Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Þjóðlegur sumarhiti

Ágætt er stöku sinnum að horfa út um aðra meðalhitaglugga en þá hefðbundnu og velja sér önnur tímabil til viðmiðunar. Hér að neðan er mynd sem sýnir meðalhita í Reykjavík íslenska sumarið - frá sumardeginum fyrsta til fyrsta vetrardags. Þessi tími er yfirleitt 184 dagar - en stöku sinnum 191. Ástæða óreglunnar er sú að koma skal í veg fyrir rek árstíðanna yfir lengra tímabil út úr fasa við sólarhæð. En hvað um það myndin sýnir meðalhita íslenska sumarsins í Reykjavík frá 1949 til ársins í ár, 2012.

misseris_sumar_hiti_rvk

Þetta er athyglisverð mynd sem sýnir vel hlýnunina hin síðari ár. Langhlýjast þjóðlegra sumra á þessu tímabili er 2010. en 2011 og 2012 eru nær því sem algengast hefur verið það sem af er þessari öld. Skylt er að taka fram að tvö eldri sumur, 1939 og 1941 voru um það bil eins hlý og 2010 - munurinn ekki marktækur - en engin önnur neitt nærri. Hvað skyldi svo gerast næstu 60 árin?

Þótt þjóðlega sumarið á þessu ári hafi verið eitt hið kaldasta á öldinni í Reykjavík var það langsólríkast - og reyndar það sólríkasta frá upphafi mælinga, 1911.


Vetrarbyrjun

Samkvæmt gamla íslenska tímatalinu hófst vetur á laugardaginn var. Októbermánuður hefur síðustu daga rétt svo hangið í meðaltalinu 1961 til 1990, en er vel fyrir neðan meðallag síðustu 10 ára. Síðustu dagarnir eru ekki hlýindalegir.

w-blogg301012

Kortið sýnir spá um ástandið í 500 hPa-fletinum síðdegis á þriðjudag (30. október). Undanfarna viku eða svo höfum við verið inni á valdasvæði mikillar hæðar sem á kortinu er komin vestur til Nýfundnalands. Lægðarbeygja hefur á kortinu tekið við af hæðarbeygju og Ísland er komið vel norður fyrir heimskautaröstina. Hes hennar nær á kortinu alveg niður í 500 hPa eða neðar þar sem hámarksvindur við grænu örina á kortinu er um 50 m/s. Við veðrahvörf - en þar á röstin yfirleitt heima er vindur hins vegar enn meiri eða um 80 m/s.

Svörtu línurnar sýna að vanda hæð 500 hPa-flatarins en rauðdregnu strikalínurnar marka þykktina. Þykktin er hitamælir neðri hluta veðrahvolfs, því minni sem hún er því kaldara er loftið. Tölurnar sýna dekametra (1 dam = 10 metrar). Meðalþykkt um þetta leyti árs er milli 5300 og 5350 metrar. Bláa örin á kortinu bendir á 5100 metra jafnþykktarlínuna. Hún er tíður gestur hér á vetrum og er ekki fjarri því að marka það svæði sem frost er á allan sólarhringinn. Þetta er rúmum 200 metrum lægra en meðaltalið, það þýðir að hiti er um 10 stigum undir meðallagi.

Að þessu sinni rétt snertir 5100 metra línan Vestfirði en hlýr sjór bætir sífellt í þykktina og þegar kortið gildir segir evrópureiknimiðstöðin að hitunin úti af Vestfjörðum samsvari um 200 til 300 Wöttum á fermetra. Það þýðir að samfellt aðstreymi af köldu lofti þarf til þess að þykktin haldist svona neðarlega.

En þetta skot mjög lágrar þykktar stendur ekki lengi því hlýrra loft (rauða örin) sækir að úr austri. Það gengur þó ekki greiðlega fyrir sig og ástandið markast af hvössum norðanvindi næstu daga. Um síðir á hlýtt loft að sækja að úr vestri - en ekki fyrr en kuldapollur sem á kortinu er yfir Vestur-Grænlandi verður kominn hjá (svarta örin). Það mun að sögn verða á föstudag. Röstin á síðan að ganga aftur austur fyrir land á sunnudag.

Norðanskotið sem á að standa næstu daga er nokkuð samsett að því er virðist. Ekki er gott að segja t.d. hvort hægari kaflar gangi yfir landið á milli meginvindstrengjanna. Sömuleiðis er ekki langt í hlýrra loft austurundan og sjór er hlýr þannig að það gæti komið kafli með slyddu frekar en snjókomu á Norðausturlandi - en áhugasamir fylgjast auðvitað með spám Veðurstofunnar. Munið að hungurdiskar spá engu.


Frekari hlýskeiðasamanburður

Við berum enn saman hlýju áratugina 1931 til 1940 og 2001 til 2010. Nú er það úrkoma og snjór. Úrkomumælingar eru talsvert erfiðari heldur en mælingar á hita og ósamfellur fleiri. Stöðvakerfið hefur einnig breyst mikið frá 1931 - meira hvað úrkomu varðar heldur en hita. En við skulum samt líta á hana - til gamans.

Taflan er byggð upp á sama hátt og þær tvær sem við höfum þegar skoðað. Áratugirnir eiga sína dálka og síðan er dálkur þar sem mismunurinn er sýndur. Einingarnar eru ekki alveg augljósar nema úrkomumagnið sjálft. Meðaltöl tímabilsins 1961 til 1990 eru einnig tilfærð (fremsti talnadálkur).

stikim6190m0110m3140mism-hlýskeiða
meðalúrkoma1015,21171,61020,4151,2
úrkomutíðni (0,1mm)546,6558,6492,765,9
úrkomutíðni (0,5mm)466,0461,5433,428,1
snjóhulumál370,1293,8332,6-38,8
fjallasnjómál663,3600,8647,2-46,4

Fyrsta línan er auðveld - reiknað meðalatal ársúrkomu allra veðurstöðva á viðkomandi tímabili. Úrkoma virðist hafa verið meiri á síðasta tímaskeiðinu heldur en þeim fyrri. Stöðvakerfið hefur breyst þannig að líklega er úrkomumagn vantalið á fyrra hlýskeiðinu, en talsverður munur er á 1961 til 1990 og 2001 til 2010 - þá eru mælingar mun nær því að vera samanburðarhæfar. 

Næst má sjá úrkomutíðni. Talan 546,6 þýðir að á árunum 1961 til 1990 hefur úrkoma, 0,1 mm eða meiri, mælst á 54,66 prósentum allra daga á öllum stöðvum. Munur á hlýskeiðunum tveimur er nálægt 6,6 prósentum. Úrkomudögum hefur fjölgað um 2 til 3 í mánuði. Er þetta raunverulegt? Varla er það - en þetta eru tölurnar. Séu mörkin færð upp í 0,5 mm minnkar munurinn - og 1961 til 1990 fer upp fyrir 2001 til 2010.

Að lokum er mál á snjóhulu. Einingin er þannig að hvert hundrað táknar að alhvítt hafi verið á landinu í mánuð. Við sjáum að á tímabilinu 1961 til 1990 samsvarar meðalsnjóhulan því að alhvítt hafi verið í 3,7 mánuði (miðað við landið allt). Á fyrra hlýskeiðinu var þessi tala 3,3 mánuðir, en aðeins 2,9 á því síðara. Hér munar um 0,4 mánuðum á hlýskeiðunum tveimur (um 12 dögum) en 0,8 mánuðum (24 dögum) á síðara hlýskeiðinu og meðaltalinu 1961 til 1990. Þetta er mikill og athyglisverður munur.

Snjóhula til fjalla miðar við 600 til 700 metra hæð - séð frá veðurstöðvum. Tölur fyrra hlýskeiðsins ná því miður ekki yfir það allt - en látum það vera. Hér munar einnig umtalsvert á dálkunum þremur. Síðara hlýskeiðið er nokkuð snjóléttara heldur en það fyrra.

Niðurstaðan er því sú að úrkoma virðist hafa verið meiri á árunum 2001 til 2010 heldur en 1931 til 1940 en snjóhula minni. Þetta er alveg í anda þess sem hitinn segir okkur - vetur síðara hlýskeiðsins hafa verið marktækt hlýrri heldur en vetur þess fyrra. Hinn litli sumarhitamunur tímabilana skiptir hér engu. Almennt vex úrkoma með auknum hita - en á því eru þó undantekningar. Oftast er talið að úrkoma aukist um 2 til 4 prósent við hvert stig sem hiti hækkar, en hér á landi gæti talan verið hærri.


Enn í norðvestanáttinni

Vindur í háloftunum er enn úr norðvestri - en miðað við það er samt furðuhlýtt. Að vísu sér varmatap í björtu veðri til þess að kalt verður inn til landsins. Þessu veldur mjög mikil háloftahæð sem undanfarna viku hefur þokast í rykkjum vestur á bóginn fyrir sunnan land. Staðan á mánudaginn (sé að marka evrópureiknimiðstöðina) er sýnd á kortinu hér að neðan.

Myndin er orðin hefðbundin á hungurdiskum. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar, þykktin er sýnd í litum. Mörkin milli bláu og grænu svæðanna er við 5280 metra þykkt. Á kortinu er megnið af Íslandi í græna litnum.

w-blogg281012

Hæðarhryggurinn vestan við land er mjög breiður - svo breiður að hann stendur varla undir sér lengi. Við sjáum ómerkilega háloftabylgju yfir Grænlandi - hún á að kljúfa austurhluta hryggjarins í spað. eftir það snýst háloftaáttin hér á landi meira til norðurs og kaldara loft fær greiðari leið hingað - ekki með miklum látum í fyrstu - en átök og leiðindi eiga síðan að taka við.

Býsna mörg norðanköst hér á landi eru tvíþætt. Fyrst skellur á hvellur með norðanátt bæði í háloftum og niður við jörð - kerfið fer til suðurs eða suðausturs um landið - og heldur síðan áfram til suðurs þar sem það að lokum grípur upp hlýrra loft og sendir til norðurs. Þá gerir hér norðaustanillviðri - sem nær þó ekki nema upp í 2 til 3 kílómetra hæð. Stundum eru báðir þættirnir slæmir - en stundum ekki nema annar. Það virðist eiga að gerast nú, norðanáttin að baki lægðardragsins er ekki svo sterk - en síðari þátturinn á hins vegar að verða leiðinlegur - jafnvel mjög leiðinlegur. 

Hungurdiskar munu e.t.v. líta betur á þetta þegar nær dregur - en ritstjórinn er enn í tímafreku sýsli - af veraldlegu tagi.  

Fellibylurinn Sandy er undan ströndum Bandaríkjanna á þessu korti og er þar um það bil að taka beygju þá til norðvesturs sem menn vestra óttast hvað mest. Vindur í kerfinu er nú lítið meiri heldur en gerist hér á landi í illum veðrum - en sjór er úfinn og illur og strandvörnum víða ábótavant. Sömuleiðis er mjög mikið af trjám sem bíða eftir að falla - Bandaríkjamenn hafa ekki verið duglegir við að koma raflínum í íbúðahverfum í jörð. Fyrstu fréttir af tjóni eru oft óáreiðanlegar. Við munum vel að þegar fellibylurinn Katrína gekk yfir New Orleans 2005 voru fyrstu fréttir þær að vindur hefði verið minni en búist var við og tjón minna en óttast hefði verið - en síðan kom allt annað í ljós. Í fyrra (2011) gekk fellibylurinn Irene til norðurs með austurströnd Bandaríkjanna - svipað og Sandy nú. Hann olli fárviðrafíklum ákveðnum vonbrigðum - fréttir bárust um að tjón væri frekar lítið. Þegar upp var staðið reyndist veðrið vera eitt hinna allra tjónmestu á þeim slóðum.


Hlýskeiðin tvö - meira af hitanum

Fyrr í vikunni (24.10.) fjölluðu hungurdiskar um hitamun áratuganna 1931 til 1940 annars vegar - og 2001 til 2010 hins vegar. Miðað var við ársmeðalhita 26 veðurstöðva á Íslandi. Í ljós kom að síðari áratugurinn var 0,36 stigum hlýrri en sá fyrri. Við lítum nú á aðra töflu. Hún sýnir samanburð við nokkur nágrannalönd og heiminn í heild. Nú er það svo að sífellt er verið að krukka í þessar tímaraðir og eru lesendur beðnir um að hafa í huga að hér er ekki um alveg nýjar upplýsingar að ræða. Trúlega hafa einhverjar breytingar verið gerðar - vonandi til bóta - en ekki endilega. Við skulum ekki þusa um það.

 m0110m3140mism-hlýskeiða
Nuuk-0,25-1,000,75
Upernivik-5,35-5,990,64
Narsassuaq2,301,310,99
Ammasalik0,09-0,380,47
Vardö2,651,900,75
Mið-England10,269,570,69
norðurhvel (Hadley)0,55-0,010,56
suðurhvel (Hadley)0,31-0,200,51
heimur (Hadley)0,43-0,110,54
nh-sh0,240,190,05
Ísland4,444,080,36
Ísland - sumar9,499,330,16
Íslandm6190
Allt árið3,24
Sumarið8,29  

Efri hluti töflunnar sýnir samanburðinn, en sá neðri meðalhita áranna 1961 til 1990 á Íslandi. Tölur sem fylgja nafngreindum stöðvum eru raunverulegur ársmeðalhiti, en tölurnar frá Hadleymiðstöðinni eru vik - að sögn frá meðaltalinu 1961 til 1990. Í fyrra pistli var sagt frá þeim 0,36 stiga mun sem reiknast á milli meðalhita hlýju áratuganna tveggja. Fyrir alla muni takið annan aukastaf ekki hátíðlega - hann á eingöngu að auka á skemmtanagildi sem hafa má af jafnri keppni.

Ef vel er að gáð má sjá sumarhita áratuganna tveggja á Íslandi. Ekki munar nema 0.16 stigum - satt best að segja ekki marktækt - sá síðari er örlítið hlýrri. Tölurnar í neðri hluta töflunnar sýna þann gríðarlega mun sem er á hlýindaáratugunum annars vegar og skeiðinu 1961 til 1990 hins vegar, árshitamunur er 1,2 stig (miðað við 2001 til 2010) og sumarhitamunurinn nákvæmlega sá sami. Þetta eru miklu stærri tölur heldur en innbyrðis munur hlýskeiðanna.

Hlýnunin milli 1931 til 1940 og 2001 til 2010 er meiri á öllum hinum stöðvunum í töflunni. Hugsanlegt er að splæsingar stöðva við Nassarsuaq gangi ekki alveg upp - en ræðum ekki frekar um það. Í Ammassalik er munurinn nánast sá sami og í Stykkishólmi. Hlýskeiðamunurinn í Vardö í Norður-Noregi og á Mið-Englandi er meiri heldur en hér á landi. Munur hlýskeiðanna er líka meiri á jörðinni allri heldur en hér á landi. En athugum það að við höfum sérvalið áratugina - annars staðar myndu önnur skeið vera valin til samanburðarins.

Sé gengið út frá því (heldur vafasamt) að jafnt og þétt hafi hlýnað á Íslandi síðustu 200 árin er hlýskeiðið 1931 til 1940 ívið, en ómarktækt, hlýrra en það síðara, hlýnunin þá fór fram úr meðalhlýnuninni en áratugurinn 2001 til 2010 er 0,1 stigi neðar en hún ein og sér myndi spá. Sé hins vegar grunnhlýnunin látin byrja seinna, t.d. 1890, verður munurinn á hlýskeiðunum meiri - hlýindin 1931 til 1940 eru þá enn óvenjulegri og síðara skeiðið vantar þá meira upp á að standa undir væntingum.

En allt þetta með línulega leitni fellur undir hálfgerðar reikningskúnstir. Þær eru eins og mismunandi sjónarhorn á fortíðina, geta reyndar leiðbeint okkur á ferðum okkar og jafnvel aukið skilning á þeim ferlum sem ráða hitafari. En - og það er þungt en - þær upplýsa okkur harla lítið eða ekki neitt um framtíðina.  

Í gömlum pistli hungurdiska er fjallað meira um leitnilausa hitann - nenni einhver að rifja hann upp. Þar má sjá að "hlýinda"áratugurinn 1841 til 1850 stendur sig bara vel.

Hér mætti bæta við samanburði á ríkjandi vindáttum hlýindaáratuganna, úrkomumagni og úrkomutíðni þeirra, snjóhulu, kuldakasta, hitabylgna og fleiru misáhugaverðu þar til þráðurinn týnist fullkomlega.

Ameríkumenn eru enn í klemmu með fellibylinn Sandy. Vindhraðinn helst við mörk fellibylsstyrks, en kerfið stækkar og líkist meir og meir hefðbundnum lægðum. Þetta er erfið staða fyrir almannavarnir - ekkert er enn vitað um hvar kerfið ber niður - eða hvort það lyppast niður.


Hæðin mikla þokast vestur á bóginn

Háloftahæðin mikla fyrir sunnan land virðist nú ætla að taka smástökk vestur á bóginn. Það þýðir að meginvindátt í veðrahvolfinu snýst meira til norðvesturs yfir Íslandi en verið hefur. Það er hins vegar erfið vindátt og óstöðug vegna truflana Grænlands. Í efri lögum fara bylgjur yfir lítt truflaðar en aflagast hins vegar vegna niðurstreymis neðar austan við það. Áður en áreiðanlegar tölvuspár komu til sögunnar var mjög erfitt að ráða í hvort eitthvað yrði úr þessum bylgjum eða ekki.

En staðan var þó mun erfiðari fyrir veðurspámenn fortíðar sem á engu gátu byggt nema eigin hyggjuviti og mati. Almennt er atburðarásin þannig að á undan bylgjunni er annað hvort hægviðri eða vestanátt - mikil eða lítil eftir atvikum. Síðan snýst vindur nokkuð snögglega til norðurs, stundum er norðanáttin hæg - en stundum skella á ofsaveður. Hvernig á að meta það án tölvureikninga eða jafnvel án veðurskeyta? Í birtunni á vorin getur skýjafar hjálpað til - en í skammdeginu er fátt til ráða.

En lítum á 500 hPa spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar. Það gildir um hádegi á laugardag. Svartar línur sýna hæð flatarins í dekametrum, litir sýna hita (að þessu sinni ekki þykkt) og vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum.

w-blogg261012

Litakvarðinn er til hægri á myndinni og sé hún smellastækkuð er hægt að lesa bæði hann og einstakar örsmáar hitatölur. Dekksti brúni liturinn er settur á bilið -12 til -16 stig. Það eru mikil hlýindi í meir en 5 km hæð. Kaldast á kortinu er austur yfir Noregi - nærri -40 stiga frost. Talsvert snjóaði víða í Noregi í gær og í dag.

Mikil sveigja er á jafnhæðarlínunum við Ísland. Þar er nokkuð snarpt háloftalægðardrag á leið til suðausturs. Norðanáttin á eftir því verður þó skammvinn því næsta drag vestan við sem á kortinu er við Baffinsland ryðst líka til austurs og síðan suðausturs. Það er efnismeira heldur en laugardagsdragið. Í kjölfar þess er svo spáð alvöru norðankasti - en við tökum ekki afstöðu til þess að sinni.

Fellibylurinn Sandy er nú við Bahamaeyjar (sem oftast eru nú kallaðar ónefninu Bahamas á Íslensku - hvenær skyldi Ísland detta úr stjórnarskránni og Iceland koma í staðinn?) Þetta er óvenjulegur fellibylur vegna þess að hann mun næstu daga leika miklar jafnvægislistir á milli fellibylseðlis annars vegar og eðlis vestanvindalægðar hins vegar. Vindsniði ofan á bylnum er nú það mikill að augað á erfitt uppdráttar - en þó er vindhraði sem í annars stigs fellibyl. Fellibyljamiðstöðin er enn frekar hógvær - en er greinilega farin að óróast. Bloggheimar eru enn órólegri - eins og venjulega.

Ofurveðurbloggarinn Jeff Masters, en hann hefur áratugareynslu í fellibyljaspám, neitar að trúa spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um 935 hPa við Virginíu á aðfaranótt þriðjudags. Því er ekki að neita að þessi tala er ansi krassandi - og alveg ótrúleg.


Fellibyljatíminn í Atlantshafinu langt genginn

Nú er langt liðið á fellibyljatímann í Atlantshafinu - en þrátt fyrir það eru tveir stafrófsstormar á sveimi þessa dagana. Þeir taka bókstafina S og T, Sandy og Tony. Tony er einn af þeim sem rétt svo ná í nafn og deyja svo (vekja efasemdir um samanburðarhæfni stormaskráa nútímans og fyrri tíma). Sandy er hins vegar í nokkuð góðum gír á milli Jamaíka og Kúbu. Myndin hér að neðan er fengin af síðu Kanadísku veðurstofunnar (Environment Canada) um miðnæturbil (kl. 23:45, 24. okt).

w-blogg251012

Óvenju mikil óvissa hefur verið í spám reiknimiðstöðva um framrás kerfisins. Fyrir nokkrum dögum virtist það ætla að hverfa út á mitt Atlantshaf og verða þar að heiðarlegri lægð, en síðan tók evrópureiknimiðstöðin upp á því að senda storminn á land á Nýja-Englandi með hvassviðri og gríðarlegri rigningu. Aðrar miðstöðvar hafa fylgt í kjölfarið og gætir óróleika vestra vegna þessa. En reynsluboltarnir við fellibyljamiðstöðina í Miami eru þó enn á því að kerfið fari ekki á land á meginlandi N-Ameríku og ógnin felist fyrst og fremst í brimi við ströndina og áfalla á bátum og skútum á hafi úti.

Nú gengur Sandy á land á Kúbu og laskast umtalsvert við það - trúlega minnkar óvissan þegar hringrásin nær sér á strik aftur. Eins og oftast þegar stór kerfi eru á ferðinni í Karabíska hafinu verður Haiti illa úti vegna rigninga, flóða og skriðufalla. Gildir þá einu hvort vindur fylgir eða ekki.

Annars er vindur í Sandy ekki tiltakanlega mikill - óveðrið nær rétt upp í fellibylsstyrk.


Af tveimur hlýindaskeiðum

Öll veðurnörd og fáeinir aðrir vita að áratugurinn 1931 til 1940 var mjög hlýr hér á landi. Lengi vel gerðist ekkert sem ógnaði veldi hans en í kringum aldamótin hrökk eitthvað til og við höfum nú notið hlýindasyrpu sem fyrir tuttugu árum hefði verið talin með ólíkindum. Hlýindin hafa haft ýmsar afleiðingar í náttúru landsins - og jafnvel haft áhrif á mannlífið. En hungurdiskar skeyta lítt um slíkt (er þó ekki sama). Framtíðin er alltaf hulin og engin trygging fyrir hlýju áframhaldi - en svo er einnig  möguleiki að enn eigi eftir að bæta um betur.

En við skulum nú líta á töflu sem sýnir meðalhita þessara tveggja tímabila, 1931 til 1940 og 2001 til 2010 á 25 veðurstöðvum víðs vegar um land. Gætt er að því að meðaltölin séu reiknuð á sama hátt á tímabilunum tveimur. Í sumum tilvikum hafa raðir nálægra stöðva verið sameinaðar - það er alltaf nokkur vandi. Að öðru leyti hefur lítið verið fiktað í tölunum - þær eru að miklu leyti óháðar innbyrðis. Þó ekki alveg - en ritgerð um það verður að bíða betri tíma.

En lítum á töfluna. Tölur eru til gamans með tveimur aukastöfum - en enginn skyldi taka mark á slíkri nákvæmni - hún er ekki svo mikil. Einingin er að sjálfsögðu °C.

 s3140s0110mism
Reykjavík4,995,500,51
Stykkishólmur4,284,750,47
Lambavatn4,454,900,45
Kvígindisdalur4,144,460,32
Bolungarvík3,874,110,24
Hlaðhamar3,273,23-0,04
Blönduós3,593,860,27
Hólar í Hjaltadal3,273,610,34
Grímsey3,093,670,58
Akureyri4,074,400,33
Reykjahlíð2,292,810,52
Grímsstaðir1,401,660,26
Raufarhöfn3,123,520,40
Vopnafjörður3,534,010,48
Nefbjarnarstaðir3,123,600,48
Seyðisfjörður4,464,700,24
Teigarhorn4,314,20-0,11
Hólar í Hornafirði4,995,390,40
Fagurhólsmýri5,235,550,32
Kirkjubæjarklaustur5,165,470,31
Vík í Mýrdal5,796,270,48
Stórhöfði5,475,870,40
Sámsstaðir5,135,610,48
Hæll4,214,700,49
Eyrarbakki4,715,150,44
meðalt4,084,440,36

Við sjáum að tímabilið 2001 til 2010 er að jafnaði 0,3 til 0,4 stigum hlýrra en það gamla. Tvær stöðvar skera sig úr. Annars vegar Teigarhorn en hins vegar Hlaðhamar í Hrútafirði - þar er eldra tímabilið örlítið hlýrra en það síðasta. Nú mætir freistarinn auðvitað á svæðið og segir að þessar tvær stöðvar verði auðvitað að leiðrétta með valdi. - Freistingin er mikil, en þó er betra að sjóða áður saman einhverjar afsakanir fyrir þeirri breytni. Í þessu tilviki eru afsakanirnar auðfundnar - en hvort þær eru réttar þarfnast yfirlegu.

Nú má fara á flot og velta vöngum yfir hnattrænni hlýnun, orsökum hennar og tímalegum framgangi.  Tímabilin má bera saman á fleiri vegu - kannski gerum við það á næstunni - en ljóst er þó að áhugamenn um slík samanburðarfræði eru fáir.


Stóru veðurkerfin um þessar mundir (vaðið á súðum, cccxxiv-kafli)

Við lítum á stóru veðurkerfin og hreyfingar þeirra þessa dagana. Kortið sem gildir um hádegi á miðvikudag 23. október sýnir heimskautasvæðin og norðanvert Atlantshaf. Svörtu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins en lituðu svæðin segja frá þykktinni. Því þéttari sem jafnhæðarlínurnar eru því hvassara er. Þykktin sýnir hitafar í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Á kortinu er mælt í dekametrum (1 dam = 10 metrar).

w-blogg231012a

Ísland er ekki fjarri miðri mnd og neðst á myndinni má sjá norðurströnd Afríku. Ísland er á milli mikillar, hlýrrar hæðar suðurundan og gríðarlega öflugs kuldapolls milli NA-Grænlands og Svalbarða. Þar er þykktin um 4900 metrar þar sem kaldast er - alvöru vetur. Þykktin yfir Íslandi verður aðeins örsjaldan svo lág. Kuldapollurinn sem í dag er við norðurskautið (hvítt k) hreyfist hratt til suðurs í átt til Skandinavíu.

Mjög hlýtt er í hæðinni suðurundan. Í dag (mánudag) var hún yfir Þýskalandi (rautt x). Þar var sumarþykkt í dag, um 5650 metrar þar sem mest var. Það er einmitt svipað og þegar allra best lætur hér á landi að sumri. Næstu daga stekkur hæðin til vesturs og verður á miðvikudaginn þar sem kortið sýnir. Undanfarna daga hefur verið gert ráð fyrir því að hún tæki annað stökk til vesturs undir lok vikunnar - en eitthvað er reiknimiðstöðin linari á því í dag - það kemur í ljós.

Jökulkalt loft streymir nú suður með austurströnd Grænlands sveigir þar aðallega út á haf í stefnu á Noreg sunnanverðan - en jafnframt fleygar eitthvað af kuldanum sig undir hlýja loftið sem er yfir Íslandi þannig að við sleppum ekki alveg. Verst er þó að sú staða getur komið upp að regn falli niður í kulda og valdi ísingu - rétt að hafa hugann við þann möguleika.

Að þessu loknu eiga lægðardrög (bylgjur) að koma yfir Grænland og fara um Ísland til suðausturs. Fari svo kólnar í áföngum - en of snemmt er að segja frá því.


Ískalt á láglendi - en hlýindi ofan fjalla

Þegar þetta er skrifað (rétt eftir miðnætti laugardagskvöldið 20. október) er mjög kalt víða á landinu, kl. 24 var t.d. -8 stiga frost á Þingvöllum og -6 á Hvanneyri í Borgarfirði. Hlýtt loft er hins vegar yfir - og ekki svo langt uppi. Fyrra kortið hér að neðan sýnir ástandið í 850 hPa-fletinum um miðnæturbil.

w-blogg211012a

Svörtu línurnar sýna hæð flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Þeir sem stækka kortið sjá merkingarnar greinilega, það er 1460 metra jafnhæðarlínan sem hringar sig um landið. Hæstu fjöll standa upp úr fletinum. Lituðu svæðin sýna hitann í honum. Talan yfir landinu norðanverðu er 0,0°C - frostmark. Vindur er hins vegar hægur (vindörvarnar) og blöndun því lítil. Yfirborð landsins veit greinilega lítið af þessum góða hita.

Þetta sést jafnvel enn betur á mættishitakortinu hér að neðan.

w-blogg211012b

Mættishitinn sýnir hversu hlýtt loft í einhverri hæð yrði ef hægt væri að koma því niður í 1000 hPa-flötinn - óblönduðu. Þegar loftþrýstingur er hár eins og í dag er sá flötur ekki við sjávarmál. Þrýstingur á Akureyri nú á miðnætti var 1020 hPa og 1000 hPa eru því ofar, á að giska í 160 metra hæð. Litafletirnir á kortinu sýna mættishitann - hann er 10 til 13 stig yfir mestöllu landinu.

Suður í hafi er enn hlýrra loft - mættishiti nærri 20 stigum vestur af Írlandi. Kortið nær ekki norður í kuldann sem ríkir nú í norðurhöfum - en hann þokast nær næstu daga. Vonandi að við sleppum - en sé að marka langtímaspár eiga tveir myndarlegir kuldapollar að fara til suðurs austan við land í komandi viku - þá í stefnu á Noreg, Danmörku og Þýskaland. Við skulum fylgjast með þeim næstu daga.


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 11
  • Sl. sólarhring: 185
  • Sl. viku: 2458
  • Frá upphafi: 2434568

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 2183
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband