Landsmeðalhiti í maí

Nú er óhætt að líta á landsmeðalhita maímánaðar og samanburð við fyrri ár. Fremur svalt hefur verið í veðri um landið suðvestanvert, en góð hlýindi norðaustanlands - nánast óvenjulegt hversu viðsnúinn hitinn hefur verið. Úrkoman hefur líka verið óvenjumikil um landið vestanvert, og ekki hefur hana heldur skort annars staðar. Loftþrýstingur líka næsta lágur. 

En meðalhiti í byggðum landsins í heild er ekki lágur, reiknast 5,9 stig, sjónarmun hærri heldur en meðalhitinn í Reykjavík. Slíkt er líka óvenjulegt í maí - og við könnum það síðar þegar alveg endanlegar tölur liggja fyrir (í metingsleikjum viljum við jafnvel meiri nákvæmni en staðið verður undir). 

w-blogg310518c

Línuritið sýnir landsmeðalhita maímánaðar aftur til 1874 (og líka um 50 ár fyrir þann tíma - en þær tölur eru varla hafandi eftir). Við sjáum að maí 2018 er nokkuð hlýr í langtímasamanburði, talsvert kaldari að vísu en maí í fyrra, en samt 0,1 stigi ofan við meðallag síðustu tíu maímánaða - og sá sjöttihlýjasti á öldinni (af 18). Já, sá sjöttihlýjasti á öldinni. - Þessu er öðruvísi farið á Suðvesturlandi - þannig að vegið meðaltal af upplifun landsmanna á hitanum er væntanlega nokkuð neðar á lista. 

Á hitalista sem nær til allra maímánaða frá 1874 er sá sem nú er rétt að líða í 40.sæti af 145. Munar mest um „klasa“ hlýrra maímánaða á árunum 1928 til 1947, en á þeim 20 árum voru 11 maímánuðir hlýrri en nú. 

Hlýjastur maímánaða frá 1874 er enn 1935, meðalhiti þá reiknast 7,6 stig, kaldastur var hins vegar maí 1979, meðalhiti 0,1 stig. Hugsanlega var enn kaldara í maí 1866. Maí 2017 er enn sá hlýjasti á þessari öld, meðalhiti hans var 7,4 stig, kaldastur það sem af er aldar er maí 2015, meðalhiti hans var 3,4 stig (mjög hlýr miðað við 1979). 

Maíhitinn virðist vera nokkuð frjáls - hirðir lítt um hvernig mánuðurinn hegðaði sér árið áður - eða hver almenn hitatíska er á hverjum tíma. Maí 2019 gæti því tekið upp á hverju sem er - við bíðum eftir því. 

En útaf stendur að hringrás mánaðarins (þrýstingur og vindáttir) var næsta óvenjuleg og rétt að athuga hvort eitthvað ámóta hefur átt sér stað áður. Sú athugun bíður síðari pistils. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide8
 • Slide6
 • Slide5
 • Slide4

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (22.4.): 67
 • Sl. sólarhring: 436
 • Sl. viku: 1831
 • Frá upphafi: 2349344

Annað

 • Innlit í dag: 55
 • Innlit sl. viku: 1647
 • Gestir í dag: 55
 • IP-tölur í dag: 54

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband