Þykkt og þykktarvindur (thermal wind) [60 klst, á 3 stunda fresti] Þykktin (500/1000 hPa) er sýnd með rauðum strikalínum með 6 dam millibili. Þykktarvindurinn (vigurvindur í 500 hPa- vigurvindur í 1000 hPa) er sýndur með hefðbundum vindörvum. Lituð svæði sýna þykktarvindhraða. Gráar heildregnar línur sýna þrýsting við sjávarmál. Þar sem liturinn er blár hefur kólnað (þykkt fallið) síðustu 3 klukkustundir en þar sem hann er gulur eða rauðleitur hefur hiti hækkað (þykkt aukist) á sama tíma. Þykktarvindurinn sýnir þykktarbratta sérlega vel. Líta má svo á að mikill bratti þrýstisviðs við jörð (og þar með mikill vindur) sér afleiðing af misgengi hæðar veðrahvarfanna og þykktarinnar. Sé vindur mikill en veðrahvörfin flöt er mikill þykktarbratti (=hitabratti) í neðri hluta veðrahvolfs. Sé bratti veðrahvarfanna mikill en þykktin flöt er vindur mikill við jörð. Venja er að tengja illviðri fremur við lægðir en hæðir, þótt oft stafi þau af samspili þessara veðurkerfa. Illviðraflokkun getur verið með ýmsu sniði, en þau verða öll til við misgengi þykktar- og hæðarflata yfir þeim stað þar sem ofviðrið geisar. Algengast er að stefnur mesta bratta þykktar og 500 hPa hæðar (eða bratta veðrahvarfanna) myndi horn sín á milli. Sé þykktarbrattinn (þykktarvindurinn) minni en 500 hPa brattinn (vindurinn) verður til vindur við jörð nokkuð samstefna 500 hPa vindinum og því líkari honum að styrk sem þykktarbrattinn er minni. Sé þykktarbrattinn hins vegar meiri en 500 hPa brattinn fer vindur við jörð að blása andstefnis við efri vindinn (öfugsniði). Mestar líkur eru auðvitað á því þegar vindur í 500 hPa er lítill. Fyrir kemur að hornið milli þykktar- og hæðarbratta verður stærra en 90°. Þannig er ástatt í fellibyljum að brattarnir hafa andstæða stefnu (180°). Þetta má einnig sjá nærri miðjum margra lægða á norðurslóðum – einkum þeirra sem eru hvað krappastar. Þá verður vindur neðst sérlega mikill (lægðabroddur) – þykktarvindurinn hefur bæst við háloftavindinn.