Hæsti hiti á Íslandi

Hryggjarstykki þessa pistils er endurtekið efni - ætli þetta sé ekki fjórða útgáfa þess, en nær ekkert af því hefur þó birst áður á hungurdiskum. Viðbætur eru fjölmargar. Það varð að ráði að hafa allt í einum (löngum) pistli frekar en að skipta því niður. 

Fjallað er um hæsta hita sem sést hefur í veðurathugunum á Íslandi. 

Hiti hefur aðeins átta sinnum (sjö daga) verið bókaður 30°C eða hærri á Íslandi. Þessi tilvik eru:

  • Teigarhorn 24.september 1940 (36,0°C), ekki viðurkennt sem met,
  • Möðrudalur 26.júlí 1901 (32,8°C), ekki viðurkennt sem met,
  • Teigarhorn 22.júní 1939 (30,5°C),
  • Þorvaldsstaðir í Bakkafirði 22.júlí 1927 (30,3°C),ekki viðurkennt
  • Hvanneyri 11.ágúst 1997 (30,3°C), sjálfvirk stöð, ekki viðurkennt
  • Kirkjubæjarklaustur 22.júní 1939 (30,2°C),
  • Hallormsstaður 17.júlí 1946 (30,0°C) og
  • Jaðar í Hrunamannahreppi júlí 1991 (30,0°C), ekki viðurkennt

Að auki hefur nokkrum sinnum frést af meira en 29°C stiga hita. Það var á Eyrarbakka 25.júlí 1924 (29,9°C), Akureyri 11.júlí 1911 (29,9°C), á sama stað 23. júní 1974 (29,4°C), á Þingvöllum 30.júlí 2008 (29,7°C), á Kirkjubæjarklaustri 2.júlí 1991 (29,2°C), á Egilsstaðaflugvelli 11.ágúst 2004 (29,2°C) og daginn áður í Skaftafelli (29,1°C). Einnig fór hiti í 29,1°C á Nefbjarnarstöðum á Úthéraði 10.júlí 1911.

Mælingar þessar eru mistrúverðugar, við lítum nú á tilvikin hvert fyrir sig. Í einu tilviki eru tölurnar frá sama degi, 22.júní 1939. Sú staðreynd að 30°C náðust á tveimur veðurstöðvum og að háþrýstimet var sett í sama veðurkerfi dregur talsvert úr líkum á því að 30 stiga hitinn hafi eingöngu mælst vegna þess að eitthvað hafi verið bogið við mæliaðstæður.

Því er hins vegar ekki að neita að ákveðin óvissa fylgir, því mælum var komið fyrir á nokkurn annan hátt en nú er. Samanburðarmælingar sýna mælaskýlið á Teigarhorni hlýrra yfir daginn (0,5°C - 1,5°C) en síðara skýli og vitað er að það var óheppilega staðsett. - Sjá nánar um það neðst í þessum pistli. Litlar fréttir eru af skýlinu á Kirkjubæjarklaustri.

Mjög heitt var um allt land, nema þar sem sjávarloft lá við ströndina. Þótt hámarkshiti hafi mælst að meðaltali meir en 1°C of hár á í veggskýlinu á Teigarhorni, þegar samanburður var gerður á skýlunum, er ekki þar með sagt að sú ályktun eigi við um þá daga sem hiti er mestur.

Þýskir háloftaathugunarmenn sendu loftbelg upp frá Reykjavík í þoku snemma morguns. Óvenjulegur hiti var í háloftunum. Daginn áður var sett annað met, þá mældist hæsti loftþrýstingur sem vitað er um í júní hér á landi (1040,4 hPa í Stykkishólmi).

Hitabylgjur voru bæði óvenju margar sumarið 1939 og gætti í fleiri landshlutum en venjulegt er. Ekki var þó bara hlýtt. Um 10.júní gerði t.d. næturfrost víða inn til landsins og snjóaði langt niður í hlíðar fjalla og til heiða. Kaldir dagar komu einnig snemma í júlí og þá varð líka næturfrost á fáeinum stöðvum. Það var þann 19.júní sem hlýja háþrýstisvæðið nálgaðist landið. Hlýindin héldust í nokkra daga en færðust dálítið til milli landshluta eftir því hvort hafgolu gætti eða ekki, þ.e. hvar miðja hæðarinnar miklu var þann eða hinn daginn. Á Kirkjubæjarklaustri komu fjórir dagar í röð með yfir 20 stiga hita. Hinn 20.júní varð hámarkshitinn 21,6°C, 28,0°C þann 21., 30,2°C þann 22. og 26,6°C 23. júní.

Athugunarmaðurinn á Teigarhorni, Jón Kr. Lúðvíksson, las 30,3°C af mælinum þennan dag. Með færslunni fylgdi eftirfarandi pistill: „22. þ.m. steig hiti hátt eins og skýrsla sýnir. Var vel að gætt að sól náði ekki að hita mælira. Tel ég því hita rjétt mælda". Þegar hámarksmælirinn var tekinn í notkun sýndi hann 0,2°C of lágan hita, hámarkið var því hækkað um 0,2°C í útgefnum skýrslum.

teigarhorn_1966

Mynd úr eftirlitsferðasafni Veðurstofunnar - Þórir Sigurðsson tók myndina árið 1966. Sjá má bæði skýlin - og úrkomumæli lengra úti á túni. Óljósar fregnir eru um að veggskýlið hafi um nokkurra ára skeið hangið á skúrbyggingunni til vinstri á myndinni. Ritstjóri hungurdiska veit ekki hvenær íbúðarhúsið var forskalað - en það var ekki þannig frá upphafi. 

kirkjubaejarklaustur_1951-hs

Kirkjubæjarklaustur 1951, mynd úr eftirlitsferð Veðurstofunnar. Hlynur Sigtryggsson tók myndina. Skömmu síðar var sett upp fríttstandandi skýli en gamla veggskýlið mun hafa verið aftan á burstahúsinu. Eins og sjá má hafa miklar breytingar orðið á staðnum síðan þetta var - og voru víst töluverðar næstu tuttugu árin á undan líka. Jón Eyþórsson kom að Klaustri í september 1935 og segir að morgunsól geti skinið á skýlið. 

Engin leiðrétting var á hámarksmælinum á Klaustri. Daginn áður varð hiti á Teigarhorni mestur 24,0°C, en daginn eftir 19,9°C. Hitinn á Teigarhorni stóð stutt, kl.9 um morguninn var hann 14,3°C, 26,6°C kl. 15 og 14,9°C kl. 21 (miðað er við núverandi íslenskan miðtíma). Um miðjan daginn var vindur af norðvestri, 3 vindstig, mistur í lofti, en nærri heiðskírt.

Á Kirkjubæjarklaustri fór hiti niður í 11,5°C aðfaranótt 22., kl.9 var kominn 23,4°C hiti, kl.13 var hitinn 27,6°C og 25,8°C kl.18. Norðanátt var um miðjan daginn, 3 vindstig, gott skyggni og nærri heiðskírt. Á Norðurlandi var hinn 21.júní víðast hlýjasti dagurinn. Á Akureyri fór hiti þá í 28,6°C í hægri vestanátt, 22.júní fór hiti þar í 26,5°C.

Á Fagurhólsmýri var hámarkshiti þann 22. 28,5°C og er það methiti á þeirri stöð. Heldur svalara var vestanlands og sumar næturnar var þoka. Hiti komst þó í 20°C á Rafmagnsstöðinni við Elliðaár og í 18,7°C á Veðurstofunni þann 23., en svalara var í Borgarfirði og á Snæfellsnesi. Hæsti hiti í Stykkishólmi þessa daga var 14,8°C þann 24. Inni í Dalasýslu fór hiti yfir 20°C flesta daga (23,6°C á Hamraendum þann 25) og sömuleiðis inn til landsins í Húnaþingi og Skagafirði (25,0°C á Mælifelli og 24,0°C í Núpsdalstungu, hvort tveggja hinn 21.júní). 

Mjög hlýtt var einnig norðaustanlands þó ekki hafi verið um met að ræða á þeim slóðum. Eins og oft er í vestlægri eða norðvestlægri átt náði þokubræla Vesturlands ekki til Suðurlandsundirlendisins og Þingvalla. Í þeim landshluta var hiti víða yfir 20°C, jafnvel marga daga í röð.

Met 1940?

Hitametinu frá Teigarhorni í september 1940 (36,0°C) er því miður ekki hægt að trúa eins og á stendur. Í veðurskýrslunni frá Teigarhorni í september 1940 stendur eftirfarandi: „24. þ.m. kom hitabylgja. Stóð stutt yfir. Hún kom á tímabili kl. 3-4, en stóð aðeins stutta stund. Sjómenn frá Djúpavogi urðu hennar varir útá miðum út af Berufirði". 

Á venjulegum athugunartímum var hiti sem hér segir: Kl.9, 5,2°C, kl.15, 13,1°C og 12,7°C kl.22. Vindur var hægur af norðvestri og hálfskýjað eða skýjað. Hvergi annars staðar á landinu varð sérstakra hlýinda vart og almennt veðurlag gefur ekki tilefni til að vænta mætti mets. Einnig aukast efasemdir þegar í ljós kemur að eitthvað ólag virðist á fleiri hámarksmælingum á stöðinni í þessum mánuði. 

Því er hins vegar ekki að neita að stundum hegðar náttúran sér með einhverjum ólíkindum og erlendis eru dæmi um hitamælingar sem ekki eru taldar geta staðist. Þekktasta tilvikið er e.t.v. 70°C sem að sögn mældust í Portúgal snemma í júlí 1949. Þá var sagt að fuglar hefðu fallið dauðir úr lofti og frést hefur af 60°C í Texas 14.júní 1960. Þá grillaðist maís á stönglum að sögn (óvíst með poppkornið). Má vera að eitthvað ámóta komi fyrir hérlendis síðar en þangað til verða 36 stigin á Teigarhorni að liggja á lager. 

Met 1901?

Möðrudalsmetið (32,8°C) frá 26.júlí 1901 er trúlegra, en það er samt bara úr vafasömu veggskýli. Líklegra er að hitinn hafi í raun verið fimm stigum lægri. Veðuraðstæður voru ekkert sérlega (ofur-) hámarksgæfar - svona í fljótu bragði.  

Allmikið er af „háum hámörkum“ í mælingum úr Möðrudal á fyrri árum. Þó stöðin sé í 450 metra hæð yfir sjávarmáli koma þar oft hlýir dagar að sumarlagi. Til dæmis mældist hiti á sjálfvirku stöðinni þar 26,5 stig í hitabylgjunni miklu í ágúst 2004 og 26,0 á mönnuðu stöðinni á sama tíma. Í júlí 1991 mældist hiti á mönnuðu stöðinni líka 26,0 stig. Því miður eru mælingar í Möðrudal ekki samfelldar - bæði langar eyður og skemmri. 

modrudalur_1909b

Þessa (vondu) mynd tók Dan LaCour eftirlitsmaður dönsku veðurstofunnar í Möðrudal sumarið 1909. Verst að varla er nokkur möguleiki að sjá það sem hún á að sýna - mælaskýlið. Stefán bóndi hafði nokkrum árum áður reist þetta myndarlega timburhús - sem var víst ekki vinsælt á vetrum sökum kulda. Finna má góðar gamlar myndir af húsinu á netinu - en þær eru teknar undir öðru sjónarhorni - hinu megin frá - en þar stóð á þessum tíma sérlega myndarleg torfbaðstofa. Rétt glittir í hana á þessari mynd, hægra megin timburhússins. Bakvið húsið er svo annað torfhús - eða leifar af slíku. Kona stendur hér á timburtröppum hússins - kannski er þar ein af dætrum Stefáns. Skuggamyndir af börnum(?) hafa lent ofan í þessari mynd - með góðum vilja má sjá móta fyrir tveimur mannverum. - Vel má vera að ritstjórinn muni um síðir koma auga á mæliskýlið í gegnum þokuna. 

Hvað um það - LaCour segir gler framan á mælaskýlinu brotið og hurðin sé það líka. Hann hefur áhyggjur af því að sól kunni að komast að mælinum. Jafnvel þó hún hafi ekki gert það er líklegt að varmageislun frá heitum flötum í nágrenni skýlisins hafi borist á mælana í miklu sólskini - en heilt gler ver þá frá slíku - þó það gagnist ekki sem sólvörn. 

Í skjölum er engar athuganir að finna úr Möðrudal frá tímabilinu apríl 1907 til og með mars 1909. Fram kom í viðræðum LaCour og Stefáns að sá síðarnefndi var óánægður með það að danska veðurstofan gerði Grímsstöðum hærra undir höfði heldur en Möðrudal. Þar fengju menn líka greitt fyrir athuganir. Ástæða framgangs Grímsstaða var sú ákvörðun að leggja símann þar um hlaðið - og þaðan var því hægt að senda veðurskeyti - en ekki úr Möðrudal.

LaCour hefur verið lipur maður því honum tókst að fá Stefán til að halda athugunum áfram. Hann sagði Stefán fáorðan - ætlaði að ræða við hann að kvöldi komudags, en þá var Stefán genginn til náða þó klukkan væri ekki nema 7:50 að sögn LaCour - og búinn að gera athugun þá sem gera átti kl.9 um kvöldið. Í Möðrudal var nefnilega í gildi sérstakur Möðrudalssumartími, tveimur stundum á undan sólarklukku (svipað og grillarar nútímans vildu um árið að upp yrði tekinn hér á landi). Klukkan í Möðrudal var því að verða tíu - og ef koma átti fólki að verki kl.6 (að M-tíma) morguninn eftir var eins gott að fara að halla sér. 

En hversu mikið eigum við þá að draga miðdegishita Möðrudals á fyrri tíð niður? Það vitum við ekki - en örugglega mismikið eftir því hvort sólskin kemur við sögu eða ekki. Næsthæsta talan úr Möðrudal eru 28,8 stig frá því í júlí 1894 - þá gengu í raun og veru miklir hitar á landinu og alls ekki ótrúlegt að hiti hafi farið yfir 25 stig í Möðrudal. Þriðja hæsta talan, 28,0 stig sem mældist í ágúst 1913 er hins vegar nokkuð einmana, Grímsstaðir á Fjöllum mældu „bara“ 21,0 stig. Heldur betri stuðning hafa 28,0 stig frá því í ágúst 1918. Þá voru að sögn 26,1 stig á Grímsstöðum (gæti líka verið ívið of hátt). En 32,8 stigin eru ótrúleg - líklega er um mislestur um 5 stig að ræða, 27,8 sé talan sem hafi staðið á mælinum - sem að auki sýndi 1 til 3 stigum of hátt. 

Hallormsstaður 1946

Metið á Hallormsstað 17.júlí 1946 (30,0°C) má e.t.v þakka skýlinu en vitað er að það var mjög lélegt um þær mundir, sömuleiðis var langoftast lesið í heilum og hálfum gráðum. Hiti kl.15 þennan dag var 27,0°C og um hádegi var hiti á Egilsstöðum 24,0°C en þar voru engar hámarksmælingar. Á Kirkjubæjarklaustri fór hitinn í 25,5 stig þennan dag og 25,0 bæði í Möðrudal og á Hofi í Vopnafirði. 

hallormsst_1949

Mælaskýlið á Hallormsstað. Mynd tekin í eftirlitsferð 10.ágúst 1949. Veðurstofa Íslands (Valborg Bentsdóttir). 

Veðurathugunarmaður [Páll Guttormsson] segir í athugsemd í veðurskýrslu júlímánaðar: „Hitinn fór hærra en hann hefur farið hér síðan að veðurathuganir byrjuðu“. Hámarkshitamælar voru á þessum tíma „slegnir niður“ að morgni og staða þeirra borin saman við hefðbundinn mæli (þurran). Eftir mánuðinn munaði 0,2 stigum á meðalhita þurra mælisins [kl.9] og hámarksmælisins. Því er freistandi að lækka töluna 30,0 niður í 29,8 - en eins og áður sagði var aðeins lesið af með nákvæmninni 0,5 stig - og kannski sýndi mælirinn í raun 30,2 en ekki 30,0. Það vitum við ekki og látum töluna eiga sig - en gleymum samt ekki. 

Þorvaldsstaðir 1927

s519_juli-1927

Hér má sjá mynd af veðurskýrslu frá Þorvaldsstöðum í Bakkafirði í júlí 1927. Myndin skýrist nokkuð sé hún stækkuð og þá má sjá að hámarkshiti þann 22. er talinn 30,1 stig (hækkar í 30,3 vegna fastrar leiðréttingar á hámarksmæli). Þetta er satt best að segja nokkuð ótrúlegt, enda er hiti kl.14 (15 að okkar hætti) ekki nema 20,4 stig - og ekki hægt að viðurkenna metið. Aftur á móti er það svo að þetta var óvenjulegur mánuður. Meðalhámarkshiti mánaðarins á Grímsstöðum á Fjöllum var talinn 21,8 stig - sá hæsti sem vitað er um hér á landi - og hiti fór þar í 20 stig eða meira 20 daga í röð. Líklega hafa geislunaraðstæður ekki verið með þeim hætti sem við nú viljum. 

Akureyri 1974 og 1911

Júníhitametið frá Akureyri 1974 (29,4°C) hefur þann kross að bera að skýlið stendur á bílastæði sem varla er hægt að telja staðalaðstæður. Á athugunartíma mældust hæst 26,5°C kl. 15. 

akureyri_1978

Veðurstöðin við Þórunnarstræti á Akureyri 1978. Mynd úr eftirlitsferð Veðurstofu Íslands (Flosi Hrafn Sigurðsson). 

Eldra hitametið frá Akureyri var sett 11.júlí  1911 (29,9°C) í óþekktu skýli svipað og í Möðrudal 1901, en rétt er að taka fram að enginn hámarksmælir var á staðnum heldur mældist þessi mikli hiti kl.16 (15 skv. eldri tíma). Þetta var ekki venjulegur athugunartími en af athugasemd athugunarmanns má skilja að hann hafi fylgst með mælinum öðru hvoru þennan dag. Því er ekki víst að hámarkshitinn hafi verið öllu meiri. Um þessa miklu hitabylgju var fjallað í pistli á hungurdiskum nýlega - er hér því vísað á hann til frekari upplýsinga.

Hvanneyri 1997

t1779-1997_08

Í hitabylgjunni í ágúst 1997 mældist hámarkshiti á sjálfvirku stöðinni á Hvanneyri 30,3°. Sjálfvirkir mælar eru yfirleitt öllu vakrari en kvikasilfursmælarnir og algengt er að þeir sýni ívið hærri hámarkshita en kvikasilfursmælar á sömu stöð. Hámarksmælir í skýlinu sýndi mest 27 stig þennan dag. Það er mesti hiti sem mælst hefur í skýli á Hvanneyri. Í hitabylgjunni í ágúst 2004 fór hiti mest í 26,5°C á Hvanneyri.

Ekki er talið rétt að trúa þessari mælingu - hitaskynjarinn var varla nægilega vel varinn. Hann hafði þó þann kost að vera í loftræstu umhverfi - hafi loftdælan verið í gangi - sem við vitum ekki.  

hvanneyri_1996k

Hefðbundið mælaskýli á Hvanneyri 1993 - ásamt sjálfvirkum hitaskynjurum og loftdælu. Í desember 1997 var skipt um sjálfvirka stöð á staðnum og henni komið fyrir á þann hátt sem nú er venjubundinn. Mynd úr safni Veðurstofu Íslands (Torfi Karl Antonsson). 

Hitabylgjan í ágúst 1997 var óvenjuleg. Þykkt hefur sjaldan orðið meiri í námunda við landið, líklega um 5690 metrar við strönd Grænlands vestur af Vestfjörðum - en sjávarloft réði ríkjum um mestallt land. Allmörg dægurmet sett í hitabylgjunni standa enn á stöðvum þar sem athugað hefur verið síðan eða lengur og það þó hitana hafi að nokkru borið upp á sömu almanaksdaga og hitabylgjan mikla 2004. Eitt stöðvarmánaðarmet ágústmánaðar stendur enn - var sett á Kolku þann 13. þegar hiti þar mældist 24,6 stig. 

Met 1991?

jadar_1983

Á Jaðri í Hrunamannahreppi 19.júlí rigningasumarið mikla 1983. Mynd úr eftirlitsferð Veðurstofunnar - stöðin var flutt um set í ferðinni. Ekki er vitað hver tók myndina (Flosi Hrafn, Torfi Karl eða Guðrún Magnúsdóttir). 

Í hitabylgjunni í júlí 1991 komst hiti á Kirkjubæjarklaustri í 29,2°C eins og áður sagði (þann 2.). Nokkrum dögum síðar (8.) var talan 30,0°C rituð sem hámark í athugunarbók á Jaðri í Hrunamannahreppi. Sama dag mældist hámark í Hjarðarlandi í Biskupstungum 25,3°C og hiti kl.15 var 21,8°C á Jaðri. Mjög ótrúlegt má telja að hiti á Jaðri hafi í raun náð 30 stigum þennan dag. Að auki var nokkur óreiða á veðurathugunum þessa daga og mikið um ósamræmi í athugunum. Talan hefur því ekki verið tekin trúanleg. 

Met á sjálfvirkri stöð 2008

Mikil hitabylgja var víða um land í lok júlí 2008. Hiti komst í 29,7°C á Þingvöllum þann 30. Þetta er hæsta viðurkennda hámark á sjálfvirkri stöð á landinu. Methiti varð víðar um suðvestanvert landið m.a. í Reykjavík.

Sjálfvirkum hitaskynjurum nútímans er nú komið fyrir innan í hólkum (misstórum) sem eiga að verja þá fyrir beinum geislum sólar. Framleiðandi hólkanna tekur þó fram að æskilegt sé að loftdæla sjái um loftskipti. Framleiðandinn segir að í glampandi sólskini og stafalogni sýni skynjararnir 1 til 3 stigum hærra en mælir í fullloftræstum hólki. Þar sem það hefur sýnt sig að bilanir og rekstrarvandkvæði af ýmsu tagi vilja fylgja dælunum (þær þurfa auk þess rafmagn) hafa þær verið lítt eða ekki verið notaðar hér á landi - enda er stafalogn sem stendur í meir ein fáeinar mínútur í senn sjaldgæft.

En þetta þýðir þó að ákveðinn efi fylgir metum sem sett eru með búnaði sem komið er fyrir á þennan hátt. Alla vega er rétt að vita af því hvort um stafalogn var að ræða eða ekki.  

Þegar metið var sett á Þingvöllum 2008 var ekki stafalogn á sama tíma - en sólskin. Stöðin var hins vegar ekki sett upp á æskilegasta stað (hún hefur síðar verið flutt til). Hraunklappir voru nærri og áhrifa varmageisla frá þeim kann að hafa gætt við mælinguna. Harðkjarna metaspillar gætu gert mál úr. Það er hins vegar spurning hversu langt á að ganga við stöðlun hámarksmælinga. Allir eru sammála um að forðast verði bein áhrif bæði sólar- og varmageislunar og að einhver loftræsting rýmis þess sem ver skynjara þeim áhrifum sé nauðsynleg. Auðvitað verða skynjarar eða mælar líka að vera í lagi. En hversu langt á að ganga í samræmingu umhverfis að öðru leyti? 

Ritstjóra hungurdiska finnst t.d. of langt gengið sé þess krafist að graspjatla sé undir mælaskýlum á jöklum (það finnst víst flestum fáránlegt). En hvað með mælaskýli á eyðisöndum - eða á gróðurlitlum blettum - á að sá grasi þar? Hver er svo munur á náttúrulegum gróðurlitlum blettum og manngerðum? Viljum við einungis frétta af hitamælingum í manngerðu eða mannmótuðu staðalumhverfi? 

Umskiptin á Teigarhorni 1964. - Haustið 1964 var fríttstandandi hitamælaskýli sett upp á Teigarhorni. Í tilraunaskyni héldu jafnhliða mælingar áfram í veggskýlinu í tvö ár og fjóra mánuði. Hiti í veggskýlinu reyndist almennt hærri en í því fríttstandandi (sjá ársyfirlit Veðráttunnar 1966, bls.114). Mestu munaði um miðjan dag á tímabilinu maí til september. Munur á hita að morgni og kvöldi var minni, þó var hann á bilinu 0,5 til 1,0 stig yfir hásumarið. Hámarkshiti var einnig hærri í veggskýlinu - þar munaði að meðaltali um 1,1 til 1,4 stigum hvað hámarkið í veggskýlinu var hærra. 

Þó það hafi ekki verið kannað til hlítar er líklegast að hámarkshita í skýlunum tveimur beri verst saman í miklu sólskini - líklega þegar hámarkshiti verður almenn hvað hæstur. Hvað á að gera með eldri hámarkshitamælingar í tilvikum sem þessum? Því er ekki að neita að margt er grunsamlegt við tíðni hita yfir 20 stigum á Teigarhorni fyrr á tímum. 

teigarhorn_d-sveifla

Á myndinni má sjá tvo ferla, bláan og rauðan. Blái ferillinn sýnir mismun á morgunhita (kl.9) og síðdegishita (kl.15) í júní og júlímánuði á Teigarhorni 1874 til 1995. Rauði ferillinn sýnir mun kvöldhita og síðdegishita. Mikið brot er í báðum ferlum á milli áranna 1964 og 1965 - einmitt þegar skýlaskiptin áttu sér stað. Munur á morgun- og miðdegishita minnkaði um 1,4 stig, en munur á miðdegis- og kvöldhita um 1,5 stig. Þetta er mjög í takt við samanburðarmælingarnar áðurnefndu. 

Sé rýnt í rauða ferilinn má einnig sjá að þar sker tímabilið frá því um 1923 til 1936 sig nokkuð úr. Þar sem ekkert slíkt er að sjá (eða nærri ekkert) á sama tíma á bláa ferlinum er líklegasta skýringin sú að skýlið hafi annað hvort verið flutt um set - eða kvöldathugunin hafi þessi árin í raun og veru ekki farið fram kl.22 eins og ætlast var til annað hvort fyrir eða eftir hnikið. Annað hvort hafi verið athugað „of snemma“ áður, eða of seint síðar. Skipt var um athugunarmann 1921. Við sjáum einnig þrep 1888 - óskýrt líka. Þá tók Nicoline Weywadt við athugunum af Ólafi Jónssyni - trúlega hefur athugunartími eitthvað hnikast til við þá breytingu. Klukkur landsmanna voru nokkuð ónákvæmar á fyrri árum - eins og minnst var á hér að ofan í umfjöllun um Möðrudal. Flutningsins frá Djúpavogi til Teigarhorns 1881 sér hins vegar ekki stað á þessari mynd. 

Allmargar myndarlegar hitabylgjur gerði á 19.öld. Ef til vill mun ritstjóra hungurdiska einhvern tíma takast að fjalla eitthvað um þær. Hámarksmælingar 19. aldar eru þó enn ótryggari en þeirrar 20. og 21. Þann 18. ágúst 1876 var talan 26°R lesin af mæli á Þverá í Laxárdal í Þingeyjarsýslu. Ekki er sérstök ástæða til að efast um mælinn sjálfan. Hann var mjög lengi í notkun á staðnum - vel fram á 20.öld. Sagt er að sól hafi ekki skinið á hann, en eins og margoft hefur komið fram hér að ofan nægir ekki að komið sé veg fyrir það sé mælirinn opinn fyrir beinni varmageislun frá heitum flötum. 

En 26°R eru 32,5°C. Lítum á færslurnar í veðurbókinni þessa daga - við sjáum 10. til 22.ágúst 1876.

thvera_1876-08_klippt

Vægast sagt fjölbreytt veðurlag. Þann 10. er vestanstormur og haglél, daginn eftir norðansúld og þoka. Að morgni þess 13. er -2 stiga frost lesið af mælinum. Þar stendur: Héla, sunnang(ola), skafh(eiðríkt). Morguninn eftir er einnig héla - en fjarska heitt síðdegis. Mælirinn sýnir 24°R (30°C). Næstu dagar eru einnig heiðir og oft minnst á fjarskahita og heyskap sem er í fullum gangi. Hámarki náði hitinn þann 18. eins og áður sagði, 26°R í þéttings sunnangolu. 

Hiti fór víða mjög hátt á landinu þessa daga, í meir en 20 stig bæði í Reykjavík og í Stykkishólmi. Á Hvammi í Dölum fór hiti í að minnsta kosti 20°R (25,0°C). Séra Pétur Guðmundsson las 26,2 stig af hámarksmæli dönsku veðurstofunnar í Grímsey þann 18., sama dag og hitinn á Þverá varð hæstur - það er varla trúverðugt, en hiti var þó 20,0 stig á hefðbundinn mæli bæði kl.15 og 22. 

Margs konar hugsunum getur slegið niður við yfirferð sem þessa - ritstjórinn mun ekki fylgja þeim hugsunum eftir að sinni að minnsta kosti. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 42
  • Sl. sólarhring: 116
  • Sl. viku: 1533
  • Frá upphafi: 2348778

Annað

  • Innlit í dag: 39
  • Innlit sl. viku: 1337
  • Gestir í dag: 36
  • IP-tölur í dag: 35

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband