuðu veðri næstu daga", því ekkert var sjáanlegt, sem benti til skyndilegra breytinga á hæðum og lægðum umhverfis landið. Farið var einvörðungu eftir þeim upplýsingum, sem fyrir lágu á veðurstofunni, og ekkert sérstakt var gert eða unnt að gera til þess að sjá lengra fram i tímann en endranær. Vísindastörf í veðurfræði Það hefur komið fram, að Alþjóðaveðurfræðistofnunin er aðili að umfangsmiklum vísindarannsóknum á Norðuríshafinu, hafinu norður af Ísandi og austur með Grænlandi. Álitið er, að þekking á íshafinu aukist mikið á næstu árum. Mun þetta hafa áhrif á veðurspár á Íslandi? Ég get auðvitað ekki sagt fyrir um það, sem kemur út úr þessum rannsóknum, en allt vísindastarf í veðurfræði skilar sér með einhverjum hætti í hagnýtri veðurfræði. hitastig i hafinu umhverfis okkur hefur mikil áhrif, og ég held, að reglubundnir leiðangrar hafrannsóknaskipa frá Ísandi hafa þegar gert mikið gagn til þess að sýna samhengið milli sjávarhita og veðurfars á Íslandi. Viðbótarrannsóknir eru vel þegnar. Veðurstofan vinnur alltaf að vísindastarfi, skráningu og úrvinnslu gagna um veður á Íslandi. Sem dæmi um þetta má nefna, að veðurstofan hefur undanfarin ár skráð allar haftsfregnir og gefið út sérstakt rit um þá starfsemi. Einstakir menn hafa ritað merkilegar ritgerðir í tímarit okkar [Veðrið], og svona mætti lengi telja.
Nú hefur verið gott sumar, og þá líklega gott að vera veðurfræðingur. Hvernig er það í rysjóttri tíð? Er ykkur þá kennt um vonda veðrið? Við erum nú lítið skammaðir. Þó kemur það fyrir, að óánægðir neytendur láta okkur fá orð í eyra. Síðan sjónvarpið kom, hefur skilningur manna á veðurfræði aukist til muna um allt land. Sjónvarpið gefur einnig meiri möguleika en t.d. veðurfregnir gera í útvarpi. Í veðurfregnum og veðurspám í útvarpi verður þetta að koma hreint og klárt, en í sjónvarpinu gegnir öðru máli. Oft er það svo, að fleiri en einn möguleiki er hugsanlegur um þróun veðurfarsins, og þá getur veðurfræðingurinn ekki einasta spáð veðri morgundagsins, hann getur einnig skýrt frá því, hvað annað kunni að vera hugsanlegt, en það er einmitt þetta, sem kemur fram i spánni. Möguleikarnir eru því meiri. Útvarpsspáin gerir hinsvegar ráð fyrir aðeins einum möguleika. Áhugi almennings á veðurfræði hefur líka aukist, og menn hafa meiri skilning á þeim vinnubrögðum, sem notuð eru til þess að segja fyrir um veður, og þetta gefur aukna möguleika til þess að koma upplýsingum og spám til almennings, misgóðum að vísu. Nú standa sumarleyfin yfir. Er ekki ráðlegt að taka sumarleyfið um leið og veðurfræðingarnir, upp á að fá gott veður? Nei, blessaður vertu. Þeir eru illviðrakrákur hinar mestu. Það er sagt, að ef þrír veðurfræðingar komi saman, þá geri snarvitlaust veður, sagði Jónas Jakobsson að lokum. J
Rétt fyrir miðjan september rigndi mikið austanlands og urðu vegir illa úti. Tíminn segir frá þann 14.:
HJ-Reykjavik Mikil úrhellisrigning hefur gengið yfir Austfirðina, og hefur það haft í för með sér heldur leiðinlegar afleiðingar fyrir vegakerfi þeirra Austfirðinga. Að sögn Arnkels Einarssonar, vegaeftirlitsmanns hjá Vegagerð ríkisins, lokaðist Suðurfjarðarvegur í Kambanesskriðum, milli Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvikur, í gærmorgun. óvist er, hvenær sá vegur verður á ný fær bílum. Auk þess lokaðist Austurlandsvegur í Berufirði, milli Teigarhorns og Framness. Þar gróf frá ræsi, en vonir standa til, að því megi koma í lag mjög fljótlega.
Þann 26. september og næstu daga á eftir gerði allmikið norðanillviðri. Fjölmargar plötur fuku af raðhúsi í Mosfellssveit (nú Mosfellsbæ). Tíminn segir 1. október af hrakningum eftirleitarmanna á Suður- og Austurlandi og einnig línutjóni eystra:
BH Eftirleitarmenn úr Biskupstungum hrepptu hið versta vedur á afréttum um helgina og varð að hjálpa tveim þeirra til byggða, var annar fótbrotinn, en hinn hafði fengið sand í augun. Slíkt aftakaveður var á Biskupstungnaafréttum, að blæddi úr augum hunda og hesta, og að því er heimildarmenn okkar eystra sögðu okkur í gær, er engu líkara en tveggja ára sandgræðslustarf inni á afrétt sé með öllu ónýtt. Um fjárheimtur var lítið vitað í gær. Þegar við ræddum við fréttaritara okkar, Garðar i Aratungu, voru þeir komnir til byggða, Guðjón á Tjörn og Þórarinn í Fellskoti. Var Guðjón fótbrotinn. Hafði hestinn hrakið undir honum, svo að hann lenti á steini, með áðurnefndum afleiðingum. Þórarinn hafði hins vegar fengið sand í augun svo illyrmislega, að hann treysti sér alls ekki til að halda áfram. Það er nú kannski ekki hægt að segja, að það hafi verið hrakningar á okkur, en vont var veðrið, sagði Þórarinn, þegar blaðið ræddi við hann. Mikinn moldbyl fengum við þarna einn daginn. Menn og hestar voru illa leiknir. Það var líka ansi vont, sem ég fékk í augun, svo að ég varð að hætta leitinni. Við vorum að tala um sandgræðsluna, við Garðar. Hvað sýndist þér um hana? Það er náttúrlega ekki gott að segja, hvernig þetta er farið, en það fýkur auðvitað gífurlega upp, þegar svona þurrt er. Heldurðu, að það hafi hrakist eitthvað fé? Við vorum nú litið búnir að sjá af fé, og náttúrlega ekkert þennan dag, af því að það var engin leið að sjá það, en ég veit um fjórar kindur, sem búið er að finna þarna. Svo veit maður ekkert um hitt Nú ert þú vanur gangnamaður, Þórarinn. Hefur þú lent í einhverju svipuðu áður? Nei, ekki svona. ekkert svipað þessu.
Gsal-Gé Bé Rvik Í síðustu viku brotnuðu raflínustaurar á Austfjörðum, bæði á Gagnheiðarlinu og Fjarðarheiðarlínu. Enn fremur brann yfir spennir á Eiðum. Af þessum sökum varð rafmagnslaust á Úthéraði, og hefur verið erfiðleikum háð að halda slátrun gangandi á Fossvöllum. Að sögn Jóns Kristjánssonar, fréttaritara Tímans á Egilsstöðum, er nú búið að tengja díselvél í Lagarfljótsvirkjun inn á raflínukerfið, og því hefur ástandið batnað talsvert síðan Hér hafa verið stórrigningar og mjög úrkomusamt alla síðastliðna viku, og slydda og snjókoma til fjalla. Staurarnir á Gagnheiði og Fjarðarheiði brotnuðu vegna ísingar. Ísing leggst á línurnar, sem liggja þvert á vindáttina, og staurarnir brotna undan þunganum. Sagði Jón, að snjór umlykti þorpið, svo að segja á allar hliðar, og að aðeins á láglendinu við Lagarfljót væri auð jörð. Að sögn Jóns var veðrið mjög gott í gær, og eins á sunnudaginn. Það má segja, að þetta sé blíðuveður, og hér hefur breytt um átt. Á sunnudaginn var hér milt haustveður, eins og maður kannast best við það, og sömu sögu er raunar að segja um veðrið hérna í dag (mánudag). Sagði Jón, að undanfarnar vikur hefði verið mjög úrkomusamt og illskuveður yfirleitt eins og hann orðaði það sjálfur. Allt haustið hefur verið óvenjuslæmt, og það eru dæmi þess, að menn eigi hey úti ennþá, sem þeir höfðu ekki náð inn fyrir miðjan ágústmánuð. Gangnamennirnir sjö, sem tepptir voru í nokkra sólarhringa í Loðmundarfirði, með á annað þúsund fjár, fóru í gær yfir Fjarðarheiði, sem þá var sæmilega fær. Auðvelt var að reka féð yfir, en eitthvað var flutt á bílum. Fjárskaðar hafa orðið á Efri-Jökuldal og í Hrafnkelsdal, en ekki er enn fullkannað, hve miklir þeir eru. Eitthvað af kindum fór í Víðidalsá. Veðrið hefur verið með afbrigðum leiðinlegt, fyrir austan, geysilega mikil snjókoma og hvasst til fjalla. Gangnamenn voru nýfarnir til smölunar, þegar veðrið skall á fyrir helgi, og urðu þeir að snúa frá við svo búið og skilja það fé eftir, sem búið var að smala. Búist er við að fjárskaðarnir séu miklir, en eins og áður segir er ekki mögulegt enn að segja um, hve miklir þeir hafa verið.
Tíminn segir fréttir af veðurblíðu nyrðra þann 16. október:
BHReykjavik Það er Indian summer á Akureyri þessa dagana. Þar var 16 stiga hiti í fyrradag [13.október], og 14 stiga hiti í gær og logn og blíða. Menn nyrðra notfæra sér að sjálfsögðu blíðuna, og mátti sjá ærið marga dytta að húseignum sinum á sunnudaginn og mála í blíðunni. Þetta er eins og besta vorblíða, sögðu menn, allt í fullum gangi og menn fullir bjartsýni.
Mikil illviðrasyrpa gekk yfir landið 23. til 27. október. Þar fóru tvær mjög djúpar og krappar lægðir. Tjón varð einkum samfara fyrri lægðinni.
Lægðin kom á miklum hraða langt suðvestan úr hafi, dýpkaði ört og fór til norðausturs skammt úti af Vestfjörðum. Í sunnanáttinni rigndi feikn um landið sunnanvert, en síðan olli vestanstormurinn foktjóni, mestu á Austurlandi.
Tíminn segir frá þann 24.:
FB-Reykjavík. Mjög mikil úrkoma og vegaskemmdir urðu á Miðsuðurlandi og í Borgarfirðinum í gær. Mest mældist úrkoman í Vík í Mýrdal, 96,4 mm, og vegir skemmdust einna mest í Mýrdalnum. Þar var í gær aðeins fært stórum framdrifsbilum. Einnig höfðu orðið miklar vegaskemmdir. Í Borgarfirði, og ekki voru öll kurl komin þar til grafar, er blaðið hafði samband við Vegagerð ríkisins í gær. Geysimikið vatnsveður var á Suðurlandi aðfaranótt miðvikudagsins. Þess var reyndar ef til vill að vænta, vegna þess að þetta loft, sem hér sótti að okkur úr suðri, er komið af svæði, sem liggur um það bil 3000 km sunnar heldur en Ísland, hafsvæðið suðaustan við Bermúdaeyjar, sagði Jónas Jakobsson veðurfræðingur i viðtali við Tímann. Af veðurskeytastöðvum, sem senda okkur daglega skeyti, var mest úrkoman á Mýrum í Álftaveri, 65 mm. Þetta þótti hins vegar svo mikill viðburður, að veðurathugunarstöðin í Vík í Mýrdal, sem ekki sendir okkur daglega skeyti, heldur mánaðarskýrslur, sendi skeyti um úrkomuna, enda mældist hún 96,4 mm á 15 tímum, frá kl. 18 til 9, og þó byrjaði ekki að rigna fyrr en klukkan 18:30. Þetta er geysimikil úrkoma. Þriðja stöðin þarna frá að magni til, sem við fáum skeyti frá, var Hella á Rangárvöllum með 51 mm. Víða var úrkoman milli 40-50 mm. Mest virðist hafa rignt á Miðsuðurlandi, en í Borgarfirði rigndi líka mikið. Til dæmis mældist úrkoman í Síðumúla 29 millimetrar, og 31 á Gufuskálum á Snæfellsnesi. Nú er kominn útsynningur, suðvestlæg átt með skúrum (um miðjan dag í gær), og ég býst við að það verði slydduél með morgninum (fimmtudagsmorgni).
Mjög miklar rigningar hafa orðið hér á sunnan- og vestanverðu landinu, sagði Arnkell Einarsson hjá Vegagerðinni, þegar við spurðumst fyrir um ástand veganna. Af því hafa orðið allmiklar vegaskemmdir. Meðal annars rofnaði í morgun Suðurlandsvegur skammt frá Skeiðflöt í Mýrdal, og er þar nú alveg ófært í svipinn, nema hvað stórir framdrifsbílar hafa komist þar fram hjá. Þar verður nú hafin viðgerð strax og vatnið sjatnar, og það ætti ekki að taka mjög langan tíma. Töluvert miklir vatnavextir hafa verið í Árnessýslu, og þar hefur nokkuð viða runnið yfir vegi, en hvergi orðið ófært. Verst hafa vegir orðið úti í Borgarfirðinum. Borgarfjarðarbraut rofnaði til dæmis alveg við Geitaberg í Svínadal. Þar flæddi Þverá yfir veginn, og rauf hún hann við brúna hjá Geitabergi. Vesturlandsvegur rofnaði við Bjarnardalsárbrýrnar, fyrir neðan Dalsmynni í Norðurárdal. Þar er nú um 10 metra breitt skarð í veginum, og mjög mikill vöxtur er þar í ánni. Ekki verður hægt að eiga við viðgerðir á veginum þar fyrr en vatnið sjatnar. Viða rennur yfir vegi í Borgarfirði, og er hætt við að þar eigi eftir að verða frekari vegaskemmdir, þar sem vötn eiga ef til vill eftir að vaxa meira, því að úrkomu er spáð áfram. Vegasambandið til Norðurlands mun þó ekki rofna alveg, af því að hliðarvegur er um sunnanverðan Norðurárdal, og verður reynt að halda honum færum á meðan þetta ástand varir hjá Dalsmynni. Þessi hliðarvegur var reyndar ekki nema jeppafær í gærmorgun, þar sem á hann höfðu runnið aðfaranótt miðvikudagsins aurskriður og stórgrýti. Um hádegið í gær var verið að ryðja því af veginum, og vonir standa til, að þar verði fært, þangað til viðgerð hefur farið fram við Dalsmynni. Að öðru leyti fer áframhaldið mjög eftir því, hvernig veðrið verður, sagði Arnljótur Einarsson, en þó gæti farið svo, að enn frekari vegaskemmdir ættu eftir að verða, og að þær séu heldur ekki allar komnar í ljós núna, sem orðið hafa. Til dæmis hefur mér verið sagt, að Mýrarnar í Borgarfirðinum séu eins og hafsjór yfir að líta. Allt á þetta vatn auðvitað eftir að skila sér til sjávar. Frá Sandgerði bárust þær fréttir, að í höfninni hefði sokkið 10 lesta bátur.
ÞS-Hveragerði. Úrfelli hefur verið alveg gífurlegt aðfaranótt miðvikudags og á miðvikudag, og hefur slíkur vöxtur hlaupið í Varmá, að menn muna vart álíka. Brúin, sem er á veginum upp i Gufudal, hér fyrir innan Hveragerði, gaf sig, og biluðu ein eða tvær undirstöður undir henni, og er hún gjörsamlega ófær bilum. Sennilega er þó óhætt fyrir fólk að ganga yfir hana. Þarna hjá var hliðarvegur yfir ána, og tók hann burtu, og er því gjörófært bilum upp i Gufudal. Skriðufall varð svo i gilbarminum austan megin, beint niður undan Garðyrkjuskóla ríkisins. Hefur þar fallið niður töluvert jarðvegsmagn. Varmá er eins og foraðsvatnsfall núna, þótt hún sé venjulega aðeins sáralítil spræna.
Og meiri illviðrafréttir daginn eftir, þann 25.október. Einkum er sagt af foki eystra:
Í vatnsveðrinu og úrfellinu sem gengið hefur yfir fóru allar engjar í Ölfusi á kaf og var undirlendi sem hafsjór yfir að lita allt frá Varmárbrú neðan við Hveragerði til sjávar. Allt frá birtingu um morguninn og fram eftir degi voru bændur önnum kafnir við að bjarga búfénaði, sem flúið hafði undan vatninu og leitað upp á hóla, sem myndast hafa við skurðgröft. Féð var margt illa haldið af bleytu og kulda, og því ekki til mikilla átaka við vatnsflauminn. Björgunarstarfið var að sjálfsögðu slarksamt og urðu þeir, sem ekki voru ríðandi að vaða flauminn upp undir hendur. Í býtið í gærmorgun var farið á báti um flóðasvæðið til þess að bjarga þeim ám, sem ekki hafði tekist að reka upp úr í fyrradag vegna hvassviðris. Fáeinar kindur fundust dauðar en óttast er að fleira fé hafi drukknað eða króknað, því að ránfuglager er sums staðar á sveimi yfir flóðasvæðinu. Á nokkrum stöðum flæddi yfir vegi, en ekki varð verulegt tjón af, svo að kunnugt sé. Í gærmorgun hafði veðrið gengið niður og var hið fegursta haustveður eystra, þótt Ölfus væri óneitanlega allkynlegt yfir að líta undirlendið allt sem spegilsléttur fjörður að sjá þótt vatnselgurinn sjatnaði mjög er á daginn leið.
Í óveðrinu og rigningunni, sem gekk yfir landið aðfaranótt miðvikudags og miðvikudag urðu nokkrar skemmdir á húsum og mannvirkjum. Fréttaritarar Tímans á Egilsstöðum og Reyðarfirði símuðu, að á Reyðarfirði hefðu fokið járnplötur af nokkrum húsum, en ekki valdið skemmdum. Á Völlum, á Jaðri, fauk þak af fjósi og á Krossi í Fellum fauk einnig þak af hlöðu. Á Egilsstöðum skemmdist uppsláttur við nýbyggingar og járnplötur losnuðu á þökum. Samkvæmt upplýsingum Ólafs Rúnars Gunnarssonar. Í Grindavík, var þar mjög mikið aftakaveður. Mestur var veðurofsinn milli 7 og 9 um kvöldið, og var þá vart hættandi á að fara út fyrir húsdyr. Á þessu tímabili urðu einnig nokkrar rafmagnstruflanir. Ljósaskilti,sem nýlega var sett upp á félagsheimilinu Festi datt niður og gjöreyðilagðist í veðurofsanum. Nokkrar lausar járnplötur fuku og einnig fauk járn af þaki fiskverkunarhússins Sævikur. Lítil trilla, er lá við bryggju sökk og þegar síðast fréttist hafði enn ekki tekist að ná henni upp. Jón Hjálmarsson skólastjóri að Skógum sagði, er Tíminn hafði samband við hann: Feiknarlegt úrkomuveður gekk hérna með Fjöllunum og í Mýrdal í fyrrinótt, aðfaranótt miðvikudags, svo að sjaldan hefur verið annað eins. Skriðuföll urðu mörg úr fjöllum, og skemmdir á landi talsverðar. Skriða féll til dæmis uppi í landi skógræktarinnar fyrir ofan Héraðsskólann í Skógum og eyðilagði allmikið af trjám, nokkurra ára gömlum og vænum. Kvað Jón skriðuföllin aðallega hafa orðið i austanverðum Eyjafjöllum. Þar ber helst að nefna skriðuföll í landi Skarðshliðar, Hrútafells og svo Skóga. Uppundir tíu slíkar smáskriður féllu úr fjöllum.
Þá er að geta þess, að í gær snerist veður nokkuð, sagði Jón, fyrst til suðurs og síðan til vestlægrar áttar og í gærkvöldi var ofsahvasst um tíma, og þá tók þak af fjárhúsum i Drangshliðardal. En þetta mun vera eina tjónið, sem nokkuð kveður að af völdum roksins. Þakið tók af í heilu lagi og fauk langt niður eftir brekku, og lá þar eftir. Austan úr Vik i Mýrdal var það að frétta, að þar féllu skriður á nokkrum stöðum úr fjallshlíðum þar nærri og skörð komu i vegi, eins og skýrt hefur verið frá i Tímanum. Skriður féllu yfir gömul tún og rifu niður girðingar. Íbúðarhúsið I Skammadal var um tíma umflotið vatni. Þá féll skriða yfir túnið á Giljum.
Eftir þetta má segja að vetur hafi verið genginn í garð. Tíminn segir frá þann 29. október:
GsalRvlk Verulegar truflanir voru á rafmagni á svæði Laxárvirkjunar í fyrrinótt, en sökum frosthörku og mikillar veðurhæðar skóf mjög í ánni, og leiddi það til þess, að virkjunin missti um sjö þúsund kílówött Úr tæplega tuttugu og einu í fjórtán. Allar kvíslar virkjunarinnar við Mývatn voru opnar, og að sögn Knúts Otterstedt, fyrrverandi. rafveitustjóra, bar fyrst á þessum rafmagnstruflunum snemma kvölds, en þær hefðu svo aukist, er á leið.
Rætt er um veðurfarsbreytingar í pistli í Tímanum þann 7.nóvember:
NTB - London. Ný ísöld getur skollið á þá og þegar jafnvel núlifandi kynslóðir geta orðið vitni að nýjum jökultíma. Þessar hrollvekjandi upplýsingar komu fram í heimildarmynd, sem sýnd var i breska sjónvarpinu á miðvikudag. Veðurfræðingar um allan heim hafa komist að þeirri niðurstöðu, að veður skipist skjótar i lofti" en talið var. Hættan á nýrri ísöld ógnar mannkyninu á sama hátt og hætta á kjarnorkustríði, að sögn fréttamanns þess, er sá um gerð heimildarmyndarinnar af hálfu BBC. Hann hefur ennfremur sagt: Ísaldir hafa skipst örar á við hlýviðrisskeið samkvæmt nýjustu rannsóknum en vísindamenn töldu áður. Rannsóknirnar benda til, að ísöld hefði átt að vera komin fyrir löngu og borgir á borð við Leningrad og Glasgow liggja undir snjó. Margt bendir og til, að ísöld geti skollið á þá og þegar, án þess að gera boð á undan sér. Veðurfræðingar hafa greint á milli ísalda: Þær, sem nú hefur verið skýrt frá, nefnast meiri háttar ísaldir, en styttri kuldaskeið kallast minni háttar ísaldir. Í mynd BBC er skýrt frá, að kólnað hafi verulega á nyrðri helmingi jarðar síðan 1950. Hinir örlagaríku þurrkar á stórum svæðum í Afríku og Indlandsskaga geta að sögn fréttamanns BBC gefið til kynna, að minni háttar ísöld sé þegar hafin. Sé sú reyndin, aukast líkur á, að innan skamms skelli á ný meiri háttar ísöld.
Eins og fram er komið var tíð hagstæð í nóvember og þóttu stillur óvenjumiklar. Litlar fréttir er að hafa af tjóni. Þó skemmdust vegir í vatnavöxtum þann 4. í Öræfum og í Fáskrúðsfirði og víðar á sunnanverðum Austfjörðum.
Tíðarfar var mjög óhagstætt í desember. Tíminn segir frá þann 10.:
gébéReykjavik Óveður geisaði á Norðurlandi aðfaranótt sunnudagsins og á sunnudag [8. desember], snjókoma var mjög mikil, og eru vegir víða ófærir. Vegir i Húnavatnssýslum eru að vísu, færir, en um Vatnsskarð til Skagafjarðar er aðeins fært stórum bifreiðum. Áætlað var að moka þar á þriðjudag. Mjög þungfært er milli Varmahlíðar og Sauðárkróks, en sennilega mun sú leið hafa verið rudd á mánudag. Fært er fyrir stórar bifreiðar út I Fljót, en algjörlega ófært er þaðan til Siglufjarðar, og beðið er eftir að veðrið gangi niður, svo hægt verði að hefja mokstur. öxnadalsheiði. er ófær, og í Eyjafirði hefur snjóað allmikið, T.d. er þungfært á milli Dalvíkur og Akureyrar, og Ólafsfjarðarmúli er algjörlega ófær sökum snjóflóða. Vaðlaheiði er einnig ófær, en á mánudag var verið að ryðja veginn frá Akureyri, til Húsavíkur, um Dalsmynni. Á mánudag, var veðrið að ganga niður i Eyjafirði.
Þann 12. segir Tíminn af rafmagnsraunum eystra:
SJReykjavik Í fyrrinótt [aðfaranótt 11.] var 15 stiga frost á Egilsstöðum og Grímsá nær þornaði upp, svo grípa varð til rafmagnsskömmtunar á samveitusvæðinu í gær. Grímsárvirkjun var óvirk í gær, og auk þess bilaði gastúrbína á Eskifirði í fyrrakvöld, og komst ekki í lag fyrr en í gærmorgun. Í gær var verið að safna vatni í lónið við Grímsárvirkjun, og stóðu vonir til að hægt yrði að hætta rafmagnsskömmtun um 4-5 leytið síðdegis, hafa virkjunina í gangi til miðnættis, og byrja síðan aftur að safna vatni í lónið.
Þann 15. desember birtist í Tímanum allítarlegt viðtal við Hlyn Sigtryggsson veðurstofustjóra. Er þar m.a. fjallað um sögu veðurspáa og framtíðarhorfur í þeim efnum. Í lokin víkur Hlynur sér fimlega undan spurningu um yfirvofandi ísöld:
Nú eru sem sagt allir farnir að viðurkenna, að loftslagsbreytingar eiga sér stað, alltaf annað kastið, enda varla annað hægt. Hitt er aftur annað mál, hvað veldur þeim. Tilgátur um það eru mýmargar, og getur vel verið að fleiri en ein sé rétt. Ekkert er líklegra en að margar ástæður verki þar saman á hinn flóknasta hátt. Segja má, að frumdrættir að rannsóknum á þessu hafi verið lagðir með mælingum á hita i sjó og sjávarlögum og athugunum á breytingum á þeim. Enn fremur með því að athuga beina geislun frá sólinni og þá um leið að rannsaka, hvort sú geislun tekur einhverjum breytingum. En það er skemmst frá að segja, að ég minnist þess ekki að hafa heyrt neina sannfærandi skýringu á því, hvers vegna loftslagið hefur breyst i aldanna rás, eða hvers vegna það ætti eða hlyti að breytast í framtíðinni. Og á meðan góðar og glöggar skýringar á því eru ekki fyrir hendi, held ég að réttast sé að spá sem minnstu. VS
Um illviðrið sem olli snjóflóðunum miklu í Neskaupstað, á Siglufirði og víðar dagana 19. og 20. desember er fjallað í sérstökum pistli hungurdiska og því ekki getið hér.
Illviðrin héldu áfram af fullu afli um jól og frem yfir áramót. Tíminn segir frá þann 28. desember:
HJReykjavik Að þessu sinni voru mikil snjóajól um meginhluta landsins og sums staðar aftakaveður á köflum. Tæknin brást gersamlega i heilum landshlutum, og þó hvergi jafnhrapallega og á Austurlandi, þar sem allt gekk úr skorðum samtímis. Þar lokuðust að sjálfsögðu allar leiðir á landi, flugvellir sumir á kafi i snjó, rafmagnsskortur mikill og rafmagnsdreifing í ólestri, símasamband rofnaði, og hvorki sást sjónvarp né heyrðist útvarp. Dægrum saman var þannig ekkert samband milli Austurlands og annarra landshluta, og ekki heldur milli einstakra byggðarlaga þar eystra. Sú von, sem rafmagnsveitustjóri ríkisins lét uppi fyrir jólin, þess efnis að rafmagn myndi verða nægjanlegt, brást á hálfu landinu. Prentsvertan á því sem hann lét Tímann hafa eftir sér, var varla þornuð, þegar ströng skömmtun hafði verið tekin upp á Austurlandi og Norðurlandi eystra. Tíminn hafði i gærdag samband við nokkra fréttaritara sina á Austfjörðum og spurði fregna.
Jóni Kristjánssyni á Egilsstöðum sagðist svo frá: Þetta hefur verið óvenjutíðindasöm jólahátíð. Á Þorláksmessu var mjög sæmilegt veður fram eftir degi. Síðari hluta dagsins fór veður að versna, en þó náðu flestir þeirra, sem hér voru utan úr sveitum heim. Á aðfangadag gekk svo i blindbyl, með miklu hvassviðri og geysilegri snjókomu, og voru mjög margir veðurtepptir hér yfir jólin. Bæði voru veðurtepptir menn utan úr sveitum, sem hér stunda vinnu, og eins og fram hefur komið í fréttum, tepptust einnig menn héðan i Neskaupstað, og voru því óvenju margir hér í nágrenninu, sem ekki gátu haldið jólin i heimahúsum. Sennilega hafa þó starfsmenn rafveitunnar og viðgerðamenn átt ónáðugasta daga yfir jólin, því að þeir voru á eilífum þönum til að gera við línubilanir og annað slíkt. í morgun voru viðgerðamenn að búa sig undir að fara inn í Tungudal, þar sem línan er slitin, en þar er nú blindbylur, svo að vart mun fært þangað í dag. Hér var ekkert útvarp og sjónvarp yfir jólin. Útvarpið komst þó í lag á jóladagsmorgun, en þá hafði verið útvarps- og sjónvarpslaust í heilan sólarhring. Sendirinn á Gagnheiði var ekki kominn i fullkomið lag í gærkvöldi, því að sums staðar heyrðist ekkert tal i sjónvarpinu. Byrjað var að ryðja vegi út frá Egilsstöðum i dag, og mjólkurbíll er á leiðinni utan úr Hjaltastaðaþinghá með ýtu á undan sér. Mjólk barst til mjólkurbúsins frá Egilsstaðabúinu í gær, og hér er næg mjólk til neyslu eins og er. Við þurftum ekki að búa við rafmagnsleysi yfir hátíðirnar, nema rafmagnslaust varð í skamman tíma að morgni aðfangadags, þegar línan slitnaði, en að öðru leyti voru ekki teljandi erfiðleikar í rafmagnsmálum. Hér hefur ekkert verið messað um jólin og menn litið farið milli húsa vegna ófærðar Presturinn okkar býr inni í sveit, í Vallarnesi, og komst hann að sjálfsögðu ekki hingað til að messa. Burtséð frá þeim atriðum, sem hér hafa verið nefnd, hefur jólahald verið með venjulegum hætti.
Sigmar Hjelm fréttaritari á Eskifirði sagði: Þessi jól hafa verið með þeim dauflegri, sem ég man, og að sjálfsögðu settu atburðirnir í Neskaupstað sitt mark á jólahátíðina. Sími, sjónvarp og útvarp fóru alveg úr sambandi á tímabili. Á aðfangadag heyrðist ekkert ú útvarpi, en það komst í lag á jóladag. Sjónvarpið er á hinn bóginn ekki komið i lag ennþá, ýmist sést mynd eða heyrist tónn, en það fer ekki saman. Hér er gífurlega mikill snjór og allar götur ófærar. Segja má, að ófært sé milli húsa, því að vegir hafa ekki verið ruddir yfir hátíðina. Fólk hefur því að mestu verið tilneytt að halda sig innan veggja heimilanna. Á aðfangadagskvöld átti að vera messa hér, en hún féll niður vegna óveðurs. Varla er hægt að segja, að við höfum búið við rafmagnsskort, nema hvað skömmu fyrir klukkan sex á aðfangadagskvöld varð rafmagnslaust, en sú bilun stóð þó ei lengur en klukkutíma, og varð þess eins valdandi, að kvöldverði seinkaði dálitið. Það sem fólk hefur saknað mest nú yfir jólin, er sjónvarpið og þykir mörgum leitt að hafa misst af jóladagskránni. Nokkuð af fólki héðan var veðurteppt i Neskaupstað, en það komst heim í gærdag. Skilja varð snjóbílinn eftir, og kom fólkið með varðskipi á Reyðarfjörð. Vegagerðin hefur haldið opnum vegum milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar, og sennilega hefur það verið eini vegurinn á Austfjörðum, sem var fær. Marinó Sigurbjörnsson fréttaritari á Reyðarfirði sagði: Við höfum sennilega sloppið hvað best allra Austfirðinga. Hérna hefur viðrað sæmilega, snjór er töluverður en þó ekki mjög mikill. Við söknuðum þess mest að missa af jóladagskrá sjónvarps og útvarps. Útvarpið er nú komið í lag, en sjónvarpið hvorki sést né heyrist enn. Verið er að reyna að opna leiðina um Fagradal. Ýturnar fóru í morgun og eru nú komnar að Egilsstaðaskógi. Við vonumst til að leiðin opnist í kvöld, svo að fá megi mjólk niður eftir. Símasamband hefur verið hér mest allan tímann, og jólahald að mestu gengið fyrir sig með eðlilegum hætti, nema hvað fólk gekk milli húsa í stað þess að aka. Ekki er mjög snjóþungt, en mikill hluti af moksturstækjum er i Norðfirði, svo að götur hafa litið verið ruddar. Aðalsteinn Aðalsteinsson á Höfn í Hornafirði sagði: Við lentum ekki í neinni rafmagnsskömmtun og höfum getað fengið fréttir af umheiminum, bæði gegnum síma og sjónvarp og útvarp. Jólahald, hefur verið með eðlilegum hætti og mun betra en i fyrra, þegar við bjuggum við rafmagnsleysi. Ekki tókst að ná tali af fréttariturum okkar á Stöðvarfirði og Breiðdalsvik i gær, vegna þess að aðalsímalinur til þeirra staða voru bilaðar.
Og Morgunblaðið sama dag [28.]:
Stórhríð brast á víðast hvar á Austfjörðum seinni partinn f gær, og þegar Morgunblaðið hafði samband við fréttaritara sinn á Seyðisfirði f gærkvöldi, Svein Guðmundsson, kyngdi svo niður snjónum að með ólíkindum var. Sagði Sveinn, að allt væri bókstaflega að fara í kaf. Þak síldar- og fiskimjölsverksmiðjunnar Hafsíldar hf. þoldi ekki snjóþungan og féll hluti af þakinu, eða 130 fermetrar, en alls mun þakið vera 3400 fermetrar. Þakið sem féll var á mjölskemmu, en ekkert mjöl var þar undir. Sagði Sveinn, að menn óttuðust að fleiri þök gæfu sig ef snjókoman héldi áfram og einnig óttuðust menn, að snjóflóð kynnu að falla. Knútur Knudsen veðurfræðingur tjáði Morgunblaðinu í gærkvöldi, að stórhríð væri á öllu Austurlandi. Hiti væri yfir frostmarki og væri búist við því, að á láglendi breyttist hríðin í rigningu þegar liði á nóttina. Dregur það síður en svo úr snjóþunga á þökum, a.m.k. ekki fyrst í stað. Bjóst Knútur við því, að rigning yrði á láglendi á Austfjörðum um helgina en snjókoma til fjalla. Ofsaveður geisaði annars á öllum Austfjörðum á aðfangadag og fram á jóladag. Miklum snjó kyngdi niður og er víðast hvar á Austurlandi hin mesta ófærð. Miklar rafmagnstruflanir urðu í þessu ofsaveðri og settu verulega svip sinn á jólahald Austfirðinga, auk þess sem fjarskiptastöðin á Gagnheiði fór út, þannig að Austfirðingar voru algjörlega símasambandslausir og þar heyrðist ekki útvarp né sást sjónvarp. Fárviðrið var einna mest í Neskaupstað, eins og fram kemur f annarri frétt, en einnig urðu Hornfirðingar óþyrmilega varir við það. Margir urðu veðurtepptir í þessu veðri og komust ekki heim til sín til að halda jólin með nánustu vandamönnum. Í gærkvöldi var veður að versna að nýju og kominn mikill skafrenningur, svo að allar helstu leiðir á Austfjörðum eru ófærar.
Eitthvert versta veður í manna minnum gekk hér yfir á aðfangadag og setti svip sinn á jólahald Norðfirðinga ásamt hörmungaratburðunum á föstudaginn, sem hvíla enn eins og mara yfir staðnum. Þetta var i einu orði fárviðri og var hamurinn einna mestur frá því í birtingu og fram undir kl.3, en þá fór heldur að dúra og um kl.56 mátti merkja að mesti ofstopinn væri genginn yfir. En meðan veðurofsinn var mestur var mönnum ekki stætt úti heldur urðu fullhraustir karlmenn að skríða milli húsa og dæmi voru til þess að þeir væru upp undir klukkustund að fara leið sem undir venjulegum kringumstæðum er örfárra mínútna gangur. Engar alvarlegar skemmdir eða tjón urðu þó í fárviðri þessu nema hvað á fáeinum stöðum munu rúður hafa brotnað. Töluverðir erfiðleikar urðu líka í höfninni, þar sem ein trilla mun hafa sokkið, og nokkrir bátar slitnuðu upp. Var hópur manna niðri við höfnina og tókst þeim jafnan að koma stálvírum út í bátana aftur, þannig að komið var í veg fyrir að bátana ræki frá landi. Einnig var hópur manna að störfum í stjórnstöð almannavarnanefndarinnar vegna þessa ofsaveðurs, þannig að fjöldi manna var að störfum þegar jólahátíðin gekk í garð og fram eftir öllu aðfangadagskvöldi. Nokkrir björgunarsveitarmenn frá Egilsstöðum og Seyðisfirði urðu veðurtepptir hér í Neskaupstað yfir jólin og máttu halda upp á þau i Egilsbúð fjarri ættingjum sínum. Bæjarstjórnin reyndi þó að bæta þeim upp jólaleysið og færði þeim bækur i jólagjöf.
Morgunblaðið segir þann 31. desember frá skemmdum á togaranum Sigluvík í illviðrinu aðfaranótt aðfangadags:
Skuttogarinn Sigluvik varð fyrir talsvert miklu tjóni aðfaranótt aðfangadags þegar skipið slitnaði frá bryggju i vondu veðri um nóttina og slóst utan í bryggjuna með þeim afleiðingum að skipið dældaðist bakborðsmegin á 20 m löngum kafla fyrir ofan millidekk. Ekki er búið að áætla tjónið á skipinu, en talið er að skemmd sé á 36 böndum og bandabilum bakborðsmegin, en rúmt fet er á milli banda. Má reikna með milljónatjóni. Sigluvik mun þó halda á veiðar nú um áramótin, þar sem skemmdirnar eru ofan sjólínu og ekki taldar rýra sjóhæfni skipsins.
Þann 29. desember segir Morgunblaðið:
Gífurlegt austan stórviðri gekk yfir Austfirði í fyrrinótt og er það fremur óvenjulegt af þessari átt. Talsverð brögð urðu að því að símalínur slitnuðu í stórviðri þessu, en samkvæmt upplýsingum, sem unnt var að fá var ekki talið að neinar verulegar skemmdir hefðu orðið af völdum veðursins. Ástandið í rafmagnsmálum Austfirðinga var t.d. bærilegt f gær og aðeins varð um smátruflanir að ræða af völdum veðursins. Í veðri þessu kyngdi niður miklum bleytusnjó. Mest varð veðurhæðin á Egilsstöðum. Hitastig var rétt neðan við frostmark bæði þar og á Seyðisfirði. Úrkoman hætti um tvöleytið í fyrrinótt, en hvassviðrið hélt áfram og lægði ekki fyrr en undir morgun. Var í gær komin sunnanátt og hið besta veður.
Hlaup hófst í Skaftá aðfaranótt sunnudagsins 29. desember, þá talið með mestu Skaftárhlaupum. Nokkrar skemmtir urðu á vegum og bærinn Sandasel í Meðallandi einangraðist um stund.
Fram að þessu höfðu flest illviðri mánaðarins staðið af norðri eða norðaustri. Síðasta veðrið var hins vegar af vestri og suðvestri. Ritstjóra hungurdiska eru þessi umskipti minnisstæð. Veðurlag virtist bundið í fast far - en var það auðvitað ekki.
Á miðnætti var lægðarmiðjan skammt úti af Vestfjörðum. Um þetta veður ritaði Jóhann Pétursson vitavörður á Hornbjargsvita skemmtilega grein: Fáein orð um glitský og misjafna hegðan veðurguðsins og birtist hún í tímaritinu Veðrinu 1. hefti 1975, bls.19 og áfram [aðgengilegt á timarit.is].
Tíminn segir frá í pistli þann 4. janúar 1975:
gébé Reykjavik Mikið óveður gekk yfir í Svarfaðardal og nágrenni aðfaranótt gamlársdags. Skemmdir urðu á þremur bæjum i Svarfaðardal, og einnig fauk hlöðuþak i Ytra-Kálfskinni á Árskógsströnd og rúður brotnuðu á Sólvangi og á Hauganesi, og hluti af bilskúrsþaki við skólann í Árskógi fauk af. Sveinn Jónsson, Ytra-Kálfskinni sagði að um þriðjungur af þaki á sambyggðu húsi, þar sem hlaða, fjós og haughús er, hafi fokið af hjá sér. Byrjaði hann strax að gera við og festa nýjar plötur á þakið og naut við það hjálpar nágranna sinna, og væri því verki nú að mestu lokið. Veðrið var slæmt meðan á viðgerð stóð, og þurfti maður að liggja á plötunum meðan verið var að negla þær niður. Sveinn Jónsson hafði ekki tryggt fyrir roki, þannig að hann þarf að bera tjónið sjálfur. Hey tók ekki, nema að litlu leyti. Við skólann að Árskógi var nýbyggður stór bilskúr, en af honum fauk hálft þakið. Þá brotnuðu rúður d ýmsum stöðum svo sem á Sólvangi og á Hauganesi, og þá aðallega í nýbyggingum. Í Svarfaðardal urðu skemmdir á þremur bæjum, Koti, Atlastöðum og Sandá. Veðurhæð hefur verið mikil á þessum slóðum, mjög hvasst að sunnan og skafrenningur. Gunnlaugur Jónsson bóndi á Atlastöðum sagði að járnplötur hefðu fokið af íbúðarhúsinu og að ekkert hefði verið hægt að gera við það ennþá sökum þess hve veðurofsinn er mikill, en þar hefur verið ýmist ofsarok eða stórhríð undanfarna daga. Gunnlaugur sagði að einnig hefði fokið jeppi og járnplötur stórskemmt hann, auk þess sem ýmislegt smávegis hefði farið úr skorðum. Á bænum Koti fauk mikill hluti af fjárhúsþaki og íbúðarhúsið á Sandá er mikið skemmt, en Sandá er nú í eyði. Þá hafa hey fokið á öðrum bæjum og ýmsar smærri skemmdir orðið vegna veðurofsans.
Þann 15. janúar 1975 birti tíminn fréttabréf af Ströndum. Þar segir m.a.:
Þann 30. desember. var hér nokkuð hvöss vestanátt, en kl.12 um kvöldið skall á ofsastormur og stóð aftakaveður af norðvestri fram til kl. 4 um nóttina. Þá fór heldur að draga úr veðrinu. Allt lék á reiðiskjálfi, eins og allt ætlaði um koll að keyra. Þegar dagaði og menn gátu farið að athuga verksummerki, kom í ljós, að margt hafði farið forgörðum. Engum var fært út meðan ofviðrið stóð. Á Munaðarnesi tók þak af hlöðu, sem hey var í. Fauk það út í veður og vind, og sést litið eftir af því, allt gjörónýtt. Í Norðurfirði braut glugga og hurðir í vélageymslu og hurðir frá heyhlöðu. Hjá Kaupfélagi Strandamanna sogaði veðrið burt hurð frá nýbyggðum bílskúr i heilu lagi. Þakplötur fuku af gamla íbúðarhúsinu. Fleira var þar á tjá og tundri. Á Krossanesi sviptist af hluti af hlöðuþaki. Lenti það á gafli íbúðarhússins, steinsteyptum, braut þar glugga úr eldhúsi og sprengdi steinsteypu út frá honum. Ný Zetordráttarvél stóð úti. Brak úr hlöðuþakinu, eða annað, hefur lent á henni, brotið framrúðu og þak hennar. Einnig tók þar vélsögunarborð, og sést ekkert eftir af því. Á Gjögri tók þak af íbúðarhúsi Sveins Jónssonar. Húsið var mannlaust. Hjá Axel á Gjögri tók járnþak af skúrbyggingu, áfastri við íbúðarhúsið. Á Kjörvogi lagðist í rúst sögunarhús, sem stóð við lendinguna. Aðrar minniháttar skemmdir urðu, sem ekki verða taldar hér. Engum varð svefnsamt þessa nótt, a.m.k. ekki á meðan mesti veðurofsinn geisaði. Margir fóru ekki úr fötum, því að við öllu mátti búast. Þetta ofviðri er af ýmsum talið það mesta, sem menn muna. Þar sem misvindasamt var í þessari vindátt, stóðst ekkert fyrir. Til marks um veðurhæðina á Krossanesi má geta þess, að nokkuð stóran bút (um 50 sm langan) úr sverum stálbita tók upp af sléttum grunni, og kastaðist hann langt úr stað. Einnig steypta stéttarhellu, sem lá á sléttri jörð. Tjónið af þessu veðri er mikið. Verður engin tilraun gerð hér til að meta það. Þar sem það var mest, á Krossanesi, nemur það eflaust mörgum tugum þúsunda. Daginn eftir og næstu daga hélst veður hvasst og með snjókomu.
Lýkur hér upprifjun hungurdiska á ýmsum veðuratburðum ársins 1974. Tölur og fleiri upplýsingar má finna í viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2022 | 13:22
Fyrstu 10 dagar ágústmánaðar
3.8.2022 | 21:31
Næstúrkomusamast
Árið 2022 er enn með í úrkomusamkeppninni í Reykjavík, fyrstu sjö mánuðirnir eru þeir næstúrkomusömustu frá upphafi samfelldra mælinga 1920. Í hungurdiskapistli sem birtist 13.apríl birtist samanburðarmynd. Ritstjórinn hefur nú uppfært hana til og með 1. ágúst.
Myndin sýnir uppsafnaða úrkomu í Reykjavík eftir því sem á árið líður. Lárétti ásinn sýnir mánuði ársins en sá lóðrétti úrkomuna. Myndin skýrist sé hún stækkuð, en enn skýrara eintak fylgir í viðhengi (pdf-skrá). Árið í ár (2022) er blámerkt - sá ferill endar 1. ágúst. Úrkoma ársins 1921 hefur aftur haft yfirhöndina síðan 10. apríl. Nú munar um 40 mm á úrkomu 2022 (720,1 mm) og 1921 (760,4 mm). Neðsti ferillinn sýnir meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Úrkoman nú er um 60 prósent meiri en hún var að meðaltali orðin 1. ágúst á þessu tímabili.
Nú er spurning hvenær farið verður fram úr ársmeðaltalinu (875,9 mm). Árið 1925 náði þeirri tölu fyrst ára (sjá myndina að ofan). Þá hafði meðalúrkoma heils árs fallið frá áramótum til 24. september. Árið 1921 kom aðeins fáeinum dögum á eftir, 29. september, 1887 er í þriðja sæti, 2. október (ekki á myndinni) og 1989 í því fjórða 5. október. Úrkomumagnið 1925 hafði farið fram úr 1921 þann 13. september og hélt forystunni til 15. október. Á myndinni má sjá að 2018 fylgdi úrkomumestu árunum til að byrja með, en fór síðan að dragast aftur úr í apríl, en bætti það síðan upp með mikilli úrkomu framan af sumri - ferillinn er þá talsvert brattari heldur en hinir ferlarnir og komst að lokum í flokk fáeinna ára með úrkomu meiri en 1000 mm í Reykjavík. Náði þó ekki 2007 sem enn er úrkomumesta ár aldarinnar.
Það er 1921 sem er síðan úrkomumesta ár sem við vitum um í Reykjavík - hreinsaði af sér alla keppinauta og fór í 1291,1 mm. Mjög mikið rigndi síðari hluta árs árið 2007 (ekki á myndinni), nægilega mikið til að koma því ári í annað sæti, 1125,4 mm, en samt langt á eftir 1921. Verði úrkoma í Reykjavík síðustu fimm mánuði ársins í meðallagi verður árið það úrkomusamasta á öldinni (fer rétt fram úr 2007), en haldi úrkoman áfram að vera að jafnaði 60 prósent umfram meðallag yrði metið frá 1921 slegið.
Mesta úrkoma sem við vitum um síðustu fimm mánuði ársins í Reykjavík er 744,1 mm. Það var árið 2007, árið 2016 er í öðru sæti, langt á eftir, með 573,7 mm. Síðustu fimm mánuðir ársins voru þurrastir árið 1960, úrkoma þá mældist aðeins 196,8 mm.
Ómögulegt er um að segja hvernig þessi keppni endar nú, en mörgum mun nú finnast að vestanáttarsyrpan sem staðið hefur linnulítið frá áramótum (og reyndar í september og nóvember á síðasta ári líka) hljóti að fara að linast - en svona syrpur hafa raunar oft orðið enn lengri.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2022 | 16:50
Smávegis af júlímánuði
Meðan við bíðum uppgjörs Veðurstofunnar lítum við á það hvernig hiti júlímánaðar raðast á spásvæðunum. Þetta er 22. júlímánuður þessarar aldar og reyndist einn af þeim svalari.
Hann var að tiltölu kaldastur á Norðurlandi eystra, þar er hann sá fjórðikaldasti á öldinni. Við Faxaflóa sá fimmtikaldasti. Svo vill til að í Reykjavík var hann enn kaldari að tiltölu, í hópi þriggjaköldustu, ef við notum tvo aukastafi við útreikning er hann sá kaldasti, en varla þó marktækt. Að tiltölu var hlýjast á Suðausturland, þar er þetta elleftihlýjasti júlímánuður aldarinnar. Á svæðunum sem merkt eru með bláu telst mánuðurinn kaldur að þriðjungatali (en aðeins miðað við árin 22), á hvítmerktu svæðunum er hitinn í meðallagi.
Kortið (gert af Bolla P.) sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í júlí (heildregnar línur), meðalþykkt (strikalínur) og þykktarvik miðað við tímabilið 1981-2010 (litir). Við höfum setið í lægðasveigju og nokkuð ákveðinni vestanátt mestallan mánuðinn. Eiginlega hefði ritstjórinn búist við því að þessar aðstæður biðu upp á meiri kulda en hér má sjá. Þykktin er aðeins rétt neðan meðallags - en að öðru leyti var veðurlagið samt í samræmi við legu flatarins - óstöðugt loft ríkjandi, skúra- og skýjasælt og lítið um hlýindi.
Við getum leitað að ættingjum þessa mánaðar í fortíðinni. Einna líkastur er júlí 1964.
Hér má sjá eindregna vestanátt og lægðasveigju. Þykktarvikin eru öllu meiri en nú (en viðmiðunartímabil þó ekki það sama). Landsmeðalhiti í byggð var nú 10,0 stig, en 9,7 í júlí 1964. Textahnotskurn ritstjóra hungurdiska segir: Óhagstæð tíð á S- og V-landi, en hagstæð norðaustanlands. Hiti var í meðallagi. Það sem við teljum nú í meðallagi þótti hlýtt þá - höfum það í huga.
Ritstjóra hungurdiska finnst einkennilega mikið kvartað undan tíðinni nú - og að ástæðulitlu. Við höfum fengið að upplifa marga góða daga til útiveru, þó blíðviðrið hafi verið nokkuð skammvinnt hverju sinni og mjög hlýja daga hafi vantað. Heyra má ýmiskonar væntingar um að hnattræn hlýnun eigi að hafa útrýmt venjulegum íslenskum sumrum nú þegar. Það er mikill misskilningur og raunar útúrsnúningur. Breytileiki veðurfarsins frá ári til árs er meiri en svo. En munum að þó þessi júlímánuður teljist kaldur miðað við bræður sína undanfarin 20 ár er hann að hita til fyllilega í meðallagi þeirra júlímánaða sem ritstjóri hungurdiska ólst upp við og reyndi að auki fyrstu 20 starfsár sín á Veðurstofunni.
Viðbót 3.ágúst: Vestanátt var óvenjuþrálát á veðurstöðunum í nýliðnum júlímánuði, heldur meiri en í júlí í fyrra. Leita þarf aftur til júlímánaðar 2002 til að finna svipað og aftur til júlí 1989 til að finna stríðari vestanátt í þessum mánuði.
Vísindi og fræði | Breytt 3.8.2022 kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 12
- Sl. sólarhring: 183
- Sl. viku: 2459
- Frá upphafi: 2434569
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 2184
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010