Bloggfærslur mánaðarins, október 2014
12.10.2014 | 00:45
Smálægðir hringa kuldapollinn
Þótt kuldapollurinn sem kom að landinu í gær og hefur völdin í dag sé hvorki stór né sérlega sterkur endaði hann samt tíu stiga landshámarkssyrpu sumarsins 2014 (sjá færslu 1. október). Landshámarkshitinn náði ekki tíu stigum á sjálfvirku stöðvunum í dag, laugardaginn 11. október. Þar með varð syrpan 163 dagar að lengd. Það er 9 dögum yfir meðallengd síðustu tíu ára, en 8 dögum styttra en metárið 2010.
Nú hitar sjórinn kalda norðanloftið baki brotnu og mun smám saman eyða kuldapollinum.
Á kortinu (það gildir um hádegi sunnudaginn 12. október) eru jafnþykktarlínur heildregnar en hiti í 850 hPa er sýndur í lit. Í miðjum kuldapollinum er þykktin innan við 5200 metrar. Það dugar nær alltaf í snjókomu - sé úrkoma að falla. Nokkrar smálægðir (merktar með L-um) hafa myndast á jöðrum kuldans og þar er úrkoman.
Ein þeirra er hér rétt suður af landinu, önnur norðan við land og þriðja og fjórða lægðin austur í Noregshafi.
Þær sjást betur á kortinu hér að neðan. Það er líka úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir um hádegi á sunnudag 12. október.
Jafnþýstilínur eru heildregnar, strikalínur marka hita í 850 hPa og litir sýna úrkomu síðastliðnar þrjár klukkustundir. Myndarlegur úrkomubakki fylgir lægðinni sunnan við land. Blái flöturinn segir að fallið hafi 5 til 10 mm úrkoma frá því kl. 9 um morguninn - það er á mörkum hins trúlega - en hvað getum við annað en að trúa? Úrkoman sú er örugglega rigning yfir sjónum, en yfir landi stendur það glöggt. Lægðin - og úrkomusvæðið hreyfast til austurs og norðausturs.
Lægðin fyrir norðan land er hins vegar á vesturleið. Reiknimiðstöðin segir allmikla úrkomu fylgja henni - en ekki víst að hún nái í neinu teljandi magni inn á land.
Stærri lægðin fyrir austan land fer ekki neitt - eða jafnvel til austurs - en sú minni er að myndast á þessu korti og mun fara til vesturs fyrir norðan land - kemur lítt við sögu.
Þetta telst nú varla merkilegt veðurlag - algengt er að hann snjói syðst á landinu þegar kemur fram í miðjan október og ekki er vindur teljandi að þessu sinni. En það er alltaf einhver stíll yfir kuldapollum sem koma til okkar úr beint úr norðri óskaddaðir af sjávaryl - alveg sama hvort þeir eru meinlausir eða ekki.
Hér áður fyrr var lítið hægt um meinleysið að vita fyrirfram - fyrirboðar eru svo litlir og flókið að ráða í ský sem boða komu pollanna. Mikil og erfið krossgáta.
11.10.2014 | 01:01
Af sjávarhitavikum og hafísútbreiðslu þessa dagana
Sumir kunna að muna að sjór var óvenjuhlýr við landið í sumar - sérstaklega norðan við land. Við lítum nú á ástandið í dag - samkvæmt greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar. Einnig lítum við langt norðaustur í Norðuríshaf.
Litirnir sýna sjávarhitavik - eftir kvarðanum til hægri. Hiti virðist vera nærri meðallagi - eða lítillega undir því við suður- og suðausturströndina. Aftur á móti er enn afbrigðilega hlýtt undan Vestur- og Norðurlandi. Mesta vikið, um 4 stig, (sést betur sé kortið stækkað) er undan Hornströndum. Einnig vekur athygli að hiti er yfir meðallagi í öllu Noregshafi og einnig í Íslandshafi (norðan Íslands) austanverðu.
Hiti í kalda sjónum í Austur-Grænlandsstraumnum er nærri meðallagi og jafnvel lítillega undir því. Þar má einnig sjá breiða fjólubláa línu og segir hún til um meðalútbreiðslu hafíssins á þessum tíma árs. Þéttleiki hans er merktur í grænbláum lit. Norðan við 78. breiddarstig er útbreiðslan í meðallagi, en undir því sunnar.
Hlýtt er vestan Svalbarða og austur í Barentshaf - en kalt austan við. Á dökkbláa svæðinu er sjávarhitavikið -3,0 stig, en þar er sjór þó enn auður. Hér nær grænblár litur suður fyrir fjólubláu meðallínuna - þarna er ísútbreiðsla lítillega yfir meðallagi árstímans. Einstaklega íslítið hefur verið í Barentshafi undanfarin ár. Spurning er hvort svo verður einnig í vetur - eða hvort ísinn nær einhverri útbreiðslu.
Hér er norðurskaut neðan til, til vinstri við miðju myndarinnar. Nyrsti hluti Grænlands og Ellesmereyju sést neðst til vinstri. Norðurströnd Síberíu er hægra megin og rétt sést í Alaska efst til vinstri. Á fjólubláu línunum má sjá að gríðarstórt svæði, sem ís hylur yfirleitt á þessum árstíma, er nú íslaust. Grænbláu svæði sýna ísþekjuna nú - nær þó (auðvitað) ekki 100 prósentum (ljósasti liturinn) á öllu litaða svæðinu.
Útbreiðsluvik íssins er einmitt núna það mesta á árinu - ólíklegt að það endist. Á næstu vikum mun allt þetta auða svæði leggja - undrahratt - eins og alltaf. Síðan hefst hin langvinna stöðubarátta á jaðarsvæðunum sem að lokum ræður útbreiðsluhámarkinu seint í vetur.
Undanfarin áratug hefur ís verið sérlega lítill að sumar og haustlagi. Síðvetrarhámarkið hefur líka látið á sjá - en það er að minnsta kosti eitt útbreiðsluafbrigði sem við eigum eftir að sjá. Það er metútbreiðsla á jaðarsvæðum - en bráðnun að hætti síðustu ára í Norðuríshafinu sjálfu. Mikill vor- og sumarís við Ísland og í Barentshafi á sama tíma og þriðjungur Norðuríshafsins eða meira er auður. Forvitnilegt ekki satt?
10.10.2014 | 01:37
Lítilsháttar skammtur af vetri
Eftir skammvinna hitabylgju lítur nú út fyrir kuldakast - vonandi stendur það ekki nema skamma hríð. Alla vega er það allt lítið um sig þótt það komi nánast beint frá norðurskauti.
Kuldapollurinn litli sem færir okkur kuldann er af barmafullu gerðinni. Það skýrist vonandi hér að neðan við hvað er átt með því orðalagi.
Kort evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir hæð 500 hPa-flatarins, vind í honum og hita á laugardagskvöld 11. október. Við sjáum að hiti og hæð fylgjast að í stórum dráttum og eru sammiðja - kaldast er í miðju lægðarinnar. Vindur er hvass - meiri en 25 m/s af vestnorðvestri í suðvesturhluta kerfisins. Lægðin kemur um það bil beint úr norðri - er hér enn á suðurleið en á - að sögn reiknimiðstöðva - ekki að fara mikið lengra en þetta. Þetta er í rúmlega 5 kílómetra hæð, innsti hringurinn næst lægðarmiðjunni er 5340 metra jafnhæðarlínan.
En þessarar kröftugu hringrásar sér vart stað við jörð - og ekki einu sinni í 850 hPa-fletinum en hann er í um 1400 metra hæð. Þetta þýðir að hringrásin er barmafull af köldu lofti - þykktin minnkar jafnmikið inn að lægðarmiðjunni eins og flatarhæðin.
Þetta kort sýnir hæð 850 hPa-flatarins, vind í honum og hita - á sama tíma og fyrra kortið. Við sjáum háloftahringrásina alls ekki - en kuldinn sést samt skýrt og greinilega og er mestur þar sem háloftalægðarmiðjan er yfir, -14,4 stig.
Engin hefðbundin kuldaskil fylgja þessu kerfi - þrátt fyrir að nokkuð snögglega kólni. Aftur á móti ýtir kuldapollurinn undir smálægðarmyndun við landið. Evrópureiknimiðstöðin segir að ein slík muni myndast undan Suðurlandi á laugardaginn - hún á að ná upp í 850 hPa og sést því á kortinu. Við tökum eftir því að austan við lægðarmiðjuna er vindur af suðaustri - hægur að vísu. En uppi (fyrra kortið) er vindur eindreginn af vestnorðvestri.
Þessi staða er líkleg til úrkomuframleiðslu í tengslum við litlu lægðina - að auki er hlýr sjór undir. Þegar þetta er skrifað (seint á fimmtudagskvöldi) er úrkomuspáin ekki komin á hreint. Sem stendur á úrkoman að byrja sem rigning á láglendi syðst á landinu - en eins og venjulega mun hún breytast í snjókomu verði ákefðin nægileg. Líklega fær landið lítilsháttar skammt af vetri í heimsókn.
Það eru fleiri atriði sem mætti minnast á í sambandi við þennan kuldapoll - hugsanlega verður framhald á þessum pistli á morgun eða síðar.
9.10.2014 | 01:52
Vindsnúningur (í háloftunum)
Vindur er nú (seint miðvikudagskvöldið 8. október) af norðaustri allt upp fyrir 12 kílómetra hæð yfir landinu.
En þetta ástand varir ekki lengi - strax á föstudag kunna breytingar að vera í aðsigi.
Hér má sjá spá hirlam-líkansins um vinda í 300 hPa og hæð flatarins um hádegi á föstudag. Jafnhæðarlínur eru heildregnar og eru merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Flöturinn er ekki fjarri 9 kílómetra hæð. Hefðbundnar vindörvar sýna vindátt og styrk, en litafletir sýna hvar vindurinn er mestur og eru mestu vindstrengirnir fjarri okkur að þessu sinni (kvarðinn batnar við stækkun).
En - við Norður-Grænland er lægðardrag sem reiknimiðstöðvar segja okkur að fylgjast með (bláa örin bendir á það). Þar mun (séu spár réttar) snarast út lítill kuldapollur sem á síðan að fara beint suður til Íslands um helgina. Þykktar- og hitaspár segja okkur að það muni kólna um 10 til 13 stig. Það býður upp á frost mjög víða - kannski að við fáum að sjá fyrstu tveggja tölustafa frosttölur haustsins á landinu. Um úrkomuna segir fátt áreiðanlegt enn sem komið er.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 02:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2014 | 01:46
Hlýir dagar
Mjög hlýtt loft var yfir landinu í dag (þriðjudag 7. október) - þó var ekki um nein marktæk landsmet að ræða. Hiti mældist hæstur 17,4 stig á Bláfeldi í Staðarsveit og þar var hiti +8.9 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Fleiri fréttir af hitanum má sjá á fjasbókarsíðu hungurdiska.
En við lítum á mættishitakort dagsins - þetta er greining evrópureiknimiðstöðvarinnar á hádegi.
Litafletir sýna mættishita í 850 hPa. Mættishitinn sýnir hversu hlýtt loft sem er í 850 hPa yrði - væri það dregið niður í 1000 hPa (nærri sjávarmáli). Sumir vilja kalla mættishitann varmastig, nú eða þá þrýstileiðréttan hita. En eftir að maður er búinn að segja orðið mættishiti 30 sinnum fellur það nákvæmlega að merkingunni - og ekkert rugl með það. Mættishitahámarkið er 19,3 stig yfir Vestfjörðum - hitamælar sýndu ekki alveg þá tölu - en fóru langleiðina - upp í 15 til 16 stig - og 17 á Bláfeldi. Algengast er að svona hár mættishiti komi með suðlægum áttum í október, en hér er áttin austlæg. Nokkur öldugangur er yfir landinu og vestan Vatnajökuls þóttist líkanið sjá rúmlega 20 stiga mættishita af og til.
Hlýtt? Já, tvímælalaust, en rétt spurning hversu mikið á að hnykkja á því. Óvenjuhlýtt? Já, kannski - ef við treystum okkur til að gengisfella óvenju- um brot úr vísitölustigi. Við erum alltaf að því hvort eð er - er það ekki? Jú, segjum óvenjuhlýtt - hikstum ekkert á því.
Heldur kólnar næstu daga - að sögn spámanna og reiknimiðstöðva.
7.10.2014 | 01:39
Nokkrir dagar með rólegu veðri?
Þegar þetta er skrifað (seint á mánudagskvöldi 6. október) er hvöss austanátt ríkjandi á landinu. Að sögn fer hún nú að ganga niður og hallar sér um leið til norðausturs. Mjög hlýtt var á landinu í dag (sjá fjasbókarfærslu hungurdiska) - og lítið kólnar til morguns - en með norðaustanáttinni fer síðan smám saman kólnandi út vikuna.
Lægðin sem sér um hvassviðrið hörfar nú til suðurs eins og sjá má á kortinu hér að neðan. Það gildir um hádegi miðvikudaginn 8. október.
Jafnþrýstilínur eru heildregnar, jafnhitalínur í 850 hPa eru strikaðar - mislitar eftir því hvort frost er eða ekki. Úrkoma síðustu 6 klukkustundir er sýnd með grænum og bláum lituðum flötum.
Lægðin er stór og úrkomusvæði hennar eru komin langt frá landinu. Lítilsháttar úrkomu er þó spáð í hafáttinni á Norðaustur- og Austurlandi. Engin önnur kerfi eru í augsýn á leið til landsins. Þess vegna er gert ráð fyrir nokkrum dögum með rólegu veðri.
Hlýtt loft er enn yfir landinu á kortinu (hiti í kringum eða ofan við frostmark í 1400 metra hæð) - ekki alveg jafn hlýtt og í dag og á morgun (þriðjudag) en væntanlega kólnar í bjartviðri inn til landsins - sérstaklega þegar vindur verður enn hægur. Langt er í mjög kalt loft með vetrarveðri - en sjaldgæft er þó að norðaustanátt standi í marga daga án þess bera um síðir kaldara loft til landsins.
6.10.2014 | 01:39
Áhugalítill október
Október er sá mánuður ársins sem minnstan áhuga hefur sýnt á hlýnun síðustu 15 til 20 ára. Hiti það sem af er öldinni er að vísu hærri heldur en að meðaltali 1961 til 1990 - en mun minna en sést aðra mánuði ársins. Það er helst að maí sé bróðir hans í áhugaleysinu.
Við skulum til gamans líta á mynd sem sýnir meðalhita í október í Reykjavík frá ári til árs auk 10 og 30-ára keðjumeðaltala.
Jú, heildarleitni er til staðar - en öfugt við aðra mánuði ársins er sá kaldasti á hægri hlið línuritsins en sá hlýjasti vinstra megin miðju. Hlýindin miklu á miðri 20. öld byrjuðu yfirleitt á árunum 1921 til 1927, en í október byrjuðu þau ekki fyrr en undir 1940. - Jafnhlýjasta tímabilið var í kringum 1960.
Menn klóra sér nokkuð í höfðinu út af þessu sérsinni mánaðarins (og ættu að gera það) - en það er alveg staðreynd samt.
5.10.2014 | 01:47
Litið á háloftaspána (smáfroða)
Eins og fjallað var um í pistli gærdagsins er nú útlit fyrir að háloftalægðardragið sem hefur verið að færa okkur hráslagann undanfarna daga mjaki sér suður fyrir land og að vindur snúist þar með til eindreginnar austanáttar. Við lítum á stöðuna eins og evrópureiknimiðstöðin gerir ráð fyrir að hún verði á mánudaginn, 6. október.
Kortið ætti að vera kunnugt föstum lesendum hungurdiska. Heildregnar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins, því þéttari sem þær eru því stríðari er vindur sem blæs samsíða þeim. Litafletir sýna þykktina. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Kvarðinn er ekki með á þessari úrklippu - en skipt er um lit á 60 metra bili. Mörkin milli grænu og gulu litanna er við 5460 metra þykkt - þar má lauslega setja mörk á milli sumar- og haustástands.
Eins og við er að búast ná gulu litirnir ekki til okkar á kortinu - en þó telur reiknimiðstöðin að við fáum svo hlýtt loft til landsins úr austri og suðaustri á þriðjudaginn - en það stendur ekki lengi við - en samt. Austanáttin er mjög öflug við landið á kortinu en síðan dregur úr og vindur snýst meira til norðausturs. Eftir miðja viku á háloftahryggur að vera yfir landinu - og spurning er hvort kaldara loft aftur nær til okkar um næstu.
Rétt eins og oft í sumar er mjög hlýtt loft yfir Skandinavíu austanverðri - þar situr enn fyrirstöðuhæð (hefur að vísu ekki setið þar allan tímann).
Bláu litirnir byrja við 5280 metra, 180 metrum neðan við sumarhitann - þetta bil jafngildir um það bil 9 stiga hitamun. Spáruna dagsins hjá evrópureiknimiðstöðinni gerir ráð fyrir því að blár litur leggist aftur að landinu um næstu helgi - en allt of snemmt er að velta vöngum yfir því.
4.10.2014 | 23:59
Breytileiki hita frá ári til árs 2
Þá er reiknað hvernig hiti í Reykjavík breytist með ríkjandi vindi í háloftunum. Í ljós kemur að því stríðari sem vestanáttin er því kaldara er í veðri, því meiri sem sunnanáttin er - því hlýrra er í veðri og því hærri sem 500 hPa-flöturinn er því hlýrra er í veðri. Við eigum til mælingar á þessum þremur þáttum aftur til 1949. Fyrsta myndin sýnir niðurstöður.
Lóðrétti ásinn sýnir raunverulegan meðalhita, en sá lárétti reiknaðan. Árin eru merkt með krossi og ártali. Við sjáum strax að 1979 er langkaldast - en reiknaður hiti þess er samt litlu lægri heldur en 1983. Árið 2003 er hlýjast en bæði 1960 og 2002 reiknast hlýrri.
Ef við rýnum í myndina má sjá að kuldaskeiðið á árunum frá 1965 til 1995 er kaldara heldur en hringrásarreikningarnir segja til um, árin eftir aldamót eru hlýrri heldur en reikningarnir segja.
Þetta sést vel á næstu mynd.
Hér sýnir blár ferill mældan hita, en sá rauði þann reiknaða. Hér má greinilega sjá að ferlarnir fylgjast allvel að frá ári til árs - en flest köldu árin eru þó neðan við reiknaða hitann og þau hlýju ofan við - en samt þannig að munurinn er greinilega meiri á þessari öld heldur en á hlýskeiðinu fyrir 1965.
Við skulum kalla muninn á reiknuðum og réttum hita óútskýrðan afgang og búum til tímaröð hans frá 1949 til 2013.
Við sjáum að hringrásin í næsta nágrenni landsins skýrir um það bil helming breytileikans. Leifin breytist hins vegar furðureglulega eftir tímabilum - áratugasveiflur hitans sitja eftir óskýrðar.
Allir þessir reikningar eru gerðir til skemmtunar - munið það lesendur góðir.
4.10.2014 | 00:49
Skiptir um tímabundið?
Mestallan september hefur hann legið í suðlægum áttum, en austlægar og vestlægar hafa skipst nokkuð á. Nú ber svo við evrópureiknimiðstöðin gerir ráð fyrir að austan- og jafnvel norðaustanáttir verði ofan á (að meðaltali) næstu tíu daga.
Lítum fyrst á meðalþrýstikort septembermánaðar.
Heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting - en litirnir vik frá meðallagi áranna 1981 til 2010. Sjá má að þrýstingur hefur verið fyrir neðan meðallag (bláir litir) fyrir vestan og norðvestan land en yfir því suðausturundan (bleikir litir). Við vitum hvað þetta var, rigningatíð á landinu sunnan- og vestanverðu - en öllu þurrara norðaustanlands.
Spákort næstu tíu daga sýnir mikla breytingu - en spáin hefur að sjálfsögðu ekki ræst ennþá.
Hér er komið lágþrýstisvæði fyrir sunnan land - með mestu neikvæðu viki vestur af Bretlandseyjum en jákvæðu yfir Grænlandi. Ef það væri júlímánuður - þýddi þetta áframhaldandi rigningu - mikil lægðabeygja er á þrýstisviðinu yfir landinu og í nágrenni þess. En af því að nú er komið haust er loftið ekki eins óstöðugt eftir að hafa farið yfir landið eins og að sumarlagi. Við gætum því séð nokkra þurra daga á tímabilinu á Suðvesturlandi (ekki þó alla). Aftur á móti gæti rignt mikið eystra.
Reiknimiðstöðvar - bæði sú evrópska og sú bandaríska telja að vindur snúist meira til norðausturs á síðari hluta tímabilsins. Það er þó óvissu undirorpið.
En ef af þessum áttaskiptum verður kemur hingað dágóður skammtur af hlýju lofti upp úr helgi. Varla nægilega hlýr til þess að hægt verði að tala um sumarauka - því vindur á að verða býsna hvass og ekki verður alveg þurrt vestanlands með hlýindunum - eystra rignir í hafáttinni.
En óskhyggjan má leika lausum hala - kannski fáum við að sjá góðar tveggja stafa hitatölur. Nú - ef hann hallast síðan í norðaustur kólnar auðvitað aftur - en nokkra daga tekur að ná í alvörukulda. Ekki víst að það takist í þessum áfanga.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 13
- Sl. sólarhring: 156
- Sl. viku: 1934
- Frá upphafi: 2412598
Annað
- Innlit í dag: 13
- Innlit sl. viku: 1687
- Gestir í dag: 12
- IP-tölur í dag: 12
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010