Flókin áramótastaða?

Hlýindin sem nú (sunnudagskvöld 28. desember) ganga yfir landið standa stutt við. Aftur fer að kólna vestanlands strax síðdegis á mánudegi. En þá kemur afskaplega óráðið loft inn yfir landið. Kalt að uppruna, en búið að fara mjög langan sveig suður í haf áður en það kemur til okkar. Vinsælast er þó að spá hita ofan frostmarks á láglendi fram á gamlársdag eða gamlárskvöld - en ekki verður nærri því eins hlýtt og á mánudeginum. 

Þetta er ekkert sérlega skemmtilegt því hláka af þessu tagi er nánast gagnslaus á klakann og heldur aðeins við þeirri flughálku sem nú er nær alls staðar þar sem gangandi eiga leið um. Mánudagshlákan er aðeins öflugri. 

En nú gera spár ráð fyrir því að kaldara loft (með einhverju frosti) nái til landsins á gamlárskvöld. Framhaldið er hins vegar afskaplega flækjulegt. Við skulum líta á norðurhvelsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar á áramótum, (kl. 24 31. desember 2014 eða að amerískum hætti, kl. 00 þann 1. janúar 2015 - er ekki allt að verða amerískt hvort eð er - meira að segja útvarpið og heilbrigðiskerfið). Nóg um það - kortið frekar.

w-blogg291214a

Að venju eru jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins heildregnar, því þéttari sem þær eru því hvassari er vindurinn. Gríðarleg vindröst liggur frá austurströnd Bandaríkjanna og linnulítið áfram eins og séð verður á kortinu. Sjóngóðir munu geta séð smábylgjur á mörkum hlýja og kalda loftsins í röstinni. Þessar bylgjur keppa hver við aðra næstu daga um veðurvöld á Atlantshafinu. 

Lítið samkomulag er hjá reiknimiðstöðvum um það hvernig þeirri keppni lyktar. Litirnir sýna þykktina, hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mörkin á milli grænu og bláu litanna eru sett við 5280 metra, meðalþykkt við Ísland á þessum árstíma er í kringum 5240 metra. Við sjáum af legu litanna að hiti við Ísland er nærri meðallagi á gamlárskvöld, - ekki mjög fjarri frostmarki. 

Vestur í Kanada byltir sér kuldapollurinn mikli - sem við höfum kallað Stóra-Bola. Hann hefur reyndar ekki enn náð fullum vetrarstyrk - fjólubláu litirnir sem hann flaggar eru ekki nema tveir - boðið er upp á fjóra. 

Þetta er ekkert sérlega efnileg staða frá sjónarhóli snævar- og hálkumæddra landsmanna - en vonandi að illviðrin verði ekki það mikil að skíðamenn verði að láta af iðju sinni og að ófærð hindri samgöngur að ráði.- En það er ekki gefið - við skulum bara vona að úr rætist.

Eins og sjá má er enn leiðindakuldapollur yfir Ítalíu og nágrenni og annar minni þó ógnar Kaliforníu - að vísu veitir þar ekki af snjó til fjalla. Svo þykir ameríkumönnum aldrei þægilegt að vera með Stóra-Bola í þessari stöðu - rétt norðan við mannabyggðir. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 217
  • Sl. sólarhring: 288
  • Sl. viku: 2042
  • Frá upphafi: 2350778

Annað

  • Innlit í dag: 199
  • Innlit sl. viku: 1827
  • Gestir í dag: 194
  • IP-tölur í dag: 193

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband