Sumarkort úr heiðhvolfinu

Mánuður er nú síðan við litum á ástandið í heiðhvolfinu og hollt að líta á það aftur - jafnvel þótt nærri því enginn hafi áhuga. Von er þó að þeir séu fleiri en ritstjórinn einn.

w-blogg090613

Kortið er úr smiðju bandarísku veðurstofunnar og sýnir hæð 30 hPa-flatarins og hita í honum sunnudaginn 9. júní kl. 12. Jafnhæðarlínur eru heildregnar en hiti sýndur með litaflötum. Dekksti brúni liturinn sýnir hita á bilinu -38 til -42 stig. Þrengsta jafnhæðarlínan sýnir 24,4 km.

Þetta er allt mjög stílhreint - hlý hæð við norðurskautið teygir anga sína allt suður undir hitabelti. Austanátt er um allt hvelið. Þetta er sá tími árs sem heiðhvolf og veðrahvolf vita minnst af hvort öðru. Í veðrahvolfinu er vestanátt ráðandi allt árið. Hún slaknar mjög á sumrin - en hverfur ekki. Yfir veturinn er vestanátt í báðum hvolfum. Þá geta atburðir hvors hvels um sig haft áhrif í hinu. Það sáum við svo aldeilis síðastliðinn vetur og var um það fjallað nokkrum sinnum hér á hungurdiskum.

Fyrir norðan heimskautsbaug skín sól nú allan sólarhringinn og hitar loftið (aðallega óson) og hitamynstrið verður eins og það er. Í stærstu veðurlíkönum er reynt að herma myndun, eyðingu og ferðir ósons. Þessar spár eru síðan notaðar til ábendinga um hæfilega notkun á sólaráburði við útiveru. Slíkar ábendingar eru enn ekki gefnar út hér á landi - en e.t.v. ætti að gera það.

Næsta hvolf ofan við heiðhvolfið heitir miðhvolf. Heiðhvörf eru á milli ofan við miðhvolf eru miðhvörf. Þar myndast hin fögru silfurský á sumrin. Þau sjást ekki hér á landi vegna birtu fyrr en eftir 25. júlí. Þær sérlega athyglisverðu fréttir bárust á dögunum að nú hafi orðið vart við þau í fyrsta skipti 13. maí - viku fyrr en nokkurn tíma áður svo vitað sé. Enn einn vísir um veðurfarsbreytingar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Sæll.

Gaman að fá veðrið beint í æð, ef svo má segja. Þú varst búinn að viðra í vetur hvernig styrkur hæða hefur áhrif á ríkjandi vindáttir hér á skerinu.

Er eitthvað í kortunum sem "kyndir undir" fyrirstöðu yfir Bretlandi/Skandinavíu? Myndum alveg þyggja eina slíka þetta árið.

Kv. úr blíðunni í Neskaupstað.

Sindri Karl Sigurðsson, 9.6.2013 kl. 21:12

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Sindri. Nei, fyrirstaða við Bretland sést ekki í spákortum dagsins - hvað svo sem verður síðar í sumar.

Trausti Jónsson, 10.6.2013 kl. 00:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (24.5.): 20
 • Sl. sólarhring: 78
 • Sl. viku: 1488
 • Frá upphafi: 2356093

Annað

 • Innlit í dag: 20
 • Innlit sl. viku: 1393
 • Gestir í dag: 20
 • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband