Bloggfærslur mánaðarins, desember 2019

Illviðrametingur (rétt einu sinni)

Fyrst má endurtaka það sem ritstjóri hungurdiska sagði undir lok pistils sem hann ritaði um „halaveðrið“ svonefnda nú fyrir nokkrum dögum: „Hríðarveður geta nú á dögum valdið margs konar töfum og raski sem er kostnaðarsamara en margur hyggur“. Ætti nú fleirum að vera þetta ljóst. Mat á því hvort eitt veður er verra en annað grundvallast á tveimur meginþáttum, annars vegar er spurt um hvort veðrið sem slíkt (vindur, hiti, úrkomumagn, úrkomutegund) sé meira eða minna, snarpara eða langvinnara (svokallað tjónmætti), en hins vegar er einnig tekið tillit til þess hvað það er sem fyrir því verður. Einhverjar (minniháttar) breytingar verða sjálfsagt í tímans rás á samspili veðurþáttanna sjálfra, en mun meiri breytingar hafa orðið og munu áfram verða á viðfanginu, því sem stundum er kallað tjónnæmi. Tjónnæmi er reyndar orð úr smiðju ritstjóra hungurdiska, orðið til úr algjörri neyð á sínum tíma. Síðar rakst hann á betra orð yfir fyrirbrigðið, „húf“, en hvort einhver fæst til að taka það upp er annað mál. Húf (nú - eða tjónnæmi) er aftur samsett úr nokkrum þáttum - um það má lesa í allítarlegum pistli hungurdiska (skyldulesning raunar - fyrir alla sem láta sig náttúruhamfarir einhverju varða. 

Ritstjórinn hefur löngum stundum setið yfir frásögnum af tjóni af völdum veðurs. Við slíkar setur kemur fljótt í ljós hvað tjón í „samskonar“ veðrum hefur verið misjafnt frá einum tíma til annars. Fyrir 100 árum (1919) lágu fáeinar símalínur um landið - þær voru sífellt að slitna, ljósaþræðir (raflínur) voru aðeins innanbæjarfyrirbrigði (á örfáum stöðum) og þráðlaust samband nærri því ekki fyrir hendi (loftskeyti voru þó komin til sögunnar - en alls ekki í almenningseign) útvarp eða sjónvarp ekkert. Veður eins og það sem þessa dagana er að ganga yfir landið gat því ekki fyrir 100 árum valdið verulegu tjóni á þessum innviðum - og gerðist það skipti það engum sköpum. Aftur á móti voru flestar hafnir landsins fullkomlega óvarðar, varla mátti hvessa til þess að ekki yrði stórtjón á bátum og bryggjum, bátar fórust við strendur landsins og á rúmsjó, sauðfé drukknaði í fjörum og menn sem stóðu yfir fé urðu úti. Samgöngur milli byggðarlaga á vetrum voru svo stopular að eitt hríðarveður - þó mikið væri - skipti engu um þær. 

Það er því ekki auðvelt að bera áhrif illviðra saman. Veigalítið veður fyrir 100 árum kann að vera mjög veigamikið í dag - og öfugt. 

Við getum þó borið saman veðurþættina - eða getum við það? Um þessar mundir eru að verða miklar breytingar á veðurathugunarkerfinu, sjálfvirkar athuganir koma í stað mannaðra. Eins og gengur fylgja bæði kostir og gallar þessum breytingum. Einn gallinn er sá að þessi tvö ólíku kerfi eru ekki alveg samanburðarhæf á öllum sviðum - ekki síst þegar kemur að veðrametingi - hvaða veður er verra en hitt. Um síðir mun verða lagt í þá samanburðarvinnu sem nauðsynleg er en því er langt í frá lokið. Ritstjóri hungurdiska hefur að vísu unnið mikið í þeim málum, en ekki er það allt skothelt (hann veit það best sjálfur) og mjög margt ógert. 

En í dag (miðvikudag 11.desember) var mikið spurt um hvort illviðrið sem gengur yfir sé að einhverju leyti óvenjulegt. Stutta svarið er það venjulega: Það fer eftir því hvað menn telja óvenjulegt. Auðvelt er líka að svara á ská: Jú, þetta var alvöruveður, veigamikið veður. Það hitti hins vegar fremur „illa“ í sólarhringinn. Fyrri daginn náði það alls ekki nema til helmings landsins (sem þýðir að meðalvindhraði á landinu í heild var ekki sérlega mikill) og síðari daginn var það farið að ganga niður síðdegis - líka til baga í toppsætakeppni. Við vitum hins vegar af miklum illviðrum fortíðar - með ámóta vindhraða sem stóðu í tvo eða fleiri sólarhringa. 

Ljóst er að úrkoma var mjög mikil, en snjór mælist illa í hvassviðri - og snjódýptarmælingar eru mjög erfiðar dragi mikið í skafla. Við vitum að ísingar gætti mjög víða. Margt er um ísingu vitað og tjón af völdum hennar er mjög vel þekkt áratugi aftur í tímann. Til þess að gera ætti að vera auðvelt að uppfæra viðgerðakostnað tölulega, en meira mál er að norma tjónið miðað við breytingar á húfi (tjónnæmi) línukerfisins síðustu áratugi (og ekki endilega áhugi á slíkri vinnu). Ljóst má þó vera að afleiðingar samskonar línubilunar geta verið meiri nú en var - að rafmagn færi af 5 sveitabæjum í sömu sveit í viku árið 1965 var óþægilegt, en e.t.v. ekki svo óskaplega kostnaðarsamt. Nú eru möguleikar á verulegu tjóni miklu meiri, mun fleira er háð rafmagni og fjarskiptum en áður var. Við höfum þegar frétt af tjóni af völdum brims og meira að segja af sömu slóðum og í líkum veðrum fyrri ára - en tjónnæmi er líka mjög breytt frá því sem var. 

Þó skipting veðursins á tvo sólarhringa hafi spillt fyrir röðun þess á landslistum urðu ákveðin svæði illa úti og met voru sett. Það á einkum við um Strandir og trúlega austanverða Barðastrandasýslu, mikinn hluta Húnavatnssýslu, á stöku stað á utanverðum Tröllaskaga og á annesjum austur að Rauðanúpi. Annað svæði sem varð illa úti liggur til suðurs úr Húnavatnsýslum, met virðist hafa verið sett á Þingvöllum og óvenjuhvasst var sums staðar í uppsveitum Árnessýslu. Sama á við um Vestmannaeyjar, algengustu veður þar eru af austri, en norðanveður af þessum styrk sem eru ekki mjög algeng þar í kaupstaðnum - mælirinn þar fór þó ekki sérlega hátt. Það gerði hins vegar hafnarmælirinn við Básasker. Vindur var furðuhægur á sunnanverðum Vestfjörðum og þó veður væri slæmt á Snæfellsnesi var það alls ekki óvenjulegt - mörg svona veður gerir þar á hverju ári - sömuleiðis á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli.

Lengjum við svarið aðeins verður það svona: Veðrið var nokkuð óvenjulegt hvað ísingu varðar og óvenjuleg veðurharka varð um hluta landsins - á því svæði þar sem rauð veðurviðvörun hafði verið sett á. Við höfum þó varla frétt enn af öllu tjóni - snjóflóð gætu t.d. hafa fallið fleiri en við höfum af frétt og fleira fokið. Afleiðingarnar eru hins vegar allmiklar - en það er einkum vegna samfélagshúfs - röskunar af ýmsu tagi. 

Við skulum samt líta á nokkrar tölur. Ritstjóri hungurdiska hefur tekið saman lista yfir meðalvindhraða bæði sólarhrings og klukkustunda á spásvæðum Veðurstofunnar. Listinn nær til allra daga allra ára frá og með 1.janúar 1998 til og með 11.desember 2019 (síðasta degi reyndar ekki alveg lokið - og lækkar hann e.t.v. á listunum), 7650 dagar alls, 183600 klukkustundir. Mesti meðalvindhraði alls tímabilsins á hverju spásvæði fyrir sig lendir í fyrsta sæti. 

w-blogg111219a

Myndin skýrist sé hún stækkuð - hana má einnig finna í viðhengi - mun skýrari (pdf-skrá). Taflan hér að ofan er dregin úr stóru töflunni - 10. og 11.desember 2019 valdir úr. Við sjáum að dagurinn í dag, 11.desember var sá hvassari við Faxaflóa, sólarhringsmeðalvindhraði á öllum stöðvum á spásvæðinu var 13,6 m/s, en hefur 138 sinnum orðið meiri. Dags sem þessa er því að vænta að meðaltali um 6 sinnum á ári. Svipað er við Breiðafjörð. Mestu tíðindin eru brúnmerkt. Dagurinn í dag er í öðru sæti á listanum bæði á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra - og gærdagurinn ekki langt undan. Þetta þýðir (ef við tökum þessar tölur bókstaflega) að jafnhvasst verður á þessum slóðum aðeins einu sinni á áratug - eða svo. Við megum þó ekki taka þetta allt of hátíðlega - margt gagnrýnivert í listaverkinu. Sýnir þó að veðrið var næsta óvenjulegt í þessum landshlutum - og kannski enn óvenjulegra þegar úrkoma og hitafar er komið inn í dæmið líka. 

Veðrið er líka mjög ofarlega á klukkustundalistanum og nær 7 af efstu tíu sætunum á Ströndum og Norðurlandi vestra (ekki þó tveimur efstu). Á Norðurlandi eystra ná tvær klukkustundir þessa veðurs inn á topp-tíu (6. og 10.sæti). Á Austurlandi að Glettingi er efsta klukkustundin í 16.sæti. Á öðrum spásvæðum telst veðrið vart til tíðinda. 

Á þessum listum er norðanveðrið mikla í byrjun nóvember 2012 (sem kennt hefur verið við Höfðatorg) mjög ofarlega. Það muna margir enda stóð það hátt á þriðja sólarhring. Sömuleiðis er veður snemma í febrúar 2002 (náði hámarki þann 2.) ofarlega. Við skulum rifja upp færslu í veðuratburðaskrá ritstjóra hungurdiska:

Fyrstu helgi mánaðarins gerði mikið norðanveður sem olli tjóni allvíða um vestan- og norðvestanvert landið og samgöngutruflunum víða um land. Talsvert tjón varð á nokkrum bæjum í Staðarsveit. Margar rúður brotnuðu í Lýsuhólsskóla og fólk varð þar veðurteppt, þar skemmdist einnig bíll, hesthús skemmdist á Lýsuhóli, hluti af fjárhúsþaki fauk á Bláfeldi og þar urðu fleiri skemmdir, gömul fjárhús og hlaða fuku í Hlíðarholti og refahús skemmdist í Hraunsmúla. Gamall fjárhúsbraggi eyðilagðist á Framnesi í Bjarnarfirði. Bílar fuku af vegum á Kjalarnesi, undir Ingólfsfjalli og tveir í nágrenni við Blönduós. Á Blönduósi varð mikið foktjón í iðnaðarhúsnæðinu Votmúla, rúður brotnuðu þar í fleiri húsum og bifreiðastjórar í nágrenninu óku út af vegum. Skaðar urðu á Hvammstanga.  Nokkuð foktjón varð í Reykjavík og loka þurfti Sæbrautinni vegna sjógangs. Víða urðu miklar rafmagnstruflanir. Bifreiðir fuku út af vegi undir Ingólfsfjalli og í Kollafirði, báðir bílstjórar slösuðust. Bíll sem kviknaði í við Haukaberg á Barðaströnd fauk síðan út af veginum. Brim olli talsverðu tjóni á Drangsnesi. Prestsetrið í Reykholti skemmdist lítillega þegar byggingarefni fauk á það. Mikill sjógangur var á Suðurnesjum og flæddi sjór í nokkra kjallara í Keflavík og þar skaddaðist sjóvarnargarður og hluti Ægisgötu fór í sjóinn. Flutningaskip lentu í vandræðum í höfninni á Sauðárkróki.

Sömuleiðis er ofarlega mikið veður sem gerði um miðjan janúar 1999. Segir í sömu skrá:

Allmiklir fokskaðar víða um land, mest þó sunnan- og suðaustanlands. Útihús fuku á nokkrum bæjum, járnplötur fuku og rúður brotnuðu, bílar stórskemmdust af grjótflugi og mótauppsláttur fauk. Maður slasaðist er hann fauk af skemmuþaki á Höfn í Hornafirði og barst 30 metra, skemmdir urðu einnig á þakinu. Minniháttar foktjón varð á höfuðborgarsvæðinu, rúður brotnuðu í nokkrum húsum og lausamunir fuku um. Brim bar grjót á Sæbraut. Jeppi fauk af vegi við Klifanda í Mýrdal og annar bíll skemmdist þar af grjótflugi. Rúður brotnuðu í húsum í Vík og nokkrir bílar skemmdust. Fjóshlaða eyðilagðist og efri hæð íbúðarhúss í Berjanesi undir Eyjafjöllum. Fjóshlaða eyðilagðist að Steinum, þar skemmdust einnig flestar vélar og bílar. Þak fauk af hlöðu í Vallatúni, þar brotnuðu rúður í húsum og farartækjum, tjón varð á fleiri bæjum. Ferðafólk lenti í hrakningum í Öræfum og Skeiðarársandur lokaðist vegna sandfoks. Gámur fauk í Vestmanneyjum og skemmdi trillu, nokkuð tjón varð á húsum. Jeppi fauk í Hólmanesi skammt frá Eskifirði. Hluti þaks fauk af samkomuhúsinu Höfða í Svarfaðardal, helmingur fauk af gömlu fjósi á Hæringsstöðum, skemmdir urðu þar einnig á vélum. Mikið snjóflóð féll á bænum Birkihlíð í Ljósavatnsskarði og eyðilagði skemmu og dráttarvélar. Mikil snjóflóð féllu þá í Dalsmynni. 

Vindasamanburður þessi nær aðeins aftur til 1998. Allmörg eldri veður koma upp í hugann - snjóflóðaveðrin miklu 1995 auðvitað, en hvað ísingu varðar má rifja upp fyrstu daga janúarmánaðar 1991:

Stórkostlegt tjón varð á raflínum í miklu ísingarveðri norðanlands, um 500 staurar brotnuðu. Rafmagns- og símasambandslaust var dögum saman og hitaveitur stöðvuðust í rafmagnsleysinu. Miklar samgöngutruflanir urðu í nokkra daga. Bílar fuku af vegum og tjón varð á húsum á Snæfellsnesi, Siglufirði, í Eyjafirði og í Þingeyjarsýslum. Það brotnaði úr sjóvarnargarðinum Ólafsvík og sjór gekk inn í frystihús í Innri-Njarðvík. Sjór bar grjót upp á bryggjur á Ólafsfirði, þar fuku tveir gámar. Allmiklar skemmdir urðu á íbúðarhúsi á Siglufirði og plötur fuku af mörgum húsum, bílar skemmdust. Þak fauk af hlöðu á Glæsibæ í Sléttuhlíð í Skagafirði. Þak fauk af íbúðarhúsi á Akureyri, rúða brotnaði og tveir skárust á Húsavík, hluti af þaki íþróttahúss á Blönduósi féll saman í hvassviðri, hesthús skemmdist í Arnargerði, plötur fuku af fjölda húsa á Skagaströnd, plötur fuku í Stykkishólmi, m.a. af þaki sýsluskrifstofunnar og af nokkrum húsum í Reykjavík, klæðning fauk í Keflavík. Rúta fauk útaf vegi í Langadal, þakplötur fuku af íbúðarhúsi á Hvammstanga og af fjárhúsi á Valdarási í Víðidal. Þak fauk af fjárhúsum í Hrísdal á Snæfellsnesi og á Rauðkollsstöðum, minna tjón varð á fleiri bæjum í Miklaholts- og Eyjahreppum. Mikið tjón varð á Hraunsmúla í Kolbeinsstaðahreppi, þar eyðilagðist gömul hlaða að mestu og dráttarvél stórskemmdist. Bíll fauk og fór nokkrar veltur í Breiðuvík, þar fór þak af öllum fjárhúsunum í Gröf, í Ytri-Tungu fauk hálft þak af gamalli hlöðu og tjón varð á fleiri bæjum. Hluti af svokallaðri Borgarbryggju á Seyðisfirði fauk þ.2., þá var átt enn suðaustlæg í upphafi illviðrisins.

Listi yfir ámóta veður og það sem við nú reynum er mjög langur - en samfélagið breytt. Við látum þennan flaum duga að sinni.

Í öðru viðhengi er listi yfir nokkur ný vindhraðamet sett í veðrinu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Smávegis af illviðrinu - og tíu fyrstu dögum desembermánaðar

Meðalhiti í Reykjavík var +1,0 stig fyrstu tíu daga desembermánaðar, 0,3 stig ofan meðallags áranna 1961 til 1990 +0,8 stigum ofan meðallags sömu daga síðustu tíu ár. Þetta er því 9.hlýjasta desemberbyrjun aldarinnar (af 19.) og er í 57.hlýjasta sæti á langa samanburðarlistanum, sem nær til 144 ára.

Á Akureyri er meðalhiti dagana tíu +0,6 stig, +1,2 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 og +2,9 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Jú, þetta er eitt fárra tímabila ársins þegar meðalhiti síðustu tíu ára er lægri en gamla þrjátíu ára meðaltalið.

Meðalhiti dagana tíu er ofan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum landsins, vikið er mest í Möðrudal, +3,4 stig, en minnst í Hjarðarlandi - +0,03 stig. Hitavik spásvæðanna raðast öll í 8. til 10. hlýjasta sæti á öldinni.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 31,9 mm og er það í ríflegu meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 52,9 mm, meir en tvöföld meðalúrkoma.

Sólskinsstundir hafa mælst 7,9 í Reykjavík það sem af er mánuði, heldur fleiri en vant er.

Dagurinn í dag var óvenjuvindasamur. Meðalvindhraði á landinu öllu náði þó aðeins rétt inn á þann stormdagalista ritstjóra hungurdiska sem byggist á meðaltalinu, því á öllum austurhelmingi landsins var lengst af hægviðri eða nánast logn í allan dag. Aftur á móti skorar dagurinn hátt á hinum listanum, þeim sem byggir á hlutfallslegum fjölda stöðva þar sem vindur nær 20 m/s, hlutfallstalan virðist vera sú hæsta síðan 24.febrúar 2017.
Staðbundin vindhraðamet voru slegin á nokkrum stöðvum, ársmet þó aðeins á einum stað þar sem athugað hefur verið alla öldina eða lengur. Það var á Þingvöllum þar sem meðalvindhraði fór í 33,3 m/s - en þess verður þó að geta að eitthvað virðist hafa komið fyrir mælinn. Ársvindhraðamet voru einnig slegin í Hjarðarlandi (29,5 m/s, mælt frá 2004) og við Gauksmýri (33,3 m/s, mælt frá 2006). Desembermet voru slegin víðar, þar á meðal á Skálafelli, á Rauðanúp, í Ólafsfirði, á Garðskagavita, Gjögurflugvelli, á Vatnsskarði, við Breiðavað við Blönduós og Bröttubrekku. Á þessum stöðvum hefur verið athugað í meir en 20 ár. Mánaðarmet voru að sjálfsögðu slegin á slatta af stöðvum sem aðeins hafa athugað í fá ár.

En veðrið er ekki búið og við látum frekara uppgjör bíða loka þess.


Halaveðrið

Þegar ritstjóri hungurdiska var ungur heyrði hann oft rætt um „halaveðrið“ svonefnda, mikið mannskaðaveður sem gerði í febrúar 1925. Frægast er það fyrir sjóslys, en einnig urðu hörmulegir mannskaðar á landi. Hér verður ekki fjallað að ráði um tjón og reynslusögur ekki endursagðar - það hefur verið gert í löngu máli í bókum, þar á meðal einni sem út kom á dögunum. Slík útgáfa er ætíð þakkarverð. 

Lægðin sem veðrinu olli var óvenjudjúp, þrýstingur í lægðarmiðju fór niður fyrir 935 hPa, þriðjilægsti febrúarþrýstingur á landinu frá upphafi mælinga. Hún dýpkaði snögglega og ófyrirsjáanlega - miðað við þær veðurathuganir sem aðgengilegar voru veðurspámönnum. Mikill snjór var á landinu og á þeim slóðum þar sem ekki eða lítt bleytti í varð gríðarleg skafhríð og skall hún mjög skyndilega á. Ákaflega illt var í sjó og gerði óvenjumikið brim um landið norðanvert - og jafnvel á annesjum vestanlands. Hinn lági lofþrýstingur hefur eflaust átt sinn þátt í því ásamt veðurhörkunni og því að tungl var í fyllingu. Landið sunnan- og austanvert slapp mun betur frá veðrinu heldur en Vestur- og Norðurland. Þó foktjón yrði landi í veðrinu var það samt ekki tiltakanlega mikið. 

Það eru fyrst og fremst mannskaðarnir sem gera veðrið minnisstætt. Veðráttan (febrúar 1925) rekur þessa skaða:

Í þessu veðri urðu mjög miklir skaðar bæði á sjó og landi. Laugardagskvöldið þ.7. fórst mótorskipið Sólveig úr Sandgerði með 6 manns. Af togurunum, sem úti voru, hefir ekki spurst til tveggja, Leifs heppna og Robertsons, voru þeir norðvestur á Hala er veðrið skall á. Á þeim voru samtals 68 menn. Aðrir togarar, sem úti voru i óveðrinu, komust í höfn, en flestir meira og minna laskaðir. Allmiklar skemmdir urðu og á skipum, sem lágu á Reykjavíkurhöfn. Úti urðu 5 manns, maður á Dalvík, gamall maður og kona í Húnavatnssýslu og 2 börn á Snæfellsnesi. Fjárskaðar urðu einnig allmiklir í Húnavatnssýslu. Í Reykjavík fauk þak af einu húsi, og símalínur slitnuðu víða um land alt. Í þessu veðri var veðurhæðin ákaflega mikil sumstaðar á Vesturlandi. Í Reykjavík varð þó ekki alveg eins hvasst og í sunnanveðrinu þ. 21. janúar. [Um þetta veður var fjallað í pistli hungurdiska 1.desember 2016].

Missir togaranna var mikið áfall, ekki aðeins vegna hins gríðarmikla manntjóns heldur líka vegna þeirrar útbreiddu trúar að togarar væru svo örugg sjóskip að þau færust ekki í rúmsjó - voru hins vegar stöðugt að stranda og farast þannig (en það var annað mál). Halldór Jónsson lýsir þessu hugarfari vel í grein í Sjómannablaðinu Víkingi [1944-3, s.54]:

„Fyrir 1925 datt engum í hug, að togarar gætu farizt í rúmsjó, jafnvel sjálfir mennirnir á skipunum töldu þessum fleytum aldrei ofboðið. Það kom því eins og reiðarslag yfir alla þjóðina, er skipin, sem lentu í „Halaveðrinu mikla" komust nauðuglega til lands meira og minna brotin og útlítandi eins og dauðadæmdar fleytur, sem ekki vantaði nema herzlumuninn til þess að farast. Og tvö komu aldrei fram, Leifur heppni og Robertsson“.

Ásgeir Jakobsson rifjar veðrið upp á „sjómannasíðu“ Morgunblaðsins 15.febrúar 1975:

„Þann 7. febrúar s.l. voru liðin fimmtíu ár síðan Halaveðrið skall á. Rangt er að kenna þetta veður við 8. febr. því að það skal á um fjögurleytið laugardaginn 7.febrúar og var komið i fullan ofsa um kvöldið, og fengu sum skipanna sín fyrstu áföll fyrir miðnætti. Það er venja að miða veður við þann dag, sem það skellur á, en ekki einhvern þeirra daga sem það stendur yfir. Hann hvessti upp af suðaustri á laugardagsmorguninn, og flest skipanna á Halanum fóru að keifa upp um hádegisleytið. Um nónbilið eða á fjórða tímanum, snerist hann í norðaustur og varð strax fárvirði. Veðurofsinn hélzt allt laugardagskvöldið og sunnudagsnóttina og allan sunnudaginn. Eitthvað fór að draga úr veðurhæðinni á djúpmiðunum uppúr hádegi á sunnudag, en þá jókst sjór þeim mun meir og aðstæður bötnuðu lítið fyrr en kom fram á mánudag. Veðrið gekk seinna inn yfir landið, til dæmis skall hann ekki á með norðaustanveðrið fyrr en um hádegi á sunnudag í Reykjavik. Það, að veðrið gekk ekki inn yfir landið fyrr en þann 8. febr. eða á aðfararnótt og morgni sunnudagsins, kann að valda þvi, að menn kenna veðrið oft til þess dags“. 

Við byrjum á því að líta á brot af veðurathugunum sem gerðar voru í Reykjavík dagana 1. til 11. febrúar 1925.

Slide1

Athuganir voru á þessum tíma gerðar í Reykjavík kl.8, 12, 17 og 21 (9, 13, 18 og 22 miðað við núverandi klukku) - og oft líka klukkan 6 að morgni. Hér sjáum við dálka sem eiga við kl. 12 og 17. Loftvog er í mm kvikasilfurs (-700), vindhraði í vindstigum. Ef við fylgjum vindáttum, loftvog og hita sést að veður var mjög umhleypingasamt, vindur af ýmsum áttum og ýmist var frost eða hiti lítillega ofan frostmarks. Í aftasta dálki eru ýmsar aukaupplýsingar, norðurljós þann 3 og rosabaugur um tungl þann 6. Efri örin bendir á suðvestanstorm sem gerði milli kl.19 og 20 að kvöldi þess 7. Daginn eftir segir: Norðnorðaustan 11 til 12 (vindstig) um kl.15.  

Slide2

Þrýstiritar voru á allmörgum veðurstöðvum, gallinn bara sá að víðast hvar fór penninn niður fyrir blaðið vegna þess hve lægðin var djúp. Á Rafstöðinni við Elliðaár hafði ritinn verið stilltur of hátt (og reyndar líka á Veðurstofunni), svo munaði 8 mm [10,7 hPa], tölurnar sem nefndar eru eru óleiðréttar. Atburðarásin kemur mjög vel fram. Ritinn stóð í 765 mm um kl.16 þann 6., fer þá að falla og féll alls um 48 mm [64 hPa] á einum sólarhring. Meðan á því stóð óx vindur af austri og austsuðaustri en varð ekki mjög hvass í Reykjavík. Nokkuð snjóaði, en rigndi loks. Þetta er eitt hið mesta sólarhringsþrýstifall sem við vitum um hér á landi.

Um kl.16 birti nokkuð upp, hálfskýjað var kl.17 og vindur snerist til suðvesturs. Mjög dró úr þrýstifallinu, loftvogin komin niður í um 944 hPa. Aftur bætti í vind, í þetta sinn af útsuðri og fór í storm (9 vindstig) milli kl.19 og 20 eins og áður sagði. Gekk þá á með éljum. Þegar kom fram á kvöldið fór að lægja og um nóttina var vindur hægur í Reykjavík. Loftvogin tók síðan aftur að falla - lægsta tala sem var lesin af loftvoginni í Reykjavík var 936,5 hPa kl.8 að morgni þess 8., en síritinn bendir til þess að þrýstingur hafi þegar lægst var farið lítillega neðar, kannski niður í um 935 hPa. Lægðarmiðjan hefur þá farið yfir. 

Skammt vestan hennar ólmaðist norðanveðrið og virðist víðast hvar hafa komið inn eins og veggur úr vestri eða norðvestri. Loftvogin reis nú ört. Við sjáum óróa í risinu á fleiri en einum stað - órói sem þessi er algengur í mikilli norðanátt í Reykjavík og stafar líklegast af flotbylgjubroti í „skjóli“ Esjunnar eða einhverju ámóta fyrirbrigði og má oft „sjá“ norðanstorma á svæðinu af þrýstiritum einum saman. 

Slide3

Hér sjáum við vinnukort af Veðurstofunni, gert síðdegis laugardaginn 7.febrúar 1925. Þá er lægðin djúpa rétt vestur af Faxaflóa, um eða innan við 940 hPa í miðju. Suðvestanátt er í Reykjavík, en norðaustan bæði í Stykkishólmi og á Ísafirði.  

halavedrid_pp

Myndin hér að ofan sýnir þrýstifar á nokkrum veðurstöðvum dagana 5. til 10. febrúar. Blái ferillinn er úr Reykjavík - nánast sá sami og sá sem við sáum á þeim frá Elliðaárstöðinni hér að ofan. Ritinn í Hólum í Hornafirði fór ekki heldur niður fyrir blaðið, hann er grænn á myndinni. Lægðin er þar lítillega síðar á ferð - og þrýstingur fer ekki alveg jafnneðarlega og í Reykjavík. Gráir þríhyrningar sýna loftþrýsting á Seyðisfirði - hann fylgir Hólaferlinum að mestu, en rauðu kassarnir sýna þrýsting á Ísafirði - þar fylgist fallið að mestu því í Reykjavík, en risið byrjaði 6 til 9 tímum fyrr. Þrýstimunur á Reykjavík og Ísafirði var um 20 hPa þegar mest er - og litlu minni milli Ísafjarðar og Stykkishólms. Trúlega mætti með nokkurri yfirlegu slá á vindhraða í lofti þennan sunnudagsmorgunn.

Slide4

Við lítum nú á bakgrunn veðursins. Endurgreining bandarísku veðurstofunnar er gagnleg að vanda - en vankantar þó ýmsir. Kortið hér að ofan sýnir stöðuna um hádegi föstudaginn 6.febrúar. Þá er norðanátt að ganga niður. Við megum þó gjarnan taka eftir því að hún er mjög hvöss í Noregshafi og langt norður fyrir Jan Mayen - hefur einhvern þátt átt í ástandi sjávar í halaveðrinu. Vaxandi lægð er við Nýfundnaland á leið norðaustur - þetta er halaveðurslægðin. Hún er hér talin um 996 hPa í miðju, en hefur væntanlega í raun verið nokkuð dýpri. Það sem endurgreiningin sýnir er meðaltal margra „spáa“ - hliðranir í staðsetningu lægðarmiðjunnar jafna hana nokkuð út.  

Slide5

Endurgreiningin nær staðsetningu lægðarmiðjunnar allvel daginn eftir, en hún er hér sýnd um 20 hPa of grunn. Eins og þeir sem hafa fylgst með pistlum þeim sem ritstjóri hungurdiska hefur skrifað um illviðri og endurgreiningar komið við sögu er þetta nærri því fastur liður - lægðirnar eru of grunnar. Ætli það eigi ekki við þær flestar - ekki aðeins þær sem yfir Ísland fara. En endurgreiningin hér að ofan gildir á sama tíma og kort Veðurstofunnar. En - það er mikið illviðri á Halanum í báðum tilvikum. Kannski hefur einhver stök greiniruna hitt betur í - og mætti þá nota hana til að herma veðrið betur.   

Slide6

Hádegiskortið sunnudaginn 8.febrúar er á allgóðu róli. Lægðin er um 940 hPa í miðju og gríðarlegur norðanstrengur yfir Vesturlandi - eins og var í raun og veru - en munur á þrýstingi í Reykjavík og á Ísafirði samt innan við 15 hPa (nóg samt).  

Slide7

Við notum endurgreininguna til að sýna okkur stöðuna í háloftunum. Kortið hér að ofan nær til 500 hPa-flatarins og gildir kl.6 að morgni föstudags 7.febrúar. Þá er lægðin (við sjávarmál] að komast inn á Grænlandshaf. Hún hefur gripið með sér hlýtt loft langt úr suðri - en mætir miklum kuldapolli úr vestri. Sá kuldapollur sést ekki vel á þessu korti - trúlega er hann ekki á sama stað í grunnspánum öllum og jafnast út í meðaltalinu sem okkur er sýnt.

Slide8

Síðdegis sama dag hefur hann hins vegar komið fram í öllu sínu veldi. Á þeim tíma sem farið var að gera háloftaathuganir - en tölvuspár ekki komnar til sögunnar hefði þessi staða kveikt á öllum perum - aðvaranir hefðu verið sendar í loftið. En árið 1925 var ekkert slíkt að hafa. Veðurstofan varla byrjuð að gera spár - aðeins send út ein lína eða tvær fyrir allt landið um útlit næsta sólarhrings. Halaveðrinu var því ekki spáð. 

Það má geta þess í framhjáhlaupi að veðrið sést ekki í evrópsku endurgreiningunni. 

En við skulum líta á nokkrar lýsingar veðurathugunarmanna og annarra til þess að við fáum enn betri tilfinningu fyrir atburðarásinni: 

Freysteinn Á Jónsson frá Ytra-Mallandi á Skaga ritar grein í Skagfirðingabók 1977 er nefnist „Halaveðrið á Malllöndunum“. Aðalefni greinarinnar eru erfiðleikar við að ná saman fé þennan dag. Þar segir í upphafi:

„Í birtingu að morgni sunnudagsins 8. febrúar 1925 ráku bændur á Ytra- og Syðra-Mallandi fé sitt til beitar. Þennan morgun var stafalogn og frostlítið. Um nóttina hafði kyngt niður fönn, brim var firna mikið og loft þungbúið. Ekki var hægt að hleypa fénu í fjöruna, eins og venjulega, vegna brimsins, heldur varð að reka það strax á haga. Loftvog stóð lágt og var fallandi“. Og síðar í greininni: „Ég gat þess áður, að loftvog hefði staðið illa og verið fallandi, en rétt áður en hríðin skall á, hrapaði hún svo niður, að vísirinn var tekinn að fara upp á við öfugu megin. Það hef ég aldrei séð síðan“.

Ægir segir í marsblaðinu (3) 1925:

Sunnudagsmorguninn 8. febrúar var hér i bæ [Reykjavík] blíðskaparveður. Kveldinu áður var vestan stórviðri, sem lygndi, er leið á nótt. Sunnudagsmorguninn var útlit fremur gott, en loftvogin sagði annað. Kl. rúmlega 10 lagði Suðurlandið [flóabáturinn] út úr höfninni og um kl.11 lagði gufuskipið „Jomsborg“ frá Kaupmanahöfn einnig út, áleiðis til útlanda. Kl. ll 1/2 kom hann rokinn á norðan fyrirvaralaust, á hádegi skóf sjóinn og kl.2 var ofviðri komið eitt hið mesta, er menn hér hafa sögur af. Kl.5 e.h. var hér háflóð og lágu gufuskipið „Ísland“ og „Björkhaug“ við hafnaruppfyllinguna og létu illa og skemmdust eitthvað, bátar sukku og ýmsar smáskemmdir urðu. Á húsinu 83 á Laugavegi tók þak af og féll i heilu lagi niður á götuna, en ekkert tjón hlaust þó af því. Símaslit urðu víðsvegar um land, svo lítið fréttist um slys annarsstaðar á landinu fyrr en eftir 2—3 daga. Togararnir voru flestir vestur á „Hala“ þá um helgina og skall norðanveðrið á þá laugardaginn 7.febrúar en þá var vestanveður hér um kveldið. Þriðjudaginn 10.febrúar fóru togarar að koma inn, meira og minna brotnir.

Morgunblaðið 3.mars:
Úr Eyjafirði. Skemmdir á bryggjum. Í norðangarðinum síðasta gerði aftakabrim á Eyjafirði, og olli það ýmsum skemmdum. Til dæmis tók það allar bryggjur á Dalvík, meðal annars bryggju Kaupfélagsins og Höpfnersverslunar, og voru þó báðar þessar bryggjur traustar, einkum sú síðarnefnda, og hafði aldrei haggað henni brim, en þau eru tíð við Eyjafjörð utanverðan. Þá urðu og allmiklar skemmdir á bryggjum í Ólafsfirði. Tjón á bátum varð ekki neitt, eftir því sem heyrst hefir, því þeir munu flestir eða allir hafa verið uppi á landi.

Lýsingar af veðri á nokkrum veðurstöðvum - stundum með orðum veðurathugunarmanna:

Hvanneyri: Þann 7. Snjóaði um nóttina og fram til kl.4 e.h. Rigndi frá 4-7 e.h, en byrjaði þá að snjóa aftur. Þann 8. Skafbylur mest allan daginn. [Þorgils Guðmundsson] Ekki varð tiltakanlega hvasst á Hvanneyri - mest sagt frá suðvestan 7 vindstigum að kvöldi þess 7.

Suðvestanáttin náði til Stykkishólms að kvöldi þess 7. (SV 4 kl.21), allan þann 8. voru þar N 9 til 10 vindsti.

Á Lambavatni er ekki getið um suðvestanátt, að kvöldi þess 7. voru þar N 8 vindstig. Í athugasemdum segir þann 8.: Mikil fannkoma og sumstaðar aftakaveður.

Á Núpi í Dýrafirði var ekki hvasst að kvöldi þ.7, en vindur úr N. Þann 9. segir athugunarmaður að snjódýpt sé 1 metir.

Á Suðureyri var austanhvassviðri að morgni þ.7, en norðvestan um miðjan dag, norðaustanstormur um kvöldið og allan þann 8. var stormur og stórhríð. Snjódýpt óx úr 80 cm þann 6. í 120 cm þann 8. og 150 cm þann 9. Mest fór snjódýptin í 180 cm þann 12.

Níels á Grænhóli (á Ströndum) segir þann 7.: Hægði kl.2 í nótt þá [ekki lesanlegt] og hjaldur [lítilsháttar renningur] til kl.6 og þá logn. Kaldi kl.11 suðaustan. Snjókoma eftir 12:40 til um kl.20:10, síðast illviðri suðsuðaustan, [skýja-]far hægt hátt og vestlægra. Þann 8: Bylja veður byrjaði kl.5 og sorta hríð frá kl.6 til 13:30. Jelja veður síðdegis, sorta hríð til fjalla og flóans.

Á Kollsá í Hrútafirði var suðsuðvestanátt, 5 vindstig að kvöldi þ.7, austnorðaustan 3 að morgni þess 8., en kl. 14 voru 10 vindstig af norðaustri.

Á Lækjamóti í Víðidal skall hríðin á kl.11 þann 8. Hægur sunnan fyrr um morguninn.

Á Hraunum í Fljótum telur athugunarmaður [Guðmundur Davíðsson] logn allan þann 7. og að morgni 8, NA 6 kl.14. þann dag og NA 9 kl.21. Kl.8 að morgni þess 8. segir hann þurrt og bjart, en stórhríð kl.14. Þann 7. er öldulaust til kvölds, en þann 8. segir hann: „Mesta brim sem ég man eftir“.

Svipað var á Möðruvöllum í Hörgárdal, logn að morgni þess 8, 3 vindstig kl.14, en stormur um kvöldið og í Grímsey virðist veðrið hafa skollið á um hádegisbil þann 8.

Á Húsavík hvessti mjög af austri síðdegis þann 7. Benedikt Jónsson segir: „Ofsabylur eftir kl.3 e.h. Daginn eftir [8.] var logn að morgni, austan 3 kl.14, en austan 9 kl. 21. Þá segir Benedikt: Óvenjulegt stórbrim og flóð.

Á Grænavatni í Mývatnssveit var líka suðaustanbylur um tíma síðdegis þann 7, en hægur sunnan um kvöldið og hægur suðvestan að morgni þess 8. Logn var þar kl.14, en svo „brast á með stórhríð“ að sögn Páls Jónssonar. Svipað var á Grímsstöðum - en athugasemdir engar.

Veðrið skall á á Raufarhöfn um kl.6 síðdegis þann 8. Árni Árnason segir: Eftir kl.6 gjörði mestu hríð sem komið hefur á vetrinum.

Á Þorvaldsstöðum í Bakkafirði virðist ekki hafa orðið mjög hvasst, en þar gerði hríð að kvöldi þess 8. Benedikt Jóhannsson athugunarmaður segir svo þann 9.: Stórbrim, svo að annað eins hefur ekki komið hér að sögn kunnugra manna síðan 8.janúar 1905 enda urðu víða skemmdir hér af sjávargangi, bæði á ýmsum mannvirkjum og túnum er við sjó lágu. Lesa má um illviðrið mikla 7. til 8. janúar 1905 í pistli hungurdiska um það ár.

Ekki er talað sérstaklega um veðrið í athugunarbókum af austan- og sunnanverðu landinu nema hvað Gísli í Papey segir þar gott veður þann 8.

Þann 6.febrúar 1993 birtist ljóð eftir Heiðrek Guðmundsson á Sandi í Lesbók Morgunblaðsins (sjá timarit.is). Það heitir „Halaveðrið“ og fjallar um minningar höfundar frá 8.febrúar 1925 - lesið það. 

Fljótlega var farið að nota halaveðrið sem eins konar viðmið - 

Morgunblaðið 31,maí 1925: Ísafirði (eftir símtali í gær). Norðangarður hefir verið hér undanfarið og er vonskuveður enn, með snjókomu. Flestallir togarar og önnur fiskiskip, sem verið hafa á veiðum hér um slóðir, liggja inni á höfninni. Fjöldi þeirra t.d. á Aðalvík. Segja fiskimenn er voru vestur á Hala i febrúarveðrinu mikla, að óveður þetta minni á það.

Þó þetta maíveður hafi vissulega verið slæmt er samanburðurinn afskaplega óviðeigandi. En seint í janúar 1955 fórust tveir breskir togarar úti af Vestfjörðum í miklu norðaustanillviðri. Um það ritar Borgþór H. Jónsson veðurfræðingur grein í tímaritið Veðrið 1. árgang, 1.hefti 1956. Þar er rætt um ísingu sem mögulegan orsakavald slysanna. Í umfjöllun um Halaveðrið er ekki mikið rætt um ísingu - því meira um illt sjólag og aftakasærok. Veðrið 1955 var nokkuð annarrar gerðar en halaveðrið. Meiri líkindi eru með því síðarnefnda og veðrinu mikla í febrúar 1968 og fjallað var um hér á hungurdiskum (og víðar) fyrir tæpum 2 árum. Einnig eru ákveðin líkindi með halaveðrinu og því veðri sem rústaði Ammassalik þann 6.febrúar 1970 - nema að norðanáttin sú náði aldrei til Íslands - þó henni væri spáð (en það er önnur saga). 

Febrúar 1925 var snjóþungur á landinu, snjóþyngstur febrúarmánaða í Reykjavík frá upphafi mælinga - þó ekki hafi verið alhvítt allan mánuðinn. Talsvert hlýtur að hafa verið um snjóflóð í veðrinu og í kjölfar þess, en ekki er getið um nema eitt sem olli tjóni (sjá rit Ólafs Jónssonar, Skriðuföll og snjóflóð). Það féll um miðjan mánuðinn á fjárhús á Botni í Súgandafirði og banaði 14 kindum. Flóðið laskaði einnig bæjarhúsin, en enginn meiddist. 

Velta má vöngum yfir því hverskonar vanda veður sem þetta myndi valda nú á dögum. Trúlega yrði því spáð með einhverjum fyrirvara. Skip eru því færri á ferð í veðrum sem slíkum heldur en áður var - og betur búin. Ámóta brim og sjógangur gæti valdið tjóni víða um landið norðanvert, þeir sem væru á ferð um landið myndu finna fyrir því - vonandi þó ekki verða úti - en slíkt er ætíð nokkuð tilviljanakennt. Hríðarveður geta nú á dögum valdið margs konar töfum og raski sem er kostnaðarsamara en margur hyggur. Foktjón er sömuleiðis tilviljanakennt - en erfitt að koma algjörlega í veg fyrir það.


Mikil hitametahrina

Mikil (en skammvinn) hitametahrina gengur nú yfir landið. Hæsti hiti sem hingað til hefur mælst hér á landi í desember er 18,4 stig, það gerðist þann 14.desember 2001, á Sauðanesvita vestan Siglufjarðar. Þegar þetta er skrifað - rétt eftir miðnætti (og kominn 3.desember) - hefur þetta met fallið mjög rækilega því hiti hefur nú farið enn hærra á að minnsta kosti þremur veðurstöðvum, hæst á Kvískerjum í Öræfum, 19,7 stig - og í 19,0 stig í Bakkagerði á Borgarfirði eystra og 18,7 stig í Vestdal við Seyðisfjörð. Varla er því nokkur vafi á að met hefur verið slegið - og enn er opið fyrir háar tölur næstu klukkustundirnar.

Ný desemberhitamet hafa verið sett á mörgum tugum sjálfvirkra stöðva - en uppgjör fyrir mönnuðu stöðvarnar skilar sér ekki fyrr en á morgun - kannski hafa met fallið þar líka. Hæsti hiti á athugunartíma á mönnuðu stöðinni á Akureyri var 14,5 stig nú í kvöld - en ekki verður lesið af hámarkshitamælinum þar fyrr en kl.9 í fyrramálið, núgildandi desembermet á Akureyri er 15,1 stig, sett þann 21. árið 1964. Aftur á móti fór hiti í kvöld í 16,5 stig á stöðinni við Krossanesbrautina.

Ritstjóri hungurdiska man varla eftir því að jafnmörg dægurhámarksmet hafi fallið sama daginn - líklega á um 200 stöðvum - rétt að bíða til morguns með að telja þau.

Óvenjuhlýtt loft hefur verið yfir landinu í dag - tveir helstu háloftahitavísar, 500/1000 hPa þykkt sem og mættishiti í 850 hPa voru í hæstu hæðum. Á kortum evrópureiknimiðstöðvarinnar sást meiri þykkt en 5540 metrar - nokkuð sem þykir allgott að sumarlagi og hæsta mættishitatalan var 26,3 stig. Það þarf hins vegar nokkra heppni (réttar aðstæður) til að koma háloftahlýindum ósködduðum niður að veðurstöðvunum - gerist nær aldrei á þessum tíma árs.

Sumir lesendur geta sér til skemmtunar rifjað upp gamla pistla hungurdiska, um óvenjulega hitabylgju á Kvískerjum í nóvember 1971, og tvo pistla um desemberhlýindi, í öðrum er fjallað um hæstu desemberhámörk, en í hinum kemur hitametið á Sauðanesvita líka við sögu (spurning sú sem þar er vísað í í upphafi pistilsins kom í kjölfar pistils dagsins áður (3.desember 2010). [Annars er ritstjóri hungurdiska löngu farinn að ruglast í efnisyfirliti diskanna - pistlarnir enda orðnir vel á þriðja þúsund talsins]. 

Viðbót síðdegis 3.desember:

Nú hefur metahrinan nokkuð skýrst. Eins og áður sagði féll landshámarkshitamet desembermánaðar rækilega. Hiti fór upp fyrir gamla metið á þremur stöðvum eins og tíundað var hér að ofan. Dægurmet féllu á meir en 200 stöðvum - sumar stöðvanna hafa að vísu athugað aðeins örfá ár, en sé miðað við 10 ára athugunartíma eða meira féllu 178 hámarksdægurmet í gær (þann 2.) og til þessa hafa 111 fallið í dag (3.), 20 féllu í fyrradag. 

Desemberhitamet féllu eða voru jöfnuð á 53 sjálfvirkum stöðvum sem athugað hafa í tíu ár eða meira - og á þremur mönnuðum. Á Akureyri hefur hámarkshiti verið mældur í um 80 ár. Hæsti hiti í desember til þessa mældist þar 15,1 stig þann 21. árið 1964, en fór í 15,5 stig nú. Á sjálfvirku stöðinni við Krossanesbraut á Akureyri fór hiti nú í 16,5 stig. Hitamet desembermánaðar féll einnig á Grímsstöðum á Fjöllum, hiti á mönnuðu stöðinni fór nú í 12,0 stig, en 12,4 stig á þeirri sjálfvirku, hæsti hiti til þessa í desember mældist á Grímsstöðum þann 14. árið 1997, 11,5 stig. Á fáeinum stöðum þar sem nú eru aðeins sjálfvirkar mælingar var áður mælt á hefðbundinn hátt. Hiti fór nú í 13,5 stig á Blönduósi, en hafði hæst farið í 12,6 á mönnuðu stöðinni sem lengi var þar. Met var sett á sjálfvirku stöðinni á Brú á Jökuldal, 11,3 stig, en þar hafði hiti á mönnuðu stöðinni farið í 12,0 stig, svipað á við um Fagurhólsmýri, metið á sjálfvirku stöðinni þar nú (10,5 stig) hreyfði ekki við gömlu meti þeirrar mönnuðu (11,0 stig). Eins var í Grímsey, en aðeins munar þó 0,1 stigi og á Skjaldþingsstöðum, Möðrudal, í kaupstaðnum á Seyðisfirði og í Nautabúi fór hiti nú ekki eins hátt og hæst hefur þar mælst áður á mönnuðu stöðvunum. 

w-blogg031219a

Myndin sýnir hámarkshita á 10-mínútna fresti í Kvískerjum í Öræfum og Bakkagerði á Borgarfirði eystra 2. desember 2019 og til hádegis þann 3. Mjög skyndilega hlýnaði kl.18 í Kvískerjum og um 2 tímum síðar í Bakkagerði. Vindur hreinsar þá kalt loft burt úr neðri lögum og „afhjúpar“ hitann efra. 

w-blogg031219b

Myndin sýnir hita í Vestdal á Seyðisfirði (92 m yfir sjávarmáli) og á Gagnheiði (949 m yfir sjávarmáli) 2.desember 2019 og fram að hádegi þann 3. Græni ferillinn (hægri lóðréttur kvarði á myndinni) sýnir hitamun stöðvanna. Eftirtektarvert er að hiti er mun jafnari uppi á Gagnheiði heldur en niðri í firðinum, loftið að ofan tekst á við kaldara loft neðar - og það svo að um stund er hlýrra uppi á heiðinni heldur en niðri í firðinum - þrátt fyrir hæðarmuninn. Sé borið saman við fyrri mynd má einnig sjá að lengri tíma tók að hreinsa kalda loftið burt á Borgarfirði heldur en í Seyðisfirði, hiti var kominn í 10 stig strax kl.6 að morgni á Seyðisfirði - en ekki fyrr en kl.20 um kvöldið á Borgarfirði. 


Þurr nóvember nyrðra

Svo virðist sem nóvembermánuður hafi verið í hópi þeirra allraþurrustu um landið norðanvert - og einnig sums staðar vestanlands. Við fréttum vonandi betur af slíku þegar Veðurstofan hefur lokið sínu uppgjöri. En á Akureyri er hann líklega sá næstþurrasti frá upphafi samfelldra mælinga 1927. Þurrastur telst nóvember 1952. Þetta eru einu nóvembermánuðirnir með minni úrkomu en 10 mm á Akureyri. Ámóta gæti hafa verið í nóvember fyrir 100 árum, árið 1919, úrkoma á Möðruvöllum í Hörgárdal mældist aðeins 7,2 mm. 

Evrópureiknimiðstöðin reiknar úrkomuna - og hittir oft allvel í, þó oftast muni samt einhverju. Kortið hér að neðan er úr smiðju hennar - Bolli Pálmason dró það úr gagnaiðrum miðstöðvarinnar. 

w-blogg021219a

Heildregnu línurnar sýna meðalsjávarmálsþrýsting - hæð yfir Grænlandi og lægðir fyrir sunnan land. Austanátt ríkjandi. Litirnir sýna úrkomu - sem hlutfall af meðallagi líkanúrkomunnar á árunum 1981 til 2010. Á gulu svæðunum segir líkanið úrkomu hafa verið undir meðallagi, en bláleitir litir sýna svæði með úrkomu yfir meðallagi. Yfir Norðausturlandi er blettur þar sem úrkoma í líkaninu hefur verið innan við fjórðungur meðallags - og einnig sést slíkur blettur við Hornstrandir - en þar eru engar mælingar til staðfestingar. Úrkoma er aftur á móti yfir meðallagi við Mýrdalsjökul og þar í grennd. Svo virðist sem einnig hafi verið mjög þurrt á Norðaustur-Grænlandi og sums staðar í Vestur-Noregi - en aftur á móti óvenjuúrkomusamt á Norður-Spáni. 

Háloftahæðarvikakortið sýnir okkur ástæður.

w-blogg021219b

Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins. Hæðarhryggur er við Ísland - eins konar fyrirstöðuhryggur og vikamynstrið (litir) segir okkur að austan- og norðaustanáttir hafi verið mun algengari en venjulega. Aftur á móti hefur flöturinn staðið óvenjulágt yfir Frakklandi og nágrenni. Þessi staða bælir mjög úrkomu - einkum norðanlands. 

Það er skemmtilegt að fyrir nákvæmlega 100 árum, í nóvember 1919 var staðan ekki ólík stöðunni nú. Að vísu getum við ekki alveg treyst endurgreiningum frá þeim tíma.

w-blogg021219c

En hæðarhryggurinn er aðeins vestar (megi trúa greiningunni) - og mikil neikvæð vik yfir meginlandinu vestanverðu - rétt eins og nú. Ritstjóri hungurdiska trúir ekki á samstæðuspár - en þess má samt geta að veðurlagið í nóvember 1919 varð ekki dæmigert fyrir veturinn - í hönd fór einhver mesti snjóavetur 20.aldar um landið sunnan- og vestanvert og var lengi í minnum hafður. Hvernig skyldi fara nú? 

Svo virðist mánuðurinn eiga annað sameiginlegt með nóvember 1952 - hægan vind. Meðalvindhraði á landsvísu sýnist sá minnsti síðan þá. 


Á aðventu 1925

Fyrir um þremur árum flutti ritstjóri hungurdiska tvö erindi um veður á aðventunni árið 1925. Hið fyrra í Gunnarshúsi 7.desember 2016, en hið síðara á jólaþingi  veðurfræðifélagsins nokkrum dögum síðar. Erindin voru að hluta til samhljóða - en ekki þó alveg. Hér verða þau rifjuð upp saman, en lítið breytt. 

Sagt er að Gunnar Gunnarsson hafi byggt „Aðventu“ sína á ritgerð sem birtist í tímaritinu Eimreiðinni 1.tölublaði 1931. Greinin er eftir Þórð Jónsson og greinir frá eftirleitum Mývetninga á aðventu 1925 og ber yfirskriftina „Í eftirleit“. Sjónum er þar einkum beint að ferðum Benedikts Sigurjónssonar á Skútustöðum og nokkurra daga hrakningum hans í lok leitar. Benedikt var vanur maður á fjöllum og virðist hafa farið sér lítt að voða að öðru leyti en því að matarskortur var farinn að há honum enda fjalladvölin orðin nokkru lengri en ætlað var í upphafi. Greinin er aðgengileg á timarit.is og ættu áhugasamir að kynna sér hana - margt athyglisvert kemur fram - við látum það liggja á milli hluta hér. 

Ritstjóri hungurdiska þekkir lítið til á þessum slóðum og ætlar því ekki að hætta sér mjög í smáatriði. Veit þó að aðallega var verið að leita á Mývatnsöræfum austan Nýjahrauns en það rann í eldsumbrotum 1875 – þar voru og eru væntanlega enn snjóléttir hausthagar sem þá þótti sjálfsagt að nýta – einkum í svonefndum Grafarlöndum. Á þessum slóðum er ekki langt í Jökulsá á Fjöllum í austri – og þar með til byggðar austan hennar – allra syðst á svæðinu til Möðrudals á Efra-Fjalli, en nyrst á svæðinu til Grímsstaða – oft gistu gangnamenn þar – þar á meðal Benedikt í leitinni á aðventu 1925. Sá hængur var á að Jökulsá var óbrúuð – langoftast mikill farartálmi - og ekki hægt að fá ferjumann frá Grímsstöðum nema panta hann fyrst með símtali úr Reykjahlið. Sími hafði verið lagður hjá Grímsstöðum 1906, en hann lá í fyrstu niður að jökulsárbrúnni í Axarfirði – en ekki beint til Reykjahlíðar. Hafi svo enn verið 1925 er eðlilegt að engin möguleiki hafi verið á því að hringja eftir ferju frá vesturbakkanum – nema fara alla leið til baka til Reykjahlíðar.

Í þetta sinn héldu leitarmenn úr Reykjahlíð og austur þann 10. desember. Þeir komu flestir saman með fé til byggða þann 14., en Benedikt varð eftir og leitaði eftirlegukinda – fyrst með öðrum manni – en síðan einn. Komst austur að Grímsstöðum og hvíldist þar í einn eða tvo daga (ólíkt skáldsögunni).

Laugardag 18. desember var svo haldið aftur til leitar vestur yfir Jökulsá og urðu úr nokkrir hrakningar – sem í dag væru kallaðir stórkostlegir – og náði Benedikt ekki til byggðar í Reykjahlíð fyrr en síðla á annan í jólum, 26. desember – þá fyrir nokkru orðinn matarlaus. Sveitungar hans voru þá farnir að gera sér nokkrar áhyggjur af honum og ákváðu Reykhlíðungar um jólin að byrja leit þann 28. – en suðursveitungar fóru til leitar daginn áður – þann 27. – án þess að vita að hann hefði þá þegar skilað sér til Reykjahlíðar. – Tókst giftusamlega að afturkalla leitina.

Langt er síðan ritstjórinn las „Aðventu“, sjálfsagt meir en 40 ár – en hefur svo heyrt allstóra hluta bókarinnar í útvarpslestrum á seinni árum. Sagan „Aðventa“ er skáldskapur – kannski byggður á fleiri vetrarfjallaferðum Benedikts en þeirri sem hér hefur verið nefnd – frásögnin í Eimreiðinni nefnir brot úr öðrum – en skáldsaga engu að síður. Hún verður því ekki borin saman við raunveruleikann. Höfum t.d. í huga að aðventan 1925 hófst 29.nóvember, en hinir raunverulegu leitarmenn héldu ekki til heiða fyrr en 10 dögum síðar. [Eins og segir einhvers staðar: „Vika líður - til merkis um að vika sé liðin“]. 

En að aðventuveðrinu 1925. Tímarit Veðurstofunnar, „Veðráttan“ segir um tíðarfar í desember: „Norðan átt var ríkjandi í þessum mánuði. Tíðin var þó fremur hagstæð, nema á Norðurlandi“.

Slide4

Endurgreining evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir þrýstivik í desember 1925. Þrýstingur er umfram meðallag og norðlægar áttir tíðari en venjulega. 

Slide5

Mjög hlýtt var yfir Grænlandi og þar vestan við, en kalt á Norðurlöndum. Þykktarvikakort evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir þetta greinilega. Fremur óvenjulegur háloftahæðarhryggur er vestan við Ísland og norðvestlæg átt ríkjandi í veðrahvolfinu. 

Langversta og athyglisverðasta illviðri mánaðarins gerði dagana 7. til 9. þá urðu fimm menn úti, miklir fjárskaðar urðu, auk tjóns af völdum vinds og sjávargangs. – Mývetningar biðu af sér þetta veður í Reykjahlíð. Við fjöllum lítillega um það síðar í þessum pistli. 

Árið 1925 var Veðurstofan að ná sér á strik – og athuganir þar með eftir ákveðna erfiðleika umskiptaáranna, en danska veðurstofan sem hafði haft opinberar athuganir með hendi frá 1872, lagði þær í hendur Veðurstofunni 1.janúar 1920. Skilningur ráðamanna á nauðsyn veðurathugana og kostnaði þeim tengdum var misjafn eins og verða vill – en flestum var þó mikilvægið ljóst þegar hér var komið. Myndir hér að neðan skýrast að mun séu þær stækkaðar.

Slide2

Stöðvar sem mældu hita í desember 1925. Mesta frost mánaðarins var yfirleitt milli jóla og nýárs, en hlýjast var í upphafi illviðrisins mikla þann 7. og 8.

Slide3

Þó stöðvakerfið hafi verið nokkuð gisið 1925 voru þó athuganir á þremur stöðvum í innsveitum á Norðausturlandi, Grænavatni í Mývatnssveit, Grímsstöðum á Fjöllum og í Möðrudal. Skeyti voru send frá Grímsstöðum til Veðurstofunnar, en veðurskýrslur haldnar á hinum stöðvunum tveimur. Athuganir voru misgóðar – en segja okkur samt nokkuð nákvæmlega frá veðri allan útivistartíma Benedikts.

Slide6

Myndin sýnir hitamælingar á Grænavatni í Mývatnssveit í desember 1925. Hún verður mun læsilegri sé hún stækkuð. Bláu línurnar sýna annars vegar (til vinstri) þann tíma sem úthaldið stóð - frá 10.desember og hins vegar (til hægri) þann tíma sem Benedikt var einn á ferð. 

Slide7

Hér má sjá aðrar athuganir frá Grænavatni. Bláu línurnar eru þær sömu og á fyrri mynd. Fjólubláu ferhyrningarnir afmarka þá daga sem vindur var hægur. Í græna rammanum eru upplýsingar um búfjárhald, byrjað að hýsa fé þann 8.desember og hrossum komið á gjöf þann 17. Þann 19. segir Páll athugunarmaður að snjó hafi hlaðið niður og á jóladag var aftakabylur. 

Slide8

Snjódýpt var mæld á Grímsstöðum á Fjöllum marga daga og getum við séð af athugunum Sigurðar Kristjánssonar að þar var töluverður snjór, snjódýpt komin í meir en 40 cm á annan jóladag. 

Slide9

Hitamælingar í Möðrudal eru auðlæsilegri heldur en Grímsstaðamælingarnar (þar eru allstórar mælaleiðréttingar). Frost fór í meir en -20 stig þann 19. og 20. en báða þá daga lá Benedikt úti - og í jóladagshríðinni var frostið meira en -10 stig.

En snúum okkur nú að illviðrinu þann 7. til 9.desember - sem leitarmenn biðu af sér.

Alls urðu fimm menn úti, þar af þrír í Dalasýslu. Víða urðu fjárskaðar og í Húnavatnssýslu fórust 60-70 hross. Alls er talið að um 500 fjár og 100 hross hafi farist, flest í Dalasýslu, en einnig við Galtarholt í Skilmannahreppi og Leirvogstungu í Mosfellssveit. Þak fauk af hlöðu á Læk í Leirársveit. Járnplötur fuku af húsum í Mýrdal. Fjárskaðar urðu einnig eystra, við Berufjörð og í Breiðdal - en ekki týndist margt á hverjum bæ segir veðurathugunarmaður á Teigarhorni. 

Símabilanir urðu miklar um land allt. Prestssetrið Höskuldsstaðir í Austur-Húnavatnssýslu brann til kaldra kola. Víða fuku plötur af húsum og þak fauk af hlöðu í Borgarfirði. Sjóvarnargarði á Sauðárkróki sópaði burt. Sjór og vindur brutu hafskipabryggju á Siglufirði, þrjá mannlausa báta rak á land í Keflavík, Grundarfirði og á Dalvík, brotnuðu tveir þeirra. Brim braut fáeina símastaura í Fljótum. Nokkrar járnplötur fuku í Mýrdal. Þann 9. og aðfaranótt þess 10. brotnuðu 40 símastaurar í ísingu í Jökulsárhlíð. 

Við skulum líta á fáein veðurkort - bandaríska endurgreiningin framleiðir þau. 

thing_1412-2016-adventa_1925a

Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins um hádegi sunnudag 6.desember 1925. Þá er vaxandi lægð suður í hafi. Endurgreiningin segir þrýsting í lægðarmiðju lægri en 975 hPa (-200 metrar). Það sem við sjáum ekki á þessu korti er að snarpt háloftalægðardrag er yfir Grænlandi - á austurleið og dregur með sér kalt loft úr vestri og síðan norðri og mætir það hlýindunum sunnan að. Úr verður mikil dýpkun - eiginlega sérstök ný lægð - skammt fyrir sunnan land. 

Slide13

Hér sést staðan í 500 hPa á sama tíma, hún er afskaplega varasöm. Í tilvikum sem þessu ná kalda loftið og það hlýja ekki alltaf saman - en í þessu þarna gerðist það. 

Daginn eftir var staðan orðin þessi:

Slide10

Gamla lægðin situr eftir suður í hafi og eyðist, en sú nýja orðin ámóta djúp og sú gamla var - um 975 hPa og er enn dýpkandi. Náði einna mestu afli daginn eftir - eins og næsta kort sýnir:

Slide16

Innsta jafnhæðarlínan er -320 metrar, það þýðir að miðjuþrýstingur er lægri en 960 hPa. Jafnhæðarlínurnar eru gríðarlega þéttar yfir landinu vestanverðu og úti af Vestfjörðum, en ekki eins hvasst eystra. Ekki snjóaði neitt sem heitið gat á Suðurlandi, en virðist hafa gert það um landið norðvestanvert. Gríðarleg rigning var á Austfjörðum, mældist meiri en 100 mm á tveimur sólarhringum á Teigarhorni. 

Veðurlýsing frá Hvanneyri segir þann 6.: Snjóaði töluvert frá 9 f.h. til 6 e.h. en rigndi mikið eftir það. Þann 7. segir: Rigning um nóttina, krapi frá 11 f.h. til 5 e.h. Snjóaði nokkuð eftir það. Þ.8. Stormur (9 til 10) fyrripart nætur, skafrenningur allan daginn og örlítið ofanfall. 

Á Suðureyri við Súgandafjörð var alautt þann 5., en kominn 65 cm snjór þann 10. Norður á Lækjamóti í Víðidal féll mestöll úrkoman sem snjór - meðan mesta rigningin var á Hvanneyri. Þar segir þann 6.: Byrjaði að snjóa kl.5, hlóð niður um nóttina, hvessti kl.2-4, moldhríð með roki 2 næstu daga. Fórust hross víða um Húnavatnssýslu, fenntu og sló niður. Fé náðist að mestu í hús. 

Slide18

Hér má sjá brot úr veðurathugunarbók á Veðurstofunni þessa daga, athuganir kl.8 að morgni. Úrkoma að morgni þess 7.mældist 20,8 mm - allt rigning. Að morgni þess 8 eru 10 vindstig af norðnorðaustri og 9 vindstig af norðri þann 9. Örin bendir á athugasemd þar sem segir að 11 vindstig af norðri hafi verið aðfaranótt þess 8. Þetta var í 3 sinn á árinu 1925 að vindur varð svo hvass í Reykjavík. Fyrst varð það þann 21.janúar - um það veður fjölluðu hungurdiskar þann 1.desember 2016, síðan þann 8.febrúar - í halaveðrinu svonefnda. Hungurdiskar munu e.t.v. fjalla lítillega um það fljótlega. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband