Dálítið lúmskt

Snemma í nótt (aðfaranótt 25.maí) fer nokkuð snarpt háloftalægðardrag hratt yfir landið úr suðvestri. Því fylgir úrkomubakki sem sjá má á gervihnattamynd frá því kl.22 í kvöld (af vef Veðurstofunnar).

w-blogg240518a

Eins og sjá má er hér um nokkuð háreista flóka að ræða - sennilega kembir ofan af klakkaflækjum í bakkanum - blika gekk hratt upp úr suðvestri séð frá Reykjavík í kvöld, gráblika sem þó er ekki eiginleg gráblika - sýndarblika? Það sem gerir bliku af þessu tagi lúmska er að miklu styttra er í það veður sem hún er að segja frá heldur en í frásögn venjulegrar bliku. Á árum áður þurftu menn að átta sig á þessu - því þó ekki sé neinn stormur á ferð er vindur í bakhlið bakkans samt hættulegur opnum bátum. 

Lítum á spá iga-harmonie-líkansins sem gildir kl.1 í nótt:

w-blogg240518b

Hér má sjá að vindur er mjög hægur á sjó næst undan Reykjanesi - jafnvel logn á blettum. En óreglulegur jaðar á vindstreng er skammt suður undan. Þegar hann fer yfir vex vindur á örskotsstund upp í 10 til 13 m/s - getur verið afar óþægilegt fyrir smábáta, töluverð úrkoma verður svo um stund lendi menn að auki undir aðalklökkunum. - Líklega snjóar skamma stund á Hellisheiði þegar garðurinn fer þar hjá ekki svo löngu síðar en hér er sýnt. 

Það er skarpt lægðardrag á hraðferð í háloftunum sem „leyfir“ þetta.

w-blogg240518c

Uppi í rúmlega 5 km hæð er vindurinn allt að 40 m/s. Lóðstreymi í éljaklökkunum getur gripið eitthvað af skriðþunganum niður í átt til jarðar og valdið hviðum sem eru nokkru sterkari en meðalvindurinn við sjávarmál. 

Eins og oft hefur verið minnst á á hungurdiskum áður hafa garðar af þessu tagi eða líku drepið fjölmarga forfeður okkar, bæði á sjó og landi. Einmitt ekki síst vegna þess hve stuttur tími líður á milli blikuppsláttar og þess að veðrið skelli á - sérstaka reynslu hefur þurft til að átta sig á muninum. 

En þéttbýlisbúar nútímans verða varla varir við - bara enn ein hryðjan í blautum maímánuði.

Smáviðbót - daginn eftir.

Ekki var þetta stórt í sniðum - en telst samt með.

w-blogg240518d

Myndin sýnir hvað gerðist á Keflavíkurflugvelli. Hak kom í þrýstirita - loftvog fór snögglega að stíga þegar garðurinn gekk hjá. Vindátt snerist skyndilega úr 170 gráðum í 270 og vindhraði jókst úr tæpum 5 m/s í 10 m/s, vindhviða komst upp í 14,4 m/s. Úti á sjó gætu umskiptin hafa orðið enn snarpari. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • w-blogg220724b
  • w-blogg220724a
  • w-blogg210724
  • Slide2
  • Slide1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 17
  • Sl. sólarhring: 424
  • Sl. viku: 2733
  • Frá upphafi: 2378309

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 2421
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband