Af árinu 1911

Reynum til gamans við árið 1911. Í viðhenginu má finna hrúgu af ýmsum tölulegum upplýsingum um árið - sem hvergi eru fáanlegar annars staðar. Martröð fyrir flesta - en ánægja fyrir aðra. 

Tíð þótti almennt hagstæð 1911. Lögrétta segir svo 1. janúar 1912: 

„Árið sem leið. Það má yfirleitt heita fremur gott ár. Veturinn í fyrra var mildur, en vorið og sumarið kalt. Gras spratt seint og varð töðubrestur nokkur. Á Suðurlandi var þó heyafli allt að því í meðallagi og í sumum héruðum annarsstaðar á landinu að minnsta kosti eigi minni. Garðávextir sömuleiðis undir það í meðallagi um Suðurland, en lakari í öðrum landshlutum. Hausttíðin hefur verið hin besta“. 

Töluverður hafís var við land - árið trúlega eitt af 10 mestu ísárum 20. aldar, fyrst kom hann að Vestfjörðum og lokaði m.a. Dýrafirði og Önundarfirði í nokkra daga - var síðan lengi við Norður- og Austurland og hamlaði siglingum. Lengst virðist hann hafa komist suður undir Hornafjörð - það var síðast í apríl. Ísinn var þó víða gisinn útifyrir - þéttist við og við næst landi og á fjörðum og áhrif hans á hita voru minni en algengast er í ísárum. 

Merkasti einstaki veðuratburður ársins 1911 er sennilega hitabylgjan mikla í kringum 11. júlí. Hún fær sérstaka umfjöllun öðrum pistli. Í kjölfar hennar fylgdi snarpt kuldakast og snjóaði þá niður í miðja Esju og niður á Hellisheiði. 

Hér að neðan er hlaupið yfir árið - og fréttir blaðanna notaðar sem stiklur. Stafsetning hefur verið færð til nútímahorfs víðast hvar. 

Janúar
Nokkuð umhleypingasamt og oft snjór á V- og N-landi, en annars betri tíð. Hiti í meðallagi. Um miðjan mánuð kom ís inn á firði á Vestfjörðum frá Dýrafirði og norður um en stóð stutt við.

14-1 1911 (Ísafold)
Umhleypingasöm hefir veðráttan verið síðan á nýári. Hláka og grimmdarfrost hafa skipst á — en jafnan stormasamt.

23-1 1911 (Vestri - Ísafjörður)
Ofsarok af suðvestri gerði hér í gær. Voru flestir bátarnir hér inni á Pollinum sökum hafíssins, er hér rak inn. Varð meira og minna tjón á sumum bátunum og tveir brotnuðu svo, að þeir sukku; ... Á fleirum bátum hafa og orðið ýmsar smærri skemmdir, einkum af ísreki. Hafís allmikill hefir rekið inn í Djúpið í síðastliðinni viku og hefir töluverð breiða legið hér úti fyrir fjarðarmynninu. Bátar, sem hafa legið hér á höfninni, voru sumir settir á land. Menn úr Bolungarvík, er hafa gengið hátt í hlíðar, segja ísinn töluvert mikinn. Fyrir Vestfjörðum kvað og vera mikill ís og er sagt, að Önundarfjörður og Súgandafjörður sé inniluktir. Einnig hefir það frést hingað, að mikill ís sé á Húnaflóa.

25-1 1911 (Lögrétta)
Í gærkvöld var símað hingað af Ísafirði, að þá væri allur ís horfinn. Póstur var þá nýkominn norðan frá Hestseyri og sagði þá frétt, að ísinn hefði brotið þar bryggju hvalveiðamanna.

Febrúar
Umhleypingar og nokkur snjór v-lands fram undir miðjan mánuð, en síðan lakari tíð og meiri snjór fyrir norðan. Fremur kalt.

4-2 1911 (Ísafold)
Veðrátta. Síðustu dagana hefir verið hlýtt veður og stillt, en ella hefir veðráttan verið ódæma-umhleypingasöm undanfarið. Vetrarveðráttan sunnanlands virðist vera að taka miklum stakkaskiptum frá því sem var fyrir svona 10-12 árum. Frost og stöðugar stillur voru þá tíðar, en nú er sjaldnast um annað að tefla en hvassviðrisrifrildi annan daginn og útsynningshláku hinn daginn. — Leiðinleg veðrátta það.

10-2 1911 (Norðri)
Öndvegistíð hefir verið síðan um þorrakomu, og má nú heita öríst á Norður og Austurlandi. Einkum hefir veturinn verið snjóléttur Austanlands og sauðfé þar lítið gefið enn.

Mars
Snjóasamt fyrsta þriðjung mánaðarins, en síðan góð tíð. Fremur hlýtt. Ís kom að Hornströndum snemma í mánuðinum og var á reki undan N-landi um tíma.

1-3 1911 (Ísafold)
Veðrátta: Frost mikið síðustu daga. — Norðvestangarri hér um slóðir í gær. Fannkoma mikil í síðustu viku. Sleða- og skíðafæri verið með afbrigðum gott — enda óvenjumikið notað.

1-4 1911 (Ísafold)
Einmunatíð nær allan marsmánuð — oftast nær nokkurra stiga hiti og bjartviðri

1-4 1911 (Vestri)
Tíðarfar enn hið besta. - Hírarn Jónsson bóndi á Glúmstöðum í Fljótavík á Hornströndum, er að norðan kom nú í vikunni, segir, að jafnautt hafi verið þar er hann fór og í 12. viku sumars í fyrra. [þá var slæmt vor - athugasemd ritstjóra hungurdiska]

Apríl
Byrjaði vel en síðan var tíð fremur óhagstæð og oft snjókoma. Fremur kalt. Allmikill ís var við mestallt N-land frá Hornströndum að Langanesi og síðari hlutann einnig við Austfirði allt suður að Papey og svo vestur að Hornafirði.

7-4 1911 (Norðri)
Öndvegistíð er nú hér norðan lands og snjólaust að verða í sveitum, svo sauðfé er víða lítið gefið í landbetri sveitum, og í hinum landléttari víðast eigi nema hálf gjöf.

20-4 1911 (Ingólfur)
Páskahret. Hörkugaddur hefir verið um land alt um páskana. Alt að 7 st. frost hér í Reykjavík.

Maí

Nokkuð hagstæð tíð. Úrkomusamt á S- og V-landi, en úrkomulítið norðaustanlands. Fremur hlýtt. Hafísinn gisnaði nokkuð, en var þó mestallan mánuðinn við allt Norðurland og Austfirði.

20-5 1911 (Austri)
Austur Skaptafellssýslu (Lóni) 3. maí 1911 (brot) Um páskana kom grimmt kuldakast (-11°R að kvöldi hins 16 .) fyrirboði „landsins forna fjanda", sem lét fyrst sjá sig við Hvalneshorn („Austurhorn" á dönsku sjómannamáli) sumardaginn fyrsta (20. apríl) og fór sívaxandi til hins 27. er hann var búinn að kringja allar strendur og fylla allar víkur og ósa, svo langt suður sem til hefir spurst.

Júní
Þurrkasamt og fremur kalt. Ísinn var enn talsverður við Langanes og á grunnslóð við mestallt N-land.

23-6 1911 (Þjóðviljinn)
Sólskinsblíða og heiðskírt loft undanfarna daga. Mikill hiti.

Júlí
Góðir þurrkar austanlands framan af, en annars heldur votviðrasamt. Hiti í meðallagi nyrðra, en annars fremur kalt. Óvenju mikla hitabylgju gerði í mánuðinum á Norðaustur- og Austurlandi-landi en mikið kuldakast í kjölfar hennar. Seint í mánuðinum var íshrafl við Hornstrandir.

4-7 1911 (Ingólfur)
Landsynningurinn, sem var hér i Rvík síðastliðinn þriðjudag, stóð ekki lengi. Kom brátt sólskin og blíða og hélst til sunnudagskvelds; þá tók að rigna og gerði
landsynningarigningu sem hélst í gær; en í dag er sunnanrok, rigning og hráslagalegt veður.

15-7 1911 (Austri)
Feykilega miklir hitar hafa gengið yfir land allt nú fyrri hluta s.1. viku, svo slíkir hafa eigi komið síðan sumarið 1880 á undan frostavetrinum mikla. Mestur hefir hitinn
orðið hér á Seyðisfirði 32 stig á celsius í forsælunni.

18-7 1911 (Ingólfur)
Veðrið hefir ekki verið alt i gæskunni þessa vikuna, hryssings-nepju-kuldi á hverjum degi, alveg eins og á haustdegi. Það má mikið vera ef lóurnar fara ekki að halda burtu, því að ekki hafa þær almanakið til að segja sér til, að þetta eigi að heita sumar. Í fyrrinótt snjóaði á Grímsstöðum og í gær snjóaði á Esjuna, svo að hún var orðin grá í kollinn eins og æruverður öldungur. Margir fóru að „hala" vetrarfrakkana sína fram úr klæðaskápnum og gá að loðhúfunum sínum.

19-7 1911 (Vísir)
Snjóaði hér allmjög í fyrradag niður í miðja Esju og muna elstu menn ekki eftir slíku á þessum tíma árs.

Húsavíkurbréf. 12. júlí 1911. Svo heitt er nú, að varla verður ferðast um daga. Í gær var 29 1/2 stig á C. hliðsælis. ... Til hallæris horfir hér í sveitum víða sakir grasmaðks. Ekki lauf á kvisti á heilum fermílum. svo að segja.

22-7 1911 (Suðurland)
Köld veðrátta framan af vikunni; frost um nætur. Hellisheiði einn morgun hvít niður á Kamba. Nú eru stillingar, sólskin og blíða, en andar þó kalt er gola er.

25-7 1911 (Ingólfur)
Með hverju hefir bærinn styggt hina ódauðlegu guði, eða réttara sagt þann þeirra, sem hefir veðráttumálin á sinni stjórnarráðsskrifstofu? Eða hefir veðurguðinn ef til vill tekið sér sumarfrí með einhverri af þeim sjötíu og tveimur svarteygu Houris og situr hann nú og frílistar sig í einhverjum skuggasælum pálmaviðarlundi i Edens frjósama aldingarði, hafandi gleymt vesalings Mörlandanum, hafandi gleymt að nú er komið fram á Hundadaga og að samt snjóar enn á Esjuna á hverri nóttu? Vér skulum nú til áminningar birta þær viðbjóðslegu tölur, sem hann lætur sér sæma að festa upp á pósthúshorninu: 

ingolfur_hitatafla_1911-07-25

[Morgunhiti í veðurskeytum vikuna 19. til 25. júlí 1911] - harla kalt eins og sjá má.

1-8 1911 (Ingólfur)
Veðrið hefir þó heldur verið að skána þessa vikuna; golan hefir verið heitari og regnið ekki eins hryssingslegt og vikurnar næstar á undan. En er þetta samt nokkuð aumar? Sumar er sólskin, og hvítir kjólar og brún andlit og bjartar nætur og óljósir draumar og útlöngun, langt, langt i burtu.

Ágúst
Nokkuð votviðrasamt norðaustanlands, en góðir þurrkkaflar á S- og V-landi. Fremur kalt. Vart varð við hafís nærri Skaga.

4-8 1911 (Norðri)
Þokur og rigningar þessa dagana og íslenskt hundadagaveður.

15-8 1911 (Ingólfur)
Lítið batnar veðrið enn; og nú er líka komið fram á haust, svo að sumarið hefir víst hugsað sér að bíða fram á vetur.

18-8 1911 (Norðri)
Veðrátta hin hagstæðasta heyskapartíð þessa viku, hitar og þurrkar. Jörð hefir verið að spretta alt að þessu. Engin næturfrost enn.

28-8 1911 (Þjóðviljinn)
Reykjavík 26. ágúst 1911. Tíðin hlý, og hagstæð, undanfarna daga.

September
Umhleypingasöm og fremur köld tíð. Allslæmt hret undir lok mánaðar. Þá fennti fé vestra. Skip og bátar slitnuðu upp og löskuðust í Siglufirði í vonskuveðri þann 24., geymsluskip sökk og fleiri skip urðu óhaffær. Mannskaðar urðu allnokkrir á sjó í mánuðinum, einkum í norðanveðri þann 10. til 12.

Október
Góð tíð og fremur hlý.

14-10 1911 (Þjóðviljinn)
Úr Skagafirði er skrifað 28. sept: Stirð hefur tíðin verið í sumar Fyrst þurrkur í vor, svo að ekki spratt, síðan óþurrkar um túnaslátt, svo að ekki nýttust töðurnar. Svo var dágott um tíma, en síðari hluti þessa mánaðar gafst svo, að fyrst kom ofsarigning, svo snjóaði niður i sjó, og loks, þegar snjóinn leysti og heyið varð þurrkað, kom eitt af þessum suðvestan rokviðrum, sem svo hætt er við hér á haustin, og fauk þá víðast hvar eitthvað og sumstaðar allt, sem úti var. Má segja að ótíðin varð ekki endislepp hjá oss í sumar, enda varð heyfengurinn viðast í minna lagi, einkum þar sem mikið fauk.

21-10 1911 (Vestri)
Tíðarfar hefir verið einmuna gott alla þessa viku, logn og hitar, og yfirleitt líkara vorblíðu en haustveðri.

Nóvember
Góð tíð. Umhleypingar síðustu vikuna á S- og V-landi. Hiti í meðallagi. Allmikil skriða féll í Mjóafirði þann 30. og spillti skógi (Austri).

Desember
Góð tíð. Úrkomusamt um a-vert landið, en þurrviðrasamt v-lands. Hlýtt.

30-12 1911 (Ísafold)
Veðrátta. Auð jól — hvítir páskar — segir máltækið. Þetta sinni voru jólin auð — veður yfirleitt hið besta.

Í viðhenginu má eins og áður sagði finna hrúgu af tölum sem þrautseigir geta reynt að komast í gegnum. (Því miður er það sem stendur ekki á æskilegasta sniði - en svo verður að vera sem stendur). Ekki treystir ritstjórinn sér til að lofa fleiri pistlum af þessu tagi - þó full ástæða væri til að taka til hendinni og fjalla um síðustu 200 árin eða svo á ámóta hátt. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þennan fróðleik. Mikill hiti í júlí og kuldi lika. Skrýtinn meðalhitinn á Seyðisfirði í þeim mánuði, 11,45 stig ef ég les það rétt. Miklu hærri enn á nokkurri annarri stöð fyrir austan og reyndar á landinu öllu.

Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 12.2.2018 kl. 08:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 59
  • Sl. viku: 400
  • Frá upphafi: 2343313

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 362
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband