Frekari hlýskeiðasamanburður

Við berum enn saman hlýju áratugina 1931 til 1940 og 2001 til 2010. Nú er það úrkoma og snjór. Úrkomumælingar eru talsvert erfiðari heldur en mælingar á hita og ósamfellur fleiri. Stöðvakerfið hefur einnig breyst mikið frá 1931 - meira hvað úrkomu varðar heldur en hita. En við skulum samt líta á hana - til gamans.

Taflan er byggð upp á sama hátt og þær tvær sem við höfum þegar skoðað. Áratugirnir eiga sína dálka og síðan er dálkur þar sem mismunurinn er sýndur. Einingarnar eru ekki alveg augljósar nema úrkomumagnið sjálft. Meðaltöl tímabilsins 1961 til 1990 eru einnig tilfærð (fremsti talnadálkur).

stikim6190m0110m3140mism-hlýskeiða
meðalúrkoma1015,21171,61020,4151,2
úrkomutíðni (0,1mm)546,6558,6492,765,9
úrkomutíðni (0,5mm)466,0461,5433,428,1
snjóhulumál370,1293,8332,6-38,8
fjallasnjómál663,3600,8647,2-46,4

Fyrsta línan er auðveld - reiknað meðalatal ársúrkomu allra veðurstöðva á viðkomandi tímabili. Úrkoma virðist hafa verið meiri á síðasta tímaskeiðinu heldur en þeim fyrri. Stöðvakerfið hefur breyst þannig að líklega er úrkomumagn vantalið á fyrra hlýskeiðinu, en talsverður munur er á 1961 til 1990 og 2001 til 2010 - þá eru mælingar mun nær því að vera samanburðarhæfar. 

Næst má sjá úrkomutíðni. Talan 546,6 þýðir að á árunum 1961 til 1990 hefur úrkoma, 0,1 mm eða meiri, mælst á 54,66 prósentum allra daga á öllum stöðvum. Munur á hlýskeiðunum tveimur er nálægt 6,6 prósentum. Úrkomudögum hefur fjölgað um 2 til 3 í mánuði. Er þetta raunverulegt? Varla er það - en þetta eru tölurnar. Séu mörkin færð upp í 0,5 mm minnkar munurinn - og 1961 til 1990 fer upp fyrir 2001 til 2010.

Að lokum er mál á snjóhulu. Einingin er þannig að hvert hundrað táknar að alhvítt hafi verið á landinu í mánuð. Við sjáum að á tímabilinu 1961 til 1990 samsvarar meðalsnjóhulan því að alhvítt hafi verið í 3,7 mánuði (miðað við landið allt). Á fyrra hlýskeiðinu var þessi tala 3,3 mánuðir, en aðeins 2,9 á því síðara. Hér munar um 0,4 mánuðum á hlýskeiðunum tveimur (um 12 dögum) en 0,8 mánuðum (24 dögum) á síðara hlýskeiðinu og meðaltalinu 1961 til 1990. Þetta er mikill og athyglisverður munur.

Snjóhula til fjalla miðar við 600 til 700 metra hæð - séð frá veðurstöðvum. Tölur fyrra hlýskeiðsins ná því miður ekki yfir það allt - en látum það vera. Hér munar einnig umtalsvert á dálkunum þremur. Síðara hlýskeiðið er nokkuð snjóléttara heldur en það fyrra.

Niðurstaðan er því sú að úrkoma virðist hafa verið meiri á árunum 2001 til 2010 heldur en 1931 til 1940 en snjóhula minni. Þetta er alveg í anda þess sem hitinn segir okkur - vetur síðara hlýskeiðsins hafa verið marktækt hlýrri heldur en vetur þess fyrra. Hinn litli sumarhitamunur tímabilana skiptir hér engu. Almennt vex úrkoma með auknum hita - en á því eru þó undantekningar. Oftast er talið að úrkoma aukist um 2 til 4 prósent við hvert stig sem hiti hækkar, en hér á landi gæti talan verið hærri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Engar athugasemdir! Hva, hvar eru allir kolefnissafnaðarmeðlimirnir (vá, svaka langt orð) og hvar er hann Páll Vilhjálmsson?

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.10.2012 kl. 12:40

2 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Bíddu við Sigurður - ég hélt að Trausti væri æðstiprestur þar samkvæmt brúðunni og að þú værir að minnsta kosti meðhjálpari... þannig að það eru allavega tveir meðlimir á þessari síðu (þrír ásamt mér, núna - en ég hef svo sem engu við þetta að bæta )

Höskuldur Búi Jónsson, 29.10.2012 kl. 12:58

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Vel mælt og snöfurmannlega!

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.10.2012 kl. 13:33

4 identicon

Það er mikið að það tókst að særa helminginn af höska-svatla tvíeykinu út í kuldann! HÍ-neminn er jafn týndur og venjulega í kolefnisholtaþokufimbulfambinu, eins og sjá má af mjög-svo ógreinilegri ómynd.

En burtséð frá ekki-athugasemdum Sigga með köttinn og Höska í holtaþokunni þá er Trausti enn og aftur að lyfta loftslagsvísindunum á hærra plan. Það færi betur að ungviðið hjá Veðurstofu Íslands hlustaði með athygli þegar nestor vísindanaumhyggjunnar úttalar sig um hinstu rök tilverunnar.

Batnandi mönnum er reyndar best að lifa og nú bregður svo við að Veðurstofan er farin að vara landsmenn við öskrandi norðanáhlaupi með fimbulgaddi og fjárskaða - með tveggja daga fyrirvara (!) - öðru vísi Íslendingum brá í september þegar kolefniskirkjuprestar Veðurstofunnar þögðu þunnu hljóði yfir þeim tóni sem máttarvöldin slógu fyrir komandi fimbulvetur!

Ég hef hins vegar, ólíkt ónefndum veðurvitum, spurningu fram að færa við Trausta: Hvenær (hvaða ár) byrjaði Veðurstofan að innleiða sjálfvirkar (rafrænar) mælistöðvar og hver er sennilegur munur skekkjumarka þegar veðrið er tekið samkvæmt gamla laginu (lesið af mælum) annars vegar eða notast er við sjálfvirkar mælistöðvar?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 29.10.2012 kl. 17:28

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þessir pislar þínir um samanburð hlýskeiða er fróðlegur Trausti.

Það væri svo kannski hugsanlega rétt af þér að koma, í framhaldinu, með hvernig veðrið þróaðist síðan í framhaldi þessara hlýskeiða. Hvort og þá hversu, kólnunin var hröð, hvort úrkoma jókst og svo framvegis. Hvort hugsanlega væri hægt að spá í stórum dráttum um framtíðina, út frá fyrri hegðun veðurfars.

Gunnar Heiðarsson, 29.10.2012 kl. 20:31

6 Smámynd: Trausti Jónsson

Tvær spurningar, stuttaraleg svör. Hilmar: Það er mesta furða hvað sjálfvirkar og mannaðar mælingar fylgjast vel að. Í Reykjavík munar t.d. ekki nema 0,06 stigum á ársmeðalhita á kvikasilfursstöðinni og þeirri sjálfvirku. Sjálfvirka stöðin er þessum 0,06 stigum hlýrri. Í þessu tilviki eru stöðvarnar á svipuðum slóðum. Á Akureyri er 0,08 stigum kaldara á sjálfvirku stöðinni við Krossanesbraut heldur en við lögreglustöðina. Þar er munurinn hins vegar nokkuð misjafn eftir árstímum - enda eru stöðvarnar ekki á sama stað. Fjallað var um mismun stöðvanna á Akureyri í pistli sumarið 2011. Samanburður hefur nú verið gerður á fjölmörgum stöðvum. Gunnar: Við vitum um endalok hlýskeiðsins sem var í blóma 1931 til 1940 - það lifði sæmilega fram til 1965, nema að sumur kólnuðu strax um og upp úr 1950. Um framhald hlýskeiðsins nú vitum við ekkert enn. Það gæti þess vegna lognast út af - eða hlýnunin farið fram úr því sem enn hefur orðið.

Trausti Jónsson, 29.10.2012 kl. 21:13

7 identicon

Þakka skýr og hnitmiðuð svör Trausti.

Samkvæmt þessu upplýsingum er ljóst að tilviljanakennt suð/noise (vikmörk) sjálfvirkra mælistöðva mv. mannaðar á Íslandi mælist 0,1°C(afrúnnað). Þegar hefur komið fram hjá Trausta að hann telur 0,16°C (0,2°C afrúnnað) ekki marktækan mun, en í grein sinni "Af tveimur hlýindaskeiðum" var gefið upp 0,36°C munur á hlýindaskeiðunum tveimur. Ég sé ekki betur en að þessi meinti hitamismunur fari nærri því að flokkast sem tilviljanakennt suð/noise að teknu tilliti til mismunandi mælitækja, mismunandi staðsetningar mælitækja og gróðurfarslegra breytinga. Ef svo er liggur beint við að spyrja hvaða innistæða er fyrir kenningunni um stigvaxandi hnatthita vegna meintrar aukningar gróðurhúsaloftegunda af mannavöldum? Var pólför Ólafs Ragnars þá kannski bara "Publicity Stunt" eftir allt saman?

Í öllu falli svarar Trausti þessum hugleiðingum skýrt og skilmerkilega: "Um framhald hlýskeiðsins nú vitum við ekkert enn."(!) Eureka! Á Íslandi finnast alvöru vísindamenn!

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 29.10.2012 kl. 22:01

8 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þó að ég sé svona almennt í hlýnunarklíkunni þá kæmi mér ekkert á óvart að hámarki þessa hlýindatímabils hafi verið náð í bili hér á Íslandi. 10 ára tímabilið 2003-2012 gæti þannig alveg orðið það hlýjasta í nokkurn tíma, áratugi jafnvel. Það veltur reyndar á því hvort við fáum í nánustu framtíð mjög hlý ár eins og 2003 sem eftir árið í ár dettur út úr 10 ára meðaltalinu aftur í tímann.

Kólnunarsinninn Hilmar þarf því ekki endilega alltaf að hafa rangt fyrir sér í sínu kólnunartali þó mér finnist hann vera svona heldur fullyrðingasamur. Hlýindin hafa bara verið svo eindregin undanfarið að eitthvað gæti farið að láta undan.

En nú þarf drífa sig í að horfa á amerískar sjónvarpstöðvar til fylgjast með henni Sandý.

Emil Hannes Valgeirsson, 29.10.2012 kl. 22:14

9 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Hlýnunin er rykkjótt, hér á landi sem annars staðar.

Hnattrænt er þetta t.d. svona:

http://www.skepticalscience.com/images/TempEscalator.gif

Höskuldur Búi Jónsson, 29.10.2012 kl. 22:41

10 Smámynd: Trausti Jónsson

Það er rétt Emil að erfitt verður fyrir 10-ára meðaltalið að eiga við útgöngu áranna 2002 til 2004. En hver veit nema að okkur leggist eitthvað til?

Trausti Jónsson, 30.10.2012 kl. 00:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 42
  • Sl. sólarhring: 113
  • Sl. viku: 1533
  • Frá upphafi: 2348778

Annað

  • Innlit í dag: 39
  • Innlit sl. viku: 1337
  • Gestir í dag: 36
  • IP-tölur í dag: 35

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband