Af árinu 1905

Árið 1905 var til þess að gera hagstætt lengst af. Óhagstæð tíð fyrstu 2 mánuðina og síðsumars fyrir norðan, en annars góð. Hiti í meðallagi. Úrkoma í meðallagi.

Fáein slæm illviðri gerði en illviðrakaflar virðast ekki hafa staðið lengi við. Meðalhiti í Reykjavík reiknast 4,5 stig, sama og 1894 og hlýrra ár kom ekki aftur fyrr en 1915. Aftur á móti var óttalegt rót á hitamælingum í Reykjavík þetta ár og hefur meðalhiti einstakra sólarhringa ekki verið áætlaður fyrir allt árið. Að tiltölu var hvergi hlýrra á landinu þetta ár en í Reykjavík. Á landinu í heild var lítillega hlýrra bæði 1901 og 1908. 

Á landsvísu teljast þrír mánuðir ársins hlýir, mars, júní og desember, en fjórir kaldir, febrúar, apríl, ágúst og október. 

Hæsti hiti ársins mældist í Möðrudal þann 30.júní, 22,0 stig og næsthæstur á Teigarhorni þann 10.júní, 21,0 stig. Merkilega hitabylgju gerði í Reykjavík þann 19.maí og komst hiti þá í 20,7 stig. Þetta er hæsti hiti sem mælst hefur í maí í Reykjavík, en þann 14. árið 1960 fór hiti í 20,6 stig. Það er samt ákveðin tregða í að viðurkenna metið - vegna þeirrar óreiðu sem var á hitamælingum þetta ár. En rétt samt að taka fram að veðurstaðan er trúverðug - mjög hlý austanátt í háloftum sem Reykjavík getur vel hafa notið öðrum stöðvum fremur - rétt eins og í maí 1960. 

Mest frost á árinu mældist í Möðrudal þann 11.febrúar, -30,0 stig. Þann 10. fór frostið í -21,8 stig á Akureyri, og í -21,4 daginn eftir. Þessar tölur standa enn sem dægurlágmörk á Akureyri. 

ar_1905t

Hæsti og lægsti hiti hvers dags í Reykjavík 1905. Smávegis vantar af athugunum auk þess sem hámarks- og lágmarksmælingar féllu nær alveg niður síðari hluta ársins (þeir sem glöggir eru geta ráðið það af útliti myndarinnar). Hitafar var órólegt í janúar og febrúar, slæmt kuldakast gerði snemma í apríl (telst þó ekki páskahret því páskar voru sérlega seint þetta ár). 

Úrkoma var yfir meðallagi í Reykjavík, en þurrviðrasamt var í apríl, og ágúst var líka frekar þurr. Sama á við um Stykkishólm. Þann 30.nóvember mældist sólarhringsúrkoma í Reykjavík 45,8 mm sem telst óvenjulegt. 

ar_1905p

Hæsti loftþrýstingur ársins mældist á Akureyri þann 11.febrúar, 1039,9 hPa, en lægstur á Teigarhorni þann 7.desember, 942,8 hPa. Myndin sýnir morgunþrýsting í Reykjavík árið 1905. Sjá má að fyrstu mánuðir ársins eru afar órólegir, en í október og fyrri hluta nóvember var þrýstingur lengst af hár og veður róleg. Þrýstingur var einnig með hærra móti í apríl - en lágur um stund framan af september. 

Hér að neðan er farið yfir helstu tíðindi ársins með aðstoð fréttablaða og veðurathugana. Annars voru blöðin heldur þegjandaleg þetta ár hvað almenna tíð varðar - sennilega vegna þess að hún var viðunandi lengst af. Stafsetningu hefur víðast hvar verið vikið til nútímahorfs. Athugið að staðarheiti kunna að vera rangfærð. Ekki eru öll óhöpp talin - sjóslys voru mörg að vanda og ekki alltaf ljóst hvort þau tengdust veðri. 

Einar Helgason lýsir veðri ársins og tíðarfari í Búnaðarriti:

Vetur frá nýári góður, frostvægur og snjólitill hér sunnanlands. Í uppsveitum Borgarfjarðar var óstöðugt og hagskarpt í janúar og febrúar, betra í mars, þá norðankælur, hreinviðri og væg frost. Á fjallajörðum var fé gefið í minnsta lagi. Á Snæfellsnesi snjóasamt en frostlítið lengstum. Góð fjörubeit. Í Dalasýslu mjög góður vetur. Á Vestfjörðum í harðara lagi; snjóþungt fyrstu tvo mánuði ársins. Á Ströndum óstillt, en frost heldur lítil. Í miðjum febrúar gerði þíður með ákafri rigningu, tók þá mestan snjó upp í byggð og eftir það gerði aldrei mikinn snjó. Á Norðurlandi jarðir nægar, hret skömm og væg. Gekk mestur hluti hrossa í Skagafirði af allan veturinn, án þess að koma á gjöf og voru í góðu standi um vorið. Í norðurhéruðum Eyjafjarðarsýslu og í Fljótum byrjaði veturinn með afarmikilli ótíð. Ofsastormur með geysi fannkomu aðfaranótt 8. janúar, urðu þá skemmdir á bátum og húsum. Þá og daginn eftir gekk þetta sama veður yfir alt Austurland, er þess getið úr Vopnafirði og Breiðdal að nærri hafi legið skemmdum. Á Austfjörðum var veturinn umhleypingasamur þangað til í mars. Þegar kom fram í apríl versnaði tíðin aftur og hélst það fram um þann 20. Þar fyrir sunnan var ágæt vetrartíð eftir að komið var fram um miðjan janúar. Í Mýrdal var unnið að jarðabótum á góunni. Í Vestmannaeyjum var mjög stormasamt í janúarmánuði og úrkoma feiknamikil, en annars var veturinn góður.

Vorið þurrviðrasamt að heita mátti um land allt og fremur kalt. Greri jörð viðast í seinna lagi. Látið er best af veðuráttunni í Mýrdalnum. Vorið ágætt þar. Almennt farið að beita kúm 4 vikur af sumri. Sumarið votviðrasamt í júlímánuði hér við Faxaflóa, en úr því nægir þurrkar, en óvenjulega hlýindalítið alltaf. Um mánaðamótin júlí og ágúst snjóaði i Esjunni og tók ekki upp fyrr en eftir meir en viku þótt heiðskírt veður væri. Heyskapur í góðu meðallagi í þessum sveitum. Mikil og vel verkuð hey á Snæfellsnesi. Í Dalasýslu og á Vestfjörðum var sumarið kalt en þurrviðrasamt; grasspretta í löku meðallagi. Í Barðastrandarsýslu einkar hagstæð tíð, en kaldara eftir því sem norðar dró. Í Strandasýslu var byrjað á slætti 10. júlí, kom þá óþurrkakafli, sem hélst þann mánuð út. Töður náðust þar því ekki fyrr en fyrst í ágúst. Norðanátt hélst þar mestan hluta sumarsins. Um allt Norðurland og Austurland, suður að Breiðdalsheiði, var sumarið kalt og hryðjusamt. Sláttur byrjaði í síðara lagi. Töður hröktust víða og skemmdust. Útheysskapur var þó fullkomlega í meðallagi í Húnavatnssýslu, tæplega það í Skagafjarðarsýslu og eins á Austfjörðum. Stórrigningu gerði á Austfjörðum 6. ágúst og olli hún víða heysköðum og miklum aurskriðum. Skemmdust þá tún og engjar, vegir og önnur mannvirki. Á öllu Suðurlandi, austur að Breiðdalsheiði var heyskapartíðin ágæt, óvenjulega þurrviðrasöm; heyföng í góðu meðallagi og með allra besta móti.

Haustið og veturinn til nýárs var gott hér sunnanlands. Votviðrakafli fyrir og um veturnætur. Vinnuþítt hér fram til síðustu daga af október; gerði þá frostkafla til miðs nóvember; þiðnaði þá jörð aftur svo að vinna mátti allar jarðabætur til 25. s.m. Í desemberbyrjun gerði mikla snjóa, eftir því sem hér er venja til og eftir það skiptist á frost með snjókomu og þíða með rigningu. Eftir jólin gerði bestu tíð. Á Snæfellsnesi og í Dalasýslu var storma- og rigningasamt fram að veturnóttum, skipti þá um til bestu tíðar fram að jólaföstu, en þá komu útsynningar miklir og héldust til jóla. Milli jóla og nýárs hlánaði svo að snjólaust varð. Sama veðurlag mátti heita að væri á Vestfjörðum. 8.-9. október óminnileg rigning á Barðaströnd, féllu þá víða skriður, ekki þó til mikilla skemmda. Á Norðurlandi gott veðuráttufar þennan árshluta, óvenjulega snjólétt. Í Hrútafirði var ekki búið að gefa rosknu fé um nýár meir en sem svaraði i 3 daga og sumstaðar í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum ekki búið að kenna lömbum át um nýjár.

Ofsahvassviðri gerði í Fljótum 11.-12. desember, fauk þá Holtskirkja og brotnaði í spón; nýleg kirkja, falleg og vel vönduð. Á Austfjörðum, suður að Breiðdalsheiði, mátti heita góð tíð þangað til seint í nóvember. Fór þá að hlaða niður snjó og héldust þá rosaveður fram um jól. Í Skaftafellssýslum og suðurhluta Suður-Múlasýslu ágætistíð um haustið og fram um áramót. Á öllu því svæði, austan Mýrdalssands, gekk sauðfé allt og hross úti fram yfir nýár. Í Mýrdalnum tóku flestir lömb á gjöf um 20. nóvember. Kúm var þar beitt með lengsta. móti, til veturnótta. Í Breiðdal er svo talið að aldrei hafi jafn hagstæð tíð komið síðan 1860.

Hafís kom ekki svo teljandi væri að landinu. Aðeins dálítill jakastrjálingur að Ströndum í byrjun júlímánaðar, en þiðnaði strax upp og hafði engin áhrif á veðráttuna.

Janúar. Óhagstæð tíð og illviðrasöm. Talsverður snjór vestanlands. Mikið hríðaráhlaup nyrðra snemma í mánuðinum. Fremur kalt. Nokkurra jarðskjálfta varð vart í Reykjavík þann 28. að sögn Ingólfs (29.).

Árið byrjaði vel, gott veður var fyrstu dagana. Ísafold segir frá þann 3.:

Veðrátta einkar blíð frá því fyrir jól; þau alrauð og sjaldan föl sést á jörðu síðan.

En upp frá þessu hljóp í illviðratíð, tvö veðranna voru verst. Drögum saman fréttir af þeim. Lægð kom að landinu þann 7., dýpkaði mjög og fór austur um. Henni fylgdi mikið norðanveður sem skall á á Vestfjörðum þann 7., en daginn eftir á Austurlandi. Síðara stóra veðrið var af suðri og virðist hafa orðið mest austanlands þann 14. 

Lítum fyrst á frásögn Vestra sem hann birti þann 14. undir fyrirsögninni „Mannskaðaveðrið 7.janúar“, við styttum frásögnina nokkuð:

Laugardagsmorguninn 7. janúar, eða öllu fremur nóttina, voru formenn hér við Djúp snemma á fótum eins og vant er; veður var all-gott en sumum þótti útlit ekki fallegt. Flestir fóru þó að beita og reru síðan. Héðan úr bænum [Ísafirði] reru 4 bátar, 3 mótorbátar og einn bátur til. Úr Hnífsdal 2 bátar, mótorinn „Ingólfur“ og annar bátur til, og úr Bolungarvík reru flestir en einhverjir sneru aftur eða reru stutt. Sjóveðrið var í fyrstu bærilegt, talsverður sjór en hægur, en þegar fór að líða fram á daginn, fór veður að versna og hvessa á norðan og óx þannig til kvölds með roki og brimi. Flestir höfðu róið út á haf, því fisk er ekki annarstaðar að fá. Bolvíkingar sem eiga styst að sækja, fóru flestir fyrst í land, en Ísfirðingar og Hnífsdælingar urðu síðbúnari. Er ekki að orðlengja það, að 3 at bátunum á Ísafirði komust heim um kvöldið, tveir þeirra mjög seint og við illan leik, en einn vantaði. Mótorinn í Hnífsdal komst heim með góðri lukku og hinn báturinn þaðan lenti í Ósvör. Í Bolungarvík komust öll skip í land nema eitt vantaði, sum fengu auðvitað áföll í lendingunni en enginn mannskaði varð en nokkuð tjón á skipum. Í Bolungarvík var bjargað um kvöldið bát frá Látrum í Aðalvík með allri skipshöfn. Bátinn fyllti fyrir framan lendinguna, en bar að landi ásamt skipverjum og náðust þeir þegar allir óskemmdir nema einn. Hann hafði náð í ár og mastur og var að velkjast á því í brimgarðinum fram undir hálftíma, þar til hann náðist með lífi en hafði þó meiðst talsvert. Bolvíkingar héldu vörð um kvöldið og nóttina en urðu einskis frekar vísari, enda gekk sjór svo langt á land að hvergi var fært nálægt flæðarmáli og þar ofan á moldviðri og myrkur. Morguninn eftir fundust þrjú skipsflök þar inn á sandinum og þurfti ekki getum að því að leiða að mennirnir af þeim voru farnir.

Fyrsta skipíð var mótorinn sem vantaði af Ísafirði. Á honum voru 6 menn. Formaðurinn hét Þórarinn Guðbjartarson, giftur maður en barnlaus 31 árs að aldri. ... Skip þetta vita menn það eitt um að það lagði mjög seint af stað í land; hefir það óefað farist á Víkinni, en hvort það hefir ætlað að ná þar lendingu eða ætlað inn á Ísatjörð og orðið þarna of nærri landi, vita menn ekki.

Annað skipið var það sem vantaði úr Bolungarvík, og hafði það verið þar til útróðra og var úr Hnífsdal. Á því voru líka 6 menn. Formaðurinn var Magnús Eggertsson úr Hnífsdal, giftur maður 41 árs, lætur eftir konu og 4 börn. ... Skip þetta kom upp undir Ósvör um kvöldið og var að seila þar fyrir framan þegar annað skip fór fram hjá og lenti. Veðrið var alltaf að versna og eins sjórinn, og hefir líklega brotið yfir það meðan þeir voru að seila.

Þriðja skipið var lítill bátur úr Bolungarvík, sem kom innan af Ísafirði. Á því voru 3 menn. ... Bátur þessi mætti Árna Gíslasyni formanni, undir Óshlíðinni. Veifaði Árni þeim og benti þeim að snúa aftur, því ófært væri að lenda í Víkinni á svo smáum bát, hafði fyrst verið svo að sjá sem þeir ætluðu að taka bendinguna til greina, því þeir stönsuðu og sneru jafnvel bátnum við, en svo hættu þeir við það og héldu áfram út eftir og sást ekki til þeirra eftir það.

Veður þetta hefir því verið eitt með stórkostlegustu mannskaðaveðrum hér við Djúp, en enn er ekki frétt til lengra að. Aðalvíkingar sem björguðust í Víkina vissu til að fleiri bátar voru á sjó úr Aðalvík, en engar fréttir hafa borist þaðan,enn. Þrennir höfðu verið á sjó úr Súgandafirði og fréttist hingað í dag að þeir hefðu allir komist heim heilu og höldnu.

Þann 28. segir Vestri enn frá tjóni í veðrinu þann 7.:

Fimmtíu fjár hrakti í sjóinn á Dynjanda í Dýrafirði í laugardagsveðrinu 7. þ.m. Var það nærfellt aðal-fjáreign bændanna þar, Jóh. Guðmundssonar og Jóns Jónsonar. Þrjú skip brotnuðu á vetrarlæginu í Flatey á Breiðafirði í laugardagsveðrinu; eitt þeirra sleit upp, rakst á klett, brotnaði og sökk að aftan; en tvö rákust saman og brotnuðu mikið, skipin höfðu verið af Patreksfirði.

Austri segir þann 9.:

Veðráttan hefir verið mjög mild síðan fyrir jól. En nú síðustu dagana hefir verið nokkurt frost og snjókoma töluverð. Í gær ofsastormhríð.

Þann 14. segir blaðið nánar frá:

Óveðrið á sunnudaginn var (8. þ.m ) er hið stórkostlegasta og snöggasta sem hér hefir komið lengi. Sunnudagsmorguninn var logn, en dimmt úti fyrir, en klukkan liðlega 11 f.m skall veðrið á með blindbyl og ofsastormi sem allt ætlaði um koll að keyra. Allan daginn frá því, varð varla komist húsa á milli. Gluggarúður brotnuðu í nokkrum húsum hér á Öldunni; frá einu húsinu tók skúr og fleygði stormurinn honum upp á tún, — Ennfremur hraut veðrið bryggju Þórarins kaupmanns Guðmundssonar. Aðrar skemmdir urðu ekki. Frost var allmikið fyrri hluta þessarar viku, hríð og skafrenningur við og við, svo jarðlaust varð.

Í nótt (14.) var ofsahláka með feikna stormi af suðvestri, einhverjum þeim allraharðasta er lengi hefir komið. Urðu töluverðir skaðar hér í bænum: Sóttvarnarhúsið fauk, ennfremur tók þak af hlöðu og fuku úr henni fleiri hestar af töðu. Járnþak sleit af sumum húsum og rúður brotnuðu víða. Fleiri skaðar hafa eflaust orðið af veðrinu þó enn sé eigi til spurt.

Engan skaða hafði veðrið gjört á Héraði svo spurt sé; brast það á svo snemma á sunnudagsmorguninn að fé hafði ekki verið látið út, en erfið varð víst fjárhúshirðing þann dag, urðu fjármenn víða að gista á beitarhúsunum og sumstaðar höfðu þeir sig eigi heim úr fjárhúsinu á túninu. Snjór ákaflega mikill á Úthéraði, en minni þegar kemur inn fyrir Eiða, og eigi þar með öllu jarðlaust.

Þann 20. birti Austri frekari fréttir:

Stormurinn mikli aðfaranótt hins 14. þ.m. olli sköðum eigi all-litlum hér í firðinum eins og minnst er á í síðasta blaði. Sóttvarnarhúsið, sem var virt til brunabóta á 2500 kr., var raunar engin furða þó yrði að láta undan þessum feikna stormi, því það var miklu veigaminna og byggt á allt annan hátt, en hús venjulega eru: allt krækt saman, og engar stoðir eða bitar í því. En í haust var gengið vel frá því; tveir járnstrengir strengdir yfir það. En það kom fyrir ekki. Stormurinn braut það gjörsamlega í smáagnir. Fjórar heyhlöður fuku ofan að tóftum: Ein hér í Firði, eins og getið er í síðasta blaði, og fuku úr hanni 15 hestar af töðu, önnur í Fjarðarseli og c. 10 hestar af heyi, þriðja heyhlaðan fór á Dvergasteini og c. 20 hestar af heyi og fjórða hlaðan fauk á Sörlastöðum og 15-20 hestar af heyi. Á Sörlastöðum fuku og tveir bátar og þök af skúrum. Járnplötur fuku til muna af tveimur húsum, lyfjabúðinni og barnaskólahúsinu. Heyrðist glamrið í plötunum alla nóttina er þær voru að fjúka. Þeyttust plöturnar langar leiðir með feikna hraða og krafti. T.d. fauk járnplata af lyfjabúðinni og út á þakið á geymsluhúsi Imslands kaupmanns, c. 150 faðma vegalengd og svo mikill var hraðinn, að platan fór inn úr þakinu á sex borða svæði. Aðrir skaðar urðu víst eigi sem teljandi sé, nema rúður, er brotnuðu í mjög mörgum húsum. Stormur þessi er án efa hinn allra mesti er komið hefir hér um mörg ár. — Er það því mikil heppni að skaðar urðu eigi meiri.

Norðurland birtir þann 28. stutta frétt úr Skagafirði:

Úr Skagafirði er ritað að 13. janúar hafi þar verið stórviðri með afskapa úrfelli. Þá fauk brú, sem var á Svartá, hjá Reykjum. Hún brotnaði í smátt og bar áin viðinn langar leiðir.

Þann 27.janúar birti Austri svo frekari fréttir af tjóni í veðrinu þann 8.:

Í sunnudagsstórhríðinni 8. þ.m. hafa 4 menn orðið úti er vér höfum tilspurt. Tveir menn á Suðurfjörðum: Bjarni Eiríksson frá Bakkagerði í Reyðarfirði og Finnur Vigfússon frá Eskifirði, báðir aldraðir menn. Höfðu þeir verið á leið í fjárhús. Varð Bjarni úti á túninu, örskammt frá bænum, en Finnur villtist suður yfir Eskifjarðará, og fannst þar síðan örendur. Hinir tveir mennirnir er urðu úti voru frá Hauksstöðum á Jökuldal: Pétur Jónsson, ungur maður og Sigmar Hallgrímsson, unglingspiltur á 13. ári sonur Hallgríms snikkara Björnssonar frá Ekkjufelli: Höfðu þeir verið sendir með hest og sleða út að Héraðssöndum til að sækja matvörur. Voru þeir komnir á leið inneftir. Höfðu gist á bæ yst í Tungum á laugardagsnóttína, en náðu eigi bæjum kvöldið eftir. Á sunnudagsmorguninn, er veðrið var skollið á, heyrðust hróp þeirra frá Hallfreðarstöðum og Litla-Bakka, var kallað á móti, og þeim sagt að koma. En þeir hafa þá verið orðnir villtir og eigi getað áttað sig á því, hvaðan hljóðið kom. Daginn eftir fundust þeir helfreðnir nokkuð fyrir innan Hallfreðarstaði.

Skaðar hafa orðið víða í sunnudagsofviðrinu 8. janúar. Á Vopnafirði og Bakkafirði fuku og brotnuðu bátar og skúrar, og á Vopnafirði braut brimið bryggju og geymsluhús, er Grímur kaupmaður Laxdal átti og tók út úr húsinu mjög mikið af salti. Brim var allvíðast svo mikið að menn muna eigi slíkt, þó mun það einna mest hafa verið í Ólafsfirði nyrðra. Gekk það tuttugu faðma á land upp og átján fet yfir sjávarmál; braut brimið þar marga báta og geymsluskúra.

Norðurland birti þann 14.janúar ítarlegustu fréttirnar af briminu í Ólafsfirði:

Ólafsfirði 11.janúar: Aðfaranótt sunnudagsins 8. þ.m. gerði hér ofsaveður norðaustan með hörkufrosti og óefað meira brimi en elstu núlifandi menn hér muna eftir. Skömmu fyrir fullbirtingu fór sjór að ganga langt upp og kom fyrsta ólagið um kl.8. Mölvaði það sex-róinn fiskibát og færði úr stað fjóra báta sem voru á hvolfi utanundir verslunarhúsinu og sprengdi upp dyr á pakkhúsi P. Bergssonar. Fóru menn þá að taka báta sína, en urðu að hafa sig alla við með köflum að lenda ekki í ólögunum. Um kl. 9-10 varð ólgan svo mikil að gekk suður fyrir verslunarhúsin öll og fyllti svo að næstum rann inn í húsin, en þau standa um 20 faðma frá sjó og um 18 fet yfir sjávarmál. Var þá ljótt að sjá út eftir Horninu. Tunnum, pakkfötum, fiskkössum, trjáviði, bátum og ýmsu fleiru ægði saman uppi við fiskitökuhúsin og mölvaði sum þeirra upp. Gekk þá sjór inn í þrjú býli við austanvert Hornið, svo að sængurföt urðu vot og fólkið varð að flýja burt, en matvæli og eldiviður skemmdist mikið. Þurrfisksskúr P. Bergssonar tók ólgan og flutti annan enda hans næstum 11 álnir, en hinn um 7 álnir upp fyrir grunninn og setti hann þar niður réttan og hallalausan. Skúrinn er 24 x 6 álnir og höfðu nokkrir Hornbúar hann leigðan til sjónleika. Stóð borð með lampa á á leiksviðinu og var allt óskaddað, þegar að var gætt.

Yst húsa mölvaði sjórinn geymsluskúr nýbyggðan um 15 álnir á lengd. Voru þar, geymd matvæli, þar á meðal 20 skipspund af saltfiski, fatnaður, alls konar veiðarfæri o.fl. barst þetta upp fyrir kambinn og lá þar vítt og dreift. Urðu þar miklar skemmdir einkum á kornmat og þess háttar, en mestu af saltfiskinum og öðru varð náð. Alls brotnuðu hér í Horninu og vestan við fjörðinn (í Árfjöru) 12 bátar meira og minna, en 5 eyðilögðust. Þótt eigi sé hægt að segja menn hér hafi liðið stórskaða við sjógang þennan, má þó svo heita að hagur sumra hafi stórum hnignað, í samanburði við eignir hafa sumir misst mikið. Guðmundur þurrabúðarmaður Ólafsson hefir orðið fyrir mestum skaða. J.B.

Á Framnesi hjá Kristjáni Þórðarsyni skipstjóra hafði tekið út bát og á Nolli töluvert af síldartunnum. Því miður er hætt við að fleiri hafi orðið fyrir tjóni af briminu, þó ekki séu fréttir um það komnar.

Frekari fréttir bárust úr Vopnafirði og birtust í Austra þann 11.febrúar:

Tíðarfarið framúrskarandi óstillt síðan um nýár, sjaldan sama veður 2 daga í röð; jarðir oftast nægar víðast hvar, en hafa illa notast vegna umhleypinganna, svo bændur eru þegar búnir að gefa mikið hey, en heyforði þeirra var líka með mesta og besta móti hér, svo þeir kvíða eigi fyrir fóðurskorti í þetta sinn. Þann 8. janúar var hér voðalegur norð-austan hríðarbylur, svo ægilegur sem verða má, og brimrót jafnframt hið stórkostlegasta sem hugsast getur, elstu menn hér hafa aðeins heyrt getið um að einu sinni áður hafi jafnmikið eða svipað brim komið hér. Hér urðu líka talsverðar skemmdir og tap á bátum, bryggjum, fiskiskúrum og fiskiverkunarplássum. Mestum skaða varð Grímur kaupmaður Laxdal fyrir, c. 700 kr. Á Bakkafirði urðu nokkrir skaðar: Halldór í Höfn missti skúr og bræðsluáhöld og fl. skaði hans talinn yfir 1000 kr. 

Í Þjóðviljanum þann 2.febrúar er þess getið að aðfaranótt þess 8.janúar hafi þilskipið Racilíu rekið á land á Ísafirði og brotnað að mun. Ingólfur segir þann 12.mars frá því að í þessu veðri hafi brim gengið 30-40 faðma á land upp í Flatey á Skjálfanda og brotið þar garða, spillt engjum og valdið fleiri skemmdum. Þar er einnig sagt frá snjóflóði sem í mánuðinum hljóp fram úr lækjargili nærri kaupstaðarhúsum í Fáskrúðsfirði, lent þar á húsi sem sjómenn búi í á sumrum, tekið þak af hlöðu og brotið fiskhjalla - dagsetningar er ekki getið. 

Briminu í Flatey er lýst í pistli í Norðurlandi þann 4.febrúar:

Eins og nafn eyjarinnar bendir til, liggur hún eigi hátt yfir sjávarflöt og þeim mun hægra veitir Ægisdætrum að nálgast byggðir manna, þegar þær verða skapæstar. Aðfaranóttina 8. janúar þ.á. gerði hér ofsaveður, fyrst á austan, en gekk meira til norðurs um dögun. Þessu stórviðri fylgdi voða dimm hríð og svo mikill sjávargangur að fádæmum sætti. Í víkinni, suðvestan á eyjunni gekk sjór 30-40 faðma á land upp. í Útgörðum gekk brimið 22 faðma á land upp, braut tvíhlaðinn grjótgarð og kastaði grjótinu víðsvegar, fyllti fjárhús og gekk fast upp að íbúðarhúsinu. Svo var brimkrafturinn mikill, að sumstaðar reif hann grjótgarðinn niður til grunna. Nokkuð fyrir vestan Útgarða er lágt bjarg, um 30 fet á hæð. Þar gekk brimið upp fyrir og á einum stað 10 faðma upp fyrir bakkabrún, braut upp frosna jörð og færði til björg, er voru mörg þúsund pund, skemmdi nokkuð engjar og ýmsar fleiri skráveifur gerði þetta trölleflda náttúruafl.

Ingólfur segir frá mannskaða þann 21.:

Maður varð úti sunnudaginn 8. þ.m. austur í Ölfusi. Hann hét Páll Pálsson, átti heima á Kotströnd. Hafði hann misst hesta sína tvo niður um ís á Ölfusá og fannst sjálfur örendur á ísnum daginn eftir. Harðneskjuveður með kafaldi var um daginn og nóttina.

Vestri segir frá veðri þann 14.janúar:

Tíðarfar hefir verið afar-stirt síðan á laugardaginn var [7.janúar]. Frostbyljir og garður þar til í gærmorgun [13.] og gerði sunnanveður og hláku. Húsgrind fauk. Hús, sem Jón Þ. Ólafsson snikkari er að byggja hér í bænum og var að mestu reist, en óklætt að utan, fauk um koll í gærmorgun og brotnaði talsvert.

Austri segir þann 6.febrúar frá vestanillviðri á Borgarfirði eystra þann 27.janúar:

Ofsaveður kom i Borgarfirði [eystra] 27. [janúar]. Olli veðrið þar miklum skaða. Fauk þar þakið af íbúðar- og verslunarhúsi Þorsteins kaupmanns Jónssonar og tók á sjó út.

Þjóðviljinn segir frá því þann 16.febrúar að í sama veðri, 27.janúar hafi mannlaust fiskiskip sem lá á Patreksfjarðarhöfn rekið í land og brotnaði þannig að ekki verði við gert. Í sama blaði segir frá því að maður hafi orðið úti á Miðnesi um mánaðamótin. Vestri getur þess þann 11. febrúar að maður frá Hólmavík hafi um mánaðamótin orðið úti á leiðinni sem nú er kölluð Þröskuldar.  

Aðfaranótt þess 16. strandaði skoskur togari á Breiðamerkursandi, mannbjörg varð. Ingólfur segir frá þessu þann 12.febrúar. Að sögn Vestra þann 18.febrúar strandaði svo annar togari fram undan Þjórsá þann 26.janúar. Mannbjörg varð. 

Þann 28. segir Þjóðviljinn: 

Bessastöðum 28. janúar 1905. Tíðarfar afar-óstöðugt, síðan um þorrabyrjun, 20. þ.m., ýmist hellirigningar, eða útsunnan éljagangur.

Norðurland segir þann 21. frá getgátum um eldgos:

Eldur er sagður uppi í Dyngjufjöllum. Fregnin ógreinileg, höfð eftir manni úr Bárðardal. Hann á að hafa sést bæði úr Bárðardal og úr Mývatnssveit.

Febrúar. Kalt og víða talsverður snjór.

Ingólfur segir frá jarðskjálftum í janúarlok í frétt þann 5.febrúar:

Jarðskjálftakippirnir um síðustu helgi héldu áfram til nóns á sunnudaginn [29.janúar]. Þeirra varð einnig vart hér nærlendis og voru nokkru harðari í Hafnarfirði en hér, en mest bar á þeim suður með sjó. Hrundu veggir á bæ einum í Vatnsleysunum, en aðrar skemmdir urðu ekki teljandi. - Fram við Reykjanesvita koma jarðskjálftar mjög oft, en þar urðu kippir þessir ekki meiri en þar er títt, þótt ekki gæti jarðskjálfta annarsstaðar. Þar komu kippirnir úr suðurátt. Botnvörpuskip var úti fyrir Reykjanesi á sunnudaginn og varð vart við mikla ókyrrð á sjónum allt i einu. Hæfulaust er það, sem flogið hafði fyrir, að eldur hafi sést þar úti fyrir, að því er vitavörðurinn af Reykjanesi sagði, sem var á ferð hér í vikunni.

Þjóðviljinn segir frá tíð í stuttum pistlum:

Bessastöðum 2.febrúar. Tíðin vetrarleg, sem við er að búast; norðan eða austnorðan næðingar, frost nokkur, og snjófjúk öðru hvoru. Bessastöðum 9.febrúar: Tíðin einatt fremur óstöðug, öðru hvoru kafaldshríðar, svo að talsverður snjór er á láglendi. Bessastöðum 16. febrúar: Frosthörkur voru allmiklar hér syðra 10. til 12. þ,m., allt að 10-12 stigum á R, en 13. til 14. gerði hagstæða hláku og stórfellda rigningu og sunnanrok í gær, svo að jörðin sem áður var alsvelluð er nú orðin marauð. Bessastöðum 24.febrúar: Tíðin afar óstöðug og stormasöm, frost og snjóar annan daginn, en hellirigning hinn. 

Vestri segir frá frosthörkum þann 11.:

Frostharka hefir verið mjög mikil nú um tíma. og er þegar farið að brydda á vatnsskorti í vatnsbólunum. Sýnist þegar vera orðin full þörf át því, að gerðar væru ráðstafanir til þess að auka vatnið í safnþrónni svo ekki yrði vatnsskortur á hverjum vetri.

Austri segir þann 18.: „Veðráttan hefir verið hin hagstæðasta næstliðna viku, sunnanvindar og sólskin. Í dag hríð“.

Að kvöldi þess 21. strandaði eimskipið Scandia við Garðskaga. Mannbjörg varð. Ingólfur segir frá þessu þann 28. 

Mars. Hagstæð tíð, jafnvel talin einmunatíð suðvestanlands. Fremur hlýtt.

Þjóðviljinn - sem um þessar mundir gerði út frá Bessastöðum á Álftanesi greinir reglulega frá veðri um þessar mundir:

[7.] Það, sem af er þ.m. hafa haldist einkar hagstæð þíðviðri hér syðra, svo að hagar eru hvívetna nægir.

[13.] Hrein og björt veðrátta síðasta vikutímann, fögur fjallasýn, væg frost, sól — og marauð jörð. Betri góu-veðráttu gátu menn tæplega vænst, að því er til landsins kemur. Til hafsins hefir á hinn bóginn verið all-stormasamt öðru hvoru.

[22.] Tíðin óstöðug, og stormasöm, en að öðru leyti einkar hagkvæm, að því er landið snertir. Til sjávarins á hinn bóginn lítið hægt að hafast að, svo að þilskipin hafa enn sára lítið aflað.

[27.] Það, sem af er einmánuði [hófst 21.mars] hefir tíðin verið rosa- og storma-söm. 22.-23. þ.m. var aftaka sunnanrok, með hafróti, enda féll barómetrið, fyrri daginn niður fyrir storm, og færi betur, að ekkert fiskiskipanna hefði þá orðið fyrir áfalli.

Þjóðólfur birti þann 17.mars pistil úr Meðallandi (líklega ritaðan í febrúar). Þar segir m.a.:

Hausttíð var hér stirð, snjókrassi framan af vetrinum fram að jólaföstu, og mikil snjókoma um tíma. Svo var aftur gæðatíð frá því með jólaföstu fram á nýár, en síðan hafa verið allmiklir umhleypingar, stormar og rigningar, en snjókomur eigi miklar, og yfirleitt má teljast mild veðurátta hér, sem af vetrinum er, þó hafa stöku sinnum komið frost hér nokkuð mikil, en stutt; t.d. 9. [febrúar] rak Kúðafljót saman, svo póstur fór útyfir á ís. Sömuleiðis komu frostíhlaup viðlíka snemma í vetur. 

Þjóðviljinn birti þann 8.apríl bréf úr Rangárvallasýslu, ritað 20.mars (stytt hér):

Veturinn má kallast stórharðindalaus, mjög litlir snjóar, og óðar tekið upp aftur, þó snjór hafi komið; ...  Komi ekki vorharðindi, verða töluverðar heyfyrningar hjá mörgum. ... Tilfinnanlegasta meinið hér er hinn voðalegi vatnaágangur úr Markarfljóti, sem þegar hefir gjört, og heldur áfram að gjöra, stórtjón, þar sem 11 býli eru kornin í eyði, og margt af þeim bestu jarðir; með sama áframhaldi á vatninu verða vist bráðum 20 jarðir í eyði, flestar i Vesturlandeyjum; en 5 hreppa sýslunnar skaðar vatn þetta meira og minna, og er það sannarlega raunalegt, að sjá blómlegustu jarðir algjörlega eyðileggjast á 5 til 6 árum, svo að ekki sést neitt eftir, nema niðurgrotnaðar húsatóftir, en allt annað hulið sandi og vatni.

Vestri segir þann 25.mars frá skiptapa þar vestra:

Miðvikudaginn 22. þ.m. fórst enn bátur héðan frá Djúpi. Um morguninn reru nokkrir bátar úr Bolungarvík og Hnífsdal, en flestir sneru aftur. Þeir sem áfram héldu komust allir
að landi heilu og höldnu, nema einn bátur er hafði uppsátur í Ósvör í Bolungarvík. Hafði Halldór Benediktsson úr Bolungarvík, sem hleypti i Skálavík rekið sig á bátinn mannlausan á reki undir Stigahlíðinni, er hann sigldi vestur. Skipverjar voru sex. Formaðurinn var Benedikt Vagn Sveinsson, lætur eftir sig konu og 6 börn í ómegð.

Apríl. Mjög þurrt á Suður- og Vesturlandi. Úrkomur austanlands framan af, en síðan einnig þurrviðrasamt þar. Fremur kalt.

Austri segir frá þann 29.:

Sá sorgaratburður skeði 5. þ.m. að 2 menn urðu fyrir snjóflóði á Þórdalsheiði neðan í svokölluðu Hallsteinsdalsvarpi, og fórust báðir til dauðs. Mennirnir lögðu frá Areyjum kl. 12 um daginn, og ætluðu sér Þórdalsheiði en þegar þeir hafa komið upp, hafa þeir lagt til dalsins. Héraðsmaður kom ofanyfir daginn eftir, þ.6., og sá þá hund sem þeim hafði fylgt, í flóðinu, Svo fóru menn að leita þeirra á föstudaginn þ.7. og fundu þá báða undir flóðinu, þar sem hundurinn lá. Um þetta slys má segja, að það mun vera með þeim sorglegustu sem fyrir hafa komið, þar flóðið var ekki dýpra en 1 3/6 alin [um 1 m] þar sem þeir fundust.

Norðurland segir þann 8.apríl:

Fram að síðustu dögum hefir hér í langan tíma verið einmuna góð tíð, sólskin og blíða dag eftir dag, eins og á besta vordegi; snjó tók upp nærfellt allan í byggð og víða var holklaki í  vegum. Jörð var svo þíð að einn bæjarbúi hér lét herfa sléttuð flög 27. og 28. mars og er Norðlingum nýtt um að byrja jarðabótavinnu á þeim tíma árs.

Þjóðviljinn segir þann 8.:

Í. þ.m. gerði norðan-hvassviðri, og kuldakast, með allt að 10 stiga frosti R, og færi betur, að þar við stæði, að því er snertir vorharðindin, sem tíðum eru versta meinið hér á landi.

Og þann 22. birti blaðið bréf frá Ísafirði dagsett 11.apríl:

Í gær og í dag hefir verið hér blindhríð, svo að varla sést milli húsa; en fremur er þó frostlítið.  Yfir höfuð hefir ótíð, og illviðri, hamlað mjög öllum störfum manna hér vestra, síðan á nýári, bæði á sjó og landi, og hefir því verið fremur lítið um sjóferðir í vetur, en líkindi til, að fiskur fengist, ef gæftir væru, því að 5., 6. og 7. þ.m. var mikið góður afli hjá mörgum í Bolungarvík; en mjög stendur fiskurinn djúpt, og því engin tiltök, að ná í afla, nema á rígmenntum skipum.

Þann 15., 22 og 29. segir Þjóðviljinn frá tíð:

[15.] Síðan veðráttan snerist til norðanáttar, 4. þ.m., hafa haldist stöðugir norðan-kalsar, og hvassviðri all-oftast.

[22.] Síðan kuldakastinu linnti, fyrir helgina síðustu, hefir tíðin verið einkar hagstæð, oftast hæg og mild veður, og stöku smá-regnskúrir, svo að naumast verður þess langt að bíða, að jörðin fari að litkast, ef lík veðrátta helst.

[29.] Þrátt fyrir nokkurn norðankalsa um páskana [23.apríl] - meira varð eigi af páskahreti hér syðra - virtist sumarið þó ætla að byrja fremur vel; en 28.-29. þ.m. fór ögn að hreyta snjó, svo að jörð varð hvít í morgun, enda stöðug norðan-átt úti fyrir.

Austri segir þann 19. að tíðarfar hafi nú loks gengið til batnaðar og sé nú blítt og bjart á hverjum degi. 

Ísafold birti þann 19. bréf úr Vestmannaeyjum dagsett 14.apríl - og ræðir síðan um vetrarlok [sumardaginn fyrsta bar nú upp á skírdag, 20.apríl]

Janúar og febrúar voru nær sífeld hvassviðri sitt á hverri áttinni með stuttum kuldaköstum og feikna-úrkomu í janúar af regni og snjó. Mars var mjög hlýr að tiltölu og nær óslitnir austanvindar oft mjög hvassir allan mánuðinn. Vertíðin hefir verið óvenjulega gæftastirð sakir stormanna, einkum austanstormanna i mars, og svonefnd sjóveður oft mjög vond og háskaleg. Fiskur gekk hér mikill eftir 10. mars, og mundi hér hafa orðið mjög góður afli með góðum gæftum. Fyrstu vikuna af þ. mán. voru góðar gæftir, en fiskur þá mestur horfinn.

Vetrarlok. Hann hefir verið mjög vægur hér um Suðurland að minnsta kosti, þessi vetur sem nú ríður úr hlaði. Snjólítið mjög og frostvægt eða frostleysur. En ærið stormasamt á útmánuðunum, og því lítið um gæftir. Frost aldrei komist hér upp í 10 stig síðan á nýári. Fáa daga -8 til -9 fyrri part febrúar. Annars sjaldnast meira en 3-4: stig, en mjög oft nokkurra stiga hiti, jafnvel 5-6 stundum. Vestanlands hefir verið nokkuð snjóasamt síðari partinn. Og nokkuð harðari vetur en hér norðanlands og austan. En vægur þó fremur.

Maí. Hagstæð tíð. Hiti í meðallagi.

Lítið var af fréttum af veðri í blöðum í maí - Þjóðviljinn birti þó vikuleg yfirlit, en getur að engu hitabylgjunnar í Reykjavík þann 19. þegar hiti komst þar í 20,7 stig. Fréttablaðið Reykjavík birti að vísu um þetta leyti reglulega hitamælingar veðurstöðvarinnar á föstum athugunartímum og má í þeim lista sjá hæst 18,2 stig kl.14 (15) þann 19.

rvk_t_1905-05-19

Línuritið sýnir hita hverrar klukkustundar í Reykjavík dagana 17. til 20.maí. Dagsetningar á lárétta ásnum eru settar við hádegi viðkomandi dags. Þann 17. er venjulegur maíhiti, en þann 18. varð sæmilega hlýtt, hiti komst í 13,0 stig. Þann 19. rauk hiti upp síðdegis og fór hæst í 20,7 stig kl.16 - kl.17 miðað við núgildandi miðtíma. Ekki er sérstök ástæða til að efast um þessa mælingu - þó engin önnur veðurstöð hafi mælt neitt viðlíka þennan sama dag. Enda lítið af hámarkshitamælum í landinu á þessum tíma og hvorki Vestmannaeyjakaupstaður né Stykkishólmur almennt líklegar til hámarksstórræða. 

Þjóðviljinn lýsir tíð í stuttum pistlum:

[6.] Tíðin einatt fremur köld, og engin veruleg vorhlýindi, enda snjóar öðru hvoru á suðurfjöllin, og hreytir jafnvel stöku sinnum snjó í byggð, þó að eigi festi á jörðu. — 4. þ.m. sneri þó til sunnanáttar og rigninga, svo að tíðin fer nú vonandi að batna.

[12.] Tíðin einatt fremur hagstæð, en þó eigi veruleg hlýindi. 

[20.] Veðrátta köld og rysjótt, enginn vorgróður enn, sem teljandi sé.

[27.] Um síðustu helgi [20. til 21.] brá til hlýinda, og var um nokkra daga gróðrarveður hið besta, en nú er aftur kominn kalsi með næturfrostum.

Þjóðviljinn birti þann 27. bréf ritað á Ísafirði 17.maí:

Tíðin afarillviðrasöm, snjóar öðru hvoru, og frost á nóttum, svo að heita mátti, að allt væri hjúpað fönnum. 13. þ.m. sneri til suðvestan storma, og stórfelldra rigninga, svo að síðan hefir snjóinn leyst óðum.

Og þann 8.júní birti bréfið annað bréf að vestan, dagsett 31.maí:

Tíðin einatt fremur köld; 23.—25. þ.m. gerði hér norðan kuldahret, svo að jörð varð alhvít, og hafa síðan haldist kuldar, og snjó hreytt öðru hvoru, og urðu svo mikil brögð að því 29.—30, þ.m.. að dyngdi niður töluverðum snjó svo að hvergi sá í dökkan blett. — Stafa kuldar þessir óefað af því, að hafísinn, „landsins forni fjandi", er hér að eins fáar mílur undan landi, og við búið, að hann verði þá og þegar landfastur, ef líkri veðráttu fer fram. — Margir bændur hafa orðið að eyða nokkru af korni handa skepnum sinum, enda illt, er slík ótíð er um sauðburðinn.

Júní. Hagstæð tíð. Mjög þurrt lengst af eystra. Hlýtt.

Þjóðólfur segir þann 2.júní:

Frést hefur hingað, að hafís allmikill væri fyrir Horni og úti fyrir Vestfjörðum, en þó hvergi landfastur. Veðurátta hér hefur einnig verið köld að undanförnu og frost á nóttum.

Norðurland segir þann 3.:

Veðrátta hefir verið afarköld að undanförnu, frost flestar nætur. Gróður, sem kominn var, hefir nær því dáið út.

Vestri segir frá hafís þann 17.:

Guðmundur kaupmaður Sigurðsson í Aðalvík kom hingað í gær. Sagði hann að hafís lægi upp undir Straumnes og Kögur og á norðanverðri Aðalvík, og allt sem ein hella að sjá til hafs, eftir sögn þeirra er af fjalli höfðu litið yfir ísinn í góðu skyggni. Í dag segja róðrarbátar héðan, að ís sé kominn hér inn í Út-Djúpið inn undir Bolungarvík og sögðu fullt af síld fram undir ísnum. Engin fregn hefir enn komið um það, hvort „Skálholt“ hefir getað smogið norður um eða hefir teppst á Aðalvík.

Þjóðviljinn lýsir enn veðri:

[15.] Veðrátta hin óblíðasta sem að undanförnu. Kuldastormur og rigningar á degi hverjum. Grassprettuhorfur hinar hörmulegustu, ef eigi rætist von bráðara úr.

[21.] Loks er nú komið sumar og sól, og hefir gróið til muna síðustu daga.

[30.] Tíðin all-hagstæð hér syðra, síðari hluta þ.m., enda tími til kominn eftir alla kulda-næðingana, og grassprettan því óðum að lagast.

Júlí. Stopulir þurrkar lengst af syðra. Hagstæð tíð nyrðra framan af, en síðan úrkomusamt þar. Fremur hlýtt syðra, en í meðallagi nyrðra.

Ekki var mikið rætt um veður í blöðum í júlí. Austri segir þó þann 8. - þetta með 27 stiga hitann á sjálfsagt við mæli í sól (þó skuggi sé nefndur) - síðari frétt nefndi lægri tölur og selsíuskvarða:

Tíðarfar hefir verið með hlýjasta móti í allt vor, á Jökuldal hafði verið 27 stiga hiti á Reaumur í skugganum. Síðustu daga hefir rignt dálítið. Sláttur fer nú að byrja. Eru votlend tún og engjar víðast ágætlega sprottin, en harðvelli miður sökum hinna langvinnu þurrka.

Þjóðviljinn (með aðsetur á Bessastöðum) heldur áfram að birta stutta pistla:

[8.] Tíðin fremur köld hér syðra og grassprettan því enn í lakara lagi.

[14.] Síðustu dagana hefir loks verið hlýindatíð hér syðra, en fremur þurrklítið.

[20.] Tíðin hefir að undanförnu verið óvanalega köld, sem án efa stafar af því, að hafísinn er úti fyrir.

[28.] Sumarið óþurrka- og rigningasamt hér syðra, og óvenjulega kalt. — Síðustu dagana norðankalsar, og nokkur þurrk-flæsa.

Þjóðviljinn birtir þann 28. bréf úr Dýrafirði dagsett þann 21.:

Það sem af er júlímánuði hefir veðráttan verið kaldleg, líkust haustveðráttu, stundum þoku-fýla. með vætu, og óþurrkar, síðan sláttur byrjaði. grasspretta er enn ekki í meðallagi, og veldur því kuldinn í veðrinu. — Sjómenn, er nýlega komu inn á Dýrafjörð, segja hafís við Horn, og mikinn ís á Strandaflóa, svo að hvalveiðamenn á Tálknafirði hafa eigi getað flutt vestur fyrir land 17 hvali, sem þeir eiga geymda á Siglufirði.

Þjóðólfur birti þann 22.september bréf dagsett 23.júlí í Mjóafirði:

Veðurátta er hér góð. Hitar og þurrkar hingað til síðan fyrir uppstigningardag, en brá nú um helgina til votviðra. Grasvöxtur sæmilegur, einkum á deiglendi. Byrjað að slá fyrir 3 vikum síðan. Fiskiveiðar hafa gengið mjög illa hér fyrir Austurlandi hingað til, og beita lítil. En nú fer vonandi að batna úr beituskorti, því síld er farin að veiðast í reknet hér úti fyrir fjörðunum.

Þjóðólfur birtir þann 25.ágúst bréf úr Þingeyjarsýslu ritað 30.júlí:

Tíðin hefur verið mjög góð, þó heldur þurrkasöm fram í þennan mánuð, svo grasspretta er talsvert lakari hér en hún var í fyrra, einkum á þurrvelli; munu töður manna því yfirleitt verða minni en i fyrra. Um afla get ég lítið sagt, þar sem ég bý svo framarlega í sýslunni, en talsvert fengu Húsvíkingar og Tjörnesingar af hrognkelsum í vor, og síðan hef ég frétt, að fiskvart hafi orðið, þegar hægt hefur verið að róa fyrir stormi, ýmist sunnan eða norðan. Áttirnar hafa skipst á líkt og ræðumenn á fundum hér, og orðið nokkuð hátalaðar á stundum.

Ágúst. Góðir þurrkar á Suður- og Vesturlandi og hiti í meðallagi. Fremur kalt og úrkomusamt nyrðra.

Austri segir af rigningu í pistli þann 12.ágúst:

Ofsaveður og rigning var hér 5. og 6. þ.m. Vatnagangur varð mjög mikill og hlupu þá skriður á stöku stað hér út í firðinum og gjörðu nokkurn skaða á túnblettum, Stærsta skriðan hljóp á bræðsluhús Imslands kaupmanns og eyðilagði þau að mestu. Er skaðinn álitinn 2000 kr.

Ísafold segir frá heyskap og tíð í pistli þann 23.:

Veðrátta kalsasöm enn mjög. Ætlar ekki að lagast. En þurrkar allgóðir hér sunnanlands. Fyrir norðan afleitir langt fram yfir túnaslátt. þó náðust töður loks inn þar, í 2. viku þ.m., hraktar og skemmdar orðnar mjög víða. Grasvöxtur fram undir meðalár víðast, er til hefir spurst. Engjar þó snöggvar heldur sunnanlands, vegna kuldanna.

Þjóðviljapistlar halda áfram:

[5.] Tíðin afar-köld síðustu dagana, sífelldir norðan-kalsar en þurrkar góðir, og var þeirra síst vanþörf.

[12.] Tíðin einatt mjög kaldhryssingsleg, sífelldir norðan-kaldar, en þurrkur nær daglega, síðan um mánaðamótin.

[19.] Tíðarfar öllu mildara en áður, síðustu vikuna, og má að líkindum vænta þess, að seinni partur sumarsins verði nú góður, eftir kuldana, sem gengið hafa.

[26.] Tíðin hagstæð síðustu vikuna, all-oftast þurrkar og hreinviðri, en tíðin fremur köld.

September. Úrkomusamt nyrðra og einnig á Suður- og Vesturlandi um miðjan mánuð. Hiti í meðallagi.

Ísafold birtir þann 28. september bréf úr Mýrdal dagsett þann 4.:

Þetta sumar hefir verið eitt af þeim allra bestu, er menn muna, svo að útlit er fyrir, að hagur manna hér fari að standa i blóma, ef slík árgæska helst framvegis. Fénaðarhöld voru með besta móti i vor og enginn heyjaskortur. Sauðfénaður skilaði því ullinni vel, svo að aldrei fyrr mun jafnmikil ull hafa verið lögð inn i Víkurverslanir, eins og í vor; enda hefir heldur ekki í langa tíð verið gefið jafnvel fyrir hana.

Þjóðviljinn birtir þann 25.september bréf af Hornströndum dagsett þann 8.:

Sumarið sem nú er að líða, hefir verið eitt af bágustu sumrum, sífelldar norðan-þokur, og þar af leiðandi óþurrkar, og kuldar, einkum síðan í byrjun 16. viku sumars. — Flestir náðu þó töðum sínum lítt hröktum, en lakar hefir farið um útheyið, og hjálpaði þó nokkuð, að nú um mánaðamótin komu 3 þurrkdagar. — Síðan 4. þ.m. hefir verið ofsa-norðanveður, og snjór fallið allmikill til fjalla.

Í sama blaði er líka bréf frá Ísafirði, dagsett þann 15.:

Sumarið óvanalega kalt, og stormasamt, og því miður hafa þær vonir manna að haustið yrði skárra, enn ekki viljað rætast. 4. þ.m. gerði ákaft norðanveður, er stóð í nær viku, með all-miklum kuldum, og fönn til fjalla. — Veður þetta seinkaði mjög ferðum „Lauru", er eigi treystist fyrir Hornbjarg, og lá því 3—4 daga á Aðalvik, uns veðrinu tók að slota, — Á stöku bæjum misstu bændur nokkur hey í veðrinu, og var það mönnum því bagalegra þar sem heyfengurinn er víðast í minna lagi, Sakir illrar sprettu. Nýting heyja hefir á hinn bóginn gengið nokkurn veginn, þrátt fyrir töluverða óþurrka.

Þann 16. varð eitt hörmulegasta slys ársins á sjó. Þá fórust 11 manns, þar af 5 systkin á litlum bát við Akranes. Ísafold segir svo frá þann 20. (stytt hér):

Hvernig þetta slys hefir að borið, er mönnum óljóst; veður var hvasst á landsunnan, leiði, fór hvessandi, varð ofsaveður um það leyti sem hér var komið, enginn séð til ferða þeirra, fáir litu út til sjóar, því nú var komið vont veður. Skipið hefir komið að landi á Suðurflös (miðflösinni) og brotnað þar þegar í spón. Eftir að menn hér urðu varir við ófarirnar, hlupu þeir með lífsháska út á skerið, fundu þegar mikinn farangur rekinn og 2 manna lík, sem þeir þá gáfu sig mest við að koma á land, því aðfall var og varð ekki komist aftur út á flösina, en farangurinn hefir þó rekið mestan upp, því vindur hefir staðið á land.

Hér í bænum er svo frá sagt af kunnugum, að systkinin 5 hafi ætlað að vera ein saman á bátnum, og þótt vera nóg, með farangrinum, koffortum o.fl. skrani. En smámsaman bættust við farþegar eða farbeiðendur ekki færri en 6 að lokum.

Austri segir af tíð þann 19.september:

Tíðarfarið er mjög óstöðugt. Að kvöldi hins 14. gjörði ofsarok af sunnanátt, sleit þá upp og hrakti fjölda báta. Tveir mótorbátar hér í firðinum löskuðust talsvert.

Þjóðviljinn segir þann 25.:

Fimm skip hafa rekið á land á Siglufirði í norðan-veðrinu í öndverðum september, en manntjón þó eigi orðið, að getið sé.

Ísafold segir af heyskap og heyskapartíð í pistli þann 28.:

Sigurður ráðunautur Sigurðsson, nú nýlega heimkominn, að miklir þurrkar hafi gengið frá því í miðjum júní og fram í miðjan júlí allstaðar norðanlands og austan, með hita um daga töluverðum, en kulda á nóttum. þá var einn dag, snemma í júlímánuði, 22—24 stiga hiti (C.) í forsælu á Jökuldal. Grasvöxtur varð lítill heldur vegna þurrkanna, og harðvellistún brunnu nokkuð. En útjörð sæmilega sprottin. En um miðjan júlímánuð brá til óþurrka um þetta svæði mestallt, norðanlands og austan, og stóðu þeir sláttinn út að miklu leyti, þótt flæsur kæmu fáa daga snemma í september. Svona var um allt Norðurland, austur að Vopnafirði. Þar hröktust töður mjög og nýttust illa að lokum. Austanlands voru óþurrkakaflar styttri. Þar náðist helmingur af töðum óhrakinn og vel það. Við Breiðdalsheiði skipti um, og var hin hagstæðasta tíð alt sumarið þaðan frá og suður á Rangárvöllu hér um bil.

Og þann 7.október birti Þjóðviljinn bréf frá Ísafirði, dagsett 26.september:

Hér má heita sífelld ótíð, suðvestan stormar, og bleytuslög, síðan norðanveðrinu, er hófst í öndverðum september linnti, og hefir septembermánuður því orðið almenningi mjög arðlítill þar sem sjaldan hefir orðið snert á fiskþurrki, og aflatregt til sjávarins, þá sjaldan er á sjó hefir gefið. Aðeins 2—3 síðustu dagana hefir tíðin verið hæglát og mild. — Fyrir landbændur hefir ótíðin í september einnig verið mjög bagaleg.

Október. Hagstæð tíð, en fremur köld.

Þann 17. er enn bréf frá Ísafirði í Þjóðviljanum, dagsett 5.október:

Hér er nú jörð öll snævi þakin og frosthýingur á Pollinum. enda grenjandi norðangarður undanfarna daga, sem nú er þó slotað.

Vestri kveður sumarið þann 21.október - af einhverjum ástæðum er skárra hljóð í honum en í bréfum til Þjóðviljans að vestan:

Sumarið kvaddi mjög þýðlega í gær, en hefir þó oft þótt kalt í viðmóti. Samt sem áður hefir það verið fremur hagstætt og gott sumar, einkum til lands. Heyafli hefir víðast verið heldur góður eftir fólksástæðum, en það sem mestu hefir skipt er það, að landafurðir hafa verið i óvanalega háu verði, og má því ætla, að landbúnaðurinn standi í betri blóma en áður. Til sjávarins hefir sumarið verið misjafnara, en þó allgott, einkum fyrir það, að verðlag á fiski hefir verið afar-hátt, og hefir því fiskiútvegur yfirleitt borgað sig vel. Sunnlensku skipin hafa aflað með minna móti, en viða hér á Vestfjörðum hafa þilskip aflað vel. Veturinn hei1sar engu óþýðlegar en sumarið kvaddi, en hvað hann ber í skauti sinu, verður tíminn að sanna.

Vestri segir þann 26.október:

Um fyrri helgi var stillt veður og gott, en nú þykir aftur á móti vera farið að hausta að. Í gær var hellirigning um morguninn og kafalds-krapi mestan hluta dagsins. En í dag er kominn norðan garður með 7 stiga frosti og fannkomu.

Þjóðviljinn segir frá októberveðrinu í nokkrum pistlum:

[7.] Veðrátta köld og óstöðugt, ýmist norðan stormur eða rigning.

[17.] Veðrátta hefir verið all-góð fyrirfarandi daga, frost og hreinviðri oftast.

[23.] Tíðarfar hefir verið fyrirtaks gott síðustu viku; þurrviðri og stillur, með örlitlu næturfrosti oftast.

[30.] Tíðarfar fremur óstöðugt síðustu vikuna, ofsastormur, og hellirigning, 23.—24., en 25. þ.m. norðanveður, og snjór til fjalla.

Bréf úr Berufirði, dagsett 25.október birtist í Ingólfi 5.nóvember:

Grasvöxtur var góður í sumar og nýting ágæt, því að þurrkar voru ómunarlega góðir hér á Austfjörðum í sumar.

Austri birtir 29.nóvember bréf úr Austur-Skaftafellssýslu dagsett 26.október:

Nú er sumarið á enda, og hefir það verið eitthvert hið bjartasta og hagstæðasta sumar, sem menn muna hér um slóðir. Reyndar var nokkuð kalt framan af, en gras spratt þó víða vel, og heyskapur var yfirleitt góður, sumstaðar í besta lagi. Í júlímánuði var nokkuð vætusamt um tíma, en ekki til baga. Haustveðráttan hefir verið góð, og óvanalegar stillingar og blíður um veturnæturnar.

Nóvember. Hagstæð tíð lengst af. Snjókomur nyrðra síðustu vikuna. Fremur kalt nyrðra, en annars fremur hlýtt.

Ísafold segir þann 4.:

Miklar stillur hafa verið hér svo vikum skiptir, oft heiðríkja dag eftir dag, með dálitlu frosti og auðri jörð nema til fjalla. Haustið allt óvenju hægviðrasamt.

Austri segir frá tíð þann 11. og 20.:

[11.] Veðráttan hefir verið fremur óstillt, snjór féll nokkur í fyrri viku, en nú síðustu dagana hefir verið rigning og snjólaust orðið að heita má upp undir fjallatinda. [20.] Öndvegistíð má nú heita að sé hér eystra. Blíðviðri á degi hverjum og því marauð jörð. 9 stiga hiti í dag.

Vestri þann 25.:

Tíðarfar hefir verið mjög milt nú undanfarið, og snjólaust yfir allt, þar til nú tvo síðustu dagana að snjóað hefir lítilsháttar og kólnað svo að mest hefur verið um 7 gr. frost að nóttunni.

Ingólfur segir þann 26.:

Landskjálfta hefir nýskeð orðið vart í Rangárvallasýslu í nánd við Heklu og er sagt, að fólk hafi flúið á burt frá Næfurholti, sem er næsti bær við Heklu. Fréttin er eftir manni að austan.

Þjóðviljinn segir frá nóvemberveðri í stuttum pistlum:

[8.] Tíðarfarið mjög ákjósanlegt síðasta vikutímann, sífelld stillviðri, og oftast nokkuð frost.

[15.] Tíðarfarið votviðra- og rosasamt, en þó yfirleitt hið hagstæðasta, að því er landið snertir.

[22.] Tíðarfar fremur votviðrasamt, en snjólaust jafnan, þó að eigi sé nema rúm vika til jólaföstu.

[27.] 24. þ.m. féll hér syðra nokkur snjór, svo að jörð var alhvít í fyrsta skipti á vetrinum, og hefir síðan verið norðanátt, og frost nokkur.

Vestri segir frá 2.desember:

Ofsarok var hér síðastliðinn miðvikudag [29.nóvember] og nóttina eftir. Ýmsir höfðu róið um morguninn, en sneru aftur og komust heilu og höldnu heim. Á húsum gerði veðrið víða talsverðan skaða, braut glugga, reif af þök o.fl.

Norðri birti þann 5.janúar 1906 bréf frá Sauðárkróki, dagsett 1.desember:

Sumarið þótti erfitt og einkum urðu margir illa undir með töður sínar, og fengu þær hraktar og sumstaðar talsvert skemmdar, en útheyskapurinn mun hafa gengið í meðallagi, eða fast að því. Haustið og það sem af er vetrar hefir bætt upp sumarið, því heysparnaður er það mikill, að til síðustu daga var víða ekki farið að hára fullorðnu fé; um hestana er ekki að tala, þeir fá hér tæpast hey, fyrr en svo mjög slær í harðbakkana, að dauðinn stendur fyrir dyrum horaðra hrossanna.

Desember. Nokkuð rysjótt tíð á Suður- og Vesturlandi framan af, en annars hagstæð tíð. Fremur hlýtt.

Þjóðólfur segir frá tíð þann 10.desember:

Veðrátta hefur verið óvenjulega rysjótt og stormasöm það sem af er þessum mánuði, og hefir það tafið mjög fyrir skipaferðum. „Kong Tryggve“ er átti að fara héðan til vesturlandsins á sunnudaginn var, lagði af stað í gær, en varð að snúa aftur, fór aftur af stað í dag og kemst líklega leiðar sinnar, enda þótt sjór sé enn mjög úfinn og ókyrr úti fyrir.

Þjóðviljinn segir af veðri í desember - fyrstu þrír pistlarnir nánast eins:

[6.] Tíðarfar fremur stirt síðasta vikutímann, útsynnings-kafaldshríðar og umhleypingar.

[14.] Tíðarfar afar óstöðugt, og stormasamt, síðasta vikutímann, ýmist rigningar, eða kafaldshríðar.

[21.] Tíðarfarið afar-óstöðugt og stormasamt, og stórfelldar rigningar.öðru hvoru, eða kafaldshríðir.

[30.] Tíðin einkar hagfelld, síðan fyrir jólin, hæglát veðrátta, og marauð jörð.

Mikið vestanveður gerði dagana 11. til 13. desember. Austri segir frá þann 20.:

Ofsaveður gjörði hér eystra 12. þ.m. Urðu skaðar af því bæði hér í firðinum og nærliggjandi fjörðum. Hér út með firðinum fuku bátar og þök af útihúsum, hey o.fl. Þá skekktist og á grunninum hið svonefnda Patersonshús á Hánefstaðaeyrum. Í Borgarfirði urðu töluverðir skaðar, þar fuku 3 bátar, bræðsluskúr sem Þorsteinn kaupmaður Jónsson átti, þök af húsum o.fl. Tveir menn meiddust þar líka í þessu ofviðri. Feykti veðrið þeim nokkra faðma, svo annar þeirra meiddist að mun.

Norðurland segir af tjóni í veðrinu nyrðra í pistli þann 30.desember:

Ofviðri mikið fór hér yfir héraðið 12. þ.m. af vestanátt. Hafa sumir líkt því við septemberveðrið mikla árið 1900. en þó mun það ekki hafa verið jafnmikið, síst allstaðar. Töluverðan skaða gerði veður þetta. En mest kveður þó að þeim skaðanum, að Holtskirkja í Fljótum fauk í veðri þessu. Kirkja þessi var byggð fyrir fáum árum og mun hafa verið vandaðasta og álitlegasta kirkjan þar vestur frá. Húsið var byggt undir umsjón herra kaupmanns. E.B.Guðmundssonar á Haganesvík. Hafði hann gert sér mjög annt um að sem vandlegast væri gengið frá kirkjubyggingunni, látið festa hana niður á öllum hornum með sterkum járnfestum og fylla milli útveggja með smágrjóti, jafnt efri brún á gluggum. Væntanlega hefir eitthvað bilað við forkirkjuna og turninn upp af henni og veðrið svo komist inn í kirkjuna sjálfa og lyft henni upp. Járnböndin á hornum kirkjunnar biluðu á þann hátt að kengir drógust út úr báðum stoðum á suðurhlið, en járnfestar slitnuðu á báðum hornum á norðurhlið. Aðalfestan að neðan við öll horn kirkjunnar hafði ekkert rótast. Önnur hlið kirkjunnar er að sögn mikið til heil og aflviðina má nota, orgelið hafði ekki verið mikið skemmt, altarisbríkin var ófundin. Húsið hafði kostað um 6000 kr. og er tjónið því mikið fyrir sóknina. Á sama bæ sleit opið fjárhús og svipti ofan af, en í Siglufirði fauk 20 hesta hey. Í þessu veðri fauk þinghús Arnarneshrepps. Hafði það nýlega verið flutt af Hjalteyri út í Arnarnesvík. Á Kjarna í Arnarneshreppi fauk þak af hlöðu, en á Hömrum í Hrafnagilshreppi fauk timburhús, sem ekki hafði verið fullsmíðað.

Ingólfur er með svipaðar fréttir af veðrinu þann 21.janúar 1906, en nefnir fleiri staði:

Ofsaveður vestrænt var á Norðurlandi 12. desember. Koma sjaldan slík. Þá fauk nýleg kirkja á Holti í Fljótum; kostaði um 6000 kr. Þar svipti og þaki af fjárhúsi, og í Siglufirði fauk 20 hesta hey. — Þá fauk og þinghús Arnarneshrepps í Eyjafirði, er nýlega hafði verið niður sett i Arnarnesvík. Á Kjarna í Arnarneshreppi fauk þak af hlöðu og á Hömrum í Hrafnagilshreppi timburhús, sem var í smíðum. Í Húsavik fuku þrír bátar og við Kópaskersvog tók út nær 2000 pund af kolum og steinolíufat, sem Þórður læknir Pálsson átti.

Reykjavík segir þann 13.:

Ofsarok var hér aðfaranótt mánudags [11.desember] og morguninn eftir. Mesta mannhætta var að vera á gangi sumstaðar í austurbænum, því að járnplöturnar úr þakinu á Félagsbakaríinu, sem brann, flugu í loftinu eins og skæðadrifa, og mátti stór mildi heita að enginn bar af örkuml né bana. En hér í bæ er engin lögreglustjórn eða eftirlit með neinu.

Vestri segir frá hafís þann 16.:

Botnvörpungar, sem komu inn í gær, sögðu hafís mikinn úti fyrir. Þeir komu héðan af Ísafirði morguninn áður og sáu þá ísinn er þeir komu út af Aðalvík, var hann á hraðri ferð inn, og ófært út úr honum. Þeir ætluðu að fara að fást þar við veiðar, en ísinn bar svo fljótt að þeim, að þeir urðu að hætta við og skilja eitthvað eftir af veiðarfærum er þeir höfðu lagt. Sneru þeir þá við og ætluðu að komast út úr ísnum sunnanvert, með Stigahlíð, en þar var ísinn líka kominn svo þétt að landi, að ófært virtist, enda var þá farið að dimma.

Í sama blaði er frétt af skipstrandi:

„Grunnavíkin“ nýr mótorbátur, sem síra Kjartan Kjartansson í Grunnavík lét smíða í sumar, rak í land í Nesi í Grunnavík síðastliðinn laugardag [16.desember] og brotnaði í spón, en vélin náðist að mestu eða öllu óskemmd. Báturinn var þiljubátur allstór og dýr, og óvátryggður að öllu leyti.

Þjóðólfur birti þann 25.janúar 1906 bréf úr Eyrarsveit á Snæfellsnesi dagsett 5.desember:

Sumarið síðastliðna var mjög hagstætt, hvað tíðina snertir, sérstaklega eftir að heyvinna byrjaði; grasvöxtur í góðu meðallagi, og hefur því víðast hvar heyjast fremur vel; tíðin í haust frá því nokkru fyrir veturnætur hefur verið óminnilega góð. Aflabrögð fremur góð, enda oft gefið að róa. Í Eyrarsveit t.d. eru hæstu hlutir orðnir 9—10 hundruð, og er þó nokkuð til vertíðarloka.

Norðri birti þann 12.janúar 1906 bréf af Fljótsdalshéraði dagsett 18.desember:

Tíðarfar hefir verið gott; þótt það hafi verið fremur óstöðugt, þá hefir fallið vel í högum og ekki verið stórfeldar hríðar. Útigangspeningi hefir því liðið vel. Sauðfé ekki gefið nema lítið eitt á Út-Héraði, og lömb gauga enn á nokkrum stöðum sjálfala. — Hestar víða nýteknir á gjöf á Út-Héraði, en efra hvergi; enda er jörð auð efra en ytra með töluverðu skefli. Heyforði frá sumrinu allgóður nema töður verkuðust víða illa, og er ekki látið vel af nyt kúa. Fjárhöld eru góð. 

Vestri segir þann 30. að einmunaveður hafi verið um jólin, stillur og góðviðri.

Austri segir frá veðri í pistli á gamlársdag:

Afbragðsveður hefir verið hér um öll jólin, bjart og kyrrt, með litlu frosti. Færðin eins og á fjalagólfi, jafnt innsveitis sem á fjallvegum uppi. Má nú heita auð jörð upp undir fjallatinda hér í fjörðum. Gamla árið kveður í dag með blæjalogni og þíðviðri.

Lýkur hér að sinni frásögn hungurdiska af árinu 1905. Að vanda má finna ýmsar tölulegar upplýsingar í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 59
  • Sl. viku: 399
  • Frá upphafi: 2343312

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 361
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband