Af þrumuveðrum

Hér fylgir alllangur texti um þrumuveður - þrekmiklir komast e.t.v. í gengum hann. 

Þrumuveður eru ekki algeng á Íslandi (þó annað mætti halda af tíðni þeirra í hérlendum kvikmyndum). Þau fáu þrumuveður sem hér koma eru langflest minniháttar. Eldingar valda þó alloft tjóni, t.d. hafa hús brunnið að jafnaði á 10 til 15 ára fresti af þeirra völdum, kvikfénaður hefur farist og nokkrir menn látist. Varasamt er að vanmeta eldingar. 

Þrumuveður verða til þegar veðrahvolfið fer að velta sér, þá er hitafall um 1°C/100 m í því öllu og loft óstöðugt.

(i) Því óstöðugra sem loftið er 

(ii) því hærra sem veltingurinn nær 

(iii) því meiri raki sem er í loftinu,

- því öflugri eru veðrin.

Af þessu má sjá hvers vegna þrumuveður eru sjaldgæf á Íslandi. Loft hér á landi er lengst af stöðugt og oft mjög stöðugt því neðsti hluti lofthjúpsins á norðurslóðum býr við mikinn hallarekstur á varmabúskapnum auk þess sem yfirborð jarðar og sjávar kælir allt loft sem að sunnan kemur. Til að búa til meiriháttar þrumuveður þarf allt veðrahvolfið að taka þátt í veltingnum, það gerist vissulega hér á landi en veðrahvörfin eru miklu lægri hér en yfir suðlægari slóðum. Þau leggjast á allt frekara uppstreymi og því getur það ekki náð eins hátt hér og sunnar. Kuldinn sér til þess að uppgufun og raki er hér mun minni en á suðlægari breiddarstigum.

Á þessu ástandi eru þó fáeinar undantekningar, hver um sig á þó við aðeins fáeina daga og dagparta á ári hverju. Fjöll hjálpa mjög til við uppstreymi, rekist óstöðugt loft á þau og því eru þrumur algengastar hérlendis nærri háum fjöllum á sunnan- og vestanverðu landinu.

Þrumuveður myndast í stórum skúra- eða éljaklökkum sem oft eru þá kallaðir þrumuklakkar eða þrumuský. Langoftast eru fleiri en ein upp- og niðurstreymiseining (eða veltieiningar) virkar á sama tíma. Hver þeirra lifir ekki mjög lengi en nýjar taka gjarnan við af þeim sem deyja. Á suðlægari slóðum geta tugir eða hundruð eininga hafa verið virkar í einu þrumuveðri sem staðið hefur í nokkra klukkutíma.

Myndun þrumuveðra á Íslandi
Nokkur myndunarferli koma við sögu við framleiðslu þrumuveðra:

(i) Loft verður óstöðugt vegna hitunar að neðan. Þessi upphitun er ekki sama eðlis sumar og vetur.

(a) Sumar
Þrumuveður verða stöku sinnum síðdegis á sumrin þegar sólin fær að skína og gera loft nægilega óstöðugt til þess að það geti leitað hátt upp eftir veðrahvolfinu. En þá verður að standa þannig á sama tíma sé tiltölulega kalt í efri lögum. Miklir skúraklakkar geta þá byggst upp yfir landinu og séu þeir nógu háir fylgja þeim þrumur. Ástand sem þetta stendur ekki nema mjög stuttan tíma af heildarlengd sumarsins. Sumarþrumuveður af þessari gerð myndast ekki yfir sjó.

Algengustu sumarþrumuveðrin mynda ekki veðrakerfi, heldur eru uppstreymiseiningarnar fáar og dreifast tiltölulega óreglulega. Oftast eru þrumur í hverju veðri mjög fáar. „Væg” sumarþrumuveður stafa oftast af því að yfir landinu situr mjög kalt loft sem ber ekki upphitun landsins þann tíma dags þegar sól er hæst á lofti. Þau verða því til í tiltölulega einföldum uppstreymiseiningum sem vegna kalda loftsins fá að berast mun hærra en venjulega. Upphitunin er fyrst að ná sér á strik yfir fjallahlíðum á móti suðri, auk þess sem yfirborð gróðurlítilla dökkra fjalla hitnar gjarnan meir en rakt yfirborð graslendisins. Fyrstu skúrir dagsins eru því oft réttnefndar fjallaskúrir.

Sé loftið mjög óstöðugt getur uppstreymið myndast nánast hvar sem er innan við ströndina, það rekst fyrr eða síðar á annað hvort mjög hástæð hitahvörf eða þá veðrahvörfin sjálf en þau eru hið endanlega þak uppstreymisins. Skýin sem fyrst voru aðeins venjulegir bólstrar eru nú orðin að risastórum klökkum með flatneskjulegt efra borð. Frá hlið sést að efri útjaðrar klakkanna eru þráðlaga og brúnir loðnar (merki um ískristalla).

Séu klakkarnir margir tengjast efri hlutar þeirra saman í samfellda skýjabreiðu sem getur þakið allan himininn talsvert út fyrir skúrasvæðið. En að loft sé á uppleið þýðir einnig að annars staðar er loft á niðurleið. Nái klakkurinn góðum þroska getur orðið niðurstreymi í honum sjálfum (meir þar um neðar), en oftast leystir niðurstreymið í sundur ský utan við skúrasvæðið. Því er algengt að þegar skúrir eru í Grímsnesinu er bjart veður úti í Vestmannaeyjum eða á Reykjanesskaganum utanverðum.

Þó þetta tiltölulega einfalda ferli geti valdið vænum skúradembum, jafnvel hagli og fáeinum þrumum brennir uppstreymið sér fljótlega upp því skýin loka fyrir inngeislun frá sól, hún lækkar einnig á lofti síðdegis. Auk þess er Ísland það lítið að talsverðar líkur eru á því að loftið sem dregst inn að miðju uppstreymisins sé fremur kalt, jafnvel komið utan af sjó. Síðdegisskúraástand sem þetta getur þó endurtekið sig dag eftir dag þó daglegar þrumur séu ekki algengar hér á landi.

Síðdegisþrumurnar verða vegna upphitunar sólar á yfirborði jarðar undir köldu veðrahvolfi. Sú upphitun stendur eðli málsins samkvæmt ekki nema þann hluta sólarhringsins þegar sól er hæst á lofti og reyndar ekki allan þann tíma því það tekur nokkra stund að vinna næturkælinguna upp. Ef loft er ekki því óstöðugra má því tala um „glugga” í þeim múr stöðugleika sem vinnur gegn uppstreyminu.

(b) Vetur
Þrumuveður koma einnig á vetrum, en þá hagar öðruvísi til en á sumrin. Þá er stöðugleiki yfir meginlöndunum mikill vegna mikillar útgeislunarkælingar, en Atlantshafið sér hins vegar um að verma loft að neðan sem berst út yfir það frá meginlöndunum. Upphitunin er því ákafari eftir því sem loftið sem út yfir hafið kemur er kaldara og þrumuveðratíðnin nær því hámarki á þeim tíma vetrarins þegar mestur hitamunur er á milli Atlantshafsins annars vegar og meginlandanna til beggja handa hins vegar.

Stöku sinnum gerist það að loftið sem frá meginlöndunum kemur nær langleiðina frá sjó og upp undir veðrahvörf. Þegar svo djúpt lag fer út yfir kaldan sjó er ekki að sökum að spyrja, veltan fer af stað og skilyrði myndast fyrir þrumuveður. Um leið og loftið kemur aftur inn yfir land deyr uppstreymið mjög fljótlega. Langoftast er kalda loftið upprunnið í Kanada og berst hingað fyrir sunnan Grænland en dæmi eru til þess að kalt loft komið að norðan hafi valdið vetrarþrumuveðri á Norðurlandi. Til þess að það geti gerst verður sjór norðan við land að vera hlýr og hafísinn verður líka að vera með minna móti svo kalda loftið geti aflað nægs raka á leið til landsins.

Loft sem komið er beint vestan eða norðvestan frá Grænlandi er langoftast of stöðugt til að geta valdið þrumuveðri. Ástæðan er niðurstreymið austan fjallgarðanna á austurströndinni. Þrumuveður eru sjaldgæf á vetrum á meginlandi Evrópu nema helst í V-Noregi og V-Skotlandi þar sem kalda loftið frá Kanada veldur þrumuveðrum líkt og hér á landi.

Meðan greinileg dægursveifla er í tíðni sumarþrumuveðra gegnir öðru máli með vetrarveðrin. Sumarveðrin eru þrælar sólgeislunar, en vetrarveðrin njóta hlýsjávar allan sólarhringinn. En komi uppstreymiseiningin yfir land (sem er alltaf kalt á vetrum) deyr hún fljótt. Loft sem upprunnið er yfir heimsskautaauðnum Kanada og lendir úti yfir hlýju Atlantshafinu kemst reyndar sjaldnast til Íslands en þegar það gerist hefur það gjarnan verið að minnsta kosti 2 sólarhringa á leiðinni.

Þegar hingað er komið er það orðið mun hlýrra (um eða rétt neðan frostmarks) en það var í upphafi (-20°C til –40°C) en samt er það ennþá kaldara en hafsvæðin hér suðvestur undan. Uppstreymið er því búið að standa miklu lengri tíma en uppstreymi á sumrin getur gert. Á móti kemur að loftið sem tekur þátt í sumaruppstreyminu er hlýrra (daggarmark lægsta loftsins gjarnan um 12°C) og getur því innihaldið meiri raka en vetrarloftið (daggarmark nærri frostmarki). Veðrahvörfin eru einnig lægri á vetrum og þar með getur dýpt uppstreymiseiningarinnar ekki orðið jafn mikil á þeim tíma árs og er á sumrin. Þrumur eru því ekki heldur margar í venjulegu vetrarþrumuveðri. En sá langi tími sem vetraruppstreymið hefur (1 til 2 sólarhringar eða meir) gefur því tíma til að hagræða loftstraumum í kringum sig og það getur myndað mjög reglulega klasa og jafnvel orðið að sjálfstæðum kerfum sem hafa áhrif á mun stærra svæði en sumaruppstreymið eins og það var kynnt að ofan.

Vindsniði og þrumuveður
(ii) Önnur þrumuveðragerð myndast aðeins ef lóðréttur vindsniði er mikill.

Í litlu sumarþrumuveðrunum hér á landi er hann að jafnaði mjög lítill. Þetta þýðir að uppstreymiseiningarnar brenna fljótt upp, þær vinna sitt verk, blanda því lofti sem tekur þátt í hringrásinni og uppstreymið hættir. Sé hæfileg vindaukning með hæð færist skýið (uppstreymiskerfið allt) með vindinum og getur þá gleypt nýjar og „ferskar” uppstreymiseiningar þannig að það endurnýjast sífellt. Klasi sem þessi er mun lífvænlegri en eitt stórt ský.

Breyti vindur bæði um stefnu og hraða með hæð geta við ákveðin skilyrði myndast mun öflugri þrumuveður en nefnd voru að ofan. Það er þegar tiltölulega hlýtt rakt loft stingst inn undir þurrt (ekki endilega alveg neðst, niður undir yfirborði). En eins og við vitum er rakt loft léttara en þurrt og því geta aðstæður af þessu tagi valdið meiriháttar óstöðugleika á miklu stærra svæði en sólarhitun veldur ein og sér. Svo virðist sem stærstu þrumuveður sem koma að sumarlagi hér á landi séu af þessari tegund, rétt eins og víðast erlendis.

Um þessa gerð þrumuveðra var fjallað lítillega í hungurdiskapistli 22.maí 2013

Til að skýra málið má taka tvö dæmi. Í öðru tilvikinu (júlí 1960) kom rakt og hlýtt loft upp að suðurströndinni úr suðaustri og gekk inn á land, undir hæga og þurra norðaustanátt yfir landinu. Sólarhitun um hádegisbil hjálpaði síðan til að koma uppstreymi af stað, þrumur gerði um allt suðvestanvert landið og hagl féll og jörð gránaði þar sem úrkoman var mest. Í hinu tilvikinu (júlí 1976) kom þykkt lag af hlýju lofti frá Evrópu, það ruddist yfir kalt sjávarloft fyrir austan land. Svo virðist sem neðsti hluti hlýja loftsins hafi farið aðeins hraðar yfir en það sem ofar var, þegar neðstu lögin loftsins rákust á Austfjarðafjöllin gerði þar mikið þrumuveður sem síðan barst vestur yfir stóran hluta landsins. Þetta gerðist að næturlagi þannig að sólarupphitun kom lítið sem ekkert við sögu. Þess má geta að hiti hefur sjaldan orðið hærri í Reykjavík en í þessu hlýja lofti nokkrum dögum eftir þrumuveðrið. Mjög svipað þrumuveður gerði að nóttu til um sunnanvert landið þegar hlýja loftið í hitabylgjunni miklu í ágúst 2004 ruddist til landsins. Sömuleiðis í hitabylgjunni í júlílok 2008, en þá voru þrumur við suðausturströndina og úti fyrir henni og síðar úti fyrir Vestfjörðum.

Fleiri gerðir þrumuveðra
Hér að ofan voru tvær ástæður þrumuveðra taldar:

(i) óstöðugt loft hitað neðanfrá (með inngeislun eða upphitun frá hlýju hafi.

(ii) rakt hlýtt loft stingst inn undir þurrt og fremur svalt.

Við nefnum nú þrjár ástæður til viðbótar.

(iii) Þegar óstöðugt loft berst að fjallshlíð og vindur ýtir á eftir verður í því meiri rakaþétting en óstöðugleikinn einn hefði getað framkallað. Aukalosun dulvarma kallar þá á enn aukinn óstöðugleika og þar með nær uppstreymiseiningin ofar en ella hefði orðið og ef hún nær nægilega hátt aukast líkur á þrumum. Takið eftir því að hér verður uppstreymið að verða í einni einingu ef þrumuveður á að myndast þannig að rakinn sem er neðarlega berist nægilega hátt upp. Algengast er hins vegar að loft sé stöðugt þegar það er þvingað upp eftir fjalli. Þá ýtir það loftinu fyrir ofan upp á við og svo koll af kolli upp í veðrahvörfin, en lagskipting helst og þó uppstreymi sé þá í öllu veðrahvolfinu, er þó ekki samgangur milli neðri og efri laga eins og er þegar loftið er mjög óstöðugt. Í slíkri lagskiptingu verða engar þrumur.

(iv) Skilaþrumuveður. Þrumuveður eru nokkuð algeng þegar kuldaskil fara hjá að vetrarlagi, þau eru þá svipaðs eðlis og flest önnur vetrarþrumuveður og lýst var að ofan. Uppstreymið er þó oftast í samfelldum, mjóum skýjagörðum. Sumardæmið frá 1976 sem tilfært var að ofan mætti kalla þrumuveður við framsókn hitaskila og eru þau algengari að sumar- en vetrarlagi.

(v) Ókyrrðarþrumuveður (alltaf í mjög miklu hvassviðri). Þessi skilyrði koma aðeins upp í miklum útsynningsillviðrum að vetrarlagi og skila aðeins einstökum þrumum (skruggum), oft er veðurgnýr mikill og þruman greinist því illa en sé dimmt lýsir eldingin upp stór svæði (rosaljós).

Innviðir þrumuskýs
Þrumubólstrar ná undantekningalítið upp í veðrahvörfin. Það þýðir að efsti hluti þeirra er flatur og oft kembir klósigabreiðu fram af þeim. Til hliðanna má sjá (blómkálslaga) bólstra sem enn hafa ekki náð fullri hæð þeirrar uppstreymiseiningar sem virkust er. Neðan úr skýinu hanga úrkomuslæður, dekkstar næst því og er þar oftast um snjóflygsur eða hagl að ræða, sé úrkoman mikil má sjá slæðurnar ná alveg til jarðar. Inni í skýinu eru dropar, ískristallar og hagl. Stærstu droparnir eru það stórir að uppstreymið er ekki nægilegt til að halda þeim á lofti og því falla þeir í átt til jarðar.

Séu þeir nægilega margir draga þeir loft með sér niður á við í skýinu. Loftið ætti að hitna í niðurstreyminu, en droparnir taka þá að gufa upp og uppgufunin kælir loftið jafnharðan svo lengi sem nægilegt dropamagn er til staðar, loft sem blandast inn í skýið að utan auðveldar uppgufunina. Loftið getur síðan kólnað það mikið að það missir flot og fellur til jarðar í svonefndum fallsveip. Ef þyngdaraflið fær að njóta sín getur það myndað mjög öflugan vind niðri við jörð. Við finnum oft vindsveipi af þessu tagi ryðjast hjá í skúraveðrum, jafnvel þó þeim fylgi ekki þrumur.

Sé kalda loftið að ofan nægilega umfangsmikið getur það borist út undan skýinu og jafnvel myndað þar sérstök hjáský af flákaskýjaflokki, stratocumulus arcus, bogflóka. Í draumalandi þrumukerfanna, Bandaríkjunum, kalla menn þessi ský hillur eða hilluský sem skapa óhug vegna þess að þau geta boðað tilurð skýstrokka í þrumukerfinu. Niðurstreymið sem bogskýin sýna mynda stundum hálfgerð veðraskil eða hviðuskil eins og þau nefnast. Fallsveipir eru sérlega hættulegir flugvélum nærri flugtaki og lendingu.

Niðurstreymi í hluta skýsins auðveldar uppstreymi annars staðar í því. Í háum skýjum getur lóðréttur vindhraði orðið meiri en 30m/s. Úrkoman er upphaflega mynduð á ískristöllum, þeir mynda snjó sem bráðnar og verður að vatnsdropum þegar hann fellur neðar í skýið. Lendi droparnir síðan í uppstreymi frjósa þeir aftur, í þetta sinn sem kúlulaga dropar (oftast ógagnsætt frauð) á leiðinni upp. Vatnsdropi eða haglkorn geta þá farið nokkrar umferðir upp og niður skýið áður en þau loks ná að falla til jarðar.

Eldingar og þrumur
Elding verður þegar losnar um stöðurafmagn þegar spenna er orðin nægileg til að yfirvinna lága rafleiðni lofts. Úr verður risavaxinn neisti á milli staða þar sem rafhleðsla er jákvæð og þar sem hún er neikvæð. Oft skapast spennan milli skýs annars vegar og jarðar hins vegar (10-20% tilvika), en oftast milli svæða innan sama skýs (yfir 80% tilvika). Rafspenna er venjulega mjög mikil milli jarðar (sem er neikvætt hlaðin) og lofts (sem er jákvætt hlaðið) mættisspennan er venjulega um 300 þúsund V (volt). Í þrumuveðrum riðlast jafnspennufletirnir mjög vegna þess mikla lóðrétta streymis sem þar á sér stað og auk þess framleiða þrumuský stöðurafmagn eins og er nánar sagt frá hér að neðan. Hluti skýsins verður neikvætt hlaðinn en hluti þess jákvætt. Spennan sem aðskilnaðurinn skapar getur orðið allt að 4 milljón V/m.

Raforkan verður að sjálfsögðu ekki til úr engu, heldur er úrkoman sem fellur í skýinu og úr því að skila til baka hluta af þeirri staðorku sem byggðist upp í rísandi vatnsgufu uppstreymiseiningarinnar. Orka uppstreymisins fæst ýmist með upphitun yfirborðs eða með losun dulvarma við rakaþéttingu.

Í flestum þrumuveðrum er rafhleðslu þannig háttað að í miðjunni er mjög öflug neikvæð hleðsla sem liggur milli jákvæðra hleðsla ofan og neðan við. Neikvæða hleðsluhámarkið er oftast ekki fjarri –15°C jafnhitafletinum. Ástæða þessarar hleðsluskiljunar tengist rafeiginleikum ískristalla og hagls annars vegar og lóðréttu streymi innan skýsins hins vegar.

Með tilraunum hefur verið sýnt fram á að hleðsluskiljun á sér stað í ís (t.d. hagli) ef hitamunur er til staðar milli mismunandi hluta ísagnarinnar. Kaldasti hluti hennar verður jákvætt hlaðin er jákvæðar jónir leita þangað. Þegar undirkældur vatnsdropi frýs (og verður síðan að hagli) verður hann kaldari að utan en innan. Inni í skýinu eru stöðugir árekstrar milli haglkorna. Við árekstrana brotna litlar flísar utan af þeim, þetta ytra byrði (kaldasti hluti kornsins) geymir jákvæða hleðslu, en innri kjarni (hlýrri hluti) situr eftir með neikvæða. Flísarnar eru léttari en kjarnarnir og uppstreymi í skýinu á léttara með að lyfta þeim en kjörnunum sem falla nær jörðu. Þannig aðskiljast jákvæðar og neikvæðar hleðslur á furðuhraðvirkan hátt. Hleðsluskiljun þessi er áhrifamest á hitabilinu –5°C til –30°C mest við um -15°C.

Elding er meira en einn neisti, rafstraumur rennur nokkrum sinnum fram og til baka í gegnum rásina sem fyrsti leiðineistinn býr til. Leiðineistinn er ívið hægari en þeir sem á eftir fara vegna þess að hann verður að ryðja brautina. Auðveldasta leiðin liggur sjaldnast beint í átt til þess staðar þar sem eldingunni lýstur niður, heldur eftir nokkrum krákustígum, stundum leitar leiðineistinn að fleiri en einni leið samtímis og getur eldingin þá haft margar greinar.

Venjulega slær henni þó niður aðeins á einum stað, ein rás myndast frá skýi í jörð og rafstraumur hleypur á milli. Örskotsstund síðar fer straumur til baka upp eftir rásinni, sá straumur er meiri en hinn fyrsti og hitar rásina enn meira og eldingin verður bjartari og þetta andartak markast á sjónhimnur okkar sem horfum á. Loftið í rásinni jónast og fer nú rafstraumur um rásina gjarnan 2 – 3 sinnum hvora leið, en mælingar hafa sýnt allt að 24 sinnum samtals. Rásin nær gjarnan ofar og ofar í skýið í seinni skiptin, en allt þetta gerist á nokkrum hundruðustu hlutum úr sekúndu. Rásin var upphaflega aðeins nokkrir mm í þvermál en við fullan hita er þvermál eldingar nokkrir cm. Loftið á stærra svæði kringum kjarnann glóir þá líka þó það sé ekki fulljónað.

Þruma er brestur sem fylgir eldingu. Ástæðan er snögg hitun lofts í eldingunni, sprengihitun, því hitinn getur náð allt að 30 þúsund °C og hitunin gerist á fáeinum míkrósekúndum. Ljós eldingarinnar sést samtímis því sem eldingunni lýstur niður, en þruman berst með hraða hljóðsins (332m/s við 0°C). Því má nota tímamun milli eldingar og þrumu til að áætla fjarlægðina, sé hann 3 s er fjarlægðin um 1 km. Sé maður staddur nærri eldingunni heyrist mikill brestur, en lengra í burtu verður þruman meir eins og mikill undirgangur sem tekur nokkurn tíma að líða hjá. Hljóðið kemur frá mismunandi hlutum eldingarinnar og eru þeir mislangt í burtu frá hlustandanum, bergmál er einnig algengt. Þrumur heyrast yfirleitt ekki lengra en um 10 km, en bjarmi frá eldingu getur sést mun lengra að eða tugi km við heppileg skilyrði.

Hagl
Greint er á milli þess sem við venjulega köllum hagl eða snæhagl annars vegar og svo íshagls hins vegar. Íshagl er mjög sjaldgæft hér á landi en hefur þó sést í mestu þrumuskúrum að sumarlagi. Munurinn felst bæði í stærð og innri gerð, smáhaglið verður sjaldan meir en 1 cm í þvermál (oftast minna, um 2 til 5 mm), en íshaglið er að jafnaði stærra, langoftast 1 til 2 cm og alloft 4 til 7 cm. Stærra hagl er sjaldgæfara en stærsta hagl sem vitað er um var um 20 cm í þvermál, sá ásinn sem lengstur var.

Að jafnaði verður mikið tjón þegar íshagl fellur, það stórskaðar gróður og stærri höglin brjóta rúður og beygla bíla. Svo mikið getur fallið af hagli um hásumar að alhvítt verði jafnvel þó hiti sé yfir 10°C eða enn hærri. Þetta gerist alloft hér á landi, en þessi „snjór” bráðnar mjög fljótt. Í Bandaríkjunum eru dæmi um allt að 45 cm „snjódýpt” eftir haglél sem stóð í um eina klukkustund og þrjátíu mínútur. Geta má nærri að uppskera undir því hefur farið algjörlega forgörðum. Sé íshagl skorið í sundur kemur í ljós að það er á víxl samsett úr glærum ís og ísfrauði.

Smáhagl er eingöngu úr frauði (oft er reyndar þunnt, glært íslag yst). Lagskiptingin bendir á upprunann, frauðið verður til við hraða þéttingu ofarlega í skýinu í miklu frosti, glæri ísinn er vitnisburður um hægari ísmyndun neðar í skýinu og jafnvel bráðnun í þeim hluta þess þar sem hiti er yfir frostmarki. Hvert frauðlag þýðir eina ferð upp skýið, haglið er gripið af uppstreymi, berst með því hátt í skýið, fellur þaðan niður aftur og er aftur gripið af uppstreymi og þannig koll af kolli. Talið er að vindhraði í uppstreymi þurfi að vera að minnsta kosti 80 m/s ef haglið á að ná 10 cm þvermáli. Íshagl sem er 3 cm í þvermál þarf um 30 m/s uppstreymi.

Af stærð íslenskra haglkorna má ráða að uppstreymi í íslenskum þrumuveðrum er trúlega minna en þetta nema í algjörum undantekningartilvikum og að höglin fari hér að jafnaði ekki nema eina ferð upp. Auk þess er rakainnihald loftsins sem upphaflega lyftist lítið og dulvarmi sem íslenskt ský hefur til ráðstöfunar því lítill miðað við það sem algengt er erlendis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Já þannig fékk seydda rúgbrauðið líklega heiti sitt "Þrumari" 

Helga Kristjánsdóttir, 30.7.2018 kl. 02:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 495
  • Sl. viku: 2244
  • Frá upphafi: 2348471

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1965
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband