Háloftabylgjur 1 (af ?)

Enn eru það háloftin. Við lítum nú á gamalt veðurkort. Það var valið af tilviljun og sýnir stöðuna á norðurhveli fyrir 10 árum (23. 1. 2001). Kortið er úr smiðju ncep-gagnasafnsins ameríska.

w-bylgjuriss-2t

Hér má sjá norðurhvel norðan við 30°N og hæð 500 hPa-flatarins. Myndin er einfölduð að því leyti að jafnhæðarlínur hafa verið grisjaðar þannig að aðeins 5 standa eftir. Bláu svæðin sýna hvar flöturinn er lægri en 5000 metrar, þau grænu eru þar sem hæðin er á milli 5000 metra og 5400 metra. Gulu og appelsínuguli liturinn sýnir þau svæði þar sem hæðin er meiri en þetta.

Við sjáum hér greinilega bylgjurnar í vestanvindabeltinu. Heimskautaröstin liggur eins og oft á þessum árstíma nærri 5400 metra hæðinni. Skotvindar hennar eru væntanlega þar sem línurnar eru þéttastar, t.d. beint vestur af meginlandi Evrópu og einnig víðar, t.d. yfir Kyrrahafi.

Við sjáum í fljótu bragði ekki neinar fyrirstöðuhæðir þennan dag. Hringrásin er nokkuð breiddarbundin sem kallað er - vindar blása mest úr vestri til austurs. Vestanvindabeltið er í góðum gír.

Bláu svæðin eru stórir kuldapollar, stærri en þeir sem ég fjallaði um á blogginu fyrir nokkru (Snarpur 1. og félagar).

Ef við fylgjum mörkum græna og gula svæðisins sjáum við hvernig gular öldur stinga sér upp til norðurs (hæðarhryggir) og grænir öldudalir (lægðadrög) skilja þá að. Mjög áberandi hryggir eru nærri Finnlandi og yfir Klettafjöllum í Ameríku.

Mynstur sem þetta breytist frá degi til dags, stærri bylgjurnar halda sér þó yfirleitt nokkra daga eða jafnvel enn lengur. Hægt er að telja hversu margar bylgjur eru í hringnum. Það er þó aðeins mismunandi eftir því hvaða breiddarstig við veljum til að telja á. Lengd hverrar bylgju er oft ekki talið í kílómetrum heldur er notast við hugtakið bylgjutala. Bylgjutalan segir til um hversu margar bylgjur af ákveðinni stærð komast fyrir á hringnum.

Við sjáum að hér má telja að minnsta kosti 7 bylgjur við 5400 metra línuna. Bylgjutalan þar er því sjö, sjö hlykkir á heimskautaröstinni. Ef við teiknuðum myndina í meiri smáatriðum myndum við finna fleiri smærri bylgjur sem hver um sig fylgir lægð. Stærri bylgjurnar á myndinni innihalda trúlega fleiri en eitt lægðakerfi, hverju þeirra fylgir ein smábylgja. Bylgjutala venjulegra lægða er oft 13 til 15.

Þetta kort sýnir stöðuna á ákveðinni stundu. Ef við reiknum meðaltöl smyrjast bylgjurnar út og þeim fækkar. Árstíða- og ársmeðaltalskort sýna fáar, stórar bylgjur og fæstar eru þær á kortum sem sýna langtímameðaltöl. Meðaltalsbylgjurnar eru mjög langar, niðri á bylgjutölum 0 - 4.

AO-sveiflan (arctic oscillation) sem oft er getið um í illa útskýrðum fréttum um þessar mundir (reynið að fletta henni upp á google) er sveifla í bylgjutölum núll og eitt. NAO-sveiflan (north atlantic oscillation) sem við einnig heyrum mikið af er sveifla í bylgjutölum 2 og 3. En hvernig er bylgja með bylgjutölu núll? Sumar langar bylgjur eru fastar, þær myndast aftur og aftur á sömu slóðum. Hvers vegna hegða þær sér þannig? Getur verið að veðurfar á Íslandi ráðist að miklu leyti af heilsu föstu bylgjanna?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 50
  • Sl. sólarhring: 103
  • Sl. viku: 1541
  • Frá upphafi: 2348786

Annað

  • Innlit í dag: 46
  • Innlit sl. viku: 1344
  • Gestir í dag: 43
  • IP-tölur í dag: 42

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband