Hitabylgjan snarpa í júlí 1911

Í júlí 1911 gerði mjög snarpa hitabylgju á landinu. Þá mældist hæsti hiti sem vitað er um á Akureyri, 29,9 stig og víðar sáust óvenjulegar tölur. 

akureyri-juli-1911

Hér má sjá mælingar á skeytastöðinni á Akureyri í þessum mánuði. Mælt var fjórum sinnum á dag, kl. 7, 13, 16 og 22. Stöðvarnar á Akureyri voru reyndar tvær um þetta leyti, önnur á símstöðinni þar sem Ólafur Tr. Ólafsson sá um mælingar, en hin við heimili Hendrik Schiöth sem hafði gert athuganir á vegum dönsku veðurstofunnar allt frá 1873 (en hann fékk þó ekki hitamæli fyrr en haustið 1881). Ritstjóri hungurdiska er ekki fullviss um það hver Ólafur Tr. var - en giskar á Ólaf Tryggva búfræðing (frá Hólum f. 1874, d. 1961) sem lengi var síðan starfsmaður Kaupfélags Eyfirðinga, lúðrasveitarmaður og meðhjálpari. Hendrik Schiöth (f. 1841, d. 1923) var bakari og síðar bankagjaldkeri - allþekktur maður á sinni tíð. 

Hendrik var eins og flestir aðrir veðurathugunarmenn ekki með hámarksmæli í búri sínu, en fylgdist vel með hitanum þennan dag. Hann segist mest hafa séð 29,9 stig á mælinum síðdegis. Við getum e.t.v. ekki tekið þá tölu nákvæmlega upp á tíundahluta, en notum hana samt. 

Myndin sýnir að mjög kalt var fyrstu 2 daga mánaðarins, hiti að morgni þess 1. ekki nema 2,9 stig. Síðan var hitinn á venjulegri júlíslóðum þar til hann rauf fyrst 20 stiga múrinn á skeytastöðinni kl.13 þann 8. Síðan fylgdu fjórir dagar með hita yfir 20 stigum. Sá 11. var hlýjasti dagurinn, þá var hiti ofan 20 stiga á öllum athugunartímunum fjórum. 

Undir kvöld þann 13. kólnaði loks, hiti kl. 22 var 10,2 stig. Í kjölfarið fylgdu síðan sérlega kaldir dagar og varla hægt að segja að hiti næði sér á strik aftur fyrr en þann 29. Kaldast var þann 17. og 24. þegar hitinn rétt náði að skríða yfir 5 stig um hádaginn. 

Hitabylgjan varð langsnörpust um landið norðan- og austanvert. Veðurstöðvar voru ekki margar á landinu 1911.

stöðármánhæsti hitidagur nafn
11911719,012 Reykjavík
151911719,031 Vífilsstaðir
1211911725,011 Gilsbakki í Hvítársíðu
1781911720,312 Stykkishólmur
2541911722,111 Ísafjörður
3061911725,111 Bær í Hrútafirði
3411911722,611 Blönduós
4041911724,111 Grímsey
4191911729,411 Möðruvellir
4221911729,911 Akureyri
4901911727,011 Möðrudalur
4951911728,112 Grímsstaðir
5081911725,910 Sauðanes
5641911729,111 Nefbjarnarstaðir
6151911728,911 Seyðisfjörður
6751911720,712 Teigarhorn
6801911711,714 Papey
7451911719,0# Fagurhólsmýri
8151911715,421 Vestmannaeyjakaupstaður
9061911721,611 Stórinúpur

Taflan sýnir hæsta hita mánaðarins á stöðvunum. Hámarksmælar voru aðeins á fáum þeirra. Lesið var af þeim einu sinni á dag kl.8 að morgni - það eru stöðvarnar sem segja hita hafa orðið hæstan þ.12. (Stykkishólmur, Grímsstaðir, Teigarhorn) - síðbúið hámark frá deginum áður. Í töflunni er sagt hlýjast í Grímsey þann 11, en þar var hámarksmælir, hlýjast var í raun og veru þann 10, - degi á undan flestum öðrum stöðvum. Á Sauðanesi á Langanesi var einnig hlýjast þann 10. - eins og í Grímsey. Trúlega mikil barátta sjávar- og landlofts á þessum slóðum þessa daga. 

Það var á Möðruvöllum í Hörgárdal eins og Akureyri að athugunarmaðurinn, Jón Þorsteinsson, fylgdist sérstaklega með á mælinum - því honum fannst hitinn svo óvenjulegur. Hæsta talan sem hann sá er sú í töflunni, 29,4 stig, ekki fjarri Akureyrartölunni háu. 

Hlýindanna gætti ekkert í Papey vegna áhrifa sjávarins - en varð vart á Teigarhorni. Ekki gerðu þau heldur vart við sig í Vestmannaeyjum - og ekki að ráði í Reykjavík, en 19,0 stig er reyndar allgott á þeim slóðum. Hitanum sló aðeins niður í uppsveitum sunnanlands, fór í 21,6 stig á Stóranúpi og talinn 25,0 stig á Gilsbakka í Hvítársíðu. Hiti fer ekki oft í 20 stig í Stykkishólmi, en gerði það í þetta sinn og í 22,1 stig vestur á Ísafirði. 

Austur á Héraði fór hiti á athugunartíma í 29,1 stig á Nefbjarnarstöðum og í 28,9 á Seyðisfirði - á hvorugum þessara staða var hámarksmælir. Blöðin sögðu að hiti hafi farið í 32 stig á Seyðisfirði - en því trúum við ekki. Aftur á móti er alveg opið hversu hitamælar nútímans tækju við atburði sem þessum - kannski við fengjum að sjá 30 stigin eftirsóttu. 

En þetta sumar, 1911 var óvenjulegt víðar. Hér að neðan eru tvö veðurkort sem sýna stöðuna þann 11. júlí, hið fyrra hæð 1000 hPa-flatarins (jafngilt hefðbundnu veðurkorti, 240 metrar = 1030 hPa), en hið síðara hæð 500 hPa-flatarins eins og ameríska endurgreiningin sér stöðuna. 

Slide1

Óvenjuleg hæð er yfir Bretlandseyjum (um 1037 hPa í miðju) og beinir hún ásamt lægð austur af Nýfundnalandi lofti langt að sunnan til landsins auk þess að vera sérlega hlý sjálf. Hæsti þrýstingur sem mældist hér á landi í syrpunni var 1031,9 hPa - í Reykjavík þann 14. Það er ekki oft sem þrýstingur fer svo hátt hér á landi í júlímánuði - hefur reyndar aðeins fimm sinnum orðið hærri en þetta. 

Slide2

Staðan á 500 hPa-kortinu er enn skýrari. Miðja hæðarinnar yfir Bretlandi er í 5950 metrum, hálfótrúleg tala satt best að segja, en væntanlega rétt. Þetta sumar var mjög óvenjulegt á Bretlandi, sólríkasti júlímánuður sem um getur og ágúst átti lengi hæsta hita sem mælst hefur á Bretlandi, en metið féll loks fyrir fáeinum árum. Skotar fengu líka óvenjulega sólskinsdaga. Hitamet var slegið í Danmörku - stóð líka þar til nýlega rétt eins og á Bretlandi. Hiti fór yfir 20 stig í Þórshöfn í Færeyjum, bæði þann 11. og 12. júlí. Mikil hitabylgja var líka á Nýja-Englandi, vestur í Ameríku, þetta sumar svo fjöldi manns hlaut bana af. 

Fullyrða má að gerði ámóta hitabylgju nú yrði hnattrænni hlýnun umsvifalaust kennt um (kannski þá réttilega). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • w-blogg220724b
  • w-blogg220724a
  • w-blogg210724
  • Slide2
  • Slide1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 16
  • Sl. sólarhring: 437
  • Sl. viku: 2732
  • Frá upphafi: 2378308

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 2421
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband