Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2018
31.7.2018 | 13:34
Á síðasta degi júlímánaðar
Veðurlag í júlí hefur í heildina verið svipað og mánuðina tvo á undan. Sólarlítið og fremur svalt á landinu sunnan- og vestanverðu, en meira um bjartviðri og hlýja daga austanlands. Munur á milli landshluta er þó ívið minni en í fyrri mánuðunum tveimur.
Taflan sýnir hvernig meðalhiti mánaðarins raðast meðal annarra júlímánaða aldarinnar, 18 alls.
röð | ár | mán | spásvæði | |
17 | 2018 | 7 | Faxaflói | |
16 | 2018 | 7 | Breiðafjörður | |
16 | 2018 | 7 | Vestfirðir | |
15 | 2018 | 7 | Strandir og Norðurland vestra | |
10 | 2018 | 7 | Norðurland eystra | |
4 | 2018 | 7 | Austurland að Glettingi | |
1 | 2018 | 7 | Austfirðir | |
11 | 2018 | 7 | Suðausturland | |
16 | 2018 | 7 | Suðurland | |
14 | 2018 | 7 | Miðhálendið |
Við Faxaflóa er mánuðurinn sá næstkaldasti á öldinni, ómarktækt kaldara var í júlí 2002. Aftur á móti er hann sá hlýjasti á öldinni á Austfjörðum - nærri miðju á norðurlandi eystra og á suðausturlandi.
Að tiltölu hefur verið hlýjast á fjöllum eystra, jákvætt vik miðað við síðustu tíu ár er mest á Gagnheiði og Fjarðarheiði, +1,5 stig. Neikvæð vik eru mest á Hraunsmúla í Staðarsveit og á Botnsheiði, -1,8 stig miðað við síðustu tíu ár.
Á landsvísu reiknast meðalhiti í byggð 10,1 stig (endar e.t.v. í 10,2), mun kaldara var í júlí 2015 og júlímánuðir áranna 2001 og 2002 voru einnig kaldari en nú.
Úrkoma er ofan meðallags um nær allt land - virðist þó vera neðan meðallags á Austfjörðum. Sólarleysi hefur haldið áfram að hrjá íbúa Suður- og Vesturlands. Sólskinsstundir í Reykjavík meðal þeirra fæstu í júlímánuði, þó verður ekki um met að ræða.
Júlíuppgjör Veðurstofunnar með meðalhita, úrkomu og sólskinsstundafjölda ætti að sýna sig næstu daga.
30.7.2018 | 22:33
Af árinu 1887
Harðindin héldu áfram árið 1887. Þó var almennt betur látið af tíð heldur en árin á undan, sérstaklega um landið sunnanvert. Slæm hret voru mörg, en skárra á milli. Hafís var mikill og var við land allt sumarið á enda - og sneri svo aftur strax í desember.
Enginn mánuður ársins var hlýr, þrír nærri meðallagi. Það voru janúar, febrúar og júní. Mjög kalt var í júlí, nóvember og desember. Aðrir mánuðir voru kaldir. Mesta frost ársins mældist í Möðrudal þann 10.desember, -28,2 stig, en hæsti hámarkshiti 25,4 stig á Teigarhorni 25.júní. Sumarfrost fylgdi hafísnum sums staðar við strendur landsins. Til dæmis var -3,0 stiga frost í Grímsey þann 4.júlí og -4,6 stiga frost mældist á Raufarhöfn 23.ágúst. Í Papey mældist frostið -0,8 stig þann 13.ágúst.
Meðalhiti ársins í Reykjavík reiknast 2,6 stig, en 2,4 stig í Stykkishólmi.
Myndin sýnir hámarks- og lágmarkshita hvers dags í Reykjavík 1887 (fáeina daga vantar). Vetur og vor einkennist af miklum sveiflum og tvö síðbúin kuldaköst sérlega áberandi. Það fyrra kennt við sumarmálin. Laugardaginn 23.apríl var hámarkshiti í Reykjavík -8,0 stig og nóttina eftir mældist frostið -12,5 stig.
Nærri mánuði síðar gerði annað slæmt hret. Frost fór þá í -5,6 stig í Reykjavík (18.maí) og komst í -6 stig í Vestmannaeyjum. Hret þetta var lengi í minnum haft og kennt við uppstigningardag 19.maí.
Mjög kalt var um sumarið, ekki síst upp úr 20.júlí. Meðalhiti í Reykjavík þann 24. var aðeins 4,9 stig. Enn standa tíu dægurlágmarksmet í Reykjavík frá árinu 1887 og 8 á Akureyri. Ritstjóri hungurdiska telur 27 mjög kalda daga á árinu í Reykjavík en engan hlýjan. Í Stykkishólmi telur hann 31 mjög kaldan dag. Í viðhenginu má sjá lista yfir þessa daga.
Úrkoma var mjög mikil í Reykjavík, mældist 1107 mm, en á sunnanverðum Austfjörðum var þurrt. Úrkoman á Teigarhorni mældist ekki nema 572 mm.
Lægsti loftþrýstingur ársins mældist í Vestmannaeyjum 17.janúar, 954,3 hPa, en hæstur 1048,1 hPa þann 10.mars í Stykkishólmi.
Ekki er mikið um fréttir af foki þó umhleypingar hafi verið miklir.
Hér á eftir er stiklað á veðurtíðindum ársins eins og fjallað var um þau í blöðunum. Að vanda er stafsetning færð til nútímahorfs (að mestu). Ekki er nema hluti sjóslysa tíundaður - heldur fleiri eru nefnd í atburðaskrá í viðhenginu. Þar má einnig finna meðalhita einstakra mánaða á veðurstöðvunum, upplýsingar um úrkomu og sitthvað fleira.
Í Fréttum frá Íslandi má lesa um almennt árferði 1887:
Veðrátta var um veturinn óstöðug, nokkuð snjóasöm, með hryðjum og stormum; þó ekki frosthart ... ; jarðleysur héldust þó víða lengi, svo sem í Dölum og í Múlasýslum, en um miðþorra gerði góða veðráttu um tíma um land allt. Fyrri hluti mars var stormasamur með hryðjum og því hagleysum; síðan brá til hægviðra; en um páska komu aftur hríðir með frosti og um fyrstu sumarvikuna var hart kast: norðanbál og frost í mesta lagi ... . Úr því stóð fremur hagstæð veðrátta til 17. og 18. maí: uppstigningardagskastið; þá var frostmikið og snjóburður um land allt, þó vægast austanlands; fennti sauðfé og jafnvel hesta, og fé hrakti til bana í ár og vötn, einkum þar sem því hafði verið sleppt, t.a m. í Þingeyjarsýslum og sumstaðar í Húnavatnssýslu.
Í júní var og kalsaveðrátta og vætusamt mjög, einkum seinni hlutann; hafði hafís rekið að Norðurlandi um sumarmál; hélst hann þar á reki inn og út fram yfir höfuðdag, og við Austurland kom hann í maí-byrjun og var oft landfastur um sumarið; komst hann vestur á móts við Kúðafljótsós seint í ágúst; í október og nóvember var þó talið íslaust hér við land eins og vant er; en í desember varð hans aftur vart við Horn og Skaga. Þó var yfir höfuð góð sumarveðrátta og framúrskarandi góð um Suðurland og Austurland; en annarstaðar nokkrar svækjur og molla, enn þó furðanlega og jafnvel fádæma hlýtt veður og þurrt, enda áttin sjaldan af norðri; þó vóru nokkur næturfrost nyrðra, er á leið sumarið.
Í sept. (9.) gerði hríðarkast nyrðra og jafnframt eftir miðjan mánuðinn ákafar rigningar víða um land, nema austanlands, svo að menn misstu mörg hundruð heyhesta í flóðum; um mánaðarlokin (27.-28.) varð snjókoma svo mikil nyrðra, t.d. í Þingeyjarsýslu, að fé fennti víða, en vatnagangur varð svo mikill, einkum í Eyjafirði, Skagafirði og Húnavatnssýslu, að óminnilegur þótti; féllu þar skriður svo undrum sætti og tók af vegi (t. d. mikið af hinum nýja póstvegi yfir Öxnadalsheiði og víðar) og fjöldamargar jarðir skemmdust að meiru og minna leyti í Eyjafirði (t.d. í Svarfaðardal að sögn 17 jarðir) og í Skagafirði; hljóp ómuna-flóð í Héraðsvötnin; skriður féllu þar og stórkostlega, einkum í Heiðardal, og eins austantil í Húnavatnssýslu. Sumstaðar tóku skriður þessar af hús, fénaðarhús og urðu skepnum að bana.
Haustið var upp frá því gott víðast um land: stillur, frost og fannkoma lítil, og stóð sú tíð að mestu fram til ársloka; þó var frosthart nyrðra ... og óstöðug veðrátta (einkum fyrri hluta desember) með snjóburði, enn skánaði seinni hluta mánaðarins.
Eldgos þóttust menn verða varir víð úr Vatnajökli síðari hluta sumars, enn engin brögð urðu þó að því. Jarðskjálfta varð aftur vart við að mun; fyrst 27. febr. í Reykjavík, þó linan kipp einn; enn 23. okt. varð jarðskjálfta vart víða um land; urðu einkum mörk að honum á Reykjanesi. Í Valahnjúk, sem vitinn stendur á, komu 3 eða fleiri sprungur fáar álnir frá vitanum og hrundi nokkuð framan úr, og 9 glös í vitanum sprungu áður enn slökkt varð. 13. nóv. varð aftur vart jarðskjálfta þar og skömmu síðar hrundi 7 faðma langt stykki framan úr hnjúknum örskammt frá vitanum.
Grasvöxtur var almennt talinn í betra lagi og ágætur sunnanlands og nýting varð góð yfir höfuð; enn hey drap mjög, einkum norðanlands, í haustrigningunum og lá við skemmdum og brann sumstaðar, enda nokkuð djarflega hirt að venju í upphafi. Eldiviður náðist seint sökum júní-rigninganna og fiski hélt þá við skemmdum. Skepnuhöld urðu hin verstu norðanlands og vestan, svo að jafnað var til ársins 1882; olli því mestmegnis heyafli hins liðna árs, er bæði var lítill, enn reyndist þar á ofan afarilla að gæðum: heyin bæði skemmd, óholl og létt, og heyásetning afardjörf allvíða, eins og vant er ...
Janúar: Hagleysur og tíð stirð. Mikil útsynningshryðja með mikilli snjókomu sunnan- og vestanlands síðustu vikuna.
Jónas Jónassen segir frá snjó og/eða útsynningum í janúarpistlum:
[12.] Umliðna viku hefir mátt heita mesta stilling á veðri, oftast verið við hæga austanátt hér, þótt útsynningur hafi verið undir; við og við hefir snjóað talsvert, svo hér er nú eigi alllítill snjór á jörðu.
[19.] Umliðna viku hefir oftast verið útsynningur með byljum, oft bjartur á milli; stundum hér brugðið fyrir slyddubyl og rigningarskúrum. Kl. 9 1/2 á föstudaginn (14.) heyrðist ein þruma langt í burtu. Í dag (18.) hægð á veðri, útsynningur, bjartur. Snjór hér æði mikill.
[26.] Alla vikuna hefir verið útsynningur, stundum hvass með svörtum éljum; kveldið 22. gekk til landsuðurs með talsverðri rigningu; síðan hefir verið mátt heita logn hér og fagurt veður; útsynningur hefir einlægt verið til hafsins; brimað hefir fremur lítið.
[2.febrúar] Alla vikuna hefir verið útsynningur oftast hvass og oft með blindbyl frá morgni til kvelds t.a.m. h. 29. Þann 31. gekk hann til útnorðurs hvass um tíma, lygndi að kveldi, og í dag er hér hæg austanátt, en útsynningur er undir.
Fróði segir þann 22. frá miklum mannskaða sem varð þann 3.:
Manntjón ákaflegt varð á Skagaströnd 3. þ.m., fórust þar 5 bátar í fiskiróðri með 27 manns.
Ívið nánar er sagt frá slysinu í Þjóðviljanum þann 23.mars:
Hinu 3. janúar síðastliðinn var róið 7 skipum til fiskjar af Skagaströnd í góðu veðri, en öndverðlega dags skall hann á með ákaflega mikinn hríðarbyl. Einn formaðurinn, er fyrst hafði var að fara í land, er veðrið skall á, og komst klakklaust af. Annar náði við illan leik innarlega á ströndinni, en 5 skipin fórust og allir menn á. Eitt skipið rak á í Þingeyrarsandi, en 4 á Vatnsnesi. Ekki hefur heyrst, að nein líkin hafi rekið. Alls fórust 24 menn, allir úr Hofs- og Spákonufellssóknum er misstu þannig fjórða hluta verkfærra manna og voru þeir nær því allir hinir vöskustu til sjósóknar, og á besta aldri. Tveir voru vart tvítugir; 10 milli tvítugs og þrítugs; 12 yfir þrítugt. Við þennan atburð urðu 9 ekkjur, 25 börn í ómegð eða föðurlaus, og eigi allfátt aldraðra og heilsuhniginna feðra og mæðra misstu þar helstu og enda einustu lífsstoð sína. Allar horfur eru á að félagið beri alllengi menjar þessa stórkostlega manntjóns.
Þjóðviljinn á Ísafirði segir stuttlega þann 17.:
Veðurfar hefir verið umhleypingasamt frá nýjári; oftast frostlítið á suðvestan.
Þann 26. varð mikill skipskaði í Bolungarvík. Þjóðviljinn segir frá honum þann 10.febrúar (nokkuð stytt hér):
Þennan dag var gott veður um morgun, og reri almenningur. Um miðjan dag skall á ofsaveður af suðaustri. Þeir, sem þá voru ekki lentir, gátu náð upp undir Stigahlíð; en með því að þá var veðrið orðið svo mikið, að eigi var auðið að ná lendingu á Mölunum, lögðust þeir undir hlíðinni. Um nóttina slitnuðu þeir upp Hávarður Sigurðsson og Hreggviður Þórleigsson [?]; ætlaði Hávarður þá að hleypa út með hlíðinni þangað, sem heldur var hlés von; en í þeim svifum kom rokspilda svo hörð, að skipinu nær því venti; fyllti það af sjó, og tók út alla skipshöfnina; Hávarður náði þó aftur i skipið, og með því að veðrið heldur stóð á land, rak skipið hálf fullt upp litlu utar; gat Hávarður bjargað sér undan sjó, og lét fyrirberast þar á hlíðinni um nóttina og var mjög máttfarinn er menn komu honum til bjargar morguninn eftir, með því líka hann hafði meitt sig i fæti. [5 skipverjar drukknuðu].
Þegar skip Hreggviðar slitnaði upp, varð hann að hleypa því þar beint upp, en er skipið kenndi grunns í stórgrýtinu, sem þar er hvervetna undir hlíðinni, losnuðu hásetar hans allir við það sökum brimsins, en Hreggviði skolaði upp á skipbrotinu; hélt hann þegar inn á Malir um nóttina. Og gegnir það rétt furðu, að hann skyldi komast það, sem er alllangur vegur. [3 skipverjar drukknuðu] Bæði skipin brotnuðu í spón. Hreggviður var formaður fyrir Teit gestgjafa Jónsson á Ísafirði, en Hávarður átti sjálfur skip sitt; má telja, að hann hafi hér misst nær því aleigu sína; hann er bláfátækur barnamaður, er lítið sem ekkert annað hefir haft við að styðjast en sjóinn, er hann hefir sótt með mesta dugnaði.
Þjóðviljinn birtir 10.febrúar bréf úr Dýrafirði dagsett 29.janúar:
Í byrjun janúar tók svo fyrir jörð, að alveg hefir verið jarðlaust síðan á bestu útigangsjörðum, og haldist svo lengi, verða margir í nauðum með skepnur sinar. Líka eru skemmdir almennt á heyjum eftir stórrigningarnar í sumar og haust, einkum í hlöðum, en þó verða útnesjabændurnir verst staddir, því að þeir byggðu upp á útiganginn.
Ísafold segir frá þann 2.febrúar:
Það er að heyra stirt allstaðar, ákaflega snjóasamt; hér syðra sífelldir útsynningar; gæftalaust á sjó.
Bréf úr Gilsfirði dagsett 3.febrúar og birtist í Ísafold þann 23. segir:
Svellgaddur um allt Vesturland, svo hvergi fær tittlingur í nef sitt, og hvervetna standa öll hross við stall. Illt útlit með heybyrgðir, því hey voru lítil og víða stórskemmd.
Febrúar: Góð hláka um tíma, en annars óstöðug og snjóasöm tíð - betra eystra.
Jónas Jónassen lýsir stöðugum umhleypingum í febrúar (lítillega stytt):
[9.] Fyrstu daga vikunnar var hér norðanátt, hvass til djúpa, en síðan hefir verið stöðugur útsynningur með byljum; snöggvast hefir brugðið til landnorðurs með rigningu; þannig var landsunnanrok seinni part dags h. 6., en allt í einu gekk hann til útsuðurs með slyddubyl. Í dag 8. var hér logn og besta veður í morgun, en rétt eftir hádegi rauk hann allt í einu á S og SV. Yfir höfuð fjarskaleg óstilling á veðri alla vikuna og enn þá.
[16.] Alla umliðna viku hefir verið sunnanátt, oftast landsynningur með talsverðri rigningu, stundum rokhvass með köflum t.a.m. seinni part dags h.14. Sá mikli snjór, sem kominn var hér, var í gær (14.) alveg horfinn og jörð auð, að eins einstöku skaflar eftir. Í nótt (aðfaranótt h.15.) hefir stirðnað og fallið lítið föl á jörðu. Í dag hægur suðvestankaldi að morgni, bjart veður; Hvessti allt í einu eftir hádegi á SV með blindbyl um tíma.
[23.] Óstilling hefir verið talsverð á veðri þessa vikuna; fyrsta daginn var útsynningur með éljagangi; daginn eftir logn og fagurt veður, gekk svo til landssuðurs með regni tvo næstu dagana, svo aftur í útsuðrið h.20., en þann dag gekk hann upp úr logni með ofanhríð allt í einu um hádegi (20.) til norðurs, nokkuð hvass allan daginn, en komið logn um kvöldið; 21. landnorðan bjartur að morgni, síðan með blindöskubyl til kvölds, að hann lygndi og gekk til háausturs. Í dag 22. norðan, nokkuð hvass í morgun með skafrenningi, síðan lygn og dimmur, um og eftir hádegi.
[2.mars] Veðurátt hefir þessa viku verið mjög óstöðug og snúist úr einni átt í aðra, mjög hvass með köflum; hinn 23. var hér hvasst norðanveður að morgni, en landnorðan að kveldi og sami landnyrðingur daginn eftir (24.), mjög hvass um tíma fyrri part dags; gekk svo til útsuðurs, svo í austur með bleytubyl um tíma og að kveldi h.25. til landsuðurs með regni; h. 26. rokhvass hér á hásunnan um og eftir hádegi, gekk aftur til útsuðurs, og 27. logn hér og fagurt veður; 28. hægur á austan, þar til seint um kvöldið, að hann allt í einu gekk til útsuðurs, hvass með éljum. Í dag 1. mars hvass á landsunnan með regni.
Þjóðólfur birti þann 18. bréf undan Eyjafjöllum dagsett þann 8.:
Hér hefur orðið sú nýlunda, að Markárfljót [svo] hefur í vetur farið úr farvegi sínum, runnið austur með fjöllunum yfir meginhluta flatlendisins undir Út-fjöllunum, svo frá Markárfljótsfarveginum og austur að Rimhúsál má heita ein íshella, sem allt af er að aukast, og engin líkindi til að hana leysi fyrr en í sumar, hve góð tíð sem verður. Menn eru hér vegna þessa í vandræðum með útifénað sinn, svo að sumstaðar hefur sauðfé verið tekið inn í bæjarhús.
Bréf af Snæfellsnesi dagsett 9.febrúar birtist í Ísafold þann 2.mars:
Héðan er fátt að frétta nema minnisstæð illviðri nú um langan tíma.
Þjóðólfur segir frá hlákum í frétt þann 18.:
Fyrir réttri viku gerði góða hláku, sem stóð í nokkra daga. Komu þá upp góðir hagar að minnsta kosti í öllum lágsveitum hér syðra.
Austri talar vel um tíð á Austurlandi þann 28.febrúar:
Síðan um nýárið hefur mátt heita einmunatíð, einkum á þorranum, því að þann mánuð hafa oft verið vorblíður og hiti bæði nótt og dag, má því heita að öríst sé orðið í sumum sveitum, t.a m. Fljótsdal, Skógum, Völlum og Framfellum og jafnvel víðar, og um allar sveitir austanlands nægir hagar fyrir útigangspening.
Mars: Nokkuð hryðju- og snjóasamt.
Jónas Jónassen lýsir áfram miklum umhleypingum í marsmánuði:
[9.] Eins og undanfarnar vikur hefir veðurátt verið mjög óstöðug þessa vikuna, snúist úr einni átt í aðra á sama dægri; h.2. var hér dimmviðri mikið og þoka, daginn eftir (3.) gekk hann snemma morguns allt í einu til útsuðurs og var á þeirri átt allan þann dag; daginn eftir komin austanátt, hvass, svo aftur til útsuðurs með éljagangi, svo logn og í dag 8. norðangola og bjart veður með talsverðu frosti.
[16.] Fyrstu daga þessarar viku var hér norðanátt, hvass til djúpa, en oftast hægur hér; seinni part h.10. gekk hann ofan og gjörði logn, sem hefir haldist síðan, oftast bjart og fagurt sólskin. Loftþyngdarmælir hefir alla vikuna staðið óvenjulega hátt, og 10. var rétt að því komið, að hann kæmist ekki hærra, og hefir þetta ekki að borið síðan 1883. Það ár komst mælirinn um sama leyti í marsmánuði eins hátt og hægt var og þá var hér alveg sama veðrið og þessa vikuna. Í dag 15. hægur á suðvestan, dimmur og snjór í lofti; loftþyngdarmælir fer ofurhægt lækkandi.
[23.] Mikil ókyrrð hefur verið á veðri umliðna viku; fyrsta daginn hægur útsynningur með brimhroða miklum; gekk svo til norðurs, bálhvass til djúpa daginn eftir (h.17.) og næsta dag var hér austanstórviðri með blindbyl allan síðari part dags; gekk svo til útsuðurs með hroða all-hvass, lygndi og gekk aftur í norður nokkra stund, hvass mjög til djúpa, en að kveldi sama dags (20.) var aftur komin austanátt og farið að rigna; hefur síðan verið við landsuður og gjörði hér mikla rigningu h.21., svo mestallur snjór, sem var talsverður eftir bylinn h.18. og eins 20. er horfinn aftur. Í dag (22.) hæg austanátt, bjart veður fyrir hádegi.
Ísafold birtir 6.apríl tvö tíðarbréf: Úr Suður-Múlasýslu 4.[mars]. Héðan er ekkert að frétta annað en að veturinn hefir mátt heita góður þó voru 6 vikna hagbönn eftir nýárið , en besta tíð síðan batnaði og fjárhöld víðast góð og úr Austur-Skaftafellssýslu dagsett 9.mars: Hér var nokkuð harður vetur framan af sökum umhleypinga og áfreða, sem ollu hagleysum; en síðan í miðþorra hefir verið góð tíð og nógir hagar.
Þjóðólfur segir þann 19.mars:
Tíðarfar hefur yfir höfuð verið heldur óstillt sunnanlands, þar til fyrir skömmu, að hægviðri gjörði, en nú er aftur komin óstilling á veðrið. Hagar sunnanlands góðir. Svipað tíðarfar að frétta víðast hvar af landinu. Hagar norðanlands góðir, nema fram til heiða og upp til fjalla víða jarðlaust. Vestanlands sögð verri tíð og sums staðar haglítið eða haglaust, einkum í Dölum. Hey reynast yfir höfuð mjög slæm norðan- og vestanlands, og heybirgðir mjög litlar.
Fróði segir þann 19.:
Úr Kelduhverfi er oss skrifað í þessum mánuði: Það er eftirtektavert, að Jökulsá í Axarfirði minnkaði um jólaleytið í vetur; yfirborð hennar er hér um bil 3 kvartilum neðar en áður. Hún hefir breytti sér svona á mjög stuttum tíma og hefir ekkert vaxið aftur.
Bréf úr Miðfirði dagsett 30.mars birtist í Ísafold 13.apríl:
Þrátt fyrir æskilegustu tíð, er var frá því seint á þorra var almenningur í góulok kominn að þrotum með hey víðast, þar sem ekki höfðu komið upp nægar jarðir snemma á góu, svo að þrátt fyrir batann og nægar jarðir víðast nú sem stendur eru menn þó í voða með fénað sinn, ef vor verður óhagstætt. Heyin voru lítil, og það sem út yfir tók víðast illa verkuð. ... ástandið í Strandasýslu er voðalega bágborið, og því er miður, að það er nauðavíða allt annað en glæsilegt, enda hefir það ég man aldrei verið annar eins Ameríkuþytur í fólki og einmitt nú.
Og annað bréf í sama blaði dagsett 28.mars í Ásum í Húnavatnssýslu:
Undanfarna tvo daga hefir verið þíða, tók þó eigi mjög mikið upp; aftur frysti og snjóaði í nótt, og nú er suðaustan rosa-veður. Víða er farið að bóla á heyleysi t. d. norðan til í Vindhælishreppi, á Laxárdal, í Engihlíðarhreppi, á nokkrum bæjum í Svínavatnshreppi og Þverárhreppi. þess utan hjá einstökum mönnum í hinum öðrum sveitum sýslunnar. Viða er ennþá jarðlaust og mjög jarðlítið.
Heldur skárra var í Eyjafirði - (sama blað):
Veturinn hefir mátt heita fremur góður, þegar á allt er litið; en mjög hefir hann verið skakviðrasamur, og í sumum sveitum voru algjörðar innistöður frá því með jólaföstubyrjun og langt fram á þorra. Ég er hræddur um, að margir hafi beitt sér til ógagns framan af vetrinum og fé sé því fremur magurt. Sjaldan hefi ég heyrt meiri kvörtun um heybirgðir heldur en nú, einkum fyrir kýr; segja margir, að þeir muni ekkert hafa handa þeim lengur en til sumarmála. Mjög er og um það kvartað, að hey sé ill og létt, bæði taða og úthey, og kýr hafa mjólkað mjög illa í vetur. Ekki verður neitt vart við hafís ennþá, og vonum vér, að hann sé langt í burtu, enda kemur það sér vel, að skip komi nokkuð snemma, því að lítið er orðið um ýmsa hluti í kaupstaðnum.
Apríl: Ill tíð með frostum og hríðum með köflum. Kalt.
Ísafold greinir frá tíð þann 6.apríl:
Góð tíð hér sunnanlands, nema nokkuð skakviðrasamt. Auð jörð nema fram til fjalla. Að norðan sagði sendimaður úr Skagafirði hina mestu ótíð úr Húnavatns- og Strandasýslum: hagleysur yfir allt af ákaflegum kafaldshríðum af útsuðri, og þar með heyþrot og bjargarneyð - heimili flosnuð upp í Laxárdal í Húnavatnssýslu. Í Skagafirði var þar á móti auð jörð, nema fram til dala, og sama að frétta lengra að norðan.
Ísafold 13.apríl:
Ferðamenn, sem komu norðan úr Miðfirði í gær á eftir pósti, og fóru yfir Holtavörðuheiði á skírdag [7.apríl] í norðanbyl, láta mjög illa af ástandi þar nyrðra hvað heybjörg snertir einkanlega, mjög víða hey uppi algjörlega eða ekki nema örfárra (23) daga forði til, og hafa menn því ekki getað afborið hríð þá, er þar hefir verið nú um páskana. það eru þrjár sýslurnar: Húnavatns-, Stranda- og Dalasýsla, er veturinn hefir lagst þyngst á, enda undirbúningurinn mjög bágur.
Austri birti 23.maí bréf úr Hornafirði dagsett 20.apríl:
Tíðin mátti heita fremur góð fram til jóla. En frá jólum og fram í febrúar, var tíðarfarið mjög óstöðugt, hrakviðra- og stormasamt. Um þær mundir var oft vont til haga hér í sýslunni, einkum í hálfan mánuð út úr nýárinu því að i ársbyrjun lá nokkur snjór á jörð, sem að smábleytti í og frysti síðan, svo að öll jörð varð ísi hulin; eru það einhver hin mestu svellalög sem menn muna eftir hér. Síðan í miðþorra hefur tíðin mátt kallast fremur góð, nema seinni partinn í mars dreif niður nokkurn snjó i flestum sveitum, og gjörði haglaust sumstaðar. En sá snjór lá skamma stund sem betur fór. Yfir höfuð, er ekki hægt að segja að veturinn hafi verið neitt tiltakanlega harður. en þrátt fyrir það, eru heybirgðir manna almennt á þrotum. Heyið hefur reynst mjög létt og ónýtt til gjafar í vetur, eru því skepnuhöld með verra móti, svo að mikil líkindi eru til, ef að vorið verður hart, að eitthvað hrökkvi upp af, þar eð ekki er hey til að gefa.
Eftir páskana gerði stutt hlé á illviðrum - en síðan urðu slæm umskipti. Jónas Jónassen segir frá í pistlum:
[20.] Veðurátt hefur þessa vikuna verið með blíðasta móti, oftast við suðurátt og hlýindi talsverð, við og við með regni; klaki mjög lítill hér í jörðu. Í dag 19. hæg landnorðanátt, bjart og fagurt veður.
[27.] Fyrsta dag vikunnar var hæg landnorðanátt, bjart veður; um kveldið féll snjór og gjörði alhvíta jörð; daginn eftir (21. - sumardaginn fyrsta) var hæg austanátt snemma að morgni en gekk fljótt til norðurs og hefir verið bálviðri dag og nótt síðan og lítið útlit fyrir breytingu. Efra hefir verið blindbylur með köflum. Frostharkan hefir verið óvenjulega mikil um þetta leyti; þannig var frostið um kl.7 um morguninn h.24 -12,5°. Hér er alveg auð jörð. Tjörnin hér hjá bænum, sem var alauð, er nú aftur mannheld.
Þann 4.maí birti Ísafold fréttir af sumarmálagarðinum:
Norðanpóstur kom í gærkveldi. Hafði verið blindbylur nyrðra í garðinum í fyrstu viku sumars, og engri skepnu var úthleypandi, en víða hafðar hér um bil í svelti í húsunum. Búist við almennum fjárfelli á eftir. Skrifað úr Húnavatnssýslu austanverðri 16. [apríl] Mikil neyð er hér á milli hinna efnaminni búenda og mesti fjöldi manna er farinn að halda sér uppi á umferð. Hafís var úti fyrir öllu Norðurlandi, landfastur við Horn, og komið hrafl inn á Hrútafjörð, er póstur fór um, og líklega víðar.
Blaðið birti þann 7.maí illar fréttir að vestan:
Hér hefir verið meinlítið veður síðan sumarmálagarðurinn gekk niður. Vestanpóstur kom hingað ekki fyrr en 4. þ.m. að kvöldi. Hann hafði orðið að sitja um kyrrt allt sumarvikuhretið á Laugarbóli við Ísafjörð. Var þar og annarstaðar um Vestfirði moldviðrisbylur alla vikuna hér um bil. Fénaður málþola í húsum mjög viða. Kúm haldið við með hrísgjöf og nytinni úr þeim sjálfum. Tveir eða þrír bæir í sveit sjálfbjarga með hey, en varla nokkur maður aflögufær. Ástandið talið einna verst í 3 sveitum: Geiradal, Laxárdal og Haukadal. Fallið þar mikið af hrossum og gemlingum. Á sumum bæjum fénaður fallinn til helminga. Bjargarvandræði mikil annars vegar. Mikið hjálpað um matvöru í Stykkishólmi, en í Flatey að sögn ekki öðru vísi en gegn veði eða annarri góðri tryggingu. Á Borðeyri hér um bil matvörulaust.
Bréfkafli úr Dalasýslu (Saurbæ) 25. apríl: Svo er hér slæmt útlit, og það svo, að aldrei í mínu minni hefur það verið eins, og ekki vorið 1882. Meir en 2/3 af bændum hér í sveit eru alveg heylausir fyrir sauðfé og hesta, og sumir líka fyrir kýr (alveg uppi). Víða eru þær nærðar einu sinni á dag, ýmist á deigi, eða mjólkinni er hellt ofan í þær. ... Úr Strandasýslu eru að heyra einstök vandræði, bæði heyleysi og bjargarskort".
Þjóðviljinn segir þann 9.maí:
Á sumardaginn fyrsta, 21.f.m. gerði hér norðangarð með 10 til 12 stiga frosti og kafaldsfjúki, er hélst til 26. sama mánaðar.
Maí: Allgóð tíð framan af mánuðinum, en síðan sérlega ill um tíma.
Austri birti 10.júní bréf úr Hornafirði dagsett 17.maí:
Tíðin var mjög köld frá 19. apríl og fram í þenna mánuð. Sífelldir norðanstormar og grimmdarfrost. Það kuldakast hafði mjög vond áhrif á skepnur, og á stöku bæjum hafa drepist strjálkindur. En stórfellir er ekki orðinn enn, og ég ímynda mér að verði ekki héðan af, ef tíðin verður þolanleg. Síðan 3. maí hefur verið allgóð tíð, en þó heldur þurrviðrasöm til þess að gróðri geti farið fram að nokkrum mun. Samt er nú aðeins kominn grænkulitur á tún.
Jónas Jónassen segir þann 18.maí:
Umliðna viku hefir oftast verið sunnanátt, með hlýindum framan af vikunni en með talsverðri úrkomu og dimmviðri, en þó oftast hægur. Síðustu dagana hefir heldur kólnað í veðri og í dag 17. vestan-útsynningur, allt fram til hádegis krapaslettings-bylur, svo eigi varð séð húsa á milli í morgun fyrir sorta, gjörði alhvíta jörð hér um tíma í morgun; eftir hádegið gekk hann til norðurs, rokhvass til djúpa; jörð er hér nú orðin algræn víðast hvar á túnum.
Þann 18. segir Ísafold frá:
Í gær gekk upp norðangarður harður með miklu frosti og fjúki. Maður kom norðan úr Skagafirði í gær. Hann sagði bestu tíð norðanlands síðan sumarmálahretið, en skepnufelli talsverðan allvíða, með því að fénaður var orðinn svo langdreginn, en heyþrot almenn. Á einum bæ í Húnavatnssýslu austanverðri var engin sauðkind eftir á lifi af 150, er sett hafði verið á vetur i haust: hafði verið skorið af heyjum eða farist smátt og smátt; síðustu 50 kindurnar kvöddu heiminn í sumarmálahretinu. Skip ókomin á hafnirnar nyrðra, nema eitt á Sauðárkrók um síðustu mánaðamót, eitt af Gránufélagsskipum, og ætlaði þaðan til Siglufjarðar 2.maí, en varð frá að hverfa fyrir hafís þar (á Siglufirði) og leita hafnar i Hagavík. Þá var og hafís kominn inn á Eyjafjörð, inn að Skjaldarvík, að sagt var; en Skagafjörður alauður, og Húnaflói sömuleiðis 9. þ. mán. það sem til sást af Holtavörðuheiði, nema mulningsís (hrafl) á Hrútafirði fyrir innan Hrútey. Annað vissi þessi maður ekki til iss.
Bjargarneyð talsverð nyrðra aliviða, einkum á útnesjum, og farið að brydda á harðréttist-veikindum sumstaðar, skyrbjúg og þess háttar. Póstarnir norður og vestur tepptust við Hvítá i Borgarfirði og eru ef til vil! ókomnir yfir hana enn, af ákaflega miklum vexti í ánni, svo hún var óferjandi, vegna leysinga, er lítið hefir verið um áður í vor fram til fjalla.
Þjóðviljinn segir af tíð og svo ís þann 23.maí:
16. þ.m. gerði hér norðangarð sem hélst til 20. þ.m. með moldviðrisfjúki.
Hafísinn. Ibsen, skipstjóri á Courcer", sem hingað kom 15. þ.m.. segir Austfirði lokaða af ís; Ibsen ætlaði norður um land til Borðeyrar, en varð að snúa aftur við Langanes, þá var allt ein hafíshella. Spurst hefir úr Bolungarvík. að ísinn sjáist þaðan. Einstöku jaka hefir, rekið hér inn á Skutulsfjörð nú i garðinum.
Fróði er einnig með ísfréttir og ræðir ískyggilega tíð þann 25.:
Hinn 17. þ.m. kom skonnertan Rósa" hingað [til Akureyrar], fermd vörum til Gránufélagsins. Í hríðargarðinum um sumardaginn fyrsta varð hún að hleypa undan ís inn á Loðmundarfjörð, og lá þar inni kreppt, þar til hann í suðvestanveðrunum, frá 8.-16. þ.m. lónaði litið eitt frá, svo hún með naumindum gat sloppið hingað undan ísnum. sem þá var aftur á uppreki og fyllti jafnskjótt Eyjafjörð; svo engar líkur eru til að meiri sigling komi hingað bráðlega. Skip voru komin á Seyðisfjörð fyrir sumarmál, en um það leyti er austanpóstur lagði af stað, náði ísinn suður fyrir Seyðisfjörð svo þéttur, að hvorki varð komist út eður inn, og Miacca" skip capt. Watnes varð að liggja fyrir utan. Rósa" sagði ísinn hafa legið austanvert fyrir öllu Norðurlandi og niður að Skaga. Með ísnum hefir komið mikið af höfrungi hér inn á Eyjafjörð, sem bæði hefir verið skotinn og eins skutlaður í vökum. Ólafur skipstjóri Ólafsson á Syðri-Bakka, hefir þannig i einni vök skutlað um 40 og ýmsir fleiri hafa fengið talsvert.
Til margra ára hefir útlit manna á meðal hér á Norðurlandi eigi verið jafn ískyggilegt og nú, bæði til lands og sjávar. hákarlsafli hefir með öllu brugðist, sem aldrei fyrr, tvö þilskip hafa strandað og til eins hefir ekki spurst með vissu, frá því í hríðargarðinum á sumardaginn fyrsta, að það hleypti vestur undir Strandir. Hér á firðinum er bæði fiskilaust og síldarlaust, og hákarlaskipin þau sem eftir eru liggja hér og hvar upp við land, umgirt af ís. Í Eyjafjarðar- Skagafjarðar- og Húnvatnssýslu eru skepnuhöld afarill, að sögu nokkru skárri í Þingeyjarsýslu. Í öllum þessum sýslum mun fellir á fé vera orðinn til muna og eigi enn útséð um hvenær það mun staðar nema.
Frá 17. þ.m. og allt að þessu hefir verið meiri og minni hríð og froststormar á norðaustan, það litla sem farið var að slá í jörð, hefir kulnað mikið út og eigi örgrannt um, að fé, sem allvíðast er mjög magurt, hafi hrokkið upp af hér og þar. Menn nýkomnir úr Skagafirði sögðu, að þar hefði komið, frá 17.-21. þ.m., svo mikill snjór, að mjög margt fé hefði fennt og á stöku stöðum einnig hestar. Þeir sögðu litt farandi með hest bæja á milli úti í sveitinni. Þessi frétt er samt sem áður of ógreinileg til þess að sagt verði til hlítar um afleiðingarnar af hretinu í þessu blaði.
Þjóðólfur birtir þann 27.fréttir af ís og fleira:
Strandferðaskipið Thyra kom hingað [til Reykjavíkur] í gærkveldi; hafði komist að Langanesi og lá þar í grenndinni (á Bakkafirði) 3 fyrstu dagana af kastinu í moldviðrisbyl, sáu ís, en sigldu burt", áður en birti vel upp, fór svo austur og hringinn í kring allt vestur og norður að Horni á Hornströndum, en varð þar frá að hverfa sakir íss, fór síðan inn á Ísafjörð, þaðan á komustaðina vestanlands og hingað.
Að norðan kom maður í morgun úr Vesturhópi í Húnavatnssýslu ; fór þaðan 22. þ.m.; sagði hann að í kastinu seinasta hefði verið 5 daga innistöðubylur nyrðra, er skepnur hefðu sakir heyleysisins orðið að standa meira og minna málþola, og ár lögðu aftur.
Norðanpóstur í Hrútafirði á norður leið 23. þ.m.; Húnaflói fullur af hafís; skip eigi komin nema á Sauðárkrók, og bjargarskortur því mikill ...
Austri segir þann 3.júní frá hafís og fleiru:
Hafíshroði hefur að öðru hverju verið við Austurland síðan um sumarmál, en samt eigi tálmað skipagöngum að neinum mun. Engin höpp hafa fylgt honum svo spurst hafi, eins og stundum á sér þó stað. Fyrir rúmri viku brá til landáttar og eru því góðar horfur á að úr undanfarandi vorharðindum geti ræst, ef áframhald verður af hinni góðu veðráttu sem nú er byrjuð, þó er nokkuð þurrkasamt fyrir tún og harðvelli.
19. [maí] (uppstigningardag) var hér ákaflegt norðanrok, með snjókafaldi og frosti. Hafði veður þetta verið engu minna við Færeyjar, að sögn skipstjóra eins, er þar var þá staddur.
Júní: Kalsa- og vætuveðrátta.
Ísafold lýsir skárri tíð um tíma í pistli þann 8.júní:
Hér hefir verið hin mesta öndvegistíð frá því viku fyrir hvítasunnu [sem var 29.maí], að létti uppstigningardagshretinu, sem hefir orðið mjög skaðvænt um Norðurland og fyrir vestan, eftir því sem frést hefir, fé fennti eða hrakið í vötn, auk mikils faraldurs úr megurð beinlínis og lambadauða meiri eða minni víða um land.
Jónas lýsir veðri - og segir m.a. frá alhvítri jörð í Reykjavík 14.júní - en var það á snjólagsathugunartíma?
[15.] Þessa vikuna hefir eins og að undanförnu verið veðurhægð, en oftast mikil úrkoma af suðri eða austri; nokkur kalsi hefir verið í loftinu síðustu dagana og snemma í morgun (h.14.) gjörði snöggvast alhvítt hér. Í dag (14.) suðvestangola með hryðjum, bjartur í milli, nokkuð hvass með köflum.
[22.] Fyrri hluta vikunnar var hér útsynningur oft rokhvass, einkum 16., því þann dag var hér um og eftir hádegi öskurok um tíma og gjörði talsvert brim; daginn eftir á sömu átt, en vægari með hryðjuskúrum; síðan hægviðri af landsuðri með mikilli úrkomu. Í dag 21. rétt logn (af suðri), dimmur í lofti, og hefir rignt mikið í allan morgun og fram yfir hádegi.
Ísafold segir frá tíð, ís og hallæri í pistli þann 29.júní:
Rigningatíð mikil hefir verið hér um Suðurland nú í 3 vikur, til mikils baga fyrir fiskverkun, en hefir hleypt upp gróðri í betra lagi, þó ekki hafi verið hlýtt í veðri. Norðanlands og vestan hefir verið þurrviðrasamara og hlýindi meiri, þrátt fyrir hafísinn, sem enn mun vera ófarinn frá landinu, svo að trútt sé. Á helginni síðustu (26. þ. m.) var enn mikill ís á Húnaflóa norður af Vatnsnesi og út með eystra landinu. Austar betur var hann á reki ýmist út eða inn, eins og sjá má ferðalagi strandferðaskipanna, allt austur fyrir Eyjafjörð, en þar fyrir austan var hann kominn talsvert undan landi, svo að skipum var enginn tálmi að. Hvali tvo væna rak ísinn á land í Húsavík, og mikið af höfrungum þar um slóðir.
Skepnufellir hefir orðið ákaflega mikill í Skagafjarðarsýslu og Húnavatnssýslu, bæði úr hor, og einkanlega orðið úti í uppstigningardagshretinu, sem var þar eins og hin grimmilegasta vetrarhríð, en gerði varla grátt í rót í Eyjafirði og því síður austar betur. Eftir skýrslum þeim, er sýslunefndirnar höfðu látið safna, hafa fallið í Skagafjarðarsýslu rúm 10.000 fjár, 200 hross og 80 nautgripir, en í Húnavatnssýslu um 11.000 fjár, 350 hross og 70 nautgripir. Í Strandasýslu heyrist ekki getið um mikinn fjárfelli, nema norðan af Hornströndum (í Strandasýslu og Ísafjarðarsýslu) er sagður mikill skepnufellir og jafnvel manndauði af hungri eða harðrétti, t.d. í Aðalvík og Grunnavík. En manndauðasögur þær eru ekki hafandi eftir að svo stöddu, og má telja víst, að hlutaðeigandi yfirvöld finni sér skylt að láta rannsaka, hver fótur er fyrir þeim. Bjargarneyð hefir annars verið mikil í vor allstaðar norðanlands, þar sem ísinn hefir teppt siglingar; fólk lifað mikið á horketi. Nú fyrir viku eða þar um bil kom loks sigling á Borðeyri og Skeljavik.
Bréf úr Djúpinu dagsett 18.júní og birtist í Þjóðviljanum 27.júní er í öllu meiri bjartsýnistón:
Nú í 3 hagstæðar vikur, eða síðan hretinu linnti, hefir veðráttan verið hin blíðasta, aldrei komið öðru hærra; er gott útlit með grasvöxt, haldist þessi tíð framvegis. Annars má vor þetta heita eitt hið besta er komið hefir hér nú um síðustu 6 ár, þrátt fyrir hið stórkostlega hret í síðastliðnum mánuði. Almennur fellir á fénaði hefir enginn orðið hér.
Júlí: Mjög kalt, tíð talin hagstæð syðra og eystra. Hríðarveður með frosti á nóttum nyrðra síðasta þriðjung mánaðarins.
Ísafold segir frá batnandi tíð þann 6.júlí:
Eftir óvenjumikla rigningatíð allan júnímánuð nema fyrstu vikuna brá loks til þurrviðra nú á helginni og hefir verið ágætur þerrir síðan. Þar með er fiskinum borgið að mestu; - hann var farinn að skemmast nokkuð. Grasvöxtur ágætur hvar sem til spyrst, eins norðanlands og austan, þótt þar hafi verið þurrviðri meðan rigningarnar gengu hér. Þó mun ekki verða byrjað á slætti almennt að svo stöddu hér syðra, með því að rigningarnar hafa heft ýmsar áríðandi vorannir, einkum aðdrætti; ekki heldur orðið fært frá ám; ull óþurrkuð og eldiviður sömuleiðis.
Þjóðviljinn segir frá júlítíð í nokkrum pistlum. [13.] Hér vestra má heita sífelld veðurblíða; þurrviðri og sólskin á degi hverjum. [21.] Sláttur byrjaður fyrir nokkru hér vestra; tún fremur vel sprottin, en sumstaðar kvartað um, að farið sé að brenna af þeim vegna hinna sífelldu þurrka og hita, sem gengu samfleytt til 17. þ.m., er hann snerist til rigninga. [30.] Veðráttufar hefir verið mjög kalsasamt; snjóað ofan í miðjar hliðar og þykk hafísþoka legið á fjöllunum. 28. þ.m. tók að breytast til batnaðar.
Austri segir af hafís þann 19.júlí:
Hafís. 15. þ.m. rak hér [á Seyðisfjörð] inn hafís (í 2 sinn í mánuðinum, en 3 sinn á sumrinu), enda sagt talsvert af honum hér úti fyrir og á Héraðsflóanum.
Fróði er birtir ítarlegri ísfréttir - fyrst þann 7.júlí og síðan þann 29.:
[7.] Laura mætti ekki íshroða fyrr enn á Vopnafirði, eigi var hann þó til hindrunar alla leið hingað til Eyjafjarðar. Tveim dögum áður en hún kom að Langanesi lá hafísinn fastur við land fyrir öllu Norðurlandi, svo hefði hún komið degi fyrr, þá hefði hún orðið frá að hverfa. Hér lá Laura" tvo daga og fór svo til Siglufjarðar; var þá ekki is að sjá á þessum fjörðum og svo langt út sem sást, en um nóttina hins 17. kom ísinn aftur vestan með landi, rak inn á Eyjafjörð og lokaði um leið Siglufirði svo hún varð að liggja þar á þriðja sólarhring. 23. júní lónaði ísinn lítið eitt frá landi, svo hún komst gegnum íshroða til Sauðárkróks. Á leiðinni mætti hún gufuskipunum Thyru og Camoens", sem ætluðu að komast á Eyjafjörð og svo austur fyrir land en þau urðu frá að hverfa og hleypa inn á Sauðárkrók þann 23. Komust þau þá hvorki austur eða vestur og urðu öll þrjú að liggja þar þegar síðasta viss frétt kom þaðan, síðan hefir laus fregn borist að þau hefðu lagt út 25. s.m. og ekki sést koma aftur, er ekki ólíklegt að þau hafi þá komist vestur fyrir land, því fyrir stöðugt austurrek í ísnum var hann farinn að minnka þar.
Hákarlaskipin frá Eyjafirði og Siglufirði, sem voru komin út til veiða þá daga sem ísinn lónaði sundur urðu jafnskjótt að hleypa undan honum til lands, en náðu fæst heim til sín, 8 náðu Fjörðum og 2 komust á Húsavík, eftir þeim fréttist að djúpísinn" hafði verið að reka til hafs, en is sá, er nu fyllir alla landabuga hafði rekið með hraðri ferð vestan með landi frá Húnaflóa. Í gær kom maður beina leið frá Langanesi, hann sagði hafþök af ís lagst að landi og svo langt á haf út sem sást, alla leið frá Langanesi til Eyjafjarðar, frétt hafði hann að ísinn væri kominn suður að Vopnafirði. Þó þetta mikla ísrek og ísalög hafi verið hér norðanlands, hefir mátt heita blíðasta tíð frá 14. til 30. júní, lengst af suðvestan- og vestanvindar með gróðrarskúrum, og oft 1217 gr. hita á R í skugganum; gróður er því allstaðar orðinn i besta lagi, og lambahöld góð, þótt fé víðast væri magurt orðið.
[29.] Í fréttagreininni í síðasta tölublaði var skilið við 3 gufuskip á Sauðárkrók, en síðar fréttist að þau hefði öll komist 26. f.m. gegnum ísinn vestur fyrir Strandir. Thyra" og Camoens" fóru lengst til Vopnafjarðar og svo til útlanda, en Laura, fór, eins og til stóð til Reykjavíkur, og kom hingað [til Akureyrar] 8. þ.m., hún hafði af og til farið gegnum íshroða alla leið hingað frá Hornströndum, þéttastur var hann við Skagann, svo illfært var að fara í gegnum hann þar. Hún fór héðan 10. þ.m. og hafði litla hindrun af ís fyrri en við Langanes, þar varð hún að snúa aftur, en þegar hún kom að Skaganum (við Húnaflóa) var lokað þar af ís, svo hún varð að hverfa þaðan og snúa aftur til Langaness, hafði þá greitt þar svo til, að hún komst gegnum ísinn og svo suður með landi til Seyðisfjarðar.
Thyra" mætti ísnum við Vopnafjörð, en þó eigi til hindrunar fyrri en við Sléttu. Samt komst hún óskemmd gegnum hann. Frá Tjörnesi og hingað var íslaust á leið hennar. Skipið Rósa" kom hingað 21. þ.m. frá Skotlandi með kol og vörur til Gránufélagsverslunar á Oddeyri og Siglufirði, hún hafði legið 10 daga við ísinn sunnan við Vopnafjörð. Ísinn hefir þannig verið mesti meinvættur þetta sumar fyrir siglingar og hákarlaveiðara enn, en á landi hefir hann gjört minni skaða. Tíðarfar hefir lengst af verið gott síðan í miðjum júní, suma daga blíðu veður 14-17 gr. R í skugga, grasvöxtur er því betri en í meðallagi og nýting góð á því heyi sem ennþá er slegið. Fyrir skömmu kólnaði veðrið með norðan rigning og krapa, svo snjóað hefir niður fyrir mið fjöll.
Ísafold segir frá tíð þann 3.ágúst:
Ágætistíð hefir verið hér á Suðurlandi það sem af er slætti. Tún víðast búin, og allt hirt jafnóðum af ljánum. Grasvöxtur í meðallagi og þaðan af betri, sumstaðar afbragð. En að norðan er að frétta megna óþurrka allan mánuðinn sem leið, nema fyrstu vikuna, en þá var ekki sláttur byrjaður. Alls einir 2 dagar nokkurn veginn þurrir (15. og 16.), en annars sífelldar þokur með miklum kulda og vætu; frost á nóttum og snjóað á fjöll, um fyrri helgi (23.) jafnvel ofan í byggð í Eyjafirði t. d. (Öxnadal) og víðar. Töður því óhirtar allstaðar nyrðra; að eins lítils háttar komið upp í sæti sumstaðar.
Hrafl af hafís var á Skagafirði fyrir viku, og landfastur var hann við Horn 28. [júlí] eða þar um bil. þá varð Camoens að snúa aftur þaðan vestur fyrir við illan leik, var 7 stundir í ísnum.
Þann 10.ágúst getur Ísafold þess að snjóað hafi ofan í byggð í Þingeyjarsýslu 26.júlí.
Þjóðólfur birti 2.ágúst bréf úr Húnavatnssýslu dagsett 26.júlí:
Sláttur var almennt byrjaður um helgina i 12. vikunni, á einstöku stað fyrr; voru bestu þurrkar 1. vikuna, en um 17. þ.m. brá til votviðra, sem síðan hafa haldist með kulda og krapa-úrkomu stundum, og kvíða menn, ef sumarið verður votviðrasamt ofan á það, sem á undan er gengið.
Ágúst: Fremur hagstæð tíð, með þurrara móti. Þokur og mjög kalt við sjóinn fyrir norðan.
Fróði segir þann 6. (prentað er 7.júlí - en hlýtur að vera ágúst):
Seinni hluta júlí gengu hér norðanlands kuldar og óþurrkar, en með byrjun þ.m. [ágúst] kom blíðasta veður og bestu þurrkar í 3 daga, svo allir náðu töðum sínum óhröktum með ágætri hirðingu og sumir nokkru af útheyi, tún hafa sprottið almennt betur en í meðallagi, og engjar víðast góðar einkum þurrlendi. Útlitið með heyskapinn er því stórum betra en í fyrra, og von um, að búendur hafi næsta vetur meira bjargræði en þá af kúm sínum.
Þjóðviljinn greinir frá tíð þann 15. og 23. ágúst:
[15.] Óþurrkar ganga enn á degi hverjum hér vestra. Af Norðurlandi sögð enn meiri óþerratíð; taða lítt hirt við síðustu mánaðamót. Syðra öndvegistíð og nýting á heyjum hin besta.
[23.] Undanfarna daga hefir verið afbragðs þerrir; heyskapur með betra lagi og nýting ágæt.
Þjóðólfur segir ísfréttir þann 16.ágúst:
Strandferðaskipið Laura kom hingað í nótt, hafði komist inn á Eskifjörð gegnum mikinn ís, sem þar lá, varð svo að snúa aftur sakir íss, og kom hingað austan og sunnan um land; fór þegar í morgun til Vesturlandsins. Strandferðaskipið Thyra, sem Laura hitti fyrir sunnan landið, varð á leið sinni norður og vestur um landið innilokuð í ís við Melrakkasléttu, og hafði legið nokkra daga á Raufarhöfn, og orðið síðan að snúa aftur sakir íss.
September: Rigningatíð, hríðarveður í lok mánaðarins.
Þjóðólfur lofar sumartíðina í pistli þann 9.september:
Tíðarfar sunnanlands í sumar eitthvert hið besta sem menn muna. Þótt stöku sinnum, hafi komið óþurrkar, síðan sláttur byrjaði, hafa þeir eigi staðið lengi. Eftir síðustu fréttum annars staðar af landinu hefur einnig verið yfir höfuð hagstæð heyskapartíð, grasvöxtur góður og heyskapur því með besta móti víðast hvar. Í gær kólnaði veður; í nótt snjóaði i fjöll og í dag er norðvestan-stormur og kuldi.
Mánuðurinn byrjaði vel í Reykjavík, Jónas segir frá þann 8.:
Enn helst sama blíðan og góðviðrið, logn á hverjum degi, jörð enn algræn eins og á hásumardegi.
En snögglega haustaði og þann 14. segir Jónas:
Fyrsta dag vikunnar var austanátt með mikilli rigningu.en gekk svo til útsuðurs eftir miðjan dag; 8. var útsynningur með haglhryðjum og gekk aðfaranótt h.9. til norðurs, hvass og kaldur, og snjóaði þá í miðja Esju. Norðanveðrið gekk fljótt niður aftur og bæði 11. og 12. var hér logn og besta verður; að kvöldi hins 13. fór hann að dimma og gekk til landsuðurs, og í dag 13. er hann kominn algjört í landsuðrið, dimmur og lítur út fyrir vætu; þó haggast loftþyngdarmælirinn mjög lítið enn sem komið er.
Þjóðólfur segir þann 16. frá tjóni í illviðri og hafís:
Í ofsaveðrinu 9. þ.m., ... , urðu heyskaðar austur i Laugardal; á einum bæ fuku t.a.m. um 100 hestar af heyi og þakið af baðstofunni. Í sama veðrinu slitnaði fiskiskútan Vonin upp hér á höfninni og brotnaði. Hafís. Skaftfellingar, sem komu hingað í gær, segja, að hafíshroði hafi nýlega verið kominn vestur á móts við Öræfi i Skaftafellssýslu.
Norðurljósið á Akureyri segir frá skipskaða sem varð í veðrinu þann 10.:
Skipstrand. Í ofsaveðri 10. september strandaði á Berufirði kaupskipið Manna", eigu stórkaupmanns C. Höephners, lagði út frá Kaupmannahöfn 16. apríl og átti að fara hingað á Eyjafjörð, en komst ekki í sumar sökum íssins, er alltaf lá við Norður- og Austurlandið. Skipið rak undan veðrinu upp i klungur og brotnaði að neðan svo að það fylltist at sjó á hálfum klukkutíma. Menn komust af og dálitlu varð bjargað af vörunum.
Tíðarfréttir eru einnig í Þjóðólfi þann 23. og 30.:
[23.] Framan af þessari viku ákafleg rigning hér sunnanlands, en í gær þurrkur og blítt veður. Að norðan hefur frést, að þar hafi komið langur votviðrakafli um 17 vikur af sumri, en i sláttarlok komið þurrkar, svo að hey náðust inn. Í þessum mánuði snjókoma mikil nyrðra. Hafís allur farinn frá Norðurlandi um miðjan þennan mánuð. Heyskaðar urðu víða hér austur í sýslunum 9. þ.m, í Núpakoti fuku t.a.m. um 300 hestar af heyi.
[30.] Frá því á mánudag [26.] til miðvikudagskvölds var hér harður norðangarður með frosti og fannkomu til sveita. Í gær gerði aftur sunnanátt með ákafri rigningu í dag.
Austri birti 17.nóvember bréf úr Austur-Skaftafellssýslu. Þar segir m.a.:
Fátt er héðan að frétta. Grasvöxtur mátti heita í besta lagi. Tíð og nýting góð, þar til 24. ágúst þá komu miklar hafísþokur og ísinn með, var þá mesta kulda ótíð í hálfan mánuð, þá fór ísinn, enda hafði hann hér aldrei friðland fyrir stormi, svo kom við og við góð tíð aftur svo heyföng mega teljast í besta og mesta lagi nú i 6 ár og litlir heyskaðar.
Gríðarlegir vatnavextir og skriðuföll urðu norðanlands í september og e.t.v. fyrstu daga októbermánaðar. Norðurljósið segir frá þann 31.október:
Skriðuhlaup og vatnavextir, svo fádæmum sætir, urðu í sumum sveitum hér nyrðra 27. og 28. september í afskaplegri rigningu og snjóbleytu, er var um þá dagana. Ár flóðu víða yfir bakka sina, brutu landið og lögðu undir aur og sand. Smálækir urðu miklir sem ár, og flæddu yfir tún og engjar og fluttu með sér stórgrýti, möl og leir. Skriður hröpuðu úr fjöllum og umhverfðu landinu, svo fagrar fjallahlíðar, grösugar grundir, mýrar og móar, engjar og tún urðu sumstaðar að eyðimörku. Í Eyjafjarðarsýslu kvað mest að skemmdunum i Öxnadal og Svarfaðardal. Öxnadalsá varð óvenjulega mikil og skemmdi allstaðar í Öxnadal og öllum Hörgárdal (þar heitir hún Hörgá) þar sem lágir og flatir bakkar eða grundir liggja að henni. Misstu því sumar jarðir i þessum sveitum mikið af engjum sínum. Skriðuhlaup urðu mikil og skaðleg einkum innarlega í Öxnadal. Á Fagranesi eru eftir af túninu smáskeklar, hér um bil ein dagslátta, en engi hér um bil allt farið; á Gloppu er tún lítið skemmt en mikill hluti af engi og bithaga liggur undir skriðu. Hálft túnið á Gili er eyðilagt og allar bestu engjar; á Varmavatnshólum fullur þriðjungur af túninu og mikið af enginu. Á Bessahlöðum er tún lítið skemmt en engjar mikið. Kunnugir menn segja að sumar þessar jarðir hljóti að leggjast í eyði, að minnsta kosti fyrst um sinn. Fleiri jarðir í þessari sveit urðu fyrir skemmdum.
Í Svarfaðardal urðu þó skemmdirnar enn voðalegri að sagt er. Á Hrísum, Skáldalæk, Sökku, Völlum og Ytra-Hvarfi er mikið af engi, sem lá að ánni, lagt í auðn; Kóngstaðir lagðir algjörlega í eyði af skriðum og eins tún og engjar á Ytri- og Syðri Márstöðum. Allmikil skriða fór yfir túnið á Ytri-Márstöðum. Þegar hún féll var bóndinn þar, Þorkell Þorsteinsson, staddur skammt fyrir utan túnið. Brá hann þegar við og ætlaði að komast heim til bæjarins, en náði ekki nema að fjárhúsi, er var í leiðinni. Hljóp hann þá upp á húsið, en skriðan tók það þegar; gat maðurinn samt bjargað sér af húsinu og upp á heyhlöðu, er var áföst við það, og skriðan ekki tók. Var honum bjargað þaðan morguninn eftir. Skriðan tók fjósið með 4 kúm og færði það niður á túnið. Sagt er að kúnum yrði bjargað úr því daginn eftir, öllum með lífi. Tungufell og Melar misstu mikið af engjum sinum af skriðufalli; á Búrfelli féll og nokkuð; Skeið er sagt algjörlega lagt í eyði. Á Urðum tók bæjarlækurinn 8 dagsláttur af túninu. Grundarengi, Tjarnarengi, og Trjónubakki, er liggur undir Velli, og Böggversstaðaengi, er ónýtt að miklu eður öllu leyti af aur og sandi úr Svarfaðardalsá. Þetta er feikimikið flæmi og var áður fagrar og grösugar engjar. Á Tjörn féll og skriða til stórskemmda; i henni fórst allmargt fé. Víðar urðu og skriður skepnum að bana.
Í miðri Svarfaðardalsá, undan Klaufabrekku, lá grasivaxinn hólmi, nefndur Tröllhólmi, þar sem fundur þeirra Klaufa og Hærings varð forðum daga, sem kunnugt er af Svarfdælu. Hólmi þessi hefir staðið óhaggaður af náttúrunnar völdum síðan fornsögur vorar gjörðust þar til nú að Svarfaðardalsá tók hann í þessum vatnavöxtum. Og sagt er að nú sjáist hans lítil eður engin merki.
Og Norðurljósið bætir enn við fréttum af skriðuöllum í pistli þann 25.nóvember - nú úr Skagafirði:
Skriður og vatnavextir. Eins og vér gátum um í seinasta blaði, voru engu minni brögð að þeim í Skagafirði en hér við Eyjafjörð. Seinast í september gjörði þar snjó allmikinn, víða til fjalla varð slétt af öllu; en með októberbyrjun snerist i asahláku, svo snjóinn leysti í einu vetfangi og vatnavextir urðu svo afskaplegir, að elstu menn muna ekki aðra slíka. Allar þverár beljuðu áfram kolmórauðar af aur og leðju og báru skriður á engjar og haga, sem að þeim lágu. Héraðsvötnin flóðu yfir allt undirlendið. Í Hólminum sást varla á annað en bæjarhúsin upp úr flóðinu, og mælt er að þessi blómlega sveit sé nú leirflag eitt, og hið sama er að segja um hin góðu og viðáttumiklu engi fram með vötnunum báðum megin. Víða féllu stórkostlegar skriður úr fjöllum einkum í Norðurárdal, svo póstleiðin er illfær, víða í Blönduhlið meira og minna og í Kolbeinsdal féll skriða í Bjarnastaðalandi og gjörði landspell allmikið. Í Gönguskörðum urðu stórskemmdir af jarðföllum, á Veðramóti skemmdist bæði engi og bithagi að miklum raun, en mest urðu brögð að því í Heiðardalnum. Þar féll fram á einum stað í Heiðarlandi afarbreið jarðspilda. Jarðfallið tók sig upp hátt upp í fjalli á mörgum stöðum með litlum millibilum undir svonefndum Hróarsgötustalli og var þar víða 20 og 30 feta djúpt. Öll hlíðin rótaðist upp og féll yfir undirlendið að fjallinu hinum megin. Að neðan er jarðfallið 300 faðmar á breidd og tók af sjálfsagt 3-400 hesta slægjur og mikið og gott beitiland. Báðar þessar síðasttöldu jarðir eru landseign og verður sjálfsagt að setja eftirgjald þeirra niður að miklum mun, ef þær eiga að byggjast framvegis. - Austan til í Húnavatnssýslu urðu og allmiklar skemmdir af skriðuhlaupum.
Október: Óróleg tíð framan af, en stilltist þegar á leið.
Ísafold segir þann 13.:
Síðan létti rigningaókjörunum, er stóðu frá því í miðjum fyrra mánuði og til 4. þ.m., að fráteknu norðankastinu 25.-28. f.m., - hefir verið hér góð veðrátta, hæg og stillt, og ekki tiltakanlega kalt, þótt snjór sé á fjöllum. Ekki hafði orðið minna af rigningunum fyrir norðan, eftir því sem nýfrétt er þaðan. Héraðið í Skagafirði eins og fjörður yfir að sjá, og urðu stórmiklir heyskaðar af því. Þaðan, úr Skagafirði, er sagt svo af sumrinu í bréfi seint í [september]:Sumar þetta hefir mátt heita allgott; þó hefir nýting á heyjum verið vart í meðallagi: þokubrælur með nokkru úrfelli. Hinn 9. þ.m. gerði norðanhríð, alsnjóaði, kom nokkur fönn. Síðan gerði góðan þurrk vikutíma, svo flest allir hafa náð heyjum sínum, sem þá voru úti, með góðri verkun. Heymagn í tæpu meðallagi, þó kannski nóg handa þeim fáu skepnum, sem almenningur á eða hefir til að setja á vetur. Um málnytu hefir varla verið að tala í sumar, þar almenningur missti yfir helming af ám sínum næstliðið vor, og sumir nær því allar. (grasvöxtur var heldur i betra lagi)".
Úr Vestur-Skaptafellssýslu er sagt svo af tíðarfari í sumar, í bréfi 1. þ.m. Eftir að brá til bata í vor. var um tíma þurrviðrasamt og stillt veður. Menn náðu þá eldivið sæmilega þurrum. Eftir það voru hér rigningar um hálfsmánaðar tíma, svo aldrei kom þurr stund, en oftara logn. En hér um bil 10 vikur af sumri brá aftur til þurrviðra, sem héldust til hundadagaenda, að fráteknum nokkrum dögum um túnasláttinn, nálægt vikutíma, sem rigningasamt var. En um hundadagaenda brá aftur til rigninga og storma, sem héldust þar til 20 vikur af sumri eða þar um bil. Þá kom þerrir með hvassviðri á norðan, sem feykti viða heyi til skaða, einkum til fjalla; varð hey eigi höndlað meðan hvassviðrið stóð. Út úr því brá aftur til rigninga, þar til nú, með þessari viku, að aftur kom norðanstormur, með þerrir og gaddi. Yfir höfuð er hér um sveitir vel heyjað, þó að úrkoma seinni part sláttar og eins norðanstormarnir hafi nokkuð dregið úr heyskap.
Þjóðviljinn segir þann 12: Haustveðrátta helst enn hin ákjósanlegasta á hverjum degi, og þann 21.: Í gær snjóaði hér talsvert í byggð, annars hefir tíð í haust mátt heita frámunalega góð.
Ekki var gott hljóð í Skagfirðingum og Húnvetningum í bréfum sem birtust í Ísafold þann 9.nóvember:
Skagafirði 23. okt. Þetta nýliðna sumar hefir verið oss Skagfirðingum affaraverst allra undanfarinna sumra í þessum harðindum. Stórhríðaráfelli á því fjögur: tvö í vor, um aprílmánaðar og maímánaðar lok; hið þriðja 9. september, þegar allt úthey frá túnaslætti að kalla mátti lá hér úti, og hið fjórða 26. og 27. september. Auk þess ákafar haustrigningar, svo að Héraðsvötn hafa flætt ógurlega, ónýtt mörg hundruð hesta af heyi eða flutt á sjó út, en skriður skemmt fjöll, einkum í Akrahreppi, svo að enginn man slík skriðuföll. Grasvöxtur var hér víðast í betra meðallagi, en nýting fremur vond og affaraslæm með töður; því að meðan hiti var i þeim, gengu allt af öðru hvoru rigningar miklar, svo að þær drápu eflaust víða, og mjög víða eru þær brunnar. Enginn veit, hversu haustrigningarnar kunna að hafa skemmt saman komin hey. Það voru þau býsn, sem rigndu, að varla er hugsandi annað en að þau hafi drepið meira eða minna".
Húnavatnssýslu í miðjum október. Hér hafa verið annaðhvort stórrigninga- eða stórkafaldshríðar frá því leitir byrjuðu og þangað til vika var af þessum mánuði. Heyskaðar urðu nokkrir að sögn í þingi og Vatnsdal af vatnagangi, og sumstaðar að eru sagðar skemmdir á heyjum i hlöðum og tóftum. Það lítur út fyrir, að harðindin eigi nú um stund ekkí af okkur að ganga Húnvetningum, að fá nú þetta áhlaupakast eftir öll stórhretin í vor, hafísinn í allt sumar og óþurrkana; enda er orðinn mjög aumur búskapur margra sem stendur og versnar þó sjálfsagt hér eftir, einkum í vetur hvað bjargræði snertir".
Þjóðviljinn segir frá tíð og slysförum þann 31.október:
Alla síðustu viku hefir verið hvassviðrasamt, og sjór því lítt sóttur; fremur aflatregt hjá þeim, sem róið hafa, 2030 í salt á skip. S1ys. Í Súgandafirði varð bátstapi 24. þ.m. Hjónin Guðmundur Guðmundsson á Laugum og Guðný kona hans höfðu farið tvö á bát yfir að Gilsbrekku að sækja 1ömb, en á heimleiðinni kom rokspilda, er hvolfdi bátnum. Þau hjón komust á kjöl, en skömmu síðar kom önnur spildan og venti bátnum. Konan varð þá viðskila við bátinn og drukknaði, en manninum skolaði í land. Skip var eigi að fá þar nálægt, nema á Suðureyri, og var þá orðið um seinan að bjarga.
Þjóðólfur segir þann 4.nóvember frá jarðskjálfta sem varð á Reykjanesi 28.október:
Jarðskjálfta varð vart hér að morgni 28. [október] kl.5. og 20 mín., svo og á Eyrarbakka og einkum suður á Reykjanesi, þar sem Valahnúkur er og Reykjanesvitinn stendur á, klofnaði, og talsverðar skemmdir urðu á steinolíuhúsi vitans og bæ vitavarðarins, og 9 glös i vitanum brotnuðu. - Tíðarfar. 31. [október] var hér talsverð fannkoma; annars gott tíðarfar.
Nóvember: Stillt tíð, en nokkuð frosthörð.
Ísafold segir þann 9.:
Blíðviðri eru nú hér á degi hverjum. Frost lítilsháttar, og snjór á jörðu lítill sem enginn.
Þjóðviljinn lýsir veðri vestra stuttlega þann 26.:
Tíðarfar. 22. þ.m. var hér sunnanveður með stórrigningu, en snerist daginn eftir upp í norðangarð, sem hefir haldist síðan með 3-6 stiga frosti.
Ísafold segir þann 1.desember:
Tíðarfar er að frétta gott um allt land í haust eða það sem af er vetri. Frost lítið og fannkoma sömuleiðis. Stillur með langvinnasta móti, en stórviðri þegar hvessir.
Þjóðólfur birti þann 23.desember bréf úr Suður-Þingeyjarsýslu ritað 27.nóvember:
Frá 4.-17, nóvember var tíð mjög mild og jarðir góðar. Fyrir 17. höfðu margir hér í sýslu ekki gefið fullorðnu fé og sumir ekki lömbum. Síðan 17. þ.m. hefur tíð verið slæm, sífeldar hríðar og kuldar, og viða er alveg tekið fyrir jörð. 17. þ.m. brast í allsnöggvan byl og fórst þá bátur með 5 mönnum frá Húsavík, eign séra Finnboga R. Magnússonar á Húsavík . . . . Afli má heita góður við Eyjafjörð, en nú upp á síðkastið mjög gæftalítið.
Desember: Snjóasamt nyrðra framan af mánuðinum, annars fremur stillt en frostasöm tíð. Fyrsti þriðjungurinn var sérlega kaldur.
Þjóðólfur birti 30.desember bréf úr Strandasýslu, dagsett 9.desember:
Veðrátta fremur óstöðug, frost mikil með köflum, sífeldar þokur til hafsins, og sjókuldi óvanalega mikill.
Þjóðólfur segir 23.desember frá ís á Húnaflóa, samkvæmt bréfi að norðan 11.desember:
Hafís er kominn inn á utanverðan Húnaflóa; hefur rekið inn í hríðarkasti sem gjörði 6. þ.m. og stóð i nokkra daga.
Ísafold segir þann 14.: Frost hafa verið mikil og stórviðri og fannkoma nokkur nú um nokkurn tíma.
Þjóðviljinn segir þann 13.:
Norðangarðinum slotaði 7. þ.m. og síðan hafa haldist stillviðri með talsvert hörðu frosti (9-13 stig á Reaumur).
Jónas lýsir góðviðri í Reykjavík um jólin þann 28.:
Alla vikuna hefir verið blæjalogn og allan fyrri partinn þokumugga dag og nótt og við og við nokkur rigning; síðustu dagana hefir verið hið fegursta og bjartasta veður með vægu frosti. Hér er svo að kalla auð jörð. Í dag, 27., blæjalogn og heiðskírt loft. Í sjónum talsverð harka.
Þjóðviljinn lofar tíðina 31.desember:
Síðari hluta desembermánaðar hefir mátt heita frámunalega góð tíð, frostlinur og stillviðri. Hafís sagður sjást af Ströndum. Norðurljós óvanalega mikil og fögur sáust 26. og einkum 27. þ.m.
Norðurljósið segir þann 31.desember:
Veðráttan hefir oft verið ákaflega óstöðug hér nyrðra þennan mánuð, Fram um miðjan mánuð voru oft snjókomur og grimmdarhörkur, stundum um 20°C. Síðan hefir verið mildara, og góð hláka um jólin. Snjór er hér allmikill, en hjarn og góð færð viðast hvar. Likt mun hafa viðrað á Austurlandi. Í dag er hríðarveður.
Bréf, dagsett 3.janúar í Suður-Þingeyjarsýslu birtist í Þjóðólfi 27.janúar 1888:
Síðan 17. nóvember hefur tíð verið hörð og jarðbönn víða hér um slóðir. Gamla árið kvaddi okkur og nýja árið heilsaði með stórhríðum. Útlitið þykir ísalegt, og sagt er, að hafíshroði hafi sést út af Skjálfanda og Eyjafirði, og mun það satt vera, en þó eigi nema lítill jakaslæðingur.
Norðurljósið segir frá því 2.febrúar 1888 að tveir bátar úr Keflavík hafi farist á gamlársdag og með þeim 11 menn. Í sama blaði er sagt frá því að meira hafi hrunið úr Valahnjúk þar sem sprakk fram í skjálftanum fyrr um haustið.
Ísafold lýsir árinu í heild í pistli 4.janúar 1888:
Árið 1887 (eftirmæli). Það er fágætt að tíðarfari, eins og hálflitur maður: blítt og fagurt á öðrum helming landsins, strítt og ljótt á hinum, einkanlega um miðbik Norðurlands. Í vorhretum tveimur, um sumarmál og uppstigningardag, hrundi mjög niður fénaður manna, langdregin undir vegna fóðurskorts eftir illt sumar áður, mest í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, talsvert líkt á Vestfjörðum og í Múlasýslum. Hafís lá fyrir Norður- og Austurlandi frá sumarmálum og nokkuð fram yfir höfuðdag, teppti samgöngur á sjó, spillti sjávarafla á Austfjörðum einkanlega og heyskap sömuleiðis norðanlands, þó grasvöxtur væri þar allgóður. Haustið þar ákaflega rigningasamt, með vatnsflóðum og skemmdum á heyjum. Um Suðurland var aftur á móti mikil árgæska til lands og sjávar, mestallt árið að kalla mátti, einkanlega afbragðs-sjávarafli í helstu veiðistöðunum, ekki síst á haustvertíðinni, sem annars er mjög fágætt.
Lýkur hér að sinni frásögn hungurdiska af árinu 1887.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2018 | 18:34
Smávegis af hitametum
Hitabylgja gærdagsins (sunnudag 29.júlí) skildi eftir sig nokkurn metaslóða. Að sjálfsögðu féll fjöldi dægurhámarkshitameta á einstökum stöðvum - hátt í 50 á þeim stöðvum sem athugað hafa í 10 ár eða meira - þar á meðal í Reykjavík en hámarkshiti dagsins þar var 23,5 stig á þeim mæli sem nú er notaður. Kvikasilfursmælirinn sýndi 22,7 stig. Svokölluð búveðurstöð á sama stað sýndi mest 22,9 stig. Sá skynjari er í skýli af gömlu gerðinni - rétt eins og kvikasilfursmælirinn. Um þessar mundir er einnig mælt á fjórðu stöðinni í reitnum - nefnist tilraunarstöð - sjálfvirk stöð annarrar gerðar en hinar - og með heldur stærri hólk (skýli) utan um skynjarann. Hún sýndi mest 23,1 stig. Af þessu má glögglega sjá hversu erfitt er að ákvarða hámarkshitamet nákvæmlega. Á Reykjavíkurflugvelli var hámark gærdagsins 23,2 stig - það er ekki dægurmet þar.
Á landsvísu var dagurinn sá hlýjasti á árinu, meðalhiti í byggð reiknast 13,5 stig. Það er aðeins tvisvar sem 29.júlí hefur verið hlýrri, árið 2008 og 2004, 2004 reyndar ómarktækt hlýrri en nú. Meðalhámarkshiti dagsins í byggð reiknast 19,6 stig og hefur aðeins einu sinni verið hærri 29.júlí. Það var 2008. Þetta var líka hlýjasti dagur ársins á fjölmörgum veðurstöðvum - enda samkeppnin í sumar ekki mjög hörð um landið sunnan- og vestanvert.
Hámarkshiti á Patreksfirði mældist 24,7 stig og er það hæsta hámark ársins til þessa á landinu. Það er óvenjulegt að hæsta hámark ársins sitji á Vestfjörðum og með nokkrum ólíkindum verði það endanleg niðurstaða. En enn er langt til loka sumars - og talan ekki mjög há - þannig að góðir möguleikar eru enn á að hærra landshámark sjáist. Sé tekið mark á óhreinsuðum listum hefur það tvisvar gerst að hæsti hiti ársins hefur mælst á Vestfjörðum, 1943 og 1962. Tilvikið frá 1943 (Lambavatn) er nær örugglega rangt, og hitt (1962 á Þórustöðum í Önundarfirði) er talið vafasamt - en ekki alveg útilokað.
Mánaðarhámarksmet fyrir júlí féllu á nokkrum stöðvum, en flestar þeirra hafa þó athugað í minna en 10 ár og hittu því ekki hitabylgjuna miklu í júlí 2008 fyrir. Árshitamet voru sett á fjórum sjálfvirkum stöðvum sem athugað hafa í meira en 10 ár, á Reykhólum (22,5 stig), á Bjargtöngum (21,6 stig), á Lambavatni (24,1 stig) og í Súðavík (22,4 stig). Talsvert hærri hiti mældist þó á mönnuðu stöðinni á Lambavatni í hitabylgjunni miklu í ágúst 2004 (28,4 stig) - en þá var ekki komin sjálfvirk stöð þar. Hæsti hiti á mönnuðu stöðinni á Reykhólum var 22,7 stig, mældist í júlí 1976 - engar mælingar voru þar í hitabylgjunni í ágúst 2004 - sjálfvirka stöðin hóf athuganir um haustið.
Í gær féll 21 daggarmarkshámarksmet á sjálfvirku stöðvunum. Daggarmark segir til um það hversu mikil vatnsgufa er í lofti. Nákvæmar rakamælingar eru að vísu erfiðar og gæði þeirra rakamæla sem notaðir eru hér á landi eru mjög misjöfn. Marktæknin er því álitamál frá einni stöð til annarrar og ekki rétt að gera allt of mikið úr metum af þessu tagi.
Því er þó ekki að neita að 21 stöð er þó nokkuð - og sýnir að í raun og veru var loftið sem við sögu kom sérlega rakt. Óvenjuhlýtt var framan af degi, en síðan fór að rigna. Í upphafi rigningarinnar gufaði hún upp á leið til jarðar og hækkaði daggarmarkið ört meðan á því stóð - rakinn féll beinlínis af himnum ofan. Hæst varð daggarmarkið í Grindavík, 17,1 stig - nýtt met á þeim stað. Við vitum af fáeinum trúverðugum tilvikum hér á landi með enn hærra daggarmarki.
Mikið mældist af eldingum við landið í gær - að sögn á fimmta hundrað. Mun það vera með mesta móti. Ekki mælast allar eldingar. Flestar eldingarnar urðu yfir sjó og er það líka óvenjulegt á þessum árstíma.
Áhugasömum er bent á pistil um hitabylgjuna sem nimbus ritar á blogg sitt í dag.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2018 | 13:46
Af þrumuveðrum
Hér fylgir alllangur texti um þrumuveður - þrekmiklir komast e.t.v. í gengum hann.
Þrumuveður eru ekki algeng á Íslandi (þó annað mætti halda af tíðni þeirra í hérlendum kvikmyndum). Þau fáu þrumuveður sem hér koma eru langflest minniháttar. Eldingar valda þó alloft tjóni, t.d. hafa hús brunnið að jafnaði á 10 til 15 ára fresti af þeirra völdum, kvikfénaður hefur farist og nokkrir menn látist. Varasamt er að vanmeta eldingar.
Þrumuveður verða til þegar veðrahvolfið fer að velta sér, þá er hitafall um 1°C/100 m í því öllu og loft óstöðugt.
(i) Því óstöðugra sem loftið er
(ii) því hærra sem veltingurinn nær
(iii) því meiri raki sem er í loftinu,
- því öflugri eru veðrin.
Af þessu má sjá hvers vegna þrumuveður eru sjaldgæf á Íslandi. Loft hér á landi er lengst af stöðugt og oft mjög stöðugt því neðsti hluti lofthjúpsins á norðurslóðum býr við mikinn hallarekstur á varmabúskapnum auk þess sem yfirborð jarðar og sjávar kælir allt loft sem að sunnan kemur. Til að búa til meiriháttar þrumuveður þarf allt veðrahvolfið að taka þátt í veltingnum, það gerist vissulega hér á landi en veðrahvörfin eru miklu lægri hér en yfir suðlægari slóðum. Þau leggjast á allt frekara uppstreymi og því getur það ekki náð eins hátt hér og sunnar. Kuldinn sér til þess að uppgufun og raki er hér mun minni en á suðlægari breiddarstigum.
Á þessu ástandi eru þó fáeinar undantekningar, hver um sig á þó við aðeins fáeina daga og dagparta á ári hverju. Fjöll hjálpa mjög til við uppstreymi, rekist óstöðugt loft á þau og því eru þrumur algengastar hérlendis nærri háum fjöllum á sunnan- og vestanverðu landinu.
Þrumuveður myndast í stórum skúra- eða éljaklökkum sem oft eru þá kallaðir þrumuklakkar eða þrumuský. Langoftast eru fleiri en ein upp- og niðurstreymiseining (eða veltieiningar) virkar á sama tíma. Hver þeirra lifir ekki mjög lengi en nýjar taka gjarnan við af þeim sem deyja. Á suðlægari slóðum geta tugir eða hundruð eininga hafa verið virkar í einu þrumuveðri sem staðið hefur í nokkra klukkutíma.
Myndun þrumuveðra á Íslandi
Nokkur myndunarferli koma við sögu við framleiðslu þrumuveðra:
(i) Loft verður óstöðugt vegna hitunar að neðan. Þessi upphitun er ekki sama eðlis sumar og vetur.
(a) Sumar
Þrumuveður verða stöku sinnum síðdegis á sumrin þegar sólin fær að skína og gera loft nægilega óstöðugt til þess að það geti leitað hátt upp eftir veðrahvolfinu. En þá verður að standa þannig á sama tíma sé tiltölulega kalt í efri lögum. Miklir skúraklakkar geta þá byggst upp yfir landinu og séu þeir nógu háir fylgja þeim þrumur. Ástand sem þetta stendur ekki nema mjög stuttan tíma af heildarlengd sumarsins. Sumarþrumuveður af þessari gerð myndast ekki yfir sjó.
Algengustu sumarþrumuveðrin mynda ekki veðrakerfi, heldur eru uppstreymiseiningarnar fáar og dreifast tiltölulega óreglulega. Oftast eru þrumur í hverju veðri mjög fáar. Væg sumarþrumuveður stafa oftast af því að yfir landinu situr mjög kalt loft sem ber ekki upphitun landsins þann tíma dags þegar sól er hæst á lofti. Þau verða því til í tiltölulega einföldum uppstreymiseiningum sem vegna kalda loftsins fá að berast mun hærra en venjulega. Upphitunin er fyrst að ná sér á strik yfir fjallahlíðum á móti suðri, auk þess sem yfirborð gróðurlítilla dökkra fjalla hitnar gjarnan meir en rakt yfirborð graslendisins. Fyrstu skúrir dagsins eru því oft réttnefndar fjallaskúrir.
Sé loftið mjög óstöðugt getur uppstreymið myndast nánast hvar sem er innan við ströndina, það rekst fyrr eða síðar á annað hvort mjög hástæð hitahvörf eða þá veðrahvörfin sjálf en þau eru hið endanlega þak uppstreymisins. Skýin sem fyrst voru aðeins venjulegir bólstrar eru nú orðin að risastórum klökkum með flatneskjulegt efra borð. Frá hlið sést að efri útjaðrar klakkanna eru þráðlaga og brúnir loðnar (merki um ískristalla).
Séu klakkarnir margir tengjast efri hlutar þeirra saman í samfellda skýjabreiðu sem getur þakið allan himininn talsvert út fyrir skúrasvæðið. En að loft sé á uppleið þýðir einnig að annars staðar er loft á niðurleið. Nái klakkurinn góðum þroska getur orðið niðurstreymi í honum sjálfum (meir þar um neðar), en oftast leystir niðurstreymið í sundur ský utan við skúrasvæðið. Því er algengt að þegar skúrir eru í Grímsnesinu er bjart veður úti í Vestmannaeyjum eða á Reykjanesskaganum utanverðum.
Þó þetta tiltölulega einfalda ferli geti valdið vænum skúradembum, jafnvel hagli og fáeinum þrumum brennir uppstreymið sér fljótlega upp því skýin loka fyrir inngeislun frá sól, hún lækkar einnig á lofti síðdegis. Auk þess er Ísland það lítið að talsverðar líkur eru á því að loftið sem dregst inn að miðju uppstreymisins sé fremur kalt, jafnvel komið utan af sjó. Síðdegisskúraástand sem þetta getur þó endurtekið sig dag eftir dag þó daglegar þrumur séu ekki algengar hér á landi.
Síðdegisþrumurnar verða vegna upphitunar sólar á yfirborði jarðar undir köldu veðrahvolfi. Sú upphitun stendur eðli málsins samkvæmt ekki nema þann hluta sólarhringsins þegar sól er hæst á lofti og reyndar ekki allan þann tíma því það tekur nokkra stund að vinna næturkælinguna upp. Ef loft er ekki því óstöðugra má því tala um glugga í þeim múr stöðugleika sem vinnur gegn uppstreyminu.
(b) Vetur
Þrumuveður koma einnig á vetrum, en þá hagar öðruvísi til en á sumrin. Þá er stöðugleiki yfir meginlöndunum mikill vegna mikillar útgeislunarkælingar, en Atlantshafið sér hins vegar um að verma loft að neðan sem berst út yfir það frá meginlöndunum. Upphitunin er því ákafari eftir því sem loftið sem út yfir hafið kemur er kaldara og þrumuveðratíðnin nær því hámarki á þeim tíma vetrarins þegar mestur hitamunur er á milli Atlantshafsins annars vegar og meginlandanna til beggja handa hins vegar.
Stöku sinnum gerist það að loftið sem frá meginlöndunum kemur nær langleiðina frá sjó og upp undir veðrahvörf. Þegar svo djúpt lag fer út yfir kaldan sjó er ekki að sökum að spyrja, veltan fer af stað og skilyrði myndast fyrir þrumuveður. Um leið og loftið kemur aftur inn yfir land deyr uppstreymið mjög fljótlega. Langoftast er kalda loftið upprunnið í Kanada og berst hingað fyrir sunnan Grænland en dæmi eru til þess að kalt loft komið að norðan hafi valdið vetrarþrumuveðri á Norðurlandi. Til þess að það geti gerst verður sjór norðan við land að vera hlýr og hafísinn verður líka að vera með minna móti svo kalda loftið geti aflað nægs raka á leið til landsins.
Loft sem komið er beint vestan eða norðvestan frá Grænlandi er langoftast of stöðugt til að geta valdið þrumuveðri. Ástæðan er niðurstreymið austan fjallgarðanna á austurströndinni. Þrumuveður eru sjaldgæf á vetrum á meginlandi Evrópu nema helst í V-Noregi og V-Skotlandi þar sem kalda loftið frá Kanada veldur þrumuveðrum líkt og hér á landi.
Meðan greinileg dægursveifla er í tíðni sumarþrumuveðra gegnir öðru máli með vetrarveðrin. Sumarveðrin eru þrælar sólgeislunar, en vetrarveðrin njóta hlýsjávar allan sólarhringinn. En komi uppstreymiseiningin yfir land (sem er alltaf kalt á vetrum) deyr hún fljótt. Loft sem upprunnið er yfir heimsskautaauðnum Kanada og lendir úti yfir hlýju Atlantshafinu kemst reyndar sjaldnast til Íslands en þegar það gerist hefur það gjarnan verið að minnsta kosti 2 sólarhringa á leiðinni.
Þegar hingað er komið er það orðið mun hlýrra (um eða rétt neðan frostmarks) en það var í upphafi (-20°C til 40°C) en samt er það ennþá kaldara en hafsvæðin hér suðvestur undan. Uppstreymið er því búið að standa miklu lengri tíma en uppstreymi á sumrin getur gert. Á móti kemur að loftið sem tekur þátt í sumaruppstreyminu er hlýrra (daggarmark lægsta loftsins gjarnan um 12°C) og getur því innihaldið meiri raka en vetrarloftið (daggarmark nærri frostmarki). Veðrahvörfin eru einnig lægri á vetrum og þar með getur dýpt uppstreymiseiningarinnar ekki orðið jafn mikil á þeim tíma árs og er á sumrin. Þrumur eru því ekki heldur margar í venjulegu vetrarþrumuveðri. En sá langi tími sem vetraruppstreymið hefur (1 til 2 sólarhringar eða meir) gefur því tíma til að hagræða loftstraumum í kringum sig og það getur myndað mjög reglulega klasa og jafnvel orðið að sjálfstæðum kerfum sem hafa áhrif á mun stærra svæði en sumaruppstreymið eins og það var kynnt að ofan.
Vindsniði og þrumuveður
(ii) Önnur þrumuveðragerð myndast aðeins ef lóðréttur vindsniði er mikill.
Í litlu sumarþrumuveðrunum hér á landi er hann að jafnaði mjög lítill. Þetta þýðir að uppstreymiseiningarnar brenna fljótt upp, þær vinna sitt verk, blanda því lofti sem tekur þátt í hringrásinni og uppstreymið hættir. Sé hæfileg vindaukning með hæð færist skýið (uppstreymiskerfið allt) með vindinum og getur þá gleypt nýjar og ferskar uppstreymiseiningar þannig að það endurnýjast sífellt. Klasi sem þessi er mun lífvænlegri en eitt stórt ský.
Breyti vindur bæði um stefnu og hraða með hæð geta við ákveðin skilyrði myndast mun öflugri þrumuveður en nefnd voru að ofan. Það er þegar tiltölulega hlýtt rakt loft stingst inn undir þurrt (ekki endilega alveg neðst, niður undir yfirborði). En eins og við vitum er rakt loft léttara en þurrt og því geta aðstæður af þessu tagi valdið meiriháttar óstöðugleika á miklu stærra svæði en sólarhitun veldur ein og sér. Svo virðist sem stærstu þrumuveður sem koma að sumarlagi hér á landi séu af þessari tegund, rétt eins og víðast erlendis.
Um þessa gerð þrumuveðra var fjallað lítillega í hungurdiskapistli 22.maí 2013.
Til að skýra málið má taka tvö dæmi. Í öðru tilvikinu (júlí 1960) kom rakt og hlýtt loft upp að suðurströndinni úr suðaustri og gekk inn á land, undir hæga og þurra norðaustanátt yfir landinu. Sólarhitun um hádegisbil hjálpaði síðan til að koma uppstreymi af stað, þrumur gerði um allt suðvestanvert landið og hagl féll og jörð gránaði þar sem úrkoman var mest. Í hinu tilvikinu (júlí 1976) kom þykkt lag af hlýju lofti frá Evrópu, það ruddist yfir kalt sjávarloft fyrir austan land. Svo virðist sem neðsti hluti hlýja loftsins hafi farið aðeins hraðar yfir en það sem ofar var, þegar neðstu lögin loftsins rákust á Austfjarðafjöllin gerði þar mikið þrumuveður sem síðan barst vestur yfir stóran hluta landsins. Þetta gerðist að næturlagi þannig að sólarupphitun kom lítið sem ekkert við sögu. Þess má geta að hiti hefur sjaldan orðið hærri í Reykjavík en í þessu hlýja lofti nokkrum dögum eftir þrumuveðrið. Mjög svipað þrumuveður gerði að nóttu til um sunnanvert landið þegar hlýja loftið í hitabylgjunni miklu í ágúst 2004 ruddist til landsins. Sömuleiðis í hitabylgjunni í júlílok 2008, en þá voru þrumur við suðausturströndina og úti fyrir henni og síðar úti fyrir Vestfjörðum.
Fleiri gerðir þrumuveðra
Hér að ofan voru tvær ástæður þrumuveðra taldar:
(i) óstöðugt loft hitað neðanfrá (með inngeislun eða upphitun frá hlýju hafi.
(ii) rakt hlýtt loft stingst inn undir þurrt og fremur svalt.
Við nefnum nú þrjár ástæður til viðbótar.
(iii) Þegar óstöðugt loft berst að fjallshlíð og vindur ýtir á eftir verður í því meiri rakaþétting en óstöðugleikinn einn hefði getað framkallað. Aukalosun dulvarma kallar þá á enn aukinn óstöðugleika og þar með nær uppstreymiseiningin ofar en ella hefði orðið og ef hún nær nægilega hátt aukast líkur á þrumum. Takið eftir því að hér verður uppstreymið að verða í einni einingu ef þrumuveður á að myndast þannig að rakinn sem er neðarlega berist nægilega hátt upp. Algengast er hins vegar að loft sé stöðugt þegar það er þvingað upp eftir fjalli. Þá ýtir það loftinu fyrir ofan upp á við og svo koll af kolli upp í veðrahvörfin, en lagskipting helst og þó uppstreymi sé þá í öllu veðrahvolfinu, er þó ekki samgangur milli neðri og efri laga eins og er þegar loftið er mjög óstöðugt. Í slíkri lagskiptingu verða engar þrumur.
(iv) Skilaþrumuveður. Þrumuveður eru nokkuð algeng þegar kuldaskil fara hjá að vetrarlagi, þau eru þá svipaðs eðlis og flest önnur vetrarþrumuveður og lýst var að ofan. Uppstreymið er þó oftast í samfelldum, mjóum skýjagörðum. Sumardæmið frá 1976 sem tilfært var að ofan mætti kalla þrumuveður við framsókn hitaskila og eru þau algengari að sumar- en vetrarlagi.
(v) Ókyrrðarþrumuveður (alltaf í mjög miklu hvassviðri). Þessi skilyrði koma aðeins upp í miklum útsynningsillviðrum að vetrarlagi og skila aðeins einstökum þrumum (skruggum), oft er veðurgnýr mikill og þruman greinist því illa en sé dimmt lýsir eldingin upp stór svæði (rosaljós).
Innviðir þrumuskýs
Þrumubólstrar ná undantekningalítið upp í veðrahvörfin. Það þýðir að efsti hluti þeirra er flatur og oft kembir klósigabreiðu fram af þeim. Til hliðanna má sjá (blómkálslaga) bólstra sem enn hafa ekki náð fullri hæð þeirrar uppstreymiseiningar sem virkust er. Neðan úr skýinu hanga úrkomuslæður, dekkstar næst því og er þar oftast um snjóflygsur eða hagl að ræða, sé úrkoman mikil má sjá slæðurnar ná alveg til jarðar. Inni í skýinu eru dropar, ískristallar og hagl. Stærstu droparnir eru það stórir að uppstreymið er ekki nægilegt til að halda þeim á lofti og því falla þeir í átt til jarðar.
Séu þeir nægilega margir draga þeir loft með sér niður á við í skýinu. Loftið ætti að hitna í niðurstreyminu, en droparnir taka þá að gufa upp og uppgufunin kælir loftið jafnharðan svo lengi sem nægilegt dropamagn er til staðar, loft sem blandast inn í skýið að utan auðveldar uppgufunina. Loftið getur síðan kólnað það mikið að það missir flot og fellur til jarðar í svonefndum fallsveip. Ef þyngdaraflið fær að njóta sín getur það myndað mjög öflugan vind niðri við jörð. Við finnum oft vindsveipi af þessu tagi ryðjast hjá í skúraveðrum, jafnvel þó þeim fylgi ekki þrumur.
Sé kalda loftið að ofan nægilega umfangsmikið getur það borist út undan skýinu og jafnvel myndað þar sérstök hjáský af flákaskýjaflokki, stratocumulus arcus, bogflóka. Í draumalandi þrumukerfanna, Bandaríkjunum, kalla menn þessi ský hillur eða hilluský sem skapa óhug vegna þess að þau geta boðað tilurð skýstrokka í þrumukerfinu. Niðurstreymið sem bogskýin sýna mynda stundum hálfgerð veðraskil eða hviðuskil eins og þau nefnast. Fallsveipir eru sérlega hættulegir flugvélum nærri flugtaki og lendingu.
Niðurstreymi í hluta skýsins auðveldar uppstreymi annars staðar í því. Í háum skýjum getur lóðréttur vindhraði orðið meiri en 30m/s. Úrkoman er upphaflega mynduð á ískristöllum, þeir mynda snjó sem bráðnar og verður að vatnsdropum þegar hann fellur neðar í skýið. Lendi droparnir síðan í uppstreymi frjósa þeir aftur, í þetta sinn sem kúlulaga dropar (oftast ógagnsætt frauð) á leiðinni upp. Vatnsdropi eða haglkorn geta þá farið nokkrar umferðir upp og niður skýið áður en þau loks ná að falla til jarðar.
Eldingar og þrumur
Elding verður þegar losnar um stöðurafmagn þegar spenna er orðin nægileg til að yfirvinna lága rafleiðni lofts. Úr verður risavaxinn neisti á milli staða þar sem rafhleðsla er jákvæð og þar sem hún er neikvæð. Oft skapast spennan milli skýs annars vegar og jarðar hins vegar (10-20% tilvika), en oftast milli svæða innan sama skýs (yfir 80% tilvika). Rafspenna er venjulega mjög mikil milli jarðar (sem er neikvætt hlaðin) og lofts (sem er jákvætt hlaðið) mættisspennan er venjulega um 300 þúsund V (volt). Í þrumuveðrum riðlast jafnspennufletirnir mjög vegna þess mikla lóðrétta streymis sem þar á sér stað og auk þess framleiða þrumuský stöðurafmagn eins og er nánar sagt frá hér að neðan. Hluti skýsins verður neikvætt hlaðinn en hluti þess jákvætt. Spennan sem aðskilnaðurinn skapar getur orðið allt að 4 milljón V/m.
Raforkan verður að sjálfsögðu ekki til úr engu, heldur er úrkoman sem fellur í skýinu og úr því að skila til baka hluta af þeirri staðorku sem byggðist upp í rísandi vatnsgufu uppstreymiseiningarinnar. Orka uppstreymisins fæst ýmist með upphitun yfirborðs eða með losun dulvarma við rakaþéttingu.
Í flestum þrumuveðrum er rafhleðslu þannig háttað að í miðjunni er mjög öflug neikvæð hleðsla sem liggur milli jákvæðra hleðsla ofan og neðan við. Neikvæða hleðsluhámarkið er oftast ekki fjarri 15°C jafnhitafletinum. Ástæða þessarar hleðsluskiljunar tengist rafeiginleikum ískristalla og hagls annars vegar og lóðréttu streymi innan skýsins hins vegar.
Með tilraunum hefur verið sýnt fram á að hleðsluskiljun á sér stað í ís (t.d. hagli) ef hitamunur er til staðar milli mismunandi hluta ísagnarinnar. Kaldasti hluti hennar verður jákvætt hlaðin er jákvæðar jónir leita þangað. Þegar undirkældur vatnsdropi frýs (og verður síðan að hagli) verður hann kaldari að utan en innan. Inni í skýinu eru stöðugir árekstrar milli haglkorna. Við árekstrana brotna litlar flísar utan af þeim, þetta ytra byrði (kaldasti hluti kornsins) geymir jákvæða hleðslu, en innri kjarni (hlýrri hluti) situr eftir með neikvæða. Flísarnar eru léttari en kjarnarnir og uppstreymi í skýinu á léttara með að lyfta þeim en kjörnunum sem falla nær jörðu. Þannig aðskiljast jákvæðar og neikvæðar hleðslur á furðuhraðvirkan hátt. Hleðsluskiljun þessi er áhrifamest á hitabilinu 5°C til 30°C mest við um -15°C.
Elding er meira en einn neisti, rafstraumur rennur nokkrum sinnum fram og til baka í gegnum rásina sem fyrsti leiðineistinn býr til. Leiðineistinn er ívið hægari en þeir sem á eftir fara vegna þess að hann verður að ryðja brautina. Auðveldasta leiðin liggur sjaldnast beint í átt til þess staðar þar sem eldingunni lýstur niður, heldur eftir nokkrum krákustígum, stundum leitar leiðineistinn að fleiri en einni leið samtímis og getur eldingin þá haft margar greinar.
Venjulega slær henni þó niður aðeins á einum stað, ein rás myndast frá skýi í jörð og rafstraumur hleypur á milli. Örskotsstund síðar fer straumur til baka upp eftir rásinni, sá straumur er meiri en hinn fyrsti og hitar rásina enn meira og eldingin verður bjartari og þetta andartak markast á sjónhimnur okkar sem horfum á. Loftið í rásinni jónast og fer nú rafstraumur um rásina gjarnan 2 3 sinnum hvora leið, en mælingar hafa sýnt allt að 24 sinnum samtals. Rásin nær gjarnan ofar og ofar í skýið í seinni skiptin, en allt þetta gerist á nokkrum hundruðustu hlutum úr sekúndu. Rásin var upphaflega aðeins nokkrir mm í þvermál en við fullan hita er þvermál eldingar nokkrir cm. Loftið á stærra svæði kringum kjarnann glóir þá líka þó það sé ekki fulljónað.
Þruma er brestur sem fylgir eldingu. Ástæðan er snögg hitun lofts í eldingunni, sprengihitun, því hitinn getur náð allt að 30 þúsund °C og hitunin gerist á fáeinum míkrósekúndum. Ljós eldingarinnar sést samtímis því sem eldingunni lýstur niður, en þruman berst með hraða hljóðsins (332m/s við 0°C). Því má nota tímamun milli eldingar og þrumu til að áætla fjarlægðina, sé hann 3 s er fjarlægðin um 1 km. Sé maður staddur nærri eldingunni heyrist mikill brestur, en lengra í burtu verður þruman meir eins og mikill undirgangur sem tekur nokkurn tíma að líða hjá. Hljóðið kemur frá mismunandi hlutum eldingarinnar og eru þeir mislangt í burtu frá hlustandanum, bergmál er einnig algengt. Þrumur heyrast yfirleitt ekki lengra en um 10 km, en bjarmi frá eldingu getur sést mun lengra að eða tugi km við heppileg skilyrði.
Hagl
Greint er á milli þess sem við venjulega köllum hagl eða snæhagl annars vegar og svo íshagls hins vegar. Íshagl er mjög sjaldgæft hér á landi en hefur þó sést í mestu þrumuskúrum að sumarlagi. Munurinn felst bæði í stærð og innri gerð, smáhaglið verður sjaldan meir en 1 cm í þvermál (oftast minna, um 2 til 5 mm), en íshaglið er að jafnaði stærra, langoftast 1 til 2 cm og alloft 4 til 7 cm. Stærra hagl er sjaldgæfara en stærsta hagl sem vitað er um var um 20 cm í þvermál, sá ásinn sem lengstur var.
Að jafnaði verður mikið tjón þegar íshagl fellur, það stórskaðar gróður og stærri höglin brjóta rúður og beygla bíla. Svo mikið getur fallið af hagli um hásumar að alhvítt verði jafnvel þó hiti sé yfir 10°C eða enn hærri. Þetta gerist alloft hér á landi, en þessi snjór bráðnar mjög fljótt. Í Bandaríkjunum eru dæmi um allt að 45 cm snjódýpt eftir haglél sem stóð í um eina klukkustund og þrjátíu mínútur. Geta má nærri að uppskera undir því hefur farið algjörlega forgörðum. Sé íshagl skorið í sundur kemur í ljós að það er á víxl samsett úr glærum ís og ísfrauði.
Smáhagl er eingöngu úr frauði (oft er reyndar þunnt, glært íslag yst). Lagskiptingin bendir á upprunann, frauðið verður til við hraða þéttingu ofarlega í skýinu í miklu frosti, glæri ísinn er vitnisburður um hægari ísmyndun neðar í skýinu og jafnvel bráðnun í þeim hluta þess þar sem hiti er yfir frostmarki. Hvert frauðlag þýðir eina ferð upp skýið, haglið er gripið af uppstreymi, berst með því hátt í skýið, fellur þaðan niður aftur og er aftur gripið af uppstreymi og þannig koll af kolli. Talið er að vindhraði í uppstreymi þurfi að vera að minnsta kosti 80 m/s ef haglið á að ná 10 cm þvermáli. Íshagl sem er 3 cm í þvermál þarf um 30 m/s uppstreymi.
Af stærð íslenskra haglkorna má ráða að uppstreymi í íslenskum þrumuveðrum er trúlega minna en þetta nema í algjörum undantekningartilvikum og að höglin fari hér að jafnaði ekki nema eina ferð upp. Auk þess er rakainnihald loftsins sem upphaflega lyftist lítið og dulvarmi sem íslenskt ský hefur til ráðstöfunar því lítill miðað við það sem algengt er erlendis.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.7.2018 | 03:00
Flís af hlýju lofti
Flís af hlýju lofti er nú á leið til landsins - en fer hratt hjá og ekki enn ljóst hversu mikið hennar gætir í mannheimum. Von er þó til þess.
Við lítum hér á fremur sjaldséð veðurkort. Það gildir um hádegi á morgun, laugardag 28.júlí. Heildregnu, gráu línurnar eru sjávarmálsþrýstingur - rétt eins og á venjulegu veðurkorti. Dýpkandi lægð er við Bretland á leið til norðvesturs. Þykktin er sýnd með rauðum strikalínum. Þykktin mælir sem kunnugt er hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Það er 5600 metra jafnþykktarlínan sem er hér yfir Austurlandi á leið til vesturs. Meira en 5600 metrar er ekki algengt hér á landi - kemur ekki fyrir á hverju ári yfir landinu.
Litafletir sýna svonefnt veltimætti. Ekki alveg einfalt hugtak en hefur þó verið getið áður á hungurdiskum - með tilraun til skýringa - sjá t.d. pistil 22.júní 2014. En við skulum bara segja hér að það sé einfaldur vísir á þrumuveður.
Það er furðualgengt að þrumuveður geri þegar hlýtt loft frá Evrópu ryðst til landsins með látum - um það má nefna mörg dæmi. Gerist það nú? Það er spurningin. Reyndar hefur henni þegar verið svarað að nokkru því nokkrar eldingar mældust nú fyrr í kvöld undan Suðausturlandi eins og kortið hér að neðan sýnir (af vef Veðurstofunnar).
Ekki er þetta nú mikið - en samt.
Þetta kort sýnir stöðuna um hádegi á sunnudag. Þá er þykktin yfir mestöllu landinu meiri en 5600 metrar - en kaldara loft sækir þegar að aftur úr suðaustri. Allmikið veltimættishámark er yfir landinu suðvestanverðu - þetta hlýja loft er sum sé mjög óstöðugt (nái það að lyftast og raki þess að þéttast).
Þessi hlýja flís er því girt á báða vegu af miklu veltimætti - spurning hvort það skilar þrumuveðri/þrumuveðrum - og úrhelli.
Svo er spurning hvort hiti nær sér á strik. - Margs konar álitamál fyrir veðurnördin.
26.7.2018 | 00:57
Við miðsumar (í skyndingu)
Nú eru liðnar 14 vikur af íslenska sumrinu. Sumarmisserið er venjulega 26 vikna langt, en að þessu sinni er sumarauki þannig að ein vika bætist við. Sumaraukavikan hefur ekkert með veður að gera (þó ekki veitti af um landið sunnan- og vestanvert að þessu sinni) heldur er hlutverk hennar það sama og hlaupársdagsins - sér til þess að misræmi safnist ekki upp milli tímatals og sólargangs. - Tæknilega er sumaraukavikan ekki sú síðasta í sumri, heldur er henni skotið inn nærri miðsumri. Núlíðandi vika er sumarauki. Í ár er miðsumar samkvæmt tímatalinu þann 29.júlí. Frá miðsumri fóru menn að telja niður til veturs - 13 vikur (búnir með sumaraukann og svonefndar aukanætur - (sumardagurinn fyrsti er á fimmtudegi, en fyrsti vetrardagur á laugardegi)).
En 15. vika sumars hefst á morgun, fimmtudaginn 26.júlí. Mikil umskipti urðu í tíð skömmu eftir sumardaginn fyrsta - og hefur haldist svipuð síðan að því leyti til að óvenjulegt sólarleysi hefur verið ríkjandi um landið suðvestanvert með miklum úrkomum og nokkuð svölu veðri, en hlýindi hafa gengið norðaustan- og austanlands. Úrkoma hefur þar þó verið mjög mismikil - sums staðar furðumikil, en annars staðar minni.
Á Austfjörðum verða hlýindin að teljast óvenjuleg. Meðalhiti fyrstu 14 vikur sumars á Dalatanga er 7,5 stig, 0,5 stigum ofar en það hlýjasta til þessa þar um slóðir að minnsta kosti frá 1949 að telja. (Ritstjórinn hefur enn ekki reiknað daglegan meðalhita á Dalatanga 1939 til 1948 - enda liggur hitinn þar óskráður á stafrænt form). Það sem af er júlí hefur þó heldur slegið á hitavikin jákvæðu eystra - enda áttin orðin ívið suðlægari og jafnvel suðaustlægari en var fram að því.
Í Reykjavík hefur aftur á móti verið heldur svalt, meðalhiti þar fyrstu 14 vikur sumars er aðeins 7.7 stig. Ómarktækt kaldara (7,6 stig) var á sama tíma 2015, en síðan þarf að fara aftur til 1993 til að finna jafnlágan meðalhita fyrstu 14 sumarvikurnar - á eldri tíð er slæðingur af lægri tölum.
Úrkoman hefur hins vegar verið óvenjulegri, mælst hafa rúmlega 300 mm í Reykjavík vikurnar fjórtán, það mesta sem vitað er um sömu vikur - næstu tölur eru um 250 mm, 2014 og 1887.
Svipað er að segja um sólarleysið. Aðeins mældust 343,7 sólskinsstundir í Reykjavík, það minnsta sem vitað er um fyrstu 14 vikur sumars - en ómarktækt minna en á sama tíma 1913, 1914 og 1984.
Góðu tíðindin eru þau að svo virðist sem heldur hlýrri dagar séu framundan (þó varla þurrir) - hvað sem hlýjan svo endist er annað mál. Langtímareikningar sýna engar marktækar breytingar á veðurlagi á næstunni - og þó lengri framtíð sé auðvitað fullkomlega frjáls er það samt þannig að júlí og ágúst spyrða sig oftar saman hvað veðurlag varðar heldur en aðrir almanaksmánuðir - þeir einu reyndar sem sýna einhvern marktækan samvinnuvott.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2018 | 23:51
Í kringum hvor aðra
Tvær lægðir stefna nú til landsins. Spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar hér að neðan gildir kl.6 í fyrramálið (miðvikudag 25.júlí).
Lægðin við Suður-Grænland er mjög djúp, líkanið segir hér 978 hPa í miðju. Allt undir 980 hPa telst í dýpra lagi á þessum árstíma og þrýstingur undir 975 hPa er óvenjulegur. Þessi lægð er með kalt loft í bakið og stefnir til austsuðausturs - verður að háloftalægð. Önnur lægð er síðan langt suður í hafi. Hún verður að taka sveig framhjá þeirri fyrri - umferðarreglum verður að hlíta - háloftalægðir hafa forgang. Sennilega fylgir töluverð úrkoma sunnanlægðinni - og nokkur hlýindi þar sem ekki rignir því meira.
Sunnanlægðin verður væntanlega búin að ljúka sér af að mestu á föstudaginn - en þá er hin enn á lífi og veldur austanátt hér á landi. - En það er lítill friður því vestast á kortinu er lægðakerfi sem ekki er alveg ljóst hvað verður úr - en því liggur á. Til að komast hingað verður það að fara suður fyrir - rétt eins og sú fyrri - enn er farið eftir umferðarreglum háloftanna.
Ekki vitum við hvort sunnudagurinn verður fyrir valinu til samkomu hér á landi - en það skiptir svosem litlu - það rignir flesta daga hvort eð er - og lítið lát á.
23.7.2018 | 22:00
Ritstjóraþus
Koma nú í hug orð Þórðar Kristleifssonar kennara á Laugarvatni, rituð í tímaritið Veðrið 2.tölublað 1959:
Því mun almennt haldið fram, að á landi okkar sé tíðarfar ákaflega breytilegt. En þó mætti tilfæra ótal dæmi þess, að oft geti verið mjög langviðrasamt. Við, sem höfum skyggnzt til veðurs með leikmannsauga um áratugi, höfum veitt því athygli, að heil sumur, jafnvel heil ár eða ár eftir ár ríkir sams konar veðurfar: heiðríkja og blíðviðri eða stilla viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, eða skuggar, regn og snær leika lausum hala og láta þá oft eigi hlut sinn fyrr en i fulla hnefana.
Tíðarfar þessa sumars sem nú er hálfliðið hefur verið óvenjulegt, ekki er hægt að neita því, sérlega drungalegt um landið sunnan- og vestanvert, en hlýtt og hagstætt í flestan máta austanlands. Gætir nokkurrar óþolinmæði meðal fjölmargra dimmsveitunga - en kannski eru austlendingar farnir að kvíða þeim umskiptum sem óhjákvæmilega munu koma þar um síðir.
Þó ástandið sé venju fremur þrálátt er samt ekki hægt að halda því fram að í þráviðri þessu (eða langviðri sem Þórður nefnir) einu og sér leynist einhver vísbending um breytt veðurfar. Þó framtíðin eigi sig sjálf og muni örugglega færa okkur ýmsar óvæntar breytingar og vendingar í veðri er í raun ekkert um slíkt hægt að segja að svo stöddu. Þessi fullyrðing ritstjórans byggir einkum á því að hann hefur svo oft heyrt þessa sömu fullyrðingu áður - af svipuðu tilefni. Þráviðrakaflarnir sem hann man eru nefnilega býsna margir - og hver þeirra hefur sungið með sínu lagi.
Miklar breytingar urðu í veðurlagi upp úr 1960 - þær man ritstjórinn næsta vel - og sömuleiðis ýmsa þætti umræðunnar sem fylgdi í kjölfarið. Hinn almenni og viðtekni sannleikur var að veður hefði skipast til eldri hátta - sagt var að þeir einkenndust af aukinni tíðni fyrirstöðuhæða og að tíðni slíkra hæða væri meiri og þær væru þrálátari í köldu veðurfari heldur en hlýju. Hringrás lofthjúpsins yrði lengdar(bauga)bundnari sem kallað er.
Gott og vel. Þessu var auðvitað almennt trúað. Hægt var á þennan hátt að kenna kólnandi veðurfari um bæði þrálát kuldaköst sem og óvenjulegar hitabylgjur. Hinir miklu þurrkar og hitar í Vestur-Evrópu, kuldarnir miklu í Norður-Ameríku austanverðri 1977 og 1978 og mörg önnur óáran féllu ljómandi vel að þessum hugmyndum.
Árið 1981 vöknuðu menn síðan upp af værum blundi. Hiti á norðurhveli jarðar var allt í einu orðinn hærri en dæmi voru um áður. - Enda tók ný tíð við. Það bætti í hlýnunina um og fyrir 1990 - sérstaklega í fjölmiðlaþéttum löndum - og það sem mest var um vert að breiddarbundna hringrásin bætti töluvert í sig. Allt var að ganga eftir - kenningin virtist halda. Fyrirstöður virtust falla og vestanáttin færði með sér hlýindi bæði vestanhafs og austan. (Ekki hér og á Grænlandi). Þessi umskipti hlutu að vera óhjákvæmilegur fylgifiskur hnattrænnar hlýnunar (sem var að vísu alveg raunveruleg).
En veturinn 1995 til 1996 varð nokkuð erfiður - hlýr, en samt fyrirstöðuflæktur. Nokkrum árum síðar var vissa um tengsl lengdarbundinna hringrásartilhneiginga við hitafar á norðurhveli ekki lengur fyrir hendi.
Síðan eru liðin allmörg ár. Hringrás ársins 2010 varð mjög afbrigðileg - gríðarþrálát fyrirstaða við Grænland sérstaklega áberandi. Grænlandsfyrirstöður urðu svo þrálátar um nokkurra ára skeið að farið var að halda því fram í alvöru að það væru þær sem væru hið sanna merki framtíðarveðurlags - Grænlandsjökull tók líka undir það með mikilli bráðnun.
Ritstjóri hungurdiska fjallaði oft um þessar merkilegu fyrirstöður áranna 2010 til 2012 í pistlum og þrákelkni þeirra.
Það er óvenjuþrálát fyrirstaða yfir Skandinavíu og þar í grennd sem ráðið hefur veðurlagi við norðanvert Atlantshaf í sumar. Enn og aftur heyrist nú söngur í blænum um að slíkar fyrirstöður fylgi óhjákvæmilega hlýnandi veðurfari á heimsvísu - (og geti þannig valdið kólnun staðbundið) - eins og allir séu löngu búnir að gleyma því að þær áttu einmitt að fylgja köldu heimsveðurlagi. - Meira að segja heyrast sögur um að fyrirstaða á þessum ákveðna stað sé framtíðin (vetur, sumar, vor og haust). Fyrir örfáum árum átti slík framtíðarfyrirstaða hins vegar heima við Grænland - fjölmargir virtust vissir um það.
Eftir stendur að umtalsvert hefur hlýnað í heiminum á síðustu 150 árum, langlíklegasta skýringin er sú mælanlega breyting sem orðið hefur á geislunareiginleikum lofthjúpsins vegna mikillar losunar gróðurhúsalofttegunda sem lofthjúpurinn hefur ekki undan að losa sig við. Við skulum þó varast í lengstu lög að tengja hlýnunina hugsunarlítið við allt sem fyrir verður - slíkt er bæði þreytandi og villandi.
Já, það er langviðrasamt á Íslandi - þó veðrið breytist hratt frá stund til stundar.
22.7.2018 | 22:06
Af árinu 1809
Frægustu hundadagar Íslandssögunnar - þá ríkti Jörundur kóngur. Árið fær ekki mjög slæma dóma - þó slæm hafi hretin vissulega verið. Hin vonda veðrátta virðist ekki hafa verið mjög óhagkvæm.
Reyndar eru frásagnir og lýsingar af veðurlagi þessa árs ekki ítarlegar í heimildum. Við erum þó svo heppin að danski strandmælingaflokkurinn hélt úti athugunum á Akureyri þrisvar á dag allt árið auk þess sem slæðingur af mælingum er líka til frá Sveini Pálssyni í Kotmúla í Fljótshlíð. Mælingar og frásagnir smella vel saman og búa til allgóða mynd af veðurlagi ársins. Ekki eru teljandi fréttir af hafís.
Janúar og febrúar voru kaldir, en síðan var mun hlýrri tíð á góu og einmánuði - fram undir sumarmál að hríðar gerði.
Mikið hret gerði í lok maí eftir sérleg hlýindi nyrðra um og uppúr hvítasunnu [21.maí]. Á Akureyri komst hiti yfir 20 stig þann 25.maí og hafði komist nærri 20 stigum fáeina daga þar á undan, fyrst þann 20. Að kvöldi þess 26. féll hitinn niður undir frostmark og þann 29. fór frostið í að minnsta kosti -6 stig. Þá var blindhríð. Sveinn Pálsson var á ferðalagi þá daga sem kaldast var og mældi því ekki hita í Kotmúla, en segir frá því í veðurbók sinni að frost hafi verið allan daginn bæði 29. og 30.maí. Fréttir eru um snjókomu í Skotlandi í júní 1809 - ekki er útilokað að það sé sama hret og hér.
Óþverraveður af vestri - fyrst með stormi en síðan rigningu - gerði á Akureyri í síðustu viku júnímánaðar. Eins og sjá má á línuritinu komu allmargir hlýir dagar í júlí og hiti fór alloft yfir 20 stig um miðjan daginn, mest í 23 stig þann 5.júlí.Þann 26.fór mjög kólnandi og gekk í versta veður. Allmikið rigndi og þann 31.gerði krapahríð sem stóð linnulítið í fimm daga trúum við veðurathugunum - hiti fór hvað eftir annað niður undir frostmark og sjálfsagt hefur snjó fest á Akureyri. Um þessa hríð er getið í heimildum (sjá að neðan).
Skiptust nú á þokur og rigningar nyrðra - en sæmilegir dagar komu þó á milli. Mikið hret gerði síðan um 20. september, á fór frost niður í um -12 stig á Akureyri þegar mest var. Nokkuð hlýtt var hins vegar í október. Árið endaði með miklum kuldum.
Nokkuð frost varð líka hjá Sveini í septemberhretinu eftir þann 22. og eitthvað snjóaði. Annars virðist dægursveifla hita hafa verið stór í bjartviðri syðra, bæði í ágúst og september. Fjölmarga daga virðist sól hafa náð á mæli Sveins um miðjan dag.
Annáll 19.aldar segir - að mestu beint eftir tíðarvísum Þórarins í Múla:
Vetur frá nýári var í betra lagi um allt land, þó víða stormasamt um góu, og mátti kallast bærileg tíð til fardaga; gekk þá í hríðar öðruhverju og varð grasspretta mjög lítil, sumarið fúlt og kalt, og stórhríð um hundadaga í Norður-Þingeyjarsýslu; batnaði um sinn, en gekk aftur í hríðar mánuði fyrir vetur með hörkum, svo að ár og vötn lagði; linaði þó brátt aftur, en með jólaföstu komu stormar og köföld, er vöruðu til ársloka. Fiskihlutir urðu lágir um veturinn í veiðistöðvum vegna ógæfta, góðir um vorið og sumarið syðra og eystra, en í minna lagi nyrðra. Hval rak í Flatey á Breiðafirði. Um 1000 af marsvínum náðist á Akranesi, rak sumt, en sumt var af mönnum rekið á land, og lítið minna í Ísafjarðarsýslu.
Fjölda slysfara og drukknana er getið, en ekki fylgja dagsetningar, nema 29.maí þegar 14 árs stúlka frá Brimnesi í Svarfaðardal varð úti í hríð.
Brandsstaðaannáll:
Til þorraloka var stillt og gott veður, en oftast með hægum frostum, snjólítið til lágsveita, en stundum storka til fjallabyggða. Á góu var einasta gjafatími. Var þá óstöðugt, blotar og köföld stundum, en nóg jörð og aldrei innistaða. Á einmánuði besta vorblíða; unnið á túnum eftir vild manna, en þó fönn allmikil 4 síðustu daga hans.
Aftur góðviðri til maí og gróður. Með maí kuldasamt til krossmessu, hreta lítið; þá góðviðri og hitar oft til trinitatis [28.maí] í sjöttu viku sumars. Þá gerði mikið hret og var snjór á um viku og fjúk um nætur. Tálmaði það gróðri.
Eftir það stillt og kalsasamt. 26.júní fóru flestir í lestarferð, sem annars undanfarin ár var um og eftir þingmaríumessu. Var þá um lestatíma regnsamt syðra; stórrigning 9.-10. júlí. Voru lestamenn lengi að að leita upp og tæma skreiðarbirgðir Sunnlendinga, því mikils þurfti með. 24.júlí byrjaði sláttur. Voru þá rekjur góðar og þerrir með ágúst af landnorðanstormi og hretviðri og frost á nætur, vond tíð og grasbrestur ytra. Frá 6 ágúst góð heyskapartíð til gangna, en á öllu harðlendi var grasbrestur og varð heyafli í minna lagi, en fyrningar voru miklar.
Um jafndægur mikið hret og og snjór til Mikaelsmessu [29.september]; þá til vetrar þítt, nokkuð stormasamt og óstöðugt. 1. sunnudag í vetri fjarska fönn, er lá í 4 daga, tók fljótt upp. Í nóvember snjólítið, þíður og slyddur og óstöðugt. 4.-10. (s58) des. landnorðanhríðar og fannkoma mikil. Fyrir jól blotar og áfreðar. Á jóladaginn varð jarðbann til allra framdala. (s59)
Frú Gyða Thorlacius segir sumarið hafa verið hagstætt, en kvartar undan trínitatishretinu sem vonlegt er:
(Úr Fru Th.s Erindringer fra Island) Sommeren 1809 var meget gunstig.(s57) I Mai saaede Fru Th. sit sidste Frö. Det kom godt op; men da indtraf et Uveir med Snee og Frost, som varede i 8 Dage, og da Sneen var optoet, vare de grönne Urter nersten alle forsvundne (s58)
1809 Orð og orð úr dagbókum Jóns Jónssonar (uppskrift trj sem breytti stafsetningu)
Janúar mán ... mikið góður
stillt . Febrúar var mikið góður
stillt að veðuráttu, Mars ágætur allur yfirhöfuð. Júlí
kaldur. September í meðallagi. Október
góður að veðuráttu. Nóvember í meðallagi. Desember má enn teljast í meðallagi. Þetta ár ... uppá veðuráttufar verið yfir höfuð að segja rétt gott, veturinn mildur góður og hagstæður og sumarið ogso allsæmilegt þó
þungt áfelli gerði síðast í maí.
Ekki er annað að sjá en að dimm él hafi verið innst í Eyjafirði þann 1.ágúst og Jón minnist á ökklasnjó - en ekki læsilegt hvar það er, líklega hefur hann frétt það að.
Úr tíðarvísum Þórarins í Múla:
Yfir höfuð, en þótt góður væri,
mjög svo undra misfallinn
margir fundu veturinn.
Hörð þá norðan hauðrið veðrin skóku,
ís úr hafi aldan spjó;
ei viðtafir hafði þó.
Vetrartíð að vori fram svo leiddist,
hæg og væg að hörk´ og snjó,
högunum þæga von tilbjó.
Vestan æstist veður hvasst með góu,
frosnu varð á fróni rót,
frekt uppbarði sand og grjót.
Húsa féll og heyja þökum skaði,
voða þétt um víða sveit,
veðrið þetta sundursleit.
Líklegast er að þessi veður hafi gert síðustu tíu daga febrúarmánaðar, en þá gengu nokkuð ruddalegir umhleypingar á Akureyri með miklum hitasveiflum og stormi af og til. Jón á Möðrufelli kvartar þó ekki svo mjög undan veðrinu.
Vetri þýðum vorið eftirfylgdi,
raunar síðla, rammar þó
ráku hríðar niður snjó.
Hér á eftir talar Þórarinn um hvítasunnuhitana og síðan trínitatishretið:
Mestu hitar mundu´ um hvítasunnu,
himin glóðar hægt umfar
högum þjóðar yndi bar.
Skömmu síðar skipast veður í lofti:
Í fardögum yfirsló
ísalögum, hríð og snjó.
Veitti hnekkir vaxtar-ríki öllu:
skemmdi jörð og skepnurnar;
skorpan hörð og langstæð var.
Grasár bágt, og grundin víða kalin,
sumarið veittist síðan allt
sjaldan heitt, en fúlt og kalt.
Svo kemur að hundadagahríðinni - höfum í huga að Þórarinn er staddur í Suður-Þingeyjarsýslu.
Úr hófi keyrði´ í hundadögum miðjum;
verst að frosti vetrarhríð
var, og kostalítil tíð.
Á sumum stöðum sukku hús og bæir,
við heima-túna heyskaps önn
að hálfu búna´ í gadd og fönn.
Gras af kulda gróið lítt og vaxið
fordjarfaðist fast og laust:
firna skaði þar af hlaust.
Hundadaga - hundrað ára gamla -
voða frekan vonsku byl
varla rekur minni til.
Mun og þetta mest í Norðursýslu;
hún hefur þrátt af harðindum
harma mátt og illviðrum.
Og septemberhretið:
Ár og vötnin ísalögum fyllti;
veðra gammur víða fló,
viðdvöl skamma hafði þó.
Aftur bati æskilega góður
Mikaelis-messu frá,
mánuð vel ei þessu brá.
Haustbrim mestu höfin norður æstu;
skaflar sprungu, skelli-klið
sker og klungur börðust við.
Enn nú síðast undir jólaföstu
væga tíðin vistum brá,
vetrar-hríðir lögðust á.
Jón Hjaltalín:
Vetrartíðin færði frið
farsæld víða jörðum,
---
Fram á góu blíðan bjó
brögnum rósemd staka,
aldrei sló á merskis mó,
miklum snjó né klaka
...
Vorið bjó ei virðum ró,
vindar flóa hrjáðu,
fengu þó úr flyðru mó
fisk þeir róa náðu.
Sumars tíð ei sára blíð,
sýndi stríða kafla,
syðra víð þó svana hlíð,
sendi lýðum afla.
Þetta verður að nægja sem stendur um tíðarfar ársins 1809. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt Brandstaðaannáls.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2018 | 01:30
Hægfara breytingar?
Rétt er að halda spurningarmerkinu í fyrirsögninni til streitu - það er alls ekki víst að neinar efnislegar breytingar verði á veðurlagi á næstunni. Á þriðjudag og miðvikudag fer þó fram tilraun sem rétt er að gefa gaum þó líklegast sé að hún renni út í sandinn eins og þær fyrri.
Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa-fletinum síðdegis á þriðjudag, 24.júlí. Ísland er í þrýstiflatneskju - lægðir og smálægðardrög við landið og þar af leiðandi skýjað veður víðast hvar - og e.t.v. dálítil úrkoma. En snörp lægð er við suðurodda Grænlands á leið til austsuðausturs. Hún er tengd sliti út úr meginkuldapolli norðurslóða - hann hefur verpt eggi eins og ritstjóri hungurdiska hefur stundum orðað það.
Kalt heimskautaloft streymir til suðurs framhjá Grænlandi suðvestanverðu og út á Atlantshaf. Framrásin er nægilega öflug til að búa til myndarlega lægðarhringrás sem mun um síðir teygja sig til suðurs og austurs og hugsanlega - rétt hugsanlega - grípa þar eitthvað af hlýrra lofti og færa í átt til Íslands.
Þó lægðin nýja grípi e.t.v. í tómt ætti niðurstaðan samt að verða sú að ríkjandi áttir verði heldur austlægari en verið hefur. En svo gæti líka farið svo að við fáum þetta kalda loft úr vestri bara yfir okkur seinna í vikunni - rétt eins og algengast hefur verið í sumar og aftur verði að bíða í nokkra daga eftir nýju færi.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 11
- Sl. sólarhring: 184
- Sl. viku: 2458
- Frá upphafi: 2434568
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 2183
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010