Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013
14.6.2013 | 00:18
Slefar í meðaltalið - en langt í eitthvað betra
Loftið sem nú er yfir landinu rétt slefar í meðalhita júnímánaðar í neðri hluta veðrahvolfs. Þó ekki sé rétt að kvarta mikið yfir þessu langar flesta í eitthvað hlýrra - en það er vart í sjónmáli. Lítum á norðurhvelsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á laugardag.
Jafnhæðarlínur eru heildregnar að vanda, merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar) og þykktin er sýnd með litaflötum. Því hærri sem hún er því hlýrra er loft í neðri hluta veðrahvolfs. Ísland er rétt neðan við miðja mynd og má sjá lítinn gulan blett við Vesturland. Í blettinum er þykktin meiri en 5460 metrar. Meðalþykkt í júní er 5420 metrar þannig að kortið sýnir hita yfir meðallagi fyrir vestan landið en nærri honum austar.
Kuldapollurinn mikli yfir Norðuríshafi er enn býsna ískyggilegur þótt hann hafi aðeins mildast síðan við sáum hann síðast hér á hungurdiskum fyrir sex dögum. Hæðarhryggurinn sem þá var yfir okkur hefur veikst og kalda lægðin sem var fyrir sunnan land er nú komin austur til Bretlands. Við erum nærri því að vera inni í hringrásinni utan um kuldapollinn stóra - óþægilega nærri.
En séu framtíðarspár réttar mun lega okkar í hringrásinni lítið breytast næstu vikuna. Stóri kuldapollurinn á að stökkva í átt til Kanada eftir helgina og Labradorpollurinn á að fara til austurs fyrir sunnan land. Ef svona fer breytist hitafar lítið hjá okkur. Ekki má þó gleyma mætti sólarinnar á daginn þar sem hún nær að skína - en í þetta svölu lofti er alltaf mjög stutt í síðdegisskúrirnar.
Ameríska spáin er þegar þetta er skrifað (seint á fimmtudagskvöldi) enn svartsýnni, sendir Labradorpollinn nánast yfir okkur með hryssingi að vestan - og veðurblíða þá víðs fjarri.
Hvenær síðan tekst að ná í hlýrra loft að sunnan eða niðurstreymi að ofan er ekki vitað - en staðan á kortinu er ekki sérlega vænleg. Okkar megin á því nær græni liturinn alveg suður á 50. breiddargráðu, en handan norðurskauts ekki nema suður að þeirri sjötugustu - að slepptum kröppum kuldapolli við Aljúteyjar. Heildarfyrirferð grænu og bláu litanna og þar með svala loftsins minnkar mjög hægt (en gerir það samt í nærri tvo mánuði til viðbótar). Allt sem stuggar við því á einum stað verður til þess að það breiðir úr sér annars staðar.
13.6.2013 | 00:07
Á skerplu
Er nú komið að öðrum íslenska sumarmánuðinum, skerplu, harpa er fyrst í röðinni. Skerpla byrjaði í ár 25. maí og stendur í 30 daga, til og með 23. júní. Daginn eftir byrjar sólmánuður, en með þeim mánuði má segja að hið stutta íslenska sumar sé hafið fyrir alvöru. Auk sólmánaðar tekur það líka til næsta mánaðar þar á eftir, heyanna.
Við víkum að morgunhitanum í Stykkishólmi á skerplu allt frá 1846. Þessi pistill er því sá fjórði í röð þeirra sem fjalla um hitasögu íslensku mánaðanna frá miðri 19. öld til okkar daga.
Lóðrétti ásinn sýnir hita, sá lárétti árin. Súlurnar sýna þá meðalhita skerplu einstök ár tímabilsins. Hlýir mánuðir tímabilsins 1925 til 1941 skera sig nokkuð úr ásamt hlýindum á þessari öld. Langhlýjust var skerpla árið 1932 og síðan kemur 1871 og þar á eftir 1933, 2008 og 2010.
Skerpla sýnir tímabilaskiptingu sem er frábrugðin þeirri sem algengust er og heildarleitni tímabilsins er ekki nema 0,3 stig á 100 árum. Hlýindaskeið 20. aldar stóð mjög stutt, byrjar varla í alvöru fyrr en 1928 og lýkur með skerplu 1941 60 ára kuldaskeið. Síðan er algjör skortur á hlýjum mánuðum þar til nýja hlýskeiðið tekur við 2002. Skerpla fer vel á stað í ár (2013 - ekki sýnt á myndinni), er nálægt meðallagi áranna 2003 til 2012. Taka má eftir því að kalt var 2011 (fyrir tveimur árum).
Langköldust var skerpla 1860 en næstkaldast var 1882, 1949 er í þriðja sæti.
Hlýjasta skerpla í Reykjavík á árabilinu 1949 til 2012 var 2002 og næsthlýjust var hún 2010. Af tíu hlýjustu skerplunum í Reykjavík er sex að finna á nýju öldinni. Enginn skortur á hlýindum þar.
Í Reykjavík var skerpla 1979 jafnköld systur sinni 1973 og eru þær kaldastar frá og með 1949 að telja, 1949 er í þriðja sæti.
En skerpla er oft sólríkur mánuður - enda er sólargangur langur. Í tilefni af því lítum við á mynd sem sýnir sólskinsstundafjölda mánaðarins í Reykjavík 1924 til 2012.
Lóðrétti ásinn sýnir sólskinsstundafjöldann en sá lárétti vísar í árin. Við sjáum oft var sólríkt fram til 1954 en eftir það leið lengri tími á milli sólskinsmánaðanna þar til nú nýlega. Allar skerplur frá 2004 eru yfir meðallagi tímabilsins alls, 2003 lítillega undir og er varla hægt að segja að sólarlítil skerpla hafi komið síðan 1999. Þá voru sólskinsstundir mánaðarins alls aðeins 136. Lökust var skerpla 1933 með 83 sólskinsstundir, en flestar voru stundirnar 1924 331,5 og nærri því eins margar 1952.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2013 | 01:28
Af íslenska monsúntímanum
Loftþrýstingur á Íslandi er að jafnaði hæstur í maí (þótt hæstu einstök gildi ársins leiti ekki í þann mánuð). Sömuleiðis eru sólskinsstundir þá einnig flestar að meðaltali og úrkoma minnst. Á árunum 1961 til 1990 hagaði þannig til að loftþrýstingur féll að meðaltali snögglega upp úr 10. júní, þá dró ský fyrir sólu á sunnaverðu landinu og bætti í úrkomu. Þetta kemur sérlega skýrt fram á myndum sem sýna þrýsting og sólskinsstundafjölda.
Við lítum nú á þær myndir.
Lóðrétti ásinn sýnir þrýsting í hPa en sá lóðrétti er merktur með dagi ársins. Þarna sést vel að þrýstingur var að meðaltali hæstur 27. maí og nærri því eins hár 9. júní. Myndin sýnir snöggt fall erfir það og áberandi dæld kemur í línuritið. Lítum líka á sólskinsstundafjöldann.
Hámarkið í maí er áberandi og sömuleiðis dældin mikla - sem nær lágmarki 17. júní. Dældin er ámóta áberandi hér og í þrýstiritinu. Þetta fyrirbrigði hefur (bæði til gamans og í alvöru) verið kallað íslenski monsúninn. Alla vega kom það mjög heim og saman við veðurtilfinningar þessara ára. Fáeinir kaldir sólardagar komu í maí og byrjun júní, en síðan dró ský fyrir sólu og fór að rigna. Oftast urðu sólskinsdagar sumarsins fáséðir eftir það - eða svo segir minningin.
En hvernig skyldi þetta hafa verið síðustu 20-árin?
11.6.2013 | 00:34
Hlýr dagur
Mánudagurinn (10.júní) var hlýr á landinu, hlýjasti dagur ársins á um 40 prósentum allra veðurstöðva á landinu þar á meðal Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði þar sem hitinn komst í 22,8 stig á sjálfvirku stöðinni [21,5 á þeirri mönnuðu]. Það er hæsti hiti sem mælst hefur á landinu það sem af er ári.
Í Reykjavík mældist einnig hæsti hiti ársins til þessa, 17,7 stig á sjálfvirku stöðina við Veðurstofuna. Á Reykjavíkurflugvelli fór hitinn í 18,2 stig, 18,1 á Geldinganesi og einnig 18,1 á Skrauthólum.
Í viðhenginu er listi um hæsta hita það sem af er ári á öllum sjálfvirkum stöðvum, raðað er frá hæsta hámarkshita til þess lægsta. Hiti hefur enn ekki farið upp fyrir 7,8 stig á Þverfjalli - vestra, komst hæst í þá tölu í gær, sunnudaginn 9. Listann geta áhugasamir límt inn í töflureikni og raðað honum þar að lyst.
Sé farið í saumana á listanum kemur í ljós að á honum eru nokkrar eftirlegukindur. Einkennilegust þeirra er talan frá Dalatanga, 15,7 stig. Svo hátt fór hitinn þar 1. mars en ekki hærra síðan. Engin stöð liggur eftir með hæsta hita ársins í apríl, en níu stöðvar eiga enn eftir að gera betur heldur en hámark maímánaðar.
Þar má t.d. sjá Grindavík, Bláfjöll, Stórhöfða, Surtsey og Skarðsfjöruvita - suðurströndin á greinilega eftir að bæta sig. Talan á Skálafelli frá 8. maí er einkennilega há en hefur ekki enn verið afskrifuð. Sama má segja um töluna af Seljalandsdal frá 9. maí - hún er mjög grunsamleg.
Ekki er gert ráð fyrir því að næstu dagar verði jafngæfir á hita og dagurinn í dag. Vel má þó vera að sumar veðurstöðvar geri samt enn betur í vikunni en þær hafa gert hingað til. Þykktin á alla vega að haldast yfir 5400 metrum út vikuna. Það gæti verið betra - en þar sem meðalþykkt í júní [1981 til 2011] er aðeins 5420 metrar megum við sæmilega við una.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
10.6.2013 | 00:47
Mánudagur 10. júní - hlý tunga yfir landinu
Mánudaginn 10. júní er tunga af hlýju lofti yfir landinu og nýtur hennar helst á vestan- og norðanverðu landinu en e.t.v. víðar. Þetta sést vel á spákorti evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð, vind og hita í 925 hPa-fletinum sem gildir kl. 18.
Jafnhæðarlínur eru heildregnar, vindstyrk og vindátt má sjá af hefðbundnum vindörvum og hiti er sýndur með litaflötum. Kvarðinn skánar að mun sé myndin stækkuð. Ör bendir á þann stað sem líkanið velur sem hlýjastan. Þar er spáð 14,5 stiga hita. Flöturinn er í um og yfir 700 metra hæð yfir landinu. Ef 14,5 stigin bærust beint til jarðar myndi loftið hlýna um 7 stig og fara í 21,5.
Það má hins vegar ekki taka smáatriði svona korts allt of bókstaflega. Áttin er af suðaustri, mjög hvöss undan Suðvesturlandi. Hiti er áberandi lægri í uppstreymi áveðurs á landinu en hlémegin er trúlega bæði niðurstreymi og blöndun í gangi. Loftið næst fyrir ofan er þó ekki hlýrra - mættishita í 850 hPa er spáð um 21,5 stig yfir vestanverðu norðurlandi og þykktinni um 5500 metrum. Það bendir til svipaðs hámarks.
Skíni sól í heiði gæti hitinn komist hærra, njóti hennar ekki eru líkur á lægri hita. Falli úrkoma kælir uppgufun hennar loftið og hiti fer ekki eins hátt. Það skiptir líka máli hvort sjávarloft komi við sögu, það á alltaf greiða leið í fleyg undir loft sem er hlýrra.
9.6.2013 | 01:25
Sumarkort úr heiðhvolfinu
Mánuður er nú síðan við litum á ástandið í heiðhvolfinu og hollt að líta á það aftur - jafnvel þótt nærri því enginn hafi áhuga. Von er þó að þeir séu fleiri en ritstjórinn einn.
Kortið er úr smiðju bandarísku veðurstofunnar og sýnir hæð 30 hPa-flatarins og hita í honum sunnudaginn 9. júní kl. 12. Jafnhæðarlínur eru heildregnar en hiti sýndur með litaflötum. Dekksti brúni liturinn sýnir hita á bilinu -38 til -42 stig. Þrengsta jafnhæðarlínan sýnir 24,4 km.
Þetta er allt mjög stílhreint - hlý hæð við norðurskautið teygir anga sína allt suður undir hitabelti. Austanátt er um allt hvelið. Þetta er sá tími árs sem heiðhvolf og veðrahvolf vita minnst af hvort öðru. Í veðrahvolfinu er vestanátt ráðandi allt árið. Hún slaknar mjög á sumrin - en hverfur ekki. Yfir veturinn er vestanátt í báðum hvolfum. Þá geta atburðir hvors hvels um sig haft áhrif í hinu. Það sáum við svo aldeilis síðastliðinn vetur og var um það fjallað nokkrum sinnum hér á hungurdiskum.
Fyrir norðan heimskautsbaug skín sól nú allan sólarhringinn og hitar loftið (aðallega óson) og hitamynstrið verður eins og það er. Í stærstu veðurlíkönum er reynt að herma myndun, eyðingu og ferðir ósons. Þessar spár eru síðan notaðar til ábendinga um hæfilega notkun á sólaráburði við útiveru. Slíkar ábendingar eru enn ekki gefnar út hér á landi - en e.t.v. ætti að gera það.
Næsta hvolf ofan við heiðhvolfið heitir miðhvolf. Heiðhvörf eru á milli ofan við miðhvolf eru miðhvörf. Þar myndast hin fögru silfurský á sumrin. Þau sjást ekki hér á landi vegna birtu fyrr en eftir 25. júlí. Þær sérlega athyglisverðu fréttir bárust á dögunum að nú hafi orðið vart við þau í fyrsta skipti 13. maí - viku fyrr en nokkurn tíma áður svo vitað sé. Enn einn vísir um veðurfarsbreytingar.
8.6.2013 | 01:31
Tveir kuldapollar og hæðarhryggur á milli
Nú og næstu daga blasa tveir stórir kuldapollar við á norðurhvelskortum. Annar yfir Atlantshafi en hinn yfir Norðuríshafi. Á milli þeirra er hæðarhryggur sem við njótum góðs af. Kortið að neðan sýnir þetta vel. Það gildir kl. 12 á sunnudaginn (9. júní). Kortið er frá evrópureiknimiðstöðinni.
Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því hvassari er vindurinn. Hann blæs nokkurn veginn samsíða línunum. Litafletir sýna þykktina. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin á milli grænu og gulu litanna er við 5460 metra og milli blárra og grænna við 5280 metra. Ísland er rétt neðan við miðja mynd.
Kuldapollurinn stóri suðvestur í hafi er öflugur, hann geymir enn bláan blett. Þar er loft mjög óstöðugt. Takist hlýju lofti að brjótast inn í pollinn myndast djúp lægð. Allt undir 970 hPa telst til tíðinda. Til að búa til svoleiðis þarf rúmlega 5500 metra þykkt að ná inn í miðju hringrásarinnar. Spár undanfarna daga hafa ekki verið sammála um hvort það gerist og ekki heldur hvort eða hvenær pollurinn færist alveg austur til Bretlandseyja. Ólíklegt er að við sleppum alveg við úrkomusvæði, skil eða lægðir tengd þessu stóra kerfi.
En á sunnudaginn má sjá að Ísland er í námunda við hæðarhrygg sem rauða strikalínan markar og við erum sömuleiðis á mörkum grænna og gulra lita. Svo virðist sem gulu litirnir sæki heldur á. Mánudagsveðrið fer síðan eftir því hvort ræður, lægðarbeygja kuldapollsins eða hæðarbeygja hryggjarins. Verður það vonbrigðadagur eða nær hitinn vestanlands sér verulega á strik í einn til tvo daga? Nágrenni Esjunnar getur verið býsna gæft á hita í til þess að gera lágri þykkt í réttri gerð af austanátt og blikuhnoðraskotnu lofti. Sömuleiðis Borgarfjörður í austræningi.
Hér mega flestir hætta að lesa því afgangurinn er tyrfinn.
Kuldapollurinn yfir Norðuríshafinu er öflugur. Hæð 500 hPa-flatarins er rétt rúmir 5 km (= 5000 metrar). Ef hann næði inn í sig hlýju lofti með þykktina 5320 metra yrði úr því sambandi 960 hPa lægð. Hér væri ekki verið að minnast á þetta nema fyrir þá sök að þannig spám hefur brugðið fyrir á stangli í reiknilíkönunum undanfarna daga. Á kortinu má sjá að þykktin í miðjunni er nú tæplega 5160 metrar. Sé sú þykkt og hæðin í miðju bornar saman fæst út að lægðarmiðjan er á bilinu 980 til 985 hPa við sjávarmál.
Spár sýna ekkert lát á norðurskautspollinum næstu viku til tíu daga en hann skýtur afkvæmum í ýmsar áttir - vonandi fáum við ekkert af þeim í hausinn. Sjá má eitt afkvæmanna við norðausturhorn Grænlands - heldur illilegt þótt lítið sé. Evrópureiknimiðstöðin segir það fara til Norður-Noregs - tilbreyting frá hitunum upp á síðkastið. Ekkert er þó víst um það því ameríska spáin fer mildari höndum um norðmenn.
En við vonum að við njótum hryggarins sem lengst - jafnvel þótt við lendum í suðurjaðri hans og inni í úrkomunni suðurundan. Allt frekar en enn einn skammt af kalsa.
7.6.2013 | 00:21
Molar um 20 stiga hita í Reykjavík
Tuttugu stig eru svo sannarlega sjaldséð í Reykjavík. Hámarkshiti hefur þar verið mældur daglega frá því í maí 1920 og eru aðeins 54 dagar á 93 sumrum sem státað hafa 20 stigunum. Rétt rúmlega annað hvert ár að meðaltali. En 20 stiga sumrin eru ekki nema 28 - þriðja hvert ár. Á Akureyri eru sjö dagar á ári (að jafnaði) tuttugustigadagar og aðeins 4 sumur af 76 eru tuttugustigalaus.
Síðustu tíu ár (2003 til 2012) hafa verið gæf Reykvíkingum því átta af þeim hafa verið tuttugustigasumur, en aðeins er þriggja að vænta sé tekið mið af langtímameðaltalinu. Engin samfelld tíu ára tímabil önnur hafa verið jafngæf og hin síðari ár.
Árið 2004 voru tuttugustigadagarnir fimm og fjórir árið 2008. Á síðustu tíu árum eru tuttugustigadagarnir alls 16 og hafa aldrei verið svo margir á tíu árum. Næst þessu kemst tímabilið 1936 til 1945 með fjórtán daga. Þar af voru sjö tuttugustigadagar í Reykjavík árið 1939 og hafa aldrei orðið fleiri á einu sumri.
Árið 1939 á líka síðasta tuttugustigadaginn í lok sumars, 3. september. Sá fyrsti að vori kom 14. maí 1960.
Lengst hafa liðið 16 ár á milli tuttugustigadaga í Reykjavík, 5844 dagar frá 8. júlí 1960 til 9. júlí 1976. Menn mega gjarnan leggja þessa tölu á minnið. Eins og minnst var á í Akureyrarpistlinum munaði þó litlu að þessi röð slitnaði þegar hitinn fór í 19,9 stig 5. ágúst 1969.
Næstlengsta biðin var frá 31. júlí 1980 til 27. júlí 1990, tíu ár eða 3647 dagar. Biðin var nærri því eins löng frá upphafi hámarksmælinganna 1920 og fram til þess tíma að hámarksmælirinn sýndi 20 stig í fyrsta sinn, 6. júlí 1927.
Sæmilegar heimildir um hámarkshita eru einnig til á tímabilinu frá 1885 til 1907 en þá var reyndar enginn hámarksmælir á staðnum, en lengst af síriti sem lesa mátti af hæsta hita dagsins með talsverðri nákvæmni. Á þessu 23 ára tímabili fór hiti 12 sinnum í 20 stig, en tuttugustigaárin voru hins vegar aðeins sex - rétt eins og langtímameðaltalið 1920 til 2012 gefur til kynna.
Elta má uppi þá daga þegar hiti á athugunartíma náði 20 stigum þótt ekki væri hámarksmælir á staðnum. Leit á tímabilinu 1907 til 1919 skilar fjórum tuttugustigadögum - en trúlega hafa þeir verið fleiri.
Hitamet Reykjavíkur er nýlegt, frá 30. júlí 2008 en þá mældist hámarkshitinn á mönnuðu veðurstöðinni 25,7 stig. Næstmestur mældist hitinn 11. ágúst 2004, 24,8 stig, rétt marði að slá við meti síritans gamla frá 1891, en það var 24,7 stig.
En hámarkshitamælingar eru einnig gerðar á þremur sjálfvirkum stöðvum í Reykjavík. Tvær þeirra eru í reit Veðurstofunnar. Þær telja að mestu sömu daga og mannaða stöðin, en sjálfvirkir mælar í sívalningum virðast ívið vakrari heldur en mælar í skýli. Hægastur er sjálfvirki mælirinn í skýli sem er opnað í mesta lagi einu sinni á dag.
Á tímabilinu árið 2000 til 2012 voru 17 tuttugustigadagar á mönnuðu stöðinni, en 20 á sívalningssjálfvirku stöðinni. Á tímabilinu frá 2007 til 2012 voru 10 tuttugustigadagar á mönnuðu stöðinni, 13 á sívalningsstöðinni, en 9 á þeirri sjálfvirku í skýlinu.
En einnig er athugað á Reykjavíkurflugvelli. Svo vildi til að lítillega vantar þar í hámarksmælingar í hitabylgjunni miklu í ágúst 2004, en frá 2007 að telja eru tuttugustigadagarnir á flugvellinum fjórtán.
Um tíma voru hámarksmælingar gerðar við rafmagnsstöðina við Elliðaár og sömuleiðis á Víðistöðum í Hafnarfirði. Þær eru aðgengilegar frá 1949 til 1960 á Elliðaárstöðinni, en frá 1942 til 1960 á Víðistöðum. Eru þessar stöðvar ekki alveg sammála Reykjavíkurstöðinni um dagana.
Góður dagur með 22,7 stiga hita kom á Víðistöðum þann 1. júlí 1943, en þá var hámarkshiti í Reykjavík 19,0 stig. Dularfyllri er 10. júní 1947, Víðistaðir segir hámarkshitann hafa orðið 21,3 stig en þann dag var hámarkshiti í Reykjavík ekki nema 11,8 stig. Þetta er eitt fjölmargra atriða sem athuga ætti betur í listunum.
Á sjötta áratugnum eru Elliðaárstöð og Víðistaðir sammála um að 20. júlí 1953 hafi verið tuttugustigadagur og sömuleiðis 24. júní 1959. Í báðum þessum tilvikum náði Veðurstofan 19 stigum rúmum.
Listi um tuttugustigadaga í Reykjavík 1891 til 2012 er í viðhenginu. Athuga ber að hámarksmælir kom ekki á stöðina fyrr en í maí 1920.
6.6.2013 | 00:05
Lítillega kólnar
Undanfarna þrjá daga hefur hiti náð 20 stigum víða á Norðausturlandi og meira að segja víðar. Hlýjasta loftið er nú farið hjá (til norðausturs) og ívið kaldara loft fylgir í kjölfarið. Það sést vel á þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar kl. 18 síðdegis á morgun (fimmtudag 6. júní).
Þykktin er sýnd með heildregnum línum og í dekametrum (1 dam = 10 metrar), en hiti í 850 hPa-fletinum með litum. Sá góði flötur er á morgun í um 1500 metra hæð og þar er vægt frost á smábletti við Vesturland. En það verður ekki lengi því mjór fleygur hlýrra lofts er suðvestur í hafi. Hann nálgast landið en grisjast heldur þar til hingað er komið.
Í vesturjaðri kortsins má sjá í jaðar kuldapolls, þar er þykktin um 5250 metrar - nokkuð kalt. Hann kemur þó ekki hingað heldur fer til austurs fyrir sunnan land og e.t.v. austur til Bretlandseyja um síðir og hlýnar á leiðinni. Meðan hann er á þeirri ferð ættum við að vera í sæmilega hlýju lofti og jafnvel verða hlýindi um landið sunnan- og vestanvert einhverja dagana.
Þótt þetta líti ekki illa út eru reiknimiðstöðvar samt tregar til að gefa okkur meiri þykkt en svona 5500 til 5530 metra. Við viljum auðvitað meira en talsverð vinna er fyrir veðrakerfið að leggja þá sókn upp þannig að mark verði skorað. Hitt liðið (kuldinn) er auðvitað til alls líklegt eins og venjulega - fái það færi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.6.2013 | 00:45
Molar um 20 stiga hita á Akureyri
Í dag (þriðjudaginn 4. júní) vantaði aðeins 0,1 stig upp á hiti næði 20°C á Akureyri. Hámarkshitinn var 19,9 stig við lögreglustöðina og 19,7 á sjálfvirku stöðinni við Krossanesbraut. Það er nú vonandi að stöðvarnar nái þessu í sumar og helst sem oftast.
Sú spurning vaknar hversu langur tími hefur mest liðið á milli 20 stiga á Akureyri. Eins og veðurnördum mun kunnugt er Reykjavíkurmetið nálægt sléttum 16 árum (ískyggilegt), frá 8. júlí 1960 til 9. júlí 1976. Þann 5. ágúst 1969 komst Reykjavíkurhámarkið í 19,9 stig.
En hvað með Akureyri? Við eigum auðaðgengileg gögn þaðan frá 1949 að telja og á því tímabili liðu mest 737 dagar á milli 20 stiga. Hiti komst aldrei í 20 stig á Akureyri sumarið 1951. Tímabilið frá 16. júlí 1950 til og með 22. júlí 1952 var tuttugustigalaust. Þrjú önnur sumur hafa verið án 20 stiga á Akureyri, það voru 1961, 1967 og hið illræmda 1979. Litlu munaði 1993 því hiti fór þá í 20 stig aðeins einu sinni og það ekki fyrr en 25. ágúst. Ekki var það heldur um of því mælirinn sýndi nákvæmlega 20,0 stig.
Að meðaltali (tímabilsins alls) nær hiti 20 stigum sjö daga á ári á Akureyri - en eitthvað er af svonefndum tvöföldum hámörkum en þau bæta aðeins í fjöldann. Þetta þætti mikil hátíð hér í Reykjavík.
Flestir voru 20 stigadagarnir á Akureyri 16 á einu sumri, það var 1990. Sumarið 1997 voru þeir 15. Lengsta samfellda syrpan var sjö daga löng, frá 12. til 18. júlí 1990 og 2012 (í fyrra) var hiti ofan við 20 stig á Akureyri í sex daga í röð, frá 7. til 12. ágúst.
Hæsta hámark tímabilsins mældist 23. júní 1974, 29,4 stig - var þá einhver ákveðnasta aðför að íslandsmetinu um langt skeið. Hiti hefur 13 sinnum náð 25 stigum á Akureyri á tímabilinu, en hins vegar ekki síðan 1991, talsverð bið orðin eftir þeim. Litlu munaði þó 30. júlí 2008 þegar hitinn fór í 24,8 stig.
Að vori komu fyrstu 20 stigin þann 29. apríl 2007 (21,5°C) en þau síðustu að hausti 23. september 1997 (líka 21,5 stig) - nærri fimm mánaða gluggi.
Viðbót 5. júní: Hámarkshitaathuganir hófust á Akureyri síðustu daga júnímánaðar 1938. Gengið var í samskonar athugun og fjallað er um að ofan fyrir árin frá þeim tíma til 1948. Sumarið 1939 reynist eiga flesta 20 stiga dagana, sautján, einum fleiri en 1990. Að öðru leyti eru engin stórtíðindi. Ekkert áranna er án 20 stiga hita og meðalfjöldi atvika sá sami og síðar (7 dagar á ári). Athuga ber að rétt hugsanlegt að 20-stigadagarnir hafi verið fleiri 1938 en hér er getið.
Dagalistinn, 1938 til 2012 er í viðhenginu fyrir nördin.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 20
- Sl. sólarhring: 214
- Sl. viku: 985
- Frá upphafi: 2420869
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 864
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010