Bloggfærslur mánaðarins, desember 2014

Kalda strokan frá Kanada

Þótt veður fyrstu viku nýja ársins sé harla óljóst er þó samkomulag um stóru drættina. Mjög kalt loft frá Kanada streymir austur um Atlantshaf - aðallega fyrir sunnan Ísland. Þetta sést mjög vel á 10-daga meðalspákorti evrópureiknimiðstöðvarinnar. Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins, meðalþykktina og vik þykktarinnar frá langtímameðallagi þessa daga.

w-blogg311214a

Jafnhæðarlínurnar eru heildregnar, jafnþykktarlínur strikaðar og þykktarvikin lituð. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Því þéttari sem jafnhæðarlínurnar eru því meiri er vindurinn, hann liggur samsíða línunum. 

Yfir Labrador eru feikistór neikvæð vik - dekkri fjólublái liturinn sýnir svæði þar sem þykktin er -140 til -180 metra undir meðallagi - í hita eru það -7 til -9 stig undir meðallagi áranna 1981 til 2010. Við Svalbarða (alveg efst á kortinu) má sjá svæði þar sem þykktin er meir en 100 metra yfir meðallagi, hiti er þar um 5 stigum yfir meðallagi.

Sé nánar litið á jafnþykktarlínurnar má sjá að sunnan við Grænland og allt inn á sunnanvert Grænlandshaf liggja þær undir horni við vindstefnu - vindurinn leitast við að bera kalt loft í átt til okkar. 

Hafið sér um að hita loftið á þessu svæði baki brotnu allan sólarhringinn og þegar til Íslands er komið er hitinn kominn upp undir meðallag - eða þar um bil. Meðalhiti hér við land á þessum árstíma er ekki fjarri frostmarki. Upphitun að neðan færir loftinu raka og gerir það mjög óstöðugt - og úr verður flókin keðja lóðréttra og láréttra varmaflutninga - með tilheyrandi úrkomumyndun - og reyndar miklum lægðagangi líka.

Meðalkort eins og þetta straujar alveg yfir hraðfara lægðir - jafnvel þótt þær séu djúpar. Þótt allar tölvuspár séu sammála um þessa stóru mynd er mikill ágreiningur um myndun og þróun einstakra lægðakerfa á þessu tíu daga tímabili.

Svo virðist þó sem nýjársdagur verði tiltölulega rólegur - og flestar spár telja föstudaginn 2. verða það líka - en þó má geta þess að evrópureiknimiðstöðin segir að innan við 100 km verði í slæma vestanhríð undan Suðvesturlandi framan af degi. Vonandi er rétt reiknað. Laugardagurinn gæti orðið rólegur líka - verðum við heppin.

Svo er líka sjaldan langt í norðaustanstrenginn á Grænlandssundi.

Ritstjóri hungurdiska óskar þrautseigum lesendum og landsmönnum öllum árs og friðar með þökk fyrir liðið.  


Enn af áramótaveðri (froðan rennur)

Enn er hugað að áramótum. Við lítum snöggt (þeir sem vilja geta auðvitað starað úr sér augun) á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting og fleira á miðnætti á gamlárskvöld.

w-blogg301214a

Hér má sjá mjög opna stöðu. Risastór lægðarmiðja þekur mestallt Norður-Atlantshaf. Ískalt heimskautaloft streymir úr vestri út yfir hafið og mætir þar öllu hlýrra lofti úr suðri. Við Ísland er þó einhver óljós hroði - ekki vindur að ráði en töluverð úrkoma - og -5 stiga jafnhitalína í 850 hPa(strikalínur) liggur þvert yfir landið frá suðri til norðurs (á leið til austurs). 

Þetta er einmitt sá hiti sem veðurfræðingum þykir þægilegt að nota til að greina að snjó og regn - (en raunveruleikinn sinnir þægindum einhverrar fræðistéttar ekki neitt - alla vega ekki til lengdar). 

Sé úrkomusvæðið í kringum -5 stiga jafnhitalínuna á hraðri hreyfingu - utan af sjó - má e.t.v frekar giska á rigningu, sé úrkoman áköf hallast líkur að snjókomu. Sé hún klakkakennd - þannig að bjart sé á milli hryðja - er jafnvel möguleiki á frostrigningu - en það vilja menn síst af öllu. Að vanda látum við Veðurstofuna um að höndla raunveruleikann - en hungurdiskar reika sem fyrr um í draumaveröld reiknilíkana (tilbiðja þau samt ekki - munið það). 

Það er mesta furða hvað evrópureiknimiðstöðin er róleg yfir því sem fylgir á eftir - en skýtur að vísu nokkrum föstum skotum í átt til Bretlandseyja næstu daga á eftir - ameríkureikningar eru órólegri hvað okkur varðar. Sannleikurinn er hins vegar sá að vissara er að fylgjast vel með stöðunni - og vona jafnframt að nýtt ár færi okkur blíður á blíður ofan - og frið frá ófærð, skafrenningi og hálku (nema í skíðalöndum og á jöklum - þar má snjóa sem lystir). 


Flókin áramótastaða?

Hlýindin sem nú (sunnudagskvöld 28. desember) ganga yfir landið standa stutt við. Aftur fer að kólna vestanlands strax síðdegis á mánudegi. En þá kemur afskaplega óráðið loft inn yfir landið. Kalt að uppruna, en búið að fara mjög langan sveig suður í haf áður en það kemur til okkar. Vinsælast er þó að spá hita ofan frostmarks á láglendi fram á gamlársdag eða gamlárskvöld - en ekki verður nærri því eins hlýtt og á mánudeginum. 

Þetta er ekkert sérlega skemmtilegt því hláka af þessu tagi er nánast gagnslaus á klakann og heldur aðeins við þeirri flughálku sem nú er nær alls staðar þar sem gangandi eiga leið um. Mánudagshlákan er aðeins öflugri. 

En nú gera spár ráð fyrir því að kaldara loft (með einhverju frosti) nái til landsins á gamlárskvöld. Framhaldið er hins vegar afskaplega flækjulegt. Við skulum líta á norðurhvelsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar á áramótum, (kl. 24 31. desember 2014 eða að amerískum hætti, kl. 00 þann 1. janúar 2015 - er ekki allt að verða amerískt hvort eð er - meira að segja útvarpið og heilbrigðiskerfið). Nóg um það - kortið frekar.

w-blogg291214a

Að venju eru jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins heildregnar, því þéttari sem þær eru því hvassari er vindurinn. Gríðarleg vindröst liggur frá austurströnd Bandaríkjanna og linnulítið áfram eins og séð verður á kortinu. Sjóngóðir munu geta séð smábylgjur á mörkum hlýja og kalda loftsins í röstinni. Þessar bylgjur keppa hver við aðra næstu daga um veðurvöld á Atlantshafinu. 

Lítið samkomulag er hjá reiknimiðstöðvum um það hvernig þeirri keppni lyktar. Litirnir sýna þykktina, hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mörkin á milli grænu og bláu litanna eru sett við 5280 metra, meðalþykkt við Ísland á þessum árstíma er í kringum 5240 metra. Við sjáum af legu litanna að hiti við Ísland er nærri meðallagi á gamlárskvöld, - ekki mjög fjarri frostmarki. 

Vestur í Kanada byltir sér kuldapollurinn mikli - sem við höfum kallað Stóra-Bola. Hann hefur reyndar ekki enn náð fullum vetrarstyrk - fjólubláu litirnir sem hann flaggar eru ekki nema tveir - boðið er upp á fjóra. 

Þetta er ekkert sérlega efnileg staða frá sjónarhóli snævar- og hálkumæddra landsmanna - en vonandi að illviðrin verði ekki það mikil að skíðamenn verði að láta af iðju sinni og að ófærð hindri samgöngur að ráði.- En það er ekki gefið - við skulum bara vona að úr rætist.

Eins og sjá má er enn leiðindakuldapollur yfir Ítalíu og nágrenni og annar minni þó ógnar Kaliforníu - að vísu veitir þar ekki af snjó til fjalla. Svo þykir ameríkumönnum aldrei þægilegt að vera með Stóra-Bola í þessari stöðu - rétt norðan við mannabyggðir. 


Kuldakast í Mið- og Suður-Evrópu

Hæðarhryggurinn sem færir okkur hlákuna stuggar köldu lofti til suðurs um Evrópu. Það mun halda áfram að valda þar vandræðum næstu daga. Umfang þess sést mjög vel á kortinu hér að neðan. Kortið sýnir spá bandarísku veðurstofunnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina um miðnætti á mánudagskvöld.

w-blogg281214a

Ísland er ofarlega til vinstri á myndinni sem annars sýnir alla Evrópu og nær allt til Miðausturlanda. Þegar spáin gildir eru hlýindin í hámarki hér á landi. Þykktinni er spáð í 5520 metra þar sem mest er yfir Austurlandi - en kaldara loft er farið að sækja að Vesturlandi úr vestri. 

Hæðarhryggurinn hefur nærri því lokað af tungu af köldu lofti. Hér liggur tungan allt suður til Norður-Afríku og snjókoma er hugsanleg í Túnis. Veðurstofur Serbíu og Króatíu flagga rauðu á veðurviðvarananeti Evrópuveðurstofa og víða verður illt í efni.  

En svo mikill órói er í vestanvindabeltinu þessa dagana að þessi kuldatunga á ekki að festast heldur mun hún áfram til austurs og síðan mildast fyrir næstu helgi.

Vestanhafs er gríðarmikið háþrýstisvæði á leið til suðurs meðfram Klettafjöllunum austanverðum - þrýstingur í spám er vel yfir 1055 hPa. Því fylgir tunga af köldu lofti. Nú er ekki ljóst hvort hún kemst alla leið til Kaliforníu - hún gerir það í spáheimum en þeir eru ekki alltaf áreiðanlegir - eins og við vitum vel.  


Umhleypingar, hláka og hálka

Eftir veðurfriðsæla jólahelgi virðist umhleypingatíðin aftur taka við frá og með sunnudegi (28. desember) en þá á hann að ganga í öfluga sunnanátt með hláku - og þar með hálku á ísi lagðri jörð. Hlákan verður nokkuð öflug en nægir væntanlega ekki til að eitthvað hreinsist að gagni. 

Kortið hér að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina mánudaginn 29. desember kl. 6 að morgni.

w-blogg271214a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Rauðu strikalínurnar sýna þykktina, sömuleiðis í dekametrum. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er, því hlýrra er loftið. Það er 5460 metra jafnþykktarlínan sem nær inn á landið. Þetta er sumarhlýtt loft efra - en sjór og snævi þakið land sjá um að við njótum hitans ekki að fullu. - En góð tilraun samt. Í vindasömu fjallaumhverfi gæti hitinn þó komist yfir 10 stig einhvers staðar. 

Evrópureiknimiðstöðin segir þykktina verða ofan meðallags lengst af fram á nýjársnótt - en mestu hlýindin verða komin hjá um miðjan þriðjudag - fyrst kólnar aftur vestanlands. 

Nokkur hreyfing er á stóru kuldapollunum og ekki fullljóst á þessari stundu hvert framhald verður. Líklegt verður þó að telja að við lendum aftur í lægðabraut á austurjaðri Kanadakuldapollsins sem við höfum oft kallað Stóra-Bola. Það kemur í ljós. 


Sloppið fyrir horn?

Svo virðist nú (á þorláksmessukvöld) að jólaveðrið sleppi fyrir horn. Ekki þannig að veður á aðfangadag og jóladag hafi einhvern tíma verið í teljandi hættu. Aftur á móti leit um tíma illa út með veður á annan og þriðja jóladag. Nú virðist það illviðri úr myndinni - eða því sem næst. Það virðist varla rúm fyrir það í hraðri atburðarás í hringekju norðurhvels.

w-blogg241214a

Við sjáum hér spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina síðdegis á annan jóladag. Norðurskautið er rétt ofan við miðja mynd og Ísland dylst á bak við eitt af hvítu L-unum ekki langt þar fyrir neðan. 

Jafnhæðarlínur eru heildregnar. Því þéttari sem þær eru því hvassara er í fletinum, í 5 til 6 km hæð yfir sjávarmáli. Ísland er nærri lítilli lægðarmiðju og vindur hægur yfir landinu þegar spáin gildir. Vestan við land er mjög háreistur hæðarhryggur og hreyfist hann til austurs og ryður lægðinni burt. 

Þykktin er sýnd með litum (kvarðinn batnar sé kortið stækkað), hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mörkin á milli grænu og bláu litanna er við 5280 metra - en meðalþykkt við Ísland í desember er um 5250 metrar. 

Rýnum nú í eitt smáatriði. Fyrir norðan land liggja borðar þriggja blárra litatóna nokkurn veginn samsíða frá vestsuðvestri til austnorðausturs. Þar sem þeir liggja þéttast, milli Vestfjarða og Grænlands er norðaustanillviðri undir. 

Ef hæðarhryggurinn fyrir vestan land væri hreyfingarlaus myndi lægðin yfir landinu hreyfast beint til suðurs og draga kalda loftið og storminn á eftir sér suður yfir landið - og þar að auki þétta jafnþykktarlínurnar. Svo virðist hins vegar að hæðarhryggurinn muni slíta á milli kuldans og lægðarinnar og lægðin þar með æða suðaustur til Bretlands. Þar með sleppur landið naumlega frá illviðrinu. 

Það næsta sem það kemst er einmitt þarna síðdegis á annan jólardag og sést vel á kortinu hér fyrir neðan.

w-blogg241214b

Hér sjáum við vindaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar (í 100 metra hæð) á sama tíma, kl. 18 síðdegis á annan jóladag. Framhaldið er að sögn það að vindurinn dettur snögglega niður - en tekur sig reyndar aftur upp á laugardag - en þá við Skotlandsstrendur, langt frá okkur. 

Hægt væri að velta sér lengi upp úr norðurhvelskortinu - vonandi að einhverjir lesendur geri það (???) - en hjá ritstjóranum er kominn tími til að óska þrautseigum lesendum gleðilegra jóla.


Jólaveðrið - (engin viðbótarfrétt)

Kortið sem litið er á í dag (mánudag 22. desember) er nærri því alveg eins og annað kortanna sem fjallað var um í gær, enda virðast reiknimiðstöðvar hafa náð góðu miði á veðrið á aðfangadagskvöld. Kort dagsins gildir á sama tíma og kort gærdagsins - en er sólarhring yngra.

w-blogg231214a

Strikalínurnar sýna hita í 850 hPa-fletinum og ef þetta kort er borið saman við „sama“ kort í pistlinum í gær má sjá að -15 stiga jafnhitalínan er komin alveg norður fyrir land - gæti bent til þess að spáin í dag sé um 2 stigum hlýrri heldur en spáin í gær. Það munar um það. Grænu og gulu svæðin við landið tákna dálítil él eða snjókomu. Líkur benda því til þess að einhverjir fái að sjá snjókorn á aðfangadagskvöld. 

Vaxandi lægðardrag er vestast á Grænlandshafi og velur það eitthvað ákveðnari snjókomu á jóladag [því miður - að áliti ritstjórans].

Lægðasvæðið langt suður í hafi er enn ógnandi - en evrópureiknimiðstöðin hefur hins vegar slegið nokkuð af frá fyrri illviðraspám [hvað Ísland varðar] - við gætum sum sé sloppið með skrekkinn - ekki þó útséð. Það er með nokkrum ólíkindum hvað reiknimiðstöðvar eru reikandi þessa dagana - það þykir veðurfræðingum óþægilegt að sumu leyti - en ánægjulegt þó að verða var við að líkönin séu raunverulega ólík á einhvern hátt. 


Aðfangadagur klukkan 18 (bara rétt lauslega)

Að sjálfsögðu látum við eiginlega veðurspá um veðrið kl 18 á aðfangadagskvöld eiga sig - en lítum lauslega á hugmynd evrópureiknimiðstöðvarinnar um ástandið á Atlantshafi. Fyrst hefðbundið sjávarmálsþrýstikort.

w-blogg221214a

Jafnþrýstilínur eru heildregnar, úrkoma sýnd með litum og jafnhitalínur í 850 hPa eru strikaðar, það er sú sem sýnir -15 stig sem snertir norðurströndina. Það er býsna kalt - vindur verður greinilega hægur víðast hvar (jafnþrýstilínur eru fáar), en daufgrænir flekkir snerta landið hér og hvar. Einhver él? Frost verður væntanlega mikið inn til landsins þar sem himinn er heiður. 

Grunnt lægðardrag er vestast á Grænlandshafi - eins konar útskot úr flatri lægð vestan Grænlands. Lægð er við Suður-Noreg og nokkuð hvasst á Norðursjó. Langt suður í hafi er stórt og úrkomuþrungið lægðarsvæði. 

Í hungurdiskapistli gærdagsins var minnst á ósamkomulag reiknimiðstöðva um framhaldið. Síðan þá hefur ekkert gengið saman með þeim. Lítum aftur á grundvöll ósamkomulagsins - getum við lært eitthvað af honum?

w-blogg221214b

Þetta kort sýnir ástandið í 500 hPa kl. 18 á aðfangadagskvöld - gerð evrópureiknimiðstðvarinnar. jafnhæðarlínur eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því meiri er vindur í um 5 km hæð. Jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. 

Mjög kalt er norðan við land - rétt eins og á hinu kortinu. Það er 5120 metra jafnþykktarlínan sem snertir norðausturhorn landsins. Það er um 130 metrum undir meðallagi desembermánaðar og segir okkur að hiti í neðri hluta veðrahvolfs sé um 6 stigum undir meðallagi. Það er nokkuð mikið - grettum okkur aðeins yfir því - en ekkert óvenjulegt - svona dag og dag. 

Hæðarhryggur er yfir landinu á leið austur - en snarpt lægðardrag vestan við Grænland - líka á austurleið. Í fljótu bragði eru spár bandarísku veðurstofunnar (þær eru tvær þessa dagana - gfs og gfs/gsm) ekki mjög ósammála þessu um veðrið kl. 18 á aðfangadagskvöld. Við nánari athugun (sem við þreytum okkur ekki á hér) sést þó að lægðardragið er nokkru flatara í bandarísku spánum.

Þetta reynist muna öllu hvað framhaldið varðar. Bláu og rauðu örvarnar á kortinu sýna stefnu kalda og hlýja loftsins í spá evrópureiknimiðstöðvarinnar - þær mætast fyrir sunnan land seint á jóladagskvöld. Þá á að verða til djúp lægð sem gæti valdið norðaustanillviðri hér á landi á annan og þriðja jóladag. 

En í bandarísku spánum gripur lægðardragið hlýja loftið ekki fyrr en sólarhring síðar - stefnumótið verður líka talsvert austar - þar sem gráu örvarnar vísa á (gsm). Gamla gfs-líkanið bandaríska sýnir stefnumótið aðeins vestar en hér er sýnt. Bandarísku spárnar eru hér hagstæðari fyrir okkur - en mun verri fyrir lönd við Norðursjó. 

Kanadíska líkanið vill illviðrið hér á landi - en það breska er nær bandarísku líkönunum. Japanir fylgja líka bandarísku spánum. 

Oft verður niðurstaða ósamkomulags af þessu tagi eins konar samsuða allra - við bíðum og sjáum hvort morgundagurinn (mánudagur 22. desember) færir okkur nær samkomulagi. 


Tveir hagstæðir hæðarhryggir?

Ekki voru þau hálfsystkin hálkan og krapinn blíð við landsmenn í dag (laugardag). Vindurinn, frændi þeirra, auðveldaði ekki málin - þó hann væri kannski ekki í sínu allra versta skapi. Á morgun (sunnudag) verður landið í flötum botni víðáttumikillar lægðar. Hún grynnist þá ört - svo vonandi verður ekki mikið úr norðanáttinni sem leggst yfir í kjölfar hennar. En ekki sleppum við alveg. 

Þegar norðanáttin fer að ganga niður - síðla mánudags eða aðfaranótt þriðjudags kemur veiklulegur háloftahæðarhryggur yfir landið og ræður aðalatriðum þriðjudagsveðursins. Smáatriðin (í neðri hluta veðrahvolfs) geta fært okkur einhver él. Kortin eru búin til á grundvelli reikninga evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg211214a

Kortið sýnir hæð 300 hPa-flatarins og vind í honum kl. 18 á þriðjudagskvöld (Þorláksmessu). Jafnhæðarlínur eru heildregnar, við erum nálægt 9 km yfir sjávarmáli. Hefðbundnar vindörvar sýna vindátt og vindhraða. Svæði þar sem vindurinn er mestur eru lituð (kvarðinn batnar sé kortið stækkað), litirnir byrja við 40 m/s. 

Hæðarhryggur þriðjudagsins hefur verið merktur með strikalínu og tölustafnum 1. Hann hreyfist hratt austur - lægðardragið sem fylgir í kjölfarið virðist ekki ætla að gera neitt sérstakt af sér (sjálfsagt fylgja einhver él) en nýr hæðarhryggur tekur strax við á miðvikudag (aðfangadag jóla). Hann er líka merktur með strikalínu en tölustafnum 2. 

Næsta kort sýnir stöðuna kl. 18 á aðfangadag. 

w-blogg211214b

Fyrri hryggurinn er hér kominn til Noregs, en sá síðari er við Vesturland - á austurleið. 

Þetta er allt saman gott og blessað, en nú greinir reiknimiðstöðvar mjög á um það hvað gerist næst - á jóladag. Ekki er þó illviðrisspá í gildi fyrir jóladaginn - en staðan þann dag býður upp á mjög mismunandi framhald. Þá er enn komið að ígjöf úr suðri (rauð ör) sem mætir mjög köldu skoti úr norðvestri. Evrópureiknimiðstöðin hefur nú í nokkrar spárunur í röð boðið upp á skyndilega lægðardýpkun skammt sunnan- og suðaustan við land með verulegu norðaustanillviðri í framhaldinu - en bandaríska veðurstofan lætur kalda og hlýja loftið fara á mis og ekki ná saman fyrr en austur undir Noregi. Eldra bandaríska líkanið (sem við fáum líka að sjá þessa dagana) gerir hins vegar ekkert úr neinu. 

Á sama tíma - það er að segja á fimmtudaginn (jóladag) er mikill hæðarhryggur að ryðjast til austurs um Labrador - báðar reiknimiðstöðvar eru sammála um að hann verði til. Veður milli jóla og nýjárs ræðst af örlögum þess hryggjar. Engar áreiðanlegar fréttir er enn að hafa af þeim. 


Skammvinn hláka

Laugardagslægðin (20. desember) færir okkur skammvinna hláku - eins og flestir fyrirrennarar hennar í þessum heldur þreytandi desembermánuði sem fáir fagna nema skíðamenn (ritstjórinn reynir af (mjög) veikum mætti að gleðjast með þeim).

Annars komst hiti yfir frostmark á 91 stöð í byggð í dag (föstudaginn 19.). Á mörgum stöðvanna gerðist það þegar skammvinnur en nokkuð snarpur norðanstrengur barst til suðurs yfir landið. Vindurinn braut víða upp lágskreið hitahvörf og hreinsaði til - en um leið og aftur lægði frysti að sjálfsögðu aftur. Ritstjórinn varð áþreifanlega var við „hlýindin“ á sinni vegferð því þau - samfara skafrenningi - mynduðu skelfilega hálku á vegi - aðstæður sem erfitt var að sjá fyrir (meira að segja fyrir ritstjórann) - en urðu ískyggilega sjálfsagt mál á staðnum. Eins gott að fara varlega. 

En lítum á þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir laugardagssíðdegi kl. 18.

w-blogg201214a

Jafnþykktarlínur eru heildregnar. Þykktin er hér meiri en 5340 metrar yfir mestöllu Vesturlandi - það tryggir hláku þar sem vindur blæs. Litirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum í um 1200 metra hæð yfir sjávarmáli. Guli liturinn sýnir hita yfir frostmarki.

Þessi hlýindi fjúka til austurs og við lendum enn og aftur inni í köldu lofti af vestrænum uppruna og hann frystir aftur um leið og vindur gengur niður. Úti á Grænlandssundi bíður svo norðaustanáttin enn og aftur færis. - Annars virðist sem þessi lægð sé ekki alveg jafn illvíg og nokkrar þær síðustu - þrátt fyrir það verður að taka hana alvarlega þegar ferðalög eru skipulögð - jú, svo má auðvitað huga að niðurföllum og slíku - ekki viljum við fá einhver flóð í hausinn - það þarf oft lítið til þótt hlákan sé stutt. 

Síðan stefnir í ákveðna breytingu í veðri - eða alla vega millispil. Við fáum vonandi tækifæri til að líta á það síðar. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 12
  • Sl. sólarhring: 183
  • Sl. viku: 2459
  • Frá upphafi: 2434569

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 2184
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband