Riðabylgja - förulægð (úr veðurfræðinni)

Hér kemur nokkuð langur pistill, eiginlega meira en moli, vonandi stendur hann ekki í lesendum. Þeir geta þá bara hætt í tíma eða hóstað bitanum upp.

Varla þarf að segja nokkrum manni sem fylgist reglulega með veðurfréttum að Ísland er í braut lægða. Þær koma reyndar úr ýmsum áttum ef vel er að gáð en langalgengast er að þær beri að landinu úr suðvestri. Oft er þá erfitt að meta hvoru megin lands þær muni fara eða hvort þær fari jafnvel beint yfir landið.

Ég kýs að kalla algengustu tegund lægða ýmist riðabylgjur eða förulægðir. Þetta eru þær lægðir sem algengast er að vitna til í veðurfræðitextum fyrir byrjendur og er einnig sú tegund sem lýst var sem best af Björgvinjarmönnum um og upp úr 1920. Lítum fyrst á mynd sem er e.t.v. í flóknara lagi. Best er að lesa textann hér á eftir með því að gjóa augum á myndina öðru hverju.

riðalægð

Á myndinni eru jafnþýstilínur svartar og heildregnar. Jafnhæðarlínur sem sýna þrýstifar í háloftum eru bláar, strikaðar. Einnig má sjá hitaskil (rauð, heildregin lína) og kuldaskil, ljósblá, heildregin lina.

Þegar lægð nálgast Ísland úr suðvestri er alvanalegt að vindur snúist til hvassrar suðaustanáttar með rigningu eða slyddu. Úrkomukerfið berst hins vegar áfram með suðvestanvindum í háloftum. Séu vindörvar við jörð teiknaðar á sama kort og vindörvar háloftanna liggja þær ekki samsíða heldur mynda kross eða X eftir því hversu miklu munar á áttunum. Þetta er sýnt á myndinni inni í litlum gulleitum kassa til hægri á myndinni sem er dreginn lítillega stækkaður út úr aðalmyndinni. Þar má sjá svarta þrýstilínu sem sýnir í stórum dráttum vind nærri yfirborði og blástrikaða jafnhæðarlínu úr háloftunum. Línurnar liggja um það bil þvert á hvor aðra og mynda X. Annan kassa með X-i má sjá dreginn út úr kortinu á eftir kuldaskilunum.  

Séu þrýsti- og hæðarlínur af þessu tagi teiknaðar þétt sýnist verða til net með möskvum. Vindurinn við jörð myndar aðra þráðarstefnuna, en vindurinn í efri lögum hina. Þá er sagt að loft sé riðið (eins og net). Nái suðaustanáttin að rífa af sér ský við fjöll má oft sjá stefnubreytingu vindsins mjög greinilega með því að bera saman far lægri skýja og þeirra hærri.

Þegar kuldaskilin eru komin yfir verður oft ámóta misgengi í vindstefnu en þá þannig að þegar norðvestanátt er komin við jörð er áfram suðvestan- eða vestanátt í háloftum. Riðinn er þar með einnig til staðar í kalda loftinu. Það má heita regla að því riðnara sem loft er (því þéttari og smærri sem möskvarnir eru) því meiri möguleikar eru á þeirri lægðamyndun sem Björgvinjarsagan lýsir.

Sjáist til háskýja úr hlýja geiranum milli hita- og kuldaskilanna kemur í ljós að far þeirra er í stórum dráttum það sama og skýja sem neðar eru. Vindstefna í hlýjum geira riðabylgju er nærri því að vera hreyfistefna hennar og hraðinn er oftast ekki fjarri þeim vindhraða sem ríkir ofan við þá hæð sem núnings við jörð gætir.

Út frá vindáttarbreytingum með hæð má ráða í hvort á þeirri stundu sé aðstreymi af hlýju eða köldu lofti að eiga sér stað. Á undan skilum lægðarinnar er suðaustanátt við jörð - en hún snýst um suður til suðvesturs með hæð. Hitaskilin nálgast og aðstreymið er hlýtt. Það er regla að snúist vindur með hæð til hækkandi tölu á áttavita er aðstreymið hlýtt. Sé veður gott þegar svona hagar til má reikna með að það fari versnandi.

Á eftir kuldaskilunum snýst vindur úr vestri til suðvesturs með hæð, til lækkandi tölu á áttavita og þá er aðstreymið kalt. Sé veður vont þegar svona hagar til má reikna með að það fari batnandi. Vindáttarbreytingar með hæð sjást sérlega vel á háloftaritum og geta menn æft sig með því að fylgjast með þeim á vef Veðurstofunnar.

Það kemur þráfaldlega fram í gömlum veðurlýsingum að menn hafa mjög vel tekið eftir því að þegar misjafn gangur er á hærri skýjum og vindátt við jörð er einhverra tíðinda að vænta í veðri. Vísast er þá að fara varlega í ferðalög og hraða vinnu utan dyra sé veður enn gott. Riðalægðum fylgir ætíð mikið misgengi vindátta, það er megineinkenni þeirra.

Erfiðast er að ráða í loftið sem er nyrst og austast í hlýja aðstreyminu og ekki gott að segja hvort lægðin kemur til með að enda sunnan eða norðan við okkur. Þá sést oft mikill uppgangur úr suðvestri meðan vindur við jörð blæs úr andstæðri átt. Þetta þótti sérlega varasamt veðurlag um sunnan- og vestanvert landið og var kallað því einkennilega nafni hornriði. Sveinn Pálson læknir og náttúrufræðingur skilgreindi hornriða svo: Það er, að skýin dregur upp frá vestri, og þó blæs á austan eða norðaustan.

Næsta riðalægð sem fer hjá á að fara sunnan við land, e.t.v. sjáum við háloftavestanáttina í norðausturjaðri hennar áður en hún étur upp allan riðann?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 101
  • Sl. sólarhring: 108
  • Sl. viku: 1850
  • Frá upphafi: 2348728

Annað

  • Innlit í dag: 91
  • Innlit sl. viku: 1621
  • Gestir í dag: 85
  • IP-tölur í dag: 85

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband