Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2016
13.11.2016 | 23:06
Eitthvað kólnar
Nú er útlit fyrir kólnandi veður - eftir hlýindi sem staðið hafa linnulítið frá því snemma í október. Við vitum ekki hvort um einhver varanleg umskipti er að ræða - eða aðeins tilbreytingu sem stendur í fáeina daga.
Hér er norðurhvelsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á þriðjudag, 15. nóvember. Jafnhæðarlínur eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Brúni strikahringurinn sýnir í grófum dráttum legu heimskautarastarinnar - en hún bylgjast þó norður- og suðurfyrir á nokkrum stöðum.
Kanadakuldapollurinn - sem við höfum yfirleitt kallað Stóra-Bola hefur hér breitt úr sér til austurs í átt til Íslands - en er annars ekkert sérlega öflugur.
Bróðir hans - Síberíu-Blesi er mun álitlegri og farinn að sýna fjólubláa litinn - þar er þykktin minni en 4920 metrar.
Við horfðum á ámóta kort fyrir nokkru hér á hungurdiskum (sjá pistil 1. nóvember). Þá lá kuldinn liggur eftir Síberíu endilangri - en mun hlýrra var yfir Norðuríshafi - þar var mun hlýrri hæðarhryggur sem aðskildi alveg Bola og Blesa. - Þannig er þetta enn (rauða strikalínan sýnir hrygginn). Í millitíðinni gerðist það reyndar að Síberíukuldinn teygði sig um stund vestur á bóginn - alveg til Bretlands þegar mest var. Þegar kalda loftið kom vestur yfir óvenjuhlýtt Eystrasalt gat það numið þar raka og óvenjumikið snjóaði víða í Svíþjóð - og mjög kalt varð um stund í Austur-Noregi.
Á kortinu hér að ofan eru vestrænar sveitir Stóra-Bola hins vegar að blása hlýju Atlantshafslofti inn yfir sunnanverð Norðurlönd - og Síberíu-Blesi hörfar aðeins.
Mörkin á milli bláu og grænu litanna á kortinu eru við 5280 metra þykkt, en það er einmitt meðalþykkt yfir Íslandi í nóvember. Mörkin á milli rigningar og snjókomu við sjávarmál liggja venjulega á bilinu 5200 til 5280 metrar. Blási vindur af hafi gilda neðri mörkin (loft líklega óstöðugt) - en þau efri standi vindur af landi (loft stöðugt).
Á þessu þriðjudagskorti er þykktin yfir Íslandi innan við 5220 metrar (næstljósasti blái liturinn). Líkur á að úrkoma falli sem snjór eru því töluverðar, jafnvel þótt vindur standi af hafi.
En lítum til gamans lengra fram í tímann - ekki beinlínis til að taka mark á heldur aðeins til að lýsa hinni almennu stöðu um þessar mundir betur.
Hér eru bæði Norðuríshafshryggurinn og Síberíu-Blesi nokkurn veginn í sömu stöðu og á fyrra korti - en kuldinn að vestan hefur breitt úr sér allt austur til Noregs. Það er hins vegar mjög eftirtektarvert að þessi kuldi er í raun og veru afskaplega linur. Langstærsti hluti svæðisins milli Grænlands og Noregs er ljósblár - hvergi alvarlegan kulda að sjá á svæðinu öllu. - Við þurfum að fara langt vestur fyrir Grænland til að finna 5160 metra jafnþykktarlínuna - eða alveg norður undir norðurskaut.
Norðanskotið sem nú er í pípunum virðist því varla geta orðið mjög kalt. - Jú, þar sem nær að snjóa og síðan létta til getur gert talsvert frost - sé vindur jafnframt mjög hægur - en það er þá heimatilbúinn kuldi en ekki aðfluttur.
Að lokum lítum við á meðalspá næstu tíu daga, 13. til 23. nóvember.
Jafnhæðarlínur eru heildregnar, jafnþykktarlínur stikaðar, en þykktarvik eru sýnd í lit. Nokkuð kalt er suðvestan við land - þar er mesta vikið -66 metrar. Hiti í neðri hluta veðrahvolfs rúmum 3 stigum neðan meðallags - en sjórinn sér væntanlega um að draga úr vikunum í neðstu lögum. Hér á landi er vikið á bilinu -20 til -50 metrar, hiti yfir okkur þá -1 til -2,5 stig undir meðallagi.
Þetta slær eitthvað á hlýindi nóvembermánaðar - en hann hefur það sem af er verið í hópi þeirra 10 til 15 hlýjustu. - En við sjáum að hlýtt er alls staðar í kring um okkur.
9.11.2016 | 23:54
Af hlýjum nóvembermánuðum
Þó nóvember 2016 fari hlýlega af stað (þegar þetta er skrifað eru dagarnir orðnir 9) eru hlýindin samt ekki nægileg til þess að hann geti talist líklegur til meta - fyrir utan svo það að heldur kólnandi veðurs er að vænta í næstu viku (séu spár í lagi).
En við spyrjum okkur samt hvaða nóvembermánuðir það eru sem hafa orðið hlýjastir hér á landi.
Á landsvísu telst nóvember 1945 hlýjastur - en hann á samt ekki hæstu tölurnar á stöðvalistanum - þær eru nýrri - úr þeim afburðahlýja nóvembermánuði 2014 (sem sumir muna e.t.v. enn).
röð | stöð | ár | mán | mhiti | nafn | |
1 | 36132 | 2014 | 11 | 7,12 | Steinar | |
2 | 36127 | 2014 | 11 | 7,02 | Hvammur | |
3 | 6012 | 2014 | 11 | 7,01 | Surtsey | |
4 | 36132 | 2002 | 11 | 6,93 | Steinar | |
5 | 6045 | 2014 | 11 | 6,87 | Vatnsskarðshólar - sj | |
6 | 801 | 1945 | 11 | 6,82 | Loftsalir | |
7 | 6134 | 2014 | 11 | 6,72 | Önundarhorn | |
8 | 798 | 1945 | 11 | 6,70 | Vík í Mýrdal | |
9 | 802 | 2014 | 11 | 6,66 | Vatnsskarðshólar | |
10 | 6015 | 2014 | 11 | 6,64 | Vestmannaeyjabær | |
11 | 35305 | 2014 | 11 | 6,60 | Öræfi | |
12 | 815 | 1945 | 11 | 6,53 | Stórhöfði | |
13 | 35305 | 2002 | 11 | 6,51 | Öræfi | |
14 | 701 | 1958 | 11 | 6,50 | Horn í Hornafirði | |
15 | 798 | 2002 | 11 | 6,48 | Vík í Mýrdal | |
16 | 36127 | 2002 | 11 | 6,45 | Hvammur | |
17 | 615 | 1993 | 11 | 6,36 | Seyðisfjörður | |
18 | 20 | 1945 | 11 | 6,33 | Elliðaárstöð |
Hæsta talan á mannaðri stöð er sú í 6. sæti - Loftsalir 1945 - og höfuðborgarsvæðið á sinn fulltrúa í 18. sæti. Meðalhiti nóvembermánaðar 1945 reiknast 6,3 stig þar.
Hæsta talan í Reykjavík er 6,1 stig - líka í nóvember 1945. Á Akureyri var hins vegar hlýjast í nóvember 1956. Í viðhenginu er listi yfir hlýjustu nóvembermánuði á öllum stöðvum (eða nærri því öllum) - smáviðbit fyrir nördin. Þeir mánuðir sem skera sig helst úr með fjölda meta eru 1945, 1956, 1968, 1993, 2002 og 2014.
Litirnir á kortinu hér að neðan sýna þykktarvik í nóvember 1945 - að mati endurgreiningar evrópureiknimiðstöðvarinnar - kannski ættum við bara að trúa þessu
- eða svona nokkurn veginn.
9.11.2016 | 00:29
Fárviðrið 13. janúar 1952
Illviðrasamt var um land allt í janúar 1952, en tíð var sérstaklega erfið um landið suðvestanvert - því þar var færð sérlega vond lengst af og ofsaveður, selta, ísing og krapi trufluðu rafmagnsframleiðslu og dreifingu auk þess sem símslit voru tíð. Í þessum mánuði var vindur þrisvar talinn af fárviðrisstyrk í Reykjavík. - Rétt er að minna á að grunur er um að vindmælirinn hafi ekki verið vel kvarðaður og var þar að auki í 17 metra hæð en ekki 10 m eins og lög gera ráð fyrir. - En við látum sem ekkert sé og fjöllum um þessi veður.
Á landsvísu var veðrið verst þann 5. - en við bíðum með það þar til næst og lítum á illviðri sem hófst með landsynningsstormi síðla dags þann 12. en varð verst í Reykjavík síðdegis daginn eftir - sunnudaginn 13. janúar og þá af vestri. Tjón varð minna en ætla mætti - miðað við vindhraða en þess er að geta að margt lauslegt hafði þegar fokið í veðrunum nokkrum dögum áður.
Þarna gerir fréttamaður þá algengu villu að rugla saman vindhviðum og meðalvindi og segir að auki hnútar á sekúndu - sem er líka rangt sem vindeining (rétt eins og að segja kílómetrar á klukkustund á sekúndu) - það heitir bara hnútar (= sjómílur á klukkustund). Vindstig eru (eða voru) hins vegar aðeins notuð um meðalvind - reyndar ýmist 10-mínútur (alþjóðaviðmið) eða klukkustund (sérvitrir bretar).
Sem kunnugt er nær hinn venjubundni Beaufort-vindkvarði ekki nema í 12 vindstig, en í hitabeltinu hafði þegar þarna var komið tíðkast að framlengja hann upp í 17 og árið 1949 höfðu alþjóðaveðuryfirvöld freistast til að koma þeirri framlengingu á um allan heim. - Að tala um 14 vindstig var því hægt á þessum tíma - og var löglegt til 1967 - að aftur var ákveðið að hætta notkun talna yfir 12.
Kortið sýnir stöðuna snemma að morgni þess 12. - að mati bandarísku endurgreiningarinnar. Þá var hæðarhryggur yfir landinu en vaxandi lægð suður af Grænlandi. Lægðin var í foráttuvexti - hugsanlega þegar dýpri en endurgreiningin segir. Ekki fór að hvessa að marki hér á landi fyrr en um kvöldið, þá skall á landsynningsstormur með krapahríð. Þetta kort sýnir hæð 1000 hPa-flatarins - jafnhæðarlínur eru dregnar með 40 metra bili - jafngildir 5 hPa, núll-línan jafngildir 1000 hPa - og svo er auðvelt að telja línur til beggja handa vilji menn þrýstinginn.
Landsynningurinn stóð ekki mjög lengi í Reykjavík - vindur suðlægur og mun hægari kl. 3 um nóttina - en snerist undir morgun til suðvesturs og síðar vesturs og versnaði eftir því sem á daginn leið.
Kortið sýnir stöðuna kl.18. Greiningin nær nokkurn veginn dýpt lægðarinnar - og eðli hennar - en í raunveruleikanum var hún yfir Barðaströnd eða Breiðafirði kl. 18. Vestanstrengurinn sunnan lægðarmiðjunnar var gríðarmikill - um 11 hPa munaði á þrýstingi í Reykjavík og í Stykkishólmi - en svæðið norðan Faxaflóa slapp furðuvel frá veðrinu. Í vindstrengnum var líka mikil krapahríð - snjór inn til landsins og spillti færð.
Veður í þessum janúar var líka slæmt í nágrannalöndunum - á þessu korti er bent á vaxandi lægð austur af Nýfundnalandi - hún fór í foráttuvöxt og olli gríðarmiklu veðri í Norður-Skotlandi og reyndar í Noregi líka tveimur dögum síðar. Breskar veðurbækur tala um Orkneyjafárviðrið.
Við getum giskað á eðli veðursins með samanburði á 1000 hPa kortinu og 500 hPa-háloftakortinu hér að ofan. Sé greiningin rétt eru jafnhæðarlínur 500 hPa-kortsins ívið gisnari yfir landinu sunnanverðu heldur en í 1000 hPa. Það þýðir að hlýr kjarni er í lægðinni - eins og algengt mun í hraðfara fárviðrislægðum á okkar slóðum. - Hlýr kjarni bætir í vindinn (miðað við háloftin) - kaldur kjarni dregur úr honum - þeir sem vilja geta reynt að muna þessa reglu.
Athugunarbókin frá Reykjavíkurflugvelli sýnir að veðrið var verst kl.18 - 10-mínútna vindhraði var þá 36,0 m/s og mesta vindhviða 43,8 m/s. Áttin var af vestri (260 gráður) - mikið él og skyggni var 200 metrar.
Vindritinu virðist ekki bera alveg saman um tíma - við sjáum þann hrylling fyrir veðurathuganir sem klukkuhringl hefur í för með sér - klukkan er ekki nema 5 (17) að íslenskum miðtíma (á klukkum starfsmanna) - en orðin 18 að alþjóðlegum veðurathugunartíma. - Nauðsynlegt var að hafa tvær klukkur uppivið í spásalnum.
Eftirtektarsamir lesendur sjá að þrýstiritið er ekkert ósvipað því sem við litum á í pistlinum um Edduveðrið - lægðin ámóta umfangsmikil - landsynningur fyrst síðan betra veður - en að lokum vestanfárviðri. Eðli þessara veðra trúlega svipað - en braut Eddulægðarinnar lá aðeins norðar.
Þetta tíunduðu blöðin helst af tjóni:
Skip og bátar slitnuðu upp í Reykjavíkurhöfn, þar á meðal losnaði verksmiðjuskipið Hæringur að hluta til og skaddaði báta [forleikur að Hæringsveðrinu tveimur árum síðar], víða tók járnplötur af húsum og heil þök lyftust. Allmikið af grjóti barst upp á Skúlagötu og teppti umferð. Víða urðu rafmagns- og símabilanir, m.a. stíflaðist aðrennslisskurður að Andakílsárvirkjun af skafrenningi þannig að skammta þurfti rafmagn frá henni næstu daga. Kvöldið áður var skíðafólk hætt komið við Kolviðarhól í hríðarbyl.
Í næsta pistli um fárviðri í Reykjavík verður fjallað um veðrið mikla viku á undan þessu - 5. til 7. janúar. Eigum við að telja það eitt - eða ættum við að skipta því í tvö?
8.11.2016 | 00:51
Nóvemberhámörk - nokkrir nördamolar
Hlýtt hefur verið á landinu í dag (mánudag 7. nóvember) - en ekki samt nálægt mánaðarhitametum nema á nýlegum stöðvum. Hæsti hiti dagsins á landinu mældist 17,9 stig, á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði.
Hiti hefur hæst komist í 23,2 stig hér á landi í nóvember. Það var þann 11. árið 1999 að sá ótrúlegi árangur náðist á sjálfvirku stöðinni á Dalatanga - mannaða stöðin mældi þá 22,6 stig. Í sömu hitabylgju fór hámarkið einnig yfir 20 stig á Seyðisfirði, Eskifirði og í Neskaupstað - á síðarnefnda staðnum bæði á sjálfvirku og mönnuðu stöðinni. Rúmri viku síðar, þann 19. nóvember 1999 fór hiti aftur í 20 stig á Seyðisfirði og þá einnig á Sauðanesvita vestan Siglufjarðar.
Þessi tilvik 1999 voru þau fyrstu opinberlega skráðu með meira en 20 stiga hita í nóvember á Íslandi. Síðan hefur tvö tilvik bæst við, á báðum stöðvum á Skjaldþingsstöðum þann 8. nóvember 2011 og á Dalatanga 26. nóvember 2013. Um nákvæmlega þetta hafa hungurdiskar fjallað áður, bæði 2011 og 2013 - flett-flett.
En - svo er það nokkuð umtalað tilvik frá Kvískerjum í Öræfum frá 1971 - fréttin er úr Þjóðviljanum þann 25. en birtist einnig í öðrum blöðum:
Textinn verður læsilegri sé myndin stækkuð. Þeir sem nenna að fletta listanum í viðhenginu komast að því að fáeinar stöðvar eiga sitt nóvemberhitamet þennan dag - 24. 1971 - og japanska endurgreiningin segir þykktina hafa verið í hæstu hæðum - meir en 5580 m yfir landinu suðaustanverðu.
Já, það hefði verið athyglisvert að hafa sjálfvirku stöðvarnar sem nú eru í Kvískerjum í nóvember 1971.
Í viðhenginu er eins og áður sagði nóvemberstöðvametalisti (ekki alveg skotheldur kannski) og einnig má finna þar stöðuna á frostleysulista haustsins - enn er slatti af stöðvum frostlaus fram til þessa í haust.
5.11.2016 | 17:25
Fárviðrið 3. apríl 1953
Veturinn 1952 til 1953 hafði verið mildur - og þótti hagstæður þrátt fyrir að þorri og góa hefðu verið vindasöm með köflum og veður ekki skaðalaus. Í góulokin, nærri jafndægrum, skipti eftirminnilega um tíð og þá upphófst nærri hálfs mánaðar norðankast af verstu gerð - og reyndar entist það lengur. Þau einstöku tíðindi urðu í Reykjavík að apríl varð bæði kaldasti mánuður vetrarins og kaldasti mánuður ársins.
Í ritgerðasafninu góða Loftin blá segir Páll Bergþórsson skemmtilega frá nokkurra daga átökum kalda og hlýja loftsins yfir Íslandi í góulokin - en getur ekki um framhaldið. Þau veðurnörd sem hafa bókina við höndina ættu að fletta þessum kafla upp sér til heilsubótar. En góulokasunnanáttin var hlý og úrkomusöm og olli miklum flóðum í stórám á Suðurlandi.
Myndin sýnir þrýstispönn á landinu dagana 24. mars til 6. apríl 1953. Norðan- og norðaustanátt ríkti allan tímann. Heita má að samfellt illviðri hafi staðið yfir dagana 25. til 29. - þá dúraði aðeins í tvo sólarhringa (þó ekki um land allt) og síðan kom annað meginkast fyrstu dagana í apríl - með hámarki þann 3. sem bar upp á föstudaginn langa.
Gríðarleg snjóflóðahrina fylgdi þessum veðrabálki, eftirminnilegastur er mannskaðinn á Auðnum í Svarfaðardal og gríðarlegt snjóflóð á Seljalandsdal á Ísafirði. Sömuleiðis varð mjög mikið snjóflóð á Flateyri - sem hætt er við að valdið hefði mannskaða ef byggð hefði þá náð þangað sem hún síðar gerði.
Þetta var um páskana og blöð komu ekki út fyrr en þann 7. og 8. apríl. Fréttir voru því seinar á ferð og sjálfsagt farnar að grisjast. - Getið hafði verið um foktjón í veðrinu í Reykjavík þann 28. en ekkert er að finna um að foktjón hafi orðið í bænum þann 3. - þegar vindur náði fárviðrisstyrk um stutta stund eftir hádegið. - En þetta var á föstudaginn langa eins og áður sagði og þeir sem eldri eru muna vel hvernig þeir dagar gengu fyrir sig á árum áður. - Algjör þjóðlífslömun.
Ekki var sama veðurstaða allan norðanbálkinn - en síðari skammturinn, sá sem náði hámarki 2. og 3. virðist hafa tengst aðsókn háloftahæðarhryggs úr vestri og samskiptum norðanrastarinnar austan við hann við þá neðri norðanátt sem fyrir var. Þetta má e.t.v. greina á kortum bandarísku endurgreiningarinnar hér að neðan.
Það fyrsta sýnir stöðuna um hádegi á skírdag, 2. apríl. Mjög mikil hæð er yfir Grænlandi, heildregnu línurnar sýna hæð 1000 hPa-flatarins og auðvelt að breyta í hPa. Innsta línan í kringum hæðina sýnir 320 metra, sem jafngilda 1040 hPa - síðan eru línurnar dregnar á 40 m bili, (5 hPa). Við lægðarmiðjuna sjáum við -120, eða 985 hPa, lægðarmiðjan er eitthvað dýpri en það. Trúlega vanmetur greiningin dýpt lægðarinnar - en ofmetur frekar hæðina.
Í háloftunum má á sama tíma sjá hæðarhrygginn milli Grænlands og Labrador - hann þokast austur og í jaðri hans er mikill norðanstrengur - háloftalægð er hins vegar yfir Íslandi. Mörkin milli norðanstrengsins og áhrifasvæðis lægðarinnar virðast hafa verið mjög skörp og ýmsir skrýtnir hlutir í gangi þar - til dæmis má sjá óvenjulegan snúning á vindáttum í miðju veðrahvolfi í háloftaathugunum á Keflavíkurflugvelli - norðanátt fyrir ofan og neðan - en tímabundin vestanátt í miðju. Ekki treystir ritstjórinn sér til að fullgreina þetta - en gaman væri að sjá stöðu sem þessa höndlaða í nútímaháupplausnarlíkani - þar kæmi ábyggilega fram um hvers konar bylgjuhreyfingu hefur verið að ræða - og hver uppruni illviðrisins hefur verið.
Hér er kominn föstudagurinn langi. Þétt hneppi af jafnhæðarlínum yfir landinu - með aðeins austlægari legu en daginn áður.
Og háloftalægðin sem var yfir landinu á skírdag komin suður fyrir það. Þó þessi kort endurgreiningarinnar séu trúleg - og þau sýna ábyggilega aðalatriði málsins - verðum við að hafa í huga að raunveruleikinn hefur sjálfsagt verið flóknari. Vestanáttin yfir Keflavík og getið var hér að ofan sést t.d. ekki í greiningunni.
Athugunarbókin frá Reykjavíkurflugvelli sýnir að fárviðri hefur verið um stutta stund um kl.15 og að vindhviða hefur um það leyti farið yfir 37 m/s. Vægt frost er þarna um daginn - en hiti skreið svo rétt yfir frostmarkið um kvöldið.
Vindritinu ber ekki alveg saman við bókina - ekki víst að tímakvarðinn sé á réttum stað, en við sjáum mestu vindhviðuna - og við sjáum líka að vindhraðinn er mjög breytilegur eins og oft er í norðanköstum í Reykjavík. Þetta veður fellur í sígildan flokk slíkra kasta.
Þrýstiritið ber líka með sér sígild einkenni reykvískra norðanillviðra - furðuleg, mjög stór stökk í loftþrýstingi sem hljóta að tengjast flotbylgjugangi í háloftunum ofan við stöðina - kannski eru þessar bylgjur vaktar af fjöllum - kannski ekki.
Þessi pistill er í flokki þar sem fjallað er um fárviðri í Reykjavík. Haldið verður áfram og næst verður fjallað um veður í janúar 1952.
5.11.2016 | 01:02
Fréttabrot úr heiðhvolfinu
Heiðhvolfið hefur verið talsvert í tísku síðustu árin - það jafnvel svo að á það er minnst í almennum fréttum. Öldruðum og útbrunnum veðurspámönnum eins og ritstjóra hungurdiska finnst fréttaflutningur þessi stundum dálítið óþægilegur og setur að honum ákveðinn hroll eða jafnvel heimsbeyg (hvað sem það er nú). Alla vega finnur ritstjórinn einhvern sálrænan undirtón í heiðhvolfsfréttaflutningi undanfarinna missera - og er svo einnig í haust. - En ræðum það ekki frekar - lítum frekar til himins - upp í rúmlega 23 km hæð.
Hér má sjá hæð 30 hPa-flatarins yfir norðurhveli á hádegi í dag (4. nóvember - greining bandarísku veðurstofunnar). Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en hiti er sýndur með litum, litakvarðinn verður skýrari sé myndin stækkuð. Á dökkbláa svæðinu er hiti á bilinu -74 til -78 stig, en -42 til -46 stig þar sem gulbrúni liturinn er dekkstur.
Það sem hefur verið í fréttum er að lægðasvæðið er tvískipt - það mun ekki vera algengt á þessum tíma árs. Þeir sem æstastir eru segja þetta auka líkur á fimbulvetri í Evrópu og/eða Norður-Ameríku - stöku almennur fréttamiðill hefur gripið þessar spár og birt - úr samhengi.
Ritstjóri hungurdiska hefur auðvitað ekki græna glóru um það hvernig veturinn verður, hvorki hér eða þar og má vel vera að vangaveltur þessar standist (með heppnina að vopni) - en honum finnst svona rétt fullsnemmt að draga ályktanir af lögun lægðarinnar nú í byrjun nóvember - hún er nefnilega rétt svo að byrja að taka við sér.
Það er einkum tvennt sem ræður hitafari í þeirri hæð heiðhvolfsins sem kortið sýnir. Í fyrsta lagi geislunarbúskapur - inngeislun sólar og varmaútgeislun lofthjúpsins takast á - og í öðru lagi lóðréttar hreyfingar lofts. - Svo getur blöndun stundum haft áhrif ef stórar bylgjur brotna.
Sólarljósið skín að mestu óhindrað í gegnum loftið í þessari hæð (sé þar ekki mikið ryk) - nema hvað það býr til dálítið af ósoni - sem svo getur drukkið geisla í sig og hitnað - og það hitað svo afgang þess lofts sem er á sveimi.
Hitafarið á kortinu endurspeglar mjög dreifingu ósons - það er mest af því þar sem hlýjast er (yfir Austur-Asíu) - magnið þar er um 400 Dobsoneiningar. Þarna er loftið hvað móttækilegast fyrir stuttbylgjugeislanámi. Á kalda svæðinu nærri okkur er magnið hins vegar helmingi minna, um 200 Dobsoneiningar þar sem minnst er. Þar hefur útgeislun vinninginn þessa dagana.
Sólarljósið er auðvitað að búa til óson allan hringinn - álíka mikið allstaðar þar sem þess nýtur á annað borð. En það er nú meira yfir Austur-Asíu vegna þess að þar er dálítið niðurstreymi - sækir óson að ofan - ósonlagið er þéttast ofar en sá flötur sem við hér sjáum. Niðurstreymið bætir líka í hitann - við sjáum því samanlögð áhrif þess og meira ósonmagns.
Á kalda svæðinu er hins vegar lítilsháttar uppstreymi - loftið kólnar vegna þess - en uppstreymið kemur líka úr ósonrýrara umhverfi og styður þannig við kuldann.
Við norðurskautið er sólin þegar sest - heimskautanóttin hafin. Þangað berst eftir atvikum hlýrra eða kaldara loft á víxl - en í sólarleysinu fer nú að kólna mjög hratt - geislanám ósonsins hættir auðvitað þegar ekkert er sólarljósið. Varmageislun að neðan tefur eitthvað fyrir - en niðurstaðan er samt sú að kuldinn tekur völdin.
Þá verður til mikil lægð - sem oft hefur komið við sögu í pistlum hungurdiska - og mikil vindröst - skammdegis(heiðhvolfs-)röstin. Hún er varla orðin til á kortinu hér að ofan - við skulum bíða í tvær til þrjár vikur og sjá svo til hvað gerist.
En það er mjög algengt að hlýrra sé í heiðhvolfinu hinumegin á norðurhveli heldur en á okkar hlið - ástæðan er sú að þar eru vetrarvindrastir veðrahvolfsins - heimskautaröstin og hvarfbaugsröstin - öflugri og meira samstíga heldur en á okkar hlið. Þær beinlínis draga loft niður á norðurvæng sínum - vekja niðurstreymið sem holdgerist í hærri hita í 30 hPa-fletinum handan skauts frá okkur séð.
4.11.2016 | 16:59
Enn um úrkomumet í október
Slatti af sólarhringsúrkomumetum féll á veðurstöðvunum í október og eru þau listuð í viðhenginu. Listinn hefst á sjálfvirku stöðvunum - mánaðarsólarhringsmet féllu þar á 19 stöðvum - þar af eru fimm ársmet (sólarhringsúrkoma hefur aldrei mælst meiri á stöðinni).
Rétt er að geta þess að einu sinni hefur sólarhringsúrkoma mælst meiri á Hvanneyri - en ekki á sjálfvirku stöðinni sem hér er miðað við. Gamla sólarhringsúrkomumetið þar (101,1 mm) er sannarlega orðið gamalt, sett 30. nóvember 1941.
Þar fyrir neðan koma mönnuðu stöðvarnar, ný sólarhringsmet októbermánaðar urðu 9. Ársmetið féll aðeins á Setbergi á Snæfellsnesi.
Neðst eru svo ný klukkustundarákefðarmet októbermánaðar - ekkert ársmet féll að þessu sinni.
Það má taka eftir því að sólarhringsmetin voru flest sett þann 12., en ákefðarmetin 18. og 19.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.11.2016 | 22:10
Um vindhraða í nýliðnum október
Nokkuð hefur verið spurt um vind(hraða) í október, hvort hann hafi verið óvenjumikil. Hér verður aðeins fjallað um það mál. - Svarið við spurningunni er ekki alveg einhlítt. Lítum fyrst á meðalvindhraða í byggðum landsins.
Gráu súlurnar sýna meðalvindhraða á mönnuðum stöðvum, rauði ferillinn meðalvindhraða sjálfvirkra stöðva og sá græni meðalvindhraða á stöðvum vegagerðarinnar. Upplýsingarnar ná allt aftur til 1924 - en ýmis vandamál eru á ferð. Fyrir 1949 voru meðaltöl aðeins birt í vindstigum, en síðar var farið að nota hnúta. Við getum reiknað með því að þarna sé ósamfella í röðinni - gæti verið stór en er ekki þó sérlega æpandi hér.
Vindhraðamælar voru lengi vel afskaplega fáir, fór þó fjölgandi frá og með 1957 og áfram. Sömuleiðis þurfti stundum að breyta um mælagerð - og breytingar urðu á umhverfi stöðva þannig að brot kom í vindmælingar. Varla er hægt að segja að vindhraði hafi verið mældur af öryggi fyrr en með tilkomu sjálfvirka kerfisins upp úr 1995. Það er þó trú ritstjóra hungurdiska að meðalvindhraði allra veðurstöðva saman sé sæmilega öruggur aftur fyrir 1965 eða svo. Samanburður mannaða og sjálfvirka kerfisins síðustu 15 til 20 árin styrkir þá trú. Reyndar eru kerfin ekki lengur samanburðarhæf - því síðustu 5-8 árin hafa sjálfvirku mælingarnar tekið yfir á nær öllum stöðvum.
Myndin sýnir að töluverðar sveiflur hafa orðið á októbervindhraðanum, bæði frá ári til árs (auðvitað) en sömuleiðis eru einhverjar sveiflur á áratugakvarða.
Meðaltal októbermánaðar í ár á mönnuðu stöðvunum er 5,8 m/s (5,77) - það hæsta síðan 2011. Meðaltal sjálfvirku stöðvanna er nærri því það sama 5,8 m/s (5,82). Meðaltal síðustu tíu ára er 5,6 m/s á báðum gerðum stöðva. Vindhraði var því mjög nærri meðallagi á landsvísu í nýliðnum októbermánuði.
Næsta mynd sýnir það sama og sú fyrri - nema hvað hún nær aðeins yfir síðustu 20 árin rúm - þá sést það tímabil betur.
Hér sjáum við vel hvernig sjálfvirkar (rautt) og mannaðar (grátt) vindmælingar hafa runnið saman á síðustu árum. Áður en það gerðist var meðalvindhraði sjálfvirka kerfisins oftast örlítið meiri í október heldur en þess mannaða. Þetta styrkir þá trú að mannaða kerfið hafi ekki verið að ofmeta vind fyrir 1995 - og við getum þess vegna trúað meðaltölum einhverja áratugi aftur í tímann.
Meðalvindhraði á vegagerðarstöðvunum er ívið meiri en á hinum - og er það eðlilegt. Þær eru beinlínis settar upp á stöðum við vegi landsins þar sem búast má við meiri vindi en almennt gerist. Ritstjóri hungurdiska fylgist einnig með illviðrum á landsvísu - uppgjöri októbermánaðar er ekki fulllokið þegar þetta er ritað - en þó ljóst að það er varla meira en einn dagur í mánuðinum sem nær á illviðralista - og e.t.v. ekki einu sinni hann. Tjón af völdum hvassviðra virðist heldur ekki hafa verið mikið miðað við það sem oft er.
En var þá vindhraði í nýliðnum október ekkert sérstakur? Jú, hann var það reyndar - en ekki nema á hluta landsins. Þar telst hann sennilega óvenjumikill.
Mat á því hversu óvenjulegur er hins vegar ekki sérlega auðvelt. Verulegar ósamfellur eru í löngum tímaröðum einstakra stöðva - en sjálfvirku stöðvunum er þó vonandi hægt að treysta. - Við getum reiknað meðalvindhraða einstakra stöðva, gert lista yfir meðalvindhraða í október og athugað í hvaða sæti nýliðinn mánuður lendir í. Það gerði ritstjóri hungurdiska fyrir allar stöðvar sem athugað hafa í 11 ár eða meira. Aðallistinn er í viðhenginu - vonandi skiljanlegur.
Hér lítum við á niðurstöður fyrir mönnuðu stöðvarnar - svona til að átta okkur á vandamálunum sem við blasa.
röð | byrjar | nafn | |
1 | 1949 | Grímsstaðir | |
1 | 1952 | Keflavíkurflugvöllur | |
3 | 1994 | Skjaldþingsstaðir | |
3 | 1978 | Vatnsskarðshólar | |
5 | 1958 | Eyrarbakki | |
8 | 1999 | Miðfjarðarnes | |
9 | 1992 | Ásgarður | |
9 | 1949 | Dalatangi | |
10 | 1988 | Stafholtsey | |
12 | 1990 | Hjarðarland | |
14 | 1997 | Bláfeldur | |
14 | 1978 | Bergstaðir | |
21 | 1995 | Litla-Ávík | |
23 | 1949(og1994) | Bolungarvík | |
24 | 1956 | Mánárbakki | |
26 | 1984 | Hólar í Dýrafirði | |
27 | 1990 | Sauðanesviti | |
33 | 1949 | Reykjavík | |
39 | 1949 | Stykkishólmur | |
58 | 1949 | Akureyri |
Taflan segir okkur að nýliðinn október hafi verið sá hvassasti í stöðvarsögunni á tveimur stöðvum, Grímsstöðum á Fjöllum og á Keflavíkurflugvelli og sá þriðjihvassasti á tveimur, Skjaldþingsstöðum og Vatnsskarðshólum. Ef tölurnar eru teknar bókstaflega er hann í 33. hvassasta sæti í Reykjavík (miklar ósamfellur eru í mæliröðinni) og í því 58. (af 68 á Akureyri). Mæliröðin á Keflavíkurflugvelli er ekki hrein - því miður - þar var hvass vindur vanmetinn um nær 20 ára skeið, frá því um það bil 1962 til 1982.
En eins og áður sagði eru samfelluvandamál ekki eins átakanleg á sjálfvirku stöðvunum (þau eru sannarlega fyrir hendi á sumum þeirra en allt of mikil vinna er að ráða í þau - og því ómögulegt að gera það hér og nú).
En listinn í viðhenginu sýnir þó að nýliðinn október var sá hvassasti á 33 sjálfvirkum stöðvum af 106 á listanum (28 prósent) og á 11 vegagerðarstöðvum af 47 (23 prósent). Þetta eru nokkuð háar tölur. Á listanum má sjá að þetta eru einkum (en ekki aðeins) stöðvar á landinu sunnan- og suðvestanverðu. Á þeim slóðum er þetta sennilega hvassasti október um langt skeið.
2.11.2016 | 21:13
Af októbervikum - og smásamanburði
Þær fréttir hafa nú borist að nýliðinn október hafi verið sá hlýjasti í sögunni bæði á Austur-Grænlandi sem og á norsku veðurstöðvunum í norðurhöfum. Hiti á einni stöðinni á Svalbarða var 9 stig ofan meðallags. Þar fyrir norðan voru einnig slegin úrkomumet.
Til að búa til svona mögnuð hita- og úrkomuvik þarf mikla röskun á venjulegri hringrás lofts á svæðinu. Við lítum fyrst á nokkur kort sem sýna vikin en síðan veltum við vöngum yfir því hversu óvenjulegt þetta er.
Fyrsta kortið sýnir þrýstivikin - eins og evrópureiknimiðstöðin hefur greint þau. Á bláleitu svæðunum var þrýstingur í október neðan meðallags áranna 1981 til 2010, en en þeim rauðleitu var hann yfir meðallagi. - Vel sést á þessu korti hversu miklu sterkari sunnanáttin yfir Íslandi var heldur en venjulega - og að þessi sunnanáttarauki náði langt norður í höf.
Á þessu korti má sjá meðallegu 500 hPa-flatarins í nýliðnum október (heildregnar línur), þykktina (daufar strikalínur) og þykktarvikin (litir). Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Á þeim svæðum þar sem þykktarvikin eru jákvæð hefur hiti verið hærri heldur en vant er (gult og rauðbrúnt á kortinu), en lægri en venjulega þar sem vikin eru neikvæð (bláu svæði kortsins).
Vel sést hvernig hiti er ofan meðallags á öllu því svæði þar sem sunnanáttin er meiri en venja er.
Þetta kort sýnir úrkomuvik - í líkaninu. Á græn- og blálituðu svæðunum hefur úrkoma verið meiri en venjulega - meir en tvöföld meðalúrkoma á þeim bláu. Mestallt sunnan- og vestanvert Ísland er undir bláum lit - en að sögn líkansins var úrkoma langt undir meðallagi norðaustanlands. Þetta fellur nokkuð vel að raunveruleikanum.
Eins og oft hefur verið minnst á á hungurdiskum áður má skýra ríflegan helming breytileika hitafars hér á landi með aðeins þremur hringrásarbreytum eða mælitölum. Tvær þeirra ráða mestu. Sú fyrri mælir hversu sterk sunnanátt ríkir yfir landinu - ekki skiptir mjög miklu máli hvort við sækjum tölu sem miðar við háloftin eða einfaldlega vindáttir á landinu. Það liggur nokkuð í augum uppi að líkur á háum hita vaxa með aukinni sunnanátt.
Önnur mælitalan er hæð háloftaflata - hún er vísir á það hvort loftið yfir landinu er af suðrænum eða norrænum uppruna - sterk sunnanátt yfir Grænlandi getur fært okkur hlýtt loft - án þess að áttin sé sérlega sterk hér á landi á sama tíma. Því meiri sem hæð flatanna er - því hlýrra er loftið yfir okkur að jafnaði. En - þótt þeirra hlýinda njóti ekki alltaf við jörð eru þó meiri líkur á að hlýtt sé á landinu við slík skilyrði heldur en kalt - og það kemur berlega í ljós í meðaltölum.
Þriðja mælitalan - sú sem minnst áhrif (þeirra þriggja) hefur á hitann er styrkur vestanáttarinnar - oftast er það þó þannig að hlýrra er þegar vestanáttin er slök - eða neikvæð (austlæg) - heldur en þegar hún er vestlæg. Hlýjast er þegar sunnanáttin er sterk, háloftafletir liggja hátt - og vestanáttar gætir lítt.
Þannig var það einmitt í október. En - við getum séð af þykktarvikakortinu að hefði bylgjumynstrið legið um það bil 10 gráðum vestar en það gerði hefði orðið enn hlýrra hér á landi (og úrkoma e.t.v. aðeins minni).
En hvernig var þá sunnanáttin miðað við fyrri októbermánuði? Eins og oft hefur verið fjallað um á þessum vettvangi að undanförnu hefur október - nærri því einn mánaða - ekki sýnt nein hlýindamerki síðustu áratugi. Áreiðanlegar háloftathuganir ná varla meir en 65 til 70 ár aftur í tímann og allt sem áður kom er nokkuð óáreiðanlegt hvað ástand í háloftum varðar. - En við athugum samt hvort bandaríska endurgreiningin getur sagt okkur eitthvað um vindáttirnar. [Hún er síðri með hæð þrýstiflata fyrir 1920].
Fyrst skulum við rifja upp hverjir eru hlýjastir októbermánaða (áætlaður meðalhiti í byggð notaður til röðunar):
röð | ár | staðalvik |
1 | 2016 | 2,83 |
2 | 1915 | 2,52 |
3 | 1946 | 2,51 |
4 | 1959 | 2,51 |
5 | 1920 | 2,17 |
6 | 1908 | 2,13 |
7 | 1965 | 1,87 |
8 | 1939 | 1,78 |
9 | 1941 | 1,48 |
Hér höfum við breytt hita í staðalvik (en einingin er áfram °C) - þetta er til þess að við getum borið hitann saman við hita í öðrum mánuðum ársins. Nýliðinn október er langt fyrir ofan næsthlýjustu mánuðina sem eru 1915, 1946 og 1959. Október 1920, 1908 eru nokkuð fyrir neðan.
Þá er það háloftasunnanáttin - ein og sér (höfum ekki áhyggjur af mælitölunni):
röð | ár | sunnan |
1 | 1908 | 59,1 |
2 | 2016 | 51,8 |
3 | 1959 | 42,3 |
4 | 1914 | 42,0 |
5 | 1920 | 42,0 |
6 | 1915 | 41,7 |
7 | 1946 | 41,7 |
8 | 1951 | 39,0 |
9 | 2015 | 38,9 |
9 | 1953 | 38,4 |
10 | 2007 | 38,1 |
Hér er nýliðinn október næstefstur - 1908 er ofan við - en hann er einmitt meðal þeirra hlýjustu líka - fleiri hlýindalistamánuðir eru líka þarna.
Og sunnanátt nærri sjávarmáli (samkvæmt bandarísku endurgreiningunni):
röð | ár | sunnan |
1 | 1915 | 25,2 |
2 | 2016 | 24,8 |
3 | 1908 | 24,3 |
4 | 1946 | 21,9 |
5 | 1914 | 20,7 |
6 | 1920 | 20,1 |
7 | 1959 | 18,0 |
8 | 1939 | 16,2 |
9 | 1882 | 15,6 |
10 | 2007 | 15,3 |
Jú, hér er nýliðinn október líka í 2. sæti - en 1915 er í því fyrsta. Svo sjáum við líka október 1882 - ekki mjög áreiðanlegar upplýsingar - en ákafalesendur hungurdiska vita að sá mánuður var reyndar frostlaus í Reykjavík.
röð | ár | sunnanbratti |
1 | 1915 | 6,8 |
2 | 2016 | 6,6 |
3 | 1920 | 6,4 |
4 | 1908 | 5,6 |
5 | 1882 | 5,0 |
6 | 1951 | 4,5 |
7 | 1946 | 4,3 |
8 | 2007 | 4,2 |
9 | 1963 | 4,1 |
10 | 1959 | 3,9 |
Þessi tafla sýnir þrýstimun yfir landið frá Teigarhorni til Stykkishólms - því hærri sem talan er því meiri er sunnanáttin (norðanátt neikvæð). Nákvæmnin er nú tæplega upp á 0,1 hPa - en við röðum samt og komumst að því að október 2016 á næstmestu sunnanáttina - rétt eins og í næstu töflu á undan - og 1915 í efsta sæti á báðum.
röð | ár | Vm-Grímsey |
1 | 2016 | -0,1 |
2 | 1959 | 0,7 |
2 | 2014 | 0,7 |
2 | 1883 | 0,7 |
2 | 1946 | 0,7 |
6 | 2015 | 0,8 |
6 | 1991 | 0,8 |
6 | 1947 | 0,8 |
6 | 1886 | 0,8 |
10 | 1884 | 0,9 |
En það var líka merkilegt í þessum október að nú varð mánuðurinn í fyrsta sinn hlýrri í Grímsey heldur en á Stórhöfða í Vestmannaeyjum (mælt er í °C) - og eiginlega merkilegast hvað langt er í næstefsta sæti listans. Venjulega eru met ekki slegin á svo afgerandi hátt. Rétt er að taka fram að það er ekki alveg óþekkt að einstakir (sumar) mánuðir séu hlýrri í Grímsey - en október ekki.
Fyrsta taflan hér að ofan sýndi staðalvik hitans. Berum nú saman vik og staðalvik í október nú og í öðrum mánuðum ársins - vikin fyrst.
röð | ár | mán | hitavik °C |
1 | 1929 | 3 | 5,34 |
2 | 1932 | 2 | 4,94 |
3 | 1964 | 3 | 4,72 |
4 | 1947 | 1 | 4,01 |
5 | 1974 | 4 | 3,98 |
6 | 1933 | 12 | 3,92 |
7 | 2016 | 10 | 3,76 |
8 | 1923 | 3 | 3,72 |
Nýliðinn október er í 7. sæti, almennur breytileiki hita er mestur á vetrum hér á landi - merkilegt að október nú skuli yfirleitt hafa komist á þessa töflu - veðurnörd þekkja vel alla aðra mánuði listans fyrir fádæma hlýindi.
Til að leiðrétta fyrir mismunandi breytilega mánaðanna stökkvum við yfir í samanburð staðalvika og fáum töflu sem á að gera alla mánuði samanburðarhæfa - en er hún það?
röð | ár | mán | hita(staðal)vik |
1 | 2016 | 10 | 2,83 |
2 | 2003 | 8 | 2,76 |
3 | 1932 | 2 | 2,69 |
4 | 1974 | 4 | 2,64 |
5 | 1929 | 3 | 2,59 |
6 | 1915 | 10 | 2,52 |
7 | 2014 | 6 | 2,52 |
8 | 1946 | 10 | 2,51 |
9 | 1959 | 10 | 2,51 |
Hér er nýliðinn október á toppnum sem afbrigðilegasti mánuður allra tíma - hvorki meira né minna. - En við skulum taka eftir því að það eru fjórir októbermánuðir á listanum. Það er mjög grunsamlegt. Hér eru 80 ár lögð til grundvallar útreikningi staðalvikanna. Við vitum að október hefur síst gengið í takt við aðra mánuði í gegnum tíðina - sá grunur læðist að ritstjóranum að náttúrulegur breytileiki hans sé kannski meiri en sýnist við fyrstu sýn - og að staðalvikin hafi verið vanmetin miðað við aðra mánuði.
Niðurstaða? Október 2016 var afbrigðilega hlýr - sennilega má þó skýra hlýindin að mestu leyti með afbrigðum í þrýstifari. Taflan sem sýnir hitamun Vestmannaeyja og Grímseyjar gæti þó bent til annars.
1.11.2016 | 23:27
Af stöðunni á norðurhveli í byrjun nóvember
Eins og oft áður lítum við nú á kort sem sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina yfir norðurhveli. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því stríðari er vindurinn sem blæs nokkurn veginn samsíða þeim með lægðir á vinstri hönd. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið.
Spáin er úr líkani evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir síðdegis á fimmtudag, 3. nóvember. Við sjáum að heimskautaröstin liggur nú lítt rofin allan hringinn - greinum legu hennar á þéttum jafnhæðarlínum. Brúni strikalínuhringurinn fylgir henni nokkurn veginn - sjá má einstakar bylgjur af hlýju lofti (grænt og gult) laumast norður fyrir hann - og eitthvað af köldu suður fyrir (blátt). Miðja hringsins liggur nú handan norðurskauts frá Íslandi séð - almennt er kaldara í austurvegi en vestra.
Norðan rastarinnar er samt ekki svo óskaplega kalt - en þeir félagar kuldapollarnir Stóri-Boli og Síberíu-Blesi eru samt greinilegir - en áberandi hæðarhryggur (hlýr ás) á milli (rauð, þykk strikalína).
Það er áberandi á kortinu að Síberíukuldinn virðist í augnablikinu forðast Norðuríshafið - hann er mestur inni á landi - og liggur kuldaásinn í boga langt sunnan norðurskauts. Þetta er ekki svo óvenjulegt og getur auðvitað breyst skyndilega - en er samt nokkuð athyglisvert í ljósi þess að sérlega íslítið er nú í norðurhöfum og varmatap Norðuríshafs til lofthjúpsins því með mesta móti - kannski er það að búa til hlýja hrygginn - eða alla vega aðstoða við viðhald hans?
Erlend veðurnörd, tístarar og bloggarar eru að ýja að því að snjór sé óvenju útbreiddur (lítið geta þau vitað um magnið ennþá) í Síberíu og vestur eftir Rússlandi. Sumir fræðimenn eru einnig að gera því skóna að þessi (meinta) óvenjulega hitun lofts yfir norðurslóðum trufli þá félaga Bola og Blesa svo þeir finni síður sín eðlilegu vetrarbæli - og flæmist aðeins sunnar en ella væri.
Þó svosem eins og fimm eða sjö breiddarstig séu ekki áberandi á korti eins og þessu má trúa því að það munar um þau - hitabratti er oftast mikill í kringum kuldapollana.
Ekki treystir ritstjóri hungurdiska sér til að taka hreina afstöðu með eða á móti þessum hugmyndum um áhrif ísleysis á hegðun kuldapolla og bylgjumynsturs á norðurslóðum og þar með norðurhveli öllu - enda hefur hann á löngum ferli séð margt skrýtið og óvænt gerast sem síðan hefur bara jafnað sig. - En ísrýrðin um þessar mundir er mjög óvenjuleg svo mikið er víst.
Staðan á kortinu hér að ofan verður mjög fljót að breytast - og ekki rétt að draga einhverjar djúpar ályktanir af henni einni saman.
Yfir Íslandi er tiltölulega hlýtt loft á kortinu og enn hlýrra loft stefnir í átt til landsins (rauð ör neðst á því). En þessi sérlega óvenjulegu hlýindi (já þau eru óvenjuleg) hljóta samt að taka enda um síðir.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 20
- Sl. sólarhring: 214
- Sl. viku: 985
- Frá upphafi: 2420869
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 864
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010