Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Hver er þokusamasti dagur ársins á landinu?

Við þessu er auðvitað ekkert alveg ákveðið rétt svar - en lítum samt á meðfylgjandi mynd.

w-thoka300511

Hér sjáum við árstíðasveiflu þokuathugana. Ekki ætla ég að tilgreina talningareininguna (lóðrétti ásinn) en það er þó þannig að því hærri sem talan er því algengari er þokan. Lárétti ásinn sýnir mánuði ársins í eitt og hálft ár, merkt er við þann 15. hvers mánaðar.

Greinilega má sjá að þokur eru miklu algengari að sumarlagi heldur en á vetrum, 8 til 9 sinnum algengari. Bláa línan sýnir þetta, en sú rauða er tilraun til útjöfnunar á tilviljanakenndu suði frá degi til dags. Þokutíðnin vex hröðum skrefum í maí og júní, nær hámarki í júlí en síðan dregur snögglega úr tíðninni eftir miðjan ágúst. Lágmarkið er í desember og janúar.

Á myndinni er 6. júlí sá dagur sem sýndi mesta þokutíðni á tímabilinu sem hér er lagt undir, og 1. júlí litlu lægri. Á Suður- og Vesturlandi er dagurinn 5. júlí, 6. júlí norðanlands, en 1. ágúst á Austurlandi. Lítilsháttar munur er á árstíðasveiflu þokutíðni á Norður- og Austurlandi þannig að í maí er þokan tiltölulega algengari norðanlands, en Austurland vinnur síðan heldur á þegar kemur fram á sumarið.

Þokuminnsti dagur ársins er eftir þessu tali 19. desember - fleiri dagar eru ámóta um svipað leyti, enda ýmis konar illviðri tekin fram yfir þoku á þeim árstíma.

Árstíðasveifla þessi er fullkomlega raunveruleg, en hámarks- og lágmarksdagarnir auðvitað ekki. Vikan 1. til 7. júlí er hæst allra sjödagaraða, varla þó marktækt hærri heldur en aðrar vikur júlímánaðar.

Tvennt veldur því að þokutíðnin hegðar sér á þennan veg. (i) Þokutíðni nær hámarki þann stutta tíma árs þegar meðalsjávarhiti er lægri heldur en lofthitinn, sjór kælir þá loft og raki þéttist næst honum. (ii) Vindur eyðir grunnum hitahvörfum, þau fá því mestan frið á þeim tíma árs sem meðalvindhraði er lægstur. þ.e. í júlí og fyrri helming ágústmánaðar.


Fáein orð um skyggni (í tilefni af öskumistri)

Enn léttir ekki vel til þannig að sjáist hvort himininn eða sólin hafa látið á sjá við eldgosið í Grímsvötnum. Líkur á að við sjáum eitthvað spennandi minnka með hverjum deginum eftir því sem gosefnin dreifast meira eða falla til jarðar með úrkomu. En hér koma nokkur orð um skyggni.  

Það er ekki alltaf augljóst hvað átt er við með upplýsingum um skyggni á veðurstöð, sérstaklega í náttmyrkri. Mörgum kemur á óvart að skyggni sé talið „ágætt” þar sem umferðaróhapp hefur átt sér stað í niðamyrkri og bleytu þegar menn af eðlilegum ástæðum kunna varla fótum sínum forráð. Málvenju og veðurlýsingu getur hér greint að. Veðurathuganaskyggni á alltaf við lárétt skyggni, skyggni sem er takmarkað af veðurfyrirbrigðum, en ekki náttmyrkri, skuggum eða ástandi yfirborðs jarðar. Í náttmyrkri er auðveldast að meta skyggni eftir því hversu vel sést til fjarlægra ljósa, en þar sem engin slík eru til staðar er miðað við útlínur í landslagi eða stundum því hvort stjörnur eða tungl sjást neðarlega á himni eða ekki.

Það sem takmarkar skyggni sem skilgreint er á þennan hátt getur verið úrkoma af ýmsu tagi, skafrenningur, ryk, raki, mengun eða þoka. Hægt er að mæla skyggni með nákvæmum mælitækjum. Nöfn á smáum ögnum eru enn nokkuð á reiki í íslensku. Ég nota gjarnan orðið ar yfir smáar agnir í lofti. Arið skiptist síðan í ryk og agnúða. Ryk vita allir hvað er en agnúði er samsafn örsmárra dropa sem innhalda auk vatns uppleyst sölt eða fljótandi efni af ýmsu tagi. En ekki er víst að allir séu sammála um þessa notkun orðanna.

Skerpa útlína í fjarska ræðst af því hversu vel forgrunnur greinist frá bakgrunni. Lítum á skýringarmynd.

w-blogg300511

Myndin er fengin úr prýðilegri kennslubók eftir Daniel J. Jacob (sjá hér að neðan) og sýnir auga (lengst til hægri) nema dreif af sólargeislum sem hafa endurkastast á ýmsa vegu. Á myndinni er grámerktur hlutur sem augað er að reyna að sjá, hlutinn ber í bakgrunn lengst til vinstri á myndinni.

Agnúði og ryk (t.d. aska) valda því að skyggni er verra en væri án hans. Sólargeislar lýsa upp bakgrunn, hlut og agnir sem ber á milli hans og augans. Skyggnið ræðst af þeim mun sem er á geislahneppi 3 (frá bakgrunninum) og hneppi 2 (frá hlutnum). Dreif frá ari framan hlutar inn í sjónlínu (1) og dreif ljóss frá hlut út úr sjónlínu (4) draga úr skyggninu til hlutarins.

Bókin sem myndin er úr er ætluð byrjendum í háskólanámi. Ég mæli með henni:

Jacob, Daniel J., Introduction to Atmospheric Chemistry, Princeton University Press, 1999, 266 s.


Litið yfir norðurhvel (engin leið að hætta)

Við lítum enn á ástandið á norðurhveli, í þetta sinn spá reiknimiðstöðvar evrópuveðurstofa um stöðuna í 500 hPa-fletinum á hádegi á mánudag. Þrekmiklir lesendur hungurdiska ættu að kannast við kortið.

w-blogg290511

Línurnar (rauðar og bláar) sýna hæð flatarins yfir jörð í dekametrum. Þykka, rauða línan sýnir 5460 metra jafnhæðarlínuna, gróflega (mjög gróflega) má segja að sumarið sé sunnan við hana - vorið norðan við. Hin rauða línan er sett við 5820 metra hæð. Þar eru hitabylgjur og hlýindi, reyndar sýnd frekar en gefin en við fjöllum síðar um það ef hún kemur nálægt okkur í sumar. Þar sem línur eru mjög þéttar er hvasst í háloftunum, þar yfir bylgjast heimskautaröstin í kringum norðurhvel.

Á mánudaginn (30.maí) verðum við langt inni í kalda loftinu - að vísu ekki beinlínis í kuldapolli en samt úti í kuldanum. Þegar við litum á þetta kort síðast var mikil hæð norður af Alaska, hún er nú mun minni en áður en hefur byggt brú yfir til Síberíu. Útlit er fyrir að kuldapollurinn öflugi nærri norðurpólnum láti okkur í friði - alla vega í bili.

Von okkar um hlýrra veður byggist á lægðabylgjunum sem fylgja heimskautaröstinni. Þær eru, eins og ég hef áður lýst, jarðýturnar sem ryðja hlýja loftinu á undan sér og leitast við að byggja upp hæðarhryggi með hlýrra lofti.

En hvar gerist það næst? Sumarþyrstum íbúum Norður- og Austurlands nægir að jarðýtunni takist að sveifla röstinni norður til Íslands, þá kemur þar sumarhlýtt loft í vestan- eða suðvestanáttinni, en við hér á Suðurlandi sitjum í bleytu og hálfgerðum hráslaga. Fleiri landshlutar myndu hins vegar njóta þess ef jarðýtum tækist að byggja upp fyrirstöðuhæð sem klyfi röstina. Lengri spár eru afar óljósar um þetta og breytingar detta út og inn eftir því sem nýjar spár berast. En leiðin liggur til sumars því sólin sér til þess að 5460 metra hringurinn þrengist með hverjum degi.


Þokuraus (úr fræðabrekkunni)

Ég nota fyrirspurn Þorkels Guðbrandssonar frá því í gær til sem ástæðu til að varpa fram nokkrum staðreyndum um þoku. Hér á hungurdiskum var lítillega fjallað um þoku í pistli í nóvember síðastliðnum og geta þeir sem nenna rifjað hann upp. En lítum fyrst á skilgreiningu þokunnar í veðurskeytum. Veðurathugunarmönnum er ekki ætlað hverju sinni að senda nema eitt af hundrað veðurorðum sem þeir hafa úr að velja. Margt hefur forgang á þokuna.

Þoku má aðeins nefna í veðurathugunum sé skyggni er minna en 1 km eða hafi verið það undangengna klukkustund. Sé skyggnið meira verður veðrið að heita annað, langoftast þá þokumóða eða mistur. Úrkoma, skafrenningur eða moldrok hafa forgang á þokuna í veðurskeytum. Skyggni er oft minna en 1 km í súldar- og suddaveðri, slyddu eða snjókomu en sjaldan hér á landi í rigningu einvörðungu. Mikil rigning getur þó dregið verulega úr skyggni.

Oft má með réttu segja að þoka sé ský sem liggur á jörðinni, en smámunasamir gera þó mun á. Hún er sveimur örsmárra, nær ósýnilegra vatnsdropa sem eru aðeins 10 til 20 míkrómetrar í þvermál. Þokudroparnir eru miklu minni en regndropar (sjá mynd í nýlegum pistli).

Oftast nær er vatnið í dropunum ekki alveg hreint. Það hefur þést á enn minni ryksögnum eða agnúða og inniheldur því annað hvort rykagnir eða uppleyst sölt (t.d. natríumklórið eða einhver súlföt). Mjög erfitt getur verið að greina á milli þoku af þessu tagi og mjög þéttrar mengunar eða rykmisturs sé skyggni undir 1 km. Besta greiningin að degi til er litarmunur, rykmistrið er þá brúnt, mengunin grænleit, gulleit eða brún, en venjuleg þoka grá.

Þó rykmistur sé mjög algengt hér á landi fer skyggni í því sjaldan niður fyrir 1 km nema að um moldrok sé að ræða (nú - eða mikið öskufall). Efnisagnir í moldroki eða sandbyl eru miklu, miklu stærri en en í því rykmistri sem rugla má saman við þoku. Þó þokukennt mengunarmistur sé því miður orðið algengt aftur í Reykjavík fer skyggni í því þó varla niður fyrir 1 km nema að verulegt vatn fylgi og þar með teljist það fremur til venjulegrar þoku en mengunar.

Skyggni í þoku fer mjög eftir vatnsmagni og við algengustu dropastærð er vatnsmagn um 0,2 g/m3 í rúmmetra sé skyggni 100 m. Þetta vatnsmagn er nokkru minna en þau 0,5 g/m3 sem talið er að þurfi til úrkomumyndunar.

Uppstreymi (lóðréttur vindur) er mjög lítill í þoku, aðeins um 0,01m/s að meðaltali. Ef þokan er 50 m þykk tekur það vatnsdropa um 5000 sekúndur (meir en klukkustund) að lyftast upp í gegn um hana. Þetta takmarkar mjög möguleika hennar til úrkomumyndunar. Hitafallandi (hitabreyting með hæð) í þokunni er votinnrænn, rúmlega 0,5°C/100m og miðað við áðurnefnt uppstreymi er kólnunin því 0,2°C á klukkustund. Langbylgjuútgeislun frá efra borði þokunnar kælir hins vegar oft um 1 til 4°C á klukkustund, geislunarferli eru því mjög ráðandi um líf og þróun þoku. **

Þoku er gjarnan skipt í tegundir eftir myndunarferli og er algengast að tilfærðir séu þrír til fimm myndunarflokkar: Það eru (i) aðstreymisþoka, (ii)útgeislunarþoka, (iii) blöndunarþoka, (iv) lyftingarþoka, (v) særeykur.

Allar gerðir eru algengar hér á landi. Aðstreymisþoka er algengari yfir sjó en landi [Húnaflói og Austfirðir] og særeykur myndast eingöngu yfir sjó eða vatni. Útgeislunarþokan [t.d. dalalæða] myndast langoftast yfir landi, lyftingarþoka myndast yfir landi (eða eyjum). Oft koma fleiri en eitt ferli við sögu hverju sinni þegar þoka myndast og getur verið býsna snúið að greina hana til ættar þannig að allir séu sáttir.

** : Þessi málsgrein á fyrst og fremst við um útgeislunarþoku - vindur blandar aðstreymis- og lyftingarþokum og ræður miklu um gerð þeirra hverju sinni. 


Mikið kuldakast síðustu daga?

Já, eiginlega er það mikið. En það þarf talsverðan uppgröft til að gera því skil tölfræðilega og það er ekki orðið nógu langt eða merkilegt til þess að ég leggi þá vinnu á mig. Ef það endist viku í viðbót er aldrei að vita hvað ég geri. Mesti broddurinn virðist úr kastinu, en samt er ekki spáð afgerandi hlýnun næstu vikuna. Þykktin á erfitt með að komast upp úr bilinu á milli 5280 og 5340 metra. Ekki mjög uppörvandi það.

Ég nota gjarnan langa hitamælingaröð Stykkishólms til að meta kuldaköst og hitabylgjur sem standa aðeins í nokkra daga eða dyljast við að leggjast með óreglulegum hætti á mánaðamót þannig að hefðbundin mánaðameðaltöl duga ekki. Ég held sérstaklega upp á morgunhitann til þessara nota. Ástæðan er sú að hitinn kl. 9 er nálægt því að vera dæmigerður fyrir ástand loftsins almennt yfir landinu á hverjum tíma. Upplýsinga um sérlega kaldar nætur eða sérlega hlý síðdegi verðum við að leita að annars staðar heldur en í Stykkishólmi.

Morgunhitaröðin í Stykkishólmi nær allt aftur til 1846. Við berum hita núlíðandi maímánaðar saman við meðaltal allra áranna.

w-sth_09-mai2011

Lóðrétti ásinn sýnir hitann, sá lárétti daga maímánaðar. Bláa línan sýnir hitann í maí 2011, myndin er gerð þann 26. og nær línan því ekki lengra.  Mikil umskipti urðu þann 19. til 20. og kalt hefur verið síðan. Rauða línan sýnir meðalhita allra annarra ára, 165 að tölu.

Ef við nú berum þetta kuldakast, 19. til 26. maí saman við fyrri ár kemur í ljós að 2011 er í 19. sæti hvað kulda snertir - meðalhiti 3,3 stig. Kaldast var 0,9 stig á sama tíma árið 1860. Allur listinn er í viðhenginu. Þar má sjá - og vekur athygli að árið 2006 er í 7. sæti með meðalhitann 2,3 stig. Skammt undan eru bæði 2005 og 2007. Kuldaköst hafa verið einkennilega algeng á nákvæmlega þessum tíma árs á nýhafinni öld.

Úrvalsdagar þessir voru hlýjastir 1946, meðalmorgunhiti var þá 10,6 stig, ótrúlegt þegar horft er á myndina að ofan. Kuldakastið það vorið byrjaði þ.31. maí og stóð til 12. júní. Kaldasta 8-daga röðin var frá 2. til 9. júní, meðalhiti var þá aðeins 3,7 stig. það er kaldara en var nú - miðað við meðaltal. Mikil leiðindi að lenda í slíku.

Reyndar var það þannig 1946 að maívikan hlýja var hlýrri heldur en meðalhiti í júní til ágúst. Það hefur aðeins gerst tvisvar frá 1846. Auk 1946 var það 1907. Menn geta reiknað þennan mun með því að nota tölurnar í viðhenginu. Þar má sjá meðalhita júní til ágústmánaðar í Stykkishólmi í sérstökum dálki.

Velta má vöngum yfir því hvort líkindasamband sé á milli hita þeirrar viku maímánaðar sem við höfum beint augum að annars vegar og sumarhitans hins vegar. Taki menn viðhengistöfluna inn í töflureikni má sjá á mynd (og reikna) að sambandið er á mörkum þess að vera marktækt í einhverjum skilningi. Aðfallslína sýnir að sumur eru ívið líklegri til að vera hlý sé maívikan það heldur en sé hún köld. Líklegra er að köld vika komi í köldu ári heldur en hlýju - en fyrir alla muni takið ekki mark á spádómum af þessu tagi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Um vindhraðamet 24. maí (fóðri kastað til nördanna)

Nú eru liðin 15 til 17 ár síðan farið var að mæla vindhraða á fjölda sjálfvirkra stöðva. Vindáttir ráðast mjög af landslagi og staðháttum á hverjum stað þannig að góð hugmynd fæst um tíðni þeirra eftir að athugað hefur verið í 1 til 2 ár. Mæla þarf í nokkur ár til viðbótar þess að hægt sé að taka saman upplýsingar um tíðni mismunandi vindhraða þannig að vit sé í. Áætlanir um hámarksvindhraða þurfa hins vegar lengri athugunarraðir, helst ekki minna en 7 ár - og helst sem flest. Sjaldgæf veður eru sjaldgæf.

Vindhraðagagnasafn Veðurstofunnar bólgnar út með hverju árinu og nú fer að verða í lagi að líta á þau met þess tíma sem athuganirnar taka til. Í viðhenginu er listi með hæsta 10-mínútna meðalvindhraða og mestu vindhviðu allra sjálfvirkra stöðva í maí. Þarna má líka finna upplýsingar um stöðvar sem eru nýjar - en þó er engin stöð listanna minna en ársgömul. En ekki ber að taka mark á stöðvum sem mælt hafa í minna en 3 til 4 ár, met þeirra hrynja umvörpum í illviðrum eins og þeim sem hafa gengið yfir landið í núlíðandi maímánuði. Ástæða er að taka fram að villur geta leynst í listanum.

Sömuleiðis er ástæða til að benda á að hér eru hinar hefðbundnu sjálfvirku stöðvar og stöðvar Vegagerðarinnar í einni hrúgu. Vegagerðarstöðvarnar eru flestar (þó ekki allar) í um 6 metra hæð frá jörðu, en eru sneggri að bregðast við vindhviðum heldur en aðrar stöðvar. Venjulega er miðað við 10 metra hæð þegar vindhraði er mældur. Strangt tekið eru því stöðvagerðirnar ekki alveg samanburðarhæfar. Fleira gerir mælingar óvissar en er ekki rakið hér.

Lítum nú á hæstu gildin listans - fyrst 10-mínútna meðalvindhraða, munum að hann nær aðeins til maímánaðar:

      byrjar     nær til      metár  metdagurmet(m/s)nafn
199620102001741,2 Skálafell
2004201020071735,4 Stórhöfði sjálfvirk stöð
1994201020091134,5 Sandbúðir
1998200220013132,1 Auðbjargarstaðabrekka
2000201020013131,3 Vatnsskarð eystra
199420102004631,1 Gagnheiði
1997201020013130,2 Bjarnarey
2003201020091330,2 Hveravellir sjálfvirk stöð
1996201019981330,2 Fróðárheiði
199920102004230,1 Papey

Við sjáum að þetta eru allt staðir sem þekktir eru fyrir mikil hvassviðri. Skálafell og Gagnheiði eru á fjallstindum, Stórhöfði er talsvert hærri en umhverfið og Bjarnarey og Papey eru líka úti fyrir ströndinni. Sandbúðir eru á berangri á hálendinu og einnig er lítið skjól að hafa á veðurstöðvarhæðinni á Hveravöllum. Fróðárheiði og Vatnsskarð eystra eru skörð á milli hærri fjalla. Svo er þarna Auðbjargarstaðabrekka á Tjörnesi - mikill illviðrastaður þegar svo ber undir.

Tíu hæstu hviðustaðirnir eru:

byrjarnær til metármetdagurmet(m/s)nafn
1996201019981353,4 Skálafell
200020102006251,7 Lómagnúpur
1996201020013148,3 Oddsskarð
1999201020062348,2 Kjalarnes
1996201020011546,8 Seyðisfjörður
199820102006346,0 Steinar
200020102009845,3 Hraunsmúli
200020052000744,6 Kolgrafafjörður
199420102000344,1 Þverfjall
200020102009144,1 Vatnsskarð eystra

Hér er úrvalið annað. Skálafell er þarna enn á toppnum og Þverfjall vestra og Oddsskarð eru fjallastöðvar sem bætast á listann. Síðan eru nokkrir staðir á láglendi. Lómagnúpur þar hæstur. Þar hafa vindhraðamælingar stundum þótt vafasamar vegna meintra rafmagnstruflana en hér trúum við þessari mælingu. Kjalarnes (við Móa) er auðvitað frægur hviðustaður og hinir staðirnir einnig. Þarna er líka Seyðisfjörður, en sjálfvirka stöðin þar er reyndar ekki inni í bænum heldur stendur hún eina 90 metra yfir sjó út með firðinum - ætti eiginlega að heita annað.

En kemur nú að tilefni pistilsins, veðrinu 23. til 24. maí. Þá var hvasst víða, á fjórum stöðvum það hvassasta á árinu, sé miðað við 10-mínútna meðalvindhraða:

ármándagurklstáttfxfgnafn
2011524934130,436,7 Höfn í Hornafirði sjálfvirk stöð
20115241333625,732,3 Seyðisfjörður*
2011524325635,960,5 Hamarsfjörður*
2011519228122,835,3 Króksfjörður*

Hér má sjá ár, mánuð, dag og klukkustund. Síðan koma vindáttin í gráðum (réttvísandi), mesti 10-mínútna meðalvindhraði, mesta vindhviða og að lokum nafn stöðvarinnar. Stjarna á eftir nafninu táknar að meiri hviða hefur mælst á stöðinni fyrr á árinu.

Ný maímet voru sett á 30 stöðvum sem athugað hafa i 5 ár eða meira auk fjölmargra meta á stöðvum sem mælt hafa styttri tíma - taflan í viðhenginu er sumsé þegar orðin úrelt. Ekki bæti ég úr því fyrr en í fyrsta lagi eftir að mánuðinum er lokið (því hver veit hvað gerist síðustu 6 dagana - eftir allan þennan skít).

En methviðulistinn hér fyrir ofan er líka úreltur. Því vindhviðan í Hamarsfirði í listanum hér að ofan, 60,5 m/s, sló methviðuna á Skálafelli (53,5 m/s) svo um munaði. Það met hafði staðið síðan 1998. Svo virðist sem við verðum að trúa þessu því óvenju hvasst varð á fjölmörgum stöðvum sunnan- og suðaustanlands. Neðst í viðhenginu má sjá rjómann fleyttan ofan af því - þar er listi um hvössustu vinda þann 23. og 24. maí. 

Athugasemd vegna gossins.

Nú er lag að fylgjast vel með lit himins og sólar þegar færi gefst. Talsverð móða er í lofti. Hún gerir himininn hvítari heldur en hann á að sér að vera - ástandið nú (að kvöldi 25. maí) er þó ekkert óvenjulegt - himinninn er þrátt fyrir allt blár í hvirfilpunkti. Aska í heiðhvolfi sést best við sólsetur í heiðskíru veðri, móðan í neðri lögum er fullmikil til að hún sjáist meðan albjart er. Ef til vill er engin aska þar uppi, en gaman er að leita.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sólarhringsúrkomumet í maímánuði

Nú skal byrjað þar sem frá var horfið í pistlaröðinni áður en Grímsvatnagos ruglaði hungurdiska í ríminu. Við lítum á sólarhringsúrkomumet veðurstöðva í maí. Fyrir nokkrum dögum rigndi meira sumstaðar austanlands en áður hefur gert í maí. Minnst var á líklega ástæðu þeirrar rigningar í pistli fyrir nokkrum dögum. Gerð skýringarmyndar þvælist í huga mínum - alla vega hefur mér ekki enn tekist að hrista hana fram úr erminni - hvorki á vitrænan hátt né með ósjálfráðri skrift. Má vera að hún detti út síðar.

En aðallistinn er í viðhenginu. Þar má finna fjóra lista, nördum til heilsubótar. Sá fyrsti sýnir mestu sólarhringsúrkomu í maí á sjálfvirku stöðvunum. Þar fyrir neðan eru mönnuðu stöðvarnar frá 1961 til 2010 (árið 2011 sumsé ekki með) og síðan eru eldri mælingar, eldri en 1961. Elsta metið er frá því í maí 1858 sýnist mér. Hér á að hafa sterklega í huga að úrkoma hefur aðeins verið mældi í örfá ár á sumum stöðvum, jafnvel aðeins eitt í sumum tilvikum. Varla þarf að taka fram að þær tölur eru lítt marktækar, auðvitað getur eitthvað sem kalla má metúrkomu hafa lent á mælingaári en líklegra er að það hafi ekki gerst.

Almennt er talið að mæla þurfi úrkomu í 20 til 30 ár til þess að tak náist á líklegri hámarksúrkomu stöðvarinnar.

Neðst eru síðan dægurmet maímánaðar, nýjum metum hefur ekki verið bætt við og nær listinn aðeins til 2010. Ein stöð, Kvísker í Öræfum, á þar 13 met af 31. Þar mældist mesta sólarhringsúrkoma á landinu í maí að morgni þess 16. 1973.

Hér eru hæstu sólarhringsgildin - í millimetrum:

ármánúrkstöð
197316147,0 Kvísker
200911136,0 Grundarfjörður
198622135,0 Siglufjörður
199811130,2 Bláfjöll, úrkomustöð
198920122,2 Kvísker
19938118,2 Grundarfjörður
19829110,0 Kvísker
200911107,2 Ölkelduháls
194225106,5 Hólar í Hornafirði
194425106,1 Hólar í Hornafirði
19787105,8 Snæbýli
200912104,2 Nesjavellir
19901103,2 Nesjavellir
19901100,0 Andakílsárvirkjun

Dagsetningin á við maímánuð. Stöðvarnar í Bláfjöllum og við Ölkelduháls eru sjálfvirkar. Talan frá 2009 í Grundarfirði á við sjálfvirku stöðina þar, en sú frá 1993 á við mannaða stöð sem þar var um nokkurra ára skeið. Sjálfvirk stöð var nýlega sett upp á Kvískerjum, en hún hefur aðeins mælt tvo maímánuði og hefur ekki enn hitt á mikla úrkomu á þeim tíma árs.

Ein ískyggileg tilviljun er í listanum hér að ofan, tölurnar frá Hólum í Hornafirði eru nærri því eins, báðar mældar sama maídag, en sitthvort árið, 1942 og 1944. Þetta er svo ótrúleg tilviljun að hún getur varla verið rétt - en þessi gildi standa bæði í Veðráttunni - og í úrkomutöflu sem var tölvuskráð óháð henni fyrir nokkrum árum. En ég hef ekki flett upp þessum dögum í frumgögnunum. Við skulum því trúa þessu þar til annað kemur í ljós.

Hvar á að staðsetja Ölkelduháls? Segir maður við Hengil eða ofan Hveragerðis - eða hvað?


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Óþverraveður í dag (23. maí)

Óþverraveður var á landinu í dag, hvöss norðanátt með slyddu og snjókomu á Norður- og Austurlandi og öskubyl um hluta Suðausturlands. Einnig var leiðindaveður á Vesturlandi. Um miðnæturbil mátti sjá óvenjulegt samspil ljóss og skuggalegra skýja á himni yfir höfuðborginni. Mikið kóf var norðurundan og erfitt að greina hvað af því voru éljadrög og hvað aska.

Hríðarkast af þessu afli er auðvitað ekki algengt seint í maí, þótt ekki þurfi að leita mörg ár aftur í tímann til að finna ámóta. Ég veit að algengustu köstin á þessum tíma koma þegar snörp lægðardrög koma suðaustur yfir Grænland en aðstæður eins og þær sem við nú búum við eru sjaldséðari. Meir um þær hér að neðan.

Hvað sem má um hríðarveðrið segja er öskubylurinn á Suðausturlandi mun óvenjulegri. Hvassviðri eru samt ekki óalgeng þar um slóðir í maí - við skyndileit fann ég strax fáein dæmi. Á Kirkjubæjarklaustri var langoftast allgott skyggni í þessum veðrum og úrkoma engin. Í örfáum tilvikum var getið um sandfok og að skyggni væri lítillega takmarkað af þeim sökum - en ekkert á við ástandið í dag - mjög langt frá því.

En lítum í fljótheitum á stöðuna - fyrst á gervihnattamynd af vef Veðurstofunnar (seviri 23.5. 2011 kl. 23).

w-blogg240511a

Hér má sjá þrjár lægðir. Sú sem er milli Skotlands og Noregs olli ofsaveðri á þeim slóðum í dag, tugþúsundir heimila á Skotlandi urðu rafmagnslaus um hríð og tré brotnuðu og þök tók af húsum. Önnur lægð er í uppsiglingu langt suðvestur í hafi. Hún á einnig að fara í austur. Þótt hún líti mjög efnilega út er hún tengd þungskreiðri bylgju í háloftunum og fer með henni til Bretlandseyja. Vel má vera að mikið rigni þar úr henni og síðar einnig víðar í Evrópu.

Lægðin okkar í dag er fyrir austan land og hreyfist nú til suðurs. Hún er nú vonandi að komast framhjá landinu - alla vega stígur nú loftvog austanlands eftir að hafa fallið talsvert í dag. Til morguns sameinast hún Skotlandslægðinni - eða þær fara að ganga í kringum hvor aðra jafnframt því sem allt kerfið fer til norðausturs. Hér lægir því mikið til morguns - misjafnt þó hvenær veðrið gengur niður.

En við skulum líka líta á þykktarkort okkur til gamans. Það er fengið af brunni Veðurstofunnar og gildir kl. 9 að morgni þriðjudagsins 24. maí.

w-blogg240511b

Heildregnu línurnar tákna þykktina í dekametrum. Þykktin er mælikvarði á meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs og er því meiri eftir því sem hlýrra er. Litafletirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum en hann er nærri 1300 metra hæð yfir sjó. Bæði þykkt og hiti í 850 eru óvenjulág. Hringrás lægðarinnar austan við land (og fleira) hefur þó náð í lítillega hlýrra loft. Hæsta gildi yfir landinu er 5320 metrar, en vestan við land er um 10 stigum kaldara loft, innsta jafnþykktarlínan er 5220 metrar.

Sjórinn hitar kalda loftið baki brotnu en jafnframt hreyfist það til norðausturs og mun hér lítið hlýna fyrr en það er komið norðaustur fyrir land á fimmtudag. Dagurinn á morgun mun þó njóta þess að vind lægir og sólin fær að hita landið þannig að mun hlýrra verður vonandi yfir miðjan daginn heldur en var í dag. Miðja kuldapollsins fer yfir landið á aðfaranótt miðvikudags, þá um morguninn gera sumar spár nú ráð fyrir úrkomu syðst á landinu - rigningu, slyddu eða snjó - allt eftir því hversu úrkoman verður mikil, hvað klukkan er og hvort vindur stendur af sjó eða landi meðan á henni stendur.

Lítum líka á spákort fyrir morgundaginn sem nær yfir miklu stærra svæði. Þetta kort er fengið frá evrópsku reiknimiðstöðinni sem hungurdiskar vitna oft til og sýnir hæð 500 hPa-flatarins á stóru svæði á norðurhveli. Ekki má rugla saman þykktinni og hæð 500 hPa flatarins, oftast er misgengi á milli legu þykktar- og hæðarflata, þótt þeir fylgist þó að í stórum dráttum.

w-blogg240511c

Rauða línan sýnir 5460 metra jafnhæðarlínuna - við viljum helst vera sunnan hennar á þessum árstíma, aðrar jafnhæðarlínur eru teiknaðar með bláum lit (nema 5820 metra línan alveg syðst á kortinu). Hér sjáum við háloftalægðina austan við land. Einnig má sjá lægðina suður í hafi og minnst var á áðan. Hún hefur nær lokað sig af frá kerfunum norðar, en hún ýtir hæðarhrygg upp á undan sér rétt eins og jarðýta sem náð hefur góðu taki á jarðveginum (og færir sjálfa sig nærri á kaf í leiðinni). Hæðarhryggurinn er merktur með grænu. Hann bælir vonandi úrkomu þar sem hann fer hratt yfir og rauða línan nálgast tímabundið.

Við sáum á svona korti fyrir nokkrum dögum að mikil hæð yfir N-Íshafinu vestanverðu þrýstir kalda loftinu langt suður á bóginn við N-Atlantshaf og gerir það enn. Meðan þetta ástand varir verður erfitt að koma hlýjum hæðum til Íslands. Upprennandi hæðarhryggir sem jarðýtur úr vestri skafa upp ná ekki að kljúfa kalda loftið sem nú afmarkast af svæðinu innan rauðu, breiðu línunnar. Síðar í vikunni eiga lægðardrög úr vestri að koma línunni til Íslands, en aðeins andartak - og varla.


Mjög almenn orð um gosmekki

Já, gosið veldur áfram smáhiksta á bloggsíðu hungurdiska. Koma verður að fáeinum hugleiðingum tengdum útbreiðslu gosefna. Stjörnufræðivefurinn er með fróðleik um gosmekki sem áhugasamir ættu að endilega lesa. Síðan bendi ég á pistil sem ritaður var í fyrra á vef Veðurstofunnar um lóðrétta útbreiðslu ösku. Hann var reyndar skrifaður með Eyjafjallajökulsgosið í huga og það var ekki eins öflugt og Grímsvatnagosið nú. En þar má samt finna almennan fróðleik sem ætti að gagnast einhverjum ef gosið stendur í nokkra daga og minnkar jafnframt.

En hér er mynd sem á við öflugan gosmökk eins og þann sem braust upp í heiðhvolfið á fyrsta degi Grímsvatnagossins.

w-blogg230511

Á myndinni er gosmökkur sem þarf að brjótast upp í gegnum tvær hindranir. Annar vegar hitahvörf sem oftast má finna við efra borð jaðarlagsins svokallaða, upphaf Grímsvatnagossins tók varla eftir þeim. Veðrahvörfin eru hins vegar erfiðari biti. Rauða, mjóa línan á myndinni á að tákna hvernig hiti breytist með hæð. Hafið þó í huga að enginn kvarði á við línuna, heldur eru með henni einungis afmörkuð svæði þar sem hiti ýmist fellur (línan hallast til vinstri), stígur (línan hallast til hægri) eða helst óbreyttur (línan lóðrétt).´

Í jaðarlaginu fellur hiti venjulega um 0,5 til 1,0 stig á hverja 100 metra hækkun, þar ofan á koma hitahvörf - hiti stígur lítillega með hæð. Þar ofan við fellur hiti aftur um 0,5 til 0,8 stig á 100 metra hækkun. Ofan veðrahvarfa fellur hiti ekki neitt og þau leggjast með ofurþunga á uppstreymi. Við getum fjallað betur um eðli veðrahvarfanna síðar, en auðvelt er að hugsa sér þau sem einskonar gúmmímottu sem liggur yfir veðrahvolfinu. Sprengingarnar stóru í gosinu eru eins og hnefi sem rekinn er upp undir mottuna, krafturinn í hnefanum lyftir henni upp, en þar sem hún er úr gúmmíi er alveg sama hversu mikið hún er lamin, hún leggst jafnharðan í fyrri stöðu. Þegar sprengingar minnka, ná þær ekki lengur að hreyfa við veðrahvörfunum.

Gjarnan er sagt að öflugt uppstreymi yfirskjóti þegar það fer lengra heldur en eðlileg jafnvægistaða þess er.

Á fyrstu myndum af gosinu (kvöldið 21. maí) mátti vel sjá loft ryðjast að veðrahvörfunum og stór hringur myndaðist neðan við þau - því var líkt við sveppský kjarnorkusprengingar. Mikið af gosefnum sem kemst upp að veðrahvörfunum fer því ekki upp í heiðhvolfið heldur ryðst það til hliðanna. Á neðra borði skýsins má þá sjá júgurmyndanir, rétt eins og í miklum þrumuveðrum eða í stórum eldsvoðum þar sem þak hindrar uppstreymi reyks og hann leitar til hliðar frá eldstólpanum.

Séu lægri hitahvörfin öflug geta júgurský einnig myndast þar. Í dag (22. maí) hittist þannig á að megnið af veðrahvolfinu var tiltölulega stöðugt og aska hefur því breiðst út á mjög flókinn hátt. Ekki er viðlit að gera grein fyrir því hér.

Í kringum gosmekki myndast oft mjög mjúk ský, jafnvel linsur sem skera sig í útliti mjög frá ólgunni í gosmekkinum sjálfum.

Ég bendi aftur á fróðleikspistil fyrra árs um lóðrétta útbreiðslu gosefna. Meiri fróðleik um gosmekki má þar einnig finna sé vel leitað.


Gosmökkur braust góðan spöl upp í heiðhvolfið

Það kom mér satt best að segja á óvart að gosmökkur úr Grímsvötnum skyldi ná svo hátt sem raun ber vitni. Mikið þarf til að sprengja leið upp í heiðhvolfið. Ég held að Eyjafjallajökli hafi varla tekist það. Ætli það teljist ekki ólíklegt að slíkt ástand vari lengi. En þegar þetta er skrifað (upp úr miðnætti aðfaranótt 22. maí) sýnir ratsjá Veðurstofunnar mökk upp í um 15 km hæð. Algengast er að gosmekkir fletjist út við veðrahvörf. Trúlega hafa það verið þau sem sáust á fallegum myndum sem teknar voru í kvöld sem stór kragi utan um mökkinn.

Ratsjármyndin er fengin af brunni Veðurstofunnar og sýnir mestu hæð endurvarps sem ratsjáin nemur á hverjum stað. Hér ætti að hafa í huga að ratsjáin myndi ekki sjá lágan mökk úr Grímsvötnum.

w-blogg220511a

Veðrahvörfin voru kl. 23 í um 9 km hæð yfir Keflavík. Vindur er hvergi mjög hvass þar sem gosmökkurinn fer í gegn, en stendur af ýmsum áttum. Sjá má vind í veðrahvolfinu og allra neðst í heiðhvolfinu á háloftaathuganasíðu Veðurstofunnar. Háloftaritið nær upp í um 100 hPa-þrýsting, á hádegi í dag var sá flötur í um 16 km hæð.

Í neðstu 3 km er vindur aðallega af norðaustri, síðan tekur við hægviðrissvæði, en hann er hægur að vestan eða norðvestan í 5 km en er suðvestlægari við veðrahvörfin. Ofar snýst vindur til suðausturs og að lokum austurs í um 24 kílómetra hæð. Á þessum tíma árs ríkja austanáttir í heiðhvolfinu ofan við 18 til 20 kílómetra og eru algengar neðar. Við veðrahvörfin ríkir vestanátt á öllum tímum árs þótt frá því geti brugðið fáeina daga í senn.

Fín gosefni hafa því borist í ýmsar áttir nú í upphafi goss og þarf góð líkön til að spá áframhaldandi dreifingu þeirra - og auðvitað upplýsingar um hæð og eðli gosmakkarins á hverjum tíma. Ekki létt verk það. Ég veit að von hefur verið á ýmsum tækjabúnaði til landsins til að fylgjast betur með gosum en gert hefur verið til þessa - en ég veit ekki hvernig þau mál standa.

Hungurdiskar fjalla ekki um eldvirkni og stunda þar að auki ekki heldur öskufallsspár. En þeir sem slíku sinna munu hafa nóg að gera næstu daga. Vonandi mun gosið ekki valda miklum vandræðum þótt það virðist heldur öflugra heldur en síðustu Grímsvatnagos. Sé gömlum blöðum flett má sjá að gos í Vatnajökli hafa oft sést frá Reykjavík og eldingar þeim tengdar.

 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 12
  • Sl. sólarhring: 183
  • Sl. viku: 2459
  • Frá upphafi: 2434569

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 2184
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband