Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2016
28.11.2016 | 23:33
Dulin átök
Næstu daga verður mjög hlýtt loft á leið fyrir sunnan land, en kalt norður undan. Svo virðist sem þessara átaka verði ekki svo mjög vart hér á landi - nema hvað veðurnörd gefa þeim auðvitað gaum. - Textinn hér fyrir neðan er ekki auðveldur viðfangs - en þeir sem gefast upp á miðri leið (eða áður) geta reynt njóta litamynsturs kortanna.
Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting eins og evrópureiknimiðstöðin vill hafa hann síðdegis miðvikudag 30. nóvember. Einnig má sjá úrkomu (grænir - og bláir litafletir) og hita í 850 hPa (strikalínur). Mikil hæð verður yfir Bretlandseyjum og önnur yfir Grænlandi. Lægð er suður af Grænlandi og önnur við Norður-Noreg.
Mjög hlýtt loft kemur sunnan úr hafi og rennur til austurs skammt fyrir sunnan land, en kalt loft er á leið suður og svo suðvestur með Grænlandsströndum. Söðull er í þrýstisviðinu skammt fyrir suðvestan Ísland. - Að sögn reiknimiðstöðvarinnar sækir hlýja loftið heldur á en það kalda hörfar smám saman.
Hitabrattinn við Ísland sést vel á næsta korti.
Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Jafnþykktarlínur eru heildregnar á kortinu, mjög þéttar yfir Íslandi. Það munar um 200 metrum á þykkt yfir norður- og suðurströndinni, 10 stigum, notum við gráður. Litirnir sýna hita í 850 hPa - þar munar 8 stigum á sömu vegalengd.
Þykktarmunurinn, 200 metrar, gæti vakið mikinn þrýstibratta, um 25 hPa, það ætti að vera mikið austan- eða norðaustanhvassviðri á landinu - en er það ekki hér.
Nú?
Hér má sjá 500 hPa-spána á sama tíma. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, þykktin er sýnd með rauðum strikalínum. Mikill vestanstrengur er yfir Íslandi - það munar um 160 metrum á flatarhæð við norður- og suðurströndina, sem jafngildir um 20 hPa - og ef sá bratti næði til jarðar ætti að geisa vestanhvassviðri á landinu - en gerir það ekki hér.
Austanáttin sem þykktarbrattinn er að skapa nær að eyða vestanátt hæðarbrattans - og rétt rúmlega það, munar um 5 hPa sem þykktarbrattinn og austanátt hans hefur betur. Ætli það sé ekki um það bil þrýstibrattinn sem er við landið - við sjávarmál?
Landið er um 3 breiddarstig frá norðri til suðurs, þrýstibrattinn að meðaltali þá um 1,5 til 2 hPa á breiddarstig (5/3). Þrýstivindur þá 7 til 10 m/s - og raunvindur einhver helmingur af því - allt saman mjög gróft reiknað.
Fyrir norðan land má hins vegar sjá að jafnþykktarlínur eru þéttari en jafnhæðarlínur - þar rými fyrir norðaustanstrekking - jafnvel hvassan vind - en fyrir sunnan eru jafnþykktarlínurnar gisnari en jafnhæðarlínurnar - þar nær vestanáttin til jarðar.
Eitthvað má litlu muna.
27.11.2016 | 18:59
Fárviðrið 5. mars 1938
Veturinn 1937 til 1938 þótti hagstæður framan af, en síðan varð veður umhleypingasamt með köflum. Snemma í mars, þann 3. og þann 5. gerði tvö veruleg illviðri - og það síðara olli stórtjóni víða um land.
Síðdegis fór loftvog að hríðfalla um landið vestanvert og hvessti af suðri og síðar suðvestri. Fyrir miðnætti var kominn stormur en snemma nætur skall síðan á skammvinnt suðvestan- og vestanfárviðri sem æddi síðan austur yfir landið um nóttina og snemma um morguninn. Vestfirðir sluppu einna best frá veðrinu, en gríðarlegt tjón varð bæði á Suður- og Austurlandi. Úrklippan hér að ofan er úr Alþýðublaðinu - sama dag - þannig að allmiklar fregnir hafa þegar legið fyrir þegar blaðið fór í prentun.
Dagblaðið Vísir var einnig með fréttir af veðrinu þann sama dag og má sjá mynd af braki úr húsi við Sundlaugaveg í Reykjavík sem gjöreyðilagðist í veðrinu. Þar er einnig stutt viðtal við Jón Eyþórsson veðurfræðing sem segir vindhraða hafa farið í 30 m/s á mæli Veðurstofunnar - en eins og fram kom í pistli hungurdiska fyrir nokkru töldust það 12 vindstig á þeim tíma - .
Daginn eftir birtir Morgunblaðið fréttir af tjóni úti á landi - og voru þær að tínast inn næstu daga eftir því sem símasamband leyfði.
Annað veður hafði gert rúmum sólarhring áður, en tjón varð þá mun minna. Lægðirnar sem ollu veðrunum voru ámóta gerðar og ámóta djúpar.
Nú ber svo við að endurgreiningin sem við höfum svo oft notast við með góðum árangri stendur sig ekki alveg nógu vel. Þó má þakka fyrir það að eðli veðranna skilar sér - við sjáum vel hvað var á seyði.
Myndin hér að ofan sýnir stöðuna kl. 18 síðdegis þann 3. mars 1938. Þá er fyrri lægðin við Breiðafjörð - ágætlega staðsett, en um 10 til 12 hPa of grunn. Á kortið eru dregnar jafnhæðarlínur 1000 hPa-flatarins - jafngildar sjávarmálsþrýstilínum, 40 metra bil á milli lína eru 5 hPa.
Hér má aftur á móti sjá hæð 500 hPa-flatarins á sama tíma. Gríðarlega öflug vindröst teygir sig um kortið þvert, og á henni greinileg bylgja samfara lægðinni við Ísland. Næsta bylgja er svo yfir Labrador. Við vitum að talsvert vantar upp á snerpu lægðarinnar - en ekki er víst að háloftagreiningin sé alveg jafnvitlaus. Jafnhæðarlínur eru ekki sérlega þéttar yfir landinu og skýrir líklega hvers vegna ekki varð jafnmikið tjón í þessari lægð og hinni síðari.
Kortið gildir um miðnætti að kvöldi þess 4., rétt áður en aðalveðrið skall á í Reykjavík. Lægðin er allt of grunn í greiningunni - það munar meir en 25 hPa. Óþægilegt er til þess að hugsa að þrátt fyrir svona æpandi villur virðast fjölmargir hneigjast til að nota endurgreiningar sem þessa sem grunnsannleik í vangaveltum um breytingar á stormatíðni (og fleiru). - Svipað má þá segja um ámóta gerð framtíðarlíkana. - Alla vega eru hiklaust birtir alls konar leitnireikningar langt inn í framtíðina.
En engu að síður verður að telja gæði greiningarinnar til kraftaverka - hún sýnir báðar lægðirnar nokkurn veginn á réttum stað á réttum tíma - og gefur mjög gagnlegar vísbendingar um eðli þeirra. Er samt ekki betri en sannleikurinn sjálfur - munum það.
Við getum ekki alveg neglt veðrið af háloftakortinu - var það hreint hárastarveður? - hes heimskautarastarinnar teygir sig niður í fjallahæð eða jafnvel neðar - eða kom það sem oft er kallað stunga við sögu? - stungur eru lágrastir nærri miðju krappra lægða - kannski hvort tveggja - annað suðvestanlands heldur en eystra?
Kort sem sýnir veðrið á Íslandi þessa nótt er ekki til - veðurathuganir voru ekki gerðar að næturlagi árið 1938 - og engin vakt yfir blánóttina á Veðurstofunni. Kortið hér að ofan gildir kl.8 um morguninn - þá voru enn 10 vindstig á Seyðisfirði og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, en hægur norðan og -7 stiga frost í Horni í Hornvík á Hornströndum.
Slatti af þrýstiritum var í landinu á þessum tíma og með aðstoð þeirra mætti fylgja lægðinni - og þrýstibratta í tengslum við hana nokkuð nákvæmlega þótt ekki hafi verið lesið af loftvogum um nóttina. - Ritinn úr Reykjavík sýnir lægðirnar tvær mjög vel - það er vel hægt að koma sér upp fegurðarsmekk gagnvart sveigjum þrýstirita og eru þessar fagurlegar - að smekk ritstjóra hungurdiska. - Örin bendir á Reykjavíkurfárviðrið.
Í veðurbókum Reykjavíkur lifði enn á þessum tíma sérstakt táknmál sem lýsti veðri yfir daginn - í mjög stuttu máli. Þetta táknmál má sjá í fullri notkun bæði í Meteorologisk Aarbog sem danska veðurstofan gaf út fyrir Ísland á árunum 1873 til 1919 og í Íslenskri veðurfarsbók sem Veðurstofan sendi frá sér 1920 til 1923. - Þá voru fjárveitingar til útgáfunnar skornar niður - enn ein birtingarmynd landlægs skilningsleysis íslenskra ráðamanna á náttúrufarsrannsóknum. Trúlega hefur draumurinn um endurreisn Veðurfarsbókarinnar lifað með stjórnendum Veðurstofunnar.
En hvað þýðir þetta sem við sjáum? Hér er lýst veðri í Reykjavík 3. til 6. mars. Fyrri lægðin gengur yfir þann 3. Punktur er merki fyrir regn, a táknar fyrir hádegi og a með punkti fyrir framan táknar því að rignt hafi fyrir hádegi. Éljamerki á undan a og p þýðir að él hafa verið bæði fyrir og eftir hádegi. Vindörin merkir ekki stefnu - heldur aðeins styrk - hér 11 vindstig sem p-ið segir okkur að hafi verið síðdegis. Ritstjóranum er ekki alveg ljóst hvers vegna svigi er utan um - en vel gæti verið að sviginn bendi á að þetta veður hafi ekki verið ríkjandi.
Þann 5. sjáum við éljamerkið á undan n (nótt),ap (allan daginn), svo sýnir vindörin fárviðri um nóttina - og svo dularfullur svigi um síðdegisélin - kannski hefur úr þeim dregið þegar á daginn leið?
En lítum líka á lauslegt yfirlit um tjón - í blöðunum má að auki finna slatta af bæjanöfnum sem ritstjóri hungurdiska á eftir að elta uppi.
Í veðrinu þann 3. urðu talsverðar skemmdir á flóði og í brimi í Grindavík, vegurinn að Sandgerði skemmdist í brimi. Mörg færeysk fiskiskip lentu í áföllum undan Suðurlandi, eitt þeirra fórst og með því 17 menn, menn slösuðust á öðrum eða féllu útbyrðis. Togarar fengu á sig áföll og slösuðust nokkrir menn.
Tjónið þann 5. varð miklu víðtækara.
Mörg erlend fiskiskip löskuðust. Timburhús í Kleppsholti í Reykjavík fauk af grunni og mölbrotnaði, íbúana sakaði lítið, þök tók af nokkrum húsum í bænum, bílskúr eyðilagðist. Talið er að meir en 20 önnur hús í Reykjavík hafi orðið fyrir teljandi fokskemmdum, grindverk og jafnvel steinveggir skemmdust um allan bæ. Fjárhússamstæða fauk á Reynisvatni í Mosfellssveit, þak rauf á Korpúlfsstöðum og skemmdir urðu í Leirvogstungu og fleiri bæjum þar í grennd. Járnplötu- og reykháfafok varð á húsum í Grindavík, Sandgerði, Keflavík og á Akranesi, tjón varð í höfninni í Sandgerði og þar fauk heyhlaða og önnur brotnaði. Margir vélbátar skemmdust í Vestmannaeyjahöfn. Miklar símabilanir urðu, fjara var suðvestanlands þegar veðrið var sem verst - og þótti það hafa bjargað miklu.
Tjón varð á útihúsum á nokkrum bæjum í Miðfirði. Þak fauk af húsi á Sauðárkróki. Miklar bilanir á raflínum á Akureyri.
Þak síldarverksmiðjunnar á Raufarhöfn skaddaðist og tjón varð á bæjum á Melrakkasléttu. Þakhluti fauk á Skálum oá Langanesi og gafl féll á húsi, járnplötur fuku af prestsetrinu á Sauðanesi og sláturhús fauk á Bakkafirði og þar í grennd sködduðust útihús á nokkrum bæjum. Í Vopnafirði fuku 7 hlöður og nokkuð foktjón varð í kauptúninu. Í Húsavík í Borgarfirði eystra jöfnuðust flest hús við jörðu og þrír menn slösuðust, barnaskólahús laskaðist á Borgarfirði og þar skemmdust mörg hús illa og skekktust á grunnum, auk rúðubrota og járnplötufoks. Mikið tjón varð einnig á bæjum í Loðmundarfirði. Mikið tjón varð í Seyðisfirði, þak tók af tveimur hlöðum og á Vestdalseyri fauk stórt fiskipakkhús, íbúðarhúsið á Dalatanga skekktist og rúður brotnuðu, þar fauk og þak af hlöðu, járnplötur fuku og gluggar brotnuðu í kaupstaðnum.
Tjón varð á flestum húsum í Eskifjarðarkaupstað, minniháttar á flestum, en fáein skemmdust verulega, þak tók af kolaskemmu og rafmagns- og símalínur í bænum rústuðust. Tjón varð einnig mikið á nágrannabæjum og nokkuð foktjón varð á Búðareyri í Reyðarfirði. Járn tók af húsum í Neskaupstað, bryggjur og bátar löskuðust. Heyskaðar og miklar símabilanir urðu víða og bryggjur brotnuðu á Fáskrúðsfirði. Á Fáskrúðsfirði tók þök alveg af tveimur íbúðarhúsum og fleiri hús þar og í nágrannabyggðum urðu fyrir skemmdum. Þak fauk af húsi á Jökuldal og talsverðar skemmdir urðu á Eiðum.
Járnplötur fuku á nokkrum bæjum í Hornafirði. Heyhlaða fauk á Flögu í Skaftártungu og þak af fjárhúsi á Fossi á Siðu, minniháttar tjón varð í Landbroti. Tjón varð að á minnsta kosti 30 stöðum í Árnessýslu, tjón varð á fjölmörgum bæjum í Rangárvallasýslu vestanverðri austur í Fljótshlíð, fjórar hlöður fuku í Landssveit og tjón varð á fleiri húsum á nokkrum bæjum. Refabú fauk á Arnarbæli í Ölfusi.Miklar skemmdir urðu í Flóa og á Skeiðum, þar fuku þök af útihúsum á nokkrum bæjum. Þak fauk af barnaskólanum á Eyrarbakka og veiðarfærahjallur fauk.
Hér var getið um tjónið í Húsavík eystra. Um það ritaði Halldór Pálsson ágæta grein sem birtist í Tímanum rúmu ári síðar, þann 28. mars 1939. Þessa fróðlegu grein má finna í viðhengi með þessum pistli. Kenna mætti þetta veður við Húsavík. Halldór varð síðar þekktur meðal veðurnörda fyrir bækur sínar Skaðaveður. Þær urðu líklega fimm talsins og fjalla um illviðri hér á landi á árunum 1886 til 1901. Áhersla er á Austurland - þótt aðrir landshlutar komi reyndar við sögu. Mikill fróðleikur er í bókum þessum og fá þær bestu meðmæli ritstjóra hungurdiska.
Vísindi og fræði | Breytt 28.11.2016 kl. 01:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2016 | 00:59
Fárviðrið 28. febrúar 1941
Veturinn 1940 til 1941 taldist lengst af hagstæður hér á landi. Í tíðarhnotskurn ritstjóra hungurdiska segir: Desember 1940: Hagstæð tíð, hlýtt. Janúar 1941: Óvenju stillt, úrkomulítið og bjart veður. Fé gekk mikið úti. Gæftir góðar. Færð mjög góð. Hiti ekki fjarri meðallagi. Febrúar 1941: Tíð var lengst af hagstæð og þurrviðrasöm á S- og V-landi, en síðari hlutinn varð snjóþungur á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti undir meðallagi. Mars 1941: Lengst af milt og hagstætt tíðarfar, og góðir hagar. Framan af var mikill snjór á N- og A-landi, en annars snjólítið. Gæftir góðar fyrir S- og V-landi, en síðri a-lands. Hiti ofan við meðallag.
En ekki var nú alveg jafnvel sloppið og þetta yfirlit gefur til kynna því í síðustu viku febrúar og fyrstu viku marsmánaðar gerði hið versta veður og náði það hámarki þann 28. febrúar þegar vindur náði fárviðrisstyrk (12 vindstigum) í Reykjavík í athugunum kl. 6, 12 og 15. Vindur var af stormstyrk (9 vindstig) eða meira linnulítið frá því snemma að morgni fimmtudags 27. febrúar fram yfir hádegi laugardaginn 1. mars - og svo aftur síðdegis mánudaginn 3. mars.
Við lítum hér nánar á þetta athyglisverða norðan- og norðaustanveður sem allmargir af elstu kynslóðinni muna enn - og geta staðsett þó liðin séu rúm 75 ár síðan.
Það sem gerði veðrið sérlega minnisstætt voru ströndin sem minnst er á í frétt Vísis hér að ofan síðdegis föstudaginn 28. febrúar og er það óformlega kennt við Rauðarárvík - skammt frá Hlemmi í Reykjavík og atburðina þar. Það yrði sennilega ámóta minnisstæður atburður í dag ef meðalstórt skemmtiferðaskip færi upp undir götu við Ánanaust í vestanfárviðri - ekki ómögulegt.
Önnur blöð birtu fréttirnar daginn eftir, laugardag 1. mars. Á klippunni úr Morgunblaðinu sem hér er sýnd er einnig getið um hríðarveður og rafmagnsleysi nyrðra. Fram kemur í þessum fréttum að úrkomulaust hafi verið í Reykjavík en mikið særok hafi gengið yfir allan bæinn.
Bandaríska c20v2-endurgreiningin nær veðrinu allvel. Að morgni fimmtudagsins 27. fór að hvessa í Reykjavík. Djúp lægð var vestan við Bretland og þokaðist norður á móti allmikilli hæð yfir Grænlandi. Hér eru jafnhæðarlínur 1000 hPa-flatarins sýndar - með 40 metra bili, það jafngildir 5 hPa. Lægðin er um 967 hPa í miðju, en hæðin yfir Grænlandi í kringum 1030 hPa.
Háloftakortið hér að neðan afhjúpar hvers eðlis er.
Hér má sjá mikið lægðasvæði teygja sig norðan úr höfum og suður yfir Ísland, en fyrirstöðuhæð er við Suðvestur-Grænland. Lægðin fyrir sunnan land hafði orðið til úr lægðardragi sem kom norðan úr Íshafi og var að fara suður fyrir Ísland.
Við skulum reikna þykktina yfir Reykjavík út - en hún sýnir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs. Það er 5100 metra jafnhæðarlína 500 hPa-flatarins sem liggur yfir Reykjavík - á hinu kortinu er það 120 metra jafnhæðarlína 1000 hPa sem er á sama stað. Mismunurinn er þykktin, 5100 - 120 = 4980 metrar. Það má hrökkva aðeins við þegar þessi tala sýnir sig því við vitum að vindur var hvass. Þetta loft er jökulkalt - meir um það hér á eftir.
Daginn eftir var veðrið í hámarki. Kortið gildir á hádegi, lægðin þá ekki langt undan Suðausturlandi og hafði heldur dýpkað, komin niður í 961 hPa - og hæðin svipuð yfir Grænlandi. Þessi staða minnir nokkuð á annað fárviðri sem við litum hér á á dögunum, það sem gerði undir janúarlok 1966 (Hekluveðrið).
Háloftakortið á sama tíma sýnir að mjög hefur hlýnað í háloftunum - hlýja loftið hefur ruðst yfir það kalda sem enn berst fyrir tilveru sinni yfir Íslandi með Grænlandsfjöll sem bakhjarl.
Íslandskortið er nokkuð æðisgengið (skýrist nokkuð við stækkun), það sýnir veðrið kl. 8 að morgni þess 28. Þá er farið að hlána suðaustanlands og þrýstibrattinn þar aðeins að minnka - en enn er hver jafnþrýstilínan ofan í annarri yfir Vesturlandi - í frosti. Mikil hríð geisaði á öllu Norðurlandi.
Þrýstiritið frá Reykjavík nær hér yfir vikutíma, frá 24. febrúar til 3. mars. Enginn sérstakur asi er á þessu illviðrakerfi. Örin sem er lengra til vinstri á myndinni sýnir hvar byrjar að hvessa að ráði - þrýstingur er varla farinn að falla. Venjulega fellur þrýstingur í nokkurn tíma áður en vindur nær stormstyrk - ekki í þetta sinn. Óþægilegt fyrir þá sem treysta á loftvog sína eina til veðurspádóma - greinilega nauðsynlegt að líta líka til himins, skima og hlusta.
Örin neðar og lengra til hægri sýnir lauslega hvenær fárviðrið í Reykjavík byrjaði. Eins og oft er í norðanveðrum sjáum við grófgerðan óróleika á þrýstiferlinum - trúlega flotbylgjur vaktar á leið vindsins yfir landið - og að lokum Esjuna og fjöllin þar í kring.
Eins og áður var minnst á hrukkum við dálítið við þegar þykktin í upphafi veðursins kom í ljós. Hér má sjá hluta síðu veðurbókar úr Reykjavík í febrúar 1941, athuganir kl. 8 og 12 dagana 18. til 28.
Við skulum rýna í færslurnar þann 27. (næstneðsta línan) - myndin skýrist sé hún stækkuð. Fyrsti dálkur sýnir loftþrýsting í millimetrum kvikasilfurs - fyrsta staf sleppt (57,4 == 757,4 mm = 1009,8 hPa). Síðan er vindátt og vindhraði, norðnorðaustan níu vindstig - og síðan hitinn, -11,1 stig.
Lengra til hægri má sjá veðrið kl.12, norðnorðaustan tíu vindstig og frostið -10,4 stig. - Daginn eftir eru 11 vindstig kl. 8 og 12 vindstig kl.12 - en frostið minna.
Særokið sem gekk yfir bæinn hefur víða frosið við snertingu og myndað ísingu - heldur óskemmtilegt svo ekki sé meira sagt - og eins gott að halda sig heima og fylgjast með lekanum.
Þótt vindhraði í Reykjavík hafi verið óvenjumikill í þetta sinn höfum við samt sem áður séð þrýstisvið sem þetta endrum og sinnum í norðaustanátt - en að tíu stiga frost eða meira sé samfara því á Suðvesturlandi er nánast óþekkt á síðari árum - alveg utan reynsluheims starfandi veðurfræðinga alla vega.
Við getum spurt gagnagrunn Veðurstofunnar um hvenær vindur hefur síðast verið 20 m/s eða meiri í 10 stiga frosti í Reykjavík. Svarið kemur um hæl: 15. janúar 1969 og aldrei annars frá 1949. Í annarri töflu í gagnagrunninum eru athuganir frá 1935 til 1948 - þar eru tilvikin tvö. Annars vegar þetta sem hér hefur verið til umfjöllunar, en hitt á þriðja í jólum (27. desember) 1947.
Við getum líka staðfest beint nokkur tilvik (að minnsta kosti 6) á árunum 1907 til 1919 - og við vitum af slatta af nítjándualdartilvikum.
Hámarkshiti dagsins þann 27. febrúar 1941 var -7,9 stig í Reykjavík - í brjáluðu veðri. Sólarhringshámarkshiti í höfuðborginni hefur ekki verið lægri en -8,0 stig síðan 19. nóvember 2004 - en þá var hægviðri (og besta veður að sumra smekk). Aftur á móti var leiðindaveður (ekki þó stormur) þann 1. mars 1998 en þá var hámarkshiti sólarhringsins -10,0 stig.
Illviðrið 1941 var eiginlega nítjándualdarveður á miðju hlýskeiði og sýnir að meira að segja bestu hlýskeið fría okkur ekki algjörlega frá kuldabola. Auðvitað á þetta eftir að endurtaka sig nokkurn veginn.
Síðasta mynd þessa pistils sýnir hita (gráar súlur) og loftþrýsting í Reykjavík í febrúar 1941 - og fram í mars. Skammvinnur kuldi var í byrjun mánaðar - en þá tók við sæmilega hlýtt tímabil - kuldinn þann 24. til 27. sker sig úr. Þrýstibreytingar (rauður ferill) eru ekki mjög stórar og fremur hægar flestar hverjar.
Tjón í veðrinu virðist hafa orðið mest við sunnanverðan Faxaflóa - en vandræði af einhverju tagi hafa verið um mestallt land. - Í framhaldinu varð mikil snjóflóðahrina og vestur á Ísafirði varð hörmulegt slys þann 3. þegar tvær telpur fórust í snjóflóði sem féll á húsið Sólgerði.
Þar sem veðrið stóð í marga daga er erfitt að dagsetja ýmsa atburði með fullri vissu. Auk mannskaðasnjóflóðsins á Ísafirði er getið um eftirfarandi tjón: Nokkur skip strönduðu, þar á meðal 2 í Rauðarárvík við Reykjavík og mikið tjón varð á bátum í höfnunum í Njarðvík og Keflavík. Drukknuðu þá 25 manns. Togari frá Reykjavík fórst út af Faxaflóa og með honum 19 menn, á svipuðum slóðum fórst bátur frá Siglufirði og með honum sex menn.
Skemmdir urðu víða. Bryggja brotnaði á Oddeyri á Akureyri og sópaðist burt. Síma- og rafmagnskerfi skemmdust á Akureyri og Húsavík. Smáslys og skemmdir urðu í Reykjavík. Mikið fannfergi var nyrðra. Þök reif af húsum á Snæfellsnesi, á Búðum, Hofgörðum og Elliða í Staðarsveit. Mikið brim var í Ólafsvík og gekk langt á land.
Mikið fannfergi ver nyrðra og þar urðu og fjárskaðar. Talsvert var um stór snjóflóð á Vestfjörðum, Norður- og Austurlandi.
24.11.2016 | 23:22
Sérlega hlýtt loft yfir landinu í dag (en stóð stutt við)
Gríðarlega hlýtt loft var yfir landinu í dag (fimmtudag 24. nóvember) - og reyndar sló því niður sums staðar um landið austanvert. Þegar þetta er skrifað hafði hiti á Dalatanga komist í 20,1 stig. Þetta er nýtt landsdægurmet (en slík falla að jafnaði nokkur á hverju ári). Tuttugu stig hafa aðeins einu sinni mælst síðar að hausti. Það var fyrir þremur árum að hiti fór í 20,2 stig á Dalatanga þann 26. nóvember. Má um það lesa í gömlum pistli hungurdiska.
Þuklforrit ritstjóra hungurdiska segir hámarkshitann á Dalatanga í dag þann hæsta sem þar hefur mælst á þessu ári (2016) - rétt að hinkra augnablik með að staðfesta það. - Það er ekki dæmalaust á einstökum stöðvum að hæsti hiti ársins falli utan sumarsins. Um þennan sjúkdóm var fjallað í pistli hungurdiska í desember 2010 - þá var vitað um fjögur tilvik í nóvember.
Þykktarkort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl.18 í dag sýnir að hámarkið 5560 metra við Austfirði. Þykktin mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs og svona há tala þykir bara nokkuð góð um hásumar og heldur sjaldséð í nóvember - en ekki einstök þó.
Hlýindi sem þessi að vetrarlagi eru sýnd veiði en ekki gefin - erfitt er að koma þeim niður til mannheima - engin sólarylur til að hjálpa til og oftast er verið að eyða varma í snjóbræðslu. Dugar lítt nema töluverður vindur og fjöll til að búa til þá lóðréttu hreyfingu og blöndun sem til þarf.
Litirnir á kortinu sýna hita í 850 hPa-fletinum, í um 1400 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar er hæsta talan við Austurland 11 stig.
Við getum reynt að draga 850hPa-hlýindin niður til sjávarmáls (strangt tekið 1000 hPa-flatarins) og kortið sýnir niðurstöðu slíkar æfingar - útkoman er kölluð mættishiti, til aðgreiningar frá þeim sem við mælum beint með hitamæli. Á kortinu er mættishiti við Austfirði 25,0 stig. - Það er alltaf rétt hugsanlegt að hiti nálgist þá tölu - en mjög ólíklegt þó á þessum árstíma. - Mun þó sjást einhvertíma í framtíðinni þegar vel hittir á - bíðum við nægilega lengi og mælum nógu víða og oft - og það er alveg óháð auknum gróðurhúsaáhrifum - lottóið lætur ekki að sér hæða.
En - það má benda á kuldann yfir Grænlandi - þar er þykktin í vetrarveldi. Að hluta til er raunar um sýndarþykkt í líkaninu að ræða - sem ekki getur hreyfst frá Grænlandi - en ekki bara. Það er mjög kalt loft við Grænland, að sögn fór frost á stöðinni á Grænlandsbungu (3000 metra yfir sjávarmáli) í -57 stig í dag (óstaðfest) - óvenjumikið ef rétt er.
Þetta kalda loft verður að voma yfir okkur næstu vikuna - sumar spár eru að reyna að slá því suður til okkar undir miðja næstu viku - alla vega um tíma - en aðrar telja ekki verulega hættu á ferðum - stundarkulda þó. En full ástæða er til að fylgjast með þessu.
Vísindi og fræði | Breytt 25.11.2016 kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2016 | 00:24
Fárviðrið 15. janúar 1942
Veðurfar á árum síðari heimsstyrjaldarinnar var tilbreytingarríkt. Almennt var þó mjög hlýtt hér á landi og veturinn 1941 til 1942 engin undantekning. Tíð var þá lengst af hlý og snjólítil. Nokkuð illviðrasamt var þó um tíma - sérataklega í janúar og keyrði um þverbak með miklum veðrum á landsvísu þann 12. og þann 15. - og líka blés verulega þann 18.
Það er veðrið þann 15. sem hér er til umfjöllunar, en þá mældist meiri vindhraði í Reykjavík en nokkru sinni, fyrr eða síðar. Lesa má meira um þetta veður í greinargerð sem Flosi Hrafn Sigurðsson ritaði og kom út 2003.
Fréttin hér að ofan er úr Alþýðublaðinu 16. janúar. Prentaraverkfall stóð yfir mestallan mánuðinn og Alþýðublaðið það eina sem út kom í Reykjavík á meðan. Fyrirsögnin er bara nokkuð rétt.
Svo vill til að c20v2-endurgreiningin nær veðrinu vel - betur en búast hefði mátt við.
Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins að kvöldi 13. janúar og staðan er sígild uppstilling fyrir fárviðri hér á landi - við höfum séð hana hvað eftir annað áður í pistlaröð hungurdiska um reykjavíkurfárviðri. - Kyrrstæð lægð nærri Suður-Grænlandi dælir jökulköldu lofti út á Atlantshaf í veg fyrir vaxandi lægð austur af Nýfundnalandi. Kannski er sú um 985 hPa djúp (-120 metrar).
En rúmum sólarhring síðar var hún komin niður í 943 hPa (-460 m) - sé greiningin rétt. Við getum talið jafnþrýstilínur og fundið að munur yfir landið er meiri en 30 hPa. Þessi lægð var ólík fárviðrissystrum sínum ýmsum að því leyti til að hún fór ekki lengra en þetta - og grynntist svo ört.
Háloftakortið á sama tíma, um hádegi þann 15., gefur til kynna hvers konar veður þetta var. Við sjáum að stefna jafnhæðarlínanna yfir vestanverðu landinu er svipuð á báðum kortunum. Ritstjóri hungurdiska talar í slíkum tilvikum um hárastarveður - hes háloftavindrastar nær alveg til jarðar.
Á þessum tíma var athugað á tveimur stöðum í Reykjavík. Athuganir Veðurstofunnar voru í Landssímahúsinu við Austurvöll - hitamælaskýli stóð á stórum norðursvölum hússins, en setuliðið athugaði á Reykjavíkurflugvelli. Vindmælir var á síðarnefnda staðnum.
Landsynningsfárið stóð lengi dags og virtist engan enda ætla að taka - það var sérlega einkennilegt að vindur snerist heldur öfugt eftir því sem á daginn leið - fremur en hitt. Með því er átt við að í stað þess að fara úr suðaustri í suður og suðvestur, leitaði áttin í austlægari stefnu eftir því sem á daginn leið - Kuldaskil fóru um síðir yfir en greindust ekki vel - vindur fór þó um tíma aftur í hásuður og smám saman dró úr.
Við Landssímahúsið var vindhraði talinn SA 8 vindstig kl.8, SA 12 vindstig (fárviðri) kl. 12, ASA 10 kl.15 og A 10 kl.17, kl.21 var vindur talinn S 7. Rigning var á athugunartímum kl. 12, 15 og 17, en úrkoma mældist ekki sérlega mikil.
Hér má sjá Íslandskortið kl.17. Skeyti hafa aðeins borist frá helmingi landsins - væntanlega vegna símslita. Hlýindi fylgdu veðrinu, rauðu tölurnar sýna hita, 10 stig á Blönduósi.
Myndin hér að ofan sýnir opnu úr athugunarbókinni frá Reykjavíkurflugvelli. Örin bendir á 11 vindstig kl. 18 (z). Setuliðið varð fyrir gríðarlegu tjóni í veðrinu og vegna þess var gerð sérstök skýrsla um vindhraða þennan dag eins og hann kom fram á vindhraðamælinum. - Myndin hér að neðan sýnir brunnin plögg - um þau og varðveislu þeirra má lesa í áðurnefndri skýrslu Flosa Hrafns.
Fram kemur að meðalvindur var mestur (ekki er alveg ljóst við hvaða tíma var miðað) milli kl. 12 og 13, rétt tæplega 40 m/s og vindhviður fóru í nærri 60 m/s. - Grunsamlegt er að hámarkshviða er hvað eftir annað sú sama á listanum - kannski hefur mælirinn einfaldlega rekist uppundir.
Tjónið sem varð á flugvellinum er að einhverju leyti rakið í bók sem þeir John A. Kington og Peter G. Rackliff rituðu um veðurkönnunarflugsveitir breska hersins í síðari heimsstyrjöld og kom út árið 2000. Bókin ber nafnið Even the Birds Were Walking og er þar vísað til setningar í skýrslunni þar sem segir að fuglar hafi ekki einu sinni getað athafnað sig á flugi - hafi þurft að ganga milli staða.
Vindmælir var einnig á herflugvellinum í Kaldaðarnesi við Selfoss - en hann fauk. Veðurathugunartæki önnur fuku á báðum flugvöllum - skýlin þeyttust langt í loft upp.
Vegna prentaraverkfalls og stríðsbanns á veðurfréttum eru upplýsingar um tjón nokkuð gisnar - en það varð gríðarlegt - og víða um land.
Í Reykjavík fauk girðingin um íþróttavöllinn, þök fuku af að minnsta kosti fjórum húsum, hellur og járn tók af fjölda húsa, tré rifnuðu upp með rótum. Smáslys urðu á mönnum. Setuliðið varð fyrir miklu tjóni í braggahverfum og flugvellinum í Reykjavík og í Skerjafirði og í Hvalfirði. Flugbátar skemmdust á Skerjafirði og tjóðra þurfti nokkrar vélar niður á Reykjavíkurflugvelli - drógu þær um hríð 300 punda steypuklumpa og um 40 manns hver á eftir sér á stæðunum. Vindhraðamælir fauk á flugvellinum í Kaldaðarnesi og þar varð nokkuð foktjón - en vélar skemmdust ekki. Fjölmörg fjarskiptamöstur setuliðsins, þar af fjögur 60 feta og tvö 70 feta há féllu á 7 stöðum á landinu. Tvö veðurathugunarskýli setuliðsins fuku út í veður og vind, matstaður yfirmanna rústaðist auk fjölda bragga og kamra.
Erlent skip fórst við Mýrar og með því 25 manns. Nokkrir bílar á Akranesi fuku um koll og þök fuku af húsum. Kirkjan á Melstað í Miðfirði fauk af grunni og hvarf. Símabilanir urðu víða. Í Borgarfirði, í Dölum, Húnavatnssýslum, Ólafsfirði og undir Eyjafjöllum kom það fyrir að peningshús og önnur útihús fykju. Í Hjarðarholti (í Borgarfirði - eða Dölum?) fauk af öllum húsum, þak fauk af íbúðarhúsi á Urriðaá í Álftaneshreppi og tvær hlöður á Hrafnkelsstöðum. Á Hamraendum í Miðdölum fuku tvær hlöður, fjárhús, fjós auk allra veðurathugunartækja. Sláturhúsið á Hvammstanga fauk og brakið skemmdi önnur hús.
Þök fuku af þremur húsum á Kleifum í Ólafsfirði. Þak fauk af hlöðu í Höfðahverfi. Bryggja skemmdist í Hrísey og þak fauk þar af hlöðu. Sjógarðurinn á Eyrarbakka brotnaði. Smáskemmdir á húsum, heyjum og bátum urðu mjög víða. Tveir bátar sukku í Keflavíkurhöfn. Útihús fuku á tveimur bæjum undir Eyjafjöllum. Tjón varð í höfninni á Fáskrúðsfirði og bryggjur sködduðust. Nóttina eftir strandaði flutningaskip út af Skógarnesi á Snæfellsnesi eftir áföll í veðrinu, 25 fórust, 2 björguðust.
Eitt af því sem óvenjulegt má telja við þetta veður er að loftþrýstisveifla var ekki nærri því eins stór og algengast er samfara lægðum þessarar ættar. - Lægðin dýpkaði ákaflega en jafnframt hélt háþrýstisvæðið fyrir austan land velli.
Myndin sýnir þrýstirit vestan úr Bolungarvík (það efra) og úr Stykkishólmi (það neðra). Athugið að athugunarmaður í Bolungarvík er ekki búinn að venjast nýja ártalinu - skrifar 1941 - en 1942 er gengið í garð. Illviðralægðirnar þann 12. og þann 18. sjást mun betur á þessum ritum heldur en lægðin sem hér er um fjallað. Stykkishólmsritið er það eina á landinu sem sýnir hreyfingu að ráði - og sú er mjög einkennileg vægast sagt. Ritstjóri hungurdiska treystir sér ekki til að skera úr um það hvort er hér á ferðinni, gríðarkröpp lægðarbylgja eða þrýstisveifla vegna lóðréttar bylgjuhreyfingar. - Ef um það fyrra er að ræða mætti e.t.v. sjá einhvern vott af ámóta á öðrum þrýstiritum - en sé um eitthvað lóðrétt að ræða gæti þessi þrýstisveifla verið staðbundin.
En ritstjórinn var mjög feginn að sjá hversu rösklega lægðin dýpkar í endurgreiningunni - við það varð veðrið að miklum mun skiljanlegra í hans huga. Fárviðri án mikilla sýnilegra þrýstibreytinga eru mjög óþægileg í huga gamalla veðurspámanna - þeirra sem áttu flest sitt undir aðgengi að góðum upplýsingum um loftþrýsting og breytingar á honum. - Þó öldin muni nú vera önnur er sá (óttalegi) möguleiki alltaf fyrir hendi að aðgengi að tölvuspám bregðist og menn sitji aftur uppi aðeins með loftvog og hyggjuvit að vopni.
Eins og áður sagði var veturinn 1941 til 1942 mjög hlýr á Íslandi - en heimsstyrjaldarnörd vita að hann var sá þriðji í röð sannkallaðra fimbulvetra í Norður- og Austurevrópu. Voru menn nú farnir að ganga að hlýindum nær vísum hér á landi og brá nokkuð við þann næsta, 1942 til 1943. Ekki var sá kaldur á langtímavísu, en svo má hlýindum venjast að þau taki yfir í huganum og gerist hið eðlilega.
Smávegis má sjá um samanburð hita á Íslandi og Álandseyjum á þessum árum í gömlum pistli hungurdiska.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.11.2016 | 21:09
Órói í veðrakerfinu (eins og oftast á þessum árstíma)
Nú er aðeins mánuður að vetrarsólstöðum og veturinn - eins og venjulega - farinn að herða tökin á norðurslóðum. Við höfum að mestu sloppið við hann hingað til, en líkur á að lenda í skotlínum fara vaxandi. Ekkert er þó í reynd hægt um það að segja - en við skulum samt líta á norðurhvelsstöðuna og froðast dálítið.
Kortið er úr smiðju evrópureiknimiðstöðvarinnar og sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina um hádegi á miðvikudag 23. nóvember. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því stríðari er vindurinn. Þykkt er sýnd með litum, kvarðinn verður skýrari sé myndin stækkuð.
Meginvindhringrásin virðist vera nokkuð tvískipt (ritstjórinn hefur sett inn tvo strikaða hringi til skýringar. Stóri hringurinn liggur langt suður í löndum - þar yfir er svokölluð hvarfbaugsröst - stærsta meginröst norðurhvels. Meginkjarni hennar er þó talsvert ofar en þetta kort sýnir - uppi í um 200 hPa, 11 til 12 km hæð - en hér erum við í 5 til 6 km.
Minni hringurinn markar nokkurn veginn legu heimskautarastarinnar - en þó eru mjög miklar bylgjur á henni sem ná langt til suðurs - suður undir hvarfbaugsrastarsvæðið þar sem best lætur.
Rauðar örvar benda á þrjár bylgjur. Ein er yfir Pýrenneaskaga - þar er nú mjög kalt miðað við árstíma - snjóar væntanlega um öll fjöll næstu daga. Önnur bylgja - alveg lokuð lægð - er austur við Kaspíahaf. Sú olli gríðarlegri snjókomu í Kasakstan á dögunum og komst í fréttir. Væntanlega er hríðinni ekki lokið. - Íranskar og sumar Túrkmenskar fjallasveitir munu verða illa úti í snjókomu eða mikilli úrkomu. - Þriðja bylgjan - beinn afleggjari úr kuldapollinum mikla - Síberíu-Blesa er skammt norður af Japan og mun valda mikilli hríð við Japanshaf.
Köld bylgja er líka rétt vestur af Nýfundnalandi - en samt er almennt mjög hlýtt í Norður-Ameríku. Þar fyrir vestan eru nokkrar stuttar bylgjur á ferð (blágráar strikalínur á myndinni). Allt of stutt er á milli bylgnanna og sparka þær hver í aðra og síðan líka í kuldapollinn við Nýfundnaland - þannig að honum er ósætt. Hvað verður úr þessu bylgjustóði er vart hægt að segja - það mun hins vegar hafa áhrif á bylgjumynstrið í námunda við okkur.
Mynstrinu yfir Evrópu er öðru vísi farið - þar er eiginlega of langt á milli bylgnanna. Mjög hlýtt sem stendur en framtíðin til lengri tíma mjög óljós - rétt eins og hjá okkur.
Bylgjan við Nýfundnaland er á kortinu að beina til okkar mjög hlýju lofti - svona í bili - svo á hún að koma til okkar sjálf (þá um helgina).
Alla næstu daga verður svo óþægilega mikil hreyfing á kuldapollunum innan þrengri hringsins - spurning hvað þeir gera næst?
19.11.2016 | 01:34
Fárviðrið 18. desember 1946
Hér ætti ef til vill að setja orðið fárviðri í gæsalappir - því þetta tilvik er dálítið á mörkunum. En talan 12 (vindstig) stendur í Reykjavíkurathugunarbókinni - og er sömuleiðis tilfærð í Veðráttunni, opinberu skýrsluriti Veðurstofunnar. Við verðum að láta undan slíku og höfum þetta veður því með á lista reykjavíkurfárviðra. En - og meir um það en hér neðar.
Lítum fyrst á stöðuna eins og hún var að mati bandarísku c20v2-endurgreiningarinnar.
Kortið sýnir hæð 1000-hPa flatarins á hádegi 18. desember 1946 og er jafngilt sjávarmálsþrýstikorti. Mikil hæð er yfir Skotlandi, nærri því 1045 hPa í miðju (320 metra jafnhæðarlínan jafngildir 1040 hPa). - Grunn, en fremur kröpp lægð, er fyrir suðvestan Ísland - rúm 1000 hPa í lægðarmiðju. Gríðarmikill vindstrengur er á milli lægðar og hæðar - alveg tilefni til sviptinga.
Háloftakortið er svipað - vindur yfir Íslandi aðeins vestlægari en nær jörðu. Það er vel mögulegt að þessi mikli vindur hafi slegið sér niður sums staðar á landinu - en tjóns er aðeins getið á einum stað, Hofsósi, þar sem stór vélbátur slitnaði upp og brotnaði.
En þetta veður var merkilegt fyrir hlýindi - þennan dag mældist hæsti hiti sem þá hafði nokkru sinni frést af í Reykjavík í desembermánuði, 11,4 stig. Þetta met fékk að standa allt til 14. desember 1997 að hitinn fór í 12,0 stig í höfuðborginni. Það gerðist svo aftur 6. desember 2002. Tvær aðrar stöðvar þar sem lengi var athugað áttu einnig sín desembermet um þessar mundir, Hamraendar í Miðdölum sama dag og í Reykjavík, og Nautabú í Skagafirði daginn áður.
Eitthvað óvenjulegt við þetta.
Hér má sjá Íslandskort frá því kl.20 um kvöldið - einmitt þegar 12 vindstig voru talin í Reykjavík í talsverðri rigningu og 8 stiga hita. Mjög hlýtt er um land allt.
Ef vel er að gáð má sjá alls konar krot á jöðrum kortsins. Sé rýnt í það má sjá að einhver hefur verið að klóra sér í höfðinu yfir vindhraðanum, m.a. er greinilega vísað í reikning á þrýstibratta yfir svæðið á milli rauðu örvanna (þeim bætti ritstjóri hungurdiska inn á kortið). Sömuleiðis er vindhraðatala rituð ofarlega á hægri jaðri kortsins (45-50 m.p.h. = mílur) og þar er líka mannsnafnið Hilmar í sviga.
Þess má geta að á stríðsárunum ráku bretar veðurstofu á Reykjavíkurflugvelli - og sáu um flugvallarveðurspár. Veðurstofa Íslands tók alfarið við þeim rekstri þann 15. apríl 1946 - vindmælir breta var hér enn í notkun að því er virðist og mældi hann auðvitað í enskum mílum - sömuleiðis voru enn í notkun breskar athugunarbækur fyrir flugvallarathuganir.
Myndin sýnir opnu sem nær yfir síðari hluta dags þann 18. desember 1946. Þar er vindhraði kl.21 (20 að íslenskum miðtíma - en það er tíminn sem notaður er á Íslandskortinu að ofan) skráður 70 mílur - og tilfærður sem 12 vindstig. - En 70 mílur eru ekki nema 31,3 m/s - að okkar tali ekki nema 11 vindstig.
Þá kemur að staðreynd sem fáir gera sér grein fyrir - töflur sem varpa mældum vindhraða yfir í vindstig (og öfugt) hafa verið misjafnar í gegnum tíðina - og eftir löndum. Satt best að segja er það mál allt hálfgerður hryllingur og vart nema fyrir hörðustu veðurnörd að ná utan um söguþráðinn, skilja hann og læra. Ekki verður farið nánara í saumana á þessu máli hér, en þess verður þó að geta að árið 1946 byrjuðu 12 vindstig hér á landi í 29.1 m/s - en miðað við 6 metra hæð, en ekki 10 metra eins og síðar varð. - Vindmælirinn á Reykjavíkurflugvelli var hærra uppi þannig að við getum með nokkurri vissu fullyrt að þeir 31,3 m/s sem bókin tilfærir hafi ekki verið fárviðri samkvæmt núverandi skilgreiningu þess. - En við getum hins vegar ekkert um það sagt hvoru megin þáverandi fárvirðismarka 10 metra vindurinn hefur verið - trúlega réttu megin þó.
Til uppfræðslu leggur ritstjórinn gamlan greinarstúf Jóns Eyþórssonar úr tímaritinu Ægi árið 1928 í viðhengi með þessum pistli. Má þar sjá vindkvarðann eins og ætlast var til að hann væri notaður hér á landi á árabilinu 1926 til 1948. - Aftan við greinina geta þeir allra þrautseigustu svo fundið tengla á frekari fróðleik - m.a. í skýrslu hollensku veðurstofunnar um vindkvarðann.
En við lítum að lokum á loftþrýstirit.
Örin sýnir lægðina sem veðrinu olli. Í athugun sem gerð var kl. 23 var vindur enn talinn 9 vindstig - en kl. 2 um nóttina voru vindstigin ekki nema 5, vindátt hafði snúist til suðvesturs og hiti fallið niður í 5 stig. - Djúpa lægðin sem sjá má lengra til hægri á ritinu olli hins vegar norðanstormi og frosti.
18.11.2016 | 00:10
Kalt - eða ekki svo kalt?
Kælan úr vestri afrekaði að koma lágmarkshitanum í Reykjavík niður fyrir frostmark - í fyrsta sinn á þessu hausti. Ekki er vitað til þess að svo lengi hafi fyrsta frost áður dregist í höfuðborginni.
Fleiri stöðvar enduðu líka sitt frostlausa skeið - og standa nú fáar eftir hreinar. Þegar þetta er skrifað (rétt fyrir miðnætti þann 17. nóvember) eru þær aðeins sex: Surtsey, Seley, Garðskagaviti, Vattarnes, Papey og Kolgrafafjarðarbrú, sú síðastnefnda reyndar við fall, komin niður í 0,1 stig núna kl.23. Kannski lifir frostleysan ekki af nóttina á hinum heldur.
Annars er þessi norðanátt - sem nú er komin upp úr vestanáttinni - furðuhlý miðað við árstíma. Enginn tími hefur enn gefist til að ná í raunverulega kalt loft. Geislunarbúskap er þó þannig háttað núna í skammdeginu að hiti hrapar strax og það lægir og léttir til. Engan vind eða minnstu blöndun af öðrum orsökum þolir þó sá kuldi - ekki einu sinni að saklaus flákaský - sem ekkert virðast geta gert - dragi upp á himininn.
Við skulum líta á stöðuna á laugardaginn - eins og hún verður að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar.
Hér er norðanáttin enn ríkjandi - trúlega skefur enn og snjóar á stöku stað - sérstaklega um landið norðaustanvert. En við látum Veðurstofuna alveg um að gera grein fyrir því. En það er stutt í hægviðrið vesturundan. Að sjá er norðanáttin komin langt norðan úr Íshafi. Það er kannski ekki alveg rétt tilfinning því hún er alls ekki köld. Kannski bara vestanloftið að snúa aftur úr norðausturleiðangrinum. Vel má vera að úrkoman verði blaut í hafáttinni nyrðra - alla vega við sjávarsíðuna.
Óþægilega kröpp lægð er við Bretland - svo á leið inn á Norðursjó.
Háloftakortið sýnir okkur að norðanáttin er djúp - hún er líka ríkjandi í 5 km hæð yfir landinu - munur á flatarhæð yfir landið er um 70 metrar - á að giska 9 hPa - er örlítið meiri við sjávarmál á kortinu fyrir ofan - það lítilsháttar þykktarmunur (hitamunur) á milli Vestfjarða og Suðausturlands sem bætir aðeins í vindinn í neðstu lögum.
En það er nú aðallega þykktarflatneskjan sem vekur athygli - risastórt svæði í sama daufa bláa litnum. Þessi daufblái litur þykir mjög kaldur á Bretlandi á þessum árstíma - meðalþykkt yfir Norður-Írlandi í nóvember er um 5400 metrar, á þessu korti er hún um 120 metrum lægri - hiti í neðri hluta veðrahvolfs um 6 stigum undir meðallagi. Hlýtt yfirborð lands og sjávar á þeim slóðum sér til þess að hitavik við jörð verða ekki alveg svona stór.
Hér á landi er meðalþykktin í nóvember hins vegar um 5280 metrar, á kortinu er þykktin yfir landinu um 60 til 70 metrum lægri, hitavik upp rúm 3 stig - en það sama á líka við hér og á Bretlandi - að raunvikin við jörð eru lægri við sjóinn og þar sem vindur nær að blása. Aftur á móti geta neikvæðu vikin orðið meiri inni í sveitum sé bjart og lygnt.
En hvað svo? Satt best að segja er það eitthvað afskaplega óljóst. Staðan virðist eitthvað mjög svo óstöðug á vesturhveli næstu dagana - og þar með hér á landi.
16.11.2016 | 21:45
Fárviðrið 7. janúar 1952
Það er álitamál hvort greina eigi óðalægðarveðrið þann 5. janúar 1952 (og fjallað var um í síðasta pistli) frá útsynningsofsanum sem fylgdi í kjölfarið - en það er gert hér vegna þess hversu merkilegur útsynningur þessi var - talsvert öflugri en venja er.
Endurgreiningarkortið hér að ofan sýnir hæð 1000 hPa-flatarins kl.6 að morgni 7. janúar og er jafngilt sjávarmálsþrýstikorti. Lægðin á Grænlandssundi er á kortinu rétt innan við 960 hPa djúp - sennilega hefur hún verið enn dýpri í raunveruleikanum. Mikill vindstrengur liggur alla leið frá Grænlandi til Íslands færandi með sér öskudimm él og saltrok.
Austur af Nýfundnalandi er svo ný lægð í foráttuvexti. Sú fór til norðnorðausturs rétt fyrir austan land tæpum tveimur sólarhringum síðar og olli fárviðri og sköðum víða austanlands - en sló rækilega á útsynninginn á Vesturlandi.
Háloftakortið á sama tíma er mjög óvenjulegt - það er 4680 metra jafnhæðarlína 500 hPa-flatarins sem liggur í kringum lægðarmiðjuna á Grænlandssundi, flatarhæðin í miðjunni er líklega innan við 4640 metrar - nánast einstakt í þessari stöðu og ljóst að hér erum við að sjá einhvern snarpasta útsynning sem vitað er um. Nánast útlokað er að háloftalægðin hafi getað orðið þetta djúp nema vegna þess að mikið magn af mjög köldu lofti hafi rekist niður af Grænlandsjökli á mjög löngum kafla - mun lengri en venjan er.
Þegar hér var komið sögu hafði nær samfellt illviðri staðið um landið suðvestanvert - og um mikinn hluta Norðurlands í meir en tvo sólarhringa. Meira og minna rafmagnsleysi ríkti á þessu svæði, bæði vegna línuslita og krapa í inntaksmannvirkjum Sogs- og Andakílsárvirkjana og varð tilefni fréttarinnar hér að neðan sem birtist í Tímanum þann 8.
Allt satt og rétt - þótt ólíkindalega hljómi við fyrstu sýn.
Athuganabókin frá Reykjavíkurflugvelli sýnir vel hversu óvenjulegt veðrið var. Vindhviður fóru yfir 40 m/s í hverju élinu á fætur öðru undir morgun, mest í 46,3 m/s, og 10-mínútna meðalvindhraði í 34 m/s um kl. 8.
Éljahrinurnar sjást vel á vindritinu (tíminn frá 2 til 6 aðeins sýndur hér - athuga að þegar kl. er 4 á vindritinu (ímt) er hún 5 í bókinni (z) - [kæru Alþingismenn, vægið okkur við klukkuhringli í framtíðinni]).
Ekki er auðvelt að greina að þá fokskaða sem urðu í veðrinu þ.5. og svo þá sem urðu þann 6. og 7. - en í þessum síðari hluta virðist tjón hafa orðið hvað mest í Þingeyjarsýslu þar á meðal á bæjum í Aðaldal, þak fauk af fjárhúsi á Rauðuskriðu og steinfjós í byggingu fauk í Fornhaga, Miklar rafmagnstruflanir urðu áfram suðvestanlands, Sogslínan slitnaði aftur og erfitt var að koma útvarpssendingum á réttan kjöl. Lítið rafmagn var að hafa frá Laxárvirkjun í Þingeyjarsýslu.
Átta mjólkurbíla lest með ruðningstæki í fararbroddi var klukkustund að brjótast frá Selfossi að Hveragerði í blindhríð. Vegurinn fyrir Hvalfjörð hafði verið illfær í meira en viku, en í versta veðrinu höfðu tvö snjóflóð fallið á veginn og engin mjólk barst til Reykjavíkur úr Borgarfirði eftir að Eldborgin fór upp í fjöru. Vegna rafmagnsleysis voru tilraunamýs á Keldum að deyja úr kulda og halda varð sýklum lifandi með prímusum.
Mikil klakastífla kom í Andakílsá, sprengja þurfti hana upp. Mikið ís- og kraparek var í Soginu og olli það vandræðum í virkjununum - en fárviðrið þann 5. braut upp ísinn á Þingvallavatni.
Síðasta myndin sýnir loftþrýsting fyrri hluta janúarmánaðar 1952. Gráu súlurnar sýna lægsta þrýsting á landinu á þriggja stunda fresti - fárviðrislægðirnar þann 5. og þann 13. eru áberandi dýpstar (sjá pistla um þær).
Græni ferillinn sýnir þrýstispönn yfir landið, mismun á hæsta og lægsta þrýstingi hvers athugunartíma. Spönnin fór yfir 30 hPa í djúpu lægðunum (merktar 2 og 6 á myndinni) - enda náðu þau veður til mikils hluta landsins hvoru sinni. Helst var að Vestfirðir og Suðausturland slyppu.
Talan 1 á við landsynningsveðrið aðfaranótt þ.4., talan 3 merkir fárviðrið þann 7. og sagt var frá hér að ofan - en þess gætti mest suðvestanlands og austantil á Norðurlandi. Talan 4 merkir Austfjarðaútnyrðingsfárviðrið þann 8. og 9., en mikið tjón varð þá bæði á fjörðunum og í Fljótsdal auk þess sem veðrið varð mjög slæmt allt norður á Sléttu.
Helsta tjón eystra má telja:
Þak fauk af íbúðarhúsi á Reyðarfirði, fólk átti fótum fjör að launa, fjöldi bragga rifnaði og brak úr þeim flaug um, 50 hænur fuku út í veður og vind. Bílar fuku á hliðina og jeppi fauk 5 metra og kom niður á hvolfi. Skip slitnaði upp á Reyðarfirði, rak yfir fjörðinn, þar á land, en náðist út aftur. Bátur fauk út í veður og vind á Hólmum. Mikið tjón varð einnig á Eskifirði, margir bátar í höfninni löskuðust, bryggjur skemmdust og járnplötur fuku af húsum. Að sögn eitt versta veður þar um 30 ára skeið. Þennan dag urðu ýmsir skaðar á Austfjörðum.
Snjóflóð féll á bæinn Geitdal í Skriðdalshreppi og braut íbúðarhúsið. Talsvert foktjón varð í dalnum þessa dagana, þak fauk af nýbyggðu íbúðarhúsi að Haugum og að Vallanesi á Völlum tættist þak af hesthúsi. Tíminn segir að við borð hafi legið að gamla íbúðarhúsið í Vallanesi hafi fokið.
Talan 5 er svo við (minniháttar norðanáhlaup þann 10. til 11. - segja má að þá hafi verið í gangi hreinsun á stöðunni - til undirbúnings veðursins þann 12. og 13.
Við sjáum að að jafnaði voru um það bil 2 sólarhringar á milli þessara misslæmu - og misjöfnu veðra.
Fleiri illviðri gerði svo í þessum hræðilega erfiða janúarmánuði - hann endaði með einhverjum mesta hríðarbyl sem þekktur er í Reykjavík - en um það mætti fjalla síðar - ef ritstjóra endist þrekið.
15.11.2016 | 23:55
Fárviðrið 5. janúar 1952
Enn segir af Reykjavíkurfárviðrum. Það sem er nú til umfjöllunar er líka í flokki verstu veðra á landsvísu. Lægðin var lík systrum sínum sem ollu veðrunum 1981 og 1991 - nánast af sama uppruna - en eftirleikurinn varð samt ekki alveg sá sami því 1952 fylgdi sérlega slæmt útsynningsveður í kjölfarið og náði vindhraði þá aftur fárviðrisstyrk í Reykjavík - nærri tveimur dögum eftir hið fyrra skiptið. Þessi útsynningshali fær sinn eigin pistil.
Hér má sjá forsíðu dagblaðsins Vísis laugardaginn 5. janúar 1952. Þá þegar höfðu ýmsar fréttir borist af tjóni.
Kortið sýnir stöðuna (að mati c20v2-endurgreiningarinnar) seint að kvöldi 3. janúar. Hér er sígilt illviðrisupplegg. Djúp lægð við Suður-Grænland veldur landsynningsillviðri hér á landi og dælir jökulköldu Kanadalofti út yfir Atlantshaf til móts við aðvífandi lægð - sem síðan lendir í óðavexti. Nýja lægðin er á kortinu suður af Nýfundnalandi, um 988 hPa djúp að mati endurgreiningarinnar.
Á háloftakorti sem gildir 12 stundum síðar (um hádegi þann 4.) er nýja lægðarbylgjan komin austur fyrir Nýfundnaland - kuldapollurinn Stóri-Boli vomir yfir Davíðssundi.
Svo vill til að finna má hefðbundið veðurkort sem sýnir stöðuna á hádegi þann 4. í kennslubók Peter Dannevig, Meteorologi for flygere - sem ritstjóri hungurdiska eignaðist á Akureyri 22. janúar 1968. Skil fyrri lægðarinnar eru á kortinu komin langleiðina yfir landið. Á eftir þeim var vindur hægur - en það snjóaði talsvert, sérstaklega í uppsveitum á Suðurlandi og átti sá snjór og sá sem síðar féll eftir að valda miklum vandræðum í mánuðinum - þiðnaði og fraus á víxl.
Um nóttina hvessti suðvestanlands og gerði mikla landsynningsslydduhríð - en snerist svo í suðvestanofsa sem um hádegi hafði náð vel inn á Faxaflóa - þá var enn skárra norður við Breiðafjörð og á Vestfjörðum - eins og sjá má á kortinu hér að ofan. Þrýstingur í Stykkishólmi og í Bolungarvík er nálægt 941 hPa og lægðin greinilega dýpri en það - vel innan við 940 hPa. - Það sem er sérlega athyglisvert á þessu korti er hið gríðarlega þrýstifall sem kemur fram í skeytunum frá Norður- og Austurlandi, yfir 20 hPa á 3 klst á þremur veðurstöðvum - og -28,2 hPa á Dalatanga. Þetta er reyndar ekki met - en nærri því.
Endurgreiningin nær stöðu lægðarinnar - og eðli - nokkuð vel, en nokkuð vantar upp á snerpuna. Uppgefið dýpi í lægðarmiðju er 949 hPa - líklega að minnsta kosti 10 hPa hærra en hið raunverulega. Þetta er alvanalegt í endurgreiningum - vonandi gengur betur næst.
Dannevig sýnir okkur annað kort - það gildir kl.18 og var lægðin þá komin langleiðina til Jan Mayen - talin 937 hPa í lægðarmiðju. Gríðarlegt vestanveður geisar um land allt.
Í Reykjavík varð veðrið enna verst um hádegisbil - kl. 13 var mældist vindur á Reykjavíkurflugvelli 34 m/s og hviða 43,2 m/s.
Þegar penni þrýstiritsins stefndi niður fyrir blaðið var gripið til þess ráðs að færa hann upp um 20 hPa (eða þar um bil) - og var ekki færður niður aftur fyrr 3 dögum síðar. Þrýstibreytingarnar samfara lægðinni eru gríðarlegar.
Vestanáttin sem fylgdi í kjölfarið stóð svo í meir en 2 daga - vindstyrkur var lengst af meiri en 20 m/s og náði loks fárviðrisstyrk aftur aðfaranótt þess 7. (meir um það síðar).
Gríðarlegt tjón varð í þessu veðri og er reynt að telja það helsta sem fram kom í blaðafréttum hér að neðan.
Einkennilegust varð þó ferð togarans Faxa - sem áður hét Arinbjörn hersir. Í landsynningsofsanum aðfaranótt þess 5. slitnaði hann mannlaus upp í Hafnarfjarðarhöfn og rak út á Flóa. Þar tók útsynningurinn við honum og leiddi í gegnum vandrataða skerjaleið inn á Borgarfjörð þar sem hann loks strandaði óskaddaður á sandeyri skammt frá Borgarnesi. Var sagt að Arinbjörn hafi leitað á heimaslóðir Egils Skallagrímssonar vinar síns - undir hans leiðsögn.
Annar atburður varð Borgnesingum líka sérlega eftirminnilegur. Vélskipið Eldborg - slitnaði upp frá bryggjunni - stefndi á brúna yfir Brákarsund - en náði vélarafli þannig að hægt var að sveigja frá og keyra upp í fjöru rétt neðan við mjólkursamlagið - eins og sjá má á óskýrri mynd Morgunblaðsins viku síðar.
Þess má geta að ritstjóri hungurdiska er bakvið húsvegg á þessari mynd. Síðar í mánuðinum (þann 19.) strandaði flóabáturinn Laxfoss við Kjalarnes og eyðilagðist. Eftir að Eldborgin náðist á flot gekk hún um nokkurra ára skeið inn í flóabátshlutverkið - þar til Akraborgin fyrsta mætti til leiks 1956.
Bátar og skip slitnuðu upp í flestum höfnum um landið sunnan- og vestanvert og skemmdir urðu víða á húsum og fólk varð fyrir meiðslum. Bátur frá Akranesi fórst með sex manna áhöfn, og mörg skip og bátar lentu í miklum hrakningum.
Hús 7 manna fjölskyldu við Selás ofan við Reykjavík skaddaðist mjög og varð óíbúðarhæft. Þak losnaði á þvottahúsi Landsspítalans, plötur fuku víða í Reykjavík og rúður brotnuðu. Veðrið gerði sérstaklega mikinn usla í Blesugróf, en þar voru flest hús byggð af vanefnum. Strætisvagnaferðir gengu illa í úthverfum því vagnarnir fuku til á svellinu sem var á götum, tíu strætisvagnar lentu útaf götum. Allmargt fólk meiddist aðallega af falli á hálku. Flugvélarflak fauk í Skerjafirði og reistist upp á endann við flugskýli. Miklar skemmdir urðu á loftlínum á höfuðborgarsvæðinu og mikil hætta stafaði af lausum línum. Togara rak upp í Geldinganesi og annar slitnaði upp á Akranesi aðeins með vaktmenn um borð. Miklar skemmdir urðu á gróðurhúsum í Mosfellsdal.
Menn í Keflavík töldu veðrið hið versta þar síðan 1906, þar fauk þak af aðgerðarhúsi og olli tjóni á fleiri húsum. Algjörlega vatnslaust varð þar í bæ og vandræði af vatn- og rafmagnsleysi sem stóð í marga daga. Tvö fiskihús fuku í Grindavík og járn af fleiri húsum.
Sjór gekk upp á götur á Eyrarbakka og Stokkseyri og járnplötur fuku af fjölda húsa á Selfossi. Á síðastnefnda staðnum brann lítið íbúðarhús til kaldra kola í fárviðrinu og varð ekki neitt við ráðið. Fjórar mjólkurbifreiðir fuku út af veginum í Ölfusi, en þar var mikil hálka sem og víðast hvar á landinu. Tjón varð á gróðurhúsum í Hveragerði. Háspennulínan frá Sogsvirkjunum til Reykjavíkur slitnaði, raflínur til Hafnarfjarðar og Álftaness skemmdust verulega.
Dælur hitaveitunnar á Reykjum urðu rafmagnslausar og veitan því rekin með aðeins þriðjungsafköstum. Þak tók af íbúðarhúsinu á Kanastöðum í Rangárvallasýslu og hlöðuþak í Garðsauka, foktjón varð einnig á fleiri bæjum þar í sveit. Þök fuku á útihúsum í Holtum, þar varð mest tjón í Bjóluhjáleigu og í Kálfholti. Í Hagavík í Grafningi fauk þak af hlöðu og gróðurhús á Nesjavöllum skemmdist. Þök tók af útihúsum á Skeiðum, Efri-Brúnavöllum, Húsatóftum og víðar, þak fauk að nokkru á Galtafelli í Hrunamannahreppi.
Snjóflóð féllu á Hvalfjarðarveg og lokuðu honum. Fokskemmdir urðu í Kjós og á Kjalarnesi (mikið tjón á Valdastöðum og Saurbær nefnt sérstaklega) þar sem nokkrir sumarbústaðir fuku og þök rofnuðu á útihúsum. Þök fuku á fjölmörgum stöðum í Borgarfirði, m.a. hluti af stóru hlöðuþaki á Hvanneyri (og nokkrar plötur af þaki skólans) og ýmsum útihúsum í Álftártungu, Hofsstöðum, Álftárósi, Hvítárbakka (þriðjungur gamla skólahússins), Grímarsstöðum, Þingnesi, Vatnsenda, Indriðastöðum og Grund í Skorradal og á nokkrum fleiri bæjum í Andakíl og Reykholtsdal. Tjón varð einnig í Stafholtstungum og fauk þak af fjárhúsum í Neðra-Nesi og gróðurhús brotnuðu á nokkrum stöðum (getið um Ásbyrgi, Hellur, Bæ, Víðigerði, Runna og Jaðar).
Mannlausan togara rak frá Hafnarfirði og upp í Borgarnes. Þar slitnaði vélskipið Eldborg upp og rak upp í fjöru. Krapi stíflaði læk við Brautarholt við Borgarnes og ógnaði flóð úr honum kúm í fjósi. Fokskemmdir urðu í Miðdölum, mest á Fellsenda, Háafelli og Breiðabólsstað.
Bátar lentu í hrakningum á Ísafjarðardjúpi. Skemmdir urðu á Hólmavík og nágrenni, þar strandaði bátur og þök fuku af útihúsum á Smáhömrum og Hrófá. Sláturhúsþak fauk á Hvammstanga og skemmdir á bæjum í Vesturhópi. Skaðar urðu víða í Skagafirði, sérstaklega á gróðurhúsum og börn skárust á gluggagleri í Varmahlíð. Þak tók af íbúðarhúsi á Reykjahóli og skaðar urðu víða á Reykjaströnd. Bátar skemmdust á Hofsósi. Allmikið foktjón varð á Siglufirði.
Bifreið fauk út af götu nærri Lystigarðinum á Akureyri og niður bratta brekku niður í Hafnarstræti, bílstjórinn meiddist mikið, maður meiddist er skúr fauk á hann ofan við bæinn, fleiri í bænum meiddust. Hálfkarað þak fauk af nýju prentsmiðjuhúsi Odds Björnssonar. Ljósakerfi Akureyrar skemmdist mikið og járn tók af nokkrum húsum.
Þök tók af húsum á Svalbarðsströnd og í Höfðahverfi. Margir bæir í Svarfaðardal urðu illa úti, þök fuku á Urðum og Ytra-Garðshorni og stórt þak af verslunarhúsi í byggingu á Dalvík, hlöðuþak fauk í Hrísey. Í framsveit Eyjafjarðar fuku þök á Möðrufelli og Merkigili og flugskýli á Melgerðismelum skaddaðist. Nokkrar skemmdir urðu í Þingeyjarsýslum, mestar á Vatnsenda í Ljósavatnsskarði þar sem allt járnið af prestssetrinu fauk og á Stóruvöllum í Bárðardal þar sem hálft þakið fauk af íbúðarhúsinu. Þök sködduðust í Mývatnssveit, járn reif af bæ og útihúsum á Skútustöðum.
Þakplötur fuku á Raufarhöfn og tveir bátar sukku á Kópaskeri. Mikið tjón varð í Þistilfirði þar sem þak fauk af stóru peningshúsi í Laxárdal, foktjón varð á fleiri bæjum og bátar í höfninni og á legu við Þórshöfn skemmdust flestir. Þak fauk af fiskgeymsluhúsi á Bakkafirði, skemmdir urðu þar á bryggju, fleiri skemmdir urðu í þorpinu, hey fauk á Bakka og þak fauk þar af fjárhúsi. Allmikið tjón varð á nokkrum bæjum í Vopnafirði, mest í Fagradal þar sem þök tók af tveimur fjárhúsum og íbúðarhúsið skaddaðist.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 11
- Sl. sólarhring: 184
- Sl. viku: 2458
- Frá upphafi: 2434568
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 2183
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010