Gosmökkur braust góðan spöl upp í heiðhvolfið

Það kom mér satt best að segja á óvart að gosmökkur úr Grímsvötnum skyldi ná svo hátt sem raun ber vitni. Mikið þarf til að sprengja leið upp í heiðhvolfið. Ég held að Eyjafjallajökli hafi varla tekist það. Ætli það teljist ekki ólíklegt að slíkt ástand vari lengi. En þegar þetta er skrifað (upp úr miðnætti aðfaranótt 22. maí) sýnir ratsjá Veðurstofunnar mökk upp í um 15 km hæð. Algengast er að gosmekkir fletjist út við veðrahvörf. Trúlega hafa það verið þau sem sáust á fallegum myndum sem teknar voru í kvöld sem stór kragi utan um mökkinn.

Ratsjármyndin er fengin af brunni Veðurstofunnar og sýnir mestu hæð endurvarps sem ratsjáin nemur á hverjum stað. Hér ætti að hafa í huga að ratsjáin myndi ekki sjá lágan mökk úr Grímsvötnum.

w-blogg220511a

Veðrahvörfin voru kl. 23 í um 9 km hæð yfir Keflavík. Vindur er hvergi mjög hvass þar sem gosmökkurinn fer í gegn, en stendur af ýmsum áttum. Sjá má vind í veðrahvolfinu og allra neðst í heiðhvolfinu á háloftaathuganasíðu Veðurstofunnar. Háloftaritið nær upp í um 100 hPa-þrýsting, á hádegi í dag var sá flötur í um 16 km hæð.

Í neðstu 3 km er vindur aðallega af norðaustri, síðan tekur við hægviðrissvæði, en hann er hægur að vestan eða norðvestan í 5 km en er suðvestlægari við veðrahvörfin. Ofar snýst vindur til suðausturs og að lokum austurs í um 24 kílómetra hæð. Á þessum tíma árs ríkja austanáttir í heiðhvolfinu ofan við 18 til 20 kílómetra og eru algengar neðar. Við veðrahvörfin ríkir vestanátt á öllum tímum árs þótt frá því geti brugðið fáeina daga í senn.

Fín gosefni hafa því borist í ýmsar áttir nú í upphafi goss og þarf góð líkön til að spá áframhaldandi dreifingu þeirra - og auðvitað upplýsingar um hæð og eðli gosmakkarins á hverjum tíma. Ekki létt verk það. Ég veit að von hefur verið á ýmsum tækjabúnaði til landsins til að fylgjast betur með gosum en gert hefur verið til þessa - en ég veit ekki hvernig þau mál standa.

Hungurdiskar fjalla ekki um eldvirkni og stunda þar að auki ekki heldur öskufallsspár. En þeir sem slíku sinna munu hafa nóg að gera næstu daga. Vonandi mun gosið ekki valda miklum vandræðum þótt það virðist heldur öflugra heldur en síðustu Grímsvatnagos. Sé gömlum blöðum flett má sjá að gos í Vatnajökli hafa oft sést frá Reykjavík og eldingar þeim tengdar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Miklir jarðfræðilegir atburðir að gerast á Íslandi - og hvorki í fyrsta né síðasta skipti líklega. Eitt sem fáfróður maður veltir fyrir sér eru áhrif þess á veðurfar næstu misserin þegar aska frá öflugu eldgosi berst upp í heiðhvolfið. Á seinni hluta síðustu aldar minnist ég áhrifa þriggja slíkra gosa á veðurfar, þ.e. Mt. St. Helens, Pinatubo og svo eldfjallsins í Mexico sem ég man aldrei hvað heitir. Þau gætu hafa verið fleiri, enda mitt minni brigðult. Svo er að sjá af upplýsingum sem borist hafa, að aska frá Grímsvatnagosinu nú hafi farið hærra upp en frá gosinu í Eyjafjallajökli í fyrra. Reyndar mun sá munur á þessum tveimur gosum að þetta gos er talið basískt, en hitt var súrt og ísúrt. Einhversstaðar las ég að meðal þess sem munaði á súrum og basískum öskukornum að þau basísku væru grófari og þyngri og "flytu" því ekki eins lengi í háloftunum. Allt með fyrirvara um mitt svikula minni og lítinn skilning. Maður á kannski ekki von á að það sé hægt að sjá svona hluti fyrir, en skaðlaust að velta þessu fyrir sér.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 22.5.2011 kl. 07:59

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þorkell. Ólíklegt er að þetta gos hafi áhrif á veðurfar, en það verður þó athyglisverðara en venjulega að fylgjast með ásýnd og lit himins og sólar næstu daga og vikur. Fyrir þremur árum (minnir mig) urðu tvö allstór gos á norðurhveli, annað á Kamtchatka en hitt í Alaska. Greinilega mátti þá um sumarið sjá ösku frá þessum gosum yfir Íslandi í fáeina daga. Var eins og net væri á himni - en sást ekki lengi og aðeins í nær heiðskíru veðri.

Trausti Jónsson, 23.5.2011 kl. 00:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 422
  • Sl. sólarhring: 425
  • Sl. viku: 2201
  • Frá upphafi: 2347935

Annað

  • Innlit í dag: 375
  • Innlit sl. viku: 1907
  • Gestir í dag: 355
  • IP-tölur í dag: 345

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband