Bloggfærslur mánaðarins, september 2021

Af sumri

Í kvöld (fimmtudag 30.september) lýkur veðurstofusumrinu. Það nær sem kunnugt er til mánaðanna júní til september. Byrjaði og endaði kuldalega, var sérlega sólarlítið suðvestanlands en sólríkt á Norður- og Austurlandi. Í hátt í þrjá mánuði var hiti í hæstu hæðum á Norðaustur- og Austurlandi. Líka var nokkuð hlýtt suðvestanlands, en sólarleysi þótti spilla fyrir. Lengi vel var þurrt á landinu, furðuþurrt á Suðvesturlandi - en að lokum fór að rigna verulega þar um slóðir og loksins líka fyrir norðan og austan. 

w-blogg300921a

Myndin sýnir reiknaðan meðalhita í byggðum landsins. Fyrstu 50 árin má telja afskaplega ágiskanakennd, en síðan vex áreiðanleiki meðaltalsins smám saman. Á þessu tímabili hafs sumur að meðaltali hlýnað um 0,8 stig á öld - en slík leitni hverfur nokkuð í stórar fjöláratugasveiflur. Sumur hafa á þessari öld verið um 1,2 stigum hlýrri heldur en á tuttuguáratímabilinu 1966 til 1985. Köld sumur á þessari öld eru ámóta að hitafari og þau hlýju voru á kalda skeiðinu. Fyrir þann tíma höfðu sumur farið kólnandi í 20 ár - nærri því eins mikið og síðar hlýnaði. En nýliðið sumar (2021) er þó í hópi þeirra 10 hlýjustu á tímabilinu öllu. Hvað skyldi svo gerast næstu 50 árin? Ekki þarf að kólna mikið til þess að yngri kynslóðinni þyki öll sumur köld. Langtímaleitnin getur líka haldið sínu striki - eða bætt í. 

w-blogg300921b

Næsta mynd sýnir hundrað sumur í Reykjavík. Sólskinsstundafjöldi er markaður á lárétta ásinn, en hiti á þann lóðrétta. Við sjáum ekkert samband á milli þessara tveggja veðurþátta. Hvor um sig veit lítið af hinum. Lengst niðri til vinstri er óþverrasumarið 1983 - bæði skítkalt og sólarlaust, almennt talinn botninn í sumargæðum. Þar að auki var oft hvassviðrasamt. Nýliðið sumar 2021 keppir við 1983 í sólarleysi, ekki marktækur munur, en talan í ár sem virðist ætla að verða 414,9 stundir er sjónarmun lægri heldur en sólarsumma sumarsins 1983, hún var 415,7 stundir. Við eigum reyndar tvö eldri sumur á lager með enn færri stundum, 1913 og 1914, fyrra sumarið frægt að endemum fyrir rigningar og illviðri, hið síðara verst framan af. Sólskinsstundamælingar voru gerðar á Vífilsstöðum þessi sumur - varla þó ástæða til að gera ráð fyrir teljandi mun.

Sumarið í sumar, 2021, fellur í flokk fremur hlýrra (ekki mjög hlýrra þó) sólarleysissumra. Rigningasumrin frægu, 1955 og 1947 eru ekki mjög langt undan. Efst til hægri eru sólrík og hlý sumur. Þar er 2019 - (sem allir muna - er það ekki?) og mörg önnur á þessari öld. Síðasti fjórðungurinn er síðan þau sumur sem eru bæði sólrík og köld. Dæmi um slíkt er 1924 og 1929 - harla fáir sem muna slíkt - og þeim fer meira að segja ört fækkandi sem muna sumarið 1952 - ritstjóri hungurdiska þekkir það aðeins af afspurn (skítasumar eystra), en man ágætlega bæði 1974 og 1985. Þau síðastnefndu fengu ólíka einkunn. Vel er talað um sumarið 1974 um mestallt land og ég held að 1985 hafi þótt nokkuð gott í Reykjavík (eftir með ólíkindum langa syrpu af hraksumrum næst á undan). Það sumar var hins vegar ekki hagstætt eystra. 

Þann 2.október 2019 birtist hér á hungurdiskum pistill með yfirskriftinni „Sumarsól á Austurlandi“. Sólskinsstundafjöldi hefur ekki verið mældur eystra nú um langa hríð en í pistlinum var gerð tilraun til að giska á hver hann hefði verið. Hér að neðan er gerð tilraun til að bæta tveimur sumrum við. Aðferðin sem notuð er er auðvitað vafasöm og eins og aðrar slíkar finnur hún trauðla ystu mörk - allflestar einfaldar tölfræðiaðferðir bæla breytileika (nema gerðar séu sérstakar ráðstafanir til að halda honum). Lesa má um aðferðina í pistlinum frá 2019 og hún ekki frekar skýrð eða varin hér. 

w-blogg300921c

Hér er giskað á að sumarið 2021 sé í hópi þeirra sólríkustu - ámóta og 2012 og 2004. 


Smávegis af illviðri - og sólarleysi

Vindur í illviðri gærdagsins (þ.28.september) komst yfir 20 m/s á 28 prósentum veðurstöðva í byggð. Veðrið í síðustu viku náði hins vegar 34 prósentum. Meðalvindhraði á öllum stöðvum í byggð var 9,8 m/s, en var 8,8 m/s í veðrinu í síðustu viku (þetta eru bráðabirgðatölur). Ársmet vindhraða (10-mínútna meðaltal) var slegið í Botni í Súgandafirði, þar er sjaldan hvasst. Vindur fór þar í 22,6 m/s, en hviða í 39,7 m/s, vindátt var af vestnorðvestri (310 gráður). Ekki hefur verið athugað þar nema í 9 ár. Septembermet voru slegin á fáeinum stöðvum þar sem athugað hefur verið í meir en 20 ár. Þar má nefna Bolungarvík, Súðavík, Hólasand, Möðrudalsöræfi, Víkurskarð, Steingrímsfjarðarheiði, Kleifaheiði, Ennisháls og Fróðárheiði. Við rifjum upp að septembermet voru einnig sett í síðustu viku, en þá fyrst og fremst um landið sunnanvert. Veður sem þessi eru ekki algeng í september, en margir muna þó vel hretin miklu þann 10.september 2012 og 15. september 2013. Sömuleiðis gerði ámóta hret þann 21. september 2003 og (heldur minna) 9. september 1999. Slæm norðanhret má einnig finna rétt handan mánaðamótanna, t.d. þann 4. og 5. október 2004.

Kuldinn síðustu daga hefur dregið meðalhita mánaðarins mjög niður og er hann sitt hvoru megin meðallags aldarinnar - svalari að tiltölu vestanlands heldur en fyrir austan. Úrkoma er rífleg víðast hvar. Sólarleysi er óvenjulegt í Reykjavík. Þetta verður þar trúlega einn af fimm sólarlausustu septembermánuðum síðustu 100 ára - sem stendur eru fjórir mánuðir neðar á listanum (2 dagar eftir). Þetta eru 1912, 1921, 1943 og 1996. Sá síðasttaldi átti góðan endasprett - sem er erfitt að eiga við. September 1943 verður neðar en september nú - mælingarnar í september 1921 eru nær örugglega gallaðar - og teljast því ekki með í keppninni. Þær virðast hins vegar í lagi 1912 - og sólskinsstundafjöldi í þeim mánuði minni en nú. Sumarið í í heild er sólarrýrt í Reykjavík, raunar það sólarrýrasta í meir en 100 ár. Það eru aðeins 1913 og 1914 sem eru svipuð. Þetta er líka í fyrsta skipti sem sólskinsstundir vorsins (mánuðirnir tveir, apríl og maí) eru fleiri heldur en sumarsins (mánuðirnir fjórir, júní til september). Afskaplega óvenjulegt svo ekki sé meira sagt.

Það var í september 1963 sem ritstjóri hungurdiska fyrst heyrði orðið „haustkálfur“ notað um hret snemma hausts. Mjög slæmt hríðarkast gerði þá í göngum og réttum í kringum jafndægrin. Sögðu menn það boða góðan vetur - sumir til jóla - en aðrir allan veturinn. Svo fór að veðurlag varð heldur hryssingslegt áfram allt fram til jólaföstu, en síðan tók við einn sá besti og blíðasti vetur sem ritstjórinn hefur enn lifað. Þótti honum sem mark væri kannski takandi á haustkálfatalinu. En síðan eru liðin mörg haust og ekki ætíð á spár af þessu tagi að treysta. 

w-blogg290921v-a

Hér eru til gamans tvær blaðaúrklippur af timarit.is. Sú eldri úr sunnudagsblaði Vísis 1937 þar sem minnst er á haustkálfatrúna, en hin úr löngum pistli Gísla Sigurðssonar í Lesbók Morgunblaðsins í október 1969. Þar fjallar hann um ýmislegt tengt rigningasumrinu mikla 1969 sem - eins og hér hefur verið minnst á - endaði með hríðarbyl í Reykjavík og víðar um land síðustu dagana í september. - Texti myndarinnar verður læsilegri sé hún stækkuð.  


Óvenjuleg lægð?

Í dag (mánudaginn 27.september) hefur leiðindaillviðri gengið yfir landið norðvestanvert - (og gætt víðar). Lægð gekk til vesturs með norðurströndinni, en er þegar þetta er skrifað (seint á mánudagskvöldi) að leysast upp á leið sinni suðvestur um Vestfirði. Sú hreyfistefna er lægðum oftast mjög fjandsamleg. Þessi lægð var ekki mikil um sig - á stærð við Ísland ef allt er talið - og heldur veigalítil. Olli þó töluverðum leiðindum og jafnvel foktjóni. Lægðir sem þessar eru auðvitað erfiðar viðfangs í veðurspám. 

En eins og stundum áður á önnur lægð að koma í kjölfar hinnar fyrri. Sú virðist öllu veigameiri, en tekst samt á við sömu vandamál. Hreyfist til vesturs meðfram norðurströndinni og síðan til suðvesturs um Vestfirði eða nærri þeim. 

w-blogg270921a

Kortið sýnir spá harmonie-líkansins og gildir kl.17 á morgun, þriðjudag 28.september. Lægðin á síðan að fara til suðvesturs, um Breiðafjörð annað kvöld og aðra nótt. Eins og sjá má virðist sem svo að lægðinni fylgi bæði mjög mikill vindur og mikil úrkoma - sem vafalítið mun þó gæta mismikið frá einum stað til annars eftir því hversu vel skjóls nýtur frá fjöllum - verst verður veðrið þó á heiðum og fjöllum og þar verður versta hríð. Þegar lægðin fer hjá gæti hlánað og bleytt í byggð. 

Þessi lægð er - eins og áður sagði - veigameiri en sú sem fór hjá í dag - og stendur því líklega betur af sér baráttuna við hreyfistefnuna. Rétt að þeir sem eiga eitthvað undir veðri fylgist vel með spám Veðurstofunnar (engar spár eru gerðar á hungurdiskum). 

Í fljótu bragði finnst manni þetta heldur óvenjulegt svona snemma hausts. En það er það kannski ekki. Hríðarveður eru alla vega algeng um mánaðamótin september/október. Auðvitað ráða tilviljanir mjög braut kerfa sem þessara - lítið þarf til þess að landið eða heilir landshlutar sleppi algjörlega. Við leit fann ritstjóri hungurdiska slatta af ættingjum lægðarinnar - bæði illskeyttari sem og vægari á þessum tíma árs. Af einhverjum ástæðum leitaði ein dagsetning þó á frekar en aðrar, 9. og 10.október árið 1964 - mjög snemma á búskaparárum ritstjórans. 

w-blogg270921c

Hér má sjá greiningu japönsku veðurstofunnar að morgni föstudagsins 9. október 1964. Þá er lægðarmiðja fyrir norðan land - og hún fór einmitt svipaða leið og sú sem nú er væntanleg. Mun verra veður var um landið norðvestanvert heldur en annars staðar - og langverst á Vestfjörðum. Menn voru lítið á ferð um heiðar á þessum árstíma árið 1964 - þó fréttist að Breiðadalsheiði væri ófær. Margir bátar voru á sjó og því miður fórust tveir þeirra, báðir frá Flateyri (Mummi og Sæfell). Hluti áhafnar Mumma bjargaðist naumlega, veður var að mestu gengið niður og áhöfnin að veiðum þegar hann fór, en straumhnútur kom á bátinn og sökkti honum. Fiskhjallar fuku á Suðureyri við Súgandafjörð og fjárskaðar urðu á Vestfjörðum.

Í texta með veðurkorti Morgunblaðsins laugardaginn 10.október segir (veðurkortið sýnir stöðuna 6 klst síðar en kortið hér að ofan):

Í gær voru miklar sviptingar í veðri hér á landi. Um morguninn var lægð skammt fyrir norðaustan land og norðan hvassviðri með slyddu um norðan- og vestanvert landið. Síðdegis var aðallægðin komin suður fyrir landið og hægviðri um mikinn hluta landsins. Á Vestfjörðum var þó ennþá versta veður, rokhvasst og snjókoma. Á Ermarsundi er kröpp lægð á hádegi, eiginlega hálfgerður fellibylur, því skip hafa gefið allt upp í 12 vindstig skammt frá miðju sveipsins. 

Ritstjóra hungurdiska er þetta veður minnisstætt - ekki síst vegna þess að „aukaviðvörun“ var gefin út vegna þess - á milli veðurfréttatíma. Slíkt var mjög óvenjulegt á þessum árum. Gallinn er hins vegar sá að engar heimildir finnast á Veðurstofunni um þessa viðvörun. Veðurnördið unga varð hins vegar fyrir nokkrum vonbrigðum þegar lítið varð úr veðri (að því þótti) á heimaslóðum í Borgarnesi.

Veðurspár voru erfiðar viðfangs á þessum árum, mun erfiðari heldur en nú. Þriðjudaginn 6.október segir í athugasemdum með veðurkorti dagsins (skrifaðar mánudaginn 5.):

Í gær var vindur á sunnan og suðaustan hér á landi, skúraveður sunnan lands, en bjart fyrir norðan. Hitinn var 6—10 stig. Líkur eru á óstöðugu veðri og vætusömu næstu daga, ekki hætta á frostum í bili.

Ekki þurfti þó að bíða lengi eftir frosti og vetri. Föstudaginn 9. - daginn sem illviðrið á Vestfjörðum var sem verst birtist þetta kort í Morgunblaðinu - það sýnir veður um hádegi þann 8.

w-blogg280921v-b

Mikil lægð er fyrir austan land - en mjög langt á milli þrýstilína við landið og vindur hægur. Ekkert í sjálfu sér sem bendir til þess að illviðri sé í nánd. Engar gervihnattamyndir engar tölvuspár. Um kvöldið hefur verið ljóst að eitthvað var á seyði, lægðin dýpri og á meiri hreyfingu til vesturs heldur en ráð hafði verið fyrir gert. Rétt að bæta í vinda- og úrkomuspár.

w-blogg280921v-a

Hér má sjá Íslandskort á hádegi 9.október. Mikið illviðri með hríð gengur þá yfir Vestfirði - og sennilega Snæfellsnes sunnanvert líka. Þrýstingur er lægstur á Blönduósi og lægðarmiðjan væntanlega þar suður af - nokkuð farin að grynnast. Hún fór síðan suður yfir landið. Fyrr um morguninn var norðan fárviðri á veðurstöðinni á Hvallátrum - en þar var ekki athugað á hádegi. 


Gránar í Reykjavík (og víðar)

Um hádegið (miðvikudaginn 22.september) gekk allmikið él yfir höfuðborgarsvæðið og varð jörð hvít um stund og jafnvel varð lúmsk hálka á götum. Þetta telst þó ekki fyrsti alhvíti dagur haustsins og þegar þetta er ritað um klukkustund síðar er „snjórinn“ að mestu horfinn aftur.  Kannski gerir fleiri él síðar í dag. Mjög kalt loft kom inn yfir landið úr vestri í kjölfar illviðrislægðarinnar sem gekk yfir landið í gær. Myndin hér að neðan sýnir að um mjög afmarkaðan kuldapoll er að ræða - og hreyfist hann hratt til austurs og verður fljótt úr sögunni.

w-blogg220921a

Litir sýna hita í 850 hPa-fletinum, en jafnþykktarlínur eru heildregnar. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því minni sem hún er því kaldara er loftið. Lægsta þykktin við Ísland er um 5230 metrar - á þessum tíma árs snjóar sjaldan við strendur í þeirri þykkt - standi vindur af hafi. Skammvinn él gerir þó og getur fest sé úrkomuákefðin nægilega mikil - eins og var í dag. Aftur á móti getur snjóað í meiri þykkt standi vindur ekki af sjó - þá ofmeta þykktartölur hita í lægstu lögum. 

Við sjáum þykktartölur sem þessar alloft síðari hluta september, þær verða fyrst óvenjulegar þegar komið er niður fyrir 5200 og sérlega óvenjulegar minni en 5150 metrar. Þann 23. september í fyrra var þykkt á hádegi 5196 metrar yfir landinu. Þá var næturfrost víða á höfuðborgarsvæðinu.  

Lægðin sem gekk yfir í gær(21.)  var nokkuð óvenjuleg. Þrýstingur fór niður fyrir 960 hPa á fáeinum veðurstöðvum, lægsta talan mældist á Fonti á Langanesi, 958,5 hPa, lægsti þrýstingur á landinu í september síðan árið 2004. Metið er hins vegar 952,9 hPa, sett í Stykkishólmi  í mannskaðaveðrinu mikla 20.september árið 1900.

Vindhraða var nokkuð misskipt, meðalvindhraði í byggðum landsins varð 8,9 m/s, það langmesta í mánuðinum til þessa. Stormur (10-mínútna meðalvindhraði meiri en 20 m/s) mældist hins vegar á 34 prósentum veðurstöðva í byggð - það er allmikið. Þessar tölur gefa til kynna að veðrinu hafi verið mjög misskipt. Stórir hlutar landsins sluppu nánast alveg, en annars staðar féllu septembervindhraðamet. Einna verst að tiltölu virðist veðrið hafa verið á Suðurlandsundirlendinu, austur með ströndinni og hálendinu þar norðaustur af og sömuleiðis á annesjum Austfjarða og þar á fjöllum. Þéttbýli eystra slapp betur. 

Í morgun var alhvítt á tveimur veðurstöðvum nyrðra, við Skeiðsfossvirkjun og á Auðnum í Öxnadal. Er það um 6 dögum fyrr en að meðaltali á þessari öld, en 8 dögum síðar en að meðaltali 1966 til 2015 (sjá gamlan hungurdiskapistil).


Tuttugu septemberdagar 2021

Tuttugu fyrstu dagar september hafa verið hlýir hér á landi. Meðalhiti í Reykjavík er 10,1 stig, +1,1 stig ofan meðallags áranna 1991-2020 og +1,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Sömu dagar hafa þrisvar verið hlýrri í Reykjavík á þessari öld, hlýjastir voru þeir 2006, meðalhiti 10,9 stig, en kaldastir voru dagarnir 20 árið 2013, meðalhiti þá 7,2 stig. Á langa listanum er hitinn í 13.hlýjasta sæti (af 146). Hlýjast var 1939, meðalhiti 12.0 stig, en kaldast 1979, meðalhiti þá aðeins 5,3 stig.

Á Akureyri er meðalhiti dagana 20 nú 11,0 stig, +2,2 stigum ofan meðallags 1991 til 2020, en +2,4 ofan meðallags síðustu tíu ára.

Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára um land allt. Hlýjast að tiltölu hefur verið á Austurlandi og Austfjörðum, þar eru dagarnir þeir næsthlýjustu á öldinni, en minnst eru hlýindin á Suðausturlandi við Faxaflóa og Breiðafjörð, í 5.hlýjasta sæti aldarinnar að jafnaði.

Jákvæða hitavikið er mest á Gjögurflugvelli miðað við síðustu 10 ár, +3,0 stig, en minnst á Garðskagavita, +0,5 stig.

Úrkoma hefur mælst 91,4 mm í Reykjavík, um 60 prósent umfram meðallag. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 35,0 mm og er það í meðallagi.

Sólskinsstundir eru sérlega fáar í Reykjavík, hafa aðeins mælst 33,5 það sem af er mánuði og hafa aðeins fjórum sinnum mælst færri sömu daga síðustu 100 árin rúm, síðast árið 2009 og 1996.


Haustlægð?

Ritstjóri hungurdiska fór ungur að fylgjast með veðri og veðurfréttum - og má um þessar mundir heita að hann hafi sinnt þeirri iðju í 60 ár. Það var snemma sem hann tók eftir því að veður eru oftast mun vályndari á haustin heldur en að sumarlagi. Það mun hafa verið haustið 1961 sem ritstjórinn heyrði fyrst að marki af áhrifum lægða á veðurfar og að alla vega væru þær því illskeyttari sem þær væru dýpri.

Nokkur munur var á síðsumar- og haustveðri árana 1961, 1962 og 1963. Í september 1962 komu leifar hitabeltisstormsins Celíu að landinu - og ollu verulegum umskiptum í veðri - þegar veðrið var liðið hjá (og það varð mjög slæmt á heimaslóðum ritstjórans) var allt í einu komið haust. Um þetta ákveðna veður var fjallað í pistli 10.september 2019. Svipað var haustið 1963 - þá kom mjög djúp lægð að landinu um 9. september, olli fyrst landsynningsveðri en síðan gekk vindur til norðurs og þá var allt í einu komið haust líka. Um hálfum mánuði síðar gerði síðan eftirminnilegt hríðarveður - og síðan hvert minnisstæða veðrið á fætur öðru - (enda var um fyrstu veðurbúskaparár ritstjórans að ræða - og slíkt muna bændur betur en það sem síðar reynir á í búskap þeirra).

Því er þetta rifjað upp nú að til landsins stefnir mjög efnileg lægð - af tegund sem ritstjórinn hefur allaf ákveðið gaman af - 

w-blogg230921a

Spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar gildir kl.18 á morgun, mánudaginn 20.september. Lægðin sem veldur rigningu og jafnvel hvassviðri víða um land nú á sunnudagskvöldi og fram eftir mánudegi er hér komin norðaustur fyrir land og verður brátt úr sögunni. Hún er ekki mjög djúp - komst ekki niður fyrir 980 hPa í miðju, eiginlega sumarlægð - ef ekki væri myrkur á kvöldin. 

Ný lægð er hins vegar suðvestur í hafi. Hún er að slíta sig út úr hvarfbaugskerfi sem hlaut um tíma nafnið Odette. Þetta kerfi varð aldrei sérlega öflugt - en er samt raka- og hlýindagæft. Mikil hæð norðaustur af Asóreyjum sér um að beina þessu hlýja og raka lofti til norðurs - einmitt á stefnumót við kalt norrænt heimskautaloft. Reiknimiðstöðin segir að kl.18 á morgun verði orðin til ný lægð - um 992 hPa í lægðarmiðju. Þessi lægð á síðan að fara í foráttuvöxt á hraðferð í átt til Íslands. 

Um 18 klukkustundum síðar, um hádegi á þriðjudag 21.september, verður staðan eins og kortið hér að neðan sýnir. Rétt er að geta þess að nokkur óvissa er í staðsetningu og miðjuþrýstingi lægðarinnar.

w-blogg230921b

Hér sýna heildregnar línur sjávarmálsþrýsting, í lægðarmiðju yfir Suðurlandi er hann um 961 hPa - og enn er lægðin að dýpka. Sé þetta rétt hefur hún dýpkað um 31 hPa á 18 klst. Litirnir sýna hins vegar þrýstibreytingu, fall og ris síðustu 3 klukkustundir fyrir gildistíma kortsins. Bæði fall og ris sprengja litakvarðann, fallið á undan lægðarmiðjunni á að verða -19 hPa, en risið +17 hPa. Báðar þessar tölur teljast háar, jafnvel mjög háar. Því vestar sem lægðarmiðjan fer í mynstri sem þessu því verra verður veðrið hér á landi. Fari hún ekkert inn á landið sleppum við til þess að gera vel - fari hún hins vegar þá leið sem reiknimiðstöðin gerir hér ráð fyrir má búast við illum vindum og jafnvel foktjóni. Því vestar sem lægðarmiðjan fer því stærri hluti landsins verður undir. 

Eins og venjulega tekur ritstjóri hungurdiska fram að hann stundar ekki veðurspár - það gerir Veðurstofan hins vegar og nokkrir til þess bærir aðilar aðrir. Eru þeir sem eitthvað eiga undir veðri hvattir til að fylgjast vel með spám og veðri þar til þessi öfluga lægð er fullgengin hjá.

Spár eru síðan ekki alveg sammála um framhaldið - en líklegt er að öllu haustlegra verði um að litast eftir en áður - þó vel megi vera að haustið eigi vonandi eftir að færa okkur allmarga hlýja og góða daga. 

En við hefðum gjarnan þegið að fá að bíða lengur eftir fyrstu haustlægðinni. 


Hálfur september

Fyrri hluti september hefur verið hlýr á landinu. Meðalhiti í Reykjavík er +10,7 stig, +1,4 stigum ofan meðallags 1991-2020 og +1,5 stigum ofan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Hitinn raðast í 5. hlýjasta sæti (af 21) á öldinni. Hlýjast var 2010, meðalhiti þá 12,2 stig, en kaldastir voru dagarnir 15 árið 2012, meðalhiti 7,7 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 13.hlýjasta sæti (af 145). Kaldast var þessa sömu daga 1992, meðalhiti +5,6 stig.

Á Akureyri er meðalhiti nú +11,6 stig, +2,5 stigum ofan meðallags 1991-2020 og +2,7 yfir meðallagi síðustu tíu ára. Þrjátíu daga meðalhitinn á Akureyri er enn yfir 13 stigum (13,3 stig).

Að tiltölu hefur verið hlýjast um landið norðan- og norðaustanvert, þar raðast hitinn í 4.hlýjasta sæti á öldinni, en kaldast að tiltölu hefur verið á Suðausturlandi þar sem hiti raðast í 7.hlýjasta sæti.

Á einstökum veðurstöðvum hefur verið hlýjast að tiltölu á Gjögurflugvelli þar sem hiti er nú +3,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Kaldast að tiltölu hefur verið á Höfn í Hornafirði, hiti þar +0,6 stig ofan meðallags.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 52,6 mm, fjórðung umfram meðallags. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 21,1 mm og er það um 80 prósent meðalúrkomu.

Sólskinsstundir hafa verið fáar í Reykjavík, aðeins 24,4, það er 40 stundum færri en að meðaltali 1991-2020. Aðeins er vitað um 6 tilvik með færri sólskinsstundum í Reykjavík síðustu 100 árin rúm. Síðast 2009. Fæstar voru sólskinsstundirnar í fyrri hluta september árið 1943, aðeins 4,1, en flestar 2011, 119,8.


Fyrstu tíu dagar septembermánaðar

Fyrstu tíu dagar september hafa verið hlýir, en þó hefur aðeins slegið á vikin miðað við ágúst. Meðalhiti í Reykjavík er 11,1 stig, +1,4 stigum ofan við meðaltal 1991-2020 og +1,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn í Reykjavík er sá þriðjihæsti á öldinni (af 21). Hlýjastir voru sömu dagar 2010, meðalhiti þá 13,8 stig, en kaldastir voru þeir 2012, meðalhiti 8,1 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 10.hlýjasta sæti (af 145). Kaldastir voru sömu dagar árið 1977, meðalhiti þá 5,7 stig.

Á Akureyri er meðalhitinn fyrstu tíu daga mánaðarins 12,6 stig og er það +2,9 stigum ofan meðallags 1991-2020, en +3,0 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhiti síðustu 30 daga á Akureyri er 13,8 stig.

Hitinn á spásvæðunum er í 3. til 6.hlýjasta sæti á öldinni. Hann er í því þriðjahlýjasta um landið suðvestan og vestanvert (á Suðurlandi, við Faxaflóa, Breiðafjörð og á Vestfjörðum), í því fjórðahlýjasta á Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðausturlandi, Austurlandi að Glettingi og á Miðhálendinu, en í 6.hlýjasta sæti á Austfjörðum og Suðausturlandi.
Að tilölu hefur verið hlýjast á Gjögurflugvelli, +4,0 stig ofan meðallags síðustu tíu ára, en kaldast á Höfn í Hornafirði þar sem hiti hefur verið +0,3 stigum ofan meðallags sama tímabils.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 21,0 mm og er það um 75 prósent meðalúrkomu. Úrkoman á Akureyri hefur mælst 8,1 mm sem er tæpur helmingur meðalúrkomu.

Sólskinsstundir í Reykjavík eru óvenjufáar, hafa aðeins mælst 12,1 og er það um 28 stundum minna en að meðallagi. Þær hafa aðeins þrisvar sinnum verið færri sömu daga síðan mælingar hófust (1911, 1993 og 1943). Síðastnefnda árið voru sólskinsstundir aðeins 1,8 fyrstu 10 daga septembermánaðar.


Hlýskeiðametingur

Hér á hungurdiskum höfum við stundum leikið okkur með samanburð núverandi hlýskeiðs og þess næsta á undan. Við vitum raunar ekki upp á ár hvenær þau byrjuðu. Hér veljum við árin 1927 og 2001 - og höldum áfram jafnlengi - rúm 20 ár, fram í ágústlok nú og árið 1947. Það er meðalhiti í byggðum landsins sem borinn er saman.

w-blogg090921a

Búnar eru til 12-mánaðakeðjur hitans. Hver punktur á línuritinu sýnir hita undangenginna 12 mánaða. Hitasveiflur á tímabilunum báðum sjást mætavel. Engin leitni er í hitanum þau 21 ár sem valin voru - hvorki þá né nú. Svo vill til að bæði tímabilin byrja um það bil í sama hita (það var auðvitað val ritstjóra hungurdiska) - og enda líka í nærri því sömu tölu - sem er aftur á móti tilviljun. 

Meðalhiti núverandi hlýskeiðs (eins og hér var valið) er 0,4 stigum hærra heldur en meðalhiti þess fyrra. Hæsti 12-mánaða meðalhitinn er líka nærri 0,4 stigum hærri heldur en hæst varð á fyrra skeiðinu. Aftur á móti munar um 0,7 stigum á lægstu 12-mánaðagildum skeiðanna tveggja - fyrra skeið dvaldi alllöngum stundum neðan við 3,5 stig - sem ekki hefur enn gerst á þessari öld. 

Almennt má segja að hiti hafi verið öllu jafnari á núverandi hlýskeiði heldur en því fyrra - sérstaklega var hann það á tímabilinu 2005 til 2013. Sérstakir hitatoppar eru þrír á núverandi hlýskeiði - en voru fimm á því fyrra. Á núverandi hlýskeiði er varla hægt að tala um kuldaköst - nema e.t.v. árið 2015, en á fyrra skeiðinu eru fjögur meiri heldur en það, en ekkert þeirra er þó neitt á við það sem verst gerðist fyrir - og eftir.

Við vitum hvað gerðist eftir 1947 - sumur og vor kólnuðu næstu ár, en vetrar- og hausthiti hélst (með örfáum undantekningum) hár allt fram undir miðjan sjöunda áratuginn - um 1965. Þá kólnaði líka haust og vetur. Varla er þó hægt að nefna nákvæmlega hvenær þessi stóru umskipti urðu - hvorki þau fyrr- eða síðarnefndu.

Nú vitum við hins vegar ekkert hvað gerist í framtíðinni. Víst er að engin sérstök regla gildir um það. Flestir veðja þó á hlýnun - í takt við hina miklu hlýnun sem virðist í sjónmáli á heimsvísu. Hvort hún yrði meiri eða minni hér á landi vitum við ekki - við getum þó giskað á að einhver stökk fram og til baka séu líkleg - einstök svæði eru ekki sífellt í takti við heiminn. Við getum minnt á að hlýskeiðið fyrra náði ekki yfir allan heiminn - og sömuleiðis fór að hlýna á heimsvísu (fyrir um 40 árum) meðan veruleg hlýnun lét bíða eftir sér hér á landi í um það bil 20 ár. - Sama var á Grænlandi - þar sem fyrstu hlýju árin á heimsvísu voru óvenjuköld. 


Meira af hlýindum á Akureyri

Sem kunnugt er var meðalhiti á Akureyri ofan við 14 stig bæði í júlí og ágúst. Hefur ekki gerst áður svo vitað sé. Til gamans leit ritstjóri hungurdiska á meðaltöl „síðustu 30 daga“ á hverjum degi. Það meðaltal fór fyrst yfir 14 stig þann 20.júlí (14,1 stig, 21.júní til 20.júlí) - rauf síðan 15 stiga „múrinn“ þann 24. (25.júní til 24.júlí) og var líka ofan 15 stiga daginn eftir. Fór síðan niður fyrir 14 stig þann 16.ágúst (18.júlí til 16.ágúst) og niður fyrir 13 stig þann 22. - Síðan fór hitinn aftur upp á við og 30 daga meðaltalið var aftur komið í 14 stig þann 30.ágúst (1. til 30.) Var hæst í fyrradag (5.september), 14,6 stig (meðaltal 7. ágúst til 5.september).
 
Ljóst er að hitatölur munu hrapa nokkuð næstu daga - en spurning þó með úthald hitanna. Mun mánuðurinn eiga möguleika í harðsnúið lið hlýrra septembermánaða? Þar er 1941 á toppnum á Akureyri með 11,6 stig og 1939 litlu kaldari með 11,5 stig. Í minni okkar (gamalla veðurnörda) er september 1996 með 11,4 stig og 1958 með 11,6 stig. Árið 1933 var meðalhiti í september á Akureyri 10,4 stig og 10,1 árið 2017 - það er hlýjasti september aldarinnar nyrðra.
 
Þann 25.ágúst var meðalhiti sólarhringsins á Akureyri 20,9 stig. Keppir við 22.júní 1939 þegar meðalhitinn reiknast 21,6 stig og 24.júlí 1955 og 21.júní 1939 þegar meðalhitinn var 20,9 stig eins og nú. Aðrir dagar með yfir 20 stiga meðalhita á Akureyri eru 31.júlí 1980 (20,8), 5.júlí 1991 (20,6), 24.júlí 1936 (20,3), 4.júlí 1991 (20,1) og 9.ágúst 2012 (20,0). Gögn um daglegan hita á Akureyri eru aðgengileg í tölvugagnagrunni Veðurstofunnar aftur til 1936.
 
 
Við getum líka rifjað upp að fjóra daga í röð, 13. til 16. júní, var sólarhringsmeðalhiti á Akureyri neðan við 4 stig - en samt urðu mánuðirnir þrír, júní til ágúst saman þeir hlýjustu sem vitað er um á Akureyri.
 
Hæsta 30 daga meðaltal sumarsins í Reykjavík var 28.júlí til 26.ágúst, 13,1 stig. Hæsti sólarhringsmeðalhiti sumarsins í Reykjavík var 15,7 stig, þann 29.júlí. Sólarhringsmeðalhiti hefur einu sinni náð 20 stigum í Reykjavík. Það var 11.ágúst 2004, 20,1 stig. 
 

Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 14
  • Sl. sólarhring: 273
  • Sl. viku: 2393
  • Frá upphafi: 2434835

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 2120
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband