Bloggfærslur mánaðarins, desember 2018

Af árinu 1901

Árið 1901 þótti mjög hagstætt - nema rigningar voru miklar og þrálátar um sumarið suðvestanlands. Meðalhiti í Reykjavík var 4,2 stig og 3,8 stig í Stykkishólmi. Fjórir mánuðir ársins teljast hlýir (janúar, maí, júlí og september, sá síðastnefndi einn af 10 hlýjustu septembermánuðum á landinu). Fjórir mánuðir teljast kaldir (apríl, ágúst, október og desember). Ekki var mikið um skaðaveður - og mannskaðar af völdum veðurs heldur ekki mjög miklir miðað við það sem oft var á þessum árum. 

Hæsti hiti ársins mældist á Akureyri 30.júní, 24,7 stig. Að vísu voru 32,8 stig færð til bókar í Möðrudal 26.júlí, en er nánast örugglega rangt. Um það mál var fjallað í pistli hungurdiska 21.ágúst síðastliðinn. Óvenjulega hitabylgju gerði um hvítasunnuna, seint í maí. Hiti fór þá í meir en 20 stig víða um land, þar á meðal í Reykjavík og urðu dagarnir þeir hlýjustu á árinu um landið sunnan- og vestanvert. Mesta frost ársins mældist í Möðrudal 20.nóvember, -25,2 stig.

ar_1901t

Eins og áður sagði var mjög hlýtt í janúar, en nokkuð kalt framan af febrúar og síðan aftur hlýindi í síðari hluta þess mánaðar og í mars. Slæmt kuldakast gerði aftur á móti í fyrri hluta aprílmánaðar og þá mældist mesta frost ársins í Reykjavík, -13,3 stig. 

Sex dagar teljast sérlega kaldir í Reykjavík, þrír snemma í apríl, 3., 4. og 9. Síðan var mjög kalt 30.ágúst, 20.nóvember og á jóladag, 25.desember. Frostin 3. og 4. apríl eru enn dægurlágmarkshitamet í Reykjavík. Einn dagur telst mjög hlýr, hvítasunnudagur, 26.maí sem enn á dægurhámarkshitamet sinna almanaksbræðra í Reykjavík, og dagarnir á undan, 24. og 25. eiga líka dægurhámarkshitamet sem enn standa. 

ar_1901_hitabylgja

Myndin sýnir hita á klukkustundarfresti í Reykjavík dagana 23. til 27. maí - allir sérlega hlýir. - En svo fór að rigna og varð sumarið eitt mesta rigningasumar þessara ára á Suðvesturlandi.   

ar_1901p

Þrýstingur var lágur í janúar, en með hærra móti í febrúar, meðalþrýstingur hans var 1019,9 hPa í Reykjavík. Þrýstingur var einnig nokkuð hár í nóvember. Hæsti þrýstingur ársins mældist á Akureyri 24.mars, 1046,3 hPa, en sá lægsti í Reykjavík þann 21.janúar, 940,2 hPa (það var síðdegis og kemur ekki fram á línuritinu hér að ofan).  

ar-1901-juliillvidri-kort-c

Þann 18.júlí fór óvenjudjúp lægð til norðurs skammt fyrir vestan land. Á stöðvunum var ekki lesið af loftvog nema þrisvar á dag, lægsta tala í útgefnum töflum er 974,1 hPa. Þetta var lengi lægsti loftþrýstingur júlímánaðar hér á landi. Þann 22.júlí 2012 mældist þrýstingur á Stórhöfða í Vestmannaeyjum 972,4 hPa og sló þar með gamla metið. En eins og áður sagði voru athuganir mjög gisnar 1901. Þrýstiriti var þó á stöðinni í Reykjavík. Hann ritaði hins vegar ekki „rétt“ á kvarða pappírsins. Ástæðan er sú að neðsta lína hans er 718 mm (957,2 hPa) og þrýstingur fer alloft niður fyrir þá tölu á Íslandi. Æskilegt er því að stilla ritann of hátt - alltaf - til að forðast það að þurfa stöðugt að fylgjast með honum og stilla fram og til baka. Með því að bera saman rita og aflestur af loftvog má sjá hversu miklu munar. Lægsti aflestur í Reykjavík var 972,9 hPa þann 18. kl.15, ritinn fór hins vegar neðar, eða niður í 971,3 hPa. Við þykjumst vita að aflesturinn var leiðréttur til sjávarmáls, en þyngdarleiðréttingu var sennilega ekki beitt. Hún er um 1,5 hPa. Lægsta tala ritans gæti því átt að vera 972,8 hPa - sjónarmun hærri en metið á Stórhöfða 2012. Það er þá látið standa. 

Það er athyglisvert að bandaríska endurgreiningin sem kölluð er c20v2 nær lægðinni nokkuð vel, í greiningunni er þrýstingur í lægðarmiðju vel neðan 980 hPa. „Endurbætt“ útgáfa endurgreiningarinnar c20v2c nær henni hins vegar ekki. Kort sem sýnir þetta má sjá aftan við þennan pistil. Ritstjóri hungurdiska heldur að hann viti hvers vegna þetta er svona - en vill ekki neitt um það segja (því hann veit það ekki með fullri vissu. Rétt er að benda þeim sem nota hinar þýsku vefsíður wetterzentrale.de til að fletta í endurgreiningunni að athuga að þar er hin „endurbætta“ útgáfa nú notuð - ritstjóra hungurdiska til nokkurs ama - (en hann veit þó hvers eðlis er - en fæstir aðrir notendur hins vegar). 

Árið var mjög úrkomusamt um landið sunnan- og vestanvert, úrkoma var hvergi mæld allt árið á Norðurlandi. Úrkoma mældist 1 mm eða meira 59 daga sumarsins (júní til september) í Reykjavík - það er með mesta móti. Tölur um úrkomumagn, meðalhita á stöðvunum og fleiri fróðleik má að vanda finna í viðhengi.

Við látum nú blöð og fréttarit lýsa veðri ársins. Stafsetningu hefur verið hnikað til nútímahorfs víðast hvar og á stöku stað hafa pistlar verið styttir. Auðvelt er að fletta frumgerð upp á timarit.is. Af textunum má glöggt sjá að þetta hefur í stórum dráttum verið vandræðalítið ár og illviðri ekki mikið í fréttum.  

Bjarni Jónsson (frá Vogi) ritar stutt tíðarfarsyfirlit í Skírni, undir fyrirsögninni „hagur landsmanna“

Frá nýári til vors var vetur mildur og frostalitill. Vorið var í fyrstu blítt en um páskaleytið [páskar 7.apríl] gerði grimmdarhret með snjó og frosti, en þessu næst kom góður bati. Sumarið var hið besta á Austurlandi og Norðurlandi, en á Vesturlandi fremur vætusamt og á Suðurlandi gengu mestu votviðri lengst af um sumarið. Skepnuhöld voru fremur góð um land allt og varð lítið mein að hretinu, þótt hart væri, því að tíðin var eftir það mild. Á Austurlandi var sama góðærið til sjávarins eins og til landsins. Þorskfiski var þó fremur lítið og var þó eigi gæftaleysi um að kenna. En hinir urðu þar mjög fengsælir, er síldarveiði stunda. Vestanlands voru gæftir góðar og afbragðsfiski síðara hlut vetrar. Norðanlands aflaðist vel á báta. Og um haustið kom mikil síldarganga inn á Eyafjörð og veiddu menn þar firn af síldinni.

Janúar: Mjög umhleypingasamt um vestanvert landið. Norðankuldi síðustu vikuna. Talsverður snjór um tíma. Fremur hlýtt.

Jónas Jónassen lýsir janúarveðrinu í Þjóðólfi:

Um miðjan mánuðinn alls ekkert frost hér í jörðu. Talsvert frost eftir 24. og út mánuðinn. Ákaflega hvass af suðvestri aðfaranótt h.6. og aðfaranótt h.20. Mikið þrumuveður heyrðist hér aðfaranótt h. 19. 

Nýja öldin byrjaði sérlega hlýindalega - einkum þó austanlands, enda suðlægar áttir ríkjandi. Bjarki á Seyðisfirði segir nokkuð kankvíslega frá þann 10.janúar:

Síðan á nýári hafa verið stöðug þíðviðri og sunnanátt og oft rigning; á sunnudagsnóttina [aðfaranótt 6.] og lengi frameftir deginum var ofsaveður á sunnan með áköfum regnskúrum við og við. Leysingar hafa verið einsog á vordegi og jörð er nú alauð hér neðan frá sjó og upp í hlíðar, Gamla öldin er nú horfin veg allrar veraldar en nýja öldin sest í valdastólinn. Hún er nú að koma sér í mjúkinn við menn og dýr, hnúka og hlíðar, hóla og dali, með nýrri vetrarveðralöggjöf. Eftir henni eru nú úr lögum numdir allir norðanstormar og hríðar, allar frosthörkur og fárviðri, sem hafa verið svo illa liðin hér á landi í veðralöggjöf liðinna alda, en i þess stað eru lögboðnir sunnanvindar og þíður alla vetra héðan í frá.

Ofsaveðrið sem Bjarki minnist á varð hálfu verra á Vestfjörðum og urðu þar miklir skaðar. Þjóðviljinn ungi segir af því þann 12.janúar:

Í aftakasuðvestanroki, er gerði hér vestra aðfaranóttina 6. þ.m., hafa orðið all-miklar skemmdir, og er þó enn mjög óvíða til spurt. Í Bolungarvík fauk samkunduhús Goodtemplara, og brotnaði i spón, og hlöður tvær fuku i Þjóðólfstungu, hjá Kristjáni bónda Jónssyni, er þar býr, og beið hann heyskaða allmikinn. Í Hnífsdal olli veðrið enn meira tjóni, þar sem 12 skip (sexæringar og fjögramannaför) brotnuðu meira og minna, nokkur alveg í mél. Hjá Sigurði húsmanni Þorvarðssyni, sem missti bæði bát og sexæring, fauk og heyhlaða og fjárhús, og hjallar tveir fuku, annar á Brekku, en hinn í Búð. Á öllum hvalreiðistöðvunum í Súðavíkurhreppi: Uppsalaeyri, Langeyri og Dvergasteinseyri, brotnuðu bryggjur þær, sem gufuskipunum er lagt við, og á Langeyri og Uppsalaeyri kvað hafa farið í sjóinn um 1000 skipspund af kolum á hvorum staðnum, og auk þess talsvert af við, og af tómum fötum, á Uppsalaeyri. Á Kleifum í Seyðisfirði braut veðrið tvö fjögramannaför, annað i mél; þar rauf og þak af fjósi, en gafl fór úr baðstofu, og sillur brotnuðu, og partur úr súð, og lá við sjálft, að baðstofan færi með öllu. Í Hjarðardal í Dýrafirði fauk heyhlaða og hjallur hjá Benedikt bónda  Oddssyni, er þar býr. Hér í kaupstaðnum [Ísafirði] urðu engar skemmdir, en við búið því miður, að slíkt eigi enn eftir að fréttast víðar að.

Þjóðviljinn ungi birti fleiri fréttir af sama veðri þann 23.janúar:

Ofsarokið aðfaranóttina 6. þ.m. hefur víðar valdið skemmdum, en kunnugt var um, er síðasta nr. blaðsins kom út. Á Bíldudalsverzlunarlóð í Arnarfirði fauk hús, sem þar var í smíðum, nýkomið undir þak; brotnaði húsið sjálft í spón, og lenti á öðru húsi, sem mölvaðist talsvert. — Af erfiðisfólkshúsinu á Bíldudal, tvíloftuðu húsi, sem nefnt er Glaumbær, svipti veðrið efra loftinu, og sópaði burtu rúmum, og öðru, sem þar var inni. Ennfremur tók og veðrið skúr og fiskhjall, er var áfastur við hann, og er talið, að verkstjóri Jón Sigurðsson, er notaði skúrinn, sem kontór, hafi misst þar um 300 kr. virði minnst, í bókum o.fl., auk þess er veðrið tók einnig bát, sem hann átti. Auk þess skemmdust og þök á ýmsum húsum, gluggar brotnuðu o.fl. Nokkuð af húsgögnum o.fl., er veðrið tók á Bíldudal, kvað hafa rekið í Arnarfirði norðanverðum, en auðvitað allt meira og minna skemmt. Er þetta í fyrsta skipti á síðustu 20 árum, er skemmdir hafa orðið af veðrum á Bíldudal, sem teljandi séu, enda muna þar engir slíkt óskapa-veður, sem þar var þessa nótt. Í Otradal fauk hjallur, og hlaða skemmdist. Á Skálará í Dýrafirði fauk og hlaða, og í Önundarfirði urðu skemmdir á hlöðum og útihúsum.

Þann 31. birti blaðið enn fréttir af tjóni í sama veðri:

Auk skemmda þeirra. er getið var í 52. nr. 14.árg. hlaðsins. að orðið hefðu í Þjóðólfstungu í Bolungarvík i þrettándaveðrinu 6. þ.m., fauk þar og 6 álna hjallur, með áfastri 4 álna skúr, er fyrrum hreppstjóri Jens Ólafsson i Þjóðólfstungu átti, og missti hann bæði kaupstaðarvarning o.fl., sem þar var geymt. Í sama veðri fauk enn fremur geymsluhús hjá Bjarna Bárðarsyni á Hvammi í Bolungarvík, og skemmdist megnið af vetrarbirgðum hans.

Bréf úr Grímsnesi, dagsett 12.janúar birtist í Þjóðólfi 1.febrúar:

Héðan úr sveitinni er fátt tíðinda um þessar mundir. Tíðin upp á það æskilegasta; allur snjór uppleystur, sem var orðinn talsverður um hátíðarnar, annars hefur tíðin mátt heita mjög góð, það sem af er þessum vetri, nema hvað hún hefur verið nokkuð storma- og stórviðrasöm síðan sólstöður.

Þjóðólfur segir þann 15.febrúar frá skriðuföllum í Suðursveit þann 13.janúar:

Skriða féll 13. [janúar] rétt við bæinn á Brunnum í Suðursveit og tók af mest allt túnið, og allmikla engjaspildu; lá nærri að skriðan færi yfir bæjarhúsin, sópaði hún með sér 5 útihúsum og voru 2 hestar í einu; hafði verið ljótt að sjá þá veltast í aur- og vatnsöldunum. Sumt fólkið flýði af bænum og komst í kirkjuna á Kálfafellsstað. Bóndinn á Brunnum, Jón Þorsteinsson, verður að flytja burt af jörðinni, sakir skemmda á henni.

Austri segir enn frá hlýindum eystra þann 19.:

Tíðarfarið er alltaf sem á vordag væri og eru bændur hér i Fjörðum farnir að vinna töluvert að jarðabótum sem mun einsdæmi í janúarmánuði enda er jörð víða farin að grænka á túnum hér í bænum.

Vætusamara var syðra, Þjóðólfur segir frá þann 18.:

Veðurátta hefur verið mjög vætusöm það, sem af er nýju öldinni; stöðugar rigningar að kalla má, en hlýviðri óvenjulega mikið um þetta leyti árs.

Og Þjóðólfur segir áfram af veðri þann 25.janúar:

Síðustu vikuna hefur verið mesta ókyrrð á veðri; hefur útsynningur (suðvestan) verið tíðastur, aðfaranótt h. 20. heyrðust hér miklar þrumur. Loftvog einlægt verið mjög lág, en þó aldrei eins lág og um miðjan dag h.21., 703,6 mm [938,1 hPa], kl. 4 e.h. rauk hann á vestan með slyddubyl, en veðrið stóð ekki lengi.

Ísafold birti þann 13.febrúar bréf úr Vestmannaeyjum, dagsett 24.janúar:

Veðráttan hefir yfir höfuð verið mjög stormasöm og úrkoman mikil, og hefir þó einna mest að því kveðið í þessum mánuði,  því enginn þurr dagur hefir komið síðan um nýár, en jafnframt hefir hiti verið óvenjulega mikill (tvisvar 9°). Hinn 21. þ. mán. komst loftvogin niður á 705 [940 hPa]; fylgdi þeirri lágu mælisstöðu brotaveður fyrst á sunnan og um kvöldið á sunnan-útsunnan. Skruggur hafa verið þrisvar: 16. nóvember, 25. desember og 20. þ. mán. Öskufall var hér nokkurt 16. þ. mán, og var þó vindstaða þann dag nokkuð suðlæg.

Þjóðólfur birti 1.mars bréf úr Dýrafirði, dagsett 26.janúar:

Það sem af vetrinum er, hefir veríð fremur stirð veðurátta, umhleypingar, en vægur kuldi, þangað til nú, viku fyrir þorrann, að gekk í hörkur með fannkomu, sem hefur haldist síðan. Sterkviðri hafa verið mikil og stundum gert nokkurn skaða; þannig var í síðasta stórviðri, sem gerði aðfaranótt þrettándans, að á einum bæ fauk heyhlaða og hjallur til grunna, og á öðrum bæ fauk þak af fjósi og heyhlaða, og ýmsar skemmdir urðu víða á húsum.

Þjóðviljinn ungi segir af tíð þann 31.:

Með þorrakomunni, 25. þ.m., sneri til kulda og frosta, og gerði fannkomu, og norðanveður, er stóð til 29. þ.m.; síðan stök blíðviðri.

Væru menn trúaðir á veðurspádóma gömlu mannanna, þá ætti þetta nýbyrjaða ár ekki að verða landsbúum mikið fagnaðarár, eftir því sem viðraði á Pálsmessu (25.þ.m.). Veður var þá að vísu bjart að morgni, en nokkuru fyrir hádegi tók mjög að syrta í lofti, og var síðan kafaldsfjúk, það sem eftir var dagsins. En þegar slík þykkviðri vilja til á Pálsmessu: „þá deyja bæði menn og féð" segja veðurspárnar.

Febrúar: Mjög hagstæð tíð. Suddasamt sunnan- og vestanlands, en úrkomumagn lítið. Annars mjög þurrt. Fremur hlýtt.

Jónas lýsir febrúarveðri í Þjóðólfi 1.mars:

Loftvog óvenjulega stöðug og há frá 9. til 13.: hæst h.10., 779,8 mm [1039,6 hPa]. Logn dag og nótt frá 1.-23., er hann gekk til austurs, en þó hægur; logninu fylgdi oft svört þoka og stundum hæg rigning; við og við var bjartasta veður.

Þjóðviljinn ungi segir frá tíð í febrúar:

[14.] Alla tíð, sem af er þessum mánuði hefur haldist einmuna góð veðrátta, ýmist stillviðri, eða hægir suðvestan vindar og leysingar.

[23.] Sama einmuna blíðviðristíðin dag eftir dag, og munu fáir minnast jafn langvinnrar hagstæðisveðráttu um þetta leyti árs. Í gær gerði loks dimmviðris-kafald, sem enn helst.

Hafís í nánd. Úr Aðalvík er oss ritað 7. þ. m.: „Mikill hafís hefur sést hér ofan undan Ströndunum þessa daga, þótt hvergi sé hann landfastur enn þá; en við búið, að allar víkur fyllist hér strax, ef hann gerir norðan". Skipstjóri Jón Pálsson í Hnífsdal, er kom inn á hákarlaskipinu „Arthur" 15. þ.m., segir og hafíshroða liggja úti fyrir öllum vesturkjálka landsins, 1 mílu undan Rit, en um 5 mílur út undan Barðanum í Önundarfirði.

Þjóðviljinn segir í pistli sem reyndar birtist ekki í blaðinu fyrr en 10.apríl (og er gegn vesturferðum - en ekki veður sérstaklega):

Menn frjósa til bana í París, járnbrautarlestir fenna suður við Svartahaf, hnésnjór á götunum i Rómaborg, skíðafæri í Jerúsalem, og 20—30 gr. frost í Winnipeg. Svona er nú veðrið í góðu löndunum þennan fyrsta vetur aldarinnar. En hérna norður við heimskautabauginn, er jörð alauð á þorranum, tún grænka, vegir eru lagðir, og jarðabætur unnar. Fólkið er alveg hissa á góðviðrinu. Svona vetrar koma auðvitað ekki oft fyrir á Íslandi, enda er ekki mikið gert af veðurblíðunni hérna á norðurhjara heimsins, heldur en af öðrum landkostum gamla Fróns.

Þjóðólfur birti þann 1.mars bréf úr Mýrdal, dagsett 13.febrúar:

Tíðin hefur verið svo góð hér í vetur, að elstu menn segjast ekki muna aðra eins; þó hafa ofsastormar úr ýmsum áttum gert talsverðan skaða á húsum, heyjum og skipum; seinast í ofsaveðri af útsuðri rufu þök af tveimur stórum heyhlöðum, annarri á Skeiðflöt, hinni á Ketilsstöðum. — Síðan þetta veður, sem var 22.jan., hafa staðið einlægar blíður, auð jörð og frostleysur. — Frá 30. jan. til 2. febr. var norðanvindur svo volgur, sem á hlýjasta sumardegi, hitinn norðan á móti eftir sólarlag, var þessa daga frá 6—11° á R [8-14°C].

Austri segir þann 18: „Tíðarfar sem vor væri byrjað“. Í sama blaði Austra segir (greinin sú er um samgöngumál):

Um daginn kom maður ofan Fagradal og annar Þórdalsheiði ofan í Reyðarfjörð sama dag, var þá dalurinn allur auður eins og á sumardag, en heiðin, sem þó er mikið lægri en Eskifjarðarheiði, svo ég tali ekki um hæstu heiðina, Fjarðarheiði, og var þá nærri ófær vegna snjóþyngsla.

Bjarki á Seyðisfirði segir þann 23.:

Undanfarandi viku hafa lengstum verið blíðviðri með 6—8 gr. hita um daga. Í fyrrinótt og í gær var þykkt loft og kom dálítið snjóföl. Að byggingum hefur verið starfað hér undanfarandi viku eins og á sumardegi væri.

Mars: Nokkuð umhleypingasamt. Kalt síðustu vikuna, en annars var hiti í meðallagi.

Jónas segir frá marstíðinni í Þjóðólfi þann 3.apríl:

Hefur oftast verið við austanátt, bjart og fagurt veður. H.11. var hér blindbylur af austri, en svo gerði regnkrap á eftir af landsuðri. Hér alauð jörð. Síðasta dag mánaðarins hvass á norðan.

Austri segir frá tíð í mars:

[7.] Tíðarfar hefir þessa vikuna verið nokkuð óstillt með bleytuslettingi allmiklum og suðaustan stormi og miklu brimi sérstaklega 5. og 6. þ.m. E1dingar og þrumur sáust hér og heyrðust óvanalega miklar á laugardagskvöldíð 2.mars; og hafði fyrr orðið líka vart víð þær, en í meiri fjarska. En hvergi hefir spurst til þess, að þær hafi gjört skaða.

[16.] Tíðarfar nú aftur mjög milt með hlýjum sunnanvindi.

[26.] Tíðarfarið harðnaði snöggvast núna um helgina, en er nú aftur mildara í dag.

[30.] Veðrátta hefir verið fremur óstöðug síðustu viku; í dag töluverð bleytuhríð.

Þjóðviljinn rekur tíðina í febrúarlok og í mars:

[6.] Kafaldshretið, sem gerði hér 22. [febrúar] stóð aðeins í tvo daga, og svo heilsaði góa oss (24. f.m.) bjartleit og stillileg, hálfkuldaleg að vísu tvo dagana fyrstu, en síðan æ þýðari og blíðari með degi hverjum. — Ofan á einmuna blíðviðrin á þorranum munu fáir hafa vænst slíkrar veðurblíðu á góunni eins og verið hefur, þar til norðanhret gerði í gær.

[16.] Síðustu vikuna hefur tíð verið öllu vetrarlegri: norðanátt, frost nokkur og kafald.

[26.] 16. þ. m. gerði aftur stillt veður, eftir norðanhretið, og hefur síðan haldist sama einmuna blíðskapartíðin, sem á þorranum, og framan af góunni.

Sex menn drukknaðir. Hörmulegar slysfarir urðu hér á Djúpinu sunnudaginn 17. þ.m., og var þó logn og blíðviðri þann dag, svo að engum gat til hugar komið, að neinn færi sér þá að voða; en ekki þarf jafnan illviðrunum um að kenna, er slysin vilja til.

Ísafold segir fréttir af hafís þann 30. - og birtir þrjú bréf að norðan:

Þrátt fyrir þessi ódæma blíðviðri hefir vart orðið við hafíshroða fyrir norðan sumstaðar. Skrifað er af Melrakkasléttu t. d. 10. þ.m.: Seint í febrúar rak hér inn hafíshroða eigi all-lítinn og fyllti hverja vík. Hann rak að í vestanátt og þíðviðri, og brá þegar til sunnanáttar aftur. Í slíkri veðráttu eru Sléttungar óvanir við að sjá hafísinn.

Sömuleiðis er Ísafold skrifað úr Húnavatnssýslu 21. þ.m.: Indælis-blíðutíð alltaf, sunnan-þíðvindi og hláka í gær og í dag. Hafíshroði er þó hér í Húnaflóa, og rak hann fast upp að landi hér fyrir 10 dögum, en fjarlægðist aftur eftir 2 daga. það happ fylgdi ísnum, að hann rak með sér hnísur og veiddust þær yfir 100 á Skagaströnd. Flestar (80) náðust í net fram undan Skeggjastöðum, sem er næsti bær við Hof, en nær sjónum.

Húnavatnssýslu 16. mars: Það telst vanalega ekki með tíðindum að segja frá tíðinni, en nú eru það þó tíðindi. Það sætir sannarlega tíðindum að vera eitt herrans ár nálega laus við vetur, en það er einmitt tilfellið nú. Sú einmuna blessuð blíða hefir verið hér norðanlands, það sem af er þessum vetri og er nálega 4/5 hlutar, að slíks eru ekki dæmi í minnum jafnvel elstu manna. Að hafa aldamót og afbragðs árgæsku í einu, það eru ný tíðindi. Og svo eru nú þessir góðu fylgifiskar, nægar heybirgðir og góðar ástæður. Nú segja karlarnir þegar þeir hittast: „Mikil ósköp fyrnirðu í vor, lagsm!“.

Norður-Þingeyjarsýslu, Sléttu) 10. mars: Dæmafáar blíður hafa gengið hér í því nær allan vetur, svo gamlir menn muna varla annan eins vetur. Óvíða farið að taka lömb í hús enn þá til að kenna þeim að eta hey.

Ísafold birti þann 20.apríl bréf úr Austur-Skaftafellssýslu, dagsett 19.mars:

Veðrátta hefir mátt heita hin æskilegasta í allan vetur. Að hvassviðrum þeim, sem blöðin geta um, að valdið hafi skaða, hefir ekki orðið tjón að mun hér nálægt. Í útsynningsroki, sem gjörði 21.janúar, tapaði Gísli Þorvarðsson í Papey besta bátnum sinum á sjó út. Ekkert er enn farið að lifna við sjó hér eystra, en mikið er af botnvörpungum hér úti fyrir, og hefir verið við og við í allan vetur. Skepnuhöld eru allstaðar góð.

Apríl: Mjög kalt fram yfir þ.10. en síðan mildara. Mánuðurinn kaldur í heild.

Jónas segir um apríl í Þjóðólfi þann 3.maí:

Mjög kaldur framanaf mánuðinum - norðanátt- og gerði hér alhvíta jörð við og við; aðfaranótt h.23. snjóaði hér talsvert. Síðustu dagana farið að hlýna í veðri.

Austri segir af veðri í apríl:

[6.] Tíðarfar versnaði stórum nú um miðja vikuna, og gjörði á miðvikudaginn [3.] norðan blindbyl með töluverðri snjókomu, svo póstur og ýmsir Héraðsmenn komust eigi upp yfir Fjarðarheiði fyrr en í gær.

[15.] Snjó setti hér niður mikinn páskadagana [7. og 8.] og næstu daga á eftir. Nú er aftur komið þíðviðri og jörð komin upp töluverð í byggð.

[25.] Tíðarfar er nú mjög hlýtt, en nokkuð úrkomusamt. - Norðaustangarð ákaflega mikinn hafði gjört um páskana fyrir Suðurlandi og skemmdust þá meira eða minna skip er úti voru, þar á meðal Garðarsskúturnar „Golden hope" og „Look fine" enda hafði útbúnaði þeirra reynst mjög ábótavant að köðlum og seglum, er á „Look fine" reyndust svo fúin að hásetarnir voru nærri hrapaðir í gegn um þau er þeir voru að rifa þau, og er það varla forsvaranlegt að leigja svo illa útbúin skip til að halda þeim út hér við land nær hávetri, er enn þá er allra veðra von.

Einhver hefur haldið því fram að hörkurnar um páskana hafi verið óvenjulegar - og óneitanlega voru þær mikil viðbrigði eftir sérlega hagstæðan vetur. Þann 12. fékk Þjóðólfur Jónas Jónassen til að vitna um að um ekkert óvenjulegt væri að ræða. Jónas hefur langa upptalningu (sem við sleppum hér) svona: 

Það er meira en leitt, þegar önnur eins hörkutíð og nú kemur um þetta leyti árs eftir ágætt veðuráttufar allan veturinn, og mönnum hættir við að segja, að þetta sé alveg óvanalegt, en svo er þó eigi, og til þess að rifja upp undanfarna tíð, set ég hér nokkur ár, sem sýna, að býsna oft höfum vér átt sömu veðurátt að venjast um þetta leyti sem nú.

Þjóðólfur segir frá sjóslysi í frétt þann 12.:

Um miðnætti aðfaranótt páskadagsins 7. þ.m. fórust 2 menn af þilskipinu „Josefine" hér úti á flóanum, Var ofsarok og harðviðri þá nótt, sem endrarnær þá dagana, og héldu 5 manns vörð uppi.

Þjóðviljinn ungi segir frá 18.maí:

Úti urðu tveir menn 3. apríl siðastl. á Mýrdalssandi í Vestur-Skaptafellssýslu. - Hét annar þeirra Þorsteinn Bjarnason, bóndi á Herjólfsstöðum, en hinn Jón Sigurðsson, búandi á Skálmarbæ. Annar þessara manna bjargaðist að vísu til bæjar, en dó að fárra daga fresti, af vosbúð og kali.

Þjóðólfur birti þann 3.maí bréf úr Þingeyjarsýslu og Skagafirði dagsett í apríl:

Suður-Þingeyjarsýslu (Höfðahverfi) 6. apríl. Síðan um nýár hefur mátt heita góð tíð og góðir hagar. Nú í nokkra daga hefur verið frost mikið, en jörð nær því auð; útlit er fyrir að flestir séu byrgir með hey, þó hafa þau gengið upp ótrúlega, þar sem landlétt er.

Skagafirði 14.apríl. Veturinn hefur verið einhver sá besti, sem menn muna fram um einmánaðarbyrjun, þá kólnaði mikið, oftast norðaustan brunar síðan og frost, oft 8—15 gr. á R en snjókoma lítil. Heybirgðir nógar, og skepnur víst í góðu lagi yfirleitt. Ísjakar hafa komið hér inn á fjörðinn en mjög lítið.

Ísafold segir þann 24.:

Veðrátta fremur stirð, mesti hráslaga-landsynningur, með fjúksletting. Bendir helst á hafísrek suður Grænlandshaf. Enda höfðu Heimdallsmenn eigi séð út yfir ísspilduna þar. En vel mátti komast þar inn á firðina; þótti að eins óvarlegt, hætt við innilokun. Ekki líklegt, eftir veðráttufarinu, að ís sé mikill fyrir Norðurlandi, síst landfastur. 

Þjóðviljinn ungi segir af tíð og hafís í apríl:

[10.] 30. [mars] skipti um tíð, og gerði þá norðangarð, er stóð í 5 daga, með all-mikilli frosthörku. allt að 12 stigum (Reaumur) suma dagana. En á skírdag (4. þ.m.) dró úr
frostinu, og gerði stillt veður um bænadagana, en gekk síðan aftur til norðanáttar.

[19.] Norðanveðrinu linnti loks 14. þ.m., og hefur síðan haldist hagstæð sunnanveðrátta. Hafís. Það mun áreiðanlegt, að strandferðaskipið „Vesta" hafi eigi komist norður fyrir land, en orðið frá að hverfa við Horn, vegna hafíss. — Einn af hvalveiðagufubátum frá Uppsalaeyri, er kom hér inn 16. þ.m., rak sig á mikinn hafís við Horn, og komst því eigi norður fyrir; en hvalur, sem skotinn hafði verið, hljóp undir ísinn, svo að skipverjar urðu að höggva á skutulstrenginn, til þess að bjarga skipinu.

[30.] Stillviðri héldust hér vestra, og frost nokkur á nóttu, uns snjór féll nokkur á vetrardagskvöldið síðasta [24.], og hvessti þá í svip. 25. þ.m. rann svo upp sumarið blítt og fagurt, og gerði þá suðvestan hlýindi, og rigningu síðari hluta dagsins, og hefur svipuð tíð haldist síðan.

Hafísinn. Strandbáturinn „Skálholt", er lagði af stað héðan norður 21. þ.m., kom hingað aftur 23. þ.m., eftir að hafa gjört tvær árangurslausar tilraunir til þess, að komast fyrir Horn, og segja skipverjar, að þar hafi verið svo mikill hafís fyrir, að hvergi varð smogið, og hvergi sá út yfir. 25. þ. m. tókst „Barðanum", hvalflutningagufuskipi frá Ellefsen, að komast hingað norðan af Siglufirði, og hafði haldið mjög djúpt, svo að ísinn virðist vera mestur upp við strendurnar, og inni í Húnaflóa. — Haft er eftir skipverjum á „Barðanum", að ísinn sé og landfastur við Langanes. „Skálholt" lagði síðan aftur af stað héðan 27. þ.m., til þess að freista á nýjan leik að komast norður fyrir.

Hafísinn horfinn. Í sunnanrokinu. nú um helgina [27. og 28.], hefur hafísinn rekið frá landinu, því að í gær kom hvalveiðaskipið „Gimli" að norðan, og sagði orðið íslaust.

Austri segir þann 30.: „Veðrátta nú alltaf hin blíðasta sem um hásumar væri“.

Maí: Miklar rigningar fyrir miðjan mánuð, en annars hagstæð tíð. Fremur hlýtt.

Jónas segir frá maítíð í Reykjavík í Þjóðólfi 4.júní:

Fátíð veðurblíða í þessum mánuði. Í síðustu árin hefur það aldrei komið fyrir, að yfir 20 stiga hiti í forsælu hafi átt sér stað í maímánuði (26.). Talsverð úrkoma var um miðjan mánuð og 14. voru fjöll hvít að morgni. Hlýindin mest síðustu daga mánaðarins.

Þjóðviljinn ungi segir af maítíðinni:

[6.] Síðan síðasta nr. blaðsins kom út hefur haldist blíðviðris veðrátta, uns norðan kafaldshret gerði i nótt.

[18.] Síðan síðasta nr. blaðsins kom út hafa all-oftast verið kuldar, og frost oft um nætur, en rigningar þó öðru hvoru. Strandbáturinn „Skálholt" kom hingað að norðan 7. þ.m., og hafði komið á alla viðkomustaðina á Norðurlandi, nema í báðum leiðum farið fram hjá Reykjarfirði, Steingrímsfirði og Borðeyri. Kom þetta sér afar-bagalega fyrir ýmsa farþega, er héðan höfðu farið með strandbátnum, og ætluðu til þessara staða, og er eigi laust við, að þeir eigni þetta ódugnaði skipstjóra, og þykist nú mega sakna þess, að Aasberg er hættur skipstjórninni á „Skálholti". Á hinn bóginn segist skipverjum svo frá, að enda þótt Strandaflói hafi verið íslaus, þá hafi þó verið hafíshroði í fjörðunum að vestanverðu, og þykjast þeir því, sem vænta mátti, hafa verið löglega afsakaðir.

Austri segir þann 25.: „Tíðarfarið hið indælasta, síðustu dagana hefir hér verið 21°R [26°C] í skugganum“. 

Júní: Nokkuð hagstæð tíð. Fremur hlýtt.

Jónas segir frá júní í Þjóðólfi 5.júlí:

Júnímánuður hefur verið talsvert kaldari en í fyrra; allan síðari partinn hefur verið vætutíð og fremur kalsi. Oftast verið í austan-sunnanátt.

Austri lýsir júnítíðinni eystra í stuttum pistlum:

[8.] Tíðarfar hefir þessa viku verið fremur rosasamt og óstöðugt, en virðist nú gengið til batnaðar.

[15.] Veðráttan hefir verið umhleypingasöm og köld síðustu viku og jafnvel snjóað í fjöll; í gær og dag er aftur hlýrra.

[27.] Tíðarfar hið indælasta. 

Ísafold segir þann 12.:

Veðrátta mjög köld, síðan hitakaflann um hvítasunnuna, - ...  það er að þakka áminnstum hitakafla, að gróður er þó í góðu lagi eða vonum betri.

Júlí: Úrkomusamt einkum um miðjan mánuð. Hlýtt norðaustanlands.

Jónas segir frá rigningajúlí í Reykjavík í pistli í Þjóðólfi 3.ágúst:

Svo má segja, að varla hafi sést til sólar allan júlímánuð. Hefur oftast verið suðaustan-, sunnan- eða útsunnanátt með regni; varla komið þurr dagur.

Heldur betra hljóð var í mönnum eystra (að slepptu ofviðri um miðjan mánuðinn). Austri segir frá:

[5.] Tíðarfar er hið indælasta.

[17.] Tíðarfar nú undanfarandi vætusamt, þokur og súld, svo þurrkun hefir vantað á töðuna. En í dag er brakandi þurrkur.

[25.] Skipskaðar og manntjón. Miðvikudaginn 17. þ.m. var ofsasunnanveður víðast hér Austanlands. Fauk þá víða töluvert af heyi af túnum, mest í Loðmundarfirði. Bátskaðar urðu þó engir hér á Seyðisfirði eða nærliggjandi fjörðum, nema í Mjóafirði hvolfdi bát með 3 mönnum á, er var bjargað. [Mannskaði varð á Vopnafirði eins og fram kemur í frétt Bjarka hér að neðan].

[25.] Tíðarfar ágætt og þurrkar góðir, svo töður hafa víst hirst víðast vel.

Bjarki segir frá þann 23.:

Ákaft sunnanveður var hér lengst af undanfarandi viku, en mest á miðvikudaginn [17.] Báta hrakti þá hér útifyrir, en allir náðu þó landi einhverstaðar og um stórskaða hefur ekki frést nema af Vopnafirði. Þar lágu þrjú kolafiskiskip frá Frederikshavn á veiðum inni í fjarðarbotni, kúttararnir »Mathilde«, »Ellen« og »Klitgaard« og hrakti þar til þau urðu að höggva möstrin. Fiskikassar frá skipunum rákust á bryggju Gr. verslunarstjóra Laxdal og skemmdu hana mikið. Gufuskipið »Cimbria« kom hingað inn með öll skipin á sunnudagsmorguninn og bíða þau hér eftir aðgerð. Cimbria fór til Englands með fisk og kemur aftur svo fljótt sem auðið er með það sem til aðgerðarinnar þarf. Bátur fórst á Vopnafirði með þrem mönnum, Færeyingum; fannst hann síðar rekinn með einu líkinu, sem var skorðað undir þóftu. Annan bát, frá Gr. Laxdal, hrakti til hafs, en þar náði hann franskri fiskiskútu og bjargaði hún mönnunum, en bátnum náði Færeyskt fiskiskip langt út í hafi. Á Mjóafirði hvolfdi bát í fjarðarmynninu með þrem mönnum; tveim var bjargað af kili, en einn flaut á línubelgjunum. Afli og veiðarfæri töpuðust. Sá bátur var frá Ben. Sveinssyni á Borgareyri. Heyskaðar hafa orðið víða, meiri og minni.

Þetta veður var óvenjusnarpt af júlíveðri að vera - eins og fjallað var lítillega um í inngangskaflanum hér að ofan. 

Ísafold segir af óþurrkum - síðari fréttin [24.] reyndist heldur bjartsýn:

[17.] Veðrátta mjög vætusöm langa hríð sunnan lands og vestan. Heldur óefnilegt með nýting á töðu. nyrðra aftur á móti gæðatíð.

[24.] Með hundadögunum, þ.e. i gær, kom loks þerririnn, langþráður mjög, mikill og góður.

Ágúst: Óþurrkasamt, síðasta vikan þó þurr á Suður- og Vesturlandi. Hiti í meðallagi.

Ísafold segir frá:

[14.] Norðanátt snörp og eindregin hófst aðfaranótt 9. þ.m. og stóð fram um helgina. Stórrigning aftur í gær og i dag.

[21.] Rosar og rigningar enn sunnanlands og vestan, hlýindalaust. En norðanlands og einkum austan öndvegistíð í allt sumar — hver dagurinn öðrum bjartari og blíðari.

Austri getur þó rigninga eystra:

[1.] Tíðarfar alltaf hið besta.

[11.] Tíðarfar hér nokkuð vætusamt, bæði í Fjörðum og á Héraði, þó hlýtt.

[19.] Tíðarfar fremur vætusamt.

[24.] Tíðarfar nú fremur stillt og hlýtt og þurrkar allgóðir svo menn hafa náð mestu af heyjum sínum í garð.

Bjarki segir af tíð þann 27.:

Framan af síðastliðinni viku voru hitar miklir, stundum 18 gr. R [22°C] í skugga, og sunnanátt, en nú um helgina kom kuldakast með regni og norðanátt. Um nætur snjóaði í fjallatinda.

Þjóðviljinn ungi birti þann 25.frétt frá Ísafirði, dagsetta 17.ágúst:

Tíðarfar hefur verið votviðrasamt, uns heldur fór að lifna með þurrka með byrjun ágústmánaðar, og hafa síðan verið nokkrir góðir þerrirdagar, en þó rigning öðru hvoru; fiskur er þó víðast orðinn þurr hjá bændum.

Stefnir segir af tíð nyrðra þann 28.ágúst:

Veðrátta hefir verið venju fremur rosa og rigningasöm seinni hluta þessa mánaðar, og nú síðustu sólarhringana svo kalt, að gránað hefir í hæstu fjallabrúnir og haglél komið hér niður við sjó. Frost var í nótt, svo að gras kól í görðum. Þurrkur í gær og dag.

September: Óþurrkar til vandræða syðra. Mjög hlýtt.

Jónas segir af veðri í september í Þjóðólfi þann 4.október:

Óþurrkatíð hin mesta; stöðugur landsynningur (suðaustanátt) og varla dagur þurr til enda.

Austri lýsir tíð:

[2.] Tíðarfar nú þurrt og hlýtt.

[10.] Tíðarfar hefir nú síðustu dagana verið fremur kalt, en á Ægidiusmessu [1.september] og dagana þar á eftir var indælasta veður, er að gamalla manna trú á að boða gott haust.

[14.] Tíðarfar nú hið indælasta.

[23.] Tíðarfar hefir fyrirfarandi viku verið ákaflega votviðrasamt, hellirigning má heita á hverjum degi. Brúin á Vestdalsánni niðri í kaupstaðnum brotnaði nóttina milli 20. og 21. þ.m. í sundur í miðju. Hinar voðalegu rigningar höfðu hleypt svo miklum vexti í ána að straumkastið náði brúnni og fleygði henni af. Er þetta mjög óþægilegt fyrir Vestdalseyrarbúa o.fl. og vonandi að bæjarstjórnin láti sem fyrst láta setja brúna á aftur. Víða hafa aurskriður fallið.

Stefnir segir þann 20.:

Árferðið til lands og sjávar má yfirleitt heita hið hagstæðasta þetta sumar í Eyjafirði og víðast hér norðan lands. Töður urðu með meira móti. Þrátt fyrir það þótt þær ódrýgðist sumstaðar í veðrinu í júlí [hvassviðrið 17. til 18.]. Útheyskapur er og í góðu meðallagi, og nýting á því hin besta.

Ísafold birtir 19.október fréttir úr Skagafirði, dagsettar 20.september: „Tíðarfar í sumar ágætt og hey almennt mjög góð og mikil“. 

Október: Úrkomusamt og kalt, einkum fyrir norðan.

Þjóðólfur segir af veðri þann 4.október:

Veðurátta ákaflega vætusöm, hellirigning á hverjum degi að heita má. Saltfiskur o.fl. undir skemmdum sakir hinna langvarandi óþurrka.

Ísafold segir þann 5. „Veðrátta mjög bágborin, stórrigningar nær alla tíð“.

Jónas segir frá októberveðri í Þjóðólfi þann 1.nóvember:

Fyrstu daga mánaðarins dynjandi rigning af suðaustri, gekk svo til norðurs í nokkra daga með vægu frosti, síðan í landnorður og aftur í norður h.17. og var bráðhvass í nokkra daga; hefur síðan verið við austanátt og rignt talsvert við og við. Jörð hér alveg klakalaus. Hinn 27. að kveldi laust fyrir kl.7, varð hér vart við jarðskjálfta.

Þjóðviljinn ungi birti þann 16.nóvember bréf úr Eyjafirði, dagsett 6.október. Einnig er sagt af bátstapa á Mjóafirði:

Úr Eyjafirði er ritað 6. okt.: Veturinn er að byrja, og alsnjóaði hér fyrst í nótt, og í dag er norðanhríð, heldur væg, og snjókoma lítil. Annars hefir mátt heita sumartíð allt til þessa, og 1. þ. m. var 15 gr. hiti i forsælu. Heyskapur varð í besta lagi, og sumarið yfirleitt ómuna gott — Kýr almennt úti til septembermánaðarloka. og er slíkt fátítt.

Bátstapi. Þrír menn drukkna. 3 okt. síðastliðinn vildi það slys til á Mjóafirði i Suður-Múlasýslu, að báti hvolfdi þar í fiskiróðri, með því að ofsarok skall á, og drukknuðu allir, er á bátnum voru.

Þjóðviljinn ungi (nú á Bessastöðum) segir frá októbertíð og fleiru:

[11.] Eftir eitt hið kaldasta og votviðrasamasta sumar, er yfir suðvestur-kjálka landsins hefur gengið, sneri loks til norðanáttar og frosta 6. þ.m. og 8. þ.m. var hér hvít jörð að morgni.

[17.] Síðan síðasta nr. blaðsins kom út hefur haldist fremur væg norðanveðrátta, og öðru hvoru frost nokkur, nema blíðviðristíð í dag.

[24.] Í norðanroki 18. þ.m. strandaði í Reykjavik seglskipið „Thrift", eign Frederiksen & Co. í Mandal; rakst það á kletta í svo nefndri Klapparvör, og fór undan þvi botninn m.m., en mönnum þeim, er á skipinu voru, var bjargað í land á kaðli.

[31.] Af Vesturlandi er að frétta mjög stirða veðráttu i októbermánuði, og er oss ritað af Ísafirði 20. október, að þar hafi oftast veríð hvassviðri og köföld, og 3 seinustu dagana stífur norðangarður, með mikilli fannkomu og frosti. Í öðrum bréfum af Vestfjörðum getur og urn „sífellda kuldakólgu", og að jörð sé þar alhvít til sjávar svo að menn hafi eigi getað verið þar við nauðsynja haustannir, vegna veðráttunnar, nema stund og stund í bili.

Arnfirðingur segir frá þann 1.nóvember:

Veður hefur verið hér mjög vætusamt í sumar, skárra í haust. Samfeld rigning tvo næstu daga síðast hér í kaupstaðnum, en milt, og þurrt tvo síðustu dagana. Hlýtt veður í dag og gott. Heyskapur varð hér um Arnarfjörð með betra móti í sumar og hey lítið hrakin, þó votviðrasamt væri, og er það að þakka galtatjöldunum, sem hér eru almennt höfð yfir hey og reynst hafa svo ágætlega.

Nóvember: Hagstæð tíð. Þurrt eystra, en úrkomusamt vestanlands. Hiti í meðallagi.

Jónas segir af nóvember í Þjóðólfi þann 6.desember:

Framan af mánuðinum var blíðviðri með stillingu; h.12. fór að kólna (norðanátt) en varaði stutt, hlýnaði aftur; kólnaði svo til muna aðfaranótt h.20.; breytti fljótt til og gekk til landnorðurs með hlýindum og hefur verið svo síðan; hefur rignt hér mjög mikið allan mánuðinn; fyrsta föl féll hér 17.

Bjarki (á Seyðisfirði) segir þann 8.nóvember: „Veður nú svo gott á degi hverjum sem á sumri væri“.

Austri segir af tíð eystra í nóvember:

[4.] Tíðarfar má nú heita á hverjum degi sem á sumri væri, og hefir saltfiskur verið þurrkaður þessa dagana hér norðanverðu við Seyðisfjörð, og mun það sjaldgæft.

[12.] Tíðarfar er nú að kólna, og lítur út fyrir að Norðri ætli að hrekja Suðra af stóli, sem lengi hefir nú setið hér að völdum með heiðri og sóma; í gær var nokkur froststormur og töluverður snjóhraglandi úr lofti, svo að nokkur snjór er kominn í byggð. Í dag er veður stillt og snjókoma engin.

[19.] Tíðarfar kalt undanfarandi. Í dag töluverð snjókoma.

[27.] Tíðarfar hefir verið mjög milt undanfarandi daga, suðvestan hláka, svo að snjó hefir að mestu tekið. Í dag er aftur nokkru kaldara.

Þjóðviljinn ungi (á Bessastöðum) segir af tíð:

[22.] 17.-18. þ. m. gerði norðanhrinu, og fennti þá nokkuð, en síðan hafa haldist frost og stillviðri. Jörð enn hvívetna alauð í byggð hér í grenndinni, nema frostföl og áfreðar nokkrir.

[28.] 23. þ.m. sneri til suðaustanstorma, bleytukafaldsélja, eða rigninga, er haldist hafa lengstum til þessa. Hvívetna enn alauð jörð hér syðra.

Þjóðviljinn birti þann 21.desember bréf úr Dýrafirði, af Hornströndum og úr Norður-Ísafjarðarsýslu, dagsett í nóvember:

Norður-Ísafjarðarsýslu 24. nóv. 1901: Tíð hefir verið kulda- og snjóasöm, 10 stiga frost suma daga að undanförnu. — Að morgni 23. þ.m. brá þó til þíðviðris, og í dag er orðin alauð jörð í byggðinni. — Nægur hagi hefir þó verið að undanförnu, en oft svo mikill kuldi, að ekki hefir fé orðið beitt úti, nema stundarkorn á dag, og allir hafa löngu tekið fé á hús og hey, og sumir hesta líka.

Hornströndum 11. nóv. 1901: Héðan er að frétta almenna vellíðan. — Sumarið mátti heita gott, og grasvöxtur í meðallagi; en með september fór að bregða til votviðra, og allan október mátti heita, að öðru hvoru væri stórrigning, eða bleytukrapar, svo að hey eru hér meira og minna skemmd af vatnagangi.

Dýrafirði 22. nóv. 1901: Framan af þessum mánuði voru hér stormar miklir og harðviðri, enda var „Vesta" orðin fullri viku á eftir áætlun, og voru menn orðnir hræddir um, að henni hefði hlekkst á; samt kom hún um síðir, sem betur fór. Síðan hefir oftast verið góð haustveðrátta, frost, og snjóföl á jörð, norðan stormar á milli.

Desember: Úrkomusamt fyrstu vikuna, en síðan lengst af þurrviðrasamt. Fremur kalt.

Jónas segir af desember í Þjóðólfi 10.janúar 1902:

Desember hefur verið með kaldara móti og mikill snjór féll hér eftir miðjan mánuðinn, en veður hefur verið stillt og oftast vel bjart.

Ísafold segir þann 7.:

Vetrar hefir lítt kennt hér um slóðir eða alls eigi að kalla má, einlægar þíður, en rosasamt nokkuð. Varla komið föl á jörð fyrr en lítilsháttar í útsynningnum í gær og í dag.

Ísafold birti þann 21.desember bréf úr Strandasýslu sunnanverðri - dagsett 10.desember:

Þá er nú kominn hinn síðasti mánuður þessa fyrsta aldarsárs, sem hefir verið eitthvert hið blíðasta og besta ár, sem menn muna. Veturinn frá nýári í fyrra var afbragðsgóður og vorið sömuleiðis, að undanteknum fyrri hluta maímánaðar, sem var fremur úrkomusamur, ýmist með snjó eða regni. Sumarið mjög gott bæði að grasvexti og nýtingu, heyskapur því i besta lagi. Í haust hefir jafnan verið auð jörð og mjög stillt veðrátta, þar til nú síðustu dagana hefir verið snjóbylur af norðri og snjór mikill kominn. Ekki hefir þurft að gefa fullorðnu fé fyrr en nú þessa dagana; áður var sumstaðar búið að kenna lömbum átið, en viðast hafði þeim samt lítið sem ekkert verið gefið. En þó hausttíðin hafi verið góð, þá hefir litið verið hægt að vinna að jarðabótum eða þess konar vinnu, því frost komu nokkuð snemma og síðan hefir jörðin aldrei fyllilega þiðnað.

Þjóðólfur birti þann 20. bréf úr Dalasýslu, dagsett þann 10.desember:

Tíðin hefur verið stirð nú í fullan hálfan mánuð, og sökum þess er nú hætt við í vetur að koma brúnni á Laxá, sem þó var byrjað á, en áin mölvaði af sér ísinn og tók burtu með sér allt grindverkið milli stöplanna, sem haft var til að koma brúarviðunum yfir ána, en svo flaut allt fram í sjó, en náðist þó allt saman óskemmt inn með landinu, frá árósnum að Búðardalskaupstað. Í vor verður víst byrjað aftur á verkinu.

Arnfirðingur lýsir desembertíðinni:

[4.] Veður hefur verið hér umhleypingasamt síðustu vikuna, frostlítið oftast og snjólaust enn að kalla, aðeins gráni í fjöllum.

[17.] Veður hefur verið nokkuð umhleypingasamt um tíma en þó í heild sinni gott, frostlaust oftast og eingin stórviðri. Seinustu dagana ágætt veður.

[30.] Veður hefur mátt kalla hér frámunalega gott alla tíð, síðan hann batnaði fyrir jólin, hægt frost og heiðríkja daglega og oftast logn eða þá hægur blær. Það er mjög sjaldgæft að fá slíkt veður öll jólin endilöng.

Austri segir af tíð og óhöppum:

[12.] Tíðarfar hefir nú nokkra undanfarandi daga verið fremur stormasamt með miklu frosti og nokkurri snjókomu.

[23.] Í ofsanorðanveðri fyrir nálega hálfum mánuði sleit upp fiskiskipið „Fram," eign Fr. & M. Kristjánssonar, er lá fram af Oddeyrinni, og rak upp í sand, en skemmdist lítið. En nú fyrir 2 dögum gerði aftur norðanrok, og skemmdi skipið svo mjög, að ekki mun annars kostur en að rífa það. Skipið var ekkí í ábyrgð. ... Tíðarfar mjög óstillt að undanförnu, oftast nær.

[31.] Gufuskipið „Inga," eign stórkaupmanns Thor. E. Tuliniusar, rakst á ísjaka 3 mílur fyrir norðan Sléttu 24. þ.m. og brotnaði svo mjög, að skipinu varð að hleypa á land. Allir menn komust af.

Þjóðviljinn ungi birti þann 21.janúar 1902 bréf úr Önundarfirði, dagsett 18.desember:

Tíðarfar hefir verið hér fremur stirt seinni part nóvembermánaðar, og það, sem af er desember, stórkostlegar rigningar, og þar af leiðandi skemmdir á heyjum, af því að járnþök eru of fá.

Þann 19.desember brunnu 7 hús á Akureyri til grunna og fleiri skemmdust. 

Vestri segir þann 31.desember:

Tíðarfar hefir verið mjög stillt og gott síðan blað vort kom út [21.desember]; og er einmælt að þessi jól hafi að veðri, færð og birtu verið hin skemmtilegustu er menn muna.

Þjóðólfur segir frá því þann 17.janúar 1902 að á aðfangadag hafi tveir menn fallið með snjóhengju ofan í svonefnt Holtsgil nærri Felli í Mýrdal og beðið bana. 

Ísafold gerir árið upp þann 28.desember:

Eftirmæli ársins. Þjóðtrúin um grimmileg aldamótaharðindi fer nú að líkindum veg allrar veraldar, eins og önnur úrelt hjátrú og hindurvitni, - er hvert árið öðru blíðara leiðir hitt úr garði. Þótt sumarið væri í meira lagi vætusamt og að því leyti fremur óhagstætt, á nokkrum parti landsins, þeim er næst og beinast liggur við hafísnum í Grænlandshafi, einkum Faxaflóabyggðinni, þá var fyrirtaks-heyskaparveðrátta um mikinn meiri hluta þess, hina landsfjórðungana alla. Aðrar árstíðir og vægar um land allt, einkum vetrarkaflarnir báðir mjög frostalitlir; haust rosasamt sunnanlands. 

Hér lýkur að sinni yfirferð hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1901. Ýmsar tölulegar upplýsingar eru í viðhenginu. 

--- 

Viðbætir. Tvö kort sem sýna veður kl.18 17.júlí 1901. Það fyrra sýnir endurgreininguna c20v2. Hún nær lægðinni óvenjulegu og hvassviðrinu sem henni fylgdi mjög vel, en síðara kortið sem er úr endurgreiningunni c20v2c sýnir lægðina illa. 

ar-1901-juliillvidri-kort-a

ar-1901-juliillvidri-kort-b


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hálfur desember

Desember um það bil hálfnaður. Meðalhiti í Reykjavík er 2,2 stig, +1,5 stigi ofan meðallags sömu daga áranna 1961-1990, en +1,8 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára og hið sjöttahlýjasta á öldinni (af 18). Hlýjastur var fyrri hluti desember 2016, meðalhiti +6,2 stig, en kaldastur var hann 2011, meðalhiti -3,4 stig. Á langa listanum er meðalhiti í 29.sæti (af 143) - á þeim lista er 2016 líka á toppnum, en kaldast var 1893, -5,9 stig.

Á Akureyri er meðalhiti dagana 15 -1,0 stig, -0,2 stigum neðan sömu daga 1961-1990, en +0,2 ofan meðallags síðustu tíu ára.

Hiti er nú kominn yfir meðallag síðustu tíu ára um nær allt land. Að tiltölu hefur verið hlýjast á Þingvöllum, +2,8 stig ofan meðallags, en kaldast á Sauðárkróksflugvelli -0,4 stigum neðan meðallags - eini stöðin undir meðallag ásamt Lögreglustöðinni á Akureyri og stöð Vegagerðarinnar í Oddsskarði.

Hitanum er nokkuð misskipt á dagana 15, kalt var fyrstu 5 dagana (og þann 9.) og sá 3. var kaldasti dagur ársins til þessa á landinu, en síðustu fimm dagar hafa verið sérlega hlýir - og þann 11. var frostlaust í byggð allan sólarhringinn og hiti komst í 10 stig eða meira á helmingi allra veðurstöðva í byggð. Þó nokkuð hvasst hafi verið suma dagana hefur enginn dagur mánaðarins samt komist á stormdagalista ritstjóra hungurdiska.

Úrkoma hefur mælst 44,2 mm í Reykjavík - og er það í meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 48,2 mm og er það meir en 50 prósent ofan meðallags.

Sólskinsstundir hafa mælst 5,1 í Reykjavík - rétt neðan meðallags.


Helmingur - hvað segir hann um heildina?

Desember er nú rétt að verða hálfnaður - við lítum á tölur þess helmings í næsta pistli. Hér veltum við hins vegar vöngum yfir því hvað hiti fyrri helmings mánaðar segir yfirleitt um hita hans í heild og tökum Reykjavíkurhita vetrarmánaða sem dæmi. Að því loknu grennslumst við fyrir um það hversu mikið hiti fyrri helmings árs segir um ársmeðalhitann (það höfum við reyndar fjallað nokkuð um áður). Að lokum lítum við (gróflega) á það hvað hiti fyrri hluta áratugar segir um hita áratugarins alls. Allt er þetta í gamni gert.

w-blogg151218ia

Mun skýrara eintak af myndinni er í viðhengi. Lárétti ásinn sýnir hita fyrri hluta mánaðar (desember, janúar, febrúar og mars) í Reykjavík á tímabilinu 1949 til 2017. Á lóðrétta ásnum er hiti sama mánaðar í heild. Tölurnar sem merktar eru á línuritið sjálft sýna um hvaða almanaksmánuð er að ræða. Eins og eðlilegt er virðist tilhneiging til þess að síðari hluti mánaðanna febrúar og mars hækki hitann frekar en lækki (undantekningar þó). Það er eðlilegt vegna hækkandi sólar. Fylgni hita fyrri hluta desembermánaðar og hita þess mánaðar í heild er ívið minni heldur en samband fyrrihlutahitans og mánaðarhitans í hinum mánuðunum þremur. 

Það sem af er desember nú er meðalhiti í Reykjavík um 2,0 stig. Því er giskað á að meðalhiti mánaðarins í heild verði 1,3 stig. - En eins og sjá má af myndinni hafa mánuðir sem skilað hafa sama hita fyrri hlutann og nú líka endað í bæði -2 og allt upp í +4 (enginn desember þó svo hátt). 

Lítum nú á sams konar línurit fyrir samband hita fyrri hluta árs og ársins í heild.

w-blogg151218ib

Skýrara eintak er í viðhenginu. Mjög gott samband er á milli fyrrihlutahitans og hita ársins alls, fylgnistuðullinn er 0,86. Hiti fyrri hluta árs nú var 3,8 stig. Reiknireglan giskar á að meðalhiti ársins verði 4,9 stig. Verði meðalhiti desembermánaðar hins vegar 1,3 stig (eins og sambandið á fyrri mynd gaf til kynna) nær árið hins vegar lítillega hærra, meðalhiti þess verður 5,0 stig. - Lóðrétta gráa strikið á myndinni sýnir meðalhita fyrstu 6 mánaða ársins 2018, en það rauða lárétta 5,0 stig.

Þá er þriðja spurning dagsins eftir. Hvað segir hiti fyrri hluta áratugar um hita áratugarins í heild?

w-blogg151218ic

Nú lítum við allt aftur til ársins 1871. Síðasti heili áratugurinn á myndinni er 2001-2010. Hann endaði nokkuð ofan aðfallslínunnar - hafði verið spáð 5,2, en endaði í 5,5. Sá áratugur sem mest lét á sjá síðari hlutann var 1961-1970, hefði átt - miðað við fyrri hlutann - að enda í um 4,8 stigum, en seig niður í 4,5. Áratugurinn 1921-1930 tók hins vegar strikið í hina áttina. 

Eftir fyrri hluta núlíðandi áratugar að dæma (svarta lóðrétta strikið) ætti hann að enda í um 5,2 stigum (0,3 stigum neðan áratugarins 2001 til 2010). En nú eru að koma áramót 2018/19 og meðalhiti fyrstu 8 ára núlíðandi er kominn í 5,4 stig (hann hefur bætt sig umtalsvert síðustu þrjú árin). Það fer þó að sjálfsögðu eftir hita áranna 2019 og 2020 hver lokastaðan verður. „Spá“ fyrrihlutans - um 5,2 stig á enn möguleika á að rætast - en til þess verður hiti áranna tveggja að vera 4,5 stig. Hann á líka raunhæfa möguleika á að fara upp fyrir 2001 til 2010 og verða hlýjasti áratugur sem við þekkjum. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Á lægðahaugunum

Hver stórlægðin á fætur annarri gengur nú um Atlantshafið. Við sleppum þó vel því þær eru flestar búnar að ná fullum þroska þegar vindgarðar og úrkomusvæði þeirra ná hingað. Jú, eitthvað blæs sums staðar á landinu og talsverð úrkoma fellur þar sem vindur stendur á land. En loftið er af suðlægum uppruna og hlýtt. 

Það er hins vegar mikið skaðræðisveður í mörgum þessara lægða. Ein er nú í miklum vexti suðvestur af Bretlandseyjum - og þarlendir veðurfræðingar - breskir og írskir gefa út bæði gular og brúnar viðvaranir vegna hennar - á öllum spásvæðum í þessum löndum. Hlutar Frakklands, Noregs, Spánar og Portúgal veifa líka litaflöggum. 

w-blogg151218b

Þessi mynd (af vef Veðurstofunnar) sýnir stöðuna nú á miðnætti. Gömul lægð (ekki svo gömul samt) er fyrir suðvestan Ísland og veldur strekkingi og sums staðar á landinu rignir nú í kvöld af hennar völdum. Lægðarbylgja er fyrir suðaustan land á leið yfir landið - en virðist þó ekki líkleg til stórræða. Skýjakerfið suðvestur af Bretlandi er hins vegar illúðlegt - mikið hvassviðri á Írlandi og í Írskahafi í nótt og á morgun og síðan í Norðursjó milli Skotlands og Noregs. Leifar þessarar lægðar munu komast alla leið til Íslands - en mestallur vindur þá úr henni. 

Síðan eiga fleiri lægðir að koma úr vestri og lenda á haugunum fyrir sunnan land - við höldum vonandi áfram að sleppa við allt illt - og vonum að þíðir vindar haldi áfram að blása og stytta veturinn - það munar um hvern dag án klamma í mesta skammdeginu meðan sólin er vitagagnslaus í baráttunni við ísinn. 


Horft á Grænlandsspákort

Það er oft gaman að fylgjast með grænlandsspákortum dönsku veðurstofunnar. Þau eru reiknuð með líkani sem er kallað harmonie-igb, tölvan er í kjallara Veðurstofu Íslands. Við lítum á hitaspákort sem gildir kl.20 á laugardagskvöld 15.desember.

w-blogg131218a

Við sjáum Grænland og Ísland. Grænu litirnir sýna svæði þar sem frost er meira en -20 stig, á mestöllum Grænlandsjökli og Ellesmereyju og auk þess á smærri svæðum norðan Grænlands og nyrst í Baffinsflóa. Frostið er mest á hájöklinum norðanverðum -53 stig. Það er í meir en 2,5 km hæð yfir sjávarmáli. Falli þetta loft (óblandað) til sjávarmáls hlýnar það um 1 stig við hverja 100 metra lækkun - um 25 stig. En líklega eru snörp hitahvörf yfir jöklinum - víðast hvar og þegar komið er að jaðri meginjökulsins og loftið fer að falla niður fjöll og skriðjökla blandast það nær óhjákvæmilega lofti fyrir ofan og hlýnar við það enn meira en sem niðurstreymið eitt segir til um. 

Á fjólubláu svæðunum er frostið meira en -10 stig. Sé þar ekki land undir - er líklega hafís. Mörkin milli brúnu og bláu litanna er við frostmark. Kalda loftið að norðan lekur suður með landinu og fyrir Brewsterhöfða við Scoresbysund. Á laugardagskvöld þegar þessi spá gildir er nokkuð að því þrengt þar sem hlýir austlægir vindar sækja að - mikil átök verða þá í norðanverðu Grænlandssundi - 

w-blogg131218b

Þetta sést vel á harmonie-spákorti sem gildir á sama tíma. Hér sýna örvar vindátt, en litir vindhraða í 100 metra hæð yfir jörðu. Spáð er fárviðri í norðanverðu Grænlandssundi - einmitt þar sem kalda loftið ryðst til suðurs. Það stendur nokkuð glöggt hvort eitthvað af því nær til Vestfjarða. Við skulum ekki hafa neina sérstaka skoðun á því (biðjum e.t.v. Veðurstofuna um að fylgjast vel með) - en allt í lagi er að vita af þessum miklu átökum í námunda við okkur. 


Af þrumutíðni

Í tilefni af þrumuveðrinu um landið sunnanvert í gær (þriðjudag 11.desember) hnykkjum við á fróðleik um árstíðasveiflu þrumuveðra á Íslandi. Þrumuveður hafa alloft komið við sögu á hungurdiskum - langítarlegasti pistillinn birtist 29.júlí 2018

Fyrri myndin sýnir þrumudagafjölda á íslenskum veðurstöðvum á árunum 1949 til 2017 - úr gagnagrunni Veðurstofunnar (þar er ekki alveg allt). Talið er eftir dögum ársins. 

w-blogg121218a

Til að veturinn skerist ekki í tvennt nær ferillinn til 18 mánaða. Hér má glögglega sjá að þrumuveður eru mun algengari hér á landi að vetrarlagi heldur en á sumrin. Að vísu á sumarið áberandi hámark - um það bil frá sólstöðum fram í ágústbyrjun. Lágmark er snemma í september en síðan vex tíðnin eftir því sem á haustið líður - og áberandi þrep upp á við í kringum 10.desember. Tíðni helst síðan svipuð fram að mánaðamótum febrúar/mars, en þá dregur úr og lágmarki náð í kringum sumardaginn fyrsta. Lesa má um mismunandi eðli vetrar- og sumarþrumuveðra í pistlinum sem nefndur var hér að ofan.

Megnið af þessum þrumum sætir litlum tíðindum, en tjón af völdum eldinga er samt meira hér á landi heldur en margan grunar. Nokkrir menn hafa beðið bana, bæir og hús hafa brunnið, búfénaður farist og tjón orðið á rafmagnsbúnaði margs konar. Í lista ritstjóra hungurdiska um veðuratburði er tjóns af völdum eldinga oft getið - á listann komast einnig þau þrumuveður sem samtímamenn hafa af einhverjum ástæðum talið merkileg eða mikil. 

w-blogg121218b

Á myndinni hefur atburðum þessum verið raðað á árið. Við sjáum að þeir eru þéttastir á vetrum - í samræmi við fyrri mynd og sömuleiðis er einnig tíðnihámark í júlímánuði - gisnastur er tíminn frá miðjum ágúst fram í miðjan september - ekki ósvipað og á fyrri mynd. Sömuleiðis má sjá skyndilega aukningu með desembermánuði.  


Vindasamt áfram?

Svo virðist helst að nokkuð vindasamt verði áfram - en hlýtt. Næstu daga eiga fleiri en en lægð að dýpka verulega suðvestur í hafi og leita síðan í átt til okkar. Mesti krafturinn vonandi úr þeim - þó nokkuð blási. Næsta lægð er þegar komin í óðadýpkun - og kortið sýnir hvernig evrópureiknimiðstöðin telur hana verða seint í nótt (aðfaranótt miðvikudags 12.desember).

w-blogg111218a

Þrýstingur verður þá (að mati reiknimiðstöðvarinnar) kominn niður fyrir 940 hPa og fárviðri í kringum lægðina. Þegar kemur fram á daginn grynnist lægðin verulega - en verður á furðumiklu skriði í átt til Íslands og fer yfir landið á fimmtudag. Núgildandi spá reiknimiðtöðvarinnar er nokkuð krassandi - spáð er verra veðri en títt er að komi við aðstæður sem þessar - í lægð sem er að grynnast jafnört og þessi. En almennt orðspor reiknimiðstöðvarinnar er svo gott að við verðum að trúa því að hún gæti haft rétt fyrir sér - alla vega er full ástæða til að fylgjast með þessari lægð og reyna að átta sig á eðli hennar þegar hingað er komið. 

Ef til vill er ástæðan fyrir þessari hegðan enn ein óðalægðin sem má sjá neðst í vinstra horni kortsins. Hún ryður fyrri lægðinni burt og á að valda landsynningi hér strax á föstudagskvöld - og enn fleiri djúpar lægðir eiga svo að fara um Atlantshafið dagana þar á eftir. Í heildina litið er þetta þó ekki mjög slæm staða fyrir okkur. Mesti kraftur lægðanna um garð genginn þegar áhrif þeirra ná loks hingað. Svo eru þær smám saman að dæla hlýju lofti norður í höf - þar sem það myndar hæðir og hæðarhryggi sem draga úr líkum á verulegum kuldaárásum úr norðri og vestri - eða seinka slíku að minnsta kosti. 


Fyrstu tíu dagar desembermánaðar

Tíu dagar liðnir af desember. Meðalhiti þeirra í Reykjavík er +0,3 stig, -0,4 stigum neðan meðallags áranna 1961-1990, en +0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára (já, þessu víkur svona við). Hiti dagana tíu er í 10. hlýjasta sæti (af 18) á öldinni. Hlýjastir voru dagarnir tíu 2016, meðalhiti 7,1 stig, en kaldastir voru þeir árið 2011, meðalhiti -4,8 stig. Á langa (143-ára) listanum er hitinn í 79.sæti. Á þeim lista eru sömu dagar 2016 líka í hlýjasta sætinu, en aftur á móti 1887 í því neðsta og kaldasta, meðalhiti þá var -7,2 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrstu tíu daga mánaðarins -3,9 stig, -3,3 neðan meðaltalsins 1961-1990, en -2,5 undir meðallagi síðustu tíu ára.

Víðast hvar á landinu er meðalhiti neðan meðallags síðustu tíu ára, en jákvæða vikið er mest í Straumsvík, +0,9 stig. Það neikvæða er mest á Torfum í Eyjafirði, -2,7 stig.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 7,8 mm - innan við þriðjungur meðallags, en 47 mm á Akureyri - meir en tvöfalt meðallag.

Sólskinstundir hafa mælst 5,1 í mánuðinum í Reykjavík og er það í meðallagi.


Tvö landsynningsveður

Þegar þetta er skrifað (um hádegi mánudaginn 10.desember) er að hvessa af suðaustri á landinu. Veðrið á að ná hámarki í kvöld - fyrst suðvestanlands en síðan í öðrum landshlutum. Á morgun gerir síðan annað suðaustanveður. Spár hafa lengi (furðulengi) verið nokkuð samstíga með fyrra veðrið - reyndar komnir 10 dagar síðan fyrst var á það minnst - og það þá þegar sett á þennan dag. Síðara veðrið hefur hins vegar verið mun óljósara - dregið hefur verið úr og í varðandi afl þess - allt frá því að gera nákvæmlega ekkert úr því og yfir í að halda fram skaðræði. Ætli niðurstaðan verði ekki einhvers staðar mitt á milli.

Bæði veðrin eru af suðaustri og kallast sannarlega landsynningsveður - suðaustur er nefnist líka landsuður. Hinu dæmigerða landsynningsveðri fylgir mikil slagviðrisúrkoma. Eðli þessara tveggja veðra er nokkuð misjafnt. Það fyrra er öflugast neðarlega í veðrahvolfi - í því sem klúðurslega hefur verið kallað lágröst (finnum einhvern tíma betra orð), en það síðara teygir sig niður úr háloftunum - úr meginröstinni upp við veðrahvörfin í einskonar hesi í átt til jarðar. Við getum alveg kennt slík veður við rasterhes.

Vinddreifingin sést vel á myndum - vindsneiðum sem við lítum á hér að neðan.

w-blogg101218a

Efst í hægra horni má sjá lítið Íslandskort - þar má sjá dregna línu norður með Vesturlandi. Þar liggur sneiðin á myndinni. Gráu svæðin neðst á henni eru Snæfellsnes og Vestfirðir. Lárétti kvarðinn sýnir breiddarstig - þau lægstu lengst til vinstri. Lóðrétti kvarðinn er í hæðina - merktur í hPa og nær frá sjávarmáli og upp í 250 hPa - (í um 10 km hæð). Litir sýna vindhraða, vindörvar vindátt (eins og um venjulegt veðurkort væri að ræða) og heildregnar línur sýna mættishita (við höfum engar áhyggjur af honum að þessu sinni). 

Kortið gildir kl.19 í kvöld, mánudag. Sjá má að gríðarmikill vindur er yfir Faxaflóa, meira en 40 m/s - af suðaustri. Þetta er lágröstin - orðin til þar sem hlýtt loft er að leitast við að ryðja kaldara burt (við sjáum þau átök reyndar á halla jafnmættishitalínanna). Núningur í neðstu lögum dregur úr vindi þar - en þessi mikli vindur gæti náð sér á strik á stöku stað niðri við yfirborð. Þetta er mjög dæmigerð landsynningsmynd - við sjáum hana ótal sinnum á hverju ári - vindstyrkur þó mjög mismunandi. Takið sérstaklega eftir því að vindur er þónokkru minni ofan við - t.d. í 3 km hæð (700 hPa).

Síðari myndin sýnir tillögu líkansins um það hvernig sama sneið á að líta út kl.14 síðdegis á morgun, þriðjudag 11.desember:

w-blogg101218b

Hér er vindhraðadreifing nokkuð önnur. Vindur er mestur uppi við veðrahvörfin - og hámerkið teygir sig í átt til jarðar sem einskonar hes. Þetta er inni í „hlýjum geira“ lægðakerfisins. Eins og áður sagði hefur enn ekki orðið til fullt samkomulag í líkönum um það hversu hvasst verður í þessum síðari landsynningi. 

Veruleg hlýindi fylgja síðari landsynningnum - rétt að rifja upp að hæsti hiti sem mælst hefur í Reykjavík í desember er 12,0 stig. Það hefur gerst tvisvar, 1997 og 2002. Slíkum hita er reyndar ekki spáð nú - úrkoma verður líklega of mikil og uppgufun hennar kælir loftið. En mættishiti í 850 hPa fer í 17 stig yfir Reykjavík (og í meir en 21 stig yfir Norðausturlandi) á morgun. - En dæmi eru um enn hærri mættishita í desember - m.a. methitadagana áðurnefndu. 


Upp á við (eða hvað?)

Við skulum nú velta okkur aðeins upp úr sólarhringsmeðalhita desembermánaðar í Reykjavík, en ekki má þó taka þessa umfjöllun mjög alvarlega því á henni eru ákveðnir annmarkar þar sem nokkuð gisk þarf til að finna hita hvers sólarhrings á fyrri hluta þess tímabils sem litið er á - við treystum því hins vegar að tilviljun sjái til þess að giskið sé ekki kerfisbundið rangt - þó rangt sé giskað á hita einstakra daga (- jæja). En aðallega til skemmtunar fyrir nördin sum sé.  

En lítum fyrst á tíðnirit.

w-blogg091218a

Hér má sjá hvernig sólarhringsmeðalhitinn dreifist. Blái ferillinn á myndinni sýnir allt tímabilið frá 1872 til 2017, tæplega fjögur þúsund og fimm hundruð daga alls. Dreifingin er ekki alveg samhverf um meðaltalið - mjög kaldir dagar eru fleiri en þeir mjög hlýju - þeir sem eru kaldara megin við miðju dreifast á 17 stig, en þeir hlýrra megin á aðeins ellefu. Um 80 prósent daga er meðalhitinn á bilinu -5,0 til +4,9 stig - og um 20 prósent daga á bilinu -1,0 til +0,9 stig. Frostmarkssækinn staður Reykjavík í desembermánuði (og reyndar allan veturinn).

Græni ferillinn sýnir sams konar talningu á árunum 1872 til 1900 en sá rauði á við fyrstu 17 ár þessarar aldar. Það hefur verið mun hlýrra nú upp á síðkastið heldur en var á fyrra skeiðinu. Nú er sólarhringsmeðalhiti ofan við 5 stig um það bil sjötta hvern dag í desember, en á því skeiði 19. aldar sem við sjáum hér var hitinn svo hár aðeins einn dag af hverjum 25 eða svo. Þetta munar miklu. Meðalhiti í desember er líka mun hærri, var -1,3 stig, en hefur á þessari öld verið +1,0 stig. Á fyrra skeiðinu var sólarhringsmeðalhitinn neðan við -9 stig um það bil 20. hvern dag  eða 1 sinni til 2 í hverjum desembermánuði. Á þessari öld hafa slíkir dagar aðeins verið tveir í desember. 

En - nú spyrja sumir: Hvað með hlýindaskeiðið mikla á 20.öld - hvernig var með það. Á árunum 1926 til 1965 var meðalhiti í desember +0,7 stig, aðeins 0,3 stigum lægri en á þessari öld. 

Síðari myndin ber saman hita þessara tveggja hlýskeiða.

w-blogg091218b

Lárétti ásinn sýnir hita - eins og á fyrri myndinni, en súlurnar eru mismunur tíðni sólarhringshitans á þessum tveimur hlýskeiðum. Séu gildi jákvæð hafa þau verið algengari á þessari öld heldur en á fyrra hlýskeiði. Skiptingin er nokkuð undarleg. Dagar þegar sólarhringsmeðalhiti er yfir 5 stig hafa verið algengari nú en þá - eins og áður sagði er nú sjötti hver dagur svo hlýr, en á árunum 1926 til 1965 var tíundi hver dagur hlýr. Dagar með hita um og rétt yfir frostmarki eru færri nú en var - en aftur á móti er -2 til -4 stiga frost nokkuð algengara - og dagar þegar sólarhringsmeðalhiti er lægri en -7 stig eru helmingi færri nú en var á fyrra hlýskeiðinu. - Lóðréttu línurnar á myndinni sýna meðalhita tímabilanna tveggja (rétt eins og á fyrri mynd). 

Hlýjastur desemberdaga (hæstur sólarhringsmeðalhiti) í Reykjavík 1871 til 2017 er sá 14. árið 1997, þá var meðalhitinn 10,2 stig, næsthlýjastur var sá 10. árið 2001. 

Kaldastur var annar í jólum árið 1880, þá var sólarhringsmeðalhitinn -16,3 stig. Sá kaldasti í minni núlifandi manna er í 6.sæti á listanum með -14,1 stig. Það var sá 28. árið 1961. Kaldastur á þessari öld var sá 5. árið 2013, meðalhiti -10,6 stig, næstkaldast var á þorláksmessu árið 2004, meðalhiti -9,5 stig. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a
  • w-blogg110424b
  • w-blogg110424b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 102
  • Sl. viku: 1781
  • Frá upphafi: 2347515

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1534
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband