Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2018
11.2.2018 | 01:06
Hringekjan heldur áfram að snúast
Lægðin sem valdið hefur illviðri á landinu í dag (laugardag) virðist í aðalatriðum ætla að fara hringinn í kringum landið - fór í dag vestur með Norðurlandi, en í nótt og framan af degi á morgun suður með Vesturlandi og síðan austur með Suðurlandi - og svo jafnvel norður með Austurlandi og vestur með Norðurlandi aftur. Furðumeikill vindstrengur fylgir í vestur- og suðurjöðrum lægðarinnar - nú og svo er auðvitað venjubundin norðaustanstrengur um Grænlandssund sem alltaf þarf að fylgjast með.
Þessi lægð verður að mestu búin að ljúka sér af á mánudag og útlit fyrir sæmilegan frið þann dag.
Kortið gildir síðdegis á mánudag. Þá er hins vegar ný lægð komin á vettvang suðaustan við landið. Hún er ekki enn orðin til í raunheimi nú á laugardagskvöldi þegar þessi texti er sleginn inn. Við trúum líkaninu samt - svona í aðalatriðum að minnsta kosti. Þessi nýja lægð er minni um sig en hin fyrri og er spáð yfir landið með leiðindaveðri á aðfaranótt og nokkuð fram eftir degi á þriðjudag. Þá má aftur búast við skafrenningi víða á vegum og samgönguröskunum þótt vonandi verði allt ívið vægara en var í dag og verður á morgun.
Svo sjáum við enn nýja lægð vestur við Labrador - hún á að koma hingað síðar í vikunni - en er stærri um sig og líklega hlýrri þó henni sé spáð fyrir sunnan land - jafnvel gæti hlánað eitthvað um stund - án þess að til sunnanáttar komi.
Frekari framtíð er afskaplega óráðin - reiknimiðstöðvar hrökkva stórlega til frá einni spárunu til annarrar. - Allt opið sumsé.
Spáð er miklum hlýindum í heiðhvolfi - allt niður að veðrahvörfum þegar kemur fram í miðja viku. Ekki þó methlýindum hér yfir okkur - en samt nokkuð óvenjulegum. Febrúarmetið í 100 hPa hlýindum yfir Keflavík er -38,3 stig, en evrópureiknimiðstöðin spáir -40 í þeim fleti á miðvikudag.
9.2.2018 | 21:57
Dálítið skrýtin lægð
Lægðin sem hrella á landsmenn um helgina hefur ekki á sér algengasta ættarmót. Ritstjóra hungurdiska er varla ætlandi að gera grein fyrir þeim svip í smáatriðum en við lítum samt á gervinhnattamynd frá því nú í kvöld (föstudag 9. febrúar).
Lægðarmiðjan er nú suðsuðvestur af landinu á leið norðaustur. Það vekur athygli að hún kemur ekki á réttum stað inn í heimskautaröstina. Hér er ekkert greinilegt hlýtt færiband - og þurra rifan (heiðhvolfsskotið) er miklu breiðari en vanalega er og undir henni líka fleiri bólstrar en vant er. Ekki alveg venjulegt.
Eins gott að við höfum tölvuspár til að reikna út hvað gerist - því venjulegar athuganir frá svæðinu eru sárafáar og líklegt að algengustu huglíkön eigi ekki vel við. - Svo virðist að auki - sé að marka reikninga - að lægðin skilji hugsanlega eftir ónotað fóður í aðra lægð sem danskir veðurfræðingar eru að hafa ákveðnar áhyggjur af nú í kvöld. Sú á að lenda á Danmörku á sunnudag - áður en okkar lægð er búin að ljúka sér af hér. Ekki þó víst hvernig það fer - enda ... lavtrykkets bane og dybde er stadig noget usikker, da det endnu ikke er dannet - svo vitnað sé beint í dönsku veðurstofuna.
Sögulega séð eru lægðir sem koma að landinu sunnanverðu, fylgja síðan útlínum þess fyrst til austurs, en síðan til norðurs og loks til vesturs almennt heldur varasamar og til alls líklegar. Við erum sjálfsagt heppin samt að lægðin hittir ekki alveg í og missir eitthvað af mætti sínum úr fanginu og til Danmerkur (af öllum stöðum).
En ritstjóri hungurdiska er löngu hættur að stunda veðurspár (opinberlega) og hvetur hann að vanda lesendur til að fylgjast vel með spám og viðvörunum Veðurstofunnar og leiðbeiningum vegagerðar - sérstaklega þá sem hyggja til hreyfings um helgina.
8.2.2018 | 22:54
Vetrarólympíuleikarnir og Síberíu-Blesi
Eins og fram hefur komið í fréttum er spáð kulda við upphaf vetrarólympíuleika í Suðurkóreu. Við lítum á hvað veldur.
Á kortinu má sjá hæð 500 hPa-flatarins og þykktina yfir norðanverðu Kyrrahafi eins og bandaríska veðurstofan spáir síðdegis á laugardag (að okkar tíma). Þykktin er sýnd í lit. Norðausturhluti Asíu er til vinstri á myndinni - Kórea skammt frá jaðrinum og Japan þar rétt hægra megin við. Havaíeyjar eru hins vegar neðarlega til hægri.
Þessa dagana sveiflast suðurjaðar kuldapollsins Síberíu-Blesa framhjá Kóreu - fjólublái liturinn býsna nærgöngull. Það verður hins vegar að taka fram að Blesi er frekar rýr um þessar mundir miðað við það sem oft er á þessum árstíma - ekki nema einn fjólublár litur. Meginlandsloftið er þurrt - líka yfir Kóreu - en það dregur hins vegar í sig raka yfir Japanshafi og þegar það kemur yfir Japansstrendur dengir það úr sér miklum snjó. Á þeim slóðum getur snjóað meira en víðast hvar í heiminum.
En spár gera ráð fyrir því að heldur hlýni aftur í Kóreu eftir helgi - en ritstjórinn játar fúslega mikla vankunnáttu sína í smáatriðum veðurlags þar um slóðir.
7.2.2018 | 17:48
Breytingar með góu?
Nú er veðurlag fremur órólegt hér við land - þó ekki hafi enn gert mjög slæm stórviðri. Ekki sér fyrir endann á þessu veðurlagi - eða hvað?
Evrópureiknimiðstöðin sendir frá sér fjölviknaspár á mánudags- og fimmtudagskvöldum. Þær eru settar fram sem vikumeðaltöl veðurþátta svosem þrýstings, hita og úrkomu. Ekki er alltaf auðvelt að ráða í þessi meðaltöl - þau eru miseindregin, geta dulið mikinn breytileika eða óvissu. Því er rétt að taka spám þessum með varúð - og þær eru mjög misgæfar.
Fyrra kortið sem við lítum á sýnir meðalsjávarmálsþrýsting í vikunni sem nú er að líða.
Jafnþrýstilínur eru heildregnar, en vik eru sýnd í lit, þau neikvæðu eru blá, en þau jákvæðu rauðleit. Þetta er dæmigerð óróastaða, lágur þrýstingur við Ísland, aukin vestanátt um Atlantshafið þvert beinir lægðum til landsins með tilheyrandi skaki.
Næsta vika er ekki ósvipuð - ef trúa má spánni - þó eru mestu þrýstivikin austar en í þessari viku og líkur á norðlægum áttum væntanlega meiri.
Þriðja vikan, sú sem hefst á 2. degi góu, 19. febrúar er hins vegar ólík.
Jákvæðu þrýstisvikin eru komin norður fyrir land og reyndar yfir Ísland líka. Sé þetta rétt er komin ákveðin hæð yfir Grænland með ríkjandi austan- og norðaustanátt hér á landi. Þar sem þrýstingur verður hár (sé vit í spánni) eru líkur á að veður verði tiltölulega rólegt (- en munum þó að mjög margt getur leynst að baki vikumeðaltals).
Þessa dagana eru að verða mikil umskipti í heiðhvolfinu (óróinn hér á Norður-Atlantshafi virðist valda). Þeir sem mest fjalla um þau telja að líkur á breytingum á hringrás veðrahvolfs aukist mjög nokkru eftir að breytingarnar hafa átt sér stað efra. Gallinn er hins vegar sá að erfitt virðist að búa til reglu um það hvers konar veðrahvolfsbreytingar fylgi heiðhvolfsbreytingum. Til að geta ráðið í það þarf alla vega að vita hvernig heiðhvolfið endar.
En líkan evrópureiknimiðstöðvarinnar er greinilega að sjá einhverja möguleika á breytingum. Hvort af þeim verður kemur fljótlega í ljós.
6.2.2018 | 21:58
Stílhrein lægð við Suður-Grænland
Lægð dagsins [þriðjudag 6. febrúar] er afskaplega stílhrein - við fyrstu sýn.
Lægðarmiðjan er vestast á Grænlandshafi. Þetta er hitamynd, þau ský sem eru köldust eru hvítust - og jafnframt hæst á lofti. Sumir kalla þetta skil - jafnvel samskil - lægðarinnar - aðrir nefna hlýja færibandið - hafa báðir flokkar nokkuð til síns máls. Skýjabakkinn hreyfist hratt til norðausturs og fer skjótt yfir landið.
Þá tekur við éljaloft úr vestri - ef við rýnum í myndina má sjá éljaklakka streyma til austurs sunnan við Hvarf á Grænlandi - næst skýjabakkanum mikla eru klakkarnir þó nokkuð bældir - þar heitir þurra rifan.
Snúðurinn í kringum lægðina er að hluta til skýlaus - væntanlega vegna návistar við háhrygg Grænlands - rétt norðan Hvarfs er alveg hreint (niðurstreymis-)svæði.
Fyrst kemur hríðarveður síðan bleytir í snjónum á láglendi - en fljótt frýs aftur - heldur leiðinlegt satt best að segja. Svo er spurning hvaða smálægðir og éljagarða kalda loftið geymir, en næsta meginlægð á ekki að koma fyrr en á föstudagskvöld.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2018 | 21:29
Áratugurinn 1911 til 1920 - 6
Við höldum áfram að reyna að átta okkur á tíðarfari áratugarins 1911 til 1920, fyrir 100 árum. Í þetta sinn horfum við á sólskinsstundir og úrkomu. Gallinn er sá að sólskinsstundafjöldi var hvergi mældur á landinu nema á Vífilsstöðum og úrkoma var heldur ekki mæld víða, t.d. vantar allar upplýsingar um úrkomumagn á Norðurlandi bæði 1911 og 1912.
Taflan sýnir sólskinsstundafjölda einstakra mánaða á Vífilsstöðum á árunum 1911 til 1920. Fáeina mánuði vantar. Óvenjusólríkir mánuðir eru merktir með gulu, en sólarlitlir með brúnum lit. Eins og sjá má eru brúnmerktir mánuðir margir - trúlega hafa mælingar eitthvað farið úrskeiðis í sumum þeirra. Mælingar vantar alveg í fáeinum mánuðum - en það er að vetri og ekki mikillar sólar að vænta - nema að við hefðum viljað fá skárri upplýsingar um sumrin 1920 og 1921.
En það eru þó þrír sérlega sólríkir mánuðir á tímabilinu. Mars 1912, ágúst 1917 og svo september 1918. September 1918 var sérlega kaldur - en eins og við vitum er oftast sólríkt í norðanátt í Reykjavík. Júlí 1915 var líka mjög sólríkur norðanáttarmánuður.
Tímabilið frá júlí 1912 og áfram út árið var sólarrýrt - þrátt fyrir að tíð hafi verið talin hagstæð um landið sunnan- og vestanvert. Þetta sumar varð risaeldgosið við Katmaifjall í Alaska (Novarupta) - náði það hámarki 6. til 7. júní. Aska frá því hefur borist upp í heiðhvolfið - og að auki hefur örugglega talsvert magn hennar sest að við veðrahvörf. Ef til vill hefur hefur áhrifanna gætt í daufara sólskini hér á landi. Eina sem ritstjóri hungurdiska hefur um þetta séð getið hér á landi er smáklausa sem birtist í fréttaritinu Suðurlandi 24. ágúst:
Mistur það, sem hefir verið í lofti undanfarið er kent eldgosum í Ameríku. Þó ekki sé það beinlínis líklegt má samt velta vöngum yfir því hvort tengsl séu á milli eldgossins og norðanhretsins mikla sem gerði um mánaðamótin júlí/ágúst þetta sumar og getið hefur verið um hér á hungurdiskum áður. Eldgosið varð líka á þeim tíma árs sem líklegastur er til að valda truflunum á hafísbúskap í Norðuríshafi - einmitt þegar sólgeislun er að bræða hvað mest af ís er dregið fyrir.
Sumarið 1913 var sérlega sólarrýrt á Vífilsstöðum - slær jafnvel út hið illræmda sumar 1983 enda með illræmdustu rigningasumrum sögunnar á Suður- og Vesturlandi. Sólarleysið í júní 1914 er líka einstakt - helst að minni á ömurðina í júní 1988. Sumarið 1914 var líka mikið óþurrkasumar syðra, en þó skárra en 1913 að því leyti að flesjurnar sem þó komu birtust síðsumars - en 1913 versnuðu óþurrkarnir eftir því sem á leið. Í fyrri pistli var minnst á hið afspyrnuvonda vor 1914.
Næstu ár voru norðlægar áttir ríkjandi (með fáeinum undantekningum þó). Sólskinssundafjöldi var eðlilegur miðað við árin á undan að minnsta kosti. Það var ekki fyrr en 1919 að aftur er hægt að tala um þrálátt sumardimmviðri á Vífilsstöðum.
Taflan hér að ofan á að segja eitthvað um úrkomumagn á Suðurlandi - reyndar var hún ekki mæld nema á tveimur stöðvum, í Vestmannaeyjum og austur á Teigarhorni. En við getum samt náð einhverjum samanburði við fyrri og síðari tíma og reynum að setja hvern mánuð fyrir sig í röð mikillar (og lítillar úrkomu) í 145 ár. Varla er nokkur von til þess að í raun sé vitlegur munur á nálægum sætum. En við sjáum þó hvaða mánuðir skera sig úr annað hvort með mikla úrkomu eða þurrka.
Dökkgrænu mánuðirnir eru óvenjuúrkomusamir, en þeir gulu óvenjuþurrir. Sérlega þurrt var í maí 1915 og júní 1916 og sömuleiðis í október 1914. Marsmánuðir 1915 og 1916 voru líka mjög þurrir, tíðarfari þeirra er almenn hrósað - nema illviðrasyrpunni í marslok 1916. Mjög vont hret gerði í hinum þurra apríl 1920 - rétt eftir páska. Nútíminn myndi kalla það páskahret.
Fáeinir miklir úrkomumánuðir eru einnig á blaði - metúrkoma í október 1915 - sá mánuður var einnig methlýr - einn af sárafáum á kuldaskeiðinu fyrir 1920. Mars 1918 var einnig metúrkomumánuður á Suðurlandi - suðaustanátt þess mánaðar (og þess á undan) hreinsaði hafísinn mikla frá því fyrr um veturinn á burt á undraskömmum tíma - nánast eitt af kraftaverkum íslenskrar veðurfarssögu hversu greiðlega gekk að losna við hann - og sýnir hvað breytileiki tíðarfarsins er mikill og afgerandi á stundum.
Vesturlandstaflan er ekki alveg sammála þeirri frá Suðurlandi - varla von (nær aftur til 1885). Gulmerktu mánuðirnir eru þeir þurrviðrasömu. Sumarið 1915 var þurrt vestanlands og sömuleiðis megnið af árinu 1916 (nema janúar). Kannski væri einhverra vandræða að vænta nú á tímum fengjum við jafnþurrt ár og þá. Frá og með miðju ári 1920 skipti rækilega um og hrökk í úrkomugírinn (enda snerist vindur þá til eindreginna sunnanátta eins og áður hefur verið getið.
Eins og áður er getið voru nær engar úrkomumælingar norðanlands - nema á Möðruvöllum í Hörgárdal frá og með september 1913. Ekki er hægt að bera saman við síðari tíma þannig að við látum okkur nægja að líta á mánaðartölurnar í mm - greinilega fulllágar.
Sumarið 1916 var líka afspyrnuþurrt norðanlands - og úrkoma í ágúst 1915 líka mjög lítil - þrátt fyrir norðanáttir. Allmikil úrkoma var hins vegar í upphafi árs 1916 - snjóatíð - og júlí 1919 mjög blautur. Furðuúrkomulítið er hins vegar veturinn 1919 sem er frægur snjóavetur á Norðurlandi - eitthvað lítið hefur skilað sér í mælinn.
Við höldum síðar áfram að þukla á áratugnum 1911 til 1920.
5.2.2018 | 23:05
Af illviðrinu mikla 4. febrúar 1968
Um þessar mundir er þess minnst að hálf öld er liðin frá illviðrinu mikla 3. til 5. febrúar 1968 en þá fórust tveir breskir togarar auk vélbátsins Heiðrúnar II á Ísafjarðardjúpi. Snjóflóð féllu víða, skemmdir urðu af veðurofsa og samgöngur riðluðust. Veðrið skall á nokkuð snögglega seint á laugardagskvöldi og þorrablót stóðu víða yfir - enn muna það margir. Hér verður veðrið rifjað lauslega upp.
Við lítum fyrst á blaðafyrirsagnir. Hin fyrri er úr Alþýðublaðinu þriðjudaginn 6. febrúar og segir frá örlögum togaranna tveggja - talið er að gríðarleg ísing í veðurofsanum hafi valdið því hvernig fór.
Í Morgunblaðinu daginn eftir er sagt frá árangurslausri leit að Heiðrúnu, trúlega hafa örlög hennar verið svipuð og togaranna. Sömuleiðis er hér sagt frá ástandinu á Reykhólum en sá staður varð sérlega illa úti. Veðurharkan varð mest um mestalla Vestfirði, alls staðar þar sem norðanátt nær sér á annað borð á strik og suður um Dali og Snæfellsnes. Mjög hvasst varð víða um land, en ólíkindin í veðrinu voru mest á Vestfjörðum.
Í fljótu bragði virðist rólegt yfirbragð á þessu veðurkorti. Það sýnir stöðuna síðdegis föstudaginn 2. febrúar - þá var aðeins rúmur sólarhringur í að veðrið skylli á. Grunnar lægðir eru á sveimi fyrir suðvestan land - ekki endilega líklegar til stórræða. Þegar nánar er að gáð sést þó tvennt á kortinu sem vekur ugg. Annars vegar er mikil framrás kulda vestan Grænlands - strikalínurnar sýna hita í 850 hPa-fletinum - og að jafnþrýstilínur liggja nokkurn veginn þvert á þær. Hins vegar er mjög hlýtt loft á leið til norðurs við lægðina suðaustur af Nýfundnalandi.
Staða sem þessi er mjög eitruð og sést jafnvel betur á háloftakortinu.
Kuldapollurinn mikli, Stóri-Boli, rennir jökulkaldri bylgju úr vestri til móts við hlýju tunguna sem nálgast úr suðri. Ekki óalgeng staða í sjálfu sér, þó stefnumót sem þetta takist ekki nærri því alltaf - oft fara kuldi og hlýindi á mis og lítið gerist.
En enginn mistök hér.
Sólarhringur liðinn, klukkan orðin 18 síðdegis laugardaginn 3. febrúar. Trúlega kominn stormur á Vestfjarðamiðum - og um það bil að skella inn á land, en vindur almennt hægur á landinu. Lægðin nýja í foráttuvexti beint fyrir sunnan land, kom svo upp að Suðausturlandi um kvöldið og sendi útskot til norðurs um landið.
Um nóttina gerði síðan mikið illviðri af norðaustri um stóran hluta landsins. Austanlands var hláka og fljótlega hlánaði líka víða norðaustanlands.
Kortið sýnir greiningu japönsku veðurstofunnar á hádegi þann 4. Lægðin um 952 hPa rétt við Suðausturland og greina má aðra lægðarmiðju yfir Norðurlandi vestanverðu. Sú greining er rétt, en norðurlandslægðin var þó talsvert snarpari en hér er sýnt og hafði það afleiðingar á hörku veðursins á Vesturlandi.
Þetta er Íslandskortið kl.9. Stóra lægðarmiðjan er fyrir suðaustan land, en önnur miðja er yfir Húnavatnssýslum, þrýstingur á Hjaltabakka er 960,1 hPa, en 984,9 hPa á Hornbjargsvita. Það munar 24,8 hPa. Fjarlægðin á milli er í kringum 1 breiddarstig - samkvæmt því ætti þrýstivindur að vera meiri en 100 m/s - hreint ótrúleg tala. Kannski hefur mesti vindur yfir landi verið meiri en 50 m/s og hviður þaðan af meiri. Athugunarmaður í Æðey taldi vindhraða 14 vindstig þegar mest var.
Svo lítum við betur á tölur á kortinu. Það er -11 til -12 stiga frost á Vestfjörðum - en um frostmark við innanverðan Húnaflóa. Í Reykjavík er -6 stiga frost og glórulaus hríð. Fárviðri er á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, sömuleiðis í frosti og glórulausri hríð. Í Vestur-Skaftafellssýslu er vindur hins vegar hægur og hiti ofan frostmarks.
Á háloftakortinu sem gildir líka á hádegi má sjá hvers eðlis er. Hlýtt loft úr suðri og austri þrengir að heimskautalofti við Grænland - það ryðst til suðurs um Grænlandssund og Vestfirði - óvenjukalt vegna gríðarmikils hafíss í norðurhöfum um þetta leyti. Inni á Ísafjarðardjúpi hefur að auki verið kuldi í sjó eftir langvinna kuldatíð - kannski togararnir hefðu þrátt fyrir allt sloppið betur hefðu þeir haldið sig utan þess - þar sem meiri von var um heldur hlýrri sjó - og kannski var veðrið líka enn verra í fallvindum Snæfjallastrandar heldur en utar.
En sjóslysunum hefur verið vel lýst á öðrum vettvangi og verður það ekki reynt frekar hér.
Hér sjáum við gang loftþrýstings og þrýstispannar yfir landinu dagana 21. janúar til 9. febrúar 1968. Rauði ferillinn sýnir lægsta loftþrýsting landsins á 3 klukkustunda fresti - kvarðinn til hægri á myndinni. Síðari hluta janúar gengu nokkrar snarpar og hraðfara lægðir yfir landið, en lægðin sem við höfum verið að fjalla um er í öðru þrýstiumhverfi - hár þrýstingur bæði á undan og eftir.
Gráu súlurnar sýna þrýstispönn yfir landið á 3 klukkustunda fresti - hreyfingar hennar sýna breytingar á vindhraða allvel. Athygli vekur hversu fljótt spönnin breyttist að kvöldi þess 3. Frá því kl. 18 til kl. 21 stökk hún upp úr 6,5 hPa í 18,8 og kl. 3 var hún komin upp í 30,0 hPa. Menn héldu inn til borðhalds á þorrablótum í hægu veðri - en síðan tóku hús að hristast og illfært út og heim. Ritstjórinn minnist nokkurra frásagna.
Það var ekki fyrr en á hádegi þann 5. sem spönnin komst svo niður fyrir 20 hPa aftur - það er langt í frá nein blíða. Algengast er að þrýstibratti sem þessi sé nokkuð dreifður yfir landið - en við sáum hér að ofan að svo var raunar ekki í þetta sinn, hann var langmestur yfir Vestfjörðum - og um tíma einnig yfir Vesturlandi - en mun venjulegri í öðrum landshlutum.
Samfara lægðinni sem fór hjá þann 26. janúar komst spönnin mest upp í 29,9 hPa en það veður var mjög skammvinnt eins og sjá má á línuritinu. Veðrabrigðin sem urðu á Akureyri síðdegis þann dag eru ritstjóra hungurdiska sérlega eftirminnileg. Mikil lausamjöll var á jörðu og þegar norðanáttin skall á rann allt út í eitt á andartaki.
Í þessu janúarveðri er talið að togarinn Kinston Peridot hafi farist við Mánáreyjar - vafalítið vegna ísingar - en hann hvarf reyndar án þess til hans spyrðist.
Fyrir utan sjóskaðana má líka nefna að í veðrinu urðu geysimiklar skemmdir á Vestfjörðum, við Breiðafjörð og á Norðurlandi, bátar skemmdust eða sukku, rafmagnsstaurar brotnuðu. Fjárhús og skúr fuku, sömuleiðis járn af húsum og rúður brotnuðu.
Járnplötur fuku nokkrum af húsum í Stykkishólmi, þar varð talsvert tjón í höfninni, Á kortinu hér að ofan má sjá að þar blés af norðvestri kl.9, mjög óvenjuleg hvassviðrátt í Hólminum.
Í Hvallátrum á Breiðafirði urðu miklir skaðar á fjárhúsum. Stórfellt tjón varð á Reykhólum, allar rúður brotnuðu í kirkjunni og hurðir sprungu, þak tók af hluta barnaskólahússins og þar brotnuðu allar rúður og miklar skemmdir urðu á útibúi kaupfélagsins, fólk varð að flýja húsið Mávavatn vegna skemmda, vélageymsla stórskemmdist á Höllustöðum, bílskúr fauk á Grund og jeppi á Litlu-Grund.
Járnplötur fuku af þökum á Hellissandi og á Rifi, sömuleiðis á Bíldudal. Þak fauk af íbúðarhúsi í Bolungarvík. Járn tók af húsum í Fornahvammi. Hluti þaks á íbúðarhúsi á bænum Nýlendu í Deildardal í Skagafirði fauk. Gríðarlegar síma- og rafmagnslínuskemmdir urðu, mest um landið vestanvert, en einnig urðu rafmagns- og símabilanir austanlands.
Snjóflóð féll úr Strengsgili á Siglufirði á íbúðarhús og eyðilagði það. Mannbjörg varð. Einnig féll snjóflóð féll á bæinn Grund í Reykhólasveit, bar stórgrýti á íbúðarhúsið og tók fjárrétt. Snjóflóð féll einnig á tvo fjárhús á Drangsnesi, um 60 kindur drápust. Snjóflóð féll á bæinn Ketilsstaði við Hvammsfjörð, tók geymsluskemmu og olli talsverðu tjóni. Næstu nótt laskaði snjóflóð heyhlöðu á bænum. Snjóflóð tók sömuleiðis af brúna á ánni Mórillu í Kaldalóni.
Afskaplega hart, hörmulegt og minnisstætt veður.
5.2.2018 | 19:01
Af janúar (tvö vikakort)
Hiti í janúar neðan meðallags síðustu tíu ára, en aftur á móti ofan meðallags lengri tíma.
Kortið sýnir stöðuna í 850 hPa sé miðað við tímabilið 1981 til 2010. Heildregnu línurnar sýna sjálvarmálsþrýsting í mánuðinum, en litirnir hitavikin. Á bláu svæðunum var hiti neðan meðallags, en yfir því á þeim gulu - sem reyndar einkenna mestallt kortið að slepptu smásvæði sunnan við land.
Síðara kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins í janúar og vik hennar frá meðallagi áranna 1981 til 2010. Af vikamynstrinu má ráða að vestanátt háloftanna var talsvert undir meðallagi að afli, en sunnanáttin á svipuðu róli og að meðaltali. Veður var lengst af meinlítið hér á landi í janúar - svæðið við Ísland eins konar lægðagrafreitur - hingað komu lægðir til að deyja - hver á fætur annarri - flestar komnar á aldur, orðnar snerpulitlar þrátt fyrir umfang.
4.2.2018 | 22:27
Snjókoman í Moskvu
Við lítum til austurs - til tilbreytingar og horfum á 500 hPa hæðar-og þykktarkort bandarísku veðurstofunnar í dag, sunnudag 4. febrúar.
Ísland og hlýindi dagsins eru ofarlega til vinstri á kortinu, þykktin meiri en 5460 metrar, sumargildi. Kuldastraumur liggur hins vegar til suðurs um Finnland og þaðan til suðvesturs allt til Pýrenneaskaga og Marokkó. Hlýtt loft gengur hins vegar til norðausturs um Kákasus og þaðan áfram til sunnanverðra Úralfjalla.
Allmikil, en hægfara lægð er yfir vesturhéruðum Rússlands - þar er suðvestanátt í háloftum, en austan og norðaustanátt neðar. Uppskrift að hríðarbyl - það er auðvitað tilviljun að einna mesti ákafinn skuli lenda á Moskvu - ekki langt þar fyrir austan var mun hlýrra loft á ferð.
Lægðin á síðan að snúa upp á sig og ganga vestur til Finnlands. Mesti ákafinn verður væntanlega úr úrkomunni.
Hlýja loftið okkar fer hins vegar hratt til norðausturs og siðar austurs meðfram norðurströnd Rússlands og veldur þar hlýindum líka næstu daga.
Víða við Miðjarðarhaf verður hins vegar órólegt veðurlag áfram og sérlega miklir kuldar í Marokkó.
Umhleypingatíðin heldur áfram hér á landi - allstórar lægðir fara hjá á 2 til 4 daga fresti svo langt sem augað eygir - en vonandi heldur þó áfram að fara tiltölulega vel með - svona í aðalatriðum.
4.2.2018 | 18:05
Éljagarður - erfiður texti
Nú skal litið á óvenjuleg veðurkort - og lagt út af veðurstöðunni um þessar mundir. Hið fyrra sýnir það sem kallað hefur verið stöðugleikastuðull og mælir gróflega hversu stöðugt loftið í veðrahvolfinu er - hversu greiðar lóðréttar hreyfingar þess geta orðið gefist tilefni til þeirra. Ekki auðveldur texti - varla bjóðandi á almannafæri - en ritstjórinn sýnir hér enga miskunn.
Við sjáum sjávarmálsþrýsting sem heildregnar línur - rétt eins og á venjulegu veðurkorti. Lægð er á vestanverðu Grænlandshafi og veldur allhvassri suðvestanátt um land allt. Litakvarðinn segir til um mismun á mættishita veðrahvarfanna og jafngildismættishita í 850 hPa hæð. Því minni sem munurinn er því óstöðugra er loftið á milli flatanna.
Mættishiti segir hver hiti lofts yrði væri það dregið niður úr þeirri hæð sem það er í niður í 1000 hPa þrýsting. Sé raki í loftinu væri hugsanlega hægt að þétta hann og losa þar með dulvarma - sem gæti þá hækkað mættishitann.
Á grænu svæðunum er mættishiti veðrahvarfanna hár og stöðugleiki mikill, á rauðu og brúnu svæðunum er annað tveggja mættishiti veðrahvarfanna er lágur - eða hitt að mjög rakt sé í 850 hPa (og jafngildismættishiti þar því hár).
Við skulum líta á jafngildismættishitann á sérstöku korti til að sjá þetta betur.
Litirnir sýna jafngildismættishitann á sama tíma og á fyrra korti (kl.18 á sunnudag). Austan við land er hámarkið 313K (=40°C). Á sama tíma er mættishiti við veðrahvörf um 328K (=53°C), mismunurinn, 15, er talan sem við sjáum á þessum slóðum á fyrra kortinu. Rakt og hlýtt loft hefur gengið yfir landið í dag - landsdægurhámarkshitamet féll.
Sjá má að kalt loft og þurrara sækir nú að úr suðvestri - kuldaskil eru yfir landinu. Mörk bláu litanna snerta vestustu nes landsins á kortinu - þar er jafngildismættishitinn kominn niður í 288K (15°C).
Á suðvestanverðu Grænlandshafi má sjá blett þar sem blái liturinn er aðeins ljósari en umhverfis, þar má lesa töluna 281,9K. Við höfum upplýsingar um að þar sé mættishiti veðrahvarfanna um 284K - ekki munar nema 2 á þessum tölum. - Á fyrra kortinu eru þar líka dökkbrúnir flekkir og sé kortið stækkað geta sumir e.t.v. komið auga á töluna 2.
Óstöðugleikinn austan við land og sá sem er á Grænlandshafi er því af tvennum toga - fyrir austan land er loft svo hlýtt og rakt í neðri lögum að það ógnar stöðugleika, en vestan við eru veðrahvörfin svo köld að aðeins þarf örlítinn raka í neðri lögum til að ógna stöðugleikanum þar.
Á milli er síðan svæði þar sem loft er mun stöðugra. Þetta þýðir að él fara vart að ná sér upp að ráði fyrr en óstöðuga loftið nær til landsins (þrátt fyrir að hin eiginlegu kuldaskil séu farin yfir) - þegar vesturbrún græna svæðisins kemur inn á landið.
Það á að gerast í fyrramálið eins og stöðugleikastuðulskortið hér að neðan sýnir.
Þetta kort gildir kl.9 á mánudagsmorgni. Mjög óstöðugt loft er komið inn á landið vestanvert. Hér má líka benda á hæðina miklu suðvestur í hafi - 1048 hPa í hæðarmiðju.
Síðasta kortið sýnir svonefnt ókyrrðarábendi (hverfiþungabreyting á massa- og tímaeiningu), við skulum ekki hafa áhyggjur af því hvað það er nákvæmlega. Það nær venjulega sínum hæstu gildum þegar flotbylgjur brotna við fjöll (og í brotum við veðrahvörf) - og stöku sinnum má einnig sjá mjög há gildi í skilum og éljagörðum.
Ritstjóranum finnst óvenjulegt að sjá svona há gildi úti á sjó eins og í éljagarðinum sem verður að nálgast landið um hádegi á morgun, mánudag. Annar garður - minni - verður þá búinn að ganga hjá sé að marka spár. Það verður svo að koma í ljóst hvort líkanið hefur hér rétt fyrir sér.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 40
- Sl. sólarhring: 230
- Sl. viku: 1005
- Frá upphafi: 2420889
Annað
- Innlit í dag: 34
- Innlit sl. viku: 883
- Gestir í dag: 34
- IP-tölur í dag: 34
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010