Bloggfærslur mánaðarins, október 2014
31.10.2014 | 00:31
Austanátt - enn og aftur og áfram
Austlægar áttir hafa verið ríkjandi í október og líka þær norðlægu. Ekki virðist lát á því. Við lítum hér á 10 daga þrýsti- og þrýstivikaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar frá því um hádegi í dag (fimmtudag 30. október). Spáin er meðaltal dagana 30. október til 9. nóvember.
Neikvæð vik sunnan við land - en jákvæð yfir Grænlandi. Meginlægðasvæðið er svo nærri landi og lægðabeygja mikil að varla er hægt að reikna með þurru veðri vestanlands þrátt fyrir landáttina. Reiknimiðstöðin segir úrkomusummu þessa tíu daga vera yfir meðallagi um land allt og að fjórföld meðalúrkoma falli suðaustanlands.
Þessi staða verður þó ekki uppi hvern einasta dag - áttin verður norðlægari um tíma. Austlægu áttirnar eru oftast hógværar hvað hita varðar - sjaldan mjög kaldar. Kannski hiti verði lengst af yfir meðallagi árstímans?
30.10.2014 | 00:25
Af fáeinum keðjumeðaltölum hita (endurtekið efni)
Við skulum nú rifja upp nokkur keðjumeðaltöl hita. Fyrst eru það 12-mánaða meðaltöl Reykjavíkur og Akureyrar síðustu 15 árin rúm en líka 120- og 360-mánaða keðjumeðaltöl Reykjavíkurhitans. Allt er þetta endurtekið efni hér á hungurdiskum (nema allra nýjustu tölurnar).
Byrjum á 12-mánaða keðjumeðaltölum áranna frá 1999 til septemberloka í ár. Fyrst Reykjavík.
Tólf meðaltöl reiknast á hverju ári, ártalið er merkt við enda ársins, meðalhita mánaðanna janúar til desember. Síðasta talan á við um október 2013 til september 2014. Hlýindin á árunum 2002 til 2004 vekja alltaf athygli þegar þessi mynd er sýnd.
Næsta mynd sýnir það sama fyrir Akureyri.
Hún er nærri því alveg eins og Reykjavíkurmyndin - nema hvað árið í ár er komið upp fyrir allt nema efsta toppinn 2003.
En þetta er auðvitað aðeins bútur af heildarmynd mælitímabilsins. Næsta mynd sýnir 120-mánaða hitameðaltöl Reykjavíkur.
Hér sjást hlýndi fyrstu ára 21. aldarinnar sérlega vel. Ekkert lát er enn á þeim. Við megum taka eftir því að hlýnunin frá neðsta 10-ára botninum um 1980 og upp á toppinn eru um 1,6 stig - á 30 árum. Ef svona heldur áfram myndi hitinn um næstu aldamót (2100) vera kominn upp fyrir 10 stig. Hverjir vilja taka mark á því? - Hlýnunin mikla á 3. áratug 20. aldar var orðin um 1,2 stig áður en sveigði til flatneskju - en sú flatneskja stóð í um 30 ár. Komi flatneskja nú - skyldi hún líka standa í 30 ár? - Og hvað svo?
Síðasta myndin sýnir 360-mánaða meðaltölin á sama hátt.
Síðasta 30-ára lágmark var um 1990 (hitti vel í meðaltalið 1961 til 1990 - jafnvel og meðaltalið 1931 til 1960 hitti vel í næsta 30-ára hámark á undan). Hlýnunin síðan er um 0,6 stig (á 25 árum). Við skulum ekkert vera að framlengja hana hér - en gerið það gjarnan í huganum.
Það hlýnar samfellt frá upphafi línuritsins fram undir 1960 - en greinilegur vendipunktur er samt um 1920 - þá bætir mjög í hlýnunarhraðann. Árin 25 frá 1920 til 1945 hlýnar um 0,8 stig eða svo - og síðan um 0,2 stig eftir það.
Hlýnunin frá upphafi fram til kalda lágmarksins 1990 er um 0,6 stig, á 100 árum. Er það hin undirliggjandi hlýnun?
Minnt er á fjölda eldri pistla á hungurdiskum um nákvæmlega sama efni - í þeim má finna frekari vangaveltur og þankaþanka. Sá nýjasti er líklega sá sem færður er á 1. júní.
29.10.2014 | 00:06
Frekar svalt?
Varla er hægt að halda því fram að hlýtt hafi verið undanfarna viku - en það hefur ekki verið átakanlega kalt heldur. Hitinn í mánuðinum það sem af er er lítillega undir meðallagi síðustu tíu ára á um 70 prósent veðurstöðva - en enn yfir því á afganginum, einkum fyrir austan.
Þegar vindur er hægur og veður bjart getur þó kólnað mikið á stöku stað. Mesta frost sem mælst hefur á landinu það sem af er mánuði er -17,5 stig sem mældust í Svartárkoti þann 25. Það er nokkuð mikið í október - en þó talsvert frá landsmetum.
Fyrra kortið hér að neðan sýnir greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar á hæð 500 hPa-flatarins og þykktinni í dag (þriðjudag) kl. 12.
Jafnhæðarlínur eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Þykktin er sýnd í litum, mörkin á milli gulu og grænu flatanna eru í 5460 metrum. Það sem strax vekur athygli á kortinu er hlýja tungan yfir Skandinavíu sunnanverðri. Henni fylgir mjög sterkur vindur og þar sem hann keyrir hlýtt rakabólgið loftið upp Noregsfjöll að vestanverðu fellur gríðarmikil úrkoma. Mjög hlýtt er austanfjalls í Noregi.
Við erum hins vegar í köldu lofti. Það er þó ekki sérlega kalt og langt er í eiginlegt heimskautaloft. Vestast á þessari úrklippu má sjá lægð við Nýfundnaland. Hún hreyfist til austurs og síðar norðausturs. Kortið hér að neðan sýnir stöðuna eins og evrópureiknimiðstöðin telur hana verða kl. 18 á fimmtudag (30. október).
Hér sést meginhluti norðurhvels jaðar. Ísland er rétt neðan við miðja mynd. Þarna er svo komið að græni liturinn hefur aftur tekið völdin í 5 km hæð yfir landinu og enn hlýrra loft sækir að. Þessi breyting verður ekki alveg átakalaus - alla vega ekki til fjalla. Hér sést staða kalda loftsins yfir Íshafinu vel - langkaldast er við Síberíu þar sem við sjáum fjólubláan þykktarlit. Þar um kring er kominn hörkuvetur.
Ritstjórinn hefur verið spurður um hvort blámóðan hvimleiða hafi einhver áhrif á hita. Ekki á hann skýr svör við því - því miður. Trúlegast er samt að móðan skipti oftast litlu máli - en vel má vera að hún hafi einhver staðbundin áhrif þegar og ef hún fær að liggja makindalega dögum saman í annars björtu veðri yfir sléttum hálendisins. Í umræðum um hnattræna brennisteinsmengun er yfirleitt talað um kælandi áhrif slíkrar mengunar - hún eykur endurskin sólarljóssins (endurskinshlutfall). Slík áhrif eru þó auðvitað lítil þar sem sólskin er lítið hvort eð er eins og norðan heimskautsbaugs að vetrarlagi. En spurningin er alla vega umhugsunarverð.
23.10.2014 | 16:22
Frekar svalt til mánaðamóta?
Tíu daga meðalspár gera ráð fyrir frekar svölu veðri út mánuðinn og er líklegt að meðalhiti hans verði ekki fjarri meðallagi áranna 1961 til 1990, en undir meðallagi síðustu tíu ára. Staðan er þannig þegar þetta er skrifað (fimmtudag 23. október) að í Reykjavík er meðalhitinn það sem af er -0,7 stigum undir tíu ára meðaltalinu - á Akureyri er hann enn yfir því (+0,1 stig) en óvíst er að það litla forskot endist til mánaðamóta.
En við lítum á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting, hita í 850 hPa og vik hitans frá meðallagi 1981 til 2010. Spáin gildir fyrir tíu daga, 23. október til 2. nóvember. Talsvert mun þó víkja frá þessu meðaltali einstaka daga tímabilsins.
Á kortinu sést að lægðir verða að meðaltali fyrir sunnan og austan land, og norðan- og norðaustanátt því ríkjandi. Það vekur samt athygli að óvenju hlýtt er við Norðaustur-Grænland en hins vegar er kalt við Grænland sunnan- og vestanvert.
Í háloftunum er staðan reyndar þannig að kuldinn hjá okkur er þar kominn úr vestri, með nokkrum köldum lægðum sem þaðan koma.
En vel að merkja - vikatölurnar (sjá litakvarðann) eru ekki stórar hér við land, tvö til þrjú neikvæð stig.
Þetta ætti að tákna viðvarandi svala - en enga alvörukulda samt. Þetta er þó bara spá sem getur farið út og suður á einum degi.
Sama spáruna gerir ráð fyrir því að úrkoma verði undir meðallagi um landið vestan- og suðvestanvert, en annars yfir meðallaginu.
Vísindi og fræði | Breytt 24.10.2014 kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2014 | 15:08
Norðankast í undirbúningi?
Þegar þetta er skrifað (laugardaginn 18. október) virðist stefna í norðankast á mánudaginn (20. október). [Lesið textaspá Veðurstofunnar]. Lægð dýpkar í námunda við landið og þokast síðan austur.
Við lítum á tvö kort evrópureiknimiðstöðvarinnar. Þau gilda bæði kl.3 á aðfaranótt sunnudags (19. október) - en þá er undirbúningur kastsins í fullum gangi. Fyrra kortið sýnir sjávarmálsþrýsting, vind og úrkomu.
Syðsta lægðin á kortinu hefur undanfarna daga verið á hægri norðurleið. Á norðvesturjaðri hennar er mikil gerjun. Hér má sjá nokkrar óráðnar lægðarmiðjur - þetta er kannski frekar lægðardrag sem liggur til norðvesturs frá meginlægðinni. Því má bæta við að loftvog er fallandi norðan við land á þessum tíma þannig að erfitt er að sjá að norðankast sé yfirvofandi - út frá þessu korti eingöngu.
Sé litið upp í 5 km hæð kemur hins vegar nokkuð óvænt í ljós.
Lægði vestur af Skotlandi er á sínum stað, en mun öflugri lægð við strönd Grænlands. Hún er á ákveðinni leið til austurs og kemur inn á land á aðfaranótt mánudags (um sólarhring síðar en þetta kort gildir).
Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, vindur sýndur með hefðbundnum vindörvum og hiti í fletinum er sýndur í lit. Það sem gerist er að köld vestallægðin gengur inn í hlýtt, rakt loft lægðardragsins og fer að snúa því í kringum sig - hreinsar til og skipuleggur. Þá myndast tækifæri fyrir kalt loft sem lúrir í lægri lögum við Norðaustur-Grænland að falla í miklum vindstreng til suðurs beint yfir Vestfirði og e.t.v. fleiri landshluta á mánudaginn - eða um leið og háloftalægðin er komin hjá.
Hefðbundnar veðurpár minnast nær aldrei á háloftalægðir. Þannig er líka með þessa - hún skiptir samt öllu máli í þróuninni. Og nú vita lesendur af henni.
17.10.2014 | 00:50
Austanáttin
Austanátt hefur ríkt á landinu það sem af er vikunni og gerir það víst áfram. En loftvog fellur því lægðasvæðið mikla suður í hafi er að endurnýja sig og mun í framhaldi af því þokast nær.
Á 500 hPa-norðurhvelskortinu eru jafnhæðarlínur heildregnar. Því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Spáin er gerð af evrópureiknimiðstöðinni og gildir kl. 18 síðdegis á laugardag. Þykktin er sýnd í lit. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Hlýtt loft (gula beltið) er rétt sunnan við landið og fylgir lægðasvæðinu suður undan.
Köld bylgja er á austurleið við Suður-Grænland (rautt x á kortinu) og fer að hafa bein áhrif hér á landi á sunnudagskvöld. Þessi spáruna reiknimiðstöðvarinnar gerir ráð fyrir að hún búi til norðanskot hér á mánudaginn.
Við sjáum fellibylinn Gonzalo sunnan við Nýfundnaland. Hann er svo lítill að hann má sín lítils í grófgerðu umhverfi heimskautarastarinnar - en ef hann hittir vel í gæti hann orðið tillegg í krappa lægð - reiknimiðstöðvar slá úr og í með það.
Heimskautaröstin hringar sig um allt norðurhvelið (fylgið þéttum jafnhæðarlínum hringinn) - en norðan hennar er nokkur flatneskja - aðalkuldapollar vetrarins eru ekki búnir að ná sér á strik - en við getum samt talið sex bláa liti (sá dekksti er á litlu svæði yfir N-Síberíu) og ættum að fara að sjá fjólubláan lit birtast í fyrsta skipti í haust.
16.10.2014 | 01:18
Smávegis um þykktarvindinn (fyrir kortanördin)
Hér má sjá kort sem sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting, þykkt og þykktarvind á fimmtudagskvöld (16. október) kl. 21. Kort sem þetta hefur sést á hungurdiskum áður - en hefur ekki verið haldið neitt að lesendum - enda ekki alveg það auðmeltasta. En upp á síðkastið hefur það verið afskipt og tími til kominn að nota rólega daga til að veifa því.
Jafnþrýstilínur eru heildregnar. Við sjáum mjög víðáttumikla lægð suður í hafi. Þegar kortið gildir er landið á norðurjaðri lægðarinnar - hún nálgast svo meir á föstudag og laugardag. Rauðu strikalínurnar eru jafnþykktarlínur, merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Það er 5340 metra línan sem gengur yfir Vestfirði. Þetta er mjög venjuleg októberþykkt hér við land - þýðir að frostlaust er á láglendi um land allt mestallan sólarhringinn - að öðru jöfnu.
Á kortinu eru líka hefðbundnar vindörvar - þær sýna þó ekki hefðbundinn vind að þessu sinni. Athugulir ættu fljótlega að sjá að þar sem vindurinn er mestur er minnst bil á milli jafnþykktarlínanna. Við vitum að því þéttari sem þrýstilínur eru á venjulegu veðurkorti - því meiri er vindurinn líklega. Því þéttari sem jafnþykktarlínur eru því meiri er þykktarvindurinn.
Þykktarvindur blæs að jafnaði samsíða jafnþykktarlínum með lægri þykkt til vinstri sé baki snúið í vindinn. Þess vegna er vindstefnan úr suðvestri á Grænlandssundi. Þar er kalt loft (lægri þykkt) norðan við - en hlýrra á suðurvængnum (meiri þykkt).
Þá eru það litirnir á kortinu. Blár litur er settur þar sem þykktin hefur fallið síðustu 3 klukkustundir, en gulur eða gulbrúnn þar sem hún hefur stigið. Blái liturinn gefur þannig kuldaskil til kynna - en gulur og gulbrúnn hitaskil. Hér eru skilin nálægt því að vera kyrrstæð - blettur af gulu er inni í bláu svæði.
Styrkur litanna sýnir hversu mikill þykktarvindurinn (þykktarbrattinn) er - en ekki hvort mikið eða lítið hefur kólnað/hlýnað síðustu klukkustundir.
En hvers vegna þetta? Vægjum almennum lesendum við því - þeir áhugasömustu geta lesið smáviðbót í viðhenginu.
Annars bárust fréttir af því í gær (þriðjudag) að fellibylurinn Gonzalo sem þá var norður af Jómfrúreyjum væri orðinn sá öflugasti í Atlantshafi í þrjú ár. Einnar mínútu vindhraði var þá áætlaður 115 hnútar (um 60 m/s) og hviður 140 hnútar (72 m/s). Að tala um öflugasta fellibylinn og miða þá eingöngu við vindhraðahámörk er á mörkum þess viðeigandi - því Gonzalo er ekki mjög stór.
Evrópureiknimiðstöðin heldur honum á hafi úti og sendir síðan til norðausturs í stefnu á Nýfundnaland eða austanvert við það. Ekki er neinu honum tengt spáð hingað - en Bretland gæti verið í skotlínu - ef - og það er mikið ef - hann nær tengingu við heimskautaröstina á réttum tíma.
Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hádegi á föstudag.
15.10.2014 | 01:04
Hlý hæð efra
Kalda loftið hörfar nú heldur - þó meira í háloftunum heldur en niðri við jörð og minnst þar sem það getur legið í hægum vindi inni í sveitum. En annað kvöld (miðvikudag 15. október) verður staðan í 500 hPa-fletinum (rúmlega 5 kílómetra hæð) eins og kortið sýnir - reikni evrópureiknimiðstöðin rétt.
Jafnhæðarlínur eru heildregnar, vindur sýndur með hefðbundnum vinörvum og hiti er í lit, kvarðinn til hægri batnar við stækkun. Við sjáum hæðarsvæði fyrir austan land og sunnan við það liggur hlýr loftstraumur í átt til okkar með hægri sunnanátt. Fyrir norðan land er áttin suðvestlæg, nokkurn veginn samsíða hitabrattanum - þannig að á meðan kalda loftið hörfar yfir okkur situr það sem fastast norður undan og hitabrattinn vex.
Hitabrattinn sést mjög vel á þykktarkortinu sem gildir á sama tíma. Hér megum við tala um þykktarbratta. Þykktin mælir, sem kunnugt er, meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs - hér í dekametrum (1 dam = 10 metrar).
Jafnþykktarlínur eru hér heildregnar og eru býsna þéttar á milli Vestfjarða og Grænlands þar sem kalda loftið streitist á móti hækkandi hita (og þar með þykkt) yfir Íslandi. Á hádegi í dag (þriðjudag) var þykktin yfir landinu miðju 5320 metrar, en á þessu korti er hún komin upp í 5380 metra, hefur hækkað um 60 metra. Það eru um 3°C - talsvert er það á einum og hálfum sólarhring - en hægt miðar. Fram á laugardag á hún svo að hækka upp í 5420 metra - sem ku vera það hæsta í þessari aðsókn (sé rétt reiknað).
Á meðan það hlýnar yfir okkur á hiti við Norðaustur-Grænland lítið að breytast. Hitabrattinn á Grænlandssundi skerpist og þar með vex vindur þar vindur í neðri lögum. Hlýnunin fyrir ofan okkur skilar sér lítt til jarðar meðan vindur er hægur - en þó ætti landshámarkshiti næstu daga að fara upp fyrir 10 stigin aftur en þau hafa nú verið fjarverandi í fjóra daga í röð.
14.10.2014 | 01:31
Falleg lægð
Nú er risastór lægð langt suðvestur í hafi - einmitt upp á sitt besta. Við lítum á gervihnattamynd á miðnætti mánudagskvöldið 13. október.
Þetta er hitamynd fengin af vef Veðurstofunnar. Þrýstingur í lægðarmiðju er um 950 hPa. Við sjáum að nærri miðjunni eru að myndast litlir sveipir - einkenni þess að stóra hringrásin í kringum lægðarmiðjuna er að detta í sundur í nokkrar minni. Hvað verður úr slíku vitum við ekki í smáatriðum. Lægðarmiðjan hreyfist nú hægt til austurs.
Skýjasveipur lægðarinnar er risastór og hvítur liturinn sýnir að hann er mjög hátt í lofti (kaldur), reyndar alveg upp undir veðrahvörfum. Í norðurjaðri sveipsins er vestanátt í veðrahvarfahæð og skýin ber til austurs. En jafnframt því bólgnar sveipurinn út ofantil og munu háskýin ná alveg til Íslands og jafnvel lengra á morgun (þriðjudag). Litið vitum við þó af lægðarhringrásinni í neðri lögum nema hvað austanátt mun smám saman aukast sunnan við land næstu daga - og síðan einnig norðar.
Evrópureiknimiðstöðin gerir ekki ráð fyrir því að alvöruúrkomubakki komist hingað til lands fyrr en á laugardag - en sjálfsagt verða einhverjir minni úrkomugarðar á ferðinni nærri Suðurlandi og einhver úrkoma verður í hafáttinni austanlands.
Seinni myndin sýnir sama kerfið og gildir á sama tíma og myndin.
Kortið sýnir mættishita í veðrahvörfunum, það er hversu hlýtt loft yrði ef það væri dregið niður undir sjávarmál (í 1000 hPa þrýsting). Einingin er Kelvinstig (kvarðinn til hægri batnar við stækkun myndar), 300 K = 27°C. Mættishiti er hár í skýjasveipnum, við sjáum að gulbrúni liturinn fylgir honum nokkurn veginn - en köld tunga að norðan læðist til suðurs og inn í miðja lægðina. Blái (kaldi) bletturinn við Grænlandsströnd sýnir kuldapollinn sem færði okkur frostið - og er nú að hörfa aftur.
En þetta háskreiða loft mun sum sé leggjast yfir okkur næstu daga - án þess að við verðum mikið vör við - og smám saman hlýnar aftur.
13.10.2014 | 01:08
Austan- og norðaustanáttir vikuna út?
Nú er gríðarmikil lægð að dýpka langt suðvestur í hafi. Það svo langt í burtu að hún hefur ekki bein áhrif hér á landi, en samt leggur hún línurnar fyrir vikuna. Spár gera síðan ráð fyrir því að kerfið muni smám saman mjakast nær.
Meðalspá evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir næstu tíu daga sýnir stöðuna vel.
Þrýstingur er langt, langt undir meðallagi í lægðarsvæðinu mikla - en hærri en að meðaltali yfir Grænlandi og suður til Íslands. Þótt þetta sé meðalkort - og alls konar afbrigði geti komið upp einstaka daga má samt gera ráð fyrir átakalítilli austanátt með bjartviðri lengst af um landið vestanvert en skýjuðu og úrkomutætingi eystra.
En hér er ekki alveg allt sem sýnist því austanáttin yfir okkur er grunn - uppi í 4 til 5 kílómetra hæð er vindur hægur - hæðarhryggur situr þar í miðri vikunni með vestanátt fyrir norðan land og á háloftaaustanáttin ekki að komast hingað fyrr en á föstudag eða svo - hafi reiknimiðstöðin á réttu að standa.
En þetta verður að teljast sæmileg staða - öfgalaus með öllu. [Lesið samt textaspár Veðurstofunnar að minnsta kosti daglega].
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 12
- Sl. sólarhring: 157
- Sl. viku: 1933
- Frá upphafi: 2412597
Annað
- Innlit í dag: 12
- Innlit sl. viku: 1686
- Gestir í dag: 11
- IP-tölur í dag: 11
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010