Hugsað til ársins 1961

Það var haustið 1961 sem ritstjóri hungurdiska fór að fylgjast náið með veðri, varlega fyrst, en síðan með auknum þunga og má segja að samfellt sé frá því seint á árinu. Það eru nú rúm 60 ár. Þá voru 60 ár liðin frá aldamótunum 1900 - og ekki mörg tímabil af slíkri lengd aftur í móðuharðindi. Svona er sagan stutt. 

Tíð þótti fremur óhagstæð á árinu 1961 nema fyrstu 2 mánuðina. En það var samt hlýtt lengst af og úrkoma nærri meðallagi. Í janúar var tíð hagstæð en nokkuð stormasöm um tíma. Lítill snjór. Hlýtt í veðri. Í febrúar var mjög hagstæð tíð og hiti var yfir meðallagi. Í mars var Óstöðug og óhagstæð tíð vestanlands, en góð eystra. Apríl var óhagstæður fram undir sumarmál, en síðan var góð tíð. Samgöngur tepptust vegna snjókomu um miðjan mánuð. Í maí var lengst af hagstæð tíð, en þó gerði slæmt hret seint í mánuðinum. Hlýtt. Júní var fremur hráslagalegur og sprettu miðaði hægt. Nokkrum sinnum snjóaði niður í byggð. Hiti var þó nærri meðallagi. Júlítíðin var fremur óhagstæð, einkum norðaustanlands. Ágúst var óhagstæður á Norður- og Austurlandi, en sæmilegur syðra. September var óhagstæður sökum hvassviðra og votviðra. Hlýtt var í veðri og uppskera úr görðum fremur góð. Október var hagstæður vestanlands en eystra var votviðrasamt. Hlýtt var í veðri. Mjög umhleypingasamt var í nóvember, milt var framan af en síðasta vikan var óhagstæð nyrðra. Desember var lengst af hægviðrasamur og þótti hagstæður, þrátt fyrir frosthörkur. 

Hæsti hiti ársins var lágur, ekki nema 20,6 stig, mældist í júlí á Kirkjubæjarklaustri og Hæli í Hreppum 15. júlí, (og líka 4. júlí á Kirkjubæjarklaustri). Mest frost mældist -28,3 stig í Möðrudal. Það var 4. apríl, óvenjuharka á þeim tíma árs. 

Við nýtum okkur - eins og venjulega - frásagnir dagblaða og rit Veðurstofunnar, Veðráttuna. Að þessu sinni eru flestar fréttir sem birtar eru nánast orðréttar úr dagblaðinu Tímanum.

Blaðamanni Tímans þótti mikill munur á hita við sjávarsíðuna og inn til landsins og í blaðinu þann 10. er rétt við Pál Bergþórsson veðurfræðing um þetta atriði. 

Okkur þótti kynlega bregða við nú um helgina, þegar veðráttunni var svo háttað, að t.d. í Vestmannaeyjum var tveggja stiga hiti, en 27 stiga frost á Möðrudal. — Við hringdum því í Pál Bergþórsson veðurfræðing, og fengum hjá honum eftirfarandi upplýsingar um veðrið:

Nú er hæð yfir Grænlandi, sem teygir sig suðaustur yfir Ísland, og önnur yfir landinu vegna kuldans. Þá er hlýrra yfir sjónum en landinu, t.d. var tveggja stiga hiti í Vestmannaeyjum. eins stigs frost á Dalatanga, og tveggja stiga hiti úti á Halamiðum. Sem sagt: Allt í kring um landið nálægt frostmarki eða heldur hlýrra. En svo inn til landsins er kalt, t.d. 27 stiga frost á Möðrudal í nótt. Mishiti þessi stafar af því, að landið tekur miklu betur við kuldanum en hafið, og hafið heldur miklu frekar sínu hitastigi en það. Þegar yfirborð sjávarins kólnar, sekkur kalda vatnið en hið hlýrra stígur upp. Þó er það ekki einhlítt, að hlýjast sé við ströndina, því að kaldur straumur getur komið ofan af fjöllunum og niður á láglendið. Þannig er það t.d. á Sauðárkróki og Blönduósi. Á báðum þeim stöð, um er 12 stiga frost.Það er heldur lygnt um allt land, hæg fjallagola af landi, norðanátt hér og sunnanátt fyrir norðan o.s.frv. Alls staðar er bjartviðri, í morgun kastaði úr éli á norðurmiðum og snjóaði í Grímsey. Og í Möðrudal er frostmóða og skyggni 10 km. Þar var frost 24 stig í morgun kl. 11, og á sama tíma var 4 stiga frost í Reykjavík og 11 stig á Akureyri. Ekki er nein veðurfarsbreyting sjáanleg á næstunni. 

Slide1

Viðtalið er tekið á mánudegi og taka má eftir því að þá er ekki gert ráð fyrir  „veðurfarsbreytingu á næstunni“ - en lægðin sem má sjá við Nýfundnaland á kortinu dýpkaði og stefndi óðfluga til landsins aðeins sólarhring síðar. Sýnir þetta dæmi vel hve veðurspár voru erfiðar á þessum tíma. Nú á dögum hefði illviðri þessu verið spáð með margra daga fyrirvara. Tjón varð nokkuð. Tíminn segir frá þann 12. janúar:

Í fyrrinótt gerði aftakaveður af suðaustri um Suðvesturland. Víða urðu nokkrir skaðar í óveðri þessu. en sviplegastur var sá þáttur, sem veðurhæðin mun hafa átt í því, að togarinn Marie Jose Rosette fórst við Vestmannaeyjar. Aftökin urðu mest í Vestmannaeyjum. Þar fór vindhraðinn upp í 13 vindstig. Varð þar hvassast um þrjúleytið í fyrrinótt. Voru komin 11 vindstig um miðnætti. Fauk þar þak af hlöðu í Þórlaugargerði, og varð bóndinn þar, Páll Árnason, fyrir allmiklu tjóni. Telur hann þetta hafa verið með verstu veðrum í Eyjum. Í Reykjavík varð hvassast á fimmta tímanum í gærmorgun, en veðurhæðin mun varla hafa farið yfir 10 vindstig. Ofviðrið geisaði um allt Suðvesturland, en var verst meðfram ströndinni. Víða varð nokkurt tjón af völdum veðursins. Í Reykjavík mun einna mest tjón hafa orðið á Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti. Þar fuku steypumót, sem búið var að slá upp, allmikið mannvirki, og fauk spýtnabrak og fjalir vítt um völl. Búið var að setja járnbinsli í nokkurn hluta af mótunum. Það verk er auðvitað einnig ónýtt, og er þetta tjón allt mjög  tilfinnanlegt. Stór vinnuskúr tókst á loft í Álfheimum í Reykjavík. Kastaðist hann á raflínu og braut niður staur. Við það slógust leiðslurnar í tólf hæða íbúðarstórhýsi, en rafmagnið læstist í hráblauta veggi og hljóp eins og eldingar um allt húsið utanvert. Bátar slitnuðu upp í höfninni, og áttu lögregla og hafnsögumenn fullt í fangi við að festa þá og koma á reglu og láta eigendur vita, hvernig komið væri. Braggi við Skúlagötu fauk. og brak úr honum fór víða. Bæjarstarfsmenn voru vaktir upp til að tína saman hráviði og járnplötur, en af þessu gat stafað mannhætta. Ýmislegt fleira en hér var talið fór á hreyfingu í fyrrinótt. Rigning mikil fylgdi veðrinu. M.a. flæddi inn í kjallara Grensássbakarís, og hjálpaði lögreglan við að bera út úr geymslu þar. Allvíða urðu truflanir á síma og rafmagni í óveðri þessu.

Ekki er vitað um skemmdir á húsum eða öðrum mannvirkjum í Vestmannaeyjum, þar sem veðrið var þó verst. Í Keflavík sukku tveir trillubátar i höfninni. Í Sandgerði flæddi vatn inn í kjallara, enda var þar óvenjumikið vatnsveður. Í Grindavík var bálhvasst snemma dags í fyrradag, og töpuðu sumir bátanna, sem á sjó voru, nokkru af línum. Einn mun hafa misst 15 bjóð. Veðrið gekk skyndilega niður milli klukkan 7 og 8 í gærmorgun. Það komst norður yfir hálendið, og gerði 9 vindstiga rok í framhluta Skagafjarðar snemma um morguninn Einnig varð nokkuð hvasst á Austfjörðum.

Í veðrinu sökk einnig bátur í Grímsey. Þann 14. dró aftur til tíðinda. Tíminn segir frá þann 17.:   

Frá fréttaritara Tímans í Staðarsveit 14. janúar. Laust fyrir klukkan 12 á hádegi í dag varð sá óvenjulegi atburður hér í sveit, að mikilli eldingu laust niður í íbúðarhús og kveikti í því, og brann það til grunna á skammri stundu. Fólk sakaði ekki, en fimm kýr drápust í fjósi skammt frá bænum. Þegar atburður þessi gerðist var allhvöss suðlæg átt og gekk á með hryðjum á frostmörkum. — Á Neðri-Hól í Staðarsveit búa hjónin Jónas Þjóðbjörnsson og Elísabet Kristjánsdóttir, ásamt tveim sonum sínum uppkomnum, Jónasi og Sigurjóni. Þeir feðgar, Jónas bóndi og Jónas sonur hans, voru úti við gegningar. Elísabet húsfreyja var í eldhúsi, en Sigurjón niðri í kjallara að dæla vatni í vatnsgeymi heimilisins. Eldingunni laust niður í mitt þakið, að því er virtist, rauf það og þeyttust járnplötur úr því undan eldingunni. Samstundis kviknaði í húsinu, og varð það fljótlega alelda. Elísabet húsfreyja mun hafa staðið á miðju eldhúsgólfi og varð ekki meint af, en Sigurjón, sem stóð við dæluna niðri í kjallaranum, fékk mikið rafmagnshögg og fell við, en varð að öðru leyti ekki meint af. Er talið, að þykkir gúmmísólar undir skóm hans hafi bjargað honum. Mjög skammt er til næstu bæja, og sá fólk þaðan fljótlega eldinn og kom til. Ekki varð þó við eldinn ráðið, og brann húsið á hálfri klukkustund. Var nær engu bjargað.

Skammt frá íbúðarhúsinu var fjós, og vatnsleiðsla út í það úr vatnsgeymi í íbúðarhúsinu og brynningartæki við bása kúnna. Í fjósinu voru tíu nautgripir. þar af átta mjólkurkýr. Fjósið tókst að verja fyrir eldinum, en þegar að var gáð, lágu fimm mjólkurkýr dauðar á básunum. Kom í ljós, að eldingin hafði drepið þær. Höfðu þær legið og snert vatnsleiðslupípuna. Þeir gripir, sem staðið höfðu, sluppu ómeiddir. Heyhlöðu við fjósið tókst að verja. Þegar eldingunni laust niður, brotnuðu flestar rúður í gluggum og rigndi glerbrotum yfir húsfreyjuna. Veggir karsprungu og hrundu sumir eftir brunann. Húsið var steinsteypt, en innrétting að nokkru úr tré og tréloft yfir hæð. Miðstöðvarofnar í húsinu sprungu sumir eða þöndust út, svo að þeir líkjast belgjum á eftir. Húsið og innbú mun hafa verið vátryggt, en mjög lágt og er skaði hjónanna mikill. Eldingarinnar varð vart á næstu bæjum. T. d. eyðilögðust tvö útvarpstæki í Glaumbæ, sem er tvö hundruð metra frá Neðri-Hól.

Í veðri þessu sló eldingu einnig niður í háspennulínu til Akranes. Upp úr miðjum mánuði varð víða mikil úrkoma og leysing. Mesta flóðið varð í Ölfusá neðanverðri vegna klakastíflu - og e.t.v. hafáttar líka. Tíminn segir frá þann 18. og 19.:

[18.] Fólki í Ölfusi brá í brún, er það kom á fætur á mánudagsmorguninn. Þar var þá rafmagnslaust og símasambandslaust á allmörgum bæjum, og kom brátt í ljós, að Ölfusá hafði hlaupið úr farvegi sínum og um flætt yfir láglendið nóttina. Þegar birti af degi, sást, að allar Ölfusforir voru á kafi í vatni, og Arnarbælishverfið, sem er á bakka Ölfusár. var umflotið. Að vísu var þegar á sunnudagskvöldið sýnt, að hverju dró, því að þá snarhækkaði í Ölfusá. Árnar austan fjalls voru á þunnum ís, sem þær sprengdu af sér, og myndaðist þá jakahrönn mikil í Ölfusá skammt ofan við Arnarbælishverfið. Hafa og sennilega sjávarföll og rok af suðvestri átt þátt í því, að ísinn hrannaðist þar og stíflaði ána. Þegar framrás árinnar stíflaðist, tók hún brátt að flæða yfir bakka sína, einkum að vestan, hjá svonefndum Stapaklettum, sunnan við Auðsholt, og var vatnsmagnið svo mikið, að allar Forirnar voru orðnar einn hafsjór að morgni. Fylgdi þessu mikill jakaburður, og brutu jakarnir símastaura og tvo rafmagnsstaura og sópuðu burt girðingunni. Að austan flæddi áin einnig á land upp austan við Kaldaðarnes. Var þegar á sunnudagskvöldið komið þar svo mikið vatn, að maður, er þar var á ferð, varð að skilja bíl sinn eftir. Mjólkurbílar komust hins vegar leiðar sinnar þeim megin árinnar. Talið er, að rafstraumurinn hafi rofnað klukkan fjögur til fimm á mánudagsmorguninn, og á mánudaginn var rafmagnslaust á níu bæjum í Ölfusi fram á kvöld. Tveir voru enn rafmagnslausir í gær. Símasamband rofnaði einnig á mörgum bæjum.

Úr Arnarbælishverfi var engin mjólk flutt í fyrradag, en í gær var komið með hana á bátum að Auðsholti frá Ósgerði, Króki og Egilsstöðum. Flóðið var í rénum í gær, en þó var vatn heim undir bæ í Auðsholtshjáleigu, er blaðið átti tal við Bjarna Kristinsson, bónda þar. Sagði hann, að hvergi sæist á veginn út í Arnarbælishverfi og mætti búast við, að hann hefði skemmst víða. Brúin á Sandá stóð ein uppúr vatninu. Ég hef búið hér í níu ár, sagði Bjarni, og á þeim tíma hefur ekki komið nema eitt flóð, sem nefnandi er í samanburði við þetta og samt var það ekki eins stórkostlegt. Jakahrönnin í Ölfusá er enn eins og veggur, og má búast við, að hún sitji þar, ef ekki helst þíða nógu lengi til þess að vinna á
ísnum.

[19.] Jakastíflan er enn í Ölfusá, en allmikið vatn er nú tekið að renna undir hana, og er hinn mikli hafsjór beggja megin árinnar mjög tekinn að fjara. Þó voru gífurleg flæmi enn undir vatni í gærkvöldi. Tekur það áreiðanlega talsverðan tíma, að flóðið sjatni til fulls. Enn var vatn á vegum, bæði frá Kaldaðarnesi og Arnarbælishverfi, og er talið, að vatnið á Kaldaðarnesveginum hafi tekið í mitti, er það var mest. Það var mishermi, sem sagt var í gær, að mjólkurbílar hefðu komist ferða sinna þeim megin árinnar. Þeir komust ekki að Kaldaðarnesi fyrr en í dag.

Síðan tóku við margir góðir dagar. Tíminn segir þann 22.:

Nú er svo umhorfs um allt Suðurland, að því er líkast að vorið sé komið. Hitinn hefur oft verið ofar frostmarki síðustu dagana og stundum skafheiður himinn. — Jörðin er alauð, og þarf að líta til fjalla til að sjá fannir, en það er vissulega ekki venjulegt í þorrabyrjun. Í gær var góða veðrið um allt land, fyrir norðan stilla og bjartviðri með ofurlitlu frosti. Austanlands hefur tíðin verið svo blíð, að menn hafa brugðið sér í steypuvinnu til að ljúka byggingum sínum um miðjan janúar. 

Þann 24. var enn austanhvassviðri í Vestmannaeyjum og togaraflak (frá því í fyrra veðri) braut úr görðum. Þann 26. nálgaðist síðan dýpsta lægð vetrarins. Tíminn segir frá þann 27.:

Versta veður af suðaustri gekk yfir Reykjavík í gær, og komst veðurhæðin í 12 vindstig í hryðjum. Um fimmleytið í gærdag hafði veður heldur lægt, og hið versta var um garð gengið. 13 vindstig voru á Stórhöfða í Vestmannaeyjum klukkan tvö í gærdag, og 15 metra háar öldur við veðurskipið India,- um 500 km suður af Dyrhólaey. „Þetta er eins og vetrarveður geta orðið", sagði Jónas Jakobsson, veðurfræðingur, er blaðið hafði tal af honum laust eftir kl. fimm í gær. Veðri þessu olli lægð, sem um hádegisbilið í fyrradag var suðaustur af Nýfundnalandi og þá ekki beysin. Síðari hluta dags í fyrradag fór lægð þessi að færast í norðaustur, dýpkaði hún þá og færðist öll í aukana. Um klukkan tvö í gærdag var hún 300 km. suður af Vestmannaeyjum, farin að hægja á sér og orðin mjög djúp, 935 millibarar, þar sem loftvogin stóð lægst. - Klukkan tvö í gær voru 13 vindstig í Vestmannaeyjum. Klukkan fimm var farið að hægja um lægðina og veðrið að mestu gengið yfir á Suðurlandi, en færðist norður. Hvasst var þá orðið víða norðan lands, 7—9 vindstig. Rigning var um mestallt landið. Í Reykjavík voru 8 vindstig klukkan fimm í gær. Við veðurskipið India, um 500 km. suður af Dyrhólaey, risu 15 metra háar öldur, og gerast úthafsöldur ekki öllu hærri.

Slide2

[kort] Endurgreining japönsku veðurstofunnar nær þessari lægð allvel. Hún fór svo til norðvesturs skammt fyrir suðvestan lands og grynntist ört. Varð þrýstingur hér á landi lægstur í Vestmanneyjum, 942 hPa. 

Tíminn hrósar tíðarfari í pistli þann 11.febrúar (stytt hér):

Á meðan þvílíkar hríðar og harðviðri geisa í hinum „hlýrri" löndum að fjöldi manna bíður þar lífstjón og lima, minna þorradægrin á Íslandi meira á sæmilega milda aprílveðráttu en yfirstandandi árstíma. Samtímis því, að þykkt snjóskafla í „góðlöndum" er mæld í metrum er hér snjólaust að kalla, utan lítilsháttar í fjöllum. Heiða- og fjallvegir, sem löngum liggja undir fönn mánuðum saman, eru nú færir venjulegum bílum. 

En hlákan olli líka flóðum - eins og vill gerast á þessum tíma árs. Tíminn segir frá 24.febrúar:

Í gærmorgun dró til tíðinda austur í Rangárvallasýslu er flóðgarðar sprungu á fjórum stöðum. Mest skarð kom í svokallaðan Affallsgarð, þar sem hann liggur nokkurn veginn hvert á tungunni, sem aðskilur Markarfljót og Affall. Hljóp Markarfljót úr farvegi sínum og rauf garðinn á 300 metra kafla. Vatnselgurinn ruddist þar í gegn og kom niður á Suðurlandsveg rétt á móts við Leifsstaði og olli þar nokkrum skemmdum, sem þegar var gert við. Þá komu tvö skörð í svokallaðan Fauskagarð, sem er sunnan við Suðurlandsveg. Þar flæddi vatn úr Markarfljóti yfir varnargarðinn og braut hann á tveimur stöðum, en ekki urðu skemmdir á fleiri mannvirkjum. Einnig brast varnargarður á 30—40 metra svæði milli Marðarár og Þórólfsár, rétt innan við Barkarstaði í Fljótshlíð. Vegurinn í Fljótshlíð er einnig mjög skemmdur og reyndar ófær vegna hafta. Leysingarvatn gróf hann sundur við Háamúla, og innan við Múlakot féll aurskriða á hann á 30—40 metra svæði, og er aurlagið um 70—80 sm. þykkt. Önnur skriða féll vestan við Bleiksárgljúfur, en þar fyrir ofan er landið skógi vaxið. Undir jarðveginum var klöpp, og stendur hún nú nánast ber eftir, en jarðvegurinn og skógargróðurinn liggur á veginum. — Símastaur brotnaði við Háamúla, þar sem leysingin gróf veginn sundur, og er nú símasambandslaust við bæina þar fyrir austan. Þegar Affallsgarðurinn brast, hafði rignt samfleytt í 34 tíma í byggð, en þó mun úrkoman hafa verið meiri til fjalla, auk þess sem þar var mikil fönn. Ein heimild blaðsins austur þar lét svo um mælt, að hefði Affallsgarðurinn ekki látið undan, hefði Markarfljót líklega brotið sér leið austan við brúna og skemmt veginn þar stórkostlega og þar með kippt öllum byggðum þar fyrir austan úr vegasambandi. Nú er komin snjókoma fyrir austan og kul til fjalla, svo að vonandi minnkar í vötnunum. Ef vöxtur hlypi í Markarfljót á ný gæti vatnið flætt yfir Markarfljótsaura og lokað veginum austur. — Svo mikið var í Þverá í gærkvöldi, að Fljótshlíðarbændur óttuðust, að Þverárgarðurinn (næsti garður ofan við Affallsgarð) hefði brostið. Sá ótti reyndist bó ekki á rökum reistur.

Kirkjubæjarklaustri 23.febrúar. Í morgun.urðu allverulegar skemmdir á veginum austan við Eldvatnsbrú hjá Stóra-Hvammi í Skaftártungu. Austan við aðalbrúna er Önnur minni brú og eru um 150 m milli brúnna. Þar liggur vegurinn á tveggja metra háum garði, og mun hann að mestu eða öllu leyti hafa sópast burt. Austan við minni brúna eru einnig tvö skörð í veginn. Til marks um það, hversu flóðið í ánni var stórfellt, er að venjulega stendur minni brúin á þurru. En þegar mest var í ánni i morgun, sá aðeins á handriðið. Hins vegar mun hafa skort um það bil metra upp á, að vatnsborðið næði gólfi stærri brúarinnar. Tíðindamaður blaðsins átti tal við Sæmund Björnsson í Svínadal, og sagðist hann ekki muna eftir jafnmiklum vexti í fljótinu sem nú. Hverfisfljót í Fljótshverfi óx einnig mjög og rann austan við brúna, en þó mun vegur þar slarkandi.

Stórrigning hefur gengið yfir mikinn hluta landsins að undanförnu, og hafa ýmis vatnsföll verið í foráttuvexti. Sums staðar hefur rigningin og flóðin, sem af henni hafa leitt, valdið tjóni, þótt yfirleitt sé það minna en vænta mátti. Blaðið hafði í gær tal af ýmsum  fréttariturum sínum á flóðasvæðunum norðan lands og höfðu þeir m.a. þetta að segja: Blanda gerðist allófrýn í fyrrakvöld, svo að fáir eða engir muna hana slíka. Það var á 9. tímanum i fyrrakvöld, sem hún ruddist fram með þeim hamförum, að hún sprengdi af sér ís allan, sem sums staðar var orðinn álnar þykkur. Í árósnum hlóðst upp ferleg jakahrönn, sem stíflaði framrennsli árinnar, og snöggóx hún þá svo, að hún fyllti farveginn og flæddi inn í þorpið. Rann sums staðar inn í kjallara íbúðarhúsa og það svo mjög, að rúm og dívanar voru á floti. Fjárhús eitt fylltist af vatni, svo að fé var þar á sundi, og varð því bjargað út um glugga. Er hæpið, að sú björgun hefði tekist, ef flóðið hefði ekki sjatnað eins fljótt og raun varð á. Heyfúlga allmikil færðist úr stað, en fór þó ekki um koll. Miklar jakahrannir voru á götunum, en þeim hefur nú verið rutt burt með jarðýtu. Vegurinn norðan Blöndu varð ófær á kafla, en brúna sakaði ekki, þótt aldin sé. Hins vegar bilaði símastrengur, sem lá á milli þorpshlutanna, og var símasambandslaust þar á milli. Manntjón varð ekki, en munaði þó mjóu. Eins og fyrr segir var Blanda á hellugaddi. Tíðkaðist því mjög, að - þeir, sem fara þurftu milli þorpshlutanna, styttu sér leið með því að ganga ána, í stað þess að fara inn á brú. Kvöldið, sem áin ruddi sig, heyrði maður sem býr spölkorn upp með henni á nýbýlinu Kleifum, Magnús Kristinsson, skruðninginn, er hún sprengdi af sér ísinn. Var hann í fjósi við gegningar, þegar þetta gerðist. Þeysti hann þegar í jeppa sinum niður í þorpið til að vara fólk við. Einn maður, Friðrik Indriðason, var á leið yfir ána á ís. Bílstjórinn varaði hann við hættunni. Maðurinn sneri þegar við ,og hljóp til baka. Náði hann landi í tæka tíð, en svo mjóu munaði, að ef hann hefði verið kominn út á miðja á, er nokkurn veginn víst, að hann hefði ekki sloppið.

Í Héraðsvötnum hefur einnig verið hressilegt flóð. Stífla kom í þau undan Höskuldsstöðum í Blönduhlíð um hádegi í gær. Tóku þau brátt að flæða yfir alla bakka og allt upp á tún á bæjum í Akratorfu. Vallhólmurinn fór að verulegu leyti undir vatn. Farið var í jeppa yfir Hólminn upp úr hádegi í gær, og var vatn þá svo djúpt á veginum, að litlu munaði að flyti inn í farartækið. Ekki er vitað um tjón í Skagafirði af völdum vatnsagans.

Tíminn heldur áfram 25.febrúar:

Bergsstöðum í Svartárdal, A-Hún. 24. febrúar. — Svartá gerðist allgustmikil núna um miðja vikuna. Fór hún í stólpaflóð, eins og stöllur hennar fleiri, og var jakaruðningurinn gífurlegur. Skemmdir af völdum árinnar urðu sums staðar nokkrar. Hún braut niður girðingar, þar sem hún náði til þeirra, og símastaura kvistaði hún á tveimur stöðum, hjá Skottastöðum og hér utan við Bergsstaði. Tilfinnanlegast var þó það, að hún tók af og eyðilagði göngubrú, sem yfir hana lá hjá Eiríksstöðum. Var brúin á járnstólpum og lagði jakaruðningurinn þá útaf. Mun brúin vera með öllu ónothæf. Er þetta mjög illt, þó að brúin væri aðeins fær gangandi mönnum, því að hún var til mikils hægðarauka .

Þann 26.febrúar féll allmikil skriða úr Fossnúp, skammt austan við Foss á Síðu. Rann hún á 2-400 m kafla yfir veginn og reif með sér símastaura (Tíminn, 28.febrúar).

Enn ollu eldingar tjóni. Tíminn segir þann 4.mars:

Frá fréttaritara Tímans Hvolsvelli. — Um hádegisbilið í gær [þann 3.], eða nánar tiltekið klukkan hálfeitt, laust niður eldingu í íbúðarhúsið að Keldum á Rangárvöllum. Upp á lofti í húsinu er rafmagnstafla og splundruðust öll öryggi í henni er eldingin kom niður í þakið. Eldur komst í gluggatjöld, og rafmagns- og símalínur rofnuðu. Nokkrar skemmdir urðu einnig á málningu af völdum elds og reyks. Þá urðu dálitlar skemmdir á kirkjunni, sem stendur í hlaðinu á Keldum, en rafmagnslína liggur þangað frá bænum. Bóndinn á Keldum, Lýður Skúlason, var staddur í stofu sinni, þegar eldingunni laust niður, og vissi hann ekki fyrr til en blossinn stóð inn í stofuna. Auk bóndans voru heima við bróðir hans og sonur. Eldur læstist í gluggatjöldin í|stofunni, en fljótlega tókst að ráða niðurlögum hans, og munu ekki hafa orðið frekari skemmdir á íbúðarhúsinu, en þegar hefur verið frá sagt. Eins og áður segir laust eldingunni i niður í þakið, og komst í rafmagnstöflu, sem var uppi á loftinu. Þaðan hefur svo straumurinn hlaupið um allt húsið og út í kirkjuna, því að rafmagnslína liggur þangað frá bænum. Fuku trélistar af stafni kirkjunnar, en ekki var vitað um meiri skemmdir á henni. Hross voru í hlaðvarpanum og hafa þau fælst illilega, því að þau voru ófundin, er blaðið hafði tal af fréttaritara sínum um klukkan hálfþrjú í gærdag. Þar sem símasambandslaust var við bæinn á Keldum, tókst Tímanum ekki að ná tali af bóndanum sjálfum, en hringdi til Sigurðar Egilssonar, bónda í Stokkalæk, en um tuttugu mínútna gangur er milli bæjanna. Sagðist honum svo frá, að þar á bæ hefðu engar skemmdir orðið utan þess, að öryggi sprungu og pera sömuleiðis í lampa nokkrum. Taldi hann að eldingarinnar hefði ekki orðið vart á fleiri bæjum. Stórt haglél var á, er þessi atburður varð, en Sigurður taldi það mikla mildi, að bjart var af degi, er eldingunni laust niður, því að ómögulegt væri að segja,  hverjar afleiðingarnar hefðu orðið, ef þetta hefði skeð um hánótt og fólk á Keldum verið í fastasvefni.

Talsverð ófærð var á vegum í mars og fram eftir apríl og kom leiðin norður í land oft við sögu hrakninga. Við látum vera (að mestu að rekja þetta). Þann 24. fórst bátur í illviðri á Húnaflóa. 

Mjög kalt var um páskana (páskadagur 2. apríl). Tíminn segir frá þann 5. apríl:

Þessir páskar hafa verið með alkaldasta móti. Í gærmorgun var 17 stiga frost á Grímsstöðum á Fjöllum og 25 stiga frost í Möðrudal [fór þar reyndar í -28,3 stig aðfaranótt 4.]. — Tíminn átti í gærdag tal við Jón Eyþórsson  veðurfræðing um veðráttuna. Jón kvað þetta veðurfar vera alveg eðlilegt meðan jafn kyrrt er, snjór er á jörðu og Grænlandsloft streymir yfir landið, eins og undanfarið hefur verið. Heldur er nú farið að réna háþrýstisvæðið, sem verið hefur yfir Grænlandi og Íslandi. Má því búast við að heldur fari að draga úr frosthörkunni. Síðdegis í gær var hægt frost vestan lands og jafnvel frostleysa á annesjum. Norðanáttin hafði vikið fyrir hægri suðvestanátt. Við megum því búast við batnandi veðri næstu daga.

En aftur gerði mikið kast undir miðjan mánuð. Þá tepptust vegir aftur illa og við berum niður í fréttir Tímans 16.apríl (styttum þó verulega): 

Í fyrrinótt [aðfaranótt 15.] voru 75 manns teppt við sæluhúsið á miðri Holtavörðuheiði í stórhríð og ófærð. Allt þetta fólk var á norðurleið á samtals 28 ökutækjum, sem lögðu á heiðina frá Fornahvammi um hádegið í fyrradag, og ætlaði flokkurinn að brjótast yfir með aðstoð tveggja ýtna frá vegagerðinni, sem fóru fyrir og ruddu af veginum. Óvenjumikill snjór er nú á heiðinni, og í fyrradag og gær, er þetta var ritað, var norðan- eða norðaustan hvassviðri með linnulausri fannkomu. Þegar bílalestin var komin upp að sæluhúsinu á heiðinni, bilaði önnur ýtan, og þótti þá ekki ráðlegt að halda lengra. 

Norðangarður sá, sem gengið hefur yfir undanfarna daga og komið mönnum í opna skjöldu nú með vorinngöngunni, eftir alla veðurblíðuna í vetur, virðist heldur að ganga niður. Verulegri fönn hefur hlaðið niður á heiðum og í snjóasamari byggðarlögum og af hlotist  samgöngutruflanir og ýmiss konar erfiðleikar. 

Síðan hlýnaði aftur. Tíminn segir frá 27.apríl:

Í bráðaleysingu um daginn hljóp mikill vöxtur í Víðidalsá í Húnaþingi, og skaddaðist brúin, líklega af jakaruðningi, svo að nú er talin hætta á að hún brotni undir þungum farartækjum. Hefur vegamálastjórnin gefið út bann við, að farartæki, sem þyngri eru en 5 smálestir, fari yfir brúna. Eftir stórhríðarnar um daginn gerði bráðan þey, og ruddi þá áin sig, og hljóp í hana geysilegur vöxtur. Brotið er úr stöplinum undan öðrum bita brúarinnar, og er viðbúið, að hún brotni, ef mikill þungi fer yfir. Enn er mikill vöxtur í ánni, þótt nokkuð hafi sjatnað, og það er mikill snjór til fjalla, svo að líklega helst áin mikil fyrst um sinn.

Mjög slæmt hret gerði seint í maí. Tíminn segir frá 24. og 26. maí (verulega stytt hér):

[24.] Um Vestfirði, Norðurland og Austurland var í gær ofsarok og snjókoma. Frá Ísafirði bárust blaðinu þær fréttir, að þar hafi í allan gærdag geisað stórhríð, jörð sé orðin alhvít og heiðar ófærar. Á Akureyri var bálhvöss norðanátt og hiti kominn undir frostmark síðdegis í gær. Á Seyðisfirði var blindhríð seint í gær, en hafði verið gott veður í gærmorgun. 

[26.] Nú er farið að lægja norðanofsann, sem gerði í fyrradag um land allt, en afarkalt er enn. Kuldakastið gerði mjög skyndilega, sérstaklega á Vestfjörðum, og urðu þar skaðar á bátum, en annars höfum við ekki fregnir af tjóni af völdum veðursins annars staðar. 

Ísafirði, 24. maí. — Í aftakaveðrinu hér á Vestfjörðum fuku tveir bátar í Bolungavík og skemmdust illa. Þar var veður byljótt og gekk á með hvirfilvindum, og rekur íbúa staðarins ekki minni til hliðstæðs veðurs þar. Annar þess-ara báta, Frímann, eign Gunnars Egilssonar, tæpar tvær smálestir að stærð, stóð uppi á malarkambi í fjörunni og var festur í gangspil, sem var tjóðrað niður rammlega með grjóti. Allt í einu kom hvirfilvindur og reif upp gangspilið, og kastaði því drjúgan spöl til. Báturinn dróst með því, og færðist um tvær bátslengdir. Í honum brotnuðu fjögur borð og 9 bönd. Hinn báturinn, 1,5 smálestir að stærð, eign Guðfinns Jakobssonar, stóð einnig uppi á malarkambinum. Hann tókst á loft og valt síðan langs eftir kambinum einar tvær veltur. Hann er allur brotinn og bramlaður. — Nú er veður hér allt skaplegra, en stinningskalt ennþá.

Enn gerði slæm hret í júní. Þann 3. varð alhvítt á Hólum í Hjaltadal. Tíminn segir frá þann 20.: 

Frá fréttariturum Tímans á Akureyri og víðar. Vonskuveður geisaði um norðanvert landið um síðustu helgi. Víða snjóaði í fjöll, og fjallvegir tepptust sums staðar. Fréttir berast og um nokkurn lambadauða, en teljandi skaðar munu þó ekki hafa orðið. Bændur á Hólsfjöllum segja, að þar hafi brostið á þreifandi norðanhríð í fyrrinótt, og stóð veðrahamurinn fram eftir degi i gær. Varð öll jörð þar fannhvít á skammri stundu og víða dró í skafla, sem náðu sums staðar tveggja metra þykkt. Lömb fundust á nokkrum stöðum i snjó, og einnig munu þau hafa farið í læki og ársprænur, sem fylltust krapi. Eindæma ótíð hefur verið þar eystra, það sem af er sumri, og er gróður því mjög seint á ferðinni af þeim sökum. Horfir uggvænlega fyrir bændum á Hólsfjöllum, ef ekki rætist úr með veðráttuna. Sem dæmi um veðurofsann má nefna það, að í gærmorgun tepptist Vaðlaheiði um tíma, og komust bílar, sem lagt höfðu á heiðina, ekki leiðar sinnar, nema með aðstoð ýtu. Langferðabíll á leið til Húsavíkur sat fastur, en á eftir honum biðu 14 smærri bílar eftir því að vera dregnir yfir verstu kaflana. Nú hefur hins vegar hlýnað aftur í veðri þar nyrðra, að sögn fréttaritara, og hverfur þá snjór fljótlega úr heiðinni. Ekki mun þó Siglufjarðarskarð hafa teppst, og | má þakka það því, hve átt var austlæg. Í Húnavatnssýslu var versta veður yfir helgina, rigning og kuldi, en snjókoma til fjalla. Vegna veðurhæðarinnar leituðu vel flest skip vars á 17. júní. Við Grímsey lágu um 30 norsk skip í vari, en á miðunum þar voru nærri tíu vindstig. Á Skagaströnd lágu 16 skip við festar yfir helgina, en flest þeirra eru nú farin út á veiðar. Mikill fjöldi skipa lá í höfn á Siglufirði, en flest þeirra héldu út á veiðar, snemma í gærmorgun, enda veður þá tekið að lægja.

Slide3

Lægðin sem olli þessu veðri var sérlega djúp, þrýstingur fór niður í 967,9 hPa á Kirkjubæjarklaustri þann 16. Svo neðarlega hafði þrýstingur ekki komist í júní hér á landi síðan 1894 og hefur aðeins einu sinni síðan farið neðar (957,5 hPa á Stórhöfða þann 11. árið 1983). Ingibjörg í Síðumúla segir frá óvenjulegu veðri: 

Í síðustu viku mánaðarins gerði aftakavont veður fremst í Hvítársíðunni með roki og krapahríð, skeði þá sá fágæti eða einstæði atburður að nokkrar ær úr Reykholtsdal  króknuðu, var verið að reka á fjall nýrúið fé. Reksturinn var kominn fram í Hvítársíðukrók þegar ærnar króknuðu, en þá var komið fram á kvöld. Hér í Niðursíðunni var þetta kvöld meinlaus rigning, eins og oft áður. 

Í júlí komu kaldir dagar - Tíminn segir frá þann 19.:

Frá fréttaritara Tímans í Þykkvabæ. Miklir kuldar hafa verið hér í sveit það sem af er vori og sumri, og er kartöfluspretta því óvenju hægfara þetta sumarið. Ekki munu þó kartöflurnar hafa orðið fyrir miklum skemmdum vegna kuldans, en hann hefur staðið fyrir vexti þeirra. Í júnímánuði var samt dálítið frost í görðum, en lítið var komið upp af kartöflum, svo að skemmdir urðu litlar. Sem dæmi um kuldana má nefna, að aðfaranótt síðastliðins miðvikudags [12.] voru gluggar hrímaðir. 

Eftir erfiða heyskaparbyrjun fór að ganga sæmilega vestanlands, en nyrðra og eystra hélst erfitt tíðarfar og kuldar og rigningar voru viðloðandi. Einnig var talsvert kvartað undan tíð á Suðurlandi. 

Tíminn segir 1. ágúst:

Í fyrradag og um nóttina var, víða geysileg rigning á Norður- og Norðausturlandi. Á Akureyri var rigningin sem skýfall og allt flóði í vatni. Miklar, skemmdir hafa viða orðið á heyjum.

September var í (stopulu) minni ritstjóra hungurdiska nokkuð góður, en fréttir segja þó af töluverðum illviðrum, aðallega af austri. Byrjaði slíkt strax í ágúst. 

Tíminn segir 3.september frá illviðri 26.ágúst:

Skagaströnd 28 ágúst. — Á föstudag síðastliðinn [25.] gerði hér mikið rok, er stóð allt til laugardags. Var veðurhæðin allt að tólf vindstig í snörpustu hryðjunum. Allmiklir
heyskaðar urðu af völdum stormsins. Hey, sem stóð úti, fauk, og einnig mun rokið hafa sópað nýslegnu heyi af túnum.

Ingibjörg Guðmundsdóttir athugunarmaður í Síðumúla lýsir septembermánuði:

September var úrkomusamur, en mjög mildur. Engin frostnótt, kartöflugras var ófallið þegar tekið var upp úr görðum rétt fyrir mánaðarlokin. Minnstur næturhiti var 0,8 stig þ. 24., en þá fraus á jörð til fjalla og niður undir láglendi. Heyskapartíð var erfið sakir votviðra, en endaði þó farsællega. Tún eru græn, en á úthaga slær gulum haustlit. Kýr ganga enn sjálfala.

Tíminn segir frá úrhelli og óveðri september í nokkrum pistlum (við styttum þá lítillega):

[19.] Ólafsfirði í gær. Hér rigndi þau ósköp frá því á föstudagskvöld [15.] til sunnudagsmorguns [17.], að helst leit út fyrir, að allar flóðgáttir himins væru opnaðar. Mikill vöxtur hljóp í ár og læki, svo að allt láglendi fór í kaf í flóði, og náði flóðið alla leið hér heim að bænum. Ár og lækir flóðu yfir tún og engjar og hafa valdið stórskemmdum á landi, aðallega á fjórum jörðum hér frammi í sveitinni. Svokallaður Merkislækur í Burstabrekku á Hlíðarlandi hljóp fram og bar með sér svo mikið grjót og leðju, að lækjargilið, sem er talsvert djúpt, fylltist gjörsamlega við þjóðveginn. Þar færðu skriðuföllin nokkurn hluta vegarins í kaf, en hann er nú ófær öllum bifreiðum. Enn fremur bar lækurinn aur og leðju á ræktað land, sem liggur þar að, og skemmdi það talsvert. Í Burstabrekkuána, sem er Þverá, hljóp mikill vöxtur. Hún braust út úr farvegi sínum á tveim stöðum niður á eyrum og eyðilagði nýrækt, bæði í Burstabrekku og Hlíðarlandi. Talið er að áin hafi eyðilagt tvo og hálfan til þrjá hektara af ágætu landi með framburði sínum. Smáskriður féllu víða úr Hólkotshyrnu og stórskemmdu engjar í Hólkotslandi, en ræktað land slapp við skemmdir. Þá féll mikil skriða í svokallaðan Gránulæk í Vatnsendalandi og olli miklum skemmdum, bæði á túni og mannvirkjum. Lækurinn fór í þann ógnarlega ham, að hann braut af sér tvær brýr, aðra steinsteypta, fimm metra breiða. Hana flutti lækurinn hátt á annað hundrað metra. Þá fyllti hann tveggja metra breiðan skurð neðan við túnið með grjóti og leir. Enn fremur flæddi hann yfir hluta af túninu og gjöreyðilagði á að giska einn hektara af ræktuðu landi. Vegurinn þarna er nú ófær öllum bifreiðum. Í Ósbrekkufjalli var óhemjuvöxtur í Öllum lækjum. Þar niður undan flæddi yfir nokkuð af sjúkraflugvellinum, en ekkí er sjáanlegt, að vatnið hafi fært ofaníburðinn til að nokkru ráði. Þá tepptist vegurinn yfir Lágheiði öllum smærri bílum, því að lækur hérna megin heiðar gróf veginn í sundur. [Þ]etta eru ein mestu flóð, sem hér hafa komið. Nú er hægviðri en gengur á með skúraleiðingum,

[20.] Blaðið hafði tal af Kristjáni Wíum, fréttaritara á Vopnafirði, í gær. Sagði hann, að veðrinu hefði slotað á sunnudagsmorguninn [17.]. Þverá hafði þá grafið undan öðrum brúarvængnum. Brúin er nú lögst ofan í farveginn með tveggja metra halla, brotin. Kindur fórust í Hofsá og Þverá, og Selá gerði spjöll á túnum í Engihlíð og Refsstað. Göngur hófust í gær, degi á eftir áætlun. Má búast við, að ekki verði komist um sum svæði á_ afréttinum sakir aurbleytu. Úrkoman hefur sennilega verið enn stórfelldari til heiða, en árnar eiga upptök langt inn á afrétti. Vöxturinn í þeim var með fádæmum mikill og skyndilegur.

[22.] Mýrdal 21. september. Fyrir rúmri viku gerði hér óvenjulegt veður. Þetta var dagana 13. og 14. sept. Stormur var með því versta, sem hér hefur komið, og sjógangur afskaplegur. Grandinn milli Dyrhólaeyjar og Reynisfjalls var allur einn iðandi sjór, og í Vík gekk sjór upp að fremstu húsum. Bárur frá sjó bárust upp eftir ánni alla leið að Víkurbrú. Var að vísu stórstreymt um þessar mundir, en samt er þetta óvenjulegt. Það merkilega var, að þetta gerðist ekki í opinni hafátt, heldur í austanveðri. S.E.

[23.] Í fyrrinótt (aðfaranótt 22.) var ofsaveður víða um sunnanvert landið, rok og rigning. Ekki hafa þó borist fréttir af stórfelldum sköðum af völdum veðursins. Í Reykjavík bar þó svo til, að ýmislegt lauslegt fauk af þaki 11 hæða háhýsis að Sólheimum 27, en hús þetta hefur félagið Framtak í byggingu. Er smíðinni ekki lokið og ógengið frá þaki hússins. Þetta lenti á allmörgum bifreiðum, sem stóðu við húsið, að því er lögreglan tjáði blaðinu í gær. Það, sem af þakinu fauk, var af ýmsu tæi, trjáviður, steinar og möl, naglar o.fl. Augljóst er, að ganga verður tryggilega frá öllu hreyfanlegu á húsaþökum í rysjóttu tíðarfari, þegar flestra veðra er von. Auk þess er fokhættan meiri, er byggingin teygir sig hátt í loft.

[24.] Alla síðastliðna viku mátti heita, að væri hið versta veður í Rangárvallasýslu, átta til tíu vindstig, og oft lamstursrigning. Þetta hefur ekki aðeins valdið því, að meginhluti hinna miklu kornakra þar eru enn óslegnir, heldur er sýnilegt, að stórtjón hefur þegar orðið. Sennilega hefur korn, sem að verðmæti nemur hundruðum þúsunda farið forgörðum í þessum veðrum.

Október var nokkuð umhleypingasamur og varð alloft staðbundið tjón vegna foks. Tíð var talin hagstæð vestanlands, en úrkomusamt var eystra, og norðan til á Vestfjörðum. Þann 16. urðu skemmdir urðu á hafnarmannvirkjum á Húsavík og bátur brotnaði í Grímsey. Bátar lentu í hrakningum við Norðurland. Þann 23. urðu ýmsar skemmdir á mannvirkjum á Siglufirði. Skip rak á land, girðingar fuku og gluggar brotnuðu. Einnig urðu skemmdir á Seyðisfirði. Skúr fauk og sjór flæddi í kjallara. Úrkomumælir Veðurstofunnar brotnaði. Þann 25. varð minniháttar foktjón í Reykjavík, plötur fuku af húsum og skemmdu raflínur, nokkrar trillur sukku í höfninni. Járn fauk einnig af húsum í Vestmannaeyjum. Þann 28. fuku þakplötur fuku undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og Álftaveri og kindur fórust í Öræfum. Lítil flugvél fauk og skemmdist í Vík í Mýrdal. Símaskemmdir urðu vegna ísingar.

Þann 26. hófst eldgos í Öskju, nokkur aðdragandi hafði verið að gosinu, stóraukin hveravirkni og sprungumyndun. Talsvert hraun rann og umræður spunnust um flúormengun. Það var einnig þetta haust sem rússar sprengdu sína stærstu vetnissprengju og kjarnorkuógnin var viðvarandi, m.a. í umræðum um stóraukna geislavirkni í andrúmslofti. 

Tíminn segir af skemmdum undir Eyjafjöllum í veðrinu þann 28. október í pistli þann 31.:

Frétt undan Eyjafjöllum: Hér gekk ofsarok yfir í gær kvöldi, með því versta, sem hér verður. Símalínur slitnuðu víða, og á tveimur bæjum urðu veruleg spjöll af veðrinu. Á Steinum, hjá Bárði Magnússyni bónda, fuku 8 plötur af nýlegu fjósþaki. Undir þakinu voru bitar, að neðan fóðraðir með asbesti, og sogaðist sumt af asbestinu upp og brotnaði. Á sama bæ fuku fjórar plötur af íbúðarhúsi, en það er gamalt hús. Gömul hlaða var á bænum, nú notuð fyrir verkfærageymslu, af henni tókst þakið í heilu lagi. Einnig stóðu tveir gamlir kofar úti í túni á Steinum, með hellu og torfþökum, og fuku þau bæði með öllu, gamalgróin þök. Á næsta bæ, Hvoltungu, fuku 30 plötur af nýju íbúðarhúsi. Það þak var sett á í sumar. Þar brotnuðu einnig rúður, bæði í íbúðarhúsinu og fjósinu, vegna grjótfoks og annars lauslegs. Á þessum bæjum nær norðaustanáttin sér betur upp en nokkurs staðar annars staðar. Vindarnir dynja á neðan að, og brakið, sem þeir rífa með sér, fer alla leið upp í hamra. Hviðurnar eru líkari höggum en blæstri. Eitthvað af fokjárninu hefur fundist, en ekki allt, og allt ónýtt, sem fundist hefur. — Fokstur þessi getur verið hættulegur fyrir skepnur, en ekki er vitað til, að slys hafi orðið á þeim.

Ingibjörg í Síðumúla telur tíð í nóvember hagstæða. Þá gerði þó eitt mjög eftirminnilegt illviðri. Mikla rigningu gerði sunnan- og vestanlands um miðjan mánuð. Óvenjumikið rigndi í lágsveitum Suðurlands, t.d. yfir 100 mm á Eyrarbakka og í Laugardælum. Sólarhringsúrkoma hefur aldrei mælst meiri á Lambavatni á Rauðasandi, 106,4 mm. Yfir 100 mm mældust einnig í Kvígindisdal við Patreksfjörð, en þar hefur nokkrum sinnum áður og síðar mælst ámóta úrkoma eða meiri. 

Tíminn segir frá rigningum og skriðuföllum í pistlum 15.nóvember:

[15.] Selfossi 14. nóvember. Í fyrrinótt tók að rigna ákaflega hér um slóðir og rigndi ofsalega í gær og fram á nótt. Urðu spjöll af vatnavöxtum, bæði á vegum og húsum, hér og víðar í sýslunni. Á Selfossi flæddi inn í kjallara húsa, og a.m.k. á einum stað vakti maður í alla nótt við að ausa út úr íbúð sinni. Nokkur hús voru algerlega umflotin vatni, og sumar göturnar líkari lækjum en brautum. Í Grímsnesi fór Kiðjabergsvegur í sundur og er ófær, sama er að segja um Gaulverjabæjarveg og er ófært að og frá nokkrum bæjum þar. Þá rann úr Suðurlandsvegi skammt sunnan við Kögunarhól undir Ingólfsfjalli, en ýtur fóru á vettvang strax í nótt til þess að veita frá veginum, og varð hann ekki ófær.

Mikið tjón af skriðuföllum og vatnavöxtum kringum Patreksfjörð. Annan sólarhring þessarar viku hefur mikið vatnsveður gengið yfir vestanvert landið og valdið skriðuföllum og flóðum. Tún hafa skemmst af þessum sökum og vegasamband víða rofnað. Í gær barst svohljóðandi skeyti frá fregnritara blaðsins á Patreksfirði: Síðastliðinn sólarhring hefur verið hér hvöss sunnan átt með mjög mikilli rigningu. Mikill vöxtur hljóp í allar ár og læki, enda hafði undanfarið snjóað nokkuð á fjöll, og leysti nú allan þann snjó. Í Kvígindisdal mældist einhver mesta úrkoma, sem mælst hefur síðan veðurathuganir hófust þar fyrir um 30 árum, eða 101 mm yfir sólarhringinn. Á Lambavatni á Rauðasandi mældist úrkoman milli veðurathugana frá kl. 8 í gærmorgun til kl. 17 í gærdag 100 millimetrar. Miklar skemmdir hafa orðið af vatnavöxtum og skriðum. Vegurinn kringum Patreksfjörð að Örlygshöfn er ófær. Á hann hafa fallið skriður, aðallega á Skápadalshlíð og framan í Hafnarmúla. Vegurinn yfir Kleifaheiði á Barðaströnd er einnig ófær vegna skriðufalla í svokölluðum Kleifum, (skammt upp af Ósafirði, sem er innsti hluti Patreksfjarðar). Jeppabifreið, sem var á leið inn að Barðaströnd í gær tepptist er aurskriður runnu bæði fyrir framan og aftan bifreiðina. Á veginn niður Bjarnkötludal á Rauðasandi hafa fallið margar skriður og er hann algerlega ófær. Á  Rauðasandi hafa skriður fallið á tún þriggja jarða og skemmdir orðið miklar. Í Kirkjuhvammi hefur eyðilagst um 30 hesta tún. Þykk aur og malarskriða hefur fallið kringum fjárhús á túninu og teppt aðgang að þeim. Margar skriður hafa fallið á beitiland jarðarinnar. Í Gröf féll skriða og fyllti gamla hlöðutóft og síðan fram á túnið. Tvær skriður féllu á túnið á Stökkum og urðu miklar skemmdir á túninu. Í Gröf og Stökkum hafa vatnsból fyllst af skriðuföllunum, og er vatnslaust á báðum bæjunum.

Versta veður ársins gerði 22. til 24. nóvember. Myndin sýnir forsíðu Tímans þann 25.:

Slide4

Tíminn 25.nóvember

Á fimmtudaginn brast á norðan fárviðri með stórhríð um allt Norður- og Norðausturland. Um kvöldið og nóttina gekk sjór á landið upp í mörgum kaupstöðum, allt frá Þórshöfn til Sauðárkróks og olli miklum skemmdum á hafnarmannvirkjum, íbúðarhúsum, vörugeymslum og verksmiðjum. Um miðjan dag í gær dró niður ofsann, en undir kvöldið harðnaði veðrið aftur. Búist var við nýjum stórskemmdum á næturflóðinu.

Fréttaritari blaðsins á Þórshöfn símar: Á Þórshöfn var ofsaveður í fyrradag og fyrrinótt. Á næturflóðinu gekk brimið inn í þorpið og olli þar stórskemmdum. Í gærmorgun voru göturnar þaktar fjörugrjóti og braki, líkt og sprengjuregn hefði fallið á þorpið. Um nóttina hafði fólk flúið úr átta íbúðum, þar sem sjór gekk inn. Þar urðu miklar skemmdir á fatnaði, matvælum og annarri búslóð. Sumar þessara íbúða voru í kjöllurum, aðrar á götuhæð. Um nóttina braut upp á útidyrahurðina á annarri hæð í gamla læknisbústaðnum, sem stendur fremst á sjávarkambinum. Húsið er kjallari og tvær hæðir. Bílskúr þar sem tveir bílar voru geymdir, skolaðist burt, en bílarnir eru skemmdir. Sjórinn gekk inn í annan bílskúr, sem stendur nokkuð frá sjó, braut upp hurðina og ýtti bílnum út í gegnum skúrgaflinn, sem var klæddur með asbesti. Þá gekk sjórinn inn í vöruhús kaupfélagsins og eyðilagði mikið af vörum, sement, áburð, þakjárn og fleira. Í gærmorgun voru þar fimm pokar á kafi í stæðuröð. Vegurinn suður með firðinum til Þistilfjarðar er stórskemmdur og óakfær með öllu. Vegurinn út á Langanes, norðan Sauðaness, er stórskemmdur á löngum kafla. Sums staðar er hann rifinn burt, annars staðar á kafi í vatni eða hann liggur undir malarhrönnum. Þó var brotist með bíl eftir þessum vegi í gær. Sjórinn reif skörð í malarkambinn norðan við flugvöllinn og flæddi yfir hann. Svo mikið vatn er á flugvellinum, að ekki er hægt að giska á skemmdirnar. Um nóttina brotnaði kjölur undan fjögurra tonna bát, sem búið var að setja. Tveir aðrir bátar, sem búið var að setja, dingluðu í böndunum, en þeim varð bjargað. Bátana úti á legunni sakaði ekki. Hafnargarðurinn er skemmdur, en hve mikið veit enginn. Hausinn virðist siginn, en sést ógjörla fyrir brimróti. Í gær lægði um stund, en þegar á daginn leið, tók aftur að hvessa Búist var við enn meiri sköðum á næturflóðinu. Þrír beitingaskúrar sópuðust burt í fyrrinótt, en tveir eru stórskemmdir. Fullir og tómir línustampar skoppuðu í sjó inn. Á Langanesi var fé úti á flestum bæjum. Ekki er vitað, hvernig því hefur reitt af, því að aðeins var leitarfært í nánd við bæina í gær. Í austurhluta Þistilfjarðar var allt fé í húsum. Brimið sem gekk upp í Þórshöfn í fyrrinótt, er það mesta, sem þar hefur komið síðan 1934.

Símasambandið við Raufarhöfn slitnaði í fyrradag og sambandið við Kópasker rofnaði í gær. Af þessum sökum hefur ekki verið hægt að fá áreiðanlegar fréttir frá þessum stöðum, en fréttaritarar blaðsins annars staðar norðanlands telja, að verulegt tjón hafi orðið á báðum þessum stöðum. Truflanir hafa orðið á símasambandi við fleiri staði norðanlands í þessum veðraham. Blaðið hafði tal af Áskatli Einarssyni, bæjarstjóra á Húsavík. Hann sagði, að þar væri mikil veðurhæð og sjógangur. Í fyrrakvöld var þar foráttuveður. Ein trilla sökk í höfninni, og unnið var að því að bjarga bátnum þar í gær. Þá gekk sjórinn upp á hafnarfyllinguna.

Fréttaritari blaðsins á Akureyri sagði vegi orðna þungfæra í Eyjafirði. Þar var mikil veðurhæð í dag og snjógangur svo mikill, að tæplega sá milli húsa á Akureyri. Rafmagnsskömmtun var hafin á Akureyri í fyrrakvöld. Í gær mátti sjá fólk skjótast milli húsa með olíubrúsa og gaskúta, hlaupandi í hríðarkófinu, óþekkjanlegt í dúðum.

Fréttaritarinn í Hrísey sagði, að þar hefði staðið yfir linnulaus stórhríð á annan sólarhring. Sjórinn hefur tætt bárujárnið af gafli síldarbræðslunnar og eyðilagt vélar og raftæki þar inni. Þá hefur sjórinn rifið plötur af gafli lýsisbræðslunnar og í tveim öðrum húsum liggur undir sjógangi. Má gera ráð fyrir, að mjöl í 700—800 sekkjum sé að mestu ónýtt. Skreið liggur undir sjó, meira en pakkaþykkt. Í gær var farið á bát fyrir ofan frystihúsið, þar sem er venjulegur stígur. Fram á hafnarfyllinguna er ekki fært nema í klofháum stígvélum. Sjórinn hefur gengið upp undir brunnana, en þeir eru á annað hundrað metra frá sjávarbakkanum. Neysluvatn var illdrekkandi vegna saltbragðs. Tíu bátar eru á legunni, en þeir verða ekki eygðir fyrir sjógangi. Árið 1936 gekk mikið brim á land í Hrísey og olli þar spjöllum. Þá var kallað Sjóskaðaveður. Þetta er mesta brim, sem komið hefur í Hrísey síðan þá, en mun meira.

Fréttirnar frá Dalvík bárust um Akureyri. Þar var ofsaveður í fyrrinótt og hríð í gær. Brimið hafði tekið ofan af nokkrum hluta nýja hafnargarðsins. Hafnaruppfyllingin hafði látið undan átökunum.

Ólafsfjörður: Fréttaritari blaðsins á Akureyri hafði fréttirnar frá Ólafsfirði. Þar gekk sjórinn hátt á land í fyrrinótt. Allir Ólafsfjarðarbátar komu úr róðri á miðvikudaginn og voru inni þegar veðrið skall á. Ólafur Bekkur varð að flýja til Hríseyjar. Um kl.7 í fyrrakvöld ætlaði Sæþór, 155 tonna bátur, að flýja úr höfninni, en sogið í hafnarmynninu, sneri honum við, þannig að stefnið vissi inn. Í næstu andrá kastaðist Sæþór á hafnargarðinn og dældaðist á honum. Bátnum var svo rennt upp í fjöruna og þar liggur hann. Erfitt var að verja bátana í höfninni í fyrrinótt. Þeir voru allir mannaðir og vélar keyrðar alla nóttina. Einn bátur, Guðbjörg, slitnaði upp. Henni var beitt upp í vindinn og haldið á móti allt til morguns. Í nágrenni Ólafsfjarðar er enginn vegur bílfær.

Fréttaritari blaðsins á Siglufirði sagði, að þar hefði verið hríðarveður í gær og fyrradag. Flóðvarnargarðurinn utan á eyrinni er brostinn á kafla. Í fyrrakvöld og fyrrinótt gekk mikill sjór inn á eyrina og flæddi í kjallara og íbúðir á götuhæð nokkurra húsa. Sums staðar varð fólk að flýja íbúðir. Búist var við miklu meira brimi á flóðinu í gærkvöldi. ... Í gær var talsverður snjór á götum í kaupstaðnum, en ekki mjög hvasst. Upp undir skarðinu er fannkyngi.

Á Sauðárkróki var iðulaus stórhríð í gær og fyrradag. Sjórinn gerði mikil landbrot. Til dæmis var undirstöðunni skolað frá beituskúr, sem stendur nálægt sjávarbakkanum. Skúrinn hékk uppi, en framhliðin var fallin. Þá gekk sjór yfir, veginn austan við flugvöllinn. Engir mjólkurbílar voru hreyfðir í Skagafirði í morgun.

Á Blönduósi var hávaðaveður. Mjólkurbílum þótti ekki fært á sumum leiðum í Húnavatnssýslum í gær. Hvorugur áætlunarbílanna að norðan eða sunnan komu til Blönduóss í gær. Áætlunarbíllinn að sunnan fór út af veginum í Miðfirði. Engan sakaði. Fólkið komst áfallalaust að Húsabakka.

Ekki er kunnugt um verulegt tjón af völdum ofviðris á Austfjörðum. Á Vopnafirði var illveður í fyrrinótt. Sjór sópaði nokkrum síldartunnum af bryggjunni og tvö steinker, sem búið var að hálfsökkva í höfninni, slógust saman, en brotnuðu ekki. Á Vopnafirði var hægur vindur og bjartviðri í gær. Á Seyðisfirði var fárviðri og snjókoma í fyrradag. Þar fauk bílskúr út á sjó, og sást ekki urmull eftir af honum. Fjarðarheiði var farin á bílum í fyrradag, en þeim gekk illa sökum dimmviðris. Heiðin var fær í gærdag og veður batnandi. Á Reyðarfirði var hvassviðri en lítil snjókoma i fyrradag. Engir skaðar urðu í rokinu. Í Neskaupstað gekk á með hvössum norðvestan rokum, en engin spjöll urðu. Þæfingur er á Oddsskarði, en talið fært bílum með tvöföldu drifi.

Ofsarok var á Vestfjörðum í gær og mikil fannkoma og var búist við, að það héldist áfram í nótt og dag. Norðanáttin byrjaði á miðvikudagsmorgun [22.] nokkuð snögglega, en jókst svo í fyrradag allan og um nóttina og náði hámarki undir gærmorgun. Þá dró lítils háttar úr veðrinu, en í gær hélst veðurofsinn áfram svipaður. Margir bátar voru að veiðum, þegar ofsinn skall á á miðvikudaginn, og urðu margir þeirra fyrir talsverðu línutjóni, og er sömu sögu að segja frá öllum Vestfjarðahöfnum. ... Tveir fengu brotsjói. Allir bátar komust heilu og höldnu í höfn, en ekki allir klakklaust. ... Allar heiðar og fjallvegir á Vestfjarðakjálkanum voru orðnar ófærar í gær og víða var einnig ófært innan héraðs. Ekki er vitað, að menn hafi lent í hrakningum neins staðar vegna þess.

Fleiri skaðafréttir bættust við. Tíminn segir þann 28.nóvember:

Það var helst frétta frá Raufarhöfn, að Reykjafoss lá þar við bryggju, þegar óveðrið brast á. Tókst ekki að koma honum út vegna dimmviðris og stórsjóa, og svo áheppilega vildi til, að framvírarnir á Reykjafossi slitnuðu og hann rak aftur á bak á löndunartæki hafnarinnar og rákust stautar úr þeim í gegnum skut skipsins. Löndunartækin skemmdust einnig talsvert. Sjór gekk hátt á land og flæddi í kjallara á tveimur húsum á Raufarhöfn, og sömuleiðis tók brimið 20—30 síldartunnur af plani og hurfu þær á sjó út. — Vegurinn fyrir Melrakkasléttu til Kópaskers er víða stórskemmdur af sjó, sem bæði bar á hann möl og sand og skolaði úr honum. Snjóinn hefur dregið í skafla en autt er á milli, og eru vegir auðir þar sem ekki eru snjódyngjur eða sjóskaðar á honum. — Vont veður var í gær á Raufarhöfn, en skárra í gærkvöldi.

Mikið brim var á Bakkafirði og olli mjög miklum skemmdum. Þar var steypuker framan við hafnargarðinn, og færðist það úr stað og skemmdist. Þá var þar 15 metra steyptur varnargarður, og braut brimið hann allan. Þá var steypt plata milli kersins og gömlu bryggjunnar, þessi plata er mjög sigin og sprungin

Fréttaritari Tímans á Hofsósi símaði, að frá hafnargarðinum þar hafi losnað 20 metra framlenging, sem við hann var bætt fyrir tveimur árum, og er þar nú talsverð rifa í milli. Auk þess sprakk hafnargarðurinn í tveimur stöðum öðrum. Ekki er þó hægt að fullyrða, hve miklar skemmdir hafa af því orðið, því að kafari hefur ekki enn komist niður til þess að athuga það. Víða vantar fé, allt frá þremur upp í 12 kindur.

Fréttaritari Tímans í Trékyllisvík símaði eftirfarandi: Í veðurofsanum, sem var fyrir helgina, skemmdust tvær trillur í Gjögri. Þær höfðu verið dregnar upp eins og þurfa þótti, en það reyndist ekki nóg, sjórinn hrakti þær enn lengra á land og braut m.a. kjölinn undan annarri. Ölver Thorarensen í Gjögri átti hana. Sjógangurinn eyðilagði vegarspottann frá Árnesi til Norðurfjarðar, hann hefur rifið veginn alveg upp, þar sem hann liggur nálægt sjávarmáli.

Slide5

Knútur Knudsen veðurfræðingur ritaði stutta grein um þetta veður í tímaritið Veðrið 1962. Nefnist hún „Norðanveðrið í nóvember 1961“. Þar eru ýmsar viðbótarupplýsingar, fáeinir heimamenn bera brimið saman við það sem gerðist 1934. Niðurstaða sú að 1934 veðrið hafi verið öllu meira, nema e.t.v. á svæðinu kringum Þistilfjörð. Knútur lýsir aðdraganda veðursins og birtir kort sem sýnir braut lægðarinnar og dýpkun hennar. Kortin hér að ofan sýna aðdraganda veðursins. Lægð er að grynnast á Grænlandshafi. Henni fylgir kalt háloftalægðardrag sem nær í hýrra loft langt suður í haf. Þessi staða reynist oft sérlega varasöm og fyrir tíma tölvureikninga var mjög erfitt að ráða við hana.

Slide6

Við lítum líka á kort Knúts:

w-1961-myndir-kk

Samanburður sýnir að japanska endurgreiningin nær stöðunni furðuvel - öruggt merki um að tölvuspár nútímans hefðu líklega neglt þetta veður niður með nokkurra daga fyrirvara. 

Slide7

Tiltölulega meinlaust veður var í desember, fyrsti þriðjungur kaldur, síðan hálfur mánuður nokkuð hlýr, en aftur kuldi undir jól. Milli jóla og nýárs gerði óvenjuhart frost. Í Borgarnesi sá ritstjórinn hungurdiska í fyrsta sinn þann 28. desember - og þótti einkennilegt og eftirminnilegt. Einnig þokan sem fylgdi. Ekki vissi hann þá að slíkt héti frostreykur - og er ekki sérlega óalgengur á firðinum fari frost niður fyrir 15 til 17 stig. Næsta opinbera mælistöð var í Andakílsárvirkjun, þar fór frostið í -22,7 stig. Orðrómur nefndi -24 stig á Hvanneyri - en ekki var mælt þar. Í Reykjavík fór frostið í -16,8 stig, hefur sárasjaldan orðið jafnmikið, síðast 31.janúar 1979. Í Síðumúla fór frostið í -21,0 stig, einnig sárasjaldgæft. 

Slide8 

Japanska endurgreiningin sýnir þennan helkulda vel. Það er ekki oft sem þykkti yfir landinu fer niður fyrir 4920 metra (dekkri fjólublái liturinn). Ekki er að sjá að þessi kuldi hafi valdið sérstökum vandræðum nema hvað mjög reyndi á hitaveitu Reykjavíkur. Til allrar hamingju var vindur mjög hægur og mesti kuldinn stóð ekki lengi. Það er ritstjóranum einnig minnisstætt að á gamlárskvöld sá hann í fyrsta sinn (með meðvitund) mikinn rosabaug um tunglið (sem þó var ekki nema hálft) og var sagt að hann boðaði hláku - sem síðan kom. 

Morgunblaðið segir fréttir af Seljalandsfossi 31. desember:

Seljalandsfoss undir Eyjafjöllum er sem kunnugt er hár og heldur vatnslítill. Í frostunum undanfarið hefur vatnið frosið í fallinu niður og hlaðist upp í ísbungu niður með ánni og niður á veginn, en vatn beljar ofan á. Er vegurinn austur af þeim sökum að verða ófær, að því er vegamálastjóri tjáði blaðinu í gær. Sagði hann að ætlunin væri að lagfæra svo að litlir bílar gætu ekið niður af Katanesgarði, suður Markafljótsaura og suður fyrir Seljahlandsgarð og upp að Seljalandi, en það er töluverður krókur.

Hér lýkur yfirferð hungurdiska um veður ársins 1961. Margt hefur sjálfsagt gleymst. Margvíslegar tölur og upplýsingar má að vanda finna í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svona var veðráttan fyrir 61 ári, sannkallaður lurkur. En ef þessi veðrátta kæmi í núinu (sem gerist örugglega aftur) væri þetta sagt vegna hlýnunar jarðar, og af mannavöldum. En veðurhjúpurinn fer sýnu fram, hvað sem mennirnir tuða og gefur þessum gervi vísindamönnum falleinkun. Fer eftir sýnu ritúali og gefur okkur sitt síbreitilega veðurfar. Það er allavega mín trú.

jakob jónsson (IP-tala skráð) 31.8.2022 kl. 17:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 10
  • Sl. sólarhring: 377
  • Sl. viku: 1584
  • Frá upphafi: 2350211

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 1457
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband