Bloggfærslur mánaðarins, desember 2018

Af árinu 1890

Árið 1890 þótti hagstætt, enda var meðalhiti í Reykjavík 4,3 stig, í meðallagi áranna 1961 til 1990 og 3,8 stig í Stykkishólmi. Fjórir mánuðir ársins teljast hlýir [febrúar, apríl, maí og desember] en fimm kaldir [mars, júní, júlí, ágúst og október]. Júní var kaldastur að tiltölu enda gerði þá óvenjuillskeytt hret í upphafi mánaðarins - mikil vonbrigði eftir hlýjan maímánuð. Eftir fréttum að dæma var ekki mikið um tjón af völdum veðurs á árinu (eftir því sem algengt var á þessum árum) og mannskaðar á sjó og landi með minnsta móti af völdum veðurs. 

Hæsti hiti ársins mældist á Akureyri þann 26.maí, 23,8 stig. Landshámarkshiti í júní var hins vegar ekki nema 17,8 stig - mældist sá hiti í Möðrudal þann 18. Hlýir dagar komu hins vegar bæði í júlí og ágúst. Mesta frost ársins mældist í Möðrudal þann 28.janúar, -25,2 stig. Þann 3.júní mældist -6,9 stiga frost í Grímsey, það mesta í byggð hér á landi í þeim mánuði. 

Í Reykjavík finnast 9 mjög kaldir dagar, 7. til 9. mars, 2. til 5.júní, 28.júlí og 30.september. Enginn dagur telst mjög hlýr á árinu í Reykjavík. Á óformlegum lista um meðalhita einstakra daga í Reykjavík er 3.júní 1890 í neðsta sæti júnídaga frá 1872 að telja. Meðalhiti hans reiknast 1,6 stig, næstkaldastur á listanum er 7.júní 1997 - dagur sem margir muna - meðalhiti þá var 1,8 stig. Hugsanlega var enn kaldara 5. júní 1851 - meðalhiti þess dags reiknast 0,6 stig í Reykjavík - við sinnum þeim degi vonandi síðar í þessum árapistlum.

ar_1890t

Myndin sýnir kuldaköstin miklu í mars og í júníbyrjun vel - þau skera sig úr tíð sem almennt er fremur hlý á fyrri hluta ársins. Lítið var um mikil sumarhlýindi og eftir miðjan september voru næturfrost tíð. 

ar_1890p 

Þrýstingur var lengst af mjög lágur í janúar, sá næstlægsti í þeim mánuði frá upphafi samfelldra þrýstimælinga 1822. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Vestmannaeyjum þann 12.janúar, 943,9 hPa. Þrýstingur í Reykjavík fór líka talsvert neðar en myndin sýnir - að kvöldi þess 12. Hæstur mældist þrýstingur á árinu á Akureyri 1051,6 hPa og hefur ekki oft mælst hærri hér á landi. 

Árið var fremur þurrt í Reykjavík, ef trúa má mælingum, og minni úrkoma mældist þar heldur en í Stykkishólmi. Úrkoma var meiri í Vestmannaeyjum en hún hafði þá verið frá upphafi mælinga (1880) og varð ekki meiri fyrr en 1908. 

Eins og venjulega má finna ýmsar tölulegar upplýsingar í viðhenginu, meðalhita mánaðanna á öllum veðurstöðvum, úrkomumagn og fleira. En eins og vant er látum við blöðin að mestu um að lýsa viðburðum. 

Ísafold tekur saman tíðarfar á árinu 1890 þann 3.janúar 1891

Í byrjun ársins voru jarðleysur og fannkomur yfir allt land, en frost lítil. Hélt þessari veðurátt áfram allan janúarmánuð, en í febrúar fóru að koma blotar öðru hvoru, og tók þá talsvert upp snjó í sumum sveitum, enda orðin auð jörð sumstaðar sunnanlands í öndverðum marsmánuði. Í Skaftafellssýslu og á Austfjörðum tók snjó að leysa í janúarmánaðarlok, og gerði þar alautt og nema í hinum efri sveitum. Eftir það gerði talsvert ihlaup framan af mars með 16° frosti hér syðra hinn 8. og 9., er var hæst frost á vetrinum, og eins í Eyjafirði. Eftir 20. mars komu þíður og leysti allan snjó af jörð. Hélst sama blíðviðri um land allt til maímánaðarloka, en 1.-7. júní gerði íhlaup með norðanveðri og fannkomu niður undir byggðir, en þar eftir besta tíð allan júnímánuð á enda, með þerri og heiðríkju; héldust þurrviðri um land allt fram undir lok júlímánaðar; brá þá til rigninga fram í lok ágústmánaðar, og héldust votviðri úr því með litlum uppskotum dag og dag til októbermánaðarloka. Tók þá að snjóa, og eftir það voru sífeldir umhleypingar, en lítil frost það sem eftir var ársins.

Vegna þess, hve snjó leysti snemma, tók jörð að grænka fyrir sumarmál, og voru víða komnir bestu hagar í fardögum. Leit því út fyrir ómuna-góðan grasvöxt, en þá kom fardagahretið og þurrkarnir, og hnekkti það grasvexti svo mjög, að hann varð naumast meira en í meðallagi, og sumstaðar varla það. Sláttur byrjaði almennt í 11. viku sumars, en sumstaðar hröktust töður, þar sem sláttur hófst seint, og mestallt hey, er var á engjum eftir höfuðdag, náðist ekki nema hrakið, og á sumum mýrajörðum tapaðist hey algjörlega í haustrigningunum. Talið er þó, að verið hafi almennt meðalhaust, en þá fór að verða þar allgóður afli, þá sjaldan gæftir voru. Laxveiðar voru fremur litlar, jafnvel ómunalitlar í Þjórsá og Ölfusá. Hvalveiðamennirnir norsku veiddu 200 hvala á Vestfjörðum þetta ár.

Fréttir frá Íslandi [1890]:

Í febrúarmánuði varð vart við hafíshroða fyrir Horni og skömmu síðar (6. mars) rak nokkurt hrafl af honum inn á [Djúp], en hann hvarf þaðan aftur áður langt um liði, austur með landi, enda varð hann hvergi landfastur úr því, en fram í lok ágústmánaðar voru þó við og við ísspengur á reki fyrir norðan land, eigi meir en 3-6 mílur [væntanlega danskar] undan ystu annesjum.

Landskjálfta varð vart á nokkrum stöðum 2. og 7. mars, 4., 26. og 28. maí, 28. okt. og 22. nóv., allsnarpir kippir sumir hverjir og hlaust þó hvergi tjón af, svo að kunnugt sé orðið. Um og fyrir áramótin varð á ýmsum stöðum í Norður-Múlasýslu vart við umbrot nokkur norðan í Vatnajökli og um sama leyti tóku ár þær, er þaðan falla, Jökulsá á Dal og Jökulsá í Fljótsdal, að verða jökullitaðar og bera með sér meiri leir en venja er til um það leyti, og er á leið veturinn tóku að heyrast dunur og dynkir inn til jökulsins og í 14. viku sumars gerði jakaferð mikla í Jökulsá á Dal. Þá er að var gáð, sást að jökullinn hafði sprungið fram á 6 mílna löngu svæði og enn austar á 1 mílu svæði og jökulyturnar hrapað niður á láglendið fyrir neðan jökulinn; en jökulröndin að framan var á að giska 30 faðma há. Það eru nær 80 ár síðan jökullinn hefir hlaupið á þessu svæði. [Mikið framhlaup varð í Brúarjökli].

Janúar: Snjóþyngsli, mest sunnan- og vestanlands, umhleypingar miklir.

Ísafold lýsir tíð þann 8.janúar:

Frá því með jólum hafa verið jarðleysur, og því innistöður fyrir allan pening víðast eða allsstaðar hér um Suðurland, vegna fannkomu og hrakviðra; en frost lítil.

Þann 15.segir blaðið:

Snjóasamt er mjög enn hér syðra; jarðlaust yfir allt. Rjúpa flúin ofan að sjó. Rjúpnadráp með mesta móti sunnanlands.

Ísafold birti þann 25.janúar bréf úr Barðastrandarsýslu „sunnanverðri“ dagsett þann 9.:

Með byrjun þessa árs stöðugri norðanátt og fyrst með kóf-köföldum. Hinn 5. þ.m. norðankafaldsbylur með hvassviðri, sem þó ekki stóð nema á annan sólarhring, síðan gott og stillt veður til þessa; og heldur má tíðin heita mild, það sem af er vetrinum, því engar frosthörkur hafa komið ennþá.

Í sama blaði er bréf úr Húnavatnssýslu, dagsett þann 12.:

Vel skildi gamla árið við hér um slóðir. og vel byrjar hið nýja að því leyti, hvað frost eru enn lítil, en nú er kominn talsverður snjór, og hann illa gerður vegna rosablota núna í gær, svo að jarðskarpt er fyrir sauðfé, en hross hafa enn víðast hvar næga jörð; ... Reyndar eru nú illviðrakrákurnar sem óðast að spá hafískomu, vegna þessara þrálátu útsynninga, sem hér hafa gengið i vetur; en þeir hafa ekki verið meiri í vetur en þeir voru framan af í fyrra, og kom þá þó enginn ís.

Þann 26.febrúar birti Ísafold bréf úr „vestanverðri“ Barðastrandarsýslu, dagsett 18.janúar:

Síðan ég skrifaði 12. f.m. hefir alltaf haldist hin sama óstillinga- og rosa-veðrátta með sífelldum stormum og úrfellum á landi, en brimum til sjávar; en ávallt hefir verið mjög frostvægt, og oft nokkur hiti; hæst frost 28. f.m., og þó að eins 7—9°R. Fram að sólstöðum skiptist alltaf á snjór og regn, og tók því þann snjó, sem féll fram að þeim tíma, jafnóðum upp aftur, svo hagar héldust nægir fram undir jól, enda þótt gefið væri miklu fyrr eða litlu eftir veturnætur á léttingsjörðum, meðfram sökum hrakviðranna. Um jól og fram af því dreif snjó á jörðu, og um það leyti gjörði blota, alveg haglaust fyrir allar skepnur svo að segja allstaðar, og hefir það haldist síðan. Nú sem stendur er fjalfella yfir allt, mikill snjór á jörðu, og margsambræddur af sífelldum blotum. Mest snjóaði 13. þ.m.; var norðandrífa allan þann dag, svo djúp lausamjöll lá ofan á gamla snjóinn daginn eftir (15.), og var þá illfært um jörðina. Aftur hefir nýr bloti sett þann snjó allan í hellu, svo nú er dágóð færð, þó broti sumstaðar.

Fjallkonan birti 25.febrúar bréf úr Suðursveit, dagsett 18.janúar:

Frá miðjum nóvember hafa ýmist verið stórrigningar eða hríðar, frost lítil og þrumuveður tíð. Haglaust síðan um nýár.

Jónas Jónassen segir frá snörpum umhleypingum og órólegu veðri - og tekur eftir því hversu óvenjulágt lofvogin stendur dögum saman:

15. janúar: Laugardaginn [11.] var hér landsunnan rigning síðari part dags, gekk svo aðfaranótt hins 12. í útsuður, ákaflega hvass. Svo til austurs með kafald seinni part h.12. og síðast um kveldið til norðurs, en svo þegar aftur í útsuðrið með éljum, og hefir verið við þá átt síðan með hægð. Loftþyngdarmælir komst mjög lágt að kveldi h. 12. (708,7. mm = 944,9 hPa]). Í dag, 15., hvass á austan með byl að morgni síðan rigning.

18.janúar: Miðvikudaginn [15.] fór að rigna um hádegið og gekk þegar aftur í útsuður með éljum, og sama veður var hér h.16. Hinn 17. var hægð á veðri og var rétt logn síðari part dags og bjart veður. Í morgun (18.) bjart og fagurt veður, landnorðan, rétt logn. Í síðustu 10 árin hefur loftþyngdamælir aldrei vísað eins lágt eins og nú um langan tíma, og lítið vill hann hækka enn.

En viku síðar er rólegra:

25.janúar: Undanfarna daga má heita að hér hafi verið logn daglega og heiðskírt og fagurt veður; til djúpa hæg norðankæla. Jörð hjer nú hvívetna alþakin snjó og klaka.

Þann 24.janúar segir Þjóðviljinn á Ísafirði frá veðri og sjóskaða:

Í tíðinni er enn sami óstöðugleikinn, og 15. þ.m. gerði allt í einu mesta áhlaupaveður af norðaustri rétt fyrir dagmálin, en besta veður hafði verið um nóttina og fram á morgun, svo að almenningur reri, en allir urðu að hleypa frá lóðum til að forða sér í land. Mannskaði varð þá og frá Hnífsdal, fórst fjögramannafar tilheyrandi útvegsmanni Edv. Asmundarsyni á Ísafirði, er Guðbrandur Einarsson var formaður fyrir; fórust þar tveir menn, unglingspiltarnir Stefán Þorsteinsson frá Arnardal og Hannes Kárason frá Ísafirði, en formanninum og bróður hans, Magnúsi Einarssyni, varð bjargað af Guðmundi bónda Pálssyni í Fremri-Hnífsdal, er var á siglingu þar nálægt, og sá er seglið hvarf allt í einu á bát Guðbrandar; hafði Guðm. Pálsson haft þá forsjálni - sem annars má heita hér óþekkt —, að hafa olíu með sér á sjóinn, og kom það honum að besta liði við björgunina.

Skemmdir á bátum urðu töluverðar hjá sjómönnunum í Bolungarvík greindan dag, með því að lendingin er þar afleit í norðanveðrum; tvö skip mölbrotnuðu við lendinguna, og 9 skip löskuðust meira og minna, en menn náðu þó allir farsællega landi.

Á Steingrímsfjarðarheiði er talið, að úti hafi orðið fyrir rúmri viku síðan vinnumaður frá Tröllatungu; hafði hann fengið fylgd upp í heiðina frá Lágadal, en var ekki kominn fram 4 dögum síðar, er fregnir bárust að norðan; hafði hann verið ókunnugur veginum, og er ætlað, að hann hafi villst, með því að ferðamenn, er síðar fóru um heiðina sáu spor liggja út af veginum; en vegna óveðurs og myrkurs gátu þeir ekki fylgt sporunum, sem þurft hefði.

Þjóðólfur birti þann 31. bréf af Eyrarbakka dagsett þann 26.:

Síðan stillti til eftir nýárið hefur hér viðrað hægum norðankulda, mest hefur frostið verið 7 stig á R.; hér við sjóinn er snjór mjög litill á jörðu en þó haglaust fyrir allan fénað, til uppsveitanna er kvartað yfir snjóþyngslum og hagleysum, enginn heyrist tala um heyskort, enda væri það snemmt eftir þvílíkt heyskaparsumar, enda var fénaðarsala hér úr sýslu með mesta móti, eins og víða annars staðar; að vísu munu lömb vera hjá flestum með langflesta móti, en þau taka upp mikil hey, sérílagi nú, þar sem hey eru að sögn mjög létt og áburðarfrek.

Þjóðólfur birti þann 28.febrúar bréf úr Norðurmúlasýslu, dagsett 27.janúar - nokkuð óvenjulegt má telja að kvartað sé undan snjó í útsynningi þar eystra:

Árið byrjaði með harðindum, útsynnings-bleytusnjóum. Jarðlaust í öllu Fljótsdalshéraði og í Fljótsdal, sunnan með austursíðu Héraðsins kyngi af snjó, en snjógrunnt yst á Héraðinu, því að þar rigndi lengur.

Febrúar: Erfitt tíðarfar um sunnan- og vestanvert landið, en jörð varð alauð í lágsveitum nyrðra og eystra.

Þjóðólfur lýsir tíð í febrúar:

[7.] Tíðarfar alltaf mjög milt, en umhleypingasamt fremur; oftast útsynningar; í fyrradag hláka með ofsastormi, en i fyrrinótt frysti aftur, svo að ekkert gagn varð að þeirri hláku, en nú er komin hláka aftur.

[14.] 10. þ.m. var hér asahláka komu þá upp nokkrir hagar í lágsveitum, en tók þegar fyrir þá aftur, með því snjó miklum kyngdi niður eftir hlákuna.

[21.] 18. þ.m. gerði góða og hagstæða hláku, sem haldist hefur síðan; hefur mikið tekið upp í þessari hláku, og hagar komnir í lágsveitum.

[28.] Með póstum, sem nú eru allir nýkomnir, er að frétta mjög óstöðuga tíð víðast á landinu og hagleysi, ... Hér hélst hlákan, sem nefnd var í síðasta blaði, til 26. þ.m.; síðan blíðviðri. Sunnanlands allstaðar komin upp góð jörð og autt í lágsveitum; vonandi er, að svo sé nú einnig orðið um land allt. Austur á Rangárvöllum kvað vera búið að sleppa fullorðnu fé á stöku stað, sem mundi þykja furðudjarft fyrir norðan.

Þjóðviljinn segir einnig af umhleypingum vestra:

[4.] Umhleypingasamt enn, en þó voru sjógæftir öðru hvoru næst umliðna viku.

[12.] Einlægar hríðar ganga, með fannfergju og skafmold annan daginn, en hellirigning hinn daginn, og hefir svo gengið oftast frá þorrabyrjun.

[25.] Þó að þorri væri meiri partinn harður í horn að taka, blési í skeggið og kyngdi niður snjókynstrum, kvaddi hann þó blíðlega, með því að síðasta hálf önnur vikan var einmuna góð.

Ísafold birti þann 15.mars bréf úr vestanverðri Barðastrandarsýslu, dagsett 19.febrúar:

Sama harðindatíðin hélst þangað til þessa daga, en nú er komin hagstæðasta þíða, +5°R. Hagar komnir upp í gær. Veðrið orðið stillt og blítt, eftir hina langvinnu rosa, sem enduðu með byljum annan daginn, en blotum á milli ; en ávallt var frostið jafnvægt. Á sumum útbeitarjörðum var farið að verða þröngt um hey, en á gjafajörðum mundu flestir hafa staðið til sumarmála, enda hafa nú allar skepnur staðið víðast við fulla gjöf síðan um jól, og sumstaðar síðan eftir veturnætur.

Fjallkonan segir þann 18.febrúar:

Haglaust er nú víðast á Suðurlandi, einkum vegna áfreða, og hefir svo verið síðan fyrir jól. Snjór þó ekki mikill, nema upp um Borgarfjörð og Mýrar og allt norður á Holtavörðuheiði. Fyrir norðan var snjólítið er síðast fréttist, og víða snjólaust (í Skagafirði og Húnavatnssýslu) og besta tíð. Það er því ranghermt, sem stendur í Ísafold 15. þ. m. um jarðbann fyrir norðan.

Jónas segir frá háþrýstingnum þann 26. og veðri dagana á undan:

Laugardaginn [22.] var hér logn og dimmviðri fyrri part dags, síðan hægur vestan-útsunnan kaldi; svo hægur landsynningur, hvessti lítið eitt síðast um kveldið; h.24. var hér þokusuddi, koldimmur allan daginn, og sama veður að morgni h.25., en gekk þann dag litlu fyrir hádegi til norðurs og birti upp, en ekkert varð úr, því logn var komið að kveldi. Hér er víðast í jörðu alveg klakalaust. Loftþyngdarmælir hefir aldrei staðið eins hátt og í morgun, h.26., nema 1883 6.mars og 1887 10.mars; kemst eigi hærra á mínum mæli. Í morgun hægur austankaldi.

Ísafold segir frá góðri tíð undir lok febrúarmánaðar þann 1.mars:

Þíður og leysingar hafa nú staðið í hálfan mánuð lengst af. Er jörð orðin marauð víða, og besta hagbeit komin um land allt að öllum líkindum. Frost er ekkert í jörðu. Haldist þessu lík tíð það sem eftir er vetrar, má það heita framúrskarandi árgæska.

Þann 15.mars birti Ísafold bréf dagsett á Ísafirði 2.mars - er þar sagt frá febrúartíð undir lok febrúar:

Sama harðindatíðin hélst þangað til þessa daga, en nú er komin hagstæðasta þíða, +5°R. Hagar komnir upp í gær. Veðrið orðið stillt og blítt, eftir hina langvinnu rosa, sem enduðu með byljum annan daginn, en blotum á milli ; en ávallt var frostið jafnvægt. Á sumum útbeitarjörðum var farið að verða þröngt um hey, en á gjafajörðum mundu flestir hafa staðið til sumarmála, enda hafa nú allar skepnur staðið víðast við fulla gjöf síðan um jól, og sumstaðar síðan eftir veturnætur.

Í sama blaði er stutt hafísfregn frá Ísafirði:

Ísafirði 2. mars: Hafís hefir sést út af Kögri seint í febrúar. 

Þjóðólfur birti 5.apríl bréf úr Norður-Múlasýslu, dagsett 28.febrúar:

Tíðarfar hefur verið ágætt, naumast nokkurn tíma jafnsnjólitið, því varla hefur nokkru sinni lagt snjó, nema um dagana 23.-25. nóv. f.á. Hagar voru góðir fram að jólum, þá fór að skerpa að jörð i hálendum sveitum, t.d. Jökuldal, enda gerði svo mikla áfrera, að jarðlaust var að kalla ofan frá jöklum niður á mitt Hérað, en allgóð jörð þar fyrir neðan. Eru upphéraðsmenn slíku óvanir. Umhleypingar með bleytu-hryðjum héldust til þorra og var þá tekið fyrir alla jörð á Héraðinu nema bæjunum með fram Héraðssöndunum. Leituðu hreindýrin þá niður á Héraðið, og eigi er hægt að segja, að þau hafi ekkert verið áreitt. — Frá Þorrakomu voru hægviðri til 6. febr., að gekk í hláku. Voru upphéraðsmenn svo langri jarðleysu lítt vanir. Síðan hafa haldist þíður og stillingar, þar til nú síðustu dagana, að föl gerði með litlu frosti. Ávallt hafa verið mjög svo lítil frost.

Mars: Góð tíð um allt land, en nokkuð hretasamt fyrir miðjan mánuð og þá mikið frost fáeina daga.

Þann 11.mars segir Fjallkonan frá dularfullum felli á æðarfugli eystra:

Bréf úr Suður-Múlasýslu segir þann ófögnuð, að óvanalega mikið hafi drepist þar af æðarfugli, enn af hverjum orsökum vita menn ekki. „Æðarfuglinn liggur dauður um allan sjó, og fjörurnar eru þaktar fuglaræflum. Þetta horfir til hins mesta tjóns fyrir vörpin hér eystra, sem lengi hafa verið heldur að aukast", segir bréfritarinn.

Þann 1.apríl birti Fjallkonan bréf úr Hornafirði, dagsett 7.mars:

Seint i janúar og um mánaðarmótin jan. og febr. kom nokkur snjór, og hagleysur voru sumstaðar, frá því um eða rétt fyrir nýár til þess 6. febr., þá gekk í sunnanþíðu, og hlánaði þá næstu daga svo vel, að snjóinn tók gersamlega af láglendi, og síðan hefir ekki komið snjógráð. Oft rigndi mjög mikið í köflum fram eftir febr. til þess þ.21.; þá stillti til, og voru mestu blíðviðri til þess 3. þ.m., að gekk í útsunnan- og nú þessa dagana í norðvestan-storm með allmiklu frosti. Það man víst enginn eftir jafnmildri tíð og hefir verið í vetur, einkum nú seinni partinn; seint á þorranum var jörð þíð víðast hvar niðurúr, og í blíðunum í fyrstu góuvikunni lá við að vottaði fyrir gróðri.

Í Þjóðólfi þann 22. er bréf úr Vestmannaeyjum, dagsett þann 12.mars:

Veturinn hefur hér verið mildur, að því, er frost snertir, en æði storma- og skakviðrasamur með mikilli úrkomu. Snjókoma hefur varla verið teljandi, og hefur því mjög sjaldan þurft að gefa ám. Mesta næturfrost fyrir nýjár var aðfaranótt 26. nóvember -8°C. Síðan hefur eigi komið svo mikið frost, þangað til kuldakastið 4.-9. þ.m.; var frostið hér þá harðast aðfaranætur 8. og 9., liðug 11 st., á daginn 7 - 10°; varð þá að taka mikið af ám á gjöf, með því jörð var hæst og haglítil og fé farið að leggja talsvert af. Febrúarmánuður var mjög mildur, oftast með 5-8° dagshita. Sérílagi var hér blítt veður 8 síðustu daga mánaðarins með óvanalega mikilli loftþyngd, hinn 26. komst loftvogin á 786 [1047,9 hPa] og er það hin hæsta staða, sem ég hef athugað nú í 12 ár.

Þjóðólfur birti þann 14.bréf úr Árnessýslu dagsett þann 6.:

Nú er góa komin: hroðar og snjógangur. Síðasta vika þorra og fyrsta vika góu var góð: þíðviðri og leysingar; fullorðnu fé þá sleppt sumstaðar (i hagbeitarsveitunum); þá (27. og 28. febr. og 1. mars) var róið í veiðistöðunum og allstaðar fiskvart; nú tekið fyrir gæftir. Heyrst hefur, að Fljótshlíðingar (í Rangárvallasýslu) hafi misst talsvert af fé sínu á þorranum, því er sjálfala gengur á Þórsmörk; þangað eru látin um 300 fjár á hverjum vetri, er þar gengur úti; eiga menn úr Hlíðinni ítök þangað; gengur féð þar allvel fram, nema hvað sagt er, að það fari fremur seint úr ull. Nú, þegar gengið var til þess seint á þorranum, fannst sumt dautt (fennt), en sumt (um 100) alls ekki, sem talið var tapað. Mun fé ganga víða hér á landi þannig sjálfala? Heyrt hefi ég getið um villifé austur i Fljótshverfi (Núpstaðaskógi), sem náist að eins með því að skjóta það.

Ísafold segir þann 26.:

Veðrátta er nú og hefir verið um tíma, svo mild og komið væri langt fram á vor; alauð jörð um allt láglendi. Póstskipið var ferðbúið í morgun, en kemst eigi af stað fyrir rokviðri á sunnan.

Í Ísafold 3.maí er bréf úr Barðastrandarsýslu vestanverðri, dagsett 18.mars:

Hin ágæta og hagstæða hláka, sem kom í síðustu viku þorra, hélst fram í aðra viku góu, fyrst með sunnanvindi og nokkurri rigningu með köflum og allt að 5 stiga hita um hádegi (á R.), en síðan í fyrstu viku góu með mestu stillingu, því þá viku nær því alla var logn og kyrrð á landi og sjó, en aftur var þá suma daga lítið frost. í annarri viku góu tóku við allhvassir vestanstormar framan af vikunni, fyrstu 2 dagana, með 3-4 stiga hita og nokkurri rigningu, en næstu 3 daga með nokkru frosti, ... En 2 síðustu daga vikunnar var norðaustanátt, allhvasst fyrri daginn (7. mars), og líkt á sunnudaginn (9. mars). Hefur þessi norðanátt  haldist síðan allt fram á þennan dag, ýmist með nokkru hvassviðri eða nokkrum kalda, en oftar með allmiklum kulda hæst 15. og 16. þ. m.: 8—9°R. Hagar hafa ávallt verið nægir, en skepnur lítið getað oft verið úti á gjafajörðum sökum hinna sífelldu kuldanæðinga. Í dag er logn og þykkviðri að morgni (kl.7 f.m.) með 4 stiga frosti, áttin norðaustan til sjávarins.

Og Ísafold birti 12.apríl bréf úr Vopnafirði, dagsett 26.mars:

Tíðarfar hefir í vetur mátt heita hið æskilegasta, staklega frostalítið, en skakviðrasamt nokkuð. Auk nóvemberhretsins hafa aðeins komið tvö hret önnur, hið fyrra um þorrakomu; setti þá hér og víðar um Norður- og Austurland niður bleytusnjó mikinn, og urðu jarðbönn svo að rjúpur enda voru farnar að falla, og hreindýr sármögur farin að flækjast út á sveitir, og var þetta þó ekki nema rúm hálfsmánaðar skorpa. Komu nú aftur mestu blíðviðri, svo að sveitir í einni svipan urðu alauðar. Um miðgóu brá aftur til snjóa, og urðu þá frost mest á vetrinum 15°R., 2 eða 3 daga, en nú lítur aftur út sem vor ætli að byrja með vori. Í gær og í dag þó mikill bleytusnjór.

Þann 9.apríl birti Ísafold bréf utan af landi:

Eyjafjarðarsýslu (norðanverðri) 19.mars: Veturinn hefir yfir höfuð að tala verið góður hér, þó gert hafi hríðarskot annað slagið. Frostið í vetur komist hæst 13°R. (8. þ.m.). Nú um  tíma verið utan og austan hríðarstormar, og í morgun var komið hér fyrir dálítið hafísjakastangl, en þó ekkert að sjá til hafsins af honum. 

Ísafirði 23.mars: Hafíshroði kom í Djúpið 6. þ.m., og varð í nokkra daga ekki komist á sjó vegna hans að vestanverðu í Djúpinu. Kom þá um leið frostkafli, 8—10°R. ísinn er nú farinn, og síðustu dagana hefir verið góður afli í Miðdjúpinu. Hagar góðir alstaðar, víðast hvar næg hey, og skepnuhöld góð.

Barðastrandasýslu „sunnanverðri“ 26.mars: Veðrátta hér og í nálægum plássum er nú farin að verða stórgerðari en hún var fyrri part þessa vetrar. Eftir miðjan febrúar voru hér stillur og góðviðri fram undir hálfs mánaðar tíma, síðan þíðviðri og besta hláka, sem stóð fram í fyrstu viku þessa mánaðar, en í annarri vikunni gerði kófhret, sem stóð fram að hálfum mánuði. Dagana frá 12.—19. þ. m. var hér hið versta hret, og fylgdist að hvassviðri mikið af austnorðri og frá 12 -14 stiga frost á R. Síðan dró úr hreti þessu, og hefir síðan mátt heita gott veður, stundum frostlin, þíða og leysing; aftur í gær uppþot af austri, eitt af mestu veðrum sem hér koma, með kóf-kafaldi, en frost vægt; eins viðrar í dag, en dregur nokkuð úr hvassviðrinu.

Húnavatnssýslu vestanverðri 30.mars: Nú er komið vor, og að almanakstali veturinn liðinn, og hefir ekki gert vart við sig að heita má. En nú eru úr öllum áttum hafís-fréttir: mælt, að sést hafi (frá Tjörn á Vatnsnesi) spöng fyrir Húnaflóa í vikunni sem leið; nú fyrir tveimur dögum fregn um, að nokkrir jakar væru komnir inn undir Guðlaugshöfða milli Hrútafjarðar og Bitru.og Strandasýslupóstur kemur með þær fréttir, að meiri og minni hroði sé á hverjum firði fyrir utan Reykjarfjörð.

Snæfellsnesi 31.mars: Veðrátta var hér hin óstöðugasta frá því ég skrifaði síðast (8. þ.m.) og þangað til 21., oftast norðanharðneskjuveður með meiri og minni snjókomu. Síðan hefir jafnan verið landsunnan þíða og mari. Er því alstaðar hér í byggð orðið alsnjólaust, og flóar trauðla hestfærir fyrir klakaleysi. Þess vegna útlit hið besta, ef veðrátta breytist eigi því verr, því alstaðar eru skepnur gengnar undan í besta standi.

Í Ísafold 10.maí er bréf dagsett í Axarfirði þann 1.apríl:

Á þessum vetri hafa að eins komið þrjú hríðarskot: viku fyrir jólaföstu (mannskaðabylur), viku fyrir þorra og síðari hluta góu, og staðið þetta undir 1/2 mánuð; mest frost 14—16°R en aldrei staðið lengi. Á eftir hríðarskotunum hafa þegar komið bestu hlákur; oftast næg jörð. Yfir höfuð má veturinn heita afbragð í þessum sveitum, þó að dálítið væri skakviðrasamt framan af. — Hafís alls ekki sést, eða til hans spurst.

Apríl: Hagstæð tíð.

Þjóðviljinn lýsir (aðallega góðri) apríltíð í nokkrum stuttum pistlum:

[11.] Besta tíð er komin um land allt, hagar nógir, og gæftir til sjávar; landburður af fiski mátti heita í Inndjúpinu fyrir páskana [6.apríl], í Útdjúpinu fremur aflatregt.

[21.] Veðrátta má heita góð á degi hverjum, en engin hlýindatið. Aflatregt mjög hvívetna við Djúp.

[28.] Sumarmálahret gerði hér 21. þ,m., norðangarð með nokkurri fannkomu, en fremur frostlinan, 2-3 gr. R; besta veður var aftur komið 25. þ. m. Hafíshroða urðu eyfirskir sjómenn, sem hingað komu um fyrri helgi að norðan á nótabátum, varir á svæðinu milli Hælavíkurbjargs og Straumness, en þó var íshroði þessi eigi svo samfastur, að siglingum bagaði að mun; aftur segja ameríkanskir flyðruveiðamenn is töluverðan einar 3 vikur sjávar frá Straumnesi.

Ísafold birti þann 10.maí bréf úr sunnanverðri Strandasýslu, dagsett 25.apríl:

Nú nokkra undanfarna daga hefir verið norðanstormur og kuldi, oftast þó lítið frost, og snjókomur litlar sem engar. Að öðru leyti hefir tíðin verið góð og hagstæð. Þessi útliðni vetur má óhætt teljast með hinum bestu vetrum hér. Að vísu voru allmiklar úrkomur fram um miðjan vetur, en fannalög lítil og frost með minnsta móti. Eins og að líkindum lætur, talar nú enginn um heyleysi, heldur munu flestir eða allir eiga hey eftir í vor. — Í dag kom fyrsta verslunarskip á Borðeyri, til Clausensverzlunar.

Ísafold birti þann 14.maí bréf úr Skaftafellssýslu miðri, dagsett 27.apríl:

Veðrátta mjög mild og fremur vætusöm, svo grasið sprettur vel. Fyrir löngu er allur klaki úr jörðu, og mátti því vera búið að sá í kálgarða, hefðu menn komist til þess.

Fjallkonan segir þann 15.apríl frá horfelli á hreindýrum og rjúpu eystra:

Hreindýr og rjúpur féllu mjög úr hungri í Múlasýslunum síðari hlut vetrar. Hreindýr gengu út að sjó á Héraði og stöku dýr voru tekin með tómum höndum, svo voru þau orðin máttvana. Enn vegna friðunarlaganna mátti ekki drepa þau til að forða þeim frá kvalafullum hordauða. Horfellislöglögin leggja sekt við horfelli á sauðfé, enn  friðunarlögin leggja sekt við, ef hreindýr eru ekki látin horfalla. Er þetta samkvæmni?

Maí: Sérlega hagstæð tíð. Hlýtt.

Þjóðólfur segir 9.maí:

Norðanlands var um hálfan mánuð fyrir sumarmálin „norðankuldanæðingar og stundum stórhríðar á útkjálkum" er oss skrifað úr Miðfirði. — Sunnanlands hefur síðan á sumarmálum verið einmuna blíðviðri.

Þjóðviljinn segir ekki mikið af tíð í maí:

[1.] Lygnt og milt sumarveður.

[17.] 13.-15. þ.m. var norðanstormur, og snjóaði á fjöll.

[30.] Blíðviðristíðin enn söm og ágæt fyrir landið, en — til sjávarins aflaleysi svo frámunalegt innan Djúps, að almenningur verður varla fisk var.

Þann 4.júní eru í Ísafold bréf úr Suður-Múlasýslu og Meðallandi, dagsett í maí:

Suður-Múlasýslu 14.maí: Fréttalaust héðan, nema árgæska einstök; algræn jörð nú og búið allstaðar að breiða tún og farið að beita kúm út.

Skaftafellssýslu (Meðallandi) 25. maí: Um tíðarfarið þarf ég ekki að skrifa; það er alltaf hin sama ákjósanlega öndvegistíð. Þykir ekkert á bresta, utan þerrileysi er mikið. Jörð er nú svo sprottin, að menn muna ekki eftir betra. Það kann að hafa verið 1880 og einstaka ár áður, að eins mikill gróður hafi verið kominn.

Jónas segir 28.maí:

Fegursta sumarblíða viðhelst, svo að kalla logn dag sem nótt. Loftþyngdamælir hár og hreyfingarlaus. Seint um kveldið hinn 27. gekk hann til norðurs með hægð en varð þú hvass úti fyrir. Í dag 28. bjart veður, hvasst norðanveður til djúpa, hægur innfjarða.

Júní: Mjög slæmt hret í byrjun mánaðarins, en síðan besta tíð.

Ísafold segir af hreti í pistli þann 4.júní:

Aðfaranótt hins 2. þ.m. gerði hér kafaldshret á norðan. Festi að vísu ekki snjó í byggð hér, en talsvert á fjöll. Sama er skrifað austan yfir Fjall. Frost var í fyrri nótt 2 stig á C, og nú í nótt 1 stig. Helst enn norðanveður. Telja menn sjálfsagt, að hret þetta stafi af hafís, nýreknum inn á Húnaflóa; en ekkert hefir frést um það enn með sanni.

Norðurljósið á Akureyri segir 5.júní:

Afbragðs gott i vor um allt land, þó nokkuð vætusamt á Austurlandi og Suðurlandi um tíma. Gróður er kominn óvanalega mikill, enda var klaki með langminnsta móti í jörðu í vor. Mikill kuldi þó síðustu daga og nú í dag mikil snjóhríð.

Þann 11.júní birti Ísafold bréf úr Barðastrandarsýslu vestanverðri, dagsett 5.júní:

Öndvegisveðrátta hefir verið hér í allt vor; munu menn tæpast muna eftir annarri eins tíð að vorinu til eins og verið hefir hér síðan um páska [6.apríl]. Töluvert voru tún farin að litkast um sumarmál, og kúm var almennt farið að beita þrem vikum af sumri. Sauðburður hefir gengið mjög vel, og lambahöld ágæt. Að vísu hefir oftast nær verið mjög órólegt til sjávarins. Hinn 1. þ.m. breyttist veðrátta mjög, því þá gerði norðanbálviðri með köföldum, sem haldist hefir síðan. Frost hefir eigi verið um daga, en töluvert frost á nóttum, síðan veðráttan spilltist. Nú í dag er grátt í rót í byggð.

Þann 28. segir Ísafold enn frá tíð í Barðastrandarsýslu vestanverðri, nú dagsett 19.júní:

Allt vorið hefir verið hin mesta blíðviðristíð, að undantekinni vikunni eftir trínitatis eða dagana 1. til 7. júní. Þá var allsnarpur norðangarður, frost um nætur og festi snjó á fjöll en kafaldshrakningur í byggð. Þeir, sem búnir voru að sá fræi í garða, sem flestir munu hafa verið, urðu að sá að nýju eftir norðanveðrið, því moldina reif og tætti í  görðunum, þar sem veðrasamt er í þeirri átt. Veðráttan hefur, að undanteknum þessum 7 dögum, verið mjög hlý, og næstum sífelldir þurrkar, nema þessa viku hefir verið hæg væta með köflum en allt að 15 st. R mestur hiti, svo gróðrarveður er nú ágætt, sólskin milli lítilla úðaskúra, næstum alveg logn. Annars hefir hinn langvinni þurrkur hingað til dregið úr grasvextinum. Þó er jörð nú orðin sprottin í langbesta lagi, sem menn muna eftir um þetta leyti, enn betur en í fyrra, enda þótt norðanveðrið drægi nokkuð úr; þá vikuna mun svo sem ekkert hafa sprottið. Tún eru orðin vel slæg kring um bæi, alþakin sóley; ég man eigi eftir, að ég hafi séð aðra eins sóley á túnum; þegar maður sér þau úr nokkrum fjarska, eru þau öll glóandi gyllt yfir að líta. Úthagi orðinn allblómgaður upp á fjöll. Berjavísir var kominn á lyng um hvítasunnu [25.maí].

Í sama blaði Ísafoldar birtust bréf úr Norður-Múlasýslu og Skagafirði:

Norður-Múlasýslu, 15. júní: Upp úr hvítasunnuhátíðinni gjörði kuldakast og hélst við fram yfir fardaga; þ. 5.-6. snjóaði svo, að skaflar komu í byggð og kaffenni í fjöllum; þó hef ég ekki frétt að tjón hafi orðið á fé. Þetta kast varð til mikils hnekkis fyrir grasvöxt, sem áður leit út fyrir að mundi verða í besta lagi, en nú lítur út fyrir, að hann verði ekki meir en í meðallagi.

Skagafirði, 16. júní: Þær 2 vikur, sem liðnar eru af júní, hefir veðráttan verið ólík, þannig, að fyrri vikuna var veðrið mjög kalt, oftast með mesta kuldastormi a norðan og
norðaustan, og snjóaði nokkuð, einkum í fjöllum og á Fljótum. Sú vika var mjög erfið fyrir sjómenn við Drangey. þeir eigi aðeins öfluðu ekkert, heldur misstu mikið af veiðiflekum sínum.

Þjóðólfur segir þann 13.:

Hafís varð Thyra hvergi vör við, þótt líklegt sé að hann sé ekki langt undan landi.

Þann 20. birti Þjóðólfur bréf úr Vestmannaeyjum og af Rangárvöllum - þar segir af kuldakastinu:

Vestmannaeyjum 10.júní: Fyrstu 7 daga þessa mánaðar, var hér óvenjulega mikið kuldakast; kaldast var aðfaranótt hins 5., þá stóð hitamælir á 0; þá féll hér ökklasnjór. Nú er aftur komin bliða og besti þerrir.

Rangárvallasýslu (Landi), 10. júní. Síðan vetri lauk, hefur tíðarfarið verið hið besta, nema nokkuð þurrkasamt; þó gerði hér allmikið hret næstliðna viku, svo að snjóaði á fjöll í 2 nætur (2. og 3. þ.m.) alsnjóaði og gerði norðanstorm mikinn með talsverðu frosti. Þá var hér og svo mikið sandrok, að eigi sá nema fáa faðma frá sér, og mun það veður hafa aukið nokkuð sandágang á sumar jarðir hér, enda þarf varla nema dálitla golu til þess, að sandarnir séu uppi (o: þyrlist upp) þar sem sandgárar eru. í sambandi við þetta skal ég geta þess, að mikil umskipti eru orðin í Landsveit af sandeyðilegging við það, sem var og elstu menn hér muna; jarðir, sem þá voru höfuðbýli eru nú komnar allar í sandkaf og eyði, eða þá orðin smábýli, sem vart er viðunandi; þó grær á stöku stað aftur.

Þjóðviljinn segir af hretinu vestra í pistli þann 9.:

Tíðarfar mjög kalsasamt; 1.—5. þ,m., norðanhret með stórviðri og snjókomu svo hýsa varð almennt fénað. Varpið á eyjunum hér i Djúpinu, sem leit út fyrir að verða með betra móti, hefir fengið slæmt áfall í fardagahretinu; skrifað af einum varpeiganda ... : „Hér er ljótt umhorfs, hreiður mörg yfirgefin og full af vatni, mikið af fugli fennt". 

Þann 16.júlí birti Þjóðólfur bréf úr Norður-Múlasýslu, dagsett 22.júní:

Í hreti því, sem gerði fyrstu dagana af júní, gerði svo mikinn snjó, að fé fennti. En eftir það hefur verið góð tíð.

Þjóðólfur birti þann 4.júlí bréf frá Húsavík, dagsett 26.júní:

Vortíðin var hin besta sem ég man fram yfir hvítasunnu. Úr hátíðinni gerði áfelli, fyrst kulda, svo úrkomu og að lokum mikil næturfrost, sem gerði hér mikinn hnekki, einkum garðávöxtum, sem voru þá að koma upp. En síðan fyrir miðjan þennan mánuð hefur tíðin aftur verið hin hentugasta og gróður náð sér furðuvel allvíða. Skepnuhöld mikið góð.

Þjóðviljinn segir 17.júlí af „bréfi að sunnan í júní“: Grasspretta hvervetna ágæt; er sagt að Austurvöllur hafi verið sleginn 31.[maí], en í fyrra 20.[júní] og mun það hafa þótt þá mjög tímanlega“. 

Júlí: Þurrt og blítt veður. Kalt á nóttum nyrðra og þurrkar hömluðu þar gróðri. 

Þjóðólfur birti 8.ágúst bréf úr Axarfirði, dagsett 9.júlí:

Hér hefur verið einmuna góð veðrátta það sem af er sumrinu, fyrir utan helst of mikla þurrka. Grasspretta er því fremur góð, og hefði mátt vera farið að heyja fyrir hálfum mánuði, ef hin skæða veiki hefði ekki allt í einu oltið yfir, eins og árflóð. Það er naumast, að búpeningur hafi orðið hirtur á sumum stöðum, því síður að annað hafi aðhafst verið. Fáir deyja. Hafísinn er sagður kominn að Grímsey og það mikill, enda eru nú norðankælur og frost á nóttum. Gras í görðum fallið, sem menn höfðu hinar bestu vonir um, en við, sem búum við ysta haf, fáum einatt að kenna á mislyndi náttúrunnar.

Í sama blaði er einnig bréf úr Suður-Þingeyjarsýslu, dagsett 31.júlí:

Allan þennan mánuð (júlí) hefur verið kuldatíð og oft næturfrost; þetta hefur svo hnekkt og hamlað gróðri ásamt með kuldakastinu fyrri part júní, að spretta er hér neðan við meðallag til jafnaðar og sumstaðar í versta lagi. — Heyskapartíð er allgóð þó of litlir þurrkar núna um hríð.

Pistill í Ísafold þann 23.:

Tíðarfar er og hefir verið lengi í sumar mjög blítt og hagstætt. Þurrkar heldur miklir til skamms tíma, varla komið deigur dropi úr lofti í sumum héruðum landsins frá því um fardaga, að hretið gerði; hefir það hvort tveggja, kuldinn þá og þurrkarnir síðan, hnekkt mikið grasvexti, sem hefði að öðrum kosti orðið mesta fyrirtak, og er þó mjög góður eigi að síður í sumum sveitum. Bæði sakir veikindanna og seinnar grassprettu víða af þurrkunum hefir sláttur eigi byrjað almennt fyrr en í 11. viku sumars eða fullar 11 vikur af. Nú um síðustu helgi [19. til 20.] gerði hér vætu 2—3 daga, sem bætti talsvert grasvöxt.

Ágúst: Nokkuð votviðrasamt en annars góð tíð.

Ísfréttir birtust í Ísafold þann 13.ágúst:

Hafís varð Thyra vör við nú fyrir Ströndum, spöng allvæna, 2-3 mílur undan landi, úti fyrir Húnaflóa, og hrafl lítilsháttar við land innar. Úr Fljótum (Skagafirði) er Ísafold skrifað 3. ágúst : „Hákarlamenn eru nú að koma upp aflalausir og segja hafísinn breiða sig yfir allt Strandagrunn, vera 3 mílur undan Horni og 6 mílur undan Skagatá“.

Í sama blaði Ísafoldar er bréf úr Barðastrandarsýslu vestanverðri og tvö úr Skagafirði:

Barðastrandarsýslu vestanverðri 6. ágúst: Sama góðviðris- og hlýindatíð helst enn í dag, en nú um nokkurn tíma hefir verið nokkur rigning með köflum, svo töður liggja enn á túnum að nokkru leyti. Um miðjan júlí voru mjög miklir hitar, allt að 16°R. eða meira í skugga um hádaginn, og langvinnir þurrkar langt fram í mánuðinn. Kringum hinn annan var mikil rigning. Hinir miklu þurrkar á vorinu og fram á slátt drógu mikið úr grasvextinum, svo tún hafa orðið miklu verr sprottin en út leit fyrir í vor, og verða töður að líkindum alls eigi meiri en í meðalári eða vel það, sumstaðar í lakasta lagi, helst á harðlendum túnum. Víða hefir brunnið til skaða af túnum. Slátt hefði verið mátulegt að byrja 9 vikur af sumri. Eftir það gerði grasið eigi annað en skrælna. En þá voru menn almennt enn í veri, og gat sláttur sökum þess eigi byrjað víðast fyrr en vant er. Yfir engjum kvarta margir líka, þótt sagt sé, að þær séu sumstaðar góðar.

Skagafirði (miðjum) 6.ágúst. Veðurátta mjög góð allan júlí, óþurrkar nú um tíma, og hey undir skemmdum; gras sprottið í meðallagi yfir höfuð.

Skagafirði (Fljótum) 3. ágúst: Nú í mánuð óþurrkasamt og töður farnar að hrekjast, enda kvað hafísinn ekki langt í burtu. Lítið um fisk þegar róið er, en hafsíld að koma þessa dagana upp að landinu, veður þó lítið ofan sjáfar enn sem komið er.

Bréf, dagsett í Barðastrandarsýslu „sunnanverðri“ 19.ágúst birtist í Ísafold þann 27.:

Veðurátt þurrkasöm og heldur köld í júnímánuði, þó stöku dag væri sumarhiti, frá 20-30 st. á R. móti sól, og hélst það fram í miðjan júlí, oftast austnorðan. Þó veðrið stöku sinnum gengi til suðurs, stóð það ekki lengur en einn eða á annan dag; þá norðan aftur. Eftir miðjan júlímánuð brá heldur til sunnanáttar og óþurrka með talsverðri úrkomu á milli. Síðast í mánuðinum voru þó góðir þerridagar, svo almenningur náði inn töðum að nokkru, og á stöku býlum alhirtu menn hana. Framan af þessum mánuði óþerrar og stundum mikil úrfelli, oftast landsunnan eða útsunnan. Um miðjan þennan mánuð, 14.-15., var austnorðan slag- og stórviðri. Síðan þerrir og gott veður þessa daga, sem mönnum er mjög hagfellt því allur engjaheyskapur er úti og sumstaðar nokkuð af töðum líka, þar lítið hefir náðst inn nú í 3 vikur. Grasvöxtur varð á túnum í góðu meðallagi. Sumstaðar fór þó að brenna af í þurrkunum, því of seint var farið að slá, ekki fyrr en í miðjum júlí, og orsakaðist það af veikleika fólks af kvefsóttinni, sem þá geisaði hér um pláss. Engja-grasvöxtur var miður, þar til votviðrin komu eftir miðjan júlímánuð; hafa þær mikið sprottið síðan, svo nú mega þær líka heita í góðu lagi, og gengur nú heyskapur vel áfram hjá fólki, og óhrakin hey nást nú öll inn þessa daga.

Þjóðviljinn segir frá tíð síðari hluta ágústmánaðar:

[23.] Tíðarfarið hefir verið mjög vætusamt undanfarinn tíma, svo að úthey hafa nýst fremur illa hjá almenningi; sérstaklega hefir í sumar verið votviðrasamt á Hornströndum, svo að tún voru þar óvíða nema hálfhirt í 17. viku sumars.

[30.] Tíðarfarið er mjög kalsalegt þessa daga, norðan kuldanæðingar og föl á fjöllum.

September: Mjög votviðrasamt á Suður- og Vesturlandi og spillti heyjum. Betri tíð nyrðra.

Þjóðviljinn skautar yfir septembertíðina:

[11.] Undanfarna daga hefir verið hér suðvestan stormur með töluverðri úrkomu og 9. þ. m. snjóaði og varð jörð hvít rétt ofan að byggð.

[19.] Tíðarfar hefir verið óstöðugt og rosasamt undanfarna daga.

[29.] Tíðarfar fremur kalsa- og næðingasamt á degi hverjum, og aðfaranóttina 25.þ.m. snjóaði, svo að jörð varð hvít í byggð.

Norðurljósið á Akureyri segir þann 19.september:

Tíðarfar hefir verið vætnsamt nú að undanförnu. 15. þ.m. alsnjóaði hér um sveitir, en frost hafa enn ekki orðið mikil. Sökum dimmviðurs og snjóa fjallskiladagana munu fjárheimtur manna ekki hafa orðið vel góðar.

Ísafold birti 1.október bréf úr Barðastrandarsýslu sunnanverðri og Þingeyjarsýslu, dagsett í september:

Barðastrandarsýslu sunnanverðri 14.sept. 1890: „Veðurátt góð seinni part ágústmánaðar, eins og hún hefir mátt heita í allt sumar, þó heldur óþurrkasöm. Seinustu dagana af ágúst náðu allir búendur inn öllu heyi sem laust var, því þá daga var góður þerrir. Aftur byrjaði þessi mánuður með votviðrum og sunnanátt. Stundum hefir verið mikil rigning, og helst óþerratíð enn, svo viða eru nú meiri og minni hey úti. Verður nú bráðlega hætt heyskap hér um pláss, og hefir hann staðið í sumar í 9 vikur. Heyföng mega heita í góðu meðallagi, ef næst inn í garð það sem úti er, ekki mikið skemmt. Það mun láta nærri og teljast svo til, að hér um pláss hafi fengist eftir hvern gagnlegan mann til heyvinnu samanlagt eftir karl sem konu frá 80-100 þurrabands-hestar af töðu og útheyi, og mun það ekki fást hér nema í allgóðu grasári. — Sumstaðar i Strandasýslu er sagður fyrirtaks-mikill heyfengur vegna meiri grassprettu þar en sunnan fjallgarðs þess, er að skilur sýslur þessar, því hægviðri eru þar oft á á vorin. þegar hér eru norðan-næðingar, sem spilla gróðri og grasvexti, eins og stundum kom fyrir hér í vor.

Þingeyjarsýslu, 17. sept. 1890: Vor og sumar geta eigi annað en góð heitið. Að vísu gjörði kuldakafla um fardagaleytið nokkuð langvinnan. Og hundadagar allir voru fremur kaldir og úrfellasamir. Spretta varð í meðallagi, - lakari en í fyrra, sökum vorkulda og þurrka. Nýting má heita að hafi orðið góð. Afli hefir oftast verið dágóður allt sumarið í þessu héraði. Kaupfélagsverð ekki enn orðið kunnugt, heldur en vant er.

Þann 15.október eru í Ísafold fréttir úr vestanverðri Barðastrandarsýslu, dagsettar 12.september:

Síðan á leið túnasláttinn hefur yfir höfuð verið stillt og gott veður, en oftast þerrilítið, þótt sjaldan hafi verið miklar rigningar. Fram úr miðjum ágústmánuði kom þó góður þerrir, og náðu menn þá almennt því, sem óhirt var af töðum. Það, sem liðið er af þessum mánuði, hefir varla nokkur dagur komið þurr til enda. Nóttina milli 7. og 8. þ.m. var aftaka-sunnanrok og einhver mesta rigning, sem kemur. Dagana fyrir og eftir var og hvasst. Aðfaranótt hins 9. snjóaði á fjöll og þann dag var norðvestankrapi, og hiti eigi meiri en 2-4°R. Næstu nótt fraus dálítið. Annars hefur yfir höfuð verið hlýindaveðrátta, þetta um 10-12° um hádegi; mestur hiti dagana 14. og 18. f.m.: 13 og 14°R., og 2. þ. m. 14°. En síðan hinn 7. hefur yfir höfuð verið kaldara í veðri. Í dag er suðaustan stormur og mikil rigning, en þó um 8° hiti um hádegi. 

Þjóðólfur birti þann 24.október bréf úr Skagafirði, dagsett 26.september:

Sumarið má nú heita að sé liðið, og verður ekki annað sagt, en að það hafi verið vel í meðallagi, að því er heyskap og tíðarfar snerti. Töður urðu með mesta móti, líkar og í fyrra; útheyskapur ekki nærri eins, einkum sökum sneggju víða og fremur óhagstæðrar tíðar (óþurrka), einkum seinni part sláttarins. Svo gjörði það og talsverðan hnekki á heyskap margra, að hér kom ofsastormur hinn 8. þ.m. og fauk þá mikið af heyi, sem úti var, og fólk tafðist mjög frá heyskap við það, að hafa saman fokdreifarnar. Margir misstu alveg þetta frá 30 og allt upp að 100 hestum af heyi, svo skaðinn hefur mátt heita stórkostlegur alls yfir. Hey þau, sem til eru, munu þó vera með meira móti, sökum þess að flestir áttu gömul hey til muna.

Október: Nokkuð votviðrasamt.

Ísafold segir þann 15.frá tjóni í þrumuveðri:

Í þrumuveðrinu mikla 10. þ.m. að morgni sló elding niður í fjárhús á Bjólu í Rangárvallasýslu. þakið sviptist af húsinu, 60 kinda húsi, vænu, og annar gaflinn hrundi. Skepna var engin inni. Grjóthellur voru í áreftis stað, sem tíðkast þar um pláss, og tvíþakið yfir torfi, en viðir allsterkir undir.

Jónas segir líka frá þrumuveðrinu - það gekk líka yfir Reykjavík:

[11.] Undanfarna daga má heita að rignt hafi dag og nótt af austan-landsuðri og suðvestri, aðfaranótt h.10. var óhemju-rigning af sunnan útsuðri og þrumuveður undir morgun og haglél; síðast kveldið h.10. gekk hann til vesturs-útnorðurs með hægð. Í dag 11. logn, allbjartur, með suddaskúrum á milli.

Þjóðólfur birtir þann 24.október bréf úr Rangárvallasýslu, dagsett þann 14.:

Hér helst hin mesta ótíð. Rigningar og slagveður nálæga á hverjum degi, svo að fólk getur ekki verið við nein útiverk. Hey eru enn þá úti síðan í ágúst. Nokkuð náðist illa þurrt og illa útleikið um réttirnar, en nokkuð er úti enn og má telja það alveg tapað. Það er rignt niður og orðið að for sumstaðar. Heimtur á fé þykja slæmar hvar sem fréttist. Í göngum var hið versta veður og illt að sjá fé fyrir snjó, enda líkindi til, að lömb hafi fennt á fjöllum uppi.

Þjóðviljinn segir af októbertíð:

[10.] Tíðarfarið það, sem af er þessum mánuði hafa að mestu gengið sífelld kafalds- og vætu-slög.

[31.] Tíðarfarið er orðið næsta vetraregt; 14.-25. þ.m. var öðru hvoru svört norðanhríð með töluverðri fannfergju. en þó fremur frostlint, 2-3°R.

Ísafold birti þann 12.nóvember bréf úr Strandasýslu og Húnavatnssýslu:

Strandasýslu norðanverðri 15.október: Í gær og í dag svartabylur norðan og sjógangur mikill. Hjá flestum talsvert hey úti; því um langan tíma hafa verið sífelldar rigningar varla þornað af steini. Lítið hefir fiskast og nær aldrei gefið á sjó 1 haust. Útlit slæmt með margt.

Húnavatnssýslu 26. október: Tíðin stirð. Í gær var norðanhríð og sömuleiðis í dag. Töluverður snjór kominn. Menn almennt farnir að hýsa fé.

Þjóðólfur birti þann 7.nóvember bréf úr Skagafirði, dagsett 21.október:

Tíðin hér í haust hefur verið mjög umhleypingasöm; aðfaranótt miðvikudags hins 15. okt. gjörði hér blindhríð, og mundi stórtjón hafa af hlotist, ef hríðin hefði staðið lengi, því margir áttu fé sitt óvíst, þegar hún skall á, en þ. 16. var aftur komið bjart veður, og síðan hefur verið góð tíð; nú er hér landátt og marahláka.

Í Ísafold þann 8.nóvember er bréf af Snæfellsnesi, dagsett 28.október:

Heyafli hefir víðast eigi orðið nema í meðallagi (á einstöku stað í góðu meðallagi), og veldur því mest töfin, sem inflúensan hafði í för með sér, og óhagstæð veðurátt, mjög mikil votviðri seinni part sláttarins. Færi því betur, að menn settu skepnur sínar á með gætni. En nú munu menn setja á með flesta móti í samanburði við undanfarin ár, því menn komu skepnum í flesta lagi fram í vor. Veðrafar var hið hentugasta fram eftir sumrinu, þurrkar og blíðviðri, en seinni part sumarsins og allt til þessa tíma, hefir verið mjög andstæð veðrátta, bæði til heyskapar og annarra starfa. Votviðri hafa verið rétt ómunalega mikil mestallan septembermánuð og þennan mánuð. Hefir því margt það, er menn ætluðu sér að starfa eftir réttir, alls eigi orðið gjört sökum illviðra. Húsastörfum er enn eigi full-lokið. Jarðabætur, sem menn ætluðu sér að gjöra frá réttum og fram á veturnætur, hafa mjög víða farist fyrir af sömu ástæðum.

Jónas segir frá þann 25. og 29.október:

[25.] Hinn 22. var bráðviðri af suðri og hélst fram undir morgun h 23; lygndi svo og varð hægur á útsunnan; gekk svo til vesturs-útnorðurs h. 24. og var hvass með brimi þann dag fram undir miðjan dag, er gjörði logn með ofandrífu um kveldið, svo hér varð alhvít jörð. Í morgun (h. 26.) hvass á norðan með skafrenningi, annars bjartur, rokhvass út í flóa.

[29.] Allan laugardaginn [25.] bráðhvass á norðan; næsta dag útsynningur með éljum og brimhroða; gekk svo meir til suðurs og rigndi allan daginn h. 27. óhemju rigning um. kveldið; var svo hægur á suðvestan að morgni h. 28. gekk til útnorðurs með hroða um miðjan dag; og til norðurs síðast um kveldið. Í dag 29. hvass á norðan, bjartur. Aðfaranótt h.28 var hér vart við nokkra jaröskjálftakippi er á leið nóttina og var síðasti kippurinn snarpastur (kl. rúmlega 7 um morguninn).

Nóvember: Óstöðug en fremur hagstæð tíð.

Þjóðviljinn lýsir nóvembertíðinni:

[8.] Veðráttan er einatt mjög stirð, sífelldir stormar og umhleypingar, en frost lítil; mesta fannfergja og ófærð komin á heiðum. Af Hornströndum er sögð aftakaótíð stöðugt síðan með októbermánaðar byrjun, og frost þar nyrðra mjög mikil.

[20.] Tíðarfar enn mjög umhleypingasamt en fremur milt veður; hefir snjóa leyst í byggðum, svo að hagar eru nógir.

]28.] Tíðarfarið er enn mjög óstöðugt, ýmist slyddur og stormar ... og lítilfjörlegt frost. Kyrrð og hreinvíðri fágæt.

Þann 5. gerði allmikið landsynningsveður. Þjóðólfur sagði frá því í nokkrum smápistlum:

[7.] Í ofsaveðri í fyrradag sleit hér upp af höfninni þiljubát frá Merkinesi í Höfnum. Á honum var Sigurður Benediktsson, gamall maður frá Merkinesi og 2(?) aðrir. Bátinn rak vestur í flóa, og vita menn enn ekki, hvort hann hefur af komist eða farist.

[14.] Í ofsaveðrinu 5. þ.m. sleit upp skip í Borgarnesi á Mýrum; það var kaupskip, nýkomið frá útlöndum, hlaðið vörum til Thor Jensens; hafði litlu verið búið að skipa upp úr því og var talið víst, er síðast fréttist, að það yrði að strandi. Veður þetta gerði og nokkrar skemmdir á Mýrunum, bátar og hey fuku. — Þiljubáturinn, sem þá rak burt hér af höfninni með Sigurð í Merkinesi og 2 aðra, eins og sagt er frá í síðasta blaði, komst vestur á Mýrar; sást þar úti fyrir morguninn eftir; var mönnunum af honum bjargað af Jóni bónda Oddssyni á Álftanesi. Þiljubátinn rak þar á land, og situr hann þar grafinn í sand, en óbrotinn, er seinast fréttist.

[28.] Í ofsaveðrinu 5. þ.m., er skipið strandaði í Borgarnesi og þiljubát Sigurðar í Merkinesi sleit hér upp af höfninni fauk og stórskemmdist (sumt misstist alveg) mikið af við í Rauðanesi á Mýrum, sem bóndinn þar og presturinn á Borg áttu. Á Borg feykti rokið einnig um kumli með freðnu torfi og grjótbornu, og slengdi því á stórt nýbyggt fjárhús, er var áfast við það, og brotnaði húsið inn. Skip fauk á Ferjubakka í Borgarhreppi, annað á Ökrum i Hraunhreppi og mjölbrotnaði, og þriðja á Tröðum í sama hreppi.

Ísafold birti þann 29.nóvember fáein bréf af landsbyggðinni (lítillega stytt hér):

Borgarfirði, í nóvembermánuði: Vorið var þurrt mjög, samt spruttu tún í besta lagi, og nýttust töður ágætlega. Útengi spratt miður, þó í meðallagi. Sláttur var víðast byrjaður
með 11. viku sumars, enda var þess ekki vanþörf, því engjasláttur varð mjög endasleppur: brá til óþurrka með höfuðdegi; síðan hefir ekkert náðst af nýtu heyi, og eiga margir til muna úti.

Barðastrandarsýslu sunnanverðri 14. nóv.: Eins og veðuráttin var góð og hagfeld til heyvinnu og alls sem vera þurfti á nýliðnu sumri, eins hefir hún verið bág á þessu hausti og óhagkvæm til allra haustvinnu, ferðalaga og allra útréttinga á sjó og landi; frá miðjum september óþerrasamt, stundum stórrigningar, yfir allan október einlægir umhleypingar og hvassviðri af hverri átt sem var, oftar við norðan með kófköföldum og frosti, mest 7 stig á R, og aftur bleytuslögum og sunnanstórviðrum á milli. Í þessum mánuði komu talsverðar fannir á fjöll og fram til dala í fannaplássunum, einkum sumstaðar í Strandasýslu, svo á nokkrum bæjum vestanvert við Steingrímsfjörð hefir fönn legið á túnum síðan fyrir réttir og því ekki gefist kostur að þurrka hey, sem er þar á túnum síðan, á sumum bæjum svo skiptir hundruðum hesta heimreiddra. Það sem af er þessum mánuði hefir mátt heita góðviðri til lands, einlægir austan og landssunnan blástrar og þíðviðri.

Strandasýslu 9. nóvember: Ákaflega úrfellasamt hefir verið hér í haust, alla tíð síðan eftir höfuðdag, að brá til votviðranna eftir hið einmuna góða sumar. Þó kom þerrir stöku dag um leitirnar, svo flestir náðu heyjum sínum lítt hröktum; en þá gjörði grasfylli af snjó inn með Steingrímsfirði sunnanverðum (í Kirkjubólshreppi), svo heyið varð ekki þurrkað, og er því talsvert úti enn á nokkrum bæjum þar, allt á túnunum, mest í Tröllatungu um 500 hestar; þrátt fyrir þetta ... Siðan veturinn kom, hefir verið fjúksamt og kalt, svo almennt er farið að hýsa fé og kenna lömbum át. Hagi er nægilegur enn og snjór lítill. Það hefir aldrei komið vondur kafaldsbylur í haust, nema manntalsdaginn 1. nóvember, en þá var líka moldkafald.

Strandasýslu sunnanverðri 16. nóv.: Nú í vikutíma hefir verið stillt veður og blítt, eftir eitthvert hið úrfellasamasta haust, sem menn muna. Snjór var kominn allmikill, en er nú að mestu tekinn upp.

Húnavatnssýslu 10. nóv.: Haustið mjög votviðra- og umhleypingasamt. Nú kominn talsverður snjór og fremur orðið slæmt á jörð, þar eð nú fyrirfarandi hefir gjört blota og hríðar á víxl. Lömb eru hér víðast alkomin á gjöf.

Þjóðviljinn segir frá því þann 13.desember að 21.nóvember hafi stúlka frá Seljalandi í Álftafirði orðið úti á leið frá Álftafirði að Hestfjarðarkoti. 

Þjóðólfur birti þann 28. bréf utan af landi (nokkuð stytt hér):

Eyjafirði 8. nóv. Tíðin úrfella- og áfreðasöm. Afli enginn innarlega á firðinum. Vesöld að stinga sér niður á börnum, en þó engin dáið úr henni enn.

Strandasýslu 16. nóv. ... Eftir höfuðdag mátti heita að aldrei kæmi góður þerrir og hraktist því sumt af heyjum og sumstaðar um miðja Strandasýslu mun allmikið af heyi hafa orðið úti. Haustið allt hið úrfellasamasta og fremur kalt. Í byrjun nóv. var kominn hér allmikill snjór en um 10. gjörði þíðu, er helst enn með mestu blíðviðrum, er því snjór þessi að mestu leyti tekinn upp.

Vestmannaeyjum 21. nóv. Veðráttan hefur í allt haust verið ákaflega rigningasöm og hafa þvi fylgt stormar, skakviðri og umhleypingar. Í síðustu 12 daga hafa gengið sífeldir stormar á ýmsum áttum. Í september og október rigndi hér til samans [424 mm] og sætir slik úrkoma fádæmum. Aftur hefur veðráttan mátt heita fremur hlý, og má varla telja, að hér hafi sést snjór. — Uppskera úr görðum varð í góðu meðallagi, en skurðarár með lakara móti sakir hrakviðranna.

Rangárvallasýslu 28. okt. Sumarið varð ekki svo notagott, sem við hefði mátt búast eftir vorinu. Grassprettan á öllu mýrarútengi var mjög rýr, einkum á dælumýrum; tún víðast í góðu lagi. Sláttur byrjaði að vísu með fyrsta móti, frá 8. til 14. júlí og gekk vel að ná inn töðum. Svo kom hálfs mánaðar rosi, sem keyrði allt votlendi í kaf og hélt aftur heyskap i viku. Með september brá til fjarskalegra stórrigninga, að varla er dæmi til slíks, og ónýttu þær allan heyskap; eru fjölda margir, sem engum bagga hafa náð i garð síðan; liggur því heyið hundr. hesta saman undir snjó og klaka í vetur; allir á þurrlendisjörðum náðu samt upp heyi sínu bæði illa þurru og sárhröktu; eru þau því mjög viðsjál til fóðurs.

Þann 20.desember getur Norðurljósið á Akureyri um jarðskjálfta 22.nóvember:

Jarðskjálftar. 22.[nóvember] um kvöld kl.9 fundust hér 4 litlir jarðskjálftakippir og leið skammt á milli; hinn fyrsti var harðastur. Meiri urðu þeir hér austur undan, einkum á Tjörnesi. Mælt er að steinhús á Héðinshöfða hafi eitthvað raskast. Glöggar fregnir um það vantar enn.

Desember: Óstöðug tíð, en hagar góðir.

Þjóðviljinn segir af desemberveðri:

[13.] Tíðarfar prýðisgott nú um nokkurn tíma, rétt sumarveður, en þó stormar og rigningar dag og dag í bili.

[31.] Tíðarfarið hefir undanfarið verið mjög storma- og óveðra-samt, með helliskúrum annan daginn, en snjóéli og nokkru frosti hinn daginn.

Þjóðólfur birti þann 16.janúar 1891 bréf úr Múlasýslum dagsett í desember:

Norðurmúlasýslu 1.des. 1890: Veðráttan hefur verið mjög óstillt og umhleypingasöm það sem af er þessum vetri, en lítið hefur snjóað, og jörð því nálega alauð.

Suðurmúlasýslu 3.des. 1890: Tíðin hefur í vetur mátt heita góð, reyndar nokkuð óstöðug; allir hér um slóðir vel heybirgir.

Þann 20.desember birti Ísafold bréf úr Eyjafirði dagsett þann 2. Hausttíð þar um slóðir er lýst:

Fyrri helming septembermánaðar var hlýtt veður en rigningasamt, en þá kólnaði veðrið og varð talsverð snjókoma á fjöllum og afréttum og lítið eitt í byggð. ... Suðvestanveður eru hér oft skæð í þessum mánuði, en nú var það ekki nema hinn 8. og urðu þó engar sérlegar skemmdir að því. Rigningadagar voru 14 og snjódagar 4. Fyrri helming októbermánaðar var allgott veður, en fremur úrkomusamt. Þá gerði norðanhret og snjóaði á fjöll. Vikutíma þar á eftir var gott og blítt veður; þá kom annað hretið og úr því voru óstillingar og snjókoma töluverð. Regndagar voru 6 og snjódagar 9. Fyrsta þriðjung nóvembermánaðar voru frost töluverð, mest 17 stig; en þá hlýnaði og gjörði hlákur, svo jörð var auð allan þennan mánuð. Veður var fremur stillt lengst af, en þó voru allmikil suðvestanveður hinn 18. og 19. og hinn 28. og 29. Menn urðu hér varir víð jarðskjálftakipp kl. milli 9 og 10 um kvöldið hinn 22. Regndagar voru 6 en snjódagar 9.

Þjóðviljinn birti þann 17.janúar 1891 bréf dagsett í Strandasýslu 27.desember - þar segir af vægast sagt síðbúnum heyskap snemma í nóvember:

Héðan er fátt að frétta nema framúrskarandi óþurrka frá höfuðdegi til veturnátta, svo að lítið náðist inn af heyjum allan þann tíma, einkum þá á svæðinu: innri parti Tungusveitar og ytri parti Staðarsveitar; og kom það svo misjafnt á, að t.d. 2. nóv. kom besti norðan þerrir, svo að allir breiddu hey sín snemma morguns, er þornuðu vel til hádegis, en þá kom kafaldsél svo mikið, að grasfyllir gjörði á umgetnu svæði, og var ekki mögulegt að raka upp, hvað þá heldur að taka inn hey; voru þar þó víða bornir saman i freðhúfum um hundrað kapla og i Tröllatungu á þriðja hundrað, sem líklega verður að litlum notum. Þennan sama dag var norðan þerrir yst i Tungusveit og Fellshrepp svo að þar náðust inn öll hey. Síðan á veturnóttum hafa verið úrkomur og rosar en jarðir nægar; svo að litið hefir þurft að gefa rosknu fé o g hestum nema á þorláksmessu; þá var innistaða.

Ísafold birti þann 31.janúar 1891 bréf dagsett á Ísafirði á gamlársdag:

Tíðarfarið er einlægt hið óstöðugasta, er hugsast getur.  Oftast við útsuðurátt, með ómuna-rokum á milli og snjókomu. Síðari hluta dags á annan í jólum var hér voðarok af vestri. Þá sjaldan hann hleypur að norðri, stendur það oftast varla sólarhring; frost hafa varla komið enn svo teljandi sé. Hér vestanmegin Djúpsins óska menn eftir norðanáttinni, því hún er sældaráttin hér megin, en vestanáttin hin leiðasta.

Þann 27.febrúar 1891 var bréf úr Norður-Múlasýslu, dagsett 3.janúar birt í Þjóðólfi:

Tíðarfarið afbragðsgott. Að eins gjört tvær gusur, aðra um veturnætur, hina fyrir sólstöðurnar. Nú er alautt og ekki aðrir gripir á gjöf en naut og lömb að nokkru leyti.

Jónas segir af veðri síðasta þriðjung desembermánaðar:

[24.] Einlægar umhleypingar, logn annan daginn og rokinn þegar minnst varir; oftast við útsuðrið - alveg sama veður og í fyrra um þetta leytið; á þorláksmessudag var hér aftaka útsynningur eftir miðjan daginn. Í morgun kl.9., ákaflega hvass á sunnan-suðaustan frá því um miðja nótt, allur snjór hér horfinn.

[31.] Síðustu vikuna hefir verið sami umhleypingur sem að undanförnu. Jörð hér nú alauð og klakalaus; tjörnin alauð, og hefir þetta ekki komið hér fyrir síðan 1875; það ár var mesta veðurblíða alla jólaföstu og snjór hafði eigi sést þá 16. desember; 19. desember féll fyrsta föl hér á jörðu það árið.

Norðurljósið segir þann 6.janúar 1891: „Fyrir nýárið sást grávíðir útsprunginn“.

Þann 7.nóvember 1893 birti Austri yfirlit um tíð á Austurlandi (aðallega Héraði) árið 1890:

1890. Janúar. Ekki komu nema 2 hlákudagar, en krapa- og snjódagar 7. Þann 26. var orðið haglaust á öllu Héraðinu. Svellalög frá jólum á Upphéraði, en á Útsveitum héldust
hagar lengur. Áttin oftast austlæg.

Febrúar. Hlákudagar 12. Snjódagur enginn. Áttin SA-læg, oft skúrir.

Mars. Hlákudagar 6, en snjódagar 10. og 11, Góðir hagar um allar sveitir.

Apríl. Snjóaði litið einu sinni. Frostnætur 12. 31.mars var farið með hest og sleða eftir Lagarfljóti, en þ.1. þessa mánaðar var sá ís orðinn ófær. Allar ár íslausar á Upphéraði.

Maí. Snjóaði á fjöll þann 28. Þ. 15. voru hagar farnir að grænka. Hafíslaust.

Júní. Snjódagar 4. og 5. Hvítnaði fyrir austan Fljót á Héraðinu, en góð gróðrartíð síðustu viku mánaðarins.

Júlí. Votviðrasamt í Fjörðum, og þornaði lítið hey í Héraði.

Ágúst. Veðurátt oft NA- læg og úrkomusöm. Þó var góður heyþerrir suðvestan 3. og 4. Í þessum mánuði hljóp Vatnajökull fram á Vesturöræfi og einnig fyrir austan Snæfell.

September. Éljaveður 27. Allgóður heyafli i öllum sveitum og arður af garðyrkju.

Október. [Þ30.] lagði ís á Jökulsá. Frá 1. og 2. kom ekki frost og jörð var marþíð fram að veturnóttum þ. 25. Eftir það var veður frjósandi.

Nóvember. Þann 9. fjúkhýmingur. Hvítnaði Héraðið. Besta tíð.

Desember. Snjódagur sá 17. 10 daga var vægt frost. Ágæt vetrartíð. Þann 28. „Hér er valla svellbólstur til. Ég lét flytja burð á ójárnuðum hesti fram að Víðivöllum, og svo er jörð þíð á harðlendi, að rista má flattorf; en Úthérað marautt austur á nyrðri heiðarbrýr"

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíð árið 1890. Ýmsar tölulegar upplýsingar eru í viðhenginu.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vindáttir á Egilsstaðaflugvelli - og á landinu í heild

Fyrir nokkrum dögum var á fjasbókarsíðu hungurdiska vikið að því að tölvuspár gerðu stundum ráð fyrir sunnanátt á Egilsstöðum þegar sömu spár sýndu ríkjandi norðanátt á landinu og í framhaldi af því spurt hvort þetta geti verið eðlilegt. Í „svari“ sagði ritstjóri hungurdiska: „Þetta er ekki óalgengt held ég í raunveruleikanum - þyngdaraflið sem knýr kalda vinda innan úr landi verður þrýstikrafti yfirsterkari“.

Ritstjórinn reiknar reglulega út meðalvindátt og meðalvindhraða í byggðum landsins. Auðvelt er að finna hvaða átt telst ríkjandi ákveðna daga og bera þá hina „ríkjandi átt“ saman við vindáttir á Egilsstöðum sama dag. Í reikningum meðalvindáttar landsins er miðað við allan sólarhringinn og auðvitað getur verið að áttin hafi í raun verið suðlæg hluta tímans þótt norðanáttin hafi vinninginn fyrir sólarhringinn í heild - sömuleiðis er vel mögulegt að vindátt sé suðlæg um landið austanvert en annars sé norðanátt ríkjandi - og hin síðarnefnda ráði því meðaltalinu. Eitthvað af slíkum óþekktartilvikum kemur óhjákvæmilega við sögu í heildartalningum - og við hlustum ekkert á þau hér. 

Þyngdaraflið ræður meiru um lofthringrás yfir landinu að vetrarlagi heldur en á sumrin - eða svo hyggja menn. Í því sem hér fer að neðan er einungis litið á veturinn - desember til mars. 

Niðurstöður eru í heild einfaldar. Mögulegar áttir á Egilsstöðum eru taldar 36, við teljum þær norðlægar sem ná frá vestri (hávestanátt þó ekki með) um norður yfir í austur (austanátt með), en aðrar áttir suðlægar. Svo vill til að þvervestan og þveraustanáttir eru mjög sjaldséðar á Egilsstaðaflugvelli - vindur blæs oftast út eða inn Hérað - einnig má sjá að Fagridalur kemur eitthvað við sögu. Hins vegar teljum við landsmeðalvindáttir aðeins 8 (höfuðvindáttir). Þegar landsmeðalátt er úr norðri er vindátt á Egilsstöðum norðlæg í 72 prósentum tilvika, en suðlæg í 28 prósentum. Nánast sama hlutfall á við sé landsmeðalvindátt norðaustlæg. 

Sé vindur hins vegar af suðri eða suðvestri á landsvísu er vindátt á Egilsstöðum suðlæg í 90 prósent tilvika, en norðlæg í aðeins 10 prósentum. Vel má vera að stór hluti þessara 10 prósenta séu í raun þau óþekku sem við minntumst á að ofan. 

Þessi hlutföll breytast nokkuð sé þess krafist að meðalvindhraði á landinu sé meiri en 5 m/s. Í hreinni norðanátt á landsvísu er vindátt norðlæg á Egilsstöðum í 90 prósent tilvika (suðlæg þá í 10 prósentum), í norðaustanátt er hlutfall norðlægu áttanna þá enn hærra, 94 prósent, en 6 prósent þrjóskast við og eru suðlæg (trúlega óþekktartilvik - áttin er að snúa sér eða eitthvað þess háttar). Sé vindur á landsvísu af suðri - og vindhraði meiri en 5 m/s er vindátt suðlæg á Egilsstaðaflugvelli í 98 prósent tilvika. 

Lítum að lokum á riss sem sýna þetta. Fyrri myndin tekur til allra tilvika.

w-blogg051218-egilsst-a

Lárétti ásinn sýnir landsáttina en sá lóðrétti vindátt á Egilsstöðum. Norðanátt, sunnanátt og suðvestanátt eru algengastar á Egilsstöðum. Á gráu svæðunum eru tilvik fá - langflest á gulum og rauðum svæðum myndarinnar - en allmörg á þeim grænu líka. Við sjáum t.d. að austanáttin á landinu getur komið fram á mjög fjölbreyttan hátt á Egilsstöðum, oft sem nokkuð hrein norðanátt, en líka oft sem suðaustan og sunnanátt - en sárasjaldan sem vestanátt. 

Sé gerð krafa um að meðalvindhraði á landsvísu sé meiri en 5 m/s hreinsast myndin nokkuð.

w-blogg051218-egilsst-b

Við munum að tölurnar að ofan sýndu að tíðni suðlægra átta á Egilsstöðum í norðanátt á landsvísu féll úr 28 prósentum niður í 10. Hér sést að sé átt af norðri, norðaustri og austri á landsvísu er oftast norðaustan eða norðanátt á Egilsstöðum, en sé átt á landsvísu úr geiranum frá suðaustri til vesturs er áttin oftast af suðaustri, suðri eða suðvestri á Egilsstöðum - vestanáttin virðist frekast „vilja“ vera af suðvestri þar. Norðvestanátt er sjaldgæf á landsvísu. 

Það skal tekið fram að hér er ekki um vísindalega úttekt að ræða - heldur er aðeins reynt að svara þeirri spurningu sem fram var borin. 

 


Óvenjuákveðin austanátt í nóvember

Austlægar áttir voru með þrálátasta móti í nýliðnum nóvember. Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í mánuðinum og vik frá meðallagi áranna 1981 til 2010. Við þökkum Bolla Pálmasyni fyrir gerð kortsins. 

w-blogg031218ia

Við sjáum að suðaustlæg átt var ríkjandi í háloftunum yfir landinu. Mikil jákvæð hæðarvik voru yfir Skandinavíu og fyrir norðan land, en neikvæð suður undan. Sé borið saman við fyrri nóvembermánuði kemur í ljós að háloftaaustanáttin hefur aðeins tvisvar verið stríðari en nú, lítillega í nóvember 1960, en nokkru meiri en nú í nóvember 2002. 

Svipaða sögu er að segja í niður undir sjávarmáli. Þar eru reyndar þrír mánuðir ofar á austanáttarlistanum heldur en nýliðinn nóvember, áðurnefndir nóvembermánuðir 2002 og 1960, en einnig nóvember 1997, nóvember 2009 er síðan ómarktækt neðar á lista. 

Þó sunnanáttin hafi verið ákveðin (og í efsta þriðjungi) var hún ekki nærri því sem mest hefur verið. Reyndar var áttin norðan við austur í neðstu lögum. Ritstjórinn hefur ekki enn reiknað meðalvindátt veðurstöðvanna í mánuðinum. 

 


Snjódýptarmet á Akureyri

Reglulegar snjódýptarmælingar hafa verið gerðar á Akureyri frá 1965. Snjódýptin sem mældist að morgni 30.nóvember er sú mesta þar í þeim mánuði, 75 cm. Næstmest mældist 22. og 23. nóvember 1972, 70 cm. Í morgun, 3.desember, mældist snjódýpt á Akureyri 105 cm, sem er það mesta sem mælst hefur þar í desember. Næstmest mældist 7. til 9.desember 1965, 100 cm. Höfum í huga að snjódýptarmælingar eru mjög ónákvæmar og nýju metin eru innan óvissumarka ofan við eldri met.


Af hita í nóvember síðastliðnum

Nóvember var hlýr á landinu, á landsvísu +1,0 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára og sá fimmtihlýjasti á öldinni, en sá 16. hlýjasti frá 1874 að telja. 

w-blogg011218

Við sjáum að nóvember 2014 var talsvert hlýrri en nú, en hann var aðeins sjónarmun svalari en sá allrahlýjasti, nóvember 1945. Nóvembermánuðir voru flestir mjög hlýir á síðari hluta 6.áratug síðustu aldar - en nokkuð illviðrasamir. Síðan tók við kalt tímabil, kaldastur varð nóvember 1973 sem varð sá kaldasti á allri 20. öld og sá kaldasti á öllu því mælitímabili sem við miðum við. Enn áður - á þeim tíma sem upplýsingar um landsmeðalhita eru vart fullnægjandi - er hugsanlegt að nokkrum sinnum hafi verið enn kaldara, t.d. 1824 og 1841.

Meðalhiti nóvembermánaðar var 4,2 stig í Reykjavík, +3,1 stigi ofan við meðallag áranna 1961-1990, en +1,8 ofan meðallags síðustu tíu ára. Talsvert hlýrra var í sama mánuði 2014, en mánuðurinn er sá fjórðihlýjasti á öldinni. Á Akureyri var meðalhitinn +1,5 stig, +1,8 ofan meðallags sama mánaðar 1961-1990, en +0,5 ofan meðallags síðustu tíu ára.

Úrkoma í Reykjavík mældist um 108 mm, meir en 80 mm féllu þó á tveimur sólarhringum. Úrkoman er um fjórðung umfram meðallag síðustu tíu ára. Sólskinsstundafjöldi var í meðallagi í Reykjavík.

Sýnist nóvembersnjódýptarmet hafa fallið á Akureyri síðasta dag mánaðarins, mældist 75 cm - en staðfestingar er þörf. Í morgun, 1.desember mældist snjódýpt á Akureyri 80 cm. Það er athyglisvert að vísar evrópureiknimiðstöðvarinnar um aftakaúrkomu voru í hæstu hæðum fyrir staði á Norðausturlandi dagana á undan þessari miklu snjókomu. 

 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 11
  • Sl. sólarhring: 365
  • Sl. viku: 1585
  • Frá upphafi: 2350212

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 1458
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband