Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013

Hitinn komst í 22 stig

Hitinn komst í 22 stig í dag, mánudag 3. júní. Hæstur varð hann á Raufarhöfn en fleiri stöðvar náðu 20 stiga markinu. Þetta er í fyrsta sinn á þessu ári sem hitinn nær 20 stigum. Það er 11 dögum síðar heldur en að meðaltali 1995 til 2009 (meðaltal fyrir önnur árabil með sambærilegum stöðvafjölda hefur enn ekki verið reiknað). Líklegt er að hiti komist einhvers staðar í 20 stig á morgun (þriðjudag) og á miðvikudag (5. júní) er einnig góð von, en hins vegar lítil á fimmtudaginn. Ástæða kólnunar sést vel á kortinu hér að neðan.

w-blogg040613

Kortið gildir um hádegi á miðvikudag. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar. Vindur blæs nokkurn veginn samsíða þeim og er því meiri eftir því sem línurnar eru þéttari. Litafletir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Skipt er um lit á 60 metra þykktarbili og er jaðarinn milli grænu og gulu litanna við 5460 metra. Við segjum stundum óformlega að þar byrji sumarið - dagar með þykkt lægri en þetta eru þó fjölmargir á íslensku sumri.

Gulbrúni bletturinn fyrir norðaustan land er hitinn sem nú (á mánudag) er að fara yfir landið. Lægðardragið fyrir vestan land grynnist en þokast austur á bóginn með kaldara lofti, það verður yfir okkur á fimmtudag. Við sjáum að hæðarbeygja er á jafnhæðarlínunum yfir landinu - en vindur af suðri. Sunnanáttin ein og sér segir að það verði skýjað um landið suðvestanvert, en hæðarbeygjan eykur hins vegar líkur á að að hann rífi af sér - að minnsta kosti inn til landsins.

Við sjáum að þykktin yfir vestanverðu landinu er nærri 5460 metrunum áðurnefndu - það telst mikil heppni ef hiti undir slíkri þykkt nær 20 stigum - en ef sólin skín er aldrei að vita hvað gerist. Meiri líkur eru auðvitað á sólskini í sunnanáttinni norðaustanlands og þar er þykktin líka meiri.

En lægðardragið fer sum sé yfir á fimmtudag - en hæðarhryggur fylgir í kjölfarið. Hvað svo gerist er óljóst. Úrkomusvæði á að fara yfir seint á föstudag og/eða laugardag. Von um hlýindi felst helst í því að kuldapollurinn yfir Labrador dóli til austurs vel fyrir sunnan land - en allt of snemmt er að fjalla frekar um þann möguleika. Svo virðist sem við getum í bili að minnsta kosti verið róleg yfir kuldapollinum mikla í íshafinu - í dökkbláu litunum er vetur enn ríkjandi.


Af hlýju lofti (hve hlýju?)

Eins og gefið hefur verið í skyn í veðurspám er líklegt að hiti fari í meir en 20 stig á landinu á morgun (mánudag) og þriðjudag. Áherslu verður þó að leggja á að enn (á sunnudagskvöldi) er um spá að ræða. Lítum fyrst á gervihnattarmynd frá því kl. 22 á sunnudagskvöld.

w-blogg030613a

Útlínur landa eru sýndar með grænum lit. Myndarleg lægð er suðvestur í hafi, um 979 hPa í miðju. Hún þokast norður á bóginn en á að grynnast í nánast ekkert áður en hingað til lands er komið á fimmtudag. Öflug hæð er á norðurleið yfir Bretlandseyjum. Sumar spár segja hana ná 1038 hPa úti af Norður-Noregi á þriðjudag - það væri frekar óvenjulegt.

En milli lægðar og hæðar er öflug sunnanátt og verður víða allhvasst eða hvasst hér á landi þegar hún nær til landsins. Aðalspurningin fellst í því hvort eða hvenær kuldaskil fara yfir landið. Yfirleitt þegar vindur snýst úr austri í suðaustur og síðan suðurs heldur snúningurinn áfram yfir í suðvestur eða vestur. Loftþrýstingurinn fellur þá mest í suðaustanáttinni, hægir síðan á í sunnanáttinni, en stígur síðan í suðvestanáttinni.

Að þessu sinni gæti verið að þegar vindurinn er kominn í suður snúist hann ekki í suðvestur heldur leiti aftur í suðaustur og þá með hækkandi þrýstingi. Vestanloftið lætur standa á sér - tefst um sólarhring eða svo. Það er ágætt - en hlýjasta loftið þýtur áfram til Norður-Noregs.

Það er heldur leiðinlegt að hæsti mættishitinn fer hjá landinu um miðja nótt. Það sést á spákortinu hér að neðan. Það er reiknað af evrópureiknimiðstöðinni.

w-blogg030613b

Þetta er kl. 3 á aðfaranótt þriðjudags. Mættishitinn (litafletir) er meiri en 20 stig yfir öllu landinu norðan- og austanverðu. Hæsta talan sem sést er 24,8 stig. Ef ekki er því hvassara er þetta sýnd veiði en ekki gefin. Kl. 3 að nóttu aðstoðar sólin nákvæmlega ekki neitt. Það má sjá á skynvarmaspánni hér að neðan.

w-blogg030613c

Hér er allt í mínus. Landið kælir allt loft sem yfir það streymir. En mjög hlýtt loft verður yfir landinu lengur og þegar sól hækkar á lofti hitar hún landið og það fer að hita loftið og verði léttskýjað á þriðjudaginn gæti hiti farið vel yfir 20 stig, kannski á miðvikudaginn líka - kannski líka víðar á landinu. Það má alla vega vona. En svo kemur vestanloft að sögn.


Hlýrra loft á leiðinni

Nú virðist öllu hlýrra loft heldur en við höfum búið við að undanförnu vera á leið til landsins. Spár eru sammála um að sæmileg sumargusa að sunnan fari yfir landið á mánudag og þriðjudag með talsverðum vindi. Hlýjast verður norðaustanlands og líklegt að 20-stiga mörkunum verði náð í fyrsta skipti á þessu ári.

Þetta sést nokkurn veginn á spákorti sem gildir kl. 21 á sunnudagskvöld.

w-blogg020613

Jafnþrýstilínur eru heildregnar, úrkoma er sýnd með grænum og bláum litum og jafnhitalínur 850 hPa flatarins er strikaðar. Lægðin suðvestur í hafi er djúp miðað við árstíma og sunnanstrengurinn austan hennar býsna öflugur. Sé rýnt í kortið má sjá (það batnar talsvert við stækkun) að 5 stiga jafnhitalína 850 hPa flatarins er skammt sunnan við land og stefnir hingað.

Þótt loftið sé hlýtt miðað við ástandið að undanförnu er enn hlýrra loft enn yfir Norður-Noregi. Hlýindin þar hafa verið að slá hvert metið á fætur öðru að undanförnu. Hiti í Norður-Svíþjóð komst í rétt rúm 30 stig. Maímánuður hefur aldrei verið svona hlýr í Tromsö og nú. En þarna kólnar eitthvað næstu daga.

Það er svo talsverð spurning hvert framhaldið verður hér á landi. Lendum við í lægðar- eða hæðarbeygju? Hæðarbeygjan er mun hagstæðari, henni hefur nú oft verið spáð að undanförnu - en lítið orðið um efndir. Þetta ætti að skýrast betur á mánudaginn. Svo er það með enn hlýrra loft - kemst það um síðir til landsins?


Af (alþjóða-)vorinu 2013

Nei, ekkert er fjallað um vorið og vorkomuna um heim allan. Við lítum hins vegar á meðalhita í Reykjavík á tímabilinu mars til maí, en það tímabil er á alþjóðavísu kallað vorið. Varla dettur nokkrum manni í hug að telja mars til vorsins hér á landi. En í góðu lagi er að líta á meðalhitann þessa mánuði - svona til að eiga samanburð við nágrannalöndin (nei - hann verður ekki gerður hér).

w-blogg010613

Hér sést meðalhiti alþjóðavorsins í Reykjavík frá 1866 til 2013. Hér teygjum við okkur aðeins lengra til baka í tímann heldur en venjulega því við komumst ekki í daglegar mælingar á árunum 1866 til 1870 - en meðaltöl voru samt reiknuð á sínum tíma.

Lengst til hægri má sjá lítið strik sem markar árið í ár, 2013. Með nánari skoðun sjáum við að þetta er kaldasta alþjóðavor í Reykjavík síðan árið 2000 (og þar með á öldinni). Munurinn á árinu í ár og árunum 1999, 2000 og 2006 er reyndar mjög lítill. Alþjóðavorið 1995 var hins vegar talsvert kaldara. Langkaldast var 1979 og munar miklu. Svo má ímynda sér að 1866 hafi verið enn kaldara. Meðalhitinn 1979 var 0,1 stig, en er nú 3,0 stig. Alþjóðavorið var hlýjast 1974, 6,0 stig.

Hitinn í ár er mjög svipaður og algengt var fyrir um 15 til 20 árum, meðalhiti 1961 til 1990 er 3,2 stig. Á hlýja tímanum 1931 til 1960 var meðalhiti alþjóðavorsins 3,8 stig í Reykjavík og áranna 2001 til 2010 var hann 4,4 stig.

Listi yfir alþjóðavorshita í Reykjavík frá ári til árs er í viðhenginu - fyrir nördin. Leitnisinnar mega vita að hún er 1,1 stig/100 ár.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 31
  • Sl. sólarhring: 53
  • Sl. viku: 522
  • Frá upphafi: 2343284

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 474
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband