Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2018
18.2.2018 | 21:11
Um hádegi á þriðjudag
Fjölmiðlar eru þegar farnir að minnast á lægð sem á að angra okkur á miðvikudaginn (21. febrúar). Hún er reyndar ekki orðin til - og verður það ekki fyrr en snemma á þriðjudagsmorgni.
Rauð ör sem merkt er með tölustafnum 1 bendir á lægðina, sem rétt er að myndast. Hún er ein af þeim sem brýst norður úr móðurlægð sem lokast hefur af sunnan við meginátök vestanvindabeltisins. Þetta eru allaf athyglisverðar lægðir sem geta orðið að skaðræðisgripum þegar þær hitta vel (eða illa) í.
Eins og oftast er ræðst framtíð lægðarinnar af nokkrum þáttum - fleiri reyndar en hér verða taldir. Við sjáum aðra lægð - ekki mjög djúpa - milli Labrador og Suður-Grænlands. Í bakið á henni kemur gríðarkalt loft - frostið er meira en -35 stig í 850 hPa á þeim slóðum sem ör sem merkt er tölustafnum 2 vísar á. Svo virðist sem þessar tvær lægðir eigi ekki að hitta beint saman (og er það vel) - en örlög lægðarinnar okkar fara samt mjög eftir því hversu vel henni gengur að ná í lág veðrahvörf sem fylgja kuldanum og jaðri hans. Missi hún af þeim fer hún yfir landið austanvert og verður ekki sérlega djúp.
Annað smáatriði sem skiptir verulegu máli er framrás af hlýju lofti sem ör sem merkt er tölustafnum 3 vísar á. Þessi framrás til norðausturs gæti hugsanlega komið alveg í veg fyrir norðurrás okkar lægðar og getur lokað hana endanlega inni í faðmi móðurlægðarinnar vestur af Asóreyjum - eða þá að of lítið sleppi út af sunnanlofti til þess að lægðin geti náð máli.
Evrópureiknimiðstöðin stendur sig almennt vel í þriggja daga spám - svo við skulum trúa því að eitthvað verði úr lægðinni. Hvort sú braut eða sá styrkur sem nú er stungið upp á reynast nákvæmlega rétt að lokum er svo annað mál. Þriðjudagsmorgunn verður örlagastund lægðarinnar - þá stekkur hún út í risasvigsbrautina.
18.2.2018 | 13:10
Hiti á þorra - og fyrstu fjóra vetrarmánuðina
Í dag, 18. febrúar hefst góa, fimmti mánuður vetrar að fornu íslensku tali. Þorri er næstur á undan og hefur ritstjóri hungurdiska nú reiknað meðalhita hans í Reykjavík - og sömuleiðis hita aftur til fyrsta vetrardags, en í haust bar hann upp á 21. október.
Látrétti ásinn sýnir tíma. Upplýsingar vantar fyrir meðalhita fáeinna daga nokkurra ára fyrir 1920. Þorrinn hefur þó sloppið allvel út úr þessum vöntunum. Við tökum fyrst eftir því að breytileiki er mjög mikill frá ári til árs og fer þorri allflestra ára sínar eigin leiðir. Þorrinn 2018 er rétt neðan meðallags tímabilsins alls (meðalhiti -0,6 stig) ásamt þorranum 2016 sem var sjónarmun kaldari en sá nýliðni (-0,7 stig). Síðan þarf að fara aftur til þorrans 2002 til að finna eitthvað kaldara en nú (-2,9). Sérlega hlýtt var á þorranum í fyrra (2017, +3,6 stig).
Myndin sýnir meðalhita fyrstu fjögurra mánaða íslenska vetrarins í Reykjavík (gormánaðar, ýlis, mörsugar og þorra). Nokkuð vantar af stökum dögum fyrir 1920 - hægt væri að bæta úr - en ritstjórinn hefur ekki gert það. Hér þarf að gæta þess að ártölin eru sett við enda tímabilsins. Þannig táknar merkingin 1974 tímabilið frá fyrsta vetrardegi 1973 til þorraloka 1974. Sérlega kalt var í gormánuði og ýli 1973 en hlýrra í síðari mánuðunum tveimur - og svo fádæma hlýtt á vetrinum eftir það.
En fyrstu fjórir mánuðir vetrar (2017-)2018 eru rétt sjónarmun kaldari en sömu mánuðir (2015-)2016 - ekki munar þó miklu (+0,3 stig nú, en +0,6 2016). En það þarf að fara aftur til (1996-)1997 til að finna tímabil þegar þessir mánuðir voru mun kaldari en nú (-0,3 stig). Á árunum (1973-)1984 var þetta tímabil alltaf kaldara en nú.
17.2.2018 | 22:21
Umskiptin miklu í febrúar 1962
Fyrir nokkru var hér á hungurdiskum fjallað um tíðarumskiptin miklu sem urðu um jólin 1962. Í febrúar sama ár urðu líka eftirminnileg umskipti. Ritstjóri hungurdiska man þetta vel - en ástæða þess að hann nefnir þetta nú er einkum sú að evrópskir eru einmitt að minnast á það sama. Þeir búast við kuldakasti á næstunni - og nefna þá einmitt þessi sömu febrúarumskipti fyrir 56 árum. - Ritstjórinn hefur enga sérstaka skoðun á því hvort þessar spár muni rætast - en það gæti svosem orðið.
Þó veðurlag nýliðinna mánaða nú minni vissulega að mörgu leyti á veðurlag frá því í nóvember 1961 þar til í fyrri hluta febrúar 1962 er það auðvitað alls ekki eins - en á það þó t.d. sameiginlegt að hafa verið nuðsamt - rétt eins og nú, samgöngutruflanir tíðar vegna snjókomu og skafrennings - og það komu líka snarpar rigningargusur - en tjón varð þó ekki stórfellt nema á sjó. Það er reyndar athyglisvert hvað sjósókn eða öllu heldur vangæftir eru lítið í fréttum nú til dags - en tíðin hlýtur samt að hafa verið óhagstæð til sjávarins nú. Athygli fjölmiðla (og almennings?) er samt núna á einhverju öðru róli - eitthvað hefur breyst í þessum efnum.
Segja má að stöðugur ófriður hafi verið í veðri á fyrstu vikum ársins 1962 - austanáttatíð í upphafi, en síðan meira úr vestri - og sá er munur þá og nú að 1962 var heimskautaröstin heldur nær okkur en nú. Mjög slæm veður gerði í Evrópu - sérstaklega um miðjan mánuð. Verst var samt sjávarflóðið mikla í Hamborg aðfaranótt 17. febrúar þegar rúmlega 300 manns drukknuðu og meir en 60 þúsund manns misstu heimili sín.
Við skulum líta á 500 hPa hæðar- og þykktarkort úr þessari syrpu miðri.
Það gildir síðdegis þann 9. febrúar. Kuldapollurinn Stóri-Boli er í svipaðri stöðu og þessa dagana og sendi hverja gusuna á fætur annarri í átt til landsins og austur um Atlantshaf. Við skulum velja nokkrar blaðafréttir úr til að fá tíðina á tilfinninguna (þær má allar sjá á timarit.is):
Við byrjum í Vísi 24. janúar:
Það var allt á kafi í snjó í morgun. Mikil fannkoma í var hér í bænum í nótt og setti niður svo mikinn snjó að hann var upp í miðja kálfa á gangstéttum snemma í morgun. Þó sagði Veðurstofan, sem nú spáir rigningu í nótt, að snjókoman hefði ekki mælzt nema 9 millimetra eftir nóttina.
Og sama blað daginn eftir:
Hellisheiði er ófær. Þar var vonzkuveður seinnihluta dags í gær og í alla nótt, hvassviðri með skafbyl. Nokkrir þeirra, sem voru á leið yfir fjallið í gærkvöldi, bæði á austur og vesturleið tepptust í Skíðaskálanum og urðu að leita þar gistingar í nótt, þ.á. m. var ein fjölskylda en hitt voru yfirleitt bifreiðastjórar. Óli Ólason, veitingamaður í Skíðaskálanum tjáði Vísi í morgun að veðurhæð hafi verið mikil þar efra í gærkvöldi og nótt og mikill bylur. Kvaðst hann ekki hafa þorað annað en vaka í nótt og hafa öll ljós kveikt ef einhver vegfarandi yrði á ferð. En ekki kvaðst hann vita að neinn hafi orðið að liggja úti eða hlekkzt á í nótt. Í morgun var vegurinn ófær bæði austur og vestur frá Skíðaskálanum og vélar frá Vegagerðinni ókomnar í Hveradali svo ekki var vitað hvenær gestir Skíðaskálans kæmust leiðar sinnar. í morgun fór veður batnandi þar efra, hætt að skafa, en nokkur snjókoma. Mikill snjór er kominn á Hellisheiði og nærliggjandi fjöll og skíðafæri ákjósanlegt. Skíðalyftan í Hveradölum sem verið hefur í ólagi undanfarið, er komin í gang að nýju. Mjólkurbílar og áætlunarbílar að austan, sem ætluðu yfir Hellisheiði í morgun, urðu frá að hverfa og fóru Krísuvíkurleið. Hún er nú fær bifreiðum að því er Vegamálaskrifstofan tjáði Vísi í morgun.
Morgunblaðið 30. janúar:
Í fyrrinótt var mikil rigning víðsvegar um land og urðu nokkrar skemmdir á vegum af þeim sökum að því er vegamálastjóri tjáði blaðinu í gær. Skriður féllu á nýja veginn á Búlandshöfðanum á Snæfellsnesi Og var unnið að því að hreinsa hann í gær. Hjá Varmahlíð undir Eyjafjöllum flæddi yfir veginn og var þar aðeins fært stórum bílum, og var veginum lokað síðdegis í gær. Þá fór Hverfisfljótið í Fljótshverfi austan við brúna, eins og jafnan verður í ísruðningum, og var þar ófært bílum. Á ýmsum öðrum stöðum rann úr vegum, en ekki svo að umferð tepptist.
Snjór hefur minnkað nokkuð í Öxnadalnum, en þar hefur verið ófært bifreiðum að undanförnu, og var í gær verið að athuga hvort nú væri ekki tiltækilegt að ryðja veginn. Annars er fært frá Reykjavik norður i Skagafjörð. Afarmikill snjór hefur verið á Austurlandi og vegir þar mikið lokaðir.
Síðdegis í gær varð mikil hálka á götunum í Reykjavík og Hafnarfirði og urðu talsverðar umferðatruflanir á götunum og á Hafnarfjarðarveginum. Einkum áttu bilstjórar um tíma í erfiðleikum með að komast á bílum upp Öskjuhlíðarbrekkuna. Lögreglan sendi aðvörun gegnum útvarpið til bifreiðastjóra, sem munu hafa farið varlega, því um 10 leytið í gærkvöldi hafði lögreglunni í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi ekki verið tilkynnt um árekstra af völdum hálkunnar.
Vísir síðdegis sama dag:
Aðfaranætur sunnudags og laugardags ur0u nokkrar skemmdir á vegum á Suðurlandi og Vesturlandi. Hvergi var þó um alvarlegar skemmdir að ræða, og aðeins á einum eða tveimur stöðum lokuðust vegir, þó aðeins skamman tíma. Það voru rigningar og leysingar, er þeim fylgdu, er ollu þessum skemmdum. Á Suðurlandsvegi, við Lögberg og á Sandskeiði, urðu skemmdir, og bílstjórar er um veginn fóru, sögðu, að á köflum hefði verið líkast því sem stöðuvötn hefðu verið sitt hvorum megin við veginn. Þá urðu nokkrar skemmdir á Krýsuvíkurvegi, aðall. á leið að Kleifarvatni, bæði að Stöpum við Hlíðarvatn. Í Hvalfirði urðu einnig nokkrar skemmdir, er rann á veginn. Sömu sögu er að segja af Snæfellsnesi, og nokkrum öðrum stöðum. Hvergi var þó um alvarlegar skemmdir að ræða, og mun viðgerð nú um það bil lokið á flestum stöðum.
Og aðeins tveimur dögum síðar, 1. febrúar kemur fram að verðir hafi verið settir við Hellisheiðarveg til að hindra að menn legðu á heiðina:
Færð þyngdist nokkuð á Suðvesturlandi síðdegis í gær og nótt og sumir vegir voru lokaðir í morgun, sem færir voru í gær, eins og t. d. Holtavörðuheiðarvegur. Hafði mikið snjóað sunnarlega á Holtavörðuheiði og fyrir innan Fornahvamm, svo heiðin var talin ófær í morgun. Reynt verður samt að opna hana aftur fyrir áætlunarbílinn norður á morgun og aðra bíla, sem komast þurfa leiðar sinnar, svo fremi sem veður leyfir. Hellisheiðarvegur er algerlega lokaður. Settir voru verðir sinn hvorum megin við heiðina í gær til að varna bílum að fara yfir hana. Þó munu fáeinir stórir bílar hafa lagt á heiðina síðdegis í gær, en sátu fastir. Krýsuvíkurvegur er fær og um hann er öll umferð til Suðurlandsins sem stendur. Þá er Hvalfjarðarleið einnig fær og hafði ekki snjóað ýkja mikið á hana í gær eða nótt. Að norðan var Vísi símað í morgun að fært væri um mestalla Eyjafjarðarsýslu eins og sakir stæðu. Þar er nú þíðviðri og gott veður og snjór hefur sjatnað. Aðal snjóakisturnar þar, Öxnadalur og Hörgárdalur verða ruddar fram á móts við fremstu bæi vegna mjólkurflutninga. En snjór er hins vegar talinn svo mikill á Öxnadalsheiði að ekki verður ráðizt í að ryðja hana að svo komnu máli. Áætlunarbíll frá Húsavík kom til Akureyrar í fyrradag eftir 12 klst. ferð og aðstoðaði ýta hann þar sem færð var þyngst. Bíllinn sneri aftur norður um í fyrrakvöld og var þá aðeins 5 stundir á leiðinni. Er gert ráð fyrir að áætlunarferðum milli Húsavíkur og Akureyrar verði haldið áfram óbreyttum aðstæðum.
Vísir segir þann 13. febrúar:
Vestmannaeyjum í gær: Hér hefir snjóað svo mikið undanfarna daga, að ekki hefir sést annað eins í manna minnum. Síðast í nótt kingdi hér niður snjó, og er hann nú orðinn um 20 cm. djúpur. Ófært hefir orðið bílum um göturnar, og hefir það ekki komið fyrir árum saman, að þurft hafi hér að moka göturnar svo að faratæki kæmust leiðar sinnar.
Og þann 20. vitnar Vísir í Jónas Jakobsson veðurfræðing:
Vetrarveðráttan að undanförnu er einhver hin ólátamesta og umhleypingasamasta sem komið hefur yfir Ísland í fjölmörg ár, sagði Jónas Jakobsson veðurfræðingur við Vísi í morgun. Og þessi óvenjulega veðrátta nær ekki aðeins til Íslands heldur og um norðanvert Atlantshafið í heild og landanna beggja megin við það. Á austurströnd Norður-Ameríku hefur t.d. verið óvenjulega kalt í vetur, en austanmegin Atlantshafsins hafa ekki ríkt miklir kuldar, en þeim mun meiri hrakviðri og stormar. Er þar skemmst að minnast óveðursins í Vestur-Evrópu í lok síðustu viku. Óveður þessi eiga í stórum dráttum rót sína að rekja til þess háþrýstisvæðið í námunda við Azóreyjar, hefur verið óvenju víðáttumikið í vetur og legið norðar en venja er til. Það orsakar svo aftur það að meginvindröst vestanvindabeltisins liggur norðar en ella og allt norður að Íslandi. Þetta er ástæðan fyrir hinum tíðu lægðum og óveðrum sem hér hafa geysað undanfarið. Aðspurður um það hvort við ættum lengi enn von á þvílíkum veðurham og umhleypingum kvaðst Jónas veðurfræðingur ekki vita neitt um það.
Tíminn birtir þann 23. frétt frá Sauðárkróki sem dagsett er þann 19. febrúar:
Á aðfaranótt sunnudagsins [18.] gerði hér sunnanveður með regni og ofsa, og urðu af miklir vatnavextir hér í bænum, en skemmdir ekki teljandi. Skriða féll á skúr við yzta húsið í bænum, en olli minna tjóni en ætla mætti. Í félagsheimilinu Bifröst stóð yfir samkoma, en um það leyti, sem samkomugestir voru að fara heim, tók að flæða inn um aðaldyr hússins. Var gestum ófært út þá leiðina, og urðu þeir að bjarga sér út bakdyramegin. Hlóðu varnargarð Flóðið komst þó ekki nema inn í forstofuna og herbergi í kjallara, en aldrei inn í aðalsalinn. Varð að hlaða varnargarð úr sandpokum fyrir dyrnar, til þess að verja samkomuhúsið fyrir skemmdum. Þá féll skriða á yzta húsið í bænum, Helgafell, sem stendur uppi við Nafir. Skriðan féll á skúr við húsið og braut hann eitthvað, og vatn komst inn í húsið og skemmdir urðu ekki stórvægilegar. Þessi vatnsflaumur varð svona mikill vegna þess, að allan daginn var logn og kafa snjókoma, en um kvöldið snerist og gerði sunnan veður með regni, og ofsa.
Og Morgunblaðið segir þann 21. frá hrakningum barna í Mosfellssveit (20.febr):
Hér var í morgun ofsaveður með rigningu. Mikil hálka myndaðist á vegum. Börn, sem voru á leið í skólann að Brúarlandi fuku á girðingar og slösuðust. Tveir drengir 8 og 9 ára urðu fyrir því slysi að fjúka á girðingu við veginn. Annar hlaut skurð á enni en hinn sár á kinn og kjálki hans mun hafa brákast. Báðir drengirnir voru fluttir í skyndi til héraðslæknisins Guðjóns Lárussonar, og taldi hann rétt að annar færi til nánari skoðunar í Reykjavík og aðgerðar þar. Þá henti það að bílar fuku út af vegum í hálkunni, en ekki urðu slys á mönnum. Jeppi var á leið upp að Dverghamri en fauk þar til í brekkunni og lenti út af hárri vegarbrún en bílstjóranum tókst að halda honum á hjólunum. Skemmdir urðu þó nokkrar á í bílnum.
Að auki má telja eftirfarandi:
Þann 3. olli ofsaveður tjóni í Neskaupstað rúður brotnuðu í húsum og járnplötur tók af þaki. Nótabátur í vetrarnausti fauk og skemmdi trillur. Veðrið stóð aðeins stutta stund. Eldingar ollu símasambandsleysi við Austurland, fjárskaðar urðu á Norðausturlandi og báta sleit upp í Sandgerðishöfn.
Þann 7. Strandaði bátur frá Reykjavík austur af Grindavík, mannbjörg varð. Daginn eftir sátu 12 bílar fastir yfir nótt á Hellisheiði.
Þann 10. fórst togari frá Siglufirði undan Öndverðanesi, tveir skipverjar drukknuðu, en aðrir björguðust mjög naumlega. Annað skip sökk nokkru síðar á svipuðum slóðum, en mannbjörg varð.
Þann 15. gerði óvenjumikla snjókomu á Keflavíkurflugvelli, sagt að 30 cm hafi fallið á tveimur klukkustundum síðdegis, úrkoma mældist þó aðeins 4,3mm kl.18. Millilandaflug stöðvaðist um tíma.
Þann 16. fuku útihús í Neskaupstað, brakið skaddaði íbúðarhús.
Þann 17. strandaði vélbátur frá Vestmannaeyjum á Mýrdalssandi, mannbjörg varð eftir hrakninga. Stuðlaberg frá Seyðisfirði sökk suður af landinu þann dag eða þann næsta,11 manna áhöfn fórst.
Þann 20. opnaðist vegurinn yfir Öxnadalsheiði eftir að hafa verið lokaður í fjórar vikur.
Eins og fram kom hér að ofan vissi Jónas Jakobsson veðurfræðingur ekkert um það þann 20. hvenær ótíðinni lyki - enda engar tölvuspár. Þær hefðu þá verið farnar að gefa breytinguna miklu sem varð aðeins fáum dögum síðar til kynna - gjörbreytingu sem við sjáum á síðara korti dagsins.
Þann 26. var breytingin orðin. Ein mesta hæð allra tíma á hægri siglingu vestur yfir landið. Þrýstingur fór yfir 1050 hPa, en það gerist sárasjaldan að hann mælist svo mikill hér á landi. Þessi hæð og afkomendur hennar voru samfellt við landið og þó aðallega yfir Grænlandi í meir en mánuð með þurrki - og oftast kulda. Mars varð einhver sá þurrasti í sögunni.
Hér má líka benda á kuldann við Bretland - einn af fingrum Síberíu-Blesa hefur stungist vestur um alla Evrópu - ekki algengt en ber þó við endrum og sinnum. Stóri-Boli hefur hins vegar hörfað úr sæti sínu - út af þessu korti.
En við umskiptin lagðist ritstjórinn (og margir, margir fleiri) í eftirminnilega inflúensu sem sögð var af B-stofni. Kannski hún hafi dottið niður úr heiðhvolfinu þegar bylgjurnar brotnuðu?
16.2.2018 | 21:46
Hægur dagur - en síðan nokkuð ruddalegt útlit
Mikill óróleiki ríkir nú bæði í veðrahvolfi og heiðhvolfi - hálfgerð ormagryfja. Reiknimiðstöðvar eiga ekki auðvelt með að ráða við framtíðarstöðuna - dálítið merkilegt að í dag voru þær meira sammála um veðrið eftir tíu daga heldur en um það hvað mun eiga sér stað fram að þeim tíma. Sannleikurinn er sá að ekkert þýðir að tala um smáatriði málsins - nema það að veður morgundagsins (laugardags 17.) virðist ætla að vera nokkuð meinlaust hér á landi - og sömuleiðis að hann muni ganga í landsynning á sunnudag.
Fyrsta kortið sýnir stöðuna á sunnudagskvöld með augum evrópureiknimiðstöðvarinnar.
Heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting - af þeim má ráða að landsynningurinn sé í hámarki. Daufar strikalínur sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Litirnir sýna hins vegar hvernig hún hefur breyst síðustu 12 klukkustundirnar, þeir gulu og brúnu hvar hlýnað hefur, þeir bláu þekja svæði þar sem hiti hefur lækkað. Vindörvar sýna vindhraða og stefnu í 700 hPa-fletinum (í um 3 km hæð).
Að afloknum landsynningi tekur við heldur hægari sunnanátt með kólnandi veðri - og að lokum útsynningur.
Reiknimiðstöðin telur nú að næsta lægð á eftir verði hér á miðvikudag - gerir talsvert úr henni eins og sjá má á næsta korti.
Henni fylgja einnig töluverð hlýindi sem verða í hámarki þegar kortið gildir, á hádegi á miðvikudag. En rétt er að geta þess að bandaríska veðurstofan gerir ekki mikið úr þessari lægð - sendir hana mun grynnri yfir landið austanvert - reyndar líka á miðvikudag en rætist sú spá hlýnar hvorki að marki né hvessir vestanlands. Á þessu stigi dettur okkur ekki í hug að taka afstöðu til þess hvor spáin er rétt - ef til vill hvorug.
Þriðja lægðin er svo enn óvissari.
Blaut, hlý og hvöss reynist þetta rétt og kemur á föstudag. Mögulegt, jú, en varla verður þetta samt svona. Hér má hins vegar taka vel eftir hæðinni yfir Suður-Noregi. Í augnablikinu virðist sem samkomulag sé um að hún brjóti sér leið til vesturs og gjörbreyti veðurlagi hér á landi frá því sem verið hefur. Ekkert vitum við um það - en bíðum auðvitað spennt.
16.2.2018 | 10:18
Af fyrri hluta febrúarmánaðar
Febrúar hálfnaður, nokkuð kaldur miðað við hin síðari ár. Meðalhiti í Reykjavík er -0,7 stig, -0,3 stigum neðan meðallagsins 1961-1990, en -1,8 undir meðallagi síðustu tíu ára. Hann er í 14. hlýjasta sæti (af 18) á öldinni. Sömu dagar voru mun kaldari bæði 2002 og 2009 og auk þess voru þeir líka kaldari en nú 2008 og 2016.
Sé lítið til lengri tíma er mánuðurinn hingað til í 83. sæti af 144 á langa listanum. Fyrri hluti febrúar var hlýjastur 1932, meðalhiti var þá +4,5 stig, en kaldast var 1881, meðalhiti -5,9 stig.
Á Akureyri er meðalhiti það sem af er mánuði -0.8 stig, +1,7 stigum ofan meðallags 1961-1990, en -0,8 neðan meðallags síðustu tíu ára.
Að tiltölu hefur verið kaldast í Hvammi undir Eyjafjöllum, hiti -2,9 stig neðan meðallags síðustu tíu ára. Hlýjast að tiltölu hefur verið á Sauðárkróksflugvelli þar sem hiti er nú -0,1 stigi neðan meðallags sama tíma.
Úrkoma hefur verið í meira lagi, hefur mælst um 57 mm í Reykjavík (20 prósent umfram meðallag síðustu 10 ára), en 47 mm á Akureyri og er það um 70 prósent umfram meðallag.
Snjór hefur verið með meira móti á stöku stað - en virðist þó mjög misdreifður - sums staðar er mjög lítill snjór.
Nokkuð hefur verið illviðrasamt í mánuðinum til þessa, og fjórir dagar hans marið að komast inn á stormdagaskrár ritstjóra hungurdiska - það er með meira móti í febrúar. Tiltölulega lágur hiti, snjór og hvassir vindar hafa valdið því að skafrenningur er trúlega með meira móti - sérstaklega á fjallvegum.
14.2.2018 | 22:34
Áhugi á breytingum
Að undanförnu hafa framreikningar sýnt viðleitni til breytinga á veðurlagi - en samt láta þær bíða eftir sér.
Hér sjáum við hefðbundið norðurhvelskort. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Litir sýna þykktina, því meiri sem hún er því hlýrri er neðri hluti veðrahvolfs. Útbreiðsla bláu litanna er nú ekki fjarri hámarki vetrarins - eftir þetta fer að þrengja að þeim að sunnan - en þeir halda velli að mestu á norðurslóðum fram í apríl. Úr því fara þeir að týnast einn af öðrum, fjólubláu litirnir, sem sýna hvar kaldast er fara fyrst.
Kuldapollurinn mikli yfir Norður-Kanada og við höfum kosið að nefna Stóra-Bola er enn gríðaröflugur, skartar enn fjórum fjólubláum litum. Athyglisvert er hversu vel hann hefur haldið sér og í raun lítið færst úr stað (enda fækkar litunum fljótt fari hann af stað). Grænland ver okkur þó mjög fyrir ásókn kuldans og sá sem þó hefur komist til okkar hefur að langmestu leyti borist yfir hlýjan atlantssjó fyrir sunnan og suðvestan land.
Hinn meginkuldapollur hvelsins, Síberíu-Blesi er hins vegar mjög tættur um þessar mundir - hefur af einhverjum ástæðum búið við minna aðhald að undanförnu og þar með dreift kröftum sínum - m.a. valdið kulda og vindi á slóðum vetrarólympíuleikanna í Suður-Kóreu.
Á milli bræðranna er veikur hæðarhryggur frá Noregshafi yfir norðurskautið til Alaska. Spár hafa að undanförnu mikið talað um hryggjarmyndun fyrir austan eða norðan Ísland og hefur meirihluti reikninga sýnt slíka þróun - einna síst þó hæstuupplausnarlíkan evrópureiknimiðstöðvarinnar - það sem venjulega er talið áreiðanlegra en önnur.
Eins og oft hefur verið minnst á hér á hungurdiskum áður er kalt loft mismunandi á bragðið (ef svo má segja). Það sem kemur úr suðvestri er mjög vel blandað - kuldinn nær í gegnum veðrahvolfið allt - eða því sem næst. Ylurinn frá sjónum hefur tekið mesta broddinn úr kuldanum en jafnframt bætt í raka loftsins. Á kaldasta tíma ársins fylgir snjór og oft skakviðri að auki - þegar þetta loft er hvað kaldast snjóar jafnvel líka fyrir norðan og austan. Vel blandað loft sér landið illa.
Komi kalda loftið úr norðri er það ferskara - hefur átt styttri leið yfir opið haf og þar með hefur styttri tími gefist til blöndunar upp í efri hluta veðrahvolfs. Norðanloftið er að jafnaði stöðugra heldur en það að vestan og sér landið betur - og Suðurland er þá varið að mestu fyrir úrkomu (ekki vindi hins vegar).
En kuldi er stundum heimatilbúinn - orðinn til yfir landinu sjálfu í björtu veðri - hlýtt er þá ofan við - oft hlýindi sem orðin eru til í niðurstreymi austan Grænlandsjökuls sem þá hefur líka rutt burt öllum skýjum.
Síðastnefndu kuldarnir eru tiltölulega meinlausir og eru lítt til ama, vindar hægir og snjó hreyfir lítið. Bæði norðan- og vestankuldarnir valda hins vegar leiðindum - en þessi leiðindi eru reyndar ef vel er að gáð gjarnan mjög samfélagsbundin.
Tíðarfarið að undanförnu hefur að sönnu fallið í leiðindaflokkinn, en það er mest vegna samgöngutruflana. Þeir sem eru svo heppnir að eiga heimili mjög nærri vinnustað - og jafnframt sleppa við allt skutl og langar aðdráttarleiðir hafa í raun lítið orðið varir við þessa meintu illu tíð. Það hefur ekki verið sérlega kalt og skæð illviðri hafa verið fá og þau ekki verið mjög útbreidd - og varla er hægt að segja að snjór hafi verið teljandi hér í þéttbýlinu suðvestanlands.
En - hreyfiþörf virðist nú miklu meiri en hún var á árum áður, fleiri búa langt frá vinnustað, þurfa jafnvel daglega yfir fjallvegi eða illviðrahorn að sækja eða ferðast langar leiðir innan höfuðborgarsvæðisins í margvíslegum erindagjörðum. Þessu til viðbótar kemur stóraukinn ferðamannastraumur.
Næmi samfélagsins gagnvart veðurlagi eins og því sem ríkt hefur að undanförnu er greinilega allt annað en það var á árum áður. Þetta veðurlag veldur miklu meiri kostnaði og óþægindum en sams konar tíð gerði fyrrum.
Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að mikill munur getur verið á veðurfari eins og það kemur fram í mælingum veðurvísindanna og því veðurfari sem samfélagið upplifir. Kostnaður sem samfélag verður fyrir af völdum veðurs getur aukist stórlega (eða úr honum dregið) jafnvel þótt veðurlag breytist ekki neitt - bara vegna þess að samfélagið er á hraðri breytingaleið.
13.2.2018 | 23:47
Hitabylgjan snarpa í júlí 1911
Í júlí 1911 gerði mjög snarpa hitabylgju á landinu. Þá mældist hæsti hiti sem vitað er um á Akureyri, 29,9 stig og víðar sáust óvenjulegar tölur.
Hér má sjá mælingar á skeytastöðinni á Akureyri í þessum mánuði. Mælt var fjórum sinnum á dag, kl. 7, 13, 16 og 22. Stöðvarnar á Akureyri voru reyndar tvær um þetta leyti, önnur á símstöðinni þar sem Ólafur Tr. Ólafsson sá um mælingar, en hin við heimili Hendrik Schiöth sem hafði gert athuganir á vegum dönsku veðurstofunnar allt frá 1873 (en hann fékk þó ekki hitamæli fyrr en haustið 1881). Ritstjóri hungurdiska er ekki fullviss um það hver Ólafur Tr. var - en giskar á Ólaf Tryggva búfræðing (frá Hólum f. 1874, d. 1961) sem lengi var síðan starfsmaður Kaupfélags Eyfirðinga, lúðrasveitarmaður og meðhjálpari. Hendrik Schiöth (f. 1841, d. 1923) var bakari og síðar bankagjaldkeri - allþekktur maður á sinni tíð.
Hendrik var eins og flestir aðrir veðurathugunarmenn ekki með hámarksmæli í búri sínu, en fylgdist vel með hitanum þennan dag. Hann segist mest hafa séð 29,9 stig á mælinum síðdegis. Við getum e.t.v. ekki tekið þá tölu nákvæmlega upp á tíundahluta, en notum hana samt.
Myndin sýnir að mjög kalt var fyrstu 2 daga mánaðarins, hiti að morgni þess 1. ekki nema 2,9 stig. Síðan var hitinn á venjulegri júlíslóðum þar til hann rauf fyrst 20 stiga múrinn á skeytastöðinni kl.13 þann 8. Síðan fylgdu fjórir dagar með hita yfir 20 stigum. Sá 11. var hlýjasti dagurinn, þá var hiti ofan 20 stiga á öllum athugunartímunum fjórum.
Undir kvöld þann 13. kólnaði loks, hiti kl. 22 var 10,2 stig. Í kjölfarið fylgdu síðan sérlega kaldir dagar og varla hægt að segja að hiti næði sér á strik aftur fyrr en þann 29. Kaldast var þann 17. og 24. þegar hitinn rétt náði að skríða yfir 5 stig um hádaginn.
Hitabylgjan varð langsnörpust um landið norðan- og austanvert. Veðurstöðvar voru ekki margar á landinu 1911.
stöð | ár | mán | hæsti hiti | dagur | nafn | |
1 | 1911 | 7 | 19,0 | 12 | Reykjavík | |
15 | 1911 | 7 | 19,0 | 31 | Vífilsstaðir | |
121 | 1911 | 7 | 25,0 | 11 | Gilsbakki í Hvítársíðu | |
178 | 1911 | 7 | 20,3 | 12 | Stykkishólmur | |
254 | 1911 | 7 | 22,1 | 11 | Ísafjörður | |
306 | 1911 | 7 | 25,1 | 11 | Bær í Hrútafirði | |
341 | 1911 | 7 | 22,6 | 11 | Blönduós | |
404 | 1911 | 7 | 24,1 | 11 | Grímsey | |
419 | 1911 | 7 | 29,4 | 11 | Möðruvellir | |
422 | 1911 | 7 | 29,9 | 11 | Akureyri | |
490 | 1911 | 7 | 27,0 | 11 | Möðrudalur | |
495 | 1911 | 7 | 28,1 | 12 | Grímsstaðir | |
508 | 1911 | 7 | 25,9 | 10 | Sauðanes | |
564 | 1911 | 7 | 29,1 | 11 | Nefbjarnarstaðir | |
615 | 1911 | 7 | 28,9 | 11 | Seyðisfjörður | |
675 | 1911 | 7 | 20,7 | 12 | Teigarhorn | |
680 | 1911 | 7 | 11,7 | 14 | Papey | |
745 | 1911 | 7 | 19,0 | # | Fagurhólsmýri | |
815 | 1911 | 7 | 15,4 | 21 | Vestmannaeyjakaupstaður | |
906 | 1911 | 7 | 21,6 | 11 | Stórinúpur |
Taflan sýnir hæsta hita mánaðarins á stöðvunum. Hámarksmælar voru aðeins á fáum þeirra. Lesið var af þeim einu sinni á dag kl.8 að morgni - það eru stöðvarnar sem segja hita hafa orðið hæstan þ.12. (Stykkishólmur, Grímsstaðir, Teigarhorn) - síðbúið hámark frá deginum áður. Í töflunni er sagt hlýjast í Grímsey þann 11, en þar var hámarksmælir, hlýjast var í raun og veru þann 10, - degi á undan flestum öðrum stöðvum. Á Sauðanesi á Langanesi var einnig hlýjast þann 10. - eins og í Grímsey. Trúlega mikil barátta sjávar- og landlofts á þessum slóðum þessa daga.
Það var á Möðruvöllum í Hörgárdal eins og Akureyri að athugunarmaðurinn, Jón Þorsteinsson, fylgdist sérstaklega með á mælinum - því honum fannst hitinn svo óvenjulegur. Hæsta talan sem hann sá er sú í töflunni, 29,4 stig, ekki fjarri Akureyrartölunni háu.
Hlýindanna gætti ekkert í Papey vegna áhrifa sjávarins - en varð vart á Teigarhorni. Ekki gerðu þau heldur vart við sig í Vestmannaeyjum - og ekki að ráði í Reykjavík, en 19,0 stig er reyndar allgott á þeim slóðum. Hitanum sló aðeins niður í uppsveitum sunnanlands, fór í 21,6 stig á Stóranúpi og talinn 25,0 stig á Gilsbakka í Hvítársíðu. Hiti fer ekki oft í 20 stig í Stykkishólmi, en gerði það í þetta sinn og í 22,1 stig vestur á Ísafirði.
Austur á Héraði fór hiti á athugunartíma í 29,1 stig á Nefbjarnarstöðum og í 28,9 á Seyðisfirði - á hvorugum þessara staða var hámarksmælir. Blöðin sögðu að hiti hafi farið í 32 stig á Seyðisfirði - en því trúum við ekki. Aftur á móti er alveg opið hversu hitamælar nútímans tækju við atburði sem þessum - kannski við fengjum að sjá 30 stigin eftirsóttu.
En þetta sumar, 1911 var óvenjulegt víðar. Hér að neðan eru tvö veðurkort sem sýna stöðuna þann 11. júlí, hið fyrra hæð 1000 hPa-flatarins (jafngilt hefðbundnu veðurkorti, 240 metrar = 1030 hPa), en hið síðara hæð 500 hPa-flatarins eins og ameríska endurgreiningin sér stöðuna.
Óvenjuleg hæð er yfir Bretlandseyjum (um 1037 hPa í miðju) og beinir hún ásamt lægð austur af Nýfundnalandi lofti langt að sunnan til landsins auk þess að vera sérlega hlý sjálf. Hæsti þrýstingur sem mældist hér á landi í syrpunni var 1031,9 hPa - í Reykjavík þann 14. Það er ekki oft sem þrýstingur fer svo hátt hér á landi í júlímánuði - hefur reyndar aðeins fimm sinnum orðið hærri en þetta.
Staðan á 500 hPa-kortinu er enn skýrari. Miðja hæðarinnar yfir Bretlandi er í 5950 metrum, hálfótrúleg tala satt best að segja, en væntanlega rétt. Þetta sumar var mjög óvenjulegt á Bretlandi, sólríkasti júlímánuður sem um getur og ágúst átti lengi hæsta hita sem mælst hefur á Bretlandi, en metið féll loks fyrir fáeinum árum. Skotar fengu líka óvenjulega sólskinsdaga. Hitamet var slegið í Danmörku - stóð líka þar til nýlega rétt eins og á Bretlandi. Hiti fór yfir 20 stig í Þórshöfn í Færeyjum, bæði þann 11. og 12. júlí. Mikil hitabylgja var líka á Nýja-Englandi, vestur í Ameríku, þetta sumar svo fjöldi manns hlaut bana af.
Fullyrða má að gerði ámóta hitabylgju nú yrði hnattrænni hlýnun umsvifalaust kennt um (kannski þá réttilega).
Vísindi og fræði | Breytt 14.2.2018 kl. 01:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2018 | 01:27
Enn um fyrstu viku góu
Fyrir viku horfðum við á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um meðalsjávarmálsþrýsting og þrýstivik á Norður-Atlantshafi í fyrstu viku góu (19. til 25. febrúar). Við förum aftur á sömu slóðir - en með nýja spá reiknimiðstöðvarinnar að vopni.
Spáin er nú talsvert breytt frá því fyrir viku - þá hallaði hún sér að norðaustlægum áttum, en nú er áttin eindregið suðlæg. Leifar köldu lægðarinnar sem plagað hefur okkur að undanförnu húkir enn í skjóli Grænlands - en mikil háþrýstisvæði er austurundan.
Kortið er hins vegar meðaltal 51 spárunu - og heillar viku þar að auki. Margt getur leynst í þeirri súpu allri. - En ef rétt reynist er þetta samt töluverð breyting frá núverandi veðurlagi. Kalda loftið að vestan hefur hér alla vega átt lengri leið suður á bóginn áður en það kemur hingað og þrýstingur kominn í meðallag í stað þess að vera undir því.
11.2.2018 | 23:29
Gervihnattamynd kvöldsins
Lítum á gervihnattamynd kvöldsins (sunnudag 11. febrúar).
Þetta er hitamynd - því hvítari - því kaldara. Gula örin bendir á hríðarbakkann yfir landinu sunnanverðu sem treglega gengur að fullhreinsa burt - en það gerist samt um síðir.
Græna örin bendir á nokkuð snarpt illviðri yfir Danmörku og Suður-Noregi - plagar eitthvað þar um slóðir. Sú rauða bendir hins vegar á vaxandi lægð sem á að fara yfir landið úr suðaustri aðra nótt - aðfaranótt þriðjudags. Hún hefur sett upp hatt - sem slíkt þykir vaxtarmerki - sérstaklega þegar stefnt er inn í svæði þéttra éljaklakka. Aftur á móti er ekki mikið af hlýju lofti - með veðrahvarfatengsl með í spilinu - og lægðin er ekki sérlega stór.
Ætli það sé nú samt ekki rétt að gefa henni gaum - henni fylgir ábyggilega leiðinda skafrenningur - vonandi hittir hann samt aðallega á nóttina. Um hádegi á þriðjudag er því spáð að lægðin verði komin vestur fyrir land og þá batni um stund þar til svo næsta lægð fer að hafa (ill) áhrif snemma á öskudagsmorgni. Kannski verður öskubylur á öskudag sem svo á sér 18 bræður á föstunni? - eða á síðdegisöskudagsveðrið sér frekar 18 bræður? - eða hvað? Hinn nútímalegi Valentínus verður líka á ferð á sama tíma - kannski kemur hann á hvítum hesti? Aldrei að vita.
11.2.2018 | 23:13
Af árinu 1911
Reynum til gamans við árið 1911. Í viðhenginu má finna hrúgu af ýmsum tölulegum upplýsingum um árið - sem hvergi eru fáanlegar annars staðar. Martröð fyrir flesta - en ánægja fyrir aðra.
Tíð þótti almennt hagstæð 1911. Lögrétta segir svo 1. janúar 1912:
Árið sem leið. Það má yfirleitt heita fremur gott ár. Veturinn í fyrra var mildur, en vorið og sumarið kalt. Gras spratt seint og varð töðubrestur nokkur. Á Suðurlandi var þó heyafli allt að því í meðallagi og í sumum héruðum annarsstaðar á landinu að minnsta kosti eigi minni. Garðávextir sömuleiðis undir það í meðallagi um Suðurland, en lakari í öðrum landshlutum. Hausttíðin hefur verið hin besta.
Töluverður hafís var við land - árið trúlega eitt af 10 mestu ísárum 20. aldar, fyrst kom hann að Vestfjörðum og lokaði m.a. Dýrafirði og Önundarfirði í nokkra daga - var síðan lengi við Norður- og Austurland og hamlaði siglingum. Lengst virðist hann hafa komist suður undir Hornafjörð - það var síðast í apríl. Ísinn var þó víða gisinn útifyrir - þéttist við og við næst landi og á fjörðum og áhrif hans á hita voru minni en algengast er í ísárum.
Merkasti einstaki veðuratburður ársins 1911 er sennilega hitabylgjan mikla í kringum 11. júlí. Hún fær sérstaka umfjöllun öðrum pistli. Í kjölfar hennar fylgdi snarpt kuldakast og snjóaði þá niður í miðja Esju og niður á Hellisheiði.
Hér að neðan er hlaupið yfir árið - og fréttir blaðanna notaðar sem stiklur. Stafsetning hefur verið færð til nútímahorfs víðast hvar.
Janúar
Nokkuð umhleypingasamt og oft snjór á V- og N-landi, en annars betri tíð. Hiti í meðallagi. Um miðjan mánuð kom ís inn á firði á Vestfjörðum frá Dýrafirði og norður um en stóð stutt við.
14-1 1911 (Ísafold)
Umhleypingasöm hefir veðráttan verið síðan á nýári. Hláka og grimmdarfrost hafa skipst á en jafnan stormasamt.
23-1 1911 (Vestri - Ísafjörður)
Ofsarok af suðvestri gerði hér í gær. Voru flestir bátarnir hér inni á Pollinum sökum hafíssins, er hér rak inn. Varð meira og minna tjón á sumum bátunum og tveir brotnuðu svo, að þeir sukku; ... Á fleirum bátum hafa og orðið ýmsar smærri skemmdir, einkum af ísreki. Hafís allmikill hefir rekið inn í Djúpið í síðastliðinni viku og hefir töluverð breiða legið hér úti fyrir fjarðarmynninu. Bátar, sem hafa legið hér á höfninni, voru sumir settir á land. Menn úr Bolungarvík, er hafa gengið hátt í hlíðar, segja ísinn töluvert mikinn. Fyrir Vestfjörðum kvað og vera mikill ís og er sagt, að Önundarfjörður og Súgandafjörður sé inniluktir. Einnig hefir það frést hingað, að mikill ís sé á Húnaflóa.
25-1 1911 (Lögrétta)
Í gærkvöld var símað hingað af Ísafirði, að þá væri allur ís horfinn. Póstur var þá nýkominn norðan frá Hestseyri og sagði þá frétt, að ísinn hefði brotið þar bryggju hvalveiðamanna.
Febrúar
Umhleypingar og nokkur snjór v-lands fram undir miðjan mánuð, en síðan lakari tíð og meiri snjór fyrir norðan. Fremur kalt.
4-2 1911 (Ísafold)
Veðrátta. Síðustu dagana hefir verið hlýtt veður og stillt, en ella hefir veðráttan verið ódæma-umhleypingasöm undanfarið. Vetrarveðráttan sunnanlands virðist vera að taka miklum stakkaskiptum frá því sem var fyrir svona 10-12 árum. Frost og stöðugar stillur voru þá tíðar, en nú er sjaldnast um annað að tefla en hvassviðrisrifrildi annan daginn og útsynningshláku hinn daginn. Leiðinleg veðrátta það.
10-2 1911 (Norðri)
Öndvegistíð hefir verið síðan um þorrakomu, og má nú heita öríst á Norður og Austurlandi. Einkum hefir veturinn verið snjóléttur Austanlands og sauðfé þar lítið gefið enn.
Mars
Snjóasamt fyrsta þriðjung mánaðarins, en síðan góð tíð. Fremur hlýtt. Ís kom að Hornströndum snemma í mánuðinum og var á reki undan N-landi um tíma.
1-3 1911 (Ísafold)
Veðrátta: Frost mikið síðustu daga. Norðvestangarri hér um slóðir í gær. Fannkoma mikil í síðustu viku. Sleða- og skíðafæri verið með afbrigðum gott enda óvenjumikið notað.
1-4 1911 (Ísafold)
Einmunatíð nær allan marsmánuð oftast nær nokkurra stiga hiti og bjartviðri
1-4 1911 (Vestri)
Tíðarfar enn hið besta. - Hírarn Jónsson bóndi á Glúmstöðum í Fljótavík á Hornströndum, er að norðan kom nú í vikunni, segir, að jafnautt hafi verið þar er hann fór og í 12. viku sumars í fyrra. [þá var slæmt vor - athugasemd ritstjóra hungurdiska]
Apríl
Byrjaði vel en síðan var tíð fremur óhagstæð og oft snjókoma. Fremur kalt. Allmikill ís var við mestallt N-land frá Hornströndum að Langanesi og síðari hlutann einnig við Austfirði allt suður að Papey og svo vestur að Hornafirði.
7-4 1911 (Norðri)
Öndvegistíð er nú hér norðan lands og snjólaust að verða í sveitum, svo sauðfé er víða lítið gefið í landbetri sveitum, og í hinum landléttari víðast eigi nema hálf gjöf.
20-4 1911 (Ingólfur)
Páskahret. Hörkugaddur hefir verið um land alt um páskana. Alt að 7 st. frost hér í Reykjavík.
Maí
Nokkuð hagstæð tíð. Úrkomusamt á S- og V-landi, en úrkomulítið norðaustanlands. Fremur hlýtt. Hafísinn gisnaði nokkuð, en var þó mestallan mánuðinn við allt Norðurland og Austfirði.
20-5 1911 (Austri)
Austur Skaptafellssýslu (Lóni) 3. maí 1911 (brot) Um páskana kom grimmt kuldakast (-11°R að kvöldi hins 16 .) fyrirboði landsins forna fjanda", sem lét fyrst sjá sig við Hvalneshorn (Austurhorn" á dönsku sjómannamáli) sumardaginn fyrsta (20. apríl) og fór sívaxandi til hins 27. er hann var búinn að kringja allar strendur og fylla allar víkur og ósa, svo langt suður sem til hefir spurst.
Júní
Þurrkasamt og fremur kalt. Ísinn var enn talsverður við Langanes og á grunnslóð við mestallt N-land.
23-6 1911 (Þjóðviljinn)
Sólskinsblíða og heiðskírt loft undanfarna daga. Mikill hiti.
Júlí
Góðir þurrkar austanlands framan af, en annars heldur votviðrasamt. Hiti í meðallagi nyrðra, en annars fremur kalt. Óvenju mikla hitabylgju gerði í mánuðinum á Norðaustur- og Austurlandi-landi en mikið kuldakast í kjölfar hennar. Seint í mánuðinum var íshrafl við Hornstrandir.
4-7 1911 (Ingólfur)
Landsynningurinn, sem var hér i Rvík síðastliðinn þriðjudag, stóð ekki lengi. Kom brátt sólskin og blíða og hélst til sunnudagskvelds; þá tók að rigna og gerði
landsynningarigningu sem hélst í gær; en í dag er sunnanrok, rigning og hráslagalegt veður.
15-7 1911 (Austri)
Feykilega miklir hitar hafa gengið yfir land allt nú fyrri hluta s.1. viku, svo slíkir hafa eigi komið síðan sumarið 1880 á undan frostavetrinum mikla. Mestur hefir hitinn
orðið hér á Seyðisfirði 32 stig á celsius í forsælunni.
18-7 1911 (Ingólfur)
Veðrið hefir ekki verið alt i gæskunni þessa vikuna, hryssings-nepju-kuldi á hverjum degi, alveg eins og á haustdegi. Það má mikið vera ef lóurnar fara ekki að halda burtu, því að ekki hafa þær almanakið til að segja sér til, að þetta eigi að heita sumar. Í fyrrinótt snjóaði á Grímsstöðum og í gær snjóaði á Esjuna, svo að hún var orðin grá í kollinn eins og æruverður öldungur. Margir fóru að hala" vetrarfrakkana sína fram úr klæðaskápnum og gá að loðhúfunum sínum.
19-7 1911 (Vísir)
Snjóaði hér allmjög í fyrradag niður í miðja Esju og muna elstu menn ekki eftir slíku á þessum tíma árs.
Húsavíkurbréf. 12. júlí 1911. Svo heitt er nú, að varla verður ferðast um daga. Í gær var 29 1/2 stig á C. hliðsælis. ... Til hallæris horfir hér í sveitum víða sakir grasmaðks. Ekki lauf á kvisti á heilum fermílum. svo að segja.
22-7 1911 (Suðurland)
Köld veðrátta framan af vikunni; frost um nætur. Hellisheiði einn morgun hvít niður á Kamba. Nú eru stillingar, sólskin og blíða, en andar þó kalt er gola er.
25-7 1911 (Ingólfur)
Með hverju hefir bærinn styggt hina ódauðlegu guði, eða réttara sagt þann þeirra, sem hefir veðráttumálin á sinni stjórnarráðsskrifstofu? Eða hefir veðurguðinn ef til vill tekið sér sumarfrí með einhverri af þeim sjötíu og tveimur svarteygu Houris og situr hann nú og frílistar sig í einhverjum skuggasælum pálmaviðarlundi i Edens frjósama aldingarði, hafandi gleymt vesalings Mörlandanum, hafandi gleymt að nú er komið fram á Hundadaga og að samt snjóar enn á Esjuna á hverri nóttu? Vér skulum nú til áminningar birta þær viðbjóðslegu tölur, sem hann lætur sér sæma að festa upp á pósthúshorninu:
[Morgunhiti í veðurskeytum vikuna 19. til 25. júlí 1911] - harla kalt eins og sjá má.
1-8 1911 (Ingólfur)
Veðrið hefir þó heldur verið að skána þessa vikuna; golan hefir verið heitari og regnið ekki eins hryssingslegt og vikurnar næstar á undan. En er þetta samt nokkuð aumar? Sumar er sólskin, og hvítir kjólar og brún andlit og bjartar nætur og óljósir draumar og útlöngun, langt, langt i burtu.
Ágúst
Nokkuð votviðrasamt norðaustanlands, en góðir þurrkkaflar á S- og V-landi. Fremur kalt. Vart varð við hafís nærri Skaga.
4-8 1911 (Norðri)
Þokur og rigningar þessa dagana og íslenskt hundadagaveður.
15-8 1911 (Ingólfur)
Lítið batnar veðrið enn; og nú er líka komið fram á haust, svo að sumarið hefir víst hugsað sér að bíða fram á vetur.
18-8 1911 (Norðri)
Veðrátta hin hagstæðasta heyskapartíð þessa viku, hitar og þurrkar. Jörð hefir verið að spretta alt að þessu. Engin næturfrost enn.
28-8 1911 (Þjóðviljinn)
Reykjavík 26. ágúst 1911. Tíðin hlý, og hagstæð, undanfarna daga.
September
Umhleypingasöm og fremur köld tíð. Allslæmt hret undir lok mánaðar. Þá fennti fé vestra. Skip og bátar slitnuðu upp og löskuðust í Siglufirði í vonskuveðri þann 24., geymsluskip sökk og fleiri skip urðu óhaffær. Mannskaðar urðu allnokkrir á sjó í mánuðinum, einkum í norðanveðri þann 10. til 12.
Október
Góð tíð og fremur hlý.
14-10 1911 (Þjóðviljinn)
Úr Skagafirði er skrifað 28. sept: Stirð hefur tíðin verið í sumar Fyrst þurrkur í vor, svo að ekki spratt, síðan óþurrkar um túnaslátt, svo að ekki nýttust töðurnar. Svo var dágott um tíma, en síðari hluti þessa mánaðar gafst svo, að fyrst kom ofsarigning, svo snjóaði niður i sjó, og loks, þegar snjóinn leysti og heyið varð þurrkað, kom eitt af þessum suðvestan rokviðrum, sem svo hætt er við hér á haustin, og fauk þá víðast hvar eitthvað og sumstaðar allt, sem úti var. Má segja að ótíðin varð ekki endislepp hjá oss í sumar, enda varð heyfengurinn viðast í minna lagi, einkum þar sem mikið fauk.
21-10 1911 (Vestri)
Tíðarfar hefir verið einmuna gott alla þessa viku, logn og hitar, og yfirleitt líkara vorblíðu en haustveðri.
Nóvember
Góð tíð. Umhleypingar síðustu vikuna á S- og V-landi. Hiti í meðallagi. Allmikil skriða féll í Mjóafirði þann 30. og spillti skógi (Austri).
Desember
Góð tíð. Úrkomusamt um a-vert landið, en þurrviðrasamt v-lands. Hlýtt.
30-12 1911 (Ísafold)
Veðrátta. Auð jól hvítir páskar segir máltækið. Þetta sinni voru jólin auð veður yfirleitt hið besta.
Í viðhenginu má eins og áður sagði finna hrúgu af tölum sem þrautseigir geta reynt að komast í gegnum. (Því miður er það sem stendur ekki á æskilegasta sniði - en svo verður að vera sem stendur). Ekki treystir ritstjórinn sér til að lofa fleiri pistlum af þessu tagi - þó full ástæða væri til að taka til hendinni og fjalla um síðustu 200 árin eða svo á ámóta hátt.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 16
- Sl. sólarhring: 211
- Sl. viku: 981
- Frá upphafi: 2420865
Annað
- Innlit í dag: 13
- Innlit sl. viku: 862
- Gestir í dag: 13
- IP-tölur í dag: 13
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010