Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011
22.1.2011 | 01:29
Snjódýptarmet janúarmánaðar
Víða á landinu er erfittt er að mæla snjódýpt. Skafrenningur dregur snjóinn í stóra skafla og oft er autt á milli þeirra. Í sumum veðrum snjóar einhver ósköp en allt lendir út í sjó eða ofan í skurðum. Þá er erfitt að mæla.
Talsvert af snjódýptargögnum er til á Veðurstofunni og eru þær mælingar nokkuð samfelldar og áreiðanlegar á slatta af stöðum í fáeina áratugi. Fyrir þremur árum rúmum tók ég saman pistil á vef Veðurstofunnar um snjódýptarmet ársins fyrir landið í heild og einnig Reykjavík sömuleiðis er þar nokkur fróðleikur um fleira þessu tengt. Nú er þægilegt að grípa til tengils á pistilinn.
En eitthvað verða þeir sem þegar hafa lesið gamla pisitilinn og muna hann (hversu margir skyldu þeir vera???). Hér má því í viðhengi finna lista með mestu snjódýpt í janúar á allflestum þeim stöðvum sem mælt hafa snjódýpt. Sá er hængur á að tölvugögn Veðurstofunnar um snjódýpt eru ekki samfelld á öllum stöðvum nema frá 1965. Nokkrar stöðvar gera þó betur. En þeir sem kunna tímaritið Veðráttuna utanbókar taka hugsanlega eftir því að snjódýpt áranna 1957 til 1960 er ekki í listanum og sömuleiðis vantar 1961 til 1964 á nokkrum stöðvum. Er beðist velvirðingar á þessu og vonandi tekst um síðir að gera skrárnar gatalausar - þannig að þar séu alla vega þær mælingar sem til eru.
Listann á að lesa með varúð. Hann er aðeins grisjaður þannig að hafi snjódýptin mælst sú sama marga daga í röð er aðeins fyrsti dagurinn í röðinni.
Mesta snjódýpt sem mælst hefur í janúar á landinu er 218 cm 20. janúar 1974 á Hornbjargsvita.
21.1.2011 | 00:29
Janúarúrkoma í Stykkishólmi 1857 til 2010
Eins og fram hefur komið áður á hungurdiskum hefur úrkoma verið mæld í Stykkishólmi nær samfellt frá því haustið 1857. Nú sjáum við loksins línurit þar sem enga leitni er að sjá - ekkert að gerast nema niðurinn í vestanvindabeltinu
Ef maður horfir nógu lengi á myndina má þó sjá fáein tímabil þegar úrkoma var meiri en annars. Það fyrsta er í kringum aldamótin 1900, síðan aftur frá því upp úr 1920 og fram til 1935 og að lokum í kringum 1990. Miðtímabilið var hlýtt, en hin tímabilin ekki. Þótt meiri úrkoma sé reyndar í hlýjum janúarmánuðum heldur en köldum nær sú regla ekki máli ef mörg ár eru tekin saman. Reglur sem eiga við einstök ár þurfa ekki að eiga við lengri tímabil. Athugum það.
Langmesta úrkoman var í janúar 1933 en minnst aðeins 3 árum síðar, 1936. Veðurlag var mjög óvenjulegt á árinu 1933 - þá kom sumarið sem norðlendingar bíða enn eftir. Veturinn 1935 til 1936 var mjög líka óvenjulegt og þá sat á landinu einhver eindregnasta norðanátt allra tíma. Það var líka fremur kalt, en einhvern veginn fór lítið fyrir þeim kuldum í hlýindaskeiðinu miðju.
Ég ætlast ekki til að lesendur bloggsins muni nokkurn skapaðan hlut, en í haust skrifaði ég pistil um Ísland og vestanvindabeltið. Þar kom m.a. fram að í janúar er vestanáttin (heimsskautaröstin) í sinni suðlægustu stöðu og Ísland ekki alveg eins í miði suðlægra loftstrauma og í desember og febrúar. En þetta er bara meðaltal - mesta sólarhringsúrkoma á Íslandi mældist í janúar. Hiti hefur einnig komist í nærri 20 stig í janúar.
20.1.2011 | 00:11
Daglegur lágmarkshiti 2010
Í gær litum við á daglegan hámarkshita á landinu á árinu 2010. Við skiljum lágmarkshitann ekki eftir. Þar er alltaf vandamál að greina á milli láglendis og hálendis eða byggða og óbyggða.
Þegar kuldar eru miklir á vetrum er reyndar ekki mjög mikill munur á lægsta hita á hálendi og á þeim byggðum sem næst hálendisbrúninni standa. Þetta á einkum við daga þegar vindur er hægur. Þá ræður útgeislun ríkjum og myndarleg hitahvörf myndast - einkum þó yfir sléttlendi. Við þessi skilyrði geta stöðvar í tiltölulega grunnum bollum á láglendi einnig gerst býsna kaldar.
Þær stöðvar sem hærra liggja í landinu eru þó líklegri til landslágmarka að vetrarlagi. Það er vegna þess að í byrjun kuldakasta þarf kalt loft að hafa borist að úr norðri með hvössum vindi. Þá munar um 3 til 4 hundruð metra lyftingu (og þar með kælingu) sem orðin er þegar loftið kemst að hæstu byggðastöðvunum. Þær fá sem sagt 2-4 stiga forskot á stöðvar sem lægra liggja áður en útgeislunin tekur völdin. Stundum nægir þetta forskot ekki marga daga.
Þegar lygnir eftir norðanátt fer annað ferli í gang. Það loft sem kólnar leitar út frá landinu, einskonar afrennsli. Í stað þess lofts kemur loft að ofan og þegar það sígur hitnar það um 1 stig á hverja hundrað metra sem það sígur. Að því kemur að hlýja loftið nær niður á tindastöðvar eins og t.d. Þverfjall á Vestfjörðum og Gagnheiði eystra. Þar verður því hlýrra en er í uppsveitum þar sem hitahvörf ríkja.
Á sumrin er norðanáttin ekki eins köld að tiltölu, og forskot stöðva í uppsveitum verður minna heldur en að vetrarlagi. Meðan loft er vel blandað og engin hitahvörf myndast eru tindastöðvarnar langkaldastar. Þær eru því gjarnan langköldustu stöðvarnar á þeim tíma árs og ekki viljum við bera saman hita í byggð og tindum. Stöðin á Brúarjökli er síðan sértilvik - fjöllum e.t.v. um það síðar.
Í viðhenginu eru fjórir langir listar yfir daga ársins, lágmarkshita þeirra og hvaða stöðvar um er að ræða. Fyrsti listinn nær til allra sjálfvirku stöðvanna og vegagerðarstöðvarnar eru strax á eftir.
Byggðalistinn kemur þar næstur og mönnuðu stöðvarnar reka lestina. Þetta eru alls yfir 1500 línur, um 30 blaðsíður væri hann prentaður. Athugið að suma daga er sama lágmark á fleiri en einni stöð. Þessir dagar eiga fleiri en eina linu.
Lítum nú á sjálfvirku stöðvarnar eingöngu (án vegagerðarstöðvanna). Fyrsti alveg frostlausi dagurinn í fyrravor var 4. maí. Þann dag var líka sett dægurmet hámarks á landinu (um það síðar?). Næst sýnist mér hafa verið frostlaust 10. júní og upp úr því fara að koma fleiri frostlausir dagar. Frostlaust var frá 22. júlí til 19. ágúst. Síðast var frostlaust 16. október.
Hæsti lágmarkshiti ársins var 3,9 stig, staður: Brúarjökull. Það var 4. september - það var líka dagur sem á nýtt dægurhámarksmet fyrir landið.
Í byggð komu fáeinir frostlausir dagar í fyrravetur. Í byggð var frostlaust að kalla frá miðjum júní og þar til síðast í ágúst. Sumir munu taka eftir því að tveir staðir sem varla var fyrirfram von á eru viðloðandi með lægsta hita í byggð. Þetta eru Miðfjarðarnes á Langanesströnd (við Bakkaflóa) og Ljósaland í Fáskrúðsfirði. Við nánari athugun kemur í ljós að viðkomandi daga er oftast lítill munur á þessum stöðvum og þeim næstlægstu. Mannaða stöðin í Miðfjarðarnesi styður við áreiðanleika mælinganna þar og svo er annar hitamælir í Ljósalandsstöðinni sem kvu samfylkja með aðalmælinum. Við trúum því þessum tölum þar til annað kemur í ljós, staðirnir kunna að vera mjög sérstakir. Séu þeir það er viðbúið að fjöldi ámóta staða sé víða á landinu.
Hæsti lágmarkshiti ársins á sjálfvirku byggðarstöðvunum var 7.6 stig. Það var 6. september. Staður: Siglufjörður.
Á mönnuðu stöðvunum var alveg frostlaust frá og með 30. júní til 23. ágúst. Hæsta lágmark mönnuðu stöðvanna var 8,9 stig 5. september. Staður: Grímsstaðir á Fjöllum. Óvenjulegir septemberdagar 4. til 6.
Mér þætti vænt um að frétta af villum ef lesendur koma auga á þær.
19.1.2011 | 00:24
Litið á daglegan hámarkshita á landinu 2010
Þessi pistill er varla nema fyrir æstustu veðuráhugamenn - en þeir verða að fá einhverja mola.
Í viðhenginu er listi yfir hámarkshita á landinu alla daga á árinu 2010. Þar höfum við mönnuðu stöðvarnar efstar á blaði. Þar sést vel hin almenna regla að hæsti hiti dagsins að vetrarlagi er yfirleitt við sjávarsíðuna á Suður- og Vesturlandi þegar kalt loft er yfir landinu. Komi hlýrra loft við sögu lenda hámörkin helst nærri fjöllum á Norður- og Austurlandi. Í listanum eru svokölluð tvöföld hámörk ekki síuð út. Einhverjar villur gætu enn leynst í skránni.
Í listanum má sjá að hiti hefur komist upp fyrir frostmark á mönnuðu stöðvunum alla daga ársins nema einn. Það var 22. desember, þá kólnaði líka mörgum, m.a. mér. Hámarkshitinn komst í 10 stig eða meira alla daga frá og með 27. apríl til og með 18. október. Mig grunar að þetta sé lengra tímabli heldur en í meðalári. Fimmtán stiga tímabil stóð frá 30. maí til og með 21. ágúst, þá kom einn spillidagur en síðan hélt fimmtán stiga tímabilið áfram til og með 12. september.
Sjálfvirku stöðvarnar eru neðar í listanum. Athugið að oft eiga fleiri en ein stöð hæsta hita sama dags. Á sjálfvirku stöðvunum byrjaði 10 stiga tímabilið þann 30. apríl og stóð til 18. október eins og á mönnuðu stöðvunum.
Fimmtán stiga tímabilið stóð frá 30. maí til og með 16. september. Á sjálfvirku stöðvunum kom langt og gott 20 stiga tímabil sem stóð samfellt frá 16. júlí til og með 2. ágúst, þá komu nokkrir dagar þar sem lægra hámarki skaut inn á milli. Síðan kom aftur 20. stiga tímabil frá 7. til 19. ágúst. Fyrra tímabilið er eitt það lengsta sem vitað er um hérlendis.
Lengsti tíminn án 10 stiga stóð frá og með 27. janúar til og með 4. mars. Fáein dægurmet voru sett á árinu, en Veðurstofan tíundar þau, auk hæsta hita ársins. Menn geta líka fundið hann í töflunni með einfaldri leit.
Hámarkshitinn sjálfvirkra stöðva náði ekki frostmarki dagana 21. og 22. desember, mannaða hámarkið þann 21. mældist að morgni og skaut sér þannig inn á 22.
Ef menn rekast á eitthvað grunsamlegt í töflunni má gjarnan láta mig vita í athugasemdum.
18.1.2011 | 00:46
Ísland og Finnland á 5. áratugnum - hitasamanburður
Eins og flestir lesendur bloggsins munu vita ríktu mikil hlýindi hér á landi frá 1925 til 1965 eða þar um bil. Hlýindi voru þá einnig um mestalla Evrópu norðan- og vestanverða. Inn í þetta gríðarlega hlýindaskeið skutust þrír ofurkaldir vetur í Evrópu. Kuldanna gætti ekki hér á landi. Við skulum nú líta á tvær myndir okkur til fróðleiks.
Fyrri myndin sýnir mánaðameðalhita í Stykkishólmi (blár ferill) og í Maríuhöfn á Álandseyjum (finnskur ritháttur á myndunum - rauður ferill) árin 1939 til 1948. Svo vill til að ársmeðalhiti á þessum tveimur stöðum er svipaður. Á þessu ákveðna tímabili var meðalhiti í Stykkishólmi 4,38 stig, en 4,86 á Álandseyjum. Þar með er ekki sagt að veðurfarið sé svipað. Spönn bláa ferilsins (árstíðasveifla hitans í Stykkishólmi) er miklu minni heldur en þess rauða (árstíðasveifla hitans á Álandseyjum).
Við sjáum að á Álandseyjum skera fjórir vetur sig úr í kulda. Það eru stríðsveturnir 1940, 1941 og 1942 og auk þeirra 1947. Í Stykkishólmi er það helst veturinn 1942 sem sker sig úr - en þá í hlýindum.
Ástandið á stöðunum tveimur sést enn betur á næstu mynd.
Myndin sýnir 12-mánaða keðjumeðaltöl hitans á stöðunum tveimur. Sem fyrr sýnir blár litur hitann í Stykkishólmi, en sá rauði hitann á Álandseyjum. Við sjáum að Álandseyjaferillinn sveiflast meira frá ári til árs en Stykkishólmsferillinn. Við sjáum líka þá tilhneigingu að þegar kalt er á Álandseyjum er hlýtt í Stykkishólmi og öfugt. Hitaferlarnir eru að nokkru leyti í öfugum fasa sem heitir. Tíu árin öll eru hins vegar inni í hlýindaskeiði á báðum stöðum.
Þetta mikla hlýindaskeið náði yfir stóran hluta norðurslóða, en gætti minna á suðlægari breiddarstigum. Þrátt fyrir hlýindin komu samt ofurköld ár í Evrópu inn á milli. Við sjáum á öfugfasanum að eitthvað fyrirbrigði annað en almenn hlýindi ræður mjög miklu um hitann. Þetta eru stóru bylgjurnar í vestanvindabeltinu - fyrirstöðuhæðir og fastsetin lægðardrög á milli þeirra. Takið líka eftir því að fasinn er ekki alltaf öfugur.
Við megum líka taka eftir því að köldu tímabilin á Íslandi eru ekki nærri því eins köld að tiltölu og þau finnsku. Hafið sér til þess. Nefna má í framhjáhlaupi að talsverður hafís var norðan við Ísland 1943 og 1944 og sumarið 1943 er eitthvert mesta skítasumar sem um getur norðaustanlands.
Finnar telja hálfgert úthafsloftslag ríkja á Álandseyjum - er það gott dæmi um afstæða sýn á veðurlag. Það er líka dæmi um afstæða sýn að hér á landi taldist 1943 heldur hraklegt - í samanburði við hlýindin á undan sem höfðu þá staðið linnulítið í 15-17 ár. Í raun var ársmeðalhitinn 1943 aðeins 0,2 stigum undir meðallaginu sem við nú notum (1961-1990) en samt það kaldasta frá 1924 í Stykkishólmi. Núverandi stórhlýindi hafa staðið í 13 ár. Hversu kalt mun okkur þá þykja fyrsta meðalárið þegar það kemur? Hversu mikið kveinum við?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2011 | 00:46
Síðari hluti ísaldar (söguslef 14)
Af hagkvæmisástæðum eru stundum sett skil milli fyrri og síðari hluta ísaldar við umpólun segulsviðs jarðar fyrir um 780 þúsund árum og nefnt var í síðasta slefi. Enn er það myndin góða úr grein Zachos og félaga (2000).
Sama mynd og í fyrra slefi nema hvað hér er einungis litið á síðustu milljón árin. Rauða strikalínan er við segulumskiptin áðurnefndu. Samsætugildin eru talin vitnisburður um það magn vatns sem bundið var í jökli á hverjum tíma. Athugið að kvarðinn er hér hafður öfugur (eins og áður). Því stærra sem samsætuvikið er - því stærri jöklar (mest neðst á ferlinum). Tölurnar sýna númer sjávarsamsætuskeiðanna (MIS) þar sem oddatölur eru hlýskeið og sléttar tölur jökulskeið. Um það var fjallað í fyrra bloggi - notið leitarreitinn á síðunni til að finna það.
Fyrri hluti ísaldar einkenndist af 40 þúsund ára sveiflum í ísmagni, en það er nærri sveiflutíma möndulhalla jarðar. Fyrir rúmum milljón árum fór það að breytast og sveiflur sem standa í 100 þúsund ár hafa orðið meira áberandi. Þessi háttur var að mestu kominn á fyrir um 700 þúsund árum. Þá gerðist það furðulega: Sveiflurnar stækkuðu, jöklar urðu minni á hlýskeiðum heldur en áður hafði verið en jafnframt meiri á kuldaskeiðum.
Hvað það er sem veldur þessari breyttu hegðan veit enginn með vissu. Hringvikssveifla jarðbrautarinnar er um 100 þúsund ár að lengd. Hún getur þó ein og sér trauðlega ráðið ísmagninu. Sveiflusinnar hafa nú í 35 ár leitað logandi ljósi að skýringum. Þeir sem hafa horft á sveiflurit vita að þegar tvær (eða fleiri) sveiflur með mismunandi sveiflutíðni eru í gangi kemur að því að þær ýmist magna eða deyfa hvor aðra og þá skiptast á tímabil með stórri spönn og önnur þar sem hún er minni.
Hugsanlegt er að sveiflurnar í mótunarþáttunum hegði sér þannig. Ekki hefur þó tekist að sýna fram á að svo sé. Þá grípa sveiflusinnar til næsta ráðs: Að leita að minni í kerfinu. Minnið getur bæði verið í sjó, á landi og í jöklum. Það er alla vega víst að jökulskildirnir miklu bráðna og myndast ekki á örskotsstund. Því má segja að minni þeirra sé alla vega ámóta langt og sveiflutími t.d. sólnándarreksins eða jarðmöndulhallans. Sömuleiðis eru sveiflur hugsanlegar í djúpsjávarhringrásinni - en þannig sveiflur eru einkum notaðar til að skýra styttri sveiflur og er það líklegra.
Margar mótunar- og minnisþáttasveiflur hafa séð dagsins ljós - þær eiga flestar sameiginlegt að falla ákaflega vel að gögnunum - þótt engin sé eins í grundvallaratriðum. Enda er það svo að um leið og farið er að herma gögn með sveiflum af margskonar tíðni sem valin er af hermiforriti er varla hjá því komist að finna samsvörun. Þessu fylgir mikil mæða. Í raun verða einhver eðlisfræðileg rök að styðja val á sveiflum. Jarðbrautarsveiflurnar hafa þann stóra kost að þær eru bæði raunverulegar og að áhrif þeirra á dreifingu sólgeislunar eru reiknanleg. Telja má fullvíst að þær koma við sögu í fornveðurfari. En aðrar sveiflur? Ekki veit ég.
Það er vel hægt að hugsa sér að verði stórjökulhvelin nægilega stór þurfi sameiginlegt átak fleiri sveifluþátta til að losna við þau aftur. En hvers vegna skyldu þá hlýskeiðin verða hlýrri? Jökull sem er horfinn hefur ekkert minni - er það?
Ein kenningin er sú að við endurteknar ísaldir 40-þúsund ára sveifluskeiðsins hafi smátt og smátt undirbúið þær síðari með því að búa til sífrera sem lifði af hlýskeiðin og smátt og smátt náði dýpra. Stórjöklar þessara fornu jökulskeiða hafi staðið á hlýrra landi og þess vegna bráðnað mikið að neðan. Endurtekningin hafi þó smám saman myndað þykkari og þykkari sífrera og undirlagið þess vegna borið miklu þykkari jökla síðari jökulskeiða.
Hér má minna á að samsætuvikin á myndinni sýna ísmagn en ekki hita. Jafnkalt hefði þá getað verið á þessum stuttu skeiðum og á þeim síðari og lengri. En sami hnífurinn stendur enn í kúnni, hvað með þessi hlýrri hlýskeið?
En áður en við yfirgefum myndina má taka eftir því að jökulmagn virðist aðeins fjórum sinnum hafa orðið jafnmikið eða meira og var við hámark síðasta jökulskeiðs. Talið er að ísmagnið hafi orðið mest á samsætuskeiði 12 (sjá grein Ehlers og Gibbard). Þá lá við að ís hafi þakið allar Bretlandseyjar og vantaði ekki nema tvö til þrjú hundruð kílómetra upp á að ná suður til Svartahafs. Aðeins 200 km voru á milli meginjökulsins og þess mikla jökulhvels sem þakti Alpalöndin. Menn telja að Grænlandsjökull hafi orðið einna mestur á samsætuskeiði 6 (næstsíðasta jökulskeiði).
Nokkur hlýskeið hafa komið þar sem ísmagn var jafnlítið og nú er. Heldur minni ís var á síðasta hlýskeiði (Eem, samsætuskeið 5e), en ekki miklu minna, munar 5-8 metrum á sjávarstöðu. Það þýðir að Grænlandsjökull hefur verið minni en nú. Talið er að samsætuskeið 11 hafi verið mest og lengst hlýskeiðanna og hafi sjávarstaða þá verið 20-29 metrum hærri en nú. Menn velta vöngum yfir því hvort allstór hluti vesturjökuls Suðurskautslandsins hafi horfið og hugsanlegt er einnig talið að jökull hafi hörfað talsvert inn til landsins á Suður-Grænlandi þannig að skógar gátu vaxið á þeim slóðum. Ítarlegri umfjöllun um Grænlandsjökul var í söguslefi 11 og í greininni sem það byggðist á (sjá þar).
Ég mun síðar slefa meira úr veðurfarssögunni eftir því sem þrek og tími leyfir, en miðilsins vegna er óhjákvæmilegt að nokkuð verði um endurtekningar.
Efnið er fengið úr:
Ehlers, J. and P.L. Gibbard (2007), The extent and chronology of Cenozoic Global Glaciation. Quarternary International, 164-165, s.6-20.
Zachos, J., M. Pagani, L. Sloan, E. Thomas, and K. Billups. 2001. Trends, Rhythms, and Aberrations in Global Climate 65 Ma to Present. Science, Vol. 292, No. 5517, pp. 686-693.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 02:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.1.2011 | 17:47
Lágþrýstimet janúarmánaðar
Bloggið hefur ekki enn minnst á lágþrýstimet janúarmánaðar og er það gert hér með. Metsins var reyndar getið í ágætum Þetta gerðist ... - dálki Morgunblaðsins á dögunum.
Metið var sett aðfaranótt 3. janúar 1933 á Stórhöfða í Vestmannaeyjum - milli athugunartíma að vísu. Þrýstingurinn fór ámóta neðarlega á fleiri stöðvum suðvestanlands. Þetta er ágætt dæmi um lægð sem ekki veldur tjóni þótt djúp sé. Ég veit ekki um tjón hérlendis samfara þessari lægð, en vel má vera að það hafi orðið eitthvað. - Veit einhver um það?
Lægðin kemur mjög vel fram í 20. aldarendurgreiningunni sem ég hef minnst á áður. Kortið hér að neðan er úr henni.
Kortið er af vefsíðu endurgreiningarinnar. Línurnar eru jafnhæðarlínur 1000 hPa-flatarins. Það hljómar flókið, en þetta eru í raun venjulegar þrýstilínur sem hér eru dregnar með 5 hPa bili (40 m). Innsta línan er 920 hPa og þrýstingur í lægðarmiðju um 915 hPa. Aðeins er vitað um örfáar ámóta djúpar lægðir á Norður-Atlantshafi. Líklega var lægð sem fór til austnorðausturs undan Suðausturlandi 10. janúar 1993 dýpri, en hún var talsvert krappari og öll mun minni um sig en þessi hér.
Lægðin sem á Íslandsmetið í lágþrýstingi, 2. desember 1929 var líka ámóta djúp, en endurgreiningin nær henni ekki alveg jafn vel. Sú lægð dýpkaði nær landinu en þessi og olli miklu tjóni viða um land. Álíka djúp lægð var á Grænlandshafi 14. desember 1986, sú olli nokkru tjóni hér á landi í austnorðaustan- og austanátt líkt og 1929.
Aðkoma lægðarinnar á myndinni er algeng, þótt dýptin sé það ekki, og reynslan er sú að oftast er verra veðri spáð heldur en raun verður á. Nauðsynlegt er þó að hafa vara á sér í svona stöðu.
Háþrýstimet janúar er jafnframt ársmet fyrir Ísland. Ég hef gert nokkuð ítarlega grein fyrir því í pistli á vef Veðurstofunnar fyrir nokkrum árum.
16.1.2011 | 01:30
Hæsti hiti á veðurstöðvum í janúar
Í viðhengi er tafla sem sýnir hæsta hámarkshita sem mælst hefur á öllum veðurstöðvum í janúar frá og með 1924 til 2010. Hún er fjórskipt eins og fyrri ámóta mánaðatöflur sem birst hafa hér á blogginu. Þeir sem nenna að lesa hana verða að athuga að í sumum tilvikum hafa mælingar ekki staðið nema í einn janúarmánuð. Það er oftast janúar 2010, þá á stöðvum sem hófu mælingar á árinu 2009. Fáein önnur ámóta tilvik eru í töflunni.
Hæstu gildin á sjálfvirku stöðvunum eru:
2000 15 19,6° Dalatangi sjálfvirk stöð
2000 15 18,4° Eskifjörður
2005 30 18,0° Teigarhorn sjálfvirk stöð
2010 25 17,6° Skjaldþingsstaðir sjálfvirk stöð
Eins og venjulega þegar um vetrarmet er að ræða eru þetta stöðvar nærri bröttum fjöllum á Austurlandi, Öræfajökull getur einnig gefið ámóta árangur í vestlægum áttum á stöðvum austan við hann. Suðlægar áttir eru hlýjastar og einmitt við þá staðhætti sem ríkja á þessum stöðvum eru mestar líkur til að ná lofti úr fjallahæð niður í stöðvarhæð. Þetta er loft sem hafið fyrir sunnan land hefur ekki náð að kæla. Allt loft sem að Suðurlandi kemur úr suðri hefur verið í nánum samskiptum við yfirborð sjávar.
Nú stendur svo illa á að sjálfvirku stöðvarnar á Dalatanga og á Skjaldþingsstöðum eru bilaðar, lítil von er því um háar tölur frá þeim í þessum mánuði jafnvel þótt hlýir dagar stingi niður fæti.
Í hæstu tölunum frá vegagerðarstöðvunum er ein undantekning frá reglunni hér að ofan. Næsthæsta talan er nefnilega frá Steinum undir Eyjafjöllum. Sennilega í hvassri vestnorðvestanátt. Ég hallast að því að trúa þessu vegna þess að þetta er sama skiptið og metið frá Kvískerjum. Mælirinn á Steinum hefur stundum hrokkið upp um nokkur stig - síðast núna fyrir nokkrum dögum. En ég leyfi tölunni að hanga með þar til staðan hefur verið athuguð. Hæstu tölurnar á vegagerðarstöðvunum eru því:
2007 25 17,0 Kvísker Vegagerðarstöð
2007 24 16,2 Steinar
2010 25 15,3 Siglufjarðarvegur
2010 25 15,0 Hámundarstaðaháls
Hér má nefna að lítið hefur hingað til verið af láglendisstöðvum eystra hjá Vegagerðinni en nýlega hafa bæði Streiti á Berufjarðarströnd og hringvegur í Hamarsfirði bæst við. Met eru alveg hugsanleg í vestanáttinni á þeim stöðvum, rétt eins á Teigarhorni. Hæsti hiti á Hvalsnesi er nokkuð hár og ekki útilokað að eitthvað gerist þar. Mér finnast hinir staðirnir samt líklegri til stórræða.
Fyrri hluti töflunnar með mönnuðu stöðvunum nær frá 1961 til 2010:
2010 1992 14 18,8 Dalatangi
2010 1992 14 17,5 Akureyri
2002 1992 26 17,5 Seyðisfjörður
2010 2010 25 16,9 Skjaldþingsstaðir
Hér eru bæði Dalatangi og Skjaldþingsstaðir. Mönnuðu stöðvarnar eru í ágætu lagi þessa dagana og methiti á þessum stöðvum fer því varla fram hjá okkur þótt þær sjálfvirku svíki. Janúar 1992 kom við sögu hér á blogginu fyrir nokkrum dögum.
Síðasti hluti töflunnar nær yfir mannaðar stöðvar á árunum 1924 til 1960:
1949 9 17,0 Dalatangi
1940 10 15,2 Fagridalur
1935 21 14,0 Akureyri
1935 21 14,0 Húsavík
Tvö metanna eru úr sömu hitabylgjunni 1935, mjög hlýtt varð þá víðar um land. Þá voru engar stöðvar á Dalatanga eða Skjaldþingsstöðum. Athugað var í Fagradal í Vopnafirði en sá staður er út með firðinum að sunnanverðu og nýtur fjallanna miklu milli Vopnafjarðar og Héraðs - rétt eins og Skjaldþingsstaðir.
Í eldri gögnum er litið um háar janúartölur, þó má nefna 14,7 stig á Seyðisfirði þann 5. 1910.
Með rýni í töflurnar má finna slæðing af athyglisverðum tölum, t.d. 14,0 stig á Arnarstapa á Snæfellsnesi 5. janúar 1964. Mætti athuga það nánar. Hiti komst í 14,1 stig í Oddsskarði í sömu syrpu og þegar 17 stigin mældust á Kvískerjum og 16 stigin á Steinum 2007.
En ég veit að nördin sleppa ekki freistingu viðhengisins.
15.1.2011 | 18:02
Loft eða haf? Hænan eða eggið?
Það skal tekið fram að ég segi stundum sjálfur að El nino eða La nina hafi hin eða þessi áhrif á veðurlag - ég hlýt að mega það. En strangt tekið ætti maður að tala um að nú ríki La nino eða la nina ástand við Kyrrahafið (eða eftir atvikum á stærri svæðum). Fyrra orðalagið gefur til kynna að orsaka óvenjulegs ástands í lofthjúpnum sé að leita í óvenjulegu hitafari í austanverðu Kyrrahafi. En það er hins vegar óvenjulegt ástand í lofthjúpnum sem ræður sveiflum i yfirborðshita sjávar - eða hvað?
Lítum á fræga skýringarmynd. Þar má sjá að hitavik (t.d. el ninoástand) breytir hringrás lofthjúpsins. En á myndinni stendur líka að afbrigðilegt vindafar breyti straum- og yfirborðsástandi sjávar (og þar með hita). Hvort er frumorsökin - eða er einhver frumorsök?
Fyrir nokkrum árum skrifaði ég pistil um el nino á Vísindavef Háskólans. Þar geta áhugasamir fræðst um fyrirbrigðið. Hátt í 4 ár munu vera liðinn síðan pistillinn var skrifaður og ýmislegt fróðlegt hefur komið í ljós síðan. Ef til vill má skrifa meira um málið hér á blogginu - við sjáum til með það.
15.1.2011 | 02:53
Smávegis um skafrenning
Snjór sem þyrlast upp í vindi nefnist skafrenningur, nái hann ekki sjónhæð fullorðins manns nefnist hann lágarenningur en fari hann hærra kallast hann háarenningur. Lausamjöll fýkur mun auðveldar en hjarn eða skari, hana fer að hreyfa ef vindur nær 5 til 6 m/s, en venjulega er skafrenningur lítill sé vindur ekki meiri en 10 til 12 m/s. Venjulega rennur allt í kóf sé lausamjöll á jörðu og vindur 15 m/s eða meiri. Fari vindur í 25 m/s eða meir fer hann að rífa upp hjarn og jafnvel skara og í fárviðri (>32 m/s) rifnar þunnur skari auðveldlega og rífur þá líka upp sinu og lausamöl. Annars er virkni skafrennings háð hita auk vindhraða og aldri og sögu snævarins hverju sinni.
Skafrenningur er mun meiri meðan á snjókomu stendur en eftir að hún hættir, nýfallin snjókornin hafa þá ekki fengið tíma til að tengjast öðrum kornum nema mjög lauslega, auk þess sem rakastig er hærra í snjókomu en í þurru veðri og þar með gufar mun minna upp af snjókornum í lofti meðan á úrkomu stendur en annars. Þeir sem þekkja mikinn skafrenning (kóf) vita að skyggni í honum getur farið niður í ekki neitt.
Myndin sýnir að greint er á milli þriggja flutningshátta snævar, þeir eru: (i) Skrið eða velta, (ii) stökk eða skopp og (iii) svif. Í skriði velta snjókornin áfram við yfirborð, en í stökki lyftast þau og skoppa í allt að 10 cm hæð frá yfirborði. Aflkvika gerir svif mögulegt. Snjókornin sem upphaflega voru óreglulegt samsafn kristalla af ýmsum gerðum brotna og verða meira sporvölulaga þegar þau rekast af afli á yfirborð jarðar (oftast snjó). Gaman er að horfa á þessa þrjá hætti taka við þegar vindur er vaxandi.
Heimildir greinir á um snjóburðargetu skafrennings en ljóst er að hún er mjög háð vindhraða. Stundum er tilfært að tvöföldun í vindhraða þýði áttföldun í snjóburði. Reynsla af snjóflóðum sýnir svo sannarlega að snjór getur safnast saman í miklu magni á skömmum tíma sé vindhraði mikill.
Ef vindur er mikill getur snjórinn barist í harðar, manngengar fannir eða beðjur sem verða stundum býsna fjölbreytilegar að útliti og styrk. Hætti snjókoma, herði vind eða skipti um vindátt getur sterkur vindurinn rifið niður eldri skafla og verður þá til rifsnjór. Rifsnjór verður erfiður yfirferðar fyrir skíðamenn. Útivera í skafrenningi getur verið hættuleg, sérstaklega þeim sem ekki hafa gott þrek. Mér er þó sagt að venjast megi athöfnum í skafrenningi sé fatnaður og þrek miðuð við aðstæður.
Skafrenningur hefur árstíðasveiflu eins og önnur veðurfyrirbrigði. Tíðni hans er svipuð frá því um miðjan desember og fram undir mánaðamót mars/apríl. Þá fellur tíðnin mjög ört og vex síðan hægt og bítandi frá því seint í september og fram í byrjun desember.
Eins og að ofan sagði er skafrenningur mestur í snjókomu og hvassviðri. Um háveturinn þegar sólar gætir lítt eða ekki skefur líka allmikið í þurrviðri þótt ekki snjói. Þegar sól hækkar á lofti í mars heldur skafrenningur í snjókomu sínum hlut, en skafrenningur í þurrviðri minnkar vegna þess að efsti hluti snjóhulunnar er fastari í sér en að vetrarlagi auk þess sem snjór bráðnar mjög í sól þegar komið er fram á þennan tíma.
Skafrenningur liggur oft í strengjum ýmist þar sem núningur vindsins við yfirborð er minna heldur en í kring, t.d. í sléttlendum flóðum þar sem langt er á milli holta. Landslag mótar einnig skafrenning sem þá fylgir vindstrengjum við fjöll. Það er vel þess virði að sitja og horfa á strengi af þessu tagi. Þá fær maður alls konar hugmyndir um það hvernig línurnar (tjöldin) sem sjá má í skafrenningnum haldast saman þrátt fyrir alls konar beygjur og sveigjur. Mínar hugmyndir verða að teljast ágiskun.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.1.): 972
- Sl. sólarhring: 1107
- Sl. viku: 3362
- Frá upphafi: 2426394
Annað
- Innlit í dag: 867
- Innlit sl. viku: 3023
- Gestir í dag: 847
- IP-tölur í dag: 781
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010