Um óvenjulegt úrkomumagn í Reykjavík

Eins og fram kom í yfirliti Veðurstofunnar um mánaðamótin síðustu (mars/apríl) var veturinn (desember til mars) sá úrkomusamasti frá upphafi mælinga í Reykjavík. Eins var með fyrstu þrjá mánuði ársins. Aðalkeppnin stóð við sama tíma árið 1921 en þá var úrkomumagn í Reykjavík líka með nokkrum ólíkindum. Síðasta vikan hefur verið þurr í Reykjavík og nægði það hlé til þess að úrkomumagn frá áramótum 1921 fór fram úr því sem nú hefur mælst á sama tíma (515 mm á móti 525), munar um 10 mm. Nokkuð langt er niður í næstu tölu (463 mm sömu daga árið 1925). 

Árið 1951 er þurrasta ár mælisögunnar í Reykjavík (um það verður vonandi fjallað fljótlega hér á hungurdiskum). Úrkoman allt árið mældist ekki nema 560,3 mm. Næstþurrast var 2010, en þá mældist ársúrkoman 592,3 mm. Við sjáum af þessum tölum að ekki vantar mikið upp á (um 45 mm) að úrkoman á þessu ári nái ársúrkomunni 1951. Forvitnir vilja þá auðvitað vita hvaða almanaksdag úrkoma hefur fyrst náð því marki. 

Ritstjóri hungurdiska leitaði það uppi og fann að það var 23. apríl 1921 að úrkoma þess árs fór fram úr heildarúrkomu þurrasta ársins. Árið 1921 er reyndar í nokkrum sérflokki í úrkomuákefð á þessum mælikvarða, því næst í „hraða“ er árið 1989, en þá varð 560,3 mm ekki náð fyrr en 26. maí. Það er raunar mjög snemmt - en miðað við 1921 virðist það seint. Aðeins þrjú ár (1925, 1991 og 2018) bætast við í júní (að ná heildarúrkomu þurrasta ársins) og í júlílok eru þau ár sem náð hafa þessu marki orðin 16 (af 123 sem við höfum fullnægjandi upplýsingar um). 

w-blogg130422a

Myndin sýnir uppsafnaða úrkomu í Reykjavík eftir því sem á árið líður. Lárétti ásinn sýnir mánuði ársins en sá lóðrétti úrkomuna. Myndin skýrist sé hún stækkuð, en enn skýrara eintak fylgir í viðhengi. Árið í ár (2022) er blámerkt - sá ferill endar auðvitað í dag (13. apríl). Úrkoma ársins 1921 hefur aftur náð yfirhöndinni eftir að hafa verið undir frá 20. mars til 9. apríl. Heildarúrkoma þurrasta ársins (1951) er merkt með gulbrúnni strikalínu þvert yfir myndina og meðalúrkoma 1991 til 2020 með punktalínu nokkru ofar. Ör bendir á hina gríðarmiklu úrkomu 17. og 18. nóvember 2018, en þá féllu 83,2 mm á tveimur sólarhringum - stórt þrep í ferlinum. 

Við erum sem stendur í þeirri stöðu að eiga fræðilegan möguleika á að slá hraðamet ársins 1921 nú, eins og áður sagði vantar um 45 mm, og dagarnir sem eru til reiðu eru 9 (10 dagar til jöfnunar). Miðað við veðurspár í dag (13. apríl) virðist heldur ólíklegt að þetta náist, en kannski er annað sætið í höfn (að vísu ekki ef það styttir rækilega upp og næstu fjórar vikur verða næstum þurrar). 

Í framhaldi af þessu er eðlilegt að spyrja um önnur mörk. Hvaða ár var fyrst til þess að ná ársmeðalúrkomu 1991 til 2020 (875,8 mm)? Athugun sýnir það vera árið 1925 (sjá myndina að ofan). Þá hafði meðalúrkoma heils árs fallið frá áramótum til 24. september. Árið 1921 kom aðeins fáeinum dögum á eftir, 29. september, 1887 er í þriðja sæti, 2. október og 1989 í því fjórða 5. október. Úrkomumagnið 1925 hafði farið fram úr 1921 þann 13. september og hélt forystunni til 15. október. Á myndinni má sjá að 2018 fylgdi úrkomumestu árunum til að byrja með, en fór síðan að dragast aftur úr í apríl, en bætti það síðan upp með mikilli úrkomu framan af sumri - ferillinn er þá talsvert brattari heldur en hinir ferlarnir og komst að lokum í flokk fáeinna ára með úrkomu meiri en 1000 mm í Reykjavík. Náði þó ekki 2007 sem enn er úrkomumesta ár aldarinnar. 

Það er 1921 sem er síðan úrkomumesta ár sem við vitum um í Reykjavík - hreinsaði af sér alla keppinauta og fór í 1291,1 mm. Mjög mikið rigndi síðari hluta árs árið 2007, nægilega mikið til að koma því ári í annað sæti, 1125,4 mm, en samt langt á eftir 1921. 

Við vitum auðvitað ekki neitt um framhaldið nú. Veðurnörd geta setið í nokkurri spennu næstu daga og fylgst með því hvort metið frá 1921 verður slegið - en samkeppnin við það ár og önnur ellefuhundruðmillimetra ár verður hörð - þau eru örfá. Rými er þó gott fyrir met. Væri úrkomumet slegið í hverjum mánuði ársins í Reykjavík yrði ársúrkoman 2155 mm (ekki líklegt að slíkt ár birtist nokkru sinni - en auðvitað hugsanlegt). Verði þurrkmet slegið í hverjum mánuði yrði ársúrkoman ekki nema 113 mm. Hætt er við að veruleg vandræði sköpuðust. 

Vissulega munu bæði ársúrkomumetin (það þurra og vota) falla í framtíðinni, en við vitum ekki hvenær. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Einkar áhugaverð framsetning með þessari mynd uppsafnaðrar úrkomu!

Einar Sveinbjörnsson (IP-tala skráð) 13.4.2022 kl. 20:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5
  • Slide4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 16
  • Sl. sólarhring: 219
  • Sl. viku: 1640
  • Frá upphafi: 2349600

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 1486
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband