Bloggfærslur mánaðarins, september 2021
3.9.2021 | 13:21
Enn af ágúst
Eins og fram hefur komið á þessum vettvangi og víðar var veðurfar í ágúst mjög afbrigðilegt hér á landi. Sérstaklega hlýtt var um allt norðanvert landið.
Myndin sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), meðalþykkt (daufar strikalínur og þykktarvik - litir - eftir greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar. Gríðarlegt jákvætt þykktarvik er við Ísland. Evrópureiknimiðstöðin segir að meðalþykkt yfir landinu hafi verið 5390 metrar - um 90 metrum meiri en að meðaltali í ágúst. Það þýðir að hiti í neðri hluta veðrahvolfs hefur verið um +4,5 stigum yfir meðallagi, sem er reyndar svipað og hitavikið á háfjöllum á Norður- og Austurlandi, t.d. Vaðlaheiði og Gagnheiði. Þetta er meiri þykkt en vitað er um í nokkrum öðrum mánuði. Næstu tölur eru 5523 metrar í júlí 1984 og 5822 í ágúst 2006.
Hæðarvik voru einnig óvenjuleg. Meðalhæð 500 hPa-flatarins í greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar var 5648 metrar. Endurgreiningum ber ekki alveg saman um hvort þetta er hæsta tala sem við þekkjum - eða ekki. Sú ameríska heldur fram júlí 1968 sem hæðarmeti, en evrópureiknimiðstöðin er með lítillega lægri tölu. Ágúst 1960 er ekki mjög langt undan sem og júlí 1967. Mánaðarhæð 500 hPa-flatarins nú er sú sama yfir Keflavík og var í júlí 1968. Ætli við verðum ekki að telja þennan hæðarmun ómarktækan - en þykktarvikið er marktækt met.
Þess má svo geta að frostlaust var á öllum veðurstöðvum í ágúst (og reyndar í júlí líka). Það hefur ekki gerst síðan sumarið 1950 - og líka 1947. Bæði þau sumur var frostlaust í þessum tveimur mánuðum. Hafa verður í huga að veðurstöðvar voru mun færri en nú og kann að hafa áhrif. Veðurlag sumarsins 1947 var ekki mjög óskylt því sem var nú, en sumarið 1950 var hins vegar gjörólíkt.
Við þökkum Bolla P. að vanda fyrir kortagerð.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2021 | 19:45
Sumareinkunn 2021
Ritstjóri hungurdiska hefur nú reiknað einkunn sumarsins 2021 í Reykjavík og á Akureyri. Aðferðin hefur verið skýrð áður (og er auðvitað umdeilanleg). Sumarið nær hér til mánaðanna júní til ágúst - aðferðin gæti gengið fyrir maí líka en varla september. Hæsta mögulega einkunn í þessu kerfi er talan 48 - ekkert sumar hefur náð slíkum hæðum - hvorki í Reykjavík né á Akureyri. Lægsta talan er núll, sumarið 1983 komst nærri henni - einkunn þess sumars var einn. Rétt er að taka fram að einkunnin er háð hverjum stað - hún gefur engan tölulegan samanburð milli stöðva (sem sumardagatalningin sem hér var fjallað um fyrir nokkrum dögum gerir frekar).
Sumareinkunn Reykjavíkur 2021 er 22. Það má heita í meðallagi síðustu 99 sumra (meðaltalið er 23), en 4 stigum undir meðallagi aldarinnar til þessa. Súlurnar á myndinni sýna einkunn hvers árs. Tvö sumur síðustu 10 ára voru áberandi lakari en nú, það var 2013 og 2018, staðan 2014 og í fyrra (2020) var ómarktækt lægri en nú. Júlí gaf flest stig (10 af 16 mögulegum), ágúststigin voru 8, en ekki nema 4 í júní. Mjög hlýtt var í ágúst og lengst af sumarsins var fremur þurrt - þessi atriði gáfu af sér stig. Sumarið gaf hins vegar aðeins eitt sólskinsstig (af 12 mögulegum).
Það vekur alltaf athygli á sumareinkunnarmyndinni í Reykjavík hversu tímabilaskipting er mikil. Tíuárameðaltal fór lægst niður í 15 stig á árunum 1975 til 1984, en hæst í 32 stig, á árunum 2003 til 2012 - árin 2009 til 2012 skera sig sérstaklega úr fyrir gæði. Eins og áður sagði er meðaltal síðustu tíu ára 26 stig, alveg á pari við bestu tíu ára skeið í kringum 1930 og á sjötta áratugnum. - Hvað síðan verður næstu árin vitum við auðvitað ekki, en 2015, 2016, 2017 og 2019 voru öll í flokki öndvegissumra í Reykjavík.
Ritstjórinn reiknar einnig einkunn á kvarðanum 1 til 10, sumarið nú fær 6,0 í einkunn á þeim kvarða - það er ekki falleinkunn. Hæsta einkunn fær sumarið 2009, 9,31, en lægst er sumarið 1983 (auðvitað) með 0,9 í einkunn.
Þess má geta að maí fékk 10 (af 16 mögulegum) í einkunn í Reykjavík.
Sumarið var afburðagott fyrir norðan - náði 43 stigum og hefur aldrei náð jafnhátt. Júlí og Ágúst fengu fullt hús stiga (16 hvor mánuður), en júní 11. Það hefur ekki gerst áður að tveir mánuðir sama sumars hafi náð fullu húsi.
Heildaútlit línurits fyrir Akureyri er nokkuð annað en fyrir Reykjavík. Lægsta tíu ára meðaltalið er þannig 19 (1966 til 1975) og það hæsta 29 (2000 til 2009) - munar 10 stigum, en 17 í Reykjavík. Ritstjóri hungurdiska túlkar það svo að meiri þráviðri séu syðra heldur en nyrðra - mánuðirnir sjálfstæðari á Akureyri heldur en í Reykjavík. Þannig eru það 6 sumur í Reykjavík sem ekki ná 10 stigum, en aðeins 1 á Akureyri (1985). Ellefu sumur ná 35 stigum eða meira í Reykjavík - en ekki nema sex á Akureyri. Þetta bendir til þess að mánuðir í Reykjavík vinni fremur sem heild heldur en fyrir norðan. Ekki er þó á þessari hegðan byggjandi við langtímaveðurspár.
Það er nákvæmlega ekkert samband á milli sumareinkunnar nyrðra og syðra. Þó eru fleiri sumur góð á báðum stöðum (samtímis) heldur en vond á báðum. Frábærlega góð á báðum stöðum voru 1931, 1939, 1957, 2004, 2007, 2008 og 2012, en 1959, 1969 og 1992 voru slök á báðum stöðum - 1983 var ekki sérlega gott á Akureyri heldur - á mörkum hins laka.
Ritstjóri hungurdiska hefur gert tilraunir með aðrar reikniaðferðir. Efnislega verður útkoman nánast sú sama - innbyrðis röð sumra breytist þó auðvitað lítillega. Til dæmis má reyna að bæta vindhraða við. Gallinn er hins vegar sá að vindmæliröð Reykjavíkur er mjög ósamfelld. Mjög mikil breyting varð við mæliskipti í maí árið 2000. En hægt er að nota mælingar síðan þá og gera samanburð á þeim 20 sumrum sem liðin eru síðan.
Munum að lokum að þetta er bara ábyrgðarlaus leikur - ekki má nota þessar niðurstöður í neinni alvöru.
1.9.2021 | 17:09
Sérlega hlýr ágústmánuður
Nýliðinn ágústmánuður var (rétt eins og júlí) sérlega hlýr á landinu. Methlýindi voru um allt norðanvert landið, hafa aldrei verið meiri í ágúst á fjölmörgum veðurstöðvum og á nokkrum stöðvum var mánuðurinn hlýrri en nokkur annar mánuður hefur verið til þessa, t.d. bæði í Stykkishólmi og í Grímsey, en athuganir hafa verið gerðar á þeim stöðum frá því á 19.öld. Þetta er líka hlýjasti mánuður sem við vitum um á Hveravöllum. Í Reykjavík er þetta næsthlýjasti ágústmánuður allra tíma - lítillega hlýrra var 2003. Á Teigarhorni var hann næsthlýjastur, ásamt ágúst 1947, lítillega hlýrra var þar í ágúst 2003 rétt eins og í Reykjavík. Heldur svalara að tiltölu var syðst á landinu. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var hitinn í 6.hlýjasta sæti ágústmánaðar. Við bíðum endanlegrar staðfestingar á tölum í yfirliti Veðurstofunnar sem ætti að vera tilbúið á morgun (fimmtudag) eða á föstudag.
Taflan sýnir eins konar uppgjör fyrir einstök spásvæði. Víðast hvar er mánuðurinn sá hlýjasti á öldinni. Það er aðeins á Suðausturlandi, Suðurlandi og við Faxaflóa þar sem hitinn er ekki í fyrsta sætinu.
Meðalhiti í byggðum landsins í heild reiknast 12,2 stig. Það jafnar fyrra met, úr ágúst 2003 og meira en hæst hefur orðið í öllum öðrum mánuðum ársins.
Ágústmeðalhámarkshiti veðurstöðvar varð nú hærri en áður, 19,0 stig, það var í Ásbyrgi. Hæsta eldri tala sem við hiklaust viðurkennum er 18,4 stig (Staðarhóll í ágúst 2004). Lágmarksmeðalhitamet var slegið - ekki aðeins fyrir ágúst heldur fyrir alla mánuði. Hann mældist nú hærri en nokkru sinni. Það gerðist á Bíldudal, 11,6 stig. Eldri met (fyrir hvaða mánuð sem er) er 11,0 stig (Garðar í Staðarsveit, júlí 1991, Surtsey, júlí 2012 og Arnarstapi á Snæfellsnesi, júlí 1943 (vafasamt)). Hæsti meðallágmarkshiti í ágúst til þessa var 10,9 stig, í Vestmannaeyjakaupstað 2003.
Það er líka óvenjulegt að hiti komst upp fyrir 20 stig 20 daga í mánuðinum. Er það með mesta móti, mest er vitað um 23 slíka daga í einum mánuði (ágúst 2003) síðustu 70 árin rúm.
Uppgjör Veðurstofunnar með endanlegum hita-, úrkomu- og sólskinsstundatölum mun eins og áður sagði væntanlega birtast fljótlega. Úrkoma var lítil víða norðaustan- og austanlands, sumstaðar minni en í ágúst í fáeina áratugi. Úrkoma var einnig neðan meðallags víða á Suður- og Vesturlandi, en á því voru samt nokkrar undantekningar, sérstaklega á utanverðu Snæfellsnesi og á stöku stað austanfjalls.
Suðvestanlands var sólarlítið, sólskinsstundir hafa ekki verið jafnfáar í Reykjavík í ágúst síðan árið 1995, en mjög sólríkt inn til landsins norðaustanlands. Mögulegt er að sólskinsstundamet ágústmánaðar verði slegið á Akureyri - eða alla vega nærri því - við Mývatn mældust sólskinsstundir nú ámóta margar og í ágúst 2004. Endanlegar tölur ættu að liggja fyrir næstu daga.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 20
- Sl. sólarhring: 214
- Sl. viku: 985
- Frá upphafi: 2420869
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 864
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010